Categories
Fréttir Greinar

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Deila grein

02/12/2025

Leikskólagjöld hækka um 2.900 kr.

Hækkun leikskólagjalda á næsta ári verður rúmlega 2.900 krónur á mánuði fyrir 8 tíma vistun með fæði, eða sem samsvarar um 9,5%.

Þrátt fyrir þessa hækkun verður Mosfellsbær áfram með lægstu leikskólagjöldin á höfuðborgarsvæðinu. Engar breytingar verða gerðar á reglum um afslætti.

Að hækka leikskólagjöld er aldrei létt ákvörðun. En hækkunin er nauðsynleg til að mæta auknum rekstrarkostnaði og til að tryggja áframhaldandi vandaða þjónustu fyrir börn og foreldra. Þróunin frá árinu 2013 hefur verið þannig að hlutdeild foreldra í kostnaði hefur sífellt orðið lægri, farið úr 32% árið 2013 í 8% í dag.

Fyrsta skólastigið og lykilþáttur í lífi barna og fjölskyldna

Leikskólar eru þó miklu meira en tölur í fjárhagsáætlun. Þeir eru fyrsta skólastigið og grundvöllur þess að fjölskyldur geti náð jafnvægi milli vinnu, heimilis og uppeldis. Þar skapast umgjörð sem tryggir börnum öryggi, þroska og nám og foreldrum tækifæri til að vera þátttakendur á vinnumarkaði á eigin forsendum.

Það þarf einnig að hafa hugfast að leikskólar eru ekki lögbundið verkefni sveitarfélaga. Samt sem áður myndi íslenskt samfélag einfaldlega ekki virka án þeirra. Mosfellsbær hefur árum saman tekið þá skýru stefnu að standa vörð um þessa þjónustu og byggja upp leikskólakerfi sem styður við börn, fjölskyldur og atvinnulíf.

Jafnrétti og leikskólar

Leikskólar hafa verið ein af mikilvægustu stoðunum í jafnréttisbaráttunni. Það var ekki sjálfsagt mál að konur gætu tekið þátt í atvinnulífinu – það var baráttumál. Aðgengi að leikskólum hefur því verið gríðarlega mikilvægt í því að tryggja konum jafna stöðu á vinnumarkaði. Sterkt leikskólakerfi er ekki aðeins menntamál, heldur einnig jafnréttis- og velferðarmál.

Starfsfólkið – grunnur að gæðum og stöðugleika

Það er áskorun að ná jafnvægi í leikskólarekstri sem þjónar bæði börnum, foreldrum og starfsfólki. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta starfsaðstæður í leikskólunum. Þannig var ákveðið að taka upp skráningu barna eftir klukkan 14 á föstudögum ásamt því að skráningardagar voru teknir upp milli jóla og nýárs og í dymbilviku fyrir páska. Þessi breyting gerði okkur kleift að innleiða að fullu styttingu vinnuvikunnar hjá starfsfólki leikskólanna auk þess að uppfylla 30 daga orlofsrétt. Rétt er að taka fram að foreldrar þeirra barna sem þurfa að nýta leikskólaplássið á skráningartíma eða skráningardegi greiða ekki viðbótargjald vegna þess. Þeir foreldrar sem geta nýtt styttinguna fá afslátt af leikskólagjöldum sem nemur tímafjölda.

Framtíðarsýn

Við viljum halda áfram að geta tryggt öllum börnum sem eru orðin 12 mánaða 1. ágúst ár hvert leikskólapláss. Eins viljum við halda áfram að niðurgreiða vistun hjá dagforeldrum frá 12 mánaða aldri og tryggja þannig að allir foreldrar sitji við sama borð hvað varðar kostnað fyrir vistun barna þeirra.

Með þessum breytingum öllum vonumst við til að halda öflugu og faglegu starfsfólki, laða að nýtt starfsfólk og halda áfram að byggja allt leikskólastarf á gæðum, fagmennsku og góðum starfsskilyrðum fyrir starfsfólk – sem er grunnurinn að metnaðarfullu og öflugu leikskólastarfi og kærleiksríkri umönnun barna.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknar

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Deila grein

02/12/2025

Fjárfestum áfram í lýðheilsu og barnvænu samfélagi

Fjárhagsáætlun Mosfellsbæjar var lögð fram til fyrri umræðu 12. nóvember sl. og endurspeglar hún áherslur meirihlutans um heilbrigt og fjölskylduvænt samfélag þar sem lýðheilsan er sett í forgang.

Rekstur bæjarins stendur traustum fótum, heildartekjur áætlaðar um 24,7 milljarðar og rekstrarafgangur tryggður. Á sama tíma horfum við til áframhaldandi íbúafjölgunar og þar með aukinna krafna um þjónustu – sérstaklega fyrir börn og barnafjölskyldur.

Mikil áhersla er lögð á leik- og grunnskóla, sem eru hjarta samfélagsins. Á næsta ári verður rúmlega 11 milljörðum króna ráðstafað til reksturs fræðslu- og frístundastarfs, til að tryggja áframhaldandi öflugt og faglegt starf fyrir nærri 900 leikskólabörn og rúmlega 1800 grunnskólanema bæjarins. Þrátt fyrir hækkun leikskólagjalda helst hlutdeild foreldra í rekstri leikskóla lág og við höldum áfram að tryggja að þjónustan sé aðgengileg öllum fjölskyldum, óháð efnahag.

Lýðheilsa er rauður þráður fjárhagsáætlunarinnar. Í fyrsta sinn í langan tíma eru íþrótta- og tómstundamannvirki stærsti einstaki liðurinn í fjárfestingum bæjarins, eða 37% af heildarfjárfestingum. Frístunda- og íþróttastarf er einn af burðarásum lýðheilsu og félagslegra tengsla barna og unglinga. Forvarnargildi slíks starfs er óumdeilt og skilar sér í sterkari félagsfærni og bættri heilsu. Félagsmiðstöðvar verða áfram forgangsverkefni, enda skipta þær sköpum fyrir andlega heilsu og félagslega þátttöku ungs fólks. Auk þess munum við halda áfram að byggja upp og hlúa að útivistartengdum innviðum. Með því hvetjum við fjölskyldur til hreyfingar og sköpum umhverfi sem styður vellíðan barna jafnt sem fullorðinna.

Ég hvet íbúa Mosfellsbæjar til að kynna sér fjárhagsáætlunina fyrir komandi ár og þá sérstaklega greinargerðina sem henni fylgir. Þar er helstu upplýsingum miðlað á einstaklega skýran og aðgengilegan hátt. Seinni umræður um fjárhagsáætlun fara svo fram 3. desember þegar áætlunin verður afgreidd í bæjarstjórn.

Fjárhagsáætlun 2026 er ekki aðeins fjárfestinga– og rekstraráætlun — hún er yfirlýsing um forgangsröðun: Að fjárfesta í börnum, fjölskyldum og lýðheilsu samfélagsins alls. Með ábyrgri fjármálastjórn, skýrri stefnu og markvissri forgangsröðun tryggum við að Mosfellsbær verði áfram eitt fjölskylduvænsta og heilsusamlegasta sveitarfélag landsins.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ.

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Deila grein

02/12/2025

Fyrirmyndar forvarnarstefna í Mosfellsbæ

Það er ánægjulegt að sjá þegar sveitarfélag tekur forvarnarstarf alvarlega. Ákvörðun Mosfellsbæjar um að verja aukalega 100 milljónum króna í forvarnir er skýrt dæmi um slíka hugsun.
Átakið hefur fengið nafnið „börnin okkar“ og felur í sér aukafjárveitingu uppá 100 milljónir sem verða notaðar í 27 viðbótaraðgerðir. Þær skiptast í þrjá þætti: Almennar forvarnir, snemmtækur stuðningur og styrking Barnaverndar. Þetta er stefna sem byggir á raunverulegri sýn á velferð og heilsu íbúa, og endurspeglar ábyrgð og framsýni bæjarstjórnar.

Aðgerðirnar felast meðal annars í að:
• Auka aðgengi unglinga að sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf.
• Efla stuðningsúrræði í formi ráðgjafar, stuðnings og námskeiða.
• Hækka frístundastyrki.
• Styrkja starf félagsmiðstöðva.
• Auka samstarf, fræðslu og námskeið fyrir foreldra.
• Koma á samskiptasáttmála á milli foreldra og skóla.
• Huga að lýðheilsu barna og ungmenna meðal annars með aukinni opnun íþróttamiðstöðva um helgar.
• Tryggja aðgengi allra hópa að námskeiðum og íþróttum.

Með þessari fjárfestingu er verið að efla stuðning við börn og ungmenni, bæta aðgengi að sálfræði- og félagsráðgjöf, styrkja frístundastarf og bjóða foreldrum námskeið sem styrkja tengslin milli heimilis og skóla.
Þetta eru metnaðarfullar aðgerðir sem hafa bein áhrif á líðan, öryggi og framtíð barnanna okkar.
Mikilvægi íþrótta og tómstunda í forvarnarstarfi er óumdeilt. Þar hefur Mosfellsbær verið til fyrirmyndar. Bærinn hefur lagt ríka áherslu á að börn og ungmenni hafi fjölbreytt tækifæri til þátttöku, hvort sem það er í íþróttum, tónlist, listgreinum eða félagsstarfi. Slíkt starf byggir upp sjálfstraust, tengsl og jákvæð samskipti, sem eru sterkustu forvarnirnar sem til eru.
Með öflugum frístundastyrkjum, samstarfi við íþróttafélög og góðum aðgengismálum fyrir öll börn, hefur Mosfellsbær skapað umhverfi þar sem enginn þarf að standa utan við.
Það er auðvelt að tala um forvarnir, en erfiðara að gera eitthvað í þeim málum. Þess vegna er þessi ákvörðun svo mikilvæg. Hún sýnir að bæjarstjórnin í Mosfellsbæ leggur áherslu á verk frekar en orð.
Með því að setja raunverulegt fjármagn í málaflokk sem oft hefur setið á hakanum, er verið að senda skýr skilaboð: Að heilsa, öryggi og velferð barna og ungmenna skipti mestu máli.
Þessi nálgun fellur vel að stefnumálum Framsóknar í Mosfellsbæ, sem hafa lengi lagt áherslu á forvarnir, fjölskylduvæn samfélög og jafnt aðgengi að þjónustu.
Framsókn hefur talað fyrir því að sveitarfélög séu ekki bara þjónustuaðilar, heldur samfélög sem byggja upp manneskjulegt og heilbrigt umhverfi. Þegar fjárfest er í forvörnum, er verið að vinna nákvæmlega eftir þeirri hugsun.
Í þessum aðgerðum birtist líka ákveðinn metnaður: Að Mosfellsbær vilji vera leiðandi sveitarfélag í forvörnum. Með fjárfestingu í börnum og ungmennum er verið að styrkja grunninn að betra samfélagi til framtíðar, þar sem fleiri fá tækifæri, færri detta út og allir finna að þeir skipta máli.
Þetta er góð stjórn. Þetta er ábyrg stjórnsýsla. Meirihlutinn í Mosfellsbæ á skilið stórt hrós fyrir þessa framkvæmd.

Kjartan Helgi Ólafsson, Mosfellingur og ritari Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á mosfellsingur.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

Deila grein

02/12/2025

Fullveldið á tímum gervigreindarinnar

107 ár eru liðin frá því að deilum um fullveldi Íslands lauk með undirritun sambandslagasamningsins, sem tók gildi 1. desember 1918. Frelsisþráin var drifkrafturinn, að Íslendingar réðu sínum málum sjálfir og mótuðu framtíð barna sinna. Saga fullveldisins er saga framfara. Á rúmri öld hefur okkur tekist að byggja upp afar öflugt velferðarsamfélag, nýta auðlindir landsins af ábyrgð og skapa list sem dáðst er að um heim allan. Allir Íslendingar hafa lagt sig fram við að móta samfélagið okkar með þessum hætti.

Ein af mikilvægustu stoðunum í samheldni þjóðarinnar og framgangi hennar er tungumálið okkar, íslenskan. Þjóðin hefur ætíð verið stolt af tungumálinu sínu og hverju það hefur áorkað. Jónas Hallgrímsson skáld var fremstur í flokki að lyfta okkar ástkæra og ylhýra máli. Allt bendir til þess að þær þjóðfélagsbreytingar sem fram undan eru vegna innreiðar gervigreindar séu ámóta miklar og íslenskt samfélag upplifði á 20. öld, ef ekki umfangsmeiri. Í mínum huga skiptir öllu að íslenskan sjálf, tungumálið okkar, haldi áfram að vera framsækin í heimi gervigreindar með tilkomu öflugrar máltækni. Íslensk máltækni er ekki munaður heldur nauðsyn. Við verðum að tryggja að hægt sé að tala við símann, tölvuna og bílinn á íslensku. Þetta krefst áframhaldandi skýrrar stefnu, fjárfestinga og samstöðu fræðasamfélags, atvinnulífs og stjórnvalda.

Um leið og við erum í sókn fyrir íslenskuna, þá verðum við að horfa til þeirra tækifæra sem felast í gervigreindinni sjálfri. Sé gervigreindin innleidd af ábyrgð og sanngirni, þá getur hún aðstoðað okkur við ýmsar meiriháttar framfarir í atvinnulífinu. Til þess verðum við þó að tryggja að ávinningurinn nái til allra, óháð aldri, búsetu eða bakgrunni. Gervigreind má hvorki verða tæki til að auka misskiptingu né grafa undan trausti á lýðræði. Hún á að vera þjónn samfélagsins, ekki húsbóndi þess. Þess vegna þarf að byggja upp stafræna hæfni og gagnalæsi frá grunnskóla og upp í háskóla ásamt símennt.

En tæknin leysir okkur ekki undan ábyrgð þess að tryggja bjarta framtíð íslenskunnar. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð með því hvaða mál við veljum í snjalltækjum, í merkingum í verslunum, í tungumáli vinnustaða, í því hvaða efni við búum til og deilum. Við getum aldrei sætt okkur við að framtíðarsaga fullveldis Íslands verði ekki sögð á íslensku.

Markmiðið hlýtur að vera að næstu hundrað ár fullveldis verði ekki síður farsæl en þau sem að baki eru. Að sama skapi skal sagan áfram verða skrifuð á íslensku. Fullveldið á tímum gervigreindarinnar felst í því að við ráðum sjálf ferðinni, nýtum tæknina í okkar þágu og tryggjum að hún styrki íslenska tungu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menningarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Austurland: Sterk stoð íslensks hagkerfis

Deila grein

01/12/2025

Austurland: Sterk stoð íslensks hagkerfis

Árið 2022 fékk Samband sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) ráðgjafafyrirtækið Analytica til að gera skýrslu og greiningu á efnahagsumsvifum Austurlands. Síðan þá hefur skýrslan verið þungavigtarplagg á fundum okkar við ráðamenn þjóðarinnar, enda sýnir hún án nokkurs vafa að Austurland skapar gríðarleg verðmæti og skilar inn umtalsverðum tekjum í ríkiskassann.

Sú uppfærða skýrsla sem lögð var fram á dögunum tekur til áranna 2022–2024 og þrátt fyrir loðnubrest skilar Austurland tæpum fjórðungi allra vöruútflutningstekna Íslands, þó að hér búi aðeins 2,9% landsmanna.

Árið 2024 nam virði útflutningsvara frá Austurlandi um 219 milljörðum króna, sem jafngildir 23% af heildarvöruútflutningi Íslands. Ef vöruútflutningi er deilt á íbúafjölda má sjá að hver Austfirðingur framleiddi að meðaltali 19,6 milljónir króna til vöruútflutnings, en íbúar annarra landshluta framleiddu tífalt minna, eða um 1,97 milljónir króna.

Hlutdeild Fjarðaáls af útfluttu áli árið 2024 var 42,6%, eða 133 milljarðar króna. Auk þess sýna niðurstöður Analytica að að minnsta kosti fjórðung tekna Landsvirkjunar síðustu þrjú ár megi rekja til raforkusölu til Alcoa á Austurlandi.

Á Austurlandi starfa einnig gríðarlega öflug útgerðarfyrirtæki ásamt laxeldisfyrirtæki, en útfluttar sjávarafurðir héðan árið 2024 voru að verðmæti 85,8 milljarða, sem er 21,4% af heildarverðmæti útfluttra sjávarafurða.

Þrátt fyrir þessa miklu verðmætasköpun fáum við ekki það pláss sem við eigum skilið. Hér er mikil innviðaskuld, sérstaklega þegar horft er til samgangna. Víða erum við skilgreind sem svæði utan vaxtarsvæða eða jaðarsvæði; því hafna ég og krefst þess að við fáum að vera með og taka þátt — við erum löngu búin að vinna okkur inn fyrir því.

Austurland getur verið í lykilhlutverki þegar horft er til verðmætasköpunar, nýsköpunar og framtíðar. Hér er mikil atvinna, húsnæðisuppbygging og drifkraftur í fyrirtækjum og íbúum, en til þess að Austurland geti haldið áfram að vaxa þarf að fjárfesta í nauðsynlegum innviðum. Það mun borga sig að fjárfesta í Austurlandi.

Þuríður Lillý Sigurðardóttir, varaformaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi og bæjarfulltrúi Framsóknar í Fjarðabyggð.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 1. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Kennum þeim ís­lensku

Deila grein

28/11/2025

Kennum þeim ís­lensku

Börnum sem ekki hafa íslensku að móðurmáli hefur fjölgað verulega síðustu ár. Í fjórum skólum í borginni eru yfir 55% nemenda með annað móðurmál en íslensku og í níu þeirra eru yfir þriðjungur nemenda með erlent móðurmál. Þetta kallar á markvissar aðgerðir til að tryggja að öll börn fái þann stuðning sem þau þurfa til að ná góðum árangri og finna sig í skólasamfélaginu.

Ein af þeim leiðum sem hafa reynst áhrifaríkar við að kenna börnum nýtt tungumál eru móttökudeildir í skólum sem einblína á tungumálakennslu barna áður en að þau hefja nám í almennum bekk. Góð grunnfærni í íslensku byggir upp traustan grunn fyrir framtíðar námsframvindu og samfélagsleg tengsl. Því leggjum við í Framsókn til að móttökudeildir verði opnaðar í öllum grunnskólum Reykjavíkurborgar.

Mjúk lending í íslenskt skólakerfi

Móttökudeildir eru hugsaðar sem fyrsti viðkomustaður nemenda sem nýlega hafa flutt til Íslands. Þar er lögð áhersla á að skapa öruggt og stuðningsríkt umhverfi þar sem börn fá tíma og rými til að kynnast nýju skólakerfi, nýju tungumáli og nýju samfélagi. Markmiðið er lendingin sé eins mjúk og farsæl og hægt er.

Markviss kennsla í íslensku

Það er mjög krefjandi fyrir börn sem eru ný flutt til landsins að hefja nám í almennum bekk þar sem öll kennsla fer fram á íslensku samhliða því að fóta sig í nýrri menningu. Þetta getur ýtt undir óöryggi og gert þeim erfitt fyrir að taka virkan þátt í náminu. Kennarar hafa bent á þá miklu áskorun sem felst í því að kenna bekk þar sem hluti nemenda skilur ekki tungumálið. Með því að gefa börnum tíma til að byggja upp grunnfærni í íslensku áður en þau hefja nám í bekk, má draga úr álagi barna og kennara og skapa betra vinnuumhverfi fyrir bæði nemendur og starfsfólk. Samhliða þarf þó að að styrkja starfsumhverfi grunnskólanna með auknum stuðningi og verkfærum til að mæta þörfum fjölbreyttra nemendahópa.

Í móttökudeildum er megináhersla lögð á markvissa íslenskukennslu. Nemendur fá kennslu sem tekur mið af færni þeirra, fyrri menntun og einstaklingsbundnum þörfum. Með því að byggja upp sterkari tungumálafærni fyrstu mánuðina á Íslandi aukast líkur á því að börnin geti síðar tekið virkari þátt í almennri kennslu, en að jafnaði er gert ráð fyrir því að barn sé ekki lengur í móttökudeild en í 3-6 mánuði. Ákvörðun um það byggir þó alltaf á einstaklingsbundnu mati.

Fræðsla fyrir börn og foreldra

Til þess að tilheyra samfélagi er ekki nóg að kunna tungumálið. Það þarf líka að skilja menningu og siði samfélagsins. Móttökudeildum er því ætlað að leggja áherslu á að kynna íslenska menningu og samfélag fyrir börnum og foreldra þeirra. Foreldrar gegna lykilhlutverki í skólagöngu barna og inngildingu þeirra í nýtt samfélag. Móttökudeildum er því jafnframt ætlað að stuðla að betra samstarfi heimilis og skóla og fyrirbyggja menningarárekstra.

Margir foreldrar af erlendum uppruna telja að takmörkuð íslenskukunnátta sé hindrun í þátttöku þeirra í skólastarfi barna sinna. Því leggur Framsókn einnig til að foreldrum sem ekki tala íslensku verði boðin gjaldfrjáls íslenskukennsla með sérstakri áherslu á orðaforða sem tengist skóla- og námsumhverfi barna þeirra. Markmið tillögunnar er að auðvelda foreldrum að læra íslensku og draga úr þörf fyrir túlkaþjónustu til lengri tíma.

Innleiðing í skrefum

Með því að hafa móttökudeildir í öllum skólum er tryggt að öll börn fá tækifæri til þess að kynnast sínum hverfisskóla og taka þátt í öðru skólastarfi með jafnöldrum sínum. Móttökudeildir eiga því ekki að einangra börn sem tala ekki íslensku eins og sérstakir móttökuskólar gera heldur efla og flýta fyrir raunverulegri þátttöku þeirra í skólastarfi þannig að þau geti tekið virkan þátt í íslensku samfélagi til framtíðar.

Tillaga Framsóknar gerir ráð fyrir því að móttökudeildir verði innleiddar í skrefum í grunnskóla Reykjavíkurborgar. Þörfin fyrir móttökudeildir er ólík eftir skólum og tekur umfang þeirra mið af því. Gert er ráð fyrir að starfsfólk geti færst á milli móttökudeilda innan skólahverfa til að mæta þörfum skólanna hverju sinni.

Lengi býr að fyrstu gerð

Okkar hlutverk er að tryggja öllum börnum góð tækifæri til að þroska hæfileika sína og færni, og um leið skapa jákvæð náms- og vinnuskilyrði fyrir nemendur og kennara.

Lengi býr að fyrstu gerð og þar verða áherslur okkar að liggja.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 28. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Framsókn vill bæta rekstur borgarinnar um 6,5 milljarða

Deila grein

28/11/2025

Framsókn vill bæta rekstur borgarinnar um 6,5 milljarða

Borgarfulltrúar Framsóknar í Reykjavík vilja bæta rekstur borgarinnar um allt að 6,5 milljarða króna með róttækum breytingum á stjórnskipulagi, sölu á eignarhlut í Landsneti og markvissum aðgerðum í þjónustu við íbúa. Tillögurnar voru kynntar á blaðamannafundi í Ráðhúsi Reykjavíkur þar sem borgarfulltrúarnir Einar Þorsteinsson, Árelía Eydís Guðmundsdóttir, Magnea Gná Jóhannsdóttir, Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Þorvaldur Daníelsson kynntu tillögur Framsóknar vegna fjárhagsáætlunar Reykjavíkur fyrir árið 2026..

Samkvæmt útreikningum Framsóknar í Reykjavík felast í tillögunum hagræðing upp á um 1,3 milljarða króna, eignasala sem gæfi um 5,8 milljarða króna og útgjöld sem nema um 570 milljónum króna í nýjum verkefnum. Tillögurnar eru liður í umræðu um fjárhagsáætlun Reykjavíkur fyrir árið 2026.

Fjórar miðstöðvar verða tvær

Kjarninn í tillögum Framsóknar í Reykjavík á stjórnskipulagi Reykjavíkurborgar felst í því að fækka miðstöðvum borgarinnar úr fjórum í tvær. Í dag starfa miðstöðvar í austur-, vestur-, norður- og suðurhluta borgarinnar en Framsókn í Reykjavík leggur til að þær verði lagðar niður og í staðinn stofnaðar tvær nýjar: Fjölskyldumiðstöð og Miðstöð virkni og ráðgjafar.

„Við viljum einfalda stjórnskipulag, stytta boðleiðir og fjölga ákvörðunum nær íbúunum,“ sagði Einar Þorsteinsson, borgarfulltrúi og fyrrverandi borgarstjóri, á fundinum. „Við viljum einfaldlega grípa erindi íbúa, leysa úr þeim hratt og vel og fylgja þeim síðan eftir.“

Fjölskyldumiðstöð yrði miðlæg eining í þjónustu við börn og barnafjölskyldur og á að styrkja samstarf skóla- og frístundasviðs og velferðarsviðs. Þar myndu sérfræðingar í málefnum barna geta unnið nánar saman að úrlausn mála undir einu þaki.

Miðstöð virkni og ráðgjafar hefði það hlutverk að efla félagsþjónustu, virkni og ráðgjöf við fullorðna. Hún myndi meðal annars sinna umsækjendum um alþjóðlega vernd, heimilislausu fólki og þeim sem njóta fjárhagsaðstoðar. Rekstur málaflokka fatlaðs fólks og eldra fólks yrði færður á skrifstofur málaflokkanna á velferðarsviði.

Framsókn í Reykjavík áætlar að þessar stjórnkerfisbreytingar skili allt að 690 milljóna króna hagræðingu á ári. Tillögurnar byggja á greiningu HLH ráðgjafar á stjórnskipulagi Reykjavíkur sem unnin var á árinu 2024, þegar Framsókn átti sæti í meirihluta í borgarstjórn, og stóð greiningarvinnan yfir allt árið.

Hreyfanleg nærþjónusta og betri stafræn þjónusta

Í tillögunum kemur fram að styrkja eigi nærþjónustu í hverfum með hreyfanlegri þjónustu, meðal annars inn í skóla og aðrar stofnanir borgarinnar, í stað þess að íbúar þurfi að sækja þjónustu í fasta miðstöð.

Þá er gert ráð fyrir markvissum umbótum í stafrænni þjónustu til að bæta aðgengi íbúa að þjónustu og bregðast við því að heimsóknum í núverandi miðstöðvar hefur fækkað. Að mati borgarfulltrúanna felst í þessu einfaldara og sveigjanlegra þjónustukerfi sem styður betur við íbúa og stofnanir borgarinnar á sama tíma og kostnaður lækkar.

Móttökudeildir og íslenskukennsla fyrir innflytjendur

Stór hluti tillagna Framsóknar í Reykjavík snýr að börnum og foreldrum af erlendum uppruna. Borgarfulltrúarnir benda á að í fjórum grunnskólum í Reykjavík séu nú yfir 55 prósent nemenda af erlendum uppruna og að skólakerfið standi frammi fyrir nýjum áskorunum.

Framsókn í Reykjavík leggur til að komið verði á 15 móttökudeildum fyrir börn af erlendum uppruna og þær innleiddar í skrefum í alla skóla borgarinnar. Áhersla verði lögð á að nemendur nái tökum á íslensku og að íslenskuver renni inn í móttökudeildir hvers skóla.

Markmiðið er að skapa „mjúka lendingu“ inn í íslenskt skólakerfi, styðja betur við aðlögun barna og tryggja tengsl þeirra við heimaskóla og hverfi. Tímalengd dvalar í móttökudeildum yrði ákveðin með einstaklingsbundnu mati, en almennt er miðað við fyrstu þrjá til sex mánuðina. Nemendur og foreldrar yrðu jafnframt frædd um íslenskt samfélag, menningu og skólakerfi.

Kostnaður við innleiðingu móttökudeilda er metinn um 210 milljónir króna árið 2026.

Gjaldfrjáls íslenskukennsla fyrir foreldra

Þá vilja borgarfulltrúar koma á gjaldfrjálsri íslenskukennslu fyrir foreldra barna af erlendum uppruna sem ekki tala íslensku, með sérstakri áherslu á orðaforða tengdan námi og skólastarfi. Foreldrar gegni lykilhlutverki í skólagöngu barna sinna og inngildingu þeirra inn í nýtt samfélag, en margir foreldrar hafi lýst því að skortur á íslenskukunnáttu sé hindrun í þátttöku þeirra í skólastarfi.

Með þessu vilja borgarfulltrúar auðvelda foreldrum að fylgja barni sínu betur eftir í skólanum og draga úr þörf fyrir túlkaþjónustu. Áætlaður kostnaður við þetta verkefni er 40 milljónir króna árið 2026.

Jafnframt er lagt til að túlkaþjónusta fyrir foreldra af erlendum uppruna verði almennt takmörkuð við fyrstu þrjú ár frá því að barn hefst handa í skóla í Reykjavík. Eftir þann tíma verði þjónustan gegn gjaldi, nema þegar sérstaklega mikilvægir hagsmunir barns eru í húfi, svo sem vegna réttinda, skyldna eða alvarlegra veikinda. Takmörkunin eigi ekki við um táknmálstúlkun. Sparnaður af þessari breytingu er talinn koma fram til lengri tíma, þó að óljóst sé hve hár hann verði.

Sala á Landsneti og 1% hagræðing

Í fjárhagslegum tillögum Framsóknar í Reykjavík er lykilatriði að Orkuveita Reykjavíkur hefji viðræður við ríkið um sölu á eignarhluta Orkuveitunnar í Landsneti hf. Bókfært virði eignarinnar er um 6,2 milljarðar króna og liggur fyrir viljayfirlýsing OR og ríkisins frá árinu 2021 um möguleg kaup ríkisins.

Samkvæmt útreikningum Framsóknar í Reykjavík myndi sala eignarhlutarins skila um 5,83 milljörðum króna, sem runna myndu til eiganda, þ.e. Reykjavíkurborgar.

Þá er lagt til að sviðum borgarinnar verði gert að hagræða um 1%, þó með þeim undantekningum að launaliðir starfsmanna í leik- og grunnskólum og starfsmanna í framlínuþjónustu velferðarsviðs verði undanskildir. Þessi almenna hagræðing er áætluð um 567 milljónir króna.

Átak í endurbótum leikvalla og íþróttastarf eldri borgara

Framsókn í Reykjavík leggur áherslu á að bregðast við viðhaldsþörf á leikvöllum í hverfum borgarinnar. Lagt er til að 300 milljónir króna verði varið í átak í endurbótum leikvalla til að tryggja öruggt umhverfi fyrir leik og útivist barna.

Gert er ráð fyrir að 80 milljónir króna, sem ætlaðar voru í nýja selalaug í Húsdýragarðinum, renni í verkefnið, en heildarkostnaður við endurbæturnar er metinn 220 milljónir króna.

Að lokum leggja borgarfulltrúarnir til að stofnaður verði 100 milljóna króna sjóður til að styðja við skipulagt íþróttastarf og lýðheilsuverkefni fyrir eldra fólk í samstarfi við hverfisíþróttafélög Reykjavíkur.

Tillögur Framsóknar í Reykjavík verða teknar til frekari umræðu í tengslum við vinnu við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árið 2026, en borgarfulltrúar flokksins segja þær byggðar á greiningu síðustu ára og skýrum pólitískum áherslum flokksins um einfaldara stjórnkerfi, sterka nærþjónustu við íbúa og markvissari nýtingu fjármuna.

Categories
Fréttir Greinar

Réttindi allra að tala ís­lensku

Deila grein

27/11/2025

Réttindi allra að tala ís­lensku

Í ræðu sinni í Bandaríkjaþinginu árið 1965 fjallaði þáverandi Bandaríkjaforseti Lyndon B. Johnson um tímann sinn sem grunnskólakennari. Johnson kenndi í Cotulla í Texas þar sem margir nemendur töluðu litla sem enga ensku. Hann sá hversu mikið tungumálahindranir héldu þeim aftur, bæði í námi og lífi. Hann taldi að enskukunnátta væri lykillinn að því að börn gætu tekið fullan þátt í samfélaginu, átt fleiri tækifæri og forðast jaðarsetningu.

Punktur Johnsons er í raun að aðilar sem tala ekki tungumálið í landinu geta aldrei orðið fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Við á Íslandi megum huga að orðum Johnsons, enda stöndum við frammi fyrir sambærilegu vandamáli. Það er orðinn stór hluti af íslenska samfélaginu sem talar ekki íslensku. Suma má afsaka því að þeir eru nýir innflytjendur, eru í tímabundnu námi eða vinnu, eða ætla almennt ekki að dvelja lengi á Íslandi. Aðrir hafa ekki jafn góða ástæðu; þeir eru komnir til að vera, mögulega byrjaðir að setja upp fjölskyldu og eru á öðrum nótum þátttakendur í íslenska samfélaginu.

Það er mér undrun að ekki sé meira gert til að hvetja þessa aðila til að læra málið. Hví er íslenskunám ekki aðgengilegra og af hverju eru ekki fleiri hvatar til að aðstoða þessa aðila við að læra íslensku?

Aftur á móti þarf líka að vera íþyngjandi fyrir fólk að ekki læra málið. Ef þú hefur verið lengur en þrjú ár á Íslandi ætti íslenska ríkið ekki að niðurgreiða túlkunarþjónustu. Á sama hátt ætti að taka tillit til íslenskukunnáttu þegar kemur að framlengingu dvalarleyfa. Með því á ég ekki við að aðilar eigi að vera reiprennandi í íslensku og framleiða meistaraverk á borð við Mosfellinginn Halldór Laxness, heldur að sýna fram á framför.

Ríkið á að hafa skýr markmið fyrir einstaklinga um hvað þeir eiga að læra af íslensku miðað við tímann sem þeir hafa verið hér. Það er réttur innflytjenda að verða hluti af sínu nýja samfélagi, réttur þeirra að læra íslensku og verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu.

Það er líka réttur Íslendinga að tala sitt tungumál í sínu heimalandi. Það er afleitt að ekki sé hægt að búast við að geta klárað kaup í íslenskum verslunum án þess að tala íslensku. Fyrirtæki standa frammi fyrir vanda við að ráða nógu marga íslenskumælandi starfsmenn. þess vegna þurfum við að setja meiri kröfur til fólks sem ætlar að vinna hér að tala tungumál landsins, sem eru ekkert ólíkt kröfum sem aðrar evrópuþjóðir gera.

Það er allt í góðu fyrir okkur Íslendinga að vera stoltir af okkar máli. Við erum með fallegt tungumál, erum sögu- og menningar þjóð og það er okkar að passa upp á að íslenska hverfi ekki.

Það er tímabært að ríkið geri meira til að styðja við aðlögun innflytjenda og jafnframt varðveita okkar menningu og tungumál.

Hrafn Splidt, formaður Sambands Ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Fjarðarheiðargöng ein tilbúin til útboðs!

Deila grein

25/11/2025

Fjarðarheiðargöng ein tilbúin til útboðs!

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, lagði mikla áherslu á að Fjarðarheiðargöng yrðu næsta jarðgangaframkvæmd ríkisins í ræðu í störfum þingsins. Sagði hann „óábyrgt hjal“ að tala um aðrar gangaleiðir á meðan Fjarðarheiðargöng væru einu göngin sem raunverulega væru tilbúin til útboðs.

Þórarinn Ingi vitnaði til opins bréfs er Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, skrifaði á Vísi í gær og beint er til forsætisráðherra. Í bréfinu veltir hún fyrir sér ummælum innviðaráðherra um jarðgangaframkvæmdir næstu ára og því að verið sé að ræða aðrar gangaleiðir en Fjarðarheiðargöng.

Tók hann undir áhyggjur Jónínu og taldi umræðuna um önnur göng einfaldlega ekki standast ábyrgðarkröfur.

„Vissulega eru Fjarðarheiðargöng dýr framkvæmd,“ sagði Þórarinn Ingi, „en það að vera að velta upp öðrum gangamöguleikum sem ekki hafa verið rannsakaðir eða eru tilbúnir til útboðs er að mínu viti frekar óábyrgt hjal.“

Hann minnti á að Fjarðarheiðargöng væru eina jarðgangaverkefnið sem væri fullbúið undir útboð og því eðlilegt að það yrði sett í forgang.

„Fjarðarheiðargöng eru þau einu sem eru tilbúin til útboðs. Ég stend hér með Seyðfirðingum hvað það varðar og Fjarðarheiðargöng eru þau göng sem við eigum að horfa til næst,“ sagði Þórarinn Ingi og skoraði á aðra þingmenn að gera slíkt hið sama.

Þingmaðurinn hvatti jafnframt almenning til að kynna sér opna bréfið sem Jónína skrifaði forsætisráðherra og birt var á Vísi, þar sem hún fari ítarlega yfir stöðuna og mikilvægi þess að standa við gefin loforð gagnvart íbúum svæðisins.

Að lokum beindi Þórarinn Ingi skýrum skilaboðum til þingheims:

„Byrjum nú á því, þingheimur, og stöndum saman að því að fara að hefja hér almennilega jarðgangavinnu og þá förum við í það að byrja á þeim göngum sem eru tilbúin til útboðs.“

Categories
Fréttir Greinar

Þegar Inga Sæ­land sendir reikninginn á næsta borð

Deila grein

25/11/2025

Þegar Inga Sæ­land sendir reikninginn á næsta borð

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur skrifað borgarstjórn allri bréf þar sem spurt er hvers vegna ekki er gert ráð fyrir því að fjármagna 42 umsóknir um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Minnt er á að nýlega hafi samningur Sameinuðu þjóðanna verið lögfestur á Alþingi og vilji löggjafans sé skýr. Gagnrýnt er að í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár sjáist þess hvergi merki um að meirihlutinn í borginni ætli sér að fjármagna samningana þrátt fyrir lagaskyldu.

Þessir 42 NPA samningar í Reykjavík kosta líklega tæpa 2.5 milljarða. Bréf ÖBÍ kom mér ekki á óvart og það er eflaust það fyrsta af mörgum sem munu berast.

Að fella tár

Inga Sæland, félagsmálaráðherra felldi tár þegar Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var lögfestur á dögunum. Lögfestingin felur í sér að þau réttindi sem felast í samningnum eru orðin bindandi fyrir sveitarfélögin en þannig var það ekki áður. Þannig mátti áður hafa biðlista eftir þjónustu fyrir fatlað fólk eins og flesta aðra þjónustu en nú geta fatlaðir farið í mál við sveitarfélag ef það veitir ekki þjónustuna.

Það er auðvitað mikið fagnaðarefni að stjórnvöld skuli sýna með svo afgerandi hætti að þau vilji veita fötluðu fólki þessi réttindi. Við í Framsókn styðjum það eindregið. En þessi ákvörðun kostar mikla fjármuni. Í úttekt sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lét vinna kemur fram að árlegur viðbótarkostnaður eftir lögfestingu samningsins verði í heild um 14 milljarðar á ári. Og svo aftur árlega inn í framtíðina.

Svo kom hneykslið

Hneykslið í þessu máli er að Inga Sæland og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ákváðu að láta ekki eina einustu krónu fylgja þessari ákvörðun þingsins. Þau ákváðu einfaldlega að líta framhjá 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að það verði að gera mat á fjárhagslegum áhrifum lagasetningar á sveitarfélögin áður en frumvarp er samþykkt. Slíkt mat hefur ekki verið gert. Því var bara sleppt. Það er líka brot á 66. gr. laga um opinber fjármál en það truflar ekki stjórnarliða því lögfestingin á greinilega ekki að hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Alþingi ætti líka að hafa í huga að málsmeðferðin brýtur í bága við 30.gr þingskaparlaga.

Eðlilega voru felld tár yfir þessum frábæra árangri ráðherrans sem væntanlega fær mikið klapp á bakið frá fjármálaráðherra fyrir að koma öllum þessum kostnaði yfir á sveitarfélögin en ríkisstjórnin fær hrósið. Þetta er svona dálítið eins og að velja kampavín á veitingastað en senda reikninginn á næsta borð.

Fólk með fötlun á ekki að þurfa að lögsækja sveitarfélögin

Nú vil ég taka fram að ég styð að þessi samningur sé lögfestur og ég vil að fólki með fötlun sé sýnd sú virðing að geta lifað sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélagi okkar eins og 19. gr. samningsins kveður á um. En mér finnst einfaldlega andstyggilegt af Ingu Sæland og félögum hennar í ríkisstjórninni að koma svona fram við fólk með fötlun. Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að stilla þessum viðkvæma hópi upp á milli steins og sleggju eina ferðina enn? Svo hvetur Inga Sæland fatlað fólk til að fara með mál sín fyrir dómstóla ef sveitarfélögin veita ekki umbeðna þjónustu.

Ríkið veitir réttindin í orði en tryggir ekki fjármagn til að hægt sé að veita þjónustuna. Sveitarfélögin reyna hvað þau geta að mæta óskum umsækjenda en hafa einfaldlega ekki tekjustofna til þess að greiða fyrir þjónustuna og allt þetta veit ríkisstjórnin upp á hár. Og á meðan öllu þessu gengur þegir borgarstjóri Reykjavíkur þunnu hljóði.

Fjárlagafrumvarpið

Við vitum öll að ríkisstjórninni hefur ekki tekist vel upp með efnahagsstjórn landsins það sem af er þessu kjörtímabili og ríkisfjármálin eru í óvissu. En ef ríkisstjórnin ætlar að láta taka sig alvarlega og Inga Sæland ætlar ekki að verða sér til ævarandi skammar hvet ég hana til að fylgja lögum og láta gera ítarlegt kostnaðarmat og breyta svo fjárlagafrumvarpinu þannig að verkefnið verði full fjármagnað. Annað eru svik við fólk með fötlun.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2025.