Categories
Fréttir Greinar

Áfram verður fjárfest í íþróttamannvirkjum í Kópavogi

Deila grein

08/01/2026

Áfram verður fjárfest í íþróttamannvirkjum í Kópavogi

Meirihluti bæjarstjórnar í Kópavogi hefur undanfarin ár lagt mikla áherslu á uppbyggingu íþróttamannvirkja. Fyrir því er löng hefð og ríkar ástæður. Flest höfum við ánægju af því að fylgjast með iðkendum úr hinum ýmsu greinum etja kappi. Íþróttir eru samt svo miklu meira en keppni, árangur og afrek. Þær eru eitt öflugasta verkfæri samfélagsins til að efla heilsu, samkennd og jafnrétti. Þær eru einstaklega vel til þess fallnar að brúa bilið milli ólíkra hópa þar sem fjölbreyttur bakgrunnur er ekki lengur hindrun fyrir þátttöku, Þær byggja upp samheldni, skapa mikilvæga félagslega innviði og kenna gildi sem skipta máli út lífið.

Fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar 2026 gerir ráð fyrir að nálægt 5 milljörðum verði varið til fjárfestinga á af hálfu bæjarins á árinu. Þar vega íþróttamannvirki þungt. Framkvæmdir við nýja stúku og keppnisvöll HK hefjast á árinu og verður sú framkvæmd mikil lyftistöng í aðstöðumálum knattspyrnudeildar félagsins. Þá eru lagðir til fjármunir til byggingar á félagshesthúsi á félagssvæði hestamannafélagsins Spretts. Þessi verkefni koma beint í framhaldi af tveimur stórframkvæmdum árin 2024-2025 á félagssvæði Breiðabliks þar sem reistur hefur verið nýr gervigrasvöllur auk mikilsháttar endurnýjunar á undirlagi og yfirborði vallar inni í Fífunni.
Þótt mannvirkin séu mikilvæg þá gegna íþróttafélögin lykilhlutverki því þar býr félagsauðurinn. Ekki dugir að byggja hús ef öflugt félagsstarf er ekki til staðar. Íþróttafélög af öllum gerðum og stærðum eru óvíða jafn kröftug og í Kópavogi og þau sjá til þess að markvisst og faglegt starf sé rekið í mannvirkjunum.

Heilbrigt íþróttastarf á því allt sitt undir því að skilningur og traust samband ríki ávallt milli íþróttafélaganna og bæjarfélagsins.

Orri Hlöðversson, oddviti B lista og formaður bæjarráðs Kópavogs.

Greinin birtist fyrst á kpg.is 8. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Nýtt ár kallar á samstöðu

Deila grein

05/01/2026

Nýtt ár kallar á samstöðu

Við göngum inn í nýtt ár á tímum mikillar óvissu. Stríðsátök, spenna í samskiptum stórvelda, uppskerubrestir, ójöfnuður og almennur óstöðugleiki víða um heim minna okkur á að friður, öryggi og velmegun eru ekki sjálfsagðir hlutir. Þótt Ísland sé fjarri ófriði og samfélagið búi almennt við mikinn jöfnuð finnum við vel fyrir áhrifum heimsmála, meðal annars í efnahagslegum sveiflum, verðbólgu og þeirri tilfinningu að framtíðin sé ófyrirsjáanlegri en áður.

Áramót eru því merkileg tímamót. Þau gefa okkur færi á að staldra við, líta yfir farinn veg og horfa fram á við. Á slíkum tímum er það á ábyrgð okkar allra að finna það sem sameinar okkur og styrkir samfélagið, fremur en að festast í sundrung og skammtímadeilum.

Samstaða í verki felur í sér að við hlustum hvert á annað, jafnvel þegar við erum ósammála. Hún felur í sér að við kjósum samvinnu fram yfir sundrung og viðurkennum að samfélaginu gengur betur þegar allir geta lagt sitt af mörkum á eigin forsendum. Þetta á jafnt við um einstaklinga og fyrirtæki, stjórnvöld og stofnanir, sveitarfélög og félagasamtök.

Staðreyndin er sú að við höfum tilhneigingu til að ræða vandamál og gagnrýna lausnir út frá okkar eigin sjónarhorni, án þess að taka nægilegt tillit til sjónarmiða annarra. Áskoranir samtímans kalla hins vegar á víðsýni og þegar við leggjum áherslu á það sem sameinar okkur fremur en það sem sundrar, styrkjum við samfélagið í heild.

En fögur orð duga ekki ein og sér. Þau verða að birtast í áþreifanlegum árangri. Við þurfum aðgerðir í menntamálum, aðgerðir í atvinnumálum, aðgerðir og aftur aðgerðir. Raunverulegar lausnir sem bæta líf fólksins í landinu.

Verðmætasköpun er undirstaða velmegunar

Verðmætasköpun er undirstaða alls þess sem við viljum standa vörð um. Hún er forsenda öflugrar velferðar, traustrar heilbrigðisþjónustu og menntunar sem undirbýr okkur fyrir framtíðina. Gegnsæi í störfum hins opinbera og kraftmikið atvinnulíf eru samverkandi þættir sem skapa grundvöll öryggis og stöðugleika.

Útflutningsgreinar landsins eru og verða burðarás hagkerfisins. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, skapandi greinar, hugverkaiðnaður, orkutengd starfsemi og nýsköpun skapa tekjur, störf og gjaldeyri sem gera samfélaginu kleift að halda úti sameiginlegum kerfum. Þessar greinar byggja á þekkingu, mannauði og skýru regluverki en þær þurfa stöðugt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi.

Reynslan af aðgerðum stjórnvalda í heimsfaraldri covid-19 sýnir þetta vel. Þá stóð þjóðin saman og samfélagið studdi við atvinnulífið á margvíslegan hátt. Sú stefna, ásamt sanngjörnum og hóflegum aðgerðum, hefur skilað sér í miklum styrk og sveigjanleika íslensks atvinnulífs síðustu ár. En sú staða krefst áframhaldandi fyrirhyggju. Til að verðmætasköpun haldi áfram að vaxa þarf fyrirsjáanleika, stöðuga efnahagsstefnu, hófsemi í opinberum útgjöldum, skýra forgangsröðun og ábyrga skattastefnu. Því án sjálfbærrar verðmætasköpunar veikist velferðin smám saman.

Áskoranir atvinnulífsins birtast á mismunandi hátt eftir greinum. Í ferðaþjónustu, sem er ein af stoðum hagkerfisins, hafa árin í kjölfar covid-tímabilsins verið krefjandi. Greinin hefur þó tekist á við breyttar aðstæður og þarf nú að finna jafnvægi milli vaxtar og sjálfbærni. Það eru þó ýmsar blikur á lofti og mikilvægt að sýna þeim áskorunum skilning og vinna að lausnum sem styðja við greinina til framtíðar.

Heilbrigðiskerfið krefst langtímasýnar

Öflugt atvinnulíf og sterkt velferðarkerfi eru ekki andstæður. Þau eru háð hvort öðru. Án verðmætasköpunar er engin velferð, og án velferðar veikist samfélagið til lengri tíma. Þetta samhengi blasir skýrt við þegar horft er til heilbrigðiskerfisins. Þar hefur fagfólk sýnt mikla seiglu og ábyrgð, oft við krefjandi aðstæður. En ekkert kerfi getur byggt framtíð sína á fórnfýsi einni saman.

Flestar þjóðir glíma við svipaðar áskoranir og við og brestir heyrast víða. Því leggja þjóðir nú aukna áherslu á fjárfestingu í mannauði og innviðum, skýra stefnu um fjármögnun heilbrigðismála og raunhæfa langtímasýn. Það krefst þess að við finnum saman raunhæfar leiðir til að tryggja nægjanlegar tekjur ríkissjóðs til að halda úti traustri heilbrigðisþjónustu.

Menntakerfið mótar framtíðina

Menntakerfið er þó sú fjárfesting sem skiptir einna mestu máli til framtíðar. Þar er grunnur lagður að verðmætasköpun morgundagsins og þar mótast framtíð og viðhorf næstu kynslóða. En þróunin síðustu ár er áhyggjuefni. Brottfall nemenda, slakur árangur og hækkandi meðalaldur kennara kalla á viðbrögð. Hlutfall ungra kennara er með því lægsta í Evrópu.

Ef ekki verður brugðist við mun það hafa áhrif langt út fyrir veggi skólanna. Áhrifin munu smám saman koma fram í getu okkar til að skapa verðmæti og tryggja velmegun. Við þurfum að fjárfesta til langs tíma í eflingu kennaranáms, bættu starfsumhverfi kennara, tryggja öryggi í skólum og styrkja námsgagnagerð. Þetta er verkefni þjóðarinnar allrar.

Ungt fólk þarf tækifæri

Við þurfum umfram allt að skapa raunveruleg tækifæri fyrir ungt fólk. Húsnæðismarkaðurinn er orðinn ein stærsta áskorunin í lífi ungra fjölskyldna og fyrstu kaupenda sem of oft eiga erfitt með að eignast húsnæði. Þegar ungt fólk getur ekki séð fyrir sér framtíð á Íslandi vegna húsnæðisskorts er það vandamál sem snertir alla þjóðfélagshópa.

Við þurfum að auka framboð, auka gæði húsnæðis og tryggja að fólk geti byggt sér framtíð hér á landi. Það krefst samstarfs ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila, sem og nýrrar hugsunar í skipulagsmálum. Þegar við fjárfestum í húsnæðismálum ungs fólks fjárfestum við í framtíð þjóðarinnar.

Tækifæri um allt land

Áreiðanlegar samgöngur eru ekki bara þægindi heldur forsenda blómlegs atvinnulífs og að fólk geti búið og starfað um land allt. Þegar samgöngur eru ótryggar skerðast tækifæri, verðmætasköpun minnkar og ójöfnuður eykst.

Við þurfum að tryggja að innviðir samgangna séu öflugir, hvort sem um er að ræða vegakerfi, flugsamgöngur eða sjósamgöngur. Fjárfesting í samgöngum er fjárfesting í jöfnuði, byggð og framtíð landsins alls.

Innflytjendur hluti af samfélaginu

Málefni innflytjenda hafa verið áberandi síðustu misseri. Í því ljósi þurfum við að móta skýrari stefnu um hvernig við tökum á móti þeim sem koma hingað til að leggja sitt af mörkum. Ísland þarf á vinnandi höndum að halda og margir innflytjendur gegna lykilhlutverkum í heilbrigðisþjónustu, skólum og atvinnulífi.

Lausnin felst ekki í útilokun heldur í skýrri og sanngjarnri stefnu sem byggist á gagnkvæmum réttindum og skyldum. Þekking á íslensku er lykillinn að þátttöku, við eigum að gera kröfur til kunnáttu í íslensku en um leið verður samfélagið að tryggja raunhæf tækifæri til náms, samhliða skýrum kröfum um virðingu fyrir lögum, reglum og menningu.

Saman erum við sterkari

Á óvissutímum skiptir mestu að þjóðin standi saman. Ekki með orðum einum saman, heldur með ábyrgum ákvörðunum og raunverulegum árangri. Þegar við skiljum að verðmætasköpun og velferð styðja hvort annað, styrkjum við samfélagið í heild. Með því að fjárfesta í heilbrigðiskerfi og menntakerfi. Með því að skapa tækifæri fyrir ungt fólk og tengja landið saman með öflugum innviðum. Með því að styðja við atvinnulíf sem getur dafnað og skapað störf fyrir alla.

Þar liggur mesti styrkur okkar sem þjóðar og þar liggja tækifærin á nýju ári.

Gleðilegt nýtt ár.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. janúar 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Efnahagsáskoranir 2026: Verðbólga, hagvöxtur og atvinna

Deila grein

04/01/2026

Efnahagsáskoranir 2026: Verðbólga, hagvöxtur og atvinna

Verðbólga mælist 4,5%. Hagvöxtur er að minnka hratt á Íslandi og gert ráð fyrir að hann hafi verið 0,9% á síðasta ári. Atvinnuleysi mælist 6,5% og hefur vaxið hratt. Þetta eru ekki bara tölur á blaði: þær lýsa veikburða efnahagsstjórn.

Fyrsta stóra áskorunin 2026 er að ná verðbólgu niður og fara í raunverulegar aðgerðir sem ná tökum á verðbólguvæntingum. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabankanum og það sést best á fjárlagafrumvarpinu 2026. Þar er bætt við útgjöldum upp á 143 ma.kr.! Heildarútgjöld aukast um 5,4% á föstu verðlagi. Ljóst er að þau koma ekki til með að slá á verðbólgu. Gjöld og þjónusta ríkisins er einnig að hækka um 3,7%. Skilaboðin í þessum fjárlögum eru einföld. Ríkisstjórnin hefur ekki áhyggjur af verðbólguþróun. Hér þarf að gera betur með meiri aga og framsýni. Ríkisfjármál verða að styðja við aðhald peningastefnunnar með skýrri forgangsröðun, minni óvissu og ráðstöfunum sem draga úr þrýstingi í stað þess að kynda undir verðbólgunni, annars lengist hávaxtatímabilið og kostnaðurinn færist á heimilin.

Önnur áskorunin er hagvöxtur. Gert er ráð fyrir að hagvöxtur síðasta árs sé tæp 1% og hóflegum vexti í ár. Meginorsakir má finna í erfiðum skilyrðum á fjármálamarkaði, þrengt er að helstu útflutningsgreinum þjóðarbúsins í boði ríkisstjórnarinnar og svo er áframhaldandi óvissa um alþjóðaviðskipti. Aukin verðmætasköpun og hagvöxtur haldast í hendur. Ef þrengt er verulega að atvinnulífinu, þannig að verðmætasköpun og hagvöxtur minnki – þá getur það samfélag ekki vaxið og dafnað. Velferðarkerfið þarfnast þess að hér sé góður hagvöxtur.

Þriðja áskorunin er atvinnuleysi en það hefur aukist. Atvinnuleysi er mesta böl allra samfélaga. Franklin D. Roosevelt, fv. forseti Bandaríkjanna, skildi skaðsemi atvinnuleysis manna best og sagði í innsetningarræðunni: „Það er forgangsatriði að koma fólki í vinnu!“ Atvinnuleysi í kreppunni miklu hljóp á tugum prósenta og gríðarleg fátækt ríkti sökum þessa.

Skilaboð mín eru einföld. Við getum aldrei tekið góðum lífskjörum sem sjálfsögðum. Hafa þarf hugfast að íslenska þjóðin hefur lagt hart að sér. Ef efnahagsstefna er ekki skynsöm og þeir sem stýra skilja ekki í hverju samkeppnisstaða okkar liggur, þá getur fjarað ansi hratt undan. Það er skortur á skýrri stefnu í efnahagsmálum. Skilaboð ríkisstjórnarinnar eru fálmkennd. Fjármála- og efnahagsráðherra talar um að fjárlögin 2026 séu nokkuð aðhaldssöm en þau eru það ekki. Forsætisráðherra segir að um sé að ræða ákveðna aðlögun og hvetur þjóðina til að sýna þolinmæði – ég spyr á móti. Hvaða aðlögun? Eigum við að aðlaga okkur að hærra atvinnuleysi og litlum hagvexti, eins og sum ríki Evrópusambandsins. Ég segi: Nei, takk!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. janúar 2026.

Categories
Fréttir

Auglýst eftir framboðum á lista Framsóknar í Reykjavík

Deila grein

02/01/2026

Auglýst eftir framboðum á lista Framsóknar í Reykjavík

Kjörstjórn auglýsir eftir framboðum á framboðslista Framsóknar í Reykjavík fyrir borgarstjórnarkosningarnar 16. maí 2026. Kosið verður um fjögur efstu sætin á tvöföldu kjördæmaþingi þann 7. febrúar n.k.

Frambjóðendur skulu vera kjörgengir í næstu sveitarstjórnarkosningum, búsettir í Reykjavík og félagar í Framsóknarflokknum. Frambjóðendur eru hvattir til að kynna sér vel framboðsreglur um tvöfalt kjördæmaþing.

Tvöfalt kjördæmaþing fer fram laugardaginn 7. febrúar 2026 á Hilton Reykjavík Nordica.

Framboðsfrestur rennur út föstudaginn 23. janúar 2026 kl.12:00.

Tekið er á móti framboðum á netfanginu reykjavik@framsokn.is

Í framboðstilkynningu skulu frambjóðendur gefa kost á sér í ákveðin sæti, eitt eða fleiri. Hver frambjóðandi skal skila ljósmynd og að hámarki 400 orða kynningartexta með framboðstilkynningu ásamt meðmælendalista með að lágmarki 10 og að hámarki með 20 flokksbundnu framsóknarfólki.

Frambjóðendur geta nálgast eyðublað til að safna meðmælum hér.

Frambjóðendur í önnur sæti

Kjörstjórn gerir tillögu að skipan framboðslistans í heild og óskar eftir tilnefningum eða framboðum í önnur sæti listans. Áhugasamir eru beðnir að senda tölvupóst á netfangið reykjavik@framsokn.is með upplýsingum um nafn og kennitölu.

Kjörstjórn Framsóknar í Reykjavík
Categories
Fréttir Greinar

Góð lífskjör byggjast á atvinnu

Deila grein

02/01/2026

Góð lífskjör byggjast á atvinnu

Við Íslendingar höfum margt til að vera stolt af þegar við kveðjum árið og horfum til framtíðar. Við búum í samfélagi þar sem lífskjör eru með þeim bestu sem þekkist. Ísland stendur í sterkri stöðu í alþjóðlegum samanburði og við höfum sýnt að hér er hægt að byggja upp öflugt samfélag á grunni vinnusemi, samheldni og skynsamlegrar nýtingar auðlinda. Við erum í öfundsverðri stöðu því fáar þjóðir hafa jafn mörg tækifæri til að byggja upp fjölbreytt og samkeppnishæft atvinnulíf, skapa störf og tryggja áframhaldandi góð lífskjör.

Við búum við fjölbreytt og sterkt atvinnulíf. Sjávarútvegur, ferðaþjónusta, landbúnaður og orkuknúnar útflutningsgreinar eru okkar burðarstoðir. Hugvits- og nýsköpunargeirinn vex einnig hratt og styrkir samkeppnishæfni okkar til framtíðar. Þetta er ekki sjálfgefið, heldur árangur kynslóða sem hafa skapað verðmæti og störf.

Atvinnuleysi og varúðarljós

Ein helsta stoð góðra lífskjara er að fólk hafi atvinnu. Atvinnuleysi er eitt mesta þjóðarböl sem nokkur þjóð getur staðið frammi fyrir, ástand sem grefur undan sjálfstrausti, framtíðarsýn og samfélagslegri þátttöku. Þess vegna eigum við að taka mark á viðvörunarljósum þegar þau kvikna. Nýjustu tölur Hagstofu Íslands sýna að atvinnuleysi mælist nú 6,5% og hefur aukist um ríflega 50% milli ára. Að baki þessum tölum eru heimili sem finna fyrir óvissu, fyrirtæki sem draga saman seglin og fólk sem á erfiðara með að fóta sig á vinnumarkaði.

Atvinna og verðmætasköpun á landsbyggðinni eru hornsteinar góðra lífskjara um allt land. Þar hefur ríkisstjórnin hins vegar, með óhóflegri gjaldtöku og ákvörðunum sem auka óvissu í rekstri, grafið undan grundvelli margra byggðarlaga. Slíkar ákvarðanir grafa undan þeirri verðmætasköpun sem þar fer fram. Ofan á það liggur fyrir að mikill fjöldi opinberra starfa muni hverfa af landsbyggðinni, með alvarlegum áhrifum á atvinnu, þjónustu og búsetuskilyrði. Þetta er þróun sem Framsókn hafnar og mun standa gegn.

Það er einnig mikilvægt að setja þessa þróun atvinnuleysis í alþjóðlegt samhengi. Í mörgum löndum Evrópusambandsins er atvinnuleysi viðvarandi vandamál og víða margfalt meira en hér á landi, sérstaklega meðal ungs fólks. Okkar styrkleiki hefur verið að byggja upp vinnumarkað þar sem atvinnuleysi hefur verið lítið í alþjóðlegum samanburði, og því forskoti megum við ekki glata.

Í því ljósi er varhugavert að hefja umsóknarleiðangur inn í Evrópusambandið eins og það eitt og sér sé lausn á þeim vanda sem blasir við okkur í dag.

Ríkisfjármál, verðbólga og trúverðugleiki

Á meðan heimili og fyrirtæki sýna aðhald í hávaxtaumhverfi blasir við að aðhaldið vantar í ríkisfjármálin. Verðbólgan er 4,5% og hefur ekki mælst hærri frá því í janúar. Raunveruleikinn blasir þó við fólki í formi hárra vaxta, dýrra lánaafborgana og aukins rekstrarkostnaðar, þrátt fyrir ákafan trumbuslátt og kostnaðarsamt kynningarstarf ríkisstjórnarinnar um hinn meinta stórkostlega árangur.

Á sama tíma og almenningur herðir beltið blasir við nær fordæmalaus útgjaldavöxtur ríkissjóðs. Útgjöld ríkisins aukast um 9% milli 2025 og 2026, slagar hátt upp í þá hækkun sem varð við fjárlagagerðina haustið 2007, þegar Samfylking og Sjálfstæðisflokkur mynduðu ríkisstjórn. Þessi stefna vinnur gegn lækkun verðbólgu og vaxta og hamlar þannig fjárfestingu og verðmætasköpun.

Margar aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem snerta rekstrarumhverfi íslensks atvinnulífs eru farnar að hafa verulegar afleiðingar. Þegar óvissa magnast um skatta og gjöld minnkar hvati til fjárfestinga. Fyrirtæki fresta ákvörðunum, halda aftur af uppbyggingu og verða varfærnari í ráðningum. Það er þessi keðjuverkun sem við megum ekki láta festast í sessi því hún bitnar á endanum alltaf á fólki: í minni verðmætasköpun og færri atvinnutækifærum.

Ég ætla ekki að tíunda allar þær skattabreytingar sem ganga í gegn um þessi áramót, en ljóst er að þær eru þvert á þau skilaboð sem heimilum og fyrirtækjum voru gefin í aðdraganda síðustu kosninga. Sérstaklega er dapurlegt þegar auknar byrðar lenda á björgunarsveitum og félagasamtökum sem sinna gríðarlega mikilvægu samfélagslegu hlutverki og spara ríkinu í raun milljarða.

Það verður því ekki hjá því komist að brosa, þótt brosið sé hálfbeiskt, þegar ríkisstjórnin tilkynnir nú fyrir jólin, með tilheyrandi fréttatilkynningu, að Landsbjörg hafi verið styrkt um 25 milljónir króna. Það er auðvitað vel meint. En þessar 25 milljónir eru einungis lítið brot af þeim auknu sköttum og gjöldum sem björgunarsveitirnar munu greiða í ríkissjóð á nýju ári. Það er, með öðrum orðum, tekið með annarri hendinni og gefið með hinni.

Lausnir Framsóknar og framtíðarsýn

Framsókn hefur á þessu fyrsta ári kjörtímabilsins lagt fram mörg þingmál sem miða að því að styrkja lífskjör og byggja undir samfélag þar sem kerfin styðja við fólk og mæta þörfum þess. Þar má nefna tillögur okkar um að skapa heimilum raunhæfan kost á löngum, óverðtryggðum húsnæðislánum, í takt við það sem þekkist í nágrannalöndum okkar. Slík lán myndu veita fjölskyldum fyrirsjáanleika í afborgunum til langs tíma, draga úr áhættu og styrkja stöðu heimila gagnvart sveiflum í efnahagslífinu.

Þessi nálgun byggist á vandaðri greiningu en ég fól dr. Jóni Helga Egilssyni að vinna skýrslu, þegar ég gegndi embætti fjármálaráðherra, um möguleika á slíkri kerfisbreytingu. Þessari vinnu lauk í upphafi ársins og sýnir hún að unnt er að auka stöðugleika á húsnæðismarkaði, heimilum til hagsbóta. Um leið gæti slík þróun leitt til hagkvæmari og stöðugri fjármögnunar fyrir ríkissjóð, enda hagsmunir heimila og hins opinbera samofnir þegar kemur að traustum fjármálamarkaði.

Framsókn hefur jafnframt lagt ríka áherslu á að byggja upp íslenskukennslu fyrir fólk af erlendum uppruna sem starfar hér á landi. Tungumálið er lykillinn að þátttöku, aðlögun og jöfnum tækifærum. Þrátt fyrir að við höfum lagt fram þingmál þess efnis að styrkja og samræma íslenskukennslu naut það ekki stuðnings ríkisstjórnarinnar. Það er miður, því án markvissrar tungumálakennslu er hætt við að fólk verði jaðarsett í samfélaginu, með tilheyrandi kostnaði – bæði mannlegum og samfélagslegum.

Framsókn hefur einnig lagt sérstaka áherslu á málefni barna. Með velsældarlögunum var stigið mikilvægt skref í átt að kerfi þar sem þjónusta við börn er samræmd þvert á málaflokka og byggist á þörfum barnsins sjálfs. Verkefnið fram undan er að þróa áfram slíkt kerfi, þannig að það nái raunverulega utan um flóknar aðstæður barna og fjölskyldna þeirra. Þar skiptir samvinna, snemmtæk íhlutun og ábyrg forgangsröðun öllu máli.

Af framansögðu er augljóst að við búum yfir tækifærum sem eru öfundsverð í alþjóðlegum samanburði en stöndum um leið frammi fyrir fjölmörgum verkefnum til að auka lífsgæði fólks. Ísland býr yfir auðlindum, mannauði og atvinnulífi sem getur tryggt áframhaldandi góð lífskjör. Tækifærin eru fyrir hendi, en þau nýtast ekki af sjálfu sér. Spurningin er einföld: ætlum við að taka þær ákvarðanir sem þarf til að nýta þau?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2025.

Categories
Fréttir

Gleðileg jól!

Deila grein

24/12/2025

Gleðileg jól!

Framsókn sendir landsmönnum öllum bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár!

Categories
Fréttir Greinar

Jól í orðum og tónum

Deila grein

23/12/2025

Jól í orðum og tónum

Þorláksmessa er runnin upp og styttist óðfluga í stærstu hátíð kristins fólks um veröld alla. Dagurinn ber nafn Þorláks Þórhallssonar biskups í Skálholti. Þorlákur fékk snemma orð á sig fyrir að vera helgur maður sem gott væri að heita á. Hann er eini Íslendingurinn sem hefur verið tekinn í dýrlingatölu en það gerði Jóhannes Páll II hinn 14. janúar 1984. Þetta er jafnframt dagur eftirvæntingar og lokaundirbúnings: síðustu erindin, síðustu kveðjurnar, síðustu pakkarnir áður en hátíðin tekur við.

Þorláksmessa minnir okkur á að jólin eru líka menningarhátíð. Það er ekki tilviljun að Ísland skuli vera þekkt sem menningarland vegna þeirrar grósku sem ríkir á því sviði. Sköpunarkrafturinn skilar sér jafnan með sérstöku móti um jólin, þegar „uppskeran“ kemur í hús.

Jólabókaflóðið er árleg staðfesting á því að við höfum enn trú á orðum og frásögn. Bækur eru ekki aðeins afþreying heldur einnig vettvangur nýsköpunar og símenntunar og kynslóðabrú sem heldur menningararfi á loft. Þegar við gefum bók í jólapakka erum við um leið að gefa gæðatíma, orðaforða og tækifæri til samtals. Úrval íslenskra bóka fyrir alla aldurshópa er einstakt og þetta árið er engin undantekning.

Það sama á við um tónlistina. Aðventan er hálfgerður hljóðfæraskápur landsins, þar sem tónleikahald er einkar fjölbreytt: kirkjutónlist, sinfóníur, kammermúsík, djasstónleikar, popp, pönk o.s.frv. Kórar, stórir sem smáir, fylla hús og helgidóma og minna á að röddin er elsta hljóðfæri mannsins. Öflug umgjörð tónlistarnáms og menningarhúsa skiptir þar miklu og skilar sér í fagmennsku sem við njótum dag hvern.

Sviðslistir blómstra einnig. Leikhúsin bjóða jafnt upp á ný verk og sígildar sögur, sem laða sífellt til sín fjölbreyttan hóp fólks. Á nýju ári verður starfsemi um þjóðaróperu komin í fastari skorður en áður þekkist, sem hefur verið draumur margra í sviðslistum í áratugi. Flutningur starfsemi óperunnar inn í Þjóðleikhúsið er táknrænt framhald af skapandi Íslandi, þar sem við þorum að setja metnaðinn í forgrunn og skapa einstakan vettvang fyrir okkar fremsta sviðslistafólk og þjóðin öll nýtur góðs af.

Allt þetta á sér þó sameiginlega rót: tungumálið. Íslenskan er ekki aðeins miðill heldur uppspretta sköpunar; hún geymir blæbrigði og hugtök sem gera okkur kleift að semja, syngja, leika og ræða heiminn á okkar eigin forsendum. Höldum áfram að hlúa að henni í daglegu lífi okkar, í skólum og í hinum stafræna heimi. Höfum það ávallt hugfast að „á íslensku má alltaf finna svar“, eins og fram kemur í ljóði Þórarins Eldjárns. Hátíðin sem nú er að ganga í garð er allra hugljúfasti tími ársins vegna þeirra orða og tóna sem við njótum.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og gæfuríks komandi árs.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtit fyrst í Morgunblaðinu 23. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Jólakveðja formanns!

Deila grein

22/12/2025

Jólakveðja formanns!

Kæri félagi,

Jól og áramót eru tímamót sem gefa okkur færi á að staldra við, njóta samveru og horfa fram á veginn.

Framsókn fagnaði 109 ára afmæli sínu þann 16. desember síðastliðinn og eins og gefur að skilja hafa skiptst á skin og skúrir í langri sögu flokksins. Árið sem er að líða hefur vissulega verið krefjandi en jafnframt minnt okkur á að þegar á reynir skiptir mestu að standa saman.

Það sem sameinar okkur er trú á samvinnu, festu og skynsemi. Við viljum byggja samfélag þar sem allir njóta jafnra tækifæra, mannréttindi eru virt og tryggja að lífsgæði hér á landi verði með þeim bestu sem þekkist. Saga Framsóknar er saga árangurs. Framsókn hefur verið leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum og stuðlað að mörgum framfaraskrefum í þágu íslensks samfélags. Framundan eru spennandi tímar og nú er lag að hefja sókn í íslenskum stjórnmálum.

Ég vona að þú njótir hátíðarinnar með þínum nánustu og að nýtt ár verði þér og þínum farsælt. Hittumst heil á nýju ári.

Með jólakveðju,
Sigurður Ingi Jóhannsson
Formaður Framsóknar

Categories
Fréttir Greinar

Stað­reyndir um mót­töku flótta­fólks í Hafnar­firði

Deila grein

20/12/2025

Stað­reyndir um mót­töku flótta­fólks í Hafnar­firði

Við í Hafnarfirði höfum starfað af festu þegar kemur að móttöku flóttafólks. Hafnarfjörður hefur sinnt lögbundnu hlutverki í samvinnu við ríkið og fjármögnun samninga hefur tryggt að þjónustan er fjárhagslega ábyrg. Við höfum staðið okkur vel á krefjandi tímum.

Í grein Einars Geirs Þorsteinssonar, formanns stjórnar Miðflokksins í Hafnarfirði, 12. desember 2025 eru dregnar upp þungar fullyrðingar um að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar byggi á jákvæðum frösum. Hann fullyrðir að móttaka flóttafólks hafi valdið sveitarfélaginu verulegum og einhliða kostnaði. Við tökum umræðu um þessi mál alvarlega, enda snýr hún bæði að fjármálum bæjarins og samfélagslegri ábyrgð. En umræðan verður að byggja á staðreyndum.

Hvernig staðan varð svona í raun

Förum aðeins yfir söguna og staðreyndir málsins. Samkvæmt lögum bera félags- og húsnæðismálaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið ábyrgð á móttöku flóttafólks og veitingu dvalarleyfa hér á landi. Í því skyni hefur ríkið gert samninga við sveitarfélög um þjónustu.

Hafnarfjörður, ásamt Reykjavík og Reykjanesbæ, var til 31. júlí 2025 með samning um þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd sem ríkið hafði staðsett í búsetuúrræðum í viðkomandi sveitarfélagi, húsnæði á leigu í umsjón ríkisins. Þegar umsækjendur fá dvalarleyfi en eru enn í þessum úrræðum og hafa ekki fengið varanlegt húsnæði, verða þeir tímabundið óstaðsettir þar sem þeir dvelja. Þá er sveitarfélaginu skylt að veita aðstoð á grundvelli 15. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991.

Þetta skýrir hvers vegna fleiri einstaklingar hafa fengið þjónustu í Hafnarfirði en í sumum nágrannasveitarfélögum. Þetta er ekki vegna þess að Hafnarfjörður hafi valið að taka við fleiri, heldur vegna þess hvernig ríkið setti upp búsetuúrræðin og hvernig lögbundin ábyrgð sveitarfélaga virkjar þjónustu þegar fólk fær dvalarleyfi.

Samningarnir tryggja fjármagn og setja tölurnar í rétt samhengi

Hafnarfjarðarbær hefur veitt þjónustu við flóttafólk á grundvelli samninga við ríkið, bæði vegna umsækjenda um alþjóðlega vernd og vegna fyrstu ára eftir veitingu dvalarleyfis í samræmdri móttöku. Samningarnir tryggja fjármagn til að standa undir þjónustunni.

Hafnarfjarðarbær hefur frá 2019 til lok árs 2025 lagt út fyrir kostnaði að upphæð 4,6 milljarða króna vegna málaflokksins. Á sama tíma hafa tekjur á grundvelli samninga við ríkið staðið undir þeim kostnaði, þar á meðal launakostnaði, endurgreiðslum vegna neyðaraðstoðar, framfærslu og ýmissa virkniúrræða. Þegar þetta samhengi vantar er talan sett fram eins og hún sé eingöngu kostnaður fyrir bæinn, sem stenst ekki.

Heildarlaunakostnaður Alþjóðateymis frá árinu 2023 til og með nóvember 2025 er um 653 milljónir króna og bærinn hefur tekjur frá ríkinu til að mæta þeim kostnaði á grundvelli samninga.

Varðandi fjárhagsaðstoð, síðustu fimm ár hafa 1.497 einstaklingar fengið aðstoð. Í þeim hópi eru einstaklingar sem fá fyrstu aðstoð og félagslega ráðgjöf vegna þess að þeir verða óstaðsettir í sveitarfélaginu eftir veitingu dvalarleyfis, áður en annað hvort finnst varanlegt húsnæði eða flutningur verður í annað móttökusveitarfélag. Þá færist þjónustan með lögheimili og ríkið endurgreiðir sveitarfélögum tiltekinn kostnað fyrstu þrjú árin.

Heildarmyndin skiptir máli ef umræðan á að vera sanngjörn

Fullyrðingar um að 70% fjárhagsaðstoðar fari til erlendra ríkisborgara eru settar fram án mikilvægra skýringa. Erlendir ríkisborgarar eru líka EES/EFTA borgarar. Af allri fjárhagsaðstoð til erlendra ríkisborgara fékk Hafnarfjarðarbær 80% endurgreitt og ef einungis er horft til ríkisborgara utan EES/EFTA er endurgreiðsluhlutfallið 93,5%.

Að lokum verður að nefna að úrræði vegna tryggingar eða fyrirframgreiðslu húsaleigu er notað til að hjálpa fólki að komast inn á leigumarkað þegar hefðbundið lánshæfismat liggur ekki fyrir og hafa endurheimtur verið góðar.

Við fögnum umræðu um forgangsröðun og fjármál. En til að hún verði sanngjörn þarf að halda sig við staðreyndir, setja tölur í samhengi og horfa á það sem skiptir mestu máli. Þjónustan er fjárhagslega ábyrg og að Hafnarfjörður hefur sinnt lögbundnu hlutverki í samvinnu við ríkið.

Margrét Vala Marteinsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs Hafnarfjarðar

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. desember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sundlaugamenning fær æðstu alþjóðlegu viðurkenningu

Deila grein

16/12/2025

Sundlaugamenning fær æðstu alþjóðlegu viðurkenningu

Greiður aðgangur að heitu vatni á Íslandi frá landnámi hefur haft mikil mótandi áhrif á þróun menningar okkar. Við höfum öll notið góðs af heita vatninu og hefur það verið okkar lífsbjörg í gegnum aldirnar. Heitu laugarnar okkar hafa sannarlega mótað menningu okkar. Margar Íslendingasögur geta um baðferðir og heitar laugar, sem gefur vísbendingu um að baðmenning hafi verið í hávegum höfð. Í Laxdælu er Sælingsdalslaug í Dölunum vettvangur örlagaríkra stefnumóta, en þar segir: „Kjartan fór oft til Sælingsdalslaugar. Jafnan bar svo til að Guðrún var að laugu. Þótti Kjartani gott að tala við Guðrúnu því hún var bæði vitur og málsnjöll.“ Þessi frásögn sýnir hvernig fólk nýtti sér náttúrulaugar til samskipta og laugin verður táknræn fyrir eitt þekktasta ástarsamband Íslendingasagna.

Í kjölfar hitaveituvæðingar þjóðarinnar risu manngerðar sundlaugar vítt og breitt um landið. Sundlaugamenning þróaðist og varð að ríkum þætti í daglegu lífi Íslendinga. Vegna þessarar ríku sögu lauga á Íslandi var ákveðið í mars 2024 að tilnefna sundlaugamenningu á Íslandi á skrá UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Í kjölfarið hófst 18 mánaða matsferli, sem lauk formlega með fundi þar sem staðfest var að sundlaugamenning Íslands skyldi hljóta þessa æðstu viðurkenningu á sviði lifandi hefða í heiminum. Þetta er fyrsta sjálfstæða skrásetning Íslands á listann. Í tilnefningunni var lögð áhersla á sundlaugar sem almenningsrými, þar sem kynslóðir koma saman til að synda, spjalla við vini eða ókunnuga og njóta vatns. Að baki skrásetningunni liggur mikil undirbúningsvinna í höndum menningar- og viðskiptaráðuneytis, Þjóðminjasafns Íslands og Stofnunar Árna Magnússonar. Tíu sveitarfélög sendu skriflega stuðningsyfirlýsingu, þar á meðal Reykjavíkurborg sem hafði veg og vanda af gerð myndbands um sundlaugamenningu sem fylgdi tilnefningunni. Fjölmargir sundlaugargestir um allt land lögðu tilnefningunni lið með því að deila reynslu sinni og undirstrika mikilvægi þessarar menningarhefðar. Það má með sanni segja að viðurkenningin sé afrakstur mikillar samvinnu ólíkra einstaklinga, stofnana og stjórnvalda.

Frá náttúrulaugum landnámsmanna til nútímasundlauga hefur heita vatnið verið rauði þráðurinn í íslenskri menningu. Fortíðin sýnir okkur hvernig vatnið skapaði tengsl, byggði samfélög og varð vettvangur samskipta. Laugarnar eru í dag einn stærsti vettvangur samskipta þjóðarinnar, þar sem kynslóðir koma saman dag hvern. Með skráningu UNESCO er ekki aðeins verið að heiðra þessa sögu, heldur líka verið að vernda hana til framtíðar. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum þeim sem tóku þátt í þessu verkefni og óska okkur til hamingju með þessa viðurkenningu!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. desember 2025.