Categories
Fréttir

„Á góðan félagsfund í framsóknarfélaginu fyrir norðan“

Deila grein

29/09/2015

„Á góðan félagsfund í framsóknarfélaginu fyrir norðan“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að óska landsmönnum öllum til hamingju með frétt sem hefur farið lítið fyrir um lyktir Icesave-málsins sem lauk með fullnaðarsigri okkar Íslendinga nú fyrir nokkrum dögum. Það er sannarlega fagnaðarefni að hér skyldi vera vaskur hópur manna á sínum tíma sem barðist fyrir því að þessi niðurstaða næðist. Það var ekki þrautalaust og ýmislegt reynt til þess að koma í veg fyrir að svo gerðist. Ég sé að þetta hlægir nokkra þingmenn og ég gleðst yfir því því að við erum náttúrlega í pólitík til þess að gleðja fólk og þessi málalok hafa sannarlega glatt hug og hjörtu þjóðarinnar. Ég sé það bara á hv. þingmönnum hér á aftasta bekk að þær gleðjast yfir þessum málalyktum.
Erindi mitt hér í dag var annars að þakka hv. þm. Bjarkeyju Gunnarsdóttur fyrir ræðuna sem hún flutti áðan. Mér fannst ég vera kominn á góðan félagsfund í framsóknarfélaginu fyrir norðan vegna þess að ég hefði getað tekið undir flest það sem hún sagði varðandi tollalækkanir sem hér hafa verið gerðar. Asinn var nú ekki meiri en sá í þessu máli að viðræðurnar hófust, eins og kom fram hér áðan, fyrir nokkuð mörgum árum en voru sem sagt til loka leiddar núna um daginn.
Það sem er hins vegar nauðsynlegt að gera nú þegar þessum áfanga er náð — og nota bene, hann hefði náttúrlega aldrei náðst ef við hefðum verið búin að fella hér niður alla tolla einhliða, við höfðum skiptimynt — er að koma á einhverjum sáttmála um það hvernig þetta verður framkvæmt. Það verður í fyrsta lagi að vera alveg kristalklárt að þessar lækkanir nái alla leið til neytenda. Það þarf að upplýsa núna um hvernig verðmyndun á Íslandi er. Við búum við frjálsa álagningu og til þess að neytendur geti tekið upplýsta ákvörðun verður að opna á það hvernig verðmyndun á vöru er hér alls staðar á markaði.“
Þorsteinn Sæmundssoní störfum þingsins 22. september 2015.

Categories
Fréttir

Undirskrift þjóðarsáttmála um læsi

Deila grein

29/09/2015

Undirskrift þjóðarsáttmála um læsi

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Í morgun átti ég kost á því að vera viðstödd undirskrift þjóðarsáttmála um læsi. Undirskriftin átti sér stað á Akranesi en þar komu saman fulltrúar frá Akranesi, Hvalfjarðarsveit, Skorradalshreppi og fulltrúi frá Heimili og skóla, auk menntamálaráðherra. Á samkomuna kom jafnframt fjöldi grunnskólakennara frá Akranesi og nærsveitum og auk þess nokkrir nemendur grunnskólanna.
Eins og hefur komið fram í þinginu og í sérstakri umræðu í síðustu viku er markmiðið með þjóðarsáttmálanum meðal annars það að að minnsta kosti 90% nemenda á Íslandi geti lesið sér til gagns árið 2018. Í dag sýna tölurnar okkur að 30% drengja og 12% stúlkna geta ekki lesið sér til gagns við lok grunnskóla.
Ég vil samt leyfa mér að benda á eitt þótt ég hafi verulegar áhyggjur af þessum tölum og þær þurfi að taka alvarlega að í aðalnámskrá grunnskóla kemur skýrt fram að nemendur eiga að fá kennslu í samræmi við getu og þarfir hvers og eins. Í skólum landsins er unnið með margvíslegar kennsluaðferðir sem hafa það að markmiði að koma til móts við þessar mismunandi þarfir og getu nemenda. Síðan koma kannanir sem mæla margar hverjar með mismunandi hætti afmarkaða þætti og nemendur fá aðeins nokkrar klukkustundir til að klára og dagsform þeirra getur haft mikil áhrif á niðurstöður. Það sem ég ætlaði að segja hér í ræðu minni og kom skýrt fram á þessari stund í morgun að markmiðið með átakinu er frábært og mjög virðingarvert. Það er hins vegar mjög mikilvægt að hver skóli fái að halda sínu sjálfstæði í vali á kennsluaðferðum og vinna að því hvað hæfir nemendum þeirra best og hefur reynst vel.“
Elsa Lára Arnardóttirí störfum þingsins 22. september 2015.

Categories
Greinar

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

Deila grein

29/09/2015

Hvað á að gera í húsnæðismálum?

ásmundurPáll»Leiðarljós ríkisstjórnarinnar er bættur hagur heimilanna.« Þessi orð má finna í fyrstu málsgrein stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar. Heimilin eru undirstaða og drifkraftur þjóðfélagsins og stjórnvöldum hverju sinni ber að standa vörð um þau.

Í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði í maí síðastliðnum samþykkti ríkisstjórnin að ráðast í veigamiklar aðgerðir í húsnæðismálum. Markmiðið með þeim er að auka framboð hagkvæms og ódýrs húsnæðis, minnka greiðslubyrði húsnæðiskostnaðar, skýra rétt leigjenda og leigusala, auðvelda kaup á fasteign og veita fjölskyldum raunverulegt val um fjölbreyttari húsnæðiskost, svo eitthvað sé nefnt.

Stærsta aðgerðin felst í því að leggja grunn að nýju leiguíbúðakerfi þar sem lögð verður áhersla á að fjölga hagkvæmum og ódýrum íbúðum og um leið tryggja tekjulágum fjölskyldum leiguhúsnæði til lengri tíma.

Frumvarp þess efnis verður lagt fram nú strax á haustþingi, ásamt öðrum frumvörpum um breytingar á húsnæðisbótum, húsaleigulögum og lögum um húsnæðissamvinnufélög.

Lækkum byggingarkostnað 

Auk frumvarpa þessa hausts erum við að líta til þess að endurskoða byggingarreglugerð og skipulagslög svo að af hálfu hins opinbera verði á allan hátt greitt fyrir að hægt verði að taka upp sem hagkvæmastar aðferðir við íbúðabyggingar. Á sama hátt verður gjaldtaka sveitarfélaga vegna lóða og gatnagerðargjalda skoðuð. Þannig er hægt að minnka byggingarkostnað og auka þar með framboð á ódýru húsnæði.

Auðveldum kaup 

En aðgerðirnar snúa ekki einungis að leigumarkaðnum og byggingarreglugerðum. Við viljum einnig auðvelda ungu fólki kaup á eigin heimili. Hvatt verður til sparnaðar með skattfrjálsum sparnaði – þeir sem sparað hafa tilgreint hámarkshlutfall af tekjum í tiltekinn tíma geti tekið sparnaðinn út skattfrjálst – þannig að ungu fólki verði heimilt að nýta séreignarsparnað sinn við kaup á fyrstu íbúð.

Í dag er alltof algengt að fólk komist ekki í gegnum greiðslumat þrátt fyrir að greiða leigu sem er hærri en afborganir af húsnæðisláni væru. Þar er pottur brotinn og því vijum við að lánveitendum verði einnig veitt svigrúm til að horfa til fleiri þátta en greiðslumats við ákvörðun lántöku.

Við fögnum því að framundan séu breytingar. Aðgerðirnar, stórar sem smáar, munu bæta húsnæðismarkaðinn og það sem skiptir mestu máli – bæta hag heimilanna.

Ásmundur Einar Daðason og Páll Jóhann Pálsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. september 2015.

Categories
Fréttir

Framsóknarflokknum að þakka!

Deila grein

28/09/2015

Framsóknarflokknum að þakka!

líneikBjörgvin Stefán Pétursson, leikmaður Leiknis Fáskrúðsfirði og fyrirliði, var valinn bestur í 2. deildinni á lokahófi Fótbolta.net. Hann raðaði inn mörkum í sumar en þau voru ein 12 og hjálpaði Leiknismönnum að tryggja sér sæti í 1. deildinni á næsta tímabili. Leiknir spilar á Reyðarfirði, í Fjarðabyggðarhöllinni, sem var reist fyrir um sex árum síðan og þakkar Björgvin Stefán því að þessi árangur náist nú. Gerfigraskynslóðin nái einnig til þeirra og geti því æft eins og Reykjavíkurfélögin.
Eins og allir vita þá eru Framsóknarmenn þekktir á Fáskrúðsfirði, og það er auðvitað þingmaður frá Fáskrúðsfirði, Líneik Anna Sævarsdóttir, og er hún eiginkona formanns Leiknis á Fáskráðsfirði, Magnúsar Björns Ásgrímssonar. Segist því Björgvin Stefán verða að segja að þetta sé „Framsóknarflokknum að þakka“.
Viðtal við Björgvin Stefán, á fótbolti.net, má sjá í heild sinni hér.
Framsókn óskar Fáskrúðsfirðingum til hamingju!

Categories
Greinar

Leiga raunverulegur valkostur

Deila grein

28/09/2015

Leiga raunverulegur valkostur

Jóhanna María - fyrir vefSilja-Dogg-mynd01-vefEin helsta áhersla Framsóknar – á þessu kjörtímabili sem öðrum – hefur verið á heimilin í landinu. Í byrjun ársins fórum við að sjá áhrif leiðréttingarinnar á verðtryggðum húsnæðislánum og í vor var samþykkt, samhliða gerð kjarasamninga, að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir til úrbóta á húsnæðismarkaði, bæði fyrir leigjendur og eigendur.

Fleiri á leigumarkaði 

Frá árinu 2007 hefur hlutfall heimila í leiguhúsnæði hækkað ört, hvort sem litið er til höfuðborgarsvæðisins eða landsbyggðarinnar, almenna markaðarins eða félagslegra leiguíbúða og námsmannaíbúða. Fyrir átta árum voru 15,4% íslenskra heimila í leiguhúsnæði en árið 2013 var hlutfallið komið uppí 24,9%. Það er fjórða hvert heimili.

Þessi fjölgun á leigumarkaði leiðir eðlilega af sér aukna eftirspurn eftir leiguhúsnæði, sem svo leiðir til hækkunar leiguverðs. Þar sem löng bið er eftir félagslegu húsnæði hefur hlutfall lágtekjufólks á almennum leigumarkaði farið ört vaxandi og byrði húsnæðiskostnaðar þess hóps er því orðin þyngri en gengur og gerist hjá fjölskyldum sem hafa meira milli handanna. Rúmlega 63% þeirra sem fá húsnæðisbætur í dag eru heimili með tekjur undir 3 milljónum á ári, eða 250 þúsund krónur á mánuði. Sem samfélagi ber okkur skylda til að létta undir með þeim heimilum.

1,1 milljarður í aukinn húsnæðisstuðning 

Í haust mun Alþingi taka fyrir breytingar á húsnæðisbótum og í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að húsnæðisstuðningur hækki um 1,1 milljarð króna á næsta ári.

Við viljum hækka grunnfjárhæð húsnæðisbóta, hækka frítekjumarkið, hækka hámarkshlutfall af leiguverðinu og miða stuðninginn við fjölda einstaklinga á heimili, í stað fjölskyldugerðar eins og hefur verið. Þannig er tekið tillit til aukins húsnæðiskostnaðar eftir því sem fleiri eru í heimili.

Markmið þessara breytinga er að lækka húsnæðiskostnað efnaminni leigjenda og tryggja öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins.

Lægri skattbyrði af leigutekjum 

Auk þess að hækka húsnæðisstuðninginn er litið til þess að lækka skattbyrði leigutekna úr 14% niður í 10%. Markmiðið með þessum breytingum er að hvetja til langtímaleigu íbúðarhúsnæðis og að fasteignaeigendur sjái hag sinn í því að gera langtímaleigusamninga, en hætta er á að skammtímaleiga húsnæðis, til dæmis til ferðamanna, dragi úr framboði á leiguhúsnæði til langs tíma og þrýsti þar með upp leiguverði. Þannig aukum við framboð og öryggi leigjenda með framtíðarhúsnæði í huga.

Framsókn notaði slagorðið »Framsókn fyrir heimilin« í síðustu kosningum og ekki að ástæðulausu. Okkar áhersla er og verður á heimilin í landinu.

Jóhanna María Sigmundsdóttir og Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. september 2015.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð ávarpar leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið

Deila grein

27/09/2015

Sigmundur Davíð ávarpar leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um ný heimsmarkmið

SDG---26_09_2015---11.31.08Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, ávarpaði í gær leiðtogafund aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna (SÞ) þar sem samþykkt voru ný heimsmarkmið allra 193 aðildarríkja SÞ um sjálfbæra þróun. Forsætisráðherra fagnaði samþykkt nýrra heimsmarkmiða og kvað þau vera til marks um kraft alþjóðlegrar samvinnu. Í ávarpi sínu lagði forsætisráðherra m.a. áherslu á jafngildi markmiðanna og að árangur á einu sviði gæti liðkað fyrir árangri á öðru sviði. Lagði hann m.a. áherslu á mikilvægi endurnýjanlegrar orku, stöðvun landeyðingar, sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, jafnrétti kynjanna og framfarir í lækningu sjúkdóma og skaða á taugakerfinu. Forsætisráðherra kom inn á mikilvægi þess að heimsmarkmiðin fjalli einnig um margvíslegar ástæður fólksflutninga og þörf alþjóðlegrar samvinnu því tengdu. Þá gerði forsætisráðherra grein fyrir fyrirætlunum Íslands í samstarfi við Evrópusambandið og Noreg um að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda um 40%. Sjá nánar í meðfylgjandi ávarpi forsætisráðherra.
Heimsmarkmiðin eru sautján með 169 undirmarkmiðum. Þau taka gildi árið 2016 og gilda til ársins 2030. Markmiðin, ásamt pólitískri yfirlýsingu, áætlun um framkvæmd og eftirfylgni ná yfir afar vítt svið. Með samþykkt þeirra er stefnt að því að útrýma fátækt, tryggja velmegun, mannréttindi og jafnrétti um allan heim – með hliðsjón af umhverfi okkar. Enginn verður skilinn eftir – er rauður þráður markmiðanna.
Ný heimsmarkmið um sjálfbæra þróun 
SDG_UN

Categories
Fréttir

Ekki farið eftir jafnréttislögum

Deila grein

24/09/2015

Ekki farið eftir jafnréttislögum

logo-lfk-gluggiFramkvæmdastjórn landssambands framsóknarkvenna gerir athugasemd við það að ekki hafi verið farið eftir jafnréttislögum við skipan dómnefndar sem fjallar um hæfi umsækjenda um embætti hæstaréttardómara. Þá hafi ekki hafi komið fram málefnalegar ástæður fyrir frávikinu.
Samkvæmt 15. grein jafnréttislaga þar sem fjallað er um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera segir að við skipanir í þau skuli þess gætt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast og ekki minna en 40 prósent þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þar segir ennfremur að tilnefna skuli bæði karl og konu. Tilnefningaraðila er heimilt að víkja frá skilyrði 1. málsl. þegar hlutlægar ástæður leiða til þess að ekki er mögulegt að tilnefna bæði karl og konu. Skal tilnefningaraðili þá skýra ástæður þess.
Framkvæmdastjórn landssambands framsóknarkvenna bendir á að aðeins skorti vilja til þess að uppfylla skyldur laganna um jafnan hlut kynjanna.

Categories
Greinar

Umboðsvandi Landsbankans

Deila grein

24/09/2015

Umboðsvandi Landsbankans

Þorsteinn-sæmundssonLandsbanki Íslands er að níutíu og sjö hundraðshlutum í eigu þjóðarinnar. Þrátt fyrir það er aðkoma og áhrif kjörinna fulltrúa illa skilgreind og í lágmarki. Svo virðist sem 3% hluthafa, en meirihluti þeirra fékk hlut sinn á silfurfati í tíð síðustu ríkisstjórnar, fari sínu fram um stjórnun bankans án nokkurs tillits til vilja meirihlutaeiganda bankans, almennings. Undanfarið hefur farið nokkuð fyrir umræðu um starfsemi og starfshætti Landsbankans af ærnum tilefnum. Þar má nefna sölu bankans á hlutum í Borgun og Valitor sem fram fóru án útboðs og að því er virðist án gaumgæfilegs verðmats á hlutunum. Einnig kynnti stjórn bankans nú nýlega áform sín um að byggja hátimbraðar höfuðstöðvar á verðmætustu byggingarlóð landsins.

Til að skýra þá framkvæmd steig almannatengill bankans fram og kvað bankann skilgreina sig sem ,,miðborgarfyrirtæki“!? Banki allra landsmanna með starfsstöðvar víða um land er sem sagt orðinn að „miðborgarfyrirtæki“!

Ganga fram af þjóðinni

Framangreind atriði eru góð dæmi um hvernig stjórnendur bankans ganga fram af aðaleiganda hans, þjóðinni. Nú þegar landið rís að nýju eftir ófarirnar árin 2005-2008 kærir fólk sig ekki um hegðun eins og þá sem skóp hrunið og eftirköst þess. Almenningur gerir réttilega kröfu um að ríkið og fyrirtæki þess séu rekin af ráðdeild og heiðarleika. Beiðnum um hluthafafund vegna byggingar nýrra höfuðstöðva hefur verið tekið með þögninni.
Bankasýsla ríkisins sem fara á með 97% hlut ríkisins hefur ítrekað verið hunsuð af hálfu stjórnenda bankans eins og raunin var þegar sala á Borgun og Valitor var ákveðin. Bankasýslan hefur greinilega ekki treyst sér til að fylgja fram beiðni um hluthafafund vegna fyrirhugaðrar byggingaframkvæmdar.

Fulltrúar almennings í landinu, kjörnir fulltrúar, eiga ekki sjálfkrafa seturétt á aðalfundi Landsbanka Íslands. Í svari við fyrirspurn á vegum undirritaðs í vor upplýsti bankinn reyndar að þingmönnum væri heimill aðgangur að fundinum ef þeir gæfu sig fram við þjónustuborð bankans og gerðu þar grein fyrir sér. Jafnframt kom fram að þingmönnum væri ekki gert kleift að tjá sig á aðalfundi. Síðastliðinn vetur sendi sá sem hér ritar formlegt erindi til Bankasýslu ríkisins um að Bankasýslan framkvæmdi mat á söluverði á hlut bankans. Svar Bankasýslunnar var í stuttu máli að ekki væri hægt að verða við beiðnum einstakra þingmanna en fjármálaráðherra gæti farið fram á upplýsingar um efnið. Ljóst er af því sem fram kemur hér að framan að Landsbankinn glímir við alvarlegan umboðsvanda þegar kjörnir fulltrúar almennings eiga þess ekki kost að fylgjast með og hafa áhrif á stórar ákvarðanir í rekstri bankans.

Rétt er að taka fram að undirritaður er ekki þeirrar skoðunar að stjórnmálamenn eigi að horfa yfir axlir stjórnenda við dagleg störf eða hafa áhrif á lánveitingar til viðskiptavina. Brýnt er þó að bankinn ræki samfélagslegt hlutverk sitt og axli samfélagslega ábyrgð. Til þess að svo verði þarf verulega hugarfarsbreytingu í stjórn bankans.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. september 2015.

Categories
Fréttir

Upplýsingar um stöðuna á húsnæðismarkaði

Deila grein

23/09/2015

Upplýsingar um stöðuna á húsnæðismarkaði

Leiguverð á húsnæðismarkaði hefur hækkað um 40,2% frá ársbyrjun 2011 til loka júlí 2015. Á sama tíma hefur verð á íbúðarhúsnæði hækkað um 41,8%. Árið 2008 til 2010 var hlutfall fyrstu íbúðakaupa lægra en 10% en frá þeim tíma hefur kaupsamningum fjölgað og samhliða hefur hlutfall fyrstu íbúðakaupa hækkað verulega. Hlutfall þeirra sem voru að kaupa sína fyrstu íbúð af heildarfjölda húsnæðiskaupenda var komið yfir 20% af öllum kaupsamningum á fyrsta ársfjórðungi 2015.
Í eftirfarandi samantekt sem byggð er á minnisblaði sem Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í gær má sjá ýmsar upplýsingar um stöðuna á íslenskum húsnæðismarkaði og þróun síðustu ára.

Almenni leigumarkaðurinn í kjölfar efnahagshrunsins.

Stöðug fjölgun var á hinum almenna leigumarkaði frá árinu 2007. Árið 2007 voru um 17% íslenskra heimila á leigumarkaði og var hlutfallið nær 27% árið 2013. Mest var fjölgunin meðal fólks á aldursbilinu 25 til 34 ára sem og tekjulágum og einstæðum foreldrum. Í kjölfar efnahagshrunsins gjörbreyttist staðan á almennum leigumarkaði, markaðsaðstæður versnuðu og verulega dró úr aðgengi að lánsfjármagni þannig að aukinn fjöldi þeirra sem komu nýir inn á húsnæðismarkað leituðu á leigumarkaðinn.
Mynd 1. Hlutfall heimila á leigumarkaði frá 2004 til 2013.

Mynd 1. Hlutfall heimila á leigumarkaði frá 2004 til 2013.

Byrði húsnæðiskostnaðar hækkaði hjá leigjendum eftir efnahagshrun en lækkaði hjá fólki sem bjó í eigin húsnæði eins og sjá má af mynd 2. Samkvæmt greiningardeild Arion banka þarf það samt sem áður ekki að endurspegla hækkun húsnæðiskostnaðar, heldur gæti samsetning hópanna hafa breyst þannig að hlutfall fólks með lágar tekjur hafi hækkað meðal leigjenda. Þrátt fyrir þessa sýn er ljóst að leiguverð hefur hækkað talsvert umfram hækkun kaupverðs frá byrjun árs 2012. Þessi mikla hækkun er talin vera tilkomin vegna mun meiri eftirspurnar eftir leiguhúsnæði í kjölfar efnahagshrunsins og að mjög hægði á fjölgun íbúða þar sem verulega dró úr íbúðaframkvæmdum.
Íslenskum heimilum á leigumarkaði fjölgaði um 13.000 frá árinu 2007 til 2013. Á sama tímabili fjölgaði heimilum um rúmlega 6.000, svo fjölgun heimila á leigumarkaði umfram fjölgun heimila var 7.000. Ekki liggur fyrir með ákveðinni vissu hvað olli þessari þróun en líkur eru á að fjölgun ferðamanna, strangari lánsskilmálar og erfið skuldastaða heimilanna í kjölfar efnahagserfiðleikanna haustið 2008 hafi haft samverkandi áhrif. Á árinu 2015 hefur dregið úr þessari miklu eftirspurn á leigumarkaði og hefur leiguverð einungis hækkað um 0,6% frá janúar til júlí 2015.
Mynd 2. Miðgildi hlutfalls húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum eftir stöðu á fasteignamarkaði frá 2004 til 2013.

Mynd 2. Miðgildi hlutfalls húsnæðiskostnaðar af ráðstöfunartekjum eftir stöðu á fasteignamarkaði frá 2004 til 2013.

Þróun leiguverðs og íbúðaverðs.

Frá ársbyrjun 2011 til og með júlí 2015 hefur leiguverð hækkað um 40,2%, á meðan íbúðarhúsnæði hefur hækkað um 41,8% í verði. Á sama tímabili hækkaði launavísitalan um 36,5% en almennt verðlag án húsnæðis aðeins um 15,1%. Framan af hækkaði leiguverð talsvert umfram verð á íbúðarhúsnæði en sú þróun snerist við á fyrri hluta ársins 2015. Af mynd 3 má sjá hvernig húsnæðiskostnaður hefur hækkað töluvert umfram almennt verðlag, en ekki svo langt umfram almenn laun.
Mynd 3. Þróun leiguverðs, íbúðaverðs, launa og verðlags frá janúar 2011 til og með júlí 2015.

Mynd 3. Þróun leiguverðs, íbúðaverðs, launa og verðlags frá janúar 2011 til og með júlí 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands og Þjóðskrá Íslands.
Að undanförnu hefur leiguverð íbúðarhúsnæðis verið að gefa eftir eins og sjá má af mynd 4. Frá janúar til og með júlí 2015 hefur íbúðaverð hækkað um 3,9%, laun hafa hækkað um 5%, verðlag án húsnæðis hefur hækkað um 2,3% en leiguverð einungis um 0,6%. Hækkun íbúðaverðs umfram leiguverð gefur vísbendingu um aukna eftirspurn eftir kaupum á íbúðarhúsnæði, ekki hvað síst hjá fyrstu kaupendum.

Mynd 4. Þróun leiguverðs, fasteignaverðs, launa og verðlags frá janúar til júlí 2015.

Mynd 4. Þróun leiguverðs, fasteignaverðs, launa og verðlags frá janúar til júlí 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands og Þjóðskrá Íslands.

Heildarfjöldi kaupsamninga árið 2004 til 2014 var um 129.000. Mun fleiri kaupsamningar voru gerðir á árunum fyrir efnahagshrun og náðu þeir hámarki árið 2004 þegar gerðir voru 18.602 samningar. Fæstir kaupsamningar voru gerðir árið 2009 eða tæplega 6.000. Síðan þá hefur þinglýstum kaupsamningum fjölgað og hafa verið gerðir fleiri en 10.000 samningar á ári frá árinu 2012 eins og sjá má af mynd 5.
Þjóðskrá Íslands tók saman, að beiðni velferðarráðuneytisins, gögn um fjölda þeirra sem keyptu sitt fyrsta húsnæði frá árinu 2008 til mars 2015. Alls voru gerðir 66.444 kaupsamningar á tímabilinu og voru 9.040 vegna fyrstu íbúðakaupa, eða 13,6% allra samninga. Árið 2008 til 2010 var hlutfall fyrstu íbúðakaupa lægra en 10%, eins og sjá má af mynd 5, en frá þeim tíma hefur kaupsamningum fjölgað og samhliða hefur hlutfall fyrstu húsnæðiskaupa hækkað verulega og var komið yfir 20% af öllum kaupsamningum á fyrsta ársfjórðungi 2015. Frá maí 2012 hefur eftirspurn eftir minni íbúðum jafnframt verið að aukast og hefur verð fasteigna í fjölbýli hækkað um 31% frá þeim tíma en verð sérbýlis um 20% eins og sjá má af mynd 6. Frá janúar til og með júlí 2015 hefur hefur íbúðaverð í fjölbýli hækkað um 4,6% á meðan verð sérbýlis hefur einungis hækkað um 1,5%.
Mynd 5. Fjöldi kaupsamninga og hlutfall fyrstu íbúðakaupa af öllum kaupsamningum frá 2008 til mars 2015.

Mynd 5. Fjöldi kaupsamninga og hlutfall fyrstu íbúðakaupa af öllum kaupsamningum frá 2008 til mars 2015.

Mynd 6. Þróun fasteignaverðs í fjölbýli og sérbýli frá janúar 2011 til júlí 2015.

Mynd 6. Þróun fasteignaverðs í fjölbýli og sérbýli frá janúar 2011 til júlí 2015.
Heimild: Þjóðskrá Íslands.
 

Nýbyggingar.

Ljóst er að eftirspurn eftir húsnæði mun halda áfram að aukast út frá lýðfræðilegri þróun, þar sem bæði Íslendingum er að fjölga og fleiri eru farnir að flytja til landsins en frá því. Fólksfjölgun og nýbyggingar íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafa fylgst nokkuð vel að til lengri tíma eins og sjá má af mynd 7.
Frá árinu 2003 og allt til ársins 2008 var verulegur hvati til nýbygginga, bæði í byggingu fjölbýlis og sérbýlis. Veruleg offjárfesting var í íbúðarhúsnæði á tímabilinu. Þrátt fyrir að framboð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hafði aukist talsvert hægði ekkert á verðhækkunum. Í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008 lækkaði fasteignaverð aftur á móti hratt á meðan byggingarkostnaður hélt áfram að hækka.
Þessi þróun leiddi til stöðnunar í byggingariðnaði og nánast ekkert var um að framkvæmdir hæfust á nýju íbúðarhúsnæði á árunum 2010 og 2011. Á árinu 2012 virðist sem einhver hvati hafi skapast til að hefja framkvæmdir að nýju. Þá var hafist handa við byggingu 457 nýrra íbúðarhúsa á höfuðborgarsvæðinu og var fjöldinn kominn í 570 á árinu 2014.
Mynd 7. Mannfjöldi og húsnæðismarkaður á höfuðborgarsvæðinu frá 1999 til 2015.

Mynd 7. Mannfjöldi og húsnæðismarkaður á höfuðborgarsvæðinu frá 1999 til 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands.
 

Byggingarkostnaður.

Hár byggingarkostnaður hefur haldið aftur af framboði nýs íbúðarhúsnæðis undanfarið, en svo virðist sem hækkun fasteignaverðs í fjölbýli umfram byggingarskostnað hafa þó ýtt við framkvæmdaraðilum að einhverju leyti. Frá ársbyrjun 2014 hefur kostnaður við nýbyggingar haldist nokkuð stöðugur og frá þeim tíma til júlí 2015 hækkaði verð íbúðarhúsnæðis í fjölbýli um 16% á meðan byggingarkostnaður hækkaði einungis um 4%. Það sem af er ári 2015 hefur byggingarkostnaður hækkað um 2,4% en kaupverð í fjölbýli um 4,6%.
Mynd 8. Þróun vísitölu byggingarkostnaðar og vísitölu íbúðarhúsnæðis frá janúar 2003 til ágúst 2015.

Mynd 8. Þróun vísitölu byggingarkostnaðar og vísitölu íbúðarhúsnæðis frá janúar 2003 til ágúst 2015.
Heimild: Hagstofa Íslands og Þjóðskrá Íslands.
 

Samanburður á leiguverði og kaupverði íbúðarhúsnæðis.

Eftirfarandi dæmi setti greiningardeild Arion banka upp þann 17. desember 2014. Þá var hægt að fá tveggja herbergja 75 m2 íbúð leigða fyrir um 145-185 þús. kr. á mánuði að meðaltali en þriggja herbergja 100 m2 íbúð fyrir um 165-215 þús. kr. á mánuði á höfuðborgarsvæðinu. Lægst var meðalleiguverð tveggja herbergja 75 m2 íbúðar í Breiðholti, en ódýrustu þriggja herbergja 100 m2 leiguíbúðirnar var að finna í Kópavogi að meðaltali.
Mynd 9. Meðalleiguverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Mynd 9. Meðalleiguverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Miðað við Verðsjá fasteigna hjá Þjóðskrá var á sama tíma hægt að festa kaup á 75 m2tveggja herbergja íbúð í Reykjavík fyrir um 25,6 m. kr., en greiða þurfti nær 29,5 m.kr. fyrir 100 m2 þriggja herbergja íbúð eins og sjá má af mynd 10.
Mynd 10. Meðalkaupverð á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Mynd 10. Meðalkaupverð á höfuðborgarsvæðinu árið 2014.

Categories
Fréttir

Stóreflum uppbyggingu íþróttamannvirkja og sjálfboðastarf

Deila grein

23/09/2015

Stóreflum uppbyggingu íþróttamannvirkja og sjálfboðastarf

VilllumDreift hefur verið á Alþingi frumvarpi um breytingu á lögum er varða uppbyggingu og viðhald íþróttamannvirkja. Lagt er til að íþrótta-, ungmenna- og æskulýðsfélögum verði endurgreiddur allur virðisaukaskattur sem greiddur hefur verið af vinnu manna við nýbyggingu, endurbyggingu og viðhaldi við íþróttamannvirki, en einnig af þjónustu vegna hönnunar, eftirlits eða viðhalds þeirra. Frumvarpið gerir ráð fyrir að þjónusta og vörusala sem stunduð er til að afla fjár fyrir hefðbundna starfsemi íþróttafélaga verði undanþegnar virðisaukaskatti. Tímabilið í frumvarpinu er eitt ár, frá 1. janúar 2016 til 1. janúar 2017.
Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokksins, er fyrsti flutningsmaður málsins en aðrir meðflutningsmenn eru þingmennirnir: Ásmundur Einar Daðason, Páll Jóhann Pálsson, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Ásmundur Friðriksson.
„Árangurinn í íþróttum undanfarnar vikur sýnir mikilvægi innviðauppbyggingar í íþróttum. Löggjafinn þarf að hvetja til uppbyggingar á íþróttamannvirkjum og þetta frumvarp er lykilatriði í mínum huga,“ segir Willum Þór Þórsson, alþingismaður Framsóknarflokksins.
Willum segir jafnframt að að sjálfboðaliðastarf hafi lengi verið grunnurinn að öflugu íþróttastarfi á Íslandi og markmiðið frumvarpsins sé að styðja við allt sjálfboðaliðastarf innan íþróttahreyfingarinnar hér á landi.