Líneik Anna Sævarsdóttir: „Að hitta fulltrúa annarra þjóða á norðurslóðum getur aðeins orðið til góðs, sérstaklega í því umróti sem nú á sér stað í heiminum.“
Samstarf á norðurslóðum er okkur Íslendingum afar mikilvægt enda nauðsynlegt að samtal og samvinna fari fram um sameiginleg málefni svæðisins. Með þeim umhverfisbreytingum sem nú eiga sér stað auk utanaðkomandi áhrifa standa íbúar norðurslóða frammi fyrir verulegum áskorunum. Mikilvægt er að við sem búum þar störfum saman að því að bæta lífskjör íbúa á norðurslóðum og styrkja félagslega og menningarlega þróun á svæðinu.
Eins og mörgum er kunnugt liggur starf Norðurskautsráðsins og þingmannaráðstefnunnar um norðurskautsmál niðri um þessar mundir vegna innrásar Rússa í Úkraínu. Þrátt fyrir að formlegt samstarf liggi niðri sótti þingmannanefnd um norðurskautsmál ráðstefnu um málefni norðurskautsins sem haldin var á Grænlandi í september.
Ráðstefnan var haldin af danska þinginu og bar yfirskriftina: Ráðstefna þingmanna á norðurslóðum – norrænt og norðuramerískt samstarf. Á ráðstefnunni komu saman þingmenn frá Norðurlöndunum og Norður-Ameríku og ræddu málefni norðurskautsins. Þar voru ýmis áhugaverð verkefni sem unnið er að á norðurslóðum kynnt með sérstakri áherslu á Grænland.
Áhersla á lausnir
Tilgangur ráðstefnunnar var að deila reynslu og hugmyndum, eins og tíðkast hefur á þingmannaráðstefnunni, sem að jafnaði er haldin annað hvert ár og hefur verið samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðsins frá 1993. Meginviðfangsefni voru loftslagsbreytingar, sjálfbær efnahagsþróun og mannlíf á norðurslóðum. Í því sambandi var komið inn á margt áhugavert, með áherslu á lausnir á áskorunum sem fólk á norðurslóðum glímir við. Fjallað var um mikilvægi þess að íbúar við norðurskautið verði í forystu við að leita lausna við græna og endurnýjanlega orkuöflun, fyrir stór og smá samfélög. Dæmi um slík verkefni eru frekari nýting vatnsafls, tilraunir með sólarrafhlöður sem koma skemmtilega á óvart, ræktun grænmetis í gróðurhúsum í Nuuk og hugmyndir um að nýta „jöklamjöl“ til áburðar.
Mörg og mikilvæg málefni
Réttindi og varðveisla menningar frumbyggja var til umræðu og þar á meðal mikilvægi þess að þeir væru sýnilegir í kvikmyndum og fjölmiðlum. Það er svo mikilvægt að skoða veröldina frá sjónarhóli fólksins á norðurslóðum. Þá var lögð mikil áhersla á að halda áfram að yfirstíga miklar fjarlægðir norðurslóða og byggja upp möguleika dreifbýlissamfélaga með góðum nettengingum til að efla fjarheilbrigðis- og velferðarþjónustu og rafræna námsmöguleika.
Undirrituð tók þótt í umræðu um geðheilbrigðismál og greindi meðal annars frá íslenska forvarnarmódelinu í vímuvörnum, vinnu að breytingum í málefnum barna og nýsamþykktri stefnu í geðheilbrigðismálum. Þar var einnig sagt frá áhugaverðum rannsóknum Grænlendinga við að greina þætti sem styrkja geðheilbrigði fólks á norðurslóðum og fjallað um þróunarverkefni til sjálfseflingar fólks sem ekki finnur sig í skólakerfinu.
Íslenska sendinefndin samanstendur af þremur þingmönnum sem eru, auk undirritaðrar, Eyjólfur Ármannsson og Berglind Ósk Guðmundsdóttir. Með nefndinni starfar alþjóðaritarinn Arna Gerður Bang. Að hitta fulltrúa annarra þjóða á norðurslóðum getur aðeins orðið til góðs, sérstaklega í því umróti sem nú á sér stað í heiminum. Ég get fullyrt að allir ráðstefnugestir hafi farið heim með mikilvægt veganesti inn í komandi verkefni og stærra tengslanet en áður.
Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar og formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál.
Greinin birtist fyrst á mbl.is 7. nóvember 2022.