Categories
Fréttir

„Vegferð síðustu ára snúið við“

Deila grein

02/10/2025

„Vegferð síðustu ára snúið við“

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar, gagnrýnir áform um að hækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Hún bendir á að gert sé ráð fyrir hærri lyfjakostnaði, að ófrjósemisaðgerðir falli undir almennar reglur um greiðsluþátttöku og að rukkað verði fyrir ómættra læknistíma. En þá án þess að tryggt sé að ríkið bæti ferðakostnað þegar tímum er aflýst af hálfu kerfisins.

Segir Ingibjörg að markviss lækkun greiðsluþátttöku síðustu ára verði nú snúið við, meðal annars með hærri kostnaði sjúklinga vegna lyfja.

Ófrjósemisaðgerðir undir almennar reglur

Ingibjörg bendir á að samkvæmt áformunum verði ófrjósemisaðgerðir ekki lengur gjaldfrjálsar heldur falli undir almennar reglur um greiðsluþátttöku.

Einnig er gert ráð fyrir gjaldi þegar sjúklingar mæta ekki í bókaða tíma. Ingibjörg segir að ef kerfið ætli að rukka fólk fyrir ómóttekna þjónustu verði að gæta samræmis þegar þjónusta fellur niður af hálfu hins opinbera.

„Gott og vel, ef ríkið telur eðlilegt að rukka fólk fyrir tímana sem það kemst ekki í hljótum við að geta gert þá kröfu að ríkið greiði ferðakostnaði þeirra sem neyðast til að ferðast langar leiðir að þjónustu sem er svo felld niður með skömmum fyrirvara. Sem er ekki raunin í öllum tilfellum í dag,“ segir Ingibjörg.

Það hefur verið unnið skipulega að því undanfarin ár að lækka greiðsluþátttöku sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Nú ætlar…

Posted by Ingibjörg Isaksen on Fimmtudagur, 2. október 2025

Categories
Fréttir Greinar

Hafnar­fjörður er bær sem styður við lífs­gæði eldra fólks

Deila grein

02/10/2025

Hafnar­fjörður er bær sem styður við lífs­gæði eldra fólks

Í Hafnarfirði hefur ávallt verið lögð rík áhersla á að eldra fólk fái stuðning og tækifæri til að njóta lífsins, rækta heilsu og samfélagstengsl og eiga öruggt heimili. Lykilþættir í þeirri vinnu eru félagsstarf, heilsueflingu og húsnæðismál.

Félagsstarf – samfélag, samvera og forvarnir

Hafnarfjarðarbær hefur árum saman stutt dyggilega við félagsstarf eldra fólks með því að leggja sjálfsprottnu félagsstarfi Félags eldri borgara í Hafnarfirði til húsnæði og starfsfólk. Nú er verið að vinna að nýjum rekstrarsamningi um það verkefni. Um er að ræða tímamóta samning. Erum að formgera í samningi þann stuðning sem félagsstarfið hefur fengið í gegnum árin.

Samningurinn tryggir eldra fólki í Hafnarfirði fjölbreytt félagsstarf og öflugan vettvang til samveru. Bærinn leggur til húsnæði fyrir starfsemina, greiðir rekstrarkostnað og leggur til starfsfólk sem sinna daglegri umsjón og skipulagi. Félagsstarfið býður þannig upp á fjölbreytt tómstundastarf, viðburði og samveru sem hefur gríðarlegt gildi fyrir lífsgæði eldra fólks.

Félagsstarfið er ekki aðeins skemmtilegt og gefandi heldur hefur það einnig sterkt forvarnargildi. Með því að bjóða upp á vettvang þar sem fólk hittist, rjúfi félagslega einangrun og upplifi sig sem virkan þátttakanda í samfélaginu er dregið úr einmanaleika og líkamleg og andleg heilsa er bætt. Í raun má segja að félagsmiðstöðin Hraunsel sé eins konar hjartsláttur samfélagsins fyrir eldri kynslóðina.

Heilsuefling og frístundastyrkur er fjárfesting í vellíðan

Í Hafnarfirði er litið á heilsueflingu eldra fólks sem fjárfestingu í bættri heilsu, sjálfstæði og lífsgæðum. Í samstarfi við Janus heilsueflingu stendur bæjarfélagið að öflugu verkefni sem býður upp á heilsuráðgjöf, hópþjálfun, fræðslu og einstaklingsmiðaða þjónustu. Hafnarfjarðarbær er einnig með samning við Hress heilsurækt um aðgengi fyrir eldra fólk að tímum og þjálfun.

Markmiðið er að styrkja líkamlega heilsu, efla hreyfigetu og forða því að líkamleg færni skerðist of snemma. Með reglulegri hreyfingu og ráðgjöf eykst sjálfstæði fólks, dregið er úr fallhættu og öðrum slysum, og líkur minnka á langvinnum sjúkdómum á borð við hjarta- og æðasjúkdóma eða sykursýki. Það er því augljóst að heilsuefling er öflugasta forvörnin sem hægt er að veita.

Frístundastyrkurinn einstakt úrræði sem Hafnarfjörður var brautryðjandi í að innleiða. Hann gerir fólki 67 ára og eldra kleift að sækja skipulagt íþrótta- og tómstundastarf á hagkvæmari hátt.

Þessi samsetning, heilsuefling í gegnum faglega þjónustu og styrkur sem hvetur til þátttöku, er ekki aðeins fjárfesting í vellíðan heldur líka öflug forvörn. Hún dregur úr einangrun, minnkar álag á heilbrigðiskerfið og tryggir eldra fólki fleiri góð og virðingarverð ár.

Öruggt heimili fyrir framtíðina

Eitt mikilvægasta málið til framtíðar er að tryggja fjölbreytt og hentugt húsnæði fyrir eldra fólk. Starfshópur á vegum bæjarins er að ljúka vinnu við tillögur að uppbyggingu íbúða sem mæta þörfum þessa hóps og verða þær kynntar á næstunni.

Í Hafnarfirði hefur verið lögð sérstök áhersla á að uppbygging húsnæðis taki mið af ólíkum þörfum íbúanna.

Þegar kemur að eldra fólki er lykilatriði að skapa öryggi og stuðning en jafnframt virða óskir um sjálfstæði. Því er mikilvægt að leggja áherslu blandaðar lausnir: þjónustuíbúðir þar sem fólk fær stuðning við daglegt líf, íbúðir nálægt þjónustu og samgöngum og jafnframt hefðbundið húsnæði sem hentar þeim sem vilja búa áfram sjálfstætt.

Með þessu móti tryggjum við að hver og einn geti fundið lausn sem hentar hans aðstæðum og óskum. Slíkt húsnæði er ekki aðeins mikilvægt fyrir einstaklingana sjálfa heldur styrkir það líka samfélagið í heild. Eldra fólk fær þannig að halda tengslum, vera virkt í nærumhverfi sínu og lifa lífinu af reisn.

Hafnarfjörður hefur sýnt að bærinn hefur staðið sig vel í uppbyggingu íbúða. Við erum staðráðin í að vera fyrirmynd þegar kemur að því að byggja samfélag þar sem allir finna sér heimili.

Framtíðin í okkar höndum

Í Hafnarfirði er enginn látinn standa einn. Með því að efla félagsstarf, heilsu og húsnæðismál tryggjum við að eldra fólk geti notið lífsins með reisn, gleði og öryggi. Það er ekki aðeins þjónusta heldur stefna sem byggir á samkennd, virðingu og framsýni.

Við trúum því að sterkt samfélag byggist á því að allir fái að blómstra á sínum forsendum, hvort sem fólk er ungt eða komið á efri ár. Með áframhaldandi metnaði, samstarfi og hugrekki mun Hafnarfjörður halda áfram að vera bær þar sem gott er að eldast.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 2. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Deila grein

01/10/2025

Við krefjumst þess að á okkur sé hlustað

Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) er öflugur málsvari og drifkraftur byggðaþróunar.

SSA er málsvari sveitarfélaganna á Austurlandi gagnvart ríkisvaldinu og öðrum hagsmunaaðilum. Sambandið stendur vörð um hagsmuni svæðisins í umræðum um byggðamál, verkefnaflutninga og jöfnun á búsetuskilyrðum milli landshluta. Sambandið er mikilvægur vettvangur fyrir sveitarstjórnarmenn á svæðinu til að skiptast á skoðunum, eiga samtal og vinna sameiginlega að verkefnum.

Vegvísir að sameiginlegri framtíð

Árið 2022 var svæðisskipulag Austurlands 2022-2044 samþykkt af sveitarstjórnum allra sveitarfélaga á Austurlandi. Svæðisskipulag er mikilvægt stjórntæki sem markar sameiginlega framtíðarsýn Austfirðinga fyrir næstu áratugi. Það er stefnumarkandi langtímaáætlun sem tekur til allra sveitarfélaga á Austurlandi.

Svæðisskipulagið er meira en bara áætlun, það er leiðarljós fyrir allt samfélagið á Austurlandi. Með því að marka skýra stefnu um uppbyggingu atvinnu, innviða og ferðaþjónustu hjálpar skipulagið til við að laða að nýja íbúa og fyrirtæki og styrkja núverandi samfélag.

Í svæðisskipulagi Austurlands kemur fram að mikilvægt sé að unnið verði að því að bæta vegi, gera jarðgöng og breikka brýr til að stytta leiðir og auka öryggi. Áhersla verði lögð á að byggja Fjarðarheiðargöng, Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Samhljóða samþykktar bókanir

Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur ítrekað bókað um hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og má finna bókanir þess efnis áratugi aftur í tímann. Í bókun aðalfundar allt frá árinu 2007 segir: Fundurinn lítur svo á að Norðfjarðargöng verði fyrsti hluti svokallaðra Miðfjarðaganga sem eru jarðgöng frá Eskifirði um Norðfjörð, Mjóafjörð, Seyðisfjörð til Héraðs.

Árið 2008 er síðan samþykkt að aðalfundurinn lýsi yfir fullum stuðningi við baráttu Seyðfirðinga fyrir jarðgöngum á milli Héraðs og Seyðisfjarðar. Bókanir á aðalfundum SSA eru áþekkar árum saman og er smám saman gengið lengra eftir því sem ný Norðfjarðargöng og göng í öðrum landshlutum, s.s. Dýrafjarðar- og Vaðlaheiðargöng, komast á undirbúnings- og framkvæmdarstig.

Áherslur sveitarfélaganna á Austurlandi um næstu göng voru og eru skýrar: Fjarðarheiðargöng eiga að vera næstu göng á Austurlandi. Þung áhersla hefur verið lögð á að hönnun ganga frá Seyðisfirði um Mjóafjörð til Norðfjarðar fari fram samhliða vinnu við Fjarðarheiðargöng með það að markmiði að hringtengja miðsvæði Austurlands.

Við tölum skýrt

Haustþing SSA krefst þess að ráðist verði tafarlaust í hringtengingu Austurlands með jarðgöngum og í löngu tímabærar úrbætur á Suðurfjarðavegi og Öxi í samræmi við áherslur svæðisskipulags Austurlands 2022-2044.

Haustþing SSA ítrekar jafnframt gagnvart núverandi stjórnvöldum að Austurland sé næst í röðinni hvað varðar jarðagangauppbyggingu. Það er ólíðandi að stjórnvöld reyni að komast undan þeirri ábyrgð með því að draga fram gömul þrætuepli í tilraunum sínum til að fjármagna uppbyggingu annars staðar á landinu.

Kæru þingmenn og ráðherrar, það er ekki hægt að vera skýrari í máli. Það er skýlaus krafa okkar að þið talið okkar máli og hlustið á okkar samhljóða samþykktar ályktanir.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og fulltrúi á haustþingi SSA á Vopnafirði.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Litla gula hænan og Evrópusambandið

Deila grein

30/09/2025

Litla gula hænan og Evrópusambandið

Margir muna eftir sögunni um litlu gulu hænuna sem fann hveitifræ. Hún áttaði sig á því að ef hún myndi sá, slá, þreskja og mala hveitifræið og baka svo brauð, þá væri hægt að njóta ávinningsins. Hún bað önnur dýr á bænum að hjálpa en hundurinn, kötturinn og svínið höfnuðu því öll. Þegar brauðið var loks tilbúið vildu þau þó öll fá sneið, en þá sagði litla gula hænan nei, aðeins hún sem vann verkið ætti rétt á brauðinu.

Fyrirverandi bankastjóri Evrópska seðlabankans og forsætisráðherra Ítalíu, Mario Draghi, er í hlutverki litlu gulu hænunnar. Draghi hefur ítrekað varað við því að Evrópusambandið sé að missa samkeppnishæfni sína vegna aðgerðaleysis. Á síðasta ári lagði hann fram 383 tillögur um umbætur sem gætu aukið framleiðni og hagvöxt, ásamt því að efla ESB-ríkin í tæknikapphlaupinu gagnvart Bandaríkjunum og Kína. Tillögurnar voru samþykktar en aðeins um 11 prósentum hefur verið hrint í framkvæmd. Afgangurinn af tillögunum er fastur í ágreiningi og skrifræði.

Draghi óskar eftir aðstoð: „Hver vill hjálpa mér að sá, mala og uppskera?“ En svörin eru lítil. Leiðtogar ESB-ríkja viðurkenna vandann, jafnvel framkvæmdastjórinn Ursula von der Leyen, en þegar til kastanna kemur er viljinn ekki nægur. Sagan um litlu gulu hænuna felur í sér ákveðinn boðskap. Ef enginn er tilbúinn að leggja hönd á plóginn, þá verður ekkert brauð til að deila. Hagkerfi margra ESB-ríkja er í þeirri stöðu að verðmætasköpun er að minnka. Ég er ekki í nokkrum vafa um að ESB-ríki geti bakað sitt brauð, en gallinn er að kerfið sem búið er að setja upp dregur úr hvatanum til þess. Gjaldmiðill þeirra hefur ekki skilað þeim árangri sem vænst var í upphafi, fjármögnun erfið, umgjörðin um ríkisfjármálin ekki nægilega sterk og ekki hefur verið ráðist í nauðsynlegar efnahagslegar kerfisbreytingar til að létta róðurinn. Á meðan vex hagkerfi Bandaríkjanna átta sinnum hraðar en hagkerfi Evrópu. Þar hefur fjárfesting í nýsköpun, orkuöryggi og gervigreind skapað mikla framþróun. Kína er á fleygiferð í gervigreindinni, en einnig í innviðum og iðnaði, og styrkir áhrif sín í Asíu og Afríku. Evrópa stendur hins vegar í stað og glímir við að brúa bilið milli háleitra áforma og raunverulegra framkvæmda.

Eins og staðan er í dag, þá á Ísland að tryggja viðskiptakjör sín með alþjóðlegri samvinnu og efla samkeppnishæfni og hagvöxt. Ísland hefur náð miklum framförum síðustu áratugi og gert það í krafti sjálfstæðis með tryggt eignarhald á auðlindum sínum. Ísland á ekki að gerast aðili að ESB, sem er ekki tilbúið að gera það sem þarf til að baka brauðið og njóta síðan ávinningsins.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 30. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tíma­mót í sjálfs­vígs­for­vörnum

Deila grein

29/09/2025

Tíma­mót í sjálfs­vígs­for­vörnum

Gulur september er helgaður geðrækt og sjálfsvígsforvörnum, samvinnuverkefni fjölmargra stofnana og félagasamtaka sem vinna saman að forvörnum. Ástæðan er einfaldlega sú að málefnið snertir okkur öll sem samfélag. Sjálfsvíg og andlát vegna óhappaeitrana (s.s. lyfja- eða fíkniefnaofskammta) eru viðkvæmir og sársaukafullir atburðir sem hafa djúpstæð áhrif á aðstandendur, fjölskyldur og samfélagið í heild. Reynsla og rannsóknir sýna að hver einstaklingur sem sviptir sig lífi skilur eftir sig stóran hóp syrgjenda og ástvina.

Áhrif á samfélagið

Samkvæmt tölum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar verða að meðaltali 135 manns fyrir áfalli eða sambærilegum áhrifum í kjölfar eins sjálfsvígs. Talið er að um sex þúsund Íslendingar verði fyrir áhrifum af sjálfsvígum á hverju ári en tíðni sjálfsvíga hér á landi hefur staðið í stað um langt skeið.

Þetta gerist þrátt fyrir ýmis fyrirbyggjandi úrræði og vinnu sem þegar eru til staðar. Við verðum því að gera betur og leita nýrra leiða til að fækka sjálfsvígum. Einn mikilvægur þáttur í þeirri viðleitni er að afla betri þekkingar á orsakaferlinu sem leiðir til sjálfsvíga og óhappaeitrunar, þannig að hægt sé að grípa fyrr inn í og bjarga mannslífum.

Rannsókn á orsakaferli

Af þessari ástæðu lagði ég upphaflega fram á Alþingi þingsályktunartillögu um rannsókn á orsakaferli í aðdraganda sjálfsvíga og dauðsfalla vegna óhappaeitrana. Nú hefur þessi tillaga verið lögð fram í þriðja sinn, uppfærð í hvert skipti í takt við þróun mála.

Þingsályktunartillaga sama efnis var fyrst flutt á Alþingi árið 2023endurflutt 2024 með nokkrum breytingum og er nú lögð fram að nýju haustið 2025. Í millitíðinni hefur starfshópur á vegum Lífsbrúar, miðstöðvar sjálfsvígsforvarna hjá embætti landlæknis, hafið einmitt þá vinnu sem tillagan fjallaði um.

Markmið tillögunnar

Tillagan gengur því nú út á að styðja þetta mikilvæga rannsóknarverkefni, tryggja að það hafi nauðsynlegt fjármagn og stuðning til að vinna úr þeim gögnum sem safnað hefur verið svo rannsóknin skili sem bestum árangri. Markmiðið er að fá áreiðanlegar niðurstöður um hvaða áhættuþættir og atburðir eru til staðar í aðdraganda sjálfsvíga og banvænna ofskammta, og hvernig megi nýta þá vitneskju til að móta markvissar forvarnir.

Breið pólitísk samstaða

Það er óhætt að segja að málið hafi hlotið óvenju breiða samstöðu. Þingheimur hefur nánast allur sameinast á bak við tillöguna, þvert á flokka, sem sýnir fram á mikilvægi hennar. Slíkur stuðningur allra þingflokka og þingmanna er fáheyrður og fyrir það er ég innilega þakklát.

Frá orðum til aðgerða

Ég fagna því sérstaklega að finna hljómgrunn hjá framkvæmdavaldinu fyrir þessu mikilvæga máli. Þegar tillagan var rædd í þinginu tók heilbrigðisráðherra jákvætt í málið, og nýlega lýsti hún því yfir að ráðist verði í að rannsaka sjálfsvíg á Íslandi betur, fyrst um sinn afturvirkt til ársins 2020.

Nánar tiltekið vonast ráðherra til að í framtíðinni verði einnig hægt að kanna hvert einstakt tilfelli í þaula, til að sjá hvort eitthvað hefði mátt fara öðruvísi og draga af því lærdóm. Þessi yfirlýsing heilbrigðisráðherra þýðir að vilji stjórnvalda stendur nú til þess sama og við á Alþingi höfum kallað eftir.

Jafnframt kynnti heilbrigðisráðuneytið í mars sl. nýja aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum með 26 aðgerðum og er sú vinna þegar hafin. Með slíku átaki og áherslu á úrbætur í geðheilbrigðisþjónustu er ljóst að málaflokkurinn hefur fengið nauðsynlega athygli og forgang.

Næstu skref

Nú reynir á að fylgja þessu eftir af fullum krafti. Rannsóknarverkefni Lífsbrúar þarf að njóta alls þess stuðnings sem til þarf svo gögnin verði rétt og ítarlega greind og niðurstöður liggi fyrir sem fyrst. Síðan þarf að hrinda tillögum í framkvæmd án tafar.

Með vísindalega ígrunduðum forvörnum getum við snúið við þeirri þróun að sjálfsvígstíðni standi í stað eða fari vaxandi. Markviss inngrip, aukið aðgengi að sálrænum stuðningsúrræðum og vakandi augu okkar allra geta skipt sköpum. Gulur september minnir okkur á að við eigum að hlúa að andlegri heilsu, alla mánuði ársins. Ef við höldum áfram að vinna saman, deila þekkingu og sýna hugrekki til að ræða opinskátt um sjálfsvíg, þá getum við, sem samfélag, komið í veg fyrir að fleiri fjölskyldur upplifi þann óbætanlega missi sem fylgir þessum harmleikjum. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra að berjast gegn sjálfsvígum og bjarga mannslífum.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ekki sama hvaðan gott kemur

Deila grein

29/09/2025

Ekki sama hvaðan gott kemur

Fyrr í mánuðinum lögðum við í Framsókn til að Reykjavíkurborg yrði aðili að verkefninu Barnvænt sveitarfélag, sem er hluti af alþjóðlegu verkefni UNICEF, Child Friendly Cities Initiative. Þátttaka í verkefninu felur í sér markvissa og kerfisbundna innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og skuldbindingu um að setja börn og hagsmuni þeirra í forgang í allri stefnumótun, ákvarðanatöku og daglegum rekstri. Borgin hefur þegar tekið mikilvæg skref með réttindaskólum og frístund UNICEF þar sem Barnasáttmálinn er innleiddur í leik- og grunnskóla, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar. Með þátttöku í verkefninu væri stigið næsta skref: að tryggja að Barnasáttmálinn verði raunverulegur rauður þráður í allri starfsemi og stjórnsýslu borgarinnar.

Hvers vegna skiptir máli að verða Barnvænt sveitarfélag?

Það er þannig að flest, ef ekki allt, í borginni snertir líf barns. Hvort sem um ræðir skipulag hverfa, samgöngur, menntun eða félagsþjónustu. Því er mikilvægt að „barnaréttindagleraugun“ séu ávallt uppi og aðkoma barna á ákvörðunartöku sé aukin.

Við segjum oft að gæði samfélags séu mæld eftir því hvernig við hlúum að börnum okkar. Þetta er ekki bara falleg setning heldur prófsteinn á manngildi okkar og forgangsröðun. Þegar börnum líður vel þá líður samfélaginu vel og þegar börn finna að þau skipta máli og geti haft áhrif á þeirra nærsamfélag þá verður borgin betri og mennskari. Við eigum að gera allt sem við getum til að það sé gott að vera barn í Reykjavík.

Börn eru ekki aðeins framtíðin, þau eru nútíðin. Þau lifa hér og nú í borginni okkar og upplifa daglega ákvarðanir borgarstjórnar. Allt sem borgin gerir, frá fjárhagsáætlunum til ákvarðana um skipulagsmál, hefur áhrif á börn. Þegar við ákveðum hvernig hverfi eru skipulögð, hvernig samgöngur eru hannaðar, hvernig þjónusta er veitt í skólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum þá upplifum við, sem teljumst fullorðin, það ekki með sama hætti og börn. Það sem fyrir okkur kann að vera lítið atriði í fjárhagsáætlun getur haft afgerandi áhrif á líf barns. Þess vegna skiptir máli að við hugum alltaf að því hverjar afleiðingar ákvarðana og þjónustu borgarinnar er á börn. Lengi býr að fyrstu gerð og þar á forgangsröðin að liggja.

Afgreiðsla meirihluta borgarstjórnar í málinu felur í sér algjört metnaðarleysi

Reykjavíkurráð ungmenna hefur opinberlega lýst yfir stuðningi við það að Reykjavíkurborg hefji þá vegferð að verða Barnvænt sveitarfélag. Það segir okkur að þau vilja að við tökum hagsmuni þeirra alvarlega og hlustum á börn þegar við tökum ákvarðanir. Meirihluti borgarstjórnar virðist þó ekki vera sannfærður um ágæti verkefnisins. Raunar báru ræður meirihlutans með sér vanþekkingu á verkefninu og skort á vilja til að láta kné fylgja kviði þegar kemur að réttindum barna.

Meirihlutinn hélt því fram að borgin væri nú þegar Barnvænt sveitarfélag og vísaði til tillögu sem samþykkt var árið 2014. Staðreyndin er þó sú að þróun á verkefninu Barnvænt sveitarfélög hófst ekki fyrr en árið 2016 og 18. nóvember 2019 í tilefni af 30 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, undirrituðu Ásmundur Einar Daðason, þáverandi félags- og barnamálaráðherra og Bergsteinn Jónsson, þáverandi framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi, samning um samstarf við félagsmálaráðuneytið við innleiðingu verkefnisins undir formerkjunum Barnvænt Ísland. Reykjavíkurborg hefur ekki tekið ákvörðun um að verða Barnvænt sveitarfélag þótt tekin hafa verið skref í átt að innleiðingu barnasáttmálans í starf borgarinnar t.a.m. með ofangreindum réttindaskólum.

Meirihlutinn segist vera hlynntur því að barnasáttmálinn sé markvisst og kerfislega innleiddur í Reykjavíkurborg en í stað þess sýna það í verki með því að samþykkja tillögu um þátttöku í verkefni sem snýr einmitt að því kom hann með breytingartillögu þess efnis að ávinningur verkefnisins verði skoðaður. Það vekur furðu að meirihlutinn átti sig ekki á augljósum ávinningi verkefnisins fyrir hagsmuni barna, líkt og fjölmörg sveitarfélög hafa gert bæði hérlendis og erlendis. En sennilega var málinu vísað áfram til frekari greiningar svo að meirihlutinn geti lagt málið aftur fram seinna sem sitt eigið. Það er ekki sama hvaðan gott kemur.

Hagsmunir barna eiga að vera í fyrsta sæti

Ákvörðun um að taka þátt í verkefninu Barnvænt sveitarfélag er pólitísk afstaða um að réttindi barna skipti máli. Samþykkt tillögunnar hefði verið tækifæri fyrir borgarstjórn Reykjavíkur að sameinast um að setja réttindi barna í forgang. Ekki vegna þess að í því felst ákveðin táknræn viðurkenning. Mun frekar vegna þess að í því fælist raunveruleg skuldbinding borgarinnar um að innleiða Barnasáttmálann með markvissum og kerfisbundnum hætti í stjórnsýslu og starfsemi Reykjavíkurborgar sem og að þverpólitísk samstaða um þátttöku í verkefninu væri yfirlýsing til barna í borginni um að þau skipta máli.

Reykjavíkurborg á að hafa metnað til þess að vera leiðandi á meðal borga á heimsvísu þegar kemur að innleiðingu á Barnasáttmálanum og þar með réttindum barna. Það á ekki að skipta máli hvaðan gott kemur.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 29. september 2025.

Categories
Fréttir

Landfræðileg lega Íslands gerir kröfu um raunhæf öryggisviðmið eldsneytisbirgða

Deila grein

26/09/2025

Landfræðileg lega Íslands gerir kröfu um raunhæf öryggisviðmið eldsneytisbirgða

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir Ísland standa frammi fyrir viðkvæmri stöðu í orkuöryggi og hvetur stjórnvöld til að treysta eldsneytisbirgðir landsins. Í færslu á Facebook bendir hann á að landfræðileg lega Íslands geri kröfu um raunhæfar öryggisviðmið og að birgðir verði að standast áföll í framboði og flutningum.

„Við Íslendingar erum mjög háðir orkuöryggi og í ljósi landfræðilegrar legu okkar er mikilvægt að tryggja að eldsneytisbirgðir standist raunverulegar öryggiskröfur,“ segir Sigurður Ingi og bætir við að óróleiki í alþjóðamálum síðustu daga og vikna hafi sýnt „hve hratt aðstæður geta breyst og hve viðkvæm staða okkar getur orðið þegar framboð eða flutningar raskast“.

Að hans mati undirstrikar staðan að núverandi eldsneytisbirgðir dugi aðeins í 20–50 daga nauðsyn þess að „huga betur að þessum málum“. Þá leggur hann sérstaka áherslu á að efla birgðahald á varaflugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum, þannig að þar verði til nægar birgðir til að anna millilandaflugi ef truflanir verða, líkt og komið hafi upp í nágrannalöndum á undanförnum dögum.

„Í breyttri heimsmynd er ljóst að við verðum að tryggja þjóðinni traustar og öruggar eldsneytisbirgðir,“ segir hann og telur spurninguna ekki vera hvort heldur hvenær grípa þurfi til aðgerða. „Betra er að undirbúa sig tímanlega en að bregðast seint við.“

Sigurður Ingi kallar þannig eftir markvissum skrefum til að auka viðnámsþrótt í innflutningi og birgðahaldi, með áherslu á landsbyggðina og lykilinnviði flugsamgangna. Hann segir aðgerðir óhjákvæmilegar til að tryggja stöðugleika ef framboð raskist skyndilega.

Við Íslendingar erum mjög háðir orkuöryggi og í ljósi landfræðilegrar legu okkar er mikilvægt að tryggja að…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Föstudagur, 26. september 2025
Categories
Fréttir Greinar

Stjórn­endur sem mega ekki stjórna

Deila grein

26/09/2025

Stjórn­endur sem mega ekki stjórna

Mennta- og barnamálaráðherra hyggst setja á fót fjórar til sex svæðisskrifstofur sem taki yfir rekstur og stjórnsýslu framhaldsskóla. Markmiðin eru göfug og verðskulda athygli. Þau snerta m.a. sjónarmið um jafnt aðgengi, betri þjónustu og aukinn faglegan stuðning. Enginn dregur í efa mikilvægi þessa. En leiðin sem boðuð er vekur upp margar spurningar í ljósi gildandi laga, réttarframkvæmdar og almennra sjónarmiða um hvað felist í hugtakinu stjórnun.

Flugstjóri sem má ekki fljúga

Lög um framhaldsskóla kveða skýrt á um að skólameistari beri ábyrgð á daglegum rekstri skólans, gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt, auk þess að ráða starfsfólk skólans. Þessi rekstrarlega ábyrgð er mjög rík og mikilvæg, eins og Umboðsmaður Alþingis hefur m.a. ítrekað bent á í álitum sínum.

Með fyrirhuguðum breytingum verður skólameistari í orði forstöðumaður, en í verki án forræðis yfir þeim þáttum sem hann ber í dag lagalega ábyrgð á. Hann heldur eftir „faglegri“ ábyrgð en stýrir hvorki fjármagni né ráðningum til að framkvæma hana. Slík staða gengur gegn þeirri meginreglu um að vald og ábyrgð verða að fara saman í stjórnsýslu.

Hugsanlega má setja sérlög sem umbreyta eðli starfs skólameistara og ganga framar öllum gildandi lögum og hefðbundnum sjónarmiðum um ábyrgð skólameistara. Ef breytingarnar ganga eftir verður skólameistari þó í reynd eins og flugstjóri sem má ekki fljúga.

Fjárveitingar og framkvæmd fjárlaga

Alþingi veitir fé til hvers skóla með fjárlögum, eins og fram kemur í lögum um framhaldsskóla. Að baki liggur tillaga ráðherra um fjárveitingar til hvers skóla.

Ef rekstur færist til svæðisskrifstofa, hver ber þá ábyrgð gagnvart Alþingi á að fjármununum sé ráðstafað í samræmi við fjárlög og þar með stefnu málefnasviða (ráðherra)? Hlutaðeigandi ráðherra? Svæðisskrifstofan? Skólanefndir? Munu fulltrúar frá svæðisskrifstofum t.d. þurfa að koma fyrir fjárlaganefnd Alþingis ef rekstur tiltekins framhaldsskóla vekur áhyggjur?

Hér er hættan sú að við búum til ábyrgðartóm sem grefur undan framkvæmd fjárlaga og þeirri meginreglu að forstöðumenn beri ábyrgð á því að rekstrarútgjöld séu í samræmi við fjárlög og sett markmið, eins og fram kemur í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Lög um opinber fjármál, sem tóku gildi 1. janúar 2016, leggja enn fremur ríka áherslu á þessa ábyrgð forstöðumanna (skólameistara). Hún er hluti af gangverki stjórnkerfisins.

Mannauðsmál tekin burt

Mannauðsmál, þ.m.t. ráðningar, launakjör og starfsþróun, eiga að færast til svæðisskrifstofa, gangi umrædd áform eftir. Samkvæmt gildandi lögum er það hins vegar skólameistari sem ræður stjórnendur, kennara og aðra starfsmenn skólans, að höfðu samráði við skólanefnd. Þótt fyrirhugaðar breytingar gætu hugsanlega skapað aukna yfirsýn og samræmi í tilteknum skilningi, draga þær augljóslega úr eðlilegu umboði skólameistara til stjórnunar. Slitin eru tengsl ráðningar og frammistöðu. Hver mun taka ábyrgð á að leysa úr ágreiningi?

Vel má vera að finna megi lausn á öllu ofangreindu. En huga þarf vel að fyrrgreindum sjónarmiðum.

Kostnaður og óvissa

Kerfisbreytingar kalla óhjákvæmilega á mikinn kostnað í upphafi. Nýtt starfsfólk, ný skrifstofurými og innleiðing breytinga eru dæmi um viðfangsefni sem ávallt auka kostnað. Aukinn kostnaður er þó ásættanlegur ef árangur er líklegur. En það eru minni líkur en meiri að nýtt stjórnsýslustig skili betra námi fyrir nemendur framhaldsskóla, sem hlýtur þó að vera lykilatriðið og eina réttlætingin fyrir boðuðum kerfisbreytingum.

Gæði náms í skugganum

Stærstu áskoranir framhaldsskóla felast m.a. í fjölgun þeirra nemenda sem hafa annað móðurmál en íslensku, agaleysi innan skólakerfisins, skorti á skýrum markmiðum, skorti á mælanlegum mælikvörðum og andvaraleysi samfélagsins í menntamálum. Það má með engu móti setja ósanngjarna ábyrgð á stöðu mála á starfsfólk eða stjórnendur menntastofnana. Við höfum einfaldlega verk að vinna sem þjóð. En nýtt stjórnsýslustig er ólíklegt til að bæta árangur nemenda framhaldsskóla. Boðaðar hugmyndir snúast fyrst og fremst um stjórnsýslulega tilfærslu og er í raun eins konar tækniatriði sem varðar miðstýringu, en hefur lítið sem ekkert með gæði að ræða.

Mikilvægi samráðs

Gera má ráð fyrir að umræddar tillögur krefjist víðtæks samráðs. Það er jákvætt að leita samtals og virðingarvert að leitað sé leiða til að bæta slæma stöðu menntakerfisins. Við þurfum að standa okkur betur.

En það er áhyggjuefni ef ætlunin er að leggja svo mikla orku í kerfisbreytingu sem gengur gegn hefðbundnum stjórnunarfræðum, sem er í ósamræmi við meginreglur stjórnsýsluréttar og sem litlar líkur eru á að leiði til bætts árangurs nemenda.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtis fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Deila grein

25/09/2025

Á­skorun til ríkis­stjórnarinnar: Innleiðum birgðaskyldu á elds­neyti

Á Íslandi eru engar kröfur um lágmarksbirgðir eldsneytis. Þetta er alvarlegt mál.

Alþjóðaorkumálastofnunin mælist til að ríki hafi ávallt yfir að ráða 90 daga olíubirgðum. Evrópusambandið leggur slíka kröfu á aðildarríki sín.

Augljósasta viðbragðið við stöðunni í dag

Í dag bólar hins vegar ekki á umbótum þrátt fyrir að óvissa í alþjóðamálum hafi aukist verulega og öryggi og alþjóðasamvinna séu kynnt sem efstu mál ríkisstjórnarinnar. Þetta ætti þó að vera eitt augljósasta og mikilvægasta viðbragð við óvissu í öryggismálum Íslands í dag.

Þjóðaröryggisráð hefur ítrekað fjallað um birgðastöðu eldsneytis og segir m.a. í matskýrslu þeirra frá 2022: Eldsneytismarkaðurinn á Íslandi er rekinn á samkeppnisgrunni þar sem engar kvaðir gilda um að fyrirtækin sem þar starfa viðhaldi lágmarksbirgðum af eldsneyti í landinu. Þannig eru oft takmarkaðar olíubirgðir til innanlands og hafa jafnvel farið niður í nokkurra daga birgðir.

Dýrkeypt að gera ekki neitt

Það blasir við að það felur í sér kostnað að tryggja neyðarbirgðir eldsneytis sem vonandi þarf aldrei að nýta.

Það getur þó líka verið dýrkeypt fyrir eyríkið Ísland að gera ekki neitt því allar okkar samgöngur, landbúnaður, fiskveiðar og millilandasiglingar krefjast eldsneytis. Ef aðfangakeðjur brotna og skortur verður á eldsneyti lamast samfélagið hratt. Það getur tekið allt að sex vikur að bregðast við eftirspurn umfram sveigjanleika birgða sem eru til staðar hverju sinni og hér er ekki gert ráð fyrir mögulegum áhrifum alþjóðlegra átaka.

Fleiri áskoranir geta aukið olíuþörf hratt hér á landi. Eldgosin á Reykjanesi ógnuðu til dæmis hitaveituinnviðum sem hefði getað snögglega aukið þörf á olíukyndingu. Neyðarbirgðir eldsneytis eiga því alltaf við og gildir þá einu hvort allt er með kyrrum kjörum hér heima eða erlendis.

Hvaða leiðir eru í boði?

Neyðarbirgðir eldsneytis eru kostnaðarsamar. Góðu fréttirnar eru að ákveðið birgðapláss er til staðar í landinu, olíufélögin eru öflugir samstarfsaðilar og vinveittir olíuframleiðendur, líkt og Noregur, eru fyrir hendi sömuleiðis. Í þessu ljósi mætti hugsa sér blandaða leið til að tryggja neyðarbirgðir, annars vegar með raunbirgðum sem væru staðsettar á Íslandi og hins vegar með samningum við tiltekin ríki sem virkjaðir væru í neyð. Útfærsla viðbragsðáætlunar væri sömuleiðis nauðsynleg og væntanlega á hendi Almannavarna.

Getur olíuleit á Íslandi eða rafeldsneyti leyst málið?

Getur olíuleit við Ísland eða rafeldsneyti sem framleitt væri hér á landi ekki leyst málið, kann einhver að spyrja? Svarið er fræðilega já. En sá tími sem þarf í að þróa slík verkefni er ekki án óvissu og spannar mörg ár eða áratugi.

Þó er vert að nefna að við erum einstaklega heppin að hafa farið í umhverfisvæna jarðhitaleit og rafvætt okkar samfélag, sem gerir okkur óháð innfluttri orku fyrir húshitun og rafmagn í dag. Áframhaldandi jarðhitaleit sem boðuð hefur verið er dæmi um öryggisverkefni næstu ára sem ber að fagna og það sama á við um orkuskiptaverkefni í víðara samhengi.

Áskorun til ríkisstjórnarinnar: Gangið í málið

Málefni orkuöryggis hafa ekkert með stjórnmál eða stjórnmálaskoðanir að gera. Við verðum að ganga í takt fyrir Ísland. Við verðum að bæta orkuöryggi á óvissutímum með því að innleiða birgðarskyldu á eldsneyti. Slíkt er skynsamlegt viðbragð við aukinni óvissu í alþjóðamálum og með því fylgjum við ráðleggingum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. september 2025.

Categories
Fréttir

Hvers vegna er fjarnám ekki í boði?

Deila grein

25/09/2025

Hvers vegna er fjarnám ekki í boði?

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, gagnrýndi skort á raunhæfu fjarnámsframboði hjá Háskóla Íslands og spurði hvort ríkið hygðist tryggja jafnt aðgengi að námi óháð búsetu. Hún krafðist skýrra svara um lagabreytingar og eyrnamerkingu fjármuna til dreifðari byggða.

„Það er ekki í boði, þetta er svar sem fólk af landsbyggðinni fær þegar það er að sækjast eftir því að komast í fjarnám á ólíkum námsbrautum. Þetta er eitt af því sem var rætt á byggðaþingi ungs fólks á Höfn í Hornafirði nú fyrr í vikunni,“ sagði Halla Hrund og krafðist þess að fjarnám yrði gert að raunveruleika „á öllum námsbrautum, eða þar sem það er hægt, sem er langstærsti hlutinn“.

Halla Hrund vísaði til þess að tæknin væri ekki hindrun eftir faraldur. „Ég hef sjálf kennt úr sama sæti heiman að. Maður getur einfaldlega nýtt tæknina til að streyma kennslu og það á við um nánast allt nám. Hitt er fyrirsláttur,“ sagði Halla Hrund og spurði berum orðum hvort ráðherra hygðist breyta lögum um opinbera háskóla til að tryggja jafnræði í aðgengi og eyrnamerkja hluta fjármuna, m.a. í gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna, til dreifðari byggða.

Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra sagði skilning til staðar á vandanum og nefndi að vinna væri hafin við gerð háskólastefnu í samvinnu við háskólana og rektora. Hann benti á að sjö háskólar störfuðu í landinu, sumir með mikið fjarnám, og að HÍ ynni að samstarfi, m.a. við Hólaskóla og á Austurlandi. Um afdráttarlausar aðgerðir lét ráðherra þó lítið uppi.

„Við höfum ekki tíma og þessi samfélög sem við erum að tala um stóran hluta landsins okkar, fólk alls staðar að, hafa ekki tíma til að bíða eftir nýrri stefnu. Tæknin er til staðar,“ sagði Halla Hrund.