Categories
Greinar

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

Deila grein

01/04/2016

Jóhönnustjórnin – Stjórnarskrá ver kröfuhafa!

ásmundurÍ Kastljósi í gærkvöldi ræddu Vigdís Hauksdóttir og Steingrímur J. Sigfússon um endurreisn bankanna í tíð síðustu ríkisstjórnar. Steingrímur lét að því liggja að ekki væri ástæða til að fara ofan í það hvernig staðið var að endurreisn bankanna á síðasta kjörtímabili þar sem komið hefði út sérstök skýrsla um endurreisn bankanna og farið hefði fram umræða um hana á Alþingi. Ég man vel eftir þessari umræðu vegna þess að hún fór fram 1. júní 2011, en það var daginn sem ég gekk til liðs við Framsóknarflokkinn.

En hvað var sagt við umræður um áðurnefnda skýrslu?

Lilja Mósesdóttir sem á síðasta kjörtímabili var ein af okkar öflugustu þingmönnum þegar kom að efnahagsmálum og baráttunni við erlenda kröfuhafa hafði m.a. þetta að segja í þessari umræðum:

„…Þegar ég ákvað stuttu fyrir kosningar 2009 að bjóða mig fram fyrir hönd Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs trúði ég að forystu VG væri best treystandi til að reisa við efnahagslífið með hagsmuni almennings að leiðarljósi. Aldrei grunaði mig að formaður VG myndi ásamt forystu Samfylkingarinnar verða uppvís að því að gæta hagsmuna erlendra kröfuhafa, eins og Breta, Hollendinga og vogunarsjóða, í Icesave-málinu og nú við endurreisn bankakerfisins….Skjaldborg um bankanna skapar ekki velferð og hagvöxt. Það gerir hins vegar skjaldborg um heimilin og fyrirtækin. Endurreisn bankakerfis á forsendum vogunarsjóða en ekki hagsmuna almennings er vinstri stjórn til ævarandi skammar…“

Í þessari umræðu spurði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þáverandi fjármálaráðherra Steingrím J. Sigfússon að eftirfarandi spurningu:

„…Hefði ekki verið ráð að nota tækifærið sem gafst á meðan þessi eignasöfn voru lágt metin á heimsmarkaðsverði og láta íslenskan almenning og fyrirtæki njóta góðs af því, þau áttu inni vegna þeirra áhrifa sem efnahagskrísan hafði valdið?“

Þá svaraði Steingrímur J. Sigfússon þáverandi fjármálaráðherra :

„…Ég veit ekki hversu rækilega þarf að reyna að útskýra að slíkt sé ekki hægt í svona ferli þegar menn verða að ganga út frá grundvallarreglunum sem ég hef farið yfir hér, þegar stjórnarskrá er í gildi þar sem eignarréttur er til staðar og varinn og verndaður og þegar stjórnvöld í ofanálag hafa heitið því að viðhafa sanngjarna málsmeðferð í svona uppgjöri….“

Skýrara verður það ekki. Jöhönnustjórnin taldi að ekki væri hægt að gera það sem Framsóknarflokkurinn vildi gera. Það var nefnilega búið að lofa kröfuhöfum „sanngjörnu“ uppgjöri!!

Er nema von að Árni Páll Árnason formaður Samfylkingarinnar hafi nýverið skrifað bréf til flokksmanna þar sem hann sagði m.a. að forgangsröðun í þágu kröfuhafa hafi verið ein af mistökum síðasta kjörtímabils. Er ekki kominn tími til að fá öll spilin á borðið og kanna hvað það var sem réði för þegar farið var gegn almenningi og kröfuhöfum lofað að ekki yrði tekið á þeim?

Ríkistjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks snéri strax af þessari braut. Byrjað var á því að afnema undanþágu fallinna fjármálafyrirtækja frá því að greiða bankaskatt og í framhaldinu hófst vinna sem miðaði að því að innlendar eignir þrotabúanna yrðu afhentar Íslendingum. Það er sérstakt að hlusta á þingmenn úr röðum núverandi stjórnarandstöðu setja uppgjör ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks við kröfuhafana sem eina af ástæðum þingrofstillögu sinnar. Umræðurnar verða hinsvegar kærkominn vettvangur til að ræða breytta stefnu og þá staðreynd að erlendir kröfuhafar eru að færa ríkissjóði hundruði milljarða. Nokkuð sem kallað var poppúlismi fyrir síðustu kosningar.

Ásmundur Einar Daðason

Greinin birtist á https://blog.pressan.is/asmundurd 1. apríl 2016.

Categories
Greinar

Um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi

Deila grein

30/03/2016

Um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi

frosti_SRGBFrá því fjármálakreppan skall á hefur krafan um aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi verið talsvert áberandi. Fjöldi sérfræðinga og nefnda í mörgum löndum hafa fjallað um málið en niðurstaðan hefur ekki verið einhlít um hve langt þurfi ganga í aðskilnaði. Lögum og reglum hefur verið breytt til að draga úr áhættu í bankarekstri og efla fjármálastöðugleika en hvergi hefur verið ráðist í að aðskilja viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi enn sem komið er.

Rökin fyrir aðskilnaði
Fjárfestingabankastarfsemi getur verið bæði arðbærari og áhættusamari en hefðbundin viðskiptabankastarfsemi. Áhætta í fjárfestingabankastarfsemi er þó fyrst og fremst áhyggjuefni eigenda fjárfestingabankans en ekki ríkisins.

Öðru máli gegnir um viðskiptabanka því þeir njóta ríkisábyrgðar eins og útskýrt verður síðar í þessari grein. Áhættan í rekstri viðskiptabanka er því ekki einkamál eigenda bankans. Fjöldi dæma í mörgum löndum sýna að tjón af gjaldþroti viðskiptabanka lendir jafnan á ríkinu og tjónið getur verið gríðarmikið ef bankinn er stór.

Hagsmunir ríkisins felast í því að takmarka áhættu í rekstri viðskiptabanka en hagsmunir hluthafa og lykilstjórnenda lúta aftur á móti að því að hámarka arðsemi bankans. Til þess þarf iðulega að taka nokkra áhættu. Ríkið þarf því að setja viðskiptabönkum mjög skýrar reglur til að takmarka áhættuna, beitt virku eftirliti og ströngum  viðurlögum. Með því að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingabankastarfsemi verða skilin skýr og eftirlitið auðveldara í framkvæmd.

En það eru fleiri rök nefnd fyrir aðskilnaði viðskiptabanka og fjárfestingabanka. Um leið og viðskiptabanki hefur fjárfestingastarfsemi skapast hætta á því að hagsmunir banka og innstæðuhafa fari ekki saman í tilteknum verkefnum. Hætta á hagsmunaárekstrum kallar á meiri reglur og eftirlit en það veldur auknum kostnaði. Einfaldara og öruggara væri að skilja á milli.

Einnig eru nefnd þau rök að viðskiptabankar sem njóta ríkisábyrgðar, njóti þar með óeðlilegs forskots í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki sem ekki njóta ríkisábyrgðar.

Að lokum hefur verið bent á að fái bankar að stunda blandaðan rekstur geti þeir orðið mun stærri en annars væri. Því stærri sem viðskiptabanki er þegar hann fellur, því meira getur tjón ríkisjóðs orðið.

Rökin gegn aðskilnaði
london
Það hafa verið færð ýmis rök gegn aðskilnaði. Bent hefur verið á að fjármagnskostnaður við fjárfestingastarfsemi muni aukast við aðskilnað frá viðskiptabanka. Eftir aðskilnað fær fjárfestingabankahlutinn ekki lengur aðgang að ódýru fjármagni í formi innstæðna og verður því að fjármagna sig á kjörum sem bjóðast á markaði. Vextir á innstæðum eru jafnan umtalsvert lægri en markaðskjörin, aðallega vegna þess að innstæður eru óbundnar og taldar njóta ríkisábyrgðar þegar á reynir.

Aukinn fjármagnskostnaður eru þó varla gild rök gegn aðskilnaði nema hægt sé að sýna fram á að fjárfestingabankastarfsemi eigi tilkall til ríkisábyrgðar á fjármögnun sinni en það hefur ekki verið sýnt fram á neitt slíkt.

Stærðarhagkvæmni getur vissulega tapast ef viðskiptabankar mættu  ekki stunda fjárfestingastarfsemi. En á móti má spyrja hvort það sé skylda ríkisins að axla verulega áhættu svo að bankar geti náð stærðarhagkvæmni. Hér á landi virðist fákeppni á bankamarkaði vera meira aðkallandi vandamál en skortur á stærðarhagkvæmni. Þrír stórir bankar ráða yfir 90% af markaðinum og við slíkar aðstæður er alls óvíst að aukin stærðarhagkvæmni myndi skila sér í bættum kjörum til neytenda.

Einnig er bent á að í stað aðskilnaðar ætti að leggja áherslu á betra regluverk, bætt siðferði í bankarekstri og virkara eftirlit. Setja eigi upp „girðingar” innan alhliða banka til að hindra að innstæður verði notaðar til að fjármagna fjárfestingabankastarfsemi og til að draga úr freistnivanda. Eflaust yrði þetta allt til bóta en áhætta ríkisins verður þó áfram til staðar og reglurnar og eftirlit getur brugðist. Blandaðir bankar geta líka orðið stærri en góðu hófi gegnir.

Að lokum er bent á að innlendir bankar þurfi að geta keppt við erlenda alhliða banka og því óæskilegt að íþyngja innlendum bönkum með löggjöf sem er strangari eða frábrugðin því sem tíðkast á EES svæðinu. Á móti má segja að viðskiptabankastarfsemi sé fremur staðbundin. Hún byggir að mestu leiti á því að taka við innlánum í krónum og veita lán í krónum til einstaklinga og fyrirtækja sem starfa hér. Erlendir bankar hafa ekki sýnt mikinn áhuga á þeirri starfsemi. En þeir hafa vissulega lánað til íslenskra fyrirtækja sem hafa erlendar tekjur og eru lánshæf í erlendri mynt. Erlendu bankarnir eru margfalt stærri en íslenskir bankar og fjármagnskostnaður þeirra er og verður líklega ávallt lægri en íslenskra banka. Þótt ríkissjóður Íslands standi að bönkunum í dag hefur það ekki nægt þeim til að undirbjóða erlenda banka í erlendum lánum. Það myndi því litlu breyta þótt ríkisábyrgðin hætti að bakka upp fjárfestingastarfsemi íslenskra banka.

Hvers vegna er ríkisábyrgð á viðskiptabönkum?
Það er vissulega mjög óheppilegt að viðskiptabankar njóti ríkisábyrgðar en það er því miður óumflýjanleg staðreynd eins og dæmin sanna.

Meginástæðan fyrir umræddri ríkisábyrgð liggur í því að starfsemi stórra viðskiptabanka er of mikilvæg fyrir samfélagið til að mega stöðvast en hin meginástæðan felst í því að fall eins viðskiptabanka getur komið af stað keðjuverkun sem fellt getur fleiri viðskiptabanka. Tjón af rekstrarstöðvun eins viðskiptabanka gæti þannig orðið margfalt meira en kostnaður ríkisins af því að bjarga bankanum. Þegar á reynir, kjósa ríkisstjórnir því að koma viðskiptabönkum til bjargar jafnvel þótt það kunni að kosta ríkissjóð og skattgreiðendur stórfé.

Skuldir viðskiptabankanna (innstæður) eru uppistaðan í greiðslumiðli landsins. Í stað þess að nota seðla og mynt sem greiðslumiðil í viðskiptum eru viðskipti að mestu gerð upp með millifærslum á milli bankareikninga. Það er því ljóst að nútíma samfélög reiða sig á að viðskiptabankar séu ávallt greiðslufærir. Annars væri ekki hægt að nota innstæður til greiðslu á nokkrum hlut. Truflanir á greiðslumiðlun þyrftu ekki að standa lengi til að verulegt tjón hlytist af.

Það er einnig staðreynd að viðskiptabankar eiga ekki nægilegt laust fé til að greiða út allar innstæður. Vakni grunsemdir um að banki sé kominn í vandræði getur hafist kapphlaup milli innstæðuhafanna um að taka út innstæður sínar. Til að mæta auknum úttektum þarf bankinn að losa um fé t.d. með sölu verðbréfa. Svo salan gangi hratt þarf bankinn að taka á sig veruleg afföll og jafnvel tap. Við það geta eiginfjárhlutföll hans fallið niður fyrir tilskilin lágmörk. Stóraukið söluframboð á verðbréfum getur leitt til verðlækkana á  verðbréfamarkaði sem hefði neikvæð áhrif á eiginfjárstöðu fleiri banka sem þá gætu einnig orðið fyrir áhlaupum. Þar sem kerfið er svona óstöðugt að upplagi, getur jafnvel tilefnislaust slúður um vandamál hjá einum banka komið af stað keðjuverkun sem leiðir til vanda hjá heilbrigðum bönkum og jafnvel leitt til falls alls bankakerfisins.

Ríkisstjórn sem stendur frammi fyrir sviðsmynd eins og hér var lýst mun ávallt telja þann kost skárri að stöðva áhlaup banka. Það er jafnan gert með því að lýsa yfir ríkisábyrgð á öllum innstæðum auk þess sem gripið er til annarra aðgerða. Hinn valkosturinn, að leyfa vandanum að breiðast út, yrði vafalaust margfalt dýrari fyrir samfélagið og ekki síst ríkissjóð.

En hvað með tryggingasjóð  innstæðueigenda og fjárfesta (TIF)?
Hér á landi er TIF sjálfseignarstofnun  sem starfar án formlegrar ábyrgðar ríkisins. Árið 2014 greiddu bankarnir iðgjöld í TIF sem námu 3,1 mia. kr. Eignir sjóðsins námu kr. 14,7 mia í lok sama árs.  Til að setja TIF sjóðinn í samhengi, námu innlán stóru viðskiptabankanna þriggja frá viðskiptavinum alls um 1.536 mia. kr. í árslok 2014 og af þeim voru um 70% laus innan 30 daga. Heildarfjárhæð innlána sem fellur að einhverjum hluta undir TIF nam samtals um 1.163 mia. kr. TIF sjóðurinn verður því líklega seint nógu stór til að afstýra áhlaupi á stóran banka hér á landi og því mun það áfram koma í hlut ríkisins að lýsa yfir fullri ríkisábyrgð á innstæðum.

Screen Shot 2016-03-28 at 15.31.03Það má rifja upp að þann 6. október árið 2008 taldi ríkisstjórn Íslands nauðsynlegt að gefa út eftirfarandi yfirlýsingu:

„Innstæður í innlendum  viðskiptabönkum og útibúum þeirra hér á landi verða tryggðar að fullu”.

Á þessum tímapunkti var áhlaup innstæðuhafa á bankana í fullum gangi og segir sagan að birgðir viðskiptabankana  og Seðlabankans af peningaseðlum hafi verið nánast tæmdar.

Hefur nóg verið gert til að draga úr hættunni?
Eftir hrun hefur lögum og reglum ítrekað verið breytt m.a. til að draga úr áhættu í rekstri banka og má þar meðal annars telja að kröfur um eigið fé hafa verið auknar verulega og reglur um kaupaukakerfi hafa verið hertar. Fjármálaeftirlitið hefur líka fengið auknar eftirlitsheimildir. Nú er haldin sérstök skrá um stærri lántakendur. Heimildir banka til að eiga eigin hluti hafa verið þrengdar og bann lagt við lánum með veði í eigin hlutum banka. Þröngar skorður eru nú við lánveitingum

til stjórnarmanna, lykilstjórnenda og virkra eigenda. Reglur um stórar áhættuskuldbindingar hafa verið hertar. Kröfur um hæfi stjórnarmanna hafa verið auknar og ábyrgð þeirra aukin. Ákvæði um lausafjáráhættu hafa verið hert. Viðurlög við brotum hafa verið hert og hægt að beina þeim bæði að fyrirtækjum og þeim sem bera ábyrgð.

Þessar breytingar eru allar til bóta en breyta því ekki að ríkið er í ábyrgð fyrir innlánum viðskiptabankanna. Eftir sem áður stunda íslenskir viðskiptabankar áhættusama fjárfestingabankastarfsemi á ábyrgð ríkisins. Enn eru bankarnir of stórir og njóta um leið óeðlilegs forskots í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki vegna ríkisábyrgðar á innstæðum. Þessi vandamál verða ekki leyst nema viðskiptabönkum verði óheimilt að sinna fjárfestingastarfsemi.

Er einhver hreyfing á málinu?
Í október 2012 skilaði svokallaður þriggja manna hópur, skipaður Gavin Bingham, Jóni Sigurðssyni og Kaarlo Jännäri skýrslu til stjórnvalda sem bar yfirskriftina: Heildarumgjörð um fjármálastöðugleika á Íslandi. Hópurinn lagði til margvíslegar tillögur að úrbótum  og meðal annars að „unnt verði að aðgreina mikilvægustu rekstrarþætti,  svo sem fjárfestingar- og viðskiptabankastarfsemi, við skilameðferð, og athugað verði gaumgæfilega hvort krefjast skuli lagalegs aðskilnaðar tiltekinna sérlegra áhættusamra starfsþátta frá þeim rekstri bankanna sem tekur við innlánum ef þeir starfsþættir eru verulegur hluti af rekstri banka.”

Alþingi hefur sýnt málefninu áhuga. Allt frá árinu 2003 hafa þingmenn lagt fram þingsályktunartillögur  sem miða að aðskilnaði viðskipta- og fjárfestingabanka. Nýjasta þingsályktun  þessa efnis var lögð fram í september 2015 af Ögmundi Jónassyni ásamt sjö þingmönnum. Því miður hefur tillagan ekki komist til fyrstu umræðu en haustið 2012 komst sambærileg tillaga til efnahags- og viðskiptanefndar sem ályktaði einróma að ráðherra ætti að skipa nefnd til að kanna hvort og þá með hvaða hætti megi aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingarbanka með það að markmiði að lágmarka áhættuna af rekstri banka fyrir þjóðarbúið. Þrátt fyrir góða samstöðu  í nefndinni dagaði málið uppi í þinginu.

Í umsögn Fjármálaeftirlitsins um tillöguna stendur meðal annars:

„Það er ekki til þess fallið að styrkja ímynd og traust íslenskra fjármálafyrirtækja, ef þau starfa samkvæmt lögum sem fela í sér veruleg frávik frá þeirri löggjöf sem er í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. … Í því samhengi má nefna að fjármálafyrirtæki með höfuðstöðvar utan Íslands, sem bjóða þjónustu sína hér á landi í samræmi við starfsleyfi heimalands síns, myndu að öllum líkindum ekki þurfa að lúta sérákvæðum íslenskra laga ef í þeim felast veruleg frávik frá evrópskri fjármálalöggjöf. Þetta gæti skekkt samkeppnisstöðu íslenskra fjármálafyrirtækja.”

Síðan þessi umsögn var sett fram hefur margt breyst og hugsanlega mætti nú, ekki síst í ljósi vandamála fjármálakerfis Evrópska efnahagssvæðisins, efast um að regluverk EES sé til þess fallið að styrkja ímynd Íslands.

Hvað varðar samkeppnisstöðuna, virðast erlendir stórbankar nú þegar hafa nokkra yfirburði í erlendum lánum til íslenskra útflutningsfyrirtækja og þótt viðskiptabönkum verði bannað að stunda fjárfestingabankastarfsemi mun það vart breyta öðru en því að áhætta ríkisins myndi minnka verulega.

Í umsögn Seðlabanka stendur meðal annars:

„Ekki má útiloka að nefndin gæti komist að þeirri niðurstöðu að einhverjar takmarkanir, á starfsemi innlánsstofnana séu æskilegar, en ekki fullur aðskilnaður hefðbundinnar starfsemi viðskipta- og fjárfestingarbanka. Almennt snýst viðfangsefnið um að koma í veg fyrir að þau almannagæði sem eru hluti af bankakerfinu, þ.e. greiðslumiðlun og aðgangur hins almenna manns að lausum innstæðum, verði ekki sett í hættu eða jafnvel tekin í gíslingu stöðutöku  og veðmála bankanna sjálfra.  Til þess kunna að vera margar leiðir og ekki endilega víst að aðskilnaður viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarstarfsemi sé sú besta.”

Seðlabankinn virðist á því að það beri að kanna til þrautar allar aðrar leiðir áður en gripið verði til þess úrræðis að banna viðskiptabönkum að stunda áhættusama fjárfestingastarfsemi á ábyrgð ríkissjóðs. Þetta má teljast nokkuð sérkennileg afstaða í ljósi þess að Seðlabankanum ber lögum samkvæmt að stuðla að fjármálastöðugleika í landinu.

Screen Shot 2016-03-28 at 15.18.27Greinilegt er að meðal háskólamanna eru skoðanir skiptar. Á fundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga þann 17. nóvember 2015 flutti Ásgeir Jónsson, dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, fróðlegt erindi um kosti og galla aðskilnaðar. Niðurstaða hans var sú að alger aðskilnaður væri illmögulegur í reynd. Hann fæli í sér mikinn kostnað og óvissan ábata.

Már Wolfgang Mixa, aðjúnkt í fjármálum við Háskólann í Reykjavík, hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að aðskilja beri rekstur innlánsstofnana, sem njóta ríkisábyrgðar, frá annarri fjármálaþjónustu. Fjárfestingabankar eigi ekki að geta fjármagnað áhættusöm verkefni sín með ríkistryggðum innlánum eins og nú er. Fjárfestar sem njóti alls ávinnings af vel heppnuðum fjárfestingum eigi líka að bera alla áhættuna þegar verr gengur.

Elizabeth-Warren-TimeÍ Bandaríkjunum er öldungadeildarþingmennirnir Elisabeth Warren, John McCain og forsetaframbjóðandinn Bernie Sanders meðal flutningsmanna lagafrumvarps sem gengur undir heitinu „21st Century Glass- Steagall Act of 2015”. Frumvarpinu, sem var fyrst lagt fram árið 2013, er ætlað að draga úr áhættu í fjármálakerfinu með því að banna viðskiptabönkum að taka þátt í tiltekinni áhættusamri starfsemi og einnig að draga úr hagsmunaárekstrum. Í frumvarpinu má finna rök fyrir aðskilnaði og nánari útfærslur á því hvað viðskiptabönkum yrði heimilt og óheimilt að fást við.

Ísland gæti þurft að bíða lengi eftir því að Bandaríkin, Bretland eða Evrópusambandið leggi til aðskilnað viðskiptabanka- og fjárfestingabankastarfsemi. Hagsmunir stórra banka standa gegn því að skiptingin verði færð í lög og þessir bankar hafa ótal erindreka á sínum snærum sem tala um fyrir stjórnvöldum í þessum ríkjum. Líklega þarf stærra fjármálahrun áður en stjórnvöld í þessum ríkjum taka af skarið.

Að mínu mati vega rökin fyrir því að banna viðskiptabönkum að stunda fjárfestingabankastarfsemi mun þyngra en mótrökin. Með fullum aðskilnaði væri komið í veg fyrir að ríkissjóður sé í ábyrgð fyrir áhættusömum fjárfestingabankaverkefnum. Auk þess myndi draga úr hagsmunaárekstrum, samkeppni yrði jafnari og bankar sem nú eru of stórir myndu minnka.

Frosti Sigurjónsson

Greinin birtist í Þjóðmálum í mars 2016.

Categories
Greinar

Nánast ekkert

Deila grein

30/03/2016

Nánast ekkert

ÞórunnÍsland er í einstakri stöðu. Atvinnuþátttaka hefur sjaldan verið jafn mikil og nú. Í raun hefur atvinnuleysi ekki verið minna síðan árið 2008 og getur jafnvel farið niður í eitt til tvö prósent í sumar þegar störfum innan ferðaþjónustunnar fjölgar.

Í heildina hafa skapast um 15.000 ný störf á Íslandi frá árinu 2013. Þar hafa störf innan ferðaþjónustunnar sitt að segja en innan hennar hafa á síðustu fimm árum, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, orðið til 7.500 ný störf. Fram kemur í Félagsvísum 2015 að samhliða fjölgun starfa fækkar þeim sem atvinnulausir eru. Árið 2014 voru atvinnuleitendur 9.300 á móti 13.700 árið 2010 þegar afleiðingar efnahagshrunsins fóru að skila sér af fullum þunga. Til marks um að við höfum rétt úr kútnum má benda á að langtímaatvinnuleysi minnkar ört. Milli áranna 2013 og 2014 fækkaði körlum sem höfðu leitað vinnu í tólf mánuði eða lengur um helming eða úr 1,2 prósentum í 0,6 prósent. Hlutfall kvenna lækkaði úr 1,0 prósenti í 0,7 prósent.

Atvinnutækifærum fjölgar og fjölbreytni starfa eykst. Vöntun á störfum eru ekki okkar helstu áhyggjur í dag heldur miklu fremur þær að fólk vanti til að sinna þeim. Í raun er staðan þannig að flestum, sem vilja og getu hafa, stendur starf til boða.

Stöðugleikinn sem náðst hefur skapar störf. En tölurnar hér að ofan eru hvorki sjálfsagðar né sjálfsprottnar. Á þessu kjörtímabili hefur ríkisstjórnin lagt áherslu á að efla þrótt samfélagsins og skapa skilyrði til verðmætasköpunar, til að mynda með lækkun skatta og tryggingargjalds og auknum stuðningi við nýsköpun. Með jafnvægi í ríkisfjármálum, ábyrgri áætlun um losun hafta og ábyrgri hagstjórn hefur myndast aukinn stöðugleiki á Íslandi. Sá stöðugleiki skapar skilyrði fyrir fyrirtækin til aukinna fjárfestinga sem aftur skapa svo fleiri störf.

Grunnforsenda velferðarsamfélags er atvinna. Við viljum að fólk geti valið sér fjölbreyttar leiðir í lífinu og hafi kost á að sinna þeim störfum sem það helst kýs. Það er mikilvægt að stjórnvöld hverju sinni séu meðvituð um nauðsyn þess að styðja við fjölbreytt og vaxandi atvinnulíf. Nú gengur vel og því mikilvægt að halda einbeitingunni. Stefnan er sú að sækja ávallt fram.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Fréttablaðinu 30. mars 2016.

Categories
Greinar

Saman gegn sóun

Deila grein

24/03/2016

Saman gegn sóun

sigrunmagnusdottir-vefmyndBetri nýtni og góð umgengni eru kjörorð mín sem umhverfis- og auðlindaráðherra. Með hliðsjón af þeim hefur matarsóun verið rauður þráður í starfi ráðuneytisins síðustu mánuði. Matarsóun veldur álagi á umhverfið og er áætlað að um 5% heildarlosunar Íslendinga á kolefni eigi rætur að rekja til matarsóunar. Því er eðlilegt að matarsóun sé liður í Sóknaráætlun í loftslagsmálum og er ráðgert að Umhverfisstofnun hafi fjórar milljónir á ári næstu þrjú árin til að vinna að þessum þætti.

En sóun á öðrum sviðum er jafnframt vandamál hér á landi. Á dögunum kynnti ég stefnuna Saman gegn sóun, sem fjallar um hvernig við getum bætt auðlindanýtingu og spornað gegn sóun. Um tímamót er að ræða því í fyrsta skipti er slík stefna sett fram af hálfu stjórnvalda.

Hlutir endast betur og lengur ef dagleg umgengni um þá er góð. Við jarðarbúar berum mikla ábyrgð. Hófsöm nýting auðlinda þarf að vera í fyrirrúmi til að búa í haginn fyrir komandi kynslóðir. Með réttu hugarfari og væntumþykju fyrir náttúrunni þurfum við að sporna gegn sóun á öllum sviðum og virkja ímyndunaraflið í þágu nýrra hugmynda sem geta leitt til framleiðslu á öðrum og nýjum hlutum úr þeim gömlu. Mikilvægt að hafa í huga að hvert og eitt okkar getur lagt sitt af mörkum. Mögulegt verður að sækja um styrki sem tengjast markmiðum stefnunnar í verkefnasjóð ráðuneytisins.

Lítum okkur nær 
Við getum breytt ýmsu í daglegu lífi okkar í því skyni að draga úr sóun. Sem dæmi má nefna endurnýtanlegar umbúðir í stað einnota. Neikvæð umhverfisáhrif af völdum einnota umbúða, ekki síst plasts, eru allt um kring og grafalvarleg. Hvert og eitt okkar þarf að líta í eigin barm og huga að umhverfisvænum lausnum í daglegu lífi.

Spennandi tækifæri eru framundan við að virkja kraft nýsköpunar og skapa græn störf. Fjárfestar þurfa í auknum mæli að huga að því hvernig þeir geta tekið þátt í að þróa græna framtíð svo fyrirtæki og einstaklingar geti lagt meira af mörkum til umhverfismála. Lokatakmarkið er að enginn úrgangur myndist og að allar vörur séu að öllu leyti endurvinnanlegar. Þannig helst stöðug hringrás efna og orku í náttúrunni sem tryggir hringrás auðlindanna.

Stefnan 
Í stefnunni Saman gegn sóun er sérstök áhersla lögð á níu flokka. Matarsóun, plast og textíll verða í forgangi hvert um sig tvö ár í senn og verður matarsóun í brennidepli næstu tvö árin.

Fræðsla er lykilþáttur í því að breyta hugarfari. Ánægjulegt er að á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar, meðal annars í samstarfi við Ísland, hefur verið gefið út námsefni fyrir miðstig grunnskóla um auðlindanýtni og hvernig forðast má sóun. Námsefnið er sett fram á skemmtilegan hátt, til dæmis kemur fram að þegar upp er staðið hafa farið um 175 lítrar af vatni til að laga kaffi í einn bolla.

Jákvæð viðbrögð 
Það er sannarlega ánægjulegt og hvetjandi að skynja jákvæð viðbrögð og vilja samfélagsins til að draga úr matarsóun. Tillögur starfshóps ráðuneytisins um matarsóun hafa fengið góðan hljómgrunn og má m.a. nefna viðhorfskönnun meðal landsmanna um matarsóun, nýja vefgátt, matarsoun.is, og rannsókn á matarsóun er í undirbúningi. Þá hafa félagasamtök lagt hönd á plóg, m.a. með námskeiðum. Með nýju kerfi strikamerkja sjá framleiðendur og verslanir möguleika á að draga úr matarsóun og auka neytendaöryggi. Ánægjulegt hefur verið að fylgjast með stofnunum og vinnustöðum sem hafa tekið til hendinni og dregið úr matarsóun. Sem dæmi má nefna Landspítalann sem ég veitti umhverfisviðurkenningu ráðuneytisins fyrir að hafa minnkað matarsóun um 40% síðustu ár. Allt eru þetta mikilvæg skref í þá átt að forðast matarsóun.

Saman gegn sóun til framtíðar 
Ég hef hugleitt hvaða leiðir við Íslendingar ættum að velja. Hvort við ættum að hafa til hliðsjónar lögin í Frakklandi sem banna að matvælum sé hent eða virkja allt samfélagið eins og Danir hafa gert. Það síðarnefnda hugnast mér betur. Stefnan Saman gegn sóun á að vera sameiginlegt leiðarljós okkar allra til að stemma stigu við hverskonar sóun.

Stefnuna má nálgast á: uar.is/frettir/saman-gegn-soun-stefna-um-urgangsforvarnir-2016-2027

Sigrún Magnúsdóttir

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. mars 2016.

Categories
Greinar

Hver hefur staðið vörð um íslenska hagsmuni?

Deila grein

23/03/2016

Hver hefur staðið vörð um íslenska hagsmuni?

ÞórunnÞað hefur verið ansi merkilegt að fylgjast með umræðunni síðustu viku. Mörg misgáfuleg ummæli hafa verið látin falla um hæfi forsætisráðherra. Í þeirri umræðu eru menn uppteknir af fjárhag eiginkonu hans.  Ég velti því fyrir mér hvar við erum í raun stödd í jafnréttisumræðu þegar hjón eru gerð að einni manneskju þegar  kemur að fjárhag og sjálfstæði. Er það ekki skortur á jafnrétti?  Það er rétt að eiginkona forsætisráðherra er sterkefnuð kona og hefur sú staðreynd lengi legið ljós fyrir. Hvað hún gerir við auð sinn kemur mér bara ekki við svo lengi sem skattar eru greiddir til íslenska ríkisins. Það hefur verið gert og er staðfest opinberlega af endurskoðanda KPMG.

Annað sem ég velti fyrir mér er hvort það sé ekki kostur að einstaklingur sem leiðir þjóðina sé fjárhagslega sjálfstæður, engum háður og því ekki hætta á að hann gangi erinda peningaafla í þjóðfélaginu?

Innkoma Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í pólítik byggðist á vilja hans til vinna gegn því óréttlæti sem skapaðis við hrunið.  Það er kannski allt í lagi að rifja þetta upp og benda á að hans stærsta áherslumál hefur ávallt verið uppgjör föllnu bankanna og að tryggja það að tap fjármálafyrirtækjanna færðist ekki yfir á íslenskan almenning.

Sigmundur Davíð hefur gengið manna harðast gegn kröfuhöfum og hefur ekkert gefið eftir. Það liggur ljóst fyrir að eiginkona hans tapaði fjárhagslega við framgöngu hans en þjóðin stórgræddi. Undir forystu hans var samþykkt stöðugleikaframlag sem mun færa ríkissjóði um 500 milljarða, beint eða óbeint. Þetta ásamt mörgum fleiri aðgerðum ríkisstjórinnar gerir okkur nú í raun kleift að ræða og fara í alvöru uppbyggingu innviða í samfélaginu. Það verkefni er orðið mjög aðkallandi og gott að geta hafist handa við það.

Ég er nú ekki frá því að staðfestan sem Sigmundur Davíð hefur sýnt, þrátt fyrir háværar úrtöluraddir á köflum,  hafi heldur betur sannað sig. Hann verður seint sakaður um að hafa farið vettlingatökum um kröfuhafa eða gengið eigin erinda. Því treysti ég honum manna best til þess að standa vörð um íslenskt efnahagslíf.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, 23. mars 2016.

Categories
Greinar

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Deila grein

21/03/2016

Framsóknarkarl á kvennaráðstefnu

Þorsteinn-sæmundssonHvað rekur framsóknarkarl um sextugt til að sækja Kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna á eigin vegum? Það eru allnokkrar ástæður fyrir því. Í 11 ár starfaði ég með lögregluliðinu á Keflavíkurflugvelli og varð þá vitni að tilraunum til mansals sem upp komst um á Vellinum. Ég er líka eiginmaður, sonur, tengdasonur og faðir, tengdafaðir og afi. Ég á tvo vel menntaða syni sem eru allir vegir færir, á tvær hæfileikaríkar, vel menntaðar tengdadætur sem ég vil að njóti öll sömu réttinda og fái jöfn tækifæri. Ég er líka stoltur afi þriggja afastelpna og tveggja afadrengja. Ég vil leggja mitt af mörkum til að þau njóti öll sömu réttinda í lífinu. Ég vil líka gera allt sem ég get til að tryggja að barnabörnin mín og öll önnur börn sæti aldrei misnotkun í nokkurri mynd.

Síðan ég hóf störf á opinberum vettvangi hefur mér oft blöskrað hvaða niðurstöðu kynferðisbrotamál fá í dómskerfinu. Það sýnir sig einnig í þeirri staðreynd að í fyrra fjölgaði skjólstæðingum Stígamóta en kærum til lögreglu vegna kynferðisafbrota fækkaði. Ég vil gera það sem í mínu valdi stendur til að hafa áhrif til bóta í þessum málaflokki. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við.

Kynning sú sem fulltrúar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, fulltrúar Stígamóta og ungur íslenskur rithöfundur stóðu fyrir á Kvennaráðstefnunni í New York sl. fimmtudag var stórkostleg og vakti verulega athygli.

Það er haft á orði hér að menn leggi einkum við hlustir á alþjóðavettvangi þegar fulltrúar Íslendinga taka til máls í þrem málaflokkum. Í málefnum sem tengjast hafinu, málefnum tengdum uppblæstri og málefnum kvenna. Það er greinilegt af því sem maður heyrir hér að Íslendingar hafa og geta víða lagt gott til í jafnréttisbaráttunni og til að hafa áhrif á það skelfilega ofbeldi sem víða tíðkast gagnvart konum. Nokkrar hugrakkar konur hafa stigið fram hér á ráðstefnunni og lýst reynslu sinni. Ein sagði frá misþyrmingu á kynfærum við umskurð, önnur sagði frá því er maður sem hún neitaði að giftast hellti yfir hana sýru þannig að hún var um tíma skinnlaus á 95% líkamans og lá lengi milli heims og helju. Sú hefur undirgengist á fimmta tug aðgerða síðan hún varð fyrir árásinni. Óhugnanleg var líka saga konu sem upplifði barn að aldri að ættingjar föður hennar eltu móður hennar með barsmíðum þar sem hún hafði ekki fætt son. Þá er ótalið að á hverjum degi eru 39 þúsund stúlkur á aldrinum 5-15 ára giftar eldri mönnum. Já, lesandi góður, 39 þúsund börn á hverjum degi. Þessar stúlkur verða margar hverjar barnshafandi löngu áður en þær hafa þroska til og látast margar þeirra á meðgöngu, í fæðingu eða rétt eftir barnsburð. Sumar þeirra örkumlast af erfiðleikum í fæðingu og lifa við útskúfun alla ævi. Enn eru ótalin barnsrán og viðskipti með börn. Ein stúlka hér á ráðstefnunni var um skeið í nauðungarvist hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Hún lifði þar við misnotkun og annað ofbeldi. Saga hennar var sláandi. Innan samtakanna ganga stúlkur kaupum og sölum. Sama má segja um börn af báðum kynjum í Indlandi sem seld eru eins og hver önnur verslunarvara. Þá er ótalinn launa- og kjaramunurinn, lífeyrir heimavinnandi kvenna og fleira af sama meiði. Það er efni í aðra grein. Ef litið er til brota gegn konum og stúlkum, hvort sem það er heimilisofbeldi, kynferðisleg misnotkun eða önnur ofbeldisbrot, eru karlmenn brotlegir í langflestum tilfellum. Það stendur því upp á okkur karlmenn að taka til í okkar ranni og snúa öfugþróuninni við. Nóg eru verkefnin sem bíða okkar, hvort sem við erum í stjórnmálum eða á öðrum vettvangi við að bæta umhverfi kvenna heima hjá okkur og einnig á alþjóðavísu.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2016.

 

 

Categories
Greinar

Af ógæfufólki í íslenskri pólitík

Deila grein

21/03/2016

Af ógæfufólki í íslenskri pólitík

Þorsteinn-sæmundssonÉg hef fylgst með atburðum á Íslandi undanfarna daga úr fjarlægð.  Ég verð að viðurkenna að mér blöskrar umræðan sem nú fer fram um eiginkonu forsætisráðherra og eignir hennar.  Sá sem hóf umræðuna veit reyndar ekki hvað nauðasamningur er eins og fram kom í umræðum um stöðugleikaframlög á Alþingi Íslendinga.  Samt situr hann í bankastjórn Seðlabankans.  Sá sem hóf umræðuna veit heldur ekki muninn á kröfuhafa og innistæðueiganda ef dæma má af málflutningi hans.  Samt situr hann í bankastjórn Seðlabankans.  Þó nokkuð vandræðaleg staðreynd en þó meira alvarleg.

Umræða undanfarinna daga er nokkur nýjung í íslenskri stjórnmálaumræðu.  Í þrjú ár hafa nokkrir stjórnmálamenn sem voru til í að leggja klyfjar á íslenska þjóð til frambúðar lagt sig fram um að ófrægja forsætisráðherra sem leiddi flokk sinn til sigurs á grundvelli loforða sem síðan hafa verið efnd hvert af öðru.

M.a. kom forsætisráðherra ekki bara í veg fyrir að klyfjar ófrægingarmanna yrðu lagðir á þjóðina heldur leystu stöðugleikasamningar svo vel að eftir er tekið.  Reyndar svo vel að Ísland hefur ekki staðið jafnvel síðan á síldarárunum upp úr miðri síðustu öld.  Sá vaski samningamaður Lee Bucheit segir á þá leið að  ,,Sú niðurstaða sem náðist varðandi uppgjör slitabúa gömlu bankanna, þar sem kröfuhafar samþykktu að framselja til íslenskra stjórnvalda án endurgjalds innlendar eignir sem eru metnar á mörg hundruð milljarða króna, er fordæmalaus í alþjóðlegri fjármálasögu“

Ófrægingarmönnum virðast sárna þessi staðreynd kannski vegna þess að þeir höfðu ekki kjark og þor til að ráðast til atlögu við kröfuhafa.  Ófrægingarmennirnir þola ekki að forsætisráðherra á alla kosti sem þá skortir.  Hann á framsýni kjark og dug sem þeir eiga ekki.  Þess vegna hefur þetta ógæfufólk hamast á forsætisráðherra hvern dag í þrjú ár en auðvitað án árangurs því niðurrifið og hælbitin efla Sigmund Davíð í hverri raun.  Hvað tekur ófrægingarliðið þá til bragðs?  Jú, það skrifar nýjan kafla í lágkúruumræðu sinni með því að beina spjótum sínum að eiginkonu forsætisráðherra vegna þess að hún á eignir.  Og hvað haldiði nema þau fái ekki í lið með sér hjárænulegan Sjálfstæðisþingmann sem er í vandræðum með sjálfsmynd sína.  Það eru tíðindi að Sjálfstæðisþingmaður láti vinstrið siga sér eins og rakka vegna einhverrar minnimáttakenndar.

Það hefur lengi verið alþekkt staðreynd að eiginkona forsætisráðherra er velefnuð. Það er einnig lýðum ljóst hvernig eignirnar eru til komnar. Það hefur aldrei hvílt leynd yfir þessari staðreynd.  Það liggur fyrir að skattar hafa verið greiddir á Íslandi vegna þessara eigna alla tíð.  Það liggur fyrir að eiginkona forstætisráðherra hefur ef eitthvað er tapað eignum vegna þeirra aðgerða sem eiginmaður hennar hefur staðið fyrir.  En hælbítarnir gefast ekki upp enda eru pólísk samtök þeirra við það að þurrkast út. Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem fylgst hefur með framgöngu þeirra undanfarin ár.

Spurningin sem uppúr stendur er samt þessi:  Viljum við að íslensk stjórnmálaumræða snúist um fjölskyldumeðlimi stjórnmálamanna? Fjölskyldumeðlimi sem eru ekki þátttakendur í stjórnmálum.  Þurfa stjórnmálamenn framvegist að gera ráð fyrir því að fjölskyldur þeirra verði fyrir áreiti og dylgjum vegna þess að makinn er í pólitík? Mitt svar er nei. Til þess að svo megi verða þarf ógæfufólkið í pólitík að gaumgæfa vel framgöngu sína.

Þorsteinn Sæmundsson

Greinin birtist á www.visir.is 21. mars 2016.

Categories
Greinar

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Deila grein

18/03/2016

Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í New York – CSW60

Þorsteinn-sæmundssonÉg er staddur á kvennaráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin er af UN Women í New York.

Það er mikil upplifun að koma á ráðstefnuna og hér eru þúsundir fulltrúa úr öllum heimshornum, konur eru í miklum meirihluta. Dagskráin er svo viðamikil og viðburðir svo margir að segja má að fyrir hvern einn sem maður sækir missi maður af tíu öðrum. Allir sem sækja ráðstefnuna hafa því meira en nóg að gera þá daga sem hún stendur. Þessi ráðstefna er sú sextugasta sem haldin er og sú síðasta sem fram fer í stjórnartíð Ban Ki-moon, aðalframkvæmdastjóra SÞ. Í setningarræðu sinni í upphafi ráðstefnunnar sagðist Ban Ki-moon hafa skipað 150 konur í stjórnunarstöður á starfstíma sínum. Hann lagði mikla áherslu á að ábyrgð þeirra sem sæktu ráðstefnuna væri sú að fylgja fram stefnunni um aukið jafnrétti, að koma í veg fyrir ofbeldi gegn konum í hverri mynd sem er, til að tryggja að árangur yrði af starfinu hér. Geta má þess að nú er þegar farið að hvíslast á um eftirmann Ban Ki-moon. Sagt er að nú sé komið að Austur-Evrópu að skipa í starfið. Einnig er rætt um að nú sé kominn tími til að kjósa konu sem aðalritara SÞ. Allavega er ljóst að mikið mun ganga á áður en niðurstaða fæst um það.

Síðastliðinn mánudag var dagskrá þar sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra, var í pallborði ásamt nokkrum öðrum og stóð sig vel. Á fundum eins og þessum kemur í ljós hversu mikils metið framlag Íslendinga til jafnréttismála er. Feðraorlofið sem tekið var upp í tíð Páls Péturssonar var mjög lofað á fundinum. Mörg ríki, þ.á.m. sum nágrannaríki okkar, hafa þó ekki treyst sér til að hrinda slíku orlofi í framkvæmd með sama hætti og gert hefur verið á Íslandi.

Á kvennaráðstefnunni koma fram ótal sjónarmið og lýsingar á kjörum kvenna og stúlkna í hinum ýmsu löndum. Það er ekki laust við að maður hrökkvi við þegar aðstæðum kvenna og stúlkna, t.d. í Afríku og Asíu, er lýst. Þá er einnig ljóst að hefðir annarra menningarheima flytjast til hins vestræna heims með vaxandi fólksflutningum. Átaks er þörf til að koma í veg fyrir limlestingar á stúlkum til þess að standa við fyrirheit SÞ um betra ástand árið 2030 sem er aðeins fimmtán ár í burtu. Við þörfum öll að leggja okkar lóð á vogarskálina til þess að tryggja jafna stöðu kvenna og karla í heiminum.

Þorsteinn Sæmundsson.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. mars 2016.

Categories
Greinar

Lygilegur jöfnuður?

Deila grein

16/03/2016

Lygilegur jöfnuður?

Karl_SRGBÍsland á Evrópumet í jafnri dreifingu launa. Raunar dreifðust tekjur jafnar milli fólks hér á landi árið 2014 en nokkru sinni hefur sést síðan mælingar hófust árið 2004. Þetta kemur fram, bæði í félagsvísum 2015 og lífskjararannsókn Hagstofunnar 2015. Samkvæmt alþjóðlegum samanburði OECD er Ísland einnig skilgreint sem hálaunaland. Samkvæmt gögnum OECD eru meðaltekjur á Íslandi næst hæstar á Norðurlöndunum og því er nær sanni að segja að Ísland sé hálaunaland, þegar litið er til kaupmáttar. Sífellt fækkar í hópi þeirra landsmanna sem hafa tekjur undir lágtekjumörkum og atvinnuþátttaka eykst. Þetta er í raun lygileg staða og ótrúlegur árangur.

Það er að sjálfsögðu ánægjulegt að sjá aukinn jöfnuð í samfélaginu, en það er ekki þar með sagt að við viljum að allir séu á sömu launum, fyrir ólík störf. Það er grundvallaratriði að við metum menntun og ábyrgð til launa. Að öðrum kosti væri hvatinn fyrir menntun minni og erfitt gæti reynst að fá starfsmenn til að taka á sig aukna ábyrgð, með tilheyrandi álagi og auknu vinnuframlagi.

Þrátt fyrir góða stöðu Íslands og íbúa landsins eigum við að geta gert enn betur. Hlutfall Íslendinga sem er undir lágtekjumörkum hefur vissulega dregist saman á milli ára en 8% er enn of hátt. Ísland er ríkt af auðlindum og tækifærum til að bæta hag þeirra sem minna hafa. Við þurfum að hlúa að þeim tækifærum og vera duglegri að nýta þau.

Það er hins vegar áhyggjuefni að þrátt fyrir að tekjujöfnuður sé að aukast og kaupmáttur orðinn meiri, þá upplifir þjóðin það ekki svo að á Íslandi ríki jöfnuður. Sú upplifun er raunveruleg en snýr mun fremur að skiptingu auðs og arðs, fremur en launaumslaginu. Þegar fréttir á borð við himinháar arðgreiðslur úr tryggingarfélögum til hluthafa og gríðarlegar launahækkanir forstjóra berast dag eftir dag, er það ekkert skrítið. Þar þarf ríkið að sinna sínu hlutverki betur, að sinna hagsmunum neytenda.

Það má gera betur í mörgum málum. En það má líka gleðjast yfir því sem gott er. Stundum er líka nauðsynlegt að við minnum okkur á hversu gott við raunverulega höfum það, þó með þann metnað að leiðarljósi að ávallt er hægt að sækja lengra fram.

Karl Garðarsson

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. mars 2016.

Categories
Greinar

Nýtni

Deila grein

16/03/2016

Nýtni

ÞórunnEitt sinn kunnu nánast allir leiðir til að nýta matvæli sem best og okkur þótti eðlilegt að borða afganga. Á tímabili hurfu menn frá þessu því heimilishald breyttist í takt við þjóðfélagið og hraða þess. Tími til matarundirbúnings varð minni og áherslurnar breyttust. Þetta leiddi til þess ástands sem við stöndum frammi fyrir núna þegar matarúrgangur er stór hluti heimilissorps. Mál sem varða úrgang fá stöðugt meira vægi vegna aukinna kvaða um meðhöndlun hans. Vissulega hafa íbúar margra sveitarfélaga náð miklum árangri á þessu sviði en þrátt fyrir það vantar enn þó nokkuð upp á að við Íslendingar stöndumst samanburð við þær þjóðir Evrópu sem lengst hafa náð.

Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá sl. ári segir að matarsóun leiði til hærra matarverðs. Þar kemur einnig fram mikilvægi þess að bregðast við þeirri sóun á ferskum matvælum sem núverandi fyrirkomulag hefur í för með sér. Velta má fyrir sér hvort ástæða er til að breyta reglum um ferskar vörur sem skilað er til birgja eftir að þær hafa verið á boðstólum í verslunum. Benda má á að í Frakklandi taka brátt gildi lög sem skylda alla í virðiskeðjunni til að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir matarsóun. Matvöruverslunum af tiltekinni stærð þar í landi verður bannað að henda óseldum mat og verður þeim skylt að gera samning við góðgerðarfélög til að auðvelda matargjafir. Þessa leið fara Frakkar.

Við stöndum frammi fyrir áskorun sem snýr að því að ganga betur um auðlindir okkar, sporna við offramleiðslu og notkun á ónauðsynlegum varningi.

Um síðustu áramót lagði umhverfis- og auðlindaráðherra fram fyrstu almennu stefnuna um minnkun á sóun. Hún ber heitið Saman gegn sóun og gildir til 2027. Markmið hennar er að minnka úrgang og bæta nýtingu auðlindanna. Það verður spennandi að fylgjast með kynningu hennar á Hallveigarstöðum nk. fimmtudagsmorgun og sjá hvernig hún fléttast saman við tillögur starfshóps um úrbætur um matarsóun. Nú þurfum við að leggjast á eitt og finna okkar leið.

Þórunn Egilsdóttir

Greinin birtist á www.visir.is 16. mars 2016.