Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

Deila grein

07/10/2018

Stjórnmálaályktun 18. Kjördæmisþings Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS)

18. Kjördæmisþing Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi (KSFS), haldið í Þingborg í Flóahreppi, laugardaginn 6. október, lýsir ánægju sinni með stjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs og þann stjórnarsáttmála sem samstarfið byggir á. Þingið lýsir fullum stuðningi við þingflokkinn og ráðherra flokksins í þeirra mikilvægu störfum fyrir land og þjóð. Ráðherrum flokksins hafa verið falin mikilvæg og stór málefni en þingið leggur áherslu á að halda til haga stefnumálum Framsóknarflokksins í ríkisstjórnarsamstarfinu í heild og gæta þess að rödd hans heyrist sem víðast.
Mikil sóknarfæri eru í Suðurkjördæmi og liggja tækifærin víða. Ör íbúafjölgun á svæðinu með miklum vaxtaverkjum samhliða sprengingu í fjölgun ferðamanna reynir mjög á alla innviði. Helst má nefna heilbrigðisþjónustu, en mikilvægt er að samræmd heilbrigðistefna sé unnin fyrir landið með hliðsjón af þörfum allra landsmanna. Auk þess er afar brýnt að auka fjármuni til löggæslu í kjördæminu til að tryggja öryggi íbúa og ferðamanna bæði erlendra og innlendra.
Kjördæmisþingið fagnar tillögu samgönguráðherra að samgönguáætlun. Þýðingarmikið er að hún er fjármögnuð um leið. Ljóst er þó að væntingar voru um hraðari uppbygginu á Suðurlandi en þarna birtist. KSFS fagnar þeirri umræðu sem snýr að umferðaröryggi og styður skoðun á þeim möguleika að göngum í gegnum Reynisfjall og nýrri Ölfusárbrú við Selfoss verði flýtt með innheimtu vegatolla. Jafnframt er lögð rík áhersla á að einbreiðar brýr í kjördæminu heyri sögunni til enda eru þær dauðagildrur í þeim umferðarþunga sem nú er staðreyndin.
Í gegnum árin hefur ekki verið gefið jafnt til allra landsmanna og eru helsta dæmið um það sú mismunun sem í verðlagningu á flutningi á raforku. Þessi mismunum stendur uppbyggingu landsbyggðarinnar fyrir þrifum og nú þegar ríkistjórnin hefur samþykkt háleit markmið um orkuskipti í samgöngum er rétt að Alþingi Íslendinga taki af skarið leiðrétti þetta misrétti með lagasetningu. Eðlilegt væri að landið væri allt eitt gjaldsvæði eins og í símaþjónustu.
Framsókn vill öflugt menntakerfi þar sem ný tækifæri eru sköpuð á umbreytingartímum. Kjördæmisþing KSFS fagnar áherslum mennta- og menningarmálaráðherra við að efla menntakerfið á öllum skólastigum með auknum fjárframlögum til að auka gæði náms.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á að lausnir í húsnæðismálum eins og kynntar voru í stjórnasáttmálanum nái fram að ganga og er þá afnám verðtryggingar af lánum einn veigamesti liðurinn í því. Erfiðleikar við að koma sér upp eigin húsnæði eru eitt alvarlegasta vandamálið í íslensku samfélagi og á því þarf núverandi ríkisstjórn að taka. Einnig er mjög brýnt að taka á stórkostlegum vanda á húsaleigumarkaði hið fyrsta.
Leggja þarf áherslu á í komandi kjarasamningum að jafna kjör og vinda ofan af því launaskriði sem hefur verið í efstu lögum samfélagsins á meðan millistéttir og láglaunafólk hafa setið eftir. Með þessu næðist fram sátt á vinnumarkaði og áframhaldandi stöðugleiki í íslensku efnahagslífi.
Standa þarf vörð um íslenskan landbúnað og fylgja fast eftir ákvæðum í stjórnarsáttmálanum um greinina. Koma þarf til móts við þann tímabundna vanda sem nú er uppi í sauðfjár- og loðdýrarækt.
Kjördæmisþing KSFS leggur áherslu á í ljósi þeirrar náttúruvár sem er í kjördæminu að lokið verði við stofnun hamfarasjóðs sem fyrirhugað er að leysi viðlagatryggingu og A- deild bjargráðsjóðs af hólmi.
 

Categories
Greinar

Sendiherrar íslenskunnar

Deila grein

05/10/2018

Sendiherrar íslenskunnar

Alþjóðlegur dagur kennara er í dag, 5. október. Af því tilefni var haldið skólamálaþing á vegum Kennarasambands Íslands í gær undir yfirskriftinni »Íslenska er stórmál«. Eftir veruna þar fyllist ég enn meiri bjartsýni fyrir hönd íslenskrar tungu, þar kom fram mikill einhugur og ástríða fyrir framtíð íslenskunnar og þeim möguleikum sem í henni felast. Á málþinginu var skrifað undir viljayfirlýsingu um mikilvægi íslensks máls en að henni standa auk Kennarasambandsins, forsætisráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og samtökin Heimili og skóli. Markmið þessarar yfirlýsingar er að finna víðtækan samstarfsgrundvöll til að vekja athygli og áhuga á íslenskunni, stuðla að virkri notkun tungumálsins og vinna að jákvæðari viðhorfum, ekki síst barna og unglinga, til íslenskrar tungu.

Á málþinginu voru einnig kynntar fyrstu niðurstöður rannsóknar Sigríðar Sigurjónsdóttur og Eiríks Rögnvaldssonar á stafrænum áhrifum alþjóðamáls á íslensku. Þar er meðal annars fjallað um net- og snjalltækjanotkun barna, viðhorf þeirra og áhuga á ensku, málkunnáttu og málumhverfi. Þær tölur sem kynntar voru eru úr netkönnun meðal barna á aldrinum 3-12 ára og veita þær afar forvitnilegar vísbendingar um þá hröðu þróun sem nú á sér stað í málumhverfi okkar. Það vakti athygli mína að samkvæmt þeim tölum nota 19% þriggja til fimm ára barna netið á hverjum degi, og 8% þeirra barna byrjuðu að nota snjalltæki fyrir eins árs aldur. Þetta er tímamótarannsókn en henni er ekki lokið og úrvinnsla gagna raunar nýhafin en þessar fyrstu niðurstöður eru sannarlega umhugsunarverðar. Það bendir ýmislegt til þess að viðhorf barna og ungmenna til íslensku sé að breytast og því er mikilvægt að gefa gaum.

Foreldrar eru fyrirmyndir barna sinna og það eru kennarar einnig. Kennarar eru einir af mikilvægustu áhrifavöldum sem unga fólkið okkar kemst í tæri við. Þeir skipta sköpum fyrir framtíð íslenskunnar og góð þekking þeirra, áhugi og ástríða fyrir tungumálinu getur svo auðveldlega smitast til nemenda. Þeir geta verið, svo vísað sé til orða frú Vigdísar Finnbogadóttur, sendiherrar íslenskunnar. Það er dýrmætt að kennarar taki virkan þátt í því að snúa vörn í sókn fyrir tungumálið okkar. Við höfum greint frá fjölþættum aðgerðum stjórnvalda er einmitt miða að því og þar gegnir menntakerfið og kennarar lykilhlutverki.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. október 2018.

Categories
Greinar

Upp úr skotgröfunum

Deila grein

03/10/2018

Upp úr skotgröfunum

Umræður um laxeldi á Íslandi hafa náð hápunkti sínum síðustu vikur. Það er eins og maður hafi verið að fylgjast með dramatískum framhaldsþætti frá unglingaskóla í Bandaríkjunum. Hver þáttur hefur einkennst af upphrópunum, og atburðarásin snýst alltaf um það sama, en maður horfir samt. Laxeldi er atvinnugrein sem hefur verið stunduð víða um heim í mörg ár. Í nágrannalöndum okkar Noregi og Færeyjum hefur hún náð að þróast í að vera umhverfisvæn matvælaframleiðsla þar sem miklar kröfur eru gerðar.

Ný atvinnugrein

Árið 2004 var merk ákvörðun tekin af stjórnvöldum þar sem ákveðið var hvar óhætt væri fyrir umhverfið að stunda fiskeldi. Byrjað var á að loka stærstum hluta strandlengjunnar þannig að eldi var aðeins leyft á hluta Austfjarða, Vestfjörðum og í Eyjafirði. Það var gert til að vernda þær ár þar sem stundaðar eru veiðar á villtum laxastofni landsins. Einnig til að passa upp á hagsmuni veiðiréttarhafa en fyrst og fremst til þess að vernda viðkvæman laxastofn sem hér lifir.

Síðan þá hafa stjórnvöld innleitt strangari reglur í takt við það sem tíðkast erlendis. Enn má gera betur og herða umhverfiskröfur og efla eftirlit, eitthvað sem sum fiskeldisfyrirtæki hafa kallað eftir sjálf. Það er því grátlegt að þegar vilji bæði stjórnvalda og fyrirtækjanna sem stunda þessa framleiðslu er að halda allar ströngustu reglur, skuli uppbyggingin ganga svo brösuglega. Efnahagslegur ábati fyrir þjóðina er svo gríðarlegur, talinn í tugum milljarða þegar þessi framleiðsla verður komin á fullan skrið.

Vestfirðingar hafa löngum verið duglegir við að bjarga sér. Sem betur fer var kerfið ekki komið til sögunnar þegar þeir ýttu úr vör og sóttu björg í bú. Nú ætlar kerfið og hin óskiljanlega umræða að setja strik í reikninginn.

Raunveruleikaþáttur

Það er okkur nauðsynlegt að skipta um í gír í umræðunni úr dramatíkinni í raunveruleikaþátt. Þegar um jafnstóra atvinnugrein er að ræða verðum við að leyfa henni að njóta sannmælis. Umræðan þarf að komast upp úr skotgröfunum og í eðlilegan farveg.

Stjórnvöld eiga að tryggja umgjörð sem byggir á ströngum umhverfisreglum og heilbrigðisstuðlum og tryggja að þegar fyrirtæki hafa uppfyllt allar kröfur stjórnvalda, haldi þau leyfi sem gefin eru út. Með ströngu en skilvirku lagaumhverfi getum við skapað framtíðaratvinnugrein grundvöll öllum til ábata.

Halla Kristín Kristjánsdóttir, alþingismaður

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 3. október 2018.

Categories
Greinar

Brotið í blað í málefnum fatlaðs fólks 1. október

Deila grein

03/10/2018

Brotið í blað í málefnum fatlaðs fólks 1. október

Í gær, 1. október, tóku gildi ný heildarlög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Lögin fela í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk. Eitt ber tvímælalaust hæst en það er lögleiðing notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Þessi dagur á því án efa eftir að festa sig í huga þeirra fjölmörgu sem hafa til margra ára barist fyrir því að þetta fyrirkomulag þjónustu yrði sjálfsagður réttur fatlaðs fólks sem þarf á miklum stuðningi að halda til að fá notið sín í samfélaginu og tekið í því virkan þátt og sem mest á jafnréttisgrundvelli.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem undirritaður var af Íslands hálfu árið 2007, hefur haft mikil áhrif á viðhorf samfélagsins til fatlaðs fólks á liðnum árum og ýtt undir margvíslegar úrbætur, bæði til að efla og bæta þjónustu en ekki síður að efla mannréttindi og auka vernd fólks með fötlun. Í samningnum eru tilgreindar almennar meginreglur um túlkun og framkvæmd hans. Þar má nefna áhersluna á frelsið til að taka eigin ákvarðanir og sjálfstæði einstaklinga, fulla þátttöku í samfélaginu án aðgreiningar, virðingu fyrir mannlegum fjölbreytileika, áhersluna á jöfn tækifæri fólks og jafnrétti kynjanna.

Hugmyndafræðin að baki NPA á rætur að rekja til viðhorfsbreytinga sem leitt hafa af samningi Sameinuðu þjóðanna. NPA gerir fötluðu fólki kleift að ráða hvar og með hverjum það býr, viðkomandi stýrir sjálfur hvernig aðstoðin er skipulögð, hvenær hún er veitt og af hverjum. Kveðið er á um rétt til aðstoðar við skipulag þjónustunnar þurfi fatlaður einstaklingur á slíkri aðstoð að halda.

Þjónusta við fatlað fólk er á hendi sveitarfélaganna og hefur svo verið frá árinu 2011. Síðan þá hefur verið unnið markvisst að innleiðingu NPA þjónustuformsins með tilraunaverkefni um framkvæmdina. Sveitarfélögin hafa því umtalsverða þekkingu og reynslu á að byggja og ég er sannfærður um að þeim sé ekkert að vanbúnaði að veita þessa þjónustu, fötluðum og samfélaginu til gagns og góðs.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 2. október 2018.

Categories
Greinar

Samgöngur til framtíðar

Deila grein

03/10/2018

Samgöngur til framtíðar

Nú hefur samgönguráðherra Sigurður Ingi lagt fram þingsályktunartillögu að samgönguáætlun fyrir árin 2019-2033. Í henni er að finna stefnu í samgöngumálum og skilgreiningu á grunnneti samgöngukerfisins sem skulu ná til alls landsins. Hún kemur inn á heildstæða samþættingu um stefnu í samgöngumálum, fjarskiptamálum og byggðamálum. Samgöngur skipta miklu máli þegar talað er um dreifingu ferðamanna um landið.

Það er því eðlilegt að samgönguáætlunar hafi verið beðið með óþreyju enda eru samgöngur og fjarskiptamál undirstaða nútíma samfélags á öllu landinu. Grunnnet vegakerfisins eru þeir stofnvegir og tengja saman byggðir landsins. Vestfirðingar þekkja það svo vel að fjórðungurinn hefur ávallt setið hjá þegar kemur að uppbyggingu grunnnetsins um landið. Þetta á sérstaklega við suðurfirðina sem geta alls ekki státað sig af nútíma grunnneti.

Það er ánægjulegt að sjá að í þessari samgönguáætlun er megináhersla lögð m.a. á grunnnet á Vestfjörðum. Á næstu árum eiga rúmir 25 milljarðar að renna til nýframkvæmda á Vestfjörðum.

Dynjandisheiðin er inni
Þar má fremst telja Dýrafjarðargöng sem nú þegar eru rúmlega hálfnuð. Síðan er gert ráð fyrir 5,3 milljörðum til uppbyggingar á Dynjandisheiðinni. Það er grátlegt að ekki skuli meðfram vinnu við Dýrafjarðargöng verði unnið í heiðinni. En staðreyndin er sú að enn þá er verið að vinna að hönnun vegstæðis. Matskýrsla er að verða tilbúin sem þá á eftir að fara í umhverfismat. Gert er ráð fyrir að hægt verði að bjóða verkið út á árinu 2020. Framkvæmdir við Bíldudalsveg eru inni í tengslum við gerð nýs vegar um Dynjandisheiði.

Í samgönguáætlun er miðað við að uppbygging vegar í Gufudalssveit hefjist strax á næsta ári. Það er því vonandi að hreppsnefnd Reykhólahrepps komist sem fyrst að skynsamlegri niðurstöðu sem hefur hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi.

Þetta eru stærstu framkvæmdirnar sem lagðir eru til. Af öðrum verkefnum má nefna Örlygshafnarveg um Hvallátur sem er á áætlun 2019 upp á 120 milljónir og framkvæmdir um Veiðleysuháls sem unnið verður að á næstu árum. Á næsta ári verður farið í framkvæmdir á Djúpvegi í Hestfirði og Seyðisfirði og í Álftafirði.

Öryggi vegfarenda
Í samgönguáætlun er áhersla lögð á öryggi. Liður í því er að gera átak við lagningu á bundnu slitlagi þar sem það vantar og fækka einbreiðum brúm á umferðamestu vegum landsins.

Viðhald vega
Miklu skiptir að lögð sé áhersla á viðhald vega jafnhliða nýframkvæmdum. Í samgönguáætlun er gert ráð fyrir verulega aukningu á framlögum til viðhalds vega. Enda uppsöfnuð þörf mikil. Þetta skiptir gríðarlega miklu máli þegar að kemur að öryggi vegfarenda.

Framtíðar sinfónían
Nú á haustdögum er þingsályktunartillagan lögð fyrir þingið og verður vonandi samþykkt áður en þingið fer í jólafrí. Það er mitt mat að vel megi við una en þó sakna ég þess sárlega að ekki skuli vera minnst á Súðavíkurgöng. Á síðastliðnu þingi lagði ég fram fyrirspurn til samgönguráðherra um hvort hann teldi ekki öruggt að göngin yrðu í komandi samgönguáætlun. Engu var lofað í þeim efnum en bent á að næstu göng sem horft væri til væru Norðfjarðargöng. Það skiptir máli að þingmenn kjördæmisins haldi áfram að minna á mikilvægi Súðavíkurganga svo auka megi öryggi vegfarenda og efla uppbyggingu í Súðavík og nágrannasveitarfélögunum.

Samgönguáætlunin er fjármögnuð og er samstíga samþykktri fjármálaáætlun. Hér er því ekki á ferðinni ófjármagnaður óskalisti.

Halla Signý Kristjánsdóttir, 7. þingmaður NV kjördæmis.

Greinin birtist fyrst á www.bb.is 28. september 2018.

Categories
Greinar

Bú er landstólpi

Deila grein

01/10/2018

Bú er landstólpi

Við trúum því að það sé skylda okkar sem þjóðar að standa vörð um innlenda matvælaframleiðslu, þar á meðal sauðfjárræktina, sem nú á í erfiðleikum. Samfélagið styður greinina í gegnum búvörusamning sem gerður var 2016. Þar er lögð áhersla á góða framleiðsluhætti sem byggja til dæmis á velferð dýra, heilnæmi afurða, umhverfisvernd og sjálfbærri landnýtingu. Tilgangurinn er einnig að tryggja  fjölbreytt framboð gæðafurða á sanngjörnu verði fyrir neytendur.Stuðningurinn hefur þau áhrif að verðið til þeirra er lægra en annars væri.Þá er lögð áhersla á að minnka kostnað við kerfið sjálft.

Nauðsynleg næstu skref

Það er nauðsynlegt að endurskoða ákveðna þætti búvörusamningsins vegna breyttra forsenda, sérstaklega þá sem geta verið framleiðsluhvetjandi.  Sauðfjárbændur hafa sjálfir bent á að nauðsynlegt sé að ná jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar lambakjöts á innanlandsmarkaði. Það er aðgerð sem er hugsuð til að bregðast við núverandi ytri aðstæðum.

Samið var um að búvörusamningarnir yrðu endurskoðaðir tvisvar á 10 ára samningstíma og nú stendur fyrri endurskoðunin yfir. Afkoman í sauðfjárræktinni hefur verið á niðurleið síðustu þrjú ár. Markaðir hafa lokast og sterkt gengi krónunnar hefur gert útflutning óhagstæðari. Í kjölfarið hefur verð til bænda hríðfallið. Þeir fá nú að meðaltali 387 krónur greiddar fyrir hvert kíló lambakjöts. en þyrfti að vera 650-700 krónur til reksturinn teldist viðunandi. Það er því ljóst að markaðsbrestur hefur orðið í greininni.

Jafnvægi í framleiðslu

Sauðfjárbændur hafa bent á að allt að 10% hækkun gæti komið til greina en sé gengið of langt getur það haft afar neikvæð áhrif á greinina í held og þau samfélög sem á henni byggja. Það eru samfélög sem hafa takmörkuð tækifæri til annarrar starfsemi.  Nauðsynlegt er að stjórnvöld beiti sér fyrir því að til verði verkfæri sem geri mögulegt að takast á við stöðu sem þessa og haft áhrif á markaðinn.  Við höfum engin slík nú, en þau eru til í flestum nágrannaríkjum okkar.  Afurðageirinn þarf líka að hagræða og endurskipuleggja sig með hliðsjón af þessum aðstæðum.  Hann þarf að vera nægileg öflugur til að tryggja gæði og vöruframboð sem svara kröfum neytandans með tilsvarandi markaðsstarfi. Með framantöldum aðgerðum er von til þess að jafnvægi náist og afkoma bænda batni í kjölfarið.

Horft til framtíðar

Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir til  að koma á móts við núverandi vanda, sem vonandi verður fljótt að baki svo sauðfjárræktin geti farið að byggja sig upp að nýju.

Ríkistjórnin hefur sett metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum. Þjóð sem hefur það að leiðarljósi að minnka kolefnisspor okkar og nálgast sjálfbærni til framtíðar hlýtur að hlúa vel að umhverfi íslenskrar matvælaframleiðslu.. Sauðfjárbændur vilja taka þátt í því enda hafar þeir sett sér markmið um kolefnisjöfnun greinarinnar.  En greinin hefur víðtæka þýðingu.  Fyrir utan matvælaframleiðsluna og byggðalegu þýðinguna sem áður er nefnd er hún jafnframt verðmætur hluti af menningu íslenskrar þjóðar.  Þess vegna styður samfélagið við hana og við teljum að svo eigi áfram að vera.

Halla Signý Kristjánsdóttir 7. þingmaður NV kjördæmis og Þórunn Egilsdóttir 4. þingmaður NA kjördæmis.

Grein birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. október 2018.