Categories
Fréttir

„Um hvað eru eiginlega allir þessir fundir?“

Deila grein

05/11/2025

„Um hvað eru eiginlega allir þessir fundir?“

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins að íslenskum læknum sé orðið „mun erfiðara eða nánast ómögulegt“ að komast í sérnám í Svíþjóð vegna breytinga á sænskum reglum. Sagði hún að Svíar geri nú kröfu um að kandídatsári sé lokið í Svíþjóð, en hingað til hafi íslenska kandídatsárið gilt.

Halla Hrund segir þetta hafa alvarleg áhrif á íslenska heilbrigðisþjónustu: „Um helmingur íslenskra lækna sækir nám í Svíþjóð og hlutfallið er enn hærra í skurðlækningum,“ sagði hún og lagði áherslu á að verja þurfi þann farveg sem hefur tryggt að læknar komi heim með menntun frá „einhverjum bestu háskólasjúkrahúsum í heimi“.

Halla Hrund sagði bæði heilbrigðisráðuneytið og utanríkisráðuneytið hafa unnið að málinu „án þess að nokkuð hafi gerst“. Hún minnti jafnframt á að ráðherra háskólamála, utanríkisráðherra og forsætisráðherra hefðu nýverið farið til Svíþjóðar, auk þess sem forseti hafi farið í sérstaka ferð um heilbrigðismál með heilbrigðisráðherra. „Samt tekst ekki að leysa úr því einfalda máli að leyfa íslenskum læknum að halda áfram að fara í sérnám til Svíþjóðar,“ sagði hún og spurði: „Um hvað eru eiginlega allir þessir fundir?“

Halla Hrund hvatti að lokum ríkisstjórnina „til dáða“ og tók fram að samvinna frá minni hluta myndi ekki skorta. Hún spurði jafnframt hvernig stjórnvöld hygðust vernda hagsmuni Íslands á öðrum stórum sviðum ef ekki tækist „að leysa úr slíkum einföldum praktískum málum,“ sagði Halla Hrund að lokum.

Categories
Fréttir Greinar

Frosta­veturinn mikli

Deila grein

05/11/2025

Frosta­veturinn mikli

Það er ekki laust við að það hafi gengið illa hjá ríkisstjórninni að ná heyinu í hlöðu á hinu svokallaða “verðmætasköpunarhausti” sem boðað var af miklum móð seinni part sumars. Ríkisstjórnin virðist þó hafa verið meira spennt fyrir því að ætla að skattleggja atvinnuvegi, sér í lagi þá sem skipta mestu máli fyrir landsbyggðina ef vel gengi í verðmætasköpunarhaustinu. Því hið meinta verðmætasköpunarhaust sem boðað var átti nefnilega að vera upptaktur af skattlagningu á skattlagningu ofan á atvinnuvegina. Það var byrjað með áhlaupi á útgerðina í vor. Kjarnorkuákvæðinu var beitt til að beygja andstöðuna í duftið og svo skáluðu stjórnarliðar vel og vandlega fyrir því að hafa haft útgerðina undir. Þau áttuðu sig kannski ekki að svona hlutir hafa afleiðingar sem eru farnar að birtast nú þegar í uppsögnum starfsfólks, sölu á skipum og lokun á fiskvinnslum.

Það snjóaði snemma

Um það leyti sem verðmætasköpunarhaustið var boðað hjá ríkisstjórninni fóru hins vegar skýin að hrannast upp og fyrstu hretin fóru að gera vart við sig. PCC á Bakka búið að loka og óvíst að það opni aftur, Play fór í þrot, nær 70% af framleiðslugetu álversins á Grundartanga úr leik, fasteignamarkaðurinn botnfrosinn og samdráttur í ferðaþjónustu sem birtist meðal annars í hópuppsögn og minna framboði hjá Icelandair. Einnig er algjör óvissa í lánamálum vegna dóms Hæstaréttar þar sem ríkisstjórnin var ekki tilbúin með aðgerðir til að bregðast við, þrátt fyrir að það hafi legið fyrir mjög lengi að þetta yrði líklega niðurstaðan. Svo ofan í kaupið er verið að bæta hlaðborði af sköttum og álögum á venjulegt fólk í framlögðu fjárlagafrumvarpi. Svo sem vörugjöld á bíla, kílómetragjald og skattlagningu á ferðamenn. Allt þetta er síðan gert í kraft þeirrar sannfæringar að það sé „gott“ fyrir fólk að borga þessa skatta til að auka veg ríkisbáknsins af því að ríkisstjórnin kunni betur að fara með þessa peninga en fólkið í landinu.

Kafaldsbylur

Þegar hretið sem gekk yfir þjóðina var farið að breytast í byl ákvað Frostavetursríkisstjórnin að boða til fundar til að kynna stóran húsnæðispakka. Sem reyndist eftir á að hyggja vera meira í líkingu við smápakka eða skógjöf á aðventunni. Þar var aftur tilkynnt um enn eina skattlagninguna sem í þetta skiptið beinist gegn leigutekjum þeirra einstaklinga sem eiga fleiri en eina íbúð. Sem mun aðeins gera eitt, leigan mun hækka. Sem aftur mun hafa áhrif á vísitölu neysluverðs og skapa hækkandi verðbólgu sem mun þýða enn hærri vexti og lánin hjá almenningi hækka. Það var reyndar einnig tilkynnt að það ætti að byggja nokkur þúsund íbúðir í almenna íbúðakerfinu fyrir venjulegt fólk, það gleymdist bara að taka fram að það kerfi er fyrir fólk undir tekju og eignamörkum og er leigukerfi en ekki eigna fyrirkomulag. Þannig að ríkisstjórnin ætlar að reyna halda fólki á leigumarkaði frekar en að fólk geti eignast eigið húsnæði. En það hefði hún getað gert með því að miða aðgerðir að lækkun verðbólgu og lækkun vaxta.

Átakanlegt aðgerðaleysi

Þegar allt þetta er saman dregið er komin kreppa á Íslandi.

Hundruðir einstaklinga hafa misst vinnuna, fyrirtæki eru byrjuð að fara í þrot, verðbólga hækkar bara, vextir lækka ekki neitt, húsnæðismarkaður og byggingargeirinn að leggjast í dvala og ekkert er gert. Ríkisstjórnin hefur öll vopn í höndum sínum til að snúa þessu við en trú þeirra á sinn eigin sannleika um hvernig samfélaginu skal fyrir komið vefst fyrir þeim. Það þarf nefnilega ennþá að framleiða og búa til verðmæti til þess að standa undir velferð. Verðmætin verða ekki til í ríkissjóði þau verða til hjá fyrirtækjunum í landinu. Ríkisstjórnin gæti til að mynda sett myndarlegt framlag í markaðsetningu í ferðaþjónustu og fjölgað ferðamönnum á ný, aukið gjaldeyristekjur fjölgað störfum o.s.frv. Þetta hefur ferðaþjónustan sjálf meðal annars bent á. Hún gæti líka losað um höft á húsnæðismarkaði með lagasetningu á sveitarfélög til að tryggja framboð á byggingarlóðum og svo margt margt fleira.

Frasapólitíkin hefur náð yfirhöndinni með stórum orðum en engu innihaldi. Það er ekkert plan, sleggjan er horfin og sennilega er hann genginn í garð veturinn sem allir óttuðust; Frostaveturinn mikli.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, ritari Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þegar veikindi mæta van­trú

Deila grein

05/11/2025

Þegar veikindi mæta van­trú

Það er fátt sem reynir meira á mann en að verða veikur, nema kannski að upplifa að manni sé ekki trúað. Þegar líkaminn bregst, en samfélagið virðist efast. Þegar fólk sem stendur í daglegu stríði við orkulítið líf og stöðug hjartsláttarónot finnur að kerfið sér það ekki.

Undanfarin misseri höfum við heyrt af einstaklingum glíma við langvinn veikindi í kjölfar COVID-19, veikindi sem reyna bæði á líkama og sál. Sjúkdómar á borð við POTS, ME og langvinn einkenni eftir COVID hafa sýnt okkur að líkaminn bregst á margbreytilegan hátt við veiru sem við þekktum ekki fyrir fáum árum. Þrátt fyrir að þekkingin hafi aukist verulega er enn margt óljóst og vísindin eiga langt í land með að skýra allar orsakir eða finna viðurkenndar meðferðir.

Í slíkri stöðu er það ekki aðeins erfitt að vera veikur heldur einnig að finna fyrir vantrú.

Margir sjúklingar hafa lýst því að hafa fundið meðferð sem bætir líðan þeirra, eins og vökvagjöf í æð, sem hefur dregið úr einkennum og gert þeim kleift að lifa eðlilegra lífi.

Þegar ákveðið var að hætta niðurgreiðslu þeirrar meðferðar án þess að önnur úrræði kæmu í staðinn, upplifðu mörg vonleysi. Að lífsgæðin sem þeir höfðu endurheimt væru tekin af þeim á ný.

Hvers vegna núna?

Sjúkratryggingar Íslands hafa vísað til þess að meðferðin sé ekki gagnreynd og því ekki réttlætanlegt að niðurgreiða hana. Slíkt sjónarmið er skiljanlegt þar sem kerfið verður að byggjast á áreiðanlegum grunni og gagnreyndri þekkingu.

En það sem vekur spurningar er tímasetningin.

Vökvagjöf í æð hefur verið niðurgreidd um árabil, á meðan full vitneskja var um að meðferðin væri ekki formlega gagnreynd fyrir þessa sjúkdóma og heilkenni. Það hlýtur að teljast eðlileg krafa að slík breyting sé rökstudd og að tryggt sé að aðrir valkostir standi til boða áður en niðurgreiðsla fellur niður þar sem sjúklingar eiga ávallt rétt á bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu hverju sinni. Þá hafna Sjúkratryggingar Íslands greiðsluþátttöku á ýmsum gagnlegum hjálpartækjum og lyfjum fyrir þennan sárþjáða hóp. Þess ber að geta að margir sjúklingar innan þessa hóps eiga erfitt fjárhagslega eftir að vera lengi frá vinnu vegna veikinda. Auk þess vekur það spurningar þegar ráðherra styður ákvörðun SÍ um stöðvun niðurgreiðslu en felur landlækni á sama tíma að setja á fót og leiða vinnuhóp til að fjalla um heilbrigðisþjónustu við sjúklinga með sjúkdómsheilkenni sem á ensku kallast post-acute infection syndromes, skammstafað PAIS. Undir þetta falla meðal annars langvinnt COVID, ME-sjúkdómur og POTS en talsverð skörun getur verið þarna á milli og einkenni geta verið afar fjölbreytt og mismunandi.

Lærdómur úr sögu læknavísindanna

Við megum ekki gleyma að saga læknavísindanna er löng og oft illskiljanleg í upphafi. Það er ekki óalgengt að meðferðir sem síðar reyndust gagnlegar hafi verið notaðar löngu áður en vísindin gátu skýrt af hverju þær virkuðu. Við höfum áður séð að sjúkdómar sem voru áður taldir geðrænir eða ímyndaðir fengu síðar líffræðilega útskýringu og meðferð sem var upphaflega byggð á reynslu lækna og sjúklinga varð síðar staðfest með rannsóknum. Við verðum að gefa þessu ferli svigrúm, sérstaklega þegar lífsgæði fólks eru í húfi.

Í fyrirspurn minni til heilbrigðisráðherra hef ég óskað eftir svörum um hvernig tryggt hafi verið að málið væri unnið í samræmi við stjórnsýslulög, andmælarétt og rannsóknarskyldu stjórnvalda.

Var samráð haft við sjúklinga, sérfræðinga og heilbrigðisstarfsfólk?

Var metið hvaða áhrif ákvörðunin hefði á lífsgæði og atvinnuþátttöku fólks?

Og var tekið tillit til réttmætra væntinga þeirra sem höfðu notið meðferðarinnar?

Heilbrigðiskerfi með hjarta

Heilbrigðiskerfið okkar á að byggjast á vísindalegri þekkingu og faglegum grunni.

En það þarf einnig að byggjast á samtali, trausti og virðingu fyrir reynslu sjúklinga.

Breytingar á meðferð eða þjónustu verða að vera yfirvegaðar og byggðar á raunhæfum lausnum áður en fyrri úrræði eru felld niður. Slíkt verklag er forsenda ábyrgra og farsælla ákvarðana og þjónustu.

Við stöndum nú frammi fyrir nýjum áskorunum í heilbrigðismálum. Faraldurinn hefur haft í för með sér fjölbreytt og langvinn einkenni sem kalla á opnari umræðu, fleirirannsóknir og nánara samstarf.

Til að mæta þessum áskorunum þurfum við að tryggja samvinnu stjórnvalda, heilbrigðisstarfsfólks, vísindasamfélagsins og sjúklinga.

Ég hvet hæstvirtan heilbrigðisráðherra til að endurskoða afstöðu sína í málinu og tryggja að enginn verði skilinn eftir.

Við verðum að sýna að íslenskt heilbrigðiskerfi byggir ekki aðeins á þekkingu og fagmennsku heldur einnig á hlustun, samkennd og mannúð.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 5. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Best að spyrja börnin

Deila grein

04/11/2025

Best að spyrja börnin

Okkar Mosó er skemmtilegt verkefni sem hingað til hefur hvatt hinn almenna íbúa til þess að taka þátt í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku bænum til heilla.

Í ár breyttum við meirihlutinn áherslunni í Okkar Mosó og nefndum það Krakka Mosó 2025. Það er svo mikilvægt að efla rödd barna og ungmenna og þátttöku í lýðræði. Þetta er líka í fullu samræmi við áherslurnar í Barnvænu sveitarfélagi sem Mosfellsbær er að innleiða og er á lokametrunum með. Krakka Mosó er því liður í að efla lýðræðislega þátttöku barna og ungmenna í bæjarfélaginu og að þau fái tækifæri til þess að hafa áhrif á nærumhverfið sitt með sinni sköpunargleði og krafti.

Framkvæmd Krakka Mosó

Verkefnið var útfært í nánu samstarfi við fjóra skóla í Mosfellsbæ sem eru með mið- og unglingastig og það eru Varmárskóli, Kvíslarskóli, Lágafellsskóli og Helgafellsskóli.

Til þess að svona verkefni verði að veruleika þarf mikla samvinnu á milli starfsfólks grunnskólanna og starfsfólks menningar-, íþrótta- og lýðheilsusviðs ásamt bæjarstjóra og öðrum úr stjórnsýslunni og vil ég þakka fyrir þá góðu vinnu.

Börnin og ungmennin fengu fræðslu um lýðræði og hvað felst í þátttöku í svona verkefni og eftir það fór fram hugmyndasamkeppni. Þau létu ekki sitt eftir liggja og komu fram með fullt af góðum hugmyndum sem stuðla að meiri útiveru, hreyfingu og leik í bænum okkar. Það var lagður mikill metnaður í kosningadaginn þann 20. maí 2025.

Íslenski fáninn var dreginn að hún, það voru kjörkassar á staðnum og hver skóli var með kjörstjórn og í henni voru tveir fulltrúar frá miðstigi, tveir fulltrúar frá unglingastigi auk formanns nemendaráðs. Á kjörskrá voru 1178 nemendur og 997 kusu sem er 85% kosningaþátttaka.

Skemmtileg leiktæki

Þrjár af öllum þessum hugmyndum fengu flest atkvæðin og er nú búið að framkvæma þær á þremur svæðum í bænum. Í Ævintýragarðinum er komin upp stór og löng aparóla með upphækkuðum byrjunarpalli, á Stekkjaflötinni er komin skemmtileg þrautabraut á vatni og á svæði við Rituhöfðann er komin snúningsróla og önnur leiktæki.

Við unga fólkið okkar vil ég segja takk fyrir að vera til fyrimyndar, sýna frumkvæði og sköpun og taka þátt í Krakka Mosó 2025. Með þessum skemmtilegu og góðu hugmyndum ykkar glæðið þið bæinn okkar enn meira lífi.

Framtíðin er björt, allir út að leika.

Halla Karen Kristjánsdóttir, bæjarfulltrúi Framsóknar og formaður bæjarráðs

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 30. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Allir út að leika!

Deila grein

04/11/2025

Allir út að leika!

Það er fátt sem gleður meira en að sjá bæinn okkar vaxa og dafna, ekki bara í tölum og framkvæmdum heldur einnig í lífi og leik.
Á yfirstandandi kjörtímabili hefur verið mikið unnið að því í Mosfellsbæ að bæta aðstöðu fyrir börn og fjölskyldur. Í bæ þar sem íbúum fjölgar stöðugt og hlutfall barna og barnafjölskyldna er hátt, skiptir miklu máli að leik- og útivistarsvæði séu góð, örugg og aðgengileg.
Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með uppbyggingunni sem hefur átt sér stað á leikvöllum víðsvegar um bæinn, nýir og endurnýjaðir leikvellir eru nú orðnir enn meira áberandi hluti af bæjarmyndinni og það sýnir hversu mikla áherslu Mosfellsbær leggur á leik og samveru. Þessi uppbygging hefur verið eitt af áherslumálum Framsóknar og meirihlutans í Mosfellsbæ á kjörtímabilinu.
Má þar nefna leikvöllinn við Klapparhlíð, sem hannaður er með aðgengi fyrir öll börn í huga, leikvöllinn við Leirutanga, sem hefur fengið nýtt líf með gervigrasvelli, körfuboltavelli og fjölbreyttum leiktækjum, og nýju leikvellina við Liljugötu og Snæfríðargötu í Helgafellshverfi sem hafa þegar orðið vinsælir viðkomustaðir í hverfinu.
Eins hefur Ævintýragarðurinn fengið ýmsar viðbætur og lagfæringar sem heppnast hafa virkilega vel. Þá hefur leikvöllurinn í Lindarbyggð verið endurnýjaður og bættur til muna og er orðinn að skemmtilegu leik- og samverusvæði fyrir börn og fjölskyldur í hverfinu. Því til viðbótar hafa heilmiklar endurbætur átt sér stað við skólalóðir Varmárskóla og Lágafellsskóla, sem og leikskólalóðirnar við Hlíð og Hulduberg og Reykjakot. Að ógleymdu leiksvæðinu við nýjasta leikskóla bæjarins, Sumarhús í Helgafellshverfi.
Þessi leikvæði eru ekki bara staðir til að leika sér, þau eru hjartsláttur nærumhverfisins. Svæðin skapa rými þar sem börn fá að leika sér og efla hreyfigetu, og þar sem foreldrar hittast og mynda tengsl. Það að leggja áherslu á barnvænt umhverfi er ekki aðeins spurning um framkvæmdir, það snýst um lífsgæði. Með því að skapa aðstöðu sem hvetur til leiks, útivistar og samveru, erum við að styrkja grunninn að samfélagi þar sem börnum líður vel og allir fá að taka þátt.
Það er í raun þessi daglega samvera sem gerir samfélag eins og Mosfellsbæ að góðum stað til að ala upp börn.

Sævar Birgisson, bæjarfulltrúi Framsóknar í Mosfellsbæ

Greinin birtist fyrst á mosfellingur.is 30. október 2025.

Categories
Fréttir

Kerfisbundin veiking landsbyggðarinnar: Tíu aðgerðir bitna á atvinnulífi og íbúum

Deila grein

04/11/2025

Kerfisbundin veiking landsbyggðarinnar: Tíu aðgerðir bitna á atvinnulífi og íbúum

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins sífellt skýrari stefnu stjórnvalda gagnvart landsbyggðinni. Hann sagði ríkisstjórnina hafa „komið hreint fram“ með afstöðu sína og taldi upp tíu atriði sem að veikja stoðir atvinnulífs og þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins.

„Sú mynd sem er að teiknast upp gagnvart landsbyggðinni er að verða skýrari og skýrari með hverjum deginum,“ sagði Stefán Vagn og bætti við að afleiðingarnar næðu bæði til atvinnulífs og íbúa.

Tíu atriði sem Stefán Vagn nefndi:

  1. Hærra vöruverð og flutningskostnaður: Breytingar á kílómetragjaldi á vörubifreiðar hækki kostnað og verði til þess að vörur á landsbyggðinni verði dýrari.
  2. Áhrif á ferðaþjónustu: Hærra kílómetragjald á bílaleigur dragi úr lengri ferðum um landið, með minna tekjuflæði til landshluta utan höfuðborgar.
  3. Veiðigjöld: Hækkun veiðigjalda sé farin að skila sér í uppsögnum og minni fjárfestingargetu útgerða á landsbyggðinni.
  4. Vörugjöld á bensín- og dísilbíla: Hækkunin bitni sérstaklega á landsbyggðarfólki sem reiði sig frekar á slíka bíla, líkt og fram komi í áhrifamati frumvarps um kílómetragjald.
  5. Búvörulög: Boðaðar breytingar muni hafa veruleg áhrif á mjólkurbændur og umbylta tveggja áratuga kerfi sem hingað til hafi ríkt sátt um.
  6. Sameining sýslumanna: Fulltrúar ríkisins í héraði verði færðir burt, með mögulegri skerðingu á nálægri þjónustu.
  7. Breytingar á framhaldsskólum: Lagt sé til að leggja niður stöður skólameistara, færa vald til miðlægra stofnana og veikja fjárhagslegt sjálfstæði skólanna.
  8. Frumvarp um jöfnun atkvæða: Áhrif þess geta bitnað á svæðum utan höfuðborgarsvæðisins.
  9. Sameining heilbrigðisfulltrúa: Samþjöppun eftirlits og þjónustu fjarri notendum á landsbyggðinni.
  10. Skert starfsemi Vinnumálastofnunar: Þjónusta stofnunarinnar verði rýrð á landsbyggðinni.

Auk þess nefndi hann að rekstur meðferðarheimila utan höfuðborgarsvæðisins væri orðinn erfiður „því að of langt er í þjónustu að mati ráðuneytisins“.

„Of langt er í þjónustu því að ríkið er að taka hana alla í burtu,“ sagði Stefán Vagn að lokum.

Categories
Fréttir

„Ríkisstjórn sem þorir?”

Deila grein

04/11/2025

„Ríkisstjórn sem þorir?”

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, gagnrýndi í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi óvissu um svonefnt vaxtaviðmið í tengslum við nýjan húsnæðispakka ríkisstjórnarinnar og hvatti ráðherra að skýra næstu skref.

„Engin af þessum hugmyndum sem voru kynntar hefur nein áhrif á núverandi stöðu uppnáms á fasteignalánamarkaði, annað en það sem kynnt hefur verið sem vaxtaviðmið,” sagði Sigurður Ingi og spurði hvaða útfærsla væri fyrirhuguð, hvort um væri að ræða viðmið í samráði við Seðlabankann eða frumvarp frá ríkinu sjálfu. „Ég held að það séu mjög margir að bíða eftir skýrari svörum um þennan þátt,” bætti hann við.

Sigurður Ingi fagnaði jafnframt fjölmörgum atriðum í pakkanum og sagði hann „meira og minna byggðan á húsnæðisstefnu sem var samþykkt hér í júní árið 2024,” sem hann taldi gleðilegt. „Þetta voru margar góðar hugmyndir og ég hvet ríkisstjórnina til að halda áfram á þeirri braut,” sagði hann og nefndi að meðal annars væri fjallað ítarlega um byggingarreglugerð.

Vék hann að því að Viðreisn og Flokkur fólksins hefðu ekki stutt húsnæðisstefnuna á sínum tíma, en lagði áherslu á að „öllu batnandi fólki er best að lifa.”

Sigurður Ingi vísaði til þess að markmiðssetningin næði til ársins 2038 með aðgerðaáætlun til 2028. Hann hafði þó áhyggjur af því að breytingar á reglum um gistingu í gegnum Airbnb gætu bitnað á landsbyggðinni: „Airbnb-breytingin er auðvitað gegn fólki úti á landi að hluta,” sagði hann. Þá varaði hann við að hækkandi leiga gæti „auðvitað dregið úr framboði á leiguhúsnæði og unnið gegn þessum hugmyndum.”

Að sama skapi lýsti hann jákvæðu viðhorfi til aukningar í hlutdeildarlánum, en spurði hvernig slík úrræði dreifðust milli landshluta: „Fer hún líka á önnur svæði en til Reykjavíkur?” spurði hann. Þá óskaði hann eftir skýringum á hvort fyrirhuguð sala eigna hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) gæti rýrt getu stofnunarinnar til að styðja uppbyggingu í tryggðri byggð: „Hefur [salan] áhrif á þá getu sem verið hefur undirstaða þess að það hefur verið byggt mjög mikið úti á landi á síðustu árum?”

„Ríkisstjórn sem þorir,” sagði Sigurður Ingi, en ítrekaði að skýrar svör um vaxtaviðmið væru lykilatriði þar sem þau gætu haft áhrif á lánamarkað heimilanna til skemmri tíma.

Categories
Fréttir Greinar

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Deila grein

04/11/2025

Goðsögnin um Mídas konung og evruvextir

Upptaka evru sem gjaldmiðils þýðir ekki að sömu húsnæðisvextir séu á öllu evrusvæðinu. Þrátt fyrir meira en tuttugu ára myntbandalag standa íbúðakaupendur á evrusvæðinu enn frammi fyrir mjög mismunandi íbúðalánsvöxtum.

Seðlabanki Evrópu (e. ECB) setur stýrivexti fyrir allt evrusvæðið, sem ákvarða vaxtakjör lána hjá ECB. Hins vegar þegar kemur að íbúðalánum, þá eru það viðskiptabankarnir, ekki ECB, sem ákveða raunverulega vexti sem heimilin greiða. Bankarnir taka mið af sínum eigin fjármögnunarkostnaði, samkeppni á heimamarkaði, mati sínu á áhættu í viðkomandi landi og síðast en ekki síst langtímavöxtum ríkisskuldabréfa viðkomandi ríkis.

Efnahagskerfi evrusvæðisins eru gjörólík. Banki í Þýskalandi býr oft við lægri fjármagnskostnað og stöðugra umhverfi en banki í Grikklandi. Þess vegna þurfa lántakendur í Suður-Evrópu oft að greiða hærri vexti, ekki vegna þess að evran sé öðruvísi þar, heldur vegna þess að bankarnir starfa við erfiðari skilyrði og meiri áhættu. Síðan er það húsnæðismarkaðurinn sjálfur. Eftirspurn og fasteignaverð eru afar ólík eftir löndum. Ofhitnaður spænskur markaður í kringum 2005 var allt annar markaður en hinn varfærni og stöðugi þýski markaður. Þegar eftirspurn eykst eða hætta á vanskilum vex, bregðast bankar við með því að hækka vexti.

Evran er vissulega sameiginlegur gjaldmiðill, en hún býr ekki til sameiginlegan húsnæðismarkað. Jafnvel með sömu stýrivexti frá ECB geta íbúðalánsvextir verið afar mismunandi. Allar líkur eru á því að fjölskylda sem kaupir heimili í München fái betri kjör en sú sem kaupir í Aþenu.

Sá mikli galli er á málflutningi þeirra sem vilja að Ísland taki upp evruna að ekki er rætt um ókostina og heildaráhrifin á hagstjórn. Þetta minnir á grísku goðsögnina um Mídas konung en hann óskaði sér þess að hann gæti breytt öllu í gull sem hann snerti. Guðinn Díonýsos uppfyllti ósk Mídasar og allt varð að gulli sem hann snerti. Hann faðmaði dóttur og hún breyttist samstundis í gull. Mídas komst þess vegna fljótt að því að óskin var honum ekki til heilla. Allt sem hann snerti breyttist í gull, líka matur og drykkur. Mídas grátbað því Díonýsos um að taka aftur óskina svo að hann dæi ekki úr hungri og þorsta. Það sama á við um íslenska evrusinna, þeir átta sig ekki á því að það eru líka ókostir sem fylgja því að afnema sjálfstæða og sveigjanlega peningastefnu, eins og aukið atvinnuleysi.

Er ég að segja að húsnæðislánakerfið á Íslandi sé í lagi? Nei. Við þurfum að fara í kerfisbreytingar á því sem hafa það að markmiði að lækka langtímahúsnæðisvexti heimilanna og að þeir endurspegli betur sterkan efnahag og langtímahorfur Íslands. Þetta er hægt! Vilji er allt sem þarf!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. utanríkisráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

„Sofðu rótt í alla nótt“ – Um stöðu ís­lenskunnar, lestrarmenningu og á­kall til okkar sjálfra

Deila grein

03/11/2025

„Sofðu rótt í alla nótt“ – Um stöðu ís­lenskunnar, lestrarmenningu og á­kall til okkar sjálfra

Hvenær verður vandi að krísu?

Að íslensk leikskólabörn séu æ oftar farin að spjalla sín á milli á ensku, telja á ensku, þekkja litina á ensku: Vandi eða krísa? Að nærri helmingur drengja geti ekki lesið sér til gagns: Vandi eða krísa? Að Ísland sé neðst Norðurlanda þegar kemur að lesskilningi nemenda, og að staðan sé sú að fá þátttökuríki PISA hafi lækkað jafnmikið frá síðustu aldamótum: Vandi eða krísa?

Menntakerfið getur tekist á við vanda, en það þarf að virkja samfélag til að takast á við krísu.

Getur íslensk tunga dáið út á næstu fimmtíu árum? Já, nei, kannski? Íslenskan er ekki dauðadæmd en staða hennar er að veikjast. Stjórnvöld þurfa sannarlega að bregðast við, til dæmis með því að tryggja íslenskunni samastað í stafrænni veröld. Hins vegar, þegar öllu er á botninn hvolft, þá er enginn sem getur tryggt framtíð íslenskunnar nema við sjálf.

Þau vandamál sem við töldum upp tengjast öll orðaforða, málþroska, og læsi á einn eða annan hátt. Skólarnir hafa þýðingarmiklu hlutverki að gegna en samt er það svo að nám barna í skólum er aðeins brot af öllu þeirra námi. Börn læra af fjölskyldu sinni og þau læra af samfélaginu. Foreldrar eru fyrstu kennararnir og því mjög mikilvægt að foreldrar séu meðvitaðir um hlutverk sitt í þroska og námi barna sinna.

Lestrarmenning á heimilum skiptir sköpum fyrir viðgang og viðhald íslenskunnar, og er lykillinn að bættum árangri íslenskra barna í námi, óháð móðurmáli þeirra. Það er dýrmætt á svo margan hátt þegar foreldrar setja niður á kvöldin, slökkva á farsímanum, og lesa kvöldsöguna.

Að við gefum okkur góðan tíma og tölum við börnin okkar; spyrjum, ræðum, notum fjölbreyttan orðaforða – þannig tryggjum við sem best að börnin okkar nái þeim málþroska sem getur orðið undirstaðan fyrir allt þeirra nám í framtíðinni.

Þess vegna hef ég lagt það til að Akureyrarbær fari í sérstakt átaksverkefni um hlutverk heimilanna þegar kemur að málþroska og læsi barna.

Sveitarfélagið getur svarað kallinu, og gerir það í gegnum öflugt starf leik- og grunnskóla, en fleiri verða að leggja hönd á plóg. Þetta er verkefni sem við þurfum að vinna samhent. Við þurfum á vitundarvakningu að halda.

Gunnar Már Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri og MA í íslenskum fræðum.

Greinin birtist fyrst á visir.is 3. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lýðræðið er ekki excel-skjal

Deila grein

01/11/2025

Lýðræðið er ekki excel-skjal

Umræða um breytingar á kosningakerfi landsins og jöfnun atkvæðavægis hefur verið nokkuð áberandi að undanförnu í kjölfar þess að dómsmálaráðherra skipaði sérstakan starfshóp til að endurskoða þessi mál.

Margt þarf að hafa í huga við endurskoðun kosningakerfisins og mikilvægt er að nálgast verkefnið af yfirvegun og ábyrgð, því hér er um að ræða flókið viðfangsefni þar sem vegast á ólík sjónarmið um lýðræði, stjórnsýslu og lífsskilyrði fólks – í landi þar sem nær öll stjórnsýsla er í Reykjavík.

Ekki séríslenskt fyrirbrigði

Vert er að hafa í huga að misvægi atkvæða milli kjördæma er ekki séríslenskt fyrirbrigði. Í mörgum lýðræðisríkjum, til dæmis í Noregi, Finnlandi og í Kanada er meðvitað tekið tillit til byggðasjónarmiða. Í Noregi hefur flatarmál fylkjanna áhrif á fjölda þingsæta, í Finnlandi er tryggður ákveðinn lágmarksfjöldi fulltrúa fyrir strjálbýl kjördæmi og í Kanada hafa fámenn og víðfeðm héruð sína fulltrúa. Þannig er viðurkennt að lýðræði felst ekki einvörðungu í jöfnu vægi atkvæða, heldur líka í því að tryggja að landfræðileg og samfélagsleg fjölbreytni komi fram.

Nær öll stjórnsýsla er í Reykjavík

Þingmönnum ber skylda til að sækja þingfundi og af því leiðir að þeir hafa allir aðsetur í nágrenni Alþingishússins stærstan hluta ársins. Öll ráðuneyti og helstu stofnanir eru staðsettar í Reykjavík, þar sem teknar eru stórar ákvarðanir sem hafa bein áhrif á líf og afkomu fólks um allt land. Það er því brýnt að gæta þess að rödd landsbyggðarinnar veikist ekki enn frekar með breytingum á kosningakerfinu.

Ef ríkisstjórninni er raunverulega alvara með þessum fyrirætlunum, þá hlýtur að vakna sú spurning hvort ekki eigi jafnframt að flytja hluta ráðuneyta og ríkisstofnana út á land, til að tryggja raunverulegt jafnvægi í stjórnsýslu og ákvarðanatöku.

Sterk landsbyggð er styrkur þjóðarinnar

Landsbyggðin þarf að eiga sínar raddir á Alþingi – fulltrúa sem hafa þekkingu og tengsl við viðkomandi svæði og skilja hagsmuni og tækifæri utan höfuðborgarsvæðisins. Mörg byggðarlög hafa háð mikla varnarbaráttu á undanförnum áratugum, en gleðilegt er að sjá að víða um land blæs nú byrlega til framfara. Þó megum við ekki gleyma þeim svæðum sem enn heyja sitt varnarstríð – þar sem fólk vinnur dag hvern að því að viðhalda lífi, þjónustu og starfsemi í sinni heimabyggð.

Rekstur stjórnsýslu og lýðræðis kostar sitt. Stærstur hluti útflutningstekna Íslands kemur frá atvinnugreinum sem byggja á auðlindum landsins – sjávarútvegi, landbúnaði, orkuframleiðslu og ferðaþjónustu – og þær greinar eru að stærstum hluta á landsbyggðinni. Það væri hvorki rétt né sanngjarnt að færa ákvörðunartöku í meira mæli frá þeim svæðum sem skapa þessi verðmæti.

Hagsmunir íbúa höfuðborgarsvæðisins byggjast einmitt á því að byggðir um land allt dafni og að þær undirstöðuatvinnugreinar sem skapa þjóðarbúinu gjaldeyri standi sterkar. Í þessari umræðu ættum við að horfa frekar á það sem sameinar landshlutana og styrkir tengsl þeirra með því að byggja brýr og efla samvinnu. Það er vilji flestra landsmanna að halda landinu öllu í byggð – ekki aðeins vegna menningar og sjálfsmyndar, heldur einfaldlega vegna þess að það er þjóðhagslega hagkvæmt.

Pólitísk viðbrögð vekja spurningar

Það vekur athygli að Samfylkingin og Flokkur fólksins skuli blessa þetta verklag Viðreisnar og dómsmálaráðherra en það kemur kannski síður á óvart að Viðreisn haldi þessari línu. Það má hins vegar efast um að þessi nálgun, ásamt orðræðu sumra ráðherra ríkisstjórnarinnar, muni leiða til aukins trausts eða stuðla að samheldni þjóðarinnar. Þvert á móti gæti hún grafið undan tiltrú fólks á Alþingi, okkar grundvallarstofnunar, þar sem umræða og ákvarðanataka á að endurspegla allt landið og fólkið sem það byggir.

Það eru því margar hliðar á þessu flókna viðfangsefni og ráðherra hefði mátt hafa það í huga þegar hún skipaði starfshópinn – að tryggt væri að fjölbreytt sjónarmið kæmust að í umræðu og vinnu hópsins.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. nóvember 2025.