Categories
Greinar

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Deila grein

06/12/2024

Burðar­ásar sam­fé­lagsins

Það er vel við hæfi að dagur sjálfboðaliðans sé haldinn hátíðlegur stuttu eftir nýafstaðnar kosningar. Þessi dagur minnir okkur á þá ómetanlegu vinnu sem sjálfboðaliðar inna af hendi við að halda uppi flokksstarfi og kosningabaráttu.

Samvinnuverkefni

Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem eiga öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Grasrótin er hjartað í kosningabaráttunni – hópurinn sem stendur vaktina frá morgni til kvölds við að skipuleggja viðburði, taka á móti gestum og hringja í kjósendur. Hún lætur hvorki skoðanakannanir né aðrar aðstæður slá sig út af laginu. Heldur brettir upp ermar og leggur sitt af mörkum – af hugsjón. Við sem störfum í stjórnmálum eigum þessum bakhjörlum allt að þakka. Það er þessi kraftmikla og ósérhlífna grasrót sem gerir stjórnmálastarf mögulegt.

Sjálfboðaliðinn: Stoð samfélagsins

Náttúruhamfarir minna okkur reglulega á mikilvægi sjálfboðaliðans. Hvort sem um er að ræða eldgos, snjóflóð eða ófærð vegna veðurs, eru þeir ávallt reiðubúnir til að hlúa að samfélaginu. Með umhyggju og ósérhlífni leggja þeir sig fram við að styðja við þá sem þurfa á aðstoð að halda.

Á hverjum degi leggja sjálfboðaliðar ómetanlega vinnu í samfélagsleg verkefni og félagsstarf. Þeir eru burðarásar í íþróttafélögum, foreldrafélögum, kvenfélögum og mannúðarfélögum, svo fátt eitt sé nefnt. Í raun má segja að sjálfboðaliðar séu ein mikilvægasta stoðin sem samfélag okkar hvílir á.

Þakklæti

Í dag vil ég sérstaklega þakka félögum mínum í Framsókn fyrir óeigingjarnt starf í nýafstaðinni kosningabaráttu. Um leið vil ég þakka öllum þeim sem sinna sjálfboðaliðastarfi víðsvegar um landið fyrir það mikilvæga starf sem þeir inna af hendi í þágu samfélagsins.

Takk fyrir ykkar framlag og gleðilegan dag sjálfboðaliðans.

Skrifað í tilefni af degi sjálfboðaliðans 5. desember.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. desember 2024.

Categories
Greinar

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

Deila grein

09/09/2024

Ég svelt þá í nafni kven­réttinda

„Ég svelt þá í nafni kvenréttinda” eru orð foreldris sem mætti á borgaraþing um málefni 0-6 ára í Reykjavík vegna gagnrýni á heimgreiðslur. Skoðunin er sennilega speglun á skoðun margra heimila í sömu stöðu sem eru búin með fæðingarorlofið og róa þungan róður vegna tekjutaps því að dagvistunarpláss eru af skornum skammti. Róðurinn er enn þyngri í þrálátri verðbólgu þó að þú sýnir fyrirhyggju með því að dreifa fæðingarorlofinu yfir lengri tíma eða jafnvel sparir fyrir tekjutapinu sem fylgir barneignum. Hvað þá ef einungis eitt foreldrið getur aflað tekna á meðan beðið er eftir dagvistun.

Ekkert er nýtt undir sólinni

Hugmyndir um greiðslur til foreldra vegna umönnunar barna sinna eru ekki nýjar af nálinni hérlendis. Slíkar greiðslur hafi gengið undir ýmsum nöfnum m.a. foreldrastyrkur, heimgreiðsla, umönnunargreiðsla, foreldragreiðsla, biðlistagreiðsla og þjónustutrygging.

Árið 2008 var sett á þjónustutrygging í Reykjavík sem fól í sér greiðslur til foreldra á meðan börn þeirra voru á biðlista eftir dagvistun. Nýlega hafa nokkur sveitarfélög tekið upp slíkar greiðslur til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Í dæmaskyni má nefna Hafnarfjörð, Garðabæ og Hveragerði. Umræddar umönnunargreiðslur eiga það þó sameiginlegt að falla niður þegar barn fær dagvistun.

Umönnunargreiðslur eru einnig vel þekktar á Norðurlöndunum og víðar í Evrópu. Ólíkt því sem tíðkast hérlendis hefur markmið þeirra erlendis jafnan verið að auka val foreldra. Hérlendis hefur yfirlýst markmið þeirra hins vegar ekki verið að auka val foreldra, heldur frekar að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og dagvistar. Greiðslurnar hafa því verið bundnar við virka umsókn um dagvistun og hafa þær fallið niður þegar vistun hefst.

Ógn við jafnrétti?

Ég hef alla tíð verið mikill femínisti og er alin upp við mikilvægi þess að tryggja réttindi kvenna. Því situr í mér sú staðhæfing sem stundum er haldið fram að heimgreiðslur vinni gegn jafnrétti. Þau sem eru á móti heimgreiðslum hafa meðal annars bent á möguleg áhrif á jafnrétti kynjanna þar sem konur séu líklegri til að vera heima vegna þeirra. Slík röksemdafærsla virðist byggð á því að fólk geti valið að senda barn ekki í leikskóla og fengið greiðslur heim í staðinn. Það er þó ekki í takt við það sem hefur átt sér stað hérlendis enda hafa greiðslurnar, eins og fyrr segir, verið bundnar við virka umsókn um dagvistun barns. Þannig má segja að foreldrið sem fær greiðslurnar væri því hvort sem er heima að hugsa um barnið, án tekna, vegna þess að barnið fær ekki dagvistun að fæðingarorlofi loknu. Greiðslurnar koma þá að einhverju leyti til móts við það tekjutap sem foreldrar verða fyrir vegna þess að börn fá ekki dagvistun strax að loknu fæðingarorlofi. Það má því spyrja sig hvort betra er að foreldrar séu heima alveg án tekna eða fái greiðslur sem að hjálpa til við að halda heimilisbókhaldinu réttu megin við núllið.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi leikskólans fyrir menntun og þroska barna og fyrir tekjuöflun og þátttöku foreldra á vinnumarkaði. Leikskólakerfið hefur einnig stuðlað að jafnari atvinnuþátttöku foreldra. En ef við horfum á stöðuna í leikskólamálum blákalt er ljóst að sú staða mun ekki breytast í bráð jafnvel þó að það sé eitt að forgangsverkefnum sveitarfélaga að tryggja yngstu íbúunum leikskólavist. Því þó við myndum bæta við nægjanlega mörgum byggingum undir starfsemi leikskóla og tryggja ávallt nægilegt fjármagn þá þarf að manna stöður leikskólakennara sem eru ekki að finna á hverju strái. Fjölgun einstaklinga í mikilvægri stétt leikskólakennara er verðugt markmið en það mun taka tíma og því þarf að leita annarra leiða og lausna til að mæta foreldrum sem eru í bráðum vanda og bíða eftir dagvistunarplássi. Það er bara ekki hægt að gera ekki neitt.

Markmiðið með þjónustutryggingunni í Reykjavík árið 2008 var að tryggja „jafnræði borgaranna og jafnrétti kynja, að því leyti að gera báðum foreldrum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf.“ Krafa var gerð um virka umsókn um dagvistun og greiðslurnar voru skilyrtar þannig að hvort foreldri um sig fékk að hámarki greitt fyrir 2/3 af heildartímabilinu. Slík skilyrðing á greiðslu getur verið mótvægi við hættunni á að einungis konur nýti sér umræddar greiðslur og stuðlar að því að báðir foreldrar skipti umönnunartímabilinu á jafnari hátt sín á milli, líkt og við þekkjum í fæðingarorlofskerfinu.

Þá hefur því verið haldið fram að það séu börnin sem mest þurfi á því að halda að fara í leikskóla sem séu heima vegna heimgreiðslna, t.d. börn innflytjenda sem þurfi að tileinka sér tungumál þess lands sem þau búa í. Þetta á ekki við rök að styðjast því að heimgreiðslurnar eru skilyrtar þannig að þær falla niður þegar tilboð um dagvistun berst og vistun hefst. Ljóst er þó að huga þarf sérstaklega að börnum sem eru ekki í leikskóla, greina hvers vegna svo er og hvort ástæða sé til að mæta því með einhverjum hætti. Einnig þarf að huga sérstaklega vel að börnum af erlendum uppruna og tungumálakunnáttu þeirra og ef til vill er mögulegt að vera með íslenskukennslu á þessum biðtíma. Við þurfum að hafa hugrekki til að horfa út fyrir kassann og leita leiða til bæta hag foreldra ungra barna þó ekki sé hægt að ná óskastöðunni strax. Það er hagur okkar allra að á Íslandi sé skapaður jarðvegur sem öll börn geta blómstrað í.

Hvað er börnunum fyrir bestu?

Rannsóknir hafa ítrekað bent á mikilvægi fyrstu áranna í lífi einstaklings og tengsl foreldra og barna. Þau sem hafa verið hlynnt valfrjálsum heimgreiðslunum hafa bent á það og telja að það sé almennt betra fyrir ung börn að vera lengur í umönnun foreldra. Margir foreldrar vilja þá dvelja lengur heima með börnum sínum eftir fæðingu.

Mín skoðun er sú að það eigi að vera á ábyrgð ríkisins að þróa fæðingarorlof í samræmi við vilja og óskir foreldra og sveitarfélaganna að bjóða upp á dagvistun til að foreldrar geti stundað vinnu. Ríkið gæti því lengt fæðingarorlofið til að mæta röddum foreldra sem vilja vera lengur heima. Reyndar er það svo að ríki og sveitarfélög hafa skuldbundið sig til að vinna saman að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla í síðustu kjarasamningum.

Heimgreiðslur geta hins vegar létt undir með foreldrum sem eru tilneyddir að taka lengra hlé frá vinnu en sem nemur fæðingarorlofi, vegna þess að þau fá ekki dagvistunarpláss, og hjálpað þeim að forðast fjárhagslega krísu. Erfiður fjárhagur hefur ekki síður áhrif á stöðu barna en foreldra á marga vegu. Heimgreiðslur geta því verið ákveðin lausn til að mæta foreldrum sem hafa lokið fæðingarorlofi en eru í bið eftir leikskólavist og væru án þeirra tekjulausir þetta tímabil með tilheyrandi fjárhagsbasli og álagi á tíma sem á að vera gefandi og gleðiríkur með þeim sem erfa munu landið.

Ef samþykkt verður að taka upp heimgreiðslu þarf að rýna vel félagslegu áhrifin af þeim s.s. áhrif á jafnrétti og velferð barna en gæta um leið að missa ekki sjónar á markmiðinu um að bjóða upp á nægjanlegt framboð af dagvistun að fæðingarorlofi loknu, svo foreldrar geti stundað nám sitt eða vinnu og lagt sitt að mörkum til að byggja upp okkar ágæta velferðarkerfi.

Fyrst og fremst snýst þetta um börnin og foreldra þeirra, sem mörg hver eru í stórkostlegum vanda með að brúa bilið og ná endum saman. Við eigum að hlusta á foreldra og taka þeirra óskum og ábendingum alvarlega. Þær eru ekki aukaatriði og stjórnmálin verða hverju sinni að ganga varlega þann veg að ákveða hvað sé fólki fyrir bestu og takmarka möguleika þeirra til að lifa lífi sínu á eigin forsendum út frá hugmyndafræði. Nú ríkir neyðarástand hjá foreldrum barna sem bíða eftir dagvistun meðal annars vegna innviðaskuldar síðustu kjörtímabila í viðhaldi skólabygginga og skorts á starfsfólki. Það er okkar verkefni að létta róðurinn með því að leggjast á árarnar og brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla. Tímabundnar og skilyrtar heimgreiðslur eru einn valkostur til þess að leysa úr þessum vanda. Við megum ekki gleyma því að börn og foreldrar lifa þennan raunveruleika í dag, á meðan rifist er yfir gömlum kreddum.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Þakk­læti

Deila grein

09/08/2024

Þakk­læti

Nú þegar hinsegindagar standa yfir er þakklæti mér efst í huga. Þakklæti fyrir það fólk sem hefur barist fyrir réttindum hinsegin fólks svo að við öll fáum að búa í opnara og frjálsara samfélagi.

Ég nýt þeirra forréttinda að hafa alist upp á Íslandi, í samfélagi sem á mælikvarða heimsins er opið og frjálst land. Land þar sem fólk má elska þann sem það elskar, giftast og stofna fjölskyldu með aðila af sama kyni og skilgreina sig utan kynjatvíhyggjunnar. Þar sem umræða um hinseginleikann og fjölbreytileika mannkyns er opin í það minnsta mun opnari en hún var áður og mun opnari en hún er víðast hvar í heiminum, þótt margt sé enn óunnið og baráttunni alls ekki lokið.

Þegar ég var unglingur stundaði ég nám við alþjóðlegan menntaskóla í Noregi og síðar vann ég í alþjóðlegum menntaskóla í Taílandi. Það var mikil lífsskólun að búa með 200 unglingum frá um 95 löndum. Fyrir utan að eignast vini frá ólíkum menningarheimum fékk ég líka innsýn inn í þessa menningarheima og stöðu samnemenda minna í þeirra heimalöndum, einkum þegar kom að hinseginleika. Sum þeirra höfðu lagt sig fram við að sækja um skóla annarsstaðar í heiminum til þess að komast frá þeim veruleika sem blasti við þeim heima fyrir þar sem þau voru ekki samþykkt fyrir að vera þau.

Fleiri en einn samkynhneigður skólafélagi minn frá löndum í Suður-Ameríku höfðu verið send í prógram sem átti að vera til þess fallið að gera þau gagnkynhneigð, eins og kynhneigð sé val eða ,,eitthvað til að laga.” Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þann sálarlega skaða sem slíkt prógram veldur einstaklingi. Það var sárt að heyra af raunum þessara samnemenda sem gerðu ekkert rangt heldur voru dæmd fyrir að vera þau sjálf af bæði fjölskyldum þeirra og samfélaginu. Það er allt rangt við það.

Í störfum mínum við alþjóðlegan menntaskóla í Taílandi áttaði ég mig á því að hinsegin samfélagið innan skólans vantaði samastað og sýnileika. Ég réðist því í það verkefni að stofna félagsstarf sem stuðlaði að fræðslu og umræðu um hinseginleikann og skipulagði gleðigöngu innan skólans. Fljótt var ljóst að mikil nauðsyn var fyrir þessum vettvangi. Nemandi frá afskekktu þorpi í Pakistan hafði aldrei heyrt um samkynhneigð eða hinseginleika. Þetta var aldrei rætt í hans þorpi og engar hinsegin fyrirmyndir voru í hans samfélagi. Fróðleiksþorsti hans var því mikill. Ég man hvað það kom mér á óvart að hann hafði aldrei heyrt um hugtök eins og ‘hinseginleiki’ enda er ég fædd árið 1997 á Íslandi og ólst upp í samfélagi þar sem flestir þekkja og skilja hugtök sem falla undir regnhlífarhugtakið ,,hinsegin” og í gegnum barnæskuna fylgdist ég með réttindabaráttu hinsegin fólks og samfélaginu mínu þróast í opnari og réttlátari átt. Þegar ég var að skipuleggja gleðigönguna með nemendum skólans brugðust sumir foreldrar barna í skólanum vægast sagt illa við. Veggspjöld sem auglýstu gönguna voru tekin niður og ég gleymi því aldrei þegar skólastjórinn sagði mér að foreldri hefði mætt á skrifstofuna sína til að tilkynna skólanum að hann hyggðist láta barnið sitt skipta um skóla vegna göngunnar. Það sem ég var þakklát skólastjórnendum fyrir að standa með mér og nemendum í þessu máli. Það hefði ef til vill verið auðveldara fyrir þá að hlusta á reiða fordómafulla foreldra sem vildu banna hinsegin sýnileika og samstöðu innan veggja skólans.

Þessar sögur eru áminning um mikilvægi opinnar umræðu og fræðslu um hinseginleika og sýnileika fjölbreytileikans til þess að vinna gegn fáfræði og fordómum. Þær minna okkur á hvað við höfum náð langt í samfélagslegri umræðu og viðurkenningu á lagalegum réttindum hinsegin fólks hérlendis. Því miður hafa verið teikn á lofti um bakslag í réttindabaráttu hinsegin fólks. Við þurfum að stíga fast til jarðar gegn þeirri þróun og uppræta fordóma í okkar nærumhverfi. Við megum ekki láta efasemdaraddir um mikilvægi hinseginfræðslu stjórna því hvort hinseginfræðsla sé kennd í skólum landsins. Okkur ber skylda til að fræða um fjölbreytileikann og mannréttindi einstaklinga. Í því samhengi má einnig benda á að ungmennaráð víða um land hafa óskað eftir aukinni hinseginfræðslu. Unga fólkið okkar vill fræðast meira um hinseginleikann.

Það er hagur okkur allra að fólki líði vel í eigin skinni og fái að lifa í frjálsu og opnu samfélagi þar sem það er samþykkt eins og það er.

Ég vil þakka öllu því fólki sem hefur rutt brautina og barist og berst enn fyrir réttindum hinseginfólks. Það er fyrir ykkar baráttu að Ísland er í 2. sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks og í efsta sæti á réttindakorti transfólks í Evrópu.

Gleðilega hinsegin daga!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. ágúst 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Stað­bundið neyslu­rými: Stórt skref í skaða­minnkun

Deila grein

08/08/2024

Stað­bundið neyslu­rými: Stórt skref í skaða­minnkun

Í nokkur ár hefur Rauði Krossinn rekið færanlegt skaðaminnkandi úrræði í bíl, Frú Ragnheiði, sem þjónustað hefur fjölda fólks sem glímt hefur við fíknisjúkdóma. Markmið Frú Ragnheiðar, sem ekur um götur borgarinnar og sækir fólk heim, er að fyrirbyggja þann skaða og þá áhættu sem kann að hljótast af notkun vímuefna fremur en að fyrirbyggja notkunina sjálfa og koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll og óafturkræfan skaða. Þar er veitt lágþröskuldaþjónusta svo sem nálaskiptaþjónusta.

Fyrir þremur árum gerðu velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Rauði Krossinn samning um rekstur færanlegs neyslurýmis í bíl, kallað Ylja. Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem neytendur vímuefna sem eru 18 ára og eldri geta sprautað ávana- og fíkniefnum í æð undir eftirliti starfsfólks og gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna. Markmiðið með slíkum rýmum er skaðaminnkun við notkun vímuefna. Í neyslurými er notanda m.a. boðið upp á almennar ráðleggingar um sprautubúnað og sprautunotkun og aðrar hættuminni aðferðir við inntöku efna og almenna ráðgjöf um hreinlæti og sjálfshjálp til að koma í veg fyrir sýkingar og draga úr líkum á sjálfsskaða. Þar er dreift hreinum sprautubúnaði fyrir hvern notanda og tekið við notuðum sprautubúnaði til förgunar. Sem og að notanda er veitt upplýsingar um heilbrigðisþjónustu og félagsþjónustu sem honum stendur til boða. Er því um þarfa heilbrigðisþjónustu að ræða sem hefur það markmið að auka lífsgæði, bæta heilsu og stuðla að ábyrgari neysluhegðun þeirra sem nota vímuefni.

Þegar samningur Reykjavíkurborgar við Rauða Krossinn var við að renna út óskaði Velferðarráð Reykjavíkurborgar eftir áframhaldandi samstarfi við Rauði Krossins um rekstur Ylju, en talið var betra að rekstur slíks rýmis væri á föstum stað. Var það meðal annars vegna þess að bílar eiga það til að hristast þegar hvasst er úti og þá getur verið varasamt að nota sprautubúnað. Í staðbundnu húsnæði er þá hægt að bjóða fleiri einstaklingum inn í einu og byggja upp og veita aukna heilbrigðisþjónustu.

Staðbundið neyslurými

Í dag opnar neyslurýmið Ylja formlega við Borgartún. Rauði Krossinn mun reka þetta neyslurými samkvæmt samningi við Velferðarsvið Reykjavíkurborgar, en ekki er hægt að fjalla um þetta án þess að minnast á þátt heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar. Willum Þór hefur verið mikill stuðningsmaður úrræðisins og hvatt til þess neyslurými yrði fundinn fastur staður. Heilbrigðisráðuneytið stendur undir kostnaði við reksturinn.

Það er afar jákvætt að þessi starfsemi, sem er mikilvægt skref í minnkun á þeim skaða sem fíknisjúkdómar geta valdið, hefur fengið fastan samastað og um leið viðurkenningu á mikilvægi þessa úrræðis. Þessu skrefi ber að fagna og viljum við þakka þeim sem hafa starfað í málaflokknum um árabil, oft við erfiðar aðstæður.

Magnea Gná Jóhannsdóttir og Þorvaldur Daníelsson, fulltrúar Framsóknar í Velferðarráði Reykjavíkurborgar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. ágúst 2024.

Categories
Greinar

Tíma­mót í Reykja­vík

Deila grein

16/01/2024

Tíma­mót í Reykja­vík

Það er með mikilli gleði og eftirvæntingu sem ég óska nýkjörnum borgarstjóra, Einari Þorsteinssyni velfarnaðar í starfi og til hamingju með nýjan starfstitil. Ég er fullviss um að hann muni hér eftir sem áður vinna af heilindum í þágu Reykvíkinga.

Breytingar og samvinna

Í aðdraganda borgarstjóraskiptanna hefur mikið verið rætt um hvaða breytingar þær munu hafa í för með sér. Slík umræða er eðlileg eftir langa valdatíð fráfarandi borgarstjóra. Niðurstaða kosninganna var ákall um breytingar og með nýjum borgarstjóra munu fylgja nýjar áherslur.

Það er þó ekki þannig að við höfum setið auðum höndum síðustu 18 mánuði heldur höfum við unnið að því að breyta til hins betra í Reykjavík frá fyrsta degi okkar í embætti. Má í því samhengi nefna að búið er að hækka frístundastyrkinn í 75 þúsund krónur, stuðningur við dagforeldra hefur aukist töluvert og foreldrar barna eldri en 18 mánaða greiða nú sama gjald hjá dagforeldrum og í leikskólum, næturstrætó fór aftur af stað í Reykjavík, farið var í umfangsmiklar hagræðingaraðgerðir og á fjárhagsáætlun þessa árs er gert ráð fyrir hagnaði, unnið er að framgangi Sundabrautar og Samgöngusáttmáls, sett var af stað viðhaldsátak í skólahúsnæði, snjómokstur hefur verið stórbættur, uppbygging þjóðarhallar er í góðum farvegi og unnið er að fjölgun leikskólaplássa. Þetta er ekki tæmandi talning en gefur góða von um framfarir.

Áskoranirnar framundan eru fjölmargar. Einar hefur sýnt djúpstæðan skilning á þeim áskorunum sem samfélag okkar stendur frammi fyrir hvort sem þær tengjast þróun efnahagsmála, húsnæðisuppbyggingu, sorphirðu eða fjölgun leikskólaplássa. Ég er bjartsýn á að hægt sé að vinna úr þessum verkefnum á farsælan máta með samvinnu að leiðarljósi. Markmiðið er þó í bráð og lengd að hrinda framfaramálum í framkvæmd.

Þakklæti á þessum tímamótum

Borgarstjóraskiptin marka einnig tímamót fyrir Framsókn en þetta er í fyrsta skipti í 107 ára sögu flokksins sem Framsókn mun eiga borgarstjóra. Öflugur framboðslisti Framsóknar í síðustu kosningum undir forystu Einars leiddi til farsælustu niðurstöðu flokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi. Við eigum baklandinu og grasrót Framsóknar í Reykjavík allt að þakka fyrir árangur Framsóknar í kosningunum. Kosningabarátta er stórt samvinnuverkefni ólíkra aðila á öllum aldri sem hafa öll það sameiginlegt að vilja láta gott af sér leiða í þágu samfélagsins. Ég vil á þessum tímamótum þakka fyrir þeirra starf í þágu flokksins en líka þakka borgarbúum fyrir góð og gagnleg samtöl bæði í aðdraganda og eftir kosningar. Við erum hér til að hlusta og vinna í þágu Reykvíkinga. Ég hvet ykkur, borgarbúar, til að halda áfram að heyra í okkur og deila með okkur sýn ykkar. Þannig getum við betur þróað borgina okkar í sameiningu.

Ég þakka einnig fráfarandi borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni fyrir störf hans í þágu borgarbúa um árabil.

Enn og aftur, óska ég Einar Þorsteinssyni til hamingju með borgarstjóratitilinn! Megi starfstími þinn einkennast af velgengni, samvinnu og blómlegri Reykjavík!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. janúar 2024.

Categories
Greinar

Hvernig vilt þú hafa þjónustu við 0-6 ára börn í Reykja­vík?

Deila grein

12/12/2023

Hvernig vilt þú hafa þjónustu við 0-6 ára börn í Reykja­vík?

Ákall er um lausnir frá sveitarfélögum í dagvistunarmálum. Það er nauðsynlegt svo foreldrar geti lagt samfélaginu til vinnuframlag sitt og séð sér og sínum fyrir framfærslu um leið og þau ala upp yngstu kynslóðina. Sömuleiðis eru sjónarmið um að ríki og sveitarfélög auðveldi foreldrum að vera meira með börnum sínum á fyrstu æviárum þeirra.

Ég lít svo á að eitt megin markmið Reykjavíkurborgar sé að auðvelda foreldrum að búa börnum sínum góð vaxtarskilyrði með það að markmiði að auðvelda líf barnafjölskyldna sem oft getur verið flókið og krefjandi. En stóra spurningin er þessi: Hvaða ákvarðanir þarf að taka til þess að líf þessa hóps verði í raun og veru auðveldað og börnum búin betri skilyrði?

Ekki ein lausn sem hentar öllum

Ólík sjónarmið eru uppi í samfélaginu um hvaða leið teljist ,,rétt” til að þjónusta börn á aldrinum 0-6 ára og ólíklegt er að ein lausn henti öllum. Einnig eru ólík sjónarmið um hvort að sveitarfélög eigi að reka samfélagsleg úrræði fyrir þennan aldurshóp eða hvort sveitarfélög eigi fyrst og fremst að undirbúa jarðveginn fyrir slík úrræði til að spretta upp. Spurt er hvort úrræðin eigi að vera leikskólar sem eru sjálfstætt starfandi eða reknir af hinu opinbera? Hvort sjálfstætt starfandi skólar skuli reknir af foreldrum eða atvinnulífinu? Hvort við viljum leggja áherslu á dagforeldra eða umönunargreiðslur til foreldra? Svo fátt eitt sé nefnt. Aukinheldur eru uppi ólíkar hugmyndir um hvernig skipulag þjónustunnar eigi að vera háttað, til dæmis er varðar lengd á viðveru barna. Bent er á jafnréttissjónarmið og starfsumhverfi fagfólks sem sinnir börnunum, á meðan spurt er hvað sé börnum í raun fyrir bestu?

Ef við snúum okkur aftur að spurningunni um það hvernig við ætlum að auðvelda líf fjölskyldufólks þurfum við að svara því hvernig þjónustu við ættum að veita fyrir aldurshópinn. Við þurfum að spyrja hvernig er að vera barn í Reykjavík og hvernig samfélag og þjónustu við viljum byggja upp í kringum börnin okkar á fyrstu æviárum þeirra?

Opið samráð um þjónustu við börn og barnafjölskyldur

Í gildandi samstarfssáttmála meirihluta borgarstjórnar segir að skipuleggja eigi borgina út frá hagsmunum barna og barnafjölskyldna. Til að mæta því verkefni hefur verið skipaður stýrihópur um mótun heildstæðrar stefnu um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára. Í þeirri vinnu er víðtækt samráð við forsjáraðila og aðra hagsmunaaðila þýðingarmikið, til að varpa ljósi á núverandi stöðu og áskoranir, ásamt því að fá fram fjölbreytt sjónarmið um lausnir og tækifæri fram á veginn.

Hvernig vilt þú bæta þjónustu við ung börn í Reykjavík?

Mikilvægt er að kalla fram ólík sjónarmið um hvernig best sé að þjónusta aldurshópinn, ásamt því að hafa í huga að ein lausn hentar ekki öllum. Það er því afar ánægjulegt að geta farið í opið samráð um þjónustu við börn á aldrinum 0-6 ára enda skiptir máli að raddir sem flestra heyrist í slíkri vinnu. Ég hvet þig til þess að taka þátt í samráðinu í gegnum samráðsvef borgarinnar og með því hafa áhrif á stefnumótun um umhverfi og aðstæður 0-6 ára barna í Reykjavík.

Það er von mín að þessi stefnumótun muni leiða til fjölbreyttra lausna til framfara. Við þurfum að hafa sterka og ígrundaða framtíðarsýn og setja málefni barna í forgang.

Hlekkur á samráðsvef: https://www.samradsvefur.is/

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og formaður stýrihóps um mótun heildstæðrar stefnu og aðgerðaráætlunar um umhverfi og aðstæður barna á aldrinum 0-6 ára í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. desember 2023.

Categories
Greinar

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Deila grein

06/09/2023

Göngum ekki frá ó­kláruðu verki

Flest okkar þurfa að koma og fara enda vilja sennilega fæst okkar vera alveg föst á sama stað. Í það minnsta þurfum við að eiga þess kost að ferðast hindrunarlítið á milli staða. Það er ólíkt eftir aðstæðum, þörfum og jafnvel tímabilum í lífi fólks hver ferðamátinn er. Ólíkar þarfir og ferðamátar kalla á samfellu í skipulagi og skýra framtíðarsýn. Það þarf að tryggja að innviðirnir tali saman á milli sín og á milli bæjar- og borgarhluta hvort sem um er að ræða eldri byggðir eða ný hverfi. Eitt má ekki vinna gegn öðru.

Tímamót voru mörkuð þegar ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu undirrituðu sáttmála um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu fyrir fjórum árum. Sáttmála um sameiginlega framtíðarsýn samgangna á höfuðborgarsvæðinu. Sáttmálinn tekur á ofangreindum þáttum og skýrir hvernig við ætlum að byggja upp skilvirka samgönguinnviði á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Hvar byggja skal brýr, leggja stofnvegi, stýra umferðarljósum o.s.frv. Það sem meira er að sáttmálinn felur í sér áform um bættar samgöngur fyrir alla ferðamáta, en ekki bara bættar almenningssamgöngur eins og stundum er haldið fram. Uppbygging almenningssamganga er þó gífurlega mikilvægur liður í uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu sérstaklega m.t.t. aukinnar fólksfjölgunar og aukins álags á gatnakerfi höfuðborgarsvæðisins síðustu ár. Uppbygging innviða fyrir fjölbreytta ferðamáta stuðlar þá að því að fólk hafi raunverulegt val um þann samgöngumáta sem því hentar, hvort sem það er fjölskyldubíllinn eða almenningssamgöngur. Markmiðið er mjög verðugt, að auka öryggi vegfaranda og minnka tafir, stórefla almenningssamgöngur og draga úr mengun af völdum svifryks og losun gróðurhúsalofttegunda til að standa við loftslagsmarkmið stjórnvalda og sveitarfélaga. Við viljum ekki sitja föst tímum saman í umferðinni í stressi yfir því að ná ekki í börnin í leikskóla eða í vinnu í tæka tíð, geta ekki búið við stofnvegi vegna mengunar eða geta ekki treyst á almenningssamgöngur við leik og störf. Við viljum byggja borg sem mætir kröfum samtímans og horfir til framtíðar.

Nú liggur fyrir vinna í uppfærslu sáttmálans enda ljóst að breytingar á verðlagi og verðbólga hefur áhrif á kostnaðaráætlun sáttmálans eins og komið hefur fram í umræðunni síðustu misseri. Það er eðlileg krafa að vel sé haldið utan um fjármögnun og framkvæmdakostnað sáttmálans og unnið sé að uppfærslu sáttmálans með það fyrir augum að tryggja að vel sé farið með almannafé. Af og frá er þó að slá sáttmálann, sem öll sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins og ríkið komu sér saman um, út af borðinu vegna efasemda einstakra aðila um verkefnið. Það er nú einu sinni þannig að meginregla íslensk samningaréttar er að samninga skal halda. Höldum áfram að vinna í takt að þessu stóra samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Nú er ekki tíminn til að ganga frá ókláruðu verki þótt á móti blási, eins og fjármálaráðherra orðaði það svo vel nýlega.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 6. september 2023.

Categories
Greinar

Ný byggð og flugvöllurinn

Deila grein

04/06/2023

Ný byggð og flugvöllurinn

Um Reykjavíkurflugvöll hefur verið tekist á frá því áður en ég fæddist. Sum hafa verið á móti veru hans í Vatnsmýrinni, önnur ekki talið neinn annan stað koma til greina. Skoðanirnar hafa meðal annars markast af því hvar fólk býr og myndað gjá milli höfuðborgar og landsbyggðar sem og ríki og borgar. Sá skotgrafahernaður sem hefur verið háður hefur ekki verið neinu til framdráttar heldur skapað sundrung og ósætti.

Hafandi búið úti á landi á stað sem reiðir sig mikið á flug til höfuðborgarinnar skil ég umræðuna vel. Flugvöllurinn er samgöngumiðstöð og sennilega margir sem tengja flugvöllinn við fagnaðarfundi við ættingja og vini, upphaf ferðalags eða flutninga á milli landshluta. Tilfinningartengsl eru á milli margra og staðsetningar flugvallarins. Staðsetningin hefur bjargað mörgum mannslífum vegna nálægðar við Landspítalann. Það er lífisins alvara að greiðar flugsamgöngur séu til og frá höfuðborginni og ég þekki ófáa sem eiga líf sitt eða barna þeirra að þakka sjúkraflugi til Reykjavíkur.

Verandi íbúi í nálægð við flugvöllinn í Vatnsmýri þekki ég líka og skil skoðanir af andstæðum meiði. Þótt mörgum þyki huggulegt að hafa flugvöll í næsta nágrenni við sig og börnum spennandi að sjá flugvélar fljúga yfir borgina finnst öðrum flugvöllurinn engan veginn passa inn í miðja borg og vilja frekar reisa nýja byggð á svæðinu.

Sitt sýnist hverjum en mikilvægt er að byggja alla umræðu um flugvöllinn og staðsetningu hans á rökum og gögnum. Með samkomulagi ríkisins og borgarinnar frá því 2019 á grunni skýrslu um flugvallakosti á suðvesturhorninu skapaðist ákveðin sátt um flugvöllinn. Samkomulagið felur m.a. í sér sátt um að tryggja rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningur og gerð nýs flugvallar, á jafngóðum eða betri stað, stendur yfir, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja og miðað er við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, greindi frá því um nýliðna helgina að ný flugstöð muni rísa á Reykjavíkurflugvelli enda er núverandi flugstöð til lítils sóma fyrir flugvallargesti og þjónar illa nútíma þörfum.

Flug- og rekstraröryggi verður áfram tryggt

Í nýrri skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug– og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar kemur fram að hægt sé að tryggja áframhaldandi flugöryggi með mótvægisaðgerðum þó ný byggð rísi í Skerjafirði. Mótvægisaðgerðirnar eru til þess fallnar að draga úr áhrifum eða áhættu sem annars gæti stafað af nýrri byggð. Vinna við mótvægisaðgerðir er nú þegar hafin og mun þeim verða hrint til framkvæmdar. Fulltrúar Framsóknar í borgarstjórn hafa og munu áfram leggja áherslu á að unnið sé eftir þeim ábendingum sem koma fram í niðurstöðu skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi. Þannig verður tryggt að samkomulag ríkis og borgar frá 2019 um að tryggja flug- og rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldi. Ekki mun því rísa byggð í Vatnsmýrinni sem mun hafa áhrif á flug- og rekstraröryggi flugvallarins.

Innanlandsflug í Reykjavík heldur velli

Reykjavíkurflugvöllur verður áfram samgöngumiðstöð fyrir fólk sem ferðast til og frá höfuðborginni. Þótt ný byggð rísi í Skerjafirði verður áfram lendingarstaður fyrir innanlandsflug í Vatnsmýri.

Sjúkraflugið verður áfram á sínum stað

Sjúkraflug með lendingarstað í návígi við Landspítalann verður áfram tryggt en það er mikilvægt öryggisatriði fyrir fólk um allt land og á sjó. Það er algjört forgangsatriði að flugvöllurinn mæti þörfum sjúkraflugs.

Ný byggð rís

Í nýrri byggð verða reist hús fyrir stúdenta, lágtekjuhópa og aðra. Verið að koma til móts við mikla þörf á húsnæði í Reykjavík og þá sérstaklega fyrir stúdenta í návígi við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur m.a. ályktað að það fagni því ,,að niðurstaða skýrslunnar sé skýr um að ekki sé þörf á því að hætta við byggingaráform í Nýja Skerjafirði, heldur sé nóg að grípa til mótvægisaðgerða.” Í ályktun stúdentaráðs kemur jafnframt fram að um 900 stúdentar séu á biðlista eftir húsnæði hjá Félagsstofnun stúdenta. Grænar áherslur í takt við kröfur samtímans eru forgangsatriði í skipulagi hverfisins. Það verður umlukið nýju strandsvæði og milli húsa er gert ráð fyrir torgum, leiksvæðum og gróðursæld.

Traust og sættir

Í grunninn snýst umræðan um flugvöllinn um traust. Traust til að kjörinna fulltrúa í Reykjavík um að grípa til mótvægisaðgerða til að tryggja að rekstraröryggi flugvallarins skerðist ekki með frekari húsnæðisuppbygging á svæðinu. Nú þegar er hafin vinna til að tryggja að mótvægisaðgerðir verði að veruleika. Flugvöllurinn er mikilvægur fyrir flugsamgöngur til og frá Reykjavík og er brú milli landsbyggðar og höfuðborgarinnar, sannkölluð tengimiðstöð okkar Íslendinga. Afstaðan er skýr; flugvöllurinn verður áfram í Vatnsmýrinni þar til og ef annar betri kostur finnst. Með mótvægisaðgerðum er komið tækifæri til að sætta sjónarmið, leysa gamlar deilur, tryggja öruggan rekstur flugvallarins og horfa til framtíðar og þeirra miklu áskoranna og verkefna sem landsmenn, sveitarfélög og ríki þurfa að takast á við í náinni framtíð.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. júní 2023.

Categories
Greinar

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Deila grein

08/08/2022

Það viðrar vel til MIÐNÆTURsunds

Fimmtudagar voru áður þekktir sem dagarnir sem sjónvarpið fór í frí. Það var að vísu fyrir mína tíð, en fimmtudagar halda þó áfram að setja mark sitt á frítíma fólks og í dag er fyrsti fimmtudagurinn þar sem opið verður til miðnættis í Laugardalslaug!

Fyrir sundáhugafólk eru þetta svo sannarlega gleðifréttir. Fyrir mig er þetta sérstaklega ánægjulegt. Hugmyndin um miðnæturopnun í sund kviknaði þegar klukkan var alveg að verða tíu eitt kvöld og ég þar með orðin of sein í sund enda fátt betra en að hefja daginn og enda með góðri sundferð. Í vor komst hugmyndin síðan inn á kosningastefnuskrá Framsóknar í Reykjavík og núna er hún orðin að veruleika.

Þó að hér sé ekki um að ræða stóran gjörning í stóra samhenginu þá felast í honum aukin lífsgæði. Sundlaugarnar hafa í gegnum tíðina verið samkomustaður Íslendinga og mörgum finnst fátt betra en að liggja í heita pottinum og slaka á. Núna fáum við aðeins meiri tíma til þess og getum tekið sundsprett um kvöld ef okkur sýnist svo. Þá fá að auki öll börn á grunnskólaaldri frítt í sund í Reykjavík frá og með 1. ágúst. s.l.

Hugmyndin um miðnætursund er ekki bara skemmtileg viðbót til afþreyingar og heilsubótar heldur líka áminning um að við öll getum haft áhrif á nærsamfélagið okkar með því að taka þátt. Ég vil því hvetja þig til að mæta á fundi stjórnmálaflokka og félagasamtaka til að segja frá því hvernig þú telur að bæta megi samfélagið okkar. Í krafti hugmynda og ólíkra sjónarmiða sem í fjöldanum finnast búum við saman til betra samfélag.

Það er glampandi sólskin í Reykjavík og því tilvalið að enda daginn í heitapottinum.

Sjáumst í sundi!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. ágúst 2022.

Categories
Greinar

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Deila grein

01/05/2022

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá Reykjavík orðin kolefnishlutlaus, fyrst höfuðborga? Væri hverfisskipulag byggt út frá umhverfissjónarmiðum þar sem fólk fær notið náttúru innan hverfis? Væri Reykjavík borg þar sem almenningssamgöngur eru skilvirkar, notendavænar og betri kostur en annar ferðamáti? Væri næturstrætó enn gangandi? Væru hleðslustöðvar aðgengilegar um alla borg til að auðvelda fólki orkuskipti í rafknúin hjól og bíla?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri hér húsnæðisskortur? Væri ungt fólk fast á heimilum foreldra sinna í mörg ár vegna þess að fasteignaverð er uppsprengt eða myndu öll eiga þess kost að eignast þak yfir höfuðið? Ætli hér væri byggt nógu mikið af stúdentaíbúðum þannig að enginn stúdent myndi þurfa að fara á biðlista eftir heimili? Væri ekki líka komin heimavist fyrir framhaldsskólanema á höfuðborgarsvæðið? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára væri grunnþjónusta í 15 mínútna göngu- eða hjólafjarlægð? Þannig að öll geti sótt grunnþjónustu innan hverfis hvort sem það er leikskóli, grunnskóli, sundlaug, kaffi- og veitingahús eða matvöruverslun.

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri þá ekki búið að eyða öllum biðlistum á leikskóla? Væru leikskólarnir ekki með sveigjanlegri opnunartíma til að mæta foreldrum á vinnumarkaði eða í námi? Væri búið að tryggja betra starfsumhverfi leikskólakennara? Myndu foreldrar kannski fá að ráða hvenær á sumrin leikskólabörnin þeirra taka sumarfrí eftir því hvenær hentar fjölskyldunni?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að byggja kerfi sem tekur vel á móti innflytjendum og eykur tækifæri fólks af erlendum uppruna til að nýta hæfileika sína? Væri stutt sérstaklega við nýsköpunarstarf, sprotafyrirtæki og aðra atvinnuuppbyggingu fyrir ungt fólk á þeirra forsendum? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að tryggja öryggi kvenna og alls fólks á djamminu?

Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri innviðir borgarinnar í lagi? Þannig að grunnskólabörn myndu ekki þurfa að sækja skóla í öðru hverfi vegna myglu í sínum hverfisskóla? Væru ungmennahús í öllum hverfum borgarinnar og félagsmiðstöðvastarf eflt? Ef öll í borgarstjórn væru undir 30 ára, væri ekki búið að jafna leikinn með því að tryggja að frístundakort barna veiti öllum börnum þess kost að stunda þær tómstundir sem þau dreymir um? Væri ekki búið að byggja upp öfluga íþróttaæfingaraðstöðu í öllum hverfum borgarinnar og þjóðarleikvang?

Við sem erfum ákvarðanir dagsins í dag verðum að vera þátttakendur í ákvarðanatöku sem munu varða okkar framtíð. Það er mikilvægt að við nýtum kosningaréttinn okkar og kjósum ungt fólk, að við kjósum Framsókn sem treystir ungu fólki með því að hafa ungt fólk í forystusætum í borginni! Ef þú kýst ekki mun eldra fólk kjósa fyrir þig og ráða þinni framtíð með sinni forgangsröðun á verkefnalista borgarstjórnar. Nýtum kosningaréttinn okkar 14. maí.

Er ekki kominn tími á breytingar í borginni?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, 25 ára háskólanemi og skipar 3. sæti á lista Framsóknar í borgarstjórnarkosningunum sem fara fram 14. maí n.k.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. maí 2022.