Categories
Fréttir

Leynd aflétt

Deila grein

30/03/2016

Leynd aflétt

ásmundurÁ fundi þingflokks framsóknarmanna sem var að ljúka rétt í þessu var einróma samþykkt að þingflokkurinn í heild sinni leggi fram frumvarp um afnám 110 ára reglunnar er varðar aðgang að gögnum sem varða ákvarðanir stjórnsýslunnar.
Að sögn Ásmundar Einars Daðasonar, þingflokksformanns Framsóknar, hefur alltaf verið mikilvægt að allt sé uppi á borðum varðandi uppgjör við hrunið og eftirleik þess.
„Það er nauðsynlegt að fara ofan í öll þessi þjóðfélagslega mikilvægu mál, m.a. þau sem snúa að uppgjöri þrotabúa föllnu bankanna og það er fagnaðarefni að nú séu uppi umræður í samfélaginu að skoða þessi mál frá hruni til dagsins í dag,“ segir Ásmundur Einar.

Categories
Greinar

Um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi

Deila grein

30/03/2016

Um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi

frosti_SRGBFrá því fjármálakreppan skall á hefur krafan um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi verið talsvert áberandi. Fjöldi sérfræðinga og nefnda í mörgum löndum hafa fjallað um málið en niðurstaðan hefur ekki verið einhlít um hve langt þurfi ganga í aðskilnaði. Lögum og reglum hefur verið breytt til að draga úr áhættu í bankarekstri og efla fjármálastöðugleika en hvergi hefur verið ráðist í að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi enn sem komið er.

Rökin fyrir aðskilnaði
Fjárfestingabankastarfsemi getur verið bæði arðbærari og áhættusamari en hefðbundin viðskiptabankastarfsemi. Áhætta í fjárfestingabankastarfsemi er þó fyrst og fremst áhyggjuefni eigenda fjárfestingabankans en ekki ríkisins.

Öðru máli gegnir um viðskiptabanka því þeir njóta ríkisábyrgðar eins og útskýrt verður síðar í þessari grein. Áhættan í rekstri viðskiptabanka er því ekki einkamál eigenda bankans. Fjöldi dæma í mörgum löndum sýna að tjón af gjaldþroti viðskiptabanka lendir jafnan á ríkinu og tjónið getur verið gríðarmikið ef bankinn er stór.

Hagsmunir ríkisins felast í því að takmarka áhættu í rekstri viðskiptabanka en hagsmunir hluthafa og lykilstjórnenda lúta aftur á móti að því að hámarka arðsemi bankans. Til þess þarf iðulega að taka nokkra áhættu. Ríkið þarf því að setja viðskiptabönkum mjög skýrar reglur til að takmarka áhættuna, beitt virku eftirliti og ströngum  viðurlögum. Með því að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingabankastarfsemi verða skilin skýr og eftirlitið auðveldara í framkvæmd.

En það eru fleiri rök nefnd fyrir aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Um leið og viðskiptabanki hefur fjárfestingastarfsemi skapast hætta á því að hagsmunir banka og innstæðuhafa fari ekki saman í tilteknum verkefnum. Hætta á hagsmunaárekstrum kallar á meiri reglur og eftirlit en það veldur auknum kostnaði. Einfaldara og öruggara væri að skilja á milli.

Einnig eru nefnd þau rök að viðskiptabankar sem njóta ríkisábyrgðar, njóti þar með óeðlilegs forskots í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki sem ekki njóta ríkisábyrgðar.

Að lokum hefur verið bent á að fái bankar að stunda blandaðan rekstur geti þeir orðið mun stærri en annars væri. Því stærri sem viðskiptabanki er þegar hann fellur, því meira getur tjón ríkisjóðs orðið.

Rökin gegn aðskilnaði
london
Það hafa verið færð ýmis rök gegn aðskilnaði. Bent hefur verið á að fjármagnskostnaður við fjárfestingastarfsemi muni aukast við aðskilnað frá viðskiptabanka. Eftir aðskilnað fær fjárfestingabankahlutinn ekki lengur aðgang að ódýru fjármagni í formi innstæðna og verður því að fjármagna sig á kjörum sem bjóðast á markaði. Vextir á innstæðum eru jafnan umtalsvert lægri en markaðskjörin, aðallega vegna þess að innstæður eru óbundnar og taldar njóta ríkisábyrgðar þegar á reynir.

Aukinn fjármagnskostnaður eru þó varla gild rök gegn aðskilnaði nema hægt sé að sýna fram á að fjárfestingabankastarfsemi eigi tilkall til ríkisábyrgðar á fjármögnun sinni en það hefur ekki verið sýnt fram á neitt slíkt.

Stærðarhagkvæmni getur vissulega tapast ef viðskiptabankar mættu  ekki stunda fjárfestingastarfsemi. En á móti má spyrja hvort það sé skylda ríkisins að axla verulega áhættu svo að bankar geti náð stærðarhagkvæmni. Hér á landi virðist fákeppni á bankamarkaði vera meira aðkallandi vandamál en skortur á stærðarhagkvæmni. Þrír stórir bankar ráða yfir 90% af markaðinum og við slíkar aðstæður er alls óvíst að aukin stærðarhagkvæmni myndi skila sér í bættum kjörum til neytenda.

Einnig er bent á að í stað aðskilnaðar ætti að leggja áherslu á betra regluverk, bætt siðferði í bankarekstri og virkara eftirlit. Setja eigi upp „girðingar” innan alhliða banka til að hindra að innstæður verði notaðar til að fjármagna fjárfestingabankastarfsemi og til að draga úr freistnivanda. Eflaust yrði þetta allt til bóta en áhætta ríkisins verður þó áfram til staðar og reglurnar og eftirlit getur brugðist. Blandaðir bankar geta líka orðið stærri en góðu hófi gegnir.

Að lokum er bent á að innlendir bankar þurfi að geta keppt við erlenda alhliða banka og því óæskilegt að íþyngja innlendum bönkum með löggjöf sem er strangari eða frábrugðin því sem tíðkast á EES svæðinu. Á móti má segja að viðskiptabankastarfsemi sé fremur staðbundin. Hún byggir að mestu leiti á því að taka við innlánum í krónum og veita lán í krónum til einstaklinga og fyrirtækja sem starfa hér. Erlendir bankar hafa ekki sýnt mikinn áhuga á þeirri starfsemi. En þeir hafa vissulega lánað til íslenskra fyrirtækja sem hafa erlendar tekjur og eru lánshæf í erlendri mynt. Erlendu bankarnir eru margfalt stærri en íslenskir bankar og fjármagnskostnaður þeirra er og verður líklega ávallt lægri en íslenskra banka. Þótt ríkissjóður Íslands standi að bönkunum í dag hefur það ekki nægt þeim til að undirbjóða erlenda banka í erlendum lánum. Það myndi því litlu breyta þótt ríkisábyrgðin hætti að bakka upp fjárfestingastarfsemi íslenskra banka.

Hvers vegna er ríkisábyrgð á viðskiptabönkum?
Það er vissulega mjög óheppilegt að viðskiptabankar njóti ríkisábyrgðar en það er því miður óumflýjanleg staðreynd eins og dæmin sanna.

Meginástæðan fyrir umræddri ríkisábyrgð liggur í því að starfsemi stórra viðskiptabanka er of mikilvæg fyrir samfélagið til að mega stöðvast en hin meginástæðan felst í því að fall eins viðskiptabanka getur komið af stað keðjuverkun sem fellt getur fleiri viðskiptabanka. Tjón af rekstrarstöðvun eins viðskiptabanka gæti þannig orðið margfalt meira en kostnaður ríkisins af því að bjarga bankanum. Þegar á reynir, kjósa ríkisstjórnir því að koma viðskiptabönkum til bjargar jafnvel þótt það kunni að kosta ríkissjóð og skattgreiðendur stórfé.

Skuldir viðskiptabankanna (innstæður) eru uppistaðan í greiðslumiðli landsins. Í stað þess að nota seðla og mynt sem greiðslumiðil í viðskiptum eru viðskipti að mestu gerð upp með millifærslum á milli bankareikninga. Það er því ljóst að nútíma samfélög reiða sig á að viðskiptabankar séu ávallt greiðslufærir. Annars væri ekki hægt að nota innstæður til greiðslu á nokkrum hlut. Truflanir á greiðslumiðlun þyrftu ekki að standa lengi til að verulegt tjón hlytist af.

Það er einnig staðreynd að viðskiptabankar eiga ekki nægilegt laust fé til að greiða út allar innstæður. Vakni grunsemdir um að banki sé kominn í vandræði getur hafist kapphlaup milli innstæðuhafanna um að taka út innstæður sínar. Til að mæta auknum úttektum þarf bankinn að losa um fé t.d. með sölu verðbréfa. Svo salan gangi hratt þarf bankinn að taka á sig veruleg afföll og jafnvel tap. Við það geta eiginfjárhlutföll hans fallið niður fyrir tilskilin lágmörk. Stóraukið söluframboð á verðbréfum getur leitt til verðlækkana á  verðbréfamarkaði sem hefði neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu fleiri banka sem þá gætu einnig orðið fyrir áhlaupum. Þar sem kerfið er svona óstöðugt að upplagi, getur jafnvel tilefnislaust slúður um vandamál hjá einum banka komið af stað keðjuverkun sem leiðir til vanda hjá heilbrigðum bönkum og jafnvel leitt til falls alls bankakerfisins.

Ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir sviðsmynd eins og hér var lýst mun ávallt telja þann kost skárri að stöðva áhlaup banka. Það er jafnan gert með því að lýsa yfir ríkisábyrgð á öllum innstæðum auk þess sem gripið er til annarra aðgerða. Hinn valkosturinn, að leyfa vandanum að breiðast út, yrði vafalaust margfalt dýrari fyrir samfélagið og ekki síst ríkissjóð.

En hvað með tryggingasjóð  innstæðueigenda og fjárfesta (TIF)?
Hér á landi er TIF sjálfseignarstofnun  sem starfar án formlegrar ábyrgðar ríkisins. Árið 2014 greiddu bankarnir iðgjöld í TIF sem námu 3,1 mia. kr. Eignir sjóðsins námu kr. 14,7 mia í lok sama árs.  Til að setja TIF sjóðinn í samhengi, námu innlán stóru viðskiptabankanna þriggja frá viðskiptavinum alls um 1.536 mia. kr. í árslok 2014 og af þeim voru um 70% laus innan 30 daga. Heildarfjárhæð innlána sem fellur að einhverjum hluta undir TIF nam samtals um 1.163 mia. kr. TIF sjóðurinn verður því líklega seint nógu stór til að afstýra áhlaupi á stóran banka hér á landi og því mun það áfram koma í hlut ríkisins að lýsa yfir fullri ríkisábyrgð á innstæðum.

Screen Shot 2016-03-28 at 15.31.03Það má rifja upp að þann 6. október árið 2008 taldi ríkisstjórn Íslands nauðsynlegt að gefa út eftirfarandi yfirlýsingu:

„Innstæður í innlendum  viðskiptabönkum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu”.

Á þessum tímapunkti var áhlaup innstæðuhafa á bankana í fullum gangi og segir sagan að birgðir viðskiptabankana  og Seðlabankans af peningaseðlum hafi verið nánast tæmdar.

Hefur nóg verið gert til að draga úr hættunni?
Eftir hrun hefur lögum og reglum ítrekað verið breytt m.a. til að draga úr áhættu í rekstri banka og má þar meðal annars telja að kröfur um eigið fé hafa verið auknar verulega og reglur um kaupaukakerfi hafa verið hertar. Fjármálaeftirlitið hefur líka fengið auknar eftirlitsheimildir. Nú er haldin sérstök skrá um stærri lántakendur. Heimildir banka til að eiga eigin hluti hafa verið þrengdar og bann lagt við lánum með veði í eigin hlutum banka. Þröngar skorður eru nú við lánveitingum

til stjórnarmanna, lykilstjórnenda og virkra eigenda. Reglur um stórar áhættuskuldbindingar hafa verið hertar. Kröfur um hæfi stjórnarmanna hafa verið auknar og ábyrgð þeirra aukin. Ákvæði um lausafjáráhættu hafa verið hert. Viðurlög við brotum hafa verið hert og hægt að beina þeim bæði að fyrirtækjum og þeim sem bera ábyrgð.

Þessar breytingar eru allar til bóta en breyta því ekki að ríkið er í ábyrgð fyrir innlánum viðskiptabankanna. Eftir sem áður stunda íslenskir viðskiptabankar áhættusama fjárfestingabankastarfsemi á ábyrgð ríkisins. Enn eru bankarnir of stórir og njóta um leið óeðlilegs forskots í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki vegna ríkisábyrgðar á innstæðum. Þessi vandamál verða ekki leyst nema viðskiptabönkum verði óheimilt að sinna fjárfestingastarfsemi.

Er einhver hreyfing á málinu?
Í október 2012 skilaði svokallaður þriggja manna hópur, skipaður Gavin Bingham, Jóni Sigurðssyni og Kaarlo Jännäri skýrslu til stjórnvalda sem bar yfirskriftina: Heildarumgjörð um fjármálastöðugleika á Íslandi. Hópurinn lagði til margvíslegar tillögur að úrbótum  og meðal annars að „unnt verði að aðgreina mikilvægustu rekstrarþætti,  svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi, við skilameðferð, og athugað verði gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlegra áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka.”

Alþingi hefur sýnt málefninu áhuga. Allt frá árinu 2003 hafa þingmenn lagt fram þingsályktunartillögur  sem miða að aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingabanka. Nýjasta þingsályktun  þessa efnis var lögð fram í september 2015 af Ögmundi Jónassyni ásamt sjö þingmönnum. Því miður hefur tillagan ekki komist til fyrstu umræðu en haustið 2012 komst sambærileg tillaga til efnahags- og viðskiptanefndar sem ályktaði einróma að ráðherra ætti að skipa nefnd til að kanna hvort og þá með hvaða hætti megi aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættuna af rekstri banka fyrir þjóðarbúið. Þrátt fyrir góða samstöðu  í nefndinni dagaði málið uppi í þinginu.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins um tillöguna stendur meðal annars:

„Það er ekki til þess fallið að styrkja ímynd og traust íslenskra fjármálafyrirtækja, ef þau starfa samkvæmt lögum sem fela í sér veruleg frávik frá þeirri löggjöf sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. … Í því samhengi má nefna að fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar utan Íslands, sem bjóða þjónustu sína hér á landi í samræmi við starfsleyfi heimalands síns, myndu að öllum líkindum ekki þurfa að lúta sérákvæðum íslenskra laga ef í þeim felast veruleg frávik frá evrópskri fjármálalöggjöf. Þetta gæti skekkt samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja.”

Síðan þessi umsögn var sett fram hefur margt breyst og hugsanlega mætti nú, ekki síst í ljósi vandamála fjármálakerfis Evrópska efnahagssvæðisins, efast um að regluverk EES sé til þess fallið að styrkja ímynd Íslands.

Hvað varðar samkeppnisstöðuna, virðast erlendir stórbankar nú þegar hafa nokkra yfirburði í erlendum lánum til íslenskra útflutningsfyrirtækja og þótt viðskiptabönkum verði bannað að stunda fjárfestingabankastarfsemi mun það vart breyta öðru en því að áhætta ríkisins myndi minnka verulega.

Í umsögn Seðlabanka stendur meðal annars:

„Ekki má útiloka að nefndin gæti komist að þeirri niðurstöðu að einhverjar takmarkanir, á starfsemi innlánsstofnana séu æskilegar, en ekki fullur aðskilnaður hefðbundinnar starfsemi viðskipta- og fjárfestingarbanka. Almennt snýst viðfangsefnið um að koma í veg fyrir að þau almannagæði sem eru hluti af bankakerfinu, þ.e. greiðslumiðlun og aðgangur hins almenna manns að lausum innstæðum, verði ekki sett í hættu eða jafnvel tekin í gíslingu stöðutöku  og veðmála bankanna sjálfra.  Til þess kunna að vera margar leiðir og ekki endilega víst að aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi sé sú besta.”

Seðlabankinn virðist á því að það beri að kanna til þrautar allar aðrar leiðir áður en gripið verði til þess úrræðis að banna viðskiptabönkum að stunda áhættusama fjárfestingastarfsemi á ábyrgð ríkissjóðs. Þetta má teljast nokkuð sérkennileg afstaða í ljósi þess að Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að stuðla að fjármálastöðugleika í landinu.

Screen Shot 2016-03-28 at 15.18.27Greinilegt er að meðal háskólamanna eru skoðanir skiptar. Á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga þann 17. nóvember 2015 flutti Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, fróðlegt erindi um kosti og galla aðskilnaðar. Niðurstaða hans var sú að alger aðskilnaður væri illmögulegur í reynd. Hann fæli í sér mikinn kostnað og óvissan ábata.

Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að aðskilja beri rekstur innlánsstofnana, sem njóta ríkisábyrgðar, frá annarri fjármálaþjónustu. Fjárfestingabankar eigi ekki að geta fjármagnað áhættusöm verkefni sín með ríkistryggðum innlánum eins og nú er. Fjárfestar sem njóti alls ávinnings af vel heppnuðum fjárfestingum eigi líka að bera alla áhættuna þegar verr gengur.

Elizabeth-Warren-TimeÍ Bandaríkjunum er öldungadeildarþingmennirnir Elisabeth Warren, John McCain og forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders meðal flutningsmanna lagafrumvarps sem gengur undir heitinu „21st Century Glass- Steagall Act of 2015”. Frumvarpinu, sem var fyrst lagt fram árið 2013, er ætlað að draga úr áhættu í fjármálakerfinu með því að banna viðskiptabönkum að taka þátt í tiltekinni áhættusamri starfsemi og einnig að draga úr hagsmunaárekstrum. Í frumvarpinu má finna rök fyrir aðskilnaði og nánari útfærslur á því hvað viðskiptabönkum yrði heimilt og óheimilt að fást við.

Ísland gæti þurft að bíða lengi eftir því að Bandaríkin, Bretland eða Evrópusambandið leggi til aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi. Hagsmunir stórra banka standa gegn því að skiptingin verði færð í lög og þessir bankar hafa ótal erindreka á sínum snærum sem tala um fyrir stjórnvöldum í þessum ríkjum. Líklega þarf stærra fjármálahrun áður en stjórnvöld í þessum ríkjum taka af skarið.

Að mínu mati vega rökin fyrir því að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingabankastarfsemi mun þyngra en mótrökin. Með fullum aðskilnaði væri komið í veg fyrir að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir áhættusömum fjárfestingabankaverkefnum. Auk þess myndi draga úr hagsmunaárekstrum, samkeppni yrði jafnari og bankar sem nú eru of stórir myndu minnka.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í Þjóðmálum í mars 2016.

Categories
Greinar

Nánast ekkert

Deila grein

30/03/2016

Nánast ekkert

ÞórunnÍsland er í einstakri stöðu. Atvinnuþátttaka hefur sjaldan verið jafn mikil og nú. Í raun hefur atvinnuleysi ekki verið minna síðan árið 2008 og getur jafnvel farið niður í eitt til tvö prósent í sumar þegar störfum innan ferðaþjónustunnar fjölgar.

Í heildina hafa skapast um 15.000 ný störf á Íslandi frá árinu 2013. Þar hafa störf innan ferðaþjónustunnar sitt að segja en innan hennar hafa á síðustu fimm árum, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, orðið til 7.500 ný störf. Fram kemur í Félagsvísum 2015 að samhliða fjölgun starfa fækkar þeim sem atvinnulausir eru. Árið 2014 voru atvinnuleitendur 9.300 á móti 13.700 árið 2010 þegar afleiðingar efnahagshrunsins fóru að skila sér af fullum þunga. Til marks um að við höfum rétt úr kútnum má benda á að langtímaatvinnuleysi minnkar ört. Milli áranna 2013 og 2014 fækkaði körlum sem höfðu leitað vinnu í tólf mánuði eða lengur um helming eða úr 1,2 prósentum í 0,6 prósent. Hlutfall kvenna lækkaði úr 1,0 prósenti í 0,7 prósent.

Atvinnutækifærum fjölgar og fjölbreytni starfa eykst. Vöntun á störfum eru ekki okkar helstu áhyggjur í dag heldur miklu fremur þær að fólk vanti til að sinna þeim. Í raun er staðan þannig að flestum, sem vilja og getu hafa, stendur starf til boða.

Stöðugleikinn sem náðst hefur skapar störf. En tölurnar hér að ofan eru hvorki sjálfsagðar né sjálfsprottnar. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að efla þrótt samfélagsins og skapa skilyrði til verðmætasköpunar, til að mynda með lækkun skatta og tryggingargjalds og auknum stuðningi við nýsköpun. Með jafnvægi í ríkisfjármálum, ábyrgri áætlun um losun hafta og ábyrgri hagstjórn hefur myndast aukinn stöðugleiki á Íslandi. Sá stöðugleiki skapar skilyrði fyrir fyrirtækin til aukinna fjárfestinga sem aftur skapa svo fleiri störf.

Grunnforsenda velferðarsamfélags er atvinna. Við viljum að fólk geti valið sér fjölbreyttar leiðir í lífinu og hafi kost á að sinna þeim störfum sem það helst kýs. Það er mikilvægt að stjórnvöld hverju sinni séu meðvituð um nauðsyn þess að styðja við fjölbreytt og vaxandi atvinnulíf. Nú gengur vel og því mikilvægt að halda einbeitingunni. Stefnan er sú að sækja ávallt fram.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. mars 2016.

Categories
Fréttir

Átaksverkefni um allt að 260 sumarstörf fyrir námsmenn

Deila grein

30/03/2016

Átaksverkefni um allt að 260 sumarstörf fyrir námsmenn

EÞHEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að tillögu stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs að verja um 130 milljónum kr. úr sjóðnum í átaksverkefni til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn í sumar.
Þetta er í sjöunda sinn sem efnt er til átaksverkefnis af þessu tagi og hefur Vinnumálastofnun ávallt annast skipulagið. Svo verður einnig að þessu sinni og hefur stofnunin sent forstöðumönnum opinberra stofnana, bæjarstjórum og tengiliðum þeirra bréf þar sem verkefnið er kynnt.
Atvinnuástand meðal ungs fólks hefur batnað mikið undanfarið og telur Vinnumálastofnun ljóst að flestir geti fengið sumarstarf af einhverju tagi án atbeina verkefnis af þessu tagi. Aftur á móti hafa námsmenn á háskólastigi átt erfitt með að fá störf sem tengjast námi þeirra og hefur hlutfall háskólamenntaðra atvinnuleitenda aukist. Marga þeirra skortir því reynslu á sínu fagsviði og er markmiðið með átaksverkefninu að bæta þar úr og styrkja stöðu þannig námsmanna til framtíðar. Er horft til góðrar reynslu hvað þetta varðar á undanförnum árum.
Vinnumálastofnun hvetur stofnanir ríkis og sveitarfélaga til að hefja undirbúning að átakinu og móta störf og verkefni sem geta fallið að því. Vonast er til að með átakinu verði til allt að 260 störf fyrir námsmenn á háskólastigi sem skiptast á milli opinberra stofnana og sveitarfélaga.
Störfin verða auglýst á vef Vinnumálastofnunar og með auglýsingu um átakið í fjölmiðlum og er stefnt að því að birta auglýsingarnar um miðjan apríl.

Categories
Fréttir

Vel heppnaður landsstjórnarfundur

Deila grein

30/03/2016

Vel heppnaður landsstjórnarfundur

Þann 19. malogo-lfk-gluggirs sl. var landsstjórnarfundur landssambands framsóknarkvenna haldinn á Akureyri. Mæting var góð á fundinn og erindi sem flutt voru afar lærdómsrík. Fyrst ber að nefna erindi Ársæls Arnarsonarar prófessors við HA þar sem hann fjallaði um heilsu og lífskjör barna og ungmenna, einnig kynnti Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra átakið „heforshe“ að lokum flutti Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra kynningu um kvennadeildarfund SÞ sem haldinn var í New York í gegnum Skype.
Eftirfarandi ályktanir voru samþykktar á fundinum:
Landsstjórnarfundur LFK haldinn á Akureyri laugardaginn 19. mars 2016 lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu geðheilbrigðismála barna- og unglinga á öllu landinu. Það er með öllu óásættanlegt að aðgengi að geð- og sálfræðiþjónustu skuli ekki standa öllum til boða sem þurfa að nýta sér þjónustuna vegna kostnaðar, sem er ómanneskjulegur.

Landsstjórnarfundur LFK haldinn á Akureyri laugardaginn 19. mars 2016 lýsir yfir stuðningi við uppbyggingu Landsspítala frá grunni nálægt búsetumiðju höfuðborgarsvæðisins, útreikningar sýna ótvírætt að hagkvæmara er að ganga í þá framkvæmd frá grunni. Einnig vill fundurinn benda á að í núverandi áætlunum er hvergi gert ráð fyrir fæðingardeild en ætlunin er að fæðingar- og sængurlegudeild verða áfram í 60 ára gamalli byggingu sem er með öllu óviðunandi, að því sögðu er mikilvægt að flýta því að koma núverandi húsnæði í ásættanlegt form þar til hægt verður að opna nýtt þjóðarsjúkrahús á nýjum stað.

Landsstjórnarfundur LFK haldinn á Akureyri laugardaginn 19. mars 2016 fagnar fyrirhuguðum úrbótum í húsnæðismálum með nýrri húsnæðisstefnu sem mun gagnast hvað mest efnaminni fjölskyldum sem nú þurfa margar hverjar að búa í allt of dýru leiguhúsnæði. Með stofnun sjálfseignarfélags/samvinnufélags geta fjölskyldur eignast heimili á viðráðanlegu verði.
IMG_3686
image (1)

Categories
Greinar

Saman gegn sóun

Deila grein

24/03/2016

Saman gegn sóun

sigrunmagnusdottir-vefmyndBetri nýtni og góð umgengni eru kjörorð mín sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Með hliðsjón af þeim hefur matarsóun verið rauður þráður í starfi ráðuneytisins síðustu mánuði. Matarsóun veldur álagi á umhverfið og er áætlað að um 5% heildarlosunar Íslendinga á kolefni eigi rætur að rekja til matarsóunar. Því er eðlilegt að matarsóun sé liður í Sóknaráætlun í loftslagsmálum og er ráðgert að Umhverfisstofnun hafi fjórar milljónir á ári næstu þrjú árin til að vinna að þessum þætti.

En sóun á öðrum sviðum er jafnframt vandamál hér á landi. Á dögunum kynnti ég stefnuna Saman gegn sóun, sem fjallar um hvernig við getum bætt auðlindanýtingu og spornað gegn sóun. Um tímamót er að ræða því í fyrsta skipti er slík stefna sett fram af hálfu stjórnvalda.

Hlutir endast betur og lengur ef dagleg umgengni um þá er góð. Við jarðarbúar berum mikla ábyrgð. Hófsöm nýting auðlinda þarf að vera í fyrirrúmi til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Með réttu hugarfari og væntumþykju fyrir náttúrunni þurfum við að sporna gegn sóun á öllum sviðum og virkja ímyndunaraflið í þágu nýrra hugmynda sem geta leitt til framleiðslu á öðrum og nýjum hlutum úr þeim gömlu. Mikilvægt að hafa í huga að hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum. Mögulegt verður að sækja um styrki sem tengjast markmiðum stefnunnar í verkefnasjóð ráðuneytisins.

Lítum okkur nær 
Við getum breytt ýmsu í daglegu lífi okkar í því skyni að draga úr sóun. Sem dæmi má nefna endurnýtanlegar umbúðir í stað einnota. Neikvæð umhverfisáhrif af völdum einnota umbúða, ekki síst plasts, eru allt um kring og grafalvarleg. Hvert og eitt okkar þarf að líta í eigin barm og huga að umhverfisvænum lausnum í daglegu lífi.

Spennandi tækifæri eru framundan við að virkja kraft nýsköpunar og skapa græn störf. Fjárfestar þurfa í auknum mæli að huga að því hvernig þeir geta tekið þátt í að þróa græna framtíð svo fyrirtæki og einstaklingar geti lagt meira af mörkum til umhverfismála. Lokatakmarkið er að enginn úrgangur myndist og að allar vörur séu að öllu leyti endurvinnanlegar. Þannig helst stöðug hringrás efna og orku í náttúrunni sem tryggir hringrás auðlindanna.

Stefnan 
Í stefnunni Saman gegn sóun er sérstök áhersla lögð á níu flokka. Matarsóun, plast og textíll verða í forgangi hvert um sig tvö ár í senn og verður matarsóun í brennidepli næstu tvö árin.

Fræðsla er lykilþáttur í því að breyta hugarfari. Ánægjulegt er að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, meðal annars í samstarfi við Ísland, hefur verið gefið út námsefni fyrir miðstig grunnskóla um auðlindanýtni og hvernig forðast má sóun. Námsefnið er sett fram á skemmtilegan hátt, til dæmis kemur fram að þegar upp er staðið hafa farið um 175 lítrar af vatni til að laga kaffi í einn bolla.

Jákvæð viðbrögð 
Það er sannarlega ánægjulegt og hvetjandi að skynja jákvæð viðbrögð og vilja samfélagsins til að draga úr matarsóun. Tillögur starfshóps ráðuneytisins um matarsóun hafa fengið góðan hljómgrunn og má m.a. nefna viðhorfskönnun meðal landsmanna um matarsóun, nýja vefgátt, matarsoun.is, og rannsókn á matarsóun er í undirbúningi. Þá hafa félagasamtök lagt hönd á plóg, m.a. með námskeiðum. Með nýju kerfi strikamerkja sjá framleiðendur og verslanir möguleika á að draga úr matarsóun og auka neytendaöryggi. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með stofnunum og vinnustöðum sem hafa tekið til hendinni og dregið úr matarsóun. Sem dæmi má nefna Landspítalann sem ég veitti umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins fyrir að hafa minnkað matarsóun um 40% síðustu ár. Allt eru þetta mikilvæg skref í þá átt að forðast matarsóun.

Saman gegn sóun til framtíðar 
Ég hef hugleitt hvaða leiðir við Íslendingar ættum að velja. Hvort við ættum að hafa til hliðsjónar lögin í Frakklandi sem banna að matvælum sé hent eða virkja allt samfélagið eins og Danir hafa gert. Það síðarnefnda hugnast mér betur. Stefnan Saman gegn sóun á að vera sameiginlegt leiðarljós okkar allra til að stemma stigu við hverskonar sóun.

Stefnuna má nálgast á: uar.is/frettir/saman-gegn-soun-stefna-um-urgangsforvarnir-2016-2027

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2016.

Categories
Greinar

Hver hefur staðið vörð um íslenska hagsmuni?

Deila grein

23/03/2016

Hver hefur staðið vörð um íslenska hagsmuni?

ÞórunnÞað hefur verið ansi merkilegt að fylgjast með umræðunni síðustu viku. Mörg misgáfuleg ummæli hafa verið látin falla um hæfi forsætisráðherra. Í þeirri umræðu eru menn uppteknir af fjárhag eiginkonu hans.  Ég velti því fyrir mér hvar við erum í raun stödd í jafnréttisumræðu þegar hjón eru gerð að einni manneskju þegar  kemur að fjárhag og sjálfstæði. Er það ekki skortur á jafnrétti?  Það er rétt að eiginkona forsætisráðherra er sterkefnuð kona og hefur sú staðreynd lengi legið ljós fyrir. Hvað hún gerir við auð sinn kemur mér bara ekki við svo lengi sem skattar eru greiddir til íslenska ríkisins. Það hefur verið gert og er staðfest opinberlega af endurskoðanda KPMG.

Annað sem ég velti fyrir mér er hvort það sé ekki kostur að einstaklingur sem leiðir þjóðina sé fjárhagslega sjálfstæður, engum háður og því ekki hætta á að hann gangi erinda peningaafla í þjóðfélaginu?

Innkoma Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í pólítik byggðist á vilja hans til vinna gegn því óréttlæti sem skapaðis við hrunið.  Það er kannski allt í lagi að rifja þetta upp og benda á að hans stærsta áherslumál hefur ávallt verið uppgjör föllnu bankanna og að tryggja það að tap fjármálafyrirtækjanna færðist ekki yfir á íslenskan almenning.

Sigmundur Davíð hefur gengið manna harðast gegn kröfuhöfum og hefur ekkert gefið eftir. Það liggur ljóst fyrir að eiginkona hans tapaði fjárhagslega við framgöngu hans en þjóðin stórgræddi. Undir forystu hans var samþykkt stöðugleikaframlag sem mun færa ríkissjóði um 500 milljarða, beint eða óbeint. Þetta ásamt mörgum fleiri aðgerðum ríkisstjórinnar gerir okkur nú í raun kleift að ræða og fara í alvöru uppbyggingu innviða í samfélaginu. Það verkefni er orðið mjög aðkallandi og gott að geta hafist handa við það.

Ég er nú ekki frá því að staðfestan sem Sigmundur Davíð hefur sýnt, þrátt fyrir háværar úrtöluraddir á köflum,  hafi heldur betur sannað sig. Hann verður seint sakaður um að hafa farið vettlingatökum um kröfuhafa eða gengið eigin erinda. Því treysti ég honum manna best til þess að standa vörð um íslenskt efnahagslíf.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, 23. mars 2016.

Categories
Fréttir

Þreytist seint á að ræða leiðir til þess að fara betur með og auka nýtni

Deila grein

21/03/2016

Þreytist seint á að ræða leiðir til þess að fara betur með og auka nýtni

Þórunn„Hæstv. forseti. Ég ætla hvorki að varpa sprengjum né hneykslast en ég þreytist seint á að ræða leiðir til þess að fara betur með og auka nýtni. Staðan hjá okkur er sú að á hverju heimili er matvælum að andvirði tugum ef ekki hundruðum þúsunda hent á hverju ári, beinlínis sóað, líkt og gerist reyndar í allri virðiskeðjunni. Það segir sig sjálft að fyrir þann pening er hægt að gera ýmislegt uppbyggilegt, skemmtilegt og jafnvel gagnlegt.
Í gær efndi umhverfis- og auðlindaráðherra, Sigrún Magnúsdóttir, til morgunverðarfundar á Hallveigarstöðum í tengslum við stefnu ráðherra um að draga úr sóun sem ber heitið Saman gegn sóun og gildir til 12 ára. En matarsóun, plast og textíll verða í forgangi tvö ár í senn.
Á fundinum voru flutt mörg áhugaverð erindi og athygli vakin á ýmsum leiðum til nýtni og sagt frá mörgu áhugaverðu sem þegar er komið af stað í úrgangsforvörnum. Þar kynnti fulltrúi Umhverfisstofnunar nýja vefsíðu, matarsoun.is, sem var hleypt af stokkunum í tilefni dagsins og gerði grein fyrir umfangsmikilli rannsókn sem er fram undan. Þetta er aðgengileg síða, afar gagnleg, og ég hvet almenning til að nýta sér hana.
Þá var erindi um Databar-strikamerki og hvernig notkun þess getur leitt til minni matarsóunar og meira neytendaöryggis með því að mæta auknum kröfum neytenda um rekjanleika, vöruupplýsingar og vöruöryggi.
Fulltrúi Kvenfélagasambands Íslands fjallaði um aðgerðir sem félagið hefur staðið fyrir og þá hugarfarsbreytingu sem hver og einn þyrfti að tileinka sér.
Loks kynnti Landvernd námsefni fyrir grunnskóla sem sett er fram á mjög áhugaverðan hátt og jafnvel gott innlegg í vinnu sveitarfélaga og fyrirtækja á þessu sviði.
Hæstv. forseti. Þá vil ég benda á að mögulegt er að sækja um verkefnastyrki til ráðuneytisins sem stuðla að því að markmiðum stefnunnar verði náð og verði hvati til góðra verka eða nýsköpunar á þessu sviði.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 18. mars 2016.

Categories
Fréttir

Aðalfundur Seðlabanka Íslands

Deila grein

21/03/2016

Aðalfundur Seðlabanka Íslands

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér efnahagsmálin. Í gær var aðalfundur Seðlabanka Íslands og mjög markverðir og afgerandi hlutir fyrir efnahagsmál þjóðarinnar ef við horfum til náinnar framtíðar og framvindu um þau mál. Vissulega eru bjartir tímar en vandasamt um leið.
Í ræðum hæstv. fjármálaráðherra og seðlabankastjóra kom fram að í kjölfar aflandskrónuútboðs yrði hægt að fara tiltölulega hratt í afnám hafta á innlenda aðila. Það er afar mikilvægt og því ber að fagna.
Margt annað athyglisvert kom fram á þeim fundi, virðulegi forseti. Seðlabankastjóri boðaði viðbrögð við óhóflegu innflæði fjármuna vegna vaxtamunarviðskipta, tæki og tól í formi bindiskyldu eða skatts sem ættu að verða virk hér þegar höftin verða afnumin og ekki vanþörf á og er mikilvægt verðstöðugleikatæki til að verjast verðbólgu og þjóðhagslegu ójafnvægi.
Maður veltir því hins vegar fyrir sér hvort lægri og vaxtastig mundu ekki samhliða vinna að sama markmiði og gagnast þá heimilum og atvinnulífi. Svar Seðlabankans er nokkuð augljóst: Það mundi örva hér eftirspurn og auka einkaneyslu og þenslu.
Ég trúi því ekki með þetta innstreymi í formi vaxtamunarviðskipta sem kostar mikið og getur ógnað gengi útflutningsatvinnuvega og fjármálastöðugleika að við getum ekki náð sömu markmiðum með lægra vaxtastigi í bland við þau fjárstreymistæki sem ég tek fram að eru mikilvæg viðbót í vopnabúrið og gefa okkur aukin færi á að ná jafnvægi og viðhalda þeim verðstöðugleika sem hefur verið hér.
Verkefnið fram undan er öguð hagstjórn peninga og ríkisfjármála.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 18. mars 2016.

Categories
Fréttir

Tímamót

Deila grein

21/03/2016

Tímamót

Sigrún Magnúsdóttir_001Alþingi samþykkti tvö mál í vikunni sem leið, sem Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis-og auðlindaráðherra, mælti fyrir sl. haust og marka ákveðin tímamót.
Annars vegar er um að ræða samþykkt nýrra laga um gerð langtímaáætlunar um uppbyggingu á ferðamannasvæðum og hins vegar þingsálytkun um landskipulagsstefnu 2015-2026. Bæði málin varða skipulag og kortlagningu sem nær yfir allt landið, þar sem horft verður til lengri tíma.
Landskipulagsstefna
Samþykkt landskipulagsstefnu markar tímamót hér á landi þar sem í fyrsta sinn er sett fram heilstæð stefna ríkisins á landsvísu um skipulagsmál. Í stefnunni eru samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýting og önnur landnýting samþætt og varðar dreifbýli, miðhálendi Íslands, búsetumynstur og dreifingu byggðar og haf- og strandsvæði.
Í stefnunni er lagt upp með að skipulag byggðar og landnotkunar þurfi að stuðla að sjálfbærri þróun svo það sé sveigjanlegt og styðji samkeppnishæfni landsins alls og einstakra landshluta.
Uppbygging ferðamannasvæða
Þá mun ráðherra setja vinnu af stað sem miðar að því að móta stefnu á ferðamannasvæðum.
Þetta er einnig í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið og verður unnið að því að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um uppbyggingu og viðhaldi á ferðamannsvæðum.
Slík uppbygging þarf ávallt að hafa náttúruvernd og sjálfbærni að leiðarljósi, enda er náttúran sú auðlind sem ferðaþjónustan byggir. Mikilvægt er að hafa yfirsýn yfir þau verkefni sem þarf að vinna, skilgreina fjárþörf, forgangsraða verkefnum, fylgja á eftir framkvæmdum, tryggja hagkvæmni og vinna að skilgreiningu nýrra svæða. Það eru verkefni eins og að fyrirbyggja skemmdir, merkja leiðir, byggja göngustíga, göngubrýr, hreinlætisaðstöðu og fleira. Þannig er stuðlað að vernd náttúrunnar ásamt bættri upplifun og öryggi fólks á ferð um landið, enda hefur fjöldi ferðamanna vaxið gífurlega á undanförnum árum með tilheyrandi álagi á náttúru Íslands og menningarminjar.
Vinna við áætlunina hefst strax og byggir á fyrirliggjandi vinnu. Ráðherra er ætlað, innan sex mánaða frá samþykkt laganna, að leggja fram og birta opinberlega bráðabirgðaæáætlun um uppbyggingu innviða.