Categories
Fréttir

Stöðugleikareglan „hangir á 15 milljónum“

Deila grein

15/12/2025

Stöðugleikareglan „hangir á 15 milljónum“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, lýsti verulegum áhyggjum af tekjuforsendum fjárlaga í ræðu í óundirbúnum fyrirspurnum og spurði fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann deildi þeim áhyggjum að forsendurnar væru „afar hæpnar“ á nokkrum lykilsviðum.

Stefán Vagn vísaði til síðasta minnisblaðs sem fjárlaganefnd og í efnahags- og viðskiptanefnd hefðu fengið, þar sem fram kom að tekjur ríkissjóðs væru að lækka um 6 milljarða króna og gjöld um 5,3 milljarða, þannig að „gatið“ í stöðunni væri að aukast um 700 milljónir króna.

Stefán Vagn lagði sérstaka áherslu á stöðugleikaregluna og sagði að hún, sem áður hefði verið „28 millj. kr. plús“, væri nú komin í „15“. „Stöðugleikareglan hangir á 15 millj. kr.,“ sagði hann og taldi þetta benda til þess að svigrúm fjárlaga væri orðið mjög lítið.

Dregur í efa áætlanir um skatttekjur og vörugjöld

Stefán Vagn tók dæmi um tekjuliði sem hann taldi að gætu reynst ótraustir. Hann benti á að tekjuskattur lögaðila ætti að hækka á næsta ári „þrátt fyrir að hann sé ekki að skila sér að fullu nú seinni hluta árs“. Einnig nefndi hann vörugjöld upp á 7,5 milljarða króna, sem væru áætluð þótt innflutningur bíla væri að aukast og að fulltrúar bílasala og bílaleiga hefðu staðfest þá þróun í nefndarstarfi.

„Það virðist vera að þarna séu menn á afar hæpnum forsendum á mjög mörgum stöðum,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að hann teldi brýnt að ráðherra tæki af skarið um hvort raunhæft væri að stöðugleikareglan héldi, miðað við þessar forsendur.

Veiðigjöld og „betri heimtur“ nefnd sem tekjubót

Stefán Vagn sagði jafnframt að veiðigjöldin væru að lækka um 6,7 milljarða króna, en á sama tíma væri boðuð aukning tekna ríkissjóðs sem kæmi „inn á milli umræðna“, meðal annars 1,1 milljarður króna sem rökstuddur væri með „betri heimtum“ af hálfu ríkisskattstjóra.

Í lok ræðunnar ítrekaði hann spurningu sína til fjármála- og efnahagsráðherra um hvort ráðherra deildi ekki þeim áhyggjum að með þessum forsendum væri „afar hæpið“ að stöðugleikareglan héldi þegar fjárlögin yrðu afgreidd.

Categories
Greinar

Dulbúnar skattahækkanir og meirihlutinn slær gervigrasvöll af á þessu kjörtímabili í Suðurnesjabæ

Deila grein

13/12/2025

Dulbúnar skattahækkanir og meirihlutinn slær gervigrasvöll af á þessu kjörtímabili í Suðurnesjabæ

Á síðasta fundi bæjarstjórnar Suðurnesjabæjar var fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árin 2026–2029 samþykkt með atkvæðum Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans. Þrátt fyrir að meirihlutinn kynni áætlunina sem skattalækkun felur hún í sér raunhækkun á álögum á fasteignaeigendur í bænum.

Þótt álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki á pappírnum eru aðrir álagningar- og gjaldaliðir hækkaðir á sama tíma. Samkvæmt útreikningum leiðir þetta til þess að heildarálögur á fasteignaeigendur í Suðurnesjabæ hækka milli áranna 2025 og 2026 um tæplega 30 milljónir króna.

Önnur pólitísk tíðindi eru þau að meirihlutinn hefur ákveðið að slá gervigrasvelli í Suðurnesjabæ af á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir að slíkt verkefni sé sérstaklega nefnt í stjórnarsáttmála flokkanna sem mynda meirihlutann. Þetta lýsir í raun getuleysi meirihlutans til að klára málið, sem er miður í ljósi þess að mikil vöntun er á vetraraðstöðu fyrir knattspyrnuiðkun í sveitarfélaginu.

Skortur á vetraraðstöðu hefur orðið þess valdandi að nánast öll knattspyrnuiðkun sem stunduð er í Suðurnesjabæ fer nú fram annaðhvort í Reykjanesbæ eða á höfuðborgarsvæðinu yfir vetrarmánuðina.

Rekstur Suðurnesjabæjar er í grunninn traustur og tölurnar í áætluninni sýna það skýrt. Áætluð rekstrarniðurstaða er jákvæð um 325 m.kr. í A-hluta og 406 m.kr. í samstæðu A og B. Veltufé frá rekstri nemur 996 m.kr. (12,8%) og handbært fé í árslok er áætlað 851 m.kr. Þessi staða undirstrikar að svigrúm er til staðar til að forgangsraða betur og vanda vinnubrögð, án þess að auka álögur á íbúa. Þegar rekstrarstaðan er jafn sterk og raun ber vitni ætti markmiðið að vera að létta byrðar heimilanna og efla raunverulegt samráð, frekar en að fela raunhækkun gjalda á bak við lækkun á einstökum prósentum.

Bókun frá bæjarfulltrúum Anton K. Guðmundssyni og Magnúsi Sigfúsi Magnússyni, lögð fram við afgreiðslu fjárhagsáætlunar:

Þó meirihlutinn lækki álagningarstuðla á fasteignaskatt er hann á sama tíma að hækka aðra álagningarstuðla. Af þeim sökum hækka skattar á fasteignaeigendur í Suðurnesjabæ milli áranna 2025 og 2026 um 29.711.812 kr.

Bæjarfulltrúarnir Anton K. Guðmundsson og Magnús Sigfús Magnússon vilja jafnframt gera athugasemdir við skort á samráði við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Minnihlutinn fékk einungis aðkomu að tveimur vinnufundum þar sem eingöngu var farið yfir glærur og engar ákvarðanir teknar, auk þess sem ákvörðun um fundartíma var ekki í samráði við fulltrúa minnihlutans. Þetta fyrirkomulag samráðs var því hvorki fullnægjandi né í samræmi við það sem telja má eðlilegt í lýðræðislegum vinnubrögðum.

Af ofangreindum ástæðum geta bæjarfulltrúarnir Anton K. Guðmundsson og Magnús Sigfús Magnússon ekki stutt framlagða fjárhagsáætlun og sitja því hjá við afgreiðslu hennar.

Anton K. Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Magnús Sigfús Magnússon, bæjarfulltrúi í Suðurnesjabæ.

Categories
Fréttir

„Fúsk“

Deila grein

12/12/2025

„Fúsk“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, fór yfir í ræðu í óundirbúnum fyrirspurnum röð „óheppilegra“ ákvarðana ráðherra ríkisstjórnarinnar undanfarinna vikna og sagði framgöngu einstakra ráðherra bera merki óvandaðra vinnubragða sem ættu ekki að líðast hjá framkvæmdarvaldinu.

Sigurður Ingi lýsti í ræðu sinni því að framlagning samgönguáætlunar hefði verið sett fram með miklum yfirlýsingum, en síðan hafi komið í ljós að innviðaráðherra hefði ekki kynnt sér til hlítar þær skýrslur sem áætlunin ætti að byggja á. Hann sagði slíkt grafalvarlegt þegar verið er að móta langtímasýn um innviði og fjárfestingar.

Sigurður Ingi beindi spjótum sínum að mennta- og barnamálaráðherra og sagði ráðherrann „fara um eins og stormur á jólanótt“ og „kippa mönnum úr embætti“, án þess að skýr lagastoð lægi fyrir og áður en ríkisstjórnin hefði tekið endanlegar ákvarðanir eða útfært málið. Hann sagði slíka stjórnsýslu minna á framgöngu félagsmálaráðherra í upphafi kjörtímabilsins, þegar ekki átti að skipa í stjórnir þar sem áform væru um að leggja þær niður síðar.

Í lokin sneri Sigurður Ingi sér að utanríkisráðherra og vísaði til þess að á síðasta kjörtímabili hefði Viðreisn gagnrýnt „fúsk“ og „óvönduð vinnubrögð“ í stjórnarframkvæmd. Hann spurði hvort utanríkisráðherra væri sammála forsætisráðherra, sem hann taldi hafa samþykkt aðgerðirnar og bera með þeim „meðvirka“ ábyrgð. Þá vildi hann vita hvort utanríkisráðherra hefði verið upplýst um umræddar ákvarðanir áður en þær komu fram og hvort hún myndi, ef hún gæti „spólað aftur í tíma“, sjálf kalla þetta „fúsk“, með sama orðfæri og Viðreisn hafi áður beitt þegar stjórnarhættir voru gagnrýndir.

Categories
Fréttir Greinar

Framfarir og áskoranir í velferðarþjónustu Borgarbyggðar

Deila grein

12/12/2025

Framfarir og áskoranir í velferðarþjónustu Borgarbyggðar

Á yfirstandandi kjörtímabili hefur mikið verið unnið að því að efla og samræma velferðarþjónustu sveitarfélaga á Vesturlandi. Markmið með auknu samstarfi er að efla þjónustuna og skapa kraftmikinn vettvang til samstarfs fyrir reynslumikinn og öflugan hóp starfsmanna sveitarfélaganna á Vesturlandi í málaflokknum. Stór framfaraskrefi hafa verið tekin í fjölda þróunarverkefna, samstarf hefur verið að þéttast á milli sveitarfélaga og þjónusta við bæði börn, fjölskyldur, aldraða og fatlað fólk verið styrkt.

Stofnaður hefur verið samráðshópur stjórnenda velferðarþjónustu undir hatti SSV. Hópurinn fundar reglulega og hefur reynst mikilvægur vettvangur fyrir samráð og sameiginlega þróun milli sveitarfélaga.  Svæðisbundið Farsældarráð á Vesturlandi hefur verið stofnað. Um er að ræða samstarfsvettvang þjónustuveitenda ríkis og sveitarfélaga sem sinna málefnum barna í landshlutanum. Í ráðinu eiga sæti m.a. fulltrúar leik, grunn- og framhaldsskóla, félagsþjónustu og barnaverndar, heilbrigðisþjónustu, lögreglu, skólaþjónustu, frístunda- og íþróttastarfs, ungmenna sem og aðrir aðilar eftir þörfum svæðisins.

Efling þjónustu og aðstöðu við hóp eldra fólks

Samningur um verkefnið Janus – Heilsueflingu 60+ tók gildi 1. janúar 2024 og hefur verið framlengdur til tveggja ára frá 1. janúar 2026. Í tengslum við verkefnið var m.a. farið í kaup á tækjum í þreksal íþróttahússins í Borgarnesi. Þátttaka í verkefninu hefur frá upphafi verið mjög góð og boðið er uppá tíma með leiðbeinendum bæði í Borgarnesi og á Kleppjárnsreykjum. Í lok nóvember 2024 fór fram þjónustukönnun til þátttakenda, þar sem spurt var út í þjónustuþætti og hvort iðkendur finndu mun á andlegri-, líkamlegri- og félagslegri líðan frá því þau hófu þátttöku. Um 97% iðkenda telja þjónustuna vera góða eða mjög góða. Um 76% iðkenda segjast finna fyrir jákvæðum/mjög jákvæðum breytingum á andlegri- og félagslegri líðan sinni. Þegar spurt var út í líkamlega líðan sögðust tæplega 80% finna fyrir jákvæðum eða mjög jákvæðum breytingum.

Samstarf Öldunnar og félagsstarfs aldraðra hefur verið styrkt verulega. Ný verkefni hafa litið dagsins ljós á árinu, svo sem smíðastofa með opnum tímum þar sem áhersla hefur verið lögð á hóp eldri karla. Sömuleiðis hefur verið boðið uppá gróðurhús þar sem eldri borgarar geta notið samveru og ræktunar yfir sumartímann. Ráðist var í endurbætur á aðstöðu félagsstarfs aldraðra á árinu með nýjum innréttingum og búnaði.

Breytingar voru gerðar á akstursþjónustu fyrir aldraða og fatlaða þegar farið var í útboð á akstrinum.  Reglur þjónustunnar voru jafnframt endurskoðaðar og uppfærðar á árinu. Fyrirtækið Dagleið sinnir nú allri akstursþjónustu sem tryggir skilvirka og samræmda framkvæmd.

Gott að eldast

Vesturland tók stórt skref í samþættingu öldrunarþjónustu þegar umsókn SSV var samþykkt fyrir hönd sveitarfélaganna. Sveitarfélög og HVE standa að verkefninu og þegar hefur verið stofnað MOMA-teymi til að styðja við innleiðinguna. Móttöku- og matsteymi Borgarbyggðar (MOMA teymi). Í teyminu sitja fulltrúar frá félagsþjónustunni, heilsugæslunni í Borgarnesi og Brákarhlíð. Hlutverk þess MOMA teymis er að auka samþættingu á milli stofnana og tyggja að rétt þjónusta sé veitt af réttum aðila á réttum tíma.

Samræmd móttaka og þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd

Í desember 2023 var gerður umfangsmikill samningur um samræmda móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd. Samningurinn, sem hefur verið framlengdur, gerði upphaflega ráð fyrir 180 einstaklingum en sá fjöldi hefur nú verið lækkaður í 140. Samhliða því verður áfram sérstök áhersla á þá vinnu í nánu samstarfi við Vinnumálastofnun um að fækka þeim sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda og markvisst auka þann hóp flóttamanna sem sækir atvinnu og eru virkir þátttakendur í samfélaginu. Ljóst er að sveitarfélagið ber töluverðan og fjárhagslegan þunga vegna fjölda flóttafólks sem hefur verið búsett í yfir tvö ár og framlag frá ríkinu, eða réttur sveitarfélaga til endurgreiðslu er ekki lengur til staðar skv. 15. gr. laga um félagsþjónustu nr. 40/1991. Fulltrúar sveitarfélagsins hafa ávarpað þessar áhyggjur  við ráðherra og þingmenn kjördæmisins.

Breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð í Borgarbyggð

Borgarbyggð tók upp á árinu nýtt fyrirkomulag og færist nú yfir í svokallaða leið B.  Flest sveitarfélög fara nú leið B, en Borgarbyggð var eitt fárra sveitarfélaga sem var enn í leið A. Samkvæmt útreikningi, þá er hagkvæmara fyrir Borgarbyggð að fara leið B. Með breytingunni er bæði dregið úr kostnaði og mögulegt að styðja markvissar við barnafjölskyldur þar sem foreldrar eru á fjárhagsaðstoð. Að mati sveitarfélagsins skilar nýtt kerfi auknu réttlæti: nú er kallað eftir öllum tekjuupplýsingum, einnig erlendis frá, og umsækjendur þurfa að mæta vikulega til að staðfesta búsetu til að tryggja áframhaldandi fjárhagsaðstoð. Ef það er ekki gert, getur það leitt til skerðingar.

Innleiðing farsældar – nýtt verklag í þágu barna og fjölskyldna

Innleiðing löggjafar um farsæld barna er komin langt og hefur markað tímamót í þjónustu við fjölskyldur. Farsældarteymi hefur verið sett á laggirnar og fundar vikulega, auk þess sem stofnað hefur verið farsældarráð sem starfar þvert á sveitarfélög Vesturlands. Fjöldi barna hefur fengið úthlutað tengilið eða málstjóra á öðru og þriðja stigi farsældar, sem tryggir snemmtækan og heildrænan stuðning.

Uppbygging barnaverndarþjónustu

Gerður hefur verið samningur við Hvalfjarðarsveit og sveitarfélög í Byggðasamlagi Snæfellinga um skóla- og félagsþjónustu. Unnið hefur verið hratt og markvisst að því að byggja upp samræmda og öfluga barnaverndarþjónustu á Vesturlandi.

Samhliða undirbúningi að stofnun barnaverndarþjónustu Vesturlands hefur verið komið á fót sameiginlegri bakvakt fyrir Borgarbyggð, Hvalfjarðarsveit, Snæfellsbæ, Grundarfjörð, Stykkishólm og svo Eyja- og Miklaholtshrepp. Frá og með 1. maí sl. var aðeins eitt bakvaktar símanúmer fyrir öll þessi sveitarfélög. Með nýju fyrirkomulagi var stofnað svokallað bakvaktarteymi, þar sem einn stjórnandi er ávallt á vakt fyrir utan þann starfsmann sem sinnir bakvaktinni auk þess sem einn starfsmaður er á útkallsvakt. Vaktir skiptast svo á milli sveitarfélaga eftir ákveðnu kerfi. Með þessu fyrirkomulagi næst ákveðin hagræðing og betri stuðningur við starfsfólkið sem sinnir bakvöktum auk jafnara álags á allt starfsfólk. Sameiginlega bakvakt eykur öryggi og viðbragðsflýti utan hefðbundins vinnutíma.

Notendaráð og stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks

Stofnað hefur verið notendaráð fatlaðs fólks sem stuðlar að auknum áhrifum og rödd notenda í stefnumótun. Hlutverk notendaráðs er að vera ráðgefandi fyrir sveitarfélagið við stefnumörkun og áætlanagerð er varðar málefni fatlaðs fólks og er skipað af notendum. Nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar stefnu í málefnum fatlaðs fólks sem mun marka framtíð þjónustunnar. Markmiðið er að móta stefnu í málaflokkum þar sem lagður er frekari grunnur að öflugri þjónustu við fatlað fólk í samræmi við lög og reglugerðir sem gilda um þjónustuna. Hlutverk hópsins er m.a. að greina stöðu og þarfir fatlaðs fólks í samfélaginu, tryggja samráð á milli stofnanna og starfsfólks, móta framtíðarsýn í málaflokknum og leggja fram aðgerðaráætlun. Í allri þeirri vinnu verður lögð áhersla á samráð við notendaráð fatlaðs fólks, notendur þjónustunnar sem og aðstandendur þeirra eftir þörfum.

Samráðshópur stjórnenda í velferðarþjónustu á Vesturlandi hefur um nokkurt skeið rætt möguleika á sameiginlegri uppbyggingu á skammtímadvöl fyrir fötluð börn og ungmenni. Það er ánægjulegt að geta upplýst það að undirbúningur að skammtímadvöl fyrir fötluð börn í Holti er hafinn. Samstarfsyfirlýsing hefur verið undirrituð milli sveitarfélaga á Vesturlandi og Þroskahjálpar, sem markar upphafið að mikilvægu nýju úrræði fyrir fjölskyldur.

Uppbygging félagslegs leiguhúsnæðis

Það hefur legið fyrir í nokkurn tíma að fara þarf í töluverðar endurbætur á hluta félagslegra íbúða í eigu sveitarfélagsins með tilheyrandi kostnaði. Því lagði velferðarnefnd til að frekari framleiga á húsnæði verði skoðuð til lengri tíma litið og hluti íbúða í mikilli viðhaldsþörf verði seldar þegar þær losna eða leigutaka býðst annað húsnæði. Í framhaldi var farið í að heildstæð vinnu við það að skoða möguleikana á að fjölga og efla félagslegt leiguhúsnæði. Tillögur hafa verið lagðar fram um stefnu sveitarfélagsins um félagslegt húsnæði og í tengslum við það sölu tiltekinna eigna og um samstarf við H-ses félög, með það að markmiði að tryggja bæði hentugri og fjölbreyttari úrræði.

Innleiðing þjónandi leiðsagnar

Þjónandi leiðsögn er nú í innleiðingu á mörgum sviðum velferðarþjónustu, m.a. í búsetuþjónustu, á Öldunni, í frístund, félagsstarfi aldraðra og í félagsmiðstöðinni Óðali.

Með þjónandi leiðsögn er byggt á einstaklingsmiðaðri nálgun þar sem samskipti á milli starfsfólk og notanda eru þungamiðjan. Mannleg gildi, vinátta, umhyggja, tengsl og hvatning eru grundvallaratriði í öllum samskiptum. Með því að innleiða Þjónandi leiðsögn er verið að styrkja grunnstoðir stofnana og vonast er eftir því að árangur í þjónustu verði meiri og líðan notanda sömuleiðis. Með því að hefja innleiðingarferlið i Búsetuþjónustu Borgarbyggðar, í Öldunni og frístund er tekið mikilvægt skref sem síðar mætti nýta til frekari innleiðingar inn í aðrar stofnanir Borgarbyggðar.

Samræmt áfallateymi í Borgarbyggð

Velferðarnefnd hefur lagt mikla áherslu á að stofnað verði samræmt áfallateymi í Borgarbyggð. Samræmt áfallateymi tryggir skjót, samhæfð og fagleg viðbrögð þegar áföll dynja yfir. Með samvinnu ýmissa stofnanna í sveitarfélaginu er hægt að auka fagmennsku, létta álag á kerfum og tryggja heildræna og samfellu í þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur. Vonir standa til þess að snemma á nýju ári verði búið að móta slíkt teymi fyrir Vesturland með aðkomu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands, Rauða krossinum, lögreglunni, þjóðkirkjunni og björgunarsveit ásamt fulltrúum frá Borgarbyggð.

Mannauður málaflokksins

Ljóst er að öflug félags- og velferðarþjónusta sveitarfélaga byggist á öflugum mannauð sem starfar í þessum viðkvæma málaflokk. Í Borgarbyggð starfar öflugt teymi fólks með mikla þekkingu og reynslu. Það fer oft á tíðum ekki mikið fyrir þessum hóp fólks sem starfar „bakvið tjöldin“. Ég er afar þakklát og stolt af þeim öfluga og framsækna hóp starfsmanna sem leiðir málaflokkinn í Borgarbyggð.

Guðveig Lind Eyglóardóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð og formaður velferðarnefndar.

Greinin birtist fyrst á skessuhorn.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þegar líf liggur við

Deila grein

11/12/2025

Þegar líf liggur við

Á undanförnum vikum hefur umræðan um fjárlög næsta árs leitt í ljós grafalvarlega stöðu í fjármögnun krabbameinslyfja. Þessi staða hefur ekki aðeins komið fram í umsögnum helstu fagstofnana, heldur einnig í beinum ábendingum Landspítala, Krabbameinsfélags Íslands og fjárlaganefndar Alþingis. Öll þessi gögn benda til sömu niðurstöðu um að líf fólks og lífsgæði ráðast af ákvörðunum sem teknar eru á Alþingi næstu daga.

Fjárþörf langt umfram áætlanir

Í frumvarpi til fjárlaga er gert ráð fyrir 700 milljóna króna aukningu til lyfjakaupa vegna fjölgunar krabbameinstilfella og raunvaxtar í lyfjakostnaði. Þrátt fyrir það liggur fyrir að þörf er á mun meira fjármagni. Lyfjanefnd Landspítala hefur bent á að tíu nýjar og mikilvægar meðferðir, sem fyrst og fremst varða ný krabbameinslyf sem þegar eru innleidd á hinum Norðurlöndunum, bíða innleiðingar hér á landi. Þetta eru lyf sem geta skipt sköpum en þau lengja líf, bæta lífsgæði og umfram allt auka líkur á bata.

Engu að síður er ljóst að samkvæmt núverandi fjárheimildum er hvorki svigrúm til að taka upp ný lyf né samþykkja nýjar ábendingar fyrir núverandi lyf. Í umsögn forstjóra Landspítala kom fram að rúman milljarð króna vanti til að tryggja eðlilega og nauðsynlega þjónustu á árinu 2026. Sú niðurstaða ein og sér ætti að kveikja rauð ljós.

Íslendingar dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum

Fjárveitingar til nýrra krabbameinslyfja hafa staðið í stað. Á þessu ári hefur ekkert nýtt lyf verið tekið upp og ekkert verður bætt við á næsta ári nema fjárheimildir verði hækkaðar. Afleiðingin er sú að Íslendingar eru að dragast aftur úr öðrum Norðurlandaþjóðum í innleiðingu nýrra meðferða og það þýðir lakari lífshorfur, lakari lífsgæði og ósamræmi við yfirlýst markmið stjórnvalda um heilbrigðisþjónustu á heimsmælikvarða.

Hér er ekki aðeins um fjárhagslegt sjónarmið að ræða, heldur spurningu um hvort íslenskir sjúklingar geti fengið meðferð sem stenst samanburð við það besta sem gerist á Norðurlöndum. Í dag er svarið því miður neikvætt. Veikustu sjúklingar okkar fá ekki aðgang að þeim krabbameinslyfjum sem bjarga lífi og bæta lífsgæði í nágrannalöndum okkar.

Vaxandi þrýstingur á heilbrigðiskerfið

Samkvæmt Krabbameinsfélagi Íslands greinast um 2.000 manns árlega með krabbamein á Íslandi. Spár sýna 63% fjölgun greininga fram til ársins 2045. Sú þróun mun auka stórlega álag á heilbrigðiskerfið og krefjast markvissrar uppbyggingar.

Þá blasir einnig við umtalsverð endurnýjunarþörf lækningatækja, bæði á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Flutningur starfsemi í nýtt húsnæði á Landspítala kallar á endurnýjun fjölmargra tækja. Jafnframt er uppbygging geislameðferðar engan veginn tryggð til framtíðar, þótt kerfið velti nú á yfirvinnu starfsfólks og útvistun meðferða á sjúklingum til útlanda. Ábyrgð stjórnvalda er mikil og margþætt.

700 milljóna króna aukning sem samþykkt var í 2. umræðu fjárlaga dugar ekki þó vissulega sé það jákvætt skref. Minnihluti fjárlaganefndar hefur ekki fengið nákvæmar upplýsingar um raunverulega fjárþörf, en við vitum að hún er umtalsvert meiri ef tryggja á aðgang að bestu krabbameinslyfjunum.

Sjálf hef ég ítrekað óskað eftir upplýsingum um stöðu lyfjakaupa í velferðarnefnd, síðast í síðustu viku. Þrátt fyrir að málið snerti líf og heilsu þúsunda hafa svör ekki borist sem er með öllu óásættanlegt.

En ábyrgð stjórnvalda felst fyrst og fremst í því að tryggja aðgengi að bestu mögulegu meðferð hverju sinni. Þegar fjárlög tryggja ekki fjármagn til að innleiða lífsnauðsynleg lyf eða byggja upp geislameðferðarkerfi sem stenst einfaldar kröfur nútímans þá bregst ríkisvaldið skyldum sínum.

Það er því afar mikilvægt að heilbrigðisráðuneytið og ríkisstjórnin fari yfir framkomin gögn og leggi þegar í stað mat á nauðsyn frekari fjárheimilda.

Líf og lífsgæði ráðast af ákvörðunum næstu daga

Á Alþingi eigum við nú tækifæri til að bregðast við og taka ábyrgðarfullar ákvarðanir. Tryggjum að fjárlög ársins 2026 innihaldi raunhæfar fjárveitingar til lyfjakaupa, til geislameðferðar og til brýnna tækjakaupa. Líf og lífsgæði íslenskra krabbameinssjúklinga ráðast af þeim ákvörðunum sem teknar verða á næstu dögum. Við getum tryggt að þeir njóti sömu meðferðar og lífshorfna og veikustu sjúklingar á hinum Norðurlöndunum, einmitt á þeim tímum þegar mest reynir á í lífi þeirra.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Út­haf efna­hags­mála – fjár­lög 2026

Deila grein

11/12/2025

Út­haf efna­hags­mála – fjár­lög 2026

Með ákveðinni einföldun má líkja efnahagsmálum þjóða við siglingu á úthafi þar sem aðstæður geta breyst hratt. Nú er aukinn mótvindur, vaxandi ölduhæð og óvissan um þróun mála meiri en vænlegt er. Hagvöxtur verður minni en vonast var til, helstu útflutningsgreinar hafa upplifað mótbyr og Seðlabankinn spáir áframhaldandi áskorunum í efnahagslífi þjóðarinnar.

Á slíkum tímum reynir sérstaklega á forystu ríkisstjórnar og Alþingis að sýna samstöðu, festu og raunsæi. Við höfum áður siglt í gegnum margs kyns öldurót og það gerum við áfram með árvekni og ábyrgum aðgerðum.

Jákvæð skref í fjárlagafrumvarpinu

Heilt yfir er jákvætt að ríkisstjórn Íslands haldi fast við markmiðið um jafnvægi í ríkisfjármálum árið 2027 í fjárlögum. Það markmið skiptir máli fyrir stöðugleika og trúverðugleika ríkisfjármála. Þá eru auknar fjárfestingar í lykilinnviðum fagnaðarefni, ekki síst í heilbrigðiskerfi s.s. í málefnum fólks með fíknivanda og í samgöngum sem snerta landið í heild.

Þetta eru allt dæmi um mikilvægar forsendur fyrir öflugu og sanngjarnara samfélagi sem hrósa má fyrir.

Þrátt fyrir þetta eru ýmsar brotalamir í frumvarpi til fjárlaga. Hér eru fimm dæmi um hvar gera þarf betur.

1. Þörf er á átaki og skýrari markmiðum í menntamálum

Staða menntamála er ein helsta áskorun þjóðarinnar. Árangur nemenda er langt frá því að vera ásættanlegur og þróunin á lestrarfærni bendir til kerfislægs vanda. Ef ekkert verður af hálfu ríkisins blasir við hrun í færni, tækifærum og þátttöku ungs fólks í samfélaginu á næstu árum. Þetta varðar ekki aðeins íslenskukunnáttu heldur verðmætasköpun, atvinnulíf og framtíðarstöðu íslenskunnar sjálfrar.

Markmið fjárlagafrumvarpsins um menntamál bera þess ekki nægilega skýr merki að um neyðarástand sé um að ræða.

Þess vegna þarf sameiginlegt menntunarátak þjóðarinnar. Við þurfum að hraða heildarendurskoðun á skipulagi kerfisins, skýra gæðaramma, samræmt ytra mat og gagnadrifnar ákvarðanir. Það þarf líka að auka aga innan skólakerfisins og virðingu fyrir námi í gegnum samvinnu heimilis og skóla.

Við þurfum framtíðarsýn með skýrum mælanlegum markmiðum sem nær yfir leik-, grunn- og framhaldsskóla og tryggir öllum börnum menntun sem stenst bestu alþjóðlegar kröfur. Nú þarf metnað, hugrekki og viljastyrk til breytinga. Ekki orð á blaði.

2. Auka þarf sókn í nýsköpun og efla aðgang að alþjóðlegum mörkuðum

Það blasir einnig við að sókn í nýsköpun og atvinnuþróun er of veikburða miðað við aðstæður. Hagkerfið er að kólna en fjárfestingar í nýjum tækifærum hafa ekki fylgt eftir. Landbúnaður, svo dæmi sé tekið, þarf aukna nýliðun og sókn, ekki hindranir. Fæðuöryggi er hluti af þjóðaröryggi og á að endurspeglast í auknum fjárheimildum til öryggismála.

Þá þarf að styrkja innviði nýsköpunar um allt land. Sprotafyrirtæki og frumkvöðlar eru lykillinn að því að fá meira virði fyrir auðlindir, efla hugvit og móta tækni. Þess vegna leggjum við til aukna fjárfestingu í nýsköpunarverkefnum. Jafnframt leggjum við til átak í alþjóðlegri markaðssetningu fjölbreyttrar íslenskrar framleiðslu; allt frá íslenskum matvælum yfir í hugbúnað og hönnun. Sama á við um ferðaþjónustuna sem er í krefjandi alþjóðlegri samkeppni.

Sóknarfæri Íslands eru til staðar en þau þurfa aukið eldsneyti og kraft. Með því byggjum við fleiri stoðir undir atvinnulífið sem núverandi áskoranir í iðnaði sýna svo glöggt að þörf er á.

3. Varasjóður ríkisins þarf að vera raunhæfur

Almennur varasjóður ríkisins á að vera öryggisventill þegar áföll dynja yfir. Í fjárlögum er hann aðeins 1% af heildarútgjöldum sem er lögbundið lágmark. Það er einfaldlega ekki nægilegt. Forsendur ársins 2026 eru brothættar og reynslan sýnir að óvænt áföll eru regla frekar en undantekning hérlendis.

Ef varasjóðurinn er of rýr er fjárlagafrumvarpið að öllum líkindum of bjartsýnt. Þá næst jafnvægi aðeins ef allt gengur upp og það gerist sjaldan. Við þurfum raunhæf fjárlög, borð fyrir báru og meiri varfærni í áætlanagerð.

4. Tungumálið og menningin eru verðmæti sem þarf að hlúa betur að

Við verðum einnig að horfast í augu við að við fjárfestum ekki nægilega í mikilvægustu innviðum samfélagsins; tungumálinu sem tengir okkur saman og varðveitir að auki bæði menningu okkar og sögu. Án skýrra og róttækra aðgerða heldur staða íslenskunnar áfram að versna. Menningarleg sjálfsmynd okkar, samheldni þjóðarinnar og framtíðarmöguleikar ungs fólks eru í húfi. Hér þarf að fjárfesta mun meira, skýra umgjörð og setja mælanleg markmið í framkvæmd, eins konar TOEFL-próf íslenskunnar. Fjármagn og aðgerðir skila litlu ef ekki er hægt að meta hvernig tekst til.

5. Að standa vörð um landið er skynsamleg fjárfesting

Þá er kominn tími til að endurmeta hvernig við hugsum um landið sjálft. Eignarhald auðlinda skiptir máli. Nýting lands og auðlinda er mikilvægur grunnur fjölbreyttrar verðmætasköpunar á Íslandi en er oft rædd með áherslu á hraða og skammtímaverðmæti. Verndun býr líka til verðmæti og oftar en ekki til lengri tíma.

Sjónarmið þess að fara vel með hálendið þurfa ekki endilega að felast í fórn heldur geta búið til langtímafjárfestingu. Við þurfum að vera opin fyrir því samtali. Ósnortin víðerni eru eins konar náttúruauðlindasjóður sem hækkar í virði eftir því sem þau verða fágætari og eykur sérstöðu Íslands til framtíðar.

Á sama tíma styrkir varfærin innviðauppbygging sérstöðu Íslands í ferðaþjónustu. Hér má enn upplifa eina raunverulega ósnortna hálendisupplifun Evrópu. Slík sérstaða er mikils virði bæði beint og óbeint.

Hugsun um verndun náttúru og ábyrga nýtingu með langtímasýn á að vera leiðarljós í allri okkar áætlunargerð, samhliða öflugri uppbyggingu grunninnviða á borð við heilbrigðisþjónustu, menntun og samgöngur.

Styrkur Íslands eykst með þessum áherslum

Þjóð sem menntar sig vel og fjölgar eggjum í körfu hagkerfisins þegar á móti blæs með áherslu á nýsköpun og sókn atvinnuvega eflir seiglu sína og kraft.

Þjóð sem sýnir ráðdeild á óvissutímum á meiri möguleika ef það gefur á bátinn.

Þjóð sem ver náttúru, tungu og menningu hefur skýran áttavita um hver eru hennar mestu verðmæti.

Með slíkum fjárfestingum hefur Ísland meiri möguleika óháð því hvort við siglum á lygnum sjó eða í ölduhæð úthafsins.

Högum fjárlögum á þá vegu.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ný flug­stöð á rekstar­lausum flug­velli?

Deila grein

11/12/2025

Ný flug­stöð á rekstar­lausum flug­velli?

Reykjavíkurflugvöllur gegnir lykilhlutverki fyrir samgöngur innanlands. Hann er tenging á milli landsbyggðar og höfuðborgar, lendingarstaður fyrir sjúkraflug og varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Um árabil hefur þó tilvist hans verið ógnað. Fólk skiptist í fylkingar, vini eða óvini flugvallarins, eftir því hvort það vilji að hann fari úr Vatnsmýrinni eða ekki. Þannig hefur jafnframt myndast gjá milli ríkis og borgar og borgar og landsbyggðar. Staðreyndin er þó sú að ekki liggur fyrir önnur staðsetning á innanlandsflugvelli á höfuðborgarsvæðinu og þó svo væri er ljóst að uppbygging á nýjum flugvelli tekur langan tíma.

Af samgönguáætlun ríkisstjórnarinnar 2026-2040 má ráða að ríkisstjórnin gerir ekki ráð fyrir að flugvöllurinn sé á förum á næstunni. Þvert á móti á að ráðast í uppbyggingu á nýrri flugstöð. Áætlunin gerir ráð fyrir því að byrjað verði að fjármagna nýja flugstöð árið 2029 og verkið standi yfir til 2040. Á sama tíma gerir aðalskipulag Reykjavíkurborgar þó ráð fyrir að flugvallarstarfsemi í Vatnsmýri leggist af árið 2032. Með öðrum orðum: borgin miðar við að rekstur flugvallarins hætti árið 2032 en ríkið miðar við að klára uppbyggingu á nýrri flugstöð árið 2040. Þarna blasir því við djúpstæð mótsögn á milli ríkis og borgar. Það byggir enginn flugstöð á flugvelli sem er ekki lengur til staðar.

Breyta þarf Aðalskipulagi Reykjavíkurborgar

Árið 2019 gerðu ríki og borg samkomulag um að tryggja rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar þar til nýr flugvöllur, á jafngóðum eða betri stað, væri tilbúinn. Sá staður hefur ekki verið fundinn. Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga hafa skapað verulega óvissu um Hvassahraun sem mögulegt flugvallarstæði og því ólíklegt að fjármagni verði varið í að byggja þar flugvöll. Þrátt fyrir það virðist meirihluti borgarstjórnar ætla að halda fast í stefnu borgarinnar um að flugvöllurinn skuli víkja árið 2032. Jafnframt leggjast borgarfulltrúar meirihlutans gegn uppbyggingu á nýrri flugstöð. Innviða­uppbyggingu sem er mikilvæg til þess að tryggja öryggi og þjónustu við flugfarþega.

Þetta þarf þó ekki að vera togstreita. Aðalskipulag Reykjavíkurborgar er mannanna verk og því má breyta. Á næsta fundi borgarstjórnar leggjum við í Framsókn til að rekstur Reykjavíkurflugvallar verði tryggður út gildistíma aðalskipulagsins.

Orð og verk fara ekki saman

Forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar hefur nýlega viðurkennt að engin ákvörðun liggi fyrir um nýjan flugvöll og að það geti tekið áratugi að koma nýjum flugvelli í gagnið. Hún hefur jafnframt sagt að því verði að styrkja Reykjavíkurflugvöll á meðan enginn annar kostur er fyrir hendi. Þetta eru skynsamleg orð en þau stangast beint á við stefnu borgarstjórnarflokks Samfylkingarinnar, þar sem gert er ráð fyrir að flugvöllurinn hætti starfsemi árið 2032. Spyrja verður því hvort að Samfylkingin ætli að endurskoða aðalskipulagið eða eru orð formannsins merkingarlaus? Hver er raunveruleg stefna flokksins?

Orð eru til alls fyrst en án verka eru þau merkingarlaus.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Erum við að gleyma fólkinu?

Deila grein

11/12/2025

Erum við að gleyma fólkinu?

Fjárlögin segja meira en mörg orð. Þau sýna í verki hvar ríkisstjórn hvers tíma hyggst forgangsraða og hverjir sitja eftir. Fjárlög ársins 2026 benda því miður til þess að fólk í landinu, sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins, sé ekki í forgangi. Þvert á móti er verið að leggja auknar byrðar á heimilin með skattahækkunum, þjónustuskerðingu og útgjaldaaukningu sem standast ekki grunngildi um varúð og ábyrgð.

Loforð um skatta stóðust ekki

Ný ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins lofaði því hátíðlega að skattar á almenning yrðu ekki hækkaðir. En loforðin stóðust ekki. Samsköttun hjóna er afnumin, kílómetragjald kemur til framkvæmda og vörugjöld hækka. Þar að auki eru lagðar 90 milljónir króna í auknar álögur á akstursíþróttir og lyfjakostnaður einstaklinga hækkar.

Allar þessar skattahækkanir lenda á almenningi.

Grundvallarforsendur fjárlaga næsta árs byggjast á afar veikum grunni. Tekjuforsendur fela í sér verulega bjartsýni og jafnvel óskhyggju. Atburðir síðustu mánaða hafa breytt efnahagshorfum verulega til hins verra. Jafnframt má leiða að því líkum að markmið gildandi fjármálastefnu, sem byggjast á forsendum um þróttmikinn hagvöxt, mikla innlenda eftirspurn og stöðugan útflutning, standist ekki lengur.

Útlit er fyrir að hagvöxtur verði mun minni árið 2025 en spáð var, og einnig árið 2026. Í ljósi þess er brýnt að efla verðmætasköpun og styðja við atvinnulífið með raunverulegum aðgerðum sem styðja við nýsköpun, frumkvöðla, matvælaframleiðendur og hugverkaiðnað. Fjárlögin 2026 tryggja ekki nægilegan stuðning eða metnað á þessum sviðum.

Útgjöld ríkisins aukast um 143 milljarða á milli áranna 2025 og 2026, sem er 9% hækkun í 4% verðbólgu. Þetta er mesta hækkun fjárlaga að nafnvirði frá árinu 2007. Við vitum hvernig það endaði en tveimur árum síðar varð efnahagshrun. Með þessu er ekki átt við að hrun sé í vændum nú, en þessi staða minnir okkur á að samhliða auknum útgjöldum verður að huga vel að stöðugleika, verðmætasköpun atvinnulífsins og stuðningi við það.

Fjárlögin fela einnig í sér að hætt er við að fjármagna varasjóði ráðuneyta annað árið í röð. Varasjóðir málaflokka eru til að auka sveigjanleika og draga úr notkun fjáraukalaga. Slíkur niðurskurður takmarkar verulega svigrúm ráðherra til að bregðast við óvæntum aðstæðum.

Heilbrigðisþjónusta vanfjármögnuð

Mikilvægar stoðir samfélagsins fá ekki það fjármagn sem þær þurfa. Meðferðarstofnanir eins og Ljósið, Reykjalundur og Náttúrulækningahælið fá samtals 700 milljónir króna, sem dugar skammt miðað við fyrirliggjandi þörf.

Lyfjamál eru einnig í ólestri. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir undirritaðrar í velferðarnefnd hafa engar haldbærar upplýsingar fengist frá ráðuneyti heilbrigðismála um lyfjakostnað. Ekki er nægilegt fjármagn sett í lyfjamál til að tryggja Íslendingum sem veikastir eru aðgang að bestu fáanlegu krabbameinslyfjum. Þeir sem greinast með krabbamein á Íslandi búa því miður ekki við sömu tækifæri til lækningar og sjúklingar annars staðar á Norðurlöndum. Það er óásættanlegt.

Menntamál vanfjármögnuð

Í menntamálum blasir enn fremur við skortur á faglærðum kennurum, íslenskukennslu og aðgengi að nútímalegum námsgögnum. Í minnihlutaáliti okkar í Framsókn lögðum við til aukin framlög og skýrari markmið um gæði menntunar til að snúa þeirri þróun við og styrkja íslenska menntun til framtíðar. Þeim var hafnað af stjórnarmeirihlutanum.

Margt er jákvætt í fjárlögum ársins 2026 og mikilvægt að við gerum okkur grein fyrir þeim framförum sem þar birtast. En við verðum jafnframt að gera betur. Á Alþingi höfum við tækifæri til að bæta úr og tryggja að fjárlög næsta árs leggi raunhæfan grunn að framtíðinni. Það þýðir meiri varúð í áætlanagerð ríkisins, stuðning við verðmætasköpun og skýra forgangsröðun þar sem velferð fólks er í fyrsta sæti. Það hefur sjaldan verið mikilvægara en nú!

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. desember 2025.

Categories
Fréttir

Framsókn fagnar sigri um Reykjavíkurflugvöll, en hefur Samfylkingin snúið við blaðinu?

Deila grein

10/12/2025

Framsókn fagnar sigri um Reykjavíkurflugvöll, en hefur Samfylkingin snúið við blaðinu?

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gerði alvarlega athugasemd við forsætisráðherra á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnum og krafðist skýrra svara um stöðu Reykjavíkurflugvallar og uppbyggingu nýrrar flugstöðvar í Reykjavík.

Sigurður Ingi minnti á að í umræðu um nýja samgönguáætlun, sem forsætisráðherra hefur lýst sem faglega unninni, að þar væri í raun verið að byggja á þeirri stefnu sem þegar hefði verið mótuð árið 2023, meðal annars um að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi og tryggja uppbyggingu flugstöðvar í Reykjavík.

Í áætluninni er kveðið á um að rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar skuli tryggt „á meðan annar jafn góður eða betri kostur er ekki fyrir hendi“ og að mæta þurfi þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Þá er gert ráð fyrir því að ný flugstöð rísi í samstarfi ríkis og annarra aðila með svokallaðri samvinnuleið og að þegar á næsta ári verði unnin þarfagreining með flugrekendum og flugafgreiðsluaðilum, með áætluðum framkvæmdatíma upp á 24 mánuði.

Framsókn telur þetta skýrt merki um að baráttan fyrir áframhaldandi starfsemi Reykjavíkurflugvallar hafi skilað árangri.

„Við í Framsókn erum auðvitað ánægð með að verið sé að festa Reykjavíkurflugvöll í sessi,“ sagði Sigurður Ingi og lagði áherslu á að það skipti sköpum fyrir öruggar og greiðar samgöngur og jákvæða byggðaþróun um allt land.

Í ræðu sinni beindi hann jafnframt spjótum sínum að meirihlutanum í Reykjavíkurborg, þar sem Samfylkingin fer með forystu, og spurði hvort borgarmeirihlutinn væri meðal þeirra aðila sem kæmu að samvinnuverkefninu um uppbyggingu flugstöðvar. Sigurður Ingi minnti á margra ára yfirlýsta stefnu Samfylkingarinnar um að fjarlægja Reykjavíkurflugvöll úr Vatnsmýrinni og setti spurningarmerki við hvort sú stefna væri nú komin í uppnám í kjölfar ákvörðunar ríkisstjórnarinnar.

Um leið gagnrýndi Sigurður Ingi að forsætisráðherra hefði ekki svarað spurningum Guðrúnar Hafsteinsdóttur um virkni og mikilvægi siðareglna. Hann sagði að það gæti verið mannlegt að gleyma að svara, en ítrekaði að forsætisráðherra skuldaði Alþingi og almenningi skýr svör, bæði um siðareglur og um það hvort ríkisstjórnin og borgaryfirvöld stæðu raunverulega að baki þeirri stefnu að tryggja Reykjavíkurflugvelli framtíð í Reykjavík.

Categories
Fréttir

„Ófagleg vinnubrögð“ gagnvart framhaldsskólunum og blessar forsætisráðherra verklagið?

Deila grein

10/12/2025

„Ófagleg vinnubrögð“ gagnvart framhaldsskólunum og blessar forsætisráðherra verklagið?

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýndi harðlega í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi vinnubrögð ríkisstjórnarinnar gagnvart framhaldsskólunum og spurði hvort forsætisráðherra stæði að baki því að skólameistarar væru látnir víkja án skýrra áforma, án lagastoðar og án þess að Alþingi fengi málið til meðferðar.

Tilefnið er sú ákvörðun mennta- og barnamálaráðherra að endurnýja ekki ráðningar tveggja skólameistara á framhaldsskólastigi, annars vegar við Borgarholtsskóla og hins vegar við Menntaskólann á Egilsstöðum. Forsætisráðherra hefur þegar viðurkennt á Alþingi að hún hafi verið upplýst um að ekki yrði endurnýjað ráðningarsamning skólameistara Borgarholtsskóla. Ingibjörg spurði nú hvort sama ætti við um skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum sem fékk fyrst fregnir af stöðu sinni í fjölmiðlum.

„Staðan sem blasir við er fullkomin óvissa,“ sagði Ingibjörg. Hún benti á að skólasamfélagið fengi engin skýr svör: kennarar, nemendur og foreldrar stæðu nú frammi fyrir „óútskýrðum og óútfærðum stjórnsýslubreytingum“ án þess að sjá heildarmynd eða rökstuðning.

Ráðherra virðist taka ákvörðun um að endurnýja ekki skipun skólameistara út frá áformum um svæðisskrifstofur sem hvorki liggja fyrir í lagafrumvarpi né í samþykktum Alþingis. „Hæstv. ráðherra getur ekki sagt hvernig þessar svæðisskrifstofur eigi að vera, hvar eigi að vera og með hvaða hætti,“ sagði Ingibjörg og benti á að hér væri framkvæmdarvaldið að hrinda í framkvæmd breytingum sem hvorki hefðu verið lögfestar né fengið þinglega meðferð.

Ingibjörg benti einnig á að þetta væri ekki einsdæmi hjá núverandi ríkisstjórn. Hún rifjaði upp ákvörðun þáverandi félags- og húsnæðismálaráðherra um að skipa ekki í stjórn Tryggingastofnunar á þeim forsendum að ætlunin væri að leggja stjórnina síðar niður, þrátt fyrir að ekkert slíkt hefði verið samþykkt á Alþingi. Þau vinnubrögð voru gagnrýnd á sínum tíma, en engu að síður virtist forsætisráðherra „standa með þeim aðgerðum“ eins og Ingibjörg orðaði það.

Ingibjörg lagði þunga áherslu á ábyrgð forsætisráðherra á heildarvinnubrögðum ríkisstjórnarinnar. Hún spurði hvort ríkisstjórnin hygðist breyta hefðum um endurráðningu embættismanna almennt, ekki aðeins skólameistara, og hvort það væri vilji forsætisráðherrans að ráðherrar hennar framkvæmdu ákvarðanir sem „hvorki eiga sér lagastoð né hafa hlotið þinglega meðferð“.

„Hvað finnst hæstv. forsætisráðherra um þessi ófaglegu vinnubrögð gagnvart skólameisturum framhaldsskólanna, gagnvart skólasamfélaginu og gagnvart Alþingi?“ spurði Ingibjörg og krafðist þess að forsætisráðherra tæki skýra pólitíska afstöðu til þess hvort hún hygðist verja ráðherrana eða krefjast faglegra og gagnsærri stjórnsýslu.