Categories
Greinar

Framtíðarsýn í skipulagsmálum

Deila grein

19/03/2015

Framtíðarsýn í skipulagsmálum

Sigrún Magnúsdóttir_001Landsskipulagsstefna er nýtt og spennandi skipulagsverkfæri sem er ætlað að stuðla að sjálfbærri þróun, skilvirkri áætlanagerð og vera sveitarstjórnum leiðarljós við skipulagsgerð, en felur ekki í sér fyrirmæli um nákvæma útfærslu. Meðal annars er lögð áhersla á samspil ólíkrar landnotkunar og nýtingar lands einkum fyrir landbúnað, ferðaþjónustu og skógrækt.

Þingsályktunartillaga um landskipulagsstefnu 2015-2026 verður lögð fram nú á vorþingi. Umhverfis- og auðlindaráðherra fól Skipulagsstofnun í október 2013 að hefja vinnu við stefnuna og kynnti viðfangsefni og áherslur. Í vinnu sinni hefur Skipulagsstofnun nýtt vel þann tímaramma sem var til umráða og átt náið samráð við almenning, sveitarstjórnir, opinberar stofnanir og félagasamtök víða um land.

Ferlið hefur tekist sérlega vel. Reglulega var leitað eftir ábendingum og hugmyndum og segja má að almennt hafi þátttaka verið góð á fundum. Auk þess hefur sérstök nefnd verið Skipulagsstofnun og ráðherra til ráðgjafar.

Landið teiknað
Frá byrjun hefur almenningi gefist kostur á að koma að verkefninu og útfæra hugmyndir sínar myndrænt. Meðal annars var þátttakendum á opnum fundum boðið til vinnusmiðju þar sem einn eða nokkrir saman í hóp teiknuðu upp sína hugmynd að landsskipulagi á Íslandskort í mismunandi litum, allt eftir viðfangsefnum svo úr urðu um 100 kort sem nýttust í vinnunni.
Í framhaldinu var nokkrum valkostum stillt upp og þeir ræddir ítarlega á opnum fundum þar sem skipst var á skoðunum og samtímis boðið upp á að koma að skriflegum athugasemdum sem nýttar voru við endanlega tillögu að landsskipulagsstefnu. Loks sendi Skipulagsstofnun bréf á um 180 aðila með beiðni um umsögn og bárust 73 umsagnarbréf. Farið var yfir allar innsendar athugasemdir áður en gengið var frá formlegri tillögu að landsskipulagsstefnu sem skilað hefur verið til umhverfis- og auðlindaráðherra.

Ég hvet eindregið til þess að sem flestir kynni sér ferlið og tillöguna á landskipulag.is. Þegar vel tekst til getur skipulagsvinna dregið fram ímynd staða eða svæða og mætt þörf okkar á hverjum tíma, eins og fyrir aukna ferðaþjónustu. Aukin ásókn í takmarkaðar auðlindir getur leitt til aukins álags á umhverfið og óvissu og mun landskipulagsstefna því þurfa að vera í virkri þróun til framtíðar.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Af ungum þingmönnum og fjárheimildir

Deila grein

18/03/2015

Af ungum þingmönnum og fjárheimildir

Vigdís HauksdóttirVigdís Hauksdóttir, alþingismaður og formaður fjárlaganefndar Alþingis, var í andsvörum við Steingrími J. Sigfússyni, alþingismann, á Alþingi í gær. En Steingrími J. voru ofarlega í huga fréttir af kostnaði við „áróður ráðherranna fyrir sjálfa sig“ af opinberu skattfé.
Vigdís var snögg til að minna Steingrím J. á að „það hafi aldrei verið tekið saman hver ráðstöfunarkostnaðurinn vegna Icesave á sínum tíma var í raun mikill þegar hv. þingmaður var fjármálaráðherra, þannig að það sé sagt. En nú hefur verið skipt um stjórn eins og við vitum og þá er öll venjubundin vinna sem áður fór fram í ráðuneytinu er orðin mjög tortryggileg. En það er svo sem alveg í anda þeirra flokka sem nú sitja í stjórnarandstöðu og það verður bara að hafa það.“
„Ég vil aðeins benda á að umboðsmaður Alþingis var í ítarlegu viðtali í Ríkissjónvarpinu í gær þar sem hann fór yfir það að honum þættu þingmenn vera orðnir of ungir í starfi,“ sagði Vigdís.
Eftir mikla endurnýjun á Alþingi að loknum síðustu alþingiskosningum „þá erum við víst orðin svo reynslulaus að nú þarf að fara að ráða sérstaka aðila inn í ráðuneytin til að hjálpa viðkomandi ráðherrum til að takast á við starfið og það er vel,“ sagði Vigdís.
En varðandi „af hvaða fjárlagalið þessi ráðgjöf sé tekin, þá get ég ekki svarað því, en ég geri engar athugasemdir við að ráðherrar kaupi sér aðstoð úti í bæ, hvort sem það er hjá almannatenglum eða lögmönnum sérstaklega í ljósi þess ef ráðuneytin halda sig innan fjárheimilda,“ sagði Vigdís að lokum.
Ræða Vigdísar Hauksdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Samþykktu fyrir 23. mars

Deila grein

18/03/2015

Samþykktu fyrir 23. mars

Elsa-Lara-mynd01-vefur69 þúsund umsóknir bárust frá 105 þúsund einstaklingum um skuldaleiðréttingu á verðtryggðum húsnæðislánum. Frestur til að samþykkja leiðréttinguna rennur út þann 23. mars nk. Þessi frestur á við um þær umsóknir þar sem niðurstöður voru birtar þann 23. desember sl. Enn á eftir að vinna úr 3.900 umsóknum og unnið er hörðum höndum við að klára vinnslu þeirra. Ýmsar ástæður liggja þar að baki. Í nokkrum tilvikum vantar frekari gögn sem kallað hefur verið eftir frá umsækjendum og í öðrum tilvikum er m.a. um að ræða dánarbú og breytingar á fjölskylduhögum.

68 milljörðum þegar ráðstafað
80 milljörðum var ráðstafað í beina niðurfellingu skuldaleiðréttingarinnar. Nú þegar hefur 68 milljörðum verið ráðstafað inn á verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna og búið er að ganga frá afgreiðslu þeirra mála inni í bankakerfinu. Í þeim tilvikum hafa áhrif leiðréttingarinnar komið fram, bæði hvað varðar höfuðstól lánanna og í afborgunum. Gaman hefur verið að fá fréttir frá fólki sem er ánægt með leiðréttinguna. Segja hana hafa góð áhrif á heimilisbókhaldið. Segjast geta farið 2-3 sinnum í matvöruverslunina fyrir þá upphæð sem lánið minnkar um. Alla munar um það. Auðvitað er það mismunandi hvað lánin lækka um, fer allt eftir skuldahlutfalli hvers og eins. Þak aðgerðarinnar var fjórar milljónir.

Þeir sem eiga eftir að samþykkja leiðréttinguna, eiga að hafa fengið póst eða eiga von á pósti frá ríkisskattstjóra, sem á að minna á samþykkisfrestinn. Samkvæmt fréttum frá ríkisskattstjóra hafa margir tekið vel við sér þegar þeir hafa fengið áminningarpósta þessa efnis.

Heimilin áfram í fyrsta sæti
Nú hafa rúmlega 32 þúsund umsóknir borist um ráðstöfun séreignasparnaðar. Hægt er að velja um tvær leiðir. Það er að borga séreignasparnað inn á húsnæðislán eða borga inn á sérstakan húsnæðissparnað. Enn er hægt að sækja um þessa aðgerð og gildir hún til ársins 2017.

Auk þessa styttist verulega í frumvörp er koma á móts við þá sem eru á leigumarkaði. Þar er m.a. tekið á uppbyggingu húsnæðissamvinnufélaga, unnið að lækkun leiguverðs, auknu framboði íbúða og meiri stuðningi við þá sem búa í leiguhúsnæði, í gegnum húsnæðisbætur.

Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar eru frumvörp er varða afnám verðtryggingar af neytendalánum, væntanleg í þingið í lok mars. Þau miða að því að fyrstu skref í afnámi verðtryggingarinnar af neytendalánum, fari fram í byrjun ársins 2016.
Það er óhætt að halda því fram að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hafi sett heimilin í fyrsta sæti og haldi þeirri forgangsröðun áfram.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi: evrópumál, munnleg skýrsla til Alþingis

Deila grein

18/03/2015

Gunnar Bragi: evrópumál, munnleg skýrsla til Alþingis

GBSMUNNLEG SKÝRSLA – Þriðjudaginn 17. mars 2015 – Evrópumál
„Virðulegi forseti,
Ég þakka fyrir það tækifæri sem hér gefst til að fara með nánari hætti yfir framkvæmd ríkisstjórnar á stefnumörkun sinni varðandi ESB aðildarferlið sem nú hefur verið áréttuð og skýrð frekar í bréfi til ESB.
Ég hygg að þessi umræða sé ekki síður mikilvæg til viðbótar við góða umræðu hér í gær, ekki síst af hálfu forseta Alþingis, til að leitast við að skýra frekar þær stjórnskipunarlegu heimildir sem hér eru til grundvallar. Það er nefnilega svo að aðgerðir ríkisstjórnarinnar eru á mjög traustum stjórnskipunarlegum grunni. Það hefur umræðan smátt og smátt leitt fram undanfarna daga.
Það hefði í þessu máli farið betur á því að stjórnarandstaðan hefði spurt fyrst og skotið svo.
Hér er nefnilega um tiltölulega einfalt mál að ræða. Engum á að koma á óvart að ríkisstjórnin kjósi að búa svo um hnútana að þessu umsóknarferli sé nú lokið og að við teljum okkur ekki lengur til umsóknarríkja.  Um það fjallar bréfið fyrst og síðast.
Stefna ríkisstjórnarinnar
Virðulegi forseti,

  • Það fer vel á því að ég byrji á því að fara á ný yfir nokkrar staðreyndir máls þannig að samhengið sé enn einu sinni útskýrt.
  • Það var gengið til kosninga á árinu 2013. Í aðdraganda þeirra og í raun allt síðasta kjörtímabil, var ljóst hver stefna núverandi ríkisstjórnarflokka væri. Við vildum ekki í ESB og við vildum hætta aðildarviðræðum. Um þetta vitna á köflum hörð átök hér í þinginu á síðasta kjörtímabili.
  • Þessir flokkar fengu skýrt brautargengi í kosningunum, m.a. með þá stefnu að Íslandi væri betur borgið utan ESB og mynda síðan ríkisstjórn sem hefur þetta á sinni stefnuskrá. Til samræmis við það voru aðildarviðræður settar í hlé meðan málið var skoðað frekar. Niðurstaða þeirrar skoðunar liggur fyrir og var rædd hér og í utanríkismálanefnd klukkutímum saman á síðasta þingi.
  • Ríkisstjórnin lagði í framhaldinu fram tillögu á síðasta þingi um að draga aðildarumsóknina til baka. Það ber vitni um skýra stefnu ríkisstjórnarflokkana. Sú tillaga var rædd, jafnvel enn lengur en skýrsla Hagfræðistofnunar, bæði hér í þingsal og í utanríkismálanefnd.
  • Ríkisstjórnin hefur margsinnis lýst yfir hver sé vilji hennar þegar kemur að þeirri stöðu sem aðildarumsóknin er í, okkur hefur aldrei hugnast þessi staða að Ísland sé flokkað sem umsóknarríki þegar alls ekki stendur til að semja um eitt eða neitt við ESB sem snýr að mögulegri aðild.
  • Hér fóru sem sagt fram kosningar þar sem afstaða fyrra þings laut í lægra haldi og gjörbreytti pólitísku landslagi á Íslandi. Það er skylda ríkisstjórnarinnar að fylgja eftir þeim stefnumálum sem meirihlutinn kaus. Mönnum hefur verið tíðrætt um lýðræðislega stjórnarhætti síðustu daga. Í því samhengi verður að halda því til haga að það samræmist ekki lýðræðislegum stjórnarháttum ef ný ríkisstjórn væri bundin af að fylgja eftir stefnumálum fyrri ríkisstjórnar sem kjósendur hafa hafnað.

Samskipti við utanríkismálanefnd

  • Ég hef á kjörtímabilinu ítrekað gert utanríkismálanefnd grein fyrir þessari afstöðu ríkisstjórnarinnar.
  • Það var gert þegar hléi fyrri ríkisstjórnar var fram haldið, þegar samninganefndin og –hóparnir voru leystir frá störfum, þegar framkvæmdastjórnin féll frá samningsbundnum greiðslum til IPA verkefna og nú síðast þegar þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsóknina til baka var til meðferðar á síðasta þingi.
  • Þannig hefur sú afstaða sem nú hefur verið áréttuð við framkvæmdastjórn og ráð ESB margoft verið rædd við utanríkismálanefnd. Bréfið felur eingöngu í sér aðra útfærslu á þeim áformum sem í þingsályktunartillögunni voru fólgin.
  • Af þessu má öllum vera ljóst að það sem ríkisstjórnin er að gera með því bréfi sem hér er gert að umræðuefni, er að skýra sína stefnu. Eftir slíkum skýrleika hefur ítrekað verið kallað af hálfu ESB allt frá því fyrri ríkisstjórn setti viðræðurnar í hlé í aðdraganda kosninganna 2013, m.a. af fyrri leiðtogum stofnana ESB.
  • Og auðvitað er það svo að það er ávallt matsatriði hvenær leitað er eftir formlegu samráði við utanríkismálanefnd, sérstaklega þegar um einhver ný skref er að ræða í máli sem þegar hefur verið til ítarlegrar umfjöllunar í nefndinni. Ekki síst þegar skýr stefna ríkisstjórnarflokkana liggur fyrir.
  • Ég minni menn á það hér að 14. janúar 2013 að morgni mánudags kom fyrri ríkisstjórn saman og setti í raun og veru viðræðurnar í hlé [fusion_builder_container hundred_percent=”yes” overflow=”visible”][fusion_builder_row][fusion_builder_column type=”1_1″ background_position=”left top” background_color=”” border_size=”” border_color=”” border_style=”solid” spacing=”yes” background_image=”” background_repeat=”no-repeat” padding=”” margin_top=”0px” margin_bottom=”0px” class=”” id=”” animation_type=”” animation_speed=”0.3″ animation_direction=”left” hide_on_mobile=”no” center_content=”no” min_height=”none”][þó því hafi verið gefið eitthvað annað nafn]. Ekki þótti ástæða til að eiga um þetta samráð við utanríkismálanefnd fyrr en síðla þann sama dag. Fyrirennari minn í embætti gekk í gegnum samskonar mat í sambandi við Líbíumálið og komst að þeirri niðurstöðu að hann þyrfti ekki að hafa samráð um hvert og eitt skref. Niðurstaða mín í þessu máli sem hér er til umræðu varð sú sama.

Um tilurð bréfsins

  • Þannig á það engum að dyljast að ríkisstjórnin hefur haft það á sinni stefnuskrá að binda enda á þetta ferli. Ýmis skref sem stigin hafa verið bera það skýrt með sér.
  • Á sama tíma hefur það verið mín skoðun að best færi á því ef unnt væri, að reyna að loka málinu með sameiginlegri niðurstöðu okkar og ESB.
  • Það var í því skyni sem ég hafði að því frumkvæði gagnvart formennsku ESB að slík lausn var rædd.
  • Niðurstaða samtala minna við formennskuna og milli embættismanna okkar, formenskunnar og framkvæmdastjórnarinnar varð sú að ef ríkisstjórnin kysi að taka frekari skref í málinu færi best á því að það væri gert t.d. með bréfi þar sem afstöðu hennar væri frekar lýst.
  • Það er sú leið sem varð ofan á í þessu máli.

Innihald bréfsins
Virðulegi forseti,

  • Í bréfi ríkisstjórnarinnar er að finna þrjá meginþætti.

o   að ríkisstjórnin hafi engin áform að hefja aðildarviðræður að nýju,

o   að þessi nýja stefna komi í stað hvers kyns skuldbindinga fyrri ríkisstjórnar í tengslum við aðildarviðræður og

o   að ekki skuli líta á Ísland sem umsóknarríki og að rétt sé að ESB lagi verklag sitt að því.

  • Með þessu hefur því aðildarferli sem hófst 2009 verið lokið og því tryggilega komið til skila að ríkisstjórnin lítur ekki á Ísland sem umsóknarríki.
  • Með þessu er útfærslan á stefnu ríkisstjórnarinnar skýrð frekar í samræmi við grunnstefin í stjórnarsáttmálanum og í tillögunni um að draga til baka aðildarumsóknina.
  • Í þeirri umræðu sem farið hefur fram síðustu daga um innihald bréfsins þá bendi ég háttvirtum þingmönnum á að í viðtali við mig í Morgunblaðinu að morgni síðsta föstudags er það alveg skýrt af minni hálfu hvað í bréfinu felst og felst ekki.
  • Mín skoðun er síðan sú að til að endurvekja þetta ferli þá þurfi að endurnýja umsóknina og það fari best á því að það verði þjóðin sem það geri í atkvæðagreiðslu. Hvernig að því verði staðið er mál seinni tíma; síðari ríkisstjórna en ekki síður ESB sem í raun leggur línurnar um það hvernig staðið skuli að málum.

Um viðbrögð ESB

  • Nú er staðan einfaldlega sú að málið er á borði ESB og það er fyrir sambandið að vega það og meta hvernig það bregst við bréfinu.
  • Það hefur verið vilji ríkisstjórnarinnar að framkvæma þessa útfærslu stefnu sinnar í sem mestri sátt við Evrópusambandið.
  • Hver eru slík framkvæmdaratriði?

o   Við erum að óska eftir því að Ísland verði tekið af listum sem umsóknarríki.

o   Við viljum að hætt verði að bjóða Íslandi til funda Evrópusambandsins sem umsóknarríki.

o   Og að síðustu óskum við þess ESB bjóði Íslandi að taka þátt í sameiginlegum yfirlýsingum um utanríkismál (og viðskiptaþvinganir) sem EFTA/EES ríki (eins og það hefur gert í áraraðir) en ekki sem umsóknarríki.

  • ESB hefur í samtölum mætt því sem í bréfinu stendur með skilningi. Í öllum þeim samtölum sem ég hef átt við forystumenn ESB og aðildarríkja þess hefur ávallt komið skýrt fram að þau beri fulla virðingu fyrir vilja stjórnvalda á Íslandi í þessu efni.
  • Þannig á ég ekki von á öðru en að ESB bregðist við okkar bréfi með þeim hætti að viðurkenna okkar niðurstöðu og laga sína framkvæmd að því þannig að skýrt sé að Ísland sé ekki lengur í hópi umsóknarríkja.
  • En ég vona einnig að okkur auðnist upp úr þessu að efla enn frekar okkar samstarf við ESB á grunni EES samningsins og á ýmsum öðrum sviðum þar sem við eigum sameiginlegra hagsmuna að gæta.
  • Ég mun a.m.k. nálgast ESB á þann hátt líkt og ég hef gert frá upphafi.

Um stjórnskipunarlegar heimildir og áhrif þingsályktana
Virðulegi forseti,

  • Umræðan um þetta mál snýst nú orðið nánast eingöngu um form málsins. Um það hvaða stjórnskipunarlegu heimildir ríkisstjórnin hafi til að bregðast við með þessum hætti.
  • Þar hafa ýmis þung orð fallið í okkar garð sem eiga sér enga stoð í réttri túlkun laga og stjórnskipunar.
  • Ég ber fulla virðingu fyrir því að stjórnarandstöðunni finnist framhjá sér og þinginu gengið og sjálfsagt að taka umræðu um það líkt og gert var hér í gær.
  • Í þeirri umræðu megum við hins vegar ekki missa sjónar á réttri túlkun íslenskrar stjórnskipunar.
  • Framhjá því verður nefnilega ekki litið að það er samdóma álit allra viðurkenndra stjórnskipunarsérfræðinga sem hafa tjáð sig um þetta mál að ríkisstjórnin hafi til þessa fulla stjórnskipunarlega heimild.
  • Aðalatriðið í þessu máli er sú grundvallarregla í stjórnskipuninni að utanríkismál eru á forræði framkvæmdarvaldsins, en ekki löggjafans. Í því felst að Alþingi getur ekki gripið inn í meðferð utanríkismála, nema í því eina tilviki þar sem því er ætlað sérstaklega að heimila ríkisstjórninni að fullgilda tiltekna þjóðréttarsamninga samkvæmt 21. gr. stjórnarskrárinnar.
  • Þetta þýðir að löggjafinn getur ekki gefið formleg og bindandi fyrirmæli til framkvæmdarvaldsins um meðferð utanríkismála – og skýrir það m.a. af hverju aðkoma utanríkismálanefndar er aðeins ráðgefandi en nefndin getur ekki gefið ríkisstjórninni bindandi fyrirmæli.
  • Eðlilega fylgir ríkisstjórn í þingræðisríki vilja meirihluta þingsins á hverjum tíma vegna þess að hún starfar í umboði hans. Við ákvörðunartöku í utanríkismálum, eins og öðrum málum, hlýtur hún að taka tillit til þess og eftir atvikum leita eftir pólitískum stuðningi þingsins við þau mál sem hún telur sig þurfa á að halda. Það á t.d. við um þá stuðningsyfirlýsingu sem fyrri ríkisstjórn leitaði eftir um þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ályktun Alþingis var hins vegar ekki lögformlegt skilyrði fyrir að umsóknin yrði lögð fram, enda var ekki til hennar vísað í umsókninni sjálfri.
  • Ekki er ástæða til að draga í efa pólitískt vægi slíkra ályktana þegar þær eru samþykktar. Hæstvirtur forseti Alþingis lýsti því svo úr þessum ræðustól í gær að þingsályktanir bindi ekki stjórnvöld umfram það sem leiðir af þingræðisvenjunni. Af því leiðir að áhrif þingsályktunar helst í hendur við þann þingstyrk sem að baki henni býr. Ef þingstyrkur dvínar eða hverfur, hlýtur þýðing fyrirmæla sem í þeim felast að breytast í samræmi við það og eftir atvikum fjara út. Framkvæmd þingsályktunar sem varðar umdeilt pólitískt mál, getur þannig verið undir því komin að viðkomandi stefnumál njóti áfram tilskilins stuðnings í þinginu.
  • Þetta er samhljóða niðurstaða þeirra lögfræðilegu álita sem um þetta hefur verið aflað, bæði af minni hálfu og forseta Alþingis. Bæði byggjast þau á umfjöllun virtra fræðimanna, bæði innlendra og erlendra, og eru í takt við þau viðhorf sem stjórnlagafræðingar hafa lýst í fjölmiðlum undanfarna daga.
  • Sjálfsagt er hins vegar að Alþingi hafi eftirlit með framkvæmd ályktana sem það hefur samþykkt og fylgist með því hvernig þeim reiðir af. Í því skyni hefur í þingsköp verið tekið ákvæði sem gerir ráð fyrir að ríkisstjórnin geri Alþingi árlega grein fyrir framkvæmd þingsályktana með sérstakri skýrslu frá forsætisráðherra. Á grundvelli upplýsinga sem þar koma fram getur svo Alþingi tekið afstöðu til hvort ástæða sé til að bregðast við á einhvern hátt.
  • Í þessu samhengi er athyglisvert að skoða skýrslu forsætisráðherra um framkvæmd ályktana sem samþykktar voru á árunum 2005-2009. Þar sést vel að sökum takmarkaðra fjármuna virðist framkvæmd þeirra t.d. helgast mjög af pólitískri forgangsröðun þeirra ríkisstjórna sem þá sátu. Einnig má finna dæmi um að ályktunum Alþingis sem innihéldu tímaleg viðmiðanir hafi ekki verið fylgt og mál tafist svo árum skiptir. Afdrif ESB-ályktunarinnar eru að þessu leyti ekkert frábrugðin því sem um gildir um framkvæmd margra þessara ályktana.
  • Að þessu athuguðu er því ekki ástæða til að efast um að heimildir ríkisstjórnarinnar til að ljúka ferlinu á þann hátt sem gert var sl. fimmtudag sé fyllilega í samræmi við íslensk stjórnlög. Að halda öðru fram er hreinn fyrirsláttur sem ekki er til annars fallinn en að drepa umræðunni á dreif og leiða athyglina frá því aðalatriði málsins að viðræðuferlið er á enda og verður ekki endurvakið á vakt þessarar ríkisstjórnar.

Lokaorð
Virðulegi forseti,

  • Sú umræða sem nú fer fram um ESB málið sýnir okkur enn einu sinni að það voru grundvallar mistök hjá fyrri ríkisstjórn að leggja af stað í þennan leiðangur án þess að bera það undir þjóðina.
  • Stefna núverandi ríkisstjórnar er skýr um það að hagsmunum Íslands er best borgið utan ESB. Frá því verður ekki vikið nema nýr meirihluti skapist hér á Alþingi fyrir því en til þess þarf þá nýja ríkisstjórn og að mínu mati nýtt umboð og endurnýjun umsóknar.
  • En myndist sá meirihluti þá er ekkert í þeim ákvörðunum sem nú hafa verið teknar af hálfu núverandi ríkisstjórnar sem hefta för slíks meirihluta að þessu leyti. Þ.e.a.s. að því gefnu að ESB láti sem ekkert hafi í skorist og taki Samfylkingunni og öðrum sem henni fylgja að málum jafn fagnandi og á árinu 2009.
  • Eftir allt sem á undan er gengið ætla ég að leyfa mér að halda áfram að næra þann efa minn um að svo verði.“

IS-bref-til-ESB.
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.[/fusion_builder_column][/fusion_builder_row][/fusion_builder_container]

Categories
Fréttir

Vísbending um vanþekkingu stjórnarandstöðunnar á þingræðisreglunni

Deila grein

18/03/2015

Vísbending um vanþekkingu stjórnarandstöðunnar á þingræðisreglunni

ÞórunnStaða Alþingis var rædd á Alþingi í gær að lokinni yfirlýsing forseta Alþingis, Einars K. Guðfinnssonar.
Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður og þingflokksformaður framsóknarmanna, sagði við þá umræðu að stóryrði úr ræðustól Alþingis eða í fjölmiðlum væru ekki til að auka virðingu þingsins. Umræðan fari oft að snúast um ýmis hugtök og núna síðast um „þingræði“. En að vandamálið sé að ekki sé alltaf sami skilningur á hugtakinu.
„Þingræðisreglan svokallaða felur í sér að meiri hluti Alþingis þarf að styðja ráðherra. Reglan er stjórnskipunarvenja sem á stoð í 1. gr. stjórnarskrárinnar, en þar stendur: „Ísland er lýðveldi með þingbundinni stjórn“,“ sagði Þórunn og bætti við, „með öðrum orðum, ríkisstjórn situr í skjóli Alþingis þar sem þingræði ríkir og þurfa ráðherrar að fylgja fyrirmælum þingsins.“
„Þingræði þýðir í raun að ríkisstjórn þarf að njóta stuðnings meiri hluta þingsins,“ sagði Þórunn.
„Stefna ríkisstjórnarinnar hefur legið ljós fyrir frá upphafi. Utanríkisráðherra greindi þinginu frá afstöðu sinni strax í upphafi kjörtímabils, gerði það með bréfi til utanríkismálanefndar þannig að þinginu á að hafa verið ljóst að ráðherra telur sig ekki bundinn þingsályktunartillögunni. En það að kalla nýlegt bréf utanríkisráðherra til forustu Evrópusambandsins, sem staðfestir stefnuna og skýrir stöðuna, atlögu að þingræðinu er vísbending um mögulega vanþekkingu manna á því hvað þingræðisregla felur í sér og hvað þingræði þýðir,“ sagði Þórunn.
Og bætti við: „Staðan sem hér er uppi er sú að minni hluti á hverjum tíma getur tekið mál í gíslingu og gert atlögu að þingræðinu með því að koma í veg fyrir að vilji þingsins komi fram. Það er afleitt vopn sem eykur ekki virðingu Alþingis, því að ásýnd þess þegar á málþófi og eilífum ræðum um fundarstjórn forseta stendur er ekki góð. Hvenær rétta tímasetningin er til að breyta þessu veit ég ekki, en þó held ég að mikilvægt sé að þingskapanefnd reyni að finna leiðir til þess að hér geti vinnulag orðið markvissara og skilvirkara, því að þótt eitthvað hafi viðgengist er ekki þar með sagt að svo eigi að vera áfram.“
Að lokum sagði Þórunn: „Megi okkur öllum farnast vel í því að vinna landi og þjóð gagn.“
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Með allt á hreinu

Deila grein

17/03/2015

Með allt á hreinu

Silja-Dogg-mynd01-vefÉg átti fyrir skömmu fund með írskum meistaranemum í stjórnmálafræði. Þau voru m.a. að velta fyrir sér hvort ESB þætti innganga Íslands í sambandið eftirsóknarverð. Nemarnir veltu líka upp þeirri spurningu hvort það hefði ekki grafið undan trúverðuleika Íslands að sækja um aðild að ESB þar sem þing og þjóð voru frá upphafi klofin í afstöðu sinni. Og síðast en ekki síst, hvort íslensk stjórnvöld ætli að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu á næstunni um ESB. Eftirfarandi línur endurspegla umræður okkar…

Land tækifæranna

Já, Ísland er eftirsóknarvert land. Vatn, orka og matur eru það sem þjóðir heims þurfa til framtíðar og lega landsins er eftirsóknarverð m.a. vegna aðgangs að Norðurskautinu. Berum nú saman stöðu Evrópusambandsins og stöðu Íslands í dag. Á Íslandi er ágætur hagvöxtur og lítið atvinnuleysi. Svo er ekki í ESB. Árangur Íslands og endurreisn efnahagslífsins hér hefur vakið eftirtekt á heimsvísu þó svo að ýmis verkefni séu enn óleyst. Staðan var allt önnur árið 2009. Hvers vegna ættu Íslendingar að vilja ganga inn í Evrópusambandið nú? Vilja menn kannski bara fá að sjá hinn „meinta samning“?

Innihald pakkans

Á bls. 32 í skýrslu Hagfræðistofnunar HÍ er fjallað um skilyrði fyrir aðild þar stendur m.a.: „Þau lönd sem óska eftir aðild að Evrópusambandinu gangast undir ákveðin grundvallarskilyrði. Í meginatriðum snúast þau um að aðildarríki samþykki sáttmála Evrópusambandsins, markmið þeirra og stefnu og þær ákvarðanir sem teknar hafa verið þeir öðluðust gildi. Gengið er út frá því að umsóknarríki sækist eftir aðild. Þá leiðir innkoma nýs ríkis ekki til þess að nýtt samband verði til auk þess sem umsóknarríki ber að samþykkja réttarreglur sambandsins (fr. acquis comunitare). Þá er umbreytingarfrestur takmarkaður og felur ekki í sér undanþágu frá grunnsáttmálum og meginreglum sambandsins. Þá er að lokum gerð krafa um skilyrði fyrir inngöngu.“

Þetta er það aðildarferli sem Ísland gekk inn í þegar það sótti um aðild árið 2009. Í sömu skýrslu á bls. 37 stendur: „Almennt má segja að stækkunarferlið sem Ísland gekk inn í einkennist af auknum skilyrðum fyrir inngöngu, sé miðað við það sem áður tíðkaðist. Þrátt fyrir bjartsýni um annað virðist hafa verið lítil ástæða til að ætla að Ísland fengi aðra meðferð í umsóknarferli en þau önnur lönd sem voru að sækja um aðild á sama tíma.“

Þetta sýnir okkur svart á hvítu að ekki er um samningaviðræður að ræða. Við munum ekki fá neina sérmeðferð ef við göngum í ríkjasamband Evrópuþjóða.

Heiðarlegt gagnvart ESB

Ákvörðun utanríkisráðherra um að senda ESB formlegt bréf um að Ísland væri ekki umsóknarríki lengur, var hárrétt og heiðarleg. Stjórnarflokkarnir eru báðir með þá yfirlýstu stefnu að ganga ekki inn í ESB og meirihluti þings styður ekki inngöngu í ESB. ESB hefur lengi óskað eftir skýru svari frá íslenskum stjórnvöldum og þessi niðurstaða nú var fengin í samráði við ESB. Lögfræðilegt álit frá 2013 liggur fyrir að þing er ekki bundið af þingsályktun annarrar ríkisstjórnar. Þingið fjallaði um ESB-málið dögum saman á síðasta vorþingi. Tvær skýrslur voru gefnar út. Utanríkismálanefnd þingsins hefur frá upphafi vitað hver stefna ríkisstjórnarinnar er og eitt af fyrstu verkum ráðherra í embætti var að leysa samninganefndirnar upp og stöðva aðlögunarferlið. Stækkunarstjóri ESB hefur í millitíðinni lýst því yfir að ekki standi til að taka fleiri þjóðir í sambandið a.m.k. næstu fimm árin. Formlegt bréf utanríkisráðherra nú til ESB á því ekki að koma neinum á óvart.

Ómöguleikinn

Næsta spurning er þá hvort ríkisstjórnin muni efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Svarið er nei. Ríkisstjórnin hefur engin áform uppi um að efna til þjóðatkvæðis um viðræður við Evrópusambandið, þar sem slíkt væri atkvæðagreiðsla um mál sem hún er mótfallin. Komi til þess að hefja ætti aðildarferlið að nýju telur núverandi ríkisstjórn mikilvægt að það sé ekki gert án þess að spyrja þjóðina fyrst hvort hún vilji gerast aðili að ESB.

Skýr stefna

Hvers vegna mátti málið ekki liggja óhreyft? Það er vegna þess að það hefur gildi í utanríkismálum að vera eitt af umsóknarríkjum ESB. Stefna núverandi ríkisstjórnar er að efla alþjóðlegt samstarf enn frekar m.a. með gerð fríverslunarsamninga og við erum einnig aðilar að Norðurskautsráði. Það að vera umsóknarríki ESB grefur undan stöðu okkar og tækifærum. Það hefði e.t.v. verið „þægilegra“ að láta ESB-málið liggja en stjórnmál eiga ekki að snúast um þægindi. Þau snúast um að taka ákvarðanir, framfylgja yfirlýstri stefnu, sannfæringu sinni, og koma heiðarlega fram við samstarfsaðila og þjóðina. Það hefur núverandi ríkisstjórn nú gert.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í DV 17. mars 2015

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Athugasemdir við erindi stjórnarandstöðunnar til forystu Evrópusambandsins

Deila grein

16/03/2015

Athugasemdir við erindi stjórnarandstöðunnar til forystu Evrópusambandsins

GBSStjórnarandstaðan, fulltrúar minnihlutans á Alþingi, hafa fundið hjá sér hvöt til að senda forystu Evrópusambandsins bréf þar sem staða aðildarumsóknar á Alþingi er skrumskæld á ýmsa vegu. Nauðsynlegt er að gera athugasemd við verstu rangfærslurnar.

Í bréfinu er látið í veðri vaka að ályktun Alþingis frá 16. júlí 2009 lýsi ríkjandi afstöðu á Alþingi og hafi einhvers konar lagagildi sem ríkisstjórninni sé óheimilt að víkja frá. Ekkert er fjær sanni. Þessi ályktun var samþykkt að frumkvæði þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat og fól í sér pólitíska stuðningsyfirlýsingu við þau áform hennar að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Áhrif ályktunarinnar voru því fyrst og fremst pólitísks eðlis en ekki lagalegs. Í ljósi þess hvaðan frumkvæðið kom er ekki örgrannt um að tilgangurinn hafi öðru fremur verið að þétta eigin raðir, en dugði þó ekki til.

Þýðing og áhrif þingsályktana
Stjórnlagafræðingar hafna því almennt – bæði í ræðu og riti – að þingsályktanir hafi lagalega bindandi áhrif. Af lögmætisreglunni leiðir að eingöngu með lagasetningu verður pólitískum stefnumiðum umbreytt í gildandi rétt. Jafnvel þótt þingsályktanir hafi ekki lagalega þýðingu leiðir af þingræðisreglunni að þær geta haft mikla pólitíska þýðingu og að því leyti virkað sem fyrirmæli til ríkisstjórnarinnar. Af þingræðisreglunni leiðir hins vegar að pólitísk áhrif þingsályktana haldast í hendur við þann þingstyrk sem að baki þingsályktun býr. Ef þingstyrkur dvínar eða hverfur, hlýtur þýðing fyrirmæla sem í ályktuninni kunna að vera fólgin að breytast í samræmi við það og eftir atvikum fjara út. Framkvæmd þingsályktunar sem varðar umdeilt pólitískt mál getur þannig verið undir því komin að viðkomandi stefnumál njóti tilskilins stuðnings í þinginu. Pólitísk þýðing þingsályktunar helst í hendur við þann meirihluta sem er í þinginu hverju sinni og tryggir að völd og ábyrgð fari saman. Í kerfið sjálft er þannig innbygð ákveðin tæknileg útfærsla lýðræðislegra stjórnarhátta. Án hennar er hætt við að stefna ríkisstjórnar hverju sinni ætti erfitt uppdráttar og þingræðið yrði í raun lítils virði.

Staða ESB-þingsályktunar
Að þessu athuguðu hefur ESB-þingsályktunin frá 2009 eingöngu pólitíska þýðingu en ekki lagalega. Sá meirihluti sem að henni stóð og þau stefnumál sem hann stóð fyrir féll í kosningunum 2013. Sú ríkisstjórn sem þá tók við verður ekki knúin til að fylgja eftir þeim ályktunum sem fyrri ríkisstjórn fékk samþykktar í tíð meirihluta sem er ekki lengur fyrir hendi. Það samræmist ekki lýðræðislegum stjórnarháttum ef hún væri bundin af að fylgja eftir stefnumálum fyrri ríkisstjórnar. Áhrif ESB-ályktunarinnar eru því þau sömu og áhrif ríkisstjórnarinnar sem að henni stóð, þau fjöruðu út um leið og þeim var hafnað af kjósendum. Það er tímabært að fulltrúar minnihlutans átti sig á þessum leikreglum lýðræðisins og virði þær í stað þess að slá ryki í augu almennings og alþjóðastofnunar á þann hátt sem bréf þeirra er til marks um.

Samráð við utanríkismálanefnd
Bréfritarar halda því einnig fram að ríkisstjórnin hafi vanrækt að hafa lögbundið samráð við utanríkismálanefnd um meiriháttar utanríkismál áður en erindi ríkisstjórnarinnar til stækkunarstjóra og formennskuríkis Evrópusambandsins var sent.

Að því gefnu að meðferð umsóknar um aðild að Evrópusambandinu teljist meiriháttar utanríkismál þrátt fyrir að hafa legið í láginni síðan fyrri ríkisstjórn stöðvaði aðildarferlið fyrir rúmum tveimur árum, hefur afstaða ríkisstjórnarinnar til umsóknarinnar verið öllum ljós. Hún hefur margoft verið rædd í utanríkismálanefnd, þ. á m. þegar hléi fyrri ríkisstjórnar var fram haldið, þegar samninganefndin og -hóparnir voru leystir frá störfum, þegar framkvæmdastjórnin féll frá samningsbundum fégreiðslum til ýmissa aðlögunarverkefna (IPA-styrkir) og nú síðast þegar þingsályktunartillaga um að draga aðildarumsóknina til baka var til meðferðar á síðasta þingi. Það er því fjarri öllu lagi að halda því fram að sú afstaða sem nú hefur verið áréttuð við framkvæmdastjórn og ráð ESB hafi ekki verið rædd við utanríkismálanefnd. Bréfið felur eingöngu í sér aðra útfærslu á þeim áformum sem í þingsályktunartillögunni voru fólgin. Málið hefur margoft verið til umræðu í utanríkismálanefnd og samráðsskylda samkvæmt þingskapalögum er því að fullu uppfyllt.

Bréf stjórnarandstæðinga hefur að geyma fleiri rangfærslur og missagnir sem ég hirði ekki um að leiðrétta hér. Það sem meginmáli skiptir er að með bréfi ríkisstjórnarinnar hefur endapunkturinn verið settur aftan við umsóknarferli sem gangsett var án þess að fullur hugur fylgdi máli og nýtur ekki meirihluta stuðnings á Alþingi. Lýðræðislegt umboð og stjórnskipulegar heimildir ríkisstjórnarinnar eru hafnar yfir vafa og byggja á stefnu sem öllum hafa lengi verið ljósar, jafnt utanríkismálanefnd sem öðrum.

Gunnar Bragi Sveinsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ríkisábyrgð á innstæðum banka er óumflýjanleg

Deila grein

12/03/2015

Ríkisábyrgð á innstæðum banka er óumflýjanleg

frosti_SRGBHrun bankana hefur bætt skilning almennings á því hve bankar eru frábrugðnir öðrum fyrirtækjum. Komið hefur í ljós að þeir geta fjármagnað fjárfestingar sínar og útlán með innstæðum sem njóta óhjákvæmilega ríkisábyrgðar. Eigendur bankainnstæðna vita að ríkissjóður mun ávallt koma til bjargar ef banki getur ekki staðið í skilum og geta því sætt sig við lægri vexti á innstæður sínar. Bankar hafa því beinan hag af ríkisábyrgðinni en greiða þó ekkert fyrir hana. 

Í lögum um ríkisábyrgðir, segir að ríkissjóður megi aðeins veita ábyrgð með samþykki Alþingis. Yfirlýsing ríkisstjórnar Geirs H. Harde um að innstæður í íslenskum bönkum og sparisjóðum væru tryggðar að fullu var ekki lögð fyrir Alþingi til staðfestingar og bankar hafa ekki greitt ríkisábyrgðargjald fyrir að njóta þessarar ívilnunar. Ýmsir þingmenn hafa dregið í efa að yfirlýsingin geti haft gildi.

Í þingræðu miðvikudaginn 5. mars sl, um innstæðutryggingar, vakti ég athygli á því að innstæður í bönkum nytu óhjákvæmilega ríkisábyrgðar og því ættu bankar að greiða ríkisábyrgðargjald.

Í 6. gr. laga um ríkisábyrgðir segir:

Bankar, lánasjóðir, lánastofnanir, fyrirtæki og aðrir þeir aðilar sem lögum samkvæmt njóta, eða hafa notið, ábyrgðar ríkissjóðs, hvort sem hún er tilkomin vegna eignaraðildar ríkissjóðs eða annars,skulu greiða ábyrgðargjald af þeim skuldbindingum sínum sem ríkisábyrgð er á.

Svo virðist sem túlka megi þessa grein þannig að allir bankar með eignaraðild ríkissjóðs njóta ríkisábyrgðar skuli greiða ábyrgðargjald. Í sömu grein segir jafnframt að:

Ábyrgðargjald skal svara að fullu til þeirrar ívilnunar sem viðkomandi aðili nýtur, á grunni ríkisábyrgðar, í formi hagstæðari lánskjara umfram þau kjör sem almennt bjóðast á markaði án ríkisábyrgðar. Ábyrgðargjald samkvæmt málsgrein þessari skal ákveðið á grundvelli mats óháðs aðila á lánskjörum með og án ríkisábyrgðar og skal gjaldið reiknað af höfuðstól gjaldskyldra skuldbindinga eins og hann er að meðaltali á hverju gjaldtímabili, sbr. 8. gr.]1)”

Það ætti að vera hafið yfir vafa að bankar njóta ívilnunar vegna “óhjákvæmilegrar” ríkisábyrgðar á innstæður og ríkið á að innheimta gjald sem svarar að fullu til þeirrar ívilnunar.

Í stað þess að stinga höfðinu í sandinn og láta sem ekki sé ríkisábyrgð á innstæðum í innlendum bönkum tel ég að Alþingi ætti að setja lög um ábyrgðina og innheimta gjald fyrir hana.

Færa mætti rök fyrir því að ríkisábyrgð skipti mestu máli um lausar innstæður, en þær nema nú u.þ.b. 500 milljörðum. Ef við gefum okkur sem dæmi að hin óumflýjanlega ríkisábyrgð hafi lækkað vaxtakröfu innstæðueigenda um 2% þá eru þetta 10 milljarðar á ári sem ættu að renna til ríkisins.

Hvers vegna ríkisábyrgð á innstæðum er óumflýjanleg

Samfélagið er háð því að almenningur og fyrirtæki hafi aðgang að peningum. Aðeins 9% af peningum í landinu er á formi seðla og myntar, afgangurinn er í formi innstæðna sem eru loforð banka um að afhenda seðla sé þess óskað.

Það er augljóst að bankar geta ekki staðið í skilum ef of margir vilja taka út seðla samtímis. Þetta er brothætt kerfi. Vakni grunsemdir um að banki geti ekki staðið í skilum hlaupa allir til og vilja taka út innstæður sínar, því það er ekki nóg laust fé handa öllum. Við slíkt áhlaup er bankinn kominn í verulegan vanda nema ríkissjóður stöðvi áhlaupið með því að lýsa yfir ríkisábyrgð á innstæðum.

Ef á reynir mun ríkissjóður alltaf kjósa að gefa út slíka yfirlýsingu, því hinn kosturinn er miklu verri fyrir samfélagið. Ef stór innlánsstofnun verður ógreiðslufær þá gæti stór hluti fyrirtækja og landsmanna ekki nálgast peninga sína (lausar innstæður) og þar með ekki átt viðskipti eða keypt brýnustu nauðsynjar. Hagkerfi okkar er því gjörsamlega háð því að innlánsstofnanir séu gjaldfærar, því annars hættir stór hluti peningamagnsins í landinu að virka. Á meðan innlánsstofnunum er falið að búa til peningana sem hagkerfið reiðir sig algerlega á mega þær aldrei verða gjaldþrota.

Það er því ljóst að svo lengi sem bönkum er heimilt að búa til peninga í formi innlána munu innlán þeirra óhjákvæmilega njóta ríkisábyrgðar. Æskilegt er að horfast í augu við þann veruleika og innheimta eðlilegt gjald fyrir ábyrgðina.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í www.frostis.is 7. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

„Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“

Deila grein

12/03/2015

„Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“

Sigmundur-davíð„Það er megintillaga starfshópsins að skilgreina aðgang að háhraðanettengingu sem grunnþjónustu sem standa skal öllum landsmönnum til boða, óháð búsetu,“ segir í inngangi skýrslu starfshóps er var ætlað að finna útfærslu á markmiðum í stefnuyfirlysingu ríkisstjórnarinnar er varða byggðamál. Í skýrslunni, „Ísland ljóstengt – landsátak í uppbyggingu fjarskiptainnviða“ er einnig vikið að sjónarmiðum um öryggi og áreiðanleika fjarskiptatenginga.
Settar eru fram tillögur um leiðir til átaks og eru megin tillögur starfshópsins eftirfarandi:

  1.  Aðgangur að háhraða fjarskiptatengingu verði grunnþjónusta sem standa skal öllum landsmönnum til boða óháð búsetu.
  2. Alþjónustumarkmið eða markmið í anda alþjónustu verði sett sem 100 Mb/s frá árinu 2020, ásamt tilheyrandi gæðaviðmiðum.
  3. Skilgreint verði átaksverkefni á landsvísu til sex ára (2015–2020) um uppbyggingu ljósleiðaraaðgangsneta á svæðum þar sem markaðsbrestur er til staðar.
  4. Fjarskiptasjóður aðstoði þá staði með sértækum aðgerðum sem fjarskiptafyrirtækin geta ekki veitt netþjónustu.

Útbreiðsla góðra nettenginga er því ein af meginforsendum ákvörðunar um búsetu og úrslitaatriði um þróun byggðar. Góðar nettengingar eru fyrirtækjum ekki síður mikilvægar. Samkeppnishæfni svæða og íbúabyggða má því, ásamt öðrum grunnþáttum mæla út frá ástandi fjarskipta.
Eitt af áhersluatriðum í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar er að ráðast í átak í fjarskiptamálum. Forsætisráðherra, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur bæði í hátíðarræðu 17. júní 2014 og í ávarpi á gamlársdag 2014 áréttað þau áform ríkisstjórnar sinnar.
„Til að leggja undirstöður að þessu markmiði er nauðsynlegt að ráðast í átak í öllum landshlutum. Starfshópurinn gerir þá tillögu að á næstu árum megi, með samstarfi við sveitarfélög og virkum útboðum á almennum markaði, vinna að settu markmiði,“ segir í inngangi skýrslunnar.
Hér má nálgast skýrsluna.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Gunnar Bragi: Afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum kalla á aukna alþjóðlega samvinnu

Deila grein

11/03/2015

Gunnar Bragi: Afleiðingar loftslagsbreytinga á norðurslóðum kalla á aukna alþjóðlega samvinnu

GBSGunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, lagði áherslu á stefnumótun í norðurslóðamálum sem sameinaði verndun náttúruauðlinda og nýtingu þeirra til að tryggja sjálfbæra þróun, í ræðu á alþjóðlegri ráðstefnu um verndun norðurslóða, sem haldin var í Brussel þann 4. mars. Lagði ráðherra áherslu á alþjóðlega samvinnu þegar kæmi að því að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga, ekki síst á norðurslóðum.
„Evrópusambandið og aðildarríki þess hafa mikilvægu hlutverki að gegna, þegar litið er til alþjóðavægis sambandsins. Sum úrlausnarefnin sem blasa við okkur eru mikilvæg fyrir allan heiminn, til dæmis hvernig draga má úr losun gróðurhúsalofttegunda. Slíkar áskoranir verður aðeins tekist á við með samhentu alþjóðlegu átaki.“
Gunnar Bragi lýsti m.a. hvernig Íslendingum hefði tekist að gera fiskveiðar sínar og orkuframleiðslu sjálfbæra. Hann sagði Íslendinga, eins og aðrar þjóðir á norðurhveli, finna fyrir miklum áhrifum vegna loftslagsbreytinga. Miklar breytingar hefðu orðið á fiskistofnum í íslenskri lögsögu á síðustu árum; einkum loðnu, makríl og síld.
„Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að breytingum á hefðbundinni hegðun fiskistofna í og í kring um íslensku efnahagslögsöguna,“ sagði Gunnar Bragi. „Þetta eru mikilvægar breytingar sem tengjast loftslags- og umhverfisbreytingum og kalla á aukna vísindasamvinnu á norðurslóðum.“
Gunnar Bragi kallaði því eftir ábyrgri auðlindastjórnun, án ríkisstyrkja, og samvinnu vísindamanna á norðurslóðum til að tryggja að sjávarútvegur yrði áfram sú sjálfbæra auðlind sem hún hefði reynst Íslendingum.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.