Categories
Fréttir Greinar

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Deila grein

27/03/2025

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Svæðið í kringum Háskóla Íslands hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Þær breytingar sem þar hafa orðið eru afar jákvæðar, ekki aðeins fyrir háskólasamfélagið og stúdenta heldur einnig fyrir borgina og samfélagið í heild. Háskólar gegna lykilhlutverki í þróun samfélaga með því að stuðla að nýsköpun, efnahagslegum vexti og menntun.

Í kringum Háskóla Íslands hefur byggst upp þorp stúdenta á Stúdentagörðum og háskólasvæðið hefur stækkað t.a.m. með Hótel Sögu sem hýsa á menntavísindasvið og Grósku, sem er miðstöð nýsköpunar. Með vaxandi byggð og fjölgun stúdenta og fyrirtækja á svæðinu er mikilvægt að huga að því að skipulag svæðisins sé notendavænt og öruggt. Stúdentar hafa þá kallað eftir ýmsum úrbótum á svæðinu.

Borgarfulltrúar Framsóknar vilja styðja við áframhaldandi jákvæða þróun háskólasamfélagsins og hafa lagt fram þrjár tillögur í umhverfis- og skipulagsráði sem miða að því að skapa öruggara og notendavænna háskólasvæði.

Bættar almenningssamgöngur frá Háskóla Íslands að lágvöruverslun

Í fyrsta lagi, leggur Framsókn til að því verði beint til Strætó að leiðakerfinu verði breytt þannig að það tryggi aðgengi stúdenta sem búa á stúdentagörðum við Háskóla Íslands að lágvöruverslunum við Granda. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir bættum almenningssamgöngum og að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur fyrir stúdenta.

Í dag eru almenningssamgöngur við stúdentagarða Félagsstofnunar Stúdenta við Háskóla Íslands ótengdar við lágvöruverslanir. Íbúar svæðisins sækja ýmsa verslun og þjónustu á Granda en þar eru meðal annars staðsettar lágvöruverslanir. Hið sama á við íbúa Vesturbæjar en í því hverfi er ekki rekin lágvöruverslun. Breyting á leiðakerfi strætó á þann veg að strætó stoppi í nálægð við Háskóla Íslands og fari út á Granda myndi bæta aðgengi íbúa svæðisins að þeim verslunarkjarna sem þar hefur byggst upp. Mikilvægt er að bæta aðgengi stúdenta að lágvöruverslun enda er það hópur sem að jafnaði er lágtekjuhópur. Einnig er vert að taka fram að sá hópur sem ferðast minnst með bíl er á aldrinum 18-24 ára en það er jafnframt sá aldurshópur sem ferðast mest með almenningssamgöngum í Reykjavíkurborg samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2024. Ef horft er til búsetu kemur þá fram að íbúar Mið- og Vesturbæjar eru ólíklegastir til að ferðast með bíl en líklegastir til að ferðast með almenningssamgöngum samkvæmt sömu könnun.

Bætt strætóskýli við Háskóla Íslands

Í öðru lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verið falið að vinna tillögur að bættum strætóskýlum við Háskóla Íslands með það að markmiði að bæta upplifun á almenningssamgöngum. Lagt er til að sviðið kanni sérstaklega hvort mögulegt er að hafa þau upphituð á meðan strætó gengur og þannig uppsett að þau veiti aukið skjól frá veðri og vindum. Þá leggjum við áherslu á að í þeirri vinnu verði haft samráð við Stúdentaráð Háskóla Íslands. Íslenskt veðurfar er krefjandi og því er mikilvægt að strætóskýli veiti skjól gegn veðri og vindum á meðan beðið er eftir strætó. Við Háskóla Íslands eru nokkur strætóskýli sem eru mikið notuð af stúdentum sem bíða eftir næsta strætó. Á árum áður var strætóskýli við Háskóla Íslands við Hringbraut upphitað en því var hætt fyrir þó nokkru síðan. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir því að Reykjavíkurborg komi upp upphituðum og skjólgóðum strætóskýlum á Háskólasvæðinu en Stúdentaráð telur að upphituð skýli myndu bæta upplifun stúdenta á almenningssamgöngum og stuðla að frekari notkun þeirra.

Undirgöng á gatnamótum Sæmundargötu og Hringbrautar

Í þriðja lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssvið hefji, í samstarfi við Vegagerðina, skipulagningu á undirgöngum undir Hringbraut við gatnamót Sæmundargötu og Hringbrautar. Stúdentaráð hefur kallað eftir auknu öryggi fyrir gangandi vegfarendur við gatnamótin þar sem mikill fjöldi nemenda styttir sér leið yfir Hringbraut á þessum stað. Undirgöng myndu bæði auka öryggi og bæta tengingu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eru á leið frá Háskóla Íslands í átt að miðbænum. Meirihlutinn hefur hins vegar lagt til að þar verði skipulögð þverun og umferðarljósum komið upp. Slík útfærsla myndi bitna á flæði bílaumferðar inn í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnes. Auk þess hefur lögreglan sett sig á móti gönguljósum á þessum stað. Tillagan er því lögð fram til að koma til móts við kröfur stúdenta um göngu- og hjólaleið við gatnamótin og auka öryggi vegfaranda, án þess að það bitni á flæði umferðar.

Við tökum vel á móti öllum ábendingum sem stuðla að bættu skipulagi svæðisins sem og annara svæða í borginni og hvetjum íbúa til að hafa samband við okkur eða borgina í gegnum ábendingavef Reykjavíkurborgar, https://reykjavik.is/abendingar

Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Magnea Gná Jóhannsdóttir eru borgarfulltrúar Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. mars 2025.

Categories
Greinar

Byggð á Geldinga­nesi?

Deila grein

20/03/2025

Byggð á Geldinga­nesi?

Nýr meirihluti borgarinnar virðist ætla að friðþægja Flokk fólksins sem hefur talað fyrir því að ryðja nýtt land með því að vísa uppbyggingu á Geldinganesi í nefnd. Raunverulegur áhugi á uppbyggingu virðist takmarkaður þrátt fyrir yfirlýsingar um mikil uppbyggingaráform.

Tímabært að taka ákvörðun

Það er mikið fagnaðarefni að vinna við valkostagreiningu um legu Sundabrautar er langt komin. Nú liggur því fyrir að taka þarf ákvörðun um hvar Sundabraut fari yfir Geldinganes og hvernig mislæg gatnamót á Geldinganesi verði hönnuð. Ýmsar gerðir mislægra gatnamóta koma til greina en ef skipuleggja á byggð á Geldinganesi er mikilvægt að hönnun gatnamóta anni umferð og að tryggt verði að hjóla- og gönguleiðir séu hannaðar samhliða. Í ört vaxandi borg er aukinheldur þörf á að huga að framtíðar byggingarlandi.

Framsókn lagði fram tillögu þess efnis að fela umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar að hefja skipulagsferli vegna húsnæðisuppbyggingar á Geldinganesi með áherslu á íbúðauppbyggingu.

Vísað beint í nefnd

Áhugavert var að hlusta á málflutning meirihlutans þegar málið var til umræðu á fundi borgarstjórnar. Meirihlutinn sagðist vilja byggja á Geldinganesi en samþykkti samt ekki tillöguna. Í staðinn vísa þau tillögunni til afgreiðslu í umhverfis- og skipulagsráði. Þau segja það vera vegna þess að meirihlutinn vill ekki að tillagan fái flýtimeðferð. Miðað við núgildandi áætlanir verður Sundabraut ekki tekin í gagnið fyrr en í fyrsta lagi árið 2032. Tillaga Framsóknar gerði ekki ráð fyrir sérstakri flýtimeðferð á skipulagi á Geldinganesi. Hins vegar þarf að hanna Sundabraut þannig að hún taki mið af íbúðauppbyggingu ef Reykjavíkurborg ætlar að skipuleggja þar byggð í framtíðinni. Sennilegri skýring á málsmeðferð meirihlutans er að þeir fimm flokkar sem mynda vinstri meirihlutann í Reykjavík eru ekki allir sammála um endanlega niðurstöðu málsins. Enginn vilji var til að ræða uppbyggingu á Geldinganesi í síðasta meirihluta og áhugi á uppbyggingu í Úlfarsárdal lítill. Með semingi var uppbygging í Úlfarsárdal samþykkt inn í síðasta meirihlutasáttmála og sennilega þann nýja líka.

Enn á eftir að ákveða hvort byggja eigi á Geldinganesi. Það er brýnt að ákvörðun um það liggi fyrir sem fyrst enda ljóst að um þannig mannvirki er að ræða þegar kemur að Sundabraut að því verður ekki auðveldlega breytt eftir á.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Meirihlutinn sem segir nei

Deila grein

12/03/2025

Meirihlutinn sem segir nei

Nú bíða nokk­ur hundruð for­eldr­ar í Reykja­vík eft­ir dag­vist­un fyr­ir börn sín. Þá staðreynd tek ég al­var­lega og vil leggja lóð á vog­ar­skál­arn­ar til þess að styðja við for­eldra sem hafa lokið fæðing­ar­or­lofi og kom­ast ekki út á vinnu­markaðinn vegna skorts á dag­vist­un. Við í Fram­sókn lögðum því fram til­lögu í borg­ar­stjórn um heim­greiðslur til for­eldra sem bíða eft­ir dag­vist­un. Til­lag­an gerði ráð fyr­ir að greiðslurn­ar væru skil­yrt­ar við virka um­sókn um dag­vist­un og féllu niður um leið og dag­vist­un­ar­plássi væri út­hlutað.

Fjölg­un leik­skóla­plássa er for­gangs­mál og þarf ekki að fara mörg­um orðum um mik­il­vægi leik­skól­ans fyr­ir mennt­un og þroska barna og fyr­ir tekju­öfl­un og jafn­ari at­vinnuþátt­töku for­eldra. En staðreynd­in er sú að jafn­vel þótt það sé eitt af for­gangs­verk­efn­um sveit­ar­fé­laga að tryggja yngstu íbú­un­um leik­skóla­vist verður að telja það óraun­hæft að 12 mánaða börn kom­ist í dag­vist­un í bráð. Því þótt við mynd­um bæta við nægj­an­lega mörg­um bygg­ing­um und­ir starf­semi leik­skóla og tryggja ávallt nægi­legt rekstr­ar­fé þarf að manna stöður leik­skóla­kenn­ara, sem eru ekki á hverju strái. Fjölg­un ein­stak­linga í mik­il­vægri stétt leik­skóla­kenn­ara er verðugt mark­mið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta for­eldr­um sem eru í bráðum vanda og bíða eft­ir dag­vist­un­ar­plássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt. Meiri­hlut­inn kaus hins veg­ar gegn til­lög­unni með tvenn­um rök­um.

Of kostnaðarsamt?

Í fyrsta lagi taldi meiri­hlut­inn til­lög­una of kostnaðarsama og hún gæti þar af leiðandi dregið úr upp­bygg­ingu leik­skóla­plássa. Auðvitað kost­ar það að greiða fjöl­skyld­um heim en það er okk­ar sem sitj­um í sal borg­ar­stjórn­ar að ákveða hvernig við verj­um fjár­mun­um borg­ar­inn­ar. Við get­um ákveðið að bæði upp­bygg­ing leik­skóla og heim­greiðslur séu for­gangs­mál. Til að mæta kostnaðinum get­um við hagrætt í rekstri borg­ar­inn­ar – af nógu er að taka í þeim efn­um. En ljóst er að meiri­hlut­inn vill for­gangsraða fjár­magni í annað en stuðning við for­eldra sem bíða eft­ir dag­vist­un. For­eldra sem bíða vegna þess að borg­in hef­ur ekki staðið sig nægi­lega vel í því að fjölga leik­skóla­pláss­um þrátt fyr­ir ít­rekuð lof­orð Sam­fylk­ing­ar­inn­ar um pláss fyr­ir 12 mánaða börn.

Ógn við jafn­rétti?

Í öðru lagi tel­ur meiri­hlut­inn að heim­greiðslur séu kvenna­gildra sem grafi und­an jafn­rétti kynj­anna. Þau telja að greiðslurn­ar muni leiða til þess að kon­ur séu leng­ur heima. Slík gagn­rýni bygg­ist á þeirri for­sendu að fólk hafi val um að senda barn ekki í leik­skóla og fái þess í stað greiðslur. Staðreynd­in er þó sú að for­eldr­ar eru hvort sem er heima vegna skorts á dag­vist­unar­úr­ræðum – það er hin raun­veru­lega „kvenna­gildra“. Greiðslurn­ar milda það tekjutap sem mynd­ast á meðan beðið er eft­ir dag­vist­un og með því að skil­yrða greiðslurn­ar við um­sókn um dag­vist­un er dregið úr áhrif­um kynjam­is­rétt­is. Mörg heim­ili standa frammi fyr­ir erfiðum aðstæðum að loknu fæðing­ar­or­lofi vegna skorts á dag­vist­un. Vand­inn hef­ur vaxið í þrálátri verðbólgu, jafn­vel þótt for­eldr­ar sýni fyr­ir­hyggju með því að dreifa fæðing­ar­or­lofinu eða spara fyr­ir tekjutap­inu sem fylg­ir barneign­um. Sér í lagi ef aðeins eitt for­eldri get­ur aflað tekna á meðan beðið er eft­ir dag­vist­un. Spurn­ing­in er því: Hvort er betra að for­eldr­ar séu heima án tekna eða fái greiðslur sem hjálpa til við að halda heim­il­is­bók­hald­inu rétt­um meg­in við núllið?

Þá hef­ur því verið haldið fram að það séu börn­in sem mest þurfi á því að halda að fara í leik­skóla sem séu heima vegna heim­greiðslna, t.d. börn inn­flytj­enda sem þurfi að til­einka sér tungu­mál þess lands sem þau búa í. Án frek­ari mála­leng­inga má sjá að áður­nefnd rök um skil­yrt­ar heim­greiðslur eiga einnig við hér. Ljóst er þó að huga þarf sér­stak­lega að börn­um sem eru ekki í leik­skóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með ein­hverj­um hætti.

Sama gamla upp­skrift­in

Fyrst og fremst snýst þetta um börn og for­eldra þeirra, sem mörg hver eru í veru­leg­um vanda með að brúa bilið og ná end­um sam­an. Meiri­hlut­inn virðist þó ekki vera til­bú­inn að sýna það í verki að Reykja­vík styðji við barna­fjöl­skyld­ur. Ekki má horfa til fjöl­breyttra lausna. Ekki má semja við vinnustaði um rekst­ur leik­skóla og ekki er hægt að koma á fót heim­greiðslum, þrátt fyr­ir að Pírat­ar, Flokk­ur fólks­ins og Sósí­al­ist­ar, sem nú eru í meiri­hluta, hafi áður talað fyr­ir heim­greiðslum. Rík­is­stjórn­in virðist þá ekki held­ur ætla að lengja fæðing­ar­or­lofið. Nei – enn og aft­ur á að reyna við sömu gömlu upp­skrift­ina sem ekki hef­ur skilað nægj­an­leg­um ár­angri.

Við eig­um að hlusta á for­eldra og taka ósk­ir þeirra og ábend­ing­ar al­var­lega. Þær eru ekki auka­atriði og stjórn­mál­in verða hverju sinni að ganga var­lega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyr­ir bestu. Við meg­um ekki gleyma því að börn og for­eldr­ar lifa þenn­an raun­veru­leika í dag, á meðan rif­ist er yfir göml­um kredd­um. Það er okk­ar verk­efni að létta róður­inn með því að leggj­ast á ár­arn­ar og brúa bilið á milli fæðing­ar­or­lofs og leik­skóla og draga úr fram­færslu­kvíða for­eldra.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. mars 2025.

Categories
Greinar

Styðjum barna­fjöl­skyldur

Deila grein

04/03/2025

Styðjum barna­fjöl­skyldur

Við í Framsókn leggjum fram tillögu í borgarstjórn Reykjavíkur um heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir dagvistun fyrir börn sín. Gert er ráð fyrir að greiðslurnar séu skilyrtar við virka umsókn um dagvistun og falli niður um leið og dagvistunarplássi hefur verið úthlutað. Heimgreiðslur eru mikilvægur stuðningur fyrir foreldra sem bíða eftir dagvistunarplássi.

Ógn við jafnrétti?

„Ég svelt þá í nafni kvenréttinda“ eru orð foreldris sem mætti á borgaraþing um málefni 0-6 ára barna í Reykjavík vegna gagnrýni á heimgreiðslur. Þessi skoðun endurspeglar upplifun margra heimila sem standa frammi fyrir erfiðum aðstæðum, að loknu fæðingarorlofi, vegna skorts á dagvistun. Vandinn hefur vaxið í þrálátri verðbólgu, jafnvel þótt foreldrar sýni fyrirhyggju með því að dreifa fæðingarorlofinu eða spara fyrir tekjutapinu sem fylgir barneignum. Sér í lagi ef aðeins eitt foreldri getur aflað tekna á meðan beðið er eftir dagvistun.

Sumir telja að heimgreiðslur grafi undan jafnrétti, þar sem konur séu líklegri til að vera heima. Slík gagnrýni byggir þó á þeirri forsendu að fólk hafi val um að senda barn ekki í leikskóla og fái þess í stað greiðslur. Staðreyndin er þó sú að foreldrar eru hvort sem er heima vegna skorts á dagvistunarúrræðum. Greiðslurnar milda því það tekjutap sem myndast á meðan það er beðið eftir dagvistun og með því að skilyrða greiðslurnar við umsókn um dagvistun er dregið úr áhrifum kynjamisréttis.

Spurningin er því: hvort betra er að foreldrar séu heima án tekna eða fái greiðslur sem að hjálpa til við að halda heimilisbókhaldinu réttu megin við núllið?

Mikilvægi leikskólans

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi leikskólans fyrir menntun og þroska barna og fyrir tekjuöflun og þátttöku foreldra á vinnumarkaði. Leikskólakerfið hefur einnig stuðlað að jafnari atvinnuþátttöku foreldra. Þeir flokkar sem nú mynda meirihluta lofuðu börnum 12 mánaða og eldri dagvistunarplássi á meðan við í Framsókn töldum raunhæfara í ljósi stöðunnar að miða við 18 mánaða aldur. Jafnvel þótt það sé eitt að forgangsverkefnum sveitarfélaga að tryggja yngstu íbúunum leikskólavist verður að telja það að óraunhæft að 12 mánaða börn komist í dagvistun í bráð. Því þó við myndum bæta við nægjanlega mörgum byggingum undir starfsemi leikskóla og tryggja ávallt nægilegt fjármagn þá þarf að manna stöður leikskólakennara sem er ekki að finna á hverju strái. Fjölgun einstaklinga í mikilvægri stétt leikskólakennara er verðugt markmið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta foreldrum sem eru í bráðum vanda og bíða eftir dagvistunarplássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt.

Þá hefur því verið haldið fram að það séu börnin sem mest þurfi á því að halda að fara í leikskóla sem séu heima vegna heimgreiðslna, t.d. börn innflytjenda sem þurfi að tileinka sér tungumál þess lands sem þau búa í. Þetta á ekki við rök að styðjast ef að heimgreiðslurnar eru skilyrtar við umsókn um dagvistun og falla niður þegar vistun hefst. Ljóst er þó að huga þarf sérstaklega að börnum sem eru ekki í leikskóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með einhverjum hætti.

Bregðumst við neyðarástandi

Fyrst og fremst snýst þetta um börnin og foreldra þeirra, sem mörg hver eru í verulegum vanda með að brúa bilið og ná endum saman. Við eigum að hlusta á foreldra og taka þeirra óskum og ábendingum alvarlega. Þær eru ekki aukaatriði og stjórnmálin verða hverju sinni að ganga varlega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu og takmarka möguleika þeirra til að lifa lífi sínu á eigin forsendum. Nú ríkir neyðarástand hjá foreldrum barna sem bíða eftir dagvistun meðal annars vegna innviðaskuldar síðustu kjörtímabila í viðhaldi skólabygginga og skorts á starfsfólki. Það er okkar verkefni að létta róðurinn með því að leggjast á árarnar og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og draga úr framfærslukvíða foreldra. Tímabundnar og skilyrtar heimgreiðslur eru ein leið til að takast á við þennan vanda. Við megum ekki gleyma því að börn og foreldrar lifa þennan raunveruleika í dag, á meðan rifist er yfir gömlum kreddum. Við þurfum að hafa hugrekki til að horfa út fyrir kassann og leita leiða til bæta hag foreldra ungra barna þó ekki sé hægt að ná óskastöðunni um dagvistunarpláss strax. Það er hagur okkar allra að á Íslandi sé skapaður jarðvegur sem öll börn geta blómstrað í.

Ég vona að borgarstjórn taki undir tillögu okkar um heimgreiðslur og sýni það í verki að Reykjavík styðji við börn og barnafjölskyldur. Það viljum við í Framsókn svo sannarlega gera

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ég er karl með vesen

Deila grein

12/02/2025

Ég er karl með vesen

„Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen og skella öllu í uppnám” – Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata um meirihlutaslitin og nýjar viðræður.

Þessir karlar

Þeir eru ótrúlegir þessir karlar sem skella öllu í uppnám. Karlar sem með fjölbreyttum leiðum vilja fækka börnum á biðlistum eftir leikskólaplássi og karlar sem vilja koma á heimgreiðslum til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og létta þannig undir með fjárhagslegum birgðum foreldra á meðan þeir bíða eftir dagvistun. Karlar sem vilja byggja meira, bæði þétta byggð en líka ryðja nýtt land því það þarf að byggja meira og hraðar. Karlar sem vilja nýtt hverfi í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi og kanna fýsileika þess að ráðast í að skipuleggja byggð á Geldinganesi. Karlar sem vilja bæta þjónustu og samskipti við borgarbúa. Karlar sem telja rekstaröryggi Reykjavíkurflugvallar ekki vera ,,átyllu.” Karlar sem vilja taka til í rekstri borgarinnar vegna þess að þeir vita að það er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarana með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Karlar sem vilja fara betur með skattfé borgarbúa. Karlar sem vilja að fólk hafi raunverulegt val um ferðamáta hvort sem hann er gangandi, hjólandi, í almenningssamgöngum eða á fjölskyldubílnum. Karlar sem vilja bíða með bílastæðastefnuna þar til borgarlína hefur hafið akstur.

Karlar sem slíta meirihluta því að þeir átta sig á því að þessi mál falla fyrir daufum eyrum samstarfsflokka. Karlar sem átta sig á því að þolinmæli almennings eftir breytingum er á þrotum. Þessir karlar. Óttalegt vesen.

Að slíta meirihluta er ekki léttvæg ákvörðun og svo sannarlega ekki ákvörðun sem einn einstaklingur tekur. Jafnvel þótt að hann sé karlmaður. Þú slítur ekki meirihluta án þess að vera með liðið þitt með þér. En ef það eru karlarnir sem eru með vesen þá hlýt ég að vera ein af þeim.

Að taka þátt í meirihlutasamstarfi snerist ekki um að halda í titla eða stóla heldur trúnað við fólkið í borginni og þau verkefni sem okkur eru falin.

Orð sem fela í sér smættun á konum í stjórnmálum

Þetta snýst heldur ekki um kyn einstaklinganna sem hér um ræðir. Með þessu er ég ekki að segja að ég viti ekki að konur í stjórnmálum hafa lengi átt erfitt uppdráttar á þeim vettvangi og ég þekki vel það mótlæti sem konur upplifa í stjórnmálastarfi. Við í Framsókn viljum ekkert meira en jafnrétti allra kynja – en það að segja að karlarnir séu ,,með vesen og skelli öllu í uppnám” smættir aðra borgarfulltrúa Framsóknar sem eru kvenkyns. Borgarfulltrúa sem vilja taka stærri ákvarðanir en þessi meirihluti var tilbúinn að gera.

Borgarbúar eiga einmitt betra skilið.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Um trén og flugvöllinn

Deila grein

29/01/2025

Um trén og flugvöllinn

Að halda land­inu í byggð og tryggja at­vinnu um allt land kall­ar ekki ein­ung­is á innviðaupp­bygg­ingu held­ur kall­ar það líka á að sam­göngu­innviðum sé haldið við og rekstr­arör­yggi ekki raskað. Hér vísa ég auðvitað til umræðunn­ar um Reykja­vík­ur­flug­völl sem hef­ur þjónað Íslend­ing­um í ára­tugi – bæði sem sam­göngumiðstöð og lend­ing­arstaður sjúkra­flugs enda staðsett­ur í ná­vígi við Land­spít­al­ann. Í dreif­býlu landi skipt­ir trygg­ur rekst­ur flug­valla máli fyr­ir hraðar og greiðar sam­göng­ur á milli lands­hluta, sér í lagi til höfuðborg­ar­inn­ar þar sem mik­il þjón­usta við lands­menn alla hef­ur byggst upp.

Sitt sýn­ist hverj­um um staðsetn­ingu Reykja­vík­ur­flug­vall­ar og deilt hef­ur verið um staðsetn­ingu hans frá því áður en ég fædd­ist. Staðreynd­in er þó sú að árið 2019 skrifuðu ríki og borg und­ir sam­komu­lag um rekstr­arör­yggi flug­vall­ar­ins. Í því felst að rekstr­arör­yggi Reykja­vík­ur­flug­vall­ar verði tryggt á meðan und­ir­bún­ing­ur og gerð nýs flug­vall­ar, á jafn­góðum eða betri stað, stend­ur yfir. Sam­komu­lagið bind­ur þannig báða aðila til þess að gera ráðstaf­an­ir svo að Reykja­vík­ur­flug­völl­ur geti áfram þjónað inn­an­lands­flugi á full­nægj­andi hátt. Jafn góður eða betri staður hef­ur ekki enn verið fund­inn og jafn­vel þótt svo væri er ljóst að upp­bygg­ing á nýj­um flug­velli tek­ur mjög lang­an tíma. Þar af leiðandi er ekki út­lit fyr­ir að nýr flug­völl­ur verði kom­inn í gagnið í bráð. Það ligg­ur í hlut­ar­ins eðli að ríki og borg verða áfram að viðhalda flug­vell­in­um og tryggja rekstr­arör­yggi hans.

Græn svæði eru ómet­an­leg verðmæti fyr­ir okk­ur öll. Í Öskju­hlíðinni hef­ur vaxið fal­leg­ur skóg­ur sem íbú­um, þar á meðal mér sjálfri, þykir vænt um. Staðan er þó sú að trén eru tal­in hafa náð hæð sem hef­ur áhrif á flu­gör­yggi. Þegar horft er til þeirra hags­muna sem hér veg­ast á, ann­ars veg­ar að trén fái áfram að vaxa og hins veg­ar flu­gör­ygg­is fólks, hlýt­ur það síðar­nefnda að vega þyngra. Afstaðan er því skýr: ef það þarf að fella tré til að tryggja flu­gör­yggi, þá ber að fella þau tré sem nauðsyn kref­ur en tryggja um leið með mót­vægisaðgerðum að Öskju­hlíðin sé áfram grænt svæði. Þau tré sem þarf að fella verða því felld svo að flu­gör­yggi verði ekki teflt í tví­sýnu. Í staðinn mætti gróður­setja lág­reist­an skóg á ný og byggja upp fal­legt leik- og úti­vist­ar­svæði fyr­ir alla ald­urs­hópa. Það mætti til að mynda vinna í sam­starfi við skóla borg­ar­inn­ar, sem jafn­framt býður upp á tæki­færi til að fræða börn um mik­il­vægi skóg­rækt­ar og land­græðslu. Jafn­vel mætti þar staðsetja úti­kennslu­stofu. Lyk­il­atriðið er að þetta mál endi ekki sem enn eitt þolgott þrætu­epli á milli rík­is og borg­ar held­ur sé leyst með sam­vinnu þess­ara aðila far­sæl­lega og fljótt.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. janúar 2025.

Categories
Greinar

Við þurfum þjóðar­stefnu

Deila grein

23/01/2025

Við þurfum þjóðar­stefnu

Öryggi er ein af grunnþörfum fólks. Einn mikilvægur þáttur í öryggiskennd fólks er skjól gegn veðri og vindum. Okkur sem samfélagi ber að tryggja að þeir sem leita aðstoðar og verndar geti fengið húsaskjól. Á hverju ári leita um 300 einstaklingar, á aldrinum 18 til 70 ára, í neyðarskýli Reykjavíkurborgar fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir.

Neyðarskýli eru, eins og nafnið gefur til kynna, neyðarúrræði. Þau eru ekki hönnuð sem langtímalausn, hvað þá varanleg heimili. Í dag rekur Reykjavíkurborg þrjú neyðarskýli – tvö fyrir karla og eitt fyrir konur. Árið 2023 voru samtals 21.168 gistinætur skráðar í neyðarskýlum borgarinnar. Þó sumir dvelji þar aðeins í nokkra daga, dvelja aðrir þar árum saman. Til að bregðast við þessu hefur Reykjavíkurborg hafið uppbyggingu á þrepaskiptri þjónustu með það að markmiði að stuðla að varanlegri búsetu. Slík þjónusta hefur gefist vel erlendis og byggir á hugmyndafræðinni „húsnæði fyrst“ (e. Housing First).

Húsnæði fyrst

Hugmyndafræðin „húsnæði fyrst“ viðurkennir grunnþörf manna til húsaskjóls. Þegar henni er mætt dregur úr örvæntingu fólks og fólk getur þá betur ráðið við aðrar áskoranir lífsins, en heimilislausir einstaklingar glíma oft við geð- eða vímuefnavanda eða afleiðingar alvarlegra áfalla. Nágrannalönd okkar líta ekki á neyðarskýli sem langtímalausn og hafa byggt upp „húsnæði fyrst“ úrræði með góðum árangri. Reykjavíkurborg hefur verið að þróa þetta áfram á síðustu árum meðal annars með smáhýsum og búsetukjörnum með stuðningi.

Þrepaskipt þjónusta – endurskoðuð aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar

Í gær var endurskoðuð aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar með stefnu í málaflokki heimilislausra með miklar og flóknar þjónustuþarfir samþykkt í borgarstjórn með öllum greiddum atkvæðum. Þar er meðal annars lagt upp með að auka uppbyggingu á varanlegu húsnæði og þrepaskipta þjónustu við heimilislaust fólk. Markmiðið er að koma fólki í sjálfstæða búsetu eða húsnæði með stuðningi í stað neyðarskýla. Þjónustan skiptist í fjögur þrep og má líkja því við tröppugang. Fólk fær fyrst um sinn mikla þjónustu á meðan það vinnur úr ýmsum áskorunum og hefur sjálfstæða búsetu. Sú þjónusta minnkar ef fólk vill og er tilbúið að fara í næsta þrep í átt að sjálfstæðri og varanlegri búsetu. Samhliða aukinni áherslu á uppbyggingu varanlegs húsnæðis dregur oftast nær smám saman úr þörfinni fyrir neyðarrými. Fólk er þá alltaf í þjónustukeðjunni og fókusinn færist frá bráðalausnum yfir í sjálfbær úrræði sem styðja einstaklinga til sjálfshjálpar og leggja áherslu á skaðaminnkun.

Þörf fyrir samstarf milli sveitarfélaga

Heimilisleysi er ekki bundið við eitt sveitarfélag. Um þriðjungur þeirra sem dvelja í neyðarskýlum Reykjavíkur eru annaðhvort skráðir með lögheimili í öðrum sveitarfélögum eða án kennitölu. Þó flest sveitarfélög séu með samning við Reykjavíkurborg um greiðslu kostnaðar sem fellur til vegna dvalar íbúa í neyðarskýlum eru dæmi um að sveitarfélög hafni því að greiða fyrir þessa þjónustu. Þau hafa jafnvel hvatt til þess að lögheimili íbúa sé fært til Reykjavíkur. Þá mun ofangreind húsnæðisuppbygging Reykjavíkurborgar einungis þjóna íbúum Reykjavíkurborgar enda fá einstaklingar einungis úthlutað húsnæði á félagslegum grundvelli í þeirra lögheimilissveitarfélagi. Hér er markmiðið ekki að lasta önnur sveitarfélög. Heldur að varpa ljósi á þá stöðu sem kann að skapast samhliða aukinni uppbyggingu á „húsnæði fyrst“ úrræðum þ.e. að notendur neyðarskýla borgarinnar verði að mestu íbúar annarra sveitarfélaga ráðist önnur sveitarfélög ekki í sambærilega uppbyggingu fyrir sína íbúa. Slíkt fyrirkomulag væri ekki sjálfbært og ekki til þess að skapa fólki mannsæmandi líf.

Þjóðarstefna – hagur allra

Fólk sem býr við heimilisleysi eru mun líklegri en aðrir til að glíma við geðrænar áskoranir, líkamleg veikindi, vímuefnavanda og þunga áfallasögu. Aukinheldur eru þau líklegri til að eiga mál innan réttarvörslukerfisins og þurfa á aðkomu heilbrigðiskerfisins að halda fremur en einstaklingar sem tilheyra ekki þessum hópi. Veikindi geta leitt til þess að sumir þurfa á hjúkrunarrými á að halda þrátt fyrir að vera undir aldursviðmiðun hjúkrunarheimila. Heimilislausar konur eru þá mun líklegri til að verða fyrir kynferðisofbeldi og ofbeldi í nánum samböndum er ein algengasta orsök heimilisleysis kvenna. Það er því nauðsynlegt að samþætta þjónustu kerfa til að mæta þörfum fólks á heildstæðan hátt.

Úrræði eins og „húsnæði fyrst“ og markviss stuðningur getur dregið úr kostnaði í heilbrigðis- og réttarkerfinu. Erlendis hefur það reynst draga úr fjölda bráðakoma og innlagna á sjúkrahús, notkunar á neyðarathvörfum sem og tíðni fangelsunar og vímuefnameðferða. Mikilvægast er þó að varanlegt húsnæði bætir lífsgæði einstaklinga og fjölskyldna þeirra. Það er því hagur ríkisins að taka með virkari hætti þátt í slíkri uppbyggingu.

Þjóðarstefna sem byggir á skaðaminnkun og samþættingu á þjónustu fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir sem og skilgreiningu á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga er þjóðþrifamál. Ekki aðeins fyrir hag þeirra sem þurfa mest á hjálp að halda, heldur fyrir allt samfélagið.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. janúar 2025.

Categories
Greinar

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Deila grein

06/12/2024

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Það er vel við hæfi að dagur sjálfboðaliðans sé haldinn hátíðlegur stuttu eftir nýafstaðnar kosningar. Þessi dagur minnir okkur á þá ómetanlegu vinnu sem sjálfboðaliðar inna af hendi við að halda uppi flokksstarfi og kosningabaráttu.

Samvinnuverkefni

Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem eiga öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Grasrótin er hjartað í kosningabaráttunni – hópurinn sem stendur vaktina frá morgni til kvölds við að skipuleggja viðburði, taka á móti gestum og hringja í kjósendur. Hún lætur hvorki skoðanakannanir né aðrar aðstæður slá sig út af laginu. Heldur brettir upp ermar og leggur sitt af mörkum – af hugsjón. Við sem störfum í stjórnmálum eigum þessum bakhjörlum allt að þakka. Það er þessi kraftmikla og ósérhlífna grasrót sem gerir stjórnmálastarf mögulegt.

Sjálfboðaliðinn: Stoð samfélagsins

Náttúruhamfarir minna okkur reglulega á mikilvægi sjálfboðaliðans. Hvort sem um er að ræða eldgos, snjóflóð eða ófærð vegna veðurs, eru þeir ávallt reiðubúnir til að hlúa að samfélaginu. Með umhyggju og ósérhlífni leggja þeir sig fram við að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Á hverjum degi leggja sjálfboðaliðar ómetanlega vinnu í samfélagsleg verkefni og félagsstarf. Þeir eru burðarásar í íþróttafélögum, foreldrafélögum, kvenfélögum og mannúðarfélögum, svo fátt eitt sé nefnt. Í raun má segja að sjálfboðaliðar séu ein mikilvægasta stoðin sem samfélag okkar hvílir á.

Þakklæti

Í dag vil ég sérstaklega þakka félögum mínum í Framsókn fyrir óeigingjarnt starf í nýafstaðinni kosningabaráttu. Um leið vil ég þakka öllum þeim sem sinna sjálfboðaliðastarfi víðsvegar um landið fyrir það mikilvæga starf sem þeir inna af hendi í þágu samfélagsins.

Takk fyrir ykkar framlag og gleðilegan dag sjálfboðaliðans.

Skrifað í tilefni af degi sjálfboðaliðans 5. desember.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. desember 2024.

Categories
Greinar

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

Deila grein

09/09/2024

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

„Ég svelt þá í nafni kvenréttinda” eru orð foreldris sem mætti á borgaraþing um málefni 0-6 ára í Reykjavík vegna gagnrýni á heimgreiðslur. Skoðunin er sennilega speglun á skoðun margra heimila í sömu stöðu sem eru búin með fæðingarorlofið og róa þungan róður vegna tekjutaps því að dagvistunarpláss eru af skornum skammti. Róðurinn er enn þyngri í þrálátri verðbólgu þó að þú sýnir fyrirhyggju með því að dreifa fæðingarorlofinu yfir lengri tíma eða jafnvel sparir fyrir tekjutapinu sem fylgir barneignum. Hvað þá ef einungis eitt foreldrið getur aflað tekna á meðan beðið er eftir dagvistun.

Ekkert er nýtt undir sólinni

Hugmyndir um greiðslur til foreldra vegna umönnunar barna sinna eru ekki nýjar af nálinni hérlendis. Slíkar greiðslur hafi gengið undir ýmsum nöfnum m.a. foreldrastyrkur, heimgreiðsla, umönnunargreiðsla, foreldragreiðsla, biðlistagreiðsla og þjónustutrygging.

Árið 2008 var sett á þjónustutrygging í Reykjavík sem fól í sér greiðslur til foreldra á meðan börn þeirra voru á biðlista eftir dagvistun. Nýlega hafa nokkur sveitarfélög tekið upp slíkar greiðslur til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Í dæmaskyni má nefna Hafnarfjörð, Garðabæ og Hveragerði. Umræddar umönnunargreiðslur eiga það þó sameiginlegt að falla niður þegar barn fær dagvistun.

Umönnunargreiðslur eru einnig vel þekktar á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Ólíkt því sem tíðkast hérlendis hefur markmið þeirra erlendis jafnan verið að auka val foreldra. Hérlendis hefur yfirlýst markmið þeirra hins vegar ekki verið að auka val foreldra, heldur frekar að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistar. Greiðslurnar hafa því verið bundnar við virka umsókn um dagvistun og hafa þær fallið niður þegar vistun hefst.

Ógn við jafnrétti?

Ég hef alla tíð verið mikill femínisti og er alin upp við mikilvægi þess að tryggja réttindi kvenna. Því situr í mér sú staðhæfing sem stundum er haldið fram að heimgreiðslur vinni gegn jafnrétti. Þau sem eru á móti heimgreiðslum hafa meðal annars bent á möguleg áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur séu líklegri til að vera heima vegna þeirra. Slík röksemdafærsla virðist byggð á því að fólk geti valið að senda barn ekki í leikskóla og fengið greiðslur heim í staðinn. Það er þó ekki í takt við það sem hefur átt sér stað hérlendis enda hafa greiðslurnar, eins og fyrr segir, verið bundnar við virka umsókn um dagvistun barns. Þannig má segja að foreldrið sem fær greiðslurnar væri því hvort sem er heima að hugsa um barnið, án tekna, vegna þess að barnið fær ekki dagvistun að fæðingarorlofi loknu. Greiðslurnar koma þá að einhverju leyti til móts við það tekjutap sem foreldrar verða fyrir vegna þess að börn fá ekki dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi. Það má því spyrja sig hvort betra er að foreldrar séu heima alveg án tekna eða fái greiðslur sem að hjálpa til við að halda heimilisbókhaldinu réttu megin við núllið.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi leikskólans fyrir menntun og þroska barna og fyrir tekjuöflun og þátttöku foreldra á vinnumarkaði. Leikskólakerfið hefur einnig stuðlað að jafnari atvinnuþátttöku foreldra. En ef við horfum á stöðuna í leikskólamálum blákalt er ljóst að sú staða mun ekki breytast í bráð jafnvel þó að það sé eitt að forgangsverkefnum sveitarfélaga að tryggja yngstu íbúunum leikskólavist. Því þó við myndum bæta við nægjanlega mörgum byggingum undir starfsemi leikskóla og tryggja ávallt nægilegt fjármagn þá þarf að manna stöður leikskólakennara sem eru ekki að finna á hverju strái. Fjölgun einstaklinga í mikilvægri stétt leikskólakennara er verðugt markmið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta foreldrum sem eru í bráðum vanda og bíða eftir dagvistunarplássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt.

Markmiðið með þjónustutryggingunni í Reykjavík árið 2008 var að tryggja „jafnræði borgaranna og jafnrétti kynja, að því leyti að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“ Krafa var gerð um virka umsókn um dagvistun og greiðslurnar voru skilyrtar þannig að hvort foreldri um sig fékk að hámarki greitt fyrir 2/3 af heildartímabilinu. Slík skilyrðing á greiðslu getur verið mótvægi við hættunni á að einungis konur nýti sér umræddar greiðslur og stuðlar að því að báðir foreldrar skipti umönnunartímabilinu á jafnari hátt sín á milli, líkt og við þekkjum í fæðingarorlofskerfinu.

Þá hefur því verið haldið fram að það séu börnin sem mest þurfi á því að halda að fara í leikskóla sem séu heima vegna heimgreiðslna, t.d. börn innflytjenda sem þurfi að tileinka sér tungumál þess lands sem þau búa í. Þetta á ekki við rök að styðjast því að heimgreiðslurnar eru skilyrtar þannig að þær falla niður þegar tilboð um dagvistun berst og vistun hefst. Ljóst er þó að huga þarf sérstaklega að börnum sem eru ekki í leikskóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með einhverjum hætti. Einnig þarf að huga sérstaklega vel að börnum af erlendum uppruna og tungumálakunnáttu þeirra og ef til vill er mögulegt að vera með íslenskukennslu á þessum biðtíma. Við þurfum að hafa hugrekki til að horfa út fyrir kassann og leita leiða til bæta hag foreldra ungra barna þó ekki sé hægt að ná óskastöðunni strax. Það er hagur okkar allra að á Íslandi sé skapaður jarðvegur sem öll börn geta blómstrað í.

Hvað er börnunum fyrir bestu?

Rannsóknir hafa ítrekað bent á mikilvægi fyrstu áranna í lífi einstaklings og tengsl foreldra og barna. Þau sem hafa verið hlynnt valfrjálsum heimgreiðslunum hafa bent á það og telja að það sé almennt betra fyrir ung börn að vera lengur í umönnun foreldra. Margir foreldrar vilja þá dvelja lengur heima með börnum sínum eftir fæðingu.

Mín skoðun er sú að það eigi að vera á ábyrgð ríkisins að þróa fæðingarorlof í samræmi við vilja og óskir foreldra og sveitarfélaganna að bjóða upp á dagvistun til að foreldrar geti stundað vinnu. Ríkið gæti því lengt fæðingarorlofið til að mæta röddum foreldra sem vilja vera lengur heima. Reyndar er það svo að ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að vinna saman að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla í síðustu kjarasamningum.

Heimgreiðslur geta hins vegar létt undir með foreldrum sem eru tilneyddir að taka lengra hlé frá vinnu en sem nemur fæðingarorlofi, vegna þess að þau fá ekki dagvistunarpláss, og hjálpað þeim að forðast fjárhagslega krísu. Erfiður fjárhagur hefur ekki síður áhrif á stöðu barna en foreldra á marga vegu. Heimgreiðslur geta því verið ákveðin lausn til að mæta foreldrum sem hafa lokið fæðingarorlofi en eru í bið eftir leikskólavist og væru án þeirra tekjulausir þetta tímabil með tilheyrandi fjárhagsbasli og álagi á tíma sem á að vera gefandi og gleðiríkur með þeim sem erfa munu landið.

Ef samþykkt verður að taka upp heimgreiðslu þarf að rýna vel félagslegu áhrifin af þeim s.s. áhrif á jafnrétti og velferð barna en gæta um leið að missa ekki sjónar á markmiðinu um að bjóða upp á nægjanlegt framboð af dagvistun að fæðingarorlofi loknu, svo foreldrar geti stundað nám sitt eða vinnu og lagt sitt að mörkum til að byggja upp okkar ágæta velferðarkerfi.

Fyrst og fremst snýst þetta um börnin og foreldra þeirra, sem mörg hver eru í stórkostlegum vanda með að brúa bilið og ná endum saman. Við eigum að hlusta á foreldra og taka þeirra óskum og ábendingum alvarlega. Þær eru ekki aukaatriði og stjórnmálin verða hverju sinni að ganga varlega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu og takmarka möguleika þeirra til að lifa lífi sínu á eigin forsendum út frá hugmyndafræði. Nú ríkir neyðarástand hjá foreldrum barna sem bíða eftir dagvistun meðal annars vegna innviðaskuldar síðustu kjörtímabila í viðhaldi skólabygginga og skorts á starfsfólki. Það er okkar verkefni að létta róðurinn með því að leggjast á árarnar og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Tímabundnar og skilyrtar heimgreiðslur eru einn valkostur til þess að leysa úr þessum vanda. Við megum ekki gleyma því að börn og foreldrar lifa þennan raunveruleika í dag, á meðan rifist er yfir gömlum kreddum.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þakk­læti

Deila grein

09/08/2024

Þakk­læti

Nú þegar hinsegindagar standa yfir er þakklæti mér efst í huga. Þakklæti fyrir það fólk sem hefur barist fyrir réttindum hinsegin fólks svo að við öll fáum að búa í opnara og frjálsara samfélagi.

Ég nýt þeirra forréttinda að hafa alist upp á Íslandi, í samfélagi sem á mælikvarða heimsins er opið og frjálst land. Land þar sem fólk má elska þann sem það elskar, giftast og stofna fjölskyldu með aðila af sama kyni og skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar. Þar sem umræða um hinseginleikann og fjölbreytileika mannkyns er opin í það minnsta mun opnari en hún var áður og mun opnari en hún er víðast hvar í heiminum, þótt margt sé enn óunnið og baráttunni alls ekki lokið.

Þegar ég var unglingur stundaði ég nám við alþjóðlegan menntaskóla í Noregi og síðar vann ég í alþjóðlegum menntaskóla í Taílandi. Það var mikil lífsskólun að búa með 200 unglingum frá um 95 löndum. Fyrir utan að eignast vini frá ólíkum menningarheimum fékk ég líka innsýn inn í þessa menningarheima og stöðu samnemenda minna í þeirra heimalöndum, einkum þegar kom að hinseginleika. Sum þeirra höfðu lagt sig fram við að sækja um skóla annarsstaðar í heiminum til þess að komast frá þeim veruleika sem blasti við þeim heima fyrir þar sem þau voru ekki samþykkt fyrir að vera þau.

Fleiri en einn samkynhneigður skólafélagi minn frá löndum í Suður-Ameríku höfðu verið send í prógram sem átti að vera til þess fallið að gera þau gagnkynhneigð, eins og kynhneigð sé val eða ,,eitthvað til að laga.” Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þann sálarlega skaða sem slíkt prógram veldur einstaklingi. Það var sárt að heyra af raunum þessara samnemenda sem gerðu ekkert rangt heldur voru dæmd fyrir að vera þau sjálf af bæði fjölskyldum þeirra og samfélaginu. Það er allt rangt við það.

Í störfum mínum við alþjóðlegan menntaskóla í Taílandi áttaði ég mig á því að hinsegin samfélagið innan skólans vantaði samastað og sýnileika. Ég réðist því í það verkefni að stofna félagsstarf sem stuðlaði að fræðslu og umræðu um hinseginleikann og skipulagði gleðigöngu innan skólans. Fljótt var ljóst að mikil nauðsyn var fyrir þessum vettvangi. Nemandi frá afskekktu þorpi í Pakistan hafði aldrei heyrt um samkynhneigð eða hinseginleika. Þetta var aldrei rætt í hans þorpi og engar hinsegin fyrirmyndir voru í hans samfélagi. Fróðleiksþorsti hans var því mikill. Ég man hvað það kom mér á óvart að hann hafði aldrei heyrt um hugtök eins og ‘hinseginleiki’ enda er ég fædd árið 1997 á Íslandi og ólst upp í samfélagi þar sem flestir þekkja og skilja hugtök sem falla undir regnhlífarhugtakið ,,hinsegin” og í gegnum barnæskuna fylgdist ég með réttindabaráttu hinsegin fólks og samfélaginu mínu þróast í opnari og réttlátari átt. Þegar ég var að skipuleggja gleðigönguna með nemendum skólans brugðust sumir foreldrar barna í skólanum vægast sagt illa við. Veggspjöld sem auglýstu gönguna voru tekin niður og ég gleymi því aldrei þegar skólastjórinn sagði mér að foreldri hefði mætt á skrifstofuna sína til að tilkynna skólanum að hann hyggðist láta barnið sitt skipta um skóla vegna göngunnar. Það sem ég var þakklát skólastjórnendum fyrir að standa með mér og nemendum í þessu máli. Það hefði ef til vill verið auðveldara fyrir þá að hlusta á reiða fordómafulla foreldra sem vildu banna hinsegin sýnileika og samstöðu innan veggja skólans.

Þessar sögur eru áminning um mikilvægi opinnar umræðu og fræðslu um hinseginleika og sýnileika fjölbreytileikans til þess að vinna gegn fáfræði og fordómum. Þær minna okkur á hvað við höfum náð langt í samfélagslegri umræðu og viðurkenningu á lagalegum réttindum hinsegin fólks hérlendis. Því miður hafa verið teikn á lofti um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Við þurfum að stíga fast til jarðar gegn þeirri þróun og uppræta fordóma í okkar nærumhverfi. Við megum ekki láta efasemdaraddir um mikilvægi hinseginfræðslu stjórna því hvort hinseginfræðsla sé kennd í skólum landsins. Okkur ber skylda til að fræða um fjölbreytileikann og mannréttindi einstaklinga. Í því samhengi má einnig benda á að ungmennaráð víða um land hafa óskað eftir aukinni hinseginfræðslu. Unga fólkið okkar vill fræðast meira um hinseginleikann.

Það er hagur okkur allra að fólki líði vel í eigin skinni og fái að lifa í frjálsu og opnu samfélagi þar sem það er samþykkt eins og það er.

Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur rutt brautina og barist og berst enn fyrir réttindum hinseginfólks. Það er fyrir ykkar baráttu að Ísland er í 2. sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks og í efsta sæti á réttindakorti transfólks í Evrópu.

Gleðilega hinsegin daga!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. ágúst 2024.