Categories
Forsíðuborði Greinar

Fjármálaráðherra bregður fæti fyrir ferðaþjónustu

Deila grein

29/04/2017

Fjármálaráðherra bregður fæti fyrir ferðaþjónustu

Í umræðunni um fjölgun ferðamanna gleymist iðulega að landið nýtur ekki allt sama ferðamannastraumsins. Það er öðru nær. Á meðan umræða um ferðamenn á suðvesturhorninu snýst um álag og erfiðleika vegna mikils fjölda og jafnvel aðgangsstýringu veitir stórum hlutum landsins ekki af umtalsverðri fjölgun.

Í Norðausturkjördæmi leita menn allra leiða til að fá fleiri ferðamenn á Norður- og Austurland, alls ekki færri. Á því byggist rekstrargrundvöllur fyrirtækjanna sem og atvinna og lífsviðurværi þeirra sem þar starfa. Sömu sögu er að segja víðar af landinu.

Á þessu virðist vera lítill skilningur hjá stjórnvöldum, meðal annars hjá fjármálaráðherra og þingmanni kjördæmisins. Reglulega er minnt á mikilvægi þess að ferðamenn dreifist betur um landið. Allir hafa hag af því að dreifa álaginu og uppbyggingunni betur og nýta auðlindina sem í landinu liggur. Áform ríkisstjórnarinnar um að stórhækka skatta á ferðaþjónustu ganga hins vegar þvert á þessi markmið.

Ljóst er að ferðaþjónusta getur skilað enn meiri tekjum en nú er. Sú aðferð sem ríkisstjórnin boðar myndi hins vegar bitna verst á greininni á þeim svæðum þar sem hún á erfiðast uppdráttar og þörfin fyrir fjölgun ferðamanna er mest. Það á til dæmis við um þá fjölmörgu aðila sem reka litlar einingar en hafa lagt mikið undir til að bjóða upp á gistingu eða aðra þjónustu fjarri höfuðborgarsvæðinu.

Uppbygging á landsbyggðinni er öllum í hag

Uppbygging ferðaþjónustu á landsbyggðinni snýst ekki bara um að veita ferðafólki gistingu eða aðra þjónustu. Slík uppbygging, eins og öll önnur atvinnuuppbygging utan höfuðborgarsvæðisins, snýst líka um að styrkja byggðir landsins, jafna kjör og aðstæður fólks til búsetu á landinu öllu og treysta í sessi samfélög í hinum dreifðu byggðum. Landsmenn allir njóta góðs af því.

Sú uppbygging sem ferðaþjónustan hefur fært fjölmörgum stöðum um allt land hefur haft mjög margt gott í för með sér. En því miður virðist skilningur á mikilvægi og eðli þessarar vaxandi starfsgreinar vera takmarkaður þegar kemur að ákvörðunum um starfsumhverfi hennar.

Það gerist ekki á hverjum degi að ég vitni í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn máli mínu til stuðnings. En hvað varðar starfsumhverfi ferðaþjónustunnar hefur AGS gert góða grein fyrir mikilvægi þess að atvinnugreinin njóti stöðugleika og »sjálfbærs vaxtar«. Sérstaklega hefur verið minnt á mikilvægi þess að varðveita samkeppnishæfni greinarinnar.

Það vekur manni því ugg að heyra forsætisráðherrann lýsa því yfir í viðtali að það síðasta sem hann hafi áhyggjur af sé samkeppnisstaða íslenskrar ferðaþjónustu. Fjármálaráðherrann skákar í þessu skjóli og virðist líta á greinina sem ótæmandi gullkistu sem hægt sé að ausa úr til að fylla í götin á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.

Traðkað á ferðaþjónustu í Norðausturkjördæmi

Það er áhyggjuefni að fjármálaráðherra, sem er þingmaður Norðausturkjördæmis, skuli skorta skilning á aðstæðum greinarinnar í kjördæminu. Norður- og Austurland geta sannarlega tekið við miklu fleiri ferðamönnum en nú er og gert það vel. Tækifærin til uppbyggingar áningarstaða og afþreyingar eru óteljandi. Samkeppnin við suðvesturhorn landsins og restina af heiminum er hins vegar erfið, nýtingarhlutföll lægri en þau þyrftu að vera og framlegðin of lítil, minni en svo að menn ráði við skyndilega tvöföldun virðisaukaskatts og rúmlega það. Á sama tíma er greinin að takast á við verulega styrkingu krónunnar.

Áform fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar um að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu munu hafa mjög neikvæð áhrif á greinina á stórum hluta landsins og þar með á byggðaþróun, atvinnuþróun og lífskjör. Nefna má Breiðdalsvík sem dæmi. Eftir langvarandi öfugþróun í atvinnumálum hafa íbúar og aðkomufólk náð árangri í að snúa þróuninni við. Þeir bundu miklar vonir við að stærsta útflutningsgrein landsins myndi renna stoðum undir vöxt og viðgang byggðarlagsins. Verði sú leið sem ríkisstjórnin boðar við gjaldtöku af ferðaþjónustunni farin munu brothættustu byggðirnar líða mest fyrir það. Það er staðreynd sem meira að segja er hægt að sannreyna í töflureikni.

Á mörgum stöðum í Norðausturkjördæmi hefur harðduglegt fólk lagt eigur sínar og lánsfé í að byggja upp ferðaþjónustu á undanförnum árum. Aðstandendur flestra þessara verkefna munu nú horfa nú fram á fullkomna óvissu verði virðisaukaskattshækkunin að veruleika.
Ferðaþjónustufyrirtæki í Norðausturkjördæmi þurfa ekki óljós tilboð um bitlinga eins og fjármálaráðherra otaði að þeim á fundi á Austurlandi nýverið. Ferðaþjónustan og fólkið sem treystir á hana sem lífsviðurværi þarf stöðugt starfsumhverfi sem tryggir samkeppnishæfni og styður við uppbyggingu og fjárfestingu. Á því byggir sjálfbær atvinnustarfsemi.

Flöt hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna gengur þvert gegn öllum þessum markmiðum og mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar á landsbyggðinni til framtíðar.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. apríl 2017.

Categories
Greinar

Stöðugleikasjóður auðlindahagkerfisins

Deila grein

28/04/2017

Stöðugleikasjóður auðlindahagkerfisins

Verkefni okkar er að draga úr sveiflum og auka stöðugleika. Vegna smæðar hagkerfisins og tiltölulega fábreytts útflutnings, þá mun íslenska hagkerfið alltaf búa við einhverjar sveiflur. Ísland er útflutningsdrifið auðlindahagkerfi. Hagsaga okkar hefur einkennst af miklum hagsveiflum en þær gera almenningi og fyrirtækjum í landinu erfiðara fyrir að gera áætlanir um framtíðina.

Stofnun Stöðugleikasjóðs Íslands mun draga úr sveiflum og auka þar með stöðugleika. Slíkur sjóður kæmi í veg fyrir að uppgangur í einni útflutningsgrein skerði ekki sam­keppnis­hæfni annarra. Þjóðir sem eru ríkar af auðlindum, líkt og Ísland, hafa sett upp svipaða sjóði í sama tilgangi. Norski olíusjóðurinn er eitt besta dæmið um slíkan sjóð.

Fjármála- og efnahagsráðherra sagði á ársfundi Landsvirkjunar á miðvikudaginn að nýr vinnuhópur hefði verið skipaður til að leggja drög að þjóðarsjóði. Ráðherrann talar fyrir því að arðgreiðslur frá Landsvirkjun muni fjármagna sjóðinn og sem gætu verið á bilinu 10-20 ma.kr. á ári. Þetta dugar ekki til. Slíkur sjóður mun ekki auka stöðugleika eins og við öll sækjumst eftir því of langan tíma tekur að byggja upp myndarlegan höfuðstól.

Stöðugleikasjóðinn á frekar að fjármagna með nokkrum leiðum. Í fyrsta lagi með stofnframlagi, til dæmis hluta af stöðugleikaframlögum slitabúanna sem nýttur er til kaupa á gjaldeyri af Seðlabankanum. Það myndi minnka tugmilljarða kostnað á hverju ári sem hlýst af gjaldeyrisforða þjóðarbúsins. Í öðru lagi ættu tekjur ríkissjóðs af nýtingu auðlinda landsins, þ.e. sjávarútvegi, orkuiðnaði og ferðaþjónustu, að fara í sjóðinn. Í þriðja lagi ætti ríkissjóður að nýta tekjuafgang sinn þegar vel árar og setja í sjóðinn. Þar með myndi ríkissjóður ganga í takt við Seðlabankann og vextir gætu lækkað.

Stöðugleikasjóðurinn getur gegnt lykilhlutverki í hagstjórn landsins og orðið til þess að vextir lækki með minni sveiflum og því að ríkissjóður og Seðlabanki gangi í takt. Að sama skapi á að nýta stöðugleikasjóðinn til innviðauppbyggingu þegar skórinn kreppir. Það væri til mikils að vinna ef hægt væri að auka stöðugleika í íslensku hagkerfi og nú eru kjöraðstæður til þess.

Lilja D. Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 28. apríl 2017.

Categories
Fréttir

Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?

Deila grein

26/04/2017

Tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum forkaupsrétt?

„Hæstv. forseti. Í störfum þingsins þann 5. apríl síðastliðinn fagnaði ég því að forsvarsmenn HB Granda hefðu farið í viðræður við bæjarstjórn Akraness og Faxaflóahafnir um framtíðaráform fyrirtækisins á Akranesi. Ég ræddi mikilvægi þess að allir aðilar tækju þátt í þessum viðræðum af heilum hug því að um væri að ræða gríðarlegt hagsmunamál fyrir starfsmenn HB Granda á Akranesi og bæjarfélagið Akranes. Í störfum þingsins ræddi ég jafnframt um að ef þessar viðræður bæjarstjórnar Akraness og Faxaflóahafna við kvótahæsta fyrirtæki landsins, þ.e. HB Granda, skiluðu ekki árangri blasti við að endurskoða þyrfti það kvótakerfi sem við búum við í dag. Skoða þyrfti hvort hægt væri með skýrari hætti að tengja kvóta við byggðir eða auðvelda sveitarfélögum að nýta sér forkaupsrétt í þeim kvóta sem fyrir er svo ákvörðun sem þessi ógnaði ekki atvinnuöryggi fjölda einstaklinga.
Í fréttum þann 20. apríl sl. tók hv. þm. Páll Magnússon, sem jafnframt er formaður hv. atvinnuveganefndar Alþingis, í svipaðan streng og sagði nauðsynlegt að breyta lögum um stjórn fiskveiða til að tryggja þá byggðafestu sem gert er ráð fyrir í lögunum. Hátt í 100 manns missa vinnuna ef HB Grandi hættir landvinnslu á Akranesi.
Hv. þm. Haraldur Benediktsson, sem er 1. þm. Norðvesturkjördæmis, tók undir þessi orð hv. þm. Páls Magnússonar og sagði að lög um stjórn fiskveiða væru til skoðunar innan stjórnkerfisins í ljósi þess að hátt í eitt hundrað manns missi vinnuna ef HB Grandi hætti landvinnslu á Akranesi. Það yrði grundvallarbreyting ef HB Grandi flytti starfsemi frá Akranesi til Reykjavíkur.
Mig langar að nýta þetta tækifæri og fagna orðum þessara hv. þingmanna. Ég vona svo sannarlega að fleiri hv. þingmenn hér geta tekið undir þessi orð okkar.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 25. apríl 2017.

Categories
Fréttir

Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki – ekki hentistefnu

Deila grein

26/04/2017

Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki – ekki hentistefnu

„Hæstv. forseti. Vart þarf að rifja það upp í þessum sal að búið er að tilkynna sölu á svokölluðu Vífilsstaðalandi í Garðabæ. Fjármálaráðherra stóð fyrir því. Hann ber því við að heimild til þess sé í fjárlögum, sem er rétt. En í fjárlögum er að finna ýmsar aðrar heimildir til handa ríkisvaldinu, svo sem eins og að selja hlut í bönkunum sem ríkið heldur á um þessar mundir. Þá er þar einnig að finna heimildir til að selja jarðir sem eru í eigu ríkisins, en kvartað hefur verið yfir því að nánast ómögulegt er að kaupa ríkisjarðir og nýta nú um stundir, enda er engin stefna til. Sem betur fer er fjöldi ungs fólks tilbúinn til að leggja matvælaframleiðslu fyrir sig og stunda landbúnað, byggja upp samfélagið og vera þar bústólpar. En því miður hefur þróunin verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð. Það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.
Ríkissjóður á um 450 jarðir. Stór hluti þeirra er nýttur til landbúnaðar. Samkvæmt 12. gr. ábúðarlaga ber ábúanda að hafa fasta búsetu á ábúðarjörð og stunda þar landbúnað nema annað hafi verið samþykkt. Í þessu felast mikil tækifæri til að styrkja byggðir og styðja íslenskan landbúnað sem býr yfir mikilli þekkingu á verðmætum sem felast m.a. í heilbrigðum bústofni og þekkingu bænda á landinu.
Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að á dagskrá þingsins í dag er tillaga til þingsályktunar um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Að henni stendur allur þingflokkur Framsóknarflokksins. Við teljum málið aðkallandi því að ekki verður lengur við það unað að jarðir fari í eyði og verðmæti sem felast í ræktuðu landi fari í órækt.
Hæstv. forseti. Við köllum eftir stefnu í þessum málaflokki, ekki hentistefnu.“
Þórunn Egilsdóttir í störfum þingsins 25. apríl 2017.

Categories
Greinar

Orðspor ferðaþjónustunnar í húfi

Deila grein

22/04/2017

Orðspor ferðaþjónustunnar í húfi

Ferðaþjónustan á Íslandi hefur verið í örum vexti sl. ár. Hún hefur skapað verðmæti fyrir þjóðarbúið og leikið stórt hlutverk í endurreisn efnahagslífsins. Alþjóðleg samkeppni er hörð og því mikilvægt að menn séu samkeppnisfærir hvað varðar verð og gæði. Illa ígrundaðar skattkerfisbreytingar ríkisstjórnarinnar munu skaða þessa mikilvægu atvinnugrein.

Sú hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem nú liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun án efa hafa neikvæð áhrif á framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustunnar. Ríkisstjórnin telur að þessar skattabreytingar séu tímabærar en engar greiningar liggja fyrir um hvaða áhrif þær muni hafa á atvinnugreinina. Þolir ferðaþjónustan þessar skattahækkanir á sama tíma og krónan hefur styrkst verulega, laun hækkað og gistináttagjald þrefaldast? Ég tel að verðteygnin sé það takmörkuð að ferðaþjónustuaðilar geti ekki velt skattahækkuninni út í verðlagið. Slík hækkun myndi rýra samkeppnisstöðu okkar.

Reynsla nágrannaþjóða sýnir að breytingar á sköttum og gjöldum hafa ekki aðeins áhrif til skamms tíma heldur geta stjórnað aðsókn og afkomu mörg ár fram í tímann. Það hefur til að mynda tekið danska ferðaþjónustu meira en tuttugu ár að ná aftur upp fjölda gistinátta erlendra ferðamanna sem hrundi eftir hækkun á virðisaukaskatti þar í landi árið 1992.
Samkvæmt ríkisfjármálaáætlun mun virðisaukaskattur aðeins hækka á gistingu, ekki veitingasölu. Sú ákvörðun býður upp á skattaundanskot og alls kyns tilfærslur sem skekkja samkeppnisstöðu fyrirtækja, sérstaklega á milli minni og stærri aðila. Ef hægri stjórnin vill einfaldara og skilvirkara skattkerfi, þá er þetta ekki rétta leiðin.

Ég óttast að fyrirhugaðar skattkerfisbreytingar muni ýta undir svarta atvinnustarfsemi. Ég óttast að þeir aðilar sem kjósa að starfa „svart“ í faginu muni ekki hafa sama metnað og leggja jafn mikla áherslu á gæði og þeir sem stunda lögleg viðskipti. Til lengri tíma muni það skaða orðspor og ímynd ferðaþjónustunnar og laskað orðspor er erfitt að endurheimta.
Það er gagnrýnivert að svo hart sé vegið að einni af okkar undirstöðuatvinnugreinum án ítarlegra greininga á langtímaáhrifum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 21. apríl 2017.

Categories
Greinar

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er röng ákvörðun

Deila grein

18/04/2017

Hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu er röng ákvörðun

Undanfarin ár hef ég fylgst af aðdáun með þeim krafti og áræðni sem hefur drifið áfram hraða uppbyggingu í ferðaþjónustu á fjölmörgum stöðum á Norður- og Austurlandi. Þrátt fyrir að landshlutinn búi við mun lakari kjör varðandi dreifingu ferðamanna en Suðvesturhornið má hvarvetna sjá ný fyrirtæki, ný störf, fjárfestingu og snjallar hugmyndir til að nýta ný tækifæri.

Allt gerist þetta vegna þess að fólkið á svæðinu hefur trú á því að ferðaþjónusta bæti einhverju við samfélagið. Með því að fara úti í þjónustu við ferðamenn eru grunnatvinnuvegir styrktir því bæði bein og afleidd þjónusta dafnar um leið og störfum fjölgar. Með því eru möguleikar á áframhaldandi búsetu auknir því byggðafesta verður meiri.

En til þess að slík starfsemi geti blómstrað þarf stöðugt rekstrarumhverfi og trygga samkeppnishæfni. Fyrir svæði eins og Norðausturland þar sem ferðamenn þurfa flestir að fara langa vegu frá komustað til að njóta þeirrar fegurðar og afþreyingar sem svæðið býður upp á, skiptir þetta jafnvel enn meira máli en fyrir þá sem hafa aðgang að stöðugri straumi ferðamanna.

Sú hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustuna sem nú liggur fyrir í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar mun hafa mikil og neikvæð áhrif, sérstaklega á svæðum fjarri Suðvesturhorninu. Þrátt fyrir fjölgun ferðamanna á landinu í heild hefur afkoma ferðaþjónustufyrirtækja versnað milli ára og mörg fyrirtæki standa nú þegar höllum fæti. Gengi krónunnar hefur haft mjög erfið áhrif á samkeppni við önnur lönd og margar ferðaskrifstofur erlendis eru nú þegar farnar að líta í kring um sig til annarra ódýrari áfangastaða í stað Íslands.

Tökum rétta ákvörðun – tryggjum sjálfbærni
Í slíku ástandi er svo stór skattahækkun á ferðaþjónustuna röng ákvörðun. Reynsla nágrannaþjóða sýnir að breytingar á sköttum og gjöldum hafa ekki aðeins áhrif til skamms tíma heldur geta stjórnað aðsókn og afkomu mörg ár fram í tímann. Það hefur til að mynda tekið danska ferðaþjónustu meira en tuttugu ár að ná aftur upp fjölda gistinátta erlendra ferðamanna sem hrundi eftir hækkun á virðisaukaskatti þar í landi árið 1992.

Ég hvet ferðaþjónustuaðila til að láta heyra í sér, hafa samband við þingmenn og ráðherra og koma staðreyndum um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar milliliðalaust á framfæri. Það er gríðarmikilvægt að við stöndum saman gegn áformum um skattahækkanir á þessa mikilvægu atvinnugrein sem hefur skipt sköpum fyrir fjölmarga staði á landsbyggðinni undanfarin ár. Tryggjum framtíð og sjálfbærni ferðaþjónustunnar og verjum störfin sem hún skapar.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist á austurfrett.is 18. apríl 2017.

Categories
Greinar

Skattahækkun á ferðaþjónustu er aðför að landsbyggðinni

Deila grein

18/04/2017

Skattahækkun á ferðaþjónustu er aðför að landsbyggðinni

Nú liggur fyrir Alþingi fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til 2022. Þar er gert ráð fyrir því að virðisaukaskattur á ferðaþjónustu verði hækkaður í efsta þrep, sem mun hafa miklar og neikvæðar afleiðingar, sérstaklega fyrir litla og meðalstóra ferðaþjónustuaðila utan höfuðborgarsvæðisins.
Ferðaþjónustan glímir nú þegar við margfalda verðhækkun miðað við samkeppnislönd. Gengi krónunnar hefur hækkað mikið sem gerir það að verkum að öll verð hækka skyndilega gagnvart söluaðilum erlendis. Það er vel þekkt að jafnvel litlar verðbreytingar í ferðaþjónustu geta haft mikil áhrif á ákvörðun ferðamanna um áfangastað. Við þetta bætast fleiri þættir sem hafa áhrif á verð og rekstrarskilyrði, t.d. hækkun á gistináttaskatti og hækkun launa á undanförnum tveimur árum.
Íslenskir ferðaþjónustuaðilar finna nú þegar fyrir skilningsleysi erlendra samstarfsaðila gagnvart tugprósenta verðhækkunum milli ára, sérstaklega þar sem hækkanir á helstu samkeppnismörkuðum eins og Norðurlöndum eru yfirleitt mjög litlar í samanburði.

Óumflýjanleg neikvæð áhrif á landsbyggðina
Áform ríkisstjórnarinnar eru vanhugsuð og geta því miður haft mikil neikvæð áhrif, sérstaklega gagnvart minni og meðalstórum ferðaþjónustuaðilum á landsbyggðinni.
Sú mikla og jákvæða uppbygging sem hefur orðið á stöðum eins og m.a. Ísafjarðarbæ, á Snæfellsnesi og í Húnavatnssýslum hefur í för með sér aukin atvinnutækifæri og sterkari byggðir. Það er skelfilegt til þess að hugsa að stjórnvöld skuli ekki taka neitt tillit til þeirra jákvæðu áhrifa sem slík uppbygging hefur í för með sér og huga frekar að því að styrkja markvisst sjálfbærni ferðaþjónustunnar og þar með byggðanna sjálfra.
Því miður hefur ekki verið lögð fram greining á áhrifum þessarar miklu skattahækkunar sem sýnir fram á að hún muni annars vegar ná markmiðum um tekjuöflun ríkissjóðs og hins vegar ekki hafa óafturkræf neikvæð áhrif á ferðaþjónustu á Íslandi til langs tíma.

Það er grunnkrafa að þegar lagt er í aðgerðir sem eru svo augljóslega mjög íþyngjandi, sérstaklega fyrir dreifðari byggðir landsins, liggi fyrir ítarleg greining á áhrifum þeirra.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á skessuhorn.is 13. apríl 2017.

Categories
Greinar

Fjárfestum í framtíð Íslands

Deila grein

11/04/2017

Fjárfestum í framtíð Íslands

Menntunarstig þjóða ræður miklu um velsæld og tækifæri þeirra. Þeim þjóðum farnast einna best til lengri tíma sem leggja mikla rækt við menntun og þekkingu. Sjálfstraust og kjarkur til framfara eykst samhliða aukinni þekkingu. Þess vegna viljum að á Íslandi séu samkeppnisfærir háskólar sem búa þjóðina undir áskoranir 21. aldarinnar.

Á Íslandi vantar fleiri vellaunuð störf fyrir ungt fólk. Slík störf verða eingöngu til ef áhersla er lögð á menntun, rannsóknir og nýsköpun. Með því að fjárfesta í menntun á háskólastigi getum við tryggt samkeppnishæfni Íslands í alþjóðlegum samanburði til framtíðar og skapað verðmæt störf um samfélagið allt.

Að óbreyttu mun það ekki gerast á næstunni, a.m.k. ef marka má áherslurnar sem birtast í 5 ára ríkisfjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Horfurnar framundan eru góðar ef litið er til þjóðhagsspár, þ.e. áframhaldandi hagvöxtur, hátt atvinnustig, skuldir ríkissjóðs lækka og afgangur er á viðskiptajöfnuðinum. Þrátt fyrir það stendur ekki til að fjárfesta í framtíðinni, þ.e. háskólastiginu í þeim mæli sem þarf, ólíkt því sem öll samanburðarríkin í kringum okkur eru að gera. Fjárframlög til háskólastigsins eru í engu samræmi við fyrirheit stjórnmálaflokka fyrir síðustu kosningar og algjörlega úr takti við stefnu Vísinda- og tækniráðs um að ná OECD-meðaltalinu er varðar fjárframlög á hvern háskólanema.
Nú er lag að fjárfesta til framtíðar með því að sýna metnað og stefnufestu í þágu okkar allra.

Fjórða iðnbyltingin stendur nú yfir og á næstu misserum munum við sjá miklar framfarir á mörgum tæknisviðum. Hlutfall starfa sem tengjast þessari tækniþróun mun hækka og þau hvíla fyrst og fremst á þekkingu og menntun. Ef ekki er fjárfest í menntun, rannsóknum og nýsköpun til framtíðar mun Ísland dragast aftur úr. Svo einfalt er það. Hvert ár skiptir hér máli og því er 5 ára ríkisfjármálaáætlunin reiðarslag fyrir háskóla- og vísindasamfélagið. Það er enn tækifæri til þess að gera breytingar á ríkisfjármálaáætluninni og hvet ég allan þingheim til að sameinast í að gera betur.

Lilja Alfreðsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 11. apríl 2017.

Categories
Greinar

Innlend framleiðsla og færri kolefnisspor

Deila grein

11/04/2017

Innlend framleiðsla og færri kolefnisspor

Loftslagsmálin eru mál okkar allra og við getum öll lagt okkar af mörkum. Aukin innlend matvælaframleiðsla er ein leið til að fækka kolefnissporum og tryggja fæðu-og matvælaöryggi. Að tala fyrir ábyrgð í loftslagsmálum og vilja á sama tíma auka innflutning matvæla til landsins er þversögn sem gengur ekki upp.

Þversögnin
Matarsóunarverkefni eru almennt í tísku, og lífrænn og staðbundinn matur (local food) og fækkun kolefnisspora eru í tísku. Það þykir fínt að borða lífrænan „local“ mat og ferðamenn virðast t.a.m. sækjast sérstaklega eftir því sem og heimamenn í auknum mæli. Þess vegna skítur það skökku við að sama fólk og talar fyrir öllum þessum fínum málum vill á sama tíma stórauka innflutning á matvælum – matvælum sem við getum vel ræktað hér á landi. Vissulega þurfum við að kortleggja betur af hvaða tegundum við ættum e.t.v. að framleiða minna af og hvers konar framleiðslu við ættum auka. Það er engum greiði gerður með því að framleiða vöru ef næg eftirspurn er ekki fyrir hendi.

Aukinn innflutningur og fleiri kolefnisspor
Flutningur á matvælum milli landa eykur sóun og fjölgar kolefnissporum. Auknir flutningar matvæla kalla á aukin afföll miðað við að fæðunnar sé neytt sem næst framleiðslustað. Umbúðir auka umfang vörunnar og eru oft óumhverfisvænar. Allt eykur þetta efnis- og orkunotkun og þar með eykst útblástur gróðurhúsalofttegunda. Af því sögðu þá væri skynsamlegt að stjórnvöld myndu beita sér fyrir aukinni innlendri matvælaframleiðslu og draga úr innflutningi, í stað þess að auka hann, þ.e. ef þeim væri alvara með því að fylgja stefnu sinni í loftslagsmálum.

Þurfum frekari rannsóknir
Talsmenn aukins innflutnings matvæla bera því oft við að innlend framleiðsla skilji líka eftir sig kolefnisspor þar sem að flytja þarf ýmis aðföng fyrir framleiðsluna til landsins. Þessir talsmenn hafa þó ekki látið rannsaka málið heldur er eingöngu um getgátur að ræða. Samtök garðyrkjubænda létu hins vegar vinna fyrir sig stórmerkilega skýrslu fyrir ekki svo löngu síðan um kolefnisspor garðyrkjunnar. Í henni er mjög margt áhugavert, t.d. að íslenska agúrkan skilur einungis um 44% af kolefnisspori eftir sig miðað við þá innfluttu. Við eigum mikið inni hjá garðyrkjunni en hár raforkukostnaður hindrar verulega nýjar fjárfestingar í garðyrkjunni. Nauðsynlegt er að garðyrkjubændur fái sérstaka gjaldskrá. Það væri gagnlegt hafa haldbæran samanburð kolefnisspora á innlendri og erlendri framleiðslu frá fleiri greinum en garðyrkjunni. En auðvitað ættu kolefnissporin ekki að vera eini viðmiðunarþátturinn heldur áhersla á fæðuöryggi þjóðarinnar og matvælaöryggi, þar sem íslensk matvara er í fremstu röð í heiminum.

Matvælaframleiðsla er framtíðin
Skýrsla nefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem kom út á dögunum, er umhugsunarverð. Þar er talið að loftslagsbreytingar muni ógna fæðuöryggi jarðarbúa í framtíðinni. Mat skýrsluhöfunda er að framboð á matvælum muni ekki haldast í hendur við fjölgun jarðarbúa á næstu áratugum. Þessar fréttir kalla á að við Íslendingar metum stöðu okkar hvað varðar bæði matvælaframleiðslu og framleiðslu á innlendum orkugjöfum. Við þurfum að huga að því hvað við getum lagt af mörkum í loftslagsmálum og landbúnaðurinn er hluti af lausn vandans, þar með talið framlag bænda til aukinnar framleiðslu fóðurs og matvæla á Íslandi.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Bændablaðinu 7. apríl 2017.

Categories
Fréttir

Áfengisfrumvarpið gengur freklega á rétt barna og ungmenna

Deila grein

05/04/2017

Áfengisfrumvarpið gengur freklega á rétt barna og ungmenna

„Hæstv. forseti. Áður en ég kem að því sem ég ætla raunverulega að ræða um langar mig að vekja athygli á bláu hálstaui hv. þingmanna, hæstv. forseta og hæstv. ráðherra. Nú er hafin vitundarvakning um fjölbreytileika einhverfunnar og ég vona svo sannarlega að þetta átak gangi vel og er ánægð með að fá að taka þátt í því hér á hv. Alþingi.

Hæstv. forseti. Í síðustu viku vann velferðarnefnd að umsögn er varðar hið margumrædda áfengisfrumvarp. Nefndin fékk góða gesti á sinn fund, gesti sem starfa á sviði félags- og heilbrigðisvísinda; gesti sem allir vara við samþykkt frumvarpsins og telja að með samþykkt þess muni þeim góða árangri sem við höfum náð í forvörnum, þar með minnkandi unglingadrykkju og öðrum góðum árangri, stefnt í voða; gesti sem vara við samþykkt frumvarpsins og taka mark á rannsóknum, sem gerðar hafa verið, sem telja að aukið aðgengi geti leitt til aukinnar neyslu og þar með haft slæm áhrif á líðan barna. Þessir gestir vöruðu einnig við samþykkt frumvarpsins þar sem þeir telja að frumvarpið gangi freklega á rétt barna og ungmenna til að vera laus við þrýsting frá áfengisiðnaðinum og auk þess bentu gestir á tengsl áfengis og krabbameins og bentu á ýmsa krabbameinssjúkdóma sem m.a. eiga orsakir sínar að rekja til aukinnar áfengisneyslu.

Ég vona að hv. þingmenn velferðarnefndar geti verið sammála um að afgreiða umsögn frá nefndinni í sameiningu og taka undir varnaðarorð þessara fagaðila. Ég er þó mjög hrædd um að svo verði ekki þar sem formaður velferðarnefndar, varaformaður velferðarnefndar og annar varaformaður velferðarnefndar eru öll á frumvarpi um aukið aðgengi að áfengi.“

Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 4. apríl 2017.