Categories
Fréttir

Mikilvægt að ríkisstjórnin klári sitt glæsilega kjörtímabil

Deila grein

24/08/2016

Mikilvægt að ríkisstjórnin klári sitt glæsilega kjörtímabil

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að lýsa ánægju minni með framgang þingstarfanna. Málefnin hafa verið í forgrunni umræðunnar og skipulag hefur haldið. Þetta vil ég segja vegna þess að afar mikilvægt er að hæstv. ríkisstjórn klári sitt glæsilega kjörtímabil þrátt fyrir að hafa verið stytt í annan endann, að hæstv. ríkisstjórn klári það í samræmi við þann sáttmála sem liggur til grundvallar. Þegar ég tala um málefni, skipulag og glæsilegan árangur þá eru þau dæmi hér daglega á dagskrá. Frumvarp hæstv. menntamálaráðherra er tímamót fyrir námsmenn þar sem nú loksins verða styrkveitingar viðurkenndar og jafnræði virt. Í gær fóru svo til hv. efnahags- og viðskiptanefndar tvö lagafrumvörp sem snúa að stuðningi til kaupa á fyrstu íbúð og breytinga á lánafyrirkomulagi til að fólk geti myndað séreign hraðar og fyrr og lækkað skuldsetningu í húsnæðinu. Þá var samþykkt í gær ríkisfjármálastefna og ríkisfjármálaáætlun til lengri tíma, tímamót að því leyti að þrátt fyrir að hilli undir kosningar er hún hófstillt, ábyrg og til þess fallin að verja þann árangur sem náðst hefur á þessu kjörtímabili sem er líklegast til að verja stöðugleikann sem varað hefur í 30 mánuði samfleytt, halda verðbólgu í skefjum, skapa áframhaldandi jafnan hagvöxt, verja þá miklu kaupmáttaraukningu tekna sem náðst hefur og stuðla að áframhaldandi stöðugri kaupmáttaraukningu sem yrði meira í takt við raunverðmætasköpun og framleiðniaukningu.

Síðar í dag kemur svo fyrir þingið enn einn áfanginn í áætlun stjórnvalda til að auka frelsi einstaklinga og fyrirtækja með losun fjármagnshafta. Ég gæti nefnt margt fleira til en mikilvægast af öllu er þó hér í lokin að nefna að svigrúmi þessa árangurs verði forgangsraðað í velferðar-, heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið.“

Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Framsókn í Reykjavík – kynning á frambjóðendum

Deila grein

23/08/2016

Framsókn í Reykjavík – kynning á frambjóðendum

Tvöfalt kjördæmisþing Reykjavík 2016 - forsíðaTvöfalt kjördæmaþing í Reykjavík fer fram laugardaginn 27. ágúst fyrir Reykjavík norður og í Reykjavík suður, en kosið verður um 5 efstu sætin í hvoru kjördæmi. Framboðsfrestur var föstudagurinn 12. ágúst s.l..
Tólf bjóða sig fram á lista Framsóknar í Reykjavík. Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra sækist ein eftir efsta sætinu í Reykjavíkurkjördæmi suður en í Reykjavíkurkjördæmi norður sækjast þeir Karl Garðarsson alþingismaður, Þorsteinn Sæmundsson alþingismaður og Haukur Logi Karlsson lögfræðingur en allir sækjast eftir efsta sætinu. Þá sækist Lárus Sigurður Lárusson héraðsdómslögmaður eftir 2. sætinu í Reykjavíkurkjördæmi norður. Aðrir sem sækjast eftir 2.-5. sæti eru: Alex Björn B. Stefánsson háskólanemi, Ásgerður Jóna Flosadóttir MBA og BA í stjórnmála- og fjölmiðlafræði, Björn Ívar Björnsson háskólanemi, Gissur Guðmundsson matreiðslumaður, Gunnar Kristinn Þórðarson stjórnsýslufræðingur, Ingvar Mar Jónsson flugstjóri og varaborgarfulltrúi og Sævar Þór Jónsson héraðsdómslögmaður.
Kynningarblað á frambjóðendum á tvöföldu kjördæmaþingi.
 

Categories
Fréttir

Vesturlandsvegur hefur setið eftir í umbótum í vegaframkvæmdum

Deila grein

23/08/2016

Vesturlandsvegur hefur setið eftir í umbótum í vegaframkvæmdum

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Mig langar að ræða Vesturlandsveg. Það undra sig kannski einhverjir á því að þingmaður Norðvesturkjördæmis ræði vegamál utan kjördæmis síns, en það er nú svo að Vesturlandsvegur skiptir miklu máli m.a. fyrir íbúa Akraness, en Akranes er stærsta sveitarfélagið í Norðvesturkjördæmi með 7.000 íbúa. Góðar samgöngur um Vesturlandsveg skipta jafnframt miklu máli fyrir önnur sveitarfélög í Norðvesturkjördæmi. Greining hefur sýnt fram á það að á hverjum degi fara um 2.000 bílar allt í allt fram og til baka úr sveitarfélögunum næst Hvalfjarðargöngunum norðan megin og í þeim er fólk sem sækir bæði vinnu og skóla til höfuðborgarinnar á hverjum degi. Greining hefur jafnframt sýnt fram á það að Vesturlandsvegur hefur setið eftir þegar kemur að umbótum í vegaframkvæmdum.

Það er nú svo að á köflum getur verið mjög erfitt fyrir bíla í forgangsakstri m.a. að komast leiðar sinnar eins og ég sá í gær þegar sjúkrabíll í forgangsakstri var á leið frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi og átti erfitt með að komast leiðar sinnar vegna þéttrar umferðar á þröngum vegi. Slíkir sjúkraflutningar eru farnir nánast undantekningarlaust dag hvern. Það er brýnt að fara í endurbætur á Vesturlandsvegi og bæjarstjórn Akraness hefur ályktað um málið og bent á brýna nauðsyn þess.

Í því samhengi langar mig að minnast á þingsályktunartillögu mína um Vesturlandsveg sem lögð var fram í þinginu þann 2. nóvember 2015. Hún fjallar um að hæstv. innanríkisráðherra hefji viðræður við borgarfulltrúa í Reykjavík, bæjarfulltrúa í Mosfellsbæ og fulltrúa í sveitarfélögum á Vesturlandi, hafi samband við Vegagerðina og aðra hlutaðeigandi aðila um nauðsynlegar vegaumbætur á Vesturlandsvegi.

Mig langar að skora á hv. þingmenn og frambjóðendur í Norðvesturkjördæmi að koma í lið með okkur flutningsmönnum tillögunnar um að þrýsta á þetta brýna samgöngumál til umbóta fyrir íbúa Vesturlands og fyrir íbúa á landinu öllu.“

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

Deila grein

23/08/2016

Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður

flickr-Þórunn Egilsdóttir„Hæstv. forseti. Íslenskur landbúnaður hefur verið stoð íslensks samfélags gegnum tíðina og verið grunnur byggða um allt land. Hann hefur farið í gegnum miklar breytingar og þróun síðastliðna áratugi, en nú stöndum við frammi fyrir að ná sáttum um nýjan samning um greinina sem tekur utan um nauðsynlegar breytingar með nýjum áherslum. Við erum að fara inn í nýja tíma sem krefjast róttækra breytinga á landbúnaði á Íslandi.

Landbúnaður líkt og aðrar atvinnugreinar þarf að búa við ákveðið öryggi og fyrirsjáanleika til framtíðar. Það er því mikilvægt að rammi samningsins sem hér um ræðir er til tíu ára. Aftur á móti er mikilvægt að vinna markvisst og þétt að endurskoðun og mati á áhrifum samningsins og virkni hans. Þess vegna vona ég að við berum gæfu til að hnykkja á þeim atriðum samningsins sem lúta að endurskoðun, kalla fleiri aðila að því borði og hafa samráð og samvinnu sem eykur sátt um íslenskan landbúnað. Þar þurfa hagsmunir íslenskra bænda og neytenda að fara saman í sátt við umhverfið og náttúruna.

Hæstv. forseti. Íslenskir bændur eru metnaðarfullir framleiðendur gæðavöru sem neytendur geta treyst að framleidd er á þann hátt að miklar kröfur eru gerðar til aðbúnaðar og meðferðar skepna og lyfjagjöf er með því lægsta sem gerist í heiminum. Mikilvægt er að reglugerð um upprunamerkingar á matvælum verði framfylgt þannig að tryggt sé að neytendur fái réttar upplýsingar um uppruna þeirrar vöru sem er til sölu í matvöruverslunum.

Hæstv. forseti. Bændur hafa verið virkir þátttakendur í uppgræðslu landsins og mikilvægt að áfram verði lögð áhersla á samspil landbúnaðar og umhverfisverndar með áherslu á sjálfbæra nýtingu. Þekking íslenskra bænda á landinu er ómetanlegur fjársjóður sem nýtist til styrkingar byggða um allt land. Tækifærin eru mýmörg og mikilvægt að leggja áherslu á sérstöðu íslensks landbúnaðar þegar kemur að hreinleika og lítilli lyfjanotkun svo dæmi sé tekið. Matvælalandið Ísland getur líka verið ferðamannaland sem við viljum búa í.“

Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Nýir kaflar í ólánssögu Borgunar

Deila grein

23/08/2016

Nýir kaflar í ólánssögu Borgunar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Nær daglega eru skrifaðir nýir kaflar í þá ólánssögu sem kennd er við fyrirtækið Borgun og sölu á hlut ríkisins í því í nóvember 2014. Nýlega var frá því skýrt í fjölmiðlum, sem hafði svo sem reyndar legið fyrir síðan sumarið 2013 og fram á haustið 2013, að vegna samruna Visa í Ameríku og Visa í Evrópu mundi fyrirtækið Borgun fá í sinn hlut 6,5 milljarða kr. Það þýðir að þeir sem voru hinir heppnu kaupendur að hlut ríkisins í því fyrirtæki í nóvember 2014 fengu núna á einu bretti kaupverðið endurgreitt, þ.e. um 2,1 milljarð kr. Það er í sjálfu sér alveg ótrúlegt, eins og hér hefur margoft komið fram í máli þess sem hér stendur, að Landsbanki Íslands skyldi haga sölunni á þessum hlut ríkisins með þeim hætti sem gert var. Nú hefur Landsbankinn gripið til þess ráðs að höfða mál á hendur fulltrúum Borgunar sem keyptu af Landsbankanum og er sá málatilbúnaður farinn að líkjast allmikið sögunni af Heródesi og Pílatusi, svo það sé sagt. Það er hins vegar sérstakt áhyggjuefni að meðan á öllu þessu stendur heyrist ekki múkk í Fjármálaeftirlitinu. Ég hef talað um það áður úr þessum ræðustól að það var fyrst í mars á þessu ári sem Fjármálaeftirlitið lét eitthvað frá sér fara um söluna á Borgun og tók þá nokkuð upp í sig en hefur ekki fylgt því bréfi eftir á neinn hátt. Það tók sem sagt Fjármálaeftirlitið um 18 mánuði að komast að því að það var eitthvað varhugavert við þessa sölu, en þeir hafa ekki gert neitt utan að skrifa eitt bréf. Það er sérstakt rannsóknarefni.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 17. ágúst 2016.

 

Categories
Fréttir

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

Deila grein

23/08/2016

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd hefur gert ráð fyrir!

þingmaður-WillumÞór-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að byrja á að vitna í athyglisverða grein hagfræðings VR sem birtist á vefmiðli Kjarnans þar sem tilteknar eru þrjár meginástæður fyrir lágri verðbólgu, í fyrsta lagi lágt olíuverð, í öðru lagi gengisstyrking krónunnar og í þriðja lagi lágt verð á öðrum hrávörum en olíu.

Verðbólgan er lægri en peningastefnunefnd Seðlabankans hefur gert ráð fyrir. Þeirri spurningu er velt upp í annarri grein á vefmiðli Kjarnans hvað peningastefnunefndin geri þegar kemur að næstu ákvörðun stýrivaxta. Meginstýrivextir nú eru 5,75% og verðbólgan 1,1% sem þýðir að raunvextir hér á landi eru hvergi hærri í heiminum og fátt sem bendir til þess að verðbólgan fari af stað eða að sú staða breytist í náinni framtíð ef marka má forsendurnar sem ég fór yfir. Því verður fróðlegt að sjá hvernig peningastefnunefndin bregst við þessari stöðu.

Ég nefni þetta hér vegna þess að vissulega skipta vextir almenning og atvinnulíf gríðarlegu miklu máli. Ekki má gera lítið úr þeim árangri sem náðst hefur í að viðhalda hér verðstöðugleika og gera má ráð fyrir að peningastefnunefnd stígi varlega til jarðar en staðreyndin er sú varðandi hið háa verð á peningum, og endurspeglast í þessum háu raunvöxtum, að almenningur og atvinnulíf fjármagnar stöðugleikann með háu verði. Þetta gagnast auðvitað vel þeim sem eiga laust og meðfærilegt fé til ávöxtunar.

Hvað mun peningastefnunefndin gera? Mun hún einblína áfram á að halda neyslu og lántöku niðri með háum stýrivöxtum, sem reyndar bíta fyrst og fremst á lán sem lúta því fyrirkomulagi að fylgja nafnvöxtum Seðlabankans, þ.e. óverðtryggðum lánum, eða mun hún meta verðbólguvæntingar í takt við forsendur, líkt og ég fór yfir í upphafi máls míns?“

Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 17. ágúst 2016

Categories
Fréttir

Aukin samvinna með Færeyjum og Grænlandi

Deila grein

22/08/2016

Aukin samvinna með Færeyjum og Grænlandi

LDALilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu í dag yfirlýsingu um að kannaðir verði kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Skipaður verður vinnuhópur með fulltrúum þjóðanna og mun hann koma saman í fyrsta skipti í Nuuk í Grænlandi í október.
Stjórnvöld í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi leggja ríka áherslu á aukið samstarf vest norrænu þjóðanna. Þingsályktanir þess efnis hafa verið samþykktar í öllum löndunum og tekur yfirlýsingin í dag mið af því. Í henni segir að aukið og nánara samstarf sé ekki síst mikilvægt í ljósi alþjóðlegrar vakningar um mikilvægi norðurslóða. Hagsmunir þjóðanna fléttist saman á margvíslegan og brýnt sé að skilgreina sameiginlega viðskiptahagsmuni þeirra.
Lilja Alfreðsdóttir undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd Íslands, Poul Michelsen fyrir hönd Færeyja og Vittus Qujaukitsoq fyrir Grænland.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is 

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi fundar með sjávarútvegsráðherra Noregs

Deila grein

19/08/2016

Gunnar Bragi fundar með sjávarútvegsráðherra Noregs

Gunnar Bragi Sveinsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Per Sandberg  sjávarútvegsráðherra Noregs funduðu á þriðjudaginn í Þrándheimi. Ræddu ráðherrarnir meðal annars stöðu sjávarútvegs í ríkjunum, ástand fiskveiðistofna  og samvinnu ríkjanna í sjávarútvegi þar með talið á alþjóðavettvangi.

Gunnar bragi og Naustmarine

Gunnar Bragi heimsótti af þessu tilefni einnig Nor-Fishing sýninguna í Noregi sem haldin hefur verið annað hvert ár frá því á sjöunda áratug síðustu aldar. Meðal sýnenda 2016 frá Íslandi voru fyrirtækin Egersund Island, Naust Marine, Skaginn 3X og Trefjar LTD.

Gunnar Bragi: „Það er augljóst að málefni sjávarútvegs eru að verða fyrirferðarmeiri á dagskrá Evrópuþjóða. Sjávarútvegur flokkast sem blár efnahagur og horfa menn til þeirra fjölmörgu tækifæra sem felast í samspili sjávarútvegs og hinnar fjölbreyttu flóru sjávartengds iðnaðar. Íslensk fyrirtæki eru í fremstu röð á þessu sviði enda hafa þau lagt ríka áherslu á nýsköpun m.a. á sviði vinnslutækni og líftækni.“
Gunnar Bragi og Per Sandberg funda

Heimild: www.atvinnuvegaraduneyti.is

 

Categories
Greinar

Lóðir óskast

Deila grein

19/08/2016

Lóðir óskast

eygloAð byggja sjálfur sitt eigið hús er draumur sem hefur orðið æ fjarlægari fyrir marga eftir því sem aðgengi að lóðum hefur minnkað og kröfur til húsnæðis aukist.

Við endurskoðun á húsnæðismarkaðnum höfum við einkum horft til nágrannaríkja okkar sem fyrirmyndir. Eitt af því sem vakti athygli mína var hin ríka hefð í Noregi fyrir að byggja sjálfur. Árangurinn er ótvíræður því ekkert Norðurlandanna er með jafn hátt hlutfall séreignar og ein- og tvíbýla á húsnæðismarkaðnum og Noregur.

Í Hollandi lagði stjórnmálamaðurinn Adri Duivesteijn upp með þá hugmyndafræði að íbúarnir sjálfir ættu að fá valdið aftur til sín og byggja sitt heimili. Árangurinn má sjá í Almere Poort hverfinu. Lóðirnar voru seldar á mismunandi verði eftir tekjum fólks. Tekjulægra fólk gat keypt lóð fyrir 2,6 m.kr. og valið svo úr nokkrum tegundum af forsmíðuðum húsum. Jafnframt voru í boði lóðir fyrir fólk með hærri tekjur og lóðir fyrir fjölbýlishús.

Markmiðið er að á endanum rísi í Almere Poort 3.500 hús sem fólk hefur byggt sjálft eða með aðstoð iðnaðarmanna og arkitekta. Litlar sem engar kröfur eru gerðar til húsanna umfram lágmarkskröfur um gæði húsa, þéttleikinn er ýmist mikill eða lítill og sveitarfélagið fer ekki í lokafrágang á vegum og grænum svæðum fyrr en búið er að byggja öll hús í einstökum hluta.

Í grunninn er þetta ekki flókið, – við þekkjum til sambærilegra dæma í íslenskri byggingarsögu, t.d. í Smáíbúðahverfinu og Grafarvogi.
Land er einfaldlega skipulagt með fjölbreyttum valkostum, litlar lóðir og stórar, litlar íbúðir og stórar íbúðir, einbýlishús og fjölbýlishús, íbúðar- og atvinnuhúsnæði eða jafnvel blöndu af hvoru tveggja.

Og lóðirnar eru boðnar til sölu.
Engar niðurgreiðslur, engar sérstakar kvaðir um húsagerð, stærðir, bílskúra, þakhalla, mænisstefnu, gerð klæðninga eða lit á gluggapóstum.
Því óska ég hér með eftir byggingafulltrúum og sveitastjórnarmönnum sem eru tilbúnir að brjótast út úr kassanum og hjálpa fólki að byggja sjálft.

Eygló Harðardóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 19. ágúst 2016.

Categories
Fréttir

Kjörstjórn óskar eftir framboðum frá konum

Deila grein

17/08/2016

Kjörstjórn óskar eftir framboðum frá konum

logo-framsokn-gluggiVegna tvöfalds kjördæmisþings framsóknarmanna hinn 27. ágúst 2016 þar sem fram fer val á lista vegna komandi alþingiskosninga.
Samkvæmt reglum Framsóknarflokksins, þarf að lágmarki ein kona að skipa eitt af fjórum efstu sætum og þrjú af sjö efstu sætum í hverju kjördæmi. Kjörstjórn óskar eftir framboðum frá konum. Vinsamlega hafið samband við formann kjörstjórnar fyrir 25. ágúst nk.
Kjörstjórn KFR.