Categories
Fréttir

Heimilin herða sultarólina en ríkið gerir allt annað

Deila grein

04/12/2025

Heimilin herða sultarólina en ríkið gerir allt annað

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi spurningu til forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi um svokallaðar hagræðingaraðgerðir ríkisstjórnarinnar. Hann sagði ljóst að heimili og fyrirtæki um land allt væru löngu byrjuð að herða sultarólina meðan ríkið héldi áfram að auka útgjöld sín langt umfram verðbólgu.

Sigurður Ingi minnti á að stærsta verkefni stjórnvalda um þessar mundir væri að lækka verðbólgu og vexti fyrir skuldug heimili og fyrirtæki, „fyrir alla sem finna fyrir þrengri kjörum“. Hann benti á að heimili og atvinnulíf væru þegar að hagræða, fresta framkvæmdum og forgangsraða vegna vaxtabyrðar og endurtekinna skattahækkana af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Á sama tíma hafi ríkissjóður hins vegar valið allt aðra leið. Aukning fjárlaga milli ára nemi 125 milljörðum króna og við það hafi meiri hluti fjárlaganefndar bætt 18 milljörðum til viðbótar. „Þetta gera 143 milljarða aukningu á milli ára af um 1.600 milljarða veltu,“ sagði Sigurður Ingi og benti á að þetta jafngilti um 9% útgjaldaaukningu á milli ára á meðan verðbólga væri um 4%. „En það sést ekki í fjárlagagerð ríkisstjórnarinnar að hún sé að hagræða.“

Almenn aðhaldskrafa í rekstri ríkisins sé einungis 1%, sem Sigurður Ingi kallaði „aðeins 1%“ í ljósi þess hve útgjöld hækkuðu mikið. Hann lagði áherslu á að Framsókn væri ekki að kalla eftir blóraböggulshugsun eða blóðugum niðurskurði í velferðarkerfinu, heldur markvissri hagræðingu þar sem hún væri raunhæf: í stoðrekstri, innkaupum, ráðgjöf, húsnæði og verkefnum sem mætti fresta án þess að skerða þjónustu við fólk.

„Einmitt þegar ríkisvaldið á að senda skýr skilaboð um aðhald gerist hið gagnstæða,“ sagði Sigurður Ingi og vísaði til þess að útgjöld ríkisins hefðu hækkað verulega nú þegar Seðlabankinn hafi skýrt látið að því liggja að næstu skref í vaxtalækkunum velti á því að verðbólga færist nær markmiði. Gegnir ríkið þar lykilhlutverki með ábyrgri fjárlagagerð.

Sigurður Ingi spurði forsætisráðherra beint hvers vegna aðhaldskrafan væri ekki meiri, til dæmis 2%, á meðan heimili og fyrirtæki væru neydd til að hagræða af nauðsyn. Þá gagnrýndi hann sérstaklega að útgjöld hefðu hækkað um 18 milljarða milli umræðna um fjárlög á Alþingi og spurði hvernig það samræmdist yfirlýstum markmiðum um aðhald.

Að lokum vakti hann athygli á því að tekjuáætlanir fjárlaganna byggðust að verulegu leyti á forsendum sem væru „bersýnilega mjög viðkvæmar“ fyrir markaðsviðbrögðum, ekki síst í tengslum við vörugjöld af bifreiðum. Sú tekjuöflun muni að hans mati vart skila sér í ríkissjóð á næsta ári eins og ríkisstjórnin teikni upp í fjárlögum.

Með gagnrýninni dró formaður Framsóknar skýrar línur milli þess aga sem heimilin og atvinnulífið eru neydd til að gera og þess rúma svigrúms sem ríkisstjórnin leyfi sér í eigin rekstri.

Categories
Fréttir

„Digurbarkalegar lýsingar munu ekki eldast vel“

Deila grein

04/12/2025

„Digurbarkalegar lýsingar munu ekki eldast vel“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega í óundirbúinni fyrirspurn á Alþingi að ný samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar sé kynnt með stórkallalegum yfirlýsingum um að „ræsa vélarnar“ og „rjúfa kyrrstöðu“ í jarðgangagerð, á sama tíma og verið sé að tefja nauðsynlegar framkvæmdir og hunsa bæði faglegt mat og vilja heimamanna fyrir austan.

Ingibjörg segir í raun aðeins verið að „kasta ryki í augu almennings og farið með ansi digurbarkalegar lýsingar sem munu því miður sumar hverjar ekki eldast vel.“ Hún bendir á að um 600 milljónir króna hafi þegar verið varið í undirbúning Fjarðarheiðarganga, en nú sé þeirri vinnu hent út fyrir borð og verkefnið sett til hliðar. „Það er verið að hunsa vilja kjörinna fulltrúa sem hafa sammælst milli sveitarfélaga fyrir austan um þessa framkvæmd. Það er verið að hunsa vilja íbúa og samþykkt svæðisskipulag,“ sagði Ingibjörg og bendir jafnframt á að skýrslur frá Háskólanum á Akureyri og KPMG, unnar af fagfólki, séu lagðar til hliðar án þess að innihald þeirra verði virt.

Að hennar mati hefur ekki verið metið á faglegan hátt hvað sé hagkvæmast og mikilvægt fyrir fjórðunginn. Þrátt fyrir það sé málið ekki einu sinni sett í samráðsgátt stjórnvalda. „Þetta er einfaldlega pólitísk ákvörðun,“ segir Ingibjörg, og varar við því að í raun sé verið að fresta borun gangna um allt að þrjú ár, jafnvel lengur, þvert á það sem látið sé í veðri vaka í kynningum ráðherra.

Ingibjörg bendir á að hægt væri að hefja borun strax ef vilji væri fyrir hendi. „Það eru ein göng sem eru tilbúin og búin að fá þinglega meðferð. Þetta snýst um vilja,“ segir hún og nefnir þar Fjarðarheiðargöng. Þá gerir hún einnig að umtalsefni að áfram verði dregið að halda af krafti áfram með Fljótagöng sem hún segir vera gríðarlega mikilvæga framkvæmd fyrir svæðið og öryggi íbúa.

„Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort landsmenn megi þá í rauninni núna reikna með því að á fjögurra ára fresti komi ný ríkisstjórn og hún stöðvi allan undirbúning framkvæmda og breyti algerlega forgangsröðuninni. Eru hugsanlega einhver áform uppi hjá ríkisstjórninni um að breyta ferli samgönguáætlunar? Er þetta eitthvert verkfæri sem sveitarfélög og íbúar í landinu geta treyst áfram eða á að gera breytingar á þessu? Þetta setur eflaust strik í reikninginn varðandi traust á framhaldinu á framkvæmdum hér í landinu.“

Categories
Fréttir Greinar

Ríkis­stjórnin bregst fólkinu í landinu

Deila grein

04/12/2025

Ríkis­stjórnin bregst fólkinu í landinu

Áróðursdeild ríkisstjórnarinnar situr ekki auðum höndum. Á liðnum dögum og vikum hefur birst nokkur fjöldi greina forvígismanna ríkisstjórnarinnar þar sem gerð er tilraun til að draga upp glansmynd af þessu fyrsta ári nýrrar ríkisstjórnar. Þeim til hróss verður að nefna að þau eru nokkuð lunkin í að draga upp myndir. Myndir sem eru ekki endilega í samræmi við viðurkennd gögn eða raunveruleikann, en þessi mikilvæga færni tryggði þeim glæsilega kosningu, sæti í ríkisstjórn og völd.

Óhóf og skattahækkanir

Þegar horft er yfir verkin á þessu fyrsta ári kemur í ljós óþægileg staðreynd. Stjórnin hefur brugðist loforðum sínum um hófsemi í skattheimtu og ráðdeild í ríkisrekstri. Í stað aðhalds og trúverðugrar stefnu í fjármálum eru útgjöld aukin með fordæmalausum hætti, eða um 143 milljarða króna á milli ára. Þá hlýtur það að teljast sérstakt metnaðarleysi að sitja í ríkisstjórn sem lofaði að hækka ekki skatta á venjulegt eða vinnandi fólk en boðar nú yfir 25 milljarða króna skattahækkun á næsta ári, en sú tala gæti jafnvel orðið hærri. Til að reyna að breiða yfir loforðasvikin er gripið til útúrsnúninga, nýyrða og orðaleikja. Talað um „tiltekt“ og „leiðréttingar“ í stað þess að viðurkenna berum orðum að verið sé að leggja á nýja skatta. Venjulegt fólk sér í gegnum slíkt orðagjálfur þegar upp verður staðið. Róðurinn þyngist.

Sleggjan sem hrökk af skaftinu

Eitt veigamesta verkefni nýrrar ríkisstjórnar var, og er, að hemja verðbólgu og skapa forsendur fyrir vaxtalækkun með trúverðugri ríkisfjármálastefnu. Þar voru stóru orðin ekki spöruð í aðdraganda kosninga. Í því verkefni hefur ríkisstjórnin gjörsamlega brugðist. Hagkerfið er vissulega að kólna, en það er ekki vegna trúverðugrar eða traustrar efnahagsstefnu heldur vegna þess að samdráttur og vandamál blasa víða við í atvinnulífinu. Ekki síst í útflutningsatvinnuvegum landsins sem eru grunnstoð farsældar landsmanna. Varnaðarorð eru hundsuð og eftir situr venjulegt fólk og fyrirtæki landsins með sárt ennið, með allt of háum vöxtum og vaxandi atvinnuleysi.

Verklaus verkstjórn

Eitt megin stefið hjá áróðursmeisturum ríkisstjórnarinnar var að nú væri loks tekin við stjórn sem ætlaði að láta verkin tala. Verkin hafa sannarlega talað síðustu mánuði og í þeim birtist ýmislegt áhugavert. Rauði þráðurinn er grímulaus andstyggð gagnvart atvinnulífi landsins og ekki síst landsbyggðinni og íbúum í dreifðum byggðum landsins.

Í upphafi fyrsta þings stjórnarinnar var málum dælt út eins og það væri hinn sanni mælikvarði á afköst, verkstjórn. Ítrekað kom í ljós að málin voru illa undirbúin, samráð var af skornum skammti og í mörgum veigamiklum málum var undirbúningur lagasetningar algerlega óviðunandi. Niðurstaðan á vorþingi var enda sú að ríkisstjórnin kastaði til hliðar á fimmta tug mála með undarlegri forgangsröðun í dagskrá þingsins.

Á yfirstandandi þingi hefur stefið verið annað. Útlit er fyrir að fá mál hljóti afgreiðslu fyrir áramót og svo virðist sem sí vaxandi núningur milli ríkisstjórnarflokkanna setji sand í tannhjólin. Þar dugar lítt að brosa á blaðamannafundum og vísa ítrekað í hvað allt sé nú æðislegt á stjórnarheimilinu. Minnir svolítið á óhamingjusöm hjón sem birta ítrekað færslur á samfélagsmiðlum til að sannfæra alla nema sjálfa sig um að allt sé í himnalagi.

Stóra núllið – vantar spýtu og sög

Tíðir blaðamannafundir ríkisstjórnarinnar hafa vakið nokkra athygli. Mantra þeirra funda hefur jafnan verið að kynna með glæsibrag og bros á vör innihaldslítil loforð um eitthvað sem koma muni síðar. Eftirminnilegur er fundurinn um fullkomlega innihaldslausan húsnæðispakka, aðgerðir sem engu máli skipta fyrir fólk í nútímanum. Fundurinn var enda svo innihaldslaus að þau hafa sjálf boðað framhaldsfund um sama málefni. Það vantaði víst spýtu og sög. Á blaðamannafundinum 3. desember þar sem kynnt var fyrsta samgönguáætlun nýrrar ríkisstjórnar, sem beðið hafði verið eftir með nokkurri eftirvæntingu, varð hið sama uppi á teningnum. Hið kunnuglega stef um umbúðir umfram innihald. Við áhorfið á fundinn fylltist venjulegt fólk ef til vill nokkurri bjartsýni, enda farið ansi fögrum orðum og frjálslega um ýmislegt. Þegar betur var að gáð kemur í ljós að megin þungi þeirra verkefna sem þar voru kynnt eru ýmist nú þegar í farvegi eða bíða síðari hluta áætlunarinnar þ.e. frá 2031-2040.

Þó var eitt sem vakti sérstaka athygli. Á síðustu árum var leiðtogum núverandi ríkisstjórnar tíðrætt um ,,stóra núllið í jarðgangnagerð“. Þau orð eru hjákátleg nú þegar við blasir með nýrri og illa rökstuddri forgangsröðun jarðgangna að ekkert minna en kraftaverk þarf til að borinn verði ræstur á þessu kjörtímabili. Fljótagöng sem nú eru fyrst í forgangsröðinni og eru vissulega mikilvæg eins og önnur, eiga eftir að fara í gegnum undirbúnings- og útboðsferli sem tekið getur 3-4 ár.

Fullkomin uppgjöf

Þegar litið er á liðið ár blasir við uppgjöf í verki. Ríkisstjórn sem bregst fólkinu í landinu.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 4. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjarðarheiðargöng: Lífshætta, loforð og lokaðar dyr

Deila grein

04/12/2025

Fjarðarheiðargöng: Lífshætta, loforð og lokaðar dyr

Umræðan um jarðgangaáætlun hefur tekið nýja stefnu. Innviðaráðherra hefur lýst því yfir að náttúruvá sé forsenda nýrrar forgangsröðunar á samgönguáætlun. Þessi orð marka tímamót. Ef stjórnvöld ætla að standa við þessi orð, þá getur aðeins eitt verkefni verið efst á blaði: Fjarðarheiðargöng.

Varnarleysi á fjallvegi

Fyrir mér er þetta ekki bara spurning um malbik og steypu, heldur persónulegt öryggismál. Í nóvember 2017 lenti ég, ásamt eiginmanni mínum, í bílslysi á Fjarðarheiði þegar stjórnlaus bíll kom á móti okkur og lenti harkalega á bílnum okkar.

Sú upplifun sýndi mér svart á hvítu hversu varnarlaus við erum á þessum vegi. Það skiptir engu máli hversu varlega þú ekur sjálfur eða hversu vel búinn bíllinn þinn er; þegar aðstæður eru jafn varasamar og þær gerast á Fjarðarheiði er slysið alltaf handan við hornið. Við sluppum, en það gera ekki allir. Það er óásættanlegt að íbúar þurfi daglega að leggja líf sitt og limi að veði til að komast til vinnu, sækja þjónustu eða einfaldlega komast heim.

Náttúruváin kallar á undankomuleið

Seyðisfjörður býr við eina mestu náttúruvá á byggðu bóli á Íslandi. Við munum öll eftir aurskriðunum í desember 2020. Snjóflóðahætta er einnig viðvarandi ógn. Þegar vá ber að dyrum er lífsnauðsynlegt að íbúar hafi trygga undankomuleið. Fjarðarheiði er hins vegar veðravíti sem lokast oft á veturna – einmitt þegar hættan á ofanflóðum er mest. Að eina leiðin frá bænum sé fjallvegur, sem er oft ófær eða stórhættulegur þegar neyðarástand skapast, er öryggisleysi sem enginn ætti að búa við.

Falskar lausnir og Fannardalur

Í umræðunni hefur stundum verið ýjað að öðrum leiðum til að tengja firðina, til dæmis um Fannardal. En hvað á það að leysa, þegar Fjarðarheiðin er ófær, að beina fólki um annan fjallveg sem býr við sömu hættur?

Í Fannardal er veruleg snjóflóðahætta. Við sáum það skýrt þegar snjóflóðin féllu í Neskaupstað árið 2023; þá var hættuástand víða á svæðinu. Að ætla að leysa samgönguvanda Seyðisfjarðar með því að treysta á vegi sem lokast vegna sömu náttúruvár er engin lausn. Það er bara tilfærsla á vandanum. Örugg heilsársgöng undir Fjarðarheiði eru eina leiðin sem tryggir öryggi.

Atvinnulífið blæðir út

Óvissan í samgöngum hefur ekki bara áhrif á fólk, hún drepur niður atvinnulíf. Á síðustu árum höfum við horft upp á fyrirtæki loka eða flytja starfsemi sína. Skýrasta dæmið er brotthvarf Síldarvinnslunnar á síðustu tveimur árum. Fyrirtæki geta ekki treyst á flutningaleið sem er lokuð dögum saman.

Það má heldur ekki gleyma að Fjarðarheiði er hluti af Evrópuvegi nr. 1. Vegna Norrænu er Seyðisfjörður gátt Íslands til Evrópu. Lokanir á heiðinni stöðva vöruflutninga og skaða ferðaþjónustu, sem hefur áhrif á allt þjóðarbúið.

Forsendubrestur sameiningar

Það má heldur ekki gleyma grundvellinum sem sveitarfélagið okkar hvílir á. Þegar íbúar samþykktu sameiningu í Múlaþing árið 2020 var það gert með skýrum fyrirvara: Bættar samgöngur voru forsenda sameiningarinnar.

Við vorum að búa til stórt og öflugt samfélag, en það samfélag virkar ekki ef einn hluti þess er reglulega einangraður frá hinum og þjónustukjarnanum á Egilsstöðum. Án jarðganga er sameiningin í raun ófullkomnuð og íbúar upplifa nú forsendubrest á þeim samningi sem gerður var við þá.

Pólitísk loforð verða að standa

Fyrir kosningarnar á síðasta ári var tónninn skýr. Allir frambjóðendur í kjördæminu, að undanskildum Flokki fólksins, lýstu yfir stuðningi við Fjarðarheiðargöng. Kjósendur treystu þessum loforðum. Nú, þegar ráðherra setur náttúruvá á oddinn, er tækifærið til að sýna að orðum fylgi athafnir.

Stjórnmálamenn verða að horfast í augu við þann veruleika sem við búum við: Samfélag undir stöðugri ógn, tengt umheiminum með hættulegum fjallvegi sem bregst þegar mest á reynir. Göng undir Fjarðarheiði eru eina rökrétta svarið við nýrri forgangsröðun stjórnvalda.

Eygló Björg Jóhannsdóttir, íbúi á Seyðisfirði og formaður Framsóknarfélags Múlaþings.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 4. desember 2025. 

Categories
Fréttir

Vill fjármagnaða innviðaáætlun fyrir íslenskuna – Landspítali tekinn til fyrirmyndar

Deila grein

04/12/2025

Vill fjármagnaða innviðaáætlun fyrir íslenskuna – Landspítali tekinn til fyrirmyndar

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, vakti athygli í störfum þingsins á nýrri tungumálastefnu Landspítalans og sagði hana mikilvægt fordæmi fyrir aðrar stofnanir. Hún óskaði spítalanum til hamingju með „skýra afstöðu með íslenskunni“ og lagði áherslu á að slík stefna skipti verulegu máli fyrir samfélagið.

Halla Hrund benti á að á síðustu árum hefðu komið til landsins um 50 þúsund innflytjendur, sem sé mjög hátt hlutfall miðað við stærð þjóðarinnar. Í því ljósi dugi engin ein aðgerð til að efla íslenskuna; þvert á móti þurfi heildstæða, fjármagnaða innviðaáætlun fyrir tungumálið, á borð við samgönguáætlun. „Tungumálið er vegakerfið okkar á milli,“ sagði hún og minnti á að íslenskan geymdi menningu þjóðarinnar og væri forsenda samheldni.

Halla Hrund sagði að verið sé að leggja til viðbótarfjárframlag, tæplega 200 milljónir króna umfram það sem fram kemur í meirihlutaáliti fjárlaganefndar, til verkefna tengdra íslenskukennslu. Nemur heildarupphæðin þá 486 milljónum króna. Fjármununum eigi að verja í kennslu, kennslugögn, samtalsþjálfun og þróun mælitækja til að meta árangur í íslensku.

Nefndi Halla Hrund sérstaklega hugmynd um eins konar „TOEFL-próf í íslensku“, þar sem skýr viðmið yrðu sett um tungumálakunnáttu. Slíkt próf gæti, að hennar mati, nýst bæði við inngöngu í háskóla og í tengslum við veitingu dvalarleyfa og atvinnuréttinda, líkt og þekkist í ýmsum löndum. Með betri mælikvörðum væri auðveldara að fylgjast með árangri af auknum framlögum til íslenskunnar.

Í lok ræðunnar hvatti Halla Hrund til þess að áætlanir Landspítalans yrðu teknar sem fyrirmynd. Meira í þá átt, sagði hún, myndi skila meiri samheldni í íslensku samfélagi.

Categories
Fréttir

Fjárlög ríkisstjórnarinnar byggð á „of veikum grunni“

Deila grein

03/12/2025

Fjárlög ríkisstjórnarinnar byggð á „of veikum grunni“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður og 2. varaformaður fjárlaganefndar, segir „með ólíkindum að horfa upp á raun útgjaldaaukningu á milli fjárlaga um 143 m.kr. og hvernig má það ríma við markmið fjárlaga 2026 og peningastefnu Seðlabankans.“

Stefán Vagn mælti fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar við 2. umræðu um frumvarp til fjárlaga, fyrir árið 2026, og sagði hann þau byggju á „of veikum grunni“ og endurspegluðu ekki lengur raunveruleg efnahagsskilyrði í landinu. Stefán Vagn varaði við því að afkomumarkmið fjármálastefnunnar, þar á meðal loforð um hallalausan ríkisrekstur árið 2027, séu í uppnámi nema gripið verði til markvissra aðgerða, bæði á tekju- og útgjaldahlið.

Stefán Vagn dró upp í máli sínu dökka mynd af stöðu þjóðarbúsins: hagvöxtur á árinu 2025 er nú metinn um 0,9% og Seðlabankinn gerir ráð fyrir því að árið 2026 geti orðið enn erfiðara, með viðvarandi slaka í hagkerfinu, auknu atvinnuleysi og veikari fjárfestingu en áður var talið. Jafnframt bent hann á röð áfalla í útflutningsgreinum, frá álframleiðslu og fiskeldi til ferðaþjónustu og tollaákvarðana Evrópusambandsins á kísilmálm. „Forsendur fjárlaga næsta árs byggi á of veikum grunni,“ sagði Stefán Vagn og varaði við því að stefnumörkun stjórnvalda í opinberum fjármálum njóti ekki tiltrúar almennings og markaðsaðila ef ekki sé brugðist hratt við breyttri stöðu.

Krefst varfærni í stað bjartsýni

Stefán Vagn leggur í nefndaráliti 1. minni hluta þunga áherslu á að fjárlögin verði að laga að breyttu efnahagsástandi. Nú sé ekki tími til að mála fallegar sviðsmyndir í fjármálum ríkisins heldur sýna raunsæi og aga.

Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er gagnrýnt að frumvarpið byggi enn á bjartsýnni spám um innlenda eftirspurn og útflutning, þrátt fyrir að tekjustofnar ríkisins séu augljóslega að veikjast. Sem dæmi er vísað til áforma um breytingar á vörugjöldum af bifreiðum sem eiga að skila um 8,5 milljörðum króna í ríkiskassann. Stefán Vagn bendir hins vegar á að bílaleigur og almenningur hafi þegar flýtt bílakaupum til að sleppa við hærri gjöld og að bílamarkaður sé mjög verðnæmur.

Slík framsetning „rýri trúverðugleika efnahagsstefnunnar í heild“ og grafi undan tiltrú á því að stjórnvöld og Seðlabankinn hafi samræmda og ábyrga hagstjórn til lengri tíma litið.

Fjárlög langt umfram fyrra ár – vaxtagjöld í sögulegu hámarki

Í nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar er bent á að heildargjöld ríkisins séu nú áætluð um 1.626 milljarðar króna árið 2026, sem er tugum milljarða umfram fjárlög 2025. Á sama tíma er fjárlagahalli næsta árs metinn yfir 27 milljarða króna og vaxtagjöld nálgast 150 milljarða.

Minni hlutinn segir ljóst í nefndarálitinu að staða ríkissjóðs sé „afar viðkvæm“ og að óvissa hafi aukist í öllum helstu þáttum efnahagslífsins, frá útflutningsgreinum og lánamarkaði til húsnæðismarkaðar og gengis krónunnar.

Sérstaklega er gagnrýnt í nefndaráliti 1. minni hluta að almennur varasjóður ríkissjóðs sé skorinn niður í lágmark samkvæmt lögum um opinber fjármál, eða um 1%. Minni hlutinn telur að í ljósi aukinnar óvissu ætti varasjóður fremur að vera á bilinu 1,5–2% til að mæta hugsanlegum áföllum á næstu árum.

Fimm meginstoðir breytingatillagna

Tillögur 1. minni hluta fjárlaganefndar byggja á fimm meginstoðum sem eiga að mynda heildstæða nálgun að endurskoðun fjárlagafrumvarpsins:

1. Endurmat á útgjaldaáherslum og sjálfbærni þeirra
Útgjaldavöxtur ríkissjóðs á milli ára er tekinn til skoðunar í ljósi versnandi efnahagshorfa. Lögð er áhersla á varfærni og raunsæi í stað of bjartsýnna spáforsendna.

2. Markvissari framkvæmd fjárlaga með skýrum markmiðum
Minni hlutinn gagnrýnir harðlega að markmið 35 málefnasviða ríkisins séu víða loðin, tæknileg og illa mælanleg. Krafist er skýrra, mælanlegra og árangurstengdra markmiða sem gera Alþingi kleift að fylgjast raunverulega með því hvort fjárveitingar skili þeim árangri sem stefnt er að.

3. Metnaðarfullar, en markvissar breytingar á fjárlögum
Lagt er til að fjárheimildir verði auknar á lykilsviðum, sérstaklega þar sem samfélagsleg þörf er brýnust:

  • 400 m.kr. til geðheilbrigðisþjónustu barna
  • 500 m.kr. til að lækka lyfjakostnað almennings
  • 200 m.kr. til eflingar sérgreinalækna
  • 200 m.kr. til að efla lestrarfærni og íslenskukunnáttu barna, m.a. með þróun námsgagna og stuðningi við kennara
  • 500 m.kr. í nýsköpun, þar á meðal Nýsköpunarsjóð landsbyggðarinnar
  • 1.000 m.kr. í markaðsátak fyrir ferðaþjónustu
  • 500 m.kr. til að styrkja íslenskan iðnað og matvælaframleiðslu
  • 200 m.kr. til stuðnings ungu fólki á vinnumarkaði í ljósi áhrifa gervigreindar og stafrænnar þróunar

4. Ábyrgar sparnaðaraðgerðir til mótvægis
Til að mæta um 3,7 milljarða króna útgjaldaaukningu leggur minni hlutinn til sparnað og aðhald að fjárhæð 3,5-4,5 milljarða. Þar á meðal:

  • almenn 2% aðhaldskrafa í rekstri ríkisins, einkum með einföldun stjórnsýslu og hagræðingu, en án þess að skerða grunnþjónustu,
  • frestun óbrýnna framkvæmda, þar á meðal byggingar nýs nefndahúss Stjórnarráðsins.

5. Undirbúningur næstu fjármálaáætlunar
Endurskoðun markmiða málefnasviða er lykilforsenda þess að fjármálaáætlun 2027-2031 verði trúverðug og í takt við breyttar efnahagsforsendur. Sú vinna verður að hefjist strax.

„Alþingi getur ekki sinnt fjárstjórnarhlutverki sínu“

Einn harðasti tónn nefndarálits 1. minni hluta fjárlaganefndar beinist að því hvernig fjármálaáætlun og fjárlög hafi verið fram sett undanfarin ár. Minni hlutinn segir það grafalvarlegt að markmið málefnasviða hafi ekki verið skýr í fjármálaáætlun 2026-2030, heldur að hluti upplýsinganna hafi verið falinn í sérstöku „mælaborði“ á vef stjórnvalda.

Slíkt verklag, að mati 1. minni hluta fjárlaganefndar, sé „ekki lögmætt“ og í beinni andstöðu við anda og texta laga um opinber fjármál. Alþingi sé einfaldlega ekki veittar þær upplýsingar sem þurfi til að það geti sinnt stjórnskipulegu eftirlitshlutverki sínu með fjármálum ríkisins.

„Núverandi staða er sú að Alþingi getur ekki uppfyllt nægilega vel fjárstjórnarhlutverk sitt,“ segir Stefán Vagn, þar sem bent er á að óljós markmið og skortur á mælikvörðum geri það nánast ógerlegt að meta hvort fjárfest sé í réttum verkefnum og hvort markmið séu raunverulega fjármögnuð.

Krefjast gagnsærri fjárlagagerðar og sterkari grunns

Niðurstaða 1. minni hlutans í fjárlaganefnd er skýr: ekki sé forsvaranlegt að samþykkja fjárlagafrumvarpið óbreytt. Endurskoða verði forsendur þess, styrkja varasjóði, skýra markmið og færa Alþingi aftur raunverulegt vald yfir forgangsröðun og útgjöldum ríkisins.

Í nefndarálitinu er jafnframt lögð áhersla á að margt jákvætt sé að finna í fjárlagafrumvarpinu, sérstaklega þegar kemur að innviðauppbyggingu og tilteknum samfélagsverkefnum. En án skýrrar heildarsýnar, trúverðugra efnahagsforsenda og raunhæfrar tekjuáætlunar sé hætt við að fjárlögin verði enn ein bjartsýnisæfingin á pappír, á meðan raunveruleiki þjóðarbúsins segir allt annað.

Helstu tillögur 1. minni hluta fjárlaganefndar

Útgjaldatillögur (aukning um 3,7 ma.kr.):

  • Geðheilbrigðisþjónusta barna: 400 m.kr.
  • Lækkun lyfjakostnaðar: 500 m.kr.
  • Efling sérgreinalækna: 200 m.kr.
  • Lestrarfærni og íslenska: 200 m.kr.
  • Nýsköpun og Nýsköpunarsjóður landsbyggðarinnar: 500 m.kr.
  • Markaðsátak í ferðaþjónustu: 1.000 m.kr.
  • Markaðsátak fyrir íslenskan iðnað og matvæli: 500 m.kr.
  • Stuðningur við ungt fólk á vinnumarkaði: 200 m.kr.

Sparnaðaraðgerðir (3,5–4,5 ma.kr.):

  • Almenn 2% aðhaldskrafa í rekstri ríkisins, án skerðingar á grunnþjónustu.
  • Frestun óbrýnna framkvæmda, m.a. nýs nefndahúss Stjórnarráðsins.

***

Categories
Fréttir

„Horfum á það að halli hefur tvöfaldast á innan við mánuði“

Deila grein

03/12/2025

„Horfum á það að halli hefur tvöfaldast á innan við mánuði“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, spurði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi hvort markmið um hallalaus fjárlög 2027 standist. Sagði hún hallaspá ríkissjóðs nær tvöfaldast á örfáum vikum og varasjóði nánast þurrkaða út. Ingibjörg gagnrýndi forsendur fjárlagafrumvarpsins í umræðu á Alþingi um fjárlög næsta árs og spurði fjármálaráðherra hvaða skref hann hygðist stíga til að halda hallanum í skefjum.

Ingibjörg rakti að afkomaáætlun ríkissjóðs hafi breyst verulega á örfáum vikum. „Í september var talað um að hallinn væri um 15 milljarðar kr. og nú er ljóst samkvæmt meirihlutaáliti fjárlaganefndar að hallinn stefnir í 25-27 milljarða kr. Það er nær tvöföldun á áætlun á innan við mánuði.“

Á sama tíma hafi ríkisstjórnin lækkað almennan varasjóð í lágmark og í fjárlögum 2026 sé ekki lengur gert ráð fyrir varasjóðum einstakra málaflokka. „Þannig að nánast ekkert má út af bregða,“ sagði Ingibjörg og benti á að tekjuforsendur væru svo þandar að „það má engu muna að þær bregðist“.

„Þessi staða þýðir einfaldlega að öll áhættan hvílir á því að tekjur standist og að engin ófyrirséð útgjöld komi til, sem við vitum, búandi á Íslandi, að raungerist eflaust ekki,“ sagði Ingibjörg. Hún minnti á að ríkisstjórnin hefði ítrekað talað um stöðugleika og ábyrg fjármál, sem sé mikilvægt, en að ekki sé síður mikilvægt að fjárlögin „standist raunveruleikann“.

Ingibjörg vék einnig að því að lykilstærðir í hagkerfinu virðast ekki þróast í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarpsins. „Þegar við horfum á það að varasjóður er tekinn í lágmark, þegar við horfum á það að halli hefur tvöfaldast á innan við mánuði, að tekjuáætlanir um breytingar á vörugjöldum standast ekki og að lykiltölur í hagkerfinu, atvinnuleysi, útflutningur, vaxtagjöld, þróast með allt öðrum hætti en frumvarpið gerir ráð fyrir.“

Í lok ræðu sinnar beindi Ingibjörg beinni spurningu til fjármálaráðherra um næstu skref. Hún spurði hvað hann hygðist gera til að tryggja að hallinn á næsta ári verði ekki meiri en 25-27 milljarðar króna og hvort hann teldi enn raunhæft að markmiðið um hallalaus fjárlög árið 2027 standist.

Categories
Fréttir Greinar

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Deila grein

02/12/2025

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Hækkun leikskólagjalda á næsta ári verður rúmlega 2.900 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði, eða sem samsvarar um 9,5%.

Þrátt fyrir þessa hækkun verður Mosfellsbær áfram með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Engar breytingar verða gerðar á reglum um afslætti.

Að hækka leikskólagjöld er aldrei létt ákvörðun. En hækkunin er nauðsynleg til að mæta auknum rekstrarkostnaði og til að tryggja áframhaldandi vandaða þjónustu fyrir börn og foreldra. Þróunin frá árinu 2013 hefur verið þannig að hlutdeild foreldra í kostnaði hefur sífellt orðið lægri, farið úr 32% árið 2013 í 8% í dag.

Fyrsta skólastigið og lykilþáttur í lífi barna og fjölskyldna

Leikskólar eru þó miklu meira en tölur í fjárhagsáætlun. Þeir eru fyrsta skólastigið og grundvöllur þess að fjölskyldur geti náð jafnvægi milli vinnu, heimilis og uppeldis. Þar skapast umgjörð sem tryggir börnum öryggi, þroska og nám og foreldrum tækifæri til að vera þátttakendur á vinnumarkaði á eigin forsendum.

Það þarf einnig að hafa hugfast að leikskólar eru ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga. Samt sem áður myndi íslenskt samfélag einfaldlega ekki virka án þeirra. Mosfellsbær hefur árum saman tekið þá skýru stefnu að standa vörð um þessa þjónustu og byggja upp leikskólakerfi sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf.

Jafnrétti og leikskólar

Leikskólar hafa verið ein af mikilvægustu stoðunum í jafnréttisbaráttunni. Það var ekki sjálfsagt mál að konur gætu tekið þátt í atvinnulífinu – það var baráttumál. Aðgengi að leikskólum hefur því verið gríðarlega mikilvægt í því að tryggja konum jafna stöðu á vinnumarkaði. Sterkt leikskólakerfi er ekki aðeins menntamál, heldur einnig jafnréttis- og velferðarmál.

Starfsfólkið – grunnur að gæðum og stöðugleika

Það er áskorun að ná jafnvægi í leikskólarekstri sem þjónar bæði börnum, foreldrum og starfsfólki. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta starfsaðstæður í leikskólunum. Þannig var ákveðið að taka upp skráningu barna eftir klukkan 14 á föstudögum ásamt því að skráningardagar voru teknir upp milli jóla og nýárs og í dymbilviku fyrir páska. Þessi breyting gerði okkur kleift að innleiða að fullu styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna auk þess að uppfylla 30 daga orlofsrétt. Rétt er að taka fram að foreldrar þeirra barna sem þurfa að nýta leikskólaplássið á skráningartíma eða skráningardegi greiða ekki viðbótargjald vegna þess. Þeir foreldrar sem geta nýtt styttinguna fá afslátt af leikskólagjöldum sem nemur tímafjölda.

Framtíðarsýn

Við viljum halda áfram að geta tryggt öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert leikskólapláss. Eins viljum við halda áfram að niðurgreiða vistun hjá dagforeldrum frá 12 mánaða aldri og tryggja þannig að allir foreldrar sitji við sama borð hvað varðar kostnað fyrir vistun barna þeirra.

Með þessum breytingum öllum vonumst við til að halda öflugu og faglegu starfsfólki, laða að nýtt starfsfólk og halda áfram að byggja allt leikskólastarf á gæðum, fagmennsku og góðum starfsskilyrðum fyrir starfsfólk – sem er grunnurinn að metnaðarfullu og öflugu leikskólastarfi og kærleiksríkri umönnun barna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Deila grein

02/12/2025

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu 12. nóvember sl. og endurspeglar hún áherslur meirihlutans um heilbrigt og fjölskylduvænt samfélag þar sem lýðheilsan er sett í forgang.

Rekstur bæjarins stendur traustum fótum, heildartekjur áætlaðar um 24,7 milljarðar og rekstrarafgangur tryggður. Á sama tíma horfum við til áframhaldandi íbúafjölgunar og þar með aukinna krafna um þjónustu – sérstaklega fyrir börn og barnafjölskyldur.

Mikil áhersla er lögð á leik- og grunnskóla, sem eru hjarta samfélagsins. Á næsta ári verður rúmlega 11 milljörðum króna ráðstafað til reksturs fræðslu- og frístundastarfs, til að tryggja áframhaldandi öflugt og faglegt starf fyrir nærri 900 leikskólabörn og rúmlega 1800 grunnskólanema bæjarins. Þrátt fyrir hækkun leikskólagjalda helst hlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lág og við höldum áfram að tryggja að þjónustan sé aðgengileg öllum fjölskyldum, óháð efnahag.

Lýðheilsa er rauður þráður fjárhagsáætlunarinnar. Í fyrsta sinn í langan tíma eru íþrótta- og tómstundamannvirki stærsti einstaki liðurinn í fjárfestingum bæjarins, eða 37% af heildarfjárfestingum. Frístunda- og íþróttastarf er einn af burðarásum lýðheilsu og félagslegra tengsla barna og unglinga. Forvarnargildi slíks starfs er óumdeilt og skilar sér í sterkari félagsfærni og bættri heilsu. Félagsmiðstöðvar verða áfram forgangsverkefni, enda skipta þær sköpum fyrir andlega heilsu og félagslega þátttöku ungs fólks. Auk þess munum við halda áfram að byggja upp og hlúa að útivistartengdum innviðum. Með því hvetjum við fjölskyldur til hreyfingar og sköpum umhverfi sem styður vellíðan barna jafnt sem fullorðinna.

Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til að kynna sér fjárhagsáætlunina fyrir komandi ár og þá sérstaklega greinargerðina sem henni fylgir. Þar er helstu upplýsingum miðlað á einstaklega skýran og aðgengilegan hátt. Seinni umræður um fjárhagsáætlun fara svo fram 3. desember þegar áætlunin verður afgreidd í bæjarstjórn.

Fjárhagsáætlun 2026 er ekki aðeins fjárfestinga– og rekstraráætlun — hún er yfirlýsing um forgangsröðun: Að fjárfesta í börnum, fjölskyldum og lýðheilsu samfélagsins alls. Með ábyrgri fjármálastjórn, skýrri stefnu og markvissri forgangsröðun tryggum við að Mosfellsbær verði áfram eitt fjölskylduvænsta og heilsusamlegasta sveitarfélag landsins.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Deila grein

02/12/2025

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun.
Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar“ og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: Almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:
• Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
• Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
• Hækka frístundastyrki.
• Styrkja starf félagsmiðstöðva.
• Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
• Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
• Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
• Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla.
Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.
Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru.
Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.
Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð.
Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: Að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.
Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu.
Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.
Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: Að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.
Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á mosfellsingur.is 27. nóvember 2025.