Categories
Fréttir

Breytingar og sóknarsamningar

Deila grein

03/03/2015

Breytingar og sóknarsamningar

SIJBreytinga er að vænta var megininntakið í ræðu sem Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hélt á Búnaðarþingi 2015 í gær. Óhætt er að segja að ræðunnar hafi verið beðið með nokkurri eftirvæntingu, því undirbúningur nýrra búvörusamninga er að hefjast. Raunar telja sumir að sú vinna hefði átt að vera lengra komin. Sigurður Ingi minnti á að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar stæði að efla skyldi matvælaframleiðslu á Íslandi og huga þyrfti að sóknarsamningum.
Sigurður Ingi lagði til í ræðu sinni að bændur skipuðu eina samninganefnd til að eiga í samskiptum við ríkið, en ekki hver búgrein og hugað skildi að samningi til að minnsta kosti 10 til 15 ára. Með því móti ætti að vera auðveldara fyrir bændur og alla þá sem tengjast framleiðslu bænda með einum eða öðrum hætti að móta sínar áætlanir.
Gerður yrði rammasamningur fyrir allar greinar landbúnaðar og síðan kaflar fyrir hverja búgrein fyrir sig; t.a.m. nautgripi, sauðfé, garðyrkju og síðast en ekki síst; geitur!
Hann telur eðlilegt að byggt verði áfram á tveimur megin stoðum í styrkjakerfi landbúnaðarins. Það er svo kallaðri tollvernd og beingreiðslum. Beingreiðslukerfið þurf hins vegar að skoða til að tryggja að stuðningurinn nýtist best þeim sem starfa við frumframleiðsluna.
Sigurður Ingi viðraði einnig þá skoðun hvort greiða ætti styrki að einhverju leyti frekar út á land en framleiðslu. Ekki hvaða land sem er, heldur land sem er nytjað. Þá vill hann að hugað verði sérstaklega að því í nýjum samningum, að tryggt verði að aðilaskipti, eða kynslóðaskipti geti orðið að jörðum svo ábúð og framleiðsla leggist ekki af.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Vertu velkominn

Deila grein

03/03/2015

Vertu velkominn

Silja-Dogg-mynd01-vefÉg ætla að segja ykkur litla lífsreynslusögu. Hún gerist fyrir tuttugu árum í Austurríki. Ég stundaði þar nám um tíma, í borginni Graz sem er í austurhluta landsins, skammt frá landamærum Ungverjalands. Múrinn hafði fallið fáum árum áður og mikill fjöldi fólks leitaði frá austri til vesturs í von um betra líf.

Ég var upptekin af hinu bráðskemmtilega stúdentalífi og velti lítið fyrir mér aðstæðum Austur-Evrópumanna. Ég var frá Íslandi, fékk alls staðar hlýjar móttökur, og já, var bara nokkuð montin af því að vera Íslendingur. Það þótti þá, og þykir enn, svolítið töff.
Svo var það dag einn að ég fór í litla sérvöruverslun og bauð góðan dag. Talaði þýskuna með hörðum hreim, var alls ekki austurrísk í útliti, hvað þá skandinavísk, með mitt svarta hár. Af útlitinu og hreimnum mátti dæma að ég kæmi „að austan“. Í sakleysi mínu beið ég róleg eftir afgreiðslu og áttaði mig ekki strax á því kuldalega viðmóti sem ég fékk. Eftir dúk og disk fékk ég afgreiðslu og eftir nokkra stund kom fram að ég væri frá Íslandi. Og viti menn! Viðmótið breyttist á svipstundu. Ég fékk bros, almennilegheit og já, framkomu sem allir eiga rétt á að fá; hvernig sem þeir líta út, hvaðan sem þeir koma og hverjir sem þeir eru.
Svona er þá að vera hataður. Svona er þá að vera útlendingur. Þarna lærði ég mína lexíu.

Ég óska engum þess að verða fyrir fordómum. Hvað á fólk með að dæma aðra út frá ytri mælikvörðum? Hver einasta manneskja er einstök.

Aðflutningur erlendra ríkisborgara til Íslands á 21. öldinni er nærri helmingi íbúafjölgunar á Íslandi. Á síðasta ári var hlutfall erlendra ríkisborgara á Íslandi 7,4%. Þess má einnig geta að fjöldi leik- og grunnskólabarna með erlent ríkisfang hefur sjöfaldast á öldinni. Nú hafa 11% leikskólabarna og 6% grunnskólabarna annað móðurmál en íslensku.

Fjölmenningarsamfélag er framtíðin. Við eigum að taka vel á móti fólki sem hér vill búa og og hjálpa því á allan hátt við að aðlagast íslensku samfélagi. Það eykur hagvöxt og síðast en ekki síst auðgar það menningarlífið og víkkar sjóndeildarhring okkar allra.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 3. mars 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Ellin er þyrnikóróna

Deila grein

01/03/2015

Ellin er þyrnikóróna

Silja-Dogg-mynd01-vef… og æskan rósabeður, segir máltækið. Það verður hlutskipti flestra að eldast og þjóðin eldist hratt. Stefna stjórnvalda er sú að fólk geti búið eins lengi heima hjá sér og mögulegt er og áherslan hefur því verið lögð á aukna heimaþjónustu. En sumir þurfa meiri umönnun og geta ekki verið heima hjá sér af ýmsum orsökum.

Fjármagn nýtt í annað
Í hinum fullkomna heimi ættu allir aldraðir að fá pláss á hjúkrunarheimili um leið og þörf er á, en svo er ekki. Fjöldi aldraðra ætti þó ekki að koma okkur á óvart. Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að byggja upp hjúkrunarrými en í þrengingum síðari ára hefur fjármagnið verið nýtt til reksturs hjúkrunarheimila og viðhalds. Við stöndum því frammi fyrir fjárskorti og það blasir við að við þurfum að fara að gera langtímaáætlanir varðandi uppbyggingu, til a.m.k. 20 ára.

Fjölga rýmum
Nú er unnið að grófri framkvæmdaáætlun um byggingarframkvæmdir öldrunarstofnana til næstu fimm ára. Þeirri vinnu ætti að ljúka fljótlega. Ljóst er að bæði er þörf á fjölgun hjúkrunarrýma og endurbótum á þeim rýmum sem fyrir eru til að mæta þeim viðviðum um aðbúnað sem þörf er talin á í dag.

Fleiri krónur
Ríkisstjórnin bætti í hvað varðar úthlutun fjármagns til hjúkrunarheimila á fjárlögum 2015, en betur má ef duga skal. Nú verða 200 millj. kr. veittar aukalega í hjúkrunarrými. Um er að ræða verulega fjölgun rýma í öllum heilbrigðisumdæmum sem kemur til móts við þá gríðarlegu þörf sem safnast hefur upp undanfarin ár. Á árinu verður 50 milljónum kr. varið til að bæta stöðu minni hjúkrunarheimila. Um er að ræða heimili með 20 eða færri hjúkrunarrými. Langflest þeirra eru á landsbyggðinni og mörg þeirra hafa átt í miklum rekstrarvanda. 50 milljónum kr. verður varið aukalega á árinu í heimahjúkrun fyrir fólk sem komið er með gilt færni- og heilsumat og bíður þess að komast á hjúkrunarheimili. Um er að ræða tilraunaverkefni með það að markmiði að fólk geti sem lengst búið heima.

Þó að menn greini á um ýmislegt getum við örugglega verið sammála um mikilvægi þess að bæta aðbúnað aldraðra. Fækkum þyrnunum.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 28. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Allir á mölina

Deila grein

28/02/2015

Allir á mölina

Silja-Dogg-mynd01-vefStundum er gott að láta sig dreyma. Ég sé til dæmis fyrir mér blómlegar byggðir um land allt, hamingjusamt fólk sem hefur nóg að sýsla, framúrskarandi heilbrigðisþjónustu, fyrirtaks vegi og flugvelli, þriggja fasa rafmagn fyrir alla og ljósleiðaranet hringinn í kringum landið, bryggjurnar iða af lífi og í sveitum landsins framleiðum við heilnæm matvæli fyrir alla Íslendinga og erum auk þess farin að stunda umfangsmikinn útflutning á grænmeti, kjöti og fiski þar sem við framleiðum miklu meira en við getum sjálf torgað. Ávaxtarækt í upphituðum gróðurhúsum er líka langt á veg kominn. Íslenskir bananar – umm, já takk!

Fólk fer þangað sem störf er að finna
Það er ekki hagkvæmt fyrir þjóðarbúið að of stór hluti þjóðarinnar búi á sama landshorninu. Til að nýta öll landsins gæði, til sjávar og sveita, verður fólk að búa sem víðast. Skilvirk byggðastefna er nauðsynleg til að hægt sé að byggja upp og nýta auðlindir landsins. Liður í skilvirkri byggðastefnu eru sköpun atvinnutækifæra um land allt; bæði færsla opinberra starfa frá höfuðborgarsvæði til landsbyggðar og stuðningur við annars konar atvinnuuppbyggingu. Norðmenn hafa rekið mjög öfluga byggðastefnu um árabil og með henni náð að snúa byggðaþróun við í Noregi. Við eigum að horfa til Norðmanna og vera óhrædd við að nýta þær leiðir sem bestan árangur hafa borið.

Sameiginilegir hagsmunir
Fjölbreytt atvinnulíf um land allt ætti að vera sameiginlegt markmið okka allra. Fólkið fer þangað sem vinnu er að fá. Þar sem atvinnutækfærin eru, þar er jafnframt þjónusta og þá erum við komin með eftirsóknarvert byggðalag. Á undanförnum árum hefur opinberum störfum fjölgað á höfuðborgarsvæðinu en fækkað á landsbyggðinni. Í ljósi neiðkvæðrar byggðaþróunar og þeirra sameiginlegu hagsmuna okkar að snúa henni við, þá liggur beint við að spyrja eftirfarandi spurningar: Hvers vegna er umræðan svo hávær þegar örfá störf, hlutfallslega, hverfa af höfuðborgarsvæðinu en minna heyrist þegar störf eru færð frá landsbyggð til höfuðborgarsvæðisins?

Meira um Fiskistofu
Fyrir nokkrum mánuðum kynnti sjávarútvegsráðherra fyrirhugaðan flutning á höfuðstöðvum Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Um var að ræða 15-20 störf og flutningurinn átti að eiga sér stað á löngum tíma. Gert var ráð fyrir að höfuðstöðvar Fiskistofu yrðu komnar til Akureyrar fyrir 1. júlí 2015 og að flutningi lyki að öllu leyti fyrir 1. janúar 2017. Hugmyndin með því að flytja starfsemina á svo löngum tíma var m.a. að halda þekkingunni innan stofnunarinnar, gefa mönnum aðlögunartíma en sýnt þykir að rekstur stofnunarinnar er hagkvæmari fyrir norðan en sunnan.

Jón og séra Jón
Á svipuðum tíma misstu 10 manns við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Lítið heyrðist um það mál í fjölmiðlum. Nokkur opinber störf hafa horfið á síðustu misserum frá Höfn. Ekki orð í fjölmiðlum. Það þarf víst ekki að útskýra það fyrir lesendum að atvinnutækifæri eru talsvert fleiri á höfuðborgarsvæðinu, þar sem Fiskistofa er staðsett (þ.e. ef menn geta alls ekki hugsað sér að flytja norður á Akureyri) en til dæmis á Höfn eða á Hvanneyri.

Forréttindi að búa á landsbyggðinni
Mér þótti umræðan um Fiskistofu skrítin. Það er ekki refsing að búa landsbyggðinni, heldur forréttindi. Við getum deilt um aðferðafræði flutnings opinberra stofnana. En það er óumdeilanlega hagur okkar allra að landinu sé öllu haldið í byggð. Liður í því er að byggja upp grunnþjónustu, fjarskipti, samgöngur og síðast en ekki síst, flytja opinber störf frá höfuðborg til landsbyggðarinnar samhliða því að skapa önnur atvinnutækifæri um land allt.

Silja Dögg Gunnarsdóttir

Greinin birtist í dv.is 26. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Við uppbyggingu ferðaþjónustu má ekki gleyma stoðum og öryggi allra

Deila grein

27/02/2015

Við uppbyggingu ferðaþjónustu má ekki gleyma stoðum og öryggi allra

Jóhanna María - fyrir vefJóhanna María Sigmundsdóttir, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins í vikunni hve fjölgun ferðamanna hefur verið mikil hér á landi á liðnu ári. Hátt í milljón ferðamanna á ári, og mikil aukning þeirra yfir vetrartímann. Áhyggjur af umgengni og ágangi á náttúruna og hvort við framleiðum næg matvæli til að mæta þessari aukningu og veita íbúum landsins lágmarksþjónustu, þá fellur öryggið í skuggann.
Mikilvægt er að stýra enn frekar ferðamönnum um landið, þ.e. að beina þeim á eftirtektarverða staði sem hafa ekki lent illa í ágangi af aðsókn ferðamanna.
Yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli fór vel yfir að lögreglan væri of fáliðuð, því að fjölgun lögreglumanna hefur ekki haldist í hendur við þá gríðarlegu fjölgun ferðamanna sem nú er orðin og stefnir í að verða enn meiri.
„Um leið og við viljum auka tekjur og verðmæti landsins með heimsóknum ferðamanna megum við ekki gleyma undirstöðum eins og löggæslu og þá má aukning ferðamanna ekki bitna á þeirri þjónustu sem landsmenn greiða fyrir og eiga rétt á að fá,“ sagði Jóhanna María.
Að lokum sagði Jóhanna María: „Björgunarsveitir eru sjálfboðaliðasamtök og þó svo að fólk sem innan þeirra starfar launalaust geri það af heilum hug þá eigum við ekki að treysta svona mikið á þær sveitir eins og við gerum, treysta á að þær séu alltaf til taks til að bjarga þeim þætti í samfélagsstoðinni sem er í lamasessi. Fyrst við ráðamenn viljum hugsa fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu megum við ekki gleyma stoðum og öryggi allra.“
Ræða Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Hættum að tala niður það sem er íslenskt

Deila grein

27/02/2015

Hættum að tala niður það sem er íslenskt

Þorsteinn-sæmundssonÞorsteinn Sæmundsson, alþingismaður, vildi vekja athygli á nokkrum góðum fréttum í störfum þingsins, í vikunni, en að sögn væri það hans tilfinning að í fjölmiðlum og stundum á Alþingi, færi meira fyrir neikvæðum fréttum en góðum.
Í nýliðinni kjördæmaviku sótti hann heim mjög framsækin fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu. Fyrirtækin ættu öll það sameiginlegt að byggjast á íslensku hugviti og voru stofnuð um 2003, 2004, koma fram með framleiðsluvöru 2009 eða síðar. „Í eitt fyrirtæki kom ég þar sem starfsmenn voru 14 árið 2010 en eru 50 núna og er enn að fjölga, fyrirtæki sem selur íhluti í dísilvélar til þess að auka hagkvæmni þeirra, sparnað, orkunýtingu og minnka mengun,“ sagði Þorsteinn.
„Það vakti sérstaka athygli mína þegar ég kom í fyrirtæki sem var bara hugmynd 2001, kom fram með framleiðsluvöru 2009, sem núna er seld í öllum heimsálfum nema á Suðurheimskautinu. Þar eru 40 manns við störf, 100 manns erlendis að selja. Það sem vakti mesta athygli mína var að eigandi fyrirtækisins og frumkvöðullinn, sagði: Vöxtur þessa fyrirtækis hefði aldrei orðið jafn mikill og raun ber vitni nema vegna þess að fyrirtækið er íslenskt, út af því að Ísland er betra vörumerki en við gerum okkur almennt í hugarlund. Ég held að sé hollt fyrir okkur að hugleiða þetta og hætta að tala niður það sem er íslenskt,“ sagði Þorsteinn.
Ræða Þorsteins Sæmundssonar:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Samfélagsleg ábyrgð bankanna?

Deila grein

27/02/2015

Samfélagsleg ábyrgð bankanna?

Karl_SRGBKarl Garðarsson, alþingismaður, kallaði eftir samfélagslegri ábyrgð stærstu fjármálastofnana landsins í störfum þingsins í vikunni. Fór hann yfir hagnað bankana eftir skatta en hagnaður Arion banka á síðasta ári nam 28,7 milljörðum kr. sem er tvöfalt meira en árið á undan. Íslandsbanki hagnaðist á síðasta ári um sem nam 23 milljörðum kr.. Arion banki greiddi um 8 milljarða kr. í arð til eigenda sinna í fyrra. „Til hamingju eigendur Arion banka, sem reyndar eru flestir andlitslausir,“ sagði Karl.
Samfélagslegar skyldur eða samfélagsleg ábyrgð hefur gjarnan verið á þann veg að veita nokkra styrki til góðra málefna. En svo er annað að í „verðbólgulausu landi lætur Arion banki íbúðakaupendur borga allt að 8% ársvexti á óverðtryggðum lánum“. Þá fer minna fyrir ábyrgð bankanna gagnvart viðskiptavinum sínum.
„Ef maður ætlar að leggja pening inn á reikning hjá Arion banka býður bankinn upp á vexti frá 0,1% og upp í u.þ.b. 1%. Tölurnar frá Íslandsbanka eru ekki svo ólíkar,“ sagði Karl.
„Hinn almenni borgari hefur ekkert val. Hann þarf að eiga viðskipti við stofnanir sem hafa aðeins eina hagsmuni að leiðarljósi, eigendanna. Hjá þeim er samfélagsleg ábyrgð bara klisja,“ sagði Karl að lokum.
Ræða Karls Garðarssonar:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Fjölmiðlaumræðan og opinber störf

Deila grein

27/02/2015

Fjölmiðlaumræðan og opinber störf

Silja-Dogg-mynd01-vefSilja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, fór í störfum þingsins í vikunni yfir þá athygli er fyrirhugaður flutningur á höfuðstöðvum Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar fékk í fjölmiðlum. 15–20 störf áttu að flytjast á einu og hálfu ári frá höfuðborgarsvæðinu út á landsbyggðina. Þegar á sama tíma var fjölmiðlaathyglin lítil eða engin þegar tíu manns misstu vinnuna við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Ekkert heyrðist í fjölmiðlum þá. Það hafa opinber störf horfið á síðustu missirum frá Höfn í Hornafirði. „Ekki orð í fjölmiðlum, hvað þá hér í þingsal,“ sagði Silja Dögg.
„Reynslan hefur líka sýnt okkur að þegar opinber störf hverfa á landsbyggðinni koma þau ekki þangað aftur. Það er ekki svo á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Silja Dögg.
„Við getum deilt um aðferðafræði flutnings opinberra stofnana, en það er óumdeilanlega hagur okkar allra að landinu sé öllu haldið í byggð. Liður í því er að byggja upp grunnþjónustu, fjarskipti, samgöngur og síðast en ekki síst að flytja opinber störf frá höfuðborg til landsbyggðarinnar samhliða því að skapa önnur atvinnutækifæri í landinu,“ sagði Silja Dögg.
Hvatti hún þingheim til að horfa til Norðmanna er hafi rekið mjög öfluga byggðastefnu um árabil. Hræðsla eigi ekki við þegar þarf að nýta leiðir sem best hafa gefist þar.
Að lokum sagði Silja Dögg: „Okkar sameiginlegu hagsmunir felast í því að nýta öll landsins gæði til sjávar og sveita. Þá verður fólk að geta búið um allt land.“
Ræða Silju Daggar Gunnarsdóttur:

 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Fréttir

Hafið – öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins komið á skrið

Deila grein

26/02/2015

Hafið – öndvegissetur um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins komið á skrið

Sigrún Magnúsdóttir_001Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, stýrði á dögunum fundi stofnaðila Hafsins – öndvegisseturs um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins.
Um er að ræða samstarfsvettvang fyrirtækja, háskólasamfélagsins, rannsóknastofnana og stjórnvalda um rannsóknir, þróun, framleiðslu og kynningu á tæknilausnum sem stuðla að vernd hafsins. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið er meðal stofnfélaga en stofnsamningur setursins var undirritaður í lok október sl.
Markmiðið með stofnun Hafsins er að efla þátttöku og starf innlendra og erlendra aðila að nýtingu grænnar tækni sem tengist hafinu og verndun þess. Íslendingar búa yfir mikilli sérfræðiþekkingu á málefnum hafsins sem kemur úr stjórnsýslunni, atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Stjórnvöld þurfa að tengja sig betur við sjávarklasann og stuðla að því að sá áhugi sem er fyrir hendi hjá atvinnulífinu og háskólasamfélagi nýtist. Þannig er betur tryggð jákvæð ímynd Íslands hvort sem lýtur að heilnæmi sjávarfangs, ábyrgri nýtingu auðlinda eða umhverfisvænni atvinnustarfsemi.
Á fundinum gat ráðherra um mikilvægi þess að Ísland sé í fararbroddi í alþjóðlegri umræðu um málefni hafsins. Fá eða engin sjálfstæð ríki hafa jafn ríka hagsmuni varðandi sjálfbæra nýtingu hafsins sem hlúa þarf að með varúð og virðingu og er ein helsta undirstaðan fyrir efnahag og velferð þjóðarinnar.
Á fundi stofnaðila á dögunum var kjörið í stjórn setursins og starfsreglur samþykktar sem og nafnbreyting félagsins, en það gekk áður undir heitinu Oceana. Þá hefur bæst í hóp þeirra sem eiga aðild að félaginu og eiga nú 14 fyrirtæki, stofnanir og opinberir aðilar hlutdeild að Hafinu – öndvegissetri um sjálfbæra nýtingu og verndun hafsins, auk þess sem tveir aðilar eiga eftir að samþykkja aðild formlega.
 
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.

Categories
Greinar

Berskjaldaður eða bólusetning

Deila grein

25/02/2015

Berskjaldaður eða bólusetning

Jóhanna María - fyrir vefSíðustu vikur hafa bólusetningar barna verið mikið til umræðu eftir að móðir skrifaði pistil um hvernig hún þurfti að bíða í von og óvon til að komast að því hvort að sonur hennar hefði smitast af mislingum, hann var það ungur að hann hafði ekki fengið bólusetninguna sem hefði þurft í þessu tilfelli. Þar velti hún því upp hvort að þeir sem fara í bólusetningu og láta bólusetja börn sín væru að vernda þá sem kjósa að sleppa bólusetningum. Og þarna þurfti hún að bíða heima, bíða eftir því hvort að sonur hennar færi að sýna einkenni mislinga sem í versta falli gætu leitt til dauða. Á vefsíðu landlæknis segir: „Öllu jafna eru mislingar mildur sjúkdómur hjá börnum en allt að 10% þeirra sem sýkjast fá alvarlega fylgikvilla svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.“ Og þrátt fyrir allt þá veitir bólusetning aðeins 95% vörn, er það ekki betra en 0%?

Í lögum hérlendis segir að börnum með lögheimili hér á landi skuli vers boðin bólusetning gegn tilteknum smitsjúkdómum þeim að kostnaðarlausu. Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn um bólusetningar barna sem lagt var fram í vikunni segir m.a. að þátttaka í bólusetningum hérlendis sé almennt góð. Árið 2005 var búinn til bólusetningargrunnur og sýnir hann að ekki er merkjanlegur munur milli ára á fjölda barna sem fær bólusetningar. Þá kemur einnig fram í svarinu að þátttaka í bólusetningum er frá 88% upp í 96% við hinum ýmsu smitsjúkdómum eins og mislingum, hettusótt og rauðum hundum. Þá eru einnig bólusetningar við HPV sýkingu, barnaveiki, stífkrampa, kikhósta, Hib Heilahimnubólgu, lömunarveiki o.fl. innan þessara marka.

Með bólusetningu er mögulegt að útrýma sjúkdómum þó megin markmiðið sé auðvitað að koma í veg fyrir þá og hættulegar afleiðingar þeirra sem og hindra farsóttir. Bólusetning verndar ekki bara börnin sem hana fá, heldur kemur líka í veg fyrir smit milli barna. Það er sárasjaldan ástæða til að bólusetja ekki barn.

Vegna tilkomu bólusetningargrunns getur sóttvarnarlæknir sent nafnalista með þeim aðilum sem ekki hafa verið bólusettir til heilsugæslu, haft upp á þeim og boðið bólusetningu. Þá er einnig hægt að leiðrétta skráningu ef svo ber við. Ísland er einstaklega vel stætt í þessum málum miðað við önnur Norðurlönd og mikilvægt er að halda því við, þar sem tilfelli smitsjúkdóma sem hægt er að bólusetja við fækkar á móti. Þær upplýsingar sem ég hef koma frá landlækni og heilbrigðisráðuneytinu, en að mínu viti eru 5% líkur á að vera berskjaldaður fyrir alvarlegum smitsjúkdóm betra en að hafa enga vörn.

Jóhanna María Sigmundsdóttir

Greinin birtist í DV 24. febrúar 2015.

 

PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.