Categories
Greinar

Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki

Deila grein

13/06/2022

Gerum bæinn okkar að snyrtilegasta bæ landsins með sameiginlegu átaki

Þau sem hafa starfað með mér í pólitík vita að umgengnismál í umhverfi okkar brenna á mér. Þess vegna fagna ég því að í málefnasamningi meirihlutans sé komið inn á þetta þó ég hefði viljað sjá kveðið fastar að orði. Það þarf að kortleggja hvar ábyrgðin liggur og hvaða verkferlum við getum beitt. Gámar með útrunnin stöðuleyfi, númeralausir bílar út um allan bæ, iðnaðar- og atvinnulóðir fullar af drasli og dóti sem ætti frekar heima innandyra eða í förgun heyra vonandi bráðlega sögunni til. Atvinnustarfsemi og íbúðabyggð verða að geta farið saman ef við ætlum að halda áfram að byggja hér upp sterkt atvinnusvæði.

Ég settist í umhverfis- og mannvirkjaráð fyrir áramót og talaði þar fyrir því að farið væri í úttekt á þessum málum. Þegar ráðið tók fyrir fundargerð heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra þann 11. febrúar síðastliðinn var bókað: ,,Óskar ráðið eftir því að upplýsinga sé aflað um heimildir og ábyrgðarskiptingu milli umhverfis- og mannvirkjasviðs, þjónustu- og skipulagssviðs og heilbrigðiseftirlitsins”. Enn hefur ekkert sést af þeirri vinnu en nauðsynlegt er að kortleggja hvar ábyrgðin liggur nákvæmlega.

Umræðan í bænum verður sífellt háværari

Við í Framsókn heimsóttum fjölda fyrirtækja í vor og bar þetta málefni oftar en einu sinni á góma. Í einu iðnaðarhverfinu spurði mig eigandi fyrirtækis hvort við ætluðum ekki að gera eitthvað í þessum málum. Bærinn væri að kafna úr rusli og bætti við að um leið og honum yrði gert að taka til á lóð sinni myndi hann hiklaust gera það. Þetta þarf bara að koma við veskið hjá fólki sagði hann.

Það hlýtur að vera hluti af markaðssetningu bæjarins að gera gangskör í þessum málum og samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja að hafa snyrtilegt í kringum sig og sjálfsagður hluti af þeirra markaðssetningu. Sem betur fer eru mörg fyrirtæki í bænum sem ganga mjög snyrtilega um og eru öðrum til fyrirmyndar og því skal haldið til haga að Akureyrarbær er alls ekki saklaus hér.

Hvað getum við gert?

Þegar umhverfis- og mannvirkjaráð fékk kynningu á drögum af nýsamþykktri umhverfis- og loftlagsstefnu benti ég á að umgengnisþátturinn fengi alltof lítið vægi og svo aftur á vinnufundi með bæjarstjórn um stefnuna. Lagði ég til að bætt yrði við sjötta kaflanum sem tæki á umgengni en því miður fékk það ekki hljómgrunn. Meginstefið í stefnunni eru loftlags- og úrgangsmál sem er vel en það eina sem ég fann sem kemst næst því sem ég tala um er: ,,Til að bæta nærumhverfi íbúa er mikilvægt að reglulega fari fram hreinsunarátak í bænum” Þetta snýst ekki um reglulegt hreinsunarátak, við þurfum að breyta umgengninni til framtíðar og koma upp verkferlum til þess.

Nú er verið að auglýsa starf framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og ætla ég alls ekki að kasta rýrð á það starf sem þar er unnið en með nýju fólki koma oft nýjar áherslur. Á heimasíðu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra er að finna samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra. Verkfærið virðist vera til og nú verðum við að sýna þor til að beita þessari samþykkt og leita annarra lausna í bland við hana til að hreinsa bæinn okkar.

Nýsamþykkt umhverfis- og loftlagsstefna: https://fundargatt.akureyri.is/meetingsearch/displaydocument.aspx?itemid=D3cao4JFs0qFOXlkdcBlQQ&meetingid=e73HToNif0uYXtIOyP4e8g1&filename=Umhverfis-og%20loftlagsstefnan%20mai%202022.pdf&cc=Document

Samþykkt um umgengni og þrifnað utan húss á starfssvæði heilbrigðisnefndar Norðurlands eystra: https://www.hne.is/static/files/HNE/Samningar/samthykkt-um-umgengni-og-thrifnad-utan-huss-a-starfssvaedi-hne-nr.-463-2002.pdf

Sunna Hlín Jóhannesdóttir er bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 13. júní 2022.

Categories
Uncategorized

Framsókn í verðmætasköpun

Deila grein

11/04/2022

Framsókn í verðmætasköpun

Kröftugt atvinnulíf er forsenda þess að við eflum okkar bæ, löðum að nýja íbúa og tryggjum að unga fólkið okkar geti snúið heim aftur eftir nám. Við í Framsókn leggjum áherslu á gott samstarf við atvinnulífið og að við tölum okkur upp sem öflugt atvinnusvæði. 

Hlutverk sveitarfélagsins er að markaðssetja bæinn sem öflugt atvinnusvæði, móta skipulag sem býður upp á atvinnuþróun, vera vakandi fyrir tækifærum í ytra umhverfi, styrkja við nýsköpun, tryggja raforku og í samstarfi við atvinnulífið kynna fyrir nemendum störf tengd verk- og tæknigreinum. 

Hömpum því sem vel er gert

Sem dæmi kom fram á opnum fundi um sjávarútveg á Akureyri á dögunum að aðeins 7% fiskafla er fluttur óunninn úr landi, rest er unnið hér innanlands. Þannig skapast störf.  Á sama tíma flytur Noregur helming síns afla óunninn úr landi.

Á ársfundi Norðurorku var erindi sem fjallaði um uppbyggingu Skógarbaðanna og magnað að sjá þann metnað sem lagður var í að leggja lagnir og hjóla- og göngustíg á mettíma. Hömpum því sem vel er gert. 

Verðmætasköpun og velferð er sitthvor hliðin á sama peningnum  

Á Eyjafjarðarsvæðinu hefur matvælaframleiðsla lengi verið ein af mikilvægustu atvinnugreinunum. Af því hafa skapast fjöldi afleiddra starfa og skipt sköpum í verkefnastöðu margra fyrirtækja í bænum, svo sem Frost, Vélfag, Slippurinn, verkfræðistofur eins og Mannvit, Efla og Raftákn og lengi mætti telja. 

Það er mikill gróska í byggingariðnaði og fyrirtæki eins og SS Byggir, BE Húsbyggingar, Húsheild, Trétak, BB Byggingar blómstra sem aldrei fyrr ásamt fleiri fyrirtækjum. Verktakar í mannvirkjageiranum eru margir hverjir öflugir eins og Áveitan, Bútur, Rafeyri, Rafmenn, Múrey, Blikkrás og Blikk og tækni. Það er gaman að sjá verktakafyrirtæki eins og Nesbræður vaxa hratt á öflugum verktakamarkaði ásamt Finni ehf, GV Gröfum og G. Hjálmarssyni. 

Kynnumst atvinnulífinu

Við í Framsókn hlökkum til að heimsækja fyrirtæki á Akureyri á næstu vikum og fræðast enn frekar um starfsemi þeirra því við trúum á framsókn í verðmætasköpun. Það er nefnilega þannig að við byggjum ekki upp það velferðarsamfélag sem við viljum búa í nema vegna þeirra öflugu fyrirtækja sem starfa í bænum. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 11. apríl 2022.

Categories
Greinar

Nýtt hlutverk með öflugu samferðafólki

Deila grein

17/03/2022

Nýtt hlutverk með öflugu samferðafólki

Á dögunum tók ég að mér nýtt hlutverk sem ég tel með þeim stærri í mínu lífi, oddviti Framsóknarflokksins á Akureyri. Er mjög spennt fyrir þessu nýja hlutverki og ætla að gefa mig alla í það. Ég veit að þessi vegferð verður á við nokkrar háskólagráður. Það sem tekur þó af mér allan vafa um að ég hafi tekið rétta ákvörðun er það öfluga fólk sem leiðir þennan lista með mér. Tel að reynsla mín af sveitarstjórnarmálum muni nýtast vel en sú þekking og reynsla sem fylgir samferðafólki mínu, Gunnari Má Gunnarssyni, Ölfu Jóhannsdóttur, Sverre Jakobsson og Theu Rut Jónsdóttur, er ekki síður mikilvæg í þeim verkefnum sem okkur bíða.

Það er ekki spurning í okkar huga að verkefni næsta kjörtímabils eru málefni barna og að koma farsældarlögunum í framkvæmd þeim til heilla. Þar kemur Alfa sterk inn sem hefur unnið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og starfar nú sem forvarnarfulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Gunnar Már hefur sérhæft sig í málefnum norðurslóða og starfar að byggðaþróun sem mun nýtast okkur vel í því verkefni að móta enn frekar svæðisbundið hlutverk Akureyrar og hvernig við ætlum að sækja fram sem sterkt atvinnusvæði. Sverre, leiðtogi úr íþróttahreyfingunni með reynslu úr fjármálum og viðskiptalífinu, og lokum Thea sem mun veita okkur góða innsýn inn í heilbrigðismálin á Akureyri en hún starfar sem skurðhjúkrunarfræðingur.

Af hverju Framsókn?

Sem fulltrúi í fastanefndum sveitarfélagsins og sem varabæjarfulltrúi hefur áhugi minn á bæjarmálunum vaxið jafnt og þétt og í Framsókn hef ég fundið minn hljómgrunn. Ég trúi því staðfastlega að framtíðin ráðist á miðjunni. Framsókn er flokkur samvinnu og frjálslyndis sem leggur ríka áherslu á opinskátt samtal milli íbúa og kjörinna fulltrúa.

Er mjög ánægð með störf Framsóknarflokksins síðustu ár og tel þau ríma mjög vel við áherslur okkar í vor. Hlakka til að eiga gott samstarf við okkar þrjá öflugu þingmenn í kjördæminu og þau fjögur ráðuneyti sem Framsóknarflokkurinn fer fyrir eru okkur líka mikilvæg. Einu sinni var ég þeirrar skoðunar að flokkar skiptu ekki máli á sveitarstjórnarstiginu, þetta snerist bara um einstaklinga í framboði, en það er alls ekki rétt. Þetta skiptir hellings máli.

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins við bæjarstjórnarkosningarnar á Akureyri í vor.

Greinin birtist fyrst á akureyri.net 17. mars 2022.