Categories
Fréttir

Leikskólavist verði háð því að börn séu bólusett

Deila grein

18/03/2019

Leikskólavist verði háð því að börn séu bólusett

Sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknarflokks í Borgarbyggð lögðu fram tillögu á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar, fimmtudaginn 14. mars, þess efni að foreldrum barna á leikskólaaldri verði gert að láta bólusetja börn sín, vilji þau fá dagvistunarpláss fyrir þau á leikskólum í sveitarfélaginu. Var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar að vísa tillögunni til byggðarráðs og velferðarnefndar.
Tillagan í heild sinni hljóðaði svo:
„Fulltrúar Framsóknarflokksins minna á að bólusetningum barna er ætlað að verja börn gegn alvarlegum smitsjúkdómum. Öllum börnum með lögheimili hér á landi stendur til boða bólusetning gjaldfrjálst. Fulltrúar Framsóknarflokksins leggja til að frá haustinu 2019 verði samþykki fyrir dagvistun í leikskólum Borgarbyggðar háð því að foreldrar eða forráðamenn framvísi skírteini sem staðfestir að börn hafi verið bólusett samkvæmt því skipulagi sem sóttvarnarlæknir leggur fram. Undirrituð óska eftir því að efni bókunarinnar verði vísað inn í byggðarráð til frekari umræðu.“

Categories
Fréttir

Ísland nýtur góðs af alþjóðasamstarfi eins og Schengen

Deila grein

18/03/2019

Ísland nýtur góðs af alþjóðasamstarfi eins og Schengen

Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi Schengen-samstarfið í umræðum á Alþingi á dögunum. „Ísland hóf þátttöku í Schengen-samstarfinu þann 25. mars árið 2001, fyrir 18 árum. Mikil fjölgun ferðamanna hefur orðið til og frá landinu á þeim tíma, auk mikilla breytinga á komu flóttafólks og hælisleitenda til landsins. Þótt dregið hafi úr ferðamannastraumnum undanfarið, eða hann a.m.k. ekki aukist, er ljóst að verkefnin fram undan eru krefjandi ef við ætlum að uppfylla þær kröfur sem til okkar eru gerðar. Einnig tölum við mikið um á hinu háa Alþingi að fjölga gáttum inn í landið og dreifa ferðamönnum betur um landið, að þeir komi víðar við. Það kallar á enn frekari aðgerðir af hálfu stjórnvalda til að tryggja eftirlit og öryggi við landamæravörslu óháð þróun Schengen-samstarfsins,“ sagði Ásgerður.
Schengen-samstarfið felur í grundvallaratriðum í tvennu, annars vegar afnámi persónubundins eftirlits á innri landamærum Schengen-ríkja og hins vegar mótvægisaðgerðum, sem felast einkum í samræmdum reglum um eftirlit á ytri landamærum Schengen-svæðisins og samvinnu lögregluliða meðal þátttökuríkjanna, þar á meðal rekstri Schengen-upplýsingakerfisins, til að tryggja öryggi borgara á Schengen-svæðinu.
Ræða Ásgerðar K. Gylfadóttur á Alþingi 5. mars 2019:

„Það er nokkuð ljóst að fámenn eyja eins og Ísland nýtur á margan hátt góðs af því að vera í alþjóðasamstarfi eins og Schengen,“ sagði Ásgerður.
„Skýrslan er mjög greinargóð og gefur góða mynd af þeim verkefnum og áskorunum sem felast í samstarfinu. Segja má að kostir og gallar samstarfsins kristallist í sama atriðinu, eins og hefur komið fram í ræðum annarra þingmanna, þ.e. frjálsri för fólks innan svæðisins þar sem almennir ferðamenn njóta þess að sæta ekki landamæraeftirliti við hver og ein landamæri þátttökuríkjanna, en á sama tíma má segja að skipulagðir glæpahópar hafi stærra aðgerðasvæði, geti aukið umsvif sín og stundað afbrot yfir landamæri.“

Categories
Fréttir

Hveragerði kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030

Deila grein

18/03/2019

Hveragerði kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030

Jóhanna Ýr Jóhannsdóttir, varabæjarfulltrúi, Frjálsra með Framsókn í Hveragerði, segir í yfirlýsingu 16. mars að hún hafi á fundi bæjarstjórnar síðastliðinn fimmtudag lagt fram tillögu „frá Frjálsum með Framsókn um kolefnisjöfnun biðreiða í eigu sveitarfélagsins.“ Skemmst er frá því að segja að undirtektir voru mjög góðar við tillögu Jóhönnu Ýrar í bæjarstjórninni.
„Það var ánægjulegt að bæjarstjórnin í Hveragerði vill ganga enn lengra í þessum efnum og hefur sett sér markmið um kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030,“ segir Jóhanna Ýr.
Var tillaga Frjálsra með Framsókn samþykkt með áorðnum breytingum:
„Hveragerði setji sér markmið um að verða kolefnishlutlaust sveitarfélag árið 2030. Umhverfisnefnd verði falið að undirbúa gerð loftslagsstefnu fyrir Hveragerðisbæ og það hvernig fylgja megi henni efir með gerð aðgerðaráætlunar um hvernig bærinn hyggst ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2030.

Greinargerð:

Sveitarfélög landsins bera ríka ábyrgð á því hvort Ísland nái að uppfylla skuldbindingar sínar í Parísasamkomulaginu um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030.
Með því að setja sér markmið um kolefnishlutlaust sveitarfélag fyrir 2030 myndi Hveragerði skipa sér í fremstu röð þeirra sveitarfélaga sem þegar hafa ákveðið að axla samfélagslega ábyrgð og setja sér markmið um kolefnishlutleysi fyrir árið 2040.“

Categories
Fréttir

Verslum íslenskt grænmeti og kjötafurðir

Deila grein

12/03/2019

Verslum íslenskt grænmeti og kjötafurðir

Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar, segir í yfirlýsingu 6. mars, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi samþykkti með 9 atkvæðum að vísa tillögu „vegna væntanlegs útboðs á skólamat, [skuli] lögð sérstök áhersla á verslun með íslensk matvæli þar sem því verður við komið hverju sinni, sérstaklega verslun með íslenskt grænmeti og kjötafurðir,“ til nánari útfærslu hjá innkaupastjóra og fræðsluþjónustu. „Auk þess verði gerð krafa á væntanlegan rekstaraðila um skýra upplýsingagjöf er varðar uppruna, innihaldslýsingar og framleiðsluhætti þeirra vara sem boðið er upp á. Þar má horfa til ýmissa opinberra gæðamerkinga, svo sem Skráargatsins og fleira,“ segir ennfremur í yfirlýsingunni.
Ágúst Bjarni segir ennfremur, „[i]nnkaupastjóra og fræðsluþjónustu er falið að útfæra nánar og skila tillögum til fræðsluráðs svo fljótt sem verða má. Í vinnu þessari skal horfa sérstaklega til nýrra laga um opinber innkaup frá árinu 2016 ásamt innkaupa-, heilsu- og umhverfisstefnu Hafnarfjarðarbæjar þar sem m.a. er lögð áhersla á heilnæmi matvæla, jafnan aðgang að hollri fæðu á stofnunum bæjarins og umhverfisvottaðar vörur. Með áherslu á matvæli sem framleidd eru sem næst neytandanum, svokallaða staðbundna framleiðslu, er auðveldara að koma til móts við auknar kröfur um gæði, hreinleika og umhverfisvernd.“

Categories
Fréttir

Hvenær geta einstæðir foreldrar aflað tekna?

Deila grein

11/03/2019

Hvenær geta einstæðir foreldrar aflað tekna?

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, fór yfir í umræðu um efnahagslega stöðu íslenskra barna á Alþingi í síðustu viku, mikilvægi þessa „að lægstu launin hækki og að hærri hluti grunnlaunanna fáist á dagvinnutíma, því að það er tíminn sem einstæðir foreldrar geta aflað tekna.“
Í skýrslu er gerð var fyrir Velferðarvaktina og var kynnt á dögunum, en félagsfræðingurinn Kolbeinn Stefánsson vann þá skýrslu, „segir okkur að börn einstæðra foreldra og öryrkja búi við lökust lífskjör á Íslandi, þó að lífskjör barna á Íslandi séu á heildina litið góð, sem betur fer, í samanburði við flest önnur Evrópulönd. En það er óviðunandi að einhver börn búi við fátækt hér og við eigum að setja það í algjöran forgang að bæta lífskjör barna fram yfir alla aðra hópa,“ sagði Líneik Anna.
Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 7. mars 2019.

„Í skýrslunni er tillögum eða leiðum til úrbóta skipt í þrennt; tekjur, fjölskylda, laun, og tilfærslukerfi hins opinbera til að bæta lífskjör og draga úr fátækt og að síðustu opinber þjónusta sem getur aukið jöfnuð.“
„Hins vegar langar mig að stoppa við fæðingarorlofið. Við ræðum oft um lengingu þess og hámarksgreiðslur, en gólfið, lágmarksgreiðslurnar, er það sem setur suma foreldra, unga foreldra, í mjög erfiða stöðu strax á fyrstu mánuðum þess tíma sem þau eru foreldrar,“ sagði Líneik Anna.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, var viðstaddur kynningu á skýrslunni og sagði m.a. við það tækifæri:
„Skýrslan dregur upp þá mynd að staða barna hafi því miður dregist hvað mest aftur úr á þeim árum sem hún tekur til. Það er slæmt til þess að líta að einn viðkvæmasti hópur þjóðfélagsins hafi dregist aftur úr í lífskjörum umfram aðra hópa og er skýrslan sterk áskorun um að leggja töluvert meiri áherslu á þennan hóp enda er hann framtíð landsins. Börnin hafa ekki eins sterka rödd til þess að berjast fyrir eigin réttindum svo það þurfum við sem eldri erum að gera fyrir þau.“
Jafnframt sagði Ásmundur Einar, „[é]g þakka fyrir skýrsluna, en hún er mikilvægt innlegg í starfið sem er framundan í málefnum barna. Málefni barna hafa nú fengið veglegri sess í félagsmálaráðuneytinu. Það er ófullnægjandi að börn búi við fátækt og ójöfnuð og mun vinnan í málefnum barna sem framundan er taka mið af þeim upplýsingum sem fyrir liggja í skýrslunni.“

Categories
Fréttir

„Stórt skref í rétta átt!“

Deila grein

07/03/2019

„Stórt skref í rétta átt!“

Birkir Jón Jónsson, formaður bæjarráðs Kópavogsbæjar, segir frá í yfirlýsing í dag að á fundi bæjarráðs í morgun hafi verið tekið fyrir svar heilbrigðisráðuneytisins vegna fyrirhugaðar stækkunar á hjúkrunarheimilinu við Boðaþing 11-13. Ráðuneytið lýsir sig þar reiðubúið til viðræðna um að Kópavogsbær taki verkefni yfir. Af því tilefni bókaði bæjarráð eftirfarandi:
„Bæjarráð fagnar því að heilbrigðisráðuneytið sé reiðubúið í viðræður um að Kópavogsbær taki yfir byggingu 64 hjúkrunarrýma við Boðaþing. Bæjarráð felur bæjarstjóra að ganga til samninga við ráðuneytið.“
„Framsókn í Kópavogi hefur haft þetta sem forgangsmál og lagt til að Kópavogur taki verkefnið yfir enda þannig hægt að flýta verkinu umtalsvert. Þetta er stórt skref í rétta átt og nú er bara að vona að viðræðurnar gangi vel,“ segir í yfirlýsingunni.
„Stórt skref í rétta átt“, segir Birkir Jón Jónsson.

Categories
Fréttir

„Metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins“

Deila grein

07/03/2019

„Metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins“

„Virðulegur forseti. Meiri hluti landsmanna er andvígur því að slakað verði á reglum um innflutning á ferskum matvælum, samkvæmt könnun sem Zenter rannsóknir unnu fyrir Fréttablaðið og fjallað er um í blaðinu í dag og á vef þess. Það kemur ekkert sérstaklega á óvart að andstaðan er meiri á landsbyggðinni en á suðvesturhorninu þar sem návígið við framleiðsluna er meira. Bann við innflutningi á hráu kjöti og ferskum matvælum snýst um sérstöðu Íslands til framtíðar. Framtíðarhagsmunir íslensks samfélags eru undir. Þeir hagsmunir eru miklu stærri en hagsmunir einstakra stétta í nútíðinni,“ sagði Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, í ræðu í störfum þingsins á Alþingi í vikunni.
Ræða Ásgerðar K. Gylfadóttur, varaþingmanns, á Aþingi 5. mars 2019.

„Varðandi viðskiptaþáttinn er íslenskur markaður lítill í alþjóðlegum samanburði og vega því hagsmunir okkar þyngra í heildarsamhenginu. Það ætti að vera metnaður okkar Íslendinga að berjast fyrir sjálfbærni landsins og auknu matvælaöryggi. Það er ekki hræðsluáróður að benda á að heilbrigði búfjárstofna á Íslandi er með því besta sem gerist í heiminum og notkun sýklalyfja í landbúnaði með því minnsta sem þekkist.
Ræktum landið, verndum þá sérstöðu sem við höfum hér í heilbrigði búfjárstofna og leggjum þar inn á loftslagsreikninginn sem framtíðarkynslóðir kalla eftir að við sinnum betur en nú er gert.“

Categories
Fréttir

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

Deila grein

07/03/2019

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á“

„Kennsla er fagið sem öll önnur fagmennska grundvallast á. Ef við stefnum að því að eiga framúrskarandi vísindamenn, listamenn, frumkvöðla, blaðamenn, múrara, íþróttafólk, viðskiptafræðinga, stjórnmálafræðinga eða stýrimenn þurfum við að eiga góða kennara. Fagmennska kennaranna – elja, trú og ástríða er það sem stuðlar að framförum fyrir okkur öll,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, í grein í Morgunblaðinu 6. mars.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í vikunni fyrstu aðgerðirnar sem ráðist verður í til þess að mæta þessum áskorunum. Launað starfsnám mun, frá og með næsta hausti, standa nemendum til boða sem eru á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi. Þá geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi einnig sótt um námsstyrki, frá og með næsta hausti. Í þriðja og síðasta lagi styrki til starfandi kennara vegna náms í starfstengdri leiðsögn.
„Ef ekkert er að gert blasir grafalvarleg staða við okkur. Ef miðað er við óhagstæðustu sviðsmynd mannfjöldaþróunar og óbreyttan fjölda útskrifaðra grunnskólakennara gera spár okkar ráð fyrir að manna þurfi tæplega 1.200 kennarastöður í grunnskólum með starfsfólki án kennsluréttinda eftir fjögur ár, 2023. Þá yrði hlutfall starfsfólks starfandi við kennslu án kennsluréttinda 23% en samsvarandi hlutfall var 8,6% árið 2017. Ljóst er að þegar vantar leikskólakennara í um 1.800 stöðugildi til þess að uppfylla ákvæði laga um hlutfall fagmenntaðra leikskólakennara.“
„Stjórnvöld leggja ríka áherslu á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Í stjórnarsáttmálanum er sérstaklega kveðið á um mikilvægi þess stuðla að viðurkenningu á störfum kennara og efla faglegt sjálfstæði þeirra. Einnig er þar áréttað að til að bregðast megi við yfirvofandi skorti á kennurum hér á landi þurfi ríki, sveitarfélög og stéttarfélög að vinna vel saman.“
Grein Lilju Daggar Alfreðsdóttur má lesa í heild sinni hér.

Categories
Fréttir

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

Deila grein

06/03/2019

Fagna áformum um fjölgun lögreglumanna

„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir að koma málefnum lögreglunnar á dagskrá í þinginu og hæstv. dómsmálaráðherra fyrir að vera til svara. Eins og fram hefur komið gegnir lögreglan lykilhlutverki í öryggis- og viðbragðskerfi samfélagsins. Lögreglan er ein af grunnstoðum ríkisins og því fagna ég áformum um framlagningu og innleiðingu löggæsluáætlunar sem hæstv. ráðherra minntist á í ræðu sinni,“ sagði Þórunn Egilsdóttir, alþingismaður, í ræðu, í sérstakri umræðu um málefni lögreglunnar, á Alþingi í gær.
Ræða Þórunnar Egilsdóttur, alþingismanns, á Alþingi.

„Skilgreining á öryggis- og þjónustustigi er mikilvæg til að átta sig á eðli og umfangi lögreglustarfsins og öll áform um gagnsæi á kostnaðarliðum eru af hinu góða en verkefnin eru fjölbreytt og miskostnaðarsöm.
Einn kostnaðarliður er rekstur bíla, en ég veit til þess að unnið er að endurskipulagningu í bílamálum. Það er afar mikilvægt og í raun stóra málið að því er mér er sagt. Finni menn leiðir til að ná kostnaði niður getur svigrúm til sýnilegrar löggæslu aukist verulega.
Allt kunnáttufólk á sviði löggæslu sem ég hef rætt við leggur áherslu á mikilvægi sýnilegrar öryggisgæslu. Auðvelt er að benda á átak á norðvestursvæði sem fólst í aukinni umferðargæslu og sýnileika. Það skilaði sér í 26% fækkun umferðarslysa. Sýnileikinn þarf ekki eingöngu að vera á stofnvegum heldur líka inni í hverfum, í þéttbýli, á ferðamannastöðum, á hálendinu og í miðbæ Reykjavíkur. Það er mikilvægt að lögreglumaðurinn þekki hverfið sitt, fólkið sitt og svæðið sem hann sinnir. Til að þetta gangi eftir vantar aukið fjármagn og fleira fólk. Því fagna ég öllum áformum um fjölgun lögreglumanna.
Hæstv. forseti. Fyrirkomulagi lögreglunáms hefur verið breytt og enn er eitthvað í að við sjáum hvernig það kemur út. En nú eru kynjahlutföll í fyrsta skipti jöfn í skólanum og spennandi verður að sjá hvort og þá hverju það breytir. En um allt land erum við svo heppin að hafa gott fólk sem er að gera sitt besta og kannski má segja að fólk sé að vinna kraftaverk oft og tíðum undir afar miklu álagi.“

Categories
Fréttir

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

Deila grein

06/03/2019

Endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi

„Virðulegi forseti. Mikil áhersla ríkisstjórnarinnar á málefni barna er farin að birtast með ýmsu móti, m.a. með nýlegri samþykkt um aukna þátttöku barna og ungmenna í stefnumótun stjórnvalda og að allar stærri ákvarðanir og lagafrumvörp skuli rýnd út frá áhrifum á stöðu og réttindi barna,“ sagði Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins á Alþingi í dag.
 Ræða Líneikar Önnu Sævarsdóttur, alþingismanns, á Alþingi 6. mars 2019.

„Nú er unnið að stefnumótun í málefnum barna á vegum félagsmálaráðuneytisins undir forystu þverpólitískrar nefndar þingmanna sem starfa með fagfólki og notendum kerfisins. Vinnan gengur út á endurskoðun barnaverndarlaga og endurskoðun á félagslegri umgjörð og stuðningi við börn á Íslandi með áherslu á snemmtæka íhlutun og samvinnu kerfa eins og skóla, heilsugæslu, félagsþjónustu, lögreglu, dómskerfis og almannaheillafélaga, svo eitthvað sé nefnt. Nefndin hefur nú þegar fundað níu sinnum og samhliða vinna opnir hópar sem í starfar fólk með þekkingu og reynslu af málefnum barna. Markmiðið er að fá sem flesta að borðinu til að reyna að ná heildarsýn í því hvernig eigi að stuðla að velferð barna á Íslandi og tryggja að þau og fjölskyldur þeirra fái stuðning og þjónustu við hæfi á hverjum tíma. Hliðarhóparnir munu svo á næstu vikum og mánuðum skila tillögum til þingmannanefndarinnar. Þá eru fyrirhugaðir opnir fundir á síðari stigum vinnunnar og áætlað er að halda stærri ráðstefnu á vormánuðum. Einnig hefur tekið til starfa stýrihópur Stjórnarráðsins í málefnum barna með aðkomu Sambands íslenskra sveitarfélaga til að samhæfa betur starfið og tryggja framgang þeirra ákvarðana sem teknar verða.
Nýlega sendi félags- og barnamálaráðherra út bréf til fjölda fólks til að kynna verkefnið og hvetja þá sem vilja leggja sitt af mörkum til vinnunnar að kynna sér málið og nýta sér tækifærin til að koma sjónarmiðum á framfæri, hvort sem er í vinnuhópum, með ábendingum til nefndarinnar eða á opnum fundum.“