Categories
Fréttir Greinar

Reykja­vík – barnvæn höfuð­borg?

Deila grein

02/09/2025

Reykja­vík – barnvæn höfuð­borg?

Stundum er sagt að gæði samfélaga séu metin eftir því hvernig þau hlúa að velferð barna. Við í Framsókn erum sammála því og viljum því leggja til að Reykjavík ráðist í metnaðarfullt verkefni til að bæta líf barna í Reykjavík.

Á fundi borgarstjórnar í dag leggjum við til að Reykjavíkurborg hefji vinnu við að verða barnvænt sveitarfélag samkvæmt alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative. Með þeirri ákvörðun skuldbindur borgin sig til að setja börn og hagsmuni þeirra í forgang í allri stefnumótun, ákvarðanatöku og daglegum rekstri.

Takk Reykjavíkurráð ungmenna!

Við í Framsókn erum innilega þakklát Reykjavíkurráði ungmenna sem lýst hefur opinberlega yfir stuðningi við tillögu okkar í borgarstjórn. Við hvetjum borgarfulltrúa til að lesa ályktun ráðsins áður en þeir greiða atkvæði um tillöguna. Reykjavík hefur þegar tekið mikilvæg skref með réttindaskólum og frístund UNICEF þar sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er innleiddur í leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Með barnvænu sveitarfélagi er stigið næsta skref: að tryggja að Barnasáttmálinn verði raunverulegur rauður þráður í allri starfsemi og stjórnsýslu borgarinnar.

Ný hugsun

Ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi borgarinnar hafa víðtæk áhrif á börn. Hvort sem um ræðir skipulag hverfa, samgöngur, menntun eða félagsþjónustu. Því er mikilvægt að „barnaréttindagleraugun“ séu ávallt uppi og aðkoma barna á ákvörðunartöku sé aukin. Verkefnið barnvænt sveitarfélag felur í sér markvissari innleiðingu á Barnasáttmálanum og er grundvallarbreyting á því hvernig við högum stefnumótun borgarinnar og forgangsröðun.

Barnvæn höfuðborg

Aðeins ein höfuðborg á Norðurlöndunum er barnvæn samkvæmt skilgreiningu verkefnis UNICEF og sómi væri af því ef Reykjavík yrði önnur höfuðborgin sem færi þessa leið. Þótt ríkisvaldið beri formlega ábyrgð á því að Ísland uppfylli Barnasáttmálann er ljóst að hann verður aldrei innleiddur án aðkomu sveitarfélaganna. Sem höfuðborg og stærsta sveitarfélag landsins ber Reykjavík ríka ábyrgð á að tryggja réttindi og farsæld barna á Íslandi og ganga á undan með góðu fordæmi.

Pólitísk afstaða

Ákvörðun um að taka þátt í verkefninu Barnvænt sveitarfélag er pólitísk afstaða um að réttindi barna skipti máli. Við í Framsókn vonum að borgarstjórn geti sameinast um að setja börnin í borginni forgang.

Við vitum að þegar börnum líður vel, þá líður samfélaginu vel. Reykjavíkurborg á að hafa metnað til þess að vera leiðandi á meðal borga á heimsvísu þegar kemur að innleiðingu á Barnasáttmálanum og þar með réttindum barna.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar og Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar sem situr í velferðarráði og mannréttindaráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Deila grein

21/08/2025

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Stundum gleymast kosningaloforð. Fyrir tæpum þremur árum lofaði Samfylkingin því að börn frá 12 mánaða aldri kæmust inn í leikskóla. Nú þegar líður að lokum kjörtímabilsins er ekkert sem bendir til þess að það loforð verði efnt.

Þegar ég benti á loforð Samfylkingarinnar um leikskólapláss fyrir 12 mánaða börn kannaðist borgarstjóri ekki einu sinni við það og spurði: „hvar hefur Samfylkingin lofað því?” Það eitt og sér segir margt um forgangsröðun Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Raunveruleikinn er sá að leikskólapláss í hverfisleikskólum við 12 mánaða og jafnvel 18 mánaða aldur er fjarlæg draumsýn. Því þótt sum börn fái úthlutað pláss við 18 mánaða aldur er það oft í allt öðru hverfi en heimilið þeirra er staðsett í og ef það á eldra systkini er heldur ekki víst að barnið fái pláss í sama leikskóla og eldra systkini þeirra er í. Þetta veldur tilheyrandi álagi á fjölskyldur sem þurfa að samræma vinnu, skóla og daglegt líf við langar ferðir á milli hverfa til að fara með börn í leikskóla. Til að gæta sanngirnis þá tek ég fram að ég átta mig á því að ekki er hægt að draga töfralausn á dagvistunar vandanum úr ímynduðum hatti. Það mun taka tíma að leysa vandann. Ekki er nóg að byggja leikskóla heldur þarf að manna þá og það vantar fleira starfsfólk inn í leikskólakerfið. Samfylkingin virðist þó vera blind á þann raunveruleika og reyndi að draga upp töfralausn á leikskóla vandanum úr ímynduðum hatti fyrir síðustu kosningar.

Þessi sami flokkur sem lofaði foreldrum 12 mánaða barna leikskólapláss virðist einnig blindur á stöðu foreldra sem eru að bíða eftir dagvistun fyrir börn sín og hafnar jafnframt því að veita foreldrum greiðslur heim á meðan þeir bíða eftir plássi. Fjárhagsleg aðstoð við foreldra til að létta undir á meðan þeir bíða eftir dagvistun er til staðar fyrir foreldra í Hafnarfirði, Kópavogi og Hveragerði ásamt fjölda annara sveitarfélaga en meirihlutinn í Reykjavíkurborg vill ekki sjá að foreldrum í Reykjavík sé mætt með sambærilegum hætti. Afleiðingin er sú að foreldrar sem lokið hafa fæðingarorlofinu eru án dagvistunar og sitja eftir með fjárhagsáhyggjur vegna þess að þau geta ekki farið aftur á vinnumarkaðinn. Samfylkingin sem heldur á forsætisráðherrastólnum virðist þá ekki hafa nein áform um að lengja fæðingarorlofið á vettvangi löggjafans til að mæta barnafólki.

Hér er ekki bara um gleymd (og þar með brotin) loforð að ræða heldur snýst þetta um forgangsröðun og ábyrgð meirihlutans gagnvart barnafólki sem á að geta treysti því að stjórnvöld standi við stóru orðin og mæti þeirri stöðu sem uppi er þegar draumastaðan um leikskólapláss við 12 mánaða aldur næst ekki t.a.m. með heimgreiðslum.

Hvaða ,,plan” ætli verði dregið upp úr ímyndaða hattinum næst?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Lýðskrum Skattfylkingarinnar

Deila grein

10/07/2025

Lýðskrum Skattfylkingarinnar

,,Þú þarft ekki að hagræða í þínu heimilisbókhaldi ef ég býð þér 5000 kr. og þú afþakkar aurinn. Tekjurnar þínar eru enn þær sömu. Þær hafa hvorki hækkað né lækkað. Hið gagnstæða virðist Samfylkingin þó halda.

Skattahækkun, skattalækkun eða sömu gjöld?

Fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Reykjavík hefur hækkað töluvert undanfarin ár og samkvæmt nýju fasteignamati sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti í maí mun fasteignamat hækka að meðaltali um 10% á næsta ári. Fasteignaskattur er beintengdur við fasteignamat og þar af leiðandi hækka fasteignaskattar samhliða hækkun fasteignamats nema að sveitarfélögin lækki álagningarhlutfallið á móti. Það er hins vegar ekki sjálfsagt að fasteignaskattar hækki ár eftir ár á sjálfsstýringu án þess að fólk fái eitthvað í staðinn.

Við í Framsókn höfum bent á að þessi „sjálfvirka skattheimta“ vegna hækkaðs fasteignamats er ekki alltaf réttmæt. Hún leggur auknar álögur á fólk sem hvorki hefur fengið hærri laun né aukna greiðslugetu. Það er þungt fyrir heimilin í borginni og kemur ofan á háa vexti og þráláta verðbólgu. Skattar eiga ekki að hækka ótakmarkað vegna langvarandi húsnæðisskorts sem er afleiðing af þeirri húsnæðisstefnu sem Samfylkingin aðhyllist.

Það er óumdeilt að Framsókn telur rétt að fólk borgi til samfélagsins og taki þátt í samneyslunni en það er ótrúlegt að fylgjast með málflutningi meirihluta borgarstjórnar sem virðist halda að eigendur heimila í borginni séu breiðu bökin sem þola endalausa hækkun fasteignagjalda. Eigendur íbúða í Reykjavík eru ekki einhver auðmannastétt sem getur borið ótakmarkaðar álögur. Þetta er líka ungt fólk, eldra fólk, barnafjölskyldur og tekjulágir einstaklingar. Og í lang flestum tilvikum er það bankinn sem á stærstan hluta eignarinnar ekki eigandinn sjálfur. Hlutfall ráðstöfunartekna sem fer í húsnæðiskostnað er þá meðal þess hæsta sem þekkist í Evrópu. Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkurborgar virðist þó telja að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að sækja ótakmarkað fé í vasa þeirra.

Ranghugmyndir og ótti við gagnrýni

Nýlega lögðum við í Framsókn til að fasteignagjöld myndu ekki hækka á milli ára þrátt fyrir hækkun á fasteignamati. Þannig væru tekjur borgarinnar þær sömu og borgarbúar myndu greiða það sama í fasteignagjöld árið 2025 og 2026. Það þýðir ekkert tap fyrir borgina.

Samfylkingin taldi þetta hins vegar vera skattalækkun og spurði hvernig við ætluðum að hagræða fyrir þessari lækkun. Þau skilja það ekki að það þarf ekki að hagræða fyrir áætluðum umfram tekjum.

Varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar spyr eftirfarandi spurningar í grein á vísi: ,,Hvers vegna er þeim svo umhugað um að rýra einn helsta tekjustofn sveitarfélagsins um tæpa tvo milljarða á ári.” Framsetning borgarstjóra á málinu ber þá vott um lýðskrum þar sem hún sakar okkur um að leggja fram tillöguna á kostnað velferðarþjónustu.

Staðreyndin er þó sú, eins og ítrekað hefur verið reynt að útskýra fyrir meirihlutanum, að samkvæmt tillögu Framsóknar er ekki verið að lækka tekjur borgarinnar. Þær standa í stað. Reyndar er það svo að þessi tekjustofn hefur hækkað verulega síðustu ár og það er hið gagnstæða við rýrnun. Tillagan er því ekki heldur lögð fram á kostnað velferðarþjónustu, nema síður sé. Við í Framsókn munum hér eftir sem hingað til standa þétt á bakvið grunnþjónstu borgarinnar. Um það þarf ekki að efast. Það má þó efast um forgangsröðun meirihlutans sem telur nýja selalaug í Húsdýragarðinum vera mesta forgangsmál Reykjavíkurborgar.

Meirihlutinn er á svo miklum villigötum að hann virðist ekki einu sinni þola málefnalega umræðu. Þegar bent hefur verið á rangfærslur hafa þær ekki verið leiðréttar og athugasemdum verið eytt út af samfélagsmiðlum nánustu stuðningsmanna borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar. Auðvitað er öllum frjálst að ritskoða eigin samfélagsmiðla en þetta ber fyrst og fremst vott um hvað Samfylkingin óttast málefnalega gagnrýni. Dæmi hver fyrir sig.

Það sem allir ættu í það minnsta að geta sammælst um er að ekki er hægt að líta á skattgreiðendur sem endalausa fjáröflunarvél fyrir gæluverkefni meirihlutans. Skattbyrði þarf að byggjast á réttlæti, skynsemi og ábyrgð en það virðist ekki vera leiðarljós núverandi meirihluta.”

Höfundur er Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. júlí 2025

Categories
Fréttir Greinar

Framtíð Heiðmerkur

Deila grein

04/06/2025

Framtíð Heiðmerkur

Á næsta fundi borg­ar­stjórn­ar mun­um við í Fram­sókn leggja fram til­lögu um að stofnaður verði stýri­hóp­ur skipaður full­trú­um allra flokka í borg­ar­stjórn til þess að móta framtíðar­sýn Reykja­vík­ur­borg­ar um Heiðmörk. Verk­efnið er að tryggja að hags­mun­ir al­menn­ings séu tryggðir í þeirri vinnu sem stend­ur yfir vegna krafna um aukna vernd vatns­bóla sem Veit­ur starf­rækja.

Aðgengi að græn­um svæðum er meðal mik­il­væg­ustu gæða nú­tíma borg­ar­sam­fé­laga. Vin­sæld­ir Heiðmerk­ur hafa auk­ist mikið á síðustu árum. Því er mik­il­vægt að huga að betri stýr­ingu gesta Heiðmerk­ur til þess að tryggja vatns­vernd en um leið þarf að tryggja lýðheilsu­sjón­ar­mið og aðgengi að úti­vist­ar­svæðum Heiðmerk­ur.

Nú eru uppi hug­mynd­ir um að loka fyr­ir aðgengi ak­andi um­ferðar að stór­um hluta Heiðmerk­ur vegna vatns­vernd­ar. Þó að mik­il­vægi hreins neyslu­vatns sé óum­deilt hafa til­lög­ur Veitna sætt gagn­rýni frá fjöl­mörg­um hagaðilum – sér­stak­lega vegna þess að þær fela í sér lok­un aðgeng­is að vin­sæl­um svæðum. Þetta hefði í för með sér að gest­ir þyrftu að ganga 3-4 kíló­metra til að kom­ast að vin­sæl­um stöðum í Heiðmörk, á borð við Furu­lund og Vígslu­flöt. Í raun væri verið að tak­marka aðgengi stórs hóps að Heiðmörk – sér í lagi fólks sem á erfitt með gang, fjöl­skyldna með lít­il börn og hreyfi­hamlaðra. Sam­kvæmt rann­sókn­inni „Virði Heiðmerk­ur“ sem Bryn­hild­ur Davíðsdótt­ir, pró­fess­or í um­hverf­is- og auðlinda­fræði í HÍ, gerði ásamt hópi fræðimanna árið 2013 kom fram að 92% gesta Heiðmerk­ur fara á bíl í Heiðmörk og 30% gesta eru eldri en 60 ára.

Heiðmörk hef­ur fylgt okk­ur í gegn­um kyn­slóðir. Þar fór amma með mömmu um lág­reist­an skóg og ég með mömmu um þétt­an og tölu­vert hærri skóg. Við vilj­um öll geta áfram notið Heiðmerk­ur um ókomna tíð og á sama tíma vilj­um við öll vernda upp­tökustað vatns, enda er aðgengi að ör­uggu og hreinu vatni ein und­ir­staða lífs. Tíma­bært er að mótuð sé heild­stæð framtíðar­sýn fyr­ir svæðið og að kjörn­ir full­trú­ar fái ít­ar­leg­ar grein­ing­ar á því hvaða ákv­arðanir þurfi að taka til þess að tryggja ör­yggi neyslu­vatns sem sótt er á svæðið sem og aðgengi íbúa að Heiðmörk. Slík vinna þarf að byggja á sam­ráði við hagaðila og mati á áhrif­um á vatns­gæði, nátt­úru og sam­fé­lagið allt – með lang­tíma­sýn að leiðarljósi.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. júní 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 3/3

Deila grein

06/05/2025

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 3/3

Ábyrgur og sjálfbær rekstur Reykjavíkurborgar er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarbúa með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Borgarfulltrúar Framsóknar hafa beitt sér fyrir aukinni hagræðingu og umbótum í rekstri borgarinnar, forgangsröðun verkefna og betri þjónustu í þágu borgarbúa. Á þeim tíma sem við í Framsókn stýrðum borginni náðist, með samstilltum og skýrum aðgerðum, að snúa rekstri A-hluta borgarsjóðs úr 15,6 milljarða halla í 4,7 milljarða afgang árið 2024.

Það er mikið fagnaðarefni að sjá árangur í rekstri borgarinnar en ljóst er að meira þarf að koma til svo hægt sé mæta auknum útgjöldum og greiða niður skuldir borgarinnar. Áætlaðar skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar árið 2025 nema um 558 milljarða króna. Það er upphæð sem flestir myndu telja óásættanlega háa. Áætlanir gera ráð fyrir að skuldahlutfall borgarinnar fari lækkandi og brýnt er að það gangi eftir.

Ég hef því tekið saman 27 tillögur, stórar sem smáar, sem miða að betri nýtingu tíma og fjármuna í rekstri Reykjavíkurborgar. Tillögunum er skipt í 3 þemu; samvinnu og skipulag, aukið aðhald og forgangsröðun verkefna og að lokum umbætur í þjónustu. Þær snúa meðal annars að skipulagsbreytingum, endurskoðun á verkefnum, auknu samstarfi milli eininga, fækkun stöðugilda, frestun og fækkun verkefna, hagkvæmari innkaupum og útvistun verkefna, bættu skipulagi og eftirliti með framkvæmdum og viðhaldi, auknu aðhaldi í rekstri og skilvirkari verkferlum. Tillögunum var skilað inn á samráðsvef borgarinnar 30. apríl s.l.

Hér birtist þriðji og síðastihluti tillögupakkans sem snýr að umbótum í þjónustu Reykjavíkurborgar. Tillögunum er ekki raðað eftir mikilvægi, enda er markmiðið að skoða allar leiðir sem geta leitt til hagræðingar í rekstri borgarinnar – í því samhengi skiptir máli að velta hverjum steini við.

ÞEMA 3: UMBÆTUR Í ÞJÓNUSTU

Tillaga 21 – Endurnýta og deila efni í leik- og grunnskólum og frístundastarfi

Mikill tími starfsfólks fer í það að búa til efni til kennslu og frístundaiðkunar. Með því að búa til gagnagrunn í skýinu fyrir efni frá öllum skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar er hægt að nýta efnið þvert á borgina og draga úr undirbúningstíma sem fer í það að búa til efni til kennslu og frístundaiðkunnar. Með þessu skapast einnig tækifæri til að nýta betur góðar hugmyndir í skóla og frístundastarfi og þar með auka gæði skóla- og frístundastarfs.

Tillaga 22 – Stafvæða og einfalda ferla

Með því að einfalda og stafvæða fleiri umsóknar- og þjónustuferla innan borgarkerfisins má fækka handtökum starfsfólks, bæta þjónustu og auka skilvirkni. Sem og að auka hraða og gagnsæi í afgreiðslu umsókna, draga úr pappírsnotkun og einfalda innri verkferla, minnka álag og bæta nýtingu á tíma starfsfólks og þjónustuupplifun íbúa.

Tillaga 23 – Setja aukinn kraft í innleiðingu á velferðartækni

Setja aukinn kraft í innleiðingu á velferðartækni, þ.e. tækni sem er notuð til þess að viðhalda eða auka öryggi, virkni eða sjálfstæði fólks í daglegu lífi. Með markvissri innleiðingu má auka skilvirkni, eftirlit og gæði þjónustu, stuðla að betri nýtingu á tíma starfsfólks og fjölga þeim sem fá þjónustu velferðarsviðs.

Tillaga 24 – Sveigjanleg mönnun í leikskólum

Ráða starfsfólk sem er ekki bundið einum leikskóla heldur starfar þvert á skólahverfi og róterar eftir mönnunarþörf hverju sinni. Með því má hugsanlega spara tíma starfsfólks á afleysingarstofu, auka sveigjanleika, draga úr tímabundnum lokunum vegna manneklu og bæta fyrirsjáanleika í rekstri leikskóla.

Tillaga 25 – Hlutirnir hugsaðir til enda – uppbygging og endurbætur

Við uppbyggingu og endurbætur á húsnæði verði hlutirnir hugsaðir til enda frá upphafi t.a.m. þegar kemur að algildri hönnun, lýsingu, loftræstingu og hljóðvist. Með því sparast að tvítaka þurfi vinnu og þannig er dregið úr kostnaði. Áður en útboð á sér stað fylgi greining frá aðgengisfulltrúa borgarinnar til að tryggja að horft sé til aðgengis áður en verkið hefst.

Tillaga 26 – Markviss innleiðing gervigreindar

Innleiða gervigreindarlausnir í starfsemi Reykjavíkurborgar með það að markmiði að auka skilvirkni, bæta þjónustuupplifun og styðja við hraðari og nákvæmari gagnavinnslu og greiningar. Með slíkri innleiðingu má einnig draga úr álagi á starfsfólk og skapa ný tækifæri til nýsköpunar í opinberri þjónustu.

Tillaga 27 – Nýta mannauð borgarinnar betur

Nýta menntun og reynslu starfsfólks betur í starfi borgarinnar í stað þess að ráða inn nýtt starfsfólk eða kaupa aðkeypta þjónustu til að sinna einstökum verkefnum. Aðstoða starfsfólk við að fá viðurkennt nám erlendis frá.

Hluti 1/3 má lesa hér

Hluti 2/3 má lesa hér

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. maí 2025.

Categories
Greinar

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 2/3

Deila grein

28/04/2025

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 2/3

Ábyrgur og sjálfbær rekstur Reykjavíkurborgar er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarbúa með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Áætlaðar skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar árið 2025 nema um 558 milljarða króna. Það er upphæð sem flestir myndu telja óásættanlega háa. Skuldahlutfall borgarinnar var 158% samkvæmt ársreikningi 2023 sem er yfir hámarksviðmiði nýrra ákvæða í sveitarstjórnarlögum sem taka gildi árið 2026. Áætlanir gera ráð fyrir að hlutfallið fari lækkandi og brýnt er að það gangi eftir.

Borgarfulltrúar Framsóknar hafa beitt sér fyrir aukinni hagræðingu og umbótum í rekstri borgarinnar, forgangsröðun verkefna og betri þjónustu í þágu borgarbúa. Á þeim tíma sem við vorum í meirihluta náðist, með samstilltum og skýrum aðgerðum, að snúa rekstri A-hluta borgarsjóðs úr 15,6 milljarða halla í áætlaðan afgang árið 2024. Ljóst er að meira þarf að koma til svo hægt sé að mæta auknum útgjöldum og greiða niður skuldir borgarinnar.

Ég hef því tekið saman um 25 tillögur, stórar sem smáar, sem miða að betri nýtingu tíma og fjármuna í rekstri Reykjavíkurborgar. Tillögunum er skipt í 3 þemu; Samvinnu og skipulag, aukið aðhald og forgangsröðun verkefna og að lokum umbætur í þjónustu. Þær snúa meðal annars að skipulagsbreytingum, endurskoðun á verkefnum, auknu samstarfi milli eininga, fækkun stöðugilda, frestun og fækkun verkefna, hagkvæmari innkaupum og útvistun verkefna, bættu skipulagi og eftirliti með framkvæmdum og viðhaldi, auknu aðhaldi í rekstri og skilvirkari verkferlum. Tillögurnar verða sendar inn í samráðsgátt Reykjavíkurborgar.

Hér birtist annar hluti tillögupakkans sem snýr að auknu aðhaldi og forgangsröðun verkefna. Tillögunum er ekki raðað eftir mikilvægi, enda er markmiðið að skoða allar leiðir sem geta leitt til hagræðingar í rekstri borgarinnar – í því samhengi skiptir máli að velta hverjum steini við.

ÞEMA 2: AUKIÐ AÐHALD OG FORGANGSRÖÐUN VERKEFNA – 12 tillögur

Tillaga 9 – Endurskoða samninga við verktaka og arkitekta

Farið verði í greiningu á samningum borgarinnar við verktaka og arkitekta og meta hvort tilefni sé til þess að draga úr umfangi þeirra og kanna hversu hátt hlutfall þeirra fer í útboð. Meta hvort ekki felist hagræði í því að setja fleiri samninga í útboð með það að markmiði að fá hagstæðari tilboð. Dæmi um útboð sem hefur leitt til hagstæðra kjara er útboð vegna trjáfellinga í Öskjuhlíðinni en með útboðinu sparaði borgin hundruði milljóna króna. Einnig mætti skoða tímamörk samninga og hversu oft slíkir samningar fela í sér opna tékka til útgjalda.

Tillaga 10 – Bílastæðastefnan fryst

Bílastæðastefnan og fækkun bílastæða verði fryst þar til Borgarlínan hefur hafið akstur. Þannig sparast tími borgarstarfsmanna og fjármagn tímabundið á meðan unnið er að öðrum brýnum verkefnum.

Tillaga 11 – Hætta með Hverfið mitt tímabundið

Hætta með Hverfið mitt tímabundið þar til fjárhagsstaða borgarinnar er betri.

Tillaga 12 – Vetrargarðurinn settur á ís

Setja áform um Vetrargarð í Reykjavík á ís þangað til að búið er að létta á skuldum borgarinnar.

Tillaga 13 – Kerfið hugsað til langs tíma (með áherslu á forvarnir)

Aukið fjármagn verði sett í fyrirbyggjandi aðgerðir svo sem forvarnir og lýðheilsu og fyrsta stigs þjónustu til að draga úr þeim kostnaði sem hlýst af því af að grípa ekki fyrr inn í vanda barna og ungmenna. Þetta styður einnig við markmið laga um farsæld barna. Með þessu er hægt að minnka kostnaðinn við þjónustu á öðru og þriðja stigi við börn og félags- og virkniþjónustu við fullorðna til langs tíma.

Tillaga 14 – Skorður settar við uppfærslur á húsakynnum

Verklag við uppfærslur á vinnurýmum og húsakynnum verði endurskoðað og skorður settar við uppfærslur sem ekki brýn nauðsyn er á.

Tillaga 15 – Halda betur utan um eignir borgarinnar

Stofna B-hlutafélag sem heldur utan um eignir borgarinnar og viðhald á þeim.

Tillaga 16 – Auka eftirlit með viðhaldi borgarinnar

Eftirlit með viðhaldi í borginni verði eflt með það að markmiði að halda kostnaði við viðhaldsframkvæmdir í lágmarki og tryggja hraðan framgang verklegra framkvæmda.

Tillaga 17 – Óháð greining á rekstri fagsviða og málaflokka

Fá óháða greiningaraðila til að fara í greiningu á rekstri einstakra sviða og málaflokka með það að markmiði að kanna hvort tækifæri séu að til þess að hagræða í rekstri t.a.m. með því að hætta ólögbundnum verkefnum, minnka yfirbyggingu og fækka stöðugildum.

Tillaga 18 – Innkaupin byrja í geymslunum

Ráðast þarf í tiltekt í geymslum borgarinnar með það að markmiði að draga úr kostnaði við innkaup og rekstur geymsluhúsnæðis. Farið verði í að skrásetja það sem til er, nýta það sem hægt er og meta hvað er þarft að eiga. Öðru verði komið strax í hringrásarhagkerfið.

Tillaga 19 – Fækka eignum borgarinnar

Farið verði í kortlagningu á eignum borgarinnar og þær eignir sem óþarfi er fyrir Reykjavíkurborg að eiga verði seldar.

Tillaga 20 – Draga úr kostnaði við smávægilegt viðhald

Móta verklag um húsverði eða teymi í skólahverfum borgarinnar sem sér um minniháttar viðhald t.a.m. að hengja upp hillur, skipta um ljósaperur og mála minni fleti. Með því væri hægt að tryggja að hugað sé betur að húsakynnum borgarinnar svo sem skólum. Markmiðið er að draga úr kostnaði við verktakakaup vegna smávægilegra viðhaldsverkefna og tryggja að brugðist sé hratt við minniháttar viðhaldsþörf áður en vandamálið verður umfangsmeira.

Hluti 1/3 má lesa hér.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. apríl 2025.

Categories
Greinar

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 1/3

Deila grein

15/04/2025

Betri nýting á tíma og fjár­munum Reykja­víkur­borgar 1/3

Ábyrgur og sjálfbær rekstur Reykjavíkurborgar er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarbúa með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Áætlaðar skuldir og skuldbindingar samstæðu borgarinnar árið 2025 nema um 558 milljarða króna. Það er upphæð sem flestir myndu telja óásættanlega háa. Skuldahlutfall borgarinnar var 158% samkvæmt ársreikningi 2023 sem er yfir hámarksviðmiði nýrra ákvæða í sveitarstjórnarlögum sem taka gildi árið 2026. Áætlanir gera ráð fyrir að hlutfallið fari lækkandi og brýnt er að það gangi eftir.

Borgarfulltrúar Framsóknar hafa beitt sér fyrir aukinni hagræðingu og umbótum í rekstri borgarinnar, forgangsröðun verkefna og betri þjónustu í þágu borgarbúa. Á þeim tíma sem við vorum í meirihluta náðist, með samstilltum og skýrum aðgerðum, að snúa rekstri A-hluta borgarsjóðs úr 15,6 milljarða halla í áætlaðan afgang árið 2024. Ljóst er að meira þarf að koma til svo hægt sé að mæta auknum útgjöldum og greiða niður skuldir borgarinnar.

Ég hef því tekið saman um 25 tillögur, stórar sem smáar, sem miða að betri nýtingu tíma og fjármuna í rekstri Reykjavíkurborgar. Tillögunum er skipt í 3 þemu; Samvinnu og skipulag, aukið aðhald og forgangsröðun verkefna og að lokum umbætur í þjónustu. Þær snúa meðal annars að skipulagsbreytingum, endurskoðun á verkefnum, auknu samstarfi milli eininga, fækkun stöðugilda, frestun og fækkun verkefna, hagkvæmari innkaupum og útvistun verkefna, bættu skipulagi og eftirliti með framkvæmdum og viðhaldi, auknu aðhaldi í rekstri og skilvirkari verkferlum. Tillögurnar verða sendar inn í samráðsgátt Reykjavíkurborgar.

Hér birtist fyrsti hluti tillögupakkans sem snýr að samvinnu og skipulagi. Tillögunum er ekki raðað eftir mikilvægi, enda er markmiðið að skoða allar leiðir sem geta leitt til hagræðingar í rekstri borgarinnar – í því samhengi skiptir máli að velta hverjum steini við.

ÞEMA 1: SAMVINNA OG SKIPULAG – 8 tillögur

Tillaga 1 – Fækka stöðugildum og minnka yfirbyggingu

Ráðast þarf í heildstætt mat og endurskipulagningu á þjónustu borgarinnar og rýni á mannaflaþörf með það að markmiði að minnka yfirbyggingu, fækka stöðugildum og lækka launakostnað. Halda þarf áfram með ráðningabann borgarinnar og innleiða gervigreind og stafrænar lausnir með markvissum hætti til að bæta þjónustu og fækka handtökum.

Tillaga 2 – Auka hagkvæmni í innkaupum

Taka til í innkaupum og athuga hvort það er ekki tilefni að gera rammasamninga á grundvelli útboða og kaupa rekstrarvörur og búnað í magninnkaupum fyrir starfsstaði borgarinnar. Samræma og samnýta stafrænar lausnir á milli starfsstöðva ásamt því að endurskoða eða segja upp áskriftum að lausnum sem ekki eru nýttar eða hægt að nýta aðrar lausnir í sama tilgangi.

Tillaga 3 – Leggja niður mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu

Færa nauðsynleg verkefni til annarra fagsviða og leggja önnur verkefni niður eða færa þau yfir til ríkisins sem nú er að stofna Mannréttindastofnun.

Tillaga 4 – Samstarf um heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisnefndir á höfuðborgarsvæðinu

Samstarf eða sameining heilbrigðiseftirlits og heilbrigðisnefnda á höfuðborgarsvæðinu skapar aukið hagræði í rekstri og dregur úr yfirbyggingu. Jafnframt væri hægt að skoða hvort tilefni sé til að útvista ákveðnum verkefnum sem ekki er nauðsynlegt að opinberir aðilar sinni.

Tillaga 5 – Bjóða út sorphirðu

Bjóða út rekstur á sorphirðu borgarinnar með það fyrir augum að auka fyrirsjáanleika og hagræða í rekstri sorphirðu.

Tillaga 6 – Bjóða út akstursleiðir Strætó

Bjóða ætti út akstursleiðir Strætó með það fyrir augum að hagræða og auka fyrirsjáanleika í rekstri Strætó. Samkvæmt greiningu KPMG í júní 2024 er kostnaður á ekinn km í aðkeyptum akstri um 13% lægri en hjá Strætó eða um 109 kr. á hvern ekinn km dísel-vagna.

Tillaga 7 – Útvista stafrænum verkefnum

Útvista stafrænum verkefnum í auknum mæli með það fyrir augum að auka sveigjanleika og draga úr kostnaði við stafræn verkefni og þjónustu.

Tillaga 8 – Útboð eða tilboða aflað í verklegar framkvæmdir

Aflað verði tilboða í allar verklegar framkvæmdir eða þær settar í útboð með það að markmiði að fá hagstæðasta tilboðið í verkið. Hér er ekki átt við minniháttar viðhaldsverkefni eða smáverk.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíð Öskju­hlíðar

Deila grein

01/04/2025

Fram­tíð Öskju­hlíðar

Nú þegar búið er að ljúka við nauðsynlegar trjáfellingar í Öskjuhlíð til að tryggja flugöryggi Reykjavíkurflugvallar myndast tækifæri til að endurhugsa svæðið sem stendur eftir og skapa þar skilyrði fyrir aukna útivistarmöguleika fyrir almenning. Í dag leggur Framsókn fram tillögu í borgarstjórn um að vinna við framtíðarskipulag á því svæði í Öskjuhlíð þar sem tré hafa verið felld vegna Reykjavíkurflugvallar verði unnin í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið og miði að því að þar verði leik- og útivistarsvæði fyrir alla aldurshópa.

Tækifæri í mótvægisaðgerð

Með tillögunni er verið að bregðast við því að fella þurfti tré við enda austur/vesturbrautar Reykjavíkurflugvallar til þess að tryggja rekstaröryggi flugvallarins. Ákveða þarf hvað á að gera við það svæði sem eftir stendur: hvort að þar eigi að gróðursetja aftur tré sem síðar gæti þurft að fella til að tryggja flugöryggi eða hvort við eigum að nýta tækifærið og skipuleggja svæðið til framtíðar sem aðlaðandi grænt svæði fyrir almenning án þess að stofna flugöryggi í hættu?

Það síðarnefnda leggjum við í Framsókn til.

Tækifæri til að skipuleggja leik- og útivistarsvæði

Öskjuhlíðin er vinsælt útivistarsvæði enda staðsett í nálægð við miðbæ Reykjavíkur og fjölmenn hverfi borgarinnar. Það er því mikilvægt að svæðið sé áfram aðlaðandi og nýtist raunverulega sem grænt svæði fyrir almenning. Með vel skipulögðu leiksvæði í Öskjuhlíðinni sem er hannað fyrir alla aldurshópa og í takt við hið náttúrulega umhverfi mætti bregðast við ákalli um fleiri leiksvæði í nálægð við miðbæ Reykjavíkur samhliða því að skapa jákvæða upplifun af þessu græna svæði fyrir ólíka aldurshópa. Ömmur og afar gætu þannig notið svæðisins til jafns við barnabörnin, til dæmis með rólum fyrir börn og fullorðna og svæðum fyrir lautarferðir.

Skipulagsmál hafa bein áhrif á lýðheilsu og hreyfingu. Gott aðgengi að grænum svæðum eykur útivist og góð aðstaða til hreyfingar eykur hreyfingu. Í Öskjuhlíðinni eru göngu- og hjólaleiðir en þar mætti koma upp aðstöðu fyrir hópa sem vilja stunda aðra hreyfingu svo sem jóga eða stunda hugleiðslu í náttúrunni. Mikilvægt er því að framtíðarskipulag svæðisins sé unnið í samstarfi við menningar- og íþróttasvið borgarinnar og sé unnið í samræmi við lýðheilsustefnu borgarinnar. Með skipulaginu væri þannig hægt að skapa frekari aðstæður í nærumhverfinu sem auðvelda fólki að stunda heilbrigða lífshætti og verja tíma úti í náttúrunni.

Tækifæri til útikennslu

Með því að skipuleggja svæðið í samstarfi við skóla- og frístundasvið skapast einstakt tækifæri til að nýta svæðið fyrir skóla- og frístundastarf. Þannig geta börn fengið að taka þátt í að byggja upp svæðið og notað það fyrir leik- og útivist ásamt því að læra um skógrækt og landgræðslu í Öskjuhlíðinni. Í samstarfi við leik- og grunnskóla í nágrenni Öskjuhlíðar væri þá hægt að byggja þar upp útikennslusvæði. Útikennsla er þverfagleg kennsluaðferð sem felur meðal annars í sér tækifæri til að tengja náttúruna við viðfangsefni úr ýmsum námsgreinum samhliða því að stunda hreyfiþjálfun. Í útikennslu læra nemendur að þekkja, skilja og virða náttúruna og nærumhverfið sitt. Einnig væri hægt að koma upp matjurtagörðum á svæðinu til að kenna börnum að rækta matjurtir.

Tækifæri til fræðslu um svæðið

Auk náttúrufegurðar býr Öskjuhlíðin yfir merkilegri sögu og þar eru meðal annars staðsettar jarð- og mannvistarminjar frá stríðsárunum. Sögunni mætti gera hærra undir höfði með því að setja upp sögugöngur eða ratleiki fyrir börn og fullorðna í Öskjuhlíðinni. Þannig gæfist tækifæri til að miðla sögu svæðisins til borgarbúa og gesta borgarinnar ásamt því að styrkja heildarmynd svæðisins í tengslum við þá menningarupplifun sem staðsett er í Perlunni. Á svæðinu mætti einnig koma upp upplýsingaskiltum fyrir almenning um gróðurfar, fuglalíf og dýralíf í Öskjuhlíð.

Möguleikarnir í Öskjuhlíðinni eru óþrjótandi og trjáfellingarnar hafa skapað tækifæri til að skipuleggja leik- og útivistarsvæði sem mætir þörfum fólks á öllum aldri. Með því að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna framtíðarskipulag svæðisins í samstarfi við skóla- og frístundasvið og menningar- og íþróttasvið er hægt að móta heildstæða sýn fyrir svæðið sem tekur mið af þekkingu fagsviðana.

Ég vona að borgarstjórn sjái tækifærin sem felast í því að til að skipuleggja framtíðar útivistarperlu í Öskjuhlíð sem eykur útivist, samveru og eflir lýðheilsu.

Það er tækifæri sem ætti að nýta!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Deila grein

27/03/2025

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Svæðið í kringum Háskóla Íslands hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Þær breytingar sem þar hafa orðið eru afar jákvæðar, ekki aðeins fyrir háskólasamfélagið og stúdenta heldur einnig fyrir borgina og samfélagið í heild. Háskólar gegna lykilhlutverki í þróun samfélaga með því að stuðla að nýsköpun, efnahagslegum vexti og menntun.

Í kringum Háskóla Íslands hefur byggst upp þorp stúdenta á Stúdentagörðum og háskólasvæðið hefur stækkað t.a.m. með Hótel Sögu sem hýsa á menntavísindasvið og Grósku, sem er miðstöð nýsköpunar. Með vaxandi byggð og fjölgun stúdenta og fyrirtækja á svæðinu er mikilvægt að huga að því að skipulag svæðisins sé notendavænt og öruggt. Stúdentar hafa þá kallað eftir ýmsum úrbótum á svæðinu.

Borgarfulltrúar Framsóknar vilja styðja við áframhaldandi jákvæða þróun háskólasamfélagsins og hafa lagt fram þrjár tillögur í umhverfis- og skipulagsráði sem miða að því að skapa öruggara og notendavænna háskólasvæði.

Bættar almenningssamgöngur frá Háskóla Íslands að lágvöruverslun

Í fyrsta lagi, leggur Framsókn til að því verði beint til Strætó að leiðakerfinu verði breytt þannig að það tryggi aðgengi stúdenta sem búa á stúdentagörðum við Háskóla Íslands að lágvöruverslunum við Granda. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir bættum almenningssamgöngum og að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur fyrir stúdenta.

Í dag eru almenningssamgöngur við stúdentagarða Félagsstofnunar Stúdenta við Háskóla Íslands ótengdar við lágvöruverslanir. Íbúar svæðisins sækja ýmsa verslun og þjónustu á Granda en þar eru meðal annars staðsettar lágvöruverslanir. Hið sama á við íbúa Vesturbæjar en í því hverfi er ekki rekin lágvöruverslun. Breyting á leiðakerfi strætó á þann veg að strætó stoppi í nálægð við Háskóla Íslands og fari út á Granda myndi bæta aðgengi íbúa svæðisins að þeim verslunarkjarna sem þar hefur byggst upp. Mikilvægt er að bæta aðgengi stúdenta að lágvöruverslun enda er það hópur sem að jafnaði er lágtekjuhópur. Einnig er vert að taka fram að sá hópur sem ferðast minnst með bíl er á aldrinum 18-24 ára en það er jafnframt sá aldurshópur sem ferðast mest með almenningssamgöngum í Reykjavíkurborg samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2024. Ef horft er til búsetu kemur þá fram að íbúar Mið- og Vesturbæjar eru ólíklegastir til að ferðast með bíl en líklegastir til að ferðast með almenningssamgöngum samkvæmt sömu könnun.

Bætt strætóskýli við Háskóla Íslands

Í öðru lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verið falið að vinna tillögur að bættum strætóskýlum við Háskóla Íslands með það að markmiði að bæta upplifun á almenningssamgöngum. Lagt er til að sviðið kanni sérstaklega hvort mögulegt er að hafa þau upphituð á meðan strætó gengur og þannig uppsett að þau veiti aukið skjól frá veðri og vindum. Þá leggjum við áherslu á að í þeirri vinnu verði haft samráð við Stúdentaráð Háskóla Íslands. Íslenskt veðurfar er krefjandi og því er mikilvægt að strætóskýli veiti skjól gegn veðri og vindum á meðan beðið er eftir strætó. Við Háskóla Íslands eru nokkur strætóskýli sem eru mikið notuð af stúdentum sem bíða eftir næsta strætó. Á árum áður var strætóskýli við Háskóla Íslands við Hringbraut upphitað en því var hætt fyrir þó nokkru síðan. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir því að Reykjavíkurborg komi upp upphituðum og skjólgóðum strætóskýlum á Háskólasvæðinu en Stúdentaráð telur að upphituð skýli myndu bæta upplifun stúdenta á almenningssamgöngum og stuðla að frekari notkun þeirra.

Undirgöng á gatnamótum Sæmundargötu og Hringbrautar

Í þriðja lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssvið hefji, í samstarfi við Vegagerðina, skipulagningu á undirgöngum undir Hringbraut við gatnamót Sæmundargötu og Hringbrautar. Stúdentaráð hefur kallað eftir auknu öryggi fyrir gangandi vegfarendur við gatnamótin þar sem mikill fjöldi nemenda styttir sér leið yfir Hringbraut á þessum stað. Undirgöng myndu bæði auka öryggi og bæta tengingu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eru á leið frá Háskóla Íslands í átt að miðbænum. Meirihlutinn hefur hins vegar lagt til að þar verði skipulögð þverun og umferðarljósum komið upp. Slík útfærsla myndi bitna á flæði bílaumferðar inn í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnes. Auk þess hefur lögreglan sett sig á móti gönguljósum á þessum stað. Tillagan er því lögð fram til að koma til móts við kröfur stúdenta um göngu- og hjólaleið við gatnamótin og auka öryggi vegfaranda, án þess að það bitni á flæði umferðar.

Við tökum vel á móti öllum ábendingum sem stuðla að bættu skipulagi svæðisins sem og annara svæða í borginni og hvetjum íbúa til að hafa samband við okkur eða borgina í gegnum ábendingavef Reykjavíkurborgar, https://reykjavik.is/abendingar

Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Magnea Gná Jóhannsdóttir eru borgarfulltrúar Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. mars 2025.

Categories
Greinar

Byggð á Geldinga­nesi?

Deila grein

20/03/2025

Byggð á Geldinga­nesi?

Nýr meirihluti borgarinnar virðist ætla að friðþægja Flokk fólksins sem hefur talað fyrir því að ryðja nýtt land með því að vísa uppbyggingu á Geldinganesi í nefnd. Raunverulegur áhugi á uppbyggingu virðist takmarkaður þrátt fyrir yfirlýsingar um mikil uppbyggingaráform.

Tímabært að taka ákvörðun

Það er mikið fagnaðarefni að vinna við valkostagreiningu um legu Sundabrautar er langt komin. Nú liggur því fyrir að taka þarf ákvörðun um hvar Sundabraut fari yfir Geldinganes og hvernig mislæg gatnamót á Geldinganesi verði hönnuð. Ýmsar gerðir mislægra gatnamóta koma til greina en ef skipuleggja á byggð á Geldinganesi er mikilvægt að hönnun gatnamóta anni umferð og að tryggt verði að hjóla- og gönguleiðir séu hannaðar samhliða. Í ört vaxandi borg er aukinheldur þörf á að huga að framtíðar byggingarlandi.

Framsókn lagði fram tillögu þess efnis að fela umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að hefja skipulagsferli vegna húsnæðisuppbyggingar á Geldinganesi með áherslu á íbúðauppbyggingu.

Vísað beint í nefnd

Áhugavert var að hlusta á málflutning meirihlutans þegar málið var til umræðu á fundi borgarstjórnar. Meirihlutinn sagðist vilja byggja á Geldinganesi en samþykkti samt ekki tillöguna. Í staðinn vísa þau tillögunni til afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsráði. Þau segja það vera vegna þess að meirihlutinn vill ekki að tillagan fái flýtimeðferð. Miðað við núgildandi áætlanir verður Sundabraut ekki tekin í gagnið fyrr en í fyrsta lagi árið 2032. Tillaga Framsóknar gerði ekki ráð fyrir sérstakri flýtimeðferð á skipulagi á Geldinganesi. Hins vegar þarf að hanna Sundabraut þannig að hún taki mið af íbúðauppbyggingu ef Reykjavíkurborg ætlar að skipuleggja þar byggð í framtíðinni. Sennilegri skýring á málsmeðferð meirihlutans er að þeir fimm flokkar sem mynda vinstri meirihlutann í Reykjavík eru ekki allir sammála um endanlega niðurstöðu málsins. Enginn vilji var til að ræða uppbyggingu á Geldinganesi í síðasta meirihluta og áhugi á uppbyggingu í Úlfarsárdal lítill. Með semingi var uppbygging í Úlfarsárdal samþykkt inn í síðasta meirihlutasáttmála og sennilega þann nýja líka.

Enn á eftir að ákveða hvort byggja eigi á Geldinganesi. Það er brýnt að ákvörðun um það liggi fyrir sem fyrst enda ljóst að um þannig mannvirki er að ræða þegar kemur að Sundabraut að því verður ekki auðveldlega breytt eftir á.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. mars 2025.