Categories
Fréttir

„Nú reynir á samstöðu þjóðarinnar“

Deila grein

19/11/2025

„Nú reynir á samstöðu þjóðarinnar“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að veita Íslandi og Noregi ekki undanþágu frá fyrirhuguðum verndaraðgerðum á innflutning kísiljárns og annarra kísilblanda. Hvatti hann til breiðrar samstöðu um næstu skref.

„Nú reynir á samstöðu þjóðarinnar. Það reynir á samstöðu okkar hér inni sömuleiðis,“ sagði Þórarinn Ingi og lagði áherslu á að hagsmunir þjóðarinnar væru í húfi. Þjóðin verði nú að „spyrna við fótum því að það gengur ekki að láta koma svona fram við sig“.

Þórarinn Ingi tók skýrt fram að EES-samningurinn væri íslensku þjóðinni afar mikilvægur, bæði fyrir vöxt og þróun atvinnulífs, og að það væri ekki raunhæfur kostur að „hlaupa til baka“ úr þeim samningi.

Hann sagðist þó telja að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar marki ákveðin tímamót í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Að hans mati verði Íslendingar nú að „horfa á hlutina eins og þeir eru“ og gera skýrt að það gangi ekki upp til lengdar að EES-ríki séu sett undir almennar verndaraðgerðir án þess að tekið sé sérstakt tillit til þeirra stöðu.

Spyr hvort endurmeta eigi innleiðingu EES-reglna

Í ræðu sinni tók Þórarinn Ingi undir vangaveltur hvort Ísland ætti að bregðast við með því að endurmeta afstöðu sína til innleiðingar EES-gerða á næstu misserum.

„Eigum við að velta fyrir okkur öllum þeim innleiðingum sem liggja á borðinu fyrir framan okkur? Eigum við aðeins að hægja á?“ spurði Þórarinn Ingi og nefndi sérstaklega bókun 35 við EES-samninginn og ETS-kerfið (viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir) sem dæmi um mál sem mætti skoða sérstaklega í ljósi stöðunnar.

„Leiknum er ekki lokið“

Þrátt fyrir að Ísland og Noregur hafi orðið undir í þessari „lotu“ sagði hann að „leiknum væri ekki lokið“.

„Við verðum öll í þessu að velta öllum steinum við og umfram allt verðum við að standa saman í því að verja hagsmuni þjóðarinnar. Það er númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum og hvatti þingheim til að sýna einhug í málinu, þvert á flokkslínur.

Categories
Fréttir

„Án sjálfboðaliða gengur dæmið ekki upp“

Deila grein

18/11/2025

„Án sjálfboðaliða gengur dæmið ekki upp“

Skúli Bragi Geirdal, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins það sem hann kallar alvarlega stöðu íþróttastarfs um allt land. Hann segir íþróttahreyfinguna standa á öxlum sjálfboðaliða sem nú verði sífellt oftar persónulega ábyrgir ef mistök verði í rekstri félaganna, með þeim afleiðingum að færri þori að taka þátt í stjórnarstörfum.

„Íþróttahreyfingin byggir á sjálfboðaliðum sem leggja til ólaunað starf til samfélagsins,“ sagði Skúli Bragi og benti á að þróunin í átt að persónulegri ábyrgð stjórnarliða skapaði mikla óvissu. „Hættan er að slíkt geti dregið úr vilja fólks til að taka að sér stjórnarstörf og gefa af sér til samfélagsins. Þessa óvissu þarf að leysa því að án sjálfboðaliða gengur dæmið ekki upp.“

Hækkandi æfingagjöld veikja jafnt aðgengi

Auk þess fjallaði Skúli Bragi um aukinn fjárhagslegan þrýsting á íþróttafélög landsins. Verðbólga, hærri launakostnaður, húsnæðisgjöld og annar rekstrarkostnaður hafi knúið mörg félög til að hækka æfingagjöld.

„Fyrir efnaminni fjölskyldur getur þetta skapað raunverulega hindrun sem veldur því að börn hafa ekki jafnt aðgengi að skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi,“ sagði hann og nefndi slíkt vera hindrun að „einhverri öflugustu forvörn sem völ er á“.

Skúli Bragi lagði áherslu á að íþróttir væru ekki aukaatriði í samfélaginu heldur lykilþáttur í lýðheilsu, forvörnum og byggðamálum.

Misrétti eftir búsetu, ferðakostnaður og svæðisstöðvar í hættu

Þá benti hann á að íþróttafélög og foreldrar á landsbyggðinni stæðu frammi fyrir síhækkandi ferðakostnaði vegna keppnisferða og æfinga. Ferða- og jöfnunarsjóður ÍSÍ næði ekki lengur utan um þennan kostnað.

„Sjóðinn þarf að efla,“ sagði Skúli Bragi og varaði við því að í óbreyttu ástandi væri um raunverulegt misrétti að ræða í aðgengi barna að íþróttastarfi eftir búsetu.

Skúli Bragi hvatti einnig til þess að hugað yrði betur að framtíð svæðisstöðva UMFÍ og ÍSÍ sem tengja saman og styðja við íþróttahéruð landsins, efla þátttöku og jafna aðgengi. UMFÍ hafi þegar gripið til aðgerða með því að „senda líflínu“ til lítilla íþróttahéraða í fjárþröng, eins og hann orðaði það, sem sé til marks um alvarlega stöðuna.

Kallar eftir pólitískum vilja

Í lok ræðu sinnar ítrekaði Skúli Bragi að bregðast yrði við með markvissum aðgerðum.

„Íþróttir eru ekki aukaatriði, þær eru lýðheilsumál, forvörn og byggðamál,“ sagði hann og lagði áherslu á að tryggja þyrfti stöðu sjálfboðaliða, framtíð svæðisstöðva og styrkingu ferðajöfnunarsjóðs ÍSÍ „til að tryggja jafnt aðgengi barna um allt land“.

Categories
Fréttir Greinar

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Deila grein

18/11/2025

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Fjarðarheiðargöng eru eitt af mikilvægustu samgönguverkefnum á Austurlandi. Öryggi vegfarenda er ein helsta ástæða framkvæmdarinnar ásamt því að tryggja aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu allan ársins hring. Með tilkomu ganganna verður tryggð örugg og greið leið milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs allan ársins hring, áreiðanleg, örugg og nauðsynleg samgönguleið innan sveitarfélagsins og til Evrópu. Samgöngubætur af þessari stærðargráðu hafa einnig bein áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf, eykur möguleika íbúa til atvinnu og menntunar, styrkir ferðaþjónustu og skapar traustari forsendur fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Göngin verða þannig mikilvæg stoð í að efla búsetu og efnahagslíf á Austurlandi öllu.

Hringtenging Austurlands

Fjarðarheiðargöng eru fyrsti áfangi í hringtengingu Austurlands, jarðgangatenging sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur kallað árum saman og frá árinu 2013 hafa bókanir SSA verið skýrar og samhljóða um að næstu göng á Austurlandi skuli verða Fjarðarheiðargöng. Það er svo með staðfestingu Svæðisskipulags Austurlands í byrjun þessa kjörtímabils sem vilji allra sveitarstjórna á Austurlandi er enn frekar staðfestur.

Ígrunduð ákvörðun

Árið 2011 kom út skýrslan „Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum“ sem unnin fyrir Vegagerðina. Í skýrslunni kemur fram að hugmyndir hafi áður verið uppi um jarðgöng frá Héraði niður í Mjóafjörð. Þau voru þó ekki talin raunhæfur valkostur í samanburði við Fjarðarheiðargöng sökum þess að slík göng myndu ekki tengja Seyðisfjörð. Afstaðan var því sú að jarðgöng til Mjóafjarðar voru skoðuð sem hugmynd, en felld úr frekari athugun vegna lítillar umferðar og skorts á tengingu við lykilhafnir og samgöngur. Í skýrslunni er fjallað um nokkra möguleika gangna en niðurstaðan er að jarðgöng undir Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða séu besti kosturinn.

Það var síðan árið 2017 sem þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði verkefnishóp um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng og var í framhaldinu gefin út skýrslan „Seyðisfjarðargöng – Valkostir og áhrif á Austurlandi“. Markmið verkefnisins var að undirbúa ákvörðun um samgöngubót sem best væri til þess fallin að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu. Fram kemur í ályktun og niðurstöðu hópsins:

Það er mat verkefnishópsins að með hliðsjón af ávinningi samfélagsins og atvinnulífsins á Seyðisfirði og Austurlandi í heild sé vænlegast að fylgja áliti Alþingis, Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og þorra íbúa og fulltrúa atvinnulífs og samfélags á svæðinu og rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði sem fyrsta áfanga og styrkja samfélagið á Austurlandi öllu með göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar í síðari áfanga. Hópurinn leggur mikla áherslu á að ákvörðun um samgöngubætur með hringtengingu liggi fyrir eins fljótt og auðið er og að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst til að jákvæð áhrif á þróun byggðar og atvinnulífs skili sér ekki of seint.

Alþingi hefur margsinnis samþykkt framkvæmd Fjarðarheiðarganga

Í samgönguáætlun 2011-2022 sem samþykkt var á Alþingi 19. júní 2012 kom þetta fram:

Jarðgangaáætlun: Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.

Gildandi samgönguáætlun 2020-2034 segir til um að í framhaldi af Fjarðaheiðargöngum eigi að fara í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og þaðan yfir á Norðfjörð (Mjóafjarðargöng). Svokölluð hringtenging Austurlands. Hringtenging Austurlands er umfjöllunarefni meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis árið 2020 en þá kom fram í áliti þeirra:

Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Engin önnur leið um Fjarðarheiði

Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að núverandi Seyðisfjarðarvegur uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar um breidd og hámarkshalla stofnvegar. Vegna bratta og tíðra lokana að vetrarlagi kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um Fjarðarheiði.

Fjarðarheiðargöng eru fullhönnuð af hálfu Vegagerðarinnar og hefur Múlaþing staðfest breytingar á skipulagi í samræmi við hönnun. Göngin eru fullhönnuð og hefur þegar um 600 milljónum verið varið í þá vinnu.

Rjúfum kyrrstöðuna

Kæri samgönguráðherra Eyjólfur Ármansson, ég skora á þig að rjúfa stopp í jarðganga gerð og bjóða út Fjarðarheiðargöng, þau eru einu jarðgöngin sem hægt er að hefja vinnu við á þessu kjörtímabili. Kæra ríkisstjórn, ég krefst þess að þið standið við stóru orðin, loforð sem meðal annars forsætisráðherra hafði uppi í kosningaþætti RÚV.

Af stað með göngin!

Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar og forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Deila grein

18/11/2025

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Yfirmaður Evrópudeildar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alfred Kammer, hélt upplýsandi fyrirlestur hjá Evrópska seðlabankanum hinn 4. nóvember sl. og bar hann heitið: „Hvernig getur Evrópa borgað fyrir hluti sem hún hefur ekki efni á?“ Ljóst er að fyrirsögnin er sláandi og ekki sett fram í pólitískum tilgangi, heldur eru staðreyndir kynntar til leiks ásamt því að koma með tillögur að umbótum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á heimshagkerfinu á þessu ári. Evrópa hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við heimsfaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og versnandi horfur í heimsbúskapnum. Að mörgu leyti hefur Evrópa undangengin ár staðið af sér verstu efnahagsskellina, hins vegar er nú ljóst að horfur til lengri tíma eru þungar þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti. Ástæðurnar eru margar: flókið regluverk innri markaðarins, hækkandi orkuverð, stöðnun í framleiðni og versnandi samkeppnishæfni.

Heildarskuldir Evrópuríkja árið 2040 gætu að meðaltali náð 130% af landsframleiðslu, allt yfir 90% skuldir er talið ósjálfbært til lengri tíma. Til að snúa þessari þróun við þyrftu ýmis ríki að hagræða í rekstri sínum um 1% af landsframleiðslu í fimm ár! Til samanburðar við Ísland þá væru þetta rúmir 50 ma.kr. eða um 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Evrópu og líka Ísland. Utanríkisviðskipti við Evrópu skipta okkur miklu máli og að innri markaðurinn sé sterkur. Fram kemur í erindi Kammers að ef ekkert verði gert séu skuldir sumra ríkja ósjálfbærar og að velferðarkerfi margra ríkja sé í hættu. Lausnin að hans mati liggur ekki aðeins í hagræðingu hjá hinu opinbera heldur fremur í að efla hagvöxt. Með hóflegum en markvissum umbótum, líkt og einföldun regluverks, meiri samruna innri markaðarins og auknum sameiginlegum fjárfestingum ásamt umbótum á lífeyriskerfum, gætu mörg Evrópuríki komist á beinu brautina. Skilaboð Kammers eru skýr. Það eru engar skyndilausnir og ráðast verður í verulegar kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti.

Þessi þróun hefur farið fram hjá ríkisstjórn Íslands og hún eyðir miklum tíma í frekari aðlögun að Evrópusambandinu. Vegna þessarar forgangsröðunar hefur efnahagsstjórnin verið ómarkviss. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabanka Íslands í að lækka verðbólguna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna lækkaði verulega í fjárlagafrumvarpinu 2026 frá fyrri ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við fjárlögin 2025 þá væri ríkissjóður að skila afgangi. Í staðinn var allur tekjuaukinn, eða um 80 ma.kr., settur út í hagkerfið. Byrjum á því að ráðast í breytingar hér heima og náum tökum á verðbólgu og vöxtum, sem skiptir mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Vill hækka aldurstakmark á samfélagsmiðlum og herða reglur um markaðssetningu á börn

Deila grein

17/11/2025

Vill hækka aldurstakmark á samfélagsmiðlum og herða reglur um markaðssetningu á börn

Skúli Bragi Geirdal, varaþingmaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um samfélagsmiðla, börn og ungmenni á Alþingi, sem jafnframt var jómfrúarræða þingmannsins. Skúli Bragi sagði íslensk stjórnvöld vera að bregðast skyldu sinni til að verja börn gegn skaðlegu efni á netinu og samfélagsmiðlum. Hann benti á að í lögum væri að finna ítarleg ákvæði um vernd barna í hefðbundnum fjölmiðlum, meðal annars gegn klámi og tilefnislausu ofbeldi, en á samfélagsmiðlum væri í raun „svo til frítt spil gefið“. Boðaði Skúli Bragi tvíþætta þingsályktunartillögu um hertar reglur.

Skúli Bragi vísaði til rannsókna sem sýna að meirihluti stúlkna á unglingastigi hafi séð efni um hættulegar aðferðir til að grenna sig með lystarstoli og búlemíu og að um þriðjungur barna á unglingastigi hafi rekist á umræður um sjálfsskaða. Þá nefndi hann vaxandi umfang hatursorðræðu, neteineltis og versnandi geðheilsu ungmenna.

„Ógn steðjar að lýðheilsu barna og ungmenna og það er okkar að bregðast við,“ sagði hann og minnti á að á sama tíma og fréttir berast af ungri íslenskri stúlku í klóm alþjóðlegs glæpahóps, sem hvatti til sjálfsskaða og ofbeldis, hafi ábendingarlína fyrir börn legið niðri vegna fjárskorts. Áður hafi þar borist árlega 200-300 ábendingar, þar af hátt hlutfall sem varðaði staðfest kynferðisofbeldi gegn börnum. Slíkt úrræðaleysi væri „óviðunandi“.

„Börn okkar eru ekki söluvara“

Skúli Bragi sagði að það væri ekki nóg að setja traust sitt á vitundarvakningu og fræðslu, þótt það hefði borið árangur meðal yngstu barnanna. Hlutfall 9-12 ára barna á TikTok og Snapchat hefði lækkað verulega frá árinu 2021, en sama þróun sæist ekki hjá 14-16 ára unglingum.

Hann benti á að lágmarksaldur á samfélagsmiðlum væri almennt 13 ár og byggði á persónuverndarlögum, á meðan kvikmyndir, sjónvarpsefni og tölvuleikir væru aldursmerktir í sjö flokka upp í 18 ára út frá mögulegri skaðsemi og áhrifum á hegðun og þroska. Í þessu fælist „óþolandi og hrópandi ósamræmi“.

Að hans mati skapa rangar aldursviðmiðanir samfélagsmiðla mikinn félagslegan þrýsting á foreldra sem vilji standa sig. „Þegar 13 ára aldri hefur verið náð er hætta á að vel meinandi og ábyrgir foreldrar missi tökin út af óbærilegum félagsþrýstingi,“ sagði hann og bætti við að stjórnvöld ættu að standa með foreldrum „frekar en fyrirtækjum sem líta á börnin okkar sem söluvöru“.

Tvíþætt tillaga: aldurstakmark og strangari auglýsingareglur

Skúli Bragi upplýsti að hann hygðist leggja fram þingsályktunartillögu sem væri tvíþætt. Annars vegar snúi hún að hækkun lágmarksaldurs barna á samfélagsmiðlum og hins vegar að hertum reglum um markaðssetningu og auglýsingar sem beint er að börnum á samfélagsmiðlum og öðrum stafrænum vettvangi.

Sérstök áhersla verði lögð á að takmarka markvissa markaðssetningu sem byggir á persónuupplýsingum barna. Að hans mati eigi sendingar og beiðnir um nektarmyndir og kynferðislega áreitni aldrei að teljast „eðlilegur hluti af barnæsku“.

Spyr um innleiðingu reglugerðar ESB

Í ræðu sinni vakti Skúli Bragi einnig athygli á því að Ísland standi utan reglugerðar Evrópusambandsins um stafræna þjónustu (Digital Services Act), sem setur stórum samfélagsmiðlafyrirtækjum strangari leikreglur. Hann sagði það gera fámennum eftirlitsaðilum hér á landi erfitt fyrir þar sem þeir stæðu vanmáttugir gagnvart alþjóðlegum tæknirisum sem „leggja sjálf leikreglurnar eftir eigin hentisemi“.

Skúli Bragi beindi nokkrum spurningum til mennta- og barnamálaráðherra:

  • Hver væri staðan á innleiðingu Digital Services Act á Íslandi?
  • Hvernig væri verið að tryggja börnum og ungmennum fræðslu um upplýsinga- og miðlalæsi til að þau geti notað netið, samfélagsmiðla og gervigreind á ábyrgan hátt?
  • Og hvort ekki væri kominn tími til að Alþingi setti skýrari leikreglur og „rétt og raunverulegt aldurstakmark á samfélagsmiðla“ með hagsmuni og vernd barna að leiðarljósi?
Categories
Fréttir

„Hvert er planið?“ – kallar eftir tryggingu á grunnþjónustu fyrir alla landsmenn

Deila grein

17/11/2025

„Hvert er planið?“ – kallar eftir tryggingu á grunnþjónustu fyrir alla landsmenn

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, skoraði á ríkisstjórnina á Alþingi að skýra hvernig tryggja eigi jafna grunnþjónustu fyrir alla íbúa landsins, óháð búsetu. Í óundirbúinni fyrirspurn til forsætisráðherra gagnrýndi hann að stjórnvöld væru markvisst að færa þjónustu og yfirstjórn í átt að meiri miðstýringu með sameiningum og stærri stjórnsýslueiningum.

„Hvert er planið?“ spurði hann og vísaði jafnframt til draga að nýrri atvinnustefnu þar sem talað er um „þróun kjölfestuverkefna á landsbyggðinni“.

Spyr hvernig tryggja eigi grunnþjónustu um land allt

Sigurður Ingi benti á að þetta væri ekki séríslenskt viðfangsefni heldur viðfangsefni allra þjóða. „Öll samfélög glíma við það að veita öllum íbúum sinna landa grunnþjónustu með einhverju jafnræði… Hvernig á að tryggja grunnþjónustu til allra íbúa landsins?“ sagði hann.

Hann rifjaði upp að í mörgum ríkjum væri stuðst við þrjú stjórnsýslustig, ríki, fylki eða ömt til að tryggja jafna yfirstjórn og þjónustu. Á Íslandi hefðu menn hins vegar ákveðið að hafa tvö stjórnsýslustig, ríki og sveitarfélög, en ofan á það hefði verið byggt „millistjórnsýslustig“ með landshlutasamtökum og margvíslegri svæðaskipan ríkisstofnana.

„Við á litla Íslandi, sem er reyndar landfræðilega stórt og talsvert stærra en mörg önnur lönd sem eru með fylki og ömt, höfum sannfært okkur um að tvö stjórnsýslustig séu ákjósanlegust en við höfum búið til svona millistjórnsýslustig, landshlutasamtök og við höfum búið til mismunandi svæði fyrir stærri ríkisstofnanir,“ sagði hann.

Að mati Sigurðar Inga ætti ríkið fremur að tryggja jafna grunnþjónustu með því að veita sambærilega þjónustu á föstum fjölda svæða, hvort sem þau væru fjögur, sex eða átta.

Bendir á miðstýringaráform stjórnvalda

Sigurður Ingi rakti í framhaldinu nokkur mál sem nú eru í vinnslu hjá ríkisstjórninni og að hans mati draga í átt að miðstýringu:

Sýslumannsembætti: Dómsmálaráðherra hefur lagt til að sameina níu sýslumannsembætti í eitt embætti.

Framhaldsskólar: Mennta- og barnamálaráðherra hefur kynnt áform um nýtt stjórnsýslustig fyrir framhaldsskólastigið, með fjórum til sex svæðisskrifstofum sem heyri undir ríkið.

Heilbrigðismál: Í dag eru sjö heilbrigðisumdæmi og hefur verið kynnt hugmynd um að fækka færni- og heilsumatsnefndum í eina landsnefnd.

Dómstólar: Undanfarin ár hefur verið til umfjöllunar að sameina átta héraðsdómstóla í einn dómstól með starfsstöðvum víða um land.

Að mati Sigurðar Inga blasir við heildarstefna um fækkun svæða og aukna miðstýringu í yfirstjórn ríkisins, jafnvel þótt málaflokkarnir séu formlega óskyldir.

Eru „kjölfestuverkefni“ mögulega mótvægi við niðurlagningu þjónustu?

Sigurður Ingi vísaði til draga að nýrri atvinnustefnu ríkisins, þar sem sérstaklega er talað um að þróa „kjölfestuverkefni á landsbyggðinni“ til að styrkja byggðir og skapa fleiri störf utan höfuðborgarsvæðisins.

Sigurður Ingi spurði hvort þessi áhersla á kjölfestuverkefni væri hugsuð sem mótvægi við það sem hann kallar niðurlagningu dreifðrar yfirstjórnar, eða jafnvel viðbragð við því að hefðbundnar stoðir ríkisþjónustu verði veiktar í héraði með sameiningum og miðstýringu.

Sigurður Ingi sagði brýnt að áður en lengra væri haldið yrði spurningunni um grunnþjónustuna svarað með skýrum hætti: Hvernig á að tryggja að allir íbúar landsins hafi raunhæfan og sambærilegan aðgang að grunnþjónustu, óháð því hvar þeir búa?

Categories
Fréttir Greinar

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Deila grein

15/11/2025

Tími kominn til að hugsa um landið allt

Bestu ákvarðanirnar eru teknar þegar við sjáum heildarmyndina. Til að sjá heildarmyndina verðum við að horfa út fyrir nærumhverfi okkar og sjá landið allt, fólkið allt. Núverandi ríkisstjórn virðist þó ekki vera alveg sammála þessu sjónarmiði. Hún sér landið okkar í gegnum þröngan glugga höfuðborgarinnar. 

Þetta hefur þær afleiðingar að dregið er sífellt úr þjónustu á landsbyggðinni, fjármunum er frekar beint að þéttbýlinu og reglur settar án þess að spurt sé hvernig þær snerta fólk sem býr og starfar utan höfuðborgarsvæðisins.

Landsbyggðarmat 

Af þessari ástæðu lagði þingflokkur Framsóknar fram tillögu á Alþingi í liðinni viku um að innleiða svokallað landsbyggðarmat í íslenska stjórnsýslu og lagasetningarferli (e. rural proofing). Hugmyndin er einföld og gengur út á að slíkt mat verði lögbundin og skyldubundin leið við undirbúning frumvarpa, reglugerða og stærri stefnumótunar- og fjárfestingaráætlana ríkisins. Ef áhrif ákvarðana eða verkefna eru neikvæð, þá þarf að huga að því hvernig hægt er að milda þau eða koma með mótvægisaðgerðir. Ef tækifæri felast í breytingunni er spurt hvernig þau verði nýtt. 

Það gleymist oft að aðstæður á Íslandi eru afar ólíkar milli landshluta og byggðarlaga. Ákvarðanir stjórnvalda verða ávallt að taka mið af því. Þess vegna er mikilvægt að við tökum upp landsbyggðarmat. 

Aðför að landsbyggðinni í boði ríkisstjórnarinnar

Ákvarðanir stjórnvalda sem bitna á landsbyggðinni birtast á ótal sviðum. Við sjáum það t.d. þegar starfsemi heilbrigðisþjónustu er sameinuð með þeim afleiðingum að lengri tíma en áður tekur að fá læknisaðstoð. Við sjáum sambærileg dæmi almennt þegar nýjar reglur eða aðrar kröfur eru skrifaðar út frá forsendum höfuðborgarinnar án þess að tillit sé tekið til raunverulegra aðstæðna í dreifbýli. 

Ákvarðanir stjórnvalda snerta lífsviðurværi, öryggi og framtíð fólks um allt land. Og þegar þær eru teknar án þess að áhrif á landsbyggðina séu metin, verður niðurstaðan oftar en ekki sú sama: verri þjónusta á landsbyggðinni og færri tækifæri. 

Skortur á skilningi á ólíkum aðstæðum úti á landi er ekki aðeins kæruleysi heldur felur í sér aðför að landsbyggðinni. Það getur aldrei talist eðlilegt að stjórnvöld geti tekið ákvarðanir sem kunna að veikja lífsgæði fólks utan höfuðborgarinnar án þess að greinargott mat á áhrifum slíkra ákvarðana hafi farið fram. 

Þetta er ekki ósk um forgang eða sérmeðferð landsbyggðarinnar. Þetta er einfaldlega krafa um ábyrgð og gæði í stjórnsýslu og við lagasetningu. Landsbyggðarmat er eins konar gæðalinsa í opinberri stefnumótun, leið til að sjá heildina og forðast að góð áform hafi óheppilegar aukaverkanir. 

Fjöldi ríkja hefur tekið slíkt ferli upp með góðum árangri. Í Bretlandi, Finnlandi og Kanada hefur það leitt til betri ákvarðanatöku, aukins jafnræðis og skilvirkari nýtingar fjármuna. Það sama gæti átt við hér ef viljinn er fyrir hendi. 

Sameiginleg ábyrgð

Við eigum ekki að draga línu milli höfuðborgar og landsbyggðar. Við eigum að horfa á okkur sem eina heild, þjóð sem byggir á fjölbreytileika, samstöðu og ótal tækifærum til verðmætasköpunar þvert á landshluta. 

Þegar landsbyggðin styrkist, styrkist landið allt. Þegar þjónusta og tækifæri eru tryggð á landsbyggðinni, þá vex samfélagið í heild. Við eigum ekki að horfa á byggðir landsins sem keppinauta, heldur sem samstarfsnet sem heldur þjóðinni saman. 

Þetta snýst ekki um forréttindi heldur jafnræði. Ekki um aukinn kostnað heldur um skynsamari ákvarðanir. Það er miklu dýrara að bæta fyrir skaðann eftir á en að hugsa hlutina vel í upphafi og þess vegna er landsbyggðarmat mikilvægt. 

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á austurfrett.is 15. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkið græðir á eigin fram­kvæmdum

Deila grein

14/11/2025

Ríkið græðir á eigin fram­kvæmdum

Það er ákveðinn misskilningur að stórar framkvæmdir á borð við jarðgöng og vegagerð séu fyrst og fremst kostnaðarsamar fyrir ríkissjóð. Það kemur til af því að slíkar framkvæmdir eru kostnaðartölur í samgönguáætlun en höfum það á hreinu samgönguáætlun fjallar ekki um tekjuhlið ríkissjóðs af eigin framkvæmdum. Ríkið græðir helling af eigin framkvæmdum.

Framkvæmdir eru fjárfesting – ekki útgjöld

Framkvæmdir eru fjárfestingar sem eignfærast, skapa tekjur, störf og verðmæti á framkvæmdatíma, bæði fyrir ríkið sjálft sem og fyrir samfélagið í heild.

Þegar ríkið ræsir stórar samgönguframkvæmdir fer hluti fjármagnsins nær samstundis aftur í ríkiskassann. Virðisaukaskattur, tryggingagjöld, tekjuskattar, gjöld af vélum og ökutækjum, tollar og vörugjöld fyrir utan fjölmörg önnur opinber gjöld sem víða leynast. Áætla mætti að ríkið endurheimti allt frá 25-35 % af kostnaði framkvæmda þegar á framkvæmdatíma. Þá strax myndast hreyfing í efnahagslífinu, þjónusta og verslun vex á framkvæmdatíma fyrir utan þann langtíma ábata samfélagsins og ríkisins af bættum samgöngum og auknum atvinnutækifærum. Þetta er því ekki útgjöld, heldur fjárfesting sem borgar sig margfalt.

Þetta gildir til dæmis um Fjarðarheiðargöng og nýjan veg um Öxi. Fyrir íbúa og fyrirtæki í Múlaþingi og á Austurlandi þýðir þetta styttri og öruggari leiðir, minni eldsneytisnotkun og lægri rekstrarkostnað. Fyrir ríkið þýðir það meiri umsvif, auknar skatttekjur og sterkari byggðir. Betri samgöngur eru sannarlega burðarás byggðafestu. Fólk er líklegra til að setjast að þar sem þjónusta og aðgengi eru tryggð, fyrirtæki sjá tækifæri í hraðari flutningum og ferðaþjónustan getur vaxið á traustari grunni. Hver króna sem fer í slíkar framkvæmdir er fjárfesting í framtíð byggðanna.

Tíminn er peningar – líka fyrir ríkið

Tafir í framkvæmdum kosta peninga. Fyrir hvert ár sem líður án framkvæmda tapar ríkið mögulegum tekjum og störfum. Því fyrr sem verkin verða að veruleika, því fyrr nýtist ávinningurinn fyrir þjóðarbúið.

Það er kominn tími til að breyta hugsunarhætti okkar um að samgönguframkvæmdir séu eingöngu gjaldaliðir, framkvæmdir eru tekjulindir – fjárfestingar sem efla atvinnulíf, tryggja öryggi og styrkja ríkissjóð til framtíðar. Spurningin sem eftir stendur er ekki hvort við höfum efni á að ráðast í þessi verk – heldur hvort við höfum efni á að láta þau ógert.

Sveitarstjórn Múlaþings stendur þétt saman í því að nýta hvert einasta tækifæri til að vekja máls á mikilvægi Fjarðarheiðarganga og Axarvegar. Það er okkar skýlausa krafa að farið verði strax af stað með útboð og framkvæmdir til að efna gefin loforð við sameiningu sveitarfélagsins. Loforð sem eru sannarlega skrifleg í gildandi samgönguáætlun. Samgönguáætlun sem er pólitísk og stjórnsýslulega bindandi áætlun, lögbundin langtímaáætlun ríkisins um samgöngur og samþykkt af Alþingi.

Hún er skuldbinding Alþingis og stjórnvalda gagnvart almenningi og sveitarfélögum landsins og því lágmark að farið sé í þær framkvæmdir sem ítrekað hafa verið samþykktar, enda hefur ríkið tekjur af eigin framkvæmdum.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknar í Múlaþingi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Tvöfalt kjördæmaþing í Reykjavík velur fjögur efstu sæti framboðslistans

Deila grein

13/11/2025

Tvöfalt kjördæmaþing í Reykjavík velur fjögur efstu sæti framboðslistans

Framsókn í Reykjavík hefur á aukakjördæmaþingi samþykkt að viðhafa tvöfalt kjördæmaþing við val á efstu stæum framboðslista flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í maí. Samkvæmt ákvörðun þingsins fer tvöfalda kjördæmaþingið fram annaðhvort 31. janúar eða 7. febrúar og verður þar kosið um fjögur efstu sæti framboðslistans.

Reglur um tvöfalt kjördæmaþing vegna borgarstjórnarkosninga kveða á um að atkvæðisrétt hafi flokksmenn sem eiga lögheimili í Reykjavík og eru í framsóknarfélögum í kjördæmunum. Á þinginu verður kosið um hvert sæti sérstaklega. Fyrst er kosið milli þeirra sem hafa gefið kost á sér í 1. sæti. Fái enginn frambjóðandi einfaldan meirihluta gildra atkvæða skal kosið á ný milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Sá telst kjörinn sem hlýtur fleiri atkvæði í síðari umferðinni. Þá er kosið um 2. sætið og svo framvegis þar til kosið hefur verið í 4 efstu sætin. Eftir að úrslit um hvert sæti liggja fyrir geta frambjóðendur sem ekki náðu kjöri í viðkomandi sæti gefið kost á sér í næsta sæti listans.

Þá gildir að ekki skulu vera fleiri en þrír af sama kyni í 5 efstu sætum framboðslistans. Að öðru leyti er það í höndum kjörstjórnar að gera tillögu um framboðslistann í heild og leggja hana fyrir stjórn kjördæmasambandsins, sem síðan leggur listann fyrir aukakjördæmaþing til samþykktar.

Categories
Fréttir

„Ekkert bólar á nýsköpunarhausti“

Deila grein

13/11/2025

„Ekkert bólar á nýsköpunarhausti“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, tók upp umræðu um stöðu atvinnumála í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Hún sagði stöðu atvinnumála á Íslandi hafa versnað hratt síðustu vikur og mánuði og kallaði eftir skýrum og samræmdum aðgerðum stjórnvalda til að örva atvinnulífið.

Ingibjörg sagði að sífellt fleiri merki væru uppi um að hagkerfið væri að kólna. Atvinnuleysi væri farið að aukast, flugfélagið Play væri fallið, uppsagnir hefðu orðið hjá Icelandair og mikil óvissa ríkti í ferðaþjónustunni. „Atvinnulífið heldur að sér höndum og fjárfesting dregst saman hjá fyrirtækjum í landinu,“ sagði hún og benti jafnframt á að gengið væri að veikjast á sama tíma og óvissa ríkti í alþjóðaviðskiptum og tollamálum.

Ingbjörg gagnrýndi jafnframt að skattbyrði á bæði almenning og fyrirtæki hefði aukist á tímum þar sem óvissan í efnahagslífinu væri þegar mikil. Sagði hún traust atvinnulífs og heimila á efnahagsstefnu stjórnvalda fara minnkandi. Vakti hún athygli á því að Landsbankinn og Hagstofan spáðu nú mun minni hagvexti á næsta ári en áður hefði verið gert ráð fyrir, um 1,7%.

Í ljósi þessa spurði Ingibjörg atvinnuvegaráðherra hvort hún hefði ekki áhyggjur af stöðunni á vinnumarkaði og í efnahagslífinu almennt og hvort ekki væri tímabært að stjórnvöld settu sér skýrar, samræmdar aðgerðir til að örva atvinnulífið. Að hennar mati væri lykilatriði að Ísland „vaxi út úr“ þeirri stöðu sem nú hafi skapast í stað þess að festast í hægagangi og óvissu.

Atvinnuvegaráðherra svaraði því til að full ástæða væri til að ræða þessi mál ítarlegar á Alþingi. „Það er full ástæða til að fara í samtal hér í þingsal og jafnvel að taka sér meiri tíma en felst í svona fyrirspurn til að ræða almennt um atvinnulífið, verðmætasköpun og stöðu efnahagsmála,“ sagði hún og bætti við að hún væri í þéttu samtali við fulltrúa atvinnugreina og aðra ráðherra sem málið heyrði undir. „Við erum í samtali, það er margt á döfinni, það er mikil bjartsýni víða og ég er algerlega ósammála hv. þingmanni í því að það sé þverrandi traust til aðgerða ríkisstjórnarinnar í samfélaginu. Við ætlum okkur að standa undir því trausti og það er margt í gangi. Það er hið einfalda svar,“ sagði ráðherra meðal annars.

Ingibjörg minnti á að rætt hefði verið um að hér ætti að „blása til nýsköpunarhausts“, um sóknarfæri og uppbyggingu í atvinnulífinu. Að hennar mati hefur það ekki gengið eftir. Ekkert bólar á slíku nýsköpunarhausti né á því að ríkisstjórnin hafi tök á verðbólgu og vöxtum.

„Við sjáum núna að það er 1% frávik í hagspá frá upprunalegum áætlunum í vor og þetta hefur í rauninni áhrif á allt hér í landinu; á tekjur ríkisins, atvinnuþátttöku og allt,“ sagði Ingibjörg.

Að lokum beindi hún nokkrum spurningum til atvinnuvegaráðherra:

  • Hvaða aðgerðir hyggjast stjórnvöld ráðast í til að örva atvinnulífið, fjárfestingu og nýsköpun á komandi mánuðum?
  • Er ekki tilvalið að ráðast í öfluga markaðssetningu í ferðaþjónustu og einfalda leyfisveitingaferlið í sjó- og landeldi?
  • Er það virkilega þannig að ráðherrar telji að staðan sé bara allt í lagi þrátt fyrir 1% lækkun á hagvexti og að atvinnuleysi sé að aukast?
  • Eða er stefna ríkisstjórnarinnar einfaldlega sveltistefna sem eigi að neyða þjóðina inn í Evrópusambandið?
  • Er það plan ríkisstjórnarinnar?