Guðný Jónsdóttir langamma mín fæddist 5. ágúst 1910 og því eru liðin 115 ár frá fæðingu hennar. Hún fæddist á Melum í Fljótsdal og bjó þar fyrstu æviárin. Foreldrar hennar, Jón Mikaelson og Arnfríður Eðvaldsdóttir, reistu sér síðar bú á Unaósi ásamt sex börnum sínum. Þegar langamma var tíu ára lést faðir hennar. Langamma var næstelst í hópi systkinanna. Heimilið leystist upp og börnin voru send hvert í sína átt. Móðir hennar tók eitt barnanna með sér, og langamma tók yngsta bróður sinn með sér í vinnumennsku og sá fyrir honum.
Snemma var hún farin að axla ábyrgð, og sagt var að hún hefði ekki aðeins hlúð að yngsta bróður sínum, heldur verið vakin og sofin yfir aðbúnaði hinna systkinanna. Hreppurinn vildi styrkja hana til náms, en hún þurfti að hafna því vegna skyldna sinna, þá ekki nema tólf ára gömul.
Fljótt komu í ljós þeir eiginleikar sem einkenndu hana: sjálfsbjargarviðleitnin og hjálpsemin. Þeir urðu síðar margir sem hún tók upp á arma sína og skaut skjólshúsi yfir, skyldir og óskyldir. Ekki er ólíklegt að kröpp kjör í bernsku hafi gert langömmu mína að þeirri félagshyggjukonu sem hún varð. Hún hafði mikinn áhuga á stjórnmálum og skipaði sér í sveit með þeim sem börðust fyrir réttindum verkafólks og annarra sem minna máttu sín í samfélaginu. Á kreppuárunum voru síldartunnur notaðar sem ræðustólar til að vekja athygli á réttindum verkafólks. Langamma fór síðar meir út í veitingarekstur. Hún keypti og rak matsölu um árabil í Aðalstræti 12. Sá rekstur gekk vel, enda var hún útsjónarsöm. Maturinn þótti heimilislegur og meðal fastakúnna voru oft fátækir skólapiltar og verkamenn. Marga þeirra annaðist hún eins og þeir væru úr hennar eigin fjölskyldu.
Á aðfangadagskvöldum var matsalan jafnan opin og þá margt um manninn. Margir áttu sín einu jól hjá langömmu. Hún tók þátt í starfi félags starfsfólks á veitingahúsum. Hún varð formaður þess árið 1956 og gegndi formennsku til 1962. Matsölustaðinn seldi hún árið 1966 og keypti þá jörðina Vatnsenda í Villingaholtshreppi. Þar stundaði hún búskap næstu árin af miklum myndarbrag. Mjólkurframleiðsla hennar þótti jafnan til fyrirmyndar og hlaut viðurkenningu frá Mjólkurbúi Flóamanna.
Framfarirnar sem orðið hafa á íslensku samfélagi frá þessum tíma eru fáheyrðar í hagsögu þjóða. Tækifærin eru gjörólík þeim sem voru við upphaf síðustu aldar. Ég velti því oft fyrir mér, sem ráðherra, hvar langömmu hefði þótt skórinn helst kreppa. Ávallt kemst ég að sömu niðurstöðu: Staða menntakerfisins. Við þurfum að efla það áfram og veita öllum börnum tækifæri til menntunar.
Kraftaverkin í lífinu eru mörg og misstór, og stundum eru þau unnin af einstaklingum sem lyfta björgum. Langamma mín var slík kona og hetjan mín.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. menntamálaráðherra.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. ágúst 2025.