Categories
Forsíðuborði Greinar

Sóknarfærin eru á Skaganum

Deila grein

07/09/2017

Sóknarfærin eru á Skaganum

Akranes er gott samfélag sem er að mínu mati í þægilegri fjarlægð frá Reykjavík og þangað er því auðvelt að sækja m.a. vinnu og háskóla. Fasteignaverð á Akranesi er einnig talsvert lægra en í höfuðborginni Reykjavík, þó fasteignaverð hafi hækkað umtalsvert á síðustu misserum. Á Skaganum eru einnig góðir leik- og grunnskólar og önnur öflug grunnþjónusta sem er vel mönnuð fagfólki á hinum ýmsu sviðum.

Því er ekki annað en hægt að velta fyrir sér, hvers vegna íbúafjölgun á Akranesi er mun lægri en í öðrum nágrannasveitarfélögum höfuðborgarinnar. Í nýlegum fréttum kom fram að íbúum á Akranesi hefur fjölgað um 1,7% á undanförnu ári á meðan fjölgunin er 3,5% í Árborg og 8,5% í Reykjanesbæ.

Reyndar vitum við að skortur hefur verið á íbúðarhúsnæði á Akranesi. En nú eru uppi áform um að koma inn með um 650 íbúðir, til að koma á móts við þann skort sem verið hefur. Það er nauðsynleg aðgerð og í því samhengi þarf að horfa til ýmissa þátta eins og uppbyggingar á félagslegu húsnæði, húsnæði fyrir aldraða og auk þess þarf aukið framboð inn á hinn almenna markað.

En geta aðrir þættir haft áhrif á þessa þróun? Getur verið að fólk í fasteignahugleiðingum horfi frekar til sveitarfélaga eins og t.d. Árborgar og Reykjanesbæjar? Getur verið að Akranes líði fyrir að vera eina sveitarfélagið, úr dæminu sem tekið var fyrir í fréttum, þar sem fólk þarf að greiða veggjöld á leið sinni til og frá Reykjavík?

Í þrígang hef ég lagt fram þingsályktunartillögu á Alþingi um skattaafslátt vegna ferða til og frá vinnu. Sú tillaga hefur einhverra hluta vegna fengið dræmar undirtektir og því ekki náð fram að ganga. Tillagan fjallar um að fólk sem greiða þarf ákveðna upphæð vegna ferða til og frá vinnu eða skóla fá skattaafslátt á móti. Gæti verið ef hún hefði náð fram að ganga, að hún hefði haft áhrif á þessa íbúaþróun?

Það verður ekki litið fram hjá því að Skagamenn og aðrir íbúar Vesturlands búa við ójafnræði hvað varðar kostnað vegna ferða til og frá vinnu. Sumir segja að við höfum val um aðra leið sem er Hvalfjörðurinn. Því er ég ekki sammála.

Við verðum að fara í verulegar vegabætur á Vesturlandsvegi og ráðast sem fyrst í lagningu Sundabrautar. Þá fyrst förum við að tala um raunverulegt val. Skaginn á svo sannarlega sóknarfæri. Ódýrara húsnæði og meiri gæðastundir með fjölskyldunni. Það er þess virði.

Elsa Lára Arnardóttir, þingmaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist á Skessuhorni, 7. september 2017

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Deila grein

06/09/2017

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Langar þig að bjóða þig fram til Alþingis eða kynnast íslenskum stjórnmálum? Viltu kynnast öðrum konum af erlendum uppruna sem hafa áhuga á stjórnmálum?

Vertu velkomin á námskeið Kvenréttindafélags Íslands fyrir konur af erlendum uppruna um stjórnmál og pólitískt starf.
Á námskeiðinu verður farið yfir starf og stefnumál helstu stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, farið yfir „óskrifaðar reglur“ stjórnmálanna, framsaga og ræðuhöld kennd og unnið að tengslamyndun þátttakenda. Í lok námskeiðsins gengur þú út með áætlun um hvernig þú getur breytt samfélaginu!
Námskeiðið tekur 7 vikur og kennt er á mánudagskvöldum. Þátttökugjald er EKKERT.
2. október 2017
Kynning
9. október 2017
Pólitík í víðari skilningi. Hvar er hægt að bjóða sig fram og hafa áhrif, t.d. í félagsstarfi, stéttarfélögum, hverfastarfi, o.s.frv.
16. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum I. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
23. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum II. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
30. október 2017
Framsaga, ræðuhöld og sjálfsstyrking
6. nóvember 2017
Rætt við konur af erlendum uppruna sem hafa tekið þátt í pólitík
13. nóvember 2017
Lokakvöld. Þátttakendur ræða framtíðaráform sín.
Kennt er á íslensku, en hægt er að taka þátt í umræðum á ensku.
Tímabil: 2. október til 13. nóvember 2017
Staður og tími: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, mánudaga kl. 19:00–21:00.
Umsjón: Sabine Leskopf, varaborgarfulltrúi
Skráðu þig: https://kvenrettindafelag.is/politik
Námskeiðið má einnig finna sem viðburð á facebook á íslensku, ensku og pólsku
Námskeiðið er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála
***
Do you want to run for Parliament or just find out more about how politics in Iceland work? Do you want to meet other immigrant women who are interested in politics?
Join us at training course in politics hosted by the Icelandic Women’s Rights Association.
This course will introduce you to the largest political parties and associations in Iceland and teach you how to quickly start working within your chosen party. You will learn the inner workings and “unwritten rules” of Icelandic politics, practice how to speak clearly and publicly, and get the opportunity to meet other women who share your interests in politics. By the end of the course, you will have a concrete plan on how you can change society!
The course lasts seven weeks and classes are taught on Monday evenings.
This course is FREE.
2 October 2017
Introduction
9 October 2017
Spheres of influence in Iceland. Running for office at the country and local levels and in boards of labor unions and other associations
16 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties I. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
23 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties II. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
30 October 2017
Public speaking and self confidence
6 November 2017
Meeting with immigrant women who are active in politics
13 November 2017
Final class. Discussing future plans of participants.
Classes are taught in Icelandic, but you can join the discussion in English as well.
Time Period: 2 October to 13 November 2017
Place and Time: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, Mondays at 7 p.m. to 9 p.m.
Moderator: Sabine Leskopf, deputy city councillor in Reykjavík
Register here: https://kvenrettindafelag.is/politik
The class can also be found as a Facebook event in icelandic, english and polish.
The class is funded by Þróunarsjóður innflytjendamála

Categories
Forsíðuborði Greinar

Skemmri skírn

Deila grein

05/09/2017

Skemmri skírn

Töluvert vantar upp á tillögur þær sem landbúnaðarráðherra birti í gær til að leysa vanda sauðfjárbænda. Tillögurnar eru ágætar svo langt sem þær ná. Þær eru hins vegar skemmri skírn og plástur á sár sem ekki grær. Stjórntæki vantar til að taka á birgðavandanum og engar skuldaaðgerðir eru í augsýn fyrir unga bændur. Lækkun á afurðum sem bændur eiga nú von á setur því allar áætlanir sauðfjárheimila í loft upp.

Umframmagn af kjöti er ennþá til staðar og sláturtíðin hafin. Heimili í sauðfjárrækt munu ekki fá tekjur fyrir útlögðum kostnaði sem fór í að kaupa aðföng. Allt stefnir í mikla kauplækkun á meðan laun annarra stétta í þjóðfélaginu hafa hækkað um 30-35%. Afkoman verður neikvæð EBITDA og á þá eftir að greiða vexti, verðbætur og afskriftir.

Hafa áhrifin verið greind? Hefur landbúnaðarráðuneytið upplýsingar um áhrif tillagnanna á tekjur fólks sem stundar sauðfjárbúskap, á unga bændur, á samfélög? Hver verður staða bænda eftir eitt ár? Hver verður staða heimila á svæðum brothættra byggða, þar sem nú eru rúmlega 200 heimili sem lifa af sauðfjárbúskap?

Afleiðingarnar geta orðið fjöldagjaldþrot hjá ungum bændum með börn sem um leið sjá fram á að missa heimili sín, þar sem þau eru veðsett. Offramboð á jörðum, afleidd störf í matvælaframleiðslu munu hverfa og byggðirnar tæmast.

Ríkisstjórnin verður að hlusta á lausnir til að leysa birgðarvandann.

Sandkassaleik ráðherra Viðreisnar með landbúnaðarráðherra í broddi fylkingar verður að stöðva. Forsætisráðherra sem hefur sagt að í gildi sé búvörusamningur, og það standi ekkert annað til en að stjórnvöld standi við þann samning, verður að stíga fram og tryggja stuðning ríkisstjórnarinnar sem allra fyrst.

Nágrannalöndin verja sína landbúnaðarframleiðslu. Evrópusambandið losar bændur við umframbirgðir, s.s. mjólkurduft, smjör og kjöt og setur í frysti eða selur út fyrir svæðið. Ríkisstjórnin getur ekki skorast undan ábyrgð nema ráðherra Viðreisnar ætli sér að leggja íslenska matvælaframleiðslu niður og þúsundir starfa.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu, 5. september 2017

Categories
Greinar

Störfum sópað undir teppið

Deila grein

31/08/2017

Störfum sópað undir teppið

Ráðherra fiskeldismála lét þau orð falla að laxeldið væri komið til að vera. Gott og vel, en umhverfisráðherra er ekki viss. Aftur á móti útilokar skýrsla ráðherra fiskeldismála bein og óbein störf á Vestfjörðum – reyndar á Austfjörðum líka. Störf sem gætu annars rennt stoðum undir blómlega uppbyggingu svæðisins.

Fólkið flýr
Það er sorglegt til þess að vita að ekki hafi verið gerð nein tilraun til þess að meta hin efnahags- og félagslegu áhrif af laxeldi í sjó, en á sama tíma er markmið skýrslunnar að hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Það er tómt mál að tala um sjálfbært fiskeldi og ná sátt um greinina án þess að meta alla þrjá þættina. Það liggur ljóst fyrir. Mikil tækifæri felast í uppbyggingu og starfsemi fiskeldis á þeim svæðum sem við höfum áður tekið ákvörðun um. Umbylting hefur orðið þar sem áður voru skilgreindar brothættar byggðir landsins og laða þær nú til sín störf og þjónustu. Hugsanleg byggðarleg áhrif af 30 þús. tonna leyfum, eins og áform gerðu ráð fyrir, í Ísafjarðadjúpinu fela í sér að um 1700 íbúar gætu haft aðkomu að fiskeldi með einum eða öðrum hætti. Það gæti þýtt 30% fjölgun íbúa á norðurhluta Vestfjarða. Þá fyrst væri hægt að tala um sjálfbært atvinnusvæði. Það er áhyggjuefni að enn þann dag í dag erum við að horfa upp á fólksfækkun, einhæft atvinnulíf og ótryggar samgöngur á Vestfjörðum. Fiskeldi eitt og sér dregur til sín mörg önnur afleidd störf, s.s. sérfræðistörf og hærra menntunarstig. Nauðsynlegir þættir, sem við fyrir sunnan teljum sem sjálfsagðan hlut, fylgja í kjölfarið. Samgöngur batna, þróun byggðar verður upp á við, unga fólkið er þá líklegra til að setjast að, ferðamönnum fjölgar og uppbygging stærstu atvinnugreinar landsins, ferðaþjónustan nær sér á strik þar sem hennar er beðið með óþreyju. Aðgerðaleysi ríkisstjórnar og skilningsleysi á sjálfbærni atvinnulífs landsbyggðar getur valdið því að veruleg hætta sé á að byggð þurrkist út innan fárra áratuga, en slík þróun átti sér stað t.d. þegar byggð lagðist af á norðurströndum og í Jökulfjörðum.

Nýsköpun ýtt út af borðinu
Við megum ekki gera lítið úr þeirri áhættu sem laxeldið hefur í för með sér og aukið sjókvíaeldi felur í sér miklar áskoranir sem og að ákvarðanir þurfa að grundvallast á vísindalegum rannsóknum og bestu fáanlegu tækni (BAT). Því sætir það furðu að ekki sé tekið tillit til mótvægisaðgerða sem þarf að þróa, sé vilji fyrir hendi.

Sáttaleið
Það er sorglegt til þess að vita að starfshópurinn hafi ekki geta komið sér saman um að taka tillit til mótvægisaðgerða. Tvennt þarf að koma til, til að sátt náist.

1. Ein hugmynd af mörgum, snýst um að hindra beinlínis för eldisfisks í laxveiðiár. Íslenskt nýsköpunarfyrirtæki þróar slíka tækni.
2. Rýna þarf alþjóðlega, vísindalegt áhættumat áður en það er lagt eitt og sér til grundvallar fyrir ákvarðanatöku um sjálfbært samfélag.
Vinnum að sátt að sjálfbærri atvinnugrein sem skapar viðvarandi og fjölbreytt störf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Morgunblaðinu, fimmtudaginn 31. ágúst 2017

Categories
Greinar

Traust á fjármálakerfinu og endurskoðun peningastefnu

Deila grein

30/08/2017

Traust á fjármálakerfinu og endurskoðun peningastefnu

Áskoranir íslenskrar hagstjórnar eru margvíslegar og hverfa ekki þótt vel ári. Það er erfitt að hafa áhrif á ýmsa þætti hagstjórnar hér á landi, til að mynda hversu smátt hagkerfið okkar er eða að útflutningurinn er að mestu byggður á náttúruauðlindum og því sveiflukenndari en ella. Hins vegar eru ákveðin verkefni sem stefnumótandi aðilar hafa á sínu valdi sem mikilvægt er að ráðast í til að styrkja umgjörð hagkerfisins og viðnámsþrótt þess. Annars vegar að efla traust á fjármálakerfinu og hins vegar endurskoðun peningastefnunnar. Til að stefnumótunin sé farsæl, þá þarf að tvinna þessa tvo þræði saman.

Sameina þarf fjármálaeftirlit
Um áratug fyrir hina alþjóðlegu fjármálakreppu var starfsemi fjármálaeftirlits og seðlabanka aðskilin í mörgum ríkjum, m.a. vegna þess að skynsamlegt þótti að aðskilja eftir­lit með öryggi innstæðueigenda og fjármálastöðugleika. Bankaeftirlitið var aðskilið Seðlabanka Íslands árið 1999 og Fjármálaeftirlitið stofnað. Í fjármálakreppunni komu fram miklir vankantar á þessari útfærslu, þar sem heildarsýn á áhættuþætti fjármálakerfisins skorti hjá Seðlabankanum sem lánveitanda til þrauta­vara.

Fram hafa komið sterk rök hjá sérfræðingum á þessu sviði í þá veru að bankaeftirlit eigi heima hjá seðlabönkum. Þróunin hefur verið sú hjá þeim ríkjum sem lentu í miklum erfiðleikum í fjármálakreppunni að þau hafa verið að veita seðlabönkum auknar heimildir á sviði þjóðhagsvarúðar og má nefna Holland og Írland. Sum ríki, líkt og Bretland, hafa sameinað eftirlit með fjárhagsstöðu lánastofnana á nýjan leik innan Englandsbanka. Það er brýnt að fara gaumgæfilega ofan í saumana á því hver ávinningurinn af sameinuðu fjármálaeftirliti á Íslandi sé.

Skortir skýrt umboð
Mikil umræða hefur lengi verið á Íslandi um gjaldmiðlamál og tilfinningalegt samband þjóðarinnar við krónuna er oft lævi blandið. Stundum mætti halda að hún væri upphaf og endir alls. Það er hins vegar ekki svo, því gjaldmiðillinn er fremur eins og hitamælir hagkerfisins. Ef hagstjórnin er styrk og framsýn, þá má draga úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði. Það gefur augaleið að það er meiri áskorun í litlu opnu hagkerfi, en ef samspil peningastefnu og ríkisfjármála er rétt og regluverk á fjármálamarkaði skilvirkt, þá er hægt að ná árangri.

Til að auka traust og trúverðugleika, þá þarf að halda áfram að styrkja umgjörð peningastefnunnar. Ráðist hefur verið í margar aðgerðir á undan­förum misserum. Meðal annars að innleiða stýritæki til að tempra fjármagnsinnstreymi og breyta reglum um laust fé og gjaldeyrisjöfnuð bankanna. Hins vegar þarf að horfa til fleiri hagstjórnartækja en stýrivaxta ef árangur á að nást í peningastefnunni og fyrirbyggja þarf að kerfisáhætta byggist upp í fjármálakerfinu. Til auka líkurnar á því að markmið um efnahagslegan stöðugleika náist, þá verður að leggja meiri áherslu á að samtvinna framkvæmd peninga- og þjóðhagsvarúðarstefnu. Þetta er best gert með því að sameina fjármálaeftirlit á Íslandi til að hámarka styrk af kerfinu.

Allt sem þarf er samvinna
Stefnumótandi aðilar á Íslandi verða að skilja að þetta gerist í samvinnu Alþingis og lykilstofnana. Ef ekki er farið af stað í slíka vegferð með því hugarfari, þá skortir vegferðina umboð. Endurskoðun peningastefnunnar á að einblína á þessa þætti og bind ég miklar vonir við þá vinnu sem nú stendur yfir. Hins vegar er mjög bagalegt þegar forystumenn ríkisstjórnarinnar eru stöðugt að senda misvísandi skilaboð um umboð nefndarinnar og verkefni. Þetta verklag er ekki líklegt til að skila tilætluðum árangri og dregur úr trausti á getu stjórnvalda til að sigla í höfn þjóðfélagslega mikilvægum verkefnum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um viðskipti og efnahagsmál

Categories
Forsíðuborði Greinar

Lagasetning kemur til greina

Deila grein

30/08/2017

Lagasetning kemur til greina

Enn og aftur er vegalagning um Teigsskóg komin í uppnám. Það er óásættanlegt með öllu og staða sem þessi getur ekki gengið lengur.

Í nýlegu svari sem ég fékk frá samgönguráðherra kemur fram að ráðherra sé ekki að skoða sérstaka lagasetningu til að liðka fyrir vegaframkvæmdum um Teigsskóg (https://www.althingi.is/altext/146/s/1070.html). Því er það ábyrgðarhlutverk þingmanna í Norðvesturkjördæmi að taka málið í sínar hendur, því lagasetning hlýtur að koma til greina þegar staðan er enn og aftur orðin þessi. Sérstaklega þar sem þær áætlanir sem settar voru fram árið 2014, hafa ekki gengið upp.

Haustið 2014 funduðu þingmenn Norðvesturkjördæmis m.a. með þáverandi samgönguráðherra um mikilvægi þess að nýr vegur yrði lagður um Teigsskóg. Ýmsar leiðir voru lagðar á borðið til að finna aðgerð sem yrði til þess að hægt væri að byrja vegalagningu sem fyrst. Flestir þingmenn kjördæmisins, ef ekki allir, vildu fara í lagasetningu til að höggva hnút á þá stjórnsýsluflækju sem nýr vegur um Teigsskóg er. Samkvæmt þeim svörum sem þingmenn fengu á fundinum þá átti endurupptaka á fyrra umhverfismati að vera stysta leiðin í átt að settu markmiði. Það ferli tæki innan við 18 mánuði og vegaframkvæmdir gætu hafist á árinu 2016 (https://www.visir.is/g/2014141019455). Núna árið 2017 erum við enn á byrjunarreit og ekkert staðist sem rætt var á fundinum þarna um árið.

Í öllu þessu ferli, hef ég sem þingmaður Norðvesturkjördæmis sett fram ýmsar fyrirspurnir um málið, m.a. um áfangaskiptingu verkefnisins, eyrnamerkt fjármagn til verkefnisins og fyrirspurn um lagasetningu eða aðrar aðgerðir til að koma verkefninu af stað. Allar þessar fyrirspurnir, sem og aðrar má finna hér: https://www.althingi.is/altext/cv/is/fyrirspurnir/?nfaerslunr=1161

Við virðumst enn og aftur vera á byrjunarreit. Áætlanir hafa ekki gengið upp og því virðist lagasetning vera orðin eina færa leiðin. Það er ábyrgðarhlutverk okkar þingmanna Norðvesturkjördæmis að ganga í málið og koma þessu mikilvæga samgönguverkefni áfram. Þetta getur ekki gengið svona lengur.

Elsa Lára Arnardóttir

Greinin birtist á bb.is 29. ágúst 2017.

Categories
Fréttir

Vegleg gjöf til Framsóknarflokksins

Deila grein

29/08/2017

Vegleg gjöf til Framsóknarflokksins

Hér er mynd af Eggerti B. Ólafssyni, syni Ólafs H. Bjarnasonar, fóstursonar Þorsteins Jónssonar er starfaði sem kaupfélagsstjóri í Hermes á Búðareyri við Reyðarfjörð á árunum 1917-61.
Á heimili Ólafs var Tíminn alltaf keyptur. Ólafur hóf svo að binda blöðin inn í kringum árið 1970. Við flutninga í minna húsnæði ákvað Eggert B. Ólafsson að færa Framsóknarflokknum þetta að gjöf.
Við afhendingu í morgun sagði Eggert að sárt væri að láta þetta af hendi, en að gott væri að vita af þessu í öruggum höndum.
Framsóknarflokkurinn þakkar Eggerti og fjölskyldu kærlega fyrir þessa myndarlegu gjöf.

Categories
Greinar

Landið okkar

Deila grein

29/08/2017

Landið okkar

Landið okkar er verðmætt sökum náttúruauðlinda og landfræðilegrar legu. Önnur ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins (EES) hafa takmarkað eignarhald erlendra aðila að landi og það eigum við einnig að gera. Núverandi löggjöf er ógagnsæ og heimildir og takmarkanir erlendra aðila utan EES-svæðisins í fasteignum hér á landi því óskýrar m.a. vegna þess að ráðherra getur veitt undanþágu. Því er nauðsynlegt að ráðast í heildarendurskoðun laga um eignarrétt og afnotarétt fasteigna.

Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteigna kveða á um að enginn megi öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum á Íslandi, þar á meðal veiðirétt, vatnsréttindi eða önnur fasteignaréttindi, nema að viðkomandi aðili sé íslenskur ríkisborgari eða með lögheimili á Íslandi. Samkvæmt núgildandi lögum hafa aðilar á EES-svæðinu, einstaklingar og lögaðilar, sömu réttindi og íslenskir ríkisborgarar í þessum efnum. Hins vegar getur ráðherra vikið frá þessu skilyrði samkvæmt umsókn frá þeim sem hefur rétt til að stunda atvinnurekstur hér á Íslandi og vill öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteign til beinnar notkunar í atvinnustarfsemi sinni eða til að halda þar heimili. Í gildi var reglugerð sem meinaði erlendum aðila með lögheimili á EES-svæðinu að kaupa land nema að kaupin væru liður í að hann nýtti rétt sinn til að hafa á Íslandi lögmæta dvöl eða starfsemi.

Fyrrverandi ráðherrar hafa skipað vinnuhópa um málið sem hafa skilað ýmsum gagnlegum tillögum. Hins vegar hefur þeim tillögum ekki verið hrint í framkvæmd. Það er nauðsynlegt að marka skýrari stefnu, því eins og löggjöfin er í dag þá fylgja jafnframt yfirráð yfir þeirri auð- lind sem er á svæðinu. Í endurskoðuninni þarf að horfa til þess að settar séu skýrar takmarkanir um fjárfestingar erlendra aðila utan EES-svæðisins. Líta má til ríkja á borð við Noreg, Svíþjóð og Danmörku í þessum efnum. Ef ekkert verður aðhafst, þá myndast tómarúm sem fjársterkir aðilar nýta sér og of seint verður að koma í veg fyrir að náttúruauðlindir glatist úr eigu þjóðarinnar vegna tómlætis. Staðreyndin er sú að landfræðileg lega Íslands er afar verðmæt og mun aukast að verðmæti í framtíðinni meðal annars vegna aukins mikilvægis norðurslóða. Alþingi hefur verk að vinna til að gæta að hagsmunum Íslands.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, alþingismaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 29. ágúst 2017

Categories
Greinar

Hvað ætlar ríkisstjórnin að láta sauðfjárbændur standa lengi á brúninni?

Deila grein

17/08/2017

Hvað ætlar ríkisstjórnin að láta sauðfjárbændur standa lengi á brúninni?

Það er sorglegt og í raun pínlegt að horfa uppá ráðaleysi eða viljaleysi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar Framtíðar til að taka á þeim gríðarlega vanda sem blasir við sauðfjárbændum.

Ráðherra landbúnaðarmála hefur vart virt bændur viðlits, hvað þá hlustað á varnaðarorð þeirra. Það er löngu ljóst að landbúnaðarráðherra ræður ekki við hlutverkið og því þarf að færa lausn þessa máls frá ráðherranum og það fyrir löngu. Bændur hafa bent á lausnir og mörg fordæmi eru erlendis frá fyrir því að stjórnvöld komi matvælaframleiðslu til aðstoðar.

Árin 2015 og 2016 samþykkti Evrópusambandið (ESB) að veita rúmum 217,5 milljörðum íslenskra króna (á gengi dagsins) til að styðja við mjólkuriðnaðinn. Þetta voru sértækar aðgerðir, til viðbótar við almennan stuðning sambandsins við greinina.
Nú hafa ráðherrar Viðreisnar veik hné þegar ESB ber á góma og ættu því að geta réttlætt fyrir sér sérstækar aðgerðir til handa íslenskum bændum í takt við aðgerðir draumalandsins.

Ef heildarmyndin er skoðuð þá er miklu meira undir en eingöngu sauðfjárbúin. Það er byggðin um landið, það er ferðaþjónustan í sveitunum, það er öll önnur starfsemi sem fylgir byggð í sveitum landsins. Allt þetta er undir. Þetta snýst um miklu meira en landbúnaðinn einan.

Hvað er hægt að gera? Ég beitti mér fyrir því að ríkisstjórn Framsóknarflokks setti 100 milljónir króna í aukið markaðsstarf lambakjöts. Skoða þarf að auka þá fjármuni, setja á útflutningsskyldu en strax þarf ríkið að kaupa upp þær birgðir sem fyrir eru. Mikil hagræðing hefur orði í umhverfi afurðastöðva undanfarin ár en þar þarf áfram að hagræða. Fækka þar stóru afurðastöðvunum og einfalda umgjörð þeirra sem vilja bjóða uppá beint frá býli. Bændur hafa haft hugmyndir um hvernig draga má úr framleiðslu og er eðlilegt að skoða það vandlega.

Mestu skiptir að brugðist sé strax við, fordæmin eru til en svo virðist sem ríkisstjórnina skorti vilja.

Gunnar Bragi Sveinsson, alþingismaður

Greinin birtist á Vísi, 17. ágúst 2017

Categories
Greinar

Láta reka á reiðanum

Deila grein

17/08/2017

Láta reka á reiðanum

Fréttir berast af því að vogunarsjóðirnir sem keyptu tæplega 30 prósenta hlut í Arion banka í vor muni ekki nýta sér forkaupsrétt sinn og eignast meirihluta í bankanum. Þetta eru stórtíðindi ef rétt reynist og jákvæð þróun en áfram ríkir þó óvissa um framhaldið.

Fjármálaráðherra þjóðarinnar fagnaði innkomu vogunarsjóðanna á sínum tíma en ljóst er að það var enn eitt illa ígrundað frumhlaupið. Aðstæður á Íslandi eru einstakar, þar sem eignarhald Ríkissjóðs Íslands á fjármálafyrirtækjum er með því umfangsmesta meðal ríkja í Evrópu og mikið eigið fé er bundið í bönkunum eða um 500 milljarðar króna. Tímann sem nú fer í hönd verður að nýta vel til að móta framtíðarstefnu. Fjármálakerfi hverrar þjóðar skiptir miklu máli, þar sem það miðlar fjármagni á milli aðila og er mikið hreyfiafl vegna þessa. Fjármálakerfið þarf að vera hagkvæmt og þjóna landsmönnum öllum. Eignarhald verður að vera gagnsætt til að það skapist traust. Miklu máli skiptir að eigendur hafi góða bankareynslu og séu traustir fjárhagslegir bakhjarlar.

Heildarstefnumótun verður að eiga sér stað og þingið þarf að koma að þessari vinnu. Meta á hversu stór eignarhlutur ríkissjóðs á að vera til skemmri og lengri tíma litið. Skoða þarf gaumgæfilega hvaða form eignarhalds hentar best hagsmunum hagkerfisins. Einnig þarf að kanna fýsileika erlends eignarhalds og líta sérstaklega til Norðurlandanna. Að auki verða stjórnvöld að hafa það hugfast að miklar tæknibreytingar eru að eiga sér stað í fjármálaþjónustu. Ef stjórnvöld halda áfram að vera í fríi frá þessari vinnu, þá getur slíkt kæruleysi rýrt verðgildi eignarhlutar ríkisins. Staða ríkisstjórnarinnar er veik í dag, þar sem engin heildarstefnumótun á sér stað. Alls staðar þar sem stjórnleysi ríkir myndast tómarúm sem verður á endanum fyllt og þá ekki endilega með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Ástæðan fyrir öllu þessu stefnuleysi er einföld. Skortur á framtíðarsýn og kjarki til að taka ákvarðanir. Þær fréttir að vogunarsjóðir ætli ekki að nýta forkaupsréttinn ættu vonandi að vekja ráðamenn þjóðarinnar af þyrnirósarsvefni.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þingmaður og varaformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist í Fréttablaðinu 17. ágúst 2017