Categories
Fréttir Uncategorized

Um 9 milljarða kvikmyndaverkefni til Íslands

Deila grein

12/09/2022

Um 9 milljarða kvikmyndaverkefni til Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra leiddi sendinefnd á vegum Íslandsstofu og Útflutningsskrifstofu íslenskrar tónlistar (ÚTÓN) með áherslu á kvikmyndir og tónlist. Markmið ferðarinnar er að kynna Ísland sem áfangastað sköpunar, kynna íslenska menningu og hvetja til erlendrar fjárfestingar í skapandi greinum á Íslandi.

Í Stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á uppbyggingu skapandi greinum. Jafnframt er ítrekað í stefnu stjórnvalda að kvikmyndagerð geti orðið enn mikilvægari þáttur í íslensku atvinnu- og menningarlífi. Ljóst er að tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Í því ljósi kynnti ráðherrann Ísland sem ákjósanlegan fjárfestingakost í skapandi greinum og fór yfir sterka stöðu landsins efnahagslega. Meðal umræðuefna á fundnum ráðherra með fyrirtækjunum voru tækifæri og áskoranir í kvikmyndagerð ásamt þeim tækifærum sem felast í skapandi greinum á Íslandi. Nýleg hækkun úr 25% í 35% á endurgreiðslu framleiðslukostnaðar í kvikmyndagerð, sem samþykkt var á Alþingi í vor, var kynnt fulltrúum fyrirtækjanna og geta Íslands til að takast á við stór kvikmyndaverkefni rædd.

Eitt af dótturfyrirtækjum Universal, HBO max, tilkynnti í sumar um að þáttaröðin True Detective verði tekin upp á Íslandi. Um er að ræða stærsta kvikmyndaverkefni Íslandssögunnar en umfang þess er áætlað um 9 milljarðar króna en tökur munu standa yfir í 9 mánuði.

,,Ég finn fyrir miklum meðbyr hér í Los Angeles með þeim aðgerðum sem við höfum verið að hrinda í framkvæmd á undanförnum misserum til þess að efla skapandi greinar á Íslandi. Verkefnið True Detective er stærsta erlenda fjárfesting á sviði menningar í Íslandssögunni. Með skýrri sýn og margþáttuðum aðgerðum er okkur að takast að gera landið okkar að mjög álitlegum samstarfskosti í heimi kvikmyndanna. Alþjóðleg kvikmyndafyrirtæki eru tilbúin til þess að fjárfesta í stærri verkefnum til lengri tíma en þau gerðu. Það er gríðarlegur sigur fyrir íslenska menningu og efnahagslíf og staðfesting þess að það sem stjórnvöld eru að gera skiptir máli,’’ sagði Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Þá veitti ráðherra miðlunum Deadline, The Location Guide og Hollywood Reporter viðtöl þar sem hún fór yfir sýn sína um að gera Ísland að skapandi miðstöð milli Evrópu og Bandaríkjanna.

Fréttin birtist fyrst á stjornarradid.is 11. september 2022.

Mynd: Menningar- og viðskiptaráðuneytið