Áramót, þessi ímynduðu þáttaskil í lífi okkar, eru sérstakur tími. Í þeim rennur saman í eitt, nánast áþreifanlegt augnablik, minningar okkar úr fortíðinni og væntingar okkar um framtíðina. Það er hollt að staldra við á þessum skurðpunkti fortíðar og framtíðar og líta yfir sviðið. Það er margt í samfélagi okkar sem er gott eins og sést þegar helstu mælikvarðar eru skoðaðir. Það þýðir þó ekki að hér sé allt fullkomið. Alltaf er rými til að bæta þá umgjörð sem við höfum skapað um samfélag okkar.
Þegar maður er orðinn margfaldur afi þá hefst nýtt tímabil í lífi manns. Minningar frá fyrstu árum barnanna verða ljóslifandi og þá ekki síður minningar úr eigin æsku. Í kringum börn er ævintýraheimur sem er fullur af litríkum persónum. Ein þeirra er Emil í Kattholti, strákurinn sem var svo óþægur að sveitungarnir söfnuðu peningum til þess að hægt væri að senda hann til Ameríku. Því var auðvitað hafnað og átti fyrir Emil að liggja að verða oddviti. Astrid Lindgren hélt með börnunum í sögum sínum og opnaði leið inn í heim þeirra og það á tímum sem ekki var á öllum heimilum litið á börn sem manneskjur.
Velsæld barna
Á síðustu árum höfum við lagt mikla áherslu á velferð barna eins og sér glöggt merki í nýjum lögum um velsæld barna sem samþykkt voru undir lok síðasta kjörtímabils. Rannsóknir sýna að fyrstu árin eru gríðarlega mikilvæg og hafa mótandi áhrif á ævina alla. Áhersla Framsóknar hefur lengi verið á velferð barna. Hluti af sögu Framsóknar er að koma á fæðingarorlofi fyrir feður sem er ekki aðeins mikilvægt fyrir jafnrétti kynjanna heldur stuðlar að nánara og betra sambandi barna við feður sína. Lenging fæðingarorlofs í 12 mánuði sem er eitt af verkum síðustu ríkisstjórnar er einnig mikilvægt skref í að bæta enn aðbúnað barna.
Barnið er hjartað í kerfinu
Þær breytingar, sem lögin um velsæld barna og sú samþætting sem unnið var að í tíð Ásmundar Einars Daðasonar sem félags- og barnamálaráðherra, fela í sér hefur í för með sér að veggir og þröskuldar milli ólíkra kerfa voru brotnir til. Það er orðið algjörlega skýrt að barnið er hjartað í kerfinu og að hagsmunir þess séu alltaf í öndvegi. Þær lýsingar sem heyrst hafa reglulega í fjölmiðlum heyra vonandi sögunni til innan skamms.
Í vinnunni við lögin var sérstaklega reiknað út hvaða áhrif þessar breytingar hefðu efnahagslega. Það kom í ljós, sem eru eflaust lítil tíðindi fyrir marga, að þessi áhersla á velsæld barna hefur ekki aðeins gríðarlega jákvæð áhrif á einstaklinginn sjálfan heldur kemur hún til með að skila samfélaginu öllu fjárhagslegum ávinningi. Sé stutt við þau börn sem á því þurfa að halda aukast líkurnar á því að þau njóti aukinna lífsgæða á lífsleiðinni.
Önnur stór breyting sem varð á síðasta kjörtímabili var nýr Menntasjóður námsmanna sem varð að veruleika með vinnu Lilju Daggar Alfreðsdóttur sem mennta- og menningarmálaráðherra. Í þeim breytingum eru aðstæður námsmanna orðnar mun betri, ekki síst barnafólks þar sem nú er veittur styrkur fyrir hvert barn en ekki viðbótarlán eins og áður. Með þessu er stutt sérstaklega við ungt barnafólk og tækifæri þess til náms aukin verulega.
Ég hef lagt á það áherslu í mínum störfum að fá sjónarhorn barna og ungmenna varðandi samgöngur. Sérstakur starfshópur hefur komið með tillögur í þeim efnum sem snúast meðal annars um betri vegi þar sem börn fara um til að sækja skóla, aukna áherslu á göngu- og hjólastíga og að samgönguþing ungmenna og barna verði hluti af árlegu Samgönguþingi. Það er nefnilega þannig að þegar stjórnmálin hugsa um hagsmuni barna þá verður ákvarðanatakan ábyrgari og horfir meira til framtíðar. Sú áhersla sem ég lagði á umferðaröryggi í störfum mínum er nátengt þessari sýn á samfélagið.
Húsnæði er frumþörf
Ein af stóru breytingunum sem birtast í nýrri ríkisstjórn er að húsnæðismál, skipulagsmál, samgöngur, sveitarstjórnar- og byggðamál eru nú öll í einu innviðaráðuneyti. Það gefur okkur tækifæri til að leggja meiri áherslu á húsnæðismál um allt land. Það verður að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Húsnæði er frumþörf manneskjunnar og má ekki vera fjárhagslegt happdrætti. Með betri og breiðari yfirsýn er hægt að ná þessu jafnvægi og leiða saman ólíka aðila til að bæta lífsgæði íbúa landsins og búa betur að fjölskyldum, hvar sem þær ákveða að stofna heimili.
Fjölbreytt atvinnutækifæri um allt land
Vinna, vöxtur og velferð hefur lengi verið leiðarstef Framsóknar. Samfélagið hvílir á því að fólki standi til boða fjölbreytt atvinna um allt land. Sú viðhorfsbreyting varðandi störf ríkisins, sem kemur fram í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, er mikil tíðindi. Störf á vegum ríkisins eiga ekki að vera staðbundin nema þau séu sérstaklega skilgreind þannig. Þetta þýðir að frelsi fólks til búsetu er stóraukið. Þessi breyting kallar á viðhorfsbreytingu meðal stjórnenda hjá ríkinu og mun ég leggja mikla áherslu á að þessi grundvallarbreyting á hugsun varðandi störf starfsmanna ríkisins verði almenn og viðvarandi.
Stjórnmál snúast um þjónustu
Í störfum mínum síðustu fjögur árin lagði ég mikla áherslu á að efla sveitarstjórnarstigið. Það er að mati mínu og margra annarra og veikburða og er það ekki síst vegna þeirra mörgu og smáu eininga sem sveitarfélögin eru. Með nýrri hugsun í málefnum barna verður það enn mikilvægara að sveitarfélögin standi sterk og það verður helst gert með því að þau stækki. Hlutverk sveitarstjórna er skýrt, alveg eins og hlutverk ríkisstjórna: Þær eiga að tryggja lífsgæði, þær eiga að tryggja jöfn tækifæri íbúanna til að blómstra og þar eru málefni barna mikilvægasti þátturinn. Öflugt skólakerfi frá leikskóla er nauðsynlegt til þess að öll börn njóti sömu tækifæra. Það hefur sýnt sig að félagslegur hreyfanleiki er mikill á Íslandi. Öflugt menntakerfi um allt land skapar almenn og mikil lífsgæði fyrir komandi kynslóðir.
Heilsan í fyrsta sæti
Síðustu tvö ár hafa öðru fremur snúist um baráttu við heimsfaraldur og efnahagslegar afleiðingar hans. Það er óhætt að segja að árangur okkar í baráttunni, bæði hvað varðar heilsuna og efnahaginn, hefur gengið vonum framar. Við stöndum nú á ákveðnum tímamótum í baráttunni við veiruna. Við sjáum að nýtt afbrigði virðist hafa vægari veikindi í för með sér en á móti kemur að það er meira smitandi og fer um samfélagið eins og eldur í sinu. Það er eðlilegt og ábyrgt að fara varlega í afléttingar en enn fremur ljóst að þráin eftir venjulegu lífi er mikil og eðlileg. Baráttan við veiruna er þó ekki eina verkefni nýs heilbrigðisráðherra, Willums Þórs Þórssonar, því fram undan er styrking heilbrigðiskerfisins og þjónustu við eldra fólk um allt land. Ég er mjög þakklátur fyrir hið mikla og óeigingjarna starf þeirra sem standa í eldlínunni í faraldrinum, hvort sem þau starfa í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu eða löggæslu.
Tækifærin bíða okkar
Loftslagsmálin eru stærsta úrlausnarefni samtímans. Yngstu kynslóðirnar hafa miklar áhyggjur og er það skiljanlegt miðað við þá háværu umræðu sem verið hefur síðustu árin. Ný ríkisstjórn er metnaðarfull í áformum sínum varðandi loftslagsmál og hún er raunsæ. Við höfum nú þegar náð miklum árangri með raf- og hitaveituvæðingu landsins. Græn orka er ein eftirsóttasta vara í heimi og þá orku eigum við og höfum gríðarlega reynslu af því að framleiða. Það skapar tækifæri fyrir okkur, bæði í grænum iðnaði og garðyrkju, svo eitthvað sé nefnt, en það skapar líka tækifæri fyrir frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtæki til að sækja með þessa þekkingu til annarra landa. Hugverkaiðnaðurinn snýst ekki aðeins um aðgang að grænni orku heldur að skapandi hugsun og þekkingu. Hugverkaiðnaðurinn, hvort sem hann felst í lyfjaiðnaði eða tölvuleikjagerð, hefur stækkað mikið á síðustu misserum og mun ef rétt er haldið á spöðunum blómstra enn frekar á næstu árum og áratugum.
Listin er uppspretta nýrra tækifæra
Sagan af Emil í Kattholti er ekki bara spegill á samfélag. Sagan sýnir okkur líka mikilvægi menningar og lista í því að skapa verðmæti, andleg og veraldleg. Aukin áhersla á menningu og skapandi greinar skapar ekki aðeins aukin tækifæri til atvinnu heldur skapar hún vitund um samfélag. Allir okkar stórkostlegu listamenn sem auðga líf okkar hafa einnig lagt mikið af mörkum til þess að skapa sjálfsmynd okkar sem þjóðar; skapa ímynd Íslands. Kvikmyndagerðin, tónlistin, bókmenntirnar, myndlistin, leiklistin eru uppspretta nýrra hugmynda og nýrra tækifæra.
Samfélagi sem leggur áherslu á velferð barna og hlustar á raddir þeirra hlýtur að farnast vel. Þannig samfélag horfir til framtíðar með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Í þannig samfélagi vil ég búa og þannig samfélag mun ég og Framsókn leggja alla krafta okkar í að viðhalda og efla á næstu árum.
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2021.