Categories
Fréttir

B – hliðin

Deila grein

22/10/2014

B – hliðin

sigrunmagnusdottir-vefmyndVið eigum marga góða þingmenn og það er Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna, sem sýnir okkur B – hliðina í þetta sinn.
Fullt nafn:  Sigrún Magnúsdóttir.
Gælunafn:  Didda (nánast allir hættir að nota það, en gekk undir því í æsku minni).
Aldur:  70 ára.
Hjúskaparstaða?  Gift.
Börn?  2 dætur, svo fékk ég 3 með Páli mínum = 5.
Hvernig síma áttu?  Samsung.
Uppáhaldssjónvarpsefni?  Landinn.
Uppáhalds vefsíður:  Á enga. Sinni því lítið að vafra.
Besta bíómyndin?  Á hverfanda hveli.
Hvernig tónlist hlustar þú á?  Hlusta lítið nema í bílnum. Þjóðlagatónlist.
Uppáhaldsdrykkur:  Kaffi.
Hvað finnst þér best að borða?  Skötuna á Þorláksmessu.
Hvaða lag kemur þér í gírinn?  Frjáls eins og fuglinn.
Ertu hjátrúarfull?  Já… trúi á tölur og tákn.
Hverslags viðfangsefni myndirðu ekki leggja nafn þitt við?  Einelti.
Hver var fyrirmyndin þín á yngri árum?  Pabbi.
Hver er fyrirmyndin þín í dag?  Pabbi.
Hverjir eru sessunautar þínir á Alþingi?  Ásmundur Einar Daðason (hef bara einn).
Hver eru helstu áhugamálin?  Fjölskyldan. Stjórnmál. Handavinna. Þjóðfræði.
Besti vinurinn í vinnunni?  Vigdís og Þórunn.
Helsta afrekið hingað til?  Koma á laggirnar Sjóminjasafni í Reykjavík.
Uppáhalds manneskjan?  Barnabörnin 17.
Besti skyndibitinn?  Harðfiskur með smjöri.
Það sem þú borðar alls ekki?  Ég sniðgeng innflutt hormónakjöt. (Hinsvegar borða ég bæði roð og bein, kæst og sigið ha ha).
Lífsmottóið?  Seigla. Aldrei gefast upp.
Þetta að lokum:
Stolt af flokknum mínum. Ánægð með víðsýni félagana að velja bæði yngstu og elstu konuna sem inn á Alþingi hafa sest vorið 2013. Nánast hálf öld skilur þær að í aldri. Hamingjusöm að hafa fengið þetta tækifæri – að fá að taka þátt í endurreisn landsins. Allt að dafna á ný.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þú getur gefið annað líf

Deila grein

22/10/2014

Þú getur gefið annað líf

Silja-Dogg-mynd01-vefÞað að fá líffæri að gjöf er annað tækifæri til lífs og aukinna lífsgæða. Líffæraígræðslur hafa verið stundaðar frá því snemma á 6. áratugnum en fyrsta ígræðslan var gerð í Boston árið 1954. Á árunum 1972 til 1991 voru Íslendingar einungis þiggjendur af Norrænu ígræðslustofnuninni (Scandiatransplant) án þess að gefa sjálfir líffæri í staðinn. Það breyttist árið 1991 þegar lög voru sett á Alþingi um brottnám líffæra og ákvörðun dauða. Frumvörp hafa verið lögð fram á Alþingi um breytingar á núgildandi lögum í ætlað samþykki. Vorið 2014 var málinu vísað til ríkisstjórnarinar og nú hefur heilbrigðisráðherra sett saman starfshóp sem á að skila niðurstöðum fyrir 1. mars 2015. Verkefni hópsins felst í að finna leiðir að því markmiði að fjölga líffæragjöfum á Íslandi.

Viljugir líffæragjafar en eru ekki skráðir

Flestir vilja láta gott af sér leiða og gefa líffæri sín ef mögulegt er en þó eru ýmsar siðferðislegar og praktískar spurningar sem vakna þegar til umræðu er að breyta lögum á þann veg að gert verði ráð fyrir ætluðu samþykki fyrir líffæragjöf. Í 10.tbl. Læknablaðsins 2014 var birt rannsókn  Karenar Rúnarsdóttur meistaranema um viðhorf Íslendinga til ætlaðs samþykkis við líffæragjöf. Þar kemur m.a. fram að meirihluti Íslendinga er hlynntur því að gert verði ráð fyrir ætluðu samþykki (rúmlega 80%) við líffæragjöf. Þrátt fyrir þessa niðurstöðu þá voru aðeins 5% þátttakenda í rannsókninni skráðir líffæragjafar.

Samverkandi úrræði til að fjölga líffæragjöfum

Á sl. fimm árum á Íslandi voru 39 einstaklingar úrskurðaðir heiladauðir  og komu því til álita sem gjafar. Þeir sem samþykktir voru sem líffæragjafar voru 18 talsins. Í 11 tilvikum var líffæragjöf ekki möguleg af læknisfræðilegum ástæðum og aðstandendur neituðu í 6 tilvikum. Hlutfall þeirra líffæragjafa sem hafnað er hefur haldist svipað undanfarin ár. En hvaða úrræði væru heppilegust til að fjölga mögulegum líffæragjöfum hér á landi? Í umræddri rannsókn Karenar Rúnarsdóttur og í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá undirritaðri, kemur fram að reynsla annarra þjóða sýni að grípa þurfi til fjölþættra aðgerða í þeim tilgangi. Breytingar á núverandi löggjöf er ein leið en samhliða þarf að auka upplýsingagjöf til almennings og þjálfa heilbrigðisstarfsmenn. Einnig væri nauðsynlegt að auðvelda þeim sem þess að óska að skrá vilja sinn til líffæragjafar á einfaldan hátt í rafrænan miðlægan gagnagrunn. Að sögn heilbrigðisráðherra er smíð á rafrænum gagnagrunni er langt á veg komin hjá embætti landlæknis.

Lagabreytingar ekki tímabærar

Þinglegur ferill málsins um að breyta lögum nr.16/1991 um brottnám líffæra í ætlað samþykki hefur verið ansi langur. Haustið 2013 lagði undirrituð fram frumvarp þess efnis en þá hafði það verið gert tvívegis áður. Undir lok vorþings var ályktun Velferðarnefndar um að vísa verkefninu til ríkisstjórnarinnar, samþykkt á Alþingi. Í nefndaráliti kemur fram að nefndin telji ekki tímabært að leggja til grundvallarlagabreytingu á núgildandi lögum þar sem breytingin ein og sér hefur ekki tilætluð áhrif, skv. reynslu annarra þjóða og einnig gæti hún getur vegið að sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga.

Skýrt markmið

Velferðarnefndin lagði enn fremur til að ráðherra skilaði skýrslu á vorþingi 2015 um niðurstöður vinnunnar ásamt tillögum um framhald málsins. Í framhaldinu  ákvað ráðherra að skipa starfshóp. Hópnum verður falið að skila skýrslu til ráðherra fyrir 1. mars 2015 þar sem fram koma niðurstöður hópsins ásamt tillögum um framhald málsins. Það sem hópurinn á að taka til sérstakrar skoðunar er:

–     hvernig eigi að fjölga líffæragjöfum frá látnum einstaklingum.
–     að efnt verði til víðtækrar þjóðfélagsumræðu um mikilvægi líffæragjafa.
–     að útbúið verði fræðsluefni um líffæragjöf.
–     að markvisst verði unnið að þjálfun og fræðslu heilbrigðisstarfsfólks.
–     reynslu annarra þjóða af lagabreytingum í átt til ætlaðs samþykkis.
–     að kannað verði hvort aðrar leiðir séu mögulegar til fjölgunar á líffæragjöfum, m.a. verði skoðaðar leiðir um krafið svar, skráningu í ökuskírteini, skattskýrslu eða á annan sambærilegan hátt.
–     að hugað verði að réttarstöðu þeirra sem vegna andlegs eða líkamlegs ástands eru ekki færir um að taka ákvarðanir um líffæragjöf.
–     að aðgengilegt verði fyrir einstaklinga að skrá vilja sinn til líffæragjafar.
–     að ráðherra skili Alþingi skýrslu á vorþingi 2015 þar sem fram komi niðurstaða þeirrar vinnu sem lögð er til hér og með tillögum um framhald málsins.
–     að 29. janúar ár hvert verði dagur líffæragjafa.
Enn er ekkert í hendi varðandi niðurstöður enda um afar flókið og viðkvæmt mál að ræða. En þó eru blikur á lofti og mikill áhugi bæði hjá stjórnvöldum og almenningi að fjölga líffæragjöfum á Íslandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 21. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

 

Categories
Fréttir

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Norðvesturkjördæmi (KFNV)

Deila grein

20/10/2014

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Norðvesturkjördæmi (KFNV)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar ánægjulegum árangri á mörgum sviðum á fyrsta starfsári núverandi ríkisstjórnar. Má þar nefna:

  • aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna,
  • hallalaus fjárlög,
  • aukinn verðlagsstöðugleika,
  • aukinn kaupmátt heimilanna,
  • lækkun skatta,
  • hækkun barnabóta,
  • aukin framlög í þágu eldri borgara og öryrkja,
  • aukin framlög til heilbrigðismála,
  • aukin framlög til hvatningar rannsókna og nýsköpunar og þannig mætti áfram telja.

Ekki hafa þó allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar verið unnar með nægjanlega faglegum hætti eða hlotið eðlilegan framgang. Má þar nefna sameiningar heilbrigðisstofnana í þremur heilbrigðisumdæmum, þ.e. á Vestfjörðum, Norðurlandi og Suðurlandi en þær sameiningar voru keyrðar í gegn án samráðs við heimamenn á hverjum stað og á grundvelli órökstuddra markmiða með einfaldri reglugerðarbreytingu heilbrigðisráðherra. Þingið telur með ólíkindum að jafn viðamikil breyting skuli geta verið háð duttlungum og ákvörðun eins manns og lýsir yfir megnri óánægju með hvernig að þessum sameiningum var staðið. Mikilvægt er að sú þjónusta sem veitt var á þeim stofnunum sem sameinaðar voru skerðist ekki frá því sem nú er heldur verði lögð áhersla á að bæta hana þannig að landsmenn njóti sömu grunnþjónustu, óháð búsetu.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði lýsir yfir andstöðu við fyrirhugaða hækkun virðisaukaskatts á matvæli en með þeirri hækkun er fyrst og fremst vegið að innlendri matvælaframleiðslu og fjöldi starfa á landsbyggðinni sett í hættu. Þeim mun meiri undrun vekur að um leið og álögur á matvæli eins og grænmeti skuli vera hækkaðar leggi fjármálaráðherra til að svokallaður sykurskattur verði felldur niður en þar er um að ræða tekjustofn sem styður við markmið um lýðheilsu og forvarnir. Hækkun virðisaukaskatts á almenn matvæli gengur einfaldlega gegn þeim er lakari hafa kjörin og stríðir gegn stefnu flokksins um jöfnuð og velferð í íslensku þjóðfélagi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að framfylgja stefnu Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar í byggðamálum þar sem lögð er áhersla á jafnrétti til búsetu og að íbúar landsins fái notið þeirrar grunnþjónustu sem gera á kröfu um í þróuðu nútímasamfélagi. Minnir þingið þar sérstaklega á að mjög víða á landsbyggðinni búa íbúar við algjörlega óviðunandi aðstöðu hvað varðar fjarskipti, s.s. aðgengi að ljósleiðara, auk bágra samgangna og ótryggs raforkuöryggis. Auk þess sem veitt verði auknu fjármagni til vegamála í kjördæminu og áætlunarflug til Bíldudals, Gjögurs og Sauðárkróks verði tryggt með framlagi úr ríkissjóði. Sömuleiðis verði staðið við núverandi samgönguáætlun.
Nauðsynlegt er við breytingar á húsnæðislánakerfi að gætt verði að jöfnuði er kemur að aðgengi íbúa landsins að lánsfé til íbúðakaupa og nýbygginga.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði krefst þess að orkukostnaður heimila og fyrirtækja verði jafnaður til fulls.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar áformum um fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni sem eðlilegu mótvægi við opinbera þjónustu og stjórnsýslu á höfuðborgarsvæðinu. Minnir þingið í því sambandi á að í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er kveðið á um að mikilvægt sé að stuðla að fjölbreyttu atvinnulífi um allt land.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði fagnar skipan Norðvesturnefndar og væntir mikils af niðurstöðum hennar. Í kjölfarið verði ráðist í sambærilegar úttektir og tillögugerðir fyrir önnur landssvæði sem glíma við fólksfækkun og veikt atvinnustig, svo sem kveðið er á um í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði leggur áherslu á að vel verði gert við menntastofnanir í kjördæminu og aðrar þær aðgerðir sem hækka menntunarstig íbúa landsins. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar segir að fjölbreytileiki í skólastarfi sé lykill að kraftmiklu og skapandi samfélagi. Fjárlög ársins 2015 eru í hróplegu ósamræmi við þessa yfirlýsingu. Þar er boðuð algerlega óásættanleg fækkun nemendaígilda í framhaldsskólum og verulega þrengt að háskólunum að Bifröst, Hólum og Hvanneyri. Þingið krefst þess að samræmi verði milli orða og efnda þannig að þessar mikilvægu stofnanir geti áfram sinnt hlutverki sínu og treyst undirstöður búsetu og aukna samkeppnisfærni landsbyggðarinnar.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði heitir á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að tryggja samkeppnis- og rekstrarhæfi íslensks sjávarútvegs við fyrirhugaðar breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og búi greininni rekstrarlegan stöðugleika, sérstaklega verði gætt að litlum og meðalstórum fyrirtækjum. Þingið hvetur ráðherra til að tryggja að hluti af sértæku veiðigjaldi renni beint til viðkomandi sveitarfélags. Þá skorar þingið á ríkisvaldið að efla rannsóknir á sviði fiskeldis, s.s. burðarþolsmats sem er forsenda þess að atvinnugreinin geti þróast í sátt við umhverfið.
Þingið skorar á ráðherra að bregðast nú þegar við mikilli ýsugengd á grunnslóð sem gerir mönnum ókleift að sækja þorskinn. Ýsan er nú ráðandi í afla bátanna. Ýsukvótinn er í engu samræmi við allt það magn sem er á veiðislóðinni og því nauðsynlegt að grípa til sértækra aðgerða strax.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til rannsókna á mögulegum virkjanakostum í kjördæminu sem stuðlað geta að aukinni uppbyggingu fjölbreyttra og vel launaðra starfa. Sérstaklega skal þar horfa til Blönduvirkjunar, Hvalárvirkjunar og mögulegrar nýtingar fallvatnanna í Skagafirði. Tengigjald frá virkjunum verði afnumið í Norðvesturkjördæmi og farið verði nú þegar í hringtengingu raforku og ljósleiðara í Norðvesturkjördæmi.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði hvetur til áframhaldandi uppbyggingar í ferðaþjónustu. Mikilvægt er að vekja athygli á og stuðla að uppbyggingu ferðamannastaða um land allt til að dreifa ferðamönnum víðar um landið og draga úr álagi á þá staði sem fjölsóttastir eru. Vinna þarf áfram að lengingu ferðamannatímabilsins svo ferðaþjónusta verði atvinnugrein sem veitt getur starfsfólki vel launaða atvinnu árið um kring og skilað enn auknum tekjum til þjóðarbúsins.
Kjördæmisþing framsóknarmanna í Norðvesturkjördæmi (KFNV) 11.-12. október á Patreksfirði minnir á grunngildi flokksins sem eru m.a. byggð á frjálslyndri hugmyndafræði þar sem leitast er við að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð eru á hófsemi og heiðarleika. Framsóknarflokkurinn hefur ávallt unnið að hugmyndum og lausnum sem miða að því að koma til móts við heimilin, standa vörð um velferðarkerfið, skapa jákvætt umhverfi fyrir atvinnulíf, fjárfestingar og nýta tækifæri sem eru allt í kringum okkur. Með slík grunngildi að leiðarljósi er ljóst að bjartari tímar eru framundan í íslensku samfélagi.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Mein í meinum

Deila grein

20/10/2014

Mein í meinum

Silja-Dogg-mynd01-vefMikilvægt er að hefja skimun á ristil- og endaþarmskrabbameini sem fyrst. Sýnt hefur verið framá að slík skimun lækki dánartíðni hjá körlum um 73 prósent og hjá konum um 82 prósent. Krabbamein í ristli og endaþarmi er þriðja algengasta krabbameinið hjá Íslendingum og önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina. Að meðaltali greinast um 130 einstaklingar með krabbamein í ristli og endaþarmi á hverju ári og 52 deyja úr sjúkdóminum árlega. Ekki er vitað hvers vegna tíðni ristilkrabbameins hefur aukist svona hratt sem raun ber vitni.

Eitt algengasta krabbameinið
Nýgengi sjúkdómsins fer vaxandi samkvæmt nýlegri spá um nýgengi krabbameina á Norðurlöndum til 2020. Hér á landi er spáð fjölgun greindra tilvika um 85% hjá körlum en um 70%. Ristilkrabbamein er eitt algengasta krabbameinið í Evrópu skv. nýlegum upplýsingum frá WHO Globocan, en það er hærra nýgengi en nýgengi lungakrabbameins. Áhættuþættir þessa sjúkdóms eru vel þekktir en þeir vega ekki allir jafn þungt. Flest krabbameinanna greinast hjá einstaklingum sem eru komnir yfir fimmtugt. Margir þeirra eru engu að síður á besta aldri þegar áfallið kemur. Árlega greinast um 50 einstaklingar með sjúkdóminn á aldrinum 45-65 ára.

Skimun er hagkvæm forvörn
Í mörg ár var deilt vel og lengi um réttmæti skimunar (kembileitar) og markvissra forvarna gegn krabbameini í ristli og endaþarmi. Ítarlegar og vandaðar rannsóknir hafa nú verið gerðar og niðurstöður þessara rannsókna benda eindregið til að með skipulagðri skimun fyrir ristilkrabbameini megi fækka dauðsföllum vegna þessa sjúkdóms um 15% til 40%. Jafnframt hefur verið sýnt framá að leit að þessu krabbameini er hagkvæm forvarnaríhlutun. Þessum sömu aðferðum beita heilbrigðisyfirvöld víða í vaxandi mæli þegar teknar eru ákvarðanir um forgangsröðun í heilbrigðismálum.

Kostnaður sem borgar sig
Árlega kostar tæpan einn og hálfan milljarð að greina og meðhöndla þá rúmlega hundrað og þrjátíu einstaklinga sem greinast með ristilkrabbamein. Þá er ótalinn sá kostnaður sem til fellur vegna vinnutaps, minni þjóðfélagslegrar framleiðni einstaklinga og afleiður þess fyrir þjóðfélagið. Árlegur kostnaður við skimun hjá skilgreindum aldurshópum hér á Íslandi hefur verið áætlaður um 100 milljónir króna.

Áríðandi að hefjast handa
Eins og fyrr segir þá samþykkti Alþingis þingsályktun árið 2007 um að hefja skimun og þáverandi heilbrigðisráðherra var falið að undirbúa skimun. Áformað var að hefja skimun í ársbyrjun 2009. Ekki varð úr því en nú vinnur heilbrigðisráðherra að gerða krabbameinsáætlunar.

Í raun erum við í sömu sporum hvað þetta varðar og fyrir 30 árum. Það er gríðarlega mikilvægt að ráðist sé í þetta verkefni án tafar. Kallað hefur verið eftir skimun fyrir ristilkrabbameini í áratug. Alþingi hefur ályktað um málið og sýnt hefur verið framá kostnaðarhagræði auk þess sem hægt verður að bjarga mannslífum og lækka dánartíðni af völdum þessa illvíga sjúkdóms.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Jómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur

Deila grein

16/10/2014

Jómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur

AMEJómfrúrræða Önnu Maríu Elíasdóttur á Alþingi, flutt í störfum þingsins 15. október sl.:
„Herra forseti. Ég fagna því að í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2015 sé gert ráð fyrir því að fjármagn vegna úrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis verði gert varanlegt, en fram til þessa hefur fjárframlagið verið tímabundið og þannig heft skipulagt starf Barnahúss til lengri tíma. Ég tel að með ráðningu tveggja sérfræðinga í Barnahús, sem tillaga samráðshóps um samhæfða framkvæmd stjórnvalda til að sporna gegn kynferðislegu ofbeldi hljóðar upp á, fái þolendur kynferðisofbeldis þá aðstoð sem nauðsynleg er til að þeir geti unnið úr málum sínum.
Eins og við vitum öll er atburðurinn ekki tekinn til baka heldur þurfa þeir sem fyrir ofbeldinu verða að læra að lifa með því um ókomna tíð. Það er staðreynd að þeir sem lenda í áföllum af mannavöldum eru í mikilli hættu á að þjást af áfallaröskun. Fyrir þá sem ekki vita er áfallaröskun einkenni um andlegar, líkamlegar og félagslegar afleiðingar áfalls og skaða sem lýsir sér í endurupplifun atburða, vantrausti á öðrum, hræðslu við umhverfi, skömm, sektarkennd, sjálfsásökunum og lágu sjálfsmati. Slík röskun getur því, ef ekki er gripið til aðgerða strax, haft alvarlegar heilsufarslegar afleiðingar seinna á lífsleiðinni með tilheyrandi auknum heilbrigðiskostnaði.
Í skýrslu Barnaverndarstofu þar sem bornir eru saman fyrstu sex mánuðir ársins 2013 og 2014 kemur fram að þrátt fyrir fækkun rannsóknarviðtala á árinu 2014 um 40% hefur greiningar- og meðferðarviðtölum fjölgað um 15%. Erfitt er þó að leggja mat á þessar tölur þar sem fjölgun rannsóknarviðtala á árinu 2013 var slík að ekki var hægt að veita viðeigandi úrræði til allra sem eftir þjónustunni leituðu.“

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

10 staðreyndir um leiðréttinguna

Deila grein

16/10/2014

10 staðreyndir um leiðréttinguna

leidrettingin-sigmundurHér eru 10 staðreyndir um leiðréttinguna:

  1. Leiðréttingin snýst um sanngirni og réttlæti, að lántakendur sem urðu fyrir forsendubresti í kjölfar hrunsins fái stökkbreytt lán sín leiðrétt.
  2. Leiðréttingin mun bæta hag heimilanna, minnka greiðslubyrði og auka ráðstöfunartekjur fjölskyldunnar.
  3. Heildarumfang leiðréttingarinnar og séreignarsparnaðarleiðarinnar eru um 150 milljarðar fyrir heimilin í landinu.
  4. Yfir 90% heimila með verðtryggð húsnæðislán sóttu um leiðréttingu. Þessi mikla þátttaka staðfestir að landsmenn voru sammála því að leiðrétta þyrfti verðtryggð húsnæðislán í kjölfar þess fjármálaáfalls sem dundi yfir.
  5. Framkvæmd leiðréttingarinnar er á áætlun og landsmenn munu sjá endurútreikning sinna lána á haustmánuðum.
  6. Tæplega helmingur fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 6 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 250 þúsund krónur í mánaðarlaun.
  7. Um 60% fjármagnsins fer til heimila með tekjur undir 8 milljónir á ári. Það er t.d. heimili þar sem tveir aðilar eru hvor um sig með undir 335 þúsund í mánaðarlaun.
  8. Bankaskatturinn, sem nemur upphæð leiðréttingarinnar, var margfaldaður og undanþága þrotabúa var afnumin. Þar með er í fyrsta skipti lagður skattur á þrotabú föllnu bankanna. Vissulega fer skatturinn inní ríkissjóð og leiðréttingin útúr ríkissjóð á móti, það er eðlilegt ferli.
  9. Leiðréttingin er almenn aðgerð og dreifist jafnar á tekjuhópa en fyrri úrræði gerðu.
  10. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur tilkynnt að fylgst verði með framkvæmd leiðréttingarinnar og hvort í henni felist ríkisaðstoð til banka. Það er af og frá að svo sé. Miðað er að því að hvorki skapist hagnaður né tap hjá samningsaðilum vegna greiðslu leiðréttingarhluta láns.

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ný neysluviðmið, já takk!

Deila grein

16/10/2014

Ný neysluviðmið, já takk!

Elsa-Lara-mynd01-vefurFyrsta þingmannamál Framsóknarflokksins á þessum þingvetri, var að leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis, að fela félags – og húsnæðismálaráðherra, að hefja útreikning nýrra neysluviðmiða fyrir íslensk heimili. Mælt var fyrir þingmannamálinu í þingsal þann 25. september s.l.  og nú hefur málinu verið vísað til Velferðarnefndar þingsins.

Samkvæmt tillögunni er lagt til að útreikningarnir verði unnir í samráði við hlutaðeigandi aðila. Þessir hlutaðeigandi aðilar geta t.d. verið frá ríki, sveitarfélögum, Hagsmunasamtökum heimilanna og verkalýðshreyfingunni. Eflaust eru fleiri aðilar sem gagnlegt væri að fá að borðinu. Við útreikning nýrra neysluviðmiða skal taka tillit til þeirra þátta sem núverandi neysluviðmið byggjast á en auk þess verði húsnæðiskostnaður tekinn með inn í dæmið. Í því samhengi verði horft til mismunandi búsetuforma og staðsetningar húsnæðis. Með húsnæðiskostnaði er átt við allan kostnað sem fellur til vegna eigin húsnæðis og leiguhúsnæðis.

Í þingsályktunartillögunni er m.a. lagt til að gerð verði könnun á raunframfærslukostnaði einstaklinga og fjölskyldna í landinu. Þessi raunframfærslukostnaður verði síðan nýttur til að finna út lágmarksneysluviðmið. Reiknilíkanið verði opinbert eins og það er í þeim löndum sem við berum okkur oft saman við og má nefna Norðurlöndin í því samhengi.

Í störfum þingsins þann 15. október, minnti ég, fyrsti flutningsmaður tillögunnar á mikilvægi þess  að endurútreikningar á neysluviðmiðum fari fram. Ástæðan er sú að mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu og á samfélagsmiðlum undanfarna daga, m.a. vegna útreikninga á matarkostnaði í fjárlagafrumvarpi.  En fram hefur komið í fjölmiðlum að talsverður munur sé á milli þeirra útreikninga sem Fjármálaráðuneytið styðst við og þess sem Hagstofa Íslands miðar við. Það væri til bóta í allri umræðunni ef til væri tala sem hægt væri að vera sammála um að væri sú rétta um þennan kostnaðarlið sem öll heimili þurfa að bera.

Afar brýnt er að tillagan nái fram að ganga. Ný neysluviðmið eru mikilvæg fyrir heimilin í landinu.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í Feyki 16. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Aukið framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Deila grein

15/10/2014

Aukið framlag Íslands til Atlantshafsbandalagsins

Þórunn EgilsdóttirAllt frá stofnun Atlantshafsbandalagsins árið 1949 hefur Ísland verið aðildarríki. Aðildin ásamt varnarsamningnum við Bandaríkin hefur því verið hornsteinn íslenskra öryggis- og varnarmála í 65 ár. Samstarf við okkar nánustu bandalags- og vinaríki hefur gert það að verkum að uppbygging varnargetu landsins hefur ekki orðið Íslandi ofviða.

Sem aðildarþjóð getum við ekki verið eingöngu í hlutverki þiggjandans heldur ber okkur að taka þátt í víðtæku samstarfi sem fram fer á vettvangi bandalagsins og leggja okkar af mörkum með ýmsu móti.

Á nýafstöðnum leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Wales tilkynnti forsætisráðherra um fyrirætlanir íslenskra stjórnvalda að efla þátttöku og framlög í þágu eigin varna og bandalagsins. Efld þátttaka Íslands verður á sviði borgaralegrar sérfræðiþekkingar á þeim sviðum sem okkur hugnast og farnast best.

Aukið framlag verður m.a. nýtt til eflingar þyrlubjörgunarsveitar Landhelgisgæslu vegna loftrýmisgæslu, sem einnig kemur til góða almennri björgunarþjónustu í landinu.

Boðnir verða fram borgaralegir sérfræðingar til starfa á vettvangi bandalagsins þar sem það á við, til dæmis á sviði almannavarna, jafnréttismála, sprengjuleitar, vefvarna, upplýsingamiðlunar og öryggis á hafi.

Einnig verður lagt til fé í sjóði til styrktar uppbyggingu í Úkraínu og til framfylgdar ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Þátttaka íslenskra starfsmanna í samstarfi af þessu tagi eykur þeim einnig þekkingu, innsýn og tengslanet sem aftur nýtist þegar heim er komið.

Þjóðaröryggi Íslands verður eingöngu tryggt með ábyrgum hætti með alþjóðasamstarfi við bandalagsríki okkar. Þó að engar beinar ógnir steðji að landi og þjóð væri það mikil skammsýni og beinlínis óábyrgt að standa berskjölduð gagnvart utanaðkomandi hættum.

Því hefur frá upphafi ríkt þverpólitísk samstaða um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu, þó ekki hafi aðildin verið óumdeild.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Þorum að ræða viðkvæm mál

Deila grein

14/10/2014

Þorum að ræða viðkvæm mál

Sveinbjörg Birna SveinbjörnsdóttirÍ aðdraganda síðustu sveitarstjórnarkosninga lýsti ég því yfir að rétt væri að afturkalla ákvörðun Reykjavíkurborgar um að úthluta Félagi múslima á Íslandi lóð undir mosku. Afstaða mín sætti gagnrýni oddvita þeirra stjórnmálaflokka sem sóttust eftir því að halda meirihluta sínum í borgarstjórn. Viðbrögðin komu mér ekki á óvart enda þótt áhugi og pólitísk hagsmunagæsla sumra fjölmiðla kæmi mér í opna skjöldu. Oddvitarnir sögðust vera boðberar „umburðarlyndisins“ en markmiðið var að halda meirihlutanum.

Boðberar „umburðarlyndisins“
Hvað svo sem leið raunverulegum skoðunum oddvitanna er augljóst að mestu máli skipti fyrir þá að „misstíga sig ekki“ svo skömmu fyrir kosningar. S. Björn Blöndal kvað ummælin dæma sig sjálf á meðan Sóley Tómasdóttir taldi ummælin undarleg. Dagur B. Eggertsson og Halldór Auðar Svansson virtust líta svo á að lóðarúthlutunin tengdist trúfrelsi. Fylgismenn þeirra voru síðan sendir út af örkinni til að láta þau boð berast að afstaða mín fæli í sér fordóma. Þannig féllu margir í þá gryfju að „fordæma“ skoðanir mínar án þess að nokkur málefnaleg umræða færi fram. Á þennan hátt var reynt að gera mig tortryggilega í hugum kjósenda. Viðbrögðin báru vott um upphafna sjálfsmynd þeirra sem telja sig vera frjálslynda, upplýsta og víðsýna þegar raunveruleikinn er allt annar. Kjörnir fulltrúar almennings verða að þora að ræða viðkvæm mál og mega ekki láta hagsmuni einstakra aðila koma í veg fyrir að þeir fari að lögum í störfum sínum.

Viðbrögð oddvita þeirra stjórnmálaflokka sem sátu í meirihluta borgarstjórnar voru hins vegar skiljanleg í ljósi þess að lóðarúthlutunin var viðkvæm fyrir þá. Innan Samfylkingarinnar hafði lengi verið þrýst á að Félag múslima á Íslandi fengi úthlutað lóð undir mosku. Besti flokkurinn var hins vegar ekki jafn hallur undir trúfélagið auk þess sem hann hafði það að markmiði að gera Reykjavík að leiðandi borg í réttindum samkynhneigðra. Í samræmi við þessa stefnu hafði Besti flokkurinn staðið að því að synja Kristskirkjunni um styrk úr borgarsjóði vegna afstöðu trúfélagsins til samkynhneigðra. Það samræmdist því illa slíkri stefnu að úthluta ókeypis lóð úr borgarsjóði til trúarsafnaðar þar sem litið er á samkynhneigð sem synd.

Ólögmæt lóðarúthlutun
Samkvæmt lögum um Kristnisjóð er sveitarfélögum aðeins skylt að láta kirkjum þjóðkirkjunnar í té lóðir án endurgjalds. Skyldan nær ekki til lóða undir kirkjur eða bænahús annarra trúfélaga. Á þetta hafa fjölmargir valinkunnir lögfræðingar bent, meðal annars þeir Davíð Þór Björgvinsson, prófessor og fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, og Brynjar Níelsson, hrl. og fyrrverandi formaður Lögmannafélags Íslands.

Til að leysa þann vanda sem Samfylkingin og Besta flokkurinn voru komin í ákváðu þáverandi borgarstjóri og formaður borgarráðs að grípa til þess ráðs að bera undirmenn sína fyrir því að borginni væri skylt að úthluta öllum trúfélögum ókeypis lóðum. Af óútskýrðum ástæðum var lögfræðingum borgarinnar ekki kunnugt um að í máli Ásatrúarfélagsins höfðu hvort tveggja Hæstiréttur og Mannréttindadómstóll Evópu staðfest að heimilt væri að gera þjóðkirkjunni hærra undir höfði en öðrum trúfélögum. Eins og hendi væri veifað var „kirkja“ orðin að „mosku“. Þetta heimatilbúna leikrit meirihlutans fékk síðan trúverðugra yfirbragð er hann samþykkti að skora skyldi á Alþingi að breyta lögunum. Reykjavíkurborg hefur hins vegar ekki enn sent Alþingi slíka áskorun. Í borgarstjórn virtust sofandi sjálfstæðismenn ekki átta sig á því að verið var að leika á þá.

Lóðarúthlutunin hafði því ekkert með skyldu sveitarfélaga að gera. Saman hafa Samfylkingin og Besti flokkurinn (Björt framtíð) nú staðið fyrir því að fjölmargar lóðir hafa verið gefnar úr borgarsjóði án þess að gert sé ráð fyrir því í lögum. Ákvarðanir sem eru ekki reistar á lögum eru ógildanlegar og því heimilt að afturkalla þær.

Borgarstjóra ber að fara að lögum
Í ljósi þess að lóðarúthlutun til Félags múslima á Íslandi er ekki reist á lögum er ljóst að vilji er allt sem þarf svo afturkalla megi ákvörðunina sem og ákvarðanir um aðrar sambærilegar lóðarúthlutanir.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun MMR eru 73,7% þeirra sem svara andvígir eða mjög andvígir því að sveitarfélög úthluti trúfélögum ókeypis lóðum. Áberandi stærsti hópur þeirra sem er fylgjandi slíkum lóðurúthlutunum kemur úr röðum Samfylkingarinnar. Ég spyr því hvort borgarstjóri ætli að fara að lögum eða hvort hann ætli að halda áfram á „ætluðum“ atkvæðaveiðum? Ekki kæmi á óvart þótt ákveðnir fjölmiðlar láti borgarstjóra komast upp með að fara með sömu þuluna um trúfrelsi og skyldu sveitarfélaga til að úthluta trúfélögum ókeypis lóðum án þess að spyrja hann hvort afstaða hans samræmist lögum svo sem þau hafa verið skýrð í úrlausnum dómstóla og af hálfu lögmanna og dómara.

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

Deila grein

09/10/2014

„Brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda“

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna (LFK) telur afar mikilvægt að lýðheilsusjónarmið séu umfram allt höfð að leiðarljósi við afgreiðslu frumvarps sem lagt hefur verið fram um breytingar á lögum um verslun með áfengi. Frumvarpið brýtur þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda frá því í janúar sl. í áfengis og vímuvörnum þar sem markmiðin eru, m.a:

  • Að vernda viðkvæma hópa fyrir skaðlegum áhrifum áfengis og annarra vímugjafa.
  • Að fækka þeim sem þróa með sér skaðlegt neyslumynstur áfengis eða annarra vímugjafa.
  • Að draga úr skaða og fjölda dauðsfalla vegna eigin neyslu eða annarra á áfengi eða öðrum vímugjöfum.

Framkvæmdastjórn LFK bendir á, í þessu sambandi, að alþjóðlegum rannsóknum ber saman um að afnám einkasölu á áfengi leiði til aukinnar neyslu þess og að samhliða aukinni áfengisneyslu mun samfélagslegur kostnaður aukast vegna neyslutengdra vandamála þeirra sem neyta áfengis.
Framkvæmdastjórn LFK skorar því á alþingismenn, alla sem einn, að huga að fyrrnefndum atriðum við afgreiðslu frumvarpsins.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.