Categories
Fréttir Greinar

Ís­land einn jaðar á einum stað?

Deila grein

26/01/2026

Ís­land einn jaðar á einum stað?

Umræða um jöfnun atkvæðavægis á Íslandi er bæði eðlileg og mikilvæg. Lýðræðislegt jafnræði er grundvallargildi og fá deila um að atkvæði landsmanna eigi að vega jafnt. Sú umræða verður að taka mið af því að horft sé til þess hvernig samfélagið er skipulagt og hvaða afleiðingar það hefur þegar vald, þjónusta og ákvarðanataka þjappast sífellt meira saman á einn stað.

 Íslenskt samfélag hefur um árabil þróast í þá átt að miða í vaxandi mæli við suðvesturhorn landsins. Kerfi, stjórnsýsla og þjónusta ganga í reynd út frá því að þar sé miðjan og að aðrir landshlutar aðlagi sig að henni. Þessi þróun er ekki einstök. Hún er orðin mun öfgakenndari hér en í flestum sambærilegum löndum ekki síst vegna smæðar samfélagsins. 

Allt á einum stað 

Jöfn atkvæði tryggja ekki sjálfkrafa jafna stöðu fólks í daglegu lífi. Lýðræði snýst ekki aðeins um kosningar heldur einnig um raunverulegt aðgengi að þjónustu, tækifærum og ákvarðanatöku. Þegar megnið af sérhæfðri þjónustu og opinberum störfum er staðsett á einum stað verður jafnræðið aðeins formlegt fremur en raunverulegt. 

Reynsla annarra landa sýnir skýrt hvert slík þróun getur leitt. Í Frakklandi hefur samþjöppun í kringum París skapað djúpa gjá milli miðju og jaðarsvæða með félagslegri fjarlægð og vantrausti í kjölfarið. Í Svíþjóð hefur stöðug fækkun í dreifðum byggðum leitt til lokunar innviða og aukins brottflutnings. Með markvissri valddreifingu líkt og í Noregi hefur tekist betur að viðhalda jafnvægi í byggðaþróun. 

Á Íslandi magnast þessi áhrif hraðar en víðast hvar. Þegar fólksfjölgun, fjárfestingar og tækifæri safnast á einn stað verður búsetuval fólks sífellt þrengra. Mörg flytja, ekki vegna þess að þau vilji það heldur vegna þess að kerfið gerir ráð fyrir því. Þá er vandinn ekki einstaklinganna heldur skipulagið sjálft. 

Kerfisbundið gegn dreifðri byggð 

Samþjöppun á sér sjaldnast stað vegna einnar stórrar ákvörðunar. Hún verður til í gegnum fjölda smárra ákvarðana sem allar virðast skynsamlegar einar og sér; sameining þjónustu, miðlæg stjórnun og hagkvæmnissjónarmið. Saman mynda þær þó kerfi sem vinnur kerfisbundið gegn dreifðri byggð. 

Sterkar landsbyggðir eru ekki rómantísk hugmynd heldur grundvallarinnviður samfélagsins. Það tengist fæðuöryggi, orkuöryggi, verðmætasköpun og viðbragðsgetu þjóðarinnar. Lönd sem hafa leyft stórum svæðum að veikjast samfélagslega glíma í dag við mikinn kostnað við að reyna að snúa þróuninni við. Oft án árangurs. Gefið að vilji sé til staðar. 

Hefur fólk raunverulegt val? 

Jöfnun atkvæðavægis getur verið rétt og sanngjarnt. Það verður að fara saman við markvissa valddreifingu. Annars er hætt við að lýðræðið verði jafnt í orði en ekki á borði. Raunverulegt jafnræði felst ekki aðeins í því hvernig kosið er heldur í því hvernig landið allt er byggt upp. 

Spurningin sem við stöndum frammi fyrir er því ekki hvort öll eigi jafnt atkvæði heldur hvort við viljum samfélag sem gengur út frá því að Ísland sé eitt þjónustusvæði eða land þar sem fólk getur raunverulega valið sér búsetu án þess að þurfa að fórna aðgengi, tækifærum eða lífsgæðum. 

Ef kerfið gerir ráð fyrir einni miðju og mörgum jaðrum þá er hætt við að landið allt verði jaðar að lokum. 

Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Næst á dagskrá

Deila grein

24/01/2026

Næst á dagskrá

Framsóknarflokkurinn hefur átt góða samleið með íslensku þjóðinni í gegnum tíðina og tekið virkan þátt í að koma Íslandi í fremstu röð þjóða. Tímamót eru fram undan hjá Framsókn, þar sem ný forysta verður kosin – þar sem ég hef boðið mig fram til formennsku. Ég legg áherslu á eftirtalin mál:

Heimilin og atvinnulífið

Standa þarf betur með heimilunum í landinu, þar sem þrengt er að stöðu þeirra. Heimilin finna fyrir auknum álögum í formi skattahækkana og greiðslu opinberra gjalda. Jafnframt hefur verðbólgan verið þrálát. Brýnasta verkefnið er að ná niður verðbólgu til að vextir geti lækkað. Sterkt atvinnulíf er lykillinn að öflugri velferð. Einfalda verður regluverk, minnka álögur og gera það enn samkeppnishæfara á alþjóðavísu. Heimagerð óvissa ríkir um þessar mundir, sem dregur úr fjárfestingum og hagvexti. Stjórnvöld þurfa að leiða með góðu fordæmi, halda aftur af eigin launahækkunum og hækkunum opinberra álaga og gjalda með 2,5% þaki sem kallast á við verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Fullveldi Íslands og alþjóðasamvinna

Frelsi og fullveldi þjóðarinnar eru undirstaða framfara. Velmegun er mest í landinu, þegar við ráðum okkar málum og auðlindum sjálf. Sjálfbær auðlindanýting er grunnurinn að þeim lífskjörum sem Ísland býr við í dag. Aðild að Evrópusambandinu mun ekki auka hagsæld á Íslandi og hagsmunum Íslands er best borgið utan þess. Halda skal áfram góðum og nánum samskiptum við Evrópusambandið á grundvelli EES-samningsins.

Greiður aðgangur að helstu útflutningsmörkuðum þjóðarinnar er lykillinn að hagsæld, og því brýnt að Ísland sé í mikilli alþjóðasamvinnu og að hagsmunagæsla Íslands sé efld til muna. Við stöndum með frænd- og vinaþjóðum okkar, styðjum við Grænlendinga og lífskjarasókn þeirra og leggjum áherslu á að alþjóðalög séu virt. Áframhaldandi samstarf í öryggis- og varnarmálum á grundvelli Atlantshafsbandalagsins verður áfram hryggjarstykki í utanríkismálum þjóðarinnar.

Menntun, tækniframfarir og tungumálið

Menntun og tækniframfarir eru grundvöllurinn að áframhaldandi lífskjarasókn á Íslandi. Við verðum að gera betur í því að efla menntakerfið okkar en það viðfangsefni krefst samvinnu við kennara og skólastjórnendur. Fjárfestum í menntun og ráðumst í kerfisbreytingar sem byggjast á rannsóknum sem munu skila meiri árangri fyrir framtíð unga fólksins. Fjárfesta verður í tækniframförum, því tækifærin fyrir Ísland eru mörg á þessu sviði hvort heldur í hreinni orku, sjávarútvegi, ferðaþjónustu eða gervigreind. Tungumálið okkar, íslenskan, sameinar okkur. Fjárfestum í tungumálinu og gerum það aðgengilegt – þannig að allir geti lært íslensku. Ísland stendur frammi fyrir mörgum áskorunum en í því felast líka tækifæri, ef rétt er haldið á málum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Hver spurði þig?

Deila grein

20/01/2026

Hver spurði þig?

Hver spurði þig um bílastæðareglur Reykjavíkurborgar?

Sennilega ekki borgin.

Árið 2019 setti Reykjavíkurborg sér reglur um fjölda bíla- og hjólastæða í Reykjavík. Það kann að hljóma skynsamlegt að setja viðmið um bílastæðafjölda við nýbyggingar. Þar til umræddar reglur eru lesnar.

Samkvæmt ferðavenjukönnunum nota um 70% fullorðinna Reykvíkinga bíl sem sinn aðal samgöngumáta til vinnu eða skóla. Fjölskyldubílinn er því lang mest nýtti ferðamáti borgarbúa en samt gera reglur borgarinnar ráð fyrir að hámarki 0,75 bílastæði við 2 herbergja íbúð á svæði 1 sem teygir sig yfir borgina endilanga.

Þau sem búa við nýbyggingar upplifa afleiðingarnar þessara reglna á hverjum degi, þ.e. skort á bílastæðum fyrir utan heimili þeirra. Við þekkjum öll sögur af fólki sem fær ekki að breyta hluta af garðinum í bílastæði, blokkir sem eru byggðar með 0,25 bílastæði á íbúð og umræðuna há bílastæðagjöld.

Reglur Reykjavíkurborgar um bílastæði eru umdeildar. Ekki af ástæðulausu enda eru þær mjög íþyngjandi fyrir borgarbúa og hafa bein áhrif á lífsgæði þeirra. Eðlilegt er því að spyrja borgarbúa hvernig þeir vilja að reglur borgarinnar um bílastæði sé háttað.

Raunverulegt ferðafrelsi felst ekki í því að þröngva öllum í einn samgöngumáta. Það felst í jafnvægi. Að byggja samtímis upp innviði fyrir bíla, hjól, strætó og gangandi vegfarendur. Fólk á að hafa raunverulegt val um ferðamáta, ekki aðeins þann kost sem borgarstjórnarmeirihlutinn telur æskilegan.

Yfirlýsingar fulltrúa meirihlutans benda þó til þess að sjónarmið þeirra séu úr takti við vilja borgarbúa. Borgarstjóri Samfylkingarinnar hefur til dæmis sagt að bílastæði sem nú eru fyrir utan heimili fólks séu ekki endilega örugg til framtíðar. Þá hefur nýr oddvitaframbjóðandi sama flokks lýst því yfir að bílastæðagjöld í Reykjavík séu of lág miðað við aðrar borgir.

Dæmi hver fyrir sig í næstu kosningum.

Við í Framsókn teljum tímabært að Reykjavíkurborg kanni afstöðu borgarbúa og leggjum til að gerð verði könnun á meðal Reykvíkinga á reglum borgarinnar um bíla- og hjólastæði. Slík könnun myndi gefa borginni heildstæðari mynd af vilja og þörfum íbúanna og nýtast við framtíðarákvarðanir.

Það er kominn tími til að borgin spyrji þig!

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Þjónustukjarni eldri borgara – lykill að gæðasamfélaginu í Hvera­gerði

Deila grein

18/01/2026

Þjónustukjarni eldri borgara – lykill að gæðasamfélaginu í Hvera­gerði

Gæði samfélags mælast í því hvernig við þjónustum íbúana. Íbúasamsetning í Hveragerði er fjölbreytt og býr í bænum m.a. fjölmennur og virkur hópur eldra fólks. Það er eitt af megin áherslumálum Framsóknar að bjóða upp á fjölbreyttan búsetuvalkost fyrir alla hópa samfélagsins. Það er því mikilvægt að hlusta eftir því hvað hentar hverjum. Í Hveragerði er öflugt félagsstarf hjá Félagi eldri borgara. Félagið heldur úti fjölbreyttri starfsemi fyrir þau sem hafa náð 60 ára aldri. Markmið félagsins er að vinna að velferðarmálum eldra fólks og það gera þau með því að vekja athygli á þörfum eldri borgara. Þá er markmið um að stuðla að aukinni þjónustu og skipuleggja og framkvæma tómstunda- og félagsstarf meðal félaga. Samtal bæjaryfirvalda og FEB er gríðarlega mikilvægt og viljum við trúa því að afrakstur þeirrar samvinnu kristallist í undirbúningshópi sem nú hefur verið komið á.

Undirbúningshópur vegna nýs þjónustukjarna eldri borgara í Hveragerði

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 9. október 2025 að stofnaður yrði undirbúningshópur vegna nýs þjónustukjarna eldri borgara í Hveragerði. Fram kom á þeim fundi að hópnum sé ætla að vinna að og skila skýrslu til bæjarstjórnar. Markmið skýrslunnar er að draga saman forsendur fyrir slíku verkefni. Einnig er hópnum ætlað að skila tillögum að ákjósanlegri staðsetningu og þarfagreiningu á hlutverki og mögulegri starfsemi þjónustukjarnans.

Hópurinn skipaður

Erindið var tekið fyrir á fundi Öldungaráðs Hveragerðisbæjar þann 11. desember 2025 og þar skipað í undirbúningshópinn. Samþykkt var að skipa í hópinn einn fulltrúa frá hverju stjórnmálaafli í Hveragerði og tvo fulltrúa frá FEB. Framsókn í Hveragerði: Garðar Rúnar Árnason, Okkar Hveragerði: Anna Jórunn Stefánsdóttir, Sjálfstæðisflokkur: Ásta Magnúsdóttir, Félag eldri borgara í Hveragerði: Kristinn G. Kristjánsson og Daði V. Ingimundarson. Að auki mun starfsmaður hópsins koma frá Hveragerðisbæ. Í undirbúningshópnum er því gert ráð fyrir samvinnu sveitarfélagsins, Öldungaráðs og Félags eldri borgara.

Aukin lífsgæði

Stofnun þessa stýrihóps markar spennandi skref í átt að aukinni þjónustu sem mætir þörfum eldri borgara. Með sameiginlegu átaki og góðri samvinnu er færi á að móta framtíðarsýn um uppbyggingu þjónustukjarna sem stuðlar að auknum lífsgæðum fyrir öll sem nýta þjónustuna. Þetta er fjárfesting í framtíð sem þjónar okkur öllum – hvort sem er í dag eða síðar á lífsleiðinni.

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir er oddviti Framsóknar og formaður bæjarráðs Hveragerðisbæjar og Garðar Rúnar Árnsason er fulltrúi Framsóknar í öldungaráði Hveragerðisbæjar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Mikilvægasta auðlindin er sjálfstæði þjóðarinnar

Deila grein

17/01/2026

Mikilvægasta auðlindin er sjálfstæði þjóðarinnar

Frjálsum og fullvalda lýðræðisríkjum hefur vegnað einna best í mannkynssögunni. Fram kemur í Íslendingabók Ara fróða að: „Ísland hafi fyrst byggst úr Noregi á dögum Haralds hins hárfagra“. Ein meginástæða þess að fólk ákvað að nema nýtt land á Íslandi ásamt ónógu landrými, var viljinn til að skapa nýtt samfélag sem var frjálst undan konungsvaldi. Vilji var til þess að móta nýjan samfélagssáttmála, þar sem lýðræði réð ríkjum um allt land en ekki á takmörkuðu svæði líkt og Gulaþing gerði. Landnemar Íslands náðu að reisa merkilegt samfélag sem við enn í dag njótum góðs af. Framfarir á Íslandi hafa átt sér stað þegar valdið hefur verið sem næst fólkinu í landinu. Þess vegna var barist fyrir endurreisn Alþingis og frjálsu og fullvalda ríki af Jóni Sigurðssyni forseta. Ein mesta sátt sem náðst hefur á Íslandi á síðari tímum var stofnun lýðveldisins Íslands.

Fullveldis- og sjálfstæðissaga Íslands einkennist af framförum og lífskjarasókn. Sjálfstæð nýting auðlinda okkar er áfram grundvöllurinn að áframhaldandi vexti þjóðarinnar. Mikilvægt er að tryggja áframhaldandi sjálfstæði Íslands á öllum sviðum og ekki síst við stjórn orkumála, sjávarútvegs og annarra náttúruauðlinda.

Hagsæld fæst ekki með umfangsmikilli skattlagningu, miðstýringu eða með því að fela stjórnun á eigin málum í hendur annarra. Enn verra er að blanda þessu þrennu saman. Flest ríki sem hafa reynslu af slíku stjórnarfari hafa ekki góða sögu að segja.

Samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hefur hagvöxtur á Íslandi verið meira en helmingi hærri frá aldamótum en á evrusvæðinu. Atvinnuleysi hefur jafnframt verið hér helmingi minna og atvinnutekjur að meðaltali einna hæstar innan evrópska efnahagssvæðisins. Flestir hagfræðingar myndu segja að þetta væri nokkuð góður árangur.

Í umróti alþjóðastjórnmálanna er nauðsynlegt að rifja upp söguna og muna hvað hefur þjónað okkur vel. Í mínum huga er sjálfstæði þjóðarinnar ein mikilvægasta auðlind okkar. Því eigum við ekki að gefa því undir fótinn að ganga í Evrópusambandið né heldur vera undir öðru erlendu valdi.

Fram kemur í Ritgerð um ríkisvald hjá John Locke: „Frelsi mannsins í samfélagi felst í að lúta hvorki lögsögu neins annars valds en þess sem hefur verið komið á í ríkinu með samkomulagi, né að vera undir yfirráðum vilja nokkurs manns eða takmörkunum annarra laga en þeirra sem löggjafarvaldið hefur sett í samræmi við það umboð sem því hefur verið veitt.“ Grunninn að frjálsum lýðræðisríkjum má finna í þessari hugsun Locke. Höfum þessi grunngildi hugföst þegar umræðan um stöðu Íslands hefst fyrir alvöru og munum til hvers var barist á sínum tíma. Sýnum því virðingu og umfram allt skilning.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 17. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Hið ósökkvandi flugmóðurskip

Deila grein

11/01/2026

Hið ósökkvandi flugmóðurskip

Íslandi hefur verið lýst sem ósökkvandi flugmóðurskipi í Norður-Atlantshafinu. Mikilvægi Íslands út frá öryggis- og varnarmálum er óumdeilt enda lagði Churchill mikið á sig til að halda siglingaleiðinni yfir Atlantshafið öruggri. Sú sögulega staðreynd að Ísland var staðsett þar sem lýðræði og markaðshagkerfi hafa verið ráðandi skýrir að mörgu leyti þá framþróun landsins frá sjálfstæði. Lýðræðishefðin á Íslandi á sér þó miklu lengri sögu, eins og þekkt er.

Mikil umræða hefur verið um utanríkisstefnu Bandaríkjanna í ljósi afskipta af stjórnarfari í Venesúela. Slík aðkoma Bandaríkjanna er ekki ný af nálinni. Hins vegar er það algjört nýmæli að forseti Bandaríkjanna lýsi ítrekað yfir vilja sínum til að komast yfir landsvæði bandalagsþjóða í trássi við vilja þeirra og heimamanna. Fjölmargar skoðanakannanir sýna að Grænlendingar vilja sjálfstæði, sérstaklega ef hagkerfið verður sjálfbært, en enn í dag reiða þeir sig á umfangsmikið fjárframlag frá Danmörku. Hins vegar, í ljósi þeirra auðlinda sem Grænland býr yfir, þá ætti efnahagur þeirra að taka við sér til heilla fyrir Grænlendinga sjálfa.

Eðlilega eru viðbrögðin sterk við þessari stefnubreytingu forseta Bandaríkjanna hjá bandalagsþjóðum. Hins vegar, ef marka má umræður í öldungadeild Bandaríkjanna í vikunni, þá virðast þessi áform forsetans eiga langt í land. Ásamt því liggur fyrir þingsályktunartillaga þess efnis að takmarka heimildir forsetans um að taka einhliða ákvörðun um stríðsrekstur þjóðarinnar.

Staða Íslands í alþjóðakerfinu er enn sterk út frá öryggis- og varnarhagsmunum. Fernt skiptir mestu í því samhengi, sem verður að halda til haga. Í fyrsta lagi að Ísland er herlaust ríki sem reiðir sig á varnarsamvinnu við önnur lýðræðisríki. Í öðru lagi þarf að styrkja þátttöku í starfi og verkefnum Atlantshafsbandalagsins – sem er ein meginvörn landsins. Í þriðja lagi þarf að efla varnarsamstarfið við Bandaríkin á grundvelli varnarsamnings frá 1951. Að lokum verður að styrkja þátttöku í svæðisbundnu samstarfi um varnar- og öryggismál með áherslu á norðurslóðir og norrænt varnarsamstarf. Þessar fjórar meginstoðir hafa að mestu verið gerðar í þverpólitískri sátt undanfarin ár og má finna í öryggis- og varnarmálastefnu utanríkisráðherra.

Rökstuðningur utanríkisráðherra um mikilvægi þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu til að styrkja varnir Íslands er veikur í besta falli, þar sem Evrópusambandið hefur ekki miðlægan her. Möguleg aðild að ESB er mjög umdeild og til þess fallin að sundra íslensku þjóðinni. Yfirvegun og festa eru lykilatriði fyrir Ísland á þessum viðsjárverðu tímum. Hringlandaháttur er ekki í boði. Sjálfstæði þjóðarinnar er okkar mesta auðlind og það ber að styrkja og verja.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Áfram verður fjárfest í íþróttamannvirkjum í Kópavogi

Deila grein

08/01/2026

Áfram verður fjárfest í íþróttamannvirkjum í Kópavogi

Meirihluti bæjarstjórnar í Kópavogi hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Fyrir því er löng hefð og ríkar ástæður. Flest höfum við ánægju af því að fylgjast með iðkendum úr hinum ýmsu greinum etja kappi. Íþróttir eru samt svo miklu meira en keppni, árangur og afrek. Þær eru eitt öflugasta verkfæri samfélagsins til að efla heilsu, samkennd og jafnrétti. Þær eru einstaklega vel til þess fallnar að brúa bilið milli ólíkra hópa þar sem fjölbreyttur bakgrunnur er ekki lengur hindrun fyrir þátttöku, Þær byggja upp samheldni, skapa mikilvæga félagslega innviði og kenna gildi sem skipta máli út lífið.

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar 2026 gerir ráð fyrir að nálægt 5 milljörðum verði varið til fjárfestinga á af hálfu bæjarins á árinu. Þar vega íþróttamannvirki þungt. Framkvæmdir við nýja stúku og keppnisvöll HK hefjast á árinu og verður sú framkvæmd mikil lyftistöng í aðstöðumálum knattspyrnudeildar félagsins. Þá eru lagðir til fjármunir til byggingar á félagshesthúsi á félagssvæði hestamannafélagsins Spretts. Þessi verkefni koma beint í framhaldi af tveimur stórframkvæmdum árin 2024-2025 á félagssvæði Breiðabliks þar sem reistur hefur verið nýr gervigrasvöllur auk mikilsháttar endurnýjunar á undirlagi og yfirborði vallar inni í Fífunni.
Þótt mannvirkin séu mikilvæg þá gegna íþróttafélögin lykilhlutverki því þar býr félagsauðurinn. Ekki dugir að byggja hús ef öflugt félagsstarf er ekki til staðar. Íþróttafélög af öllum gerðum og stærðum eru óvíða jafn kröftug og í Kópavogi og þau sjá til þess að markvisst og faglegt starf sé rekið í mannvirkjunum.

Heilbrigt íþróttastarf á því allt sitt undir því að skilningur og traust samband ríki ávallt milli íþróttafélaganna og bæjarfélagsins.

Orri Hlöðversson, oddviti B lista og formaður bæjarráðs Kópavogs.

Greinin birtist fyrst á kpg.is 8. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtt ár kallar á samstöðu

Deila grein

05/01/2026

Nýtt ár kallar á samstöðu

Við göngum inn í nýtt ár á tímum mikillar óvissu. Stríðsátök, spenna í samskiptum stórvelda, uppskerubrestir, ójöfnuður og almennur óstöðugleiki víða um heim minna okkur á að friður, öryggi og velmegun eru ekki sjálfsagðir hlutir. Þótt Ísland sé fjarri ófriði og samfélagið búi almennt við mikinn jöfnuð finnum við vel fyrir áhrifum heimsmála, meðal annars í efnahagslegum sveiflum, verðbólgu og þeirri tilfinningu að framtíðin sé ófyrirsjáanlegri en áður.

Áramót eru því merkileg tímamót. Þau gefa okkur færi á að staldra við, líta yfir farinn veg og horfa fram á við. Á slíkum tímum er það á ábyrgð okkar allra að finna það sem sameinar okkur og styrkir samfélagið, fremur en að festast í sundrung og skammtímadeilum.

Samstaða í verki felur í sér að við hlustum hvert á annað, jafnvel þegar við erum ósammála. Hún felur í sér að við kjósum samvinnu fram yfir sundrung og viðurkennum að samfélaginu gengur betur þegar allir geta lagt sitt af mörkum á eigin forsendum. Þetta á jafnt við um einstaklinga og fyrirtæki, stjórnvöld og stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök.

Staðreyndin er sú að við höfum tilhneigingu til að ræða vandamál og gagnrýna lausnir út frá okkar eigin sjónarhorni, án þess að taka nægilegt tillit til sjónarmiða annarra. Áskoranir samtímans kalla hins vegar á víðsýni og þegar við leggjum áherslu á það sem sameinar okkur fremur en það sem sundrar, styrkjum við samfélagið í heild.

En fögur orð duga ekki ein og sér. Þau verða að birtast í áþreifanlegum árangri. Við þurfum aðgerðir í menntamálum, aðgerðir í atvinnumálum, aðgerðir og aftur aðgerðir. Raunverulegar lausnir sem bæta líf fólksins í landinu.

Verðmætasköpun er undirstaða velmegunar

Verðmætasköpun er undirstaða alls þess sem við viljum standa vörð um. Hún er forsenda öflugrar velferðar, traustrar heilbrigðisþjónustu og menntunar sem undirbýr okkur fyrir framtíðina. Gegnsæi í störfum hins opinbera og kraftmikið atvinnulíf eru samverkandi þættir sem skapa grundvöll öryggis og stöðugleika.

Útflutningsgreinar landsins eru og verða burðarás hagkerfisins. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, skapandi greinar, hugverkaiðnaður, orkutengd starfsemi og nýsköpun skapa tekjur, störf og gjaldeyri sem gera samfélaginu kleift að halda úti sameiginlegum kerfum. Þessar greinar byggja á þekkingu, mannauði og skýru regluverki en þær þurfa stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi.

Reynslan af aðgerðum stjórnvalda í heimsfaraldri covid-19 sýnir þetta vel. Þá stóð þjóðin saman og samfélagið studdi við atvinnulífið á margvíslegan hátt. Sú stefna, ásamt sanngjörnum og hóflegum aðgerðum, hefur skilað sér í miklum styrk og sveigjanleika íslensks atvinnulífs síðustu ár. En sú staða krefst áframhaldandi fyrirhyggju. Til að verðmætasköpun haldi áfram að vaxa þarf fyrirsjáanleika, stöðuga efnahagsstefnu, hófsemi í opinberum útgjöldum, skýra forgangsröðun og ábyrga skattastefnu. Því án sjálfbærrar verðmætasköpunar veikist velferðin smám saman.

Áskoranir atvinnulífsins birtast á mismunandi hátt eftir greinum. Í ferðaþjónustu, sem er ein af stoðum hagkerfisins, hafa árin í kjölfar covid-tímabilsins verið krefjandi. Greinin hefur þó tekist á við breyttar aðstæður og þarf nú að finna jafnvægi milli vaxtar og sjálfbærni. Það eru þó ýmsar blikur á lofti og mikilvægt að sýna þeim áskorunum skilning og vinna að lausnum sem styðja við greinina til framtíðar.

Heilbrigðiskerfið krefst langtímasýnar

Öflugt atvinnulíf og sterkt velferðarkerfi eru ekki andstæður. Þau eru háð hvort öðru. Án verðmætasköpunar er engin velferð, og án velferðar veikist samfélagið til lengri tíma. Þetta samhengi blasir skýrt við þegar horft er til heilbrigðiskerfisins. Þar hefur fagfólk sýnt mikla seiglu og ábyrgð, oft við krefjandi aðstæður. En ekkert kerfi getur byggt framtíð sína á fórnfýsi einni saman.

Flestar þjóðir glíma við svipaðar áskoranir og við og brestir heyrast víða. Því leggja þjóðir nú aukna áherslu á fjárfestingu í mannauði og innviðum, skýra stefnu um fjármögnun heilbrigðismála og raunhæfa langtímasýn. Það krefst þess að við finnum saman raunhæfar leiðir til að tryggja nægjanlegar tekjur ríkissjóðs til að halda úti traustri heilbrigðisþjónustu.

Menntakerfið mótar framtíðina

Menntakerfið er þó sú fjárfesting sem skiptir einna mestu máli til framtíðar. Þar er grunnur lagður að verðmætasköpun morgundagsins og þar mótast framtíð og viðhorf næstu kynslóða. En þróunin síðustu ár er áhyggjuefni. Brottfall nemenda, slakur árangur og hækkandi meðalaldur kennara kalla á viðbrögð. Hlutfall ungra kennara er með því lægsta í Evrópu.

Ef ekki verður brugðist við mun það hafa áhrif langt út fyrir veggi skólanna. Áhrifin munu smám saman koma fram í getu okkar til að skapa verðmæti og tryggja velmegun. Við þurfum að fjárfesta til langs tíma í eflingu kennaranáms, bættu starfsumhverfi kennara, tryggja öryggi í skólum og styrkja námsgagnagerð. Þetta er verkefni þjóðarinnar allrar.

Ungt fólk þarf tækifæri

Við þurfum umfram allt að skapa raunveruleg tækifæri fyrir ungt fólk. Húsnæðismarkaðurinn er orðinn ein stærsta áskorunin í lífi ungra fjölskyldna og fyrstu kaupenda sem of oft eiga erfitt með að eignast húsnæði. Þegar ungt fólk getur ekki séð fyrir sér framtíð á Íslandi vegna húsnæðisskorts er það vandamál sem snertir alla þjóðfélagshópa.

Við þurfum að auka framboð, auka gæði húsnæðis og tryggja að fólk geti byggt sér framtíð hér á landi. Það krefst samstarfs ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila, sem og nýrrar hugsunar í skipulagsmálum. Þegar við fjárfestum í húsnæðismálum ungs fólks fjárfestum við í framtíð þjóðarinnar.

Tækifæri um allt land

Áreiðanlegar samgöngur eru ekki bara þægindi heldur forsenda blómlegs atvinnulífs og að fólk geti búið og starfað um land allt. Þegar samgöngur eru ótryggar skerðast tækifæri, verðmætasköpun minnkar og ójöfnuður eykst.

Við þurfum að tryggja að innviðir samgangna séu öflugir, hvort sem um er að ræða vegakerfi, flugsamgöngur eða sjósamgöngur. Fjárfesting í samgöngum er fjárfesting í jöfnuði, byggð og framtíð landsins alls.

Innflytjendur hluti af samfélaginu

Málefni innflytjenda hafa verið áberandi síðustu misseri. Í því ljósi þurfum við að móta skýrari stefnu um hvernig við tökum á móti þeim sem koma hingað til að leggja sitt af mörkum. Ísland þarf á vinnandi höndum að halda og margir innflytjendur gegna lykilhlutverkum í heilbrigðisþjónustu, skólum og atvinnulífi.

Lausnin felst ekki í útilokun heldur í skýrri og sanngjarnri stefnu sem byggist á gagnkvæmum réttindum og skyldum. Þekking á íslensku er lykillinn að þátttöku, við eigum að gera kröfur til kunnáttu í íslensku en um leið verður samfélagið að tryggja raunhæf tækifæri til náms, samhliða skýrum kröfum um virðingu fyrir lögum, reglum og menningu.

Saman erum við sterkari

Á óvissutímum skiptir mestu að þjóðin standi saman. Ekki með orðum einum saman, heldur með ábyrgum ákvörðunum og raunverulegum árangri. Þegar við skiljum að verðmætasköpun og velferð styðja hvort annað, styrkjum við samfélagið í heild. Með því að fjárfesta í heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með því að skapa tækifæri fyrir ungt fólk og tengja landið saman með öflugum innviðum. Með því að styðja við atvinnulíf sem getur dafnað og skapað störf fyrir alla.

Þar liggur mesti styrkur okkar sem þjóðar og þar liggja tækifærin á nýju ári.

Gleðilegt nýtt ár.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsáskoranir 2026: Verðbólga, hagvöxtur og atvinna

Deila grein

04/01/2026

Efnahagsáskoranir 2026: Verðbólga, hagvöxtur og atvinna

Verðbólga mælist 4,5%. Hagvöxtur er að minnka hratt á Íslandi og gert ráð fyrir að hann hafi verið 0,9% á síðasta ári. Atvinnuleysi mælist 6,5% og hefur vaxið hratt. Þetta eru ekki bara tölur á blaði: þær lýsa veikburða efnahagsstjórn.

Fyrsta stóra áskorunin 2026 er að ná verðbólgu niður og fara í raunverulegar aðgerðir sem ná tökum á verðbólguvæntingum. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabankanum og það sést best á fjárlagafrumvarpinu 2026. Þar er bætt við útgjöldum upp á 143 ma.kr.! Heildarútgjöld aukast um 5,4% á föstu verðlagi. Ljóst er að þau koma ekki til með að slá á verðbólgu. Gjöld og þjónusta ríkisins er einnig að hækka um 3,7%. Skilaboðin í þessum fjárlögum eru einföld. Ríkisstjórnin hefur ekki áhyggjur af verðbólguþróun. Hér þarf að gera betur með meiri aga og framsýni. Ríkisfjármál verða að styðja við aðhald peningastefnunnar með skýrri forgangsröðun, minni óvissu og ráðstöfunum sem draga úr þrýstingi í stað þess að kynda undir verðbólgunni, annars lengist hávaxtatímabilið og kostnaðurinn færist á heimilin.

Önnur áskorunin er hagvöxtur. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur síðasta árs sé tæp 1% og hóflegum vexti í ár. Meginorsakir má finna í erfiðum skilyrðum á fjármálamarkaði, þrengt er að helstu útflutningsgreinum þjóðarbúsins í boði ríkisstjórnarinnar og svo er áframhaldandi óvissa um alþjóðaviðskipti. Aukin verðmætasköpun og hagvöxtur haldast í hendur. Ef þrengt er verulega að atvinnulífinu, þannig að verðmætasköpun og hagvöxtur minnki – þá getur það samfélag ekki vaxið og dafnað. Velferðarkerfið þarfnast þess að hér sé góður hagvöxtur.

Þriðja áskorunin er atvinnuleysi en það hefur aukist. Atvinnuleysi er mesta böl allra samfélaga. Franklin D. Roosevelt, fv. forseti Bandaríkjanna, skildi skaðsemi atvinnuleysis manna best og sagði í innsetningarræðunni: „Það er forgangsatriði að koma fólki í vinnu!“ Atvinnuleysi í kreppunni miklu hljóp á tugum prósenta og gríðarleg fátækt ríkti sökum þessa.

Skilaboð mín eru einföld. Við getum aldrei tekið góðum lífskjörum sem sjálfsögðum. Hafa þarf hugfast að íslenska þjóðin hefur lagt hart að sér. Ef efnahagsstefna er ekki skynsöm og þeir sem stýra skilja ekki í hverju samkeppnisstaða okkar liggur, þá getur fjarað ansi hratt undan. Það er skortur á skýrri stefnu í efnahagsmálum. Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru fálmkennd. Fjármála- og efnahagsráðherra talar um að fjárlögin 2026 séu nokkuð aðhaldssöm en þau eru það ekki. Forsætisráðherra segir að um sé að ræða ákveðna aðlögun og hvetur þjóðina til að sýna þolinmæði – ég spyr á móti. Hvaða aðlögun? Eigum við að aðlaga okkur að hærra atvinnuleysi og litlum hagvexti, eins og sum ríki Evrópusambandsins. Ég segi: Nei, takk!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. janúar 2026.

Categories
Fréttir

Auglýst eftir framboðum á lista Framsóknar í Reykjavík

Deila grein

02/01/2026

Auglýst eftir framboðum á lista Framsóknar í Reykjavík

Kjörstjórn auglýsir eftir framboðum á framboðslista Framsóknar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 16. maí 2026. Kosið verður um fjögur efstu sætin á tvöföldu kjördæmaþingi þann 7. febrúar n.k.

Frambjóðendur skulu vera kjörgengir í næstu sveitarstjórnarkosningum, búsettir í Reykjavík og félagar í Framsóknarflokknum. Frambjóðendur eru hvattir til að kynna sér vel framboðsreglur um tvöfalt kjördæmaþing.

Tvöfalt kjördæmaþing fer fram laugardaginn 7. febrúar 2026 á Hilton Reykjavík Nordica.

Framboðsfrestur rennur út föstudaginn 23. janúar 2026 kl.12:00.

Tekið er á móti framboðum á netfanginu reykjavik@framsokn.is

Í framboðstilkynningu skulu frambjóðendur gefa kost á sér í ákveðin sæti, eitt eða fleiri. Hver frambjóðandi skal skila ljósmynd og að hámarki 400 orða kynningartexta með framboðstilkynningu ásamt meðmælendalista með að lágmarki 10 og að hámarki með 20 flokksbundnu framsóknarfólki.

Frambjóðendur geta nálgast eyðublað til að safna meðmælum hér.

Frambjóðendur í önnur sæti

Kjörstjórn gerir tillögu að skipan framboðslistans í heild og óskar eftir tilnefningum eða framboðum í önnur sæti listans. Áhugasamir eru beðnir að senda tölvupóst á netfangið reykjavik@framsokn.is með upplýsingum um nafn og kennitölu.

Kjörstjórn Framsóknar í Reykjavík