Categories
Fréttir Greinar

Fjármálaráðherra á villigötum

Deila grein

20/03/2025

Fjármálaráðherra á villigötum

Það fel­ast gríðarleg tæki­færi fyr­ir íbúðar­kaup­end­ur í því að fjár­mála­fyr­ir­tæki geti boðið fram löng óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Nú er kom­in fram skýrsla dr. Jóns Helga Eg­ils­son­ar sem skýr­ir for­send­ur og fyr­ir­mynd­ir frá öðrum lönd­um.

Það er miður að fjár­málaráðherra hafi kosið að mistúlka hluta niðurstaðna skýrslu um leiðir til að bæta láns­kjör á ís­lensk­um hús­næðismarkaði með þeim hætti sem hann hef­ur gert op­in­ber­lega.

Skýrsl­an er mjög skýr: Hún set­ur fram sex til­lög­ur til að bæta kjör íbúðalána og að strax verði ráðist í að hrinda þeim í fram­kvæmd. Ráðherra hef­ur valið að hafna því á þeim for­send­um að til­laga um að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga sé áhættu­söm fyr­ir ríkið og líkt við Íbúðalána­sjóð! Með því að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga geta aðilar á markaði bætt eig­in fjár­stýr­ingu. Þetta er þekkt og viður­kennd aðferð í lönd­un­um í kring­um okk­ur og hef­ur sannað sig í að nýt­ast bæði bönk­um, fyr­ir­tækj­um og einnig við fjár­stýr­ingu rík­is­sjóða. Sem dæmi er markaður með vaxta­skipta­samn­inga í Nor­egi og Svíþjóð mik­il­væg for­senda þess að bank­ar geta boðið hag­kvæm íbúðalán á föst­um vöxt­um til langs tíma. Rík­is­sjóðir landa nýta vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu. Rík­is­sjóður Íslands hef­ur um ára­bil nýtt vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu en get­ur notið þess í aukn­um mæli ef um­gjörð þessa markaðar verður bætt, eins og lagt er til í skýrsl­unni.

Vaxta­skipta­markaðir í lönd­un­um í kring­um okk­ur gera bönk­um kleift að bjóða lán með föst­um vöxt­um til lengri tíma en þeir ella gætu. Rík­is­sjóður get­ur lagað fjár­mögn­un að sín­um þörf­um á hag­kvæm­ari kjör­um. Báðir aðilar njóta hag­kvæmni.

Það er því óviðeig­andi og vill­andi að fjár­málaráðherra tengi til­lög­ur um vaxta­skipta­samn­inga við reynsl­una af Íbúðalána­sjóði! Þetta eru al­ger­lega ótengd mál og eiga ekk­ert sam­eig­in­legt. Vaxta­skipta­samn­ing­ar eru nýtt­ir út um all­an heim af fyr­ir­tækj­um, bönk­um og líf­eyr­is­sjóðum sem verk­færi í fjár­stýr­ingu til að draga úr áhættu og bæta kjör – ekki til þess að auka hana eins og fjár­málaráðherra virðist halda.

Í ljósi svara ráðherra er vert að velta upp hvort um sé að ræða vanþekk­ingu eða póli­tísk­an út­úr­snún­ing til að ýta und­ir stefnu Viðreisn­ar um ESB-aðild, sem oft er sögð nauðsyn­leg til að bæta láns­kjör al­menn­ings á Íslandi. Skýrsl­an sýn­ir þvert á móti að bæta má láns­kjör á Íslandi án þess að ganga í ESB. Spurn­ing­in sem vakn­ar er hvort það sé það sem raun­veru­lega fer fyr­ir brjóstið á ráðherra.

Það er brýnt að umræðan sé byggð á staðreynd­um og fag­legri þekk­ingu, ekki póli­tísk­um út­úr­snún­ing­um eða röng­um sam­an­b­urði sem get­ur villt fyr­ir og hindrað að hægt sé að bæta láns­kjör fyr­ir al­menn­ing.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Deila grein

12/03/2025

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Ríkissjóður stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Boðuð útgjöld nýrrar ríkisstjórnar hafa vakið upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna þessa aukningu án þess að grafa undan stöðugleika í efnahagslífinu. Í ljósi þess að við erum nú að ná markverðum árangri við að lækka verðbólgu og stýrivaxtaferlið er í fullum gangi er brýnt að stjórnvöld sýni aðhald í ríkisfjármálum og grípi ekki til aðgerða sem gætu ýtt undir verðbólguþrýsting.

Fjárlög síðustu ríkisstjórnar miðuðu að því að tryggja stöðugleika í ríkisfjármálum og tryggja þannig að efnahagslífið haldi jafnvægi. Ef aukin útgjöld leiða til meiri skuldsetningar ríkissjóðs án hagræðingar eða skýrrar tekjuöflunar getur það leitt til aukinnar verðbólgu og hækkunar stýrivaxta, sem bitnar mest á heimilum og fyrirtækjum.

Óljósar skattahækkanir valda áhyggjum

Í nýliðinni kjördæmaviku þar sem þingflokkur Framsóknar hélt 19 opna stjórnmálafundi kom meðal annars fram að mörgum þykir skortur á skýrleika um fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu og sjávarútveg. Þessar atvinnugreinar eru burðarásar í efnahagslífinu og óvissa um skattlagningu getur dregið úr fjárfestingu og valdið röskun á markaði. Margir hafa áhyggjur af því að auknar álögur geti dregið úr samkeppnishæfni þessara greina og haft keðjuverkandi áhrif á aðra hluta hagkerfisins.

Ferðaþjónustan hefur farið í gegnum mikið umbreytingartímabil eftir heimsfaraldurinn og treystir á stöðugleika og fyrirsjáanleika til áframhaldandi vaxtar. Óvæntar skattahækkanir gætu dregið úr aðdráttarafli Íslands sem áfangastaðar, sérstaklega ef verðlag hækkar verulega. Að sama skapi er sjávarútvegur ein mikilvægasta útflutningsgrein landsins, og skattahækkanir gætu leitt til minni arðsemi, samdrætti í fjárfestingu og neikvæðra áhrifa á efnahagslífið í heild. Ég hef áhyggjur af því að hækkun veiðigjalda muni sérstaklega bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum sem eru burðarásar atvinnulífs í mörgum byggðarlögum. Reyndar hefur það raungerst að smærri útgerðir hafa nú þegar ákveðið að leggja upp laupana í ljósi boðaðra hækkana sem mun leiða til aukinnar samþjöppunar í sjávarútvegi sem er þvert á gefin fyrirheit núverandi ríkisstjórnarflokka.

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld án óstöðugleika?

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir tveimur valkostum: annaðhvort að halda aftur af útgjöldum eða tryggja skýra tekjuöflun án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika. Einn möguleiki væri að einblína á hagkvæmari nýtingu fjármuna ríkissjóðs í stað þess að leggja auknar álögur á atvinnugreinar. Með meiri aga í ríkisfjármálum og hagræðingu í opinberum rekstri mætti draga úr þörfinni fyrir skattahækkanir. Einnig mætti horfa til þess að auka skatttekjur með því að efla hagvöxt frekar en að setja beinar álögur á tilteknar atvinnugreinar.

Stjórnvöld þurfa að sýna ábyrgð

Til þess að viðhalda trausti á íslensku efnahagslífi þurfa stjórnvöld að koma fram með skýra stefnu um hvernig boðuð útgjöld verða fjármögnuð án þess að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Ef stjórnvöld halda áfram á óljósri braut skattahækkana á atvinnulífið án þess að útskýra áhrif þeirra, er hætta á að þetta leiði til minni fjárfestingar, minni hagvaxtar og efnahagslegs óstöðugleika.

Í ljósi alls þessa er mikilvægt að ríkisstjórnin sýni forystu í ríkisfjármálum og tryggi að allar ákvarðanir um útgjöld og skattheimtu séu byggðar á langtímahugsun og ábyrgri hagstjórn. Hvernig ætlar forsætisráðherra að tryggja að boðuð útgjöld verði fjármögnuð án þess að bitna á hagvexti, stöðugu verðlagi og almennri velferð?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 12. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Deila grein

08/03/2025

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Við lif­um á óvissu­tím­um þar sem ör­ygg­is­mál í Evr­ópu og víðar eru í brenni­depli. Stríðsátök og versn­andi sam­skipti stór­velda hafa sett alþjóðakerfið í upp­nám og gert það ljóst að smærri ríki, á borð við Ísland, þurfa að huga sér­stak­lega að lang­tíma­hags­mun­um sín­um í ut­an­rík­is­mál­um. Á slík­um tím­um er nauðsyn­legt að Ísland haldi skýrri stefnu í ör­ygg­is­mál­um og byggi á þeim varn­artengsl­um sem hafa reynst far­sæl.

Við höf­um sér­stöðu á meðal Evr­ópuþjóða, ekki síst vegna varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in, sem hef­ur tryggt ör­yggi okk­ar í ára­tugi. Við erum ekki í sömu stöðu og marg­ar aðrar þjóðir á meg­in­landi Evr­ópu sem standa and­spæn­is bein­um ógn­un­um vegna stríðsrekst­urs. Þess í stað eig­um við að leggja áherslu á að styrkja þau alþjóðlegu tengsl sem hafa reynst okk­ur best og viðhalda varn­ar­sam­starfi okk­ar á traust­um grunni.

Örygg­is- og varn­ar­sam­starf skipt­ir sköp­um

Ísland hef­ur ára­tuga­langa reynslu af varn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in og Atlants­hafs­banda­lagið (NATO). Varn­ar­samn­ing­ur­inn og aðild­in að NATO hafa verið horn­stein­ar ís­lenskr­ar ut­an­rík­is­stefnu og tryggt um leið ör­yggi lands­ins án þess að við þyrft­um að byggja upp eig­in herafla. Staðsetn­ing lands­ins í norður­höf­um skipt­ir máli í alþjóðlegu ör­yggi og ger­ir Ísland að lyk­ilþætti í varn­ar­stefnu NATO.

Með aukn­um ör­ygg­is­áskor­un­um í Evr­ópu hef­ur NATO eflt viðveru sína á Íslandi. Þessi stefna hef­ur skilað sér í aukn­um varn­ar­viðbúnaði og þannig dregið úr hætt­um sem gætu skap­ast í norður­höf­um. Það er því lyk­il­atriði að halda áfram á þess­ari braut og styrkja varn­artengsl okk­ar við banda­lagið í heild sinni.

Mik­il­vægi öfl­ugra varn­artengsla

Ísland hef­ur í ára­tugi átt far­sælt sam­starf við banda­lagsþjóðir sín­ar, bæði inn­an NATO og á tví­hliða grunni. Sam­starf okk­ar við Norður­landa­rík­in, Bret­land og Kan­ada hef­ur styrkt varn­ar­stöðu lands­ins og er mik­il­vægt að halda því áfram. Norður­landa­rík­in hafa sýnt fram á mik­il­vægi svæðis­bund­inn­ar sam­vinnu í ör­ygg­is­mál­um og Ísland get­ur áfram verið hluti af slíkri stefnu án þess að tapa sjálf­stæði sínu í alþjóðamál­um.

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi veikja stöðu Íslands

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi hafa víðtæk áhrif á ut­an­rík­is­stefnu okk­ar og skerða sveigj­an­leika lands­ins í mik­il­væg­um ör­ygg­is­mál­um. Evr­ópu­sam­bandið er póli­tískt tolla­banda­lag sem hef­ur vaxið langt út fyr­ir upp­haf­legt efna­hags­sam­starf og tek­ur nú af­drifa­rík­ar ákv­arðanir um ör­ygg­is- og varn­ar­mál aðild­ar­ríkj­anna.

Ef Ísland gengi í Evr­ópu­sam­bandið myndi það skerða mögu­leika okk­ar til sjálf­stæðrar ákv­arðana­töku í ör­ygg­is­mál­um og gæti dregið úr virkni varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in. Auk þess eru óljós áhrif og eng­in góð sem slík aðild hefði á önn­ur NATO-ríki sem treysta á sam­starf við Ísland í norður­höf­um.

Ekki sundra þjóðinni með ónauðsyn­leg­um deil­um

Á tím­um eins og þess­um er mik­il­vægt að ein­blína á lang­tíma­hags­muni Íslands og tryggja ör­yggi þjóðar­inn­ar með skyn­sam­legri stefnu í alþjóðamál­um. Það er ekki ráðlegt að opna á deil­ur um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og færa þar með all­an fókus ut­an­rík­is­stefnu lands­ins yfir í það verk­efni.

Í stað þess að beina orku okk­ar í slík­ar deil­ur þurf­um við að styrkja varn­ar­sam­starfið, tryggja áfram­hald­andi efna­hags­leg­an stöðug­leika og vera leiðandi afl í alþjóðasam­starfi sem gagn­ast Íslandi sem sjálf­stæðu ríki. Þannig tryggj­um við stöðu okk­ar í sí­breyti­legu alþjóðakerfi án þess að fórna sjálf­stæði okk­ar í mik­il­væg­um mál­um. Við í Fram­sókn erum til í slíkt þver­póli­tískt sam­starf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Deila grein

19/02/2025

Ó­verð­tryggð hús­næðis­lán til 25 ára

Í gær mælti ég fyrir þingsályktun á Alþingi þess efnis að fasteignakaupendur geti tekið óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma. Um er að ræða gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir heimili landsins. Þessi möguleiki er sjálfsagður hjá öðrum Norðurlandaþjóðum en hefur ekki verið tryggður íslenskum neytendum. Stórar fjárhagslegar ákvarðanir á borð við fasteignakaup ættu að byggja á fyrirsjáanleika í afborgunum og hagstæðum kjörum, en íslenskir bankar bjóða ekki upp á sambærileg lán og gerist erlendis.

Þessar aðgerðir hafa verið til umfjöllunar innan fjármálaráðuneytisins og voru hluti af skoðun sem ég hóf fljótlega eftir að ég kom í fjármálaráðuneytið á síðasta ári. Nú liggur fyrir skýrsla, grundvölluð á þeirri vinnu sem ég setti af stað, og mikilvægt að afrakstur þeirrar vinnu nái nú fram að ganga. Við eigum að tryggja íslenskum heimilum sömu valmöguleika og fasteignakaupendur hafa í nágrannalöndunum í stað þess að vera föst í úreltu fjármálafyrirkomulagi sem vinnur gegn þeirra hagsmunum.

Íslenskir bankar eru of smáir og bundnir eigin fjármagnskostnaði, sem gerir þeim erfitt fyrir að veita óverðtryggð lán á hagstæðum kjörum til lengri tíma. Á hinn bóginn er íslenska ríkið og lífeyrissjóðir í sterkari stöðu til að veita slíka fjármögnun, sem gæti útvegað heimilum stöðugri og hagstæðari lánskjör.

Til að bankar geti veitt óverðtryggð fasteignalán til lengri tíma, það er yfir 20 ár, þarf íslenski fjármálamarkaðurinn að þróast. Stjórnvöld hafa hér tækifæri til að bæta regluverk og gera fjármálamarkaðinn sveigjanlegri, svo fjármálastofnanir geti boðið upp á slík lán líkt og í nágrannalöndunum. Áhrif þessarar kerfisbreytingar gæti einnig haft í för með sér lægri vaxtakostnað fyrir ríkissjóð þannig að þar er til mikils að vinna.

Gríðarlegur samfélagslegur ávinningur

Með innleiðingu óverðtryggðra langtímalána á hagstæðum föstum vöxtum fá fasteignakaupendur fyrirsjáanlega fjármögnun og eru ekki berskjaldaðir fyrir hækkandi vöxtum eða verðbólgu. Það veitir heimilum stöðugleika og dregur úr áhættu. Önnur áhrif þessarar kerfisbreytingar að fólk mun síður taka verðtryggð húsnæðislán og færa sig í stöðugra umhverfi.

Eins og áður sagði þá liggja nú fyrir útfærslur á þessari leið en þeirri vinnu var skilað til fjármálaráðuneytisins fyrir nokkrum vikum. Ríkisstjórninni er því ekkert að vanbúnaði að hefja innleiðingu þessarar kjarabótar fyrir íslensk heimili. Við í Framsókn munum fylgja þessu máli fast eftir og kalla eftir aðgerðum til þess að þetta markmið okkar náist.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Deila grein

15/02/2025

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Við upp­haf nýs kjör­tíma­bils standa von­ir margra til þess að stjórn­mál­in verði afl sam­ein­ing­ar frek­ar en sundr­ung­ar. Þjóðin þarf á sam­stöðu að halda, ekki síst á tím­um efna­hags­legra áskor­ana og auk­inn­ar óvissu í alþjóðamál­um. Hins veg­ar vek­ur það áhyggj­ur að ný rík­is­stjórn sýn­ir eng­an skýr­an vilja til slíkr­ar sam­ein­ing­ar, ef marka má stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra.

Hús­næðismál í for­gangi

For­gangs­mál Fram­sókn­ar nú við upp­haf þings er þing­mál um 25 ára óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Sú leið sem við höf­um lagt til, og bygg­ir á vinnu sem sett var af stað í minni tíð í fjár­málaráðuneyt­inu, hef­ur vakið at­hygli enda um mikla kjara­bót að ræða fyr­ir ís­lensk heim­ili. Það er mjög mik­il­vægt fyr­ir lán­tak­end­ur að hafa ör­yggi og fyr­ir­sjá­an­leika við af­borg­an­ir hús­næðislána og nái þessi áform fram að ganga mun það tryggja betri lána­kjör með bætt­um hag fyr­ir heim­il­in.

Upp­bygg­ing leigu­hús­næðis

Við í Fram­sókn mun­um líka styðja við aukna upp­bygg­ingu leigu­hús­næðis í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Það er fagnaðarefni að ný rík­is­stjórn ætli að halda áfram á þeirri braut sem við í Fram­sókn höf­um markað og nú hef­ur verið veitt­ur stuðning­ur til bygg­ing­ar 4.000 íbúða í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Við þurf­um með þess­um hætti að stuðla að fjöl­breytt­ari og hag­kvæm­ari val­kost­um á leigu­markaði. Um 1.000 fjöl­skyld­ur hafa eign­ast sitt eigið hús­næði með til­komu hlut­deild­ar­lána en áfram þarf að efla þetta úrræði og tryggja að það gagn­ist sem flest­um. Með þess­um aðgerðum í hús­næðismál­um get­um við stuðlað að auknu hús­næðis­ör­yggi og aukið lífs­gæði fólks.

For­gang­ur heim­ila og smærri fyr­ir­tækja að raf­orku

Annað for­gangs­mál Fram­sókn­ar er til­laga um for­gang heim­ila og lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja að raf­orku. Um leið er mik­il­vægt að inn­leiða verðvernd og stuðla þannig að hag­kvæmu orku­verði til handa heim­il­um og at­vinnu­lífi. Reynsla annarra þjóða, t.d. Norðmanna, þar sem raf­orku­kostnaður rauk upp er víti til varnaðar.

At­vinna og verðmæta­sköp­un

Sterkt at­vinnu­líf er und­ir­staða góðra lífs­kjara. At­vinnu­leysi á Íslandi er lágt í sam­an­b­urði við önn­ur lönd en ný rík­is­stjórn sýn­ir litla framtíðar­sýn í at­vinnu­mál­um, sér­stak­lega utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Það vek­ur einnig áhyggj­ur að fyr­ir­hugaðar skatta­hækk­an­ir á sjáv­ar­út­veg­inn muni bitna sér­stak­lega á minni og meðal­stór­um fjöl­skyldu­fyr­ir­tækj­um, sem get­ur leitt til enn frek­ari samþjöpp­un­ar í grein­inni.

Hvað verður um ís­lensk­an land­búnað?

Óljós stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar í land­búnaðar­mál­um veld­ur einnig áhyggj­um. Á að svipta bænd­ur rétti sín­um til að reka eig­in fyr­ir­tæki á sama tíma og er­lend­ir bænd­ur njóta slíks rétt­ar? Er verið að hygla stór­um inn­flutn­ingsaðilum á kostnað ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu? Í heimi þar sem fæðuör­yggi verður sí­fellt mik­il­væg­ara ætti rík­is­stjórn­in að leggja áherslu á að styrkja ís­lensk­an land­búnað í stað þess að veikja hann.

Ómark­viss stefna í ferðaþjón­ustu

Ferðaþjón­ust­an er mik­il­væg at­vinnu­grein fyr­ir Ísland og hef­ur skapað fjöl­mörg störf og mik­il verðmæti. Sam­keppn­is­hæfni grein­ar­inn­ar er hins veg­ar viðkvæm og því vek­ur það furðu að rík­is­stjórn­in sé að hringla með óljós­ar skatt­heimtu­hug­mynd­ir sem geta skaðað grein­ina. Stöðug­leiki og skýr stefna eru lyk­il­atriði til að tryggja áfram­hald­andi vöxt ferðaþjón­ust­unn­ar, en af umræðunni að dæma virðist rík­is­stjórn­in ekki hafa neina skýra sýn um framtíð henn­ar.

Þögn­in um þjóðar­at­kvæði

Eitt það at­hygl­is­verðasta við stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra var hvað ósagt var látið. Eng­in umræða fór fram um mögu­lega þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þrátt fyr­ir að Sam­fylk­ing­in og Viðreisn hafi lagt mikla áherslu á málið. Enn meira kem­ur á óvart að Flokk­ur fólks­ins hafi skipt um stefnu í mál­inu og veiti nú slík­um hug­mynd­um stuðning. Raun­ar virðast fá stefnu­mál flokks­ins, sem kynnt voru svo mynd­ar­lega í aðdrag­anda kosn­inga, hafa hlotið braut­ar­gengi.

Ábyrgð rík­is­stjórn­ar­inn­ar

Það eru vissu­lega tæki­færi til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi. En til að nýta þau þarf rík­is­stjórn sem sam­ein­ar þjóðina í stað þess að sundra henni. Við í Fram­sókn erum til­bú­in að vinna að upp­bygg­ingu sam­fé­lags­ins og vinna sam­an að góðum mál­um. En við mun­um einnig veita rík­is­stjórn­inni nauðsyn­legt aðhald þar sem þess ger­ist þörf. Það er ekki nóg að tala um framtíðar­sýn – það þarf að fram­kvæma. Við þurf­um stefnu sem tek­ur til­lit til alls lands­ins, ekki stefnu sem veik­ir lands­byggðina, skaðar at­vinnu­lífið og van­ræk­ir mik­il­væg mál á borð við at­vinnu, innviði og fæðuör­yggi.

Sigurur Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtt upphaf?

Deila grein

28/01/2025

Nýtt upphaf?

Þann 4. fe­brú­ar næst­kom­andi verður Alþingi sett og hefst þar með nýtt kjör­tíma­bil nýrr­ar rík­is­stjórn­ar. Rétt er í upp­hafi að óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um fyr­ir land og þjóð. Í stefnu­yf­ir­lýs­ingu nýrr­ar rík­is­stjórn­ar seg­ir að fyrsta verk henn­ar sé að ná stöðug­leika í efna­hags­lífi, lækka vexti og vinna að auk­inni verðmæta­sköp­un í at­vinnu­lífi. Það er vel, en hins veg­ar er lítið fjallað um það í meðfylgj­andi 23 aðgerðum hvernig þessu skuli náð. Þó er sagt að ný rík­is­stjórn muni rjúfa kyrr­stöðu í at­vinnu­líf­inu.

Hvað er kyrrstaða?

Óneit­an­lega vakn­ar þá spurn­ing­in um hvað kyrrstaða er í hug­um odd­vita rík­is­stjórn­ar­inn­ar, þegar at­vinnuþátt­taka hef­ur sjald­an verið meiri á Íslandi síðustu miss­eri. At­vinnu­leysi er lítið. Á síðustu 7 árum hafa 25 þúsund nýj­ar íbúðir komið á markað. Meiri kraft­ur hef­ur verið í bygg­inga­geir­an­um hér­lend­is en á nokkru byggðu bóli í Evr­ópu. Á sama tíma hef­ur stærsta ein­staka fjár­fest­ing rík­is­ins verið í full­um gangi, þ.e.a.s. bygg­ing nýs Land­spít­ala með um 20 millj­arða fjár­fest­ingu á síðasta ári. Á bil­inu 20-30 millj­arðar ár­lega hafa farið í upp­bygg­ingu vega, t.a.m. Reykja­nes­braut­ar, Arn­ar­nes­veg­ar, Vest­ur­lands­veg­ar um Kjal­ar­nes, Suður­lands­veg­ar og tengi­vega um land allt, stór­fellda fækk­un ein­breiðra brúa m.a. yfir Horna­fjarðarfljót og ekki síst upp­bygg­ingu á Vest­fjörðum á Dynj­and­is­heiði og um suðurf­irði Vest­fjarða. Þá eru ótal­in verk­efni á veg­um Höfuðborg­arsátt­mál­ans og und­ir­bún­ing­ur Sunda­braut­ar. Metnaðarfull jarðganga­áætl­un lá fyr­ir í sam­göngu­áætlun, m.a. með Fjarðar­heiðargöng­um og flýti­rann­sókn­um á Siglu­fjarðarsk­arðsgöng­um og um Súðavík­ur­hlíð. Mik­il og löngu þörf upp­bygg­ing var á flug­völl­um lands­ins, m.a. á Ak­ur­eyri og Eg­ils­stöðum. Komið var á vara­flug­vall­ar­gjaldi og stuðnings­kerf­inu Loft­brú. Hafna­bóta­sjóður var stór­auk­inn og mörg verk­efni eru orðin að veru­leika eða að verða eins á Ísaf­irði, Njarðvík, Sauðar­króki og Þor­láks­höfn. Það er von­andi að ný rík­is­stjórn nái að halda vel á spöðunum áfram og jafn­vel bæti í – það er þörf á því, en allt tal um kyrr­stöðu síðustu ára hljóm­ar í besta falli eins og lé­leg öf­ug­mæla­vísa á þorra­blóti.

Byggj­um upp traust og sam­heldni

Hin nýja rík­is­stjórn seg­ist ein­setja sér að vinna gegn sundr­ung og tor­tryggni og byggja und­ir traust og sam­heldni í ís­lensku sam­fé­lagi. Það vek­ur því furðu að sama fólk ætl­ar sér – þrátt fyr­ir enga umræðu í aðdrag­anda kosn­inga – að draga þjóðina inn í umræðu um aðild að tolla­banda­lagi ESB, þar sem vitað er að þjóðin er djúpt klof­in gagn­vart þeirri veg­ferð. Meiri­hluti þjóðar­inn­ar mun aldrei gefa af­slátt á að missa for­ræði yfir auðlind­um lands­ins. Evr­ópu­sam­bandið er í stór­kost­legri krísu þessi miss­er­in, hag­vöxt­ur nær eng­inn, at­vinnu­leysi vax­andi, kaup­mátt­ur al­menn­ings rýrn­ar, eng­inn kraft­ur í ný­sköp­un eða nýt­ingu gervi­greind­ar til hags­bóta fyr­ir sam­fé­lagið. Ólíkt Íslandi, þar sem síðustu 10 ár hafa verið saga mik­ils hag­vaxt­ar og auk­ins kaup­mátt­ar launa­fólks – ekki síst þeirra sem lægstu laun­in hafa. Veru­leg ný­sköp­un hef­ur átt sér stað á öll­um sviðum og upp­bygg­ing nýrra verðmætra skap­andi út­flutn­ings­greina eins og lyfjaiðnaðar, fisk­eld­is og ekki síst skap­andi greina.

Sem fyrsta markverða skrefið til að draga úr tor­tryggni og auka traust mætti benda nýrri rík­i­s­tjórn á að hætta strax við öll ESB-áform. Ólíkt því sem birt­ist í aðgerðaplani nýrr­ar rík­is­stjórn­ar væri rétt­ara að leggja mesta áherslu á sam­starf við okk­ar helstu vinaþjóðir, á Norður­lönd­um, í stað þess að setja Evr­ópu­sam­bandið þar fremst. Norður­landa­rík­in eru öll í NATO og ásókn stórþjóða í áhrif á norður­slóðum vex. Mik­il­vægi ná­ins sam­starfs Norður­landa­ríkj­anna hef­ur aldrei verið meira. Sam­vinna okk­ar við önn­ur nor­ræn ríki hef­ur hjálpað til við að skapa fé­lags­legt rétt­læti og aukið lífs­gæði og sam­keppn­is­hæfni á alþjóðavísu. Græn­land, Fær­eyj­ar og Álands­eyj­ar eru á sama veg nauðsyn­leg­ir sam­starfsaðilar.

Fjár­mál stjórn­mála­flokka og gegn­sæi

Til að auka traust á lýðræðinu og stjórn­kerf­inu væri einnig gott næsta skref að yf­ir­fara fjár­mál stjórn­mála­flokka. Rann­saka hverj­ir eiga rétt á slík­um greiðslum og krefjast end­ur­greiðslu frá þeim sem upp­fylla ekki skil­yrði til að fá greiðslur frá fólk­inu í þessu landi til að standa straum af rekstri og kosn­inga­bar­áttu síns flokks. Auka gegn­sæi. Þannig væri hægt að byggja upp traust og sam­heldni og eyða tor­tryggni og sundr­ung.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður og formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Deila grein

02/01/2025

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tím­inn margra spor
þá man og elsk­ar kyn­slóð vor
sitt fagra föður­land.

Á þess­um kröft­ugu lín­um hefst ljóð Davíðs Stef­áns­son­ar sem flest­ir ef ekki all­ir karla­kór­ar lands­ins hafa ein­hvern tím­ann haft á efn­is­skrám sín­um und­ir lagi Páls Ísólfs­son­ar. Við búum við það, Íslend­ing­ar, að nátt­úr­an er lif­andi og oft á tíðum grimm. Hún er á sama tíma ástæðan fyr­ir vel­sæld okk­ar, ástæðan fyr­ir því gríðarlega stökki sem ís­lenskt sam­fé­lag tók á síðustu öld inn í nú­tím­ann. Þær kyn­slóðir sem fædd­ar voru um og eft­ir alda­mót­in 1900 voru fram­sýn­ar, þær voru dug­leg­ar og við eig­um þeim mikið að þakka. Og við höf­um lært mikið af þeim, ekki síst það að það er eitt að vera fram­sýnn og annað að hafa kraft og þor til að fram­kvæma þær hug­mynd­ir sem kvikna.

Ákalli um breyt­ing­ar var svarað

Ára­mót eru mik­il­væg tíma­mót því þau kalla á að við tök­um okk­ur tíma og pláss til að horfa yfir sviðið, gera upp fortíðina og leggja drög og drauma að framtíðinni. Árið 2024 var mikið um­brota­ár í ís­lensku sam­fé­lagi. Þjóðin kaus sér for­seta í byrj­un sum­ars og síðan brast á með þing­kosn­ing­um í lok nóv­em­ber eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sleit sam­starf­inu við okk­ur í Fram­sókn og Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð. Niðurstaða kosn­ing­anna var af­ger­andi: Rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um var hafnað og þeir flokk­ar sem boðuðu breyt­ing­ar unnu sig­ur og hafa nú náð sam­an um rík­is­stjórn. Ég óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og heiti því að Fram­sókn mun stunda öfl­uga og mál­efna­lega stjórn­ar­and­stöðu.

Öflug stjórn við erfiðar aðstæður

Ákallið um breyt­ing­ar var sterkt í kosn­inga­bar­átt­unni. Trú­in á þeirri rík­is­stjórn sem hafði starfað frá haust­inu 2017 hafði dofnað veru­lega enda má segja að síðasta árið hafi þjóðin búið við stjórn­ar­kreppu. Þótt sam­starfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjör­tíma­bili rík­is­stjórn­ar­inn­ar tók­um við í Fram­sókn þá af­stöðu að mik­il­væg­ara væri að ganga hnar­reist til verks og láta ekki sund­ur­lyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verk­efni sem flokk­arn­ir þrír höfðu komið sér sam­an um í stjórn­arsátt­mála að hrinda í fram­kvæmd. Við ákváðum, eðli­lega, að láta þjóðar­hag hafa for­gang um­fram hags­muni flokks­ins.

Breyt­ing­arn­ar á þingi eru veru­leg­ar en mik­il nýliðun varð í kosn­ing­un­um. Það var mik­il reynsla sem bjó í síðustu rík­is­stjórn þar sem for­menn stjórn­ar­flokk­anna höfðu all­ir á ein­hverj­um tíma setið í stóli for­sæt­is­ráðherra. Sú reynsla kom sér vel í þeim stór­kost­legu áskor­un­um sem rík­is­stjórn­in stóð frammi fyr­ir á þeim sjö árum sem hún var við völd. Flug­fé­lagið Wow air féll með lát­um á fyrra kjör­tíma­bil­inu. Heims­far­ar­ald­ur geisaði með lam­andi áhrif­um á sam­fé­lag og at­vinnu­líf. Rúss­ar réðust inn í Úkraínu. Og rýma þurfti eitt öfl­ug­asta bæj­ar­fé­lag lands­ins, Grinda­vík, vegna elds­um­brota. Svo eitt­hvað sé nefnt.

Síðustu ár hafa verið ár um­bóta

Ég er stolt­ur af þeim ár­angri sem Fram­sókn náði í störf­um sín­um í rík­is­stjórn frá ár­inu 2017 þegar þetta óvenju­lega stjórn­ar­mynst­ur varð til. Fram­lög til sam­göngu­mála voru stór­auk­in, tíma­móta­sam­komu­lag um upp­bygg­ingu í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu náðist með sam­göngusátt­mál­an­um og und­ir­bún­ings­vinnu á Sunda­braut gekk vel, rann­sókn­ar­vinnu er nán­ast lokið og get­ur útboðsfer­ill farið í gang þegar leiðar­val ligg­ur fyr­ir og breyt­ing á aðal­skipu­lagi hef­ur verið aug­lýst. Þá er Reykja­nes­braut­in að verða tvö­föld allt að Fitj­um í Reykja­nes­bæ, sam­vinnu­verk­efnið um Ölfusár­brú er komið af stað, með verk­efn­inu Ísland ljóstengt, sem ég er einna stolt­ast­ur af á mín­um ferli, hef­ur verið komið á ljós­leiðara­teng­ingu í öll­um sveit­um lands­ins, af­slátt­ur fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar með Loft­brú hef­ur fest sig í sessi og byggðamál­in eru orðin mik­il­væg­ur þátt­ur í starfi Stjórn­ar­ráðsins, nokkuð sem ég hef alltaf lagt mikla áherslu á. Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar í hús­næðismál­um hef­ur tek­ist að byggja upp nor­rænt hús­næðis­kerfi sem trygg­ir þúsund­um fjöl­skyldna ör­uggt þak yfir höfuðið. Nú rík­ir mun betra jafn­vægi á hús­næðismarkaði en áður og auk þess lagði ríkið til í haust land und­ir bygg­ingu 800 íbúða í Reykja­nes­bæ. Stór­sókn í heil­brigðismál­um hef­ur átt sér stað síðustu árin und­ir stjórn Will­ums Þórs sem hef­ur ekki síst komið fram í jöfn­un aðgeng­is að kerf­inu með samn­ing­um við all­ar heil­brigðis­stétt­ir sem ósamið hafði verið við um ár­araðir, auknu fjár­magni til mála­flokks­ins og bætt­um rekstr­ar­skil­yrðum Land­spít­al­ans. Mark­viss vinna Lilju Dagg­ar í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar, auk­inn stuðning­ur við menn­ingu og list­ir og 35% end­ur­greiðslan hef­ur styrkt stoðir kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Ásmund­ur Ein­ar setti mál­efni barna á dag­skrá, ekki síst með far­sæld­ar­lög­un­um sem hafa þegar bætt aðstöðu þeirra barna sem veik­ust eru fyr­ir í ís­lensku sam­fé­lagi og ekki má held­ur gleyma stuðningi hans við íþrótt­irn­ar með nýrri Þjóðar­höll og aukn­um stuðningi við yngri landslið okk­ar. Allt þetta og meira til er á af­reka­skrá Fram­sókn­ar frá ár­inu 2017. Og á þessu geta rík­is­stjórn­ir framtíðar­inn­ar byggt til hags­bóta fyr­ir þjóðina.

Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi

Staða Íslands er góð, hag­kerfið er því næst í jafn­vægi með hátt at­vinnu­stig, lítið at­vinnu­leysi og framtíðin er björt ef rétt er haldið á spöðunum. Fyrri rík­is­stjórn náði stjórn á verðbólg­unni sem fór á flug eft­ir heims­far­ald­ur og stríð í Úkraínu. Við sjá­um fram á mjúka lend­ingu hag­kerf­is­ins, sjá­um fram á lækk­andi verðbólgu og lægri vexti. Aðhald í rík­is­fjár­mál­um er mik­il­væg­ur þátt­ur í þeim ár­angri sem fyrri rík­is­stjórn náði í bar­átt­unni við verðbólg­una. Það sem var þó ekki síður mik­il­vægt var að með aðkomu hins op­in­bera náðust kjara­samn­ing­ar til fjög­urra ára á al­menn­um markaði.

Gat­an er því nokkuð greið fyr­ir all­hraðar vaxta­lækk­an­ir á nýju ári.

Já, framtíðin er björt. Þeirri rík­is­stjórn sem af­henti val­kyrj­un­um lykl­ana að Stjórn­ar­ráðinu fyr­ir jól tókst að skapa þær aðstæður að nú eru fimm stoðir und­ir efna­hag lands­ins. Hin nýja stoð hug­vits og skap­andi greina er ört vax­andi og veit­ir ekki aðeins aukn­ar tekj­ur inn í þjóðarbúið held­ur skap­ar ný og spenn­andi störf fyr­ir ungt fólk. Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi, nokkuð sem stefnt hef­ur verið að í lang­an tíma og er nú að nást.

Óvissu­tím­ar

Við lif­um á tím­um þar sem mik­il óvissa rík­ir á alþjóðasviðinu. Það geis­ar styrj­öld í Evr­ópu. Fjölda fólks er fórnað á víg­vell­in­um í Úkraínu. Það er nöt­ur­legt að horfa upp á Rússa, sögu­legt stór­veldi sem nú stend­ur á brauðfót­um og er stýrt af manni sem virðist svíf­ast einskis til að halda stöðu sinni. Hryll­ing­ur­inn á Gasa held­ur áfram. Sýr­land hef­ur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt. Í janú­ar sest á ný í stól for­seta Banda­ríkj­anna maður sem virðist horfa öðrum aug­um á hlut­verk Banda­ríkj­anna í sam­fé­lagi þjóðanna en flest­ir sem í þeim stól hafa setið. Ef sumt af því sem hann hef­ur sagst hafa áform um nær fram að ganga get­ur það haft mik­il áhrif á viðskipti í heim­in­um og þar með á lífs­kjör okk­ar hér á landi. Sam­band okk­ar við Banda­rík­in hef­ur alltaf verið gott og mik­il­vægt er að hlúa að því sama hver sit­ur þar í for­sæti.

Kæri les­andi.

Eitt er það sem mik­il­væg­ast er fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og það er að öðlast ró og ham­ingju. Árið 2024 ein­kennd­ist af óróa og of­beldi, nokkuð sem við get­um ekki þolað. Við þurf­um að hlúa vel að fjöl­skyld­um, þurf­um að hlúa vel að börn­un­um okk­ar, fyrstu kyn­slóðinni sem elst upp við ótrú­leg­ar breyt­ing­ar sem tækn­in hef­ur gert á sam­skipt­um okk­ar og sam­fé­lagi. Besta leiðin til þess er að hver og einn horfi inn á við, veiti fólk­inu sínu at­hygli og hlýju, leggi á sig það sem þarf til að skapa sterk tengsl við sína nán­ustu. Það kem­ur ekk­ert í staðinn fyr­ir það að eiga góða og sterka fjöl­skyldu sem hægt er að treysta á í lífs­ins ólgu­sjó.

Ég óska þér, les­andi góður, gleðilegs nýs árs. Megi Guð og gæf­an fylgja þér árið 2025.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn í for­ystu fyrir meira og hag­kvæmara hús­næði

Deila grein

25/11/2024

Fram­sókn í for­ystu fyrir meira og hag­kvæmara hús­næði

Framsókn hefur á síðustu árum verið í forystu um stórtækar umbætur í húsnæðismálum sem hafa haft víðtæk áhrif á íslenskan húsnæðismarkað. Séreignarstefnan blómstrar með Framsókn en aldrei fleiri hafa átt eigið húsnæði – nú um 80% Íslendinga og aldrei fleira ungt fólk hefur eignast sitt eigið húsnæði. Samhliða hefur verið byggt upp kerfi sem tryggir öryggi fyrir þá sem ekki hafa tök á að eignast húsnæði.

Stuðningur við fyrstu kaupendur

  • Hlutdeildarlánin, sem Framsókn setti í forgang, hafa gert 1200 fyrstu kaupendum kleift að eignast sína fyrstu fasteign.
  • Aldrei fleira ungt fólk hefur eignast sitt eigið húsnæði – í öllum tekjuhópum.

Norrænt húsnæðiskerfi fyrir tekjulægri

  • Með stofnframlögum og hlutdeildarlánum hefur Framsókn byggt upp kerfi sem tryggir að tekju- og eignalægri einstaklingar og fjölskyldur hafi aðgang að öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði.
  • 5000 íbúðir hafa þegar verið byggðar fyrir tekjulægri og fyrstu kaupendur, og fjármunir eru tryggðir fyrir aðrar 5000 íbúðir næstu fimm árin um land allt.

Öruggt leiguumhverfi

  • Réttindi leigjenda hafa verið styrkt til að skapa öruggari leigumarkað þar sem leiguverð er í samræmi við greiðslugetu.
  • Sérstök áhersla hefur verið lögð á að styðja tekju- og eignalægri fjölskyldur með húsnæðisstuðningi.

Húsnæðisstefna að norrænni fyrirmynd

  • Fyrsta húsnæðisstefna Íslands var samþykkt á síðasta vorþingi, með yfir 40 aðgerðum sem miða að stöðugleika á húsnæðismarkaði, auknu aðgengi að húsnæði og bættri stöðu heimila.
  • Stefnan byggir á því að tryggja grundvallarréttindi allra til að hafa öruggt þak yfir höfuðið.

Framsókn hefur náð að samþætta séreignarstefnu og norrænt húsnæðiskerfi, með áherslu á stöðugleika, réttlæti og sanngirni fyrir alla. Þetta eru aðgerðir sem skipta máli og hafa raunveruleg áhrif á líf fjölskyldna.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á réttri leið

Deila grein

20/11/2024

Á réttri leið

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði nú í morgun vexti um 50 punkta. Vextir hafa þannig lækkað um 75 punkta á skömmum tíma. Þetta er í mjög góðum takti við það sem bæði við í Framsókn og aðrir sem leggja mat á stöðu efnahagsmála á Íslandi hafa verið að segja. Við erum sannarlega á réttri leið.

  1. Við erum með ábyrga og trausta efnahagsstefnu og verðbólga hefur lækkað í takt við spár. Aðhald í ríkisfjármálunum er nægilegt og tryggir mjúka lendingu sem þýðir í megin atriðum að ná niður verðbólgunni án þess að hér verði atvinnuleysi.
  2. Við erum með langtímakjarasamninga sem stuðla að stöðugleika og þannig hafa aðilar vinnumarkaðarins lagt sitt af mörkum.
  3. Við erum að sjá verðbólguvæntingar lækka og þær hafa ekki verið lægri síðan í byrjun árs.
  4. Gengi íslensku krónunnar er stöðugt og hefur verið að styrkjast.

Munar um minna

Til að setja þessar vaxtalækkanir í samhengi þá lækkar greiðslubyrði lána verulega. Þær lækkanir sem þegar hafa komið til framkvæmda geta sem dæmi numið tæplega 200.000 krónum á ársgrundvelli sé miðað við 30 m.kr. húsnæðislán. Sömu áhrifa gætir hjá fyrirtækjum landsins sem fjármagna sig með lánsfé. Það munar um minna.

Við erum öll sammála um það að samfélagið hefur þurft að ganga í gegnum erfiða verðbólgutíma með hærri vöxtum en við kærum okkur um í kjölfar Covid, verðbólgu sem blossaði upp um allan heim og þær áskoranir sem við höfum tekist á við í kjölfar eldsumbrota í Grindavík. Þetta verkefni hefur krafist þolinmæði og þrautseigju. Við sjáum nú til lands við þetta stærsta hagsmunamál samfélagsins alls.

Við erum í dauðafæri á að halda áfram á þessari braut. Það eru öll teikn á lofti um að vextir geti lækkað áfram. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst þess að við höldum áfram rétt á spilunum og tryggjum ábyrga, yfirvegaða og trausta hagstjórn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar og fjármála- og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ný Ölfusár­brú – skyn­sam­legt val fyrir fram­tíðina

Deila grein

20/11/2024

Ný Ölfusár­brú – skyn­sam­legt val fyrir fram­tíðina

Í dag eru stór tímamót í sögu samgangna á Suðurlandi þegar fyrsta skóflustunga verður tekin að nýrri Ölfusárbrú sem mun bæta lífsgæði, auka umferðaröryggi og greiða fyrir flæði í einu af lykilsamgöngusvæðum landsins. Hönnun brúarinnar byggir á ítarlegri greiningu og hún er talin hagkvæmasti kosturinn. Brúin tekur mið af náttúrulegum aðstæðum, þar á meðal flóðahættu í Ölfusá, hættu á ísstíflum og jarðskjálftum, þar sem burðarformið er vel til þess fallið að mæta slíku álagi. Nýja Ölfusárbrúin mun gjörbylta umferð um Suðurland, bæta umferðaröryggi og draga úr umferðartöfum og mengun á Selfossi.

Brú ekki sama og brú

Áætlaður kostnaður Ölfusárbrúarinnar sjálfrar er um 8,4 milljarðar króna, en heildarkostnaður með tengdum vegaframkvæmdum nemur 17,9 milljörðum króna. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar með veggjöldum án þess að hafa áhrif á önnur verkefni samgönguáætlunar. ÞG Verk var valið til að sjá um hönnun, byggingu og fjármögnun brúarinnar og tekur verkið mið af samvinnuverkefnismódeli (PPP), þar sem einkaaðilar bera ábyrgð á útfærslu og fjármögnun framkvæmdar. Það sýnir hvernig samvinna stjórnvalda og einkaaðila getur flýtt fyrir mikilvægum framkvæmdum og við sjáum Hringveginn loks færast út fyrir þéttbýlið á Selfossi.

Einhverjir hafa dregið í efa ákvörðun Vegagerðarinnar um stagbrú og látið í veðri vaka að lítil brú gæti hentað vatnsmestu á landsins. Þá gleymist að við glímum við náttúrulegar aðstæður þar sem hætta er á flóðum, ísstíflum og jarðskjálftaálagi. Ný brú þarf að standast slíkt álag af náttúrunnar hendi og reyndist stagbrú hagkvæmasti kosturinn eftir ítarlega greiningu á náttúrulegum aðstæðum.

Bylting

Núverandi brú hefur þjónað okkur vel í tæp 80 ár og staðist áskoranir náttúruaflana. Með aukinni umferð, sem nú er 14.500 ökutæki á dag, er kominn tími á að lyfta grettistaki. Samhliða fjölgun íbúa og ferðamanna er ljóst að þörfin fyrir nýja brú er brýn. Þessi framkvæmd mun koma á langþráðum úrbótum og verða bylting fyrir okkur öll.

Nýja Ölfusárbrúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Á brúnni verða aðskildar akstursstefnur ásamt göngu- og hjólaleiðum, bæði yfir og undir brúnni. Brúin er framtíðarlausn sem tekur mið af vaxandi umferðarþunga og hönnuð þannig að hún geti borið fjórar akreinar gerist þess þörf.

Framtíðarsýn

Væntingar voru um að framkvæmdir gætu hafist fyrr. Á meðan hefur umferð um svæðið vaxið hratt, kostnaður hækkað og þörfin fyrir nýja brú verður æ brýnni. Undirbúningur verksins hófst formlega þegar ég kom inn í samgönguráðuneytið árið 2018. Allt frá þeim tíma hefur Vegagerðin unnið að rannsóknum og forhönnum með vönduðum hætti. Þegar ég tók við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í vor lagði ég mikla áherslu á að hraða lokaferlinu sem tengdist útfærslu á fjármögnun verksins. Með góðu samstarfi hefur tekist að vinna úr flóknum áskorunum. Þessi reynsla mun verða dýrmæt í stjórnkerfinu í framtíðinni þegar sambærileg verkefni koma á dagskrá. Nú hafa framkvæmdir loks fengið grænt ljós og bíðum nú spennt eftir að verða vitni að þeim framförum sem þetta mikilvæga samgöngumannvirki mun hafa í för með sér.

Þetta verkefni er ekki aðeins stórt framfaraskref fyrir Suðurland heldur líka tákn um hvernig samvinna og metnaður geta leitt til stórkostlegra umbóta í samfélaginu. Hún verður mikilvæg fyrir lífsgæði íbúa og gesta og stórt skref í þróun innviða. Þetta er tímamótaverkefni fyrir Suðurland og landið allt – glæsilegt mannvirki sem eykur öryggi og bætir samfélagið. Til hamingju.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, innviðarráðherra og fjármála-og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.