Categories
Fréttir Greinar

Fyrir þau sem stoppa stutt

Deila grein

13/11/2025

Fyrir þau sem stoppa stutt

Á síðustu árum hefur heimsendingarþjónusta á vörum og mat aukist verulega, ekki síst í kjölfar heimsfaraldursins. Neytendur hafa í auknum mæli tileinkað sér þau þægindi sem felast í að fá sendar vörur og mat beint heim að dyrum, og hafa matar- og vöruinnkaup í gegnum netið orðið fastur hluti af daglegu lífi fjölmargra. Þessi þróun hefur þó skapað áskoranir í miðborginni, þar sem aðgengi bíla er takmarkað og bílastæði ofanjarðar fá. Sendibílstjórar og aðrir sem sinna skammtímaakstri neyðast oft til að leggja ólöglega eða langt frá áfangastað, sem veldur seinkunum, truflunum í umferð og eykur hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Aðilar sem stunda heimsendingarþjónustu hafa bent á mikilvægi þess að svæði séu hönnuð þannig að hægt sé að sækja vörur og mat án þess að þurfa að leggja langt frá þeim stað þar sem sækja á varninginn, og án þess að greiða háar fjárhæðir fyrir aðeins 5-10 mínútna stopp. Skortur á skammtímastæðum leiðir til þess að tími og kostnaður sendibílstjóra eykst, sem bitnar bæði á fyrirtækjum og neytendum.

Sleppistæði, þar sem heimilt væri að staldra við í stuttan tíma án gjaldtöku, myndu leysa stóran hluta þessara áskorana. Með þeim væri hægt að tryggja fljótlegt og öruggt aðgengi fyrir þá þjónustu sem einungis krefst þess að stoppað sé í skamma stund. Slík stæði myndu ekki aðeins bæta starfsskilyrði fyrir heimsendingarþjónustu, heldur einnig gagnast leigubílum sem sinna farþegum í miðborginni og velferðarþjónustu sem afhendir mat og lyf heim til fólks og sér um akstursþjónustu.

Raunhæfar lausnir

Skipulagning á sleppistæðum myndi stuðla að betra flæði í miðborginni, draga úr ólöglegum stoppum og bæta upplifun og öryggi bæði íbúa og gesta. Við í Framsókn viljum horfa til raunhæfra lausna sem bæta daglegt líf borgarbúa og styrkja atvinnulífið í miðborginni. Því lögðum við til að umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að móta tillögur um útfærslu skammtímasleppistæða í miðborg Reykjavíkur í nálægð við veitingastaði og verslanir, til að greiða aðgengi að heimsendingarþjónustu og styðja við rekstrarmöguleika veitingastaða og verslana í miðborginni. Þrátt fyrir að tillagan sé skynsamleg og í takt við þá þróun sem á sér stað í borgum víða um heim ákvað borgarstjórnarmeirihlutinn að hafna henni. Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins felldu tillöguna. Það er sorglegt að þau virðast ekki sjá þörfina fyrir að bæta umferðarflæði né styðja við atvinnulífið í miðborginni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Rýr húsnæðispakki

Deila grein

31/10/2025

Rýr húsnæðispakki

Gera má ráð fyrir að um 50 þúsund heimili séu á leigumarkaði og þeim gæti fjölgað um 4–6 þúsund á næstu fimm árum.

Samkvæmt Húsnæðis og mannvirkjastofnun eru 74% aðfluttra á leigumarkaði, en aðeins 15% innfæddra. Það þýðir að stór hópur fólks af erlendum uppruna býr við minna húsnæðisöryggi og hefur minni möguleika á að eignast húsnæði.

Þó gera megi ráð fyrir að hluti fólks af erlendum uppruna komi hingað tímabundið hefur stór hluti sest hér að til framtíðar. Ljóst er að þetta felur í sér að íbúar af erlendum uppruna eiga erfiðara uppdráttar á húsnæðismarkaði og huga þarf að þessum hópi sérstaklega ásamt ungu fólki sem á erfitt með að koma yfir sig þaki.

Til langs tíma mun þetta skapa verulegan aðstöðumun milli þeirra sem eiga eignir og þeirra sem gera það ekki. Hættan er að fest verði í sessi efnahagsleg gjá milli innfæddra og innflytjenda og milli kynslóða sem gátu keypt eignir áður en vaxtastigið rauk upp og þeirra sem nú standa utan markaðar.

Ekki er hægt að sjá hvernig húsnæðispakki ríkisstjórnarinnar mætir þessari þróun af einhverri alvöru.

Húsnæðispakkinn

Í frétt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) frá því í lok september var sérstaklega vísað til orða formanns fjárlaganefndar sem sagði að markmiðið húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar væri að rjúfa kyrrstöðu í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði. Þegar pakkinn var loks kynntur reyndist hins vegar lítið í honum sem gefur tilefni til að ætla að kyrrstaða í uppbyggingu verði rofin á næstunni.

Húsnæðispakkinn virðist í raun ætla að þrengja að fjölskyldum sem hafa fjárfest í íbúðum fyrir eða með börnum sínum, oft til að auka tækifæri þeirra til náms fjarri heimabyggð, í ljósi þeirrar erfiðu stöðu sem hefur ríkt á leigumarkaði. Vegna takmarkana á fjölda eigna í þéttbýli, geta þessar fjölskyldur og einstaklingar ekki lengur leigt út íbúðina í skammtímaleigu, til dæmis í gegnum Airbnb yfir sumarmánuðina, til að létta undir lánagreiðslum. Skammtíma útleiga þessara íbúða, samkvæmt 90 daga reglunni, hefur ekki verið að þrengja að húsnæðismarkaðnum.

Það hefði svo sannarlega verið gott að sjá alvöru aðgerðapakka frá ríkisstjórninni. Pakka sem tæki raunverulega á húsnæðisvandanum í nánu samstarfi við sveitarfélögin. Ljóst er að sveitarfélög, ekki síst Reykjavíkurborg, þurfa að stíga inn af auknum krafti og skipuleggja fleiri lóðir til uppbyggingar. Uppbygging á 4000 íbúðum í nýju hverfi í Úlfarsárdal er ágætt skref en betur má ef duga skal og velta má fyrir sér hversu oft er hægt að nota Úlfarsárdal sem augnablik í pólitískum tilgangi áður en skóflu er stungið þar niður. Þessi uppbygging mun þá ekki leysa neinn bráðavanda á húsnæðismarkaðnum og draumórar félags- og húsnæðismálaráðherra um að þar verði byggingarkrani á næsta ári verða sennilega bara draumórar. Staðreyndin er sú að það á enn eftir að stofna boðað innviðafélag, skipuleggja svæðið og byggja íbúðirnar. Þá er vert að taka fram að 4000 íbúða byggð á þessu svæði gæti orðið ansi þétt byggð og núverandi borgarmeirihluti lofaði áður 10 þúsund íbúðum í Úlfarsárdal. Ekkert er þó að frétta af þeim áformum.

Ef hraða á uppbyggingu og byggja mörg ný hverfi þarf ríkið að mæta sveitarfélögunum sem þurfa að standa undir miklum kostnaði við innviðauppbyggingu þegar ný hverfi eru byggð. Kostnaði sem hleypur á milljörðum. Eftirgjöf á virðisaukaskatti vegna uppbyggingar á leik- og grunnskólum gæti til að mynda skipt sköpum fyrir sveitarfélögin.

Jákvæðast við pakkann er kannski að ríkisstjórnin ætlar að festa í sessi leiðir sem Framsókn hefur nú þegar komið á eins og hlutdeildarlánakerfinu og almennu heimildinni til skattfrjálsrar ráðstöfunar séreignarsparnaðar inn á höfuðstól íbúðalána í 10 ár.

Að þekkja aðalatriðin frá aukatriðunum

Háir vextir gera bæði einstaklingum og byggingaraðilum erfitt fyrir að fjármagna kaup og uppbyggingu húsnæðis. Það leiðir til skorts á íbúðum sem þrýstir á hækkun fasteignaverðs og hækkun vaxta. Þannig hefur myndast vítahringur þar sem hátt vaxtastig dregur úr framboði, hækkar verð og heldur áfram að ýta vöxtum upp á við

Megináherslan verður að vera á að lækka vexti og tryggja fyrirsjáanleg lánakjör, þar sem lán eru með föstum vöxtum til langs tíma. Það er forsenda þess að bæði einstaklingar og verktakar geti ráðist í uppbyggingu og kaup á húsnæði. Staðan sem nú er uppi er ekki viðunandi fyrir ungt fólk og fólk sem hefur ákveðið að setjast hér að og er að reyna koma undir sig fótunum.

Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sjá til að hér sé sterkt atvinnulíf og ásættanleg vaxtarskilyrði. Þannig að fólk hafi atvinnu og greiðslubyrði lána sé viðráðanleg. En ríkisstjórnin ræðst hins vegar gegn grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, á sama tíma og við sjáum fram á helmings lækkun á hagvexti og hækkun verðbólgu. Þetta mun gera stöðu flestra enn verri en nú er.

Við þurfum Plan B í húsnæðismálum. Aðgerðir sem tryggja lán með langtíma föstum vöxtum, alvöru uppbyggingu til að mæta þeim bráðavanda sem er á húsnæðismarkaðnum, uppbyggingu til langs tíma og aðgerðir sem stuðla að lækkun stýrivaxta.

Ungt fólk á skilið betur en þennan rýra húsnæðispakka.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og ung manneskja með áhyggjur af stöðunni á húsnæðis- og fasteignamarkaði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

1500 vanvirk ung­menni í Reykja­vík

Deila grein

21/10/2025

1500 vanvirk ung­menni í Reykja­vík

Um 1500 ungmenni á aldrinum 18–29 ára í Reykjavík eru ekki í námi, vinnu eða virkni. Bakvið þessa tölu eru raunverulegir einstaklingar. Ungt fólk sem á allt lífið framundan. Það skiptir því máli að við grípum ungt fólk í vanvirkni og veitum því þann stuðning sem það þarf til að komast aftur í virkni.

Hugtakið sem notað er yfir hópinn er NEET (e. Not in Education, Employment or Training) og er þetta hópur sem ráðamenn um alla Evrópu hafa haft vaxandi áhyggjur af. Árið 2023 var hlutfall einstaklinga á aldrinum 15-29 ára í hópnum yfir 11% í Evrópusambandinu. Á Íslandi var hlutfallið 6,3% hjá einstaklingum á aldrinum 16–24 ára árið 2022, samkvæmt Hagstofunni. Ástæður þess að einstaklingarnir eru í vanvirkni eru ólíkar. Sum ungmenni hafa flosnað úr skóla eða glímt við námserfiðleika, önnur glíma við andlega vanheilsu, veikindi eða félagslega erfiðleika sem gera þeim erfitt fyrir að hefja eða halda vinnu.

Afleiðingarnar vanvirkni eru miklar bæði fyrir einstaklingana sjálfa og samfélagið. Ungt fólk í vanvirkni byggir ekki upp reynslu, færni eða tengslanet í gegnum nám eða vinnu. Sjálfstraust og félagsfærni einstaklinga í vanvirkni minnkar og hættan á félagslegri einangrun, fátækt og vanlíðan eykst. Fyrir samfélagið getur vanvirkni ungs fólks falið í sér mannauðstap, leitt til lækkunar á framleiðni þjóðarinnar og aukið kostnað við velferðarkerfið. Það er því ljóst að mikilvægt er að auka stuðning við ungmenni sem detta úr virkni.

Við þurfum að stíga stærri skref

Við í Framsókn teljum að Reykjavíkurborg þurfi að stíga stærri skref til að mæta þessum hópi ungs fólks. Á fundi borgarstjórnar í dag leggjum við til að velferðarsviði verði falið, í samstarfi við menningar- og íþróttasvið og skóla- og frístundasvið, að útfæra aðgerðir til að að auka virkni og stuðning við einstaklinga á aldrinum 16-29 ára sem eru ekki í námi, vinnu eða virkni.

Við leggjum einnig til að borgin útfæri farsældarsamninga við foreldra eða forsjáraðila barna sem ljúka grunnskóla, með það að markmiði að auka samstarf borgarinnar við framhaldsskóla og bregðast við brottfalli úr framhaldsskólum. Það gerir það að verkum að framhaldsskólinn og sveitarfélagið geta átt í nánari samstarfi og hægt er að bregðast strax við merkjum um að einstaklingur sé að flosna upp úr námi. Slíkir samningar hafa gefist vel í öðrum sveitarfélögum eins og Árborg.

Reynslan sýnir okkur að með réttri nálgun og samstilltum aðgerðum má ná árangri með hópum sem falla á milli skips og bryggju í hefðbundinni velferðarþjónustu. Með því að grípa inn í með snemmtækri íhlutun, samþættingu á þjónustu og einstaklingsmiðuðum stuðningi getum við hjálpað ungu fólki að finna sína leið og komast í nám, vinnu eða aðra virkni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ekki sama hvaðan gott kemur

Deila grein

29/09/2025

Ekki sama hvaðan gott kemur

Fyrr í mánuðinum lögðum við í Framsókn til að Reykjavíkurborg yrði aðili að verkefninu Barnvænt sveitarfélag, sem er hluti af alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative. Þátttaka í verkefninu felur í sér markvissa og kerfisbundna innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skuldbindingu um að setja börn og hagsmuni þeirra í forgang í allri stefnumótun, ákvarðanatöku og daglegum rekstri. Borgin hefur þegar tekið mikilvæg skref með réttindaskólum og frístund UNICEF þar sem Barnasáttmálinn er innleiddur í leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Með þátttöku í verkefninu væri stigið næsta skref: að tryggja að Barnasáttmálinn verði raunverulegur rauður þráður í allri starfsemi og stjórnsýslu borgarinnar.

Hvers vegna skiptir máli að verða Barnvænt sveitarfélag?

Það er þannig að flest, ef ekki allt, í borginni snertir líf barns. Hvort sem um ræðir skipulag hverfa, samgöngur, menntun eða félagsþjónustu. Því er mikilvægt að „barnaréttindagleraugun“ séu ávallt uppi og aðkoma barna á ákvörðunartöku sé aukin.

Við segjum oft að gæði samfélags séu mæld eftir því hvernig við hlúum að börnum okkar. Þetta er ekki bara falleg setning heldur prófsteinn á manngildi okkar og forgangsröðun. Þegar börnum líður vel þá líður samfélaginu vel og þegar börn finna að þau skipta máli og geti haft áhrif á þeirra nærsamfélag þá verður borgin betri og mennskari. Við eigum að gera allt sem við getum til að það sé gott að vera barn í Reykjavík.

Börn eru ekki aðeins framtíðin, þau eru nútíðin. Þau lifa hér og nú í borginni okkar og upplifa daglega ákvarðanir borgarstjórnar. Allt sem borgin gerir, frá fjárhagsáætlunum til ákvarðana um skipulagsmál, hefur áhrif á börn. Þegar við ákveðum hvernig hverfi eru skipulögð, hvernig samgöngur eru hannaðar, hvernig þjónusta er veitt í skólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum þá upplifum við, sem teljumst fullorðin, það ekki með sama hætti og börn. Það sem fyrir okkur kann að vera lítið atriði í fjárhagsáætlun getur haft afgerandi áhrif á líf barns. Þess vegna skiptir máli að við hugum alltaf að því hverjar afleiðingar ákvarðana og þjónustu borgarinnar er á börn. Lengi býr að fyrstu gerð og þar á forgangsröðin að liggja.

Afgreiðsla meirihluta borgarstjórnar í málinu felur í sér algjört metnaðarleysi

Reykjavíkurráð ungmenna hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við það að Reykjavíkurborg hefji þá vegferð að verða Barnvænt sveitarfélag. Það segir okkur að þau vilja að við tökum hagsmuni þeirra alvarlega og hlustum á börn þegar við tökum ákvarðanir. Meirihluti borgarstjórnar virðist þó ekki vera sannfærður um ágæti verkefnisins. Raunar báru ræður meirihlutans með sér vanþekkingu á verkefninu og skort á vilja til að láta kné fylgja kviði þegar kemur að réttindum barna.

Meirihlutinn hélt því fram að borgin væri nú þegar Barnvænt sveitarfélag og vísaði til tillögu sem samþykkt var árið 2014. Staðreyndin er þó sú að þróun á verkefninu Barnvænt sveitarfélög hófst ekki fyrr en árið 2016 og 18. nóvember 2019 í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, undirrituðu Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra og Bergsteinn Jónsson, þáverandi framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, samning um samstarf við félagsmálaráðuneytið við innleiðingu verkefnisins undir formerkjunum Barnvænt Ísland. Reykjavíkurborg hefur ekki tekið ákvörðun um að verða Barnvænt sveitarfélag þótt tekin hafa verið skref í átt að innleiðingu barnasáttmálans í starf borgarinnar t.a.m. með ofangreindum réttindaskólum.

Meirihlutinn segist vera hlynntur því að barnasáttmálinn sé markvisst og kerfislega innleiddur í Reykjavíkurborg en í stað þess sýna það í verki með því að samþykkja tillögu um þátttöku í verkefni sem snýr einmitt að því kom hann með breytingartillögu þess efnis að ávinningur verkefnisins verði skoðaður. Það vekur furðu að meirihlutinn átti sig ekki á augljósum ávinningi verkefnisins fyrir hagsmuni barna, líkt og fjölmörg sveitarfélög hafa gert bæði hérlendis og erlendis. En sennilega var málinu vísað áfram til frekari greiningar svo að meirihlutinn geti lagt málið aftur fram seinna sem sitt eigið. Það er ekki sama hvaðan gott kemur.

Hagsmunir barna eiga að vera í fyrsta sæti

Ákvörðun um að taka þátt í verkefninu Barnvænt sveitarfélag er pólitísk afstaða um að réttindi barna skipti máli. Samþykkt tillögunnar hefði verið tækifæri fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að sameinast um að setja réttindi barna í forgang. Ekki vegna þess að í því felst ákveðin táknræn viðurkenning. Mun frekar vegna þess að í því fælist raunveruleg skuldbinding borgarinnar um að innleiða Barnasáttmálann með markvissum og kerfisbundnum hætti í stjórnsýslu og starfsemi Reykjavíkurborgar sem og að þverpólitísk samstaða um þátttöku í verkefninu væri yfirlýsing til barna í borginni um að þau skipta máli.

Reykjavíkurborg á að hafa metnað til þess að vera leiðandi á meðal borga á heimsvísu þegar kemur að innleiðingu á Barnasáttmálanum og þar með réttindum barna. Það á ekki að skipta máli hvaðan gott kemur.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Því­líkt „plan“ fyrir ís­lensk heimili

Deila grein

25/09/2025

Því­líkt „plan“ fyrir ís­lensk heimili

Ríkisstjórnin heldur því fram að afnám samsköttunar snerti aðeins fámennan hóp. Þessi „fámenni“ hópur er reyndar 6% allra fjölskyldna í landinu.

Flest tengja hjónaband við hjartnæma og táknræna athöfn þar sem ást tveggja aðila er innsigluð. Hjónabandið er þó meira en hátíðleg stund og falleg fyrirheit. Það er lagalegt samkomulag tveggja einstaklinga um ákveðin réttindi og skyldur gagnvart hvort öðru. Löggjafinn hefur einnig ákveðið að í hjónabandi felist hagræði og öryggi sem ætlað er að styðja við fjölskyldur og sameiginlega ábyrgð þeirra. Samsköttun hjóna er dæmi um það.

Framfærsluskylda

Ein helsta skylda giftra einstaklinga er framfærsluskylda sem felur í sér að gift fólk er framfærsluskylt gagnvart hvort öðru. Víða í löggjöf og reglum er komið inn á þessa skyldu t.a.m. í hjúskaparlögum en þar stendur skýrt að „hjón bera sameiginlega ábyrgð á framfærslu fjölskyldunnar.“ Framfærsluframlagið samkvæmt sömu lögum getur verið í formi perningagreiðslna, vinnu á heimili eða öðrum stuðningi við fjölskyldu og skiptist það á milli hjóna eftir getu og aðstæðum.

Samsköttun

Ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur hefur nú boðað breytingar á skattalöggjöfinni með það fyrir augum að afnema samsköttun hjóna og sambúðarfólks. Samsköttun felst í því að einstaklingar í hjónabandi eða sambúð geta deilt skattalegu svigrúmi sínu. Ef annar aðilinn er með tekjur í efsta skattþrepi en hinn með engar eða lægri tekjur, getur fjölskyldan þannig lækkað samanlagða skattbyrði sína, en þó aðeins að ákveðnu hámarki.

Samkvæmt ríkisstjórninni snýst þessi breyting um að „bæta skattskil, loka glufum og fækka undanþágum“ í skattkerfinu. Ríkisstjórnin heldur því jafnframt fram að afnámið snerti aðeins fámennan hóp. Þessi „fámenni“ hópur er reyndar 6% allra fjölskyldna í landinu. Afnám samsköttunar hefur því bein áhrif á fjölda íslenskra heimila. Það þýðir að tekjulægri aðilinn getur ekki lengur nýtt skattaleg réttindi sín til að bæta fjárhagsstöðu fjölskyldunnar með auknum ráðstöfunartekjum. Sú glufa sem ríkisstjórnin ætlar að loka er því í raun ráðstöfunartekjur heimilanna í landinu sem verið er að skerða. Tökum dæmi:

Fyrsta dæmið eru hjón með lítil börn. Annað foreldrið starfar á togara, fer í langa túra á sjó og er með tekjur í efsta skattþrepi. Hitt foreldrið er heima með börnin, tekjulaust, þar sem yngsta barnið er ekki komið með dagvistun og fæðingarorlofsrétti beggja foreldra er lokið. Ef samsköttunin verður afnumin missa hjónin skattalegt hagræði af því að vera gift en eru engu að síður enn framfærsluskyld samkvæmt lögum

Annað dæmið eru tvær fjölskyldur sem báðar saman standa af sambúðarfólki og tveimur börnum. Báðar fjölskyldurnar eru með sömu heildartekjur fyrir skatt. Í fyrri fjölskyldunni eru tekjur foreldranna svipaðar. Í þeirri síðari er annar aðilinn með mun lægri tekjur en hinn með tekjur í efsta skattþrepi. Með afnámi samsköttunar hækkar skattbyrði síðari fjölskyldunnar þrátt fyrir sömu heildartekjur beggja fjölskyldna. Hversu sanngjarnt er það að sambærilegar fjölskyldur sitji uppi með ólíka skattbyrði?

Þriðja dæmið eru hjón á miðjum aldri með einn ungling á heimilinu. Annar einstaklingurinn hefur nýlega veikst alvarlega, er frá vinnu og með nánast engar tekjur. Hinn einstaklingurinn rekur eigið fyrirtæki og er með tekjur sem rétt ná yfir efsta skattþrepið. Með afnám samsköttunar skerðast tekjur heimilisins um að lágmarki 100.000 krónur á ársgrundvelli. Það munar um minna í þrálátri verðbólgu.

Skattar munu „ekki“ hækka á einstaklinga

„Samfylkingin ætlar ekki að hækka skatta á vinnandi fólk. [….] Samfylkingin ætlar að lækka kostnað heimila […]“ skrifaði Víðir Reynisson, þingmaður Samfylkingarinnar í aðdraganda alþingiskosningana 2024. Raunin virðist hins vegar vera önnur. Skattalegt hagræði hjóna og sambúðarfólks með ólíkar tekjur skerðist verulega með afnámi samsköttunar, á sama tíma og hjón bera áfram sameiginlega ábyrgð á skattaskuldum. Þá er ekkert sem bendir til þess að kostnaður heimilanna í landinu fari lækkandi. Sleggjan hefur ekki virkað á vextina, verðbólgan er þrálát og nú liggur fyrir að ráðstöfunartekjur 6% heimila í landinu lækka vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar! Þvílíkt „plan“ fyrir íslensk heimili.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrir hvern er borgin?

Deila grein

24/09/2025

Fyrir hvern er borgin?

Traust almennings til borgarstjórnar er lítið – bæði til meirihlutans og minnihlutans. Það er staðreynd sem allir borgarfulltrúar verða að taka til sín og taka alvarlega.

Svarið við spurningunni „hvers vegna“ er ekki einfalt. Það er ekki ein ákvörðun sem hefur grafið undan trausti heldur samspil margra ákvarðana og stefnu sem hefur um árabil verið sett fram án þess að taka nægilega mikið mið af vilja og þörfum íbúa. Tökum dæmi:

Bílastæðamálin

Flestir íbúar nota fjölskyldubílinn til að komast á milli staða. Þrátt fyrir það var ákveðið á síðasta kjörtímabili að setja afar ströng skilyrði um fjölda bílastæða við nýbyggingar. Á stóru svæði borgarinnar er aðeins heimilt að byggja að hámarki 0,75 stæði fyrir tveggja herbergja íbúð en almenna viðmiðið er 0,25 stæði á íbúð.

Þetta hefur skapað mikla óánægju, sérstaklega í nýjum hverfum sem byggst hafa upp á svæðum sem almenningssamgöngur ná ekki til eða eru lélegar og því ekki raunverulegur kostur. Borgin virðist oft byrja á öfugum enda: stæðum er fækkað áður en almenningssamgöngur eru bættar. Markmiðið kann að vera göfugt, þ.e. að minnka umferð og mengun, en útfærslan hefur ekki verið hugsuð til enda og gengur því ekki upp fyrir hversdagslegt líf fólks. Fyrir utan það að of fá bílastæði gera fjölskyldum með ung börn og fólki með skerta hreyfigetu sem reiða sig á bíl til að komast á milli staða erfiðara fyrir að ferðast, einkum á veturna.

Við í Framsókn leggjum til að meginreglan verði eitt stæði á íbúð nema sérstakar skipulagsaðstæður kalli á annað. Bílastæði þurfa þó ekki öll að vera ofanjarðar. Hægt er að byggja bílakjallara í nýjum hverfum til að nýta land betur. Til að gera slíkar lausnir raunhæfar höfum við lagt til að gatnagerðargjald vegna bílastæðakjallara verði lækkað.

Leikskólamálin

Staða leikskólamála í Reykjavík er öllum kunn. Ítrekað hefur verið lofað að öll börn, 12 mánaða og eldri, fái leikskólapláss. Raunveruleikinn er annar. Hundruð barna bíða á biðlistum.

Þegar komið er að lausnaleit er öllum nýjum hugmyndum vísað á bug ef þær falla ekki að ríkjandi pólitískum viðhorfum ákveðinna flokka jafnvel þótt meirihluti sé fyrir þeim í borgarstjórn. Hvorki vinnustaðaleikskólar, sem vinnustaðir hafa sýnt áhuga á að setja á laggirnar, né tímabundnar heimgreiðslur til foreldra sem bíða eftir plássi fá hljómgrunn. Afleiðingin er að fjölskyldur lenda í ómögulegri stöðu að loknu fæðingarorlofi vegna þess að enga dagvistun er að fá og óljóst hvenær barn getur hafið vistun.

Húsnæðismálin

Það er húsnæðiskrísa á Íslandi. Hún hefur þrýst fasteignaverði upp og viðhaldið verðbólgu og háum vöxtum. Sem stærsta sveitarfélagið ber Reykjavíkurborg ríka ábyrgð á að tryggja að jafnvægi náist á húsnæðismarkaði og ber að leggja sig alla fram við að tryggja sjálfbært framboð fjölbreyttra lóða. Borgin hefur þó nær eingöngu lagt áherslu á þéttingu byggðar og þótt þétting hafi sums staðar gengið vel hefur hún líka skapað mikla óánægju, meðal annars vegna skuggavarps, fækkunar grænna svæða og of hás fasteignaverðs. Þétting ein og sér mætir þá heldur ekki uppbyggingarþörfinni.

Skortur á byggingarhæfum lóðum í nýjum hverfum viðheldur háu fasteignaverði sem bitnar verst á ungu fólki sem er að koma undir sig fótunum í lífinu. Fyrir utan þá staðreynd að ekki allir vilja búa í þéttri byggð. Að eiga öruggt heimili er grundvallarþörf, og það er á ábyrgð borgarinnar að tryggja framboð lóða.

Hugsjónir og raunveruleiki

Ofangreind dæmi sýna ákveðið mynstur. Ákvarðanir borgarinnar hafa verið svo fastar í útópískri framtíðarhugsjón að það fórst fyrir að takast á við daglegar þarfir fólks í dag. Hugsjónir eru góðar og nauðsynlegar, en þær mega ekki blinda fyrir raunveruleikanum.

Við þurfum skynsamlegar lausnir sem taka mið af fjölbreyttum þörfum borgarbúa. Því samfélagið er ekki svart og hvítt heldur marglitt, rétt eins og þarfir íbúa, sem passa ekki allar í einn kassa heldur krefjast fjölbreyttra lausna.

Spurningin sem eftir situr fyrir borgarstjórn að svara er því einföld: Fyrir hvern er borgin?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Reykja­vík – barnvæn höfuð­borg?

Deila grein

02/09/2025

Reykja­vík – barnvæn höfuð­borg?

Stundum er sagt að gæði samfélaga séu metin eftir því hvernig þau hlúa að velferð barna. Við í Framsókn erum sammála því og viljum því leggja til að Reykjavík ráðist í metnaðarfullt verkefni til að bæta líf barna í Reykjavík.

Á fundi borgarstjórnar í dag leggjum við til að Reykjavíkurborg hefji vinnu við að verða barnvænt sveitarfélag samkvæmt alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative. Með þeirri ákvörðun skuldbindur borgin sig til að setja börn og hagsmuni þeirra í forgang í allri stefnumótun, ákvarðanatöku og daglegum rekstri.

Takk Reykjavíkurráð ungmenna!

Við í Framsókn erum innilega þakklát Reykjavíkurráði ungmenna sem lýst hefur opinberlega yfir stuðningi við tillögu okkar í borgarstjórn. Við hvetjum borgarfulltrúa til að lesa ályktun ráðsins áður en þeir greiða atkvæði um tillöguna. Reykjavík hefur þegar tekið mikilvæg skref með réttindaskólum og frístund UNICEF þar sem Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna er innleiddur í leik- og grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Með barnvænu sveitarfélagi er stigið næsta skref: að tryggja að Barnasáttmálinn verði raunverulegur rauður þráður í allri starfsemi og stjórnsýslu borgarinnar.

Ný hugsun

Ákvarðanir sem teknar eru á vettvangi borgarinnar hafa víðtæk áhrif á börn. Hvort sem um ræðir skipulag hverfa, samgöngur, menntun eða félagsþjónustu. Því er mikilvægt að „barnaréttindagleraugun“ séu ávallt uppi og aðkoma barna á ákvörðunartöku sé aukin. Verkefnið barnvænt sveitarfélag felur í sér markvissari innleiðingu á Barnasáttmálanum og er grundvallarbreyting á því hvernig við högum stefnumótun borgarinnar og forgangsröðun.

Barnvæn höfuðborg

Aðeins ein höfuðborg á Norðurlöndunum er barnvæn samkvæmt skilgreiningu verkefnis UNICEF og sómi væri af því ef Reykjavík yrði önnur höfuðborgin sem færi þessa leið. Þótt ríkisvaldið beri formlega ábyrgð á því að Ísland uppfylli Barnasáttmálann er ljóst að hann verður aldrei innleiddur án aðkomu sveitarfélaganna. Sem höfuðborg og stærsta sveitarfélag landsins ber Reykjavík ríka ábyrgð á að tryggja réttindi og farsæld barna á Íslandi og ganga á undan með góðu fordæmi.

Pólitísk afstaða

Ákvörðun um að taka þátt í verkefninu Barnvænt sveitarfélag er pólitísk afstaða um að réttindi barna skipti máli. Við í Framsókn vonum að borgarstjórn geti sameinast um að setja börnin í borginni forgang.

Við vitum að þegar börnum líður vel, þá líður samfélaginu vel. Reykjavíkurborg á að hafa metnað til þess að vera leiðandi á meðal borga á heimsvísu þegar kemur að innleiðingu á Barnasáttmálanum og þar með réttindum barna.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar og Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar sem situr í velferðarráði og mannréttindaráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Deila grein

21/08/2025

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Stundum gleymast kosningaloforð. Fyrir tæpum þremur árum lofaði Samfylkingin því að börn frá 12 mánaða aldri kæmust inn í leikskóla. Nú þegar líður að lokum kjörtímabilsins er ekkert sem bendir til þess að það loforð verði efnt.

Þegar ég benti á loforð Samfylkingarinnar um leikskólapláss fyrir 12 mánaða börn kannaðist borgarstjóri ekki einu sinni við það og spurði: „hvar hefur Samfylkingin lofað því?” Það eitt og sér segir margt um forgangsröðun Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Raunveruleikinn er sá að leikskólapláss í hverfisleikskólum við 12 mánaða og jafnvel 18 mánaða aldur er fjarlæg draumsýn. Því þótt sum börn fái úthlutað pláss við 18 mánaða aldur er það oft í allt öðru hverfi en heimilið þeirra er staðsett í og ef það á eldra systkini er heldur ekki víst að barnið fái pláss í sama leikskóla og eldra systkini þeirra er í. Þetta veldur tilheyrandi álagi á fjölskyldur sem þurfa að samræma vinnu, skóla og daglegt líf við langar ferðir á milli hverfa til að fara með börn í leikskóla. Til að gæta sanngirnis þá tek ég fram að ég átta mig á því að ekki er hægt að draga töfralausn á dagvistunar vandanum úr ímynduðum hatti. Það mun taka tíma að leysa vandann. Ekki er nóg að byggja leikskóla heldur þarf að manna þá og það vantar fleira starfsfólk inn í leikskólakerfið. Samfylkingin virðist þó vera blind á þann raunveruleika og reyndi að draga upp töfralausn á leikskóla vandanum úr ímynduðum hatti fyrir síðustu kosningar.

Þessi sami flokkur sem lofaði foreldrum 12 mánaða barna leikskólapláss virðist einnig blindur á stöðu foreldra sem eru að bíða eftir dagvistun fyrir börn sín og hafnar jafnframt því að veita foreldrum greiðslur heim á meðan þeir bíða eftir plássi. Fjárhagsleg aðstoð við foreldra til að létta undir á meðan þeir bíða eftir dagvistun er til staðar fyrir foreldra í Hafnarfirði, Kópavogi og Hveragerði ásamt fjölda annara sveitarfélaga en meirihlutinn í Reykjavíkurborg vill ekki sjá að foreldrum í Reykjavík sé mætt með sambærilegum hætti. Afleiðingin er sú að foreldrar sem lokið hafa fæðingarorlofinu eru án dagvistunar og sitja eftir með fjárhagsáhyggjur vegna þess að þau geta ekki farið aftur á vinnumarkaðinn. Samfylkingin sem heldur á forsætisráðherrastólnum virðist þá ekki hafa nein áform um að lengja fæðingarorlofið á vettvangi löggjafans til að mæta barnafólki.

Hér er ekki bara um gleymd (og þar með brotin) loforð að ræða heldur snýst þetta um forgangsröðun og ábyrgð meirihlutans gagnvart barnafólki sem á að geta treysti því að stjórnvöld standi við stóru orðin og mæti þeirri stöðu sem uppi er þegar draumastaðan um leikskólapláss við 12 mánaða aldur næst ekki t.a.m. með heimgreiðslum.

Hvaða ,,plan” ætli verði dregið upp úr ímyndaða hattinum næst?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Lýðskrum Skattfylkingarinnar

Deila grein

10/07/2025

Lýðskrum Skattfylkingarinnar

,,Þú þarft ekki að hagræða í þínu heimilisbókhaldi ef ég býð þér 5000 kr. og þú afþakkar aurinn. Tekjurnar þínar eru enn þær sömu. Þær hafa hvorki hækkað né lækkað. Hið gagnstæða virðist Samfylkingin þó halda.

Skattahækkun, skattalækkun eða sömu gjöld?

Fasteignamat íbúðarhúsnæðis í Reykjavík hefur hækkað töluvert undanfarin ár og samkvæmt nýju fasteignamati sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun birti í maí mun fasteignamat hækka að meðaltali um 10% á næsta ári. Fasteignaskattur er beintengdur við fasteignamat og þar af leiðandi hækka fasteignaskattar samhliða hækkun fasteignamats nema að sveitarfélögin lækki álagningarhlutfallið á móti. Það er hins vegar ekki sjálfsagt að fasteignaskattar hækki ár eftir ár á sjálfsstýringu án þess að fólk fái eitthvað í staðinn.

Við í Framsókn höfum bent á að þessi „sjálfvirka skattheimta“ vegna hækkaðs fasteignamats er ekki alltaf réttmæt. Hún leggur auknar álögur á fólk sem hvorki hefur fengið hærri laun né aukna greiðslugetu. Það er þungt fyrir heimilin í borginni og kemur ofan á háa vexti og þráláta verðbólgu. Skattar eiga ekki að hækka ótakmarkað vegna langvarandi húsnæðisskorts sem er afleiðing af þeirri húsnæðisstefnu sem Samfylkingin aðhyllist.

Það er óumdeilt að Framsókn telur rétt að fólk borgi til samfélagsins og taki þátt í samneyslunni en það er ótrúlegt að fylgjast með málflutningi meirihluta borgarstjórnar sem virðist halda að eigendur heimila í borginni séu breiðu bökin sem þola endalausa hækkun fasteignagjalda. Eigendur íbúða í Reykjavík eru ekki einhver auðmannastétt sem getur borið ótakmarkaðar álögur. Þetta er líka ungt fólk, eldra fólk, barnafjölskyldur og tekjulágir einstaklingar. Og í lang flestum tilvikum er það bankinn sem á stærstan hluta eignarinnar ekki eigandinn sjálfur. Hlutfall ráðstöfunartekna sem fer í húsnæðiskostnað er þá meðal þess hæsta sem þekkist í Evrópu. Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkurborgar virðist þó telja að það sé bæði sjálfsagt og eðlilegt að sækja ótakmarkað fé í vasa þeirra.

Ranghugmyndir og ótti við gagnrýni

Nýlega lögðum við í Framsókn til að fasteignagjöld myndu ekki hækka á milli ára þrátt fyrir hækkun á fasteignamati. Þannig væru tekjur borgarinnar þær sömu og borgarbúar myndu greiða það sama í fasteignagjöld árið 2025 og 2026. Það þýðir ekkert tap fyrir borgina.

Samfylkingin taldi þetta hins vegar vera skattalækkun og spurði hvernig við ætluðum að hagræða fyrir þessari lækkun. Þau skilja það ekki að það þarf ekki að hagræða fyrir áætluðum umfram tekjum.

Varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar spyr eftirfarandi spurningar í grein á vísi: ,,Hvers vegna er þeim svo umhugað um að rýra einn helsta tekjustofn sveitarfélagsins um tæpa tvo milljarða á ári.” Framsetning borgarstjóra á málinu ber þá vott um lýðskrum þar sem hún sakar okkur um að leggja fram tillöguna á kostnað velferðarþjónustu.

Staðreyndin er þó sú, eins og ítrekað hefur verið reynt að útskýra fyrir meirihlutanum, að samkvæmt tillögu Framsóknar er ekki verið að lækka tekjur borgarinnar. Þær standa í stað. Reyndar er það svo að þessi tekjustofn hefur hækkað verulega síðustu ár og það er hið gagnstæða við rýrnun. Tillagan er því ekki heldur lögð fram á kostnað velferðarþjónustu, nema síður sé. Við í Framsókn munum hér eftir sem hingað til standa þétt á bakvið grunnþjónstu borgarinnar. Um það þarf ekki að efast. Það má þó efast um forgangsröðun meirihlutans sem telur nýja selalaug í Húsdýragarðinum vera mesta forgangsmál Reykjavíkurborgar.

Meirihlutinn er á svo miklum villigötum að hann virðist ekki einu sinni þola málefnalega umræðu. Þegar bent hefur verið á rangfærslur hafa þær ekki verið leiðréttar og athugasemdum verið eytt út af samfélagsmiðlum nánustu stuðningsmanna borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar. Auðvitað er öllum frjálst að ritskoða eigin samfélagsmiðla en þetta ber fyrst og fremst vott um hvað Samfylkingin óttast málefnalega gagnrýni. Dæmi hver fyrir sig.

Það sem allir ættu í það minnsta að geta sammælst um er að ekki er hægt að líta á skattgreiðendur sem endalausa fjáröflunarvél fyrir gæluverkefni meirihlutans. Skattbyrði þarf að byggjast á réttlæti, skynsemi og ábyrgð en það virðist ekki vera leiðarljós núverandi meirihluta.”

Höfundur er Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. júlí 2025

Categories
Fréttir Greinar

Framtíð Heiðmerkur

Deila grein

04/06/2025

Framtíð Heiðmerkur

Á næsta fundi borg­ar­stjórn­ar mun­um við í Fram­sókn leggja fram til­lögu um að stofnaður verði stýri­hóp­ur skipaður full­trú­um allra flokka í borg­ar­stjórn til þess að móta framtíðar­sýn Reykja­vík­ur­borg­ar um Heiðmörk. Verk­efnið er að tryggja að hags­mun­ir al­menn­ings séu tryggðir í þeirri vinnu sem stend­ur yfir vegna krafna um aukna vernd vatns­bóla sem Veit­ur starf­rækja.

Aðgengi að græn­um svæðum er meðal mik­il­væg­ustu gæða nú­tíma borg­ar­sam­fé­laga. Vin­sæld­ir Heiðmerk­ur hafa auk­ist mikið á síðustu árum. Því er mik­il­vægt að huga að betri stýr­ingu gesta Heiðmerk­ur til þess að tryggja vatns­vernd en um leið þarf að tryggja lýðheilsu­sjón­ar­mið og aðgengi að úti­vist­ar­svæðum Heiðmerk­ur.

Nú eru uppi hug­mynd­ir um að loka fyr­ir aðgengi ak­andi um­ferðar að stór­um hluta Heiðmerk­ur vegna vatns­vernd­ar. Þó að mik­il­vægi hreins neyslu­vatns sé óum­deilt hafa til­lög­ur Veitna sætt gagn­rýni frá fjöl­mörg­um hagaðilum – sér­stak­lega vegna þess að þær fela í sér lok­un aðgeng­is að vin­sæl­um svæðum. Þetta hefði í för með sér að gest­ir þyrftu að ganga 3-4 kíló­metra til að kom­ast að vin­sæl­um stöðum í Heiðmörk, á borð við Furu­lund og Vígslu­flöt. Í raun væri verið að tak­marka aðgengi stórs hóps að Heiðmörk – sér í lagi fólks sem á erfitt með gang, fjöl­skyldna með lít­il börn og hreyfi­hamlaðra. Sam­kvæmt rann­sókn­inni „Virði Heiðmerk­ur“ sem Bryn­hild­ur Davíðsdótt­ir, pró­fess­or í um­hverf­is- og auðlinda­fræði í HÍ, gerði ásamt hópi fræðimanna árið 2013 kom fram að 92% gesta Heiðmerk­ur fara á bíl í Heiðmörk og 30% gesta eru eldri en 60 ára.

Heiðmörk hef­ur fylgt okk­ur í gegn­um kyn­slóðir. Þar fór amma með mömmu um lág­reist­an skóg og ég með mömmu um þétt­an og tölu­vert hærri skóg. Við vilj­um öll geta áfram notið Heiðmerk­ur um ókomna tíð og á sama tíma vilj­um við öll vernda upp­tökustað vatns, enda er aðgengi að ör­uggu og hreinu vatni ein und­ir­staða lífs. Tíma­bært er að mótuð sé heild­stæð framtíðar­sýn fyr­ir svæðið og að kjörn­ir full­trú­ar fái ít­ar­leg­ar grein­ing­ar á því hvaða ákv­arðanir þurfi að taka til þess að tryggja ör­yggi neyslu­vatns sem sótt er á svæðið sem og aðgengi íbúa að Heiðmörk. Slík vinna þarf að byggja á sam­ráði við hagaðila og mati á áhrif­um á vatns­gæði, nátt­úru og sam­fé­lagið allt – með lang­tíma­sýn að leiðarljósi.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. júní 2025.