Categories
Uncategorized

Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga

Deila grein

26/11/2025

Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga

Kæru félagar!

Endilega að taka þátta í þessari könnun hér að neðan!

Í vor er komið að sveitarstjórnarkosningum og við leitum að fólki á X-B lista Framsóknarfélags Austur-Skaftfellinga og stuðningsmanna í ljósi þess að breyting verður á forystu. Þess vegna viljum við leita til félagsmanna okkar og óska eftir ábendingum. Vinsamlegast skráið nöfn þeirra sem þú sérð fyrir þér á X-B lista í kosningunum í vor í formið hér að neðan. Velkomið er að skrá fleiri en eitt nafn, könnunin er nafnlaus því er ekki hægt að rekja ábendingarnar.

Skráningarformið má nálgast hér: https://forms.gle/AUErPUzk4crSbVhx7

Með kærri þökk fyrir þátttökuna!

Categories
Fréttir

Fjarðarheiðargöng ein tilbúin til útboðs!

Deila grein

25/11/2025

Fjarðarheiðargöng ein tilbúin til útboðs!

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, lagði mikla áherslu á að Fjarðarheiðargöng yrðu næsta jarðgangaframkvæmd ríkisins í ræðu í störfum þingsins. Sagði hann „óábyrgt hjal“ að tala um aðrar gangaleiðir á meðan Fjarðarheiðargöng væru einu göngin sem raunverulega væru tilbúin til útboðs.

Þórarinn Ingi vitnaði til opins bréfs er Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, skrifaði á Vísi í gær og beint er til forsætisráðherra. Í bréfinu veltir hún fyrir sér ummælum innviðaráðherra um jarðgangaframkvæmdir næstu ára og því að verið sé að ræða aðrar gangaleiðir en Fjarðarheiðargöng.

Tók hann undir áhyggjur Jónínu og taldi umræðuna um önnur göng einfaldlega ekki standast ábyrgðarkröfur.

„Vissulega eru Fjarðarheiðargöng dýr framkvæmd,“ sagði Þórarinn Ingi, „en það að vera að velta upp öðrum gangamöguleikum sem ekki hafa verið rannsakaðir eða eru tilbúnir til útboðs er að mínu viti frekar óábyrgt hjal.“

Hann minnti á að Fjarðarheiðargöng væru eina jarðgangaverkefnið sem væri fullbúið undir útboð og því eðlilegt að það yrði sett í forgang.

„Fjarðarheiðargöng eru þau einu sem eru tilbúin til útboðs. Ég stend hér með Seyðfirðingum hvað það varðar og Fjarðarheiðargöng eru þau göng sem við eigum að horfa til næst,“ sagði Þórarinn Ingi og skoraði á aðra þingmenn að gera slíkt hið sama.

Þingmaðurinn hvatti jafnframt almenning til að kynna sér opna bréfið sem Jónína skrifaði forsætisráðherra og birt var á Vísi, þar sem hún fari ítarlega yfir stöðuna og mikilvægi þess að standa við gefin loforð gagnvart íbúum svæðisins.

Að lokum beindi Þórarinn Ingi skýrum skilaboðum til þingheims:

„Byrjum nú á því, þingheimur, og stöndum saman að því að fara að hefja hér almennilega jarðgangavinnu og þá förum við í það að byrja á þeim göngum sem eru tilbúin til útboðs.“

Categories
Fréttir Greinar

Þegar Inga Sæ­land sendir reikninginn á næsta borð

Deila grein

25/11/2025

Þegar Inga Sæ­land sendir reikninginn á næsta borð

Formaður Öryrkjabandalagsins hefur skrifað borgarstjórn allri bréf þar sem spurt er hvers vegna ekki er gert ráð fyrir því að fjármagna 42 umsóknir um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Minnt er á að nýlega hafi samningur Sameinuðu þjóðanna verið lögfestur á Alþingi og vilji löggjafans sé skýr. Gagnrýnt er að í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár sjáist þess hvergi merki um að meirihlutinn í borginni ætli sér að fjármagna samningana þrátt fyrir lagaskyldu.

Þessir 42 NPA samningar í Reykjavík kosta líklega tæpa 2.5 milljarða. Bréf ÖBÍ kom mér ekki á óvart og það er eflaust það fyrsta af mörgum sem munu berast.

Að fella tár

Inga Sæland, félagsmálaráðherra felldi tár þegar Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks var lögfestur á dögunum. Lögfestingin felur í sér að þau réttindi sem felast í samningnum eru orðin bindandi fyrir sveitarfélögin en þannig var það ekki áður. Þannig mátti áður hafa biðlista eftir þjónustu fyrir fatlað fólk eins og flesta aðra þjónustu en nú geta fatlaðir farið í mál við sveitarfélag ef það veitir ekki þjónustuna.

Það er auðvitað mikið fagnaðarefni að stjórnvöld skuli sýna með svo afgerandi hætti að þau vilji veita fötluðu fólki þessi réttindi. Við í Framsókn styðjum það eindregið. En þessi ákvörðun kostar mikla fjármuni. Í úttekt sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu lét vinna kemur fram að árlegur viðbótarkostnaður eftir lögfestingu samningsins verði í heild um 14 milljarðar á ári. Og svo aftur árlega inn í framtíðina.

Svo kom hneykslið

Hneykslið í þessu máli er að Inga Sæland og ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ákváðu að láta ekki eina einustu krónu fylgja þessari ákvörðun þingsins. Þau ákváðu einfaldlega að líta framhjá 129. gr. sveitarstjórnarlaga sem kveður á um að það verði að gera mat á fjárhagslegum áhrifum lagasetningar á sveitarfélögin áður en frumvarp er samþykkt. Slíkt mat hefur ekki verið gert. Því var bara sleppt. Það er líka brot á 66. gr. laga um opinber fjármál en það truflar ekki stjórnarliða því lögfestingin á greinilega ekki að hafa áhrif á stöðu ríkissjóðs. Alþingi ætti líka að hafa í huga að málsmeðferðin brýtur í bága við 30.gr þingskaparlaga.

Eðlilega voru felld tár yfir þessum frábæra árangri ráðherrans sem væntanlega fær mikið klapp á bakið frá fjármálaráðherra fyrir að koma öllum þessum kostnaði yfir á sveitarfélögin en ríkisstjórnin fær hrósið. Þetta er svona dálítið eins og að velja kampavín á veitingastað en senda reikninginn á næsta borð.

Fólk með fötlun á ekki að þurfa að lögsækja sveitarfélögin

Nú vil ég taka fram að ég styð að þessi samningur sé lögfestur og ég vil að fólki með fötlun sé sýnd sú virðing að geta lifað sjálfstæðu lífi án aðgreiningar í samfélagi okkar eins og 19. gr. samningsins kveður á um. En mér finnst einfaldlega andstyggilegt af Ingu Sæland og félögum hennar í ríkisstjórninni að koma svona fram við fólk með fötlun. Hvernig dettur ríkisstjórninni í hug að stilla þessum viðkvæma hópi upp á milli steins og sleggju eina ferðina enn? Svo hvetur Inga Sæland fatlað fólk til að fara með mál sín fyrir dómstóla ef sveitarfélögin veita ekki umbeðna þjónustu.

Ríkið veitir réttindin í orði en tryggir ekki fjármagn til að hægt sé að veita þjónustuna. Sveitarfélögin reyna hvað þau geta að mæta óskum umsækjenda en hafa einfaldlega ekki tekjustofna til þess að greiða fyrir þjónustuna og allt þetta veit ríkisstjórnin upp á hár. Og á meðan öllu þessu gengur þegir borgarstjóri Reykjavíkur þunnu hljóði.

Fjárlagafrumvarpið

Við vitum öll að ríkisstjórninni hefur ekki tekist vel upp með efnahagsstjórn landsins það sem af er þessu kjörtímabili og ríkisfjármálin eru í óvissu. En ef ríkisstjórnin ætlar að láta taka sig alvarlega og Inga Sæland ætlar ekki að verða sér til ævarandi skammar hvet ég hana til að fylgja lögum og láta gera ítarlegt kostnaðarmat og breyta svo fjárlagafrumvarpinu þannig að verkefnið verði full fjármagnað. Annað eru svik við fólk með fötlun.

Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknar í Reykjavík.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Deila grein

25/11/2025

Sækjum áfram fram í þágu menntunar

Íslenska menntakerfið stendur á ákveðnum krossgötum. Margt hefur áunnist að undanförnu en ráðist hefur verið í fjölmargar mikilvægar aðgerðir: Heildstæð menntastefna til ársins 2030 var samþykkt á Alþingi, átakinu „Fjölgum kennurum“ var hrint í framkvæmd með góðum árangri, Menntafléttan og sérstakur sjóður fyrir menntarannsóknir voru sett á laggirnar og unnið var að skýrari matsviðmiðum í íslensku og stærðfræði, brotthvarf á framhaldsskólastiginu minnkaði, hálftómar verknámsstofur urðu yfirfullar í kjölfar róttækra breytinga, matsferill þróaður til að meta betur árangur barna í menntakerfinu ásamt ýmsum öðrum aðgerðum. Samt blasir við að betur má ef duga skal. Alþjóðlega PISA-menntarannsóknin sýnir svart á hvítu að ungmennin okkar eru að halda áfram að dragast aftur úr jafnöldrum sínum og árangurinn því nú orðinn lakari en meðaltal OECD-ríkja.

En hvers vegna er staðan þessi? Eitt af því sem við vitum er að fagorðaforði barnanna er lakari en í samanburðarríkjum – en hvers vegna? Við vitum að í löndum eins og Svíþjóð og Eistlandi fá nemendur á miðstigi fleiri kennslustundir í móðurmáli og náttúruvísindum. Hins vegar þurfum við frekari menntarannsóknir til þess að skýra þessa þróun betur og vera í stakk búin til þess að bæta stefnuna. Næsta rökrétta skref er því ítarleg, óháð samanburðarrannsókn á íslenska menntakerfinu og þeim kerfum í Evrópu sem ná góðum árangri. Slík rannsókn þarf að fara ofan í saumana á helstu lykilþáttum menntakerfa eins og fjölda kennslutíma í grunnfögum, námsefni, námsgagnagerð, námsmati, umfangi snemmtækrar íhlutunar, kennaramenntun, starfsumhverfi kennara og skólastjórnenda, forgangsröðun fjármuna og hlutverki ríkis og sveitarfélaga.

Til að þessi vegferð verði trúverðug þurfum við þjóðarsátt um mikilvægi menntunar. Menntun þarf í auknum mæli að verða forgangsmál þvert á flokka í samstarfi við kennara, skólastjórnendur, atvinnulíf og verkalýðshreyfinguna. Menntastefnan til 2030 getur veitt skýra sýn um vegferðina, en samanburðarrannsóknin og mælanleg markmið verða að vera til að tryggja að breytingarnar sjáist inni í kennslustofunni, ekki aðeins í skýrslum. Framtíðarsókn í menntamálum snýst um að öll börn á Íslandi fái raunveruleg tækifæri til að láta ljós sitt skína í skólanum. Öflugt menntakerfi er ekki aukaatriði heldur forsenda velferðar og verðmætasköpunar. Framtíð Íslands ræðst af því hvort okkur takist að fylgja þessari sýn eftir. Um leið verðum við að tryggja að hvert barn finni nám við hæfi. Við höfum alla burði til að sækja fram í menntamálum; kennararnir eru öflugir en til að styrkja menntakerfið okkur þurfum við betri samanburð og vera tilbúin að ráðast í róttækari breytingar í þágu samfélags.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Ófremdarástand hefur skapast á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Deila grein

24/11/2025

Ófremdarástand hefur skapast á Sjúkrahúsinu á Akureyri

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, krafðist þess, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, að heilbrigðisráðherra grípi þegar í stað til aðgerða til að tryggja bráðaþjónustu fyrir íbúa Norðurlands og allt landið.

Ingibjörg sagði verstu sviðsmyndina vera að raungerast, „[e]ftir 22. desember er búið að gefa það út að það verði enginn sérfræðingur, enginn lyflæknir, á vakt og því verður mikilvægur hluti bráðaþjónustu og lyflækninga ómannaður á Sjúkrahúsinu á Akureyri.“

„Hornsteinn heilbrigðisþjónustu á Norðurlandi“

Ingibjörg minnti á að lögbundið hlutverk Sjúkrahússins á Akureyri væri að veita almenna og sérhæfða þjónustu í nær öllum sérgreinum, auk þess að vera varasjúkrahús landsmanna þegar Landspítalinn stendur höllum fæti. Sjúkrahúsið er jafnframt miðstöð sérhæfðrar þjónustu fyrir heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi og lykilaðili í sjúkraflugi landsins.

„Sjúkrahúsið á Akureyri er hornsteinn heilbrigðisþjónustunnar á Norðurlandi og eitt af grundvallaröryggistækjum heilbrigðiskerfisins,“ sagði Ingibjörg meðal annars og ítrekaði að hvorki stjórn sjúkrahússins né starfsfólkið bæri ábyrgð á ástandinu; þar hafi fólk unnið „þrekvirki við ómögulegar aðstæður“ til að halda þjónustunni gangandi.

Ingibjörg beindi spurningum til heilbrigðisráðherra: Hvernig hyggist ráðherra bregðast við ástandinu? Hver eru raunveruleg áform um að tryggja mönnun bæði til skamms tíma og lengri framtíðar?

Categories
Fréttir

„Hvar eru aðgerðirnar í húsnæðismálum?“

Deila grein

24/11/2025

„Hvar eru aðgerðirnar í húsnæðismálum?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi harðri gagnrýni að ríkisstjórninni, í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi, vegna stöðu mála í húsnæðismálum. Hann rifjaði upp að fyrir um mánuði síðan hefði verið kynntur svokallaður fyrsti húsnæðispakki þar sem hæstv. forsætisráðherra hefði lýst því yfir að ríkisstjórnin „bæði þyrði og framkvæmdi“ og að nú væri loksins verið að grípa til aðgerða sem „hefði verið talað um svo árum skiptir“. Þá hefði forsætisráðherra jafnframt sagt að ef þyrfti að gera meira hraðar, þá yrði einfaldlega gert meira hraðar.

Sigurður Ingi sagði lítið hafa sést til þessara fyrirheita í framkvæmd. Í fyrirspurn til félags- og húsnæðismálaráðherra vakti hann sérstaklega athygli á hlutdeildarlánunum sem kynnt var að breyta ætti. Þar á meðal að hækka framlög úr 4 milljörðum í 5,5 milljarða, úthluta slíku fé mánaðarlega, gera samninga við byggingaraðila um hagkvæmar íbúðir og rýmka lántökuskilyrði þannig að fleiri ættu kost á að nýta úrræðið.

Sigurður Ingi sagði hins vegar engar slíkar breytingar hafa birst á Alþingi og ekkert borið á þeim aðgerðum sem boðaðar hefðu verið með tilheyrandi „flugeldasýningu“ um meira og hraðar aðgerðir. „Við höfum ekki séð neinar breytingar á því, engar aðgerðir, engar framkvæmdir, ekki meira og ekki hraðar,“ sagði hann og spurði hreint út hvort ekkert væri að frétta af húsnæðispakkanum.

Sigurður Ingi velti því jafnframt upp hvort ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar stæði í vegi fyrir því að ljúka málinu með þeim hætti sem kynntur var, eða hvort vandræði við að ná fram hallalausum fjárlögum árið 2027 kæmu nú niður á húsnæðismarkaðnum. Ítrekaði hann að það væri brýnt að koma byggingu hagkvæmra íbúða af stað, lækka húsnæðiskostnað og standa við gefin loforð um að gera meira – og gera það hraðar.

„Mig langar líka að spyrja, það voru fleiri tillögur um tiltekt í stjórnsýslu: Hvernig styrkir það HMS að taka tugmilljarða af eignum Húsnæðissjóðs og selja? Ég skil það, það er verið að lækka skuldir ríkissjóðs, það getur verið skynsamlegt, en hvernig styrkir það HMS til að mynda að standa við Tryggða byggð sem hefur verið gríðarlega jákvætt verkefni hringinn í kringum landið og komið mörgum húsnæðisuppbyggingarverkefnum af stað?

Svo langar mig að lokum að spyrja hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra hraðaspurningar: Stórfelld einföldun á regluverki byggingarreglugerðar — hvaða ákvæði nákvæmlega í nýrri byggingarreglugerð munu lækka byggingarkostnað?“

Categories
Fréttir Greinar

Er þetta í þínu boði kæri for­sætis­ráð­herra?

Deila grein

24/11/2025

Er þetta í þínu boði kæri for­sætis­ráð­herra?

Rangfærsla í fréttum RÚV um helgina

Í fréttum RÚV um helgina sagði Eyjólfur Ármannsson að útboð á hönnun Fljótaganga væri eðlileg enda væru göngin númer 2 á samgönguáætlun. Þetta er alrangt. Samgönguáætlun var síðast samþykkt árið 2020. Þau jarðgöng sem eru þar tilgreind eru Fjarðarheiðargöng, hér er bókun meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar:

Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi. 

Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Engin önnur göng eru tilgreind í gildandi samgönguáætlun önnur en Fjarðarheiðargöng. Samgönguáætlun var samþykkt samhljóða á Alþingi 2020 eftir ítarlega umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar. Ráðherrann var um helgina að vísa í samgönguáætlun sem síðasta ríkisstjórn lagði fram en var aldrei samþykkt. Það er grundvallarmunur á málum sem fá þinglega meðferð og þeim sem gera það ekki.

Fljótagöng hafa ekki hlotið þinglega meðferð né nokkur önnur göng á Íslandi.

Umhverfis- og samgöngunefnd hefur ekki fjallað um framkvæmd við Fljótagöng, engin umsögn hefur verið gefin, engin nefndarálit liggja fyrir og engin samþykkt Alþingis um forgangsröðun jarðganga. Sveitarfélög og hagsmunaaðilar hafa ekki fengið að tjá sig. Það er því rangt, og í raun hættulegt, að ráðherra fari fram með þeim villandi málflutningi að hægt sé að skipa Fljótagöngum í röð jarðganga sem Alþingi hefur fjallað um, eða þess þá ákveðið. Fljótagöng eru ástfóstur ráðherrans enda er honum umhugað um sitt eigið kjördæmi, hann fer því hér fram með miklum einræðistilburðum og sýnir starfi Alþingis litla virðingu.

Á Alþingi sitja nú fjöldi þingmanna sem hafa ekki áður komið að gerð samgönguáætlunar og annarra stórra áætlana ríksins, til að mynda fjárlög. Við ykkur segi ég, látið ekki glepjast, ráðherrar eru ekki einráðir. Oddvitar allra flokka nema Flokks fólksins í Norðausturkjördæmi lýstu yfir stuðningi við Fjarðarheiðargöng í aðdraganda síðustu kosninga.

Vonir mínar um að samgönguráðherra sætti sig við staðreyndir eða jafnvel hlusti á okkur eru að engu orðnar og því biðla ég til forsætisráðherra, Kristrúnar Frostadóttur að bera virðingu fyrir samþykktum framkvæmdaáætlunum ríkisins sem samgönguáætlun. Samgönguáætlun er löggilt stefnumótun sem á að tryggja að uppbygging samgöngukerfisins sé skipulögð, gagnsæ og byggð á faglegum forgangsröðunum. Hún er grundvallartæki Alþingis til að tryggja að fjármunir ríkisins nýtist þar sem samfélagslegur ávinningur er mestur og að stórar framkvæmdir hljóti vandaða og lýðræðislega meðferð. Kæri forsætisráðherra við krefjumst þess að hlustað sé á SSA sem hefur bókað hefur hringtengingu Austaralands árum og áratugum saman.

Kæri forsætisráðherra, Kristrún Frostadóttir, er framganga innviðaráðherra þér og þínu ráðuneyti sæmandi? Ég krefst þess fyrir hönd allra landshluta að okkur sé sýnd sú lágmarksvirðing að Alþing fjalli um stórar framkvæmdir líkt og jarðgöng frekar en að ráðherrar með einræðistilburði í kjördæmapoti fái sínu fram.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings og varaþingmaður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 24. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Deila grein

24/11/2025

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt

Íslenska þjóðin stendur á hátíðardegi sínum, 1. desember, og minnist þess að árið 1918 varð Ísland fullvalda ríki. Þótt rúm heil öld sé liðin frá þeim tímamótum er nauðsynlegt að rifja upp þessi sögulegu tímamót og við gerum okkur grein fyrir því sem þjóð að fullveldi verður aldrei tekið sem gefnu. Þjóð sem gleymir uppruna sínum og því hvernig hún vann rétt sinn getur misst sjónar á því sem mestu skiptir.

Aðdragandi fullveldisins var afrakstur áratuga ósveigjanlegrar baráttu fyrir því að stjórn landsins væri á íslenskum forsendum. Stjórnarskráin 1874 markaði fyrstu stóru breytinguna, þótt hún væri sett af danska þinginu án samþykkis Íslendinga. Þjóðin fékk fjárstjórnarvald og mótaði þannig eigin stöðu innan ríkjasambandsins. Þjóðfundurinn 1851 hafði áður sýnt að Íslendingar ætluðu ekki að láta af hendi rétt sinn til sjálfstæðrar tilveru. Þar var grunnurinn lagður að þeirri samstöðu sem síðar varð lykillinn að sjálfstæðismálunum.

Árin fyrir aldamótin 1900 jukust kröfurnar um skýrari aðgreiningu Íslands og Danmerkur. Heimastjórnin 1904 var loks staðfesting á því að Íslendingar gætu og vildu stjórna eigin málum. Íslenskur ráðherra í Reykjavík var ekki bara táknrænn sigur heldur raunverulegt valdaskref sem færði þjóðina nær markinu.

Stjórnarskrárbreytingarnar 1915 styrktu grundvöll lýðræðis enn frekar, þingræðið varð skýrara. Alþingi var orðið miðja íslenskrar valdsmyndunar – þar var þjóðin stödd þegar sambandslögin voru samþykkt árið 1918.

Sambandslögin voru í senn niðurstaða og upphaf. Þar var Ísland viðurkennt sem fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Íslendingar fengu fulla stjórn í eigin málum, sjálfstæða stöðu í þjóðarétti og rétt til að ráða framtíð sinni. Í kjölfarið tók ný stjórnarskrá gildi árið 1920, og hún varð burðarás íslenskrar stjórnskipunar fram til lýðveldisstofnunar 1944.

Ákvæði sambandslaganna um mögulega endurskoðun eftir 1940 var lykilatriði. Þegar heimsstyrjöld skók Evrópu ákvað Alþingi árið 1941 að leið þjóðarinnar skyldi ekki liggja aftur í sameiginlegar samningaviðræður við Dani. Íslendingar ætluðu sér að verða sjálfstætt fullvalda lýðveldi – og svo varð árið 1944 á Lögbergi við Öxará.

Þetta er sagan sem 1. desember á að minna okkur á. Saga um þjóð sem stóð saman, treysti á eigið afl og vann frelsi sitt með einhug og þrautseigju. Það er því óskynsamlegt að láta þann dag líða hjá án þess að gera honum hærra undir höfði. Fullveldið er hornsteinn íslenskrar tilveru – og slíka hornsteina á ekki að veikja með afsali á fullveldis til valdstofnunar í Evrópu.

Í samtímanum, þar sem ákveðin stjórnmálaöfl færast sífellt nær fjölþjóðlegum stofnunum og landamæri valds verða óljós, skiptir íslenskt fullveldi meira máli en oft áður. Við ráðum okkar auðlindum, okkar löggjöf, okkar menningu og okkar landi sjálf. Það er réttur sem forfeður okkar börðust fyrir – og ábyrgð sem við verðum að axla.

Fullveldi þjóðar er aldrei sjálfsagt. Það er verkefni sem kallar á samstöðu, sjálfsvirðingu og þjóðlega stefnu sem hvílir á íslenskum forsendum.

Kæru Íslendingar – til hamingju með fullveldisdaginn.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Heima­vinnu lokið – aftur at­vinnu­upp­bygging á Bakka

Deila grein

23/11/2025

Heima­vinnu lokið – aftur at­vinnu­upp­bygging á Bakka

Þrátt fyrir mótbyr í samfélaginu eru tækifærin til byggja upp bæði augljós og skýr. Sterkir innviðir, öflugt samfélag og auðlindir í Þingeyjarsýslum. Trú á eigin getu og samfélag er lykilatriði. Betri tímar koma ekki af sjálfu sér heldur með markvissum aðgerðum, heimavinnu og sameiginlegri framtíðarsýn. Á þessu kjörtímabili hefur verið lögð mikil vinna í undirbúning fyrir atvinnustarfsemi á svæðinu, sérstaklega iðnaðarsvæðið á Bakka með nægu landrými, aðgengi að höfn og orku. Þó við séum langt frá höfuðborgarsvæðinu hvar mestan og sjálfsagðan vöxt má finna er ljóst að uppbygging í Þingeyjarsýslum í námunda við Akureyrarborg er bæði hagkvæm og skynsamleg fyrir land og þjóð. Að skapa tekjur, störf og treysta búsetu.

Núna á Bakka

Efnahagslegar aðstæður fyrir starfsemi PCC á Bakka eru sannarlega krefjandi en um leið er mikilvægt að hlúa að þeirri starfsemi sem fyrir er á Bakka. Þar er möguleiki á hágæða framleiðslu á kísilmálmi með umhverfisvænni orku. Iðnaðurinn með kísilmálm gegnir lykilhlutverki í efna- og plastiðnaði á heimsvísu og sömuleiðis sem íblöndun í ál. Það er því fagnaðarefni að fjármálaráðuneytið íhugar að setja jöfnunartolla á innfluttan kísilmálm. Í stóra samhenginu er miklu meira undir en framleiðsla á kísiljárni og -málmi á Íslandi heldur sameppnishæfni Evrópu sem heimshluta á þessum nauðsynlegu vörum.

Næstu skref

Iðnaðarsvæðið á Bakka er þegar skipulagt svæði fyrir atvinnustarfsemi. Til stendur að breyta spennivirkinu fyrir svæðið svo fjölbreyttari atvinnustarfsemi sé möguleg. Sveitarfélagið Norðurþing er með viljayfirlýsingu við fyrirtæki um uppbyggingu gagnavers, niðurdælingu á kolefni og landeldi. Raunhæf verkefni sem unnið er að kanna fýsileika til að byggja á Bakka og víðar í sveitarfélaginu og í Þingeyjarsýslum. Þá eru sömuleiðis í athugun námuvinnsla á móbergi bæði í Grísatungufjöllum og Jökulsá á Fjöllum, álúrvinnsluverkefni, próteinframleiðsla og önnur matvælatengd starfsemi og fleiri verkefni. Öll verkefnin lúta að nýtingu auðlinda, aðgangs að orku og innviðum.

Tímabil

Nú þegar rekstrarstöðvun PCC liggur fyrir þurfa sveitarfélagið Norðurþing, fyrirtæki, stofnanir og íbúar að brúa bilið frá deginum í dag til þess dags að atvinnuuppbygging hefjist aftur á Bakka. Þá er mikilvægt að rýna inn á við og sjá alla þá öflugu starfsemi sem fyrir er; fyrirmyndarfyrirtæki, framleiðslu á vörum á heimsvísu og mannauð sem halda þarf í. Auk þess hefur undirbúningur sveitarstjórnar falist í skipulagsvinnu í þéttbýli bæði á Húsavík og á Kópaskeri. Það er alltaf vilji til að gera meira og ekkert að missa. Í því felst vonin og væntingar. Samhliða allri umræðunni um viljayfirlýsingar, auðlindanýtingu og möguleikann að skapa störf þarf að finna jafnvægið milli raunhæfra væntinga og veruleikans. Staðreyndin er að atvinnuuppbygging er möguleg og heimavinnunni lokið. Nýjum verkefnastjóra atvinnuuppbyggingar er ætlað að samræma skilaboð, sækja verkefni og ná samningum svo verkefni hljóti framgang.

Stóð alltaf til

Það stóð alltaf til að halda áfram atvinnuuppbyggingu þegar farið var í orkuvinnslu, hafnar- og gangnagerð. Við þurfum sjálf berjast fyrir atvinnuuppbyggingu. Það krefst samstöðu og trú á að skapa tækifærin sjálf. Það er okkar hlutverk að sækja spennandi verkefni, rýna í uppbyggingarmöguleika og hvernig þau geta skapað störf, fjárfestingar og tekjur fyrir samfélagið. Samfélag þarf vinnu, vöxt og velsæld. Það gerir þetta enginn fyrir okkur.

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar“

Deila grein

21/11/2025

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar“

„Við búum svo vel á Íslandi að flest börn hafa það gott,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í sérstakri umræðu á Alþingi á Alþjóðadegi barnsins. Hún sagði þó alvarleg mein leynast undir yfirborðinu og nefndi sérstaklega vímuefnanotkun ungmenna, slæma stöðu drengja í námi, kynbundið ofbeldi og áhrif símanotkunar og samfélagsmiðla á börn.

Halla Hrund vísaði í nýlegt dæmi af tveimur 14 ára drengjum sem fóru í meðferð til Suður-Afríku vegna alvarlegs vímuefnavanda. Mæður drengjanna hafi lýst úrræðaleysi hér á landi og þurft að leita lausna erlendis á miklum kostnaði. Sagði hún óásættanlegt að foreldrar í slíkri stöðu standi ein uppi með reikninginn.

„Við verðum að láta fjármagn fylgja barni óháð því hvar meðferð fer fram. Við myndum ekki mismuna í öðrum veikindum,“ sagði hún og spurði mennta- og barnamálaráðherra hvort hann væri sammála því að tryggja að fjármunir fylgi börnum í meðferð vegna fíknivanda, líkt og í öðrum alvarlegum veikindum.

Alvarleg staða drengja í námi

Halla Hrund lagði mikla áherslu á stöðu drengja í skólakerfinu. Hún benti á að samkvæmt PISA-rannsókninni 2022 geti um 47% drengja ekki lesið sér til gagns við lok 10. bekkjar og að þriðjungur nái ekki grunnviðmiðum í stærðfræði og náttúruvísindum.

Hún spurði hvort bakgrunnur og félagslegar aðstæður nemenda hefðu verið greindar nægilega í tengslum við þessa þróun, meðal annars í ljósi aukins fjölda innflytjenda í skólakerfinu.

„Hér verðum við að kafa á dýptina svo við getum tekið góðar ákvarðanir og skilið hver er rót vandans.“

Halla Hrund spurði jafnframt hvort gripið hefði verið til sértækra aðgerða í kennaranámi og kennslu, í ljósi stöðunnar. Hún minnti á að brottfall drengja úr framhaldsskólum væri mest á Íslandi í Evrópu og að einungis um þriðjungur nýnema í háskóla væru drengir.

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar.“

Kynbundið ofbeldi gegn börnum

Þriðji málaflokkurinn sem Halla Hrund nefndi var ofbeldi, einkum kynbundið ofbeldi gegn börnum og ungmennum. Hún vísaði í gögn Barnaheilla og niðurstöður íslenskrar æskulýðsrannsóknar frá 2024 sem sýna alvarlega stöðu.

Samkvæmt þeim gögnum segja um 700 börn í 8.-10. bekk að annar unglingur hafi átt við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra og um 250 börn að fullorðinn hafi haft við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra. Samt sem áður komi aðeins hluti málanna til kasta lögreglu, þó hátt í tvö mál á viku séu tilkynnt.

Halla Hrund sagði þessar tölur sláandi og óskaði eftir því að ráðherra skýrði hvaða aðgerðir væru í gangi til að bregðast við kynbundnu ofbeldi gegn börnum.

Símanotkun, samfélagsmiðlar og markaðssetning að börnum

Halla Hrund sagði óhjákvæmilegt að ræða áhrif snjallsíma og samfélagsmiðla á degi barnsins, enda hafi áhrif þeirra á líðan og nám barna verið mikið til umræðu undanfarið. Of mikil notkun tengist m.a. kvíða, félagslegri einangrun og slakari námsárangri.

Hún sagði að lögð hefði verið fram þingsályktunartillögu um hækkun lágmarksaldurs fyrir samfélagsmiðla og skýrari skorður á markaðssetningu og auglýsingar sem beinast að börnum. Þá þyrfti að huga sérstaklega að ramma utan skólakerfisins, hvernig samfélagið í heild sinni passi upp á börn og ungmenni í stafrænu umhverfi.

Kallar eftir aðgerðum fyrir fötluð börn og börn með einhverfu

Halla Hrund minnti á að staða fatlaðra barna og barna með einhverfu þyrfti einnig að vera í forgangi. Hún sagði ekki nóg að ræða þessi mál ítrekað, koma yrði raunverulegum aðgerðum í framkvæmd og sameinast um þá forgangsröðun á Alþingi.

Hún lagði jafnframt áherslu á mikilvægi fyrstu áranna í lífi barna. Rannsóknir bendi til þess að meðganga og fyrstu 1.000 dagarnir hafi mikið að segja um það hvernig börnum vegni síðar á lífsleiðinni.

„Hverri krónu sem við fjárfestum í þessum málaflokki er vel varið,“ sagði Halla Hrund að lokum.