Categories
Greinar

Sérstaða Íslands – hreinleiki

Deila grein

28/02/2019

Sérstaða Íslands – hreinleiki

Bann við innflutningi hrás kjöts og sóttvarnir landsins snúast um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir (lýðheilsa og búfjárstofnar), þeir hagsmunir eru miklu stærri, en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni. Samningar og lög eru mannanna verk sem hægt er að breyta, en ef sérstaða landsins tapast verður hún ekki auðveldlega endurheimt.

Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birt drög að frumvarpi til að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins, um innflutningstakmarkanir á fersku kjöti til landsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum eggjum. Frumvarpið hefur hvorki verið lagt fyrir ríkisstjórn eða stjórnarflokka. Það er enn í vinnslu hjá ráðuneyti en opnað hefur verið á samráð um frumvarpið í gegnum samráðsgátt stjórnvalda.

Samhliða hafa stjórnvöld nú kynnt aðgerðaáætlun sína sem ætlað er að efla matvælaöryggi, tryggja vernd búfjárstofna og bæta samkeppnisstöðu innlendrar matvælaframleiðslu. Mótvægisaðgerðirnar eru allar þýðingarmiklar og eiga fullan rétt á sér óháð breytingum á lögum. Eigi þessar aðgerðir hins vegar að skila árangri verður að gefast lengri tíma en nokkrir mánuðir til að innleiða þær. Aðgerðirnar verða að komast hratt í fulla virkni og það áður en frekari breytingar verða á innflutningstakmörkunum.

Ekki gefast upp
Með samþykkt á óbreyttu frumvarpi værum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp fyrir reglum sem settar voru án þess að næg þekking á mögulegum áhrifum væri til staðar. Lykilatriði er að fram fari ítarlegt áhættumat, sem taki bæði á áhrifum breytinganna á Íslandi og þýðingu hreinleika Íslands fyrir lýðheilsu á heimsvísu.

Með því að leyfa innflutning á hráu kjöti án þess tímafrests sem leiðir af frystiskyldunni værum við að gera vafasama tilraun með lýðheilsu þjóðarinnar. Þar fyrir utan væri tilraun með búfjárstofna en við vitum aldrei hvernig erfðauðlindin sem í þeim liggur getur komið að notum. Þeir sem tala fyrir óheftum innflutningi á kjöti benda á að það geti skilað sér í lægra matvöruverði.

Hagsmunir neytenda snúast um fleira en verð á matinn og hvað sé í matinn, það skiptir alltaf mestu hvað er í matnum.

Okkur ber skylda til að halda uppi vörnum fyrir sérstöðu okkar sem felst m.a. í tiltölulega mjög lítilli sýklalyfjanotkun í landbúnaði og lágri tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í fólki. Heimurinn allur þarf að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna vaxandi sýklalyfjaónæmis. Það hefur verið sýnt fram á ótrúlega mikla fylgni milli neyslu matvæla þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði er mikil og tíðni sýklalyfjaónæmra baktería í fólki. Þessir hagsmunir eru mannkyninu dýrmætir, ekki síður en hreinleiki lofts og vatns.

Hagsmunir í húfi
Þetta er stórt pólitískt mál og miklir hagsmunir í húfi. Því þurfa íslenskir ráðamenn að stíga fast til jarðar og eiga samtöl við þá sem stýra Evrópusambandinu. Dómur EFTA er unninn út frá gildandi lögum og reglum og niðurstaðan fengin frá þeim sem vinna samkvæmt þeim. Ef ná þarf fram breytingum þurfa stjórnmálamenn að ræða við þá sem hafa áhrif á endurskoðun laga og reglna en ekki eingöngu þá sem framfylgja þeim.

Stjórnvöld verða að óska eftir lengra svigrúmi til innleiðingar, aðlögun og raunverulegar varnir taka tíma. Samtímis gæfist tækifæri til að gera ítarlegt áhættumat á afleiðingum breyttra innflutningsreglna fyrir Ísland og Evrópu sem heild. Þá gætu skapast forsendur til að endurskoða reglur með heildarhagsmuni í huga. Fyrir þessu þurfa stjórnmálamenn að beita sér með samtali við aðra stjórnmálamenn. Það getur ekki verið vilji Evrópusambandsbúa að við Íslendingar verðum gerð að tilraunadýrum í þessum efnum.

Sérstaða okkar er ekki okkar einkamál, hún hefur þýðingu á heimsvísu.

Halla Signý Kristjánsdóttir og Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismenn Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 28. febrúar 2019.

Categories
Fréttir

Reglur ESB yfirsterkari markmiðum um framtíðarmatvælaframleiðslu – ógn við lýðheilsu þjóðarinnar og fæðuöryggi

Deila grein

28/02/2019

Reglur ESB yfirsterkari markmiðum um framtíðarmatvælaframleiðslu – ógn við lýðheilsu þjóðarinnar og fæðuöryggi

„Hæstv. forseti. Ég ætlaði að ræða fjórfrelsið og fullveldið og þegar reglur verða yfirsterkari þeim markmiðum sem við viljum ná fram. Von er á frumvarpi frá hæstv. landbúnaðarráðherra þar sem við bregðumst við og hlítum dómi um að íslensk stjórnvöld hafi ekki mátt setja strangar reglur um það að koma í veg fyrir innflutning á fersku, ófrosnu kjöti hingað til lands, að krafan um innflutningsleyfi og 30 daga frystiskyldu sé óheimil og brjóti í bága við EES-samninginn,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
Ræða Willum Þórs Þórssonar, alþingismanns, í störfum þingsins 28. febrúar 2019.
„Ég get sýnt því skilning að hæstv. ráðherra bregðist við af ábyrgð eins og honum ber skylda til. Ég get sýnt því skilning að tollar og ýmis höft og hamlanir á viðskiptum milli þjóða skerði hagræði utanríkisviðskipta og að slíkir samningar eins og EES-samningurinn séu til þess fallnir að auka hagræði slíkra viðskipta, að fjórfrelsið, frjálst flæði fjármagns, vöru, þjónustu og fólks, miði að því. Ég get sýnt því skilning að slíkt geti falið í sér ábata fyrir neytendur, í þágu viðskiptanna og sé til þess fallið að bæta lífskjör.
En það er auðvitað önnur hliðin á málinu þegar við metum lífskjör þjóðar og framtíðarhagsmuni, sú hlið sem snýr að sérstöðu Íslands í hreinleika matvæla, búfjárstofna, sjálfbærni landbúnaðarframleiðslu, öryggi og lýðheilsu þjóðarinnar. Við slíkt mat finnst mér blasa við að dómurinn felur í sér að reglurnar verði yfirsterkari markmiðunum sem við setjum í þessu tilviki, að verja hreina íslenska búfjárstofna, að verja sérstöðu Íslands, að verjast raunverulegri ógn við sjálfbærni landbúnaðar, framtíðarmatvælaframleiðslu, ógn við lýðheilsu þjóðarinnar og fæðuöryggi.“

Categories
Fréttir

Við séum gerð að tilraunadýrum?

Deila grein

28/02/2019

Við séum gerð að tilraunadýrum?

„Virðulegi forseti. Nú hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra birt drög að frumvarpi til að bregðast við niðurstöðu EFTA-dómstólsins sem er eðlilegt. Það fjallar um innflutningstakmarkanir á fersku kjöti til landsins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir heimildum til innflutnings á hráu ófrosnu kjöti og gerilsneyddum eggjum. Bann við innflutningi hrás kjöt og sóttvarnir er liður í sóttvörnum landsins og snýst um sérstöðu landsins til framtíðar. Með samþykkt frumvarpsins erum við sem sjálfstæð þjóð að gefast upp með því að leyfa frjálsan innflutning á hráu kjöti. Það er ekki útséð hvaða afleiðingar það hefur í för með sér. Þeir sem hafa verið að tala um óheftan innflutning á kjöti benda á að það geti skilað sér í lægra matvöruverði. Hagsmunir neytenda snúast ekki bara um hvað er í matinn og hvað það kostar, heldur hvað er í matnum. Við megum ekki gefast upp þótt ESB hrópi. Við þurfum að halda uppi vörnum hvað varðar sérstöðu okkar þjóðar og lands sem hlýtur að vega nokkuð inn í heildina og því dýrmætt að halda í hana. Sérstaða landsins byggist m.a. á hreinleika búfjárstofna sem okkur hefur tekist að halda í vegna legu landsins,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, í umræðu um störfþingsins á Alþingi í dag.
Ræða Höllu Signýjar Kristjánsdóttur í störfum þingsins 28. febrúar 2019. 

„Við þurfum að verjast þeirri ógn sem blasir við vegna hugsanlegs sýklalyfjaónæmis. Frumvarpið tekur ekki nægilega á þeim hlutum. Þessir hagsmunir eru okkur jafn dýrmætir og hreinleiki lofts og vatns. Þetta er stórpólitískt mál og miklir hagsmunir í húfi. Því þurfa íslenskir ráðamenn að stíga fastar til jarðar og eiga samtal við þá sem stýra Evrópusambandinu. Dómur EFTA er unninn út frá lögum og reglum og niðurstaða fengin frá þeim sem vinna samkvæmt þeim. Eigum við endilega að beygja okkur undir það? Þá er að fara hærra í stigann og ná samkomulagi um undanþágu, fá það viðurkennt að við þurfum tíma til aðlögunar og til að byggja upp raunverulegar varnir. Það þarf að fara í áhættugreiningar til að meta hvaða afleiðingar það getur haft fyrir Ísland. Það getur ekki verið vilji Evrópusambandsbúa að við séum gerð að tilraunadýrum í þessum efnum.“

Categories
Fréttir

Mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma

Deila grein

28/02/2019

Mæta þörfum samfélagsins á hverjum tíma

„Að undanförnu hafa bæst við ýmsir nýir námskostir á framhalds- og háskólastigi hér á landi, námsbrautir framhaldsskóla hafa verið endurskoðaðar og skipulag námsins tekið talsverðum breytingum. Það er okkar að tryggja að menntakerfið geti sem best mætt fjölbreyttum nemendahópum og þörfum samfélagsins á hverjum tíma en það er eitt af markmiðum í þeirri vinnu sem nú stendur yfir við mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030.“ Þetta segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein í Fréttablaðinu 14. febrúar.
Menntadagur atvinnulífsins var haldinn 14. febrúar og er honum ætlað að vera vettvangur fyrir samtal og samráð um framtíðina á milli atvinnulífs og stjórnvalda. Bendir Lilja á að mikilvægi þessa til að auka samkeppnishæfni Íslands.
„Dæmi um árangursríka samvinnu af því tagi er nýlegt samkomulag menntamálaráðuneytisins við Keili um nýja námsleið til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð en þar komu Samtök iðnaðarins, Samtök leikjaframleiðenda og Samtök verslunar og þjónustu öll að borðinu. Námið er framfaraskref, þar sem það svarar áhuga ungs fólks á menntun í skapandi greinum og svarar ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki í þeim geira,“ segir Lilja.
Grein Lilju má lesa í heild sinni hér.

Categories
Fréttir

Tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna

Deila grein

28/02/2019

Tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna

„Ný drög að heildstæðri stefnu um almenningssamgöngur fara nú til umsagnar til almennings í samráðsgátt stjórnvalda. Stefnan er rökrétt framhald af nýrri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt og verður leiðarljós að bættri þjónustu fyrir almenning. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér tillögurnar á vef samráðsgáttar – samradsgatt.island.is – og vænti þess að sú stefnumótun sem lögð er hér fram muni tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna, stuðla að bættum þjóðarhag og styrkja byggðir landsins í sessi.“ Þetta segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í grein í Fréttablaðinu 14. febrúar.
Stjórnvöld ætla sér að jafna aðgengi að þjónustu og til atvinnu með að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og að til verði heildstætt kerfi. Í því felst að bæta þjónustustig, hafa sameiginlega upplýsingaveitu og þéttari tengingar á milli áfangastaða.
„Fyrir farþega er lykilatriði að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Sá sem ætlar að fara frá Vopnafirði til Ísafjarðar eða Kaupmannahafnar til Dalvíkur á ekki að þurfa að leita að fari nema í einni gátt. Upplifunin þarf að vera að eitt far sé pantað, óháð staðsetningu,“ segir Sigurður Ingi.
Grein Sigurðar Inga má lesa í heild sinni hér.

Categories
Greinar

Áhersla á hæfni í menntakerfinu

Deila grein

27/02/2019

Áhersla á hæfni í menntakerfinu

Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og það kerfi er borið uppi af kennurum. Grunnurinn að öllum störfum í samfélaginu er lagður af kennurum og því er starf þeirra sérstaklega mikilvægt vegna þessa. Í stjórnarsáttmálanum er boðuð stórsókn í menntamálum og mikilvægur liður í henni er að bæta starfsumhverfi kennara og stuðla að nýliðun. Kennarafrumvarpið, ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda, er leið að því markmiði en frumvarpsdrög þess eru nú aðgengileg í Samráðsgátt stjórnvalda.

Með kennarafrumvarpinu er ráðgert að lögfesta ákvæði um hæfni sem kennarar þurfa að búa yfir til samræmis við þá ábyrgð sem felst í starfi þeirra. Áhersla á hæfni er orðin sífellt viðameiri hluti stefnumörkunar í menntamálum og hafa kennarar og kennaramenntunarstofnanir meðal annars kallað eftir slíkri áherslu. Þannig gerir frumvarpið ráð fyrir skilyrðum um sérhæfða hæfni til kennslu fyrir hvert skólastig í stað núgildandi laga þar sem inntak og umfang menntunar kennara og skólastjórnenda er skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis. Að auki er tillaga um að framvegis verði gefið út eitt leyfisbréf til kennslu hér á landi í stað þriggja.

Með þessum breytingum eru stigin mikilvæg skref í þá átt að tryggja betur réttindi og starfsöryggi kennara óháð skólastigum. Með þeim mun sveigjanleiki aukast og þekking flæða í meira mæli á milli skólastiga en áður. Við teljum að frumvarpið muni stuðla að aukinni viðurkenningu á störfum kennara og auka faglegt sjálfstæði þeirra sem og styrkja stöðu kennara í íslensku samfélagi og innan skólakerfisins. Frumvarpið er einn liður af mörgum í heildstæðri nálgun stjórnvalda til að efla menntun á Íslandi. Á morgun, fimmtudag, verða kynntar sértækar aðgerðir sem snúa að því að efla kennaranám og fjölga kennaranemum.

Mig langar að þakka þeim fjölmörgu sem hafa lagt sitt af mörkum í þeirri umfangsmiklu vinnu sem býr að baki þessum frumvarpsdrögum en undirbúningur hefur staðið yfir frá því sl. haust. Frumvarpið var unnið í samráði við helstu félagasamtök íslenskra kennara, Samband íslenskra sveitarfélaga og kennaramenntunarstofnanir.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. febrúar 2019.

Categories
Greinar

Ísland ljóstengt

Deila grein

26/02/2019

Ísland ljóstengt

Brátt styttist í að Ísland verði ljóstengt að fullu. Ljósleiðaravæðingin er eitt mesta byggðaverkefni seinni ára í samstarfi við sveitarfélögin og býr samfélagið enn betur undir þá upplýsingatækniöld sem hefur hafið innreið sína. Verkefnið hefur verið farsælt en næstsíðasta úthlutun styrkja til sveitarfélaga á grundvelli landsátaksins Ísland ljóstengt er í undirbúningi. Með úthlutunni verður stígið stórt skref að því lokatakmarki að gefa öllum lögheimilum og fyrirtækjum í dreifbýli kost á ljósleiðaratengingu sem er árangur á heimsmælikvarða.

Aðdragandinn

Ísland ljóstengt á sér nokkurn aðdraganda en gott fjarskiptanet er og hefur verið áherslumál Framsóknarflokksins. Segja má að kveikjan að alvöru umræðu og undirbúningi þessa mesta byggðaverkefnis seinni ára, sé grein sem ég skrifaði í mars 2013 og bar yfirskriftina ,,Ljós í fjós“. Þá var mér og öðrum þegar orðið ljóst að ljósleiðaratæknin væri framtíðarlausn fyrir landið allt og ekki síst fyrir dreifbýlið þar sem erfiðara eða jafnvel ógjörningur er að beita annarri þráðbundinni aðgangsnetstækni. Málið var sett á dagskrá í stjórnarsáttmálanum 2013 og landsátak sem ber heitið „Ísland ljóstengt“ var sett af stað til að ýta undir þann möguleika að fólk geti valið sér störf óháð staðsetningu. Fimm árum seinna var farið að hilla undir lok verkefnisins en ennþá vantaði töluvert upp á að strjálbýlar byggðir væru með gott fjarskiptasamband. „Ísland ljóstengt“ var því sett aftur inn í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar og er eitt af brýnum verkefnum ríkisstjórnarinnar að ljúka ljósleiðaravæðingu landsbyggðarinnar til að byggja upp gott og samkeppnishæft samfélag í hinum dreifðu byggðum. Síðasta úthlutun úr fjarskiptasjóði vegna átaksins verður árið 2020.

Samfélagslegar breytingar

Framundan er tæknibylting sem breytir því hvernig við lifum og störfum. Störfin munu breytast og þau munu færast til. Tæknin tengir saman byggðir og Ísland við umheiminn. Ljósleiðarinn og verkefnið „Ísland ljóstengt“ er gott dæmi um framsækna stefnu okkar framsóknarmanna. Gott og skilvirkt fjarskiptasamband við umheiminn er lykillinn að því að taka þátt í þeim samfélagslegu breytingum sem hafnar eru . Áður réðst búsetan af því hvar viðkomandi fékk starf. Nú er hægt að sjá fram á að þessu verði öfugt farið og að fólk geti í auknum mæli valið sér búsetu óháð störfum. Þannig höfum við náð að skapa hvata til að ungt vel menntað fólk geti sest að á landsbyggðinni og jafnað aðgang landsmanna að atvinnu og menntun.

Hvað var gert

Fyrir fjórum árum síðan höfðu einungis fáein fjársterk sveitarfélög þegar ljósleiðaravætt allt sitt dreifbýli án aðkomu ríkisins eða milligöngu fjarskiptafyrirtækja. Fyrsta úthlutun Fjarskiptasjóðs vorið 2016 grundvallaðist einfaldlega á að ríkið legði sveitarfélögum um allt land til fjármagn við eigin uppbyggingu ljósleiðarakerfa.

Fjarskiptasjóður hefur nú í þrjú ár sett styrktum verkefnum sveitarfélaga einfaldar skorður og lagt til fjármuni á grundvelli samkeppnisfyrirkomulags. Það hefur þýtt að sveitarfélög með sterkari efnahag og eða ódýrari verkefni hafa mörg hver komist lengra í sínum framkvæmdum en ella. Með 400 m.kr. stuðningi úr byggðaáætlun  hefur tekist að aðstoða þau sveitarfélög sem staðið hafa höllum fæti í því samhengi. Fyrirséð var þó að snúið yrði að ljúka þessu landsátaki á skynsamlegan hátt með óbreyttu fyrirkomulagi.

Samvinnuleiðin til að klára

Forsvarsmenn verkefnisins hafa séð við þessu og hyggjast nú bjóða svokallaða samvinnuleið og verður því ekki viðhöfð samkeppni um styrki líkt og áður. Samvinnuleiðin býr til fyrirsjáanleika um fjárveitingar bæði frá fjarskiptasjóði og úr byggðaáætlun þannig að áhugasöm sveitarfélög sem eiga eftir styrkhæf verkefni, geti hagað undirbúningi sínum og framkvæmdum á hnitmiðaðri og hagkvæmari hátt en ella.

Samstaða

Lykill að þessu öllu hefur verið einstök samstaða og samvinna allra hlutaðeigandi í þessari vegferð þar sem áræðni og kraftur heimamanna í sveitum landsins hefur gert gæfumun. Ég er stoltur yfir því að hafa opnað umræðuna um þetta viðfangsefni og geta nú stuðlað að verklokum þessa mikilvæga landsátaks sem er ,,Ísland ljóstengt“.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Categories
Fréttir

Ísland Framtíðar – Heilbrigði þjóðarinnar

Deila grein

21/02/2019

Ísland Framtíðar – Heilbrigði þjóðarinnar

Ísland tækifæranna
Heilbrigði þjóðarinnar
Fundur um lýðheilsu, hrein matvæli og heilbrigði dýra, fimmtudaginn 21. febrúar í Súlnasal Hótel Sögu, kl. 20:00
 
Framsókn stendur fyrir opnum fundi um innflutning á hráu kjöti og þær ógnir sem stafa af sýklalyfjaónæmum bakteríum. Aðalframsögumenn eru Lance Price, prófessor við George Washington háskóla, Karl G. Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir við sýklafræðideild Landspítalans ásamt Herborgu Svönu Hjelm, forstöðukonu Matartímans og eiganda Fjárhússins.

Categories
Greinar

Stúdentspróf í tölvuleikjagerð

Deila grein

14/02/2019

Stúdentspróf í tölvuleikjagerð

Menntadagur atvinnulífsins er í dag en þá gefst stjórnvöldum og fyrirtækjum tækifæri til að bera saman bækur sínar og líta til framtíðar. Góð samvinna þessara aðila gerir okkur betur kleift að auka samkeppnishæfni Íslands. Dæmi um árangursríka samvinnu af því tagi er nýlegt samkomulag menntamálaráðuneytisins við Keili um nýja námsleið til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð en þar komu Samtök iðnaðarins, Samtök leikjaframleiðenda og Samtök verslunar og þjónustu öll að borðinu. Námið er framfaraskref, þar sem það svarar áhuga ungs fólks á menntun í skapandi greinum og svarar ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki í þeim geira.

Nýja námsleiðin er til marks um grósku í íslensku menntakerfi og er til þess fallin að styðja við hugverkadrifið hagkerfi framtíðarinnar. Tölvuleikjaiðnaðurinn hefur vaxið ört undanfarin ár en uppsöfnuð velta hans hér á landi nam um 68 milljörðum kr. á árunum 2009-2017. Innan iðnaðarins fyrirfinnast fjölbreytt, spennandi og verðmæt störf sem byggja á hugviti.

Að undanförnu hafa bæst við ýmsir nýir námskostir á framhalds- og háskólastigi hér á landi, námsbrautir framhaldsskóla hafa verið endurskoðaðar og skipulag námsins tekið talsverðum breytingum. Það er okkar að tryggja að menntakerfið geti sem best mætt fjölbreyttum nemendahópum og þörfum samfélagsins á hverjum tíma en það er eitt af markmiðum í þeirri vinnu sem nú stendur yfir við mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030.

Áherslur stjórnvalda á nýsköpun, starfs- og tæknimenntun má glöggt sjá í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun hennar. Það verður spennandi að sjá hvaða viðtökur þessi nýja námsleið fær þegar skráning hefst síðar í vetur. Ég hvet alla til þess að kynna sér þá fjölbreyttu námskosti sem bjóðast í íslenskum skólum og vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem opnast með aukinni menntun og nýrri þekkingu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttirmennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. febrúar 2019.

Categories
Greinar

Almenningssamgöngur fyrir allt landið

Deila grein

14/02/2019

Almenningssamgöngur fyrir allt landið

Skilvirkar samgöngur eru undirstaða verðmætasköpunar. Almenningssamgöngur eru stór liður í þeirri breytu ásamt því að ná settum markmiðum í umhverfismálum. Sterkt almenningssamgöngukerfi um land allt, sem tengir saman byggðakjarna landsins og höfuðborgarsvæðið við landsbyggðina, er forsenda þess að jafna stöðu landsmanna og færa okkur nær hvert öðru. Notkun á almenningssamgöngum verður ekki aukin nema að þjónustustigið taki mið af þörfum notandans þar sem lykilatriði er að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Nýrri stefnu ríkisins um almenningssamgöngur sem mótuð hefur verið í fyrsta sinn er ætlað að tryggja að þær verði raunhæfur valkostur fyrir alla landsmenn.

Jafnt aðgengi

Markmið núverandi ríkisstjórnar er að jafna aðgengi að þjónustu og til atvinnu. Í stjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á að byggja áfram upp almenningssamgöngur um land allt, gera innanlandsflug að hagkvæmari kosti fyrir íbúa og að stutt verði við almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Nýsamþykkt samgönguáætlun á Alþingi kveður á um að almenningssamgöngur verði skipulagðar sem heildstætt kerfi og í byggðaáætlun er lög áhersla á að skilgreina net almenningssamgangna á landinu öllu og reglur mótaðar um niðurgreiðslu fargjalda.

Vandamálin víkja

Helstu viðfangsefni og vandamál í almenningssamgöngum hér á landi eru viðvarandi halli á rekstri almenningsvagn milli byggða, hátt farmiðaverð, rjómafleytingar einkafyrirtækja, skortur á yfirsýn og erfiðar tengingar milli samgöngumáta. Þar fyrir utan er Ísland eitt erfiðasta svæði í heimi til reksturs almenningssamgangna, en þær þrífast að jafnaði best í fjölmenni og ekki síst þar sem íbúaþéttleiki er hár. Núverandi skipulag almenningssamgangna í lofti, láði og legi milli byggða byggir á þróun sem hefur átt sér stað yfir áratuga skeið og hafa samgöngumátarnir þrír reknir að stærstum hluta hver á sinn hátt, án heildarsýnar.

Eitt leiðakerfi og sameiginleg upplýsingagátt

Lykilatriði í nýju stefnumótuninni eru bætt þjónustustig, sameiginleg upplýsingaveita og þéttari tengingarnar svo ferðamátinn sé sem þægilegastur. Þá er lagt til að upplýsingar um áfangastaði og tímasetningar verði aðgengilegar og stefnt að því að öllum upplýsingum um leiðarkerfi almenningssamgangna verði komið á einn gagnvirkan upplýsingavef. Fyrir farþega er lykilatriði að hægt sé að rata um leiðarkerfið með skjótum og einföldum hætti. Sá sem ætlar að fara frá Vopnafirði til Ísafjarðar eða Kaupmannahafnar til Dalvíkur á ekki að þurfa að leita að fari nema í einni gátt. Upplifunin þarf að vera að eitt far sé pantað, óháð staðsetningu.

Ný drög að heildstæðri stefnu um almenningssamgöngur fara nú til umsagnar til almennings í samráðsgátt stjórnvalda. Stefnan er rökrétt framhald af nýrri samgönguáætlun sem Alþingi hefur samþykkt og verður leiðarljós að bættri þjónustu fyrir almenning. Ég hvet sem flesta til þess að kynna sér tillögurnar á vef samráðsgáttar – samradsgatt.island.is – og vænti þess að sú stefnumótun sem lögð er hér fram muni tryggja áreiðanlega og góða þjónustu til allra landsmanna, stuðla að bættum þjóðarhag og styrkja byggðir landsins í sessi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 14. febrúar 2019.