Categories
Fréttir

„Við viljum ekki að glaðlegi ljóshærði gæinn græði á kostnað unga fólksins“

Deila grein

14/05/2025

„Við viljum ekki að glaðlegi ljóshærði gæinn græði á kostnað unga fólksins“

„Við þekkjum Klóa, Gotta og fleiri góðviljaða karaktera sem fá börnin okkar til að drekka mjólk og borða ost,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í ræðu á Alþingi. „En nú er komið að nýjum karakter – glaðlyndum ljóshærðum gæja sem laumar sér inn í huga og líf barna og ungmenna og breytir þeim í nikótínþræla.“

Halla Hrund vísar þar til áróðurs sem fylgir markaðssetningu nikótínpúða, sem hafa tekið verulega upp á sig undanfarið, sérstaklega meðal ungs fólks.

Hættuleg þróun í notkun nikótínpúða

Samkvæmt nýlegum gögnum nota tæplega 40% karla á aldrinum 18-24 ára nikótínpúða daglega. Hjá konum í sama aldursbili er hlutfallið um 20%. Enn alvarlegra sé að vikulega leiti 3-4 börn á bráðamóttöku vegna nikótíneitrunar og fjöldi nýburra sem fæðist í fráhvörfum eftir nikótínneyslu mæðra sé vaxandi.

„Þetta er þróun sem við getum ekki horft fram hjá,“ sagði Halla Hrund. „Þó að þessir framleiðendur hagnist verulega, þá greiðir ungt fólk verðið – bókstaflega með heilsu sinni.“

Óklárað frumvarp og skortur á aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar

Tilraunir voru gerðar í síðasta kjörtímabili til að bregðast við þessari þróun. Þáverandi heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórsson hóf vinnu við heildarlöggjöf um tóbaksvarnir, ásamt hækkun skatta á nikótínpúða. Frumvarpið komst á þingmálaskrá en hlaut ekki framgang vegna kosninga.

„Það veldur mér miklum vonbrigðum að frumvarpið hafi ekki ratað inn á þingmálaskrá nýrrar ríkisstjórnar,“ sagði Halla Hrund og skoraði jafnframt á núverandi heilbrigðisráðherra að endurvekja málið.

Ungt fólk á betra skilið

Í lok ræðu sinnar lagði Halla Hrund áherslu á forvarnir og ábyrgð stjórnvalda: „Við viljum ekki að glaðlegi ljóshærði gæinn og félagar hans græði á kostnað unga fólksins okkar. Þau eiga betra skilið.“

Categories
Fréttir

„Þetta snýst ekki um rekstrarform – þetta snýst um fólk í neyð“

Deila grein

14/05/2025

„Þetta snýst ekki um rekstrarform – þetta snýst um fólk í neyð“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega í ræðu á Alþingi áform heilbrigðisráðherra um að leggja niður Janus endurhæfingu – eitt fárra úrræða fyrir ungt fólk með geðrænar áskoranir. Í ræðu sinni lýsti hún því yfir að með slíkri ákvörðun væri verið að skilja einn viðkvæmasta hóp samfélagsins eftir án raunverulegra úrræða.

„Ábyrgðin liggur ekki hjá VIRK. Hún liggur ekki hjá geðteymum. Hún liggur hjá heilbrigðisráðherra,“ sagði Ingibjörg og benti á að engin sambærileg þjónusta standi til boða ef Janusi verði lokað. Hún minnti jafnframt á að síðasti ráðherra hafi snúið við sömu ákvörðun vegna skorts á úrræðum – staða sem hún segir að haldist óbreytt.

Ingibjörg gagnrýndi einnig verklag ráðherrans, en velferðarnefnd Alþingis varð að senda sex formlegar beiðnir áður en ráðherra mætti á fund. „Það var gott að fá hana loksins á fund og hún sýndi góðan vilja – en mörgum mikilvægustu spurningum hefur enn ekki verið svarað.“

Ingibjörg lagði áherslu á að ríkisstjórnin, undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, þyrfti að sýna í verki hvernig hún hyggist forgangsraða í geðheilbrigðismálum. „Það væri ekki aðeins rétt, heldur líka rökrétt og mannúðlegt að framlengja starfsemi Janusar – rétt eins og gert var síðast,“ sagði hún að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkis­stjórnin ræðst gegn ferða­þjónustu bænda

Deila grein

14/05/2025

Ríkis­stjórnin ræðst gegn ferða­þjónustu bænda

Undanfarnar vikur hefur ný ríkisstjórn talað hátt og snjallt um aðgerðir gegn húsnæðisskorti, en í skjóli þess hefur hún lagt fram frumvarp sem skerðir verulega möguleika bænda til að stunda heimagistingu – eina af fáum tekjulindum sem styður við búsetu í dreifbýli. 

Á þingi liggur núna frumvarp sem stjórnarliðar segja að sé lausn á húsnæðisvandanum og takmarki heimagistingu um allt land. En það er ekki rétt. Þannig að eina sem hægt er að takmarka núna er það sem var skilið eftir síðast. Það er dreifbýlið. 

Hvað gerði síðasta ríkisstjórn? 

Framsókn hafði áður lagt fram frumvarp sem samþykkt var á síðasta kjörtímabili. Það var til að takmarka Airbnb-útleigu í þéttbýli. Þar var markmiðið að draga úr þrýstingi á leigumarkaðinn og tryggja að íbúðarhúsnæði nýtist frekar til búsetu en sem Airbnb gisting. 

Ég, sem framsögumaður málsins í atvinnuveganefnd, lagði mikla áherslu á að þessi takmörkun skyldi einungis eiga við um þéttbýli – ekki um bændur og aðra í dreifbýli sem hafa nýtt heimagistingu sem tekjuauka. Í upphaflegu frumvarpi átti þessi takmörkun við um allt land, bæði dreifbýli og þéttbýli. 

Við fengum fjölmargar ábendingar um þetta og breyttum frumvarpinu. Það tryggði að bændur þyrftu ekki að fara í kostnaðarsamar deiliskipulagsbreytingar fyrir smáhýsi eða bústaði á jörðum sínum. Þetta var mikilvægt og markviss stuðningur við atvinnu í dreifbýli. Ég er mjög stolt af þeirri vinnu sem við fórum í sem skilaði þeirri niðurstöðu að heimagisting er takmörkuð allverulega í þéttbýli en bændur geta enn haft heimagistingu á jörð sinni. 

Hér má sjá þegar ég flutti framsöguræðu um málið eftir að það var búið í atvinnuveganefnd. 

Hér má sjá þegar þáverandi ráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mælti fyrir frumvarpinu. 

Hvað þýða hugmyndir nýju ríkisstjórnarinnar í alvöru? 

En nú hefur ný ríkisstjórn – undir forystu Samfylkingarinnar – ákveðið að snúa þessari vernd við. Nýtt frumvarp leggur til að heimagisting verði aðeins heimiluð á lögheimili viðkomandi og í einni annarri fasteign utan þéttbýlis. Þessi breyting beinist beint gegn bændum – þeim sem eru með tvö til þrjú smáhýsi eða fleiri – og skerðir möguleika þeirra til að byggja upp litla, sjálfbæra ferðaþjónustu á eigin jörð. 

Í greinargerð nýja frumvarpsins stendur: 

„Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting að skráningarskyld heimagisting afmarkist við lögheimili einstaklings og eina aðra fasteign í eigu hans utan þéttbýlis, en húsnæðisvandi sem leitast er við að greiða úr með frumvarpinu á ekki við utan þéttbýlissvæða.“ 

Akkúrat! Húsnæðisvandinn á ekki við utan þéttbýlissvæða! Af hverju eru þá áhrif nýja frumvarpsins nær eingöngu utan þéttbýlissvæða? 

Er það vegna þess að það var búið að herða lögin á öllum öðrum sviðum og því var þetta það eina sem var eftir? 

Þau þurftu að koma bara með eitthvað til að fólk myndi trúa því að þau væru að fara í raunverulegar aðgerðir fyrir húsnæðismarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Sem þau eru ekki að gera. 

Eina stóra takmörkunin sem hægt er að fara í – varðar bændur 

Þetta er því ekki bara tæknilegt atriði í húsnæðismálum – heldur pólitísk aðgerð gegn landsbyggðinni. Það var sérstaklega biturt að heyra atvinnuvegaráðherra flytja framsöguræðu um þetta mál þar sem aðeins er rætt um leigumarkað og fjárfesta í þéttbýli, en ekkert minnst á þá sem verða raunverulega fyrir áhrifum: bændur á landsbyggðinni, fyrr en í andsvörum alveg í lokin og það svar varð ekki til þess að minnka áhyggjur mínar. Ég vil ekki trúa því að ríkisstjórnin ætli í alvöru að sparka svona harkalega í bændur – en ef þau taka þetta úr frumvarpinu þá er frumvarpið orðið mjög þunnt. 

Þetta er árás á dreifbýlið. 

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþingmaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2025.

Categories
Fréttir

 „Erum við að fá besta verðið?“

Deila grein

13/05/2025

 „Erum við að fá besta verðið?“

Almennt útboð Íslandsbanka hófst í dag en málið kom til umræðu á Alþingi þar sem Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, lýsti yfir efasemdum um bæði tímasetningu og verð við söluna. Hann beindi spurningum til þingsins um hvort ríkið væri að fá rétt verð fyrir eignarhlut sinn í bankanum.

Gagnrýni á tímasetningu og framkvæmd

Í ræðu sinni lagði Stefán Vagn áherslu á að ekki væru liðnir margir dagar síðan fyrirkomulag útboðsins var samþykkt á Alþingi. Hann minnti á að þrátt fyrir almennan stuðning að þessu sinni, hafi málið áður mætt andstöðu. Hann vakti athygli á því að formaður Flokks fólksins hafi í atkvæðaskýringu lýst yfir andstöðu við söluna, þótt flokkurinn hafi greitt henni atkvæði.

„Það er þetta með prinsippin,“ sagði Stefán Vagn og gagnrýndi þá mótsögn sem hann telur birtast í því að greiða atkvæði með máli sem menn telji í grundvallaratriðum rangt.

Afsláttur meiri en áður

Einn af helstu áhyggjupunktum Stefáns Vagns laut að verðlagningu hlutabréfanna. Hann benti á að verðið í útboðinu sé byggt á meðalgengi síðustu 15 viðskiptadaga, sem nú er 112,17 krónur. Frá því verði sé veittur 5% afsláttur sem leiði til útboðsgengis upp á 106,56 krónur á hlut.

„Dagslokagengi í gær, daginn fyrir útboðið, var 114,5 krónur. Afslátturinn er því tæplega 7% miðað við markaðsgengi. Í síðasta útboði fengust 117 krónur á hlut og afslátturinn var 4,1%,“ sagði hann.

Stefán Vagn spurði hvort þetta væri skynsamleg nýting á sameiginlegum auð og hvatti þingheim til að íhuga hvort útboðið tryggi raunveruleg verðmæti fyrir ríkið.

Ábyrgðin hjá öðrum

Stefán Vagn sagðist ekki ætla að fullyrða hvort salan væri rétt ákvörðun á þessu stigi, en krafðist þess að þeir sem stýra sölunni beri ábyrgð og geri grein fyrir afstöðu sinni.

„Er þetta rétti tíminn? Ég get ekki svarað því, því verða aðrir að svara og aðrir að bera ábyrgð á,“ sagði hann og bætti við að mikilvægt væri að læra af reynslu fyrri sölu Íslandsbanka þar sem gagnrýni hefði komið fram, einkum vegna skorts á gagnsæi og lægra söluverðs en búist var við.

Grilla gullgæsina

Stefán Vagn lauk máli sínu með því að rifja upp orð ráðherra og formanns Flokks fólksins sem í umræðu líkti sölu Íslandsbanka við að „grilla gullgæsina“. Hann ítrekaði nauðsyn þess að ganga varlega um arðbæra eign ríkisins.

Categories
Fréttir

150 störf í hættu á Húsavík

Deila grein

13/05/2025

150 störf í hættu á Húsavík

Möguleg rekstrarstöðvun hjá kísilverksmiðjunni PCC BakkaSilicon á Húsavík um mitt sumar vekur djúpar áhyggjur og óvissu um framtíð um 150 starfa og um 50 milljarða fjárfestingu. Jónína Brynjólfsdóttir, varaþingmaður, ræddi málið á Alþingi og hvatti ríkisstjórnina til tafarlausra aðgerða.

„Ef við setjum þetta í samhengi við stærð samfélagsins í Norðurþingi jafngildir þetta því að um 600 manns misstu vinnuna á Akureyri eða 4.200 í Reykjavík,“ sagði þingkonan. „Slík áhrif yrðu samfélaginu þungbær.“

Alþjóðleg samkeppni og undirboð ógna rekstrinum

Rekstraróvissan hjá PCC má rekja til erfiðra aðstæðna á alþjóðamörkuðum. Einkum hefur tollastríð og samkeppnishalli vegna undirboðs á kísilmálmi – aðallega frá Kína – haft áhrif á stöðu fyrirtækisins. Kína framleiðir nú um 80% af allri heimsframleiðslu á kísilmálmi og selur hann á verðum sem margir telja ósanngjörn.

„Verksmiðjan á Húsavík framleiðir hágæðavöru með lágu kolefnisspori, en það virðist ekki metið til verðs á markaði,“ sagði Jónína. Hún tók fram að PCC hafi átt gott samstarf við bæði sveitarfélagið og stéttarfélög og sé lykilþáttur í atvinnulífi á svæðinu.

Kallar eftir stuðningi við ábyrgari iðna

Jónína sagði nauðsynlegt að Ísland endurmeti forsendur fyrir rekstrarhæfi slíkra grænna iðnfyrirtækja og leggi þeim lið, m.a. með því að krefjast upprunavottorða í hráefnakaupum og hvetja íslensk álver til að versla innanlands.

„Það er ekki forsvaranlegt að íslensk álver kaupi kísilmálm frá kolakyntum verksmiðjum þar sem mannréttindi eru jafnvel fótum troðin, þegar við höfum hér umhverfisvæna og ábyrga framleiðslu,“ sagði hún.

Jónína greindi einnig frá því að PCC hefði nýlega kært undirboð frá Kína til fjármála- og efnahagsráðuneytisins og krafist viðskiptaverndar – með fordæmi frá bæði Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Þá benti hún á að sambærilegar verksmiðjur í Noregi njóti sérstakra hvata og afslátta á raforku til að styðja við rekstur þeirra.

„Ábyrgðin er okkar allra“

Að lokum skoraði Jónína á ríkisstjórnina að bregðast tafarlaust við stöðu PCC og sýna málinu sömu alvöru og ef fjöldi starfa í höfuðborginni væri í húfi. „Það þarf að grípa til aðgerða núna – með sömu alvöru og ef um væri að ræða 4.200 störf í Reykjavík. Ábyrgðin er okkar allra.“

Categories
Fréttir Greinar

Tími til um­bóta í byggingar­eftir­liti

Deila grein

13/05/2025

Tími til um­bóta í byggingar­eftir­liti

Húsnæðismál eru eitt stærsta hagsmunamál almennings. Þegar fólk fjárfestir í íbúð, leggur það oft stærstu fjárhagslegu skuldbindingu ævi sinnar undir. Þá skiptir öllu máli að sú íbúð sé örugg, vönduð og án leyndra galla. Því miður hefur íslenskt kerfi í mannvirkjagerð um árabil dregist aftur úr og núverandi fyrirkomulag byggingareftirlits veitir hvorki neytendum næga vernd né stuðlar að faglegri og skilvirkri uppbyggingu.

Ný skýrsla Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sem unnin var í framhaldi af vinnu sem ég sem innviðaráðherra beitti mér fyrir, dregur þetta skýrt fram. Þar er lagður fram vegvísir að breyttu eftirliti á Íslandi, sem setur fram djörf en nauðsynleg markmið fyrir íslenskan mannvirkjaiðnað.

Um er að ræða kerfisbreytingar sem lúta að ytra eftirliti, ábyrgð í framkvæmd og tryggingum. Meðal tillagna er að leggja niður byggingarstjórakerfið, koma á fót óháðum skoðunarstofum sem framkvæma eftirlit og festa í sessi lögbundna byggingargallatryggingu sem verndar kaupanda, jafnvel ef byggingaraðili verður gjaldþrota. Þessar breytingar eru ekki einungis til að auka gæði í mannvirkjagerð – þær eru líka efnahagslega skynsamlegar.

Kostnaður vegna byggingargalla er nú metinn á að minnsta kosti 25 milljarða króna árlega. Með því að færa ábyrgð til þeirra aðila sem raunverulega ráða yfir verkinu – hönnuða, iðnmeistara og einkum verkeiganda – má draga úr ósýnilegum áhættuþáttum sem valda skaða fyrir neytendur og samfélagið í heild. Lögbundin byggingargallatrygging, að danskri fyrirmynd, getur þar orðið lykilatriði.

Skýrslan undirstrikar einnig mikilvægi stafrænnar þróunar, samræmingar umsóknarferla og gagnsæis í framkvæmdum. Með því að nýta Mannvirkjaskrá sem miðlægt kerfi má einfalda stjórnsýsluna, draga úr kostnaði og tryggja rekjanleika. Þetta eru raunhæfar og framkvæmanlegar tillögur sem eiga sér fyrirmynd í árangursríkum breytingum á rafmagnseftirliti frá árinu 1997.

Umbætur af þessu tagi gerast ekki á einni nóttu. Þær krefjast samráðs, aðlögunar og samstöðu. En með réttum skrefum má byggja upp kerfi sem umbunar vönduðum aðilum og ver neytendur gegn dýrum og oft ósýnilegum byggingargöllum.

Nú er rétti tíminn til að hrinda þessum breytingum í framkvæmd. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur lagt traustan grunn. Næsta skref er pólitísk forysta og breið samstaða um að framtíð mannvirkjagerðar á Íslandi eigi að byggjast á ábyrgð, gagnsæi og hagsmunum almennings. Það er mikilvægt að nú verði unnið hratt og vel að framgangi málsins sem snýr að grundvallarhagsmunum fyrir alla landsmenn.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. maí 2025.

Categories
Greinar

Borg þarf breidd, land þarf lausnir

Deila grein

12/05/2025

Borg þarf breidd, land þarf lausnir

Ég var svo dásamlega lánsöm að alast upp á heimili þar sem rætt var um stjórnmál og enn lánsamari með það að ekki voru öll sammála. Við borðið hjá ömmu þar sem ég dvaldi öllum mögulegum stundum voru sjónarmið sósíalista yfir í frjálshyggju og allt þar á milli rædd yfir kaffinu. Fólk ræddi málin, hækkaði stundum röddina en naut þess jafnframt að verja tíma saman og borða saman. Ef til vill hef ég öðlast skilning á því að hversu ólíkar skoðanir fólks geta verið við það að alast upp við frjáls og óheft skoðanaskipti. Fólk fær drifkraft frá ólíkum hlutum og hefur misjafna sýn á lífið, þó það sé úr sömu fjölskyldunni. Alla tíð hef ég litið á það sem gjöf að í stjórn landsins sé fólk sem er fulltrúar þessarar fjölbreytni.

Það er að mínu viti ómögulegt að ætla að stýra landi eða sveitarfélagi út frá einni stefnu, því þá þjónum við bara einum hópi fólks. Við erum samfélag mismunandi heima, ólíkrar reynslu og fjölbreyttra skoðanna. Til að skapa trúverðugt og traust samfélag þar sem við þjónum breiðum hópi fólks þá þarf að vera fjölbreytni, ólíkar lausnir og fjölbreyttar leiðir að markmiðum. Borgin má og á að vera fjölbreytt. Fólk þarf að hafa val um það hvort það vill nýta sér þær samgöngur sem eru í boði en þær þurfa þá einnig að vera raunverulegur valkostur fyrir fólk. Einnig á fólk að geta valið hvort það vill búa á svæði umkringt litlum grænum svæðum eða á þéttbýlum reit þar sem þú getur skokkað á náttsloppnum í næstu verslun því mjólkin gleymdist.

En umfram allt þurfum við að vera tilbúin að hlusta hvert á annað. Með virðingu og hlustun getum við setið við sama borðið og notið samverunnar þrátt fyrir ólíkar skoðanir. Ef við hlustum, heyrum við líka að um margt erum við sammála. Það þarf að moka snjóinn þegar það snjóar, hvort heldur fyrir gangandi, hjólandi eða akandi svo við komumst leiðar okkar. Það þarf einnig að hirða sorpið því okkur líður betur í hreinni og vel hirtri borg. Það þarf að huga að innviðum því við viljum ekki að fólk þurfi að stunda vinnu sína eða nám í óheilnæmu umhverfi.

Það er nefnilega þannig að það er meira sem sameinar okkur en sundrar ef við erum tilbúin að hlusta.

Af hverju framsókn?

Þegar ég er í kringum Framsóknarfólk, þá er ég í kringum fólk sem skilur einnig að borg þarf breidd. Landið þarf lausnir. Fólk sem skilur og setur í fólk og fjölskyldur í forgang. Framsóknarfólk skilur að jafnrétti og fjölbreytileiki eru ekki bara hugtök, heldur lykillinn að hamingjusömu samfélagi. Kannanir hafa sýnt að Framsóknarfólk er hamingjusamara og það kemur mér ekki á óvart.

Ásta Björg Björgvinsdóttir, formaður Framsóknarflokksins í Reykjavík og varaborgarfulltrúi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Aldrei aftur

Deila grein

10/05/2025

Aldrei aftur

Ég man svo vel eftir ritgerð sem ég skrifaði sem nemandi í háskólanum um þjóðarmorðin í Rwanda.

Þegar ég fór yfir söguna greiptist hún fast í huga mér. Þar féllu þúsundir Tútsa fyrir framan augu heimsins og enginn svaraði kallinu. Slátrun Tútsa var síðar staðfest sem þjóðarmorð. Í kjölfar þess stigu fjöldi ríkja fram og leiðtogar heimsins kepptust við að segja; aldrei aftur. Aldrei aftur munum við láta söguna þróast með þessum hætti.

Í dag virðist sagan þó endurtaka sig á Gaza. Og aftur horfir heimurinn þögull á hryllingsmynd í beinni.

Í aðdraganda þeirra kosninga sem haldnar á Íslandi á síðasta ári kepptust leiðtogaefni um að fara yfir hvernig þau myndu leggja hönd á plóg kæmust þau til valda. Hvernig þau ætluðum að nýta rödd sína og áhrif sem boðberar friðar, beita sér í samvinnu við Norðurlöndin og svo lengi mætti telja.

Síðan þá hefur afar lítið gerst þó svo að staðan hafi hríðversnað – en frá því í janúar hafa yfir 30 þúsund látið lífið, mest konur og börn.

Það er ekki boðlegt að leiðtogaefni keppist um að stíga fram sem friðardúfur í aðdraganda kosninga og þegi svo þunnu hljóði úr valdastóli. Afboði sig á mikilvægan friðarviðburð í Auschwitz, gefist strax upp á að ná saman með Norðurlöndum um aðgerðir, og tjái sig takmarkað fyrr en allt í einu um Eurovision þegar þátttaka þjóða í keppninni liggur þegar fyrir.

Sameiginleg yfirlýsing ráðherra í vikunni var þó jákvæð ljóstíra úr dimmum dal deyfðar á málinu miðað við yfirlýsingar. Vert er að undirstrika að allir gera sér grein fyrir að staðan er afar flókin og krefst mikillar vandvirkni.

Kæru ráðamenn þjóðar vor; verið sannar í orðum ykkar og gjörðum. Þið eruð fyrirmyndir, ekki síst fyrir unga fólkið okkar um hvað loforð og yfirlýsingar í raun þýða. Þeim fylgir ábyrgð. Nú þarf að rísa undir þeirri ábyrgð.

Hvar standið þið og þjóðin öll þegar nemendur framtíðarinnar rýna í söguna?

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Samvinnuhreyfingin á Íslandi

Deila grein

10/05/2025

Samvinnuhreyfingin á Íslandi

Sam­einuðu þjóðirn­ar hafa helgað þetta ár sam­vinnu­hreyf­ing­um um all­an heim und­ir yf­ir­skrift­inni „Sam­vinna um betri heim“. Þar er horft til já­kvæðra sam­fé­lags­legra áhrifa sam­vinnu­fé­laga og hvernig þau hafa leyst marg­ar áskor­an­ir sam­tím­ans, einkum á sviði efna­hags- og fé­lags­mála.

Sam­vinnu­hreyf­ing­in á Íslandi á ræt­ur að rekja til árs­ins 1882, þegar Kaup­fé­lag Þing­ey­inga var stofnað. Á þess­um tíma höfðu kjör bænda versnað veru­lega, einkum vegna hás vöru­verðs og ein­ok­un­ar kaup­manna. Bænd­ur vildu tryggja sér betri viðskipta­kjör með því að sam­ein­ast um vöru­kaup og sam­eig­in­lega sölu afurða. Stofn­un fé­lags­ins markaði upp­haf nýrr­ar fjölda­hreyf­ing­ar meðal Íslend­inga og inn­an fárra ára­tuga spruttu kaup­fé­lög upp víða um land.

Fyrstu kaup­fé­lög­in voru hluti af þjóðern­is­vakn­ingu og sjálf­stæðis­bar­áttu 19. ald­ar. Fjöldi sam­vinnu­fé­laga var stofnaður, einkum á Norður­landi og Aust­ur­landi. Þar má nefna Kaup­fé­lag Eyf­irðinga (KEA), stofnað 1886, og Kaup­fé­lag Skag­f­irðinga (KS), stofnað 1889, auk fjöl­margra smærri fé­laga um land allt. Áhrif hreyf­ing­ar­inn­ar voru víðtæk og um tíma var þriðjung­ur þjóðar­inn­ar fé­lag­ar í sam­vinnu­fé­lög­um.

Fram­gang­ur sam­vinnu­hreyf­ing­ar­inn­ar skipti sköp­um fyr­ir efna­hags­lega þróun Íslands á 20. öld. Efna­hags­leg framþróun Íslands varð hraðskreiðari og bjó til meiri jöfnuð vegna sam­vinnu­hug­sjón­ar­inn­ar. Sam­vinnu­hreyf­ing­in kom að mörg­um mik­il­væg­um fé­lags­leg­um verk­efn­um, til dæm­is í hús­næðismál­um, þar sem bygg­ing­ar­sam­vinnu­fé­lög reistu fjöl­býl­is­hús víða um þétt­býli. Þannig ruddi hreyf­ing­in braut­ina fyr­ir at­vinnuþróun og innviðaupp­bygg­ingu í fjöl­mörg­um byggðarlög­um, oft í sam­starfi við bænda- og verka­lýðshreyf­ing­ar.

Sam­vinnu­fé­lög eru stofnuð af ein­stak­ling­um til að vinna að sam­eig­in­leg­um hags­mun­um og eru jafn­an rek­in á lýðræðis­leg­um grunni. Hagnaði þeirra er ráðstafað til sam­eig­in­legra sjóða og upp­bygg­ing­ar frem­ur en að vera greidd­ur út sem arður. Meg­in­mark­miðið er að byggja upp nærsam­fé­lagið og veita fé­lags­mönn­um hag­kvæma þjón­ustu. Níu kaup­fé­lög eru starf­andi í dag og eru öll að efla nærsam­fé­lag sitt.

Sam­vinnu­formið á enn fullt er­indi í nú­tíma­legt ís­lenskt rekstr­ar­um­hverfi. Með samþykkt nýrr­ar lög­gjaf­ar á síðasta þingi hef­ur stofn­un sam­vinnu­fé­laga verið ein­földuð; lág­marks­fjöldi stofn­enda var lækkaður úr 15 í 3 aðila. Á sama tíma og gervi­greind mun hafa djúp­stæð áhrif á vinnu­markaðinn gef­ast ný tæki­færi til ný­sköp­un­ar og at­vinnu­upp­bygg­ing­ar með aðstoð sam­vinnu­fé­laga.

Stærstu breyt­ing­ar á vinnu­markaði í ára­tugi eru fram und­an. Ísland býr yfir öll­um for­send­um til að nýta gervi­greind­ina til að auka hag­vöxt og vel­sæld. Til þess þarf sam­vinnu­hug­sjón­ina – nú meira en nokkru sinni fyrr.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. maí 2025.

Categories
Greinar

Tími kominn til að endurmeta þéttingarstefnuna

Deila grein

09/05/2025

Tími kominn til að endurmeta þéttingarstefnuna

Fyr­ir­sögn­in kann að valda óánægju hjá Sam­fylk­ing­ar­fólki en staðreynd­irn­ar tala sínu máli. Þétt­ing byggðar í Reykja­vík gagn­ast borg­ar­bú­um ekki. Síðastliðin 15 ár hef­ur stefna borg­ar­yf­ir­valda verið að þétta byggð til að nýta bet­ur innviði í grón­um hverf­um og til að gera borg­ar­línu mögu­lega. Þetta hef­ur leitt til fjölda vanda­mála sem ekki verður leng­ur horft fram hjá.

Mark­miðið með þétt­ing­unni var að nýta bet­ur þau mann­virki sem þegar eru fyr­ir hendi, allt frá skol­p­lögn­um til skóla og sam­göngu­kerfa, en marg­ir þess­ara innviða eru fyr­ir löngu orðnir úr­elt­ir og sprungn­ir. Dæmi um þetta eru leik- og grunn­skól­ar með myglu­vanda sem þarf að end­ur­byggja frá grunni. Vax­andi um­ferðarteppa á helstu stof­næðum borg­ar­inn­ar á há­anna­tíma er annað aug­ljóst merki um innviðakerfi sem ræður ekki við álagið.

Hús­næðis­kostnaður úr bönd­un­um

Eitt helsta lof­orð þétt­ing­ar­stefn­unn­ar var að hægt yrði að byggja ódýr­ari íbúðir þar sem innviðir væru þegar fyr­ir hendi. Það lof­orð hef­ur ekki staðist. Þvert á móti hef­ur lóðaverð í grón­um hverf­um rokið upp, sem og bygg­ing­ar­kostnaður. Í stærstu þétt­ing­ar­verk­efn­un­um, á borð við Lauga­veg/​Suður­lands­braut og í Voga­hverfi, hef­ur borg­in sjálf keypt lóðir fyr­ir háar fjár­hæðir sem end­ur­spegl­ast í íbúðaverði þar sem fer­metra­verð fer nú yfir eina millj­ón króna.

Þessi þróun kem­ur sér­stak­lega illa niður á ungu fólki sem vill kaupa sitt fyrsta hús­næði og stofna fjöl­skyldu. Leigu­verð hef­ur einnig hækkað mikið og ekki er ósenni­legt að þessi þróun hafi áhrif á fæðing­artíðni í land­inu með al­var­leg­um lang­tíma­af­leiðing­um fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Eins­leit byggð og vannýtt rými

Meiri­hluti nýrra íbúða í þétt­ing­ar­verk­efn­um er í fjöl­býl­is­hús­um, sem leiðir til eins­leitr­ar byggðar. Íbúar kvarta yfir skugga­varpi, skertu út­sýni og tak­mörkuðu aðgengi að græn­um svæðum. Þá standa þjón­ustu- og versl­un­ar­rými oft tóm þar sem ekki er næg­ur fjöldi viðskipta­vina í hverf­un­um né bíla­stæði fyr­ir þá sem búa ekki á staðnum. Hlíðar­enda­hverfið og Snorra­braut­in eru góð dæmi um að hug­mynd­in um „15 mín­útna hverfi“ geng­ur illa upp í raun­veru­leik­an­um.

Tóm versl­un­ar­rými á jarðhæð fjöl­býl­is­húsa eru ekki aðeins sjón­meng­un, held­ur sóun á dýr­mætu rými. Verk­tak­ar neyðast svo til að velta kostnaði þeirra yfir á aðrar íbúðir í hús­inu, sem hækk­ar enn frek­ar fast­eigna­verð.

Sam­göngu­vandi og bíla­stæðaskort­ur

Bíla­stæðum hef­ur verið vís­vit­andi fækkað, þrátt fyr­ir að 70% borg­ar­búa noti einka­bíl til dag­legra ferða. Nýj­ar íbúðir eru hannaðar með færri en einu bíla­stæði á íbúð sem kem­ur illa við fjöl­skyld­ur og eldri borg­ara sem geta ekki nýtt strætó. Hér er lík­lega kom­in ein af ástæðunum fyr­ir því hvers vegna nýj­ar íbúðir á þétt­ing­ar­reit­um selj­ast illa, eins og komið hef­ur fram í fjöl­miðlum. Á sama tíma hafa stór sam­göngu­verk­efni taf­ist um ár­araðir. Sunda­braut, Miklu­braut­ar­stokk­ur og aðrir nauðsyn­leg­ir innviðir sitja á hak­an­um á meðan fjár­mun­um er varið í dýr­ar hug­mynd­ir eins og borg­ar­línu og göngu­brýr sem eru ólík­lega að fara að leysa um­ferðar­vand­ann. Al­menn­ings­sam­göng­ur eru mik­il­væg­ar til að tryggja val­frelsi fólks til að velja þann sam­göngu­máta sem það kýs og létta á um­ferð en það má ekki setja fókus­inn á upp­bygg­ingu al­menn­ings­sam­gangna á kostnað þess að leysa um­ferðar­vanda borg­ar­inn­ar. Reykja­vík er strjál­býl borg á alþjóðavísu en hér er verið að reyna að inn­leiða dýr­ar sam­göngu­lausn­ir eins og gert er í er­lend­um stór­borg­um sem eru byggðar þétt vegna nauðsynj­ar en ekki vegna mis­ráðinn­ar stefnu.

Óánægja íbúa og val­frelsi

Þétt­ing­ar­stefn­an er núna byrjuð að teygja sig aust­ar í borg­ina á svæði þar sem borg­ar­bú­ar leituðu í til að fá að vera nær nátt­úr­unni og fá meira rými. Verið er að reyna að inn­leiða þétt­ing­ar­stefn­una í Grafar­vogi í óþökk íbúa auk þess sem uppi eru þétt­ingaráform í Breiðholti sem eru byrjuð að valda ugg hjá íbú­um. Fólkið sem býr þarna flutt­ist í út­hverfi til að fá rými og frið. Það á því ekki að koma á óvart að óánægja íbúa skuli fyr­ir­finn­ast. Þetta sýn­ir hversu mik­il­vægt það er að hlusta á íbúa og við í Fram­sókn ber­um einnig ábyrgð á að það hef­ur ekki alltaf tek­ist nógu vel.

Tími til að staldra við

Of­uráhersla á að þétta byggð hef­ur leitt til ósjálf­bærs hús­næðis­kostnaðar, slakr­ar nýt­ing­ar á rými, van­fjár­magnaðra innviða, meiri um­ferðar­vanda og vax­andi óánægju borg­ar­búa. Það vilja ekki all­ir búa í blokk­um í þéttri byggð og það ber að virða það sjón­ar­mið.

Eft­ir tæp­lega þriggja ára setu í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði sé ég æ bet­ur að stefna borg­ar­inn­ar varðandi þétt­ingu þarfn­ast end­ur­mats. Það þarf að draga úr þétt­ingaráform­um í grón­um hverf­um og hlusta bet­ur á ósk­ir borg­ar­búa. Við þurf­um að fjár­festa meira í sam­göngu­innviðum eins og Sunda­braut sem mun leiða til þess að hægt verður að brjóta nýtt bygg­ing­ar­land og reisa íbúðir sem fólk hef­ur efni á, í hverf­um þar sem fólk vill búa, með fjöl­breyti­leika og val­frelsi að leiðarljósi.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borg­ar­full­trúi Fram­sókn­ar og sit­ur í um­hverf­is- og skipu­lags­ráði Reykja­vík­ur­borg­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2025.