Categories
Fréttir

Ég hlakka til alþingiskosninga – verið stigin risastór skref

Deila grein

17/08/2016

Ég hlakka til alþingiskosninga – verið stigin risastór skref

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Senn líður að kjördegi og viðburðaríkt þing líður undir lok. Ég taldi það ekki góða leið að flýta kosningum á sínum tíma, en þegar menn gefa loforð þá þarf að standa við þau. Við sem hér störfum þurftum að fá að vita hvernig dagskrá haustsins liti út. Nú liggur hún fyrir og það er vel. Ég hlakka til alþingiskosninga og ég er bjartsýn á gengi Framsóknarflokksins þar sem við erum afar vel mönnuð framsæknu fólki vítt og breitt um landið. Það er hugur í fólki enda er málefnastaða flokksins afar góð. Við leiðréttum stökkbreytt húsnæðislán sem náðu til tuga þúsunda heimila. Hlutfall fjárhæða niðurfærslu og árstekna er hærra hjá tekjulægri heimilum en þeim tekjuhærri.

Fyrir örfáum árum, 2012, skulduðu heimilin í landinu 125% af vergri landsframleiðslu og voru með skuldsettustu heimilum í hinum vestræna heimi. Á síðasta ári voru skuldir heimilanna komnar niður í 84% af vergri landsframleiðslu og komnar niður fyrir það skuldahlutfall sem verið hefur hér á landi síðan fyrir aldamót. Þessi lækkun er að stærstum hluta til komin vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar með leiðréttingunni sem greidd var af kröfuhöfum bankanna.

Vík ég nú aftur að störfum þingsins. Þingstörfin gengu mjög vel í vor. Fjöldinn allur af málum var afgreiddur í breiðri sátt, t.d. stór mál eins og húsnæðisfrumvörpin fjögur. Ég á því ekki von á öðru en að þingstörfin munu einnig ganga vel nú og við náum að klára þau mál sem ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar hefur lagt til.

Í gær voru kynnt tvö frumvörp frá ríkisstjórn. Við fyrstu sýn líta þessi frumvörp ágætlega út þó að þau séu auðvitað ekki gallalaus, en ég á von á því að þeir gallar verði lagfærðir í þinglegri meðferð. Niðurstaða mín er því sú að með þessum aðgerðum hafi verið stigin risastór skref, þ.e. þeim aðgerðum sem kynntar voru í gær, undir forustu Framsóknarflokksins í átt að bættu fjármálakerfi.“

Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 16. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Árangur ríkisstjórnarinnar

Deila grein

17/08/2016

Árangur ríkisstjórnarinnar

Karl_SRGB„Virðulegur forseti. Síðustu tvo daga hefur landsmönnum verið boðið upp á furðulegan og hreint ótrúlegan málflutning í þingsölum. Það er látið að því liggja að núverandi ríkisstjórn hafi ekkert gert þau rúmu þrjú ár sem hún hefur starfað. Staðreyndin er sú að ríkisstjórnin hefur gjörbreytt stöðu þjóðarbúsins og gjörbreytt stöðu heimilanna. Hæstv. fjármálaráðherra benti á í gær að á þessu ári stefnir í að afgangur á ríkisfjármálum verði meiri en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar frá 2009–2013. Að öllum líkindum verður meiri afgangur á þessu ári en allur uppsafnaður halli vinstri stjórnarinnar. Í fimm ára áætlun stjórnvalda er gert ráð fyrir 10% raunaukningu frumútgjalda ríkisins. Er það lítið? Nei, það er mikið, ekki síst þegar litið er til þess hvað hefur þegar verið gert á kjörtímabilinu. Og hvað er það? Farið var í skuldaleiðréttingu sem hefur gjörbreytt stöðu heimilanna. Bættur hagur heimila hefur leitt til aukins kaupmáttar og minni vanskila. Hagvöxtur er einn sá mesti sem þekkist á Vesturlöndum, ársverðbólga er komin undir 1% og um 6.000 ný störf urðu til á síðasta ári. Atvinnuleysi er í sögulegu lágmarki og framlög til heilbrigðismála hafa verið stóraukin.

Þessi ríkisstjórn hafði þann kjark sem þurfti til að taka á kröfuhöfunum. Endapunktur þeirra mála verður væntanlega settur í dag eða á næstu dögum þegar síðasta haftafrumvarpið lítur dagsins ljós.

Það er vinsælt að þylja þá möntru að stjórnvöld séu alltaf að forgangsraða í þágu hinna ríku. Það er fjarri sanni, tekjuskattur lækkar og miðþrep tekjuskatts fellur niður um áramótin. Miðþrepið tekur við í um 240.000 kr. Nú fellur það út og búið er að lækka lægsta þrepið. Allir undir 800.000 kr. hafa fengið verulega lækkun tekjuskatts frá þessari ríkisstjórn. Þetta er fólkið sem vinstri stjórnin hækkaði skatta á.“

Karl Garðarsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Fyrsta fasteign

Deila grein

17/08/2016

Fyrsta fasteign

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Nú í gær kynnti hæstv. ríkisstjórn tvö frumvörp til laga um kaup á fyrstu íbúð, þar sem sannarlega er hugað að fasteignakaupum ungs fólks, og svo frumvarp til laga um breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu. Þar horfum við til breytingar á lánafyrirkomulagi, sér í lagi sem snýr að 40 ára Íslandslánum svokölluðum, sem hafa þann eiginleika að bera vaxtavexti og mjög háan heildarkostnað þegar litið er til 40 ára. Viðbrögð stjórnarandstöðunnar létu eðlilega ekki á sér standa en hún benti sannarlega á að hér er ekki um afnám að ræða, enda er miklu frekar mikilvægt að við breytum því lánafyrirkomulagi sem verið hefur. Ég held að allflestir viðurkenni að sá heildarkostnaður er hár sem fólk þarf að greiða allan þann tíma sem 40 árin eru á þessum Íslandslánum, sem ég held að flestir viðurkenni að eru erfið viðureignar, sérstaklega þegar efnahagurinn sveiflast, og þá stöndum við frammi fyrir því að ná fram skrefum í að breyta þessu fyrirkomulagi. Það er það sem verið er að gera hér. Þess vegna má sannarlega kalla þetta áfangasigur, hæstv. forseti. Þetta er í eðli sínu þjóðþrifamál. Hvatinn til þess að taka óverðtryggð lán er sannarlega að finna í séreignarsparnaðarleiðinni og þar er jafnframt skattalegur hvati fyrir unga fólkið. Hér er verið að leita leiða til að breyta því fyrirkomulagi sem verið hefur.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr – árangur síðustu missera varðar veginn

Deila grein

17/08/2016

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr – árangur síðustu missera varðar veginn

Sigurður Ingi Jóhannsson„Virðulegi forseti. Bjartsýni landsmanna um þessar mundir á sér góðar og gildar skýringar. Hagur heimilanna hefur vænkast verulega undanfarin missiri. Skuldir hafa minnkað, fasteignir hækkað í verði og starfandi Íslendingum fjölgað jafnt og þétt. Síðast en ekki síst hafa laun hækkað hratt á sama tíma og verðbólga hefur verið afar hófleg, m.a. vegna styrkingar krónu og hagfelldrar verðþróunar á hrávörum og eldsneyti erlendis frá. Aukning kaupmáttar launa hefur því verið mun meiri undanfarið en á sambærilegum tímabilum mikilla launahækkana á undanförnum áratugum þegar verðbólga var veruleg á sama tíma. Ekkert bendir til annars á þessari stundu en að þessi þróun geti haldið áfram ef við Íslendingar berum gæfu til að taka skynsamlegar ákvarðanir.

Nýlegar tölur Hagstofunnar um launa- og kaupmáttarþróun draga þetta skýrt fram. Í júní hækkaði launavísitala Hagstofunnar verulega frá mánuðinum á undan. Frá sama mánuði í fyrra nemur hækkunin 12,5%. Á sama tímabili mældist verðbólga hverfandi og kaupmáttur launa jókst því umtalsvert á tímabilinu, þ.e. yfir tíu af hundraði. Slík kaupmáttaraukning er vafalítið afar fátíð.

Ársverðbólga nú í ágúst er reiknuð undir 1%. Verðbólgan hefur verið undir verðbólgumarkmiði Seðlabankans í tvö og hálft ár, í 30 mánuði. Gangi spáin eftir fer verðbólgan undir neðri fráviksmörk Seðlabankans sem er óhætt að segja að sé alveg ný staða fyrir peningastefnunefnd Seðlabankans. Útlit er fyrir litla verðbólgu næstu mánuði og að hún haldist undir verðbólgumarkmiði vel inn á næsta ár hið minnsta. Að því leyti má segja að við Íslendingar njótum nú einstaks tímabils verðstöðugleika og, eins og áður sagði, umtalsverðrar kaupmáttaraukningar.

Á síðasta ári urðu til 6.000 ný störf hér á landi. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða hefur ekki verið lægra síðan í ársbyrjun 2009. Hlutfall starfandi er nú jafn hátt og í janúar 2006 og atvinnuleysi komið á svipaðar slóðir og í upphafi árs 2003. Hlutfall þeirra sem hafa vinnu hefur hækkað nær stanslaust frá upphafi árs 2013 og fátt sem bendir til þess að það breytist á næstunni.

Þá hefur atvinnuþátttaka farið ört vaxandi og nálgast nú það sem best hefur verið. Nýjar tölur sýna að Íslendingar erlendis eru aftur farnir að sjá tækifæri á Íslandi og séu að koma heim. Sjaldgæft er að aðfluttir Íslendingar séu fleiri en brottfluttir, en nú er útlit fyrir að þetta ár verði það þriðja af síðustu 17 árum þar sem fleiri íslenskir ríkisborgarar flytja til landsins en frá því.

Flestar spár eru Íslendingum hagfelldar nú um stundir. Gangi spár um hagvöxt eftir verður landsframleiðsla á mann árið 2016 hærri en árið 2007. Það sem skiptir þó mestu er að hagvöxtur nú er mun heilbrigðari en árið 2007 þegar hann var að miklu leyti byggður á aukinni skuldsetningu. Hagvöxtur nú er knúinn áfram af fjárfestingu og einkaneyslu. Því má búast við að einkaneysla aukist samhliða auknum kaupmætti en ríkisstjórnin mun halda áfram að styðja við heimilin svo þau geti haldið áfram að grynnka á skuldum eða auka sparnað. Þar skiptir miklu að samhliða bættri eignastöðu fyrirtækja og heimila eru vanskil að dragast saman. Ný skýrsla Íbúðalánasjóðs sýnir að vanskil einstaklinga dragast hratt saman, þ.e. um tæplega helming frá því í júní í fyrra. Það er því ekki að ástæðulausu að matsfyrirtækið Moody’s hefur tilkynnt að lánshæfismat Íbúðalánasjóðs verði endurmetið með mögulega hækkun í huga.

Þessi bætti hagur heimila og fyrirtækja skilar sér einnig í bættum ríkisrekstri, en núverandi ríkisstjórn hefur náð einstökum árangri í ríkisfjármálum eins og lesa má úr skýrslum lánshæfisfyrirtækja. Ef sömu stefnu er fylgt er þess ekki langt að bíða að Ísland færist aftur upp í A-flokk á hinum alþjóðlega lánamarkaði. Hver hefði trúað því fyrir nokkrum missirum? Um leið mun vaxtakostnaður ríkissjóðs lækka mikið eins og hann hefur reyndar gert allt þetta kjörtímabil.

Skattstofnar hafa styrkst þrátt fyrri lægri skattálagningu og gjaldendum fjölgar. Þegar horft er til útgjalda er ríkissjóður nú kominn aftur til tímans fyrir efnahagskrísu og bankahrun. Þar munar mestu að útgjöld til velferðarmála hafa hækkað gríðarlega í tíð þessarar ríkisstjórnar og eru nú tæplega 12 milljörðum kr. hærri að raunvirði en 2007.

Ríkisstjórnin hefur undanfarið kynnt margvíslegar tillögur um aðrar umbætur í velferðarmálum, svo sem stórátak í þágu þeirra sem kaupa sína fyrstu fasteign eins og greint var frá fyrr í dag.

Stundum er rætt um punktstöðu til að árétta að staðan sé svona núna en óvíst sé með framhaldið. Punktstaðan fyrir íslenska hagkerfið hefur verið ansi góð lengi og ekkert lát virðist á, eins og hér hefur verið rakið. Meira að segja hin þekkta væntingavísitala Gallups nálgast hratt hámarkið fyrir bankahrunið 2008 en vísitalan mælir tiltrú á væntingar fólks til efnahagslífsins, atvinnuástandsins og heildartekna heimilisins. Bjartsýni hefur aukist á sama tíma og störfum hefur fjölgað mikið og kaupmáttur fólks aukist. Sömu sögu er að segja um viðhorf stjórnenda 400 stærstu fyrirtækja landsins og telja þeir stöðu atvinnulífsins góða, en vísitala efnahagslífsins hefur aðeins í tvö skipti mælst hærri af síðustu 49 skiptum. Því má með nokkrum sanni leyfa sér að fullyrða að ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar núna sé óvenjugott, jafnvel einstakt um margt. Þessi ríkisstjórn hefur unnið að því að breyta, bæta og lagfæra það sem þarf að gera síður en að bylta. Við getum því verið stolt af stöðu mála núna í hagkerfinu. Því má halda fram að endurreisn efnahagslífsins og aðgerðum eftir efnahagskrísu og bankahrun sé lokið. Nú þurfum við að fara að horfa fram á veginn til langrar framtíðar.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin setti sér markmið í upphafi kjörtímabils. Þau hafa verið að nást eitt af öðru, skuldaleiðréttingin sem tókst afburðavel og hefur skilað tilætluðum árangri, hvernig tekið var á slitabúum bankanna og kröfuhöfum sem hefur skilað því að næsta verkefni er afnám hafta á einstaklinga og fyrirtæki.

Í dag voru kynnt og sett fram úrræði fyrir þá sem hyggjast kaupa sína fyrstu fasteign. Þótt á ýmsu hafi gengið hefur ríkisstjórnin aldrei misst sjónar af markmiðum sínum. Til þess þarf staðfestu og áræðni.

Við Íslendingar eigum mikil tækifæri í því árferði sem nú ríkir. Ytri og innri skilyrði eru og hafa verið hagstæð. Það skiptir þó máli hvað menn gera úr þeim tækifærum sem á vegi þeirra verða. Það skiptir máli að allir fái að njóta, ekki bara sumir. Sagan segir okkur að það sé engin trygging fyrir því að ástandið verði svona áfram. Höfum í huga að það skiptir máli hverjir sitja við stjórnvölinn. Veldur hver á heldur.

Við erum nú að hefja síðsumarsþing þar sem fyrir liggja mörg mikilvæg mál fyrir landsmenn sem mikilvægt er að ljúka áður en gengið er til kosninga í haust. Ég vænti þess að með skipulagðri vinnu á þinginu næstu vikur muni það ganga eftir, sérstaklega ef horft er til þess vinnulags og þeirrar skilvirkni sem við sáum á síðustu mánuðum vorþingsins.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir hina sönnu stöðu efnahagsmála landsins með vísan til staðreynda og hagvísa. Mikilvægt er fyrir okkur öll að staðan nú sé ljós. Við getum síðan haft mismunandi skoðanir á því hvert við eigum að stefna héðan.

Stefna ríkisstjórnarinnar er skýr. Árangur síðustu missira varðar veginn.“

Munnleg skýrsla Sigurður Inga Jóhannssonar forsætisráðherra á Alþingi um stöðu þjóðmála 15. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Verðtryggð lán hækkað meira en þyrfti

Deila grein

17/08/2016

Verðtryggð lán hækkað meira en þyrfti

Þorsteinn-sæmundsson„Fleiri og fleiri stíga nú fram og taka undir það sem haldið hefur verið fram í nokkurn tíma að stýrivextir Seðlabanka Íslands séu allt of háir. Seðlabankinn hefur undanfarin missiri ofmetið verðbólgu og verðbólguvæntingar svo prósentum skiptir, fyrir utan það að mæla verðbólgu með öðrum hætti en gert er í öllum öðrum löndum OECD, þ.e. með því að hafa fasteignaverð inni í verðbólgumælingum. Það kemur nú í ljós hvern mánuðinn eftir annan, í þeim stöðugleika sem komist hefur á undir ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, að einu verðbólguvæntingarnar í landinu eru í kolli þeirra sem vinna í Seðlabankanum. Það er ekki þolandi að hvern mánuðinn eftir annan skuli stýrivextir á Íslandi vera 5,75%, eða í raun 6,5 sem er presenterað út á við, þegar verðbólga er um og innan við 1%. Þetta hefur viðgengist síðustu missiri; bæði er verðbólgumælingin röng og stýrivextirnir svona háir. Það hefur valdið því að verðtryggð lán sem flest heimili á Íslandi eru með hafa hækkað miklu meira en þyrfti og hefði átt að vera. Þetta er allt saman í boði Seðlabankans.

Síðast í morgun var útvarpsviðtal við Ólaf Margeirsson, doktor í hagfræði, í þættinum Í bítið á Bylgjunni þar sem hann sagði að stýrivextir á Íslandi ættu að vera um það bil 2% lægri en þeir eru nú. Það hlýtur að þurfa á einhverjum tímapunkti að koma til þess að seðlabankastjórnin hætti að lemja hausnum við steininn, þó að hausinn sé þykkur, og halda uppi stýrivöxtum sem eru algjörlega úr öllum takti við raunveruleikann.“

Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 16. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Tvöfalt kjördæmisþing í Reykjavík 27. ágúst

Deila grein

17/08/2016

Tvöfalt kjördæmisþing í Reykjavík 27. ágúst

logo-framsokn-gluggiTvöfalt kjördæmisþing í Reykjavík hinn 27. ágúst 2016 kl. 09.00.
Á aukakjördæmaþingi KFR hinn 22. júní 2016 var samþykkt tillaga um að fram fari tvöfalt kjördæmisþing í Reykjavík hinn 27. ágúst 2016 til að velja á lista vegna komandi alþingiskosninga. Kosið verður um 5 efstu sætin í hvoru kjördæmi fyrir næstu alþingiskosningar. Framboðsfrestur var 12. ágúst 2016.
Þingið verður haldið í veislusalnum á 4. hæð í Rúgbrauðsgerðinni, Borgartúni 6, í Reykjavík. Innritun hefst kl. 09.00 en sjálft þingið byrjar kl. 10.00. Þinggjald verður 1.500 kr.
Vakinn er athygli á því að fulltrúar FR þurfa að vera búnir að greiða félagsgjaldið til þess að vera kjörgengir. Auka kjördæmaþing verður haldið strax að loknu tvöfalda kjördæmaþinginu á sama stað, sbr. gr. 45-46 í reglum um tvöfalt kjördæmaþing.
Kjörstjórn KFR.

Categories
Fréttir

Kaup á fyrstu fasteign auðvelduð

Deila grein

15/08/2016

Kaup á fyrstu fasteign auðvelduð

Fyrsta fasteign

Fasteignakaup verða auðveldari og afborganir léttari fyrir nýja kaupendur á fasteignamarkaði verði tillögur ríkisstjórnarinnar í frumvarpi til laga um stuðning við kaup á fyrstu íbúð samþykktar.
Sjá kynningarefni
Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynntu aðgerðirnar í Hörpu í dag. Tilgangurinn er að auka og hvetja til húsnæðissparnaðar og auðvelda fyrstu kaup. Jafnframt fela þær í sér stuðning við þá sem vilja taka óverðtryggð lán þar sem samspil greiðslna inn á höfuðstól og afborganir gera greiðslubyrði þeirra á fyrstu árum sambærilega við löng verðtryggð lán hjá þorra einstaklinga.
Í frumvarpinu er kveðið á um þrjár leiðir sem rétthafi getur valið á milli við ráðstöfun á viðbótariðgjaldi. Þær eru heimild til úttektar á uppsöfnuðu viðbótariðgjaldi til kaupa á fyrstu íbúð, heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, yfir tíu ára samfellt tímabil og að lokum heimild til að ráðstafa viðbótariðgjaldi sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð, og sem greiðslu inn á höfuðstól þess.
Úrræðið er varanlegt en hámarkstími er samfellt tíu ára tímabil fyrir hvern einstakling.  Greiðslur hvers einstaklings inn á séreignarsparnað geta numið allt að fimm milljónum króna á tíu ára tímabili, samtals 10 milljónir fyrir par. Fyrir þá sem ekki eru þegar með séreignarsparnað getur sú ákvörðun að leggja fyrir og nýta sparnað til húsnæðiskaupa samsvarað um 3% launahækkun í 10 ár vegna skattalegs hagræðis og mótframlags launagreiðanda.

Fleiri ungir í foreldrahúsum

Á árunum 2005 til 2014 jókst hlutfall ungs fólks á leigumarkaði verulega, úr 12% í 31%. Jafnframt er fólk á aldrinum 25-29 ára mun líklegra til að búa í foreldrahúsum nú en fyrir áratug. Eftirspurn eftir minni íbúðum hefur einnig aukist mikið á undanförnum  árum með tilheyrandi verðhækkun húsnæðis, en minnstu eignirnar hafa hækkað hlutfallslega mest og rúmlega tvöfalt meira en sérbýli frá árinu 2009.
Fyrirhuguð hækkun lífeyrissjóðsiðgjalda í 15,5% leiðir til þess að hjá einstaklingi sem byrjar snemma að leggja fyrir séreignarsparnað geta eftirlaun orðið hærri en laun við starfslok og því getur verið hagkvæmt að nýta hluta séreignarsparnaðar fyrr á æviskeiðinu.
Aðgerðirnar stuðla að heilbrigðari skuldahlutföllum heimila og auka getu til fjárfestingar í fyrstu fasteign, samhliða því að styðja við peningastefnuna með því að draga úr vægi verðtryggðra lána. Valfrelsi er þó lykilatriði og heimild til nýtingar skattfrjáls séreignarsparnaðar vegna kostnaðar af fyrstu fasteign er óháð lánsformi.
Úrræðin standa öllum til boða  sem greiða eða munu greiða í séreignarsparnað og hafa ekki átt íbúð áður.

Núgildandi séreignarúrræði framlengt og takmörkun á hámarkslengd Íslandslána

Í frumvarpi til laga um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð verður jafnframt lagt til að gildandi úrræði um nýtingu séreignarsparnaðar til lækkunar á höfuðstól fasteignalána verði framlengt um tvö ár. Um 37 þúsund manns nýta þetta úrræði í dag. Lagt er til að einstaklingar sem þegar hafi hafið uppsöfnun á iðgjöldum, til öflunar á íbúðarhúsnæði til eigin nota á grundvelli núgildandi ákvæðis til bráðabirgða í lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, en ekki nýtt sér þá heimild fyrir 1. júlí 2017, verði heimilað að flytja áunnin réttindi sín og nýta þau á grundvelli frumvarpsins ef um kaup á fyrstu íbúð er að ræða. Jafnframt er lagt til að rétthafar sem þegar hafa nýtt rétt á grundvelli umrædds ákvæðis til bráðabirgða og eftir atvikum ráðstafað iðgjöldum inn á höfuðstól fasteignarveðláns, sem tekið var í tengslum við öflun á íbúðarhúsnæðinu, verði heimiluð áframhaldandi nýting á viðbótariðgjaldi sínu til greiðslu inn á lánið uns tíu ára samfellda tímabili frumvarpsins er náð. Heimildin tekur til þeirra sem voru að kaupa sitt fyrsta húsnæði.
Þá verður lagt fram annað frumvarp um takmörkun 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána. Almenna reglan verður að ekki sé heimilt að taka verðtryggð jafngreiðslulán til lengri tíma en 25 ára. Undanþágur frá því verði veittar ungu fólki,tekjulágum einstaklingum og einstaklingum sem taka lán með lágu veðsetningarhlutfalli.

Helstu efnisþættir frumvarps um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð eru eftirfarandi:

 •  fyrir þá sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð.
 • Úrræðið gildir í tíu ár samfellt.
 • Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar sem safnast hefur upp á tilteknu tímabili til kaupa á fyrstu íbúð.
 • Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á fasteignalán sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð og sem tekið var vegna kaupanna.
 • Heimilar ráðstöfun séreignarsparnaðar til afborgunar á óverðtryggðu láni og inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í húsnæðinu.
 • Séreignarsparnaður sem nýttur er til greiðslu inn á höfuðstól lána og eftir atvikum sem afborgun vegna kaupa á fyrstu íbúð er skattfrjáls.
 • Hámarksfjárhæðir og önnur viðmið:
  • Hámarksfjárhæð á ári (12 mánuðir), samtals 500 þús. kr. á einstakling.
  • Hámarksiðgjald, 4% frá launþega og 2% frá launagreiðanda.
  • Einstaklingur spari a.m.k. til jafns við framlag launagreiðanda.
  • Áskilið er að rétthafi eigi að minnsta kosti 50% hlut í íbúðarhúsnæðinu.

Heimild: www.forsaetisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Skóflustunga tekin að þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

Deila grein

14/08/2016

Skóflustunga tekin að þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að nýrri þjóðgarðsmiðstöð fyrir Þjóðgarðinn Snæfellsjökul í gær á Hellissandi. Þá setti ráðherra málþing um framtíð Þjóðgarðsins í kjölfarið.
Þjóðgarðurinn var stofnaður árið 2001 og fimm árum síðar var efnt til opinnar samkeppni um þjóðgarðsmiðstöð á Hellissandi. Hönnun hefur því legið fyrir um nokkurt skeið og er byggingunni ætlað að uppfylla allar þarfir þjóðgarðsmiðstöðvar, bæði hvað varðar upplýsingagjöf, þjónustu og fræðslu til gesta, auk starfsaðstöðu fyrir rekstur þjóðgarðsins sjálfs.
""
Við athöfnina sagði ráðherra að með byggingu þjóðgarðsmiðstöðvar yrðu innviðir þjóðgarðsins Snæfellsjökuls styrktir, þetta yrði lyftistöng fyrir ferðaþjónustu á svæðinu og að með henni yrði þjóðgarðurinn betur í stakk búinn til að taka á móti ferðamönnum sem heimsækja svæðið allt árið um kring.
Yfirskrift málþingsins sem haldið var í Röst á Hellissandi í kjölfar skóflustungunnar var „Þjóðgarður á leið til framtíðar“ en auk ráðherra tóku þar til máls, Kristinn Jónasson, bæjastjóri Snæfellsbæjar, Sturla Böðvarsson, bæjastjóri Stykkishólms, Ragnhildur Sigurðardóttir, Svæðisgarðinum Snæfellsnesi, Kristín Huld Sigurðardóttir, Minjastofnun, Jón Björnsson, þjóðgarðsvörður og Sæmundur Kristjánsson, sagnaþulur og svæðisleiðsögumaður.
Í ávarpi sínu beindi ráðherra sjónum að ""fjölbreyttri náttúru og menningarminjum á Snæfellsnesi, mikilvægi þessa að vernda og tryggja sjálfbæra nýtingu jafnframt því að draga fram að þjóðgarðssvæðið byði upp á fjölbreytta möguleika til útivistar og ferðaþjónustu. „Það er brýnt að huga tímanlega vel að skipulagi til að dreifa ferðamannastraumnum með spennandi ferðamannaleiðum og byggja upp nauðsynlega innviði til verndar náttúrunni,“ sagði Sigrún.
 
 

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Frumvarp um breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi til umsagnar

Deila grein

13/08/2016

Frumvarp um breytingar á fæðingar- og foreldraorlofi til umsagnar

Eygló HarðardóttirEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, leggur hér með fram til umsagnar drög að frumvarpi til breytinga á lögum um fæðingar- og foreldraorlof sem áformað er að leggja fyrir komandi þing. Umsagnarfrestur rennur út 23. ágúst næstkomandi.
Efni frumvarpsins byggist á tillögum starfshóps sem ráðherra skipaði í lok árs 2014 til að móta framtíðarstefnu stjórnvalda í fæðingarorlofsmálum. Helstu markmið þeirra breytinga sem kveðið er á um í frumvarpinu eru að tryggja börnum samvistir við báða foreldra sína, jafnframt því að gera foreldrum betur kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Í þessu skyni er áhersla lögð á að raska sem minnst tekjum heimila þegar foreldrar leggja niður störf í fæðingaroflofi til að annast börn sín.
Helstu breytingar samkvæmt frumvarpsdrögunum eru eftirfarandi:

300.000 kr. óskertar viðmiðunartekjur

Samkvæmt gildandi lögum fær foreldri fæðingarorlofsgreiðslur sem nema 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu tímabili, en þó aldrei hærri upphæð en 370.000 kr. á mánuði. Samkvæmt áformuðum breytingum munu foreldrar fá fyrstu 300.000 kr. af viðmiðunartekjum óskertar og 80% af þeim viðmiðunartekjum sem eru umfram 300.000 kr. á mánuði.

Hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi hækka um 62%

Miðað er við að hámarksgreiðsla í fæðingarorlofi hækki úr 370.000 kr. á mánuði í 600.000 kr. á mánuði.

Fæðingarorlofið verður lengt í áföngum

Kveðið er á um að samanlagt fæðingarorlof foreldra á vinnumarkaði verði lengt úr níu mánuðum í tólf. Gert er ráð fyrir að lengingin taki gildi í áföngum á árunum 2019, 2020 og 2021. Þegar lenginin er að fullu komin til framkvæmda er miðað við að hvort foreldri um sig geti átt rétt til fimm mánaða fæðingarorlofs eða greiðslu fæðingarstyrks en að sameiginlegur réttur foreldra verði tveir mánuðir.
Umsagnarfrestur: Óskað er eftir að umsagnir og athugasemdir berist velferðarráðuneytinu á netfangið: postur@vel.is í síðasta lagi 23. ágúst 2016.
Umsagnaraðilum til hægðarauka fylgir hér auk frumvarpsins skjal þar sem áformaðar breytingar hafa verið færðar inn í gildandi lög.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Sigrún opnar sýningu á Brjánslæk um Surtarbrandsgil

Deila grein

12/08/2016

Sigrún opnar sýningu á Brjánslæk um Surtarbrandsgil

sigrunmagnusdottir-vefmyndSigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, opnaði í dag sýningu um náttúruvættið Surtarbrandsgil í gamla prestbústaðinum á Brjánslæk.
Surtarbrandsgil var friðlýst sem náttúruvætti árið 1975 en gilið er einn merkasti fundarstaður plöntusteingervinga á Íslandi. Þar hafa verið greindar um 65 tegundir plantna, aðallega lauftré. Surtarbrandsgil er þekkt víða utan landsteinanna og finna má steingervinga úr gilinu á náttúrugripasöfnum víða í Evrópu. Eins og nafnið gefur til kynna er talsvert af surtarbrandi í gilinu.
Tilgangurinn með sýningunni er að fræða almenning um jarðfræði Surtarbrandsgils og það loftslag og gróðurfar sem var fyrir um 11- 12  milljón árum en steingervingar úr gilinu geyma mikilvægar vísbendingar um það. Bæði steingervingar og surtarbrandur eru til sýnis á sýningunni auk þess sem mikilvægi þess að vernda fundarstaði steingervinga er undirstrikað.

""Sagði ráðherra vonast til að sýningin yrði til þess að styrkja byggð á svæðinu og myndi stuðla að heimsóknum gesta til að skoða þá sögu sem surtarbrandurinn varðveitir. „Það er trú mín að með aukinni fræðslu og leiðbeiningum takist okkur að vernda betur þær gersemar sem steingervingaflóran er – fyrir okkur og komandi kynslóðir og gefi vísindamönnum í dag og í framtíðinni tækifæri til rannsókna á jarðsögu landsins.“

 Mikið magn af steingervingum hafa verið fjarlægðir úr Surtarbrandsgili í gegnum árin og er svæðið á rauðum lista Umhverfisstofnunar. Nú hefur tekist að koma í veg fyrir það að mestu með því að auka landvörslu, setja upp hlið og skilti ásamt því að vera með skipulagðar fræðslugöngur í gilið með landverði fimm sinnum í viku yfir sumartímann.
Hönnuður sýningarinnar er Gunnlaugur Björn Jónsson arkitekt en Hákon Ásgeirsson sérfræðingur Umhverfisstofnunar sá um heimildaröflun og textagerð. Friðgeir Grímsson veitti leyfi fyrir notkun heimilda og mynda úr bók sinni „Late Cainozoic Floras of Iceland“.
Sýningin verður í gamla prestbústaðnum á Brjánslæk sem var byggt árið 1912 og ábúendur á staðnum hafa gert upp en þeir ætla að opna kaffihús í húsinu næsta sumar.

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is