Categories
Fréttir

Afmörkun svæða og eignarhald á uppbyggingu vindorkuvera

Deila grein

17/09/2025

Afmörkun svæða og eignarhald á uppbyggingu vindorkuvera

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um afmörkun á uppbyggingu vindorkuvera á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar þannig:

    „Alþingi ályktar að fela umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að móta stefnu sem leggur grunn að afmörkun á uppbyggingu vindorkuvera á Íslandi í ljósi áhrifa þeirra á náttúru og vistkerfi. Í stefnunni skal koma fram skýr afmörkun landsvæða þar sem reisa má vindorkuver, hversu umfangsmikil þau megi vera á hverju svæði fyrir sig, hvaða markmið þau eigi að styðja, ásamt sjónarmiðum um eignarhald og áhrif á samfélagið. Stefnan skal leggja grunn að því að uppbygging vindorku sé unnin í skrefum á grunni varúðar og lærdóms með langtímahagsmuni þjóðarinnar í huga.“

Í ljósi vaxandi áhuga á nýtingu vindorku hér á landi er nauðsynlegt að móta skýrari ramma um hvar slík nýting sé heimil. Í stað þess að útiloka einstök svæði ætti að skilgreina þau svæði þar sem vindorkuverkefni eru leyfð, til að draga úr óvissu og forðast að stærstur hluti landsins verði opinn fyrir óskipulagðri uppbyggingu. Slík nálgun gæti dregið úr kapphlaupi um auðlindir og minnkað líkur á deilum í sveitum landsins.

Sjá nánar: Tillaga til þingsályktunar um afmörkun á uppbyggingu vindorkuvera

Hagkvæmni vindorkuverkefna þurfi að liggja fyrir strax í upphafi. Það krefst ítarlegra rannsókna á vindgæðum, fýsilegri stærð verkefna, aðgengi að flutningskerfi og kostnaði við tengingu við það. Einnig þarf að liggja fyrir raunhæf áætlun um jöfnunarorku, hvaðan hún kemur og hvernig hún verður tryggð.

„Nýr veruleiki“ í orkumálum

Í greinargerð segir að samanlagt afl vindorkuverkefna í skoðun hér á landi sé orðið meira en allt uppsett afl raforkukerfisins sem byggst hafi upp á áratugum. Meiri hluti verkefna sé í höndum einkaaðila á grundvelli Evrópureglna um samkeppni á raforkumarkaði og græna orku, án þess að ítarleg umræða hafi farið fram um breytt eignarhald á grunninnviðum. Flutningsmenn telja nauðsynlegt að tryggja að beinn arður af auðlindanýtingu renni áfram til samfélagsins, líkt og tíðkast hafi í orkumálum hingað til, nema settar verði skýrar reglur um annað.

Áhrif á náttúru og skipulag

Vindmyllur geti náð allt að 250 metra hæð og haft veruleg áhrif á landslag, hljóðvist og fuglalíf. Þar sem nýting vindorku sé ekki bundin við tiltekna staðsetningu, eins og við árfarvegi eða jarðhitasvæði, sé stór hluti landsins tæknilega opinn fyrir verkefnum. Skortur á framtíðarsýn hafi leitt til þess að tugir kosta séu komnir til skoðunar í rammaáætlun. Bent er á að samþykki landeigenda þurfi ekki að liggja fyrir áður en virkjunarkostir fara í umhverfismat, sem geti vakið ágreining.

Ekki hægt að „vísa í frjálsa samkeppni“

Hall Hrund leggur áherslu á að Evrópuréttarreglur taki ekki afstöðu til staðsetningar vindorku; það sé á ábyrgð hvers ríkis að marka stefnu. „Stjórnmálamenn geta ekki skýlt sér á bak við frjálsa samkeppni til að leyfa vindorkuverum að rísa hvar sem er,“ segir m.a. í greinargerðinni. Í stað þess að útiloka stök svæði verði að skilgreina hvar nýting sé leyfð og með hvaða skilyrðum.

Hagkvæmni, flutningskerfi og jöfnunarorka

Að mati Höllu Hrundar þarf að tryggja hagkvæmni frá upphafi með ítarlegum rannsóknum á vindgæðum, fýsilegri stærð verkefna, aðgengi að flutningskerfi og tengikostnaði, sem og raunhæfum áætlunum um jöfnunarorku. Lagt er til að byggja upp í skrefum á örfáum svæðum til að dreifa veðurfari og lágmarka sveiflur, „vindurinn blæs ekki alltaf á sama stað“.

Vindorka á hafi: leiga í stað afhendingar

Þá er hvatt til þess að ljúka regluverki um vindorku á hafi. Erlend orkufyrirtæki sýni þegar áhuga og mikilvægt sé að íslensk hafsvæði séu ekki framseld án endurgjalds, heldur leigð til afmarkaðs tíma líkt og þekkist víða.

Orkuskipti krefjast skýrra hvata

Vindorka er gjarnan sett í samhengi við orkuskipti og orkuöryggi, en flutningsmaður bendir á að raforka sé almennt seld á frjálsum markaði. Tryggja þurfi með lögum og sértækum hvötum að framleiðsla styðji tiltekin markmið stjórnvalda, t.d. orkuskipti eða aukið orkuöryggi á ákveðnum svæðum.

Skýr lagarammi í stað lagalegrar óvissu og átaka

Í tillögunni er lögð áhersla á skýran lagaramma strax í upphafi til að forðast lagalega óvissu og sársaukafullar deilur í samfélaginu. Ef rétt sé að málum staðið geti vindorka orðið mikilvæg viðbót við vatnsafl og jarðhita, sérstaklega yfir vetrartímann þegar lón eru undir álagi, án mikilla umhverfisáhrifa.

Categories
Fréttir

Brýnt að stemma stigu við brottfalli úr lögreglunni

Deila grein

17/09/2025

Brýnt að stemma stigu við brottfalli úr lögreglunni

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gerði stöðu lögreglunnar að umtalsefni í umræðum um störf þingsins og sagðist fagna 50 nýjum stöðugildum hjá lögreglunni en varaði við brottfalli úr stéttinni. Kallaði hann eftir markvissum aðgerðum um kjör, aðbúnað og lagaumhverfi.

„Ég vil byrja á því að fagna þeirri aukningu sem boðuð hefur verið í löggæslunni og þeim 50 nýju stöðugildum sem bætt hefur verið við,“ sagði Stefán Vagn og benti á að viðbæturnar hefðu þegar skilað sér að einhverju marki. „Vandamálið er hins vegar að þrátt fyrir viðbætur þá er brottfall úr stéttinni mjög mikið.“

„Ekki bæta á vatni í leka fötu“

Stefán Vagn sagði stóra verkefnið felast í því að stöðva brottfall reynslumikilla lögreglumanna. „Það er gott að fá nýtt fólk inn, það er nauðsynlegt, en að missa á sama tíma út reynslumikið fólk, jafnvel með áratugareynslu, er afleitt,“ sagði hann og bætti við að orsakir væru margvíslegar: álag, kjör, aðbúnaður, búnaður, starfsaðstæður, lagaumhverfi, vinnutími og áhætta í starfi.

„Það þjónar nefnilega takmörkuðum tilgangi að bæta á vatni í leka fötu. Við þurfum að einbeita okkur að því verkefni að stoppa í götin þannig að við förum að sjá raunverulega fjölgun lögreglumanna.“

Samráð lykilatriði

Að sögn Stefáns Vagns sé jákvætt að meginþættirnir sem valdi brotthvarfi séu „allt saman hlutir sem hægt er að laga og bæta“. Hann kallaði eftir markvissu samráði við Landssamband lögreglumanna, embætti hringinn í kringum landið, ríkislögreglustjóra og lögreglumenn sjálfa til að ná raunhæfum úrbótum.

„Við þurfum að vinna þetta í sameiningu til að tryggja stöðugleika og uppbyggingu í löggæslunni,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Categories
Fréttir

Óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma

Deila grein

17/09/2025

Óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, hefur lagt fram tillögu til þingsályktunar um óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma á Alþingi.

Tillögugreinin hljóðar þannig:
Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina eigi síðar en á vorþingi 2026.

Markmið tillögu þessarar er að tryggja að bankar geti boðið fasteignakaupendum hér á landi upp á óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma.

Sjá nánar: Óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma

„Íslenskir bankar eru of smáir til að eiga þess kost að bjóða fram slíka fjármálaþjónustu, þar sem þeir eru að hluta bundnir af eigin fjármögnunarkjörum. Íslenska ríkið og lífeyrissjóðir eru að vissu leyti í yfirburðastöðu á íslenskum fjármálamarkaði og geta með einfaldari hætti og á hagstæðari kjörum haft aðgang að langtímafjármögnun.

Viðfangsefnið gengur út á að bankar geti fjármagnað húsnæðislán á óverðtryggðum vöxtum til lengri tíma en þeir bjóða upp á í dag. Með breyttum reglum og þróaðri fjármálamarkaði, til að mynda í gegnum vaxtaskiptasamninga, en það eru samningar þar sem aðilar skiptast á föstum og breytilegum vaxtagreiðslum af tilteknum höfuðstól yfir ákveðið tímabil, er hægt að auðvelda bönkum að bjóða upp á slík lán,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Ávinningur af nýju fyrirkomulagi er margvíslegur:

  • Í fyrsta lagi að íbúðarkaupendur geti fengið hagstæðari fasteignalán og verulega aukinn fyrirsjáanleika.
  • Í öðru lagi, verði farin vaxtaskiptasamningsleið, má búast við að ríkissjóður geti lækkað vaxtakostnað sinn með því að færa vaxtagreiðslur sínar í meira mæli yfir í skammtímavexti, sem eru yfirleitt lægri en langtímavextir.
  • Í þriðja lagi má gera ráð fyrir að verðtryggð lán heyri sögunni til ef óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma standa fasteignakaupendum til boða.

Viðskiptablaðið: Vaxta­skipta­samnings­leið bæti lánskjör heimila og ríkis.

Categories
Fréttir Greinar

Er það ekki sjálf­sögð krafa að fá bíla­stæði?

Deila grein

16/09/2025

Er það ekki sjálf­sögð krafa að fá bíla­stæði?

Það er margt sem við getum verið stolt af í Reykjavík. Við höfum einstaka náttúru allt í kringum okkur, hreint loft, nálægð við hafið og sterkt samfélag. En við megum ekki gleyma því að borgin okkar er mjög dreifð og því eru góðar samgöngur grundvöllur góðs lífs borgarbúa.

Á undanförnum árum hafa nýjar íbúðir verið byggðar án þess að gera ráð fyrir bílastæðum, það hljómar kannski spennandi á blaði fyrir suma að reyna að gera Reykjavík að Kaupmannahöfn norður atlantshafsins með því að þétta borgina margfalt og neyða íbúa til að taka strætó en fyrir meðal fjölskyldur er þetta mikil áskorun. Við búum í borg þar sem almenningssamgöngur eru einfaldlega ekki komnar á þann stað að fólk geti treyst á þær í daglegu lífi. Við vitum mörg hversu lengi getur tekið að komast milli staða með strætó, vegna umferðar vanda, hversu sjaldan hann gengur á kvöldin og helgar og hvað þá ef veður eru válynd. Strætó er því miður ekki raunhæfur valkostur fyrir stóran hluta borgarbúa eins og staðan er núna.

Áhersla á aðgengi borgarbúa

Það sem skiptir máli er að hugsa um fólk. Fjölskyldur með ung börn þurfa að komast í leikskóla, skóla og íþróttir. Eldri borgarar þurfa að geta farið til læknis eða í búð án þess að þurfa að ganga langar vegalengdir í hálku og kulda. Fatlaðir þurfa einfaldlega að hafa tryggt aðgengi að sínum heimilum og þjónustu. Bílastæði er ekki munaður fyrir þessa hópa, þau eru lífsnauðsyn.

Reykjavík er ekki Kaupmannahöfn eða Osló. Við erum borg með 140 þúsund íbúa í landi sem spannar þúsundir ferkílómetra og með tíu sinnum minni þéttleika sem gerir það að verkum að almenningssamgöngur geta aldrei orðið sambærilegar eins og í fyrr nefndu borgunum. Það er engin raunverulegur valkostur fyrir langflesta borgarbúa annað en að nota bíla. Því er ekki sanngjarnt að bera okkur saman við stórborgir á meginlandinu sem hafa haft áratugi til að byggja upp öflugar járnbrautir, neðanjarðarlestir og skilvirk almenningssamgöngukerfi.

Ekki afturför … heldur skynsemi

Að krefjast þess að nýjar íbúðir hafi að lágmarki eitt bílastæði er því ekki afturför, heldur skynsemi. Það er ábyrgð gagnvart íbúum borgarinnar að tryggja að þeir sem þurfa bílastæði fái að lágmarki eitt stæði fyrir hverja íbúð. Við getum öll sammælst um að stuðla að umhverfisvænni ferðavenjum til lengri tíma, en í dag erum við einfaldlega ekki komin á þann stað að bíllinn sé valkostur sem hægt er að sleppa. Þetta snýst ekki um að vera á móti almenningssamgöngum. Þvert á móti. Við eigum að halda áfram að fjárfesta í þeim, styrkja kerfið og gera það að raunhæfum valkosti fyrir fleiri. En þar til það gerist, verðum við að vera raunsæ og standa vörð um það sem tryggir lífsgæði fólks í dag. Því leggjum við í Framsókn fram tillögu þess efnis í borgarstjórn í dag að Reykjavíkurborg skilyrði að hver ný íbúð sem byggð er í Reykjavík hafi að minnsta kosti eitt bílastæði.

Það er einföld, sanngjörn og mannleg krafa sem tekur mið af raunveruleikanum sem við lifum í.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar og situr í umhverfis- og skipulagsráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2025.

Categories
Fréttir

Ný atvinnustefna er lykilatriði fyrir land og þjóð

Deila grein

16/09/2025

Ný atvinnustefna er lykilatriði fyrir land og þjóð

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, fjallaði um vinnu við mótun nýrrar atvinnustefnu í ræðu sinni í störfum þingsins og lagði áherslu á mikilvægi þess að menntun, nýsköpun og byggðaþróun yrðu órjúfanlegur hluti þeirrar stefnumótunar.

Þórarinn Ingi sagði mótun nýrrar atvinnustefnu væri „grundvallaratriði fyrir framtíð þjóðarinnar og samkeppnishæfni atvinnulífsins“. Að hans mati sé bæði eðlilegt og nauðsynlegt að endurmeta reglulega áherslur í efnahagsmálum, þar sem þær hafi áhrif á „allt gangverk samfélagsins og lífsgæði fólks“.

Menntun í takt við þarfir atvinnulífs

Þórarinn Ingi lagði sérstaka áherslu á að tengja menntun og færniþróun betur við þarfir atvinnulífsins. „Við þurfum að tengja betur nám og færniþróun við þarfir atvinnulífsins,“ sagði hann og nefndi hann að slíkt hefði áhrif á margvíslega þætti samfélagsins, þar á meðal innflutning vinnuafls, húsnæðismarkað.

Nýsköpun, frumkvöðlastarf og byggðir

Þórarinn Ingi sagði að Framsókn styddi ferlið við mótun atvinnustefnu og hygðist leggja fram eigin hugmyndir með áherslu á nýsköpun, þróun landsbyggðarinnar, ábyrga matvælaframleiðslu og stuðning við ungt fólk sem vilji „skapa verðmæti og taka áhættu“. Hann vísaði jafnframt til hugmyndar sinnar um „nýjar rætur“, sem snýr að því að ríkið styðji við fólk sem er reiðubúið að takast á við áhættu til að skapa verðmæti á landsbyggðinni.

„Verkefni fyrir alla þjóðina“

„Þetta er verkefni fyrir alla þjóðina,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum. „Með samvinnu, framtíðarsýn og jákvæðum hugmyndum getur mótun nýrrar atvinnustefnu orðið mikið framfaraskref fyrir land og þjóð.“

Categories
Fréttir Greinar

Börn sem skilja ekki kennarann

Deila grein

16/09/2025

Börn sem skilja ekki kennarann

Á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg fjölgun á börnum og ungmennum á Íslandi sem hefja skólagöngu með engan grunn eða þekkingu á íslensku tungumáli. Þrátt fyrir góða viðleitni hefur menntakerfið ekki náð að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til náms. Það á bæði við um þau sem flytja til landsins og þau sem fyrir eru.

Hér stöndum við frammi fyrir kjarna­spurningu: Viljum við að börn hefji nám í bekkjum þar sem þau skilja hvorki kennara né samnemendur?

Sýnum kjark

Við eigum að hafa kjark til að setja skýrar kröfur, kjark til þess að setja skýr og greinileg markmið og fylgja þeim eftir. Kröfur um að allir sem vilja búa hér læri tungumálið og hafi til þess raunveruleg tækifæri!

Það er eðlilegt að allir sem ætla sér að búa hér læri íslensku en jafnframt ber okkur skylda til að tryggja að þau hafi raunhæfan möguleika til þess. Íslenskukunnátta er lykilforsenda þess að taka þátt í samfélaginu og öðlast sjálfstæði. Það að nemandi hafi grunnfærni í íslensku áður en hann kemur inn í bekkjarkennslu skiptir öllu máli, fyrir barnið sjálft, fyrir kennarann og ekki síst fyrir bekkinn í heild.

Ávinningurinn er augljós. Slík krafa gagnast ekki aðeins nýbúabörnunum sjálfum heldur kemur slíkt vinnulag einnig til móts við aðra nemendur. Kennarar hafa rætt um að ólík verkefni innan kennslustofunnar hafi aukið álag verulega. Með því að nemendur fái aukinn stuðning í íslenskunámi mun hinn almenni kennari bæði finna það í bættum árangri barnsins sem ekki á íslensku sem heimamál (móðurmál) en um leið gefa kennaranum aukið svigrúm í sinni kennslu og aukna athygli í öðrum verkefnum kennslunnar.

Öxlum ábyrgð

En það er ekki nóg að setja kröfur á börnin. Við verðum einnig að setja kröfur á okkur sjálf. Við verðum að tryggja að til sé fjölbreytt og aðgengilegt kennsluefni í íslensku sem öðru máli, tilbúið þegar nýjar fjölskyldur flytja til landsins. Við verðum að mennta og endurmennta kennara með sérhæfingu á þessu sviði, styðja þá í verki og útvega þeim verkfæri til að fylgjast með framvindu nemenda og grípa tímanlega inn í.

Þetta krefst fjármagns en til lengri tíma er þetta fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka. Snemmbær tungumálastuðningur dregur úr brottfalli, eflir sjálfstæði barna og stuðlar að virkri samfélagsþátttöku til framtíðar. Fjármunir sem varið er í góða aðlögun skila sér margfalt til baka í formi betri menntunar, aukinnar atvinnuþátttöku og minni félagslegs kostnaðar.

Lærum af nágrönnum okkar

Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið þegar kemur að góðum lausnum. Í Danmörku hefur verið þróað kerfi sem tryggir börnum markvissan tungumálastuðning strax við komuna í landið, áður en þau hefja nám í hefðbundnum skóla. Reynslan í Danmörku sýnir að þetta skilar sér í árangri, fleiri börn ná góðum tökum á dönsku og verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Við eigum ekki að hræðast að setja kröfur um íslenskukunnáttu. Þvert á móti, það er réttur hvers barns að skilja og geta verið virkur þátttakandi. En við berum einnig skyldu til að tryggja kennurum stuðning, aðgengileg námsgögn og stöðugt fjármagn. Þannig fá nýkomin börn öflugan undirbúning og ganga inn í almenna bekki með raunhæfan grunn til að blómstra. Einnig berum við skyldu að allir nemendur hafi jöfn tækifæri til náms og þeir nemendur sem fyrir eru í bekkjum fái jafna athygli og stuðning frá kennurnum. Það er besta leiðin til að styrkja bæði börnin sjálf og samfélagið í heild.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Franskur kanarífugl

Deila grein

16/09/2025

Franskur kanarífugl

Þegar kolanámur voru helsta uppspretta orkuöflunar tóku námuverkamenn með sér litla kanarífugla niður í djúpar og skítugar námur. Fuglarnir voru ekki þar til skrauts, heldur sem viðvörunarkerfi. Ef fuglarnir hættu að syngja eða féllu dauðir til jarðar þá var það merki um ósýnilegan en banvænan gasleka.

Frakkland er forysturíki í Evrópusambandinu, stendur sterkt menningarlega og ein öflugustu fyrirtæki Evrópu eru staðsett þar. Hins vegar ríkir þar nánast stöðug stjórnarkreppa, þar sem skuldir landsins hafa náð hæstu hæðum síðan mælingar hófust. Fjárlagahallinn er meiri en hjá öllum öðrum aðildarríkjum evrusvæðisins. Eins og fuglinn sem hættir að syngja gefa þessar tölur til kynna að mikill kerfisvandi sé til staðar og tímabært að hrinda í framkvæmd neyðaráætlun.

Þegar Emmanuel Macron varð forseti Frakklands árið 2017 lofaði hann að lækka skatta, efla hagvöxt og gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Að einhverju leyti hefur þetta gengið eftir, þar sem atvinnuleysi hefur minnkað og fjárfestingar aukist. Hins vegar standa ríkisfjármálin það veikt að tvær ríkisstjórnir hafa fallið í vegferð sinni til að minnka útgjöld ríkissjóðs. Vandinn er ekki nýtilkominn, heldur hefur franski ríkissjóðurinn verið rekinn með halla í áratugi. Staða ríkisfjármála í Frakklandi er ósjálfbær og nú þarf franska ríkið að fjármagna sig á hærri vöxtum en fyrirtækin Airbus og L’Oreal. Matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfiseinkunn franska ríkissjóðsins og nefndir að skuldir geti hækkað í allt að 121% af landsframleiðslu. Jafnframt er talið að áætlun um að lækka fjárlagahallann sé ótrúverðug.

Kanarífuglinn í kolanámunni gaf vísbendingu um að mikil hætta væri á ferðum. Spurning er hvort franski kanarífuglinn sé að vara við stærri hættu sem nær yfir fleiri ríki Evrópusambandsins, þar sem þau glíma við mikinn fjárlagahalla og miklar skuldir hins opinbera. Þessi slæma staða hjá forysturíki í Evrópusambandinu er ekki góð tíðindi fyrir Ísland. Við eigum í miklum viðskiptum við evrusvæðið og ef dregur úr kaupmætti og hagvexti þá dregur úr utanríkisviðskiptum, sem minnkar verðmætasköpun á Íslandi.

Vegna þess mikla efnahagsvanda sem mörg leiðandi ríki Evrópusambandsins standa frammi fyrir eiga íslensk stjórnvöld ekki að eyða dýrmætum tíma lands og þjóðar í ESB-erindisleysu. Stærsta áskorun þessarar ríkisstjórnar er að ná verðbólgu og vöxtum niður. Hægst hefur verulega á lækkun verðbólgu og því hafa vextir ekki lækkað eins og væntingar stóðu til um. Ég hvet ríkisstjórnina til góðra verka, að standa við gefin loforð um lækkun verðbólgu og nýta tíma okkar allra í að efla verðmætasköpun í þágu aukinnar velsældar fyrir fólkið í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Framtíð íþrótta í Suðurnesjabæ fórnað

Deila grein

16/09/2025

Framtíð íþrótta í Suðurnesjabæ fórnað

Það er með ólíkindum að árið 2025 skuli Suðurnesjabær enn ekki hafa hrint í framkvæmd gerð gervigrasvallar fyrir börn og ungmenni sveitarfélagsins. Miðað við nýjustu vendingar er málið nú að teygja sig inn á þriðja kjörtímabil sameinaðs sveitarfélags sem varð til 2018.

Á meðan kostnaðurinn hækkar og meirihlutinn hikstar sitja börn og ungmenni eftir án aðstöðu sem annars er talin sjálfsögð í flestum sveitarfélögum. Við sitjum eftir með skýrslur, áætlanir og loforð sem aldrei verða að veruleika.

Kostnaðarmat

Í skýrslu Verkís, sem unnin var fyrir sveitarfélagið í tengslum við hönnun á gervigrasvelli og kom út í maí 2022, var kostnaður metinn svo:

m.kr.

Miðjan: 892

Garður: 656

Sandgerði, aðalvöllur: 575

Sandgerði, æfingavöllur: 620

Þessar tölur eru á verðlagi 2022. Til að meta raunverulegan stofnkostnað í dag er eðlilegt að færa þær í núvirði króna með vísitölu neysluverðs Hagstofu Íslands (VNV).

VNV í maí 2022: 539,5

VNV í september 2025: 658,6

Hækkun: ≈ 22,1%

Verðbættar tölur (2025)

m.kr.

Miðjan: ~1.089

Garður: ~801

Sandgerði, aðalvöllur: ~702

Sandgerði, æfingavöllur: ~757

Ath.: Fyrir hreinan mannvirkjahluta mætti einnig skoða byggingarvísitölu Hagstofu, en hún breytir ekki meginröðun kostanna þar sem Sandgerði nýtir nú þegar innviði (stúku, salerni, félagsaðstöðu o.s.frv.) sem halda stofnkostnaði niðri.

Hagkvæmasti kosturinn er augljós: að byggja á aðalvellinum í Sandgerði. Þar eru þegar fyrir hendi 340 manna steypt stúka, salernisaðstaða, félagsheimili á tveimur hæðum, vélageymsla og öll helstu grunnmannvirki sem þarf. Auk þess er lóðin í eigu sveitarfélagsins sjálfs, sem tryggir bæði eignarhald og einfaldar framkvæmdina án þess að ráðast í kostnaðarsöm lóðarkaup eða viðræður um afnotarétt.

Ákvörðun gegn betri vitund

Hinn 5. júní 2024 samþykkti bæjarstjórn að byggja völlinn á aðalvellinum í Sandgerði, með þeim afleiðingum að klofningur varð innan Sjálfstæðisflokksins og meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem myndaður var eftir kosningarnar 2022, sprakk. Nú hefur nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans hins vegar snúið af þeirri leið og lagt fram tillögu um hönnun á Miðjunni – dýrasta og óraunhæfasta kostinum.

Þar er ekkert til staðar: ekki fráveita, ekki vatn, engin salernisaðstaða og engir búningsklefar. Aðeins lagning aðveitulagna fyrir snjóbræðslu og vatnsból er áætluð 76,8 milljónir króna á verðlagi 2022. Þetta er ekki aðeins óhagkvæmt – þetta er ábyrgðarleysi gagnvart skattgreiðendum og íþróttalífi sveitarfélagsins.

Þungur rekstur og hátt vaxtastig

Suðurnesjabær hefur aðeins 300-350 milljónir króna á ári til framkvæmda án lántöku. Með því að velja Miðjuna er ekki aðeins verið að hækka stofnkostnað um hundruð milljóna heldur er bærinn settur í vegferð sem mun bitna á öðrum brýnum verkefnum, svo sem:

auknu leikskólarými í Garði með byggingu nýs leikskóla

stækkun Sandgerðisskóla

úrlausn fráveitumála

Þetta gerist á sama tíma og stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 7,5% og verðbólga mælist 3,8%. Því er augljóst að sveitarfélagið þarf að forgangsraða fjármunum sínum með sérstakri varfærni.

Börnin okkar sitja eftir

Afleiðingarnar eru skýrar:

Börn og íþróttafélög í Suðurnesjabæ búa við lakari aðstöðu en jafnaldrar þeirra í nágrannasveitarfélögum

Íþróttalífið lamast og foreldrar missa áhuga á að senda börn sín til iðkunar

Börnin fá þau skilaboð að þeirra framtíð sé ekki í forgangi

Gervigrasvöllur er forsenda fyrir vetrarstarfi knattspyrnunnar. Því miður heldur meirihlutinn áfram að tefja málið með endalausum skýrslubeiðnum og dýrum hönnunarkostnaði sem leggur tugmilljónir á bæjarsjóð.

Við eigum betra skilið

Íbúar Suðurnesjabæjar eiga betra skilið. Börnin okkar eiga betra skilið. Það er kominn tími til að setja punkt við margra ára aðgerðaleysi og hefja byggingu hagkvæms gervigrasvallar í Suðurnesjabæ – í Sandgerði, þar sem allir innviðir eru fyrir hendi og land í eigu sveitarfélagsins sjálfs.

Hvað þarf að gera núna?

Byggja völlinn í Sandgerði – hagkvæmasti og skynsamlegasti kosturinn

Sýna pólitíska ábyrgð – hætta að fresta og taka ákvörðun

Setja börnin í forgang – tryggja þeim aðstöðu sem þau eiga rétt á

Vernda bæjarsjóð – velja framkvæmdir sem sveitarfélagið ræður við

Íþróttir eru ekki aðeins leikur á vellinum – þær eru grunnur að heilbrigðu líferni og lykill að velsæld barna.

Nú þarf kjark til að taka ákvarðanir með hag bæjarsjóðs og barna í Suðurnesjabæ að leiðarljósi. Íþróttafélögin tvö, Reynir og Víðir, hafa ekki sameinast, en það má ekki standa í vegi fyrir skynsamlegri framtíðaruppbyggingu. Það er kominn tími til að leggja hrepparíginn til hliðar og hugsa fyrst og fremst um hag barnanna okkar. Þar skiptir máli að minna á að sveitarfélagið rekur gjaldfrjálsan frístundaakstur milli byggðarkjarna, sem tryggir öllum börnum jafnan aðgang að æfingum og aðstöðu. Byggjum því upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ með skynsamlegum hætti – í þágu allra íbúa sveitarfélagsins.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.

Categories
Fréttir

„Afkoman hefur batnað til mikilla muna“

Deila grein

15/09/2025

„Afkoman hefur batnað til mikilla muna“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, átti orðastað við fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um fjárlög 2025 og afkomuhorfur yfirstandandi árs.

Hann kallaði eftir skýringum vegna ummæla ráðherrans í útvarpsviðtali á Rás 2 10. september sl., þar sem ráðherra sagði að í fjárlögum ársins 2025 væri gert ráð fyrir 63 milljarða króna halla. Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins segir hins vegar á bls. 116: „Afkomuhorfur yfirstandandi árs hafa batnað verulega frá áætlun fjárlaga ársins 2025. Áætlað er að heildarafkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 19 ma.kr. eða 0,4% af VLF, samanborið við halla um 63 ma.kr. …“

„Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort sé rétt, ummælin í vikunni eða fjárlögin,“ sagði Stefán Vagn og lagði áherslu á að upplýsingar sem fram kæmu bæði úr ræðustól Alþingis og í fjölmiðlum væru réttar og sambærilegar.

Ráðherrann svaraði að hann hefði annars vegar vísað til fjárlaga í umræddu viðtali á Rás 2, en að afkoma ríkissjóðs væri annað mál sem metið væri eftir á.

Stefán Vagn þakkaði ráðherra fyrir svarið og bætti við: „Staðan er miklu betri heldur en menn gerðu ráð fyrir og því spyr ég: Er það ekki rétt? Er ekki staðan miklu betri en menn gerðu ráð fyrir?“

Ráðherra sagði að honum byðust oft tækifæri til að hæla eigin verkum og að hann gæti í raun tárast yfir því, en bætti við: „En jú, afkoman hefur batnað til mikilla muna og er þar ýmsu fyrir að þakka.“

Categories
Fréttir

Segir aðhald fjárlaga 2026 ófullnægjandi

Deila grein

15/09/2025

Segir aðhald fjárlaga 2026 ófullnægjandi

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi of lága aðhaldskröfu fjárlagafrumvarpsins 2026 í 1. umræðu fjárlaga á Alþingi. Hvatti hann til skýrari aðhalds í ríkisfjármálum til að styðja við lækkun stýrivaxta. Hann sagði 0,2% aðhald ekki nægilegt og hvatti til þess að halli næsta árs, 15 milljarðar króna, yrði felldur niður.

Stefán Vagn sagði umræðuna marka „vatnaskil“ þar sem ný ríkisstjórn legði nú fram sitt eigið fjárlagafrumvarp. „Nú fer að verða erfiðara að horfa í baksýnisspegilinn og skella ábyrgðinni á fyrri ríkisstjórnir.“

Stærsta verkefni vetrarins væri að ná niður verðbólgu og vaxtastigi. „Stýrivextir hafa lækkað úr 9,25% í 7,5% á árinu 2025 en lækkunarferlið hefur stöðvast, sem er alvarlegt,“ sagði Stefán Vagn og taldi fjármálaáætlun og fjárlög vera lykiltæki til að ná árangri.

Stefán Vagn gagnrýndi sérstaklega 0,2% aðhald í frumvarpinu: „Ég hef áhyggjur af því að 0,2% aðhald sé ekki nægilegt. Við lögðum sjálf fram 0,3% aðhald 2023 og þá var það metið hlutlaust af Seðlabankanum. Því er erfitt að færa rök fyrir því að 0,2% teljist aðhaldssamt.“

Tekjuaukning ríkissjóðs milli ára væri þó „gleðileg“, að hans sögn. Tekjur hækki úr um 1.500 ma.kr. í 1.591 ma.kr., eða um 91 ma.kr. Hann vildi nýta svigrúmið til að fella niður hallann 2026. „Það hefði sent sterk skilaboð,“ sagði hann, og bætti við að miðað við reynslu síðustu ára gæti niðurstaða 2026 jafnvel orðið jákvæð.

Í umræðum um skuldir hvatti hann til samræmdrar framsetningar talna. „Við eigum að nota sama grunn þar sem skuldahlutfallið fer úr 38% í 37%. En þrátt fyrir það hækka skuldir að nafnvirði um 80 ma.kr., sem kom mér á óvart miðað við tekjuaukninguna.“

Stefán Vagn benti jafnframt á útgjaldavöxt. „Útgjaldavöxturinn er 126 ma.kr. og hefur tvöfaldast frá frumvarpi 2025. Frumvarpið er á mörkunum og jafnvel ómögulegt að kalla það aðhaldssamt.“ Hann ítrekaði að stjórnvöld þyrftu að „senda skýr skilaboð um aðhald“ til að styðja við lækkun stýrivaxta.