Categories
Fréttir

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Deila grein

08/10/2014

Gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum

Sigurður Ingi JóhannssonSigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra, gegndi um daginn alls fimm ráðherraembættum, því hann bætti við sig embættum forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og utanríkisráðherra. En Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra voru erlendis á ráðstefnum. Og þá var Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, einnig staddur erlendis og var því Sigurður Ingi staðgengill forsætisráðherra einnig einn af þremur handhöfum forsetavalds um stundarsakir.
Sigurður Ingi hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu daga og eru hér að neðan slóðir á ýmis viðtöl við hann sem gott er að deila áfram á flokksmenn og aðra stuðningsmenn flokksins.
eyjan.is – Sigurður Ingi hjólar í Kastljós: „Talið við kartöflubændur, talið um hver hefur ráðið markaðnum þar“
Í bítið – “Kerfið er í endurskoðun”, landbúnaðarráðherra ræddi MS málið
Kastljós – Vissi ekki um tengsl Ólafs
Fréttir RÚV – Flutningi Fiskistofu ekki breytt
Sprengisandur – Fór með rangt mál
Sprengisandur – Ver ekki samkeppnisbrot
 
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

Deila grein

07/10/2014

Ályktun frá stjórn Sambands ungra framsóknarmanna

logo-suf-forsidaStjórn Sambands ungra framsóknarmanna lýsir yfir fullum stuðningi við ríkisstjórnarsamstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks og gerir alvarlegar athugasemdir við rangfærslur Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Athugasemdir við stjórnarsamstarfið byggja á rangfærslum
Athugasemdir SUS við stjórnarsamstarfið virðast ýmist byggðar á rangfærslum eða pólitískum öfgum. Svo dæmi sé tekið hafa Framsóknarmenn ekki lagst gegn komu verslunarkeðjunnar Costco, til landsins, þeir hafa þvert á móti fagnað möguleikanum á aukinni samkeppni í matvöruverslun. Framsóknarmenn hafa hins vegar hafnað því að landslögum sé breytt að kröfu eins fyrirtækis án frekari skoðunar. Ungir sjálfstæðismenn virðast hins vegar tilbúnir til að láta kröfur stórfyrirtækja ráða því hvernig lög landsins líta út.
Framsóknarmenn hafa heldur ekki lagst gegn skattalækkunum. Þvert á móti hafa þeir lýst efasemdum um hækkun neðra þreps virðisaukaskatts og viljað fá staðfestingu á því að heildarálögur á almenning, sérstaklega þá tekjulægri, komi til með að lækka með breytingum á skattkerfinu eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa lagt áherslu á.
Þá lýsir Samband ungra framsóknarmanna yfir mikilli ánægju með skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar sem er til þess fallin að létta byrðar þeirra sem urðu fyrir forsendubresti með verðtryggð húsnæðislán sín eftir hrunið 2008 og þannig koma til móts við þann hóp sem setið hefur eftir.
Það er dapurlegt að sjá andstöðu ungra sjálfstæðismanna við að heimili landsins fái í einhverjum mæli að njóta þeirra afskrifta sem þegar hafa farið fram á lánum til heimilanna þegar þau voru færð milli fjármálastofnanna m.a. undir handleiðslu ríkisins. Samband ungra framsóknarmanna sér ástæðu til að benda á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins var ósammála SUS um þetta eins og margt annað, enda er það undarlegt viðhorf að fjármálakerfið eigi að hafa heimili landsins að féþúfu og innheimta að fullu lán sem þegar hafa verið færð niður.
Ungir sjálfstæðismenn hverfi frá öfgafullri hugmyndafræði
Samband ungra framsóknarmanna lýsir áhyggjum af þeirri öfgakenndu hugmyndafræði sem fram kemur í nýsamþykktri stefnu Sambands ungra sjálfstæðismanna sem virðist gegnsýrð af óheftri nýfrjálshyggju.
SUF fordæmir þær hugmyndir sem þar koma fram um einkavæðingu mennta- og heilbrigðiskerfisins og bendir á að sagan hefur fyrir löngu afsannað þá bábilju að frjálshyggjan sé besta jafnréttisstefnan. Óheft nýfrjálshyggja og einkavæðingarstefna í þeim anda sem fram kemur í stefnu SUS hefur aldrei leitt til samfélagslegra framfara eða bættra kjara fyrir almenning.
Skammt er að minnast þess að SUS lagði fram fjárlagatillögur byggðar á svipuðum grundvelli undir yfirskriftinni „Sýnum ráðdeild“.
Í tillögunum lýsa ungir sjálfstæðismenn vilja sínum til að leggja niður jafnréttissjóð, Jafnréttisstofu, Raunvísindastofnun Háskólans,Þjóðminjasafnið, Þjóðleikhúsið, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Launasjóð listamanna, Kvikmyndamiðstöð Íslands, Rannsóknarsjóð, Rannsóknarmiðstöð Íslands, Stofnun Árna Magnússonar, Fornleifavernd ríkisins, Fiskistofu, Hafrannsóknarstofnun, Verkefnasjóð sjávarútvegsins, Siglingastofnun og Flugmálastjórn, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga svo dæmi séu tekin.
Þá leggur SUS til að greiðslum til sérframlaga í fæðingarorlofssjóð, mæðra- og feðralauna, mannréttindamála, skógræktar, landgræðslu og þjóðgarðsins á Þingvöllum verði hætt og að Ísland leggi niður Þróunarsamvinnustofnun, hætti allri þróunaraðstoð og reyni þess í stað að auka velmegun í þróunarríkjum með því að ýta undir alþjóðaviðskipti.
Samband ungra framsóknarmanna telur ástæðu til að hafa verulegar áhyggjur af því að ungliðahreyfing stærsta stjórnmálaflokks landsins sé föst í viðjum svo öfgakenndrar hugmyndafræði og skorar á SUS að hverfa frá henni.

Categories
Greinar

Sterkar stelpur – sterk samfélög

Deila grein

06/10/2014

Sterkar stelpur – sterk samfélög

Gunnar Bragi SveinssonTitill þessa greinarstúfs vísar í vikulangt kynningarátak um þróunarsamvinnu sem hefst í dag, þar sem unglingsstúlkur í þróunarríkjum verða í brennidepli.

Á hverjum degi glíma stúlkur í fátækari löndum heims við fjölmargar hindranir og víðast hvar verða þær fyrir kerfisbundnum mannréttindabrotum sökum kynferðis og aldurs. Félagsleg staða velflestra þeirra er veik, og fátækt og erfiðar aðstæður gera þær enn varnarlausari og rödd þeirra veikari. Í flestum þróunarlöndum hallar verulega á stúlkur þegar kemur að menntun. Þó þær gangi í vaxandi mæli í grunnskóla er brottfall algengt vandamál, enda gegna þær margvíslegum skyldum heima við sem látnar eru ganga fyrir, auk þess sem hjónaband og ótímabærar barneignir binda enda á skólagöngu þeirra. Framhaldsmenntun ljúka þær sjaldan og því tækifæri til atvinnu og tekjuöflunar takmarkaðar.

Þá getur þungun og barnsfæðing meðal unglingsstúlkna skapað mikla hættu, en ár hvert fæða 16 milljónir stúlkna á aldrinum 15-19 ára barn. Vandkvæði á meðgöngu og í fæðingu er meginástæða dauðsfalla meðal stúlkna í þessum aldurshópi. Þá eru ótalin varanleg heilsufarsvandamál svo sem fistill, auk þess sem ungar mæður og börn þeirra deyja frekar í fæðingu en þegar mæðurnar eru líkamlega tilbúnar til að ala barn.

Þess vegna er mikilvægt að réttindi ungs fólks og aðgangur að upplýsingum og þjónustu sé tryggður svo stuðla megi að bættu kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindum. Aukin þekking getur dregið úr ótímabærum þungunum stúlkubarna og átt þátt í að binda enda á kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og skaðlegar hefðir. Þar er átt við hefðir líkt og limlesting á kynfærum og nauðungarhjónabönd sem bitna oftast sérstaklega á stúlkum auk þess sem kynbundið og kynferðislegt ofbeldi gegn unglingsstúlkum er víða landlægt, látið óátalið og fær ekki meðferð í réttarkerfinu.

Á sama tíma og við gerum okkur grein fyrir því ójafnrétti sem viðgengst í garð unglingsstúlkna og þeim margvíslegu hindrunum sem þær takast á við dag hvern, vitum við að í valdeflingu þeirra felast mýmörg og mikilvæg tækifæri. Í rauninni má segja að unglingsstúlkur séu sjálfur lykillinn að framförum. Fyrir þær sjálfar og samfélagið í heild sinni.

Það hefur sýnt sig að menntun er ekki aðeins lykilþáttur í að bæta stöðu stúlkna heldur árangursrík leið til að draga úr fátækt og stuðla að þróun samfélaga. Hún hefur jafnframt margfeldisáhrif. Menntaðar stúlkur eru líklegri til að ganga seinna í hjónaband og eiga færri börn, sem aftur eru líklegri til að lifa af, búa við betra heilsufar og ganga menntaveginn. Menntaðar konur hafa betri tök á að þekkja og standa vörð um réttindi sín og stöðu og njóta fleiri tækifæra til að hafa áhrif og vera virkir þátttakendur innan veggja heimilisins og úti í samfélaginu.

Þá er lykilatriði að vinna markvisst að því að breyta viðhorfum sem víða eru ríkjandi í garð stúlkna og kvenna. Vinna þarf gegn mismunun og mannréttindabrotum og afnámi skaðlegra hefða sem standa jafnrétti og þróun samfélaga fyrir þrifum. Sérhver stúlka, óháð búsetu eða fjárhagsstöðu, á tilkall til að geta nýtt hæfileika sína og getu til fullnustu. Í dag er of mörgum stúlkum neitað um þann rétt. Vítahring misréttis og mismununar verður að rjúfa.

Það er því ánægjulegt að geta sagt frá því að stuðningur við unglingsstúlkur er mikilvægur þáttur í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands. Bæði í gegnum stuðning við menntun þeirra og heilsufar í samstarfslöndum Þróunarsamvinnustofnunar Íslands, sem og í gegnum verkefni alþjóðastofnana á borð við UNICEF og UN Women þar sem einnig er barist gegn ofbeldi gegn stúlkum og fyrir afnámi skaðlegra hefða líkt og limlestinga á kynfærum stúlkna.

Áfram stelpur!

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

06/10/2014

Stjórnamálaályktun framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

logo-framsokn-gluggiKjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október lýsir ánægju með góðan árangur sem náðst hefur í stjórn landsmála á því rúma ári sem liðið er frá því að ný ríkisstjórn tók við völdum undir forsæti Framsóknarflokksins. Flestir mælikvarðar sem stuðst er við, til að vega og meta hagsæld þjóða, stefna upp á við. Það er ekki tilviljun. Þeirri stöðu hefur verið náð með forystu Framsóknarflokksins sem hefur haldið fast í gildi sín sem frjálslyndur félagshyggjuflokkur.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur almenna flokksmenn og sveitarstjórnarmenn til að halda á lofti þessum góða árangri, sérstaklega núna þegar hillir undir að leiðrétting húsnæðislána nái fram að ganga. Höfuðstólsleiðréttingin og skattfrjáls ráðstöfun séreignarsparnaðar mun lækka greiðslubyrði og hækka ráðstöfunartekjur. Hraða verður vinnu við afnámi verðtryggingar á neytendalánum og afnámi hafta.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur ríkisstjórnina til að gera betur í málefnum hinna dreifðu byggða. Hraða skal uppbyggingu háhraðanets og annarar grunnþjónustu sem krafist er í nútímasamfélagi, þar með talin þriggja fasa rafmagns.
Þá fagnar kjördæmisþingið áformum ríkisstjórnarinnar um að fjölga opinberum störfum á landsbyggðinni. Mjög hefur hallað á hana í þeim efnum á undanförum árum og fáir hreyft mótmælum þegar opinber störf hafa verið lögð niður á landsbyggðinni. Því kemur hin mikli órói, vegna áforma um flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu, á óvart. Þar er um jákvætt skref að ræða og eru stjórnvöld eindregið hvött til að halda áfram á þessari braut.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október  leggur þunga áherslu á umferðaöryggi, styttingu vegalengda og viðhald vega svo að allir komist um landið með öruggum og greiðum hætti. Viðhaldi og uppbyggingu hafna er ábótavant og nauðsynlegar úrbætur eru brýnar, s.s. á Suðurnesjum og uppbygging Þorlákshafnar sem inn- og útflutningshafnar. Brýnt er að halda áfram rannsóknum við Landeyjarhöfn og Hornafjörð.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á trausta heilbrigðisþjónustu óháð búsetu. Mikilvægt er að samráð sé haft við heimamenn þegar ráðist er í breytingar á heilbrigðisþjónustunni. Standa þarf vörð um grunnþjónustu í heilbrigðismálum kjördæmisins, s.s. uppbyggingu hjúkrunarheimila.
Þingið leggur áherslu á að fundnar verði leiðir til að efla næringarvitund í átt að bættri lýðheilsu, með því að auka þátttöku barna og ungmenna í íþróttum. Góð lýðheilsa er beinn sparnaður fyrir heilbrigðiskerfið.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að menntasetur í kjördæminu verði efld og þeim tryggður rekstrargrundvöllur. Það er nauðsynlegt að gera fólki kleift að stunda nám heima í héraði.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október hvetur stjórnvöld til að stuðla að aukinni matvælaframleiðslu. Hagræðing innan greinarinnar hefur skilað neytendum miklu á undanförnum árum, en hún má ekki verða á kostnað eðlilegri samkeppni.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október fagnar áformum landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra um að leggja fram frumvarp um stjórn fiskveiða. Slíkar breytingar mega þó ekki þrengja að samkeppnis- og rekstrarhæfni greinarinnar. Tryggja verður fyrirsjáanleika í greininni, slíkt eykur byggðafestu og treystir stöðu sjávarútvegsfyrirtækja á erlendum mörkuðum. Þá hvetur kjördæmisþingið stjórnvöld til að tryggja hóflegt gjald fyrir aðgang að auðlindum hafsins er renni aftur heim í hérað, s.s. í uppbyggingu hafnarmannvirkja.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október leggur áherslu á að hlúð verði að nýsköpun og atvinnuuppbyggingu í kjördæminu, einkum þó á Suðurnesjum og Skaftafellssýslum. Þingið hvetur til að vandað verði til uppbyggingar í ferðaþjónustu og lýsir yfir stuðningi við fyrirhugaða gjaldtöku af ferðamönnum.
Kjördæmisþing framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS) í Freysnesi í Öræfum 3.-4. október minnir á að standa beri vörð um náttúru Íslands. Um leið er rétturinn tryggður til að njóta hennar. Mikilvægt er að huga að sjálfbærri nýtingu til heilla fyrir samfélagið allt og komandi kynslóðir.
Þingið fagnar áformum ríkisstjórnarinnar um aukna kolefnisbindingu með skógrækt og landgræðslu og hvetur til þess að sem fyrst verði hafist handa við að vinna eftir þeim áformum.

*****

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Raunhæft val á húsnæðismarkaði

Deila grein

06/10/2014

Raunhæft val á húsnæðismarkaði

Elsa-Lara-mynd01-vefurÖrugg búseta skiptir okkur öll máli sama hvort við eigum eða leigjum húsnæði. Við viljum hafa raunhæft val um hvort við kaupum eða leigjum húsnæði. Því miður höfum við ekki haft þetta val á íslenskum húsnæðismarkaði. Einnig er það miður að stuðningur við búsetuformin hefur verið mjög misskiptur. Unnið er að úrbótum í þessum málaflokki í ráðuneyti félags – og húsnæðismálaráðherra, Eyglóar Harðardóttur.

Frumvörp í vinnslu

Þessa dagana er unnið hörðum höndum að gerð frumvarpa er varða húsnæðismarkaðinn, má þar nefna frumvörp er varða húsnæðisbætur, húsnæðismál, húsnæðissamvinnufélög og breytingar á húsaleigulögum. Frumvörpin eru byggð á tillögum Verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, sem skilaði af sér hugmyndum til ráðherra í vor. Verkefnisstjórnin var með víðtækt samráð í gegnum alla vinnuna, við alla þá aðila er koma að þessum málaflokki.

Undanfarin ár hafa margir starfshópar verið að störfum og rætt húsnæðismál og úrbætur í þeim efnum. Ótal skýrslur hafa verið skrifaðar og ýmsar góðar hugmyndir komið fram. Það er hins vegar fyrst núna, sem farið er að skrifa frumvörp þessa efnis og er vinnan á lokametrunum. Engin drög að frumvörpum voru til, þar sem taka átti á þessum stóra og mikilvæga málaflokki.

Það er því óhætt að halda því fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sé að stíga stór skref í átt að bættu húsnæðiskerfi, fyrir alla landsmenn.

Húsnæðisbætur

Unnið er að breytingum á vaxtabóta – og húsaleigubótakerfinu. Fyrirhugað er að sameina bæði kerfin í nýtt stuðningskerfi, húsnæðisbætur. Í nýju kerfi mun umfang stuðningsins m.a. taka mið af fjölskyldustærð og efnahag heimilanna, óháð búsetuformi. Unnið er að gerð frumvarps þessa efnis og stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi.

Húsnæðismál

Unnið er að endurskipulagningu húsnæðismála og að gerð húsnæðisstefnu. Þar skal tilgreina hvert félagslegt hlutverk stjórnvalda eigi að vera á húsnæðismálamarkaði. Jafnframt skal skýra stefnu stjórnvalda er varðar húsnæðislán og hvaða lánaform verða í boði á markaðnum. Nauðsynlegt er að marka skýrar tillögur sem tryggi að jafnræði verði í lánveitingum til húsnæðiskaupa eða bygginga, um land allt. Unnið er að gerð frumvarps þessa efnis og stefnt er að því að leggja það fram á haustþingi.

Frumvörp sem koma fram á vorþingi

Unnið er að því að efla lagaumgjörð húsnæðissamvinnufélaga þannig að þau falli vel að nýju    framtíðarskipulagi húsnæðismála. Jafnfram er unnið að endurskoðun húsaleigulaga með það að markmiði að treysta umgjörð leigumarkaðar og efla úrræði leigusala og leigutaka. Vinnsla þessara mála er í fullum gangi og vinnsla frumvarpanna komin langt á leið. Stefnt er að því að koma þeim inn til þinglegrar meðferðar strax á vorþingi.

Komum málunum í gegn

Nauðsynlegt er að samstaða verði í þinginu að koma þessum málum í gegn. Það væri afar jákvætt fyrir okkur öll, sama hvaða búsetuformi við búum í. Í þessum frumvörpum munum við sjá skýra stefnu um jafnan stuðning við mismunandi búsetuform, reglur um lækkun leiguverðs, hvata til að fjölga leiguíbúðum og lagaumgjörð um bætt lánaumhverfi, neytendum í hag. Þetta eru stórir og mikilvægir þættir er varða heimilin í landinu.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist í DV 3. október 2014.

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Víða er gott að vera

Deila grein

06/10/2014

Víða er gott að vera

Silja-Dogg-mynd01-vefFærsla opinberra starfa til landsbyggðarinnar er liður í að sporna við núverandi byggðaþróun. En á undanförnum árum hefur opinberum störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en fækkað á landsbyggðinni. Það er ekki hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að of stór hluti þjóðarinnar búi á sama horninu, því til að nýta öll landsins gæði, til sjávar og sveita, verður fólk að búa sem víðast. Stórauknu fiskeldi í Arnarfirði verður til dæmis ekki sinnt frá Reykjavík.

Hluti starfa flyst norður
Starfsemi Fiskistofu er nú á sjö stöðum vítt og breytt um landið og starfa 74 hjá stofnuninni. Sjávarútvegsráðherra hefur kynnt áform um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu til Akureyrar en þau eru í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þá munu 25-30 störf flytjast norður.

Sterkari stofnun
Breytingar eru oft sársaukafullar en engu að síður geta þær verið hagkvæmar til lengri tíma litið. Flutningur höfuðstöðva Fiskistofu til Akureyrar er gott dæmi um hagkvæma aðgerð. Rekstrarkostnaður er t.a.m. minni á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, og munar þar mest um húsnæðiskostnað. Einnig er starfsmannavelta mun minni á landsbyggðinni. Það kostar mikla fjármuni að þjálfa nýjan starfsmann og því mun aukinn stöðugleiki í starfsmannahaldi styrkja stofnunina.

Styður við mannauðinn
Til skemmri tíma litið má gera ráð fyrir því að faglegur grunnur stofnunarinnar veikist. En það er ekki ástæða til að ætla annað en að fagþekking byggist upp á ný þar sem að eyfirska vinnusóknarsvæðið hefur upp á þá fagþekkingu að bjóða sem Fiskistofa þarfnast. Háskólinn á Akureyri er leiðandi á sviði sjávarútvegsfræða auk þess sem skólinn býður upp á nám á öðrum fagsviðum sem Fiskistofa sækir mannauð í. Á Akureyri er einnig starfrækt Sjávarútvegsmiðstöð sem leggur stund á rannsóknir tengdar sjávarútvegi. Því má segja að fræðaumhverfið á Akureyri muni styðja verulega við mannauð stofnunarinnar.

Nokkur skref
Áætlað er að flutningur Fiskistofu muni taka nokkurn tíma og þann tíma þarf að nota vel til að vinna að yfirfærslu þekkingar. Gert er ráð fyrir að höfuðstöðvar Fiskistofu verði komnar til Akureyrar fyrir 1. júlí 2015. Vandað verður til verka og reynt að koma til móts við starfsmenn eins og kostur er til að halda þeim mannauði sem skapast hefur innan stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að flutningi ljúki að öllu leyti fyrir 1. janúar 2017.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. október 2014

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Jafnréttisráðstefna karla í New York

Deila grein

01/10/2014

Jafnréttisráðstefna karla í New York

lfkmerkiliturFramkvæmdastjórn Landssamband framsóknarkvenna hefur fylgst náið með þróun kynjajafnréttisumræðunnar sem helst hefur birst undanfarið í átakinu HeforShe og vill þess vegna vekja athygli á frumkvæði utanríkisráðherra Íslands, Gunnars Braga Sveinssonar, þar sem hann boðaði í ræðu sinni á Alsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, í vikunni, að Ísland og Súrínam muni halda málþing um kynjajafnréttismál í New York í janúar á næsta ári.
Framkvæmdastjórnin hefur því sent frá sér eftirfarandi ályktun:
„Framkvæmdarstjórn Landssambands framsóknarkvenna lýsir yfir ánægju sinni með frumkvæði utanríkisráðherra á sviði kynjajafnréttis. Jafnréttisráðstefna karla, sem utanríkisráðherra Gunnar Bragi Sveinsson hefur boðað, verður haldin í janúar á næsta ári á vettvangi sameinuðu þjóðanna. Ráðstefnan mun án efa vekja heimsathygli. Framkvæmdastjórnin fagnar því einnig að ráðstefnunni sé sérstaklega ætlað að beina kastljósinu að ofbeldi gegn konum sem birtist sem dagleg ógn margra kvenna í heiminum. Það er ennfremur fagnaðarefni að nú fái karlar tækifæri til þess að tala saman og láta sig þetta mikilvæga málefni varða. Að lokum vill framkvæmdastjórn Landssambands framsóknarkvenna benda á að það er afar jákvætt að íslenskir karlar séu í fararbroddi í undirskriftum vegna HeForSe átaksins í heiminum.“
Framkvæmdastjórn LFK vill hvetja alla karla til þess að skrifa undir á slóðinni: www.heforshe.org
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Útverðir Íslands

Deila grein

01/10/2014

Útverðir Íslands

Gunnar Bragi SveinssonÍslendingar hafa ávallt verið víðförul þjóð og er vandfundinn sá kimi jarðar þar sem við höfum ekki stungið niður fæti við leik, nám eða störf. Smávaxin utanríkisþjónusta eins og okkar, sem hefur það að forgangsmáli að gæta öryggis og hagsmuna Íslendinga erlendis, mætti sín lítils ef við nytum ekki liðsinnis þéttriðins nets ræðismanna okkar víða um veröld.

Á hverjum einasta degi, allan ársins hring getur utanríkisþjónustan reitt sig á þá 243 ræðismenn Íslands sem nú eru starfandi í 89 þjóðlöndum. Sinna þeir störfum í þágu lands og þjóðar án þess að þiggja fyrir það laun og í flestum tilvikum eru ræðismenn Íslands erlendir ríkisborgarar sem eru boðnir og búnir að leggja á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu við að rétta Íslendingum hjálparhönd ef þess er óskað.

Í hverri viku koma upp mál þar sem reynir á útsjónarsemi utanríkisþjónustunnar við að koma fólki til aðstoðar og oftar en ekki reiðum við okkur á þessa frábæru menn og konur sem skirrast ekki við að leggja á sig margra daga ferðalög til að heimsækja þá samborgara okkar sem villst hafa af lífsins leið eða veita þeim aðstoð sem um sárt eiga að binda. Eðli málsins samkvæmt fara þessi mál hljótt en úrlausn þeirra er eitt mikilvægasta viðfangsefnið sem okkur er falið.

Ræðismennirnir eru þannig hinn framlengdi armur Íslands á staðnum og er það ómetanlegt að geta reitt okkur á aðstoð ræðismannanetsins þegar þörfin er brýn. Þá má fullyrða að ræðismenn okkar og tengsl þeirra í heimaríkjum sínum hafi reynst ákaflega vel fyrir íslenskan útflutningsiðnað og viðskipti í gegnum tíðina og mýmörg dæmi um opnun markaðstækifæra fyrir tilstuðlan þeirra.

Á morgun býð ég velkomna hingað til lands 136 ræðismenn Íslands sem lagt hafa undir sig langt ferðalag á eigin kostnað til að kynnast betur landi og þjóð á sjöundu ræðismannastefnunni sem haldin er í Hörpu nú í vikunni. Síðast var slík ráðstefna haldin árið 2006 og er hefð fyrir því að halda ræðismannaráðstefnu á fimm ára fresti. Það hefur dregist um þrjú ár af skiljanlegum ástæðum. Er það ríkisstjórninni sérstakt fagnaðarefni að taka vel á móti þessum útvörðum Íslands og sýna þakklæti okkar í verki.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 1. október 2014.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.