Categories
Fréttir Greinar

Pólitísk ábyrgð

Deila grein

19/02/2025

Pólitísk ábyrgð

Ný rík­is­stjórn Kristrún­ar Frosta­dótt­ur hef­ur nú birt þing­mála­skrá sína, en skrá­in fel­ur í sér yf­ir­lit um þau mál sem rík­is­stjórn­in hyggst leggja fram á þing­inu ásamt áætl­un um hvenær þeim verður dreift. Þing­mála­skrá­in hef­ur vakið at­hygli, ekki síst vegna þess að stór hluti henn­ar bygg­ir á mál­um sem þegar voru í und­ir­bún­ingi hjá fyrri rík­is­stjórn. Það vek­ur upp spurn­ing­ar um hversu illa hafi í raun verið stjórnað áður, eins og gefið var í skyn af nú­ver­andi vald­höf­um, í ljósi þess hve margt er nú tekið upp á ný af sömu aðilum og gagn­rýndu fyrri stjórn harðlega. Vit­an­lega gef­ur þetta til kynna að fjöl­mörg mik­il­væg og brýn mál hafi verið í far­vegi og staða þjóðarbús­ins hafi verið góð.

Hvar eru kosn­ingalof­orðin?

Við yf­ir­lest­ur þing­mála­skrár­inn­ar sést að sum af þeim kosn­ingalof­orðum sem voru sett fram með mikl­um þunga fyr­ir kosn­ing­ar eru hvergi sjá­an­leg. Það virðist nefni­lega vera óskráð regla í ís­lensk­um stjórn­mál­um að kosn­ingalof­orð breyt­ast á einni nóttu (eft­ir kosn­ing­ar) í ein­hvers kon­ar stefnu­mark­mið sem ekki þarf að standa við. Það er áhyggju­efni að stjórn­mála­menn skuli ekki axla meiri ábyrgð gagn­vart kjós­end­um sín­um og sýna að lof­orð verði efnd.

Ófyr­ir­séð fjár­málastaða – eða fyr­ir fram þekkt?

Í upp­hafi stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræðna var full­yrt að nýj­ar upp­lýs­ing­ar um fjár­hags­stöðu rík­is­ins gerðu nýrri rík­is­stjórn það ómögu­legt að efna gef­in lof­orð. Þetta er sér­stak­lega áhuga­vert í ljósi þess að all­ar upp­lýs­ing­ar um af­komu og efna­hag hins op­in­bera lágu þegar fyr­ir við gerð fjár­laga fyr­ir árið 2025 og voru öll­um flokk­um vel kunn­ar í fjár­laga­nefnd. Þetta vek­ur spurn­ing­ar um hvort stjórn­ar­flokk­arn­ir hafi gefið lof­orð án þess að ætla sér raun­veru­lega að standa við þau, eða hvort þeir hafi ein­fald­lega hunsað fyr­ir­liggj­andi gögn.

Sam­göngu­mál í upp­námi

Sam­göngu­mál hafa verið fyr­ir­ferðar­mik­il í umræðunni, sér­stak­lega í Norðvest­ur­kjör­dæmi. Það er já­kvætt að fram­kvæmd­ir á Dynj­and­is­heiði og í Gufu­dals­sveit eru tryggðar í fjár­lög­um fyr­ir 2025, en lof­orð um tvenn jarðgöng á hverj­um tíma, sem innviðaráðherra gaf fyr­ir kosn­ing­ar, sjást ekki í þing­mála­skránni. Ný sam­göngu­áætlun er ekki vænt­an­leg fyrr en í haust, og ljóst er að for­gangs­röðun verður lyk­il­atriði. Fólk í kjör­dæm­inu hef­ur vænt­ing­ar um að lof­orðin verði efnd og að sam­göngu­bæt­ur verði að veru­leika – ekki aðeins orð á blaði.

Á síðasta lög­gjaf­arþingi var því ít­rekað haldið fram af nú­ver­andi sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra að nægt fjár­magn væri til staðar til að hefja fram­kvæmd­ir. Þannig voru gef­in lof­orð um Álfta­fjarðargöng, göng um Mikla­dal og Hálf­dán (Suður­fjarðargöng), tvö­föld­un Hval­fjarðargangna og göng und­ir Kletts­háls.

Nú virðist sem tónn­inn sé breytt­ur. Stjórn­mál eiga þó að byggj­ast á ábyrgð, og stjórn­mála­menn verða að standa við gef­in fyr­ir­heit.

Breytt afstaða til stjórn­ar­skrár?

Eitt það furðuleg­asta í störf­um hinn­ar nýju rík­is­stjórn­ar er stefnu­breyt­ing sumra ráðherra varðandi stjórn­ar­skrána. Ráðherra sem áður sagði að bók­un 35 stæðist ekki stjórn­ar­skrá styður nú ekki aðeins málið held­ur er sjálf­ur í rík­is­stjórn sem hyggst leggja það fram. Þetta vek­ur upp spurn­ing­ar um hvort siðferði og prinsipp skipti í raun máli í stjórn­mál­um, eða hvort sjón­ar­mið ís­lenskra flokka breyt­ist ein­fald­lega eft­ir því hvort þeir séu í stjórn eða stjórn­ar­and­stöðu.

Sam­ein­ing sýslu­mann­sembætta

Til­laga um að sam­eina sýslu­mann­sembætt­in í eitt hef­ur einnig vakið mikla umræðu. Þetta myndi þýða að embætt­in, sem gegna gríðarlega mik­il­vægu hlut­verki hins op­in­bera í hverj­um lands­hluta, yrðu sam­einuð í eina miðlæga stofn­un. Við í Fram­sókn telj­um slíkt ekki til fram­fara, en styðjum þess í stað aukið sam­starf embætt­anna, skil­virk­ari verka­skipt­ingu og betri sam­vinnu.

Ábyrgð og sam­vinna í stjórn­mál­um

Þrátt fyr­ir of­an­greind­ar áhyggj­ur og sjón­ar­mið vil ég leggja áherslu á að all­ir þing­menn, óháð flokksaðild, eiga það sam­eig­in­legt að vilja vinna að hags­mun­um þjóðar­inn­ar. Þó að stefn­ur og áhersl­ur séu mis­mun­andi ætti mark­miðið alltaf að vera að gera Ísland betra í dag en í gær. Ég hlakka til sam­starfs­ins á þessu kjör­tíma­bili og vona að stjórn­mála­menn sýni bæði ábyrgð og staðfestu í ákvörðunum sín­um.

Við eig­um ávallt að stefna að því að gera bet­ur. Það á að vera meg­in­regl­an í allri póli­tík.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður og odd­viti Fram­sókn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Deila grein

19/02/2025

Opið bréf til Daða Más fjármálaráðherra

Sæll Daði Már Kristó­fers­son! Þegar þú ung­ur dreng­ur stóðst á hlaðinu í Reyk­holti og horfðir yfir hið fagra hérað Borg­ar­fjörð, þá hreifstu af hinni miklu feg­urð og land­gæðum sem blöstu við í ríki Snorra Sturlu­son­ar! Gróið hérað glæsi­leg lönd bænda og land­búnaðar­ins, jarðhiti, blóm­leg bænda­býli og gott und­ir bú. Þú hef­ur hugsað til Snorra og bók­fell­anna sem naut­in gáfu til að skrifa sögu Íslands og Norður­land­anna. Þú hef­ur heill­ast af þeim tæki­fær­um sem land­búnaður­inn gaf og gæti enn gefið þjóð þinni. Þú hugsaðir um að gam­an væri að mennta þig í land­búnaðarfræðum og árið 2000 út­skrifaðistu með B.Sc.-gráðu í land­búnaðarfræðum frá Land­búnaðar­há­skóla Íslands á Hvann­eyri. Sama ár sótt­ir þú þér meist­ara­gráðu frá Agricultural Uni­versity í Nor­egi, allt eft­ir hag­fræðinámið.

Þú hef­ur sem land­búnaðar­hag­fræðing­ur sinnt land­búnaði og oft flutt góð er­indi og til­lög­ur á bændaþing­um. Nú skrifa ég þér þess­ar lín­ur af því að þú kannt fræðin bet­ur en flest­ir og komn­ar eru upp deil­ur við ESB út af skil­grein­ingu á ost­um sem snýr að öll­um EES-þjóðunum Íslandi, Nor­egi og Sviss. Um er að ræða 85% mjólkurost með jurta­feiti. Spurn­ing­in er und­ir hvort flokk­ast ost­ur­inn, mjólk eða jurta­ríkið? Þú veist jafn­vel og und­ir­ritaður að 45% vín er sterkt vín, að bjór og hvítt og rautt er létt­vín, hvað þá 85% mjólkurost­ur, hann hlýt­ur að vera frá land­búnaði. Nor­eg­ur og Sviss hafa haldið sinni skil­grein­ingu þrátt fyr­ir kröfu­gerð ESB, Nor­eg­ur í 12 ár. Verði niðurstaða þín röng tapa tíu til fimmtán bænd­ur á Íslandi vinnu sinni við að fram­leiða mjólk að talið er. Og ef þú ger­ir mis­tök munu heild­sal­ar gera kröfu um að þú far­ir rangt að á fleiri sviðum í þinni embætt­is­færslu. Ég treysti þér þar til annað kem­ur í ljós, Daði Már.

Sann­leik­ur­inn birt­ist enn og aft­ur

Er þetta er ritað, 17. fe­brú­ar, ligg­ur fyr­ir enn ein niðurstaða dóm­stóla í máli þar sem sjón­ar­miðum þeirra sem sótt hafa ít­rekað að rík­inu var hafnað enn og aft­ur. Þetta snýst um skil­grein­ing­ar skatta- og tolla­yf­ir­valda um toll­flokk­un á pizza­osti, sem eins og fyrr seg­ir er sam­sett­ur af 85% hluta mjólkurosts. Á það þá að vekja undr­un og jafn­vel átök að slík vara kall­ist ost­ur? Sér­fræðing­ar viðkom­andi stofn­ana hafa unnið sitt starf sam­kvæmt skyldu sinni og af sann­fær­ingu við viðkom­andi toll­flokk­un.

Það er skylda hvers manns, og ekki síst stjórn­mála­manna, að gæta að hags­mun­um okk­ar allra. Þeir fel­ast hvað sterk­ast í því að verja markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni þjóðar­inn­ar sem og at­vinnu­tæki­færi okk­ar. Það er ekki til­vilj­un ein að okk­ur stærri lönd, og sam­bönd þeirra, verji fyrst og fremst markaðs- og fram­leiðslu­hags­muni sinna þjóða og þá verðmæta­sköp­un sem þeim fylg­ir.

En nú er mál að linni. Þess­ari sneypu­för sem fólg­in er í veg­ferðinni um þenn­an pizza­ost verður að ljúka. Mál­flutn­ing­ur þeirra sem sótt hafa að stofn­un­um rík­is­ins í gegn­um dóm­stóla er bor­inn fram í – að menn halda – fleytifullri fötu sann­leik­ans. En það er ekki svo – fat­an held­ur engu og allt lek­ur úr aft­ur og aft­ur eins og forðum.

Botn­inn er suður í Borg­ar­f­irði!

Guðni Ágústsson, fyrr­ver­andi alþing­ismaður og ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. febrúar 2025.

Categories
Fréttir

Halla Hrund hvetur til aukinnar nýsköpunar og tækniþróunar

Deila grein

18/02/2025

Halla Hrund hvetur til aukinnar nýsköpunar og tækniþróunar

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, gagnrýndi á Alþingi skort á áherslu ríkisstjórnarinnar á nýsköpun og tækni þegar kemur að því að efla hagvöxt og atvinnuþróun. Hún sagði að Ísland ætti að horfa til fyrirmynda erlendis og leggja meiri áherslu á að styðja við sprotafyrirtæki og tæknilausnir sem gætu haft afgerandi áhrif á efnahagslega þróun landsins.“

„Á Viðskiptaþingi í síðustu viku var fjallað um það hvernig eitt fyrirtæki í Danmörku væri í raun og veru ábyrgt fyrir þeim hagvexti sem Danmörk hefur upplifað á undanförnum árum.“

„Við þekkjum vel hér á landi að fyrirtæki líkt og Kerecis geta gjörbreytt samfélögum og lagt gríðarlega mikið af mörkum til okkar samfélags. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að sá slíkum fræjum því það eru þau sem munu gera það að verkum að fólk mun vilja vinna hér um allt land í framtíðinni,“ sagði Halla Hrund.

Hún lagði sérstaka áherslu á mikilvægi nýsköpunar á landsbyggðinni og nefndi dæmi um fyrirtæki á borð við Kerecis og Marel sem hafi vaxið út frá nýtingu náttúruauðlinda landsins. Hún skoraði á ríkisstjórnina að beina sjónum sínum sérstaklega að svæðum eins og Suðurnesjum, þar sem nægur jarðhiti og græn orka skapa einstök tækifæri til atvinnuuppbyggingar í nýsköpun.

Gervigreind mikilvæg fyrir framþróun og sparnað

Halla Hrund fjallaði einnig um mikla möguleika sem felast í gervigreind og tækniframförum til að auka hagkvæmni og spara í rekstri hins opinbera. „Við eigum stór tækifæri þegar kemur að sparnaðaraðgerðum að horfa til gervigreindarinnar, ekki bara til að greina tillögur heldur einnig til að hraða innleiðingu kerfa og framkvæmda.“

Halla Hrund benti á að þróun gervigreindar hafi tekið veldisvexti undanfarin ár og að sú tækni væri þegar farin að gegna stórt hlutverki í daglegu lífi fólks. „Í dag er hægt að panta lasagna nánast með því að hugsa um það á internetinu og fá vörur heimsendar,“ sagði hún og hvatti stjórnvöld til að nýta þessa tækni betur.

Að lokum hvatti hún ríkisstjórnina til að setja nýsköpun og gervigreind í forgang á stefnuskrá sína og tryggja að Ísland yrði leiðandi í tækniþróun. „Nýtum þessa tækni til að spara og vera leiðandi; setjum nýsköpun og gervigreind á dagskrá.“


Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég hef áhyggjur af því að ríkisstjórnin sé ekki að beina sjónum sínum nægilega mikið að tækni og nýsköpun þegar kemur að því að stækka kökuna eins og hefur verið mikið í umræðunni hér á þingi. Á Viðskiptaþingi í síðustu viku var fjallað um það hvernig eitt fyrirtæki í Danmörku væri í raun og veru ábyrgt fyrir þeim hagvexti sem Danmörk hefur upplifað á undanförnum árum. Við þekkjum vel hér á landi að fyrirtæki líkt og Kerecis geta gjörbreytt samfélögum og lagt gríðarlega mikið af mörkum til okkar samfélags. Við þurfum að leggja miklu meiri áherslu á að sá slíkum fræjum því það eru þau sem munu gera það að verkum að fólk mun vilja vinna hér um allt land í framtíðinni.

Mig langar líka að segja að það er gaman þegar við horfum á nýsköpunarsögu Íslands, sama hvort það er Kerecis eða Marel, að þetta eru mörg hver fyrirtæki sem tengjast líka landsbyggðinni. Við erum að tala um fyrirtæki sem beina sjónum sínum að betri nýtingu auðlinda okkar. Mig langar að skora á ríkisstjórnina að horfa t.d. á svæði eins og á Suðurnesjunum þar sem jarðhitinn er nægur, orka er næg og hægt er að taka miklu stærri skref í atvinnuþróun tengdri nýsköpun og þessum auðlindum.

Mig langar líka að segja að við eigum stór tækifæri þegar kemur að sparnaðaraðgerðum, eins og er mikið rætt um hér, að horfa á gervigreindina, ekki bara til að greina tillögur heldur til að spara okkur vinnu þegar kemur að innleiðingu á kerfum, þegar kemur að framkvæmd verkefna. Ef við lítum á hvað hefur gerst í heimi „artificial intelligence“ undanfarið hefur orðið alger veldisvöxtur. Og hvað þýðir það? Fyrir almennan borgara þýðir það að hægt er að panta lasagna nánast með því að hugsa um það á internetinu og fá heimsendar vörur. Nýtum þessa tækni til að spara og vera leiðandi; setjum nýsköpun og gervigreind á dagskrá.“

Categories
Fréttir

„Tugir kúabúa gætu þurft að hætta starfsemi“

Deila grein

18/02/2025

„Tugir kúabúa gætu þurft að hætta starfsemi“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, ræddi á Alþingi mikilvægt mál sem snertir framtíð íslensks landbúnaðar og fæðuöryggi. Fjármála- og efnahagsráðherra áformar breytingar á tollflokkun osts með viðbættri jurtafitu.

„Slík breyting mun ekki aðeins veikja íslenska mjólkurframleiðslu heldur stefna fæðuöryggi landsins í hættu. Hundruð milljóna króna munu færast frá íslenskum bændum til erlendra fyrirtækja og framtíð ungra bænda verður óviss. Tugir kúabúa gætu þurft að hætta starfsemi. Við verðum að spyrja okkur hvort við séum reiðubúin til að fórna okkar eigin framleiðslu, byggðafestu og sjálfbærni fyrir skammtímaávinning örfárra innflutningsaðila,“ sagði Ingibjörg.

Gagnrýndi hún harðlega að íslenska ríkið væri ekki skuldbundið til að fylgja áliti Alþjóðatollastofnunarinnar, þar sem íslenskir dómstólar hefðu þegar kveðið upp aðra niðurstöðu og raunar ákveðið hvernig túlka beri hina íslensku tollskrá. Hún benti á að mörg önnur ríki hefðu neitað að fylgja sambærilegum tilmælum án þess að hafa þurft að glíma við neikvæðar afleiðingar.

„Það er því mikið áhyggjuefni að ríkisstjórnin kjósi að fylgja erlendum hagsmunum frekar en að standa vörð um lífsviðurværi íslenskra bænda. Við þurfum að spyrja okkur líka hvort greining liggi fyrir á efnahagslegum áhrifum þessara breytinga og aukins innflutnings á erlendum mjólkurafurðum.“

Ingibjörg gagnrýndi einnig Félag atvinnurekenda fyrir harðan málflutning og rangfærslur í umræðunni. Fullyrðingar félagsins um að stjórnvöld hafi breytt tollflokkun vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum fremur en lagalegrar nauðsynjar standist ekki skoðun.

„Endanleg niðurstaða dómstóla hér á landi hefur skorið úr að umræddur ostur skuli tollflokkaður sem hefðbundinn ostur en ekki jurtaostur og því er íslenska ríkið bundið af þeirri niðurstöðu. Það er skylda okkar að horfa til framtíðar og taka ákvarðanir sem styrkja undirstöður þjóðaröryggis og byggðafestu í landinu,“ sagði Ingibjörg að lokum.


Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Við stöndum frammi fyrir mikilvægu máli sem snertir framtíð íslensks landbúnaðar og fæðuöryggi okkar allra. Nýleg áform fjármála- og efnahagsráðherra um breytingar á tollflokkun osts með viðbættri jurtafitu munu hafa víðtæk og alvarleg áhrif á íslenska bændur og matvælaframleiðslu í landinu. Slík breyting mun ekki aðeins veikja íslenska mjólkurframleiðslu heldur stefna fæðuöryggi landsins í hættu. Hundruð milljóna króna munu færast frá íslenskum bændum til erlendra fyrirtækja og framtíð ungra bænda verður óviss. Tugir kúabúa gætu þurft að hætta starfsemi. Við verðum að spyrja okkur hvort við séum reiðubúin til að fórna okkar eigin framleiðslu, byggðafestu og sjálfbærni fyrir skammtímaávinning örfárra innflutningsaðila.

Svo er einnig stóralvarlegt mál sem varðar vald og tilgang Alþingis. Það vekur nefnilega athygli að íslenska ríkið er ekki skuldbundið til að fylgja áliti Alþjóðatollastofnunarinnar þar sem íslenskir dómstólar hafa þegar komist að annarri niðurstöðu og raunar ákveðið hvernig túlka beri hina íslensku tollskrá. Fjölmörg ríki hafa neitað að fara sambærilega leið og hafna því að fylgja slíkum tilmælum án neikvæðra afleiðinga. Það er því mikið áhyggjuefni að ríkisstjórnin kjósi að fylgja erlendum hagsmunum frekar en að standa vörð um lífsviðurværi íslenskra bænda. Við þurfum að spyrja okkur líka hvort greining liggi fyrir á efnahagslegum áhrifum þessara breytinga og aukins innflutnings á erlendum mjólkurafurðum.

Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að Félag atvinnurekenda hefur verið mjög hávært í þessari umræðu og oft og tíðum með gífuryrðum og rangfærslum. Fullyrðing félagsins um að íslensk stjórnvöld hafi breytt tollflokkun vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum fremur en lagalegrar nauðsynjar standast ekki skoðun. Endanleg niðurstaða dómstóla hér á landi hefur skorið úr að umræddur ostur skuli tollflokkaður sem hefðbundinn ostur en ekki jurtaostur og því er íslenska ríkið bundið af þeirri niðurstöðu. Það er skylda okkar að horfa til framtíðar og taka ákvarðanir sem styrkja undirstöður þjóðaröryggis og byggðafestu í landinu.“

Categories
Fréttir

„Við núverandi stöðu verður ekki unað“

Deila grein

18/02/2025

„Við núverandi stöðu verður ekki unað“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um meðferðarrými og öryggisvistun fyrir ungmenni. En svo virðist vera að ekkert annað húsnæði komi til greina en lögreglustöðin við Flatahraun í Hafnarfirði. „Sömuleiðis er það staðreynd að mörgum meðferðarúrræðum hefur verið lokað á síðustu árum og þar á meðal Háholti í Skagafirði.“

„Í áraraðir var rekið meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði en forsvarsmenn Barnaverndarstofu tóku ákvörðun árið 2017 um að loka heimilinu og var það gert án samráðs við sveitarfélagið,“ sagði Stefán Vagn, en hann var formaður byggðarráðs sveitarfélagsins á þeim tíma.

Háholt stendur nú autt og til stendur að selja það. Sveitarfélagið Skagafjörður fór í breytingar á húsnæðinu 2014 svo það hentaði sem öryggisvistun fyrir unglinga og bregðast þannig við ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.

„Ég skora á hæstv. ráðherra að setja sig í samband við forsvarsmenn sveitarfélagsins og koma húsnæðinu, sem hefur einmitt verið hannað til þess m.a. að öryggisvista unglinga, aftur í notkun og leysa þar með þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í málaflokknum. Húsnæðið er til staðar og þekking á rekstri fyrir hendi. Hver dagur skiptir máli. Við núverandi stöðu verður ekki unað,“ sagði Stefán Vagn að lokum.


Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Þegar ég sóttist eftir því að komast í störfin í dag var ég með ákveðið málefni í huga sem mig langaði að ræða en hins vegar þegar ég las pistil hv. þm. Jóns Gnarrs fann ég mig knúinn til að koma hérna upp og halda áfram með það brýna málefni sem kom fram í umræddum pistli og snýr að meðferðarrýmum og öryggisvistun fyrir ungmenni. Ég vil einnig þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þeirri stöðu sem uppi er í málaflokknum en nú er svo komið að ekkert húsnæði virðist koma til greina annað en lögreglustöðin við Flatahraun í Hafnarfirði. Sömuleiðis er það staðreynd að mörgum meðferðarúrræðum hefur verið lokað á síðustu árum og þar á meðal Háholti í Skagafirði. Í áraraðir var rekið meðferðarheimili í Háholti í Skagafirði en forsvarsmenn Barnaverndarstofu tóku ákvörðun árið 2017 um að loka heimilinu og var það gert án samráðs við sveitarfélagið. Sá sem hér stendur var einmitt formaður byggðarráðs sveitarfélagsins á þeim tíma og þekkir málið ágætlega. Góður árangur hafði náðst á Háholti og sveitarfélagið m.a. farið í breytingar á húsnæðinu 2014 með það fyrir augum að það hentaði til þess vera með unglinga í öryggisvistun og bregðast þannig við ákvæðum barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Nú stendur húsið autt og til stendur að selja það.

Virðulegur forseti. Ég skora á hæstv. ráðherra að setja sig í samband við forsvarsmenn sveitarfélagsins og koma húsnæðinu, sem hefur einmitt verið hannað til þess m.a. að öryggisvista unglinga, aftur í notkun og leysa þar með þá grafalvarlegu stöðu sem uppi er í málaflokknum. Húsnæðið er til staðar og þekking á rekstri fyrir hendi. Hver dagur skiptir máli. Við núverandi stöðu verður ekki unað.“

Categories
Fréttir

Óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma

Deila grein

18/02/2025

Óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, mælir fyrir tillögu til þingsályktunar um óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma á Alþingi í dag.

Tillögugreinin hljóðar þannig:
Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina eigi síðar en haustið 2025.

Markmið tillögu þessarar er að tryggja að bankar geti boðið fasteignakaupendum hér á landi upp á óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma.

„Íslenskir bankar eru of smáir til að eiga þess kost að bjóða fram slíka fjármálaþjónustu, þar sem þeir eru að hluta bundnir af eigin fjármögnunarkjörum. Íslenska ríkið og lífeyrissjóðir eru að vissu leyti í yfirburðastöðu á íslenskum fjármálamarkaði og geta með einfaldari hætti og á hagstæðari kjörum haft aðgang að langtímafjármögnun.

Viðfangsefnið gengur út á að bankar geti fjármagnað húsnæðislán á óverðtryggðum vöxtum til lengri tíma en þeir bjóða upp á í dag. Með breyttum reglum og þróaðri fjármálamarkaði, til að mynda í gegnum vaxtaskiptasamninga, en það eru samningar þar sem aðilar skiptast á föstum og breytilegum vaxtagreiðslum af tilteknum höfuðstól yfir ákveðið tímabil, er hægt að auðvelda bönkum að bjóða upp á slík lán,“ segir í greinargerð með tillögunni.

Ávinningur af nýju fyrirkomulagi er margvíslegur:

  • Í fyrsta lagi að íbúðarkaupendur geti fengið hagstæðari fasteignalán og verulega aukinn fyrirsjáanleika.
  • Í öðru lagi, verði farin vaxtaskiptasamningsleið, má búast við að ríkissjóður geti lækkað vaxtakostnað sinn með því að færa vaxtagreiðslur sínar í meira mæli yfir í skammtímavexti, sem eru yfirleitt lægri en langtímavextir.
  • Í þriðja lagi má gera ráð fyrir að verðtryggð lán heyri sögunni til ef óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma standa fasteignakaupendum til boða.
Categories
Fréttir

Læknisþjónustu á landsbyggðinni og aðgerðir stjórnvalda

Deila grein

17/02/2025

Læknisþjónustu á landsbyggðinni og aðgerðir stjórnvalda

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi aðgerðir stjórnvalda vegna læknisþjónustu á landsbyggðinni í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi. Sagði hún áhyggjur sínar snúa að mönnun og ekki síst í Suðurkjördæmi. „Við erum ekki bara að tala um íbúana á svæðinu heldur erum við að tala um að um 80% af ferðamönnum sem koma til Íslands fara um það kjördæmi. Við vitum öll að læknisþjónusta er forsenda góðra búsetuskilyrða. Hún er lykilþáttur í því hvort við ákveðum að flytja út á land. Hún er lykilþáttur í því að atvinnulíf geti blómstrað á ólíkum sviðum.“

„Ef við hugsum bara öll sem erum hér í þessum þingsal þá áttum við okkur á því að staðan var ekki alltaf svona. Förum aðeins og skoðum hvernig þetta var þegar héraðsskyldan var. Skoðum aðeins þegar læknabústaðirnir voru og hétu, þessir hvatar og skyldur sem voru til áður fyrr, og gerðu það að verkum að staðan var allt önnur en núna.

Ég beini því þessum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða aðgerðapakka, hvaða hvata ætlið þið að fara í strax? Hvert er planið í þessum málum?“

Sjá nánar: Aðgerðir stjórnvalda vegna læknisþjónustu á landsbyggðinni.


Ræða Höllur Hrundar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Mig langar að fara yfir mál sem ég veit að hvílir á mörgum en það er læknisþjónusta á landsbyggðinni. Ég hef verulegar áhyggjur af því máli, ekki síst í Suðurkjördæmi þar sem við sjáum að það vantar upp á mönnun. Og ekki bara það. Við erum ekki bara að tala um íbúana á svæðinu heldur erum við að tala um að um 80% af ferðamönnum sem koma til Íslands fara um það kjördæmi. Við vitum öll að læknisþjónusta er forsenda góðra búsetuskilyrða. Hún er lykilþáttur í því hvort við ákveðum að flytja út á land. Hún er lykilþáttur í því að atvinnulíf geti blómstrað á ólíkum sviðum. Ég veit til þess að nýverið hafa komið til hæstv. heilbrigðisráðherra áskoranir frá ýmsum varðandi læknisþjónustu í Rangárvallasýslu. Við vitum að það er einn læknir á Höfn, það eru verktakar í Vík, það er enginn læknir á Kirkjubæjarklaustri, þannig að ástandið er alvarlegt. Það þarf ekkert að fara svo langt aftur í tímann. Ef við hugsum bara öll sem erum hér í þessum þingsal þá áttum við okkur á því að staðan var ekki alltaf svona. Förum aðeins og skoðum hvernig þetta var þegar héraðsskyldan var. Skoðum aðeins þegar læknabústaðirnir voru og hétu, þessir hvatar og skyldur sem voru til áður fyrr, og gerðu það að verkum að staðan var allt önnur en núna.

Ég beini því þessum spurningum til hæstv. heilbrigðisráðherra: Hvaða aðgerðapakka, hvaða hvata ætlið þið að fara í strax? Hvert er planið í þessum málum?“

Categories
Fréttir Greinar

Ó­sann­gjörn byrði á lands­byggðar­fólk

Deila grein

17/02/2025

Ó­sann­gjörn byrði á lands­byggðar­fólk

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu er einn af hornsteinum íslensks velferðarkerfis og á að vera réttur allra landsmanna, óháð búsetu og efnahag. Þrátt fyrir að Ísland státi af öflugu heilbrigðiskerfi, standa íbúar landsbyggðarinnar enn frammi fyrir hindrunum sem borgarbúar þurfa ekki að takast á við. Ein af þessum hindrunum er ferðakostnaður við að sækja sér sérhæfða heilbrigðisþjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð. Sú staðreynd að ferðum einstaklinga hefur verið fjölgað úr tveimur í fjórar á síðasta kjörtímabili er mikið fagnaðarskref, en enn er verk að vinna til að tryggja raunverulegt jafnrétti í aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Ófullnægjandi fyrirkomulag

Einstaklingar á landsbyggðinni sem þurfa að ferðast til Reykjavíkur til að sækja sér heilbrigðisþjónustu eiga rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar gegn framvísun staðfestingar á læknisheimsókn. Þrátt fyrir að þetta úrræði sé mikilvægt, hefur komið í ljós að það er ekki alltaf sanngjarnt eða réttlátt. Tilvik hafa komið upp þar sem einstaklingar hafa ferðast langar vegalengdir í góðri trú, en læknistímar þeirra hafa verið afbókaðir með skömmum fyrirvara af hálfu heilbrigðisstofnana. Í slíkum tilfellum eru sjúklingar ekki einungis sviptir nauðsynlegri læknisþjónustu, heldur einnig réttinum til endurgreiðslu á ferðakostnaði.

Kostnaður vegna þjónustu sem ekki er veitt

Slíkt fyrirkomulag er ekki aðeins ósanngjarnt heldur veldur það fjárhagslegum kostnaði fyrir viðkomandi einstaklinga. Ferðakostnaður, gisting og annar tilfallandi kostnaður getur verið umtalsverður, sérstaklega fyrir þá sem eru tekjulágir eða búa á afskekktum svæðum. Þegar einstaklingur hefur þegar lagt í för og læknistíminn fellur niður af ástæðum sem hann sjálfur ræður ekki við, er ekki réttlátt að hann beri kostnaðinn.

Til að tryggja sanngjarnara og réttlátara kerfi er nauðsynlegt að sjúklingar fái ferðakostnað endurgreiddan jafnvel þótt læknistími þeirra falli niður af hálfu heilbrigðisstofnana. Með því væri dregið úr fjárhagslegum áhyggjum sjúklinga og tryggt að landsbyggðarfólk hafi raunverulegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu á sömu eða amk. svipuðum forsendum og íbúar höfuðborgarsvæðisins. Það er réttlætismál að sjúklingar sem þurfa að ferðast langar vegalengdir til að fá nauðsynlega meðferð njóti sanngjarnari meðferðar í endurgreiðslukerfinu.

Undirrituð vinnur að málinu

Undirrituð vinnur nú að framlagningu máls á Alþingi þar sem lagðar verða til breytingar á núverandi reglum um ferðakostnað sjúklinga. Markmiðið er að tryggja að þeir sem lenda í þeirri stöðu að læknistímar þeirra falli niður af ástæðum sem þeir ráða ekki við, eigi samt rétt á endurgreiðslu ferðakostnaðar.

Þessi breyting yrði mikilvægt skref í átt að raunverulegu jafnrétti innan heilbrigðiskerfisins og myndi stuðla að því að allir landsmenn njóti sama aðgengis að nauðsynlegri læknisþjónustu, óháð búsetu þeirra. Jafnrétti til heilbrigðisþjónustu má ekki einungis vera markmið á pappír – það verður að endurspeglast í framkvæmd kerfisins.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. febrúar 2025.

Categories
Greinar

Skattahækkanir, mið­stýring og ESB-þráhyggja

Deila grein

16/02/2025

Skattahækkanir, mið­stýring og ESB-þráhyggja

Eitt helsta einkenni núverandi ríkisstjórnar undir forystu Kristrúnar Frostadóttur er sterk tilhneiging til miðstýringar. Það er áhyggjuefni hvernig ríkisafskipti eru að aukast á mörgum sviðum án þess að nægur sveigjanleiki sé til staðar fyrir frumkvæði í atvinnulífinu og einkarekstri. Sósíaldemókratísk stefna leggur of oft áherslu á lausnir þar sem ríkið á að sjá um allt, frekar en að skapa skilyrði fyrir heilbrigða samkeppni og sjálfbærar lausnir.

Framsókn hefur alla tíð talað fyrir jafnvægi milli ríkis og einkageirans – ríkið á ekki að kæfa frumkvæði með of miklum höftum og reglugerðum heldur styðja við fólk og fyrirtæki með skynsamlegum hætti. Þegar horft er til efnahagsaðgerða ríkisstjórnarinnar virðist skorta þessa skynsemi og sveigjanleika.

Landsbyggðin gleymd

Eins og svo oft áður virðist áhersla ríkisstjórnarinnar fyrst og fremst liggja á Höfuðborgarsvæðinu, en hvað með landsbyggðina? Það er lítið sem ekkert sem bendir til þess að stjórnin hafi metnað fyrir raunverulegum aðgerðum til að styrkja byggðir utan höfuðborgarsvæðisins.

Það er grundvallaratriði að tryggja sterkar byggðir um allt land með öflugri atvinnustefnu, góðri innviðaþróun og hagstæðum skattaívilnunum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Í staðinn virðist stefna ríkisstjórnarinnar fara í öfuga átt – áframhaldandi höfuðborgarmiðaðar aðgerðir sem gera lítið fyrir lífsskilyrði og framtíð fólks á landsbyggðinni.

Við í Framsókn teljum að byggðastefna verði að vera öflug og markviss, ekki eitthvað sem ríkisstjórnin tekur upp í orði en ekki á borði. Það þarf að tryggja atvinnutækifæri, byggja upp samgöngur og huga að framtíðarsýn sem felur ekki bara í sér borg og miðstýrt kerfi, heldur einnig samfélög um allt land.

Alþjóðastefna sem hættir að vinna gegn íslenskum hagsmunum

Kristrún Frostadóttir hefur talað um nauðsyn þess að treysta alþjóðasamstarf og efla samskipti við Evrópusambandið. Þó samstarf við önnur ríki sé mikilvægt, má það ekki ganga gegn hagsmunum íslensku þjóðarinnar.

Það virðist þó vera stefna ríkisstjórnarinnar að færa okkur nær Evrópusambandinu með skrefum sem veita erlendum stofnunum meira vald yfir okkar innlendum málefnum. Sérstaklega eru áhyggjur varðandi sjávarútveg og landbúnað, þar sem Íslendingar þurfa að hafa full yfirráð yfir eigin auðlindum. Framsókn hefur ávallt verið skýr í því að sjálfstæði Íslands í þessum málum er ósveigjanlegt grundvallaratriði.

Við verðum að gæta þess að stefna í alþjóðamálum sé í þágu okkar eigin fólks og atvinnuvega, en ekki hluti af óraunhæfri hugmyndafræði sem setur hagsmuni Íslendinga í annað sæti.

Sjálfbærar efnahagsaðgerðir – ekki skattahækkanir

Ein stærsta gagnrýni sem hægt er að færa á ríkisstjórn Kristrúnar er skortur á sjálfbærni í efnahagsmálum. Í stað þess að beita markvissum lausnum til að örva hagvöxt og auka framleiðni, virðist stjórnin líta til skattahækkana sem aðalúrræðisins til að fjármagna loforð sín.

Sósíaldemókratísk stefna gengur of oft út á að hækka álögur á fyrirtæki og einstaklinga, án þess að huga nægilega að langtímaafleiðingum þess fyrir hagkerfið. Ef við viljum tryggja velferðarkerfi sem stendur undir sér til framtíðar, þarf skynsamlega fjármálastjórn og stuðning við atvinnulíf, ekki stefnulausa skattahækkanastefnu sem dregur úr hvata til fjárfestinga og nýsköpunar.

Tími til að stjórna af raunsæi – ekki hugmyndafræðilegum kreddum

Að lokum má segja að stærsta vandamálið við ríkisstjórn Kristrúnar sé skortur á raunverulegri pragmatískri nálgun. Þegar stjórnmál eru drifin áfram af hugmyndafræðilegum forsendum sem kallast í þessi tilfelli plan Samfylkingarinnar verður stjórnin óraunsæ og lausnamiðuð nálgun víkur fyrir flokkspólitískum markmiðum.

Framsókn hefur alltaf verið flokkur sem leggur áherslu á skynsamlegar, hagnýtar lausnir, fyrir ísland allt. Við þurfum ríkisstjórn sem hugsar um heildarhagsmuni landsins, ekki einungis um hvernig hægt sé að framkvæma sósíaldemókratíska stefnu án þess að horfa til raunveruleikans.

Það er sú nálgun sem Framsókn stendur fyrir, og það er sú nálgun sem Ísland þarf.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Deila grein

15/02/2025

Ríkisstjórn sem sameinar eða sundrar?

Við upp­haf nýs kjör­tíma­bils standa von­ir margra til þess að stjórn­mál­in verði afl sam­ein­ing­ar frek­ar en sundr­ung­ar. Þjóðin þarf á sam­stöðu að halda, ekki síst á tím­um efna­hags­legra áskor­ana og auk­inn­ar óvissu í alþjóðamál­um. Hins veg­ar vek­ur það áhyggj­ur að ný rík­is­stjórn sýn­ir eng­an skýr­an vilja til slíkr­ar sam­ein­ing­ar, ef marka má stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra.

Hús­næðismál í for­gangi

For­gangs­mál Fram­sókn­ar nú við upp­haf þings er þing­mál um 25 ára óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Sú leið sem við höf­um lagt til, og bygg­ir á vinnu sem sett var af stað í minni tíð í fjár­málaráðuneyt­inu, hef­ur vakið at­hygli enda um mikla kjara­bót að ræða fyr­ir ís­lensk heim­ili. Það er mjög mik­il­vægt fyr­ir lán­tak­end­ur að hafa ör­yggi og fyr­ir­sjá­an­leika við af­borg­an­ir hús­næðislána og nái þessi áform fram að ganga mun það tryggja betri lána­kjör með bætt­um hag fyr­ir heim­il­in.

Upp­bygg­ing leigu­hús­næðis

Við í Fram­sókn mun­um líka styðja við aukna upp­bygg­ingu leigu­hús­næðis í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Það er fagnaðarefni að ný rík­is­stjórn ætli að halda áfram á þeirri braut sem við í Fram­sókn höf­um markað og nú hef­ur verið veitt­ur stuðning­ur til bygg­ing­ar 4.000 íbúða í sam­starfi við óhagnaðardrif­in leigu­fé­lög. Við þurf­um með þess­um hætti að stuðla að fjöl­breytt­ari og hag­kvæm­ari val­kost­um á leigu­markaði. Um 1.000 fjöl­skyld­ur hafa eign­ast sitt eigið hús­næði með til­komu hlut­deild­ar­lána en áfram þarf að efla þetta úrræði og tryggja að það gagn­ist sem flest­um. Með þess­um aðgerðum í hús­næðismál­um get­um við stuðlað að auknu hús­næðis­ör­yggi og aukið lífs­gæði fólks.

For­gang­ur heim­ila og smærri fyr­ir­tækja að raf­orku

Annað for­gangs­mál Fram­sókn­ar er til­laga um for­gang heim­ila og lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja að raf­orku. Um leið er mik­il­vægt að inn­leiða verðvernd og stuðla þannig að hag­kvæmu orku­verði til handa heim­il­um og at­vinnu­lífi. Reynsla annarra þjóða, t.d. Norðmanna, þar sem raf­orku­kostnaður rauk upp er víti til varnaðar.

At­vinna og verðmæta­sköp­un

Sterkt at­vinnu­líf er und­ir­staða góðra lífs­kjara. At­vinnu­leysi á Íslandi er lágt í sam­an­b­urði við önn­ur lönd en ný rík­is­stjórn sýn­ir litla framtíðar­sýn í at­vinnu­mál­um, sér­stak­lega utan höfuðborg­ar­svæðis­ins. Það vek­ur einnig áhyggj­ur að fyr­ir­hugaðar skatta­hækk­an­ir á sjáv­ar­út­veg­inn muni bitna sér­stak­lega á minni og meðal­stór­um fjöl­skyldu­fyr­ir­tækj­um, sem get­ur leitt til enn frek­ari samþjöpp­un­ar í grein­inni.

Hvað verður um ís­lensk­an land­búnað?

Óljós stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar í land­búnaðar­mál­um veld­ur einnig áhyggj­um. Á að svipta bænd­ur rétti sín­um til að reka eig­in fyr­ir­tæki á sama tíma og er­lend­ir bænd­ur njóta slíks rétt­ar? Er verið að hygla stór­um inn­flutn­ingsaðilum á kostnað ís­lenskr­ar mat­væla­fram­leiðslu? Í heimi þar sem fæðuör­yggi verður sí­fellt mik­il­væg­ara ætti rík­is­stjórn­in að leggja áherslu á að styrkja ís­lensk­an land­búnað í stað þess að veikja hann.

Ómark­viss stefna í ferðaþjón­ustu

Ferðaþjón­ust­an er mik­il­væg at­vinnu­grein fyr­ir Ísland og hef­ur skapað fjöl­mörg störf og mik­il verðmæti. Sam­keppn­is­hæfni grein­ar­inn­ar er hins veg­ar viðkvæm og því vek­ur það furðu að rík­is­stjórn­in sé að hringla með óljós­ar skatt­heimtu­hug­mynd­ir sem geta skaðað grein­ina. Stöðug­leiki og skýr stefna eru lyk­il­atriði til að tryggja áfram­hald­andi vöxt ferðaþjón­ust­unn­ar, en af umræðunni að dæma virðist rík­is­stjórn­in ekki hafa neina skýra sýn um framtíð henn­ar.

Þögn­in um þjóðar­at­kvæði

Eitt það at­hygl­is­verðasta við stefnuræðu for­sæt­is­ráðherra var hvað ósagt var látið. Eng­in umræða fór fram um mögu­lega þjóðar­at­kvæðagreiðslu um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þrátt fyr­ir að Sam­fylk­ing­in og Viðreisn hafi lagt mikla áherslu á málið. Enn meira kem­ur á óvart að Flokk­ur fólks­ins hafi skipt um stefnu í mál­inu og veiti nú slík­um hug­mynd­um stuðning. Raun­ar virðast fá stefnu­mál flokks­ins, sem kynnt voru svo mynd­ar­lega í aðdrag­anda kosn­inga, hafa hlotið braut­ar­gengi.

Ábyrgð rík­is­stjórn­ar­inn­ar

Það eru vissu­lega tæki­færi til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi. En til að nýta þau þarf rík­is­stjórn sem sam­ein­ar þjóðina í stað þess að sundra henni. Við í Fram­sókn erum til­bú­in að vinna að upp­bygg­ingu sam­fé­lags­ins og vinna sam­an að góðum mál­um. En við mun­um einnig veita rík­is­stjórn­inni nauðsyn­legt aðhald þar sem þess ger­ist þörf. Það er ekki nóg að tala um framtíðar­sýn – það þarf að fram­kvæma. Við þurf­um stefnu sem tek­ur til­lit til alls lands­ins, ekki stefnu sem veik­ir lands­byggðina, skaðar at­vinnu­lífið og van­ræk­ir mik­il­væg mál á borð við at­vinnu, innviði og fæðuör­yggi.

Sigurur Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. febrúar 2025.