Þegar við fjölskyldan bjuggum í Boston biðum við alltaf spennt eftir því að íslenska lambið kæmi í verslanir. Þá buðum við gjarnan erlendum gestum í mat til þess að njóta þess saman. Í búðinni kom þó ætíð á óvart að sjá að lambið var nánast ósýnilegt í kjötborðinu. Á meðan rokseldist norski eldislaxinn í næsta rekka í myndskreyttum hátíðlegum konfektkössum.
Bragðið af lambinu sveik þó engan og viðbrögð gesta sannfærðu mig að hægt er að selja alla okkar framleiðslu á erlendum mörkuðum. Þrátt fyrir tækifæri sauðfjárbúskapur á undanhaldi. Safnið í réttum landsins hefur skroppið saman í minni sveit og ekki sér fyrir endann á þeirri þróun um allt land.
Á afrétt spurði ég efnilegt búmannsefni af hverju hann hafði ekki gerst bóndi og fljótt færðist samtalið að háu jarðaverði og slakri afkomu. Hér þarf að efla skilning á því að það að ungt fólk geti ekki hafið búskap er ekki bara leiðinlegar fréttir fyrir hæfileikaríka einstaklinga eða fjölskyldur. Það er afdrifarík niðurstaða fyrir samfélagið okkar. Til langs tíma. Við þurfum að víkka linsuna og fá alla til að hugleiða: Hvað þýðir minna safn, veikari landbúnaður, fyrir Ísland?
Á undanförnum árum hefur fólki hér á landi fjölgað um fimmtíuþúsund og fjöldi ferðamanna vaxið sömuleiðis. Því er lykil spurning: Ætlum við að fæða samfélagið eða láta innflutning taka yfir? Það hlýtur einnig að vera auðséð í viðsjáverðum heimi þurfa sveitir landsins að vera í sókn. Milljarða viðbótarfjárfesting í öryggismálum í nýjum fjárlögum ætti að horfa til innviðafjárfestingar í landbúnaði.
Auk matvælaöryggis er landbúnaður mikilvægur fyrir heilsu okkar og atvinnulíf. Ferðamenn koma ekki hingað fyrir innfluttan kjúkling og kókópöffs: Þeir vilja sjá blómlegar sveitir og njóta heilnæmra afurða sem við eigum á heimsmælikvarða. Öflugur ferðaþjónusta hvílir til langs tíma á kröftugum landbúnaði.
Bændur gæta þannig að jafnvægi ólíkra nytja og okkar einstöku náttúru. Þeir þekkja landið líka eins og lófan sinn, ekki síst í gegnum sauðfjárbúskap sem kallar á samvinnu bæði á bæ og fjalli. Hugsunin þeirra að skilja vel við heimkynnin fyrir komandi kynslóðir er bændum eðlislæg og er langtímasýn sem er samfélagi okkar afar dýrmæt.
Með veikum landbúnaði er einmitt hætt við að fjárfestar éti upp landið. Sala auðlinda vatns, jarðefna og jarðhita til erlendra aðila í gegnum jarðasölu er að mörgu leiti til komin vegna krefjandi stöðu bænda. Án öflugra bænda, rennur landið úr greipum okkar og auðlindirnar með. Hægt og bítandi, jörð fyrir jörð.
Að grafa undan bændasamfélögum veikir jafnframt griðarstað menningar okkar, tungu og hefða; þess sem er ekta eða þar sem rætur okkar hvíla. Slíkar rætur eru akkeri á tímum þar sem margt falskt tröllríðum miðlum. Ef við töpum því sem er ekta þá töpum við smátt og smátt sjálfum okkur sem þjóð.
Í stuttu máli sýnir víða linsan okkur, fólkinu í landinu, að bændur vernda fæðuöryggi okkar og heilbirgði. Þeir varðveita menningu okkar, náttúru og nytjar. Þeir eru fjölskyldufyrirtækin sem styrkja samfélög um allt land. Þeir eru samvinnan og seiglan sem við búum að á ögurstundum. Bændur eru einfaldlega varðmenn landsins. Án öflugra bænda raknar annað upp – allt frá öryggi yfir í menningu og atvinnuþróun.
Við þurfum nýja framtíðarsýn sem kemur lambinu í konfektkassana og bæði breikkar og stækkar tækifærin; nýja gullöld. Til þess duga engin vettlingatök. Hér þarf að horfa á endurskoðun tolla, fjárfestingar, raforkumál, aðkomu ríkis í nýliðun, nýsköpun, markaðssókn og margt fleira. Þessir sameiginlegu hagsmunir okkar Íslendinga verðskulda ekki átök, hvorki innan þings né utan. Berjumst saman í landsleik landbúnaðarins; til sigurs.
Stækkum safnið með varðmönnum landsins. Fyrir okkur öll.
Halla Hrund Logadóttir, alþingismsaður.
Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 9. október 2025.