Páll Pétursson, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, lést 23. nóvember síðastliðinn á Landspítalanum. Páll var í tvígang forseti Norðurlandaráðs, í seinna skiptið árið 1990 þegar starfsemi Norðurlandaráðs markaðist mjög af sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltslandanna. Páll vildi fara hægt í sakirnar í sjálfstæðisbaráttu ríkjanna, enda um flókið mál að ræða, en segja má að Páll hafi sett spor. Afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu nýtt upphaf í starfi ráðsins.
Miklar umræður urðu í forsætisnefnd ráðsins og á Norðurlandaráðsþingi sem fram fór í Reykjavík snemma árs 1990 um það hvernig Norðurlandaráð gæti best sýnt Lettum, Litháum og Eistlendingum stuðning. Sumir vildu fara varlega í sakirnar til að styggja ekki um of sovésk yfirvöld og þar með knýja fram harkaleg viðbrögð sem gætu komið niður á Eystrasaltslöndunum. Aðrir voru mun róttækari, vildu bjóða Sovétmönnum birginn og sýna Eistlandi, Lettlandi og Litháen samstöðu og stuðning með skýrum hætti. Þannig lagði einn þingmaður danska Framfaraflokksins til árið 1989 að þeim yrði strax boðin aðild að Norðurlandaráði.
Rætt um umhverfis-, efnahags- og menningarmál
Í október 1990 fór sendinefnd Norðurlandaráðs undir forystu Páls, þáverandi forseta ráðsins, til Moskvu og síðan til höfuðborga Eystrasaltslandanna. Þetta var tæpu ári áður en yfirvöld í Sovétríkjunum viðurkenndu sjálfstæði ríkjanna. Ferðin vakti mikla athygli og fjölmennur hópur norrænna blaðamanna fylgdi þingmönnunum. Markmið hennar var að kanna hvernig haga mætti samstarfi Norðurlanda við Sovétríkin og Eystrasaltslöndin. Niðurstaðan var sú að heppilegast væri að koma á samvinnu á sviði umhverfis-, lýðheilsu-, mennta- og fjarskiptamála. Jafnframt var rætt um að fræða Eystrasaltslöndin um störf og hlutverk þinga í lýðræðisríkjum, en af skiljanlegum ástæðum skorti nokkuð upp á þekkingu þeirra á þessu sviði. Sendinefndin fundaði með nýjum leiðtogum Eistlands, Lettlands og Litháen. „Okkar erindi var fyrst og fremst að ræða umhverfismál, efnahags- og menningarmál og koma á sambandi,“ sagði Páll í viðtali við Tímann eftir heimsóknina. „Við gátum ekki bannað þeim að tala um pólitík eða um viðhorf sitt til hennar, sem þeir gerðu óspart.“
Ræðan um sjálfstæðisbaráttuna vakti lukku
Henrik Hagemann, þáverandi ritari dönsku landsdeildarinnar, fylgdi sendinefnd Norðurlandaráðs á ferðalaginu og skrifaði löngu síðar um hana í bókinni „Norden sett inifrån“. Þar segir meðal annars frá því þegar þingmennirnir voru í kvöldverði í Ríga í boði máttarstólpa kommúnistaflokksins á staðnum. Páll þurfti að flytja þakkarræðu fyrir hönd sendinefndarinnar. „Han var en stor rund bondemand fra Nordisland, og bensindigheden selv,“ sagði Hagemann um forseta Norðurlandaráðs, „men den dag var han godt nervøs.“ Páll þurfti að koma á framfæri jákvæðum skilaboðum um sjálfstæðisbaráttu landanna en jafnframt þurfti hann að forðast að móðga menn og valda ágreiningi. Hagemann bauðst til að skrifa fyrir hann ræðupunkta en Páll hafnaði því. Hann endaði á því að halda ræðu um sjálfstæðisbaráttu Íslendinga gegn Dönum. Þetta vakti í fyrstu nokkra furðu hjá gestgjöfunum og eflaust líka norrænu þingmönnunum, en brátt áttuðu menn sig á skilaboðunum: Það er hægt að öðlast frelsi án vopnaðrar baráttu og þeir sem takast á geta síðar náð sáttum og orðið góðir vinir. Ræðan vakti lukku.
Vandrötuð slóð
Af fréttum og greinum í blöðum frá þessum tíma má ráða að Páll vildi fara hægt í sakirnar: „Sjálfstæðisbarátta Eystrasaltsríkjanna, sem ég hef persónulega afar mikla samúð með, gerist ekki á augabragði, það hlýtur að þurfa að vera þróun og samningsatriði, en hér er um flókið mál að ræða. Á hinn bóginn hlýtur maður líka að hafa samúð með Gorbatsjov og hans mönnum, sem telja það sitt hlutverk að halda ríkinu saman, því ef ríkið leysist upp þá getur þetta einnig logað allt saman í illdeilum. Það er hægt að hugsa sér það, að ef Gorbatsjov sleppti öllu lausu, þá myndi herinn taka málið í sínar hendur. Ég hef ekki trú á að það yrði undir stjórn kommúnista, það gæti alveg eins orðið einhverjir fasistadólgar eftir suðuramerískri fyrirmynd. Til þess má maður ekki hugsa. Þannig að þetta er vandrötuð slóð,“ sagði Páll í ofangreindu viðtali í Tímanum.
Áhrif Norðurlandaráðs vöktu mikla athygli
Fulltrúum Eystrasaltsríkjanna var boðið á Norðurlandaráðsþing 1991 og eftir það hófst náið og traust samstarf Norðurlandaráðs við þingin í þessum löndum og samtök þeirra, Eystrasaltsþingið, sem stofnað var að norrænni fyrirmynd. Afskipti Norðurlandaráðs af málefnum Eystrasaltslandanna mörkuðu á ýmsan hátt nýtt upphaf í starfi Norðurlandaráðs sem lengi vel hafði farið mjög varlega í að skipta sér af utanríkismálum. Eftir að Gorbatsjov tók við völdum í Sovétríkjunum árið 1985 og spenna í samskiptum austurs og vesturs minnkaði var orðið auðveldara fyrir Norðurlönd og Norðurlandaráð að beita sér í sameiningu, ekki síst var staða Finnlands orðin mun frjálsari en áður. Líklega má segja að áhrif Norðurlandaráðs á alþjóðavettvangi hafi aldrei orðið meiri en einmitt á þessum árum í samskiptunum við Eystrasaltslöndin og Sovétríkin og ummæli og athafnir þingmannanna vöktu mikla athygli.
Ýmis af þeim úrlausnarefnum sem Norðurlandaráð og Norðurlönd stóðu frammi fyrir í tengslum við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsríkjanna eiga sér eflaust hliðstæður í þeirri stöðu sem löndin eru nú í gagnvart Hvíta-Rússlandi.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður og forseti Norðurlandaráðs.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. desember 2020.