Categories
Fréttir

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Deila grein

02/03/2016

Þörf á aukinni umræðu um NATO

Silja-Dogg-mynd01-vef„Virðulegi forseti. Umræðan um viðskiptabann Rússa gagnvart Íslendingum vakti upp háværar umræður hér á landi um utanríkismál. Tónninn var og er stundum sá að þátttaka okkar í viðskiptabanni vestrænna þjóða gegn Rússum sé hreinlega óþarfi. Við þurfum aukna almenna umræðu um utanríkismál og þá sérstaklega varnar- og öryggismál svo að við náum að átta okkur betur á samhengi hlutanna, að sameiginlegur skilningur sé til staðar á milli almennings og á milli stjórnmálamanna.
Ég tel að það sé til dæmis þörf á aukinni umræðu um NATO þar sem ég gæti best trúað að fjölmargir Íslendingar, þá helst kannski í yngri aldurshópunum, viti ekki hvað NATO stendur fyrir og hvers vegna við erum þátttakendur í því varnarsamstarfi. Við erum herlaus þjóð og friðelskandi og ætlum okkur að vera það áfram. Eigum við þá ekki bara að sleppa öllu varnarsamstarfi? Er NATO ekki eitthvað úrelt og óþarft kaldastríðsfyrirbæri? Nei, svo er ekki. Öryggisumhverfi í Evrópu er reyndar gjörbreytt frá því sem áður var þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949. En markmiðin eru þau sömu, þ.e að tryggja öryggi og frið í álfunni. Auk varnar- og öryggisþáttarins gegnir NATO lykilhlutverki sem pólitískt bandalag 28 lýðræðisríkja beggja vegna Atlantshafsins. Og NATO á í margvíslegu samstarfi við ríki og ríkjabandalög utan NATO, t.d. bandalag Afríkuríkja.
Meginstoðir í stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum eru þátttaka Íslands í starfi Atlantshafsbandalagsins, virkt samstarf við grannríki á sviði öryggismála og varnarsamningurinn við Bandaríkin.
Við hér uppi á hinu friðsæla og yndislega Íslandi getum ekki leyft okkur að sleppa því að taka umræðuna um varnar- og öryggismál. Við þurfum að vera meðvituð og upplýst vegna þessa að afstaða okkar Íslendinga skiptir máli. Við höfum hlutverki að gegna í samfélagi þjóðanna og eigum að axla okkar ábyrgð þar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Deila grein

02/03/2016

Afhending á skýrslu Pétursnefndar

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Það var ánægjulegt að geta nú í hádeginu afhent hæstv. félags- og húsnæðisráðherra skýrslu nefndar um endurskoðun laga um almannatryggingar, svokallaðrar Pétursnefndar sem heitir í höfuðið á Pétri heitnum Blöndal, þeim mikla sómamanni sem gegndi lengi forustu í þeirri nefnd.
Fjölmargir hafa komið að þessari vinnu. Samvinna í nefndinni var yfir höfuð góð þó að nokkuð drægi úr henni á síðustu metrunum, því miður. En þó er ljóst að niðurstöður skýrslunnar eru ávísun á mestu breytingar sem gerðar hafa verið á almannatryggingakerfinu á Íslandi í áratugi ef af verður. Breytingarnar snúa að einföldun almannatryggingakerfisins, sveigjanlegum starfslokum og upptöku starfsorkumats í stað örorkumats.
Það er næsta víst að þó að tillögurnar séu flestar mjög góðar sem fram koma í skýrslunni er enn þá margt ógert. Enn skortir á að við höfum greint nægilega vel vandamál einstakra hópa innan þessara stóru hópa, aldraðra og öryrkja. Það er ekki hægt að tala um þessa hópa sem eitt mengi vegna þess að aðstaða þeirra er mjög mismunandi. Það er núna verk okkar í framhaldi af skýrslunni að vinna enn betur að því að kanna sérstaklega stöðu þeirra sem verst standa innan þessara hópa og grípa þá til sérstakra ráða til þess að þeir megi búa við betri lífskjör.
Heilt yfir er ekki laust við að maður geti verið ánægður með að skýrslan skuli nú loksins vera fram komin. Ég vona sannarlega að í framhaldinu muni fylgja frumvörp frá hendi ráðherra sem uppfylla það sem hér er sett fram.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Deila grein

02/03/2016

Mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða þá stöðu sem er teiknast upp hér í þjóðarbúskapnum samhliða jákvæðum samfélagslegum tíðindum. Kaupmáttur hefur aukist til muna og skuldir landsmanna minnkað. Á sama tíma eru að berast mjög jákvæðar fréttir sem lesa má úr Félagsvísum sem Hagstofan birtir og finna má á vef velferðarráðuneytisins; mikilvægur gagnagrunnur, upplýsingar um velferð, vellíðan, heilbrigði og þarfir, gögn fyrir bætta stefnumótun og samfélagslegar aðgerðir þar sem þörfin er mest aðkallandi.
Margt má lesa úr þessu og meðal annars þá afar jákvæðu þróun að börn og unglingar verja nú í auknum mæli tíma með foreldrum sínum og þeim fjölgar sem taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Það er besta forvarnarstarfið, virðulegi forseti, og ber að huga að og vísbendingu þessa efnis má einnig finna í minni neyslu áfengis og vímuefna. Það er mikilvægt að við verjum það mikilvæga sjálfboðastarf sem unnið er á vettvangi æskulýðs-, ungmenna- og íþróttafélaga. Þetta er þróun sem við ættum með öllum mætti að verja og styðja enn frekar.
Tekjujöfnun er æskileg, ekki bara út frá félagslegum heldur einnig út frá hagstjórnarlegum sjónarmiðum. Því eru það afar mikilvæg tíðindi, sem lesa má úr þessum Hagvísum, að jöfnuður er sannarlega að aukast og er óvíða meiri. Skuldaleiðrétting, séreignarsparnaðarleið, mildar skattalækkanir, afnám vörugjalda og ýmissa tolla, kjarasamningar og verðstöðugleiki ásamt öðrum félagslegum og hagstjórnarlegum aðgerðum hafa því stuðlað að auknum kaupmætti, auknum jöfnuði, aukinni velferð.
Nú berast tíðindi um það að við siglum hratt inn í þensluskeið og það er verkefni sem við höfum oft klúðrað. Því mun reyna á styrka og staðfasta hagstjórn ef okkur á að takast að halda áfram á sömu braut, horfa til jöfnuðar, kaupmáttar, stöðugleika og móta það velferðarþjóðfélag sem við viljum búa í.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

Deila grein

02/03/2016

Fjármálastofnanir sýni neytendum sóma

flickr-Elsa Lára Arnardóttir„Hæstv. forseti. Þessa dagana heyrum við fréttir af gríðarlegum hagnaði viðskiptabankanna þriggja. Samanlagt tóku þeir inn 80 milljarða króna hagnað á síðasta ári og er hagnaður þeirra þriggja frá hruni 370 milljarðar. Þessi hagnaður kemur á sama tíma og þessir sömu viðskiptabankar hafa verið að bæta við þjónustugjöldum og í mörgum tilfellum að hækka þau þjónustugjöld sem fyrir voru. Má þar meðal annars nefna úttektargjald, hraðbankagjald, svargjald bankaþjónustu, greiðslugjald, kortagjald og svona er hægt að telja áfram. Þessir gjaldaliðir eru um 30 talsins og hv. þm. Framsóknarflokksins Karl Garðarsson gerir ágætlega grein fyrir þeim í færslu á Eyjunni. Í færslu hans kemur jafnframt fram að fólki blöskri og það sé búið að fá nóg. Það er ekki annað hægt en að taka heils hugar undir þau orð hans þegar kemur að þessum þáttum í bankakerfinu. Við þurfum að skapa nýtt og heiðarlegra bankakerfi.
Herra forseti. Hér þarf að aðgreina á milli fjárfestingar- og viðskiptabanka. Hér þarf að afnema verðtryggingu og taka um leið á því vaxtaumhverfi sem við búum við. Í því samhengi gæti líka verið afar gagnlegt að líta til hugmynda hv. þm. Frosta Sigurjónssonar um breytt peningakerfi. Á meðan sú vinna er í gangi eiga forsvarsmenn þessara fjármálastofnana að sýna sóma sinn í því að leyfa neytendum landsins að finna fyrir þeim gríðarlega hagnaði sem fjármálastofnanirnar hafa náð. Það ættu þeir að geta gert með því að kalla til baka þær hækkanir sem orðið hafa á þjónustugjöldum eða fækka þeim þjónustuliðum sem rukkað er fyrir og að lækka vexti. Það gæti orðið gríðarleg kjarabót fyrir heimili landsins.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 1. mars 2016.

Categories
Fréttir

Vaxandi atvinnuþátttaka eldra fólks – styttri vinnudagur

Deila grein

29/02/2016

Vaxandi atvinnuþátttaka eldra fólks – styttri vinnudagur

EÞHHlutfall kvenna á vinnumarkaði hefur hækkað úr 76,5% árið 2004 í 78,5% árið 2014 en hlutfall karla á vinnumarkaði hefur lækkað lítillega, samkvæmt nýjum Félagsvísum. Hlutfall eldra fólks á vinnumarkaði hefur hækkað á sama tímabili, úr 63,3% í 67,2%. Meðalfjöldi vinnustunda á viku hefur lækkað bæði hjá konum og körlum og í öllum aldurshópum.
Í nýuppfærðum Félagsvísum sem voru birtir fyrir skömmu má lesa ýmsar upplýsingar um atvinnuþátttöku fólks, eftir kyni, aldri og menntunarstigi.
Ef atvinnuþátttaka hér á landi er skoðuð í norrænum samanburði, líkt og gert er í nýlegri skýrslu Nososko (norræn samanburðartölfræði á sviði félagsmála), má sjá að fleiri eru virkir á vinnumarkaði á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndunum og auk þess eru Íslendingar virkir lengur fram eftir árum. Það er ekki fyrr en við 65 ára aldur íslenskra karlmanna að atvinnuþátttaka þeirra fer niður fyrir 80%. Þessi skil verða miklu fyrr hjá hinum Norðurlandaþjóðunum, eða við 53 ára aldur í Danmörku og Finnlandi en við 60 ára aldur í Noregi og Svíþjóð. Atvinnþátttaka kvenna hérlendis er einnig meiri en á hinum Norðurlöndunum og þær vinna lengur fram eftir ævinni en norrænar stallsystur þeirra.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra segir ánægjulegt að sjá hve atvinnuþátttaka hér á landi er mikil og að eldra fólk skuli í vaxandi mæli vera virkt á vinnumarkaði fram eftir aldri. ,,Það væri áhugavert að vita hvað veldur þar mestu en þarna kunna að skipta máli þættir eins og bætt heilsa eldra fólks og félagslegir og efnahagslegir þættir. Sú staðreynd að vinnustundum fækkar held ég að sé mjög jákvæð. Það hefur lengi verið bent á þörfina fyrir aukið jafnvægi milli vinnu og einkalífs og það er ótvírætt liður í því að fjölga samverustundum foreldra og barna. Þeim stundum hefur fjölgað eins og sést í Félagsvísunum og kostir þess eru ótvíræðir.”

Categories
Fréttir

Færri glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað

Deila grein

29/02/2016

Færri glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað

EÞHÞeim sem lægstar tekjur hafa og glíma við verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað hefur fækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Hlutfall þeirra er nú u.þ.b. 25% en var 30% árið 2011. Þessi tiltekni félagsvísir tilgreinir húsnæðiskostnað þeirra 20% landsmanna sem lægstar hafa tekjurnar. Tekjulágir með verulega íþyngjandi húsnæðiskostnað voru fæstir árið 2008 en gögnin taka til tímabilsins 2004 til 2014. Húsnæðiskostnaður telst verulega íþyngjandi ef hann nemur yfir 40% af ráðstöfunartekjum heimilis.
Aðeins 2,2% tekjuhæstu heimilanna búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Í félagsvísum er staðan greind eftir heimilisgerð og má þar sjá að algengast er að  fullorðnir karlmenn búi við íþyngjandi húsnæðiskostnað en þessi staða er fátíðust hjá tveimur fullorðnum með eitt eða tvö börn.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra fjallaði m.a. um þetta á Fasteignaráðstefnunni í Hörpu í síðustu viku þar sem húsnæðismarkaðurinn í nútíð og framtíð var til umræðu: „Það er fagnaðarefni að hópur hinna tekjulægstu sem eiga í vandræðum með húsnæðiskostnað sé að minnka. Hann er hins vegar enn allt of stór að mínu mati. Þær breytingar á opinberum stuðningi við húsnæðismál, sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi og koma fram í frumvörpum sem ég hef mælt fyrir, munu vonandi stuðla að því að færri þurfi að glíma við húsnæðiskostnað sem gleypir bróðurpartinn af ráðstöfunartekjum þeirra“ segir Eygló Harðardóttir.

Um félagsvísa

Megintilgangur félagsvísa er að birta á einum stað safn tölulegra upplýsinga til að auðvelda stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. Á þriðja tug sérfræðinga frá Háskóla Íslands, Rannsóknum og greiningu, Tryggingastofnun ríkisins, Barnaverndarstofu, Ríkislögreglustjóra, Hagstofu Íslands, velferðarráðuneyti, efnahags- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Félagsvísindastofnun, Ríkisskattstjóra, Alþýðusambandi Íslands, umboðsmanni skuldara, embætti landlæknis, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá Íslands tóku þátt í vinnu við gerð félagsvísa.

Categories
Fréttir

Jöfnuður á Íslandi eykst

Deila grein

27/02/2016

Jöfnuður á Íslandi eykst

EÞHJöfnuður hefur verið að aukast á Íslandi og er nú vandfundið það land þar sem bilið á milli þeirra sem hafa lægstar tekjur og hæstar tekjur er minna en hér. Í Félagsvísum 2015 sést að munurinn á tekjum Íslendinga hefur ekki mælst minni í áratug. Þar kemur fram að svokallaður Gini-stuðull var lægri árið 2014 en allt tímabilið 2004-2013. Gini-stuðullinn mælir hvernig samanlagðar tekjur allra einstaklinga í landinu dreifast. Stuðullinn nær frá 0 upp í 100, þar sem 0 þýðir að allir hafi jafnar tekjur en 100 að sami einstaklingurinn hafi allar tekjurnar. Gini-stuðullinn var 22,7 árið 2014 samanborið við 24,1 árið 2004 og 29,6 árið 2009.
Dregur saman með efsta og lægsta tekjuhópnum
Þá kemur einnig fram í tölunum hvað þeir sem hæstar tekjur hafa (20% tekjuhæstu) hafa mörgum sinnum hærri tekjur en hinir tekjulægstu (20% tekjulægstu). Nýjustu tölurnar sýna að þeir hafa nú ríflega þrefaldar tekjur hinna tekjulægstu (3,1) en höfðu fjórfaldar tekjur (4,2) sama hóps árið 2009. Þá hefur lágtekjuhlutfallið á Íslandi, þ.e. einstaklingar sem mælast undir lágtekjumörkum, ekki verið lægra síðan árið 2004. Þá mældust 10% landsmanna undir lágtekjumörkum en hlutfallið er nú komið í 7,9%. Lágtekjumarkið miðast við tekjur upp á 182.600 kr á mánuði.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra: „Það eru gleðifréttir að jöfnuður í samfélaginu sé að aukast. Það er hluti af því velferðarsamfélagi sem við viljum búa í að vinna gegn ójöfnuði. Það getum við gert með beinum og óbeinum hætti. Við þurfum sterkt öryggisnet en mikilvægast er að skapa heilbrigt umhverfi og stýra efnahagsmálum vel þannig að fólk hafi næga atvinnu auk aðgangs að fyrsta flokks menntun og velferðarþjónustu. Heimilunum í landinu vegnar betur núna og það er ánægjulegt að þeim heimilum sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda hafi farið hratt fækkandi. Það er hins vegar ljóst að eignastaða fólks er mun ójafnari en tekjurnar og þess vegna er mjög mikilvægt að við styðjum vel við fólk á húsnæðismarkaði og hjálpum þeim sem vilja eignast eigin fasteign að komast inn á markaðinn. Við erum að vinna í þeim málum á mörgum vígstöðum og það mun stuðla að áframhaldandi bættri stöðu heimilanna.“

Categories
Greinar

101 Popúlismi Fréttablaðsins

Deila grein

27/02/2016

101 Popúlismi Fréttablaðsins

haraldur_SRGBLeiðari Fréttablaðsins 25. febrúar undirstrikar þekkingarleysi á málefnum Laugarvatns og að höfundur hefur einungis kynnt sér 101-hlið málsins. Háskóli Íslands er sjálfstæð stofnun en er ekki hafin yfir gagnrýni. Sérstaklega ekki af hálfu þeirra sem veittu Háskólanum 12,5 milljarða króna í síðustu fjárlögum. Þingmenn Suðurkjördæmis, sem og margir aðrir þingmenn, vilja bjóða upp á nám á Laugarvatni eins og hefur reyndar verið boðið upp á síðastliðin 84 ár. Gagnrýni á ákvörðun Háskólans er því ekki einhver popúlismi. Þetta snýst um mikið áfall fyrir litla byggð úti á landi, sem er samofin háskólasamfélaginu og byggir að stórum hluta sína starfsemi í kringum Háskólann og fékk engan fyrirvara. Námið á Laugarvatni er hluti af merkri menntasögu landsins. Laugarvatn hefur verið byggt upp sem menntaþorp, þekkingarsamfélag. Því miður virðast margir ekki bera nokkra virðingu fyrir því. Ákvörðunin um að loka á þessa merku sögu er áfall, ekki bara fyrir Laugarvatn heldur fyrir landið allt.

Nemendur, núverandi og fyrrverandi vilja halda náminu á Laugarvatni. Stjórnendur vilja breyta náminu til að tryggja aukinn áhuga sem og að aðlaga námið að breyttum áherslum samfélagsins. Háskólinn hefur ekki sinnt viðhaldi á fasteignum skólans á Laugarvatni undanfarin ár. Ekkert samtal var við fjárveitingavaldið til að koma til móts við Laugarvatn. Reiknireglan fyrir Laugarvatn miðast við að námið sé í Reykjavík. Allt þetta er gagnrýnivert en ekki popúlismi. Sérstaklega í ljósi þess að mikill stuðningur er við háskólanám í háskólaþorpinu Laugarvatni.

Fækkun nemenda hefur verið töluverð frá árinu 2010, eða frá því námið var lengt úr þremur árum í fimm. Fækkunin hefur þó ekki verið meiri í íþróttanámi en öðru kennaranámi. Aðrar kennaragreinar hafa komið verr út en íþróttakennaranám, þrátt fyrir að vera kenndar í höfuðborginni. Háskólinn hefur ekki gert greiningu á þessari fækkun hjá menntavísindasviði. Ljóst er því að fækkunin hefur ekkert með staðsetninguna að gera heldur kerfisbreytingar á kennaranámi almennt.

Málamyndagjörningur
Markmiðið var aldrei af hálfu Háskólans að halda náminu á Laugarvatni. Annars hefði verið ráðist í breytingar og eflingu á náminu á Laugarvatni líkt og gert var við leikskólakennaranám þegar skráning þar var hvað verst. Það var mikill áhugi heimamanna og velunnara námsins að fara í öfluga kynningu á náminu. Auðvitað hefði átt að vera í gangi alvöru samtal við Alþingi, Bláskógabyggð og háskólafélag Suðurlands, en ekki byrjað á því daginn eftir að ákvörðun Háskólaráðs var frestað, þó það hafi bara verið málamyndagjörningur.

Það er alfarið rangt hjá leiðarahöfundi að það sé einungis hægt að stunda íþróttakennaranám á Laugarvatni. Höfundur ætti að athuga heimasíðu Háskóla Reykjavíkur og endurskrifa greinina. Núna hins vegar verður ekki hægt að stunda íþróttakennaranám á landsbyggðinni. Einnig fer leiðarahöfundur ranglega með gæði náms á Laugarvatni, þar ætti hún að tala við rektor sjálfan enda námið mjög gott og mikil ánægja með það.

Ég fullyrði að nánast allir á Alþingi vilji stuðla að námi úti á landi samhliða uppbyggingu náms í höfuðborginni. Það virðist hins vegar ekki vera hægt í samstarfi við Háskóla Íslands. Háskólinn hefur rofið sátt um að Háskólinn eigi að vera Háskóli allra landsmanna.

Fréttamenn eiga að vera gagnrýnir á ákvarðanir og upplýsandi, ekki gagnrýnir á einstaka stjórnmálaflokka og taka afstöðu með eða á móti ákvörðunum. Það taldi ég vera markmiðið eða er markmiðið 101 Popúlismi?

Haraldur Einarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 27. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Birgitta á að fagna fjármunum í ljósleiðarann

Deila grein

26/02/2016

Birgitta á að fagna fjármunum í ljósleiðarann

Páll„Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Þetta er það mikið byggðamál að það er aldrei of mikið rætt í þessum sölum. Ég tek alveg undir áhyggjur sveitarstjórnarmanna á Austurlandi, en þetta er nú einu sinni þannig að þegar kemur að framkvæmdum og það loksins — og ég hefði haldið að hv. þingmaður fagnaði því að ríkisstjórnin væri loksins að setja fjármuni og hefja framkvæmdir á þessu mikilvæga máli frekar en að velta sér upp úr því hvernig hlutirnir eru gerðir.
Ég er nærri viss um að það er alveg sama hver tillagan verður, og þess skal getið að starfshópurinn er ekki búinn að skila tillögum til ráðherra, en í dag er þetta unnið þannig að fjarskiptafélögin sækja til fjarskiptasjóðs um styrki til þess að fjarskiptatengja staði á markaðsbrestssvæðum.
Þetta árið munum við líklegast leggja til að sveitarfélög sæki um styrki til þess að leggja á sínum svæðum sem þýðir með öðrum orðum að við munum væntanlega leggja til að þessir takmörkuðu fjármunir verði veittir þannig að þeim verði dreift á þrjú, fjögur svæði, á norðvestur-, norðaustur- og suðursvæði, í hlutfalli við það hversu margir ótengdir staðir eru á hverjum stað. Við reynum að tryggja að þetta dreifist um allt landið, mest á þá staði sem eru verst staddir, en við getum svo lengi deilt um það hvar við eigum að byrja verkið. Mér finnst mest um vert að við erum að byrja þetta mikilvæga verk.”
Páll Jóhann Pálsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.

Categories
Fréttir

Skýrari leiðsögn stjórnvalda í geðheilbrigðisþjónustu

Deila grein

26/02/2016

Skýrari leiðsögn stjórnvalda í geðheilbrigðisþjónustu

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um geðheilbrigðisþjónustu við börn og unglinga og áskorun átta félagasamtaka sem vinna að þessum málum þar um og taka þau undir hvert orð í skýrslunni.
Það er augljóst að við tökum þessa áskorun alvarlega vegna þess að hér hafa fleiri hv. þingmenn rætt þetta mál, hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og hv. þm. Páll Valur Björnsson.
Um er að ræða viðvarandi skipulags- og kerfisvanda þannig að þrátt fyrir viðleitni stjórnvalda undanfarna áratugi til þess að bæta úr hefur það leitt til þess að meðal annars hafa safnast upp reglulega biðlistar þar sem við höfum reynt að takast á við þann vanda með reglubundnum átaksverkefnum.
Hér vantar samkvæmt skýrslunni mat á þjónustuþörfinni. Vísað er í erlendar rannsóknir og er áætlað að um 80% barna þurfi aldrei að leita út fyrir grunnþjónustuna, en þjónustustigin eru þrjú; grunn-, ítar- og sérþjónusta, og að um 16.000 börn og unglingar muni einhvern tíma þurfa á að halda ítar- eða sérþjónustu. Við árslok 2015 er biðlistinn eftir þeirri þjónustu samkvæmt skýrslunni 718 börn.
Það blasir auðvitað við samhæfingar- og skörunarvandi þar sem verkefnið er á borði fjölmargra aðila á ólíkum stjórnsýslu- og þjónustustigum. Þess vegna er kallað eftir skýrri leiðsögn stjórnvalda í þessum efnum, til þess að ná fram samhæfingu og samvinnu og skýrari verk- og ábyrgðarskiptingu þjónustuaðila.
Þingsályktunartillaga hæstv. heilbrigðisráðherra um stefnu- og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum er nú í vinnslu hv. velferðarnefndar og þar er tækifæri til að ráðast að rótum vandans og styrkja grunnþjónustuna sem bætir kerfið í heild og til lengri tíma.
Ríkisendurskoðun telur ástandið algjörlega óviðunandi og ég vil því, (Forseti hringir.) virðulegi forseti, hvetja hv. velferðarnefnd til að skoða sérstaklega ítar- og sérþjónustu, bæði með kerfislausnina í huga en ekki síður hvort ekki þurfi samhliða átak til að útrýma óæskilegum biðtíma og biðlistum.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 24. febrúar 2016.