Yfirlitsræða Sigurðar Inga Jóhannssonar formanns Framsóknarflokksins á haustfundi miðstjórnar, að Laugarbakka í Miðfirði, 17.-18. nóvember 2017.
„Kæru vinir,
Á fundi sem þessum, á haustfundi Miðstjórnar Framsóknarflokksins fjöllum við sérstaklega um félagsstarf flokksins. Hér þurfa raddir ykkar að heyrast, hvernig við getum breytt og bætt það sem betur mætti fara í okkar flokki, í félögum og kjördæmissamböndum. Hver rödd skiptir máli og hvert og eitt sjónarmið og tillögur um hvað má betur fara eru ævinlega vel þegnar. Þegar starfið í grasrótinni er sterkt er flokkurinn sterkastur og þá náum við baráttumálum okkar í gegn. Rödd og áhrif Framsóknarmanna í rúm hundrað ár sannar það.
Við vitum að við erum sterk sem heild og á síðustu vikum hefur okkur auðnast að ganga í takt á ný. Saman sigldum við í gegnum djúpan öldudal en við bárum gæfu til að rísa upp. Við máttum sjá á eftir ýmsum. Fólki sem flokkurinn hafði treyst og trúað fyrir ýmsum trúnaðarstörfum, fólki sem valdi að yfirgefa okkar trausta og gamalgróna flokk. Góðum og almennum flokksmönnum.
En ánægjulegt var að sjá að nýtt fólk bættist í flokkinn. Sumir sem höfðu hoppað af vagninum síðustu ár, en einnig kom inn nýtt fólk sem fann samleið með okkur við þessar aðstæður. Skarðið sem varð í röðum okkar minnkar óðum. Með öflugu starfi inná við í flokknum og út á við í sveitarstjórnum og landsmálum munum við fylla það aftur og meira til, með góðri samvinnu okkar á milli. Máttur hinna mörgu er afl sem enginn stenst.
Kosningabaráttan var snörp og skemmtileg. Hún var fyrsta skrefið í þeirri uppbyggingu sem framundan er. Frambjóðendur okkar hringinn í kringum landið fundu fyrir jákvæðni, gleði og trú á hlutverki og gildum flokksins. Við uppskárum í takt við þau viðbrögð og urðum þriðji stærsti þingflokkurinn. Rétt hugarfar skilaði okkur sigri, en eins og einn góður Íslandsvinur okkar sagði „með réttu hugarfari getur þú alltaf unnið“.
Á bak við slíkan sigur liggur ómæld og óeigingjörn vinna frá sterku baklandi sem vann að því að styrkja og treysta kjarnann. Fyrir það vil ég þakka sérstaklega. Hvort sem verkefnin voru að hringja og tala við fólk, skipuleggja og taka þátt í viðburðum, taka á móti fólki á kosningaskrifstofum eða baka kökur, eða hvað annað, þá er hvert og eitt þeirra mikilvægt og styrkir liðsheildina. Allt ykkar framlag skilaði sér margfalt til baka, í atkvæðum frá kjósendum sem vita að við höfum kjark, þor og samheldni til að ráðast í erfið verkefni sem hafa varanleg áhrif á líf og kjör þjóðar.
Án ykkar hefðum við ekki náð þessum stórkostlega sigri. Sú mikla samstaða sem varð til meðal okkar er ómetanleg. Það er í gegnum slíka samkennd og skilning sem við verðum sterkari. Þannig öðlumst við traust sem við munum áfram byggja okkar hugsjónir á sem öflugt og stöðugt afl á miðjunni.
Sigurinn í kosningunum er eitt, hitt er endurreisn flokksins. Samvinnan, samheldnin, gleðin og þá um leið sköpunarkrafturinn er komin miklu lengra en nokkurn gat grunað. Það er, kæru vinir, sætasti sigurinn, og hann eigum við öll saman.
Þingflokkur Framsóknar er nú skipaður átta þingmönnum, fimm konum og þremur körlum. Þó konum hafi fækkað á þingi í kjölfar kosninga þá er ánægjulegt að sjá að staða kvenna er sterkust í okkar flokki. Vinna að jafnræði, og þar með jafnrétti, í hundrað ár hefur skilað sér.
Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá kröftugt starf hjá unga fólkinu í flokknum. Þar eru framsýnir og öflugir einstaklingar sem vinna að því að því að byggja upp og búa í haginn fyrir framtíðina. Það er sannarlega hvatning fyrir okkur hin að sjá að mikið af nýju og ungu fólki hefur bæst við í flokkinn. Kosningavökurnar vöktu mína athygli, ég man ekki fyrr eftir þvílíkum fjölda, þar var hvert sæti skipað af skapandi ungum einstaklingum sem munu taka fullan þátt í því að móta framtíðina. Þar stóðu þau sig eins og sannar hetjur.
Kosningarnar í haust, voru mikil áskorun fyrir flokkinn. Á þessum haustfundi er mikilvægt að við leyfum okkur að njóta með stolti þeirrar ríkulegu uppskeru sem við náðum. Við þurfum að hlúa að jarðveginum og rétt næring skiptir sköpum til að við getum haldið áfram að vaxa og dafna. Gleðjumst því yfir góðum árangri og að hafa endurheimt traust kjósenda okkar.
Það hefur áður verið sagt, og skal hér endurtekið; Framsókn hefur ætíð vegnað best þegar framsóknarfólk stendur saman. Og gleymum því ekki, það á að vera gaman að vera í Framsókn! Og þegar Framsókn vegnar vel – gengur þjóðfélaginu vel.
Ágætu félagar,
Framsóknarflokkurinn er miðjuflokkur. Við getum unnið með flokkum frá hægri til vinstri, leitt ólíka aðila saman og skapað pólitískan stöðugleika. Fólk kaus Framsókn af ýmsum ástæðum, en margir töluðu um að ástæðan væri að það treystir okkur og veit fyrir hvað við stöndum.
Og hver er staðan á Íslandi? Efnahagsaðstæður eru almennt góðar, lífskjör eru með því besta sem þekkist, við búum við öryggi og lífslíkur Íslendinga eru með þeim hæstu í Evrópu. Samkvæmt flestum mælikvörðum stöndum við vel, en okkur hefur ekki auðnast að ná stöðugleika á hinu pólitíska sviði. Að því þurfum við að vinna.
Kjósendur kalla eftir því að kjörnir fulltrúar vinni saman af einurð og heilindum svo hægt sé að viðhalda stöðugleika í landinu. Óstöðugt stjórnmálaástand hefur umfangsmikil áhrif og kemur niður á okkur öllum. Fyrir utan beinan kostnað sem kosningar hafa í för með sér þá er öllu alvarlegri sá óbeini kostnaður sem hlýst af óstöðugu stjórnarfari. Skortur á stefnu og stöðugleika verður til þess að ákvarðanir eru settar á bið sem getur orðið til þess að hagvöxtur dragist saman til lengri tíma með neikvæðum áhrifum á lífskjör í landinu.
Kæru miðstjórnarmenn,
Framsóknarflokkurinn hefur átt samleið með þjóðinni í heila öld, vaxið og tekið breytingum í takt við áherslur á hverjum tíma. Hann er eins og við þekkjum byggður á traustum grunni á þeim gildum og hugsjónum sem við sem flokkur höfum valið að starfa eftir. Gildin skilgreina hver við erum og hvert við stefnum og eru leiðarljós og hvatning til góðra verka þar sem við erum stöðugt að leita eftir hvernig við getum unnið að umbótum á samfélaginu. Lausnir viðfangsefnanna eru byggðar á samvinnu og jöfnuði til að bæta hag allra, en ekki hinna fáu.
Það er því mikilvægt að við sem störfum í flokknum þekkjum fyrir hvað hann stendur, hvert hann stefnir og segjum frá því. Ekki bara okkar á milli, heldur ekki síst út á við. Okkar hlutverk er að standa vörð um grunngildi Framsóknarflokksins og hvetja til umræðu byggða á þeim, þar sem borin er virðing gagnvart samborgunum og velferð þeirra sett í öndvegi. Manngildi ofar auðgildi með sanngirni að leiðarljósi eru grunnstef í öllu okkar starfi. Út frá þeim grunni byggjum við sterkt og kröftugt samfélag. Samfélag með einni öflugri millistétt byggða á síauknum jöfnuði í landinu en um leið verða tækifæri einstaklingsins betri til að dafna.
Sú þróun um heim allan, að æ færri aðilar eigi jafnmikið og fátækari helmingur mannkyns er því ógnvægleg og andstætt hugmyndum okkar um jöfnuð. En sterk millistétt er forsenda efnahagslegra framfara og ber uppi samfélagslega grunnþjónustu.
Áskoranir framtíðarinnar eru því margvíslegar og skipa loftslagsmálin þar stóran sess. Okkur mannfólkinu fjölgar og setur það aukinn þrýsting á auðlindir. Okkar stærsta auðlind er hafið í kringum landið, en þar er súrnun sjávar raunveruleg ógn. Við verðum að taka aðvaranir okkar færustu vísindamanna alvarlega. Til að stemma stigu við aukinni losun gróðurhúsalofttegunda þarf að styðja betur við áframhaldandi tækniþróun. Í því geta falist ný tækifæri fyrir atvinnulífið með nýsköpun og nýtingu endurnýjanlegrar orku.
Þeir sem stofnuðu flokkinn fyrir rúmlega hundrað árum síðan höfðu þá sýn sem er okkur sýnileg í dag en þóttu þá framsæknar lausnir. Á þeim tíma þurfti að berjast fyrir jákvæðari byggðaþróun og uppbyggingu landsins alls. Enn er þörf fyrir flokk sem berst fyrir uppbyggingu alls landsins og styður við jákvæða byggðaþróun. Það hefur verið og er enn eitt aðalverkefni Framsóknarflokksins.
Við höfum sagt að afloknum kosningum að mynda þyrfti trausta ríkisstjórn sem stuðli að pólitískum, félagslegum og efnahagslegum stöðugleika. Ríkisstjórn með breiða skírskotun frá hægri til vinstri yfir miðjuna. Framundan eru stór verkefni sem við sem þjóð þurfum að sameinast um. Þess vegna höfum við lagt á það áherslu í stjórnarmyndunarviðræðunum að eiga samtal við aðila vinnumarkaðarins, landlækni og fleiri til að ramma inn grundvöll að frekari samtali milli flokkanna og um þau stóru og mikilvægu verkefni.
Án þess að ég geti farið nánar út í innihald viðræðnanna þá hefur þeim miðað vel áfram. Við viljum gera þetta vel og erum því að vanda okkur. Ef allt gengur upp þá verður boðað til miðstjórnarfundar um miðja næstu viku. Meira um það síðar.
En fyrir hvað stendur Framsóknarflokkurinn árið 2017? Grunngildi okkar standa alltaf með okkur en þar til viðbótar voru áherslur okkar í kosningabaráttunni þær að efla grunnþjónustuna um allt land. Til þess að bæta samfélagið og byggja upp kerfi sem ríkisvaldið ber ábyrgð á ásamt því að hlúa að undirstöðuatvinnugreinum hringinn í kringum landið. Markmið okkar er að tryggja að allir geti sótt sér menntun óháð búsetu, aldri og stöðu sem stuðli að bættum lífskjörum og dragi úr áhrifum stéttarskiptingar.
Það er okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir þeim forsendum sem þarf til að fjölga og halda í störf hringinn í kringum landið. Berjast fyrir bættum atvinnutækifærum, samgöngum, öflugri fjarskiptum og þétta heilbrigðisþjónustu úti á landi.
Það er hluti af okkar sjálfstæði og efnahagslegu öryggi að innlendar náttúruauðlindir lúti íslenskri stjórn. Landið okkar er ríkt af endurnýjanlegum auðlindum og þær leggja grunn að okkar efnahagslega sjálfstæði. Í ljósi þess er mikilvægt að þær séu nýttar á skynsaman og sjálfbæran hátt, en ekki fyrir einsleita hópa eða útvalda.
Þessi mál endurspegla það sem við stöndum fyrir og tel ég vænlegast til árangurs að styðjast við þau stef sem Framsóknarflokkurinn grundvallast á og forðast öfgar til hægri og vinstri.
Landsmenn vilja fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir á hverjum tíma óháð búsetu, og aðgengi má ekki takmarka út frá efnahag fólks.
Til að takast á við áskoranir framtíðarinnar er lykilatriði að menntun sé fjölbreytt og ýtt sé undir nýsköpun þannig að okkar stærsta auðlind, mannauðurinn, fái að njóta sín.
Við höfum áorkað mörgu og eigum að vera stolt af þeim árangri sem náðst hefur og verið til hagsbóta fyrir fjölda heimila í landinu. Árangur kemur ekki af sjálfu sér. Árangur næst með samstöðu, samvinnu, mikilli vinnu, úthaldi, fórnum og ekki síst þeirri hugsjón og ástríðu sem sameinar okkur sem flokk.
Framundan eru sveitarstjórnarkosningar. Mikilvægt er að skapa sem mestan samhljóm á milli ríkis og sveitarfélaga. Uppbygging innviða og grunnþjónustu ræðst ekki síst af góðu samstarfi þeirra á milli. Mikilvægt er að Framsóknarflokkurinn haldi áfram að vinna af krafti til að tryggja góðan framgang í sveitarstjórnarkosningunum. Eins og kom fram í gær þá eigum við um hundrað sveitarstjórnarfulltrúa um land allt, það er mannauður sem byggja má á.
Til að undirbúa komandi sveitarstjórnarkosningar þá þurfum við að setja af stað vel skipulagða málefnavinnu. Það eflir innra starf flokksins og ólík sjónarmið koma fram.
Flokksþingið okkar er á næsta ári. Mikilvægt er að vel takist til og undirbúningur verði góður svo slá megi öflugan upptakt með spennandi málefnum og umræðum sem býr okkur sem best fyrir sveitarstjórnarkosningarnar. Félögin vítt og breitt um landið þurfa að halda áfram að virkja sína kraftmiklu, jákvæðu og hugmyndaríku einstaklinga svo að sem flestir í grasrótinni komi sínum hugsjónum að.
Hvetjum okkar fólk til þátttöku og notum tímann til að efla grasrótarstarfið þannig að við höldum áfram að eflast og styrkjast. Þannig getum við nálgast fólk með því að benda á hvað skiptir máli í hverju samfélagi svo hver og einn sjái og finni að um trúverðug mál sé að ræða sem skipta samfélagið máli.
Þá getum við fengið þingmenn á fundi til að koma með innlegg og sitja fyrir svörum úr sal. Hver fundur þarf að hafa markmið um að skila einhverri afurð sem við vinnum síðan út frá.
Því langar mig að segja að lokum, tökum nú höndum saman og höldum áfram að efla starf flokksins. Nýtum tímann vel svo að við getum haldið áfram að vinna að okkar góðu málum.
Ég þakka kærlega fyrir frábæra mætingu, þátttöku og skemmtilega samveru um leið og ég bið miðstjórn leyfis að fara fyrr vegna viðræðnanna. Góðar stundir.“