Categories
Fréttir Greinar

Eitt dauðs­fall er of mikið

Deila grein

30/05/2023

Eitt dauðs­fall er of mikið

Í gær voru áhrifaríkir og fallegir tónleikar haldnir í Hörpu til að vekja athygli á ópíóðafíkn og styrkja skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins. Undanfarið hefur mikil umræða skapast í samfélaginu um ópíóðafíkn og þann skaða sem af henni getur hlotist. Hér á landi eru vísbendingar um að ópíóðar séu í aukinni umferð í samfélaginu og að notkun þeirra sé að aukast þrátt fyrir það að dregið hafi úr lyfjaávísunum á ópíóða undanfarin ár. Það er mikilvægt að fylgjast vel með þróuninni, bregðast hratt við og tryggja að viðeigandi úrræði séu til staðar og aðgengi að þeim sé tryggt.

Ráðist í aðgerðir

Ríkisstjórnin hefur samþykkt tillögur undirritaðs um víðtækar aðgerðir og fjölbreytt úrræði til að sporna við vímuefnavanda með áherslu á skaðlega notkun ópíóíða og alvarlegar afleiðingar ópíóíðafíknar. Tillögur þessa efnis voru nýlegar kynntar fyrir ríkisstjórn. Þær voru í kjölfarið ræddar í ráðherranefnd um samræmingu mála og ákveðið að útvíkka þær enn frekar í samráði við forsætisráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, dómsmálaráðuneytið, félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneytið, mennta- og barnamálaráðuneytið, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og auka áður áætlað fjármagn í aðgerðir úr 170 milljónum króna í 225 milljónir króna. Auk aðgerða sem miða að forvörnum, meðferð, endurhæfingu og skaðaminnkun verður gagnasöfnun tengd vímuefnavanda samræmd og efld. Áhersla verður jafnframt lögð á stefnumótun, aukna upplýsingagjöf og fræðslu til almennings.

Aukið fjármagn í rannsóknir, gagnasöfnun og upplýsingamiðlun

Verkefni og aðgerðir sem ráðist verður í á þessu ári eru fjölmörg. Fjármagn verður eyrnamerkt styrkjum til félagasamtaka í verkefni til að vinna gegn fíknisjúkdómum, veita lágþröskuldaþjónustu, stuðning, fræðslu og styðja við fjölskyldur og aðstandendur einstaklinga með fíknisjúkdóma. Aðgengi að viðhaldsmeðferð verður aukið og aðgengi að neyðarlyfi við ofskömmtun ópíóíða bætt enn frekar um allt land. Viðbragðsþjónusta verður efld, afeitrunarplássum fjölgað og samstarf stofnana fyrir fólk í vanda með áherslu—á ópíóíðamisnotkun—verður aukið. Einnig verður ráðist í tilraunaverkefni að norskri fyrirmynd um þverfaglega endurhæfingu við ópíóíðafíkn.

Ráðist verður í vinnu þvert á viðeigandi ráðuneyti og stofnanir við að samræma öflun og birtingu gagna sem gefa raunsanna mynd af umfangi vandans og þróun þessara mála. Með því móti fæst betri yfirsýn, forgangsröðun verður markvissari, öll umræða verður gegnsærri og ákvarðanataka verður markvissari. Setja þarf upp rafrænt skráningarkerfi og gagnagrunn í þessu skyni. Enn fremur verður hlutverk Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræðum aukið og rannsóknargeta efld með áherslu á mælingar, rannsóknir og tölfræði sem tengjast fíknisjúkdómum. Að lokum er vert að nefna að rekstur neyslurýmis hefur nú þegar verið fjármagnaður af heilbrigðisráðuneytinu og beðið er eftir að Reykjavíkurborg finni neyslurými varanlegt húsnæði.

Stefnumótun um fíknisjúkdóma

Alþingi samþykkti á liðnu ári ályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú til umfjöllunar í þinginu. Þar eru lagðar til fjölmargar aðgerðir sem snúa almennt að geðþjónustu þvert á velferðarkerfið og munu nýtast vel við að þróa og efla þjónustu m.a. vegna fíknisjúkdóma. Til lengri tíma litið er mikilvægt að móta heildstæða stefnu um fíknisjúkdóma sem tekur til forvarna, heilsueflingar, skaðaminnkunar, greiningar, meðferðar og endurhæfingar með áherslu á samvinnu og samhæfingu. Því hefur undirritaður ákveðið að hefja þá vinnu.

Skaðaminnkun

Á liðnum árum hefur hugmyndafræði skaðaminnkunar rutt sér til rúms víða um heim. Skaðaminnkun miðar að því að draga úr skaðlegum afleiðingum hegðunar eða lífsstíls, óháð því hvort hún sé æskileg, lögleg eða ólögleg. Skaðaminnkandi úrræði í fíknisjúkdómum eru meðal annars lyfjameðferð við ópíóðum, neyslurými og afglæpavæðing. Hér á landi hafa nú þegar verið stigin mikilvæg skref varðandi þróun og innleiðingu skaðaminnkandi úrræða en það er tímabært að taka enn stærri skref og vinna að stefnu og aðgerðaáætlun sem styður við það.

Skýr stefna er nauðsynleg

Í viðkvæmum málaflokkum skiptir miklu máli að skýr stefna liggi fyrir til að skapa sátt um aðgerðir. Sérstaklega þegar þær þarfnast aðkomu margra ólíkra hagsmunaaðila. Undirritaður hefur því ákveðið að hefja vinnu við að móta stefnu í skaðaminnkun út frá þeirri þekkingu og reynslu sem hefur myndast og þróa aðgerðaáætlun byggða á henni. Sú vinna mun einnig styrkja og tengjast heildarstefnumótun fyrir fíknisjúkdóma. Starfshópurinn sem verður skipaður er hugsaður sem fámennur kjarnahópur sem verður falið að hafa vítt samráð og eiga virkt samtal við helstu hagaðila til að stuðla að samþættingu, samvinnu og sátt.

Víðtækt samstarf

Vímuefnavandinn er fjölþættur og ekki aðeins einskorðaður við ópíóða eða alvarlegustu birtingarmynd vandans, ótímabær dauðsföll. Því þarf að nálgast verkefnið heildstætt. Hér á landi eru dauðsföll af völdum eitrana ávana- og fíkniefna í flestum tilfellum vegna blandaðrar neyslu og í gegnum tíðina hafa ófá dauðsföll orðið af óbeinum völdum ávana- og fíkniefna sem erfiðara er að henda reiður á. Þegar kemur að ópíóðum vitum við að þeir eru einna hættulegastir vímuefna og því er full ástæða til að rýna í stöðuna og kanna hvar þarf að þétta öryggisnetið. Eitt dauðsfall af völdum vímuefna er einu dauðsfalli of mikið.

Þau verkefni sem hér hefur verið fjallað um kalla á víðtækt samstarf og samráð milli áðurnefndra ráðuneyta, stofnana, stjórnsýslustiga og félagasamtaka til að ná þeim árangri sem að er stefnt. Síðast en ekki síst skiptir aðkoma einstaklinga í vanda og aðstandenda þeirra miklu máli og því verður aukin áhersla á notendasamráð og notendamiðaða þjónustu, hvort sem fjallað er um þau úrræði sem þegar eru fyrir hendi, þróun nýrra úrræða eða stefnumótun.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. maí 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Lið fyrir lið

Deila grein

31/03/2023

Lið fyrir lið

Í gær var skrifað undir samninga milli Sjúkratrygginga Íslands, Klíníkarinnar í Ármúla og Handlæknastöðvarinnar í Glæsibæ um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða á þessu ári.

Á Íslandi eru tæplega 2000 manns á biðlista eftir liðskiptiaðgerð. Allt of margir á þeim lista hafa beðið of lengi eftir aðgerð þannig að sjúkdómsástandið er farið að skerða lífsgæði og draga verulega úr virkni. Góðu fréttirnar eru þær að við eigum fjölmarga hæfileikaríka skurðlækna hér á landi, öflugt heilbrigðisstarfsfólk og almennt góða aðstöðu til að framkvæma þessar aðgerðir. Við höfum því fulla burði til þess að stytta biðlista og halda í við hratt vaxandi þörf á liðskiptaaðgerðum til framtíðar. Samstillt átak og samvinna kerfisins í heild er forsenda þess að það gangi eftir.

Vaxandi þörf fyrir liðskiptaaðgerðir

Undanfarna áratugi hefur orðið mikil aukning í liðskiptaaðgerðum á heimsvísu og jókst uppsöfnuð þörf fyrir þessum aðgerðum einnig í heimsfaraldrinum. Algengast er að skipt sé um hné og næst algengast er að skipt sé um mjaðmir. Ein helsta undirliggjandi orsök þess að skipta þarf um lið er slitgigt en hún eykst með árunum. Við lifum lengur með slitgigtinni en við gerðum áður og því er þörf fyrir liðskiptaaðgerðir að aukast samhliða breyttri aldurssamsetningu. Aukin þróun og bætt tækni í bæði aðgerðum og gerviliðunum sjálfum hefur aukið möguleikann á liðskiptaaðgerðum fyrr á lífsleiðinni. Sökum þessa hefur aðgerðum einnig fjölgað í yngri aldurshópum. Það er alveg ljóst að þörfin fyrir liðskiptaaðgerðir mun halda áfram að aukast næstu árin og við þeirri þróun þarf að bregðast.

Jafnt aðgengi óháð efnahag

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að aðgengi að heilbrigðisþjónustu sé réttlætismál. Núverandi fyrirkomulag liðskiptaaðgerða gengur þvert á það markmið. Það er skýrt að óbreytt staða er ekki valmöguleiki. Þegar ekki eru til staðar samningar um þjónustukaup ríkis á einkarekinni heilbrigðisþjónustu sem þörf er á, höfum við ekki tök á að skipuleggja heilbrigðisþjónustu landsins heildstætt.

Ef stytta á bið eftir liðskiptaaðgerðum og á sama tíma mæta vaxandi þörf fyrir slíkum aðgerðum þarf markvisst að halda áfram að fjölga aðgerðum allra þjónustuaðila næstu árin. Til þess að ná því markmiði þarf að huga að mörgu í skipulagi þjónustunnar. Sérstaklega varðandi legurými og mönnun. Við verðum að nýta allt kerfið og virkja alla þjónustuaðila til að taka höndum saman og leysa þetta viðamikla verkefni.

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Í heilbrigðisþjónustu þarf sífellt að endurmeta skipulag og forgangsröðun til að bregðast við síbreytilegum þörfum þjóðfélagsins. Þegar kemur að þjónustukaupum hins opinbera þá er mikilvægt að hafa í huga heilsu og hag þjóðarinnar til lengri tíma. Hún verður ekki tryggð nema með jöfnu aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Allir sjúkratryggðir einstaklingar eiga að komast í liðskiptiaðgerð á ásættanlegum tíma án tillits til efnahags.

Það er vert að hafa í huga að sjúkratryggðir einstaklingar hafa heimildir til að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins á grundvelli EES- samningsins ef ekki er hægt að veita þá þjónustu innan ákveðinna tímamarka hér á landi. Það þjónar ekki hagsmunum sjúklingsins og er ekki skynsamleg nýting á almannafé að greiða fyrir heilbrigðisþjónustu erlendis sem hægt er að bjóða upp á hér á landi með hagkvæmari hætti.

Samvinna

Við búum svo vel að eiga hæft og vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem hefur ávallt að leiðarljósi að forgangsraða mannafla, fjármunum og aðstöðu í þágu einstaklingsins sem þarf á hjálp að halda. Hér er líka ríkisstjórn sem stendur með heilbrigðiskerfinu og forgangsraðar fjármunum í þágu þess. Við erum lítið land og þurfum á því að halda að geta unnið saman í þágu fólksins í landinu. Ef allir leggja sitt af mörkum, stjórnvöld og þjónustuaðilar óháð rekstrarformi, er mögulegt að eyða biðlistum í liðskiptaaðgerðir og auka lífsgæði fjölmargra Íslendinga.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. mars 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Deila grein

29/03/2023

Stutt við þolendur heimilisofbeldis

Heimilisofbeldi er óásættanlegt samfélagslegt mein. Fólk af öllum kynjum verður fyrir heimilisofbeldi og því miður eru tilfellin allt of mörg. Mikilvægt er að þolendur heimilisofbeldis fái jafnt og greitt aðgengi að viðeigandi heilbrigðisþjónustu og stuðning eins fljótt og auðið er. Þjónustu sem er skipulögð með hagsmuni þolenda að leiðarljósi.

Breytingar á þessum málaflokki hafa staðið yfir í ráðuneytinu í nokkur ár. Skýrsla Finnborgar Salome Steinþórsdóttur um kynja- og jafnréttissjónarmið í heilbrigðisþjónustu frá árinu 2021 var kveikjan að því að leggja mat á heilbrigðisþjónustu varðandi kynbundið ofbeldi, skýra verkferla og bæta úrræði. Skipaður var þverfaglegur starfshópur sem var falið að móta samræmt verklag vegna þjónustu við þolendur heimilisofbeldis sem sækja þjónustu á heilbrigðisstofnanir landsins. Síðan þá hefur fjölmargt unnist, í góðu samstarfi milli ráðuneyta og stofnanna. Þar má m.a. nefna að samstarf við ríkislögreglustjóra við útfærslu rafrænnar samskiptagáttar milli heilbrigðiskerfis og lögreglunnar er hafið. Þá hafa félagsráðgjafar og sálfræðingur sem sérstaklega voru ráðnir vegna innleiðingar verklags við móttöku þolenda heimilisofbeldis hafið störf. Einnig hefur sálfræðiþjónusta við þolendur og gerendur í kynferðisbrotamálum verið aukin og hafin er gerð fræðsluefnis og kennslumyndbanda sem mun nýtast víða. Meðal annars við kennslu í háskólum en þörf er á aukinni þekkingu á málaflokknum.

Fljótlega verður innleitt nýtt samræmt verklag við móttöku þolenda heimilisofbeldis í heilbrigðisþjónustu. Verklagið miðar að því að ná á heildstæðan hátt utan um þarfir einstaklingsins. Meðal annars er tenging við félagsráðgjafa og áfallateymi sem getur veitt viðeigandi sálrænan stuðning og mögulega meðferð við áfallastreitu ef þörf krefur. Einnig er boðin tenging við lögmann í viðeigandi málum ef til að mynda um kynferðisbrot er að ræða. Innleidd verður samræmd skráning á þessum málum og leitast við að einfalda allar boðleiðir. Verklagið á að vera til þess fallið að aukagæði þjónustunnar og tryggja samræmi, sanngirni og jafnræði.

Samhliða umbótum á verklagi liggur fyrir Alþingi frumvarp um breytingu breytingum á lögum um heilbrigðisstarfsmenn. Markmið breytingarinnar er að skýra heimild heilbrigðisstarfsfólks til að tilkynna heimilisofbeldi til lögreglu. Tilkynningin yrði gerð í samráði við sjúkling og er heilbrigðisstarfsfólki þá heimilt að miðla til lögreglu þeim upplýsingum sem eru taldar nauðsynlegar í þeim tilgangi að tryggja nauðsynlega vernd og stuðning.

Samkvæmt íslenskum rannsóknum kemur kona annan hvern dag á bráðamóttökuna á Landspítala vegna líkamlegra áverka í kjölfar heimilisofbeldis. Þá eru ótaldar komur á aðrar heilbrigðisstofnanir, heilsugæslu og til annars heilbrigðisstarfsfólks. Þessar tölur vekja óhug og draga fram þörf fyrir aukinn stuðning, vandaða verkferla og þéttari samvinnu. Ég bind von við að þessar breytingar, sem unnar hafa verið af miklum samtakamætti, skili sér í auknum stuðning við þolendur og öruggara samfélagi.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst 29. mars 2023.

Categories
Greinar

Álag á heilbrigðiskerfið

Deila grein

02/01/2023

Álag á heilbrigðiskerfið

Á landið herja lægðir og á landann herja ýmsar veirusýkingar. Inflúensan mætti snemma í ár og SARS-CoV-2 heldur ótrauð sínu striki. Veður og veirur þessa árstíma reyna verulega á Landspítala og heilbrigðiskerfið allt er undir miklu álagi.

Með samvinnu og samstilltu átaki hefur Landspítali sýnt að hann getur unnið þrekvirki við erfiðar aðstæður. Það sama má segja um aðrar heilbrigðisstofnanir og þjónustuveitendur heilbrigðisþjónustunnar. Ástandið hefur verið þungt á Sjúkrahúsinu á Akureyri og á fleiri stöðum úti á landi. Viðhorfið er sem áður lausnamiðað og allt gert til þess að halda uppi öruggri og góðri þjónustu.

Bognar en brotnar ekki

Fjöldi innlagna hefur sjaldan verið meiri en síðastliðna daga á Landspítala. Stjórnendur og starfsfólk spítalans hafa mætt þessari flóðbylgju á aðdáunarverðan hátt. Bráðamóttaka Landspítala ber hitann og þungann af bráðaþjónustu í landinu. Undanfarið ár hefur verið markvisst unnið að því að styðja við þá mikilvægu starfsemi og heilbrigðiskerfið sem hún er órjúfanlegur hluti af.

Landspítalinn hefur lyft grettistaki er kemur að umbótum í skipulagi starfseminnar og viðbrögðum við auknu álagi. Forgangsraðað er fumlaust í þágu bráðra og brýnna verkefna og álagi er dreift kerfisbundið á allan spítalann. Ný legudeild hefur meðal annars verið opnuð tímabundið nú í vikunni til að bregðast við stöðunni. Einnig er vert að nefna að í sumar fór af stað ný fjarþjónusta bráðadagdeildar lyflækninga og dagdeildin sjálf var stækkuð og efld. Sú starfsemi hefur gengið vel og komum hefur fækkað á bráðamóttökuna fyrir vikið. Fjölmargar aðrar aðgerðir hafa verið framkvæmdar eða eru í vinnslu. Miklar vonir eru bundnar við að ný stjórn og ný framkvæmdastjórn muni halda áfram á þessari góðu vegferð í samráði við starfsmenn spítalans og notendur.

Uppbygging

Stórátak hefur verið í uppbyggingu nýrra hjúkrunarrýma út um allt land og samhliða hefur verið ráðist í umfangsmiklar skipulags- og húsnæðisbreytingar á hjúkrunarheimilum. Þannig hefur tekist að fjölga hjúkrunarrýmum um 120 á þessu ári sem eru tvöfalt fleiri rými en áætlað var. Einnig hefur endurhæfingarrýmum fyrir aldraða, til bæði lengri og skemmri tíma, verið fjölgað um samtals 59 rými. Samhliða hefur heimahjúkrun verið efld til muna og í fjárlögum næsta árs er gert ráð fyrir 300 milljón króna viðbót til að styrkja hana enn frekar. Þeirri vegferð er hvergi nærri lokið og við höldum ótrauð áfram.

Hjúkrunarheimilin og samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu hafa brugðist hratt við kalli ráðuneytisins um aðstoð við að létta á álagi Landspítalans. Á aðeins nokkrum vikum hafa verið opnuð hátt í 30 rými á hjúkrunarheimilum fyrir einstaklinga sem hafa lokið meðferð á Landspítala en bíða þar varanlegs búsetuúrræðis á hjúkrunarheimili. Það er mikilvægt að geta boðið eldri einstaklingum önnur og meira viðeigandi úrræði en sjúkrahúsvist og eiga þessir aðilar því þakkir skilið.

Samtakamáttur

Það hefur sýnt sig að við erum sterkari sem heild. Til að minna okkur á það og efla samvinnu þvert á heilbrigðiskerfið var á árinu stofnað viðbragðsteymi allra viðeigandi aðila í bráðaþjónustu í landinu. Hefur margt gott komið út úr þeirri vinnu sem við búum að í dag og hefur teymið líka skilað af sér umbótaáætlun til 5 ára með það að markmið að tryggja aðgengi, öryggi og gæði bráðaþjónustu landsins til framtíðar. Í okkar fámenna og dreifbýla landi þurfa allir aðilar að taka höndum saman og styðja hvern annan til að ráða við áskoranir heilbrigðiskerfisins.

Út frá vinnu viðbragðsteymisins hefur meðal annars samstarf Landspítala og annarra heilbrigðisstofnanir verið eflt og sjúkraflutningar kortlagðir. Landspítali hefur í auknum mæli tekið að sér ýmsar rannsóknir og aukið ráðgjöf þannig að stofnanir þurfi síður að senda einstaklinga frá sér. Stofnanirnar hafa einnig verið efldar. Rekstrargrunnur Landspítala og Sjúkrahússins á Akureyri hefur verið styrktur í fjárlögum næsta árs og búið er að veita 330 milljónum í að tryggja að rétt tæki og góður aðbúnaður sé til staðar á þeim starfstöðvum sem sinna bráðaþjónustu um land allt. Samningur Læknavaktarinnar um vaktþjónustu og símsvörun hefur einnig verið endurnýjaður og unnið er að því í ráðuneytinu að efla og samþætta alla vegvísun og ráðgjöf í heilbrigðiskerfinu.

Það styttir alltaf upp og lygnir

Það er staðreynd að mannauður heilbrigðiskerfisins er takmörkuð auðlind. Við þurfum því að styðja við hann og stuðla að fjölgun heilbrigðisstarfsmanna. Samhent átak þvert á ráðuneyti er í fullum gangi þar sem forgangsraðað er í þágu menntunar heilbrigðisstarfsmanna og heilbrigðisráðuneytið er að beita sér fyrir því að starfsumhverfi heilbrigðisstarfsmanna sé best. Uppbygging nýs Landspítala, áhersla á menntun, vísindi- og nýsköpun, aukið samstarf, bætt skipulag og öryggismenning eru meðal fjölmargra aðgerða sem eru í gangi. Í ljósi langvarandi álags á heilbrigðisstarfsfólk verður sérstöku fjármagni veitt í endurheimt og stuðning á nýju ári.

Allt helst þetta í hendur og saman vinnum við markvisst að því að minnka álag í heilbrigðiskerfinu. Álag á bráðamóttöku Landspítalans er nefnilega birtingarmynd álags í öllu heilbrigðiskerfinu. Höldum bjartsýn inn í nýtt ár með aukna fjárveitingu og fjölda góðra verkefna í farteskinu. Göngum hægt um gleðinnar dyr um áramótin og pössum upp á hvert annað.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 30. desember 2022.

Categories
Greinar

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Deila grein

05/12/2022

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Staðið með heilbrigðiskerfinu

Fjárlög komandi árs, sem nú eru til umræðu á Alþingi, endurspegla forgangsröðun og áherslur stjórnvalda. Með rúmlega 12 milljarða viðbótarframlagi til heilbrigðismála fyrir aðra umræðu um fjárlög er ljóst að ríkisstjórnin stendur með heilbrigðiskerfinu og er að efna stjórnarsáttmála um að styrkja heilbrigðiskerfið.

Raunverulegar umbætur til framtíðar þarf að undirbúa vel. Nú er ár síðan undirritaður tók við ráðherrastól heilbrigðisráðuneytisins. Þjóðin var enn í klóm heimsfaraldurs og dagarnir snerust um sóttvarnaraðgerðir og smitstuðla. Þegar það fór að rofa til og samfélagið fór af stað blöstu við fjölmargar áskoranir. Heilbrigðiskerfið okkar hefur staðist eitt erfiðasta álagspróf síðari tíma en það er ljóst að til þess að það nái að fylgja hraðri þróun og breyttum þörfum samfélagsins þarf að bregðast við. Setja þarf skýr markmið og viðmið til grundvallar ákvörðunartöku um það hvernig við forgangsröðum og skipuleggjum framtíðarheilbrigðiskerfið með þarfir þjóðarinnar í forgrunni.

Norræn nálgun á heilbrigðismál

Heilbrigðiskerfið er samofið efnahagslegum- og félagslegum þáttum samfélagsins. Áskoranir kerfisins verða ekki leystar inni á borði eins ráðuneytis heldur þarf aðkomu fleiri ráðuneyta, sveitarfélagar, stofnanna, samtaka, einstaklinga og fyrirtækja.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál. Það er síðan hlutverk heilbrigðisráðuneytis að tryggja jafnan aðgang að bestu mögulegu þjónustu og meðferð sem völ er á yfir allt landið. Til þess þarf að nýta allt kerfið en um leið stýra för varðandi verð, magn og gæði. Þannig náum við raunverulegum árangri til hagsbótar fyrir samfélagið í heild.

Samningar og biðlistar

Langvarandi samningsleysi við þá sem veita heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa hindrar aðgengi og eykur ójöfnuð. Önnur birtingarmynd samningsleysis eru biðlistar og uppsöfnuð þörf fyrir þjónustu þó að heimsfaraldurinn hafi þar líka spilað stórt hlutverk. Það er því mikið hagsmunamál fyrir þjóðina og forgangsmál í heilbrigðisráðuneytinu að það náist samningar.

Í ráðuneytinu höfum við lagt stefnumarkandi línur og opnað á samtal um það hvernig við viljum sjá þennan mikilvæga hluta heilbrigðisþjónustunnar þróast til framtíðar. Það er mjög jákvætt að nú eru helstu samningsaðilar sestir við borðið með sama markmið að leiðarljósi, að jafna aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu. Skref í þá átt var tekið í vikunni þar sem samningar náðust um endómetríósuaðgerðir við Klíníkina. Mikilvægt er að halda áfram á þeirri vegferð og því eru 750 milljónir eyrnamerktar í liðskiptaaðgerðir og verulegar upphæðir í að styrkja rekstrargrunn heilbrigðisstofnanna.

Mannauður

Mönnun í heilbrigðisþjónustu er gríðarleg áskorun á heimsvísu. Fjárlög næsta árs tryggja aukinn stuðning við heilbrigðiskerfið og endurheimt heilbrigðisstarfsfólks. Starfsumhverfi og öryggi eru lykilþættir í því að hlúa að þessum mikilvæga mannauði.

Til að ná betur utan um mönnun í heilbrigðiskerfinu hefur verið sett af stað vinna innan ráðuneytisins sem miðar að því að öðlast heildstæða sýn á stöðu mönnunar í dag og til framtíðar. Til að efla menntun heilbrigðisstétta og fjölga heilbrigðisstarfsmönnum hefur verið ráðist í aukið samstarf við háskóla, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið og mennta- og barnarmálaráðuneytið. Samhliða þarf að styrkja framhaldsnám, sérnám lækna, vísindi og nýsköpun og verður meðal annars ný reglugerð um sérnám lækna birt á næstu vikum. Einnig er verið að skipa í starfshóp í þeim tilgangi að nýta ákvæði í menntasjóði íslenskra námsmanna sem snýr að sérstakri ívilnun fyrir heilbrigðisstarfsfólk á landsbyggðinni.

Starfsumhverfi

Að skapa samkeppnishæft starfsumhverfi fyrir okkar vel menntaða heilbrigðisstarfsfólk til framtíðar er nauðsyn. Þannig fóstrum við nýsköpun, framþróun og vísindi og tryggjum að fólkið sem getur unnið hvar sem er í heiminum velji að starfa á Íslandi til að láta gott af sér leiða. Liður í því er aukið fjármagn til fjárfestinga og uppbyggingar heilbrigðisstofnanna. Rúmir 13 milljarðar fara til Nýs Landspítala við Hringbraut þar sem við sjáum núna útveggina rísa upp úr grunninum.

Í öryggiskennd felast verðmæti. Á þingmálaskrá er að finna frumvarp til laga sem snýr að refsiábyrgð heilbrigðisstofnanna og rannsókn óvæntra atvika. Markmiðið er að tryggja betur öryggi sjúklinga og heilbrigðisstarfsmanna. Sömuleiðis er hækkun hámarksstarfsaldurs heilbrigðisstarfsfólks hjá ríkinu að finna á þingmálaskrá vetrarins. Það er liður í að tryggja kjör og réttindi heilbrigðisstarfsmanna sem margir vinna eftir sjötugt.

Samvinna er vænlegust til árangurs

Í stórum málaflokkum eins og lýðheilsu, geðheilbrigðismálum, endurhæfingu og öldrunarþjónustu leggur heilbrigðisráðuneytið mikið upp úr samvinnu. Nýverið skipuðum við ráðherrar heilbrigðismála og félagsmála sameiginlegt endurhæfingarráð sem hefur það hlutverk að vera okkur til ráðgjafar um faglega stefnumörkun og skipulag þjónustu á sviði endurhæfingar. Það er fátt verðmætara en að aðstoða einstaklinga við að ná upp tapaðri færni til að geta haldið sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.

Einnig er sameiginlegt verkefni þvert á ráðuneyti okkar félags- og vinnumálaráðherra, fjármálaráðherra og sveitafélaganna að huga betur að málefnum aldraðra og er stýrihópur þess efnis að störfum. Þá er ekki síður mikilvægt að nefna ályktun Alþingis frá því í vor um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030. Mikil vinna hefur verið lögð í að móta markvissa áætlun um aðgerðir til að hrinda henni í framkvæmd.

Heilbrigðiskerfið snýst ekki aðeins um öfluga heilbrigðisþjónustu heldur það að gera fólki betur kleift að huga að eigin heilsu. Á heilbrigðisþingi í nóvember voru forvarnir og lýðheilsa í forgrunni. Það var haldið undir yfirskriftinni Heilsa eins, hagur allra. Sú yfirskrift kjarnaði vel viðfangsefni þingsins þar sem góð lýðheilsa er jarðvegurinn sem heilbrigðiskerfið þarf til vaxa og dafna þannig að allir fái notið ávaxtanna.

Forsendur sem standast til framtíðar

Þjóðin er að eldast hratt. Það er staðfesting vaxandi lífsgæða og bættrar stöðu fólks en sú gæfa að eldast felur einnig í sér þörf á breyttri nálgun heilbrigðiskerfisins. Eins og formaður Læknafélags Íslands orðaði það er þessi myndarlega fjárinnspýtingu í heilbrigðiskerfið vísir að nýrri nálgun. Við vitum að aukið fjármagn er nauðsynlegt en ekki nægjanlegt skilyrði fyrir bættri þjónustu. Því er verið að tryggja með metnaðarfullum aðgerðum að verið sé að fjárfesta í breytingum og umbótum til framtíðar.

Traust og góð heilbrigðisþjónusta er ekki aðeins ofarlega á blaði í forgangsröðun þjóðarinnar heldur líka ríkisstjórnarinnar. Þrátt fyrir ágjöf undanfarinna ára í heimsfaraldri eru fjöldamörg tækifæri sem mikilvægt er að grípa. Með því að auka fjárframlög til málaflokksins er ríkisstjórnin að virða þessa forgangsröðun og í kjörstöðu til að fylgja orðum eftir með efndum.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin biritist fyrst í Morgunblaðinu 3. desember 2022.

Categories
Greinar

Samningur og sam­vinna um með­ferð við endó­metríósu

Deila grein

01/12/2022

Samningur og sam­vinna um með­ferð við endó­metríósu

Aðgangur að heilbrigðisþjónustu er réttlætismál og áherslumál ríkisstjórnarinnar. Það er mikilvægt að allir hafi jafnt aðgengi að bestu heilbrigðisþjónustu sem völ er á hverju sinni. Aðgengi sé óháð kyni, stöðu, bakgrunni, efnahag og búsetu. Bið eftir heilbrigðisþjónustu eða skert aðgengi getur verið dýrkeypt einstaklingnum og samfélaginu.

Biðlistar endurspegla álag á kerfið og lengdust þeir í heimsfaraldrinum. Ef ekkert er að gert mun gliðna meira á milli þarfarinnar fyrir heilbrigðisþjónustu og þeirrar þjónustu sem að við getum veitt. Það er ljóst að nýta þarf allt heilbrigðiskerfið til þess að vinna á biðlistum og hefur undirbúningur þess efnis verið í forgangi í heilbrigðisráðuneytinu undanfarið.

Til að bregðast við þessari stöðu hafa Sjúkratryggingar Íslands samið við Klíníkina um kaup á endómetríósuaðgerðum til að vinna niður biðlista og bæta aðgengi að þeim óháð efnahag. Það er mikið gleðiefni að samningar hafi náðst um þessar mikilvægu aðgerðir. Eins er samningurinn mikilvægur liður í framtíðarfyrirkomulagi þessara aðgerða og annarra.

Endómetríósa

Endómetríósa er langvinnur, fjölkerfa sjúkdómur sem leggst á einn af hverjum tíu leghafa. Orsökin er óþekkt en sjúkdómurinn getur gengið í erfðir. Því miður er greiningartími sjúkdómsins oft langur þar sem um flókna sjúkdómsmynd er að ræða. Þekkingin á sjúkdómnum er alltaf að aukast en enn er ekki til lækning við honum. Kviðarholsspeglun er bæði notuð til greiningar og meðferðar. Stundum þarfnast hver einstaklingur fleiri en einnar aðgerðar og þær geta verið nokkuð umfangsmiklar þegar fjarlægja þarf til dæmis leg eða eggjastokk.

Samtök um endómetríósu á Íslandi hafa verið ötul við að fræða samfélagið um sjúkdóminn og beita sér fyrir bættri heilbrigðisþjónustu við þá einstaklinga sem eiga við sjúkdóminn að etja. Samtökin hafa allt frá árinu 2006 haft það að leiðarljósi að vinna með heilbrigðisyfirvöldum og heilbrigðisstarfsfólki að markmiðum sínum. Hið óeigingjarna starf félagsins, sem hefur einkennst af yfirvegun og fagmennsku, hefur ekki aðeins leitt til umbóta í heilbrigðisþjónustunni heldur líka vitundarvakningar um sjúkdóminn í samfélaginu almennt.

Teymisvinna

Á Landspítala var stofnað þverfaglegt endómetríósuteymi árið 2017. Nú er Klíníkin einnig að byggja upp sérhæfða þjónustu fyrir þennan sjúkdóm og er jákvætt að úrræðum sé að fjölga og þjónustan að eflast. Einnig gegna aðrar starfsstöðvar, sjálfstætt starfandi kvensjúkdómalæknar og heilsugæslan mikilvægu hlutverki í heilbrigðisþjónustu við þennan flókna og langvinnan sjúkdóm.

Það er ljóst að teymisvinna er ekki aðeins nauðsynleg innan heilbrigðisstofnanna heldur líka milli stofnanna, úrræða, félagasamtaka, yfirvalda og einstaklinga. Er þessi samningur því mikilvægt skref í þeirri vegferð að taka saman höndum um að stytta bið og jafna aðgengi. Samvinna og samfella eru lykilbreytur í því að láta heilbrigðiskerfið ganga upp.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á vísir.is 30. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Deila grein

18/11/2022

Lýðheilsa: Heilsa eins – hagur allra

Willum Þór Þórsson: „Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.“

Í lífsgæðum eru fólgin verðmæti sem þarf að standa vörð um. Með auknum lífsgæðum og góðu aðgengilegu heilbrigðiskerfi eru lífslíkur við fæðingu á Íslandi orðnar með þeim mestu á heimsvísu. Við getum verið stolt af samfélaginu okkar og því að fá tækifæri til að eldast, en það að eldast vel er langt því frá að vera sjálfsagt.

Lifnaðarhættir Íslendinga hafa breyst og því fylgja nýjar lýðheilsuáskoranir. Óhollt mataræði, of lítil hreyfing, aukin streita og of lítill svefn eru á meðal þessara áskorana. Samfélagslegar breytingar kalla á breytt heilbrigðiskerfi. Heilbrigðiskerfi sem tekur tillit til öldrunar, fjölþættra veikinda, breytts umhverfis og aukinnar sjúkdómsbyrði.

Lýðheilsa er hornsteinn meiri lífsgæða.

Hvernig gerum við sem flestum kleift að lifa lengur við sem mest lífsgæði? Það er stór spurning og eitt veigamesta svarið er efling lýðheilsu. Lýðheilsa er lykill að sjálfbærni heilbrigðiskerfisins til framtíðar.

Líf einstaklings frá vöggu til grafar er jafnverðmætt á öllum lífsskeiðum. Markmið heilbrigðiskerfisins er að allir fái jafna meðferð, af sömu gæðum, alltaf. Við alla ákvarðanatöku má ekki missa sjónar á því að gæði heilbrigðisþjónustu mynda órofa heild með öryggi, skilvirkni, hagkvæmni, jöfnu aðgengi, þekkingu, nýsköpun og afköstum. Eitt á ekki að útiloka annað. Markmiðið er að heilbrigðiskerfið geti staðið undir því að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu sem völ er á á hverjum tíma.

Heilbrigðisþing 2022 er helgað lýðheilsu

Heilbrigðisþingið í ár er helgað lýðheilsu. Heilsa eins – hagur allra er yfirskrift þingsins og hún fangar viðfangsefnið vel. Þingið fer fram í dag og það er ánægjulegt að finna hversu mikill áhugi er á viðfangsefninu. Það er hægt að fylgjast með þinginu í streymi á vefsíðunni www.heilbrigdisthing.is en það er húsfyllir á viðburðinn.

Heilbrigðisþingið mun slá tóninn fyrir eitt stærsta áherslumál heilbrigðisráðuneytisins næstu árin. Erindi, þátttakendur og fjölbreytt dagskrá þingsins bera það með sér hversu fjölþætta nálgun þarf til að efla lýðheilsu. Við þurfum öll að hjálpast að. Við þurfum að átta okkur á því að heilsa eins einstaklings snertir okkur öll og því er hagur allra að leggja við hlustir, taka þátt, skilja og framkvæma það sem þarf til að efla eigin heilsu. Lýðheilsa er ekki froða eða pólitískur hráskinnaleikur. Betri lýðheilsa gerir heilbrigðiskerfinu kleift að viðhalda gæðum þrátt fyrir áskoranir framtíðarinnar og með því halda uppi lífsgæðum þjóðarinnar til framtíðar.

Áherslur og áskoranir

Margar áskoranir heilbrigðiskerfisins eru teknar fyrir og greindar í skýrslu heilbrigðisráðuneytisins um framtíðarþróun þjónustu Landspítalans sem kom út í desember 2021. Í skýrslunni, sem unnin var af ráðgjafarfyrirtækinu McKinsey, er á uppbyggilegan og lausnamiðaðan hátt rætt um leiðir til að auka afköst, hagkvæmni og skilvirkni heilbrigðiskerfisins með Landspítalann í forgrunni. Þar eru settar fram margar tillögur að aðgerðum sem styðja þessa vegferð að auknum lífsgæðum og gæðum heilbrigðiskerfisins.

Í skýrslunni eru meðal annars málefni aldraðra, geðheilbrigði og endurhæfing sérstaklega tekin fyrir. Í þeim málaflokkum mun þjónustuþörfin aukast hratt á næstu árum og mikill hluti umbóta þarf að eiga sér stað utan spítala, á sviði forvarna og heilsueflingar og með fjölbreyttum úrræðum þvert á velferðarkerfið.

Lýðheilsa í forgrunni allra ákvarðana

Heilbrigðisráðuneytið hefur sett lýðheilsu og forvarnir í forgrunn allrar ákvarðanatöku og hefur lýðheilsuáherslan skilað sér inn í allar nýlega stefnur, aðgerðaáætlanir og áherslumál ráðuneytisins. Það er brýning fyrir önnur ráðuneyti, stofnanir, atvinnulífið og einstaklinga að gera slíkt hið sama.

Í aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu var lögð áhersla á snemmtæka íhlutun og mikilvægi fræðslu og forvarna. Þar birtist eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar; að viðhalda færni og virkni einstaklinga. Í nýsamþykktri þingsályktunartillögu um geðheilsustefnu til ársins 2030 lýtur einn af fjórum áhersluþáttum hennar að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar. Í nýskipaðri verkefnastjórn um heildarendurskoðun á þjónustu við eldra fólk er aðgerðaáætlun í smíðum sem mun taka mið af samþættingu á þjónustu, forvörnum, heilsueflingu og aukinni virkni fólks. Með verkefnastjórninni er stigið mikilvægt skref í átt að samvinnu og samþættingu á milli ráðuneyta, sveitarfélaga og annarra þjónustuaðila.

Lýðheilsa á ábyrgð okkar allra

Eins og stendur skýrt í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, bæði efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu og forvarnir. Fyrir liggur stefna heilbrigðisráðuneytisins í lýðheilsu til ársins 2030 og verður heilbrigðisþingið vel nýtt til að fá innlegg í aðgerðaáætlun í lýðheilsu sem nú er í mótun. Áætlunin verður síðan kynnt í næsta mánuði ásamt röð viðburða helgaðra forvörnum, heilsueflingu og lýðheilsu á næsta ári.

Lýðheilsa verður aftur á móti ekki efld inni á borði eins ráðuneytis eða nokkurra stofnanna. Samvinnu opinberra aðila, einkaaðila og fólksins í landinu þarf til að finna bestu leiðina að markmiðinu. Við þurfum sem samfélag að taka höndum saman um lýðheilsu. Við þurfum öll að átta okkur á því að þær samfélagslegu breytingar sem við stöndum frammi fyrir munu leggjast þungt á heilbrigðiskerfið ef við eflum ekki lýðheilsu, forvarnir, heilsueflingu og heilsulæsi. Það þarf enga aðgerðaáætlun eða skýrslu til að sjá það. Við getum byrjað strax í dag.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á mbl.is 10. nóvember 2022.

Categories
Greinar

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Deila grein

07/10/2022

Geðheilbrigði: Orð eru til alls fyrst

Á örfáum áratugum hefur samfélagið borið gæfu til þess að lyfta geðheilbrigðismálum ofar og ofar í forgangsröðuninni. Þar er enginn hópur undanskilinn; allt frá börnum til eldri borgara og allt litrófið þar á milli. Ríkisstjórnin hefur skilgreint geðheilbrigði í víðum skilningi sem eitt af sínum forgangsmálum og þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi þann 15. júní með öllum greiddum atkvæðum.

Leikáætlun er nauðsynleg

En hvaða þýðingu hefur geðheilbrigðisstefna til ársins 2030? Stefnan tekur mið af ályktunum Alþingis um heilbrigðisstefnu og lýðheilsustefnu og er í henni lögð áhersla á grunngildi sem hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu og stuðning við heilsueflingu á öllum æviskeiðum. Eins og segir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þá eru það sameiginlegir hagsmunir þjóðarinnar, efnahagslegir og félagslegir, að lögð sé aukin áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Þannig getum við horft á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi.

Heilbrigðiskerfið er komið með leiðarvísi og skýrt umboð Alþingis til að setja geðheilbrigði á oddinn. Verkefnið er krefjandi og áskoranirnar margar en með réttar áherslur og forgangsröðun færumst við áfram veginn og treystum hag geðheilbrigðisþjónustu um land allt.

Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu hagsmunaaðila.

Fjórþætt nálgun

Fyrsti áhersluþátturinn lýtur að geðrækt, forvörnum og mikilvægi heildrænnar heilsueflingar sem beinist að grundvallarþáttum vellíðunar og áhrifaþáttum geðheilbrigðis með áherslu á mikilvægi þess að hlúa að geðheilsunni alla ævi.

Annar áhersluþátturinn lýtur að því að heildræn geðheilbrigðisþjónusta verði samþætt og byggist á bestu mögulegu gagnreyndu meðferð og endurhæfingu. Geðheilbrigðisþjónustan verði veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum í árangursríku samstarfi milli hlutaðeigandi þjónustuveitendenda.

Þriðji áhersluþátturinn lýtur að notendasamráði og notendamiðaðri þjónustu á öllum stigum geðheilbrigðisþjónustu. Slíkt samtal þarf að leiða til þess að geðheilbrigðisþjónusta á Íslandi verði í vaxandi mæli notendamiðuð og áhersla sé þar með lögð á valdeflingu notenda.

Fjórði áhersluþátturinn lýtur að nýsköpun, vísindum og þróun og bættu aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu.

Framfarir í geðheilbrigðisþjónustu

Töluverðar framfarir hafa orðið á undanförnum árum. Sérstaklega er varðar upplýsta umræðu. Landspítali og starfsemi tengd honum hefur þar verið leiðandi og þjónusta hans er í stöðugri þróun. Þá hafa ýmis félagasamtök átt stóran þátt í uppbyggilegri, fordómalausri og lausnamiðaðri umræðu. En eins og nýleg skýrsla Ríkisendurskoðunar um geðheilbrigðisþjónustu bendir réttilega á þá eru ennþá grá svæði í þjónustunni og sérstaklega þegar farið er út fyrir veggi þjóðarsjúkrahússins, út í samfélagið og út á landsbyggðina.

Undanfarið hafa verið byggð upp þverfagleg geðheilsuteymi heilsugæslunnar víða um landið sem veita aukna geðþjónustu í samfélaginu. Einnig hafa verið stofnuð sérhæfðari geðteymi á borð við geðheilsuteymi fangelsa og geðheilsuteymi fjölskylduvernd. En það þarf að halda áfram að efla geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu og eyða kerfisbundið út gráu svæðunum.

Áherslan á aukna samfellu þjónustunnar og samvinnu milli þjónustustiga og úrræða innan heilbrigðiskerfisins og annarrar velferðarþjónustu. Þá þarf sérstaklega að huga að því að tryggja fullnægjandi mönnun í samræmi við þjónustuþörf á hverju þjónustustigi. Að lokum þarf að tryggja aukið samtal og samræmt upplýsingaflæði á viðeigandi hátt milli mismunandi þjónustuaðila. Kallar það á vinnu þvert á ráðuneyti og stofnanir.

Orð eru til alls fyrst

Opin og fordómalaus umræða um geðheilbrigðismál hefur komið okkur sem samfélagi á betri stað. Umræðan þroskast og þekking eykst. Stefnur eru skrifaðar og síðan er komið að aðgerðum. Við þekkjum öll að þegar lagt er af stað í vegferð umbóta þá fyrst koma raunverulegir brestir kerfisins í ljós. Aðgerðaráætlunin til 2030 mun því leggja áherslu á að ryðja markvisst úr vegi þeim hindrunum sem standa í vegi fyrir framförum í málaflokknum og styðja við umbætur, samvinnu og jafnræði.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. október 2022.

Categories
Greinar

Eitt mikil­vægasta verk­færið í verk­færa­kistunni

Deila grein

06/09/2022

Eitt mikil­vægasta verk­færið í verk­færa­kistunni

Endurhæfing er einn mikilvægasti hluti heilbrigðisþjónustu. Tímaleg endurhæfing á réttum stað í heilbrigðiskerfinu skilar sér margfalt til einstaklingsins, aðstandenda og samfélagsins alls. Snemmtæk íhlutun er kall og svar tímans því það er vaxandi fjöldi einstaklinga sem mun þurfa á einhverskonar endurhæfingu að halda á lífsleiðinni.

Heilbrigðisráðuneytið gaf út fimm ára aðgerðaáætlun um heilbrigðistengda endurhæfingu árið 2021. Þegar áætlunin var sett í samráðsgátt stjórnvalda bárust yfir 50 umsagnir sem endurspegla mikilvægi þessa málaflokks og ótal marga snertifleti hans við heilbrigðiskerfið og líf fjölmargra Íslendinga.

Erum öll á sama báti

Þörfin fyrir endurhæfingu eykst með aukinni framþróun í heilbrigðiskerfinu og vaxandi lífaldri þjóða þar sem sjúkdómsbyrði einstaklinga eykst með aldrinum. Að mati Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er þriðjungur jarðarbúa með heilsufarsástand sem þarfnast endurhæfingar sem fyrstu meðferð. Þannig má draga úr stigmagnandi þörf á heilbrigðisþjónustu sem getur verið bæði íþyngjandi og kostnaðarsöm. Í þessu samhengi er stoðkerfisvandi efstur á blaði en aðrir sjúkdómsflokkar vega einnig þungt eins og vandi tengdum taugakerfi, skilningarvitum og geði. Við getum öll orðið veik, lent í slysi, orðið fyrir áfalli eða öðru sem veldur færniskerðingu sem takast þarf á við með endurhæfingu. Í þessu samhengi erum við sannarlega öll á sama báti.

Endurhæfing á heima á öllum stigum heilbrigðiskerfisins og hún krefst þverfaglegrar aðkomu sem nær út fyrir ramma heilbrigðiskerfisins eins og við þekkjum hann í dag. Því er mikilvægt er að önnur þjónusta og úrræði tengist á skilvirkan hátt inn í viðeigandi endurhæfingu. Ástæður þess að endurhæfingar er þörf eru yfirleitt heilbrigðistengdar og úrræðin eftir því. Endurhæfing kallar á aðkomu fjölmargra heilbrigðisstétta sem er þungamiðjan en úrræði á vegum félagsþjónustu, atvinnulífs og menntakerfis mynda órofa heild. Í samþættingu þessara þátta felast áskoranir um skipulag og samtal þvert á ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og sveitafélög.

Endurhæfingarráð

Heilbrigðisráðherra og félags- og vinnumarkaðsráðherra hafa tekið höndum saman og skipað endurhæfingarráð til að auka samþættingu, bæta skipulag og auka gæði þjónustu. Ráðinu er meðal annars ætlað að ná betur utan um mismunandi tegundir endurhæfingar, samræma skilgreiningar, skýra tilgang og setja mælanleg markmið um endurhæfingu. Ráðið fylgist með alþjóðlegri þróun og þekkingu og er ráðherrum til ráðgjafar um málefni og stefnumótun tengd endurhæfingu. Einnig er endurhæfingarráði ætlað að tryggja innleiðingu mikilvægra aðgerða í aðgerðaráætlun heilbrigðisráðuneytisins sem eru á forræði beggja ráðuneyta.

Sem dæmi má nefna aðgerðir sem varða samræmt flokkunarkerfi, matskerfi og tilvísunarkerfi. Það er vegna þess að endurhæfingarþörf einstaklinga þarf að meta á líf-, sál- og félagsfræðilegan máta til að geta gert raunhæfa og markvissa endurhæfingaráætlun þvert á kerfi sem er til þess fallin að bæta heilsu og færni einstaklingsins.

Endurhæfing er eins misjöfn og einstaklingarnir í endurhæfingarþörf eru margir. Endurhæfing getur skilað sigrum sem ekki má vanmeta og geta skipt sköpum fyrir einstaklinginn. Endurhæfing getur líka skipt sköpum fyrir samfélagið þar sem m.a. ótímabært brottfall úr námi eða vinnu getur haft margföldunaráhrif til hins verra á heilsu einstaklingsins, hans nánustu ættingja og aukið kostnað heilbrigðiskerfisins að ósekju. Ekki er síður mikilvægt hvernig endurhæfing nýtist auknum fjölda aldraðra einstaklinga til að endurheimta eða viðhalda færni sinni og þannig sjálfstæði sínu, lífsgæðum og virkni í samfélaginu.

Fjárfest til framtíðar

Endurhæfing getur verið mjög sérhæfð og krafist alls þess sem hátæknisjúkrahús hafa upp á að bjóða. Endurhæfing krefst þekkingar, tækninýjunga, þverfaglegrar nálgunnar og góðrar aðstöðu. Vegna þessa var ánægjulegt að skrifa undir samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun á 3.800 fermetra viðbyggingu við endurhæfingardeild Grensáss í síðustu viku. Einnig hefur verið brugðist við aukinni þörf á endurhæfingarrýmum fyrir eldri einstaklinga með fjölgum á endurhæfingarrýmum á Eir um 20 rými í samtals 44 rými og verið er að taka þau í notkun. Það stendur líka fyrir dyrum opnun á 39 nýjum skammtímaendurhæfingarrýmum á Sólvangi í Hafnarfirði á næstu dögum.

Heilsugæslan sinnir veigamiklu hlutverki í endurhæfingu sem snýr að fræðslu, forvörnum og snemmtækri íhlutun. Eins er mikilvægt að heilsugæslan haldi vel utan um einstaklinga í endurhæfingarþörf, aðstoði við að greina þörfina og vísi áfram á réttan stað í kerfinu. Heilsugæslan gegnir lykilhlutverki við það að halda utan um einstaklinga í öðrum úrræðum og leiða þá í gegnum kerfið þar til kemur að eftirfylgd og viðhaldsmeðferð. Það mikilvæga hlutverk þarf að efla.

Forvarnir og lýðheilsa, færniskerðing og endurhæfing mynda hringrás. Þar sem endurhæfing endar taka forvarnir við. Andleg, líkamleg og félagsleg virkni er samofin öllum þáttum þessarar hringrásar. Eitt helsta lýðheilsumarkmið þjóðarinnar ætti að vera það að viðhalda færni og virkni. Það er í senn eitt markmið endurhæfingar og besta forvörnin.

Það er skylda stjórnvalda að tryggja jöfn tækifæri allra til að búa við bestu heilsu sem mögulegt er og endurhæfing er þar eitt mikilvægasta verkfærið í verkfærakistunni okkar.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra.

Categories
Fréttir

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Deila grein

25/08/2022

Heilbrigðisráðherra undirritaði samning um nýbyggingu endurhæfingar Grensás

Mynd: Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisráðherra undirritaði í gær samning Nýs Landspítala ohf. við Nordic Office of Architecture og EFLU verkfræðistofu um fullnaðarhönnun 3.800 fermetra viðbyggingar við endurhæfingardeild Grensáss. Ráðherra segir þetta enn einn ánægjulegan áfanga í uppbyggingu betra húsnæðis fyrir Landspítala, sjúklinga og starfsfólk Grensáss og þá mikilvægu starfsemi sem þar fer fram. Gert er ráð fyrir að hönnunarferlið taki um það bil eitt ár og að því loknu verði unnt að hefja verklegar framkvæmdir.

Nordic Office of Architecture og EFLA urðu hlutskörpust í útboði vegna fullnaðarhönnunarinnar þar sem byggt var á matslíkani og verði. Nýbyggingin mun rísa vestan við núverandi aðalbyggingu endurhæfingardeildarinnar. Með henni munu aðstæður til endurhæfingar gjörbreytast og endurhæfingarrýmum fjölga. Á undanförnum tveimur áratugum hafa orðið miklar breytingar á endurhæfingarstarfsemi í ljósi framfara í meðferð alvarlegra sjúkdóma og áverka. Þannig hefur þeim fjölgað mikið sem nú lifa með fötlun af völdum sjúkdóma og slysa og þörf fyrir öfluga og góða endurhæfingu fer vaxandi.

Fjölmenni var við undirritun samningsins og gleðin lá í loftinu yfir þessum tímamótum. Heilbrigðisráðherra færði þakkir þeim fjölmörgu sem sýnt hafa í verki öflugan stuðning við starfsemi Grensáss og nefndi sérstaklega Hollvinasamtök Grensáss sem hafa frá stofnun samtakanna árið 2006 reynst starfseminni ómetanlegur bakhjarl.

Samninginn undirrituðu Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra fyrir hönd Nýs Landspítala ohf.,  Hallgrímur Þór Sigurðsson fyrir hönd Nordic Office of Architecture og Ólafur Ágúst Ingason fyrir hönd EFLU. Vottar að undirskrift voru Guðrún Pétursdóttir formaður stjórnar Hollvina Grensáss og Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 24. ágúst 2022.

Myndir: Heilbrigðisráðuneytið