Við Íslendingar höfum margt til að vera stolt af þegar við kveðjum árið og horfum til framtíðar. Við búum í samfélagi þar sem lífskjör eru með þeim bestu sem þekkist. Ísland stendur í sterkri stöðu í alþjóðlegum samanburði og við höfum sýnt að hér er hægt að byggja upp öflugt samfélag á grunni vinnusemi, samheldni og skynsamlegrar nýtingar auðlinda. Við erum í öfundsverðri stöðu því fáar þjóðir hafa jafn mörg tækifæri til að byggja upp fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf, skapa störf og tryggja áframhaldandi góð lífskjör.
Við búum við fjölbreytt og sterkt atvinnulíf. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, landbúnaður og orkuknúnar útflutningsgreinar eru okkar burðarstoðir. Hugvits- og nýsköpunargeirinn vex einnig hratt og styrkir samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Þetta er ekki sjálfgefið, heldur árangur kynslóða sem hafa skapað verðmæti og störf.
Atvinnuleysi og varúðarljós
Ein helsta stoð góðra lífskjara er að fólk hafi atvinnu. Atvinnuleysi er eitt mesta þjóðarböl sem nokkur þjóð getur staðið frammi fyrir, ástand sem grefur undan sjálfstrausti, framtíðarsýn og samfélagslegri þátttöku. Þess vegna eigum við að taka mark á viðvörunarljósum þegar þau kvikna. Nýjustu tölur Hagstofu Íslands sýna að atvinnuleysi mælist nú 6,5% og hefur aukist um ríflega 50% milli ára. Að baki þessum tölum eru heimili sem finna fyrir óvissu, fyrirtæki sem draga saman seglin og fólk sem á erfiðara með að fóta sig á vinnumarkaði.
Atvinna og verðmætasköpun á landsbyggðinni eru hornsteinar góðra lífskjara um allt land. Þar hefur ríkisstjórnin hins vegar, með óhóflegri gjaldtöku og ákvörðunum sem auka óvissu í rekstri, grafið undan grundvelli margra byggðarlaga. Slíkar ákvarðanir grafa undan þeirri verðmætasköpun sem þar fer fram. Ofan á það liggur fyrir að mikill fjöldi opinberra starfa muni hverfa af landsbyggðinni, með alvarlegum áhrifum á atvinnu, þjónustu og búsetuskilyrði. Þetta er þróun sem Framsókn hafnar og mun standa gegn.
Það er einnig mikilvægt að setja þessa þróun atvinnuleysis í alþjóðlegt samhengi. Í mörgum löndum Evrópusambandsins er atvinnuleysi viðvarandi vandamál og víða margfalt meira en hér á landi, sérstaklega meðal ungs fólks. Okkar styrkleiki hefur verið að byggja upp vinnumarkað þar sem atvinnuleysi hefur verið lítið í alþjóðlegum samanburði, og því forskoti megum við ekki glata.
Í því ljósi er varhugavert að hefja umsóknarleiðangur inn í Evrópusambandið eins og það eitt og sér sé lausn á þeim vanda sem blasir við okkur í dag.
Ríkisfjármál, verðbólga og trúverðugleiki
Á meðan heimili og fyrirtæki sýna aðhald í hávaxtaumhverfi blasir við að aðhaldið vantar í ríkisfjármálin. Verðbólgan er 4,5% og hefur ekki mælst hærri frá því í janúar. Raunveruleikinn blasir þó við fólki í formi hárra vaxta, dýrra lánaafborgana og aukins rekstrarkostnaðar, þrátt fyrir ákafan trumbuslátt og kostnaðarsamt kynningarstarf ríkisstjórnarinnar um hinn meinta stórkostlega árangur.
Á sama tíma og almenningur herðir beltið blasir við nær fordæmalaus útgjaldavöxtur ríkissjóðs. Útgjöld ríkisins aukast um 9% milli 2025 og 2026, slagar hátt upp í þá hækkun sem varð við fjárlagagerðina haustið 2007, þegar Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn. Þessi stefna vinnur gegn lækkun verðbólgu og vaxta og hamlar þannig fjárfestingu og verðmætasköpun.
Margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem snerta rekstrarumhverfi íslensks atvinnulífs eru farnar að hafa verulegar afleiðingar. Þegar óvissa magnast um skatta og gjöld minnkar hvati til fjárfestinga. Fyrirtæki fresta ákvörðunum, halda aftur af uppbyggingu og verða varfærnari í ráðningum. Það er þessi keðjuverkun sem við megum ekki láta festast í sessi því hún bitnar á endanum alltaf á fólki: í minni verðmætasköpun og færri atvinnutækifærum.
Ég ætla ekki að tíunda allar þær skattabreytingar sem ganga í gegn um þessi áramót, en ljóst er að þær eru þvert á þau skilaboð sem heimilum og fyrirtækjum voru gefin í aðdraganda síðustu kosninga. Sérstaklega er dapurlegt þegar auknar byrðar lenda á björgunarsveitum og félagasamtökum sem sinna gríðarlega mikilvægu samfélagslegu hlutverki og spara ríkinu í raun milljarða.
Það verður því ekki hjá því komist að brosa, þótt brosið sé hálfbeiskt, þegar ríkisstjórnin tilkynnir nú fyrir jólin, með tilheyrandi fréttatilkynningu, að Landsbjörg hafi verið styrkt um 25 milljónir króna. Það er auðvitað vel meint. En þessar 25 milljónir eru einungis lítið brot af þeim auknu sköttum og gjöldum sem björgunarsveitirnar munu greiða í ríkissjóð á nýju ári. Það er, með öðrum orðum, tekið með annarri hendinni og gefið með hinni.
Lausnir Framsóknar og framtíðarsýn
Framsókn hefur á þessu fyrsta ári kjörtímabilsins lagt fram mörg þingmál sem miða að því að styrkja lífskjör og byggja undir samfélag þar sem kerfin styðja við fólk og mæta þörfum þess. Þar má nefna tillögur okkar um að skapa heimilum raunhæfan kost á löngum, óverðtryggðum húsnæðislánum, í takt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Slík lán myndu veita fjölskyldum fyrirsjáanleika í afborgunum til langs tíma, draga úr áhættu og styrkja stöðu heimila gagnvart sveiflum í efnahagslífinu.
Þessi nálgun byggist á vandaðri greiningu en ég fól dr. Jóni Helga Egilssyni að vinna skýrslu, þegar ég gegndi embætti fjármálaráðherra, um möguleika á slíkri kerfisbreytingu. Þessari vinnu lauk í upphafi ársins og sýnir hún að unnt er að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði, heimilum til hagsbóta. Um leið gæti slík þróun leitt til hagkvæmari og stöðugri fjármögnunar fyrir ríkissjóð, enda hagsmunir heimila og hins opinbera samofnir þegar kemur að traustum fjármálamarkaði.
Framsókn hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að byggja upp íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna sem starfar hér á landi. Tungumálið er lykillinn að þátttöku, aðlögun og jöfnum tækifærum. Þrátt fyrir að við höfum lagt fram þingmál þess efnis að styrkja og samræma íslenskukennslu naut það ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar. Það er miður, því án markvissrar tungumálakennslu er hætt við að fólk verði jaðarsett í samfélaginu, með tilheyrandi kostnaði – bæði mannlegum og samfélagslegum.
Framsókn hefur einnig lagt sérstaka áherslu á málefni barna. Með velsældarlögunum var stigið mikilvægt skref í átt að kerfi þar sem þjónusta við börn er samræmd þvert á málaflokka og byggist á þörfum barnsins sjálfs. Verkefnið fram undan er að þróa áfram slíkt kerfi, þannig að það nái raunverulega utan um flóknar aðstæður barna og fjölskyldna þeirra. Þar skiptir samvinna, snemmtæk íhlutun og ábyrg forgangsröðun öllu máli.
Af framansögðu er augljóst að við búum yfir tækifærum sem eru öfundsverð í alþjóðlegum samanburði en stöndum um leið frammi fyrir fjölmörgum verkefnum til að auka lífsgæði fólks. Ísland býr yfir auðlindum, mannauði og atvinnulífi sem getur tryggt áframhaldandi góð lífskjör. Tækifærin eru fyrir hendi, en þau nýtast ekki af sjálfu sér. Spurningin er einföld: ætlum við að taka þær ákvarðanir sem þarf til að nýta þau?
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2025.