Categories
Greinar

Stærri og sterkari sveitarfélög

Deila grein

08/08/2019

Stærri og sterkari sveitarfélög

Sveitarfélögin gegna þýðingarmiklu hlutverki fyrir stjórnskipan landsins og lýðræði. Þau eru ein elsta skipulagseining landsins. Fyrstu rituðu heimildirnar um hreppa er að finna í Grágás, lögbók Íslendinga frá 12. öld, en þar er talað um að í löghreppi skuli vera 20 bændur eða fleiri. Nýrri skipan var komið á með tilskipun frá Kristjáni IX. Danakonungi 4. maí 1872 en fyrstu sveitarstjórnarlögin voru sett árið 1905.

Það má segja að hver tími hafi sín einkenni. Um eða upp úr þarsíðustu aldamótum tók sveitarfélögum að fjölga. Flest urðu sveitarfélögin 229 en á seinni hluta aldarinnar var farið að leggja aukna áherslu á sameiningu sveitarfélaga og auka hlutverk þeirra í opinberri stjórnsýslu. Fækkaði sveitarfélögum úr 157 um miðbik síðustu aldar og eru þau 72 í dag. Meira en helmingur hefur færri en 1.000 íbúa sem hægt er að halda fram að séu vart sjálfbærar einingar.

Í nýrri tillögu til þingsályktunar, sem ég mun kynna fyrir ríkisstjórn á fundi hennar í Mývatnssveit í dag, er í fyrsta skipti sett fram heildarstefna um sveitarstjórnarstigið. Tillagan er sprottin upp úr víðtæku samráði um land allt. Meginmarkmiðið er að sveitarfélög á Íslandi verði öflug og sjálfbær vettvangur lýðræðislegrar starfsemi og að sjálfsstjórn og ábyrgð sveitarfélaga sé virt og tryggð verði sem jöfnust réttindi og aðgengi íbúa að þjónustu.

Stefnunni fylgir aðgerðaáætlun með 11 aðgerðum. Ein aðgerðin felur í sér að lágmarksíbúamark verði að nýju sett í sveitarstjórnarlög, önnur fjallar um aukinn stuðning Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga við sameiningar og sú þriðja miðar að því að lækka skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga. Þá felur ein aðgerð í sér eflingu rafrænnar stjórnsýslu og þjónustu sveitarfélaga.

Hér er um tímamót að ræða sem fela í sér stórtækar umbætur í opinberri stjórnsýslu sem eflir sveitarstjórnarstigið. Tillagan verður kynnt í samráðsgátt stjórnvalda síðar í dag og hvet ég landsmenn alla til að kynna sér efni hennar vel og senda inn umsagnir.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 8. ágúst 2019.

Categories
Greinar

Fjársjóður í vesturheimi

Deila grein

08/08/2019

Fjársjóður í vesturheimi

Íslend­inga­deg­in­um var fagnað í 120. skipti í bæn­um Mountain í Norður-Dakóta í Banda­ríkj­un­um og í 130. skipti í Gimli í Manitoba-fylki í Kan­ada um liðna helgi. Að deg­in­um standa af­kom­end­ur vest­urfara sem héldu frá Íslandi til Norður-Am­er­íku á ár­un­um 1875-1914 en talið er að milli 15.000 og 20.000 Íslend­ing­ar hafi flust bú­ferl­um og hafið nýtt líf í vest­ur­heimi. Á þess­um tíma fluttu um 52 millj­ón­ir Evr­ópu­búa til vest­ur­heims meðal ann­ars vegna þess að land­búnaðarsam­fé­lög­in gátu ekki fram­leitt nægj­an­lega mikið í takt við þá miklu fólks­fjölg­un sem átti sér stað í Evr­ópu en á tíma­bil­inu 1800-1930 fjölgaði íbú­um álf­unn­ar úr 150 millj­ón­um í 450 millj­ón­ir.

Stolt af upp­runa sín­um

Hluti af því að þekkja sjálf­an sig er að þekkja upp­runa sinn. Vest­ur-Íslend­ing­ar leggja mikið á sig til þess að rækta tengsl sín við Ísland og halda sögu sinni og menn­ingu á lofti. Á þess­um slóðum í Kan­ada og Banda­ríkj­un­um eru af­kom­end­ur Íslend­inga sem tala ís­lensku án þess að hafa búið á Íslandi. Þrátt fyr­ir að rúm 100 ár séu liðin frá því að bú­ferla­flutn­ing­ar vest­urfar­anna liðu und­ir lok er fólk enn mjög meðvitað um upp­runa sinn og er stolt af hon­um. Slíkt er alls ekki sjálf­gefið en sú þraut­segja, áhugi, dugnaður og þjóðrækni sem býr í Vest­ur-Íslend­ing­um er til eft­ir­breytni.

Skylda Íslands

Manitoba er fjöl­menn­asta byggðarlag Íslend­inga í heim­in­um utan Íslands en sam­kvæmt Hag­stofu Kan­ada hafa um 90 þúsund Kan­ada­menn skráð upp­runa sinn sem ís­lensk­an. Sögu þessa fjöl­menna hóps þarf að gera betri skil á Íslandi og það er skylda okk­ar Íslend­inga að rækta þessi tengsl af alúð og al­vöru. Ákveðin vatna­skil urðu í sam­skipt­um Íslands við þetta svæði þegar ís­lensk stjórn­völd opnuðu ræðismanns­skrif­stofu í Winnipeg árið 1999. Skrif­stof­an hef­ur leikið lyk­il­hlut­verk í að efla tengsl okk­ar við Vest­ur-Íslend­inga. Við vilj­um halda áfram að efla þau og því var sér­lega ánægju­legt á sjálf­um Íslend­inga­deg­in­um að greina frá ákvörðun ís­lenskra stjórn­valda um auk­inn stuðning við ís­lensku­deild Manitoba-há­skóla í Winnipeg en deild­in hef­ur verið starf­rækt við skól­ann síðan 1951 við góðan orðstír.

Byggj­um fleiri brýr

Það var stór­kost­legt að taka þátt í Íslend­inga­dög­un­um og kynn­ast öllu því góða fólki sem legg­ur mikla vinnu á sig við að gera dag­inn sem hátíðleg­ast­an. Um sann­kallaðan fjár­sjóð er að ræða sem von­andi sem flest­ir fá tæki­færi til að kynn­ast. Í því sam­hengi vil ég nefna Snorra­verk­efnið sem ætlað er ung­menn­um af ís­lensk­um upp­runa í Norður-Am­er­íku til þess að koma til Íslands og kynn­ast upp­runa sín­um og Snorri-Vest­ur-verk­efnið sem er ætlað ís­lensk­um ung­menn­um til að kynn­ast slóðum Vest­ur-Íslend­inga. Með ung­menna­skipt­um sem þess­um rækt­um við áfram þessi ein­stöku tengsl og byggj­um þannig fleiri brýr yfir til skyld­fólks okk­ar í vest­ur­heimi.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. ágúst 2019.

Categories
Greinar

Uppkaup á landi

Deila grein

06/08/2019

Uppkaup á landi

Síðastliðna daga hef ég sem sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar fengið upphringingar frá blaðamönnum vegna sölu á jörðinni Atlastöðum í Svarfaðardal til fyrirtækis í eigu erlendra aðila. Spurt er hvort sveitarfélagið hafi áhyggjur af sölunni og innt er eftir viðbrögðum.

Sveitarfélagið hefur ekki forkaupsrétt að jörðum í sveitarfélaginu og því kom salan ekki inn á borð sveitarstjórnar. Aukin heldur er það ekki á stefnuskrá sveitarstjórnar að kaupa jarðir. Því getur sveitarstjórn ekki annað en setið hjá og vonað að nýir eigendur muni rækta sína jörð, standa við þær skuldbindingar sem felast í jarðareign í sveit og verði virkir þátttakendur í samfélagi sveitarinnar.

Hins vegar hefur þetta mál vakið mig til enn frekari umhugsunar um jarðasölur almennt. Hér bæði austan og vestan við eru dæmi þar sem stórfelld uppkaup á jörðum hafa átt sér stað og eru að eiga sér stað. Þar erum við að tala um uppkaup eignamanna ótengdum búskap. Margar jarðir safnast á fárra hendur og falla í flestum tilfellum úr hefðbundnum búskap. Þetta er ógn við byggðir landsins, við atvinnuuppbyggingu í sveitum og við sjálfstæði þjóðar.

Tilraunir ráðamanna til að koma lagasetningu á þessar gjörðir spannar nú nokkur ár. Við höfum dæmi frá nágrannaþjóðum um það hvernig þær hafa brugðist við og sett reglur og lög sem ætti að vera styðjast við eða heimfæra með einhverjum hætti upp á okkur hér á landi. Að jarðir þurfi að vera í ákveðnum búskap eða nýtingu, að einn og sami aðili og tengdir aðilar megi ekki eiga fleiri en X jarðir, að eigandi þurfi að vera með lögheimili á jörðinni o.s.frv.

Hversu erfiða ætlum við að gera okkur þessa lagasetningu og hversu langt ætlum við að láta málið ganga áður en gripið verður í taumana? Hversu illa ætlum við að láta vaða yfir sjálfstæði okkar áður en við spyrnum við fótum? Eða ætlum við yfirleitt ekki neitt að gera?

Ég er ein af þeim sem þoli illa að sitja hjá og horfa á þetta gerast fyrir framan nefið á mér. Ég veit að þannig er með margan Íslendinginn. Því hvet ég núverandi ríkisstjórn til lagasetningar á haustþingi sem vonandi tekur fyrir uppkaup á landi með þeim hætti sem er að gerast í dag. Ég bind vonir við samstarf sem samgöngu– og sveitarstjórnarráðherra segir komið á undir forystu forsætisráðuneytis sem á að leita að ásættanlegri lausn í málinu fyrir komandi kynslóðir.

Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri í Dalvíkurbyggð og formaður Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar.

Categories
Fréttir

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Guðveig Lind Eyglóardóttir

Deila grein

06/08/2019

Kynning á sveitarstjórnarfólki Framsóknar – Guðveig Lind Eyglóardóttir

Í Borgarbyggð leiddi Guðveig Lind Eyglóardóttir lista Framsóknar í Borgarbyggð fyrir sveitarstjórnarkosningar 2018. Guðveig Lind er fædd 1976 og uppalinn í Borgarnesi og er með BA gráða í Ferðamálafræði frá Háskólanum á Hólum. „Ég starfa á Icelandair Hótel Hamar og og er í meistaranámi í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst. Ég hef leitt lista Framsóknar í Borgarbyggð síðan 2014. Ég er gift Vigfúsi Friðrikssyni verslunarmanni í Kaupfélagi Borgfirðinga og saman eigum við þrjú börn Ásdísi Lind, Hilmar Karl og Hallgrím.“
„Eftir að ég flutti aftur heim í Borgarnes árið 2013, eftir að hafa verið í burtu í nokkur ár, fann ég hvað taugarnar við gamla sveitarfélagið voru sterkar og tækifærin mikil til að efla svæðið. Þrátt fyrir að sveitarstjórnarstörfin taki mikinn tíma og orku oft á tíðum þá dvínar eldmóðurinn ekki fyrir því að vinna með sveitarstjórnarfólki af öllu landinu til að efla byggðir landsins og auka lífsgæði íbúa og starfsumhverfi fyrirtækja. Ég er sérstaklega þakklát fyrir það hversu heppin ég hef verið með öfluga félaga á lista Framsóknar hér í Borgarbyggð og ég er auðmjúk yfir því trausti sem mér hefur verið sýnt með því að gefa mér það tækifæri að leiða listann annað kjörtímabil.“

Mikil ábyrgð og áskorun að sitja í sveitarstjórn – ég er auðmjúk yfir traustinu

„Á kjörtímabilinu 2014-2018 kynntist ég öllum málaflokkum og starfsemi sveitarfélagsins vel. Ég hef setið í byggðarráði, fræðslunefnd og umhverfis-, skipulags- og landbúnaðarnefnd ásamt því að taka þátt í fjölmörgum starfs- og vinnuhópum. Einnig hef ég setið í stjórn SSV (Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi).
Á síðasta kjörtímabili naut ég þess að fá frekari innsýn í fjölbreytt verkefni og starfsemi sveitarfélagsins sem hefur gert mig enn áhugasamari nýta krafta mína á vettvangi sveitarstjórnarmála.
Því fylgir mikil ábyrgð og áskorun að sitja í sveitarstjórn og vinna að því að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi sveitarfélagsins samfara því að viðhalda góðri grunnþjónustu og vera framsækið hreyfiafl breytinga og framfara.
Fyrst og fremst hef ég áhuga á að nýta krafta mína til að vinna að framgangi góðra stefnumála og verkefna í þágu samfélagsins,“ segir Guðveig Lind.

Áherslumál Framsóknar í Borgarbyggð

Skapa trausta sveitarstjórn og stöðugleika í rekstri sveitarfélagsins. • Fagleg afgreiðsla nefnda og sveitarstjórnar er nauðsynleg til að vinna embættismanna og starfsmanna sveitarfélagsins geti verið góð og geti gengið greiðlega fyrir sig. • Að skapa jarðveg fyrir frekari uppbyggingu á atvinnustarfsemi og byggingu leiguíbúða. • Forsendur fyrir því að hægt sé að ráðast fyrir alvöru í kynningu og markaðssetningu á búsetukostum Borgarbyggðar er að grunnþættir innviða séu til staðar. • Við stefnum að lækkun gatnagerðargjalda og gerð húsnæðisáætlunar fyrir sveitarfélagið, stórátak í uppbyggingu á leiguhúsnæði í Borgarnesi, Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. • Framsóknarfólk trúir því að góð þátttaka allra aldurshópa í fjölbreyttum tómstundum og íþróttum hafi forvarnargildi, breyti samfélaginu til hins betra og auki lífsgæði íbúa. Við viljum því hefjast handa við undirbúning að skipulagi og byggingu á fjölnota íþróttahúsi í Borgarnesi. • Við leggjum áherslu á metnaðarfulla menntastefnu í leikskóla, grunnskóla og upp í framhaldsskóla. Hér þarf að stórefla sérfræðiþjónustu skólanna til að standast reglugerðir og koma til móts við ólíkan hóp nemenda. • Framsókn leggur áherslu á að þjónusta við eldri borgarar verði eins góð og kostur er og að fólk geti búið heima hjá sér eins lengi og unnt er. • Gera þarf gangskör í að bæta aðgengismál í sveitarfélaginu og huga sérstaklega að því við gerð nýrra gangstétta og gatna.

Fréttir og greinar

„Ég er algjörlega háð útivist“


„Ég á stóra fjölskyldu sem er mér afar kær og áhugamálin snúa helst að samveru með fjölskyldunni og vinum. Ég er algjörlega háð útivist og finnst ekkert betra en að ganga úti í náttúrunni allan ársins hring. Nýtt áhugamál datt inn í sumar en ég fór að sækja tíma í golfi og finn að það á vel við mig, enda ekki annað hægt en að njóta þar sem við eigum einn fallegasta golfvöll á landinu í Hamarslandi í Borgarnesi. Ég hef mikinn áhuga á jarðfræði Íslands og hef sérstaklega gaman að því að lesa og fræðast um allt sem því við kemur,“ segir Guðveig Lind.

Categories
Greinar

Virði tungumálsins og sjálfsmynd þjóðar

Deila grein

03/08/2019

Virði tungumálsins og sjálfsmynd þjóðar

Þegar við hugs­um til þess sem helst hef­ur mótað lýðveldið okk­ar og það sem skil­grein­ir okk­ur sem þjóð berst talið oft að menn­ing­unni; að tungu­mál­inu, bók­mennt­un­um og nátt­úr­unni. Í sjálf­stæðis­bar­átt­unni var þjóðtung­an ein helsta rök­semd þess að Íslend­ing­ar væru sér­stök þjóð og sjálf­stæðis­kröf­ur okk­ar rétt­mæt­ar. Tungu­málið er þannig lyk­ill­inn að sjálfs­mynd okk­ar og sjálfs­skiln­ingi. Íslensk stjórn­völd hafa í þessu sam­hengi kynnt heild­stæða áætl­un sem miðar að því að styrkja stöðu ís­lensk­unn­ar. Mik­il­væg­ur áfangi á þeirri veg­ferð náðist þegar Alþingi samþykkti sam­hljóða þings­álykt­un um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungu­málið verði áfram notað á öll­um sviðum ís­lensks sam­fé­lags.

Víðtæk sam­vinna

Tug­ir um­sagna bár­ust um þings­álykt­un­ina en á grunni henn­ar er unn­in aðgerðaáætl­un til þriggja ára, í víðtækri sam­vinnu og sam­starfi. All­ir sem bú­sett­ir eru á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota ís­lensku til virkr­ar þátt­töku í ís­lensku sam­fé­lagi. Helstu mark­mið þings­álykt­un­ar­inn­ar eru í fyrsta lagi að ís­lenska verði notuð á öll­um sviðum sam­fé­lags­ins, í öðru lagi að ís­lensku­kennsla verði efld á öll­um skóla­stig­um ásamt mennt­un og starfsþróun kenn­ara og í þriðja lagi að framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Aðgerðaáætl­un­inni er skipt í fimm liði: Vit­und­ar­vakn­ingu um ís­lenska tungu, mennt­un og skólastarf, menn­ingu og list­ir, tækniþróun, aðgengi og ný­sköp­un og að lok­um stefnu­mót­un fyr­ir stjórn­sýslu og at­vinnu­líf.

I. Vit­und­ar­vakn­ing um ís­lenska tungu

Stuðlað verði að vit­und­ar­vakn­ingu um mik­il­vægi ís­lenskr­ar tungu, gildi henn­ar og sér­stöðu. Áhersla verði lögð á mik­il­vægi þess að ís­lenska sé lif­andi tungu­mál í stöðugri þróun og helsta sam­skipta­mál sam­fé­lags­ins. Þessi vit­und­ar­vakn­ing, und­ir yf­ir­skrift­inni Áfram ís­lenska!, teng­ist flest­um sviðum þjóðlífs­ins og spegl­ast í þeim aðgerðum sem hér fara á eft­ir.

II. Mennt­un og skólastarf

Mik­il­vægi læsis. Læsi er lyk­ill að lífs­gæðum á alþjóðavísu og unnið verður áfram í skóla­sam­fé­lag­inu að verk­efn­um sem tengj­ast Þjóðarsátt­mála um læsi og leit­ast við að tryggja virka aðkomu heim­ila, bóka­safna, rit­höf­unda og fjöl­miðla að því verk­efni.

Íslenska sem annað móður­mál. Þeir sem bú­sett­ir eru á Íslandi og hafa annað móður­mál en ís­lensku, börn jafnt sem full­orðnir, fái jafn­gild tæki­færi til ís­lensku­náms og stuðning í sam­ræmi við þarf­ir sín­ar. Skipaður hef­ur verið verk­efna­hóp­ur sem ætlað er að marka heild­ar­stefnu í mál­efn­um nem­enda með annað móður­mál en ís­lensku.

Kenn­ara­mennt­un. Vægi ís­lensku verði aukið í al­mennu kenn­ara­námi og áhersla lögð á að örva áhuga verðandi kenn­ara á tungu­mál­inu. Stuðlað verði að því að efla sköp­un­ar­gleði til að byggja upp hæfni nem­enda og stuðla að já­kvæðu viðhorfi til ís­lensk­unn­ar á öll­um skóla­stig­um.

Starfsþróun kenn­ara. Stutt verði við starfsþróun og símennt­un kenn­ara í þeim til­gangi að efla lær­dóms­sam­fé­lag skól­anna. Áhersla verði lögð á að auka hæfni kenn­ara í ís­lensku og að þeir hafi tök á fjöl­breytt­um kennslu­hátt­um til að kenna ís­lensku bæði sem móður­mál og sem annað mál.

Há­skóla­kennsla og rann­sókn­ir. Haldið verði áfram uppi öfl­ugri há­skóla­kennslu og rann­sókn­ar­starf­semi í ís­lensku bæði í grunn­rann­sókn­um og hag­nýt­um rann­sókn­um.

Kennsla á ís­lensku. Kennsla í mennta­kerf­inu á 1.-6. þrepi hæfniramma fari fram á ís­lensku.

Náms­gagna­út­gáfa. Stuðlað verði að góðu aðgengi nem­enda á öll­um skóla­stig­um að fjöl­breyttu og vönduðu náms­efni á ís­lensku á sem flest­um náms­sviðum.

Íslensku­nám full­orðinna inn­flytj­enda. Sett­ur verði hæfnirammi um ís­lensku­nám inn­flytj­enda og viðeig­andi náms­leiðir þróaðar með auknu fram­boði nám­skeiða og náms­efn­is á öll­um stig­um. Sam­hliða verði út­búið ra­f­rænt mat­s­kerfi til að meta hæfni full­orðinna inn­flytj­enda í ís­lensku.

Íslensku­kennsla er­lend­is. Styrkja skal stoðir ís­lensku­kennslu á er­lendri grundu. Nýta skal nýj­ustu tækni til hags­bóta fyr­ir þá fjöl­mörgu sem vilja læra ís­lensku, með sér­stakri áherslu á börn og ung­menni.

III. Menn­ing og list­ir

Bók­menn­ing. Sköpuð séu skil­yrði fyr­ir fjöl­breytta út­gáfu bóka svo tryggt sé að áfram geti fólk á öll­um aldri lært, lesið og skapað á ís­lensku. Alþingi hef­ur nú þegar samþykkt lög um stuðning við út­gáfu bóka á ís­lensku með því að heim­ila end­ur­greiðslu 25% kostnaðar vegna út­gáfu þeirra. Þá verður sér­stök áhersla lögð á efni fyr­ir yngri les­end­ur, meðal ann­ars með nýj­um styrkt­ar­sjóði fyr­ir barna- og ung­menna­bæk­ur. Sjóðnum, sem gefið var nafnið Auður, hef­ur þegar verið komið á lagg­irn­ar og var út­hlutað úr hon­um í fyrsta sinn í sum­ar. Einnig verður hugað bet­ur að hlut­verki og mik­il­vægi þýðinga fyr­ir þróun tungu­máls­ins, ekki síst í upp­lýs­inga­tækni, ve­f­efni, hug- og tækni­búnaði.

Lögð verði áhersla á notk­un ís­lensku í list­grein­um s.s. tónlist, mynd­list, sviðslist­um, kvik­mynda­gerð og fram­leiðslu sjón­varps­efn­is. Þar verði stuðlað að auk­inni frumsköp­un á ís­lensku, kynn­ingu og grein­ingu list­ar á ís­lensku og skap­andi notk­un tungu­máls­ins á öll­um sviðum. Áfram verði dyggi­lega stutt við gerð kvik­mynda og sjón­varps­efn­is á ís­lensku og hugað sér­stak­lega að efni fyr­ir yngri áhorf­end­ur með áherslu á þýðing­ar, textun og tal­setn­ingu.

Fjöl­miðlar gegna mik­il­vægu hlut­verki þegar kem­ur að efl­ingu ís­lensk­unn­ar. Stefnt verði að því að efla inn­lenda dag­skrár­gerð fyr­ir ljósvakamiðla og einnig tryggja aðgengi að fjöl­breyttu efni á ís­lensku, ís­lensku tákn­máli eða texta. Þá verði stutt við starf­semi einka­rek­inna fjöl­miðla vegna öfl­un­ar og miðlun­ar frétta og frétta­tengds efn­is á ís­lensku.

Bóka­söfn. Starf­semi skóla­bóka­safna og al­menn­ings­bóka­safna verði efld og þjón­usta við nem­end­ur og al­menn­ing bætt. Áhersla verði lögð á aðgang að nýju og fjöl­breyttu les­efni á ís­lensku.

IV. Tækniþróun, aðgengi og ný­sköp­un

Mál­tækni – sta­f­ræn framtíð tung­unn­ar. Framtíð ís­lenskr­ar tungu í sta­f­ræn­um heimi verði tryggð. Unnið verði sam­kvæmt ver­káætl­un um mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022. Verk­efnið end­ur­spegl­ist í fjár­mála­áætl­un og braut­ar­gengi þess verði tryggt til framtíðar.

Orðasöfn og orðanefnd­ir. Stuðlað verði að opnu aðgengi al­menn­ings að upp­lýs­inga­veit­um um ís­lenskt mál, svo sem orðabók­um, orðasöfn­um og mál­fars­söfn­um. Þá verði stutt við starf orðanefnda til að tryggja að ís­lensk­ur fræðiorðaforði efl­ist.

V. Stefnu­mót­un, stjórn­sýsla og at­vinnu­líf

Viðmið um mál­notk­un. Sett verði viðmið um notk­un ís­lensku og annarra tungu­mála í upp­lýs­inga- og kynn­ing­ar­efni á veg­um stjórn­valda og at­vinnu­lífs. Þar höf­um við að mark­miði að ís­lenska sé ávallt notuð „fyrst og fremst“, þ.e.a.s. kynn­ing­ar­texti á ís­lensku komi á und­an er­lend­um þýðing­um. Þetta á ekki síst við um ís­lensk ör­nefni en borið hef­ur á því í aukn­um mæli að nöfn sögu­frægra staða á Íslandi hafi verið þýdd á er­lend tungu­mál eða stöðunum jafn­vel gef­in ný er­lend heiti sem ratað hafa inn á landa­kort á net­inu.

Mál­stefna um ís­lenskt tákn­mál. Gerð verði mál­stefna um ís­lenskt tákn­mál og skal hún liggja fyr­ir eigi síðar en í árs­lok 2020. Mál­nefnd um ís­lenskt tákn­mál hafi um­sjón með því verk­efni.

Íslensk mál­stefna. Mál­stefn­an sem samþykkt var árið 2009 – Íslenska til alls – verði end­ur­skoðuð til sam­ræm­is við breytta tíma og byggt verði á mati á nú­ver­andi mál­stefnu. Ný mál­stefna skal liggja fyr­ir eigi síðar en í árs­lok 2021. Íslensk mál­nefnd hafi um­sjón með því lög­bundna verk­efni. Hvatt sé til þess að sem flest­ar stofn­an­ir, fyr­ir­tæki og fé­laga­sam­tök marki sér mál­stefnu.

Loka­orð

Það hlýt­ur hverj­um manni að vera ljóst að ís­lensk­an þarf öt­ula mál­svara og fylg­is­menn ef við ætl­um að nota hana áfram hér á landi. Við þurf­um öll að leggj­ast á árar til að tryggja að svo megi verða. Tungu­málið varðveit­ir sögu okk­ar og menn­ingu, svo ekki sé talað um ör­nefn­in sem að sjálf­sögðu eiga að vera rituð á ís­lensku um ald­ur og ævi. Ég vitna oft í orð fyrr­ver­andi for­seta, frú Vig­dís­ar Finn­boga­dótt­ur, sem sagði: „Ef ís­lensk­an hverf­ur tap­ast þekk­ing og við hætt­um að vera þjóð.“ Því setj­um við ís­lensk­una í önd­vegi með því að nota hana fyrst og fremst og átt­um okk­ur á því að virði henn­ar er okk­ur ómet­an­legt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.