Categories
Fréttir Greinar

Ríkið græðir á eigin fram­kvæmdum

Deila grein

14/11/2025

Ríkið græðir á eigin fram­kvæmdum

Það er ákveðinn misskilningur að stórar framkvæmdir á borð við jarðgöng og vegagerð séu fyrst og fremst kostnaðarsamar fyrir ríkissjóð. Það kemur til af því að slíkar framkvæmdir eru kostnaðartölur í samgönguáætlun en höfum það á hreinu samgönguáætlun fjallar ekki um tekjuhlið ríkissjóðs af eigin framkvæmdum. Ríkið græðir helling af eigin framkvæmdum.

Framkvæmdir eru fjárfesting – ekki útgjöld

Framkvæmdir eru fjárfestingar sem eignfærast, skapa tekjur, störf og verðmæti á framkvæmdatíma, bæði fyrir ríkið sjálft sem og fyrir samfélagið í heild.

Þegar ríkið ræsir stórar samgönguframkvæmdir fer hluti fjármagnsins nær samstundis aftur í ríkiskassann. Virðisaukaskattur, tryggingagjöld, tekjuskattar, gjöld af vélum og ökutækjum, tollar og vörugjöld fyrir utan fjölmörg önnur opinber gjöld sem víða leynast. Áætla mætti að ríkið endurheimti allt frá 25-35 % af kostnaði framkvæmda þegar á framkvæmdatíma. Þá strax myndast hreyfing í efnahagslífinu, þjónusta og verslun vex á framkvæmdatíma fyrir utan þann langtíma ábata samfélagsins og ríkisins af bættum samgöngum og auknum atvinnutækifærum. Þetta er því ekki útgjöld, heldur fjárfesting sem borgar sig margfalt.

Þetta gildir til dæmis um Fjarðarheiðargöng og nýjan veg um Öxi. Fyrir íbúa og fyrirtæki í Múlaþingi og á Austurlandi þýðir þetta styttri og öruggari leiðir, minni eldsneytisnotkun og lægri rekstrarkostnað. Fyrir ríkið þýðir það meiri umsvif, auknar skatttekjur og sterkari byggðir. Betri samgöngur eru sannarlega burðarás byggðafestu. Fólk er líklegra til að setjast að þar sem þjónusta og aðgengi eru tryggð, fyrirtæki sjá tækifæri í hraðari flutningum og ferðaþjónustan getur vaxið á traustari grunni. Hver króna sem fer í slíkar framkvæmdir er fjárfesting í framtíð byggðanna.

Tíminn er peningar – líka fyrir ríkið

Tafir í framkvæmdum kosta peninga. Fyrir hvert ár sem líður án framkvæmda tapar ríkið mögulegum tekjum og störfum. Því fyrr sem verkin verða að veruleika, því fyrr nýtist ávinningurinn fyrir þjóðarbúið.

Það er kominn tími til að breyta hugsunarhætti okkar um að samgönguframkvæmdir séu eingöngu gjaldaliðir, framkvæmdir eru tekjulindir – fjárfestingar sem efla atvinnulíf, tryggja öryggi og styrkja ríkissjóð til framtíðar. Spurningin sem eftir stendur er ekki hvort við höfum efni á að ráðast í þessi verk – heldur hvort við höfum efni á að láta þau ógert.

Sveitarstjórn Múlaþings stendur þétt saman í því að nýta hvert einasta tækifæri til að vekja máls á mikilvægi Fjarðarheiðarganga og Axarvegar. Það er okkar skýlausa krafa að farið verði strax af stað með útboð og framkvæmdir til að efna gefin loforð við sameiningu sveitarfélagsins. Loforð sem eru sannarlega skrifleg í gildandi samgönguáætlun. Samgönguáætlun sem er pólitísk og stjórnsýslulega bindandi áætlun, lögbundin langtímaáætlun ríkisins um samgöngur og samþykkt af Alþingi.

Hún er skuldbinding Alþingis og stjórnvalda gagnvart almenningi og sveitarfélögum landsins og því lágmark að farið sé í þær framkvæmdir sem ítrekað hafa verið samþykktar, enda hefur ríkið tekjur af eigin framkvæmdum.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Tvöfalt kjördæmaþing í Reykjavík velur fjögur efstu sæti framboðslistans

Deila grein

13/11/2025

Tvöfalt kjördæmaþing í Reykjavík velur fjögur efstu sæti framboðslistans

Framsókn í Reykjavík hefur á aukakjördæmaþingi samþykkt að viðhafa tvöfalt kjördæmaþing við val á efstu stæum framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí. Samkvæmt ákvörðun þingsins fer tvöfalda kjördæmaþingið fram annaðhvort 31. janúar eða 7. febrúar og verður þar kosið um fjögur efstu sæti framboðslistans.

Reglur um tvöfalt kjördæmaþing vegna borgarstjórnarkosninga kveða á um að atkvæðisrétt hafi flokksmenn sem eiga lögheimili í Reykjavík og eru í framsóknarfélögum í kjördæmunum. Á þinginu verður kosið um hvert sæti sérstaklega. Fyrst er kosið milli þeirra sem hafa gefið kost á sér í 1. sæti. Fái enginn frambjóðandi einfaldan meirihluta gildra atkvæða skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Sá telst kjörinn sem hlýtur fleiri atkvæði í síðari umferðinni. Þá er kosið um 2. sætið og svo framvegis þar til kosið hefur verið í 4 efstu sætin. Eftir að úrslit um hvert sæti liggja fyrir geta frambjóðendur sem ekki náðu kjöri í viðkomandi sæti gefið kost á sér í næsta sæti listans.

Þá gildir að ekki skulu vera fleiri en þrír af sama kyni í 5 efstu sætum framboðslistans. Að öðru leyti er það í höndum kjörstjórnar að gera tillögu um framboðslistann í heild og leggja hana fyrir stjórn kjördæmasambandsins, sem síðan leggur listann fyrir aukakjördæmaþing til samþykktar.

Categories
Fréttir

„Ekkert bólar á nýsköpunarhausti“

Deila grein

13/11/2025

„Ekkert bólar á nýsköpunarhausti“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, tók upp umræðu um stöðu atvinnumála í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Hún sagði stöðu atvinnumála á Íslandi hafa versnað hratt síðustu vikur og mánuði og kallaði eftir skýrum og samræmdum aðgerðum stjórnvalda til að örva atvinnulífið.

Ingibjörg sagði að sífellt fleiri merki væru uppi um að hagkerfið væri að kólna. Atvinnuleysi væri farið að aukast, flugfélagið Play væri fallið, uppsagnir hefðu orðið hjá Icelandair og mikil óvissa ríkti í ferðaþjónustunni. „Atvinnulífið heldur að sér höndum og fjárfesting dregst saman hjá fyrirtækjum í landinu,“ sagði hún og benti jafnframt á að gengið væri að veikjast á sama tíma og óvissa ríkti í alþjóðaviðskiptum og tollamálum.

Ingbjörg gagnrýndi jafnframt að skattbyrði á bæði almenning og fyrirtæki hefði aukist á tímum þar sem óvissan í efnahagslífinu væri þegar mikil. Sagði hún traust atvinnulífs og heimila á efnahagsstefnu stjórnvalda fara minnkandi. Vakti hún athygli á því að Landsbankinn og Hagstofan spáðu nú mun minni hagvexti á næsta ári en áður hefði verið gert ráð fyrir, um 1,7%.

Í ljósi þessa spurði Ingibjörg atvinnuvegaráðherra hvort hún hefði ekki áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaði og í efnahagslífinu almennt og hvort ekki væri tímabært að stjórnvöld settu sér skýrar, samræmdar aðgerðir til að örva atvinnulífið. Að hennar mati væri lykilatriði að Ísland „vaxi út úr“ þeirri stöðu sem nú hafi skapast í stað þess að festast í hægagangi og óvissu.

Atvinnuvegaráðherra svaraði því til að full ástæða væri til að ræða þessi mál ítarlegar á Alþingi. „Það er full ástæða til að fara í samtal hér í þingsal og jafnvel að taka sér meiri tíma en felst í svona fyrirspurn til að ræða almennt um atvinnulífið, verðmætasköpun og stöðu efnahagsmála,“ sagði hún og bætti við að hún væri í þéttu samtali við fulltrúa atvinnugreina og aðra ráðherra sem málið heyrði undir. „Við erum í samtali, það er margt á döfinni, það er mikil bjartsýni víða og ég er algerlega ósammála hv. þingmanni í því að það sé þverrandi traust til aðgerða ríkisstjórnarinnar í samfélaginu. Við ætlum okkur að standa undir því trausti og það er margt í gangi. Það er hið einfalda svar,“ sagði ráðherra meðal annars.

Ingibjörg minnti á að rætt hefði verið um að hér ætti að „blása til nýsköpunarhausts“, um sóknarfæri og uppbyggingu í atvinnulífinu. Að hennar mati hefur það ekki gengið eftir. Ekkert bólar á slíku nýsköpunarhausti né á því að ríkisstjórnin hafi tök á verðbólgu og vöxtum.

„Við sjáum núna að það er 1% frávik í hagspá frá upprunalegum áætlunum í vor og þetta hefur í rauninni áhrif á allt hér í landinu; á tekjur ríkisins, atvinnuþátttöku og allt,“ sagði Ingibjörg.

Að lokum beindi hún nokkrum spurningum til atvinnuvegaráðherra:

  • Hvaða aðgerðir hyggjast stjórnvöld ráðast í til að örva atvinnulífið, fjárfestingu og nýsköpun á komandi mánuðum?
  • Er ekki tilvalið að ráðast í öfluga markaðssetningu í ferðaþjónustu og einfalda leyfisveitingaferlið í sjó- og landeldi?
  • Er það virkilega þannig að ráðherrar telji að staðan sé bara allt í lagi þrátt fyrir 1% lækkun á hagvexti og að atvinnuleysi sé að aukast?
  • Eða er stefna ríkisstjórnarinnar einfaldlega sveltistefna sem eigi að neyða þjóðina inn í Evrópusambandið?
  • Er það plan ríkisstjórnarinnar?
Categories
Fréttir Greinar

Fyrir þau sem stoppa stutt

Deila grein

13/11/2025

Fyrir þau sem stoppa stutt

Á síðustu árum hefur heimsendingarþjónusta á vörum og mat aukist verulega, ekki síst í kjölfar heimsfaraldursins. Neytendur hafa í auknum mæli tileinkað sér þau þægindi sem felast í að fá sendar vörur og mat beint heim að dyrum, og hafa matar- og vöruinnkaup í gegnum netið orðið fastur hluti af daglegu lífi fjölmargra. Þessi þróun hefur þó skapað áskoranir í miðborginni, þar sem aðgengi bíla er takmarkað og bílastæði ofanjarðar fá. Sendibílstjórar og aðrir sem sinna skammtímaakstri neyðast oft til að leggja ólöglega eða langt frá áfangastað, sem veldur seinkunum, truflunum í umferð og eykur hættu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur.

Aðilar sem stunda heimsendingarþjónustu hafa bent á mikilvægi þess að svæði séu hönnuð þannig að hægt sé að sækja vörur og mat án þess að þurfa að leggja langt frá þeim stað þar sem sækja á varninginn, og án þess að greiða háar fjárhæðir fyrir aðeins 5-10 mínútna stopp. Skortur á skammtímastæðum leiðir til þess að tími og kostnaður sendibílstjóra eykst, sem bitnar bæði á fyrirtækjum og neytendum.

Sleppistæði, þar sem heimilt væri að staldra við í stuttan tíma án gjaldtöku, myndu leysa stóran hluta þessara áskorana. Með þeim væri hægt að tryggja fljótlegt og öruggt aðgengi fyrir þá þjónustu sem einungis krefst þess að stoppað sé í skamma stund. Slík stæði myndu ekki aðeins bæta starfsskilyrði fyrir heimsendingarþjónustu, heldur einnig gagnast leigubílum sem sinna farþegum í miðborginni og velferðarþjónustu sem afhendir mat og lyf heim til fólks og sér um akstursþjónustu.

Raunhæfar lausnir

Skipulagning á sleppistæðum myndi stuðla að betra flæði í miðborginni, draga úr ólöglegum stoppum og bæta upplifun og öryggi bæði íbúa og gesta. Við í Framsókn viljum horfa til raunhæfra lausna sem bæta daglegt líf borgarbúa og styrkja atvinnulífið í miðborginni. Því lögðum við til að umhverfis- og skipulagssviði yrði falið að móta tillögur um útfærslu skammtímasleppistæða í miðborg Reykjavíkur í nálægð við veitingastaði og verslanir, til að greiða aðgengi að heimsendingarþjónustu og styðja við rekstrarmöguleika veitingastaða og verslana í miðborginni. Þrátt fyrir að tillagan sé skynsamleg og í takt við þá þróun sem á sér stað í borgum víða um heim ákvað borgarstjórnarmeirihlutinn að hafna henni. Fulltrúar Samfylkingar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins felldu tillöguna. Það er sorglegt að þau virðast ekki sjá þörfina fyrir að bæta umferðarflæði né styðja við atvinnulífið í miðborginni.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Akra­nes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu

Deila grein

12/11/2025

Akra­nes hefur vaxið hratt – nú er tími til að hlúa að fólkinu

Það er eitthvað fallegt við þann tíma árs þegar við setjumst niður og förum yfir fjárhagsáætlun bæjarins. Flestir sjá kannski bara töflur, línur og tölur – en fyrir mér sem bæjarfulltrúa, er þetta aðeins meira en það. Fjárhagsáætlun sveitarfélagsins er ekki bara Excel-skjöl og útgjaldaliðir. Hún er spegilmynd þess hvernig við sem samfélag viljum forgangsraða. Hverju við veljum að hlúa að. Hún segir frá gildum okkar, framtíðarsýn og þeirri ábyrgð sem við berum gagnvart fólkinu sem heldur bænum gangandi.

Við erum að koma út úr einu mesta uppvaxtarskeiði í sögu Akraneskaupstaðar. Á örfáum árum hefur bæjarfélagið tekið gríðarlegum breytingum. Hér hefur verið byggt, endurnýjað, stækkað og þróað. Við höfum fjárfest í nýjum íþróttamannvirkjum (fimleikahúsi, reiðhöll, golfskála, stórglæsilegu fjölnota íþróttahúsi), byggt við Dvalarheimilið Höfða, endurbætt báða grunnskólana og reist nýjan leikskóla. Þetta hefur verið gert samtímis og við höfum þurft að fara í umfangsmiklar viðgerðir á eldra íþróttahúsi bæjarins og ýmsum stofnunum. Þetta hefur kostað mikla peninga og fórnir – en það hefur líka verið fjárfesting í framtíðinni. Sem betur fer var bærinn vel undirbúinn og hefur ekki þurft að taka eins mikið að láni og ætla mætti. Það er merki um ábyrga fjármálastjórn og sterkan grunn.

En nú er kominn tími til að hægja á. Að setjast niður, draga andann djúpt – og hugsa um akurinn.

Tími til að hlúa – ekki aðeins að byggja

Við höfum verið dugleg að reisa og byggja, en garðurinn þarf meira en steypu og stál. Hann þarf að fá tíma, næringu og umhyggju. Ef við viljum uppskera áfram, þá verðum við að vökva. Því það sem raunverulega heldur bænum okkar uppi er ekki húsin eða mannvirkin – heldur fólkið. Starfsfólkið sem sinnir börnunum okkar, styður aldraða, heldur bænum hreinum og tryggir þjónustu við íbúa, starfsmenn stjórnsýslunnar og starfsmenn Fjöliðjunnar sem taka við dósunum okkar. Svona mætti lengi áfram telja.

Álagið hefur aukist, kröfurnar hækkað og stjórnsýslan orðið flóknari. En stuðningurinn hefur ekki alltaf fylgt með. Það er ekki áfellisdómur – heldur ákall. Það eru allir að gera sitt besta við oft erfiðar aðstæður. Nú er kominn tími til að huga að fólkinu sem bærinn byggir á. Þetta er eins og með fjölskylduna okkar, þau vita alveg að við elskum þau en stundum mættum við vera duglegri við að segja þeim það!

Ég hef oft líkt Akranesi við garð. Það dugir ekki að sá og stinga niður stiklum ef við gleymum að vökva. Þá vex illgresið og ræturnar visna. Við getum ekki ætlast til ríkulegrar uppskeru ef við hlúum ekki að jarðveginum.

Skipurit, traust og samtal

Það eru nú tvö ár síðan við hófum vinnu við nýtt skipurit. Markmiðið er gott – að gera stjórnsýsluna skilvirkari, skýrari og nær fólkinu. En teikning á blaði breytir engu ef hún er ekki lifandi. Skipurit virkar aðeins ef það er byggt á trausti, hlustun og þátttöku. Starfsfólkið þarf að skilja tilganginn og fá að taka þátt í ferlinu. Það er ekki nóg að segja fólki hvert það eigi að fara – það þarf að skilja af hverju það er á ferðinni. Þá verða breytingar ekki ógn, heldur tækifæri.

Að nýta betur, ekki skera niður

Við verðum líka að horfa heiðarlega á kostnað. Sérstaklega þann sem tengist aðkeyptri þjónustu. Það hefur verið bent á þetta í mörg ár – en lítið gerst. Nú þurfum við að spýta í lófana. Það þarf að liggja fyrir heildstæð greining á stöðunni, forgangsröðun og gagnsæi. Kjörnir fulltrúar eiga að hafa skýra mynd af raunveruleikanum – og vinna í nánu samstarfi við stjórnendur og starfsfólk. Þetta snýst ekki um niðurskurð. Þetta snýst um að nýta betur. Að taka upplýstar ákvarðanir, byggðar á gögnum, samráði og trausti.

Starfsfólk er fjárfesting, ekki kostnaður

Eitt af því leiðinlegast við fjárhagsáætlun er þegar það er stanslaust verið að tala um kostnað, kostnað, kostnað. Það er mikilvægt að líta á mannauðinn sem fjárfestingu en ekki sem kostnað sem hægt er að stilla til eftir þörfum. Með því að styðja starfsfólk í fræðslu, þróun og aukinni starfsánægju byggjum við upp sterkara samfélag. Fólk sem finnur til virðingar, hefur skýran tilgang og tækifæri til að vaxa í starfi skilar betri þjónustu og meiri stöðugleika – bæði til framtíðar og í daglegum rekstri.

Ég vil að Akraneskaupstaður sé vinnustaður sem fólk er stolt af. Staður þar sem það finnur að það skiptir máli. Þar sem virðing, samvinna og traust eru ekki slagorð, heldur raunveruleg gildi í daglegu starfi. Þegar við hlúum að fólkinu okkar, hlúum við að framtíð bæjarins.

Liðsheildin Akranes

Við þurfum líka að hætta að hugsa í einingum og sviðum – og byrja að hugsa í tengslum. Akranes er ekki safn deilda sem keppast um fjármuni, heldur eitt lið. Ég líki þessu stundum við ÍA – liðsheild sem nær árangri þegar allir vinna saman. Starfsfólk bæjarins á ekki að finna að það starfi fyrir sitt „félag“, heldur fyrir Akranesliðið. Þegar við róum í sömu átt, með trausti, gagnsæi og virðingu, þá eykst leikgleðin – og árangurinn líka.

Framtíð með hjarta

Við stöndum á tímamótum. Við höfum gert ótrúlega hluti, byggt upp sterka bækistöð og fjárfest í framtíðinni. Nú þurfum við að staldra við, endurhugsa forgangsröðun og leggja áherslu á það sem ekki sést alltaf á fjárhagsáætlun – fólkið, menninguna, samfélagið.

Það er auðvelt að tala um niðurskurð. Það kveikir þó sjaldnast eldmóð. Við þurfum að tala um uppbyggingu – um hugrekkið til að breyta, um samtal, um ábyrgð og um ást á bænum okkar. Því þegar við hlustum á hvort annað, þegar við vinnum saman í stað þess að draga í sundur, þegar við hugsum með hjartanu jafnt og hausnum – þá blómstrar bærinn. Ekki bara á pappír, heldur í lífi fólksins sem hér býr og vinnur.

Akranes er garður sem hefur vaxið hratt. Nú er tími til að vökva hann, rækta hann og leyfa honum að dafna. Þá verður uppskeran ríkuleg.

Liv Åse Skarstad, bæjarfulltrúi Framsóknar og Frjálsra á Akranesi

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Deila grein

11/11/2025

Álögur á heimili og fyrirtæki hafa aukist verulega á kjörtímabilinu

Það er hlutverk sveitarfélaga að tryggja sanngjarna skattlagningu sem endurspeglar raunverulega stöðu íbúa og atvinnulífs. Á kjörtímabilinu höfum við lagt áherslu á að bregðast við ósanngjörnum hækkunum á fasteignaskatti sem hafa bitnað á heimilum og fyrirtækjum og eru tilkomnar vegna mikilla hækkana á fasteignamati á undanförnum árum. Til að mæta þessari þróun og breyttu vaxtaumhverfi hafa bæjarfulltrúar Framsóknar lagt fram tillögur um að sveitarfélagið lækki sín álagningarviðmið, þannig að íbúar og fyrirtæki greiði ekki hærri fasteignaskatta milli ára en sem nemur verðbólgu ársins.  

 Mynd: Byggðastofnun. Hér vantar þó árið 2026 en hækkun á fasteignamati milli ára er þá 9,2.

Fasteignamat á Akureyri hefur hækkað verulega frá árinu 2022 eða um 60% á kjörtímabilinu. Þrátt fyrir þetta hefur álagningarprósentan aðeins einu sinni verið lækkuð á kjörtímabilinu, og þá aðeins óverulega fyrir íbúðarhúsnæði, en ekkert fyrir atvinnuhúsnæði. Þessar breytingar hafa haft í för með sér mikla hækkun fasteignaskatta á bæði heimili og fyrirtæki.

Tillaga að lækkun fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í takt við lækkun á íbúðahúsnæði

Við afgreiðslu fasteignagjalda í bæjarráði lögðum við bæjarfulltrúar Framsóknar fram tillögu þess efnis að fasteignaskattur á atvinnuhúsnæði verði lækkaður um fjóra punkta í stað tveggja, úr 1,63% í 1,59%. Með þessari breytingu yrði hækkun fasteignaskatts í takt við verðbólgu ársins, líkt og íbúahúsnæði. Frá árinu 2022 hefur fasteignamat atvinnuhúsnæðis á Akureyri hækkað um 44%, og hefur skattbyrði fyrirtækja því aukist verulega án þess að álagningarhlutfallið hafi verið endurskoðað í samræmi við þær breytingar og krefjandi rekstrarumhverfi í háu vaxtaumhverfi.

Sanngirni og stöðugleiki í fyrirrúmi

Markmið Framsóknar er að stuðla að heilbrigðu og sjálfbæru rekstrarumhverfi sveitarfélagsins og sýna ráðdeild í rekstri til að koma til móts við hækkandi álögur á íbúa og fyrirtæki. Hluti af því er að bregðast við hækkunum á fasteignamati. 

Sunna Hlín Jóhannesdóttir, oddviti Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is 8. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

„Lykilverkefni komin í frost“

Deila grein

11/11/2025

„Lykilverkefni komin í frost“

Jóhann Friðrik Friðriksson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins hvernig staðið hefur verið að málum á Suðurnesjum og á Reykjanesskaga. Hann benti á að atvinnuleysi á svæðinu sé 7,1% og sagði óvissu vegna mögulegra náttúruhamfara kalla á skýrt plan og hraðari ákvarðanir.

„Suðurnesin glíma nú við 7,1% atvinnuleysi og mestu náttúruhamfarir á lýðveldistímanum eru mögulega enn í sjónmáli,“ sagði Jóhann Friðrik og vísaði þar til þeirra viðvarana sem komið hafa frá Veðurstofu Íslands.

Jóhann Friðrik tók sérstaklega fyrir aðgerðir stjórnvalda gagnvart fyrirtækjum í Grindavík. Hann sagðist vonast til að samkeppnissjóður sem settur var á hefði jákvæð áhrif, þó hefði hann sjálfur viljað beina, sérsniðna aðstoð við hvert fyrirtæki: „Það er mín von að það veiti góðan árangur þótt ég hefði viljað fara aðra leið.“

Telur stór verkefni hafa stöðvast

Jóhann Friðrik taldi upp fjölda verkefna sem hann sagði hafa farið í „frost“: stækkun Njarðvíkurhafnar og flutning skipa Landhelgisgæslunnar, nýja heilsugæslu í Innri-Njarðvík sem þegar hefði verið boðin út, og fyrirhugaða stækkun fjölbrautaskólans fyrir verknám. „Það er allavega hægagangur þar, vonandi ekki frost,“ sagði hann um skólaframkvæmdirnar.

Gagnrýnir viðbrögð við falli Play og stöðu lögreglu

Jóhann Friðrik vísaði í ræðu sinni til þess að stór hluti þeirra 400 starfsmanna sem misstu vinnuna við „fall Play“ væri búsettur á Suðurnesjum. „Hvernig voru viðbrögðin? Engin,“ sagði hann og bætti við að mótvægisaðgerðir í ferðaþjónustu á svæðinu hefðu einnig vantað. Þá gagnrýndi hann húsnæðismál lögreglunnar: „Starfsemin er loks komin í tímabundið húsnæði, enn ein gámabyggðin … ekkert varanlegt húsnæði þar.“

Varðandi málaflokk hælisleitenda sagði hann að Suðurnes hefðu áður borið „langstærstu byrðarnar“ vegna fjölgunar, en að þróunin virtist nú horfa til betri vegar.

Beinir spurningum að ríkisstjórn

Jóhann Friðrik sagði skorta heildstæða sýn stjórnvalda á uppbyggingu og varnir á svæðinu. Hann gagnrýndi jafnframt yfirlýsta vegferð fjármálaráðherra um að stefna stærstu fyrirtækjum svæðisins vegna almannavarnaaðgerða: „… á grundvelli þess að þau hafi auðgast á áfallinu.“

Jóhann Friðrik lauk máli sínu með spurningu til ríkisstjórnarinnar: „Er staðan virkilega sú að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur er algerlega búin að missa tökin á því að það er mikilvægt að sinna málum sem koma upp strax?“

Categories
Fréttir

Atvinnustefna til 2035 þarf að taka mið af samfélögum um land allt

Deila grein

11/11/2025

Atvinnustefna til 2035 þarf að taka mið af samfélögum um land allt

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, lagði áherslu á í ræðu um störf þingsins að vinna við mótun atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar til ársins 2035 verði byggð á raunverulegri stöðu fólks og atvinnulífs í öllum landshlutum. Hann vísaði til þess að fjöldi umsagna hefði borist í samráðsgátt stjórnvalda og sagði mikilvægt að samfélagslegir þættir væru í forgrunni þegar unnið yrði úr þeim.

„Slík stefna er ekki aðeins efnahagslegt skjal heldur samfélagsleg yfirlýsing um það hvernig við viljum byggja Ísland,“ sagði Þórarinn Ingi. „Hún þarf að vera heildstæð, framsækin og byggjast á stöðu ólíkra samfélaga og landshluta sem eru mismunandi.“

Þórarinn Ingi benti á að atvinnulíf hefði breyst verulega í sumum byggðum á undanförnum árum og að víða væri hlutfall erlends vinnuafls orðið hátt. Það kallaði á markvissar aðgerðir. „Við þurfum að styrkja menntun, húsnæði, inngildingu og samfélagslega innviði þannig að allir geti lifað og unnið hér við góð kjör og skapað verðmæti,“ sagði hann.

Að mati Þórarins Inga þarf atvinnustefnan jafnframt að endurspegla nýja tíma með skýrum stuðningi við nýsköpun, fjölbreytni og þátttöku allra aldurshópa. „Við verðum að vinna saman, ekki í sílóum heldur með sameiginlega framtíðarsýn,“ sagði hann og tók sem dæmi verkefnið HeimaHöfn á Hornafirði þar sem tekist hafi að tengja saman atvinnu, nýsköpun og samfélagslegan kraft á forsendum heimamanna.

„Við þurfum atvinnustefnu sem nær utan um allt landið, sem tekur mið af fólkinu, byggðunum og samfélögunum sem halda henni á lofti. Sú leið tryggir bæði stöðugleika og framtíðarvöxt Íslands,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum.

Categories
Fréttir

„Það kemur enginn ferðamaður hingað með lest“

Deila grein

11/11/2025

„Það kemur enginn ferðamaður hingað með lest“

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, beindi sjónum sínum að stöðu ferðaþjónustunnar og þeim áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir vegna hækkandi umhverfisgjalda, sérstaklega í gegnum ETS-kerfið sem tekur til flugs og siglinga. Halla Hrund sagði mikilvægt að ríkisstjórnin greini áhrifin vandlega og tryggi samkeppnishæfni íslenskra samgangna „hratt og vel“.

„Ferðaþjónustan skilar um 34% af útflutningstekjum Íslendinga og er gríðarlega verðmæt fyrir byggðir um allt land,“ sagði Halla Hrund og bætti við að á „degi ferðaþjónustunnar“ í síðustu viku hafi komið í ljós samdráttur í komum ferðamanna frá Bandaríkjunum, hóps sem hafi yfirleitt haft háan greiðsluvilja hér á landi.

ETS-kerfið ekki hannað að íslenskum aðstæðum

Í máli Höllu Hrundar kom fram að gjöld tengd ETS-kerfinu séu að hækka og geti dregið úr samkeppnishæfni Íslands, þar sem kerfið sé „ekki að fullu hannað fyrir okkar aðstæður“. Hún benti á að kerfið hvetji til lestarsamgangna í stað styttri flugferða: „Það er augljóst að það kemur enginn ferðamaður hingað til lands með lest,“ sagði hún.

Halla Hrund vakti jafnframt athygli á því að á næsta ári rennur út undanþága sem snýr að losunarheimildum fyrir Ísland er varða flug. „Það er ótrúlega mikilvægt að ríkisstjórnin greini þessi áhrif vel og fari í aðgerðir sem bæði geta tryggt samkeppnishæfni flugsins okkar og líka þegar kemur að skipasiglingum.“

Vill heildstæða nálgun í loftslagsmálum

Halla Hrund lagði áherslu á að loftslagsmarkmið og samkeppnishæfni þurfi að fara saman. Hún nefndi sem dæmi að Icelandair hafi þegar náð samdrætti í losun með fjárfestingu í nýjum flugflota og hvatti áfram til fjárfestinga sem auka orkuöryggi og styðja grænni framtíð.

„Við eigum að horfa á umhverfismál heildstætt… en í ljósi mikilvægi samgangna til og frá landinu hvet ég ríkisstjórnina til að vinna þetta mál hratt og vel.“

Atvinnustefna í mótun

Halla Hrund sagði ferðaþjónustuna verða kjarnagrein, eða ein af kjarnagreinum, í atvinnustefnu Íslands sem nú er í mótun hjá ríkisstjórninni. „Við hlökkum til að vinna að [henni],“ sagði hún.

Categories
Fréttir Greinar

Bættar sam­göngur og betra sam­félag í Hafnar­firði

Deila grein

11/11/2025

Bættar sam­göngur og betra sam­félag í Hafnar­firði

Við leggjum mikla áherslu á að skapa öruggt og gott umhverfi fyrir alla vegfarendur í Hafnarfirði. Góð umferðamenning skiptir þar höfuðmáli. Hún byrjar hjá okkur sjálfum. Hún snýst um virðingu, tillitssemi og það að við tökum ábyrgð hvert á öðru í umferðinni. Þannig byggjum við upp bæ þar sem öryggi, þægindi og umhverfisvitund haldast í hendur.

Reykjanesbrautin frá Kaplakrika að N1

Tvöföldun Reykjanesbrautar hefur skilað auknu og betra flæði umferðar og aukið öryggi til muna. Reykjanesbrautin er ein mikilvægasta samgönguæð landsins og hefur mikil áhrif á daglegt líf íbúa Hafnarfjarðar. Kaflinn frá Kaplakrika að N1 við Lækjargötu er sérstaklega mikilvægur, þar sem umferðaþungi hefur aukist jafnt og þétt. Ég hef átt í góðu samtali við Vegagerðina um þennan vegkafla sem er á samgönguáætlun.

Í lok þessa árs verður kynnt valkostagreining um væntanlegar framkvæmdir. Ég hef komið því skýrt á framfæri við Vegagerðina að þessi framkvæmd þurfi að vera í algjörum forgangi, ásamt þeim sjónarmiðum að umferðaflæði og öryggi verði tryggt á framkvæmdartíma. Ég mun sjá til þess að íbúar fái góða kynningu á þessari framkvæmd, sem er forgangsmál fyrir okkur Hafnfirðinga og samfélagið allt vegna tengingar við alþjóðaflugvöllinn. Stefnt er að verklokum þessara framkvæmda árið 2032.

Almenningssamgöngur niður Reykjavíkurveg

Verið er að vinna frumdrög Borgarlínu frá Fjarðarkaupum, niður Reykjavíkurveg að Firði. Þessi leið er lykiltenging í samgöngum bæjarins og hluti af ásýnd og sjarma Hafnarfjarðar. Við höfum átt uppbyggilegt og gagnlegt samstarf við Betri samgöngur um áformin þar sem áherslan er á lausnir sem bæta samgöngur án þess að skerða aðgengi eða gæði umhverfisins. Einnig er mikilvægt að góðar almenningssamgöngur nái alveg að Tækniskólanum. Fjölmargir nemendur Tækniskólans koma til með að nýta sér bættar almenningssamgöngur og því þarf að vera öflug stoppistöð við skólann.

Ég legg á það áherslu að ég mun ekki styðja það ef lagt verður til að rífa íbúðarhús til að koma fyrir Borgarlínu. Slíkt verður ekki gert á minni vakt.

Umferð eykst með komu Tækniskólans

Koma Tækniskólans á Suðurhöfnina í Hafnarfirði er mikið fagnaðarefni. Þar er einnig að fara af stað mikil uppbygging íbúða og þjónustu við Hvaleyrarbraut, Óseyrarbraut og Flensborgarhöfn. Með nýjum nemendum og starfsfólki í Tækniskólanum ásamt nýjum íbúum á svæðinu mun umferð aukast. Það kallar á gott skipulag og ný umferðarmannvirki við Flensborgartorg, Strandgötuna og við gatnamótin við Strandgötu og Reykjanesbraut. Unnið er að því að greina umferðina og koma með lausnir. Hér er um að ræða jákvæða þróun á þessu svæði sem eðli máls kallar á raunhæfar lausnir. Ég mun leggja á það áherslu að hægt verði að kynna slíkt fyrir íbúum ekki síðar en snemma á næsta ári.

Samvinna skilar árangri

Í Hafnarfirði leggjum við áherslu á samvinnu. Samvinnu við íbúa, fyrirtæki og opinbera aðila. Samstarfið við Vegagerðina og Betri samgöngur hefur verið traust og uppbyggilegt og saman erum við að móta framtíðarsýn sem gerir Hafnarfjörð að enn betri bæ til að ferðast um, búa í og starfa.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. nóvember 2025.