Categories
Fréttir

Það þarf átak í íslenskukennslu og endurskoðun kennaranáms

Deila grein

10/10/2025

Það þarf átak í íslenskukennslu og endurskoðun kennaranáms

„Ég held að við getum öll verið sammála því að menntakerfið sé einn af hornsteinum samfélagsins og lykillinn að farsæld komandi kynslóða, en í dag stöndum við á krossgötum,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, í sérstakri umræðu á Alþingi um menntamál þar sem mennta- og barnamálaráðherra var til andsvara.

Ingibjörg lagði áherslu á í ræðu sinni að skólakerfið hefði ekki fylgt nægilega hröðum samfélagsbreytingum og sagði þörf á „nýrri hugsun, nýrri nálgun, samstöðu og hugrekki“ til að ráðast í raunverulegar umbætur.

Ingibjörg nefndi fjórar megináskoranir í leik- og grunnskólum: versnandi íslenskukunnáttu barna, skort á fagmenntuðum kennurum, skort á stoðþjónustu og viðeigandi námsefni fyrir börn með fjölbreyttar þarfir.

„Umfram allt verðum við að tryggja að allir sem búa hér læri íslensku,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að læsi væri lykillinn að framförum í námi.

Krefst markvissari íslenskukennslu og skýrari krafna

Ingibjörg sagði að sífellt stærri hópur barna hefði annað móðurmál en íslensku. Það væri bæði tækifæri og áskorun. Hún hvatti til þess að efla kennslu í íslensku sem öðru máli og tryggja aðgengi að námsefni og stuðningi, jafnvel með því að gera kröfur um tiltekna grunnþekkingu áður en börn væru sett í almennan bekk. „Ef börnin skilja ekki kennarann sinn og bekkjarfélaga þá ná þau litlum sem engum árangri.“

Kennaraskortur og starfsumhverfi undir pressu

Ingibjörg vísaði til þess að um 20% kennara í íslenskum skólum væru án fullrar fagmenntunar og að stór hluti kenndi fög sem væru ekki hluti af eigin menntun. Yngri kennarar teldu sig verr undirbúna en áður, samkvæmt alþjóðlegri TALIS-könnun. „Við þurfum að gera kennarastarfið aðlaðandi aftur,“ sagði hún og nefndi skýrari starfsþróun, betra starfsumhverfi og raunhæft svigrúm kennara til að „sinna barninu sjálfu“ svo starfsævin yrði löng og farsæl.

„Skóli án aðgreiningar“ þarf raunhæfan stuðning

Ingibjörg vék að hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar og spurði hvort hún stæðist í framkvæmd. Fjöldi barna er ekki að fá þann stuðning sem þau þyrftu og kennara bera of mikla ábyrgð á verkefnum sem féllu jafnvel utan verksviðs þeirra. Samkvæmt nýrri skýrslu ráðuneytisins þyrftu yfir 120 börn á sérhæfðum úrræðum að halda á hverjum tíma og um 30% nemenda fengju einhverja sérkennslu. Ingibjörg benti einnig á að sum börn hefðu ekki fengið pláss í sérdeildum á síðasta ári og að dæmi séu um börn sem hefðu verið án skóla í allt að tvö ár. „Þetta er staða sem er algerlega óásættanleg,“ sagði Ingibjörg og undirstrikaði að skólaskylda legði ríkar skyldur á yfirvöld um að útvega úrræði og pláss „svo allir geti fengið nám við hæfi“.

Kallar eftir gagnsæju námsmati

Að lokum sagði Ingibjörg að foreldrar vildu skýrari mynd af námsstöðu barna sinna. Hún vísaði til könnunar Maskínu þar sem 81% landsmanna vildu að tölueinkunnir héldu áfram að vera hluti námsmats. „Þetta kallar á gagnsæi og aukinn skýrleika,“ sagði Ingibjörg og spurði hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að gera einkunnagjöf skýrari samhliða vandaðri endurgjöf.

Ingibjörg beindi þremur spurningum beint til mennta- og barnamálaráðherra:

1. hvort endurskoða ætti samsetningu kennaranáms miðað við stöðuna,

2. hvort ráðist yrði í aukið fjármagn til íslensku- og lestrarkennslu og

3. hver væru næstu skref stjórnvalda í umbótum menntakerfisins.

Categories
Fréttir

Óverðtryggð húsnæðislán í brennidepli: „Sleggjan virkar ekki á verðbólguna“

Deila grein

10/10/2025

Óverðtryggð húsnæðislán í brennidepli: „Sleggjan virkar ekki á verðbólguna“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi aðgerðir stjórnvalda í baráttunni við verðbólgu og vexti og sagði svokallaða „sleggju“ forsætisráðherra í aðdraganda kosninga ekki hafa borið árangur. Sigurður Ingi hvatti Seðlabankann til að endurskoða íþyngjandi skilyrði sem sett hafi verið á fyrstu kaupendur og ungt fólk, og lagði áherslu á að draga kerfisbundið úr vægi verðtryggingar á húsnæðislánum.

Kallar á óverðtryggð, löng föst lán

Sigurður Ingi vísaði til þingsályktunartillögu sem hann mælti fyrir á dögum. Tillagan felur í sér áskorun til ríkisstjórnarinnar og fjármála- og efnahagsráðherra um að skoða greinargerð sem hann lét vinna um innleiðingu óverðtryggðra, langra lána með föstum vöxtum, líkt og tíðkast í nágrannalöndum á borð við Danmörku. Markmiðið væri að „taka gríðarlega stór skref“ til að minnka vægi verðtryggingarinnar og að hún hyrfi að lokum úr íslensku fjármálakerfi og samfélagi.

Áhyggjur af fyrstu kaupendum

Sigurður Ingi tók undir áhyggjur af stöðu ungs fólks á húsnæðismarkaði og benti á að peningastefnan væri hægvirk þegar stór hluti lána væri verðtryggður. Hann sagði að jafnvel seðlabankastjóri hefði lýst yfir áhyggjum af stöðu fyrstu kaupenda og að skilyrðin sem þeim hefðu verið sett gætu þurft endurskoðunar við.

Kallar eftir skýrum svörum

Sigurður Ingi sagði að Framsókn hefði árum saman unnið að því að draga úr vægi verðtryggingar og minnti á að flokkur innan ríkisstjórnar hefði lofað í kosningabaráttu að skoða danska fyrirkomulagið. Sigurður Ingi kvaðst vilja heyra viðbrögð fjármála- og efnahagsráðherra og ríkisstjórnarinnar við framlagðri tillögu, sem fór í gegnum fyrri umræðu á Alþingi á dögum.

Categories
Fréttir Greinar

Varðmenn landsins

Deila grein

09/10/2025

Varðmenn landsins

Þegar við fjölskyldan bjuggum í Boston biðum við alltaf spennt eftir því að íslenska lambið kæmi í verslanir. Þá buðum við gjarnan erlendum gestum í mat til þess að njóta þess saman. Í búðinni kom þó ætíð á óvart að sjá að lambið var nánast ósýnilegt í kjötborðinu. Á meðan rokseldist norski eldislaxinn í næsta rekka í myndskreyttum hátíðlegum konfektkössum.

Bragðið af lambinu sveik þó engan og viðbrögð gesta sannfærðu mig að hægt er að selja alla okkar framleiðslu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir tækifæri sauðfjárbúskapur á undanhaldi. Safnið í réttum landsins hefur skroppið saman í minni sveit og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun um allt land.

Á afrétt spurði ég efnilegt búmannsefni af hverju hann hafði ekki gerst bóndi og fljótt færðist samtalið að háu jarðaverði og slakri afkomu. Hér þarf að efla skilning á því að það að ungt fólk geti ekki hafið búskap er ekki bara leiðinlegar fréttir fyrir hæfileikaríka einstaklinga eða fjölskyldur. Það er afdrifarík niðurstaða fyrir samfélagið okkar. Til langs tíma. Við þurfum að víkka linsuna og fá alla til að hugleiða: Hvað þýðir minna safn, veikari landbúnaður, fyrir Ísland?

Á undanförnum árum hefur fólki hér á landi fjölgað um fimmtíuþúsund og fjöldi ferðamanna vaxið sömuleiðis. Því er lykil spurning: Ætlum við að fæða samfélagið eða láta innflutning taka yfir? Það hlýtur einnig að vera auðséð í viðsjáverðum heimi þurfa sveitir landsins að vera í sókn. Milljarða viðbótarfjárfesting í öryggismálum í nýjum fjárlögum ætti að horfa til innviðafjárfestingar í landbúnaði.

Auk matvælaöryggis er landbúnaður mikilvægur fyrir heilsu okkar og atvinnulíf. Ferðamenn koma ekki hingað fyrir innfluttan kjúkling og kókópöffs: Þeir vilja sjá blómlegar sveitir og njóta heilnæmra afurða sem við eigum á heimsmælikvarða. Öflugur ferðaþjónusta hvílir til langs tíma á kröftugum landbúnaði.

Bændur gæta þannig að jafnvægi ólíkra nytja og okkar einstöku náttúru. Þeir þekkja landið líka eins og lófan sinn, ekki síst í gegnum sauðfjárbúskap sem kallar á samvinnu bæði á bæ og fjalli. Hugsunin þeirra að skilja vel við heimkynnin fyrir komandi kynslóðir er bændum eðlislæg og er langtímasýn sem er samfélagi okkar afar dýrmæt.

Með veikum landbúnaði er einmitt hætt við að fjárfestar éti upp landið. Sala auðlinda vatns, jarðefna og jarðhita til erlendra aðila í gegnum jarðasölu er að mörgu leiti til komin vegna krefjandi stöðu bænda. Án öflugra bænda, rennur landið úr greipum okkar og auðlindirnar með. Hægt og bítandi, jörð fyrir jörð.

Að grafa undan bændasamfélögum veikir jafnframt griðarstað menningar okkar, tungu og hefða; þess sem er ekta eða þar sem rætur okkar hvíla. Slíkar rætur eru akkeri á tímum þar sem margt falskt tröllríðum miðlum. Ef við töpum því sem er ekta þá töpum við smátt og smátt sjálfum okkur sem þjóð.

Í stuttu máli sýnir víða linsan okkur, fólkinu í landinu, að bændur vernda fæðuöryggi okkar og heilbirgði. Þeir varðveita menningu okkar, náttúru og nytjar. Þeir eru fjölskyldufyrirtækin sem styrkja samfélög um allt land. Þeir eru samvinnan og seiglan sem við búum að á ögurstundum. Bændur eru einfaldlega varðmenn landsins. Án öflugra bænda raknar annað upp – allt frá öryggi yfir í menningu og atvinnuþróun.

Við þurfum nýja framtíðarsýn sem kemur lambinu í konfektkassana og bæði breikkar og stækkar tækifærin; nýja gullöld. Til þess duga engin vettlingatök. Hér þarf að horfa á endurskoðun tolla, fjárfestingar, raforkumál, aðkomu ríkis í nýliðun, nýsköpun, markaðssókn og margt fleira. Þessir sameiginlegu hagsmunir okkar Íslendinga verðskulda ekki átök, hvorki innan þings né utan. Berjumst saman í landsleik landbúnaðarins; til sigurs.

Stækkum safnið með varðmönnum landsins. Fyrir okkur öll.

Halla Hrund Logadóttir, alþingismsaður.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Námslánakerfið – stuðningur eða skuldagildra?

Deila grein

09/10/2025

Námslánakerfið – stuðningur eða skuldagildra?

Námslán á Íslandi hafa lengi verið kynnt sem leið til að tryggja jafnan rétt allra til menntunar, óháð félagslegri stöðu og efnahag. Þessi hugmyndafræði hefur verið meginröksemd fyrir tilvist kerfisins, þó að hægt sé að deila um hversu vel það hafi tekist í framkvæmd.

Fyrir þá sem tóku G-lán fyrir 2010 og H-lán á árunum 2010-2019 er veruleikinn sá að í stað þess að vera stuðningur til náms hefur lánið orðið að lífstíðarbyrði.

Lán hafa, þrátt fyrir áratugalanga niðurgreiðslu, vaxið upp í hærri skuldir en upphaflega voru teknar. Ástæðan er verðtryggingin, sem tryggir að höfuðstóll hækkar í takt við verðbólgu. Einstaklingur sem tók tvö G-lán, upphafleg fjárhæð 4.388.705 og 3.234.098, alls 7.622.803, skuldar í dag 8.330.052 þrátt fyrir að hafa greitt af þessum lánum í 12 ár og er þetta því miður ekki einsdæmi.

Þetta er kerfisleg ósanngirni. Þeir sem tóku lán í gamla kerfinu sitja fastir í skuldafeni á meðan nýtt lánakerfi, sem tók gildi 2020, býður upp á óverðtryggð lán með föstum vöxtum og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði. Það er gott skref, en það nær aðeins til nýrra lána.

Eldri lánþegar sitja eftir, bundnir við úrelta skilmála sem gera lítið annað en að tryggja að skuldir hækki áfram. Þessir lánþegar sitja eftir í verðtryggingarvítahringnum. Þetta gengur þvert gegn þeim tilgangi sem lánin eiga að þjóna. Eldri lán ættu að fá að fylgja nýjum reglum, svo lánþegar sem þegar hafa lagt sitt af mörkum til samfélagsins í gegnum menntun og vinnu geti átt raunhæfan möguleika á að greiða niður sínar skuldir eins og nýir lánþegar.

Menntun er fjárfesting fyrir allt samfélagið, hún á ekki að vera fjármálalegt fangelsi. Ef stjórnvöld vilja standa undir þeim gildum sem námslánakerfið var upphaflega byggt á, þá er nauðsynlegt að gera breytingar núna og tryggja að sanngirni ráði ríkjum, óháð því hvenær lánin voru tekin. Ég hvet ríkisstjórnina til að endurskoða þetta strax og gera nauðsynlegar breytingar til að gefa öllum þeim sem hafa tekið námslán kost á að sitja við sama niðurgreiðsluborð.

Díana Hilmarsdóttir, G-lántakandi og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fögur fyrir­heit sem urðu að engu

Deila grein

09/10/2025

Fögur fyrir­heit sem urðu að engu

Þegar hæstvirtur atvinnuvegaráðherra, Hanna Katrín Friðriksson, lagði upp í metnaðarfulla hringferð með Bændasamtökunum síðastliðið vor hugsaði ég með mér að þarna væri ráðherra sem ætlaði að rækta gott samtal við bændastéttina. Þetta fannst mér gefa góð fyrirheit fyrir það sem koma skyldi í málefnum landbúnaðarins á þessu kjörtímabili.

Áður en að þessu kom ritaði Hanna Katrín grein sem birtist á vef Bændablaðsins í byrjun febrúar, þá ný tekin við málefnum landbúnaðarins sem atvinnuvegaráðherra. Þar sagði hún meðal annars svo frá “Það er mér bæði heiður og ánægja að sinna þessum mikilvæga málaflokki og vinna með ykkur að því að tryggja framtíð íslensks landbúnaðar.”

Það verður ekki annað sagt en að þessi fögru fyrirheit um samvinnu og samtal við bændastéttina hafi nú algjörlega fokið út um gluggann með framlögðum drögum að frumvarpi að nýjum búvörulögum.

Innihald frumvarpsins er eitt en vinnubrögð hæstvirts atvinnuvegaráðherra í þessu máli er svo allt annað mál. Sama hvað fólki kann að finnast um innihald draga að frumvarpi að nýjum búvörulögum, þá verður ekki annað sagt en að sú staðreynd að algjörlega sé gengið fram hjá Bændasamtökunum við vinnslu frumvarpsins er algjörlega óskiljanlegt. Samráð og samvinna sem ítrekað var búið að lofa eins og kom fram í yfirlýsingu stjórnar Bændasamtakanna á dögunum.

Sú staðreynd að ráðherra ákveði að ganga svona til verka þykir mér verulega umhugsunarvert. Með því að leita til bændastéttarinnar við vinnslu frumvarpsins hefði verið hægt að koma í veg fyrir þau miklu og hörðu viðbrögð sem komið hafa við frumvarpinu undanfarna daga. Hér leikur ráðherra sér að því að skapa glundroða og óánægju sem hefði með lítilli fyrirhöfn verið hægt að koma í veg fyrir með vönduðum vinnubrögðum.

Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson, situr í stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 9. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sterkt atvinnulíf er grunnur velferðar

Deila grein

09/10/2025

Sterkt atvinnulíf er grunnur velferðar

Þegar vel gengur í landbúnaði, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, undirstöðuatvinnugreinum landsbyggðarinnar, þá styrkist íslenskt samfélag í heild. Þessar greinar eru burðarásar í efnahagslífi þjóðarinnar og skapa grundvöll að velferð, verðmætasköpun og sjálfbærni. Ríkissjóður býr ekki til peninga; það gerir fólkið og fyrirtækin sem halda hjólum efnahagslífsins gangandi um allt land.

Brú milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis

Oft er látið að því liggja að hagsmunir landsbyggðar og höfuðborgar fari ekki saman. Sú hugsun er röng. Þvert á móti þarf að byggja trausta brú milli svæðanna þar sem vöxtur og velgengni dreifist um landið. Þegar undirstöðuatvinnugreinarnar dafna á landsbyggðinni nýtur höfuðborgarsvæðið góðs af. Þetta er samverkandi hringrás sem styrkir íslenskt samfélag.

Þrátt fyrir þetta virðist stefna stjórnvalda í garð undirstöðuatvinnugreina í mörgu endurspegla takmarkaðan skilning á mikilvægi þeirra fyrir efnahagslífið í heild. Þegar ákvarðanir eru teknar án fulls skilnings á rekstrarskilyrðum greina sem halda landinu gangandi – til dæmis með hækkun skatta og gjalda, auknu regluverki og óstöðugum ákvarðanatökum – þá veikist samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Ríkisstjórnin á að stuðla að stöðugleika og skynsamlegu starfsumhverfi fyrir atvinnulífið, en of oft hefur breytingum verið hrint í framkvæmd án raunverulegs samráðs og í miklum flýti. Mikilvægast er að skapa rekstrarumhverfi sem er stöðugt og byggist á sanngjörnum forsendum.

Hátt atvinnustig er okkar styrkleiki

Hátt atvinnustig hefur verið eitt af aðalsmerkjum íslensks samfélags. Í mörgum Evrópulöndum hefur atvinnuleysi, einkum meðal ungs fólks, verið þrálátt vandamál um áratugaskeið. Slíkar aðstæður hafa djúpstæð áhrif á einstaklinga og samfélög og geta grafið undan von og trú á framtíðina.

Við höfum notið hárrar atvinnuþátttöku og stöðugleika á vinnumarkaði, en það er ekki sjálfgefið. Að undanförnu höfum við því miður séð störf tapast og atvinnuleysi aukast. Það að hafa vinnu gefur fólki öryggi, sjálfstæði og virðingu. Að missa vinnuna er oft mikið áfall og því ber okkur að sýna skilning og samstöðu með þeim sem standa frammi fyrir slíkum aðstæðum. Við verðum að skapa tækifæri til atvinnu í öllum landshlutum og tryggja að hver og einn geti lifað og starfað þar sem hann kýs, með reisn.

Sterkt samfélag byggist á jafnvægi milli svæða, atvinnugreina og fólks. Við höfum öll hag af því að undirstöðuatvinnugreinar landsbyggðarinnar fái að dafna, því þegar þeim gengur vel, gengur þjóðinni vel.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. október 2025.

Categories
Fréttir

Jöfnun raforkukostnaðar: „Réttlætismál að allir sitji við sama borð“

Deila grein

08/10/2025

Jöfnun raforkukostnaðar: „Réttlætismál að allir sitji við sama borð“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, lagði áherslu á í störfum þingsins á Alþingi að ljúka jöfnun á dreifikostnaði raforku um land allt. Hann lýsti málinu sem „réttlætismáli“ og sagði eðlilegt að heimili og fyrirtæki, óháð búsetu, stæðu jafnfætis í grunnkostnaði vegna raforku.

„Að mínu mati er hér um réttlætismál að ræða, að allir íbúar landsins sitji við sama borð er kemur að kostnaði heimila eða fyrirtækja vegna raforku,“ sagði Stefán Vagn. „Fyrir okkur á landsbyggðinni, sem höfum verið að berjast fyrir uppbyggingu og öflugu atvinnulífi, er þetta einn af þeim þáttum sem skipta miklu máli.“

Stefán Vagn rifjaði upp að Alþingi hafi árið 2004 samþykkt lög um jöfnun kostnaðar við dreifingu raforku. Markmið laganna væri að mæta hærri kostnaði í dreifbýli með sérstökum jöfnunargjaldi sem rynni í gegnum dreifiveiturnar. Þrátt fyrir það hefði misræmið haldið áfram að vaxa og full jöfnun ekki náðst.

„Kostnaður við dreifingu raforku er mismikill í dreifbýli og þéttbýli og hefur farið vaxandi,“ sagði hann og bætti við að fjármunum úr jöfnunarkerfinu væri skipt í hlutfalli við notkun og kostnað dreifiveitna, en að það nægði ekki til að brúa bilið að fullu.

Hvað kostar að ljúka jöfnun?

Stefán Vagn nefndi og vísaði til að tæplega 420 kr. hækkun á mánaðarreikningi heimila á höfuðborgarsvæðinu nægja til að jafna leikinn.

„Til þess að ná fullri jöfnun þarf að hækka orkureikninga íbúa á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 420 kr. á mánuði. Þá standa íbúar alls landsins jafnfætis þegar kemur að kostnaði vegna nýtingar okkar sameiginlegu auðlinda og innviða.“

„Þetta er sanngirnismál sem við hljótum að vera sammála um að leysa.“

Categories
Fréttir

Mótsagnir í áformum um rekstur framhaldsskóla

Deila grein

08/10/2025

Mótsagnir í áformum um rekstur framhaldsskóla

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi í störfum þingsins ný áform mennta- og barnamálaráðherra um að setja á laggirnar fjórar til sex svæðisskrifstofur sem taki yfir rekstrartengd verkefni framhaldsskóla. Þessi áform ganga gegn frumvarpi ráðherrans sjálfs sem veiti skólum víðtækar heimildir til samstarfssamninga um stoðþjónustu og rekstur.

Svæðisskrifstofurnar eiga að yfirtaka verkefni á borð við rekstur, mannauðsmál og stoðþjónustu. Á vef ráðuneytisins sé jafnframt rökstutt að sameining stjórnsýslu tryggi „betri þjónustu og markvissari stjórnsýslu“ á sama tíma og skólarnir haldi sérstöðu sinni og nafni.

„Þetta þýðir með öðrum orðum að stjórnendur framhaldsskóla missa umboð sitt til að taka ákvarðanir og gera samninga,“ sagði Ingibjörg og bætti við að slíkt jafngilti því að „leggja til nýtt stjórnsýslustig“.

Ráðherrann hefur mælt fyrir frumvarpi sem veitti framhaldsskólum víðtækar heimildir til að gera samstarfssamninga um rekstrartengd mál og stoðþjónustu, svo sem fjármál, bókhald, laun, mannauð, upplýsingakerfi, innkaup, húsnæði og stjórnsýslu.

„Hér er verið að leggja til að skólar fái frekari heimildir til að gera samninga og bæta rekstur sinn á sama tíma og verið er að taka hlutverkið af þeim annars staðar.“

Ingibjörg segir að svör ráðherrans í gær hafa komið á óvart, þar sem hann hefði fullyrt að engin tengsl væru á milli frumvarpsins um samstarfssamninga og áforma um svæðisskrifstofur.

„Á sama tíma og ráðherra vill auka sjálfstæði framhaldsskóla … eru í gangi áform um að færa einmitt þau málefni … undir svæðisskrifstofur,“ sagði Ingibjörg og vísaði til þess að þetta kæmi fram í gögnum ráðuneytisins sjálfs. „Þrátt fyrir þetta fullyrti ráðherra í gær að það ætti ekki að færa rekstur framhaldsskóla yfir til svæðisskrifstofa, þrátt fyrir að það standi skýrum stöfum á vef Stjórnarráðsins.“

Ingibjörg sagði eðlilegt að Alþingi gerði athugasemdir þegar „boðuð stefnumótun stjórnvalda er hvorki samrýmd né skiljanleg“ og spurði hver væri framtíðarsýnin í málaflokknum.

Categories
Fréttir Greinar

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Deila grein

07/10/2025

Geðheilbrigðismál – það þarf aðgerðir, ekki innantóm orð

Við stöndum frammi fyrir risastóru samfélagslegu máli: stöðu geðheilbrigðismála á Íslandi. Ætlum við að halda áfram að benda hvert á annað – sveitarfélögin, heilbrigðiskerfið, fyrri ríkisstjórnir, núverandi ríkisstjórn, hinn og þennan ráðherra eða ráðamann– eða ætlum við að taka höndum saman og skapa raunverulega þjónustu sem bjargar mannslífum?

Fréttir af sjálfsvígum, alvarlegri vanlíðan, áhættuhegðun og ofbeldisbrotum, sem rekja má að miklu leyti til vanrækslu á geðheilbrigðisþjónustu og úrræðaleysi, eru að verða daglegt brauð á samfélagsmiðlum. Rannsóknir hafa sýnt og sannað að skortur á geðheilbrigðisþjónustu og sálfræðiþjónustu, ónógur stuðningur í skólum og alltof langir biðlistar hafa afdrifaríkar afleiðingar.

Árið 2023 voru 47 sjálfsvíg á Íslandi, sem jafngildir um 12,4 á hverja 100.000 íbúa. Fyrstu sex mánuði ársins 2024 voru skráð 22 sjálfsvíg. Þetta eru ekki bara tölur – þetta eru einstaklingar, fjölskyldur og samfélög í sorg.

Staðan hjá börnum er sérstaklega sláandi: Í ágúst 2024 biðu 2.020 börn eftir þjónustu hjá Geðheilsumiðstöð barna, samanborið við 738 börn í desember 2021. Tilvísanir hafa nær tvöfaldast á tveimur árum og meðalbiðtími er allt að 12–24 mánuðir. Á þessum tíma gætu börnin verið án nauðsynlegrar hjálpar. Starfsemi geðdeilda og sú vinna sem þar fer fram er oftast góð, en biðin og sá fjölþætti vandi sem við stöndum frammi fyrir kallar á fjölbreyttari úrræði sem geðdeildir hafa því miður ekki upp á að bjóða í dag.

Ísland kallar sig velferðarsamfélag – þá verðum við líka að haga okkur sem slíkt.      

    Það þarf að:

  • Fjármagna aðgerðir sem stytta biðlista.
  • Tryggja snemmtæka íhlutun og sálfræðiaðstoð í skólum.
  • Auka aðgengi að þjónustu óháð efnahag eða búsetu.

Ísland stærir sig af því að vera velferðarsamfélag. Förum að haga okkur þannig og gera ráðstafanir til þess að geta staðið undir því. Það er svo mikilvægt að vera með snemmtækar íhlutanir, að geta brugðist við áður en það er orðið of seint, áður en einstaklingurinn er kominn of langt, á verri stað sem getur haft svo afdrifaríkar afleiðingar á einstaklinginn, fjölskyldu hans og samfélagið. Skólakerfið hefur öskrað á hjálp, velferðarkerfið hefur öskrað á hjálp, heilbrigðiskerfið hefur öskrað á hjálp, foreldrar hafa öskrað á hjálp, börn, ungmenni og fullorðnir hafa öskrað á hjálp.

Þingsályktun um geðheilbrigðisþjónustu til 2030 var samþykkt árið 2022 og setur fram góða framtíðarsýn. En stefnur einar og sér bjarga engum – það þarf raunverulegt plan, fjármagn og framkvæmd.

Við getum breytt þessu. Aðgerðir í dag kosta minna en aðgerðaleysi á morgun. Stöndum saman og tryggjum öllum aðgang að nauðsynlegri geðheilbrigðisþjónustu.

Alþjóðlegi geðheilbrigðisdagurinn er haldinn 10.október ár hvert og er hann tileinkaður vitund, fræðslu og umræðu um geðheilbrigði um allan heim. Ég vill hvetja alla til að klæðast grænu þennan dag sem táknar von, endurnýjun, jafnvægi, stuðning og samstöðu.

Díana Hilmarsdóttir, forstöðumaður Bjargarinnar geðræktarmiðstöðvar Suðurnesja og bæjarfulltrúi Framsóknar í Reykjanesbæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 7. október 2025.

Categories
Fréttir

Háir vextir vinna gegn nýsköpun

Deila grein

07/10/2025

Háir vextir vinna gegn nýsköpun

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, varaði við því í störfum þingsins að háir vextir væru farnir að vinna gegn markmiðum um eðlilegan hagvöxt, nýsköpun og framþróun. Þórarinn Ingi sagði að flest bendi til þess að Seðlabankinn lækki ekki vexti þegar peningastefnunefnd bankans tekur næstu ákvörðun á morgun, miðvikudag 8. október.

„Fyrirtæki bíða með að þróa nýjar lausnir og fresta tækjakaupum. Frumkvöðlar taka litla sem enga áhættu,“ sagði Þórarinn Ingi og bætti við að lítil og meðalstór fyrirtæki greiði nú „allt að 11% vexti“ af fimm ára lánum. Að hans mati leiti fyrirtæki í vaxandi mæli í verðtryggð lán „rétt eins og almenningur“, sem hann sagði merki um þunga vaxtabyrði.

Landbúnaður og sjávarútvegur undir álagi

Þórarinn Ingi nefndi sérstaklega landbúnað, matvælaframleiðslu og sjávarútveg sem greinar sem þegar glími við hærri aðfanga- og launakostnað, auk óvissu um eftirspurn og afkomu. „Þegar vextir haldast svo háir til lengri tíma hverfa fjárfestingar eins og dögg fyrir sólu.“

Til að undirstrika áhrifin vísaði þingmaðurinn í dæmi: Óverðtryggt 15 milljóna króna lán til fimm ára geti í dag borið tæplega 1,3-1,5 milljónir króna í árlega vexti. „Hver getur tekið slíka áhættu?“

Kallar eftir þverpólitískri sátt

Í lok ræðunnar hvatti Þórarinn Ingi til þess að nýsköpun hægði ekki á „út árið 2026“ og lagði til að komandi fjárlagaumræða snerist um þverpólitíska sátt um hallalaus fjárlög fyrir árið 2026. „Það er kominn tími til,“ sagði hann að lokum.