Categories
Fréttir Greinar

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Deila grein

29/03/2025

Auðlindir Íslands og jarðakaup erlendra aðila

Nú á dög­un­um mælti ég ásamt þing­flokki Fram­sókn­ar fyr­ir þings­álykt­un um að tak­marka jarðakaup er­lendra aðila. Til­lög­unni er ætlað að tryggja lang­tíma­hags­muni Íslands með því að verja auðlind­ir þjóðar­inn­ar fyr­ir of víðtæku eign­ar­haldi er­lendra fyr­ir­tækja og ein­stak­linga.

Alþjóðleg eft­ir­spurn vek­ur spurn­ing­ar um ís­lenskt eign­ar­hald

Í kjöl­far auk­inn­ar alþjóðlegr­ar eft­ir­spurn­ar eft­ir nátt­úru­auðlind­um hef­ur áhugi er­lendra aðila á ís­lensk­um jörðum auk­ist veru­lega. Þetta á sér­stak­lega við um jarðir sem hafa verðmæt vatns­rétt­indi eða aðgang að orku­auðlind­um á borð við jarðhita og vindorku, eða svæði sem eru rík af jarðefn­um. Gott dæmi um slík­an áhuga er ný­leg jarðakaup á Mýr­dalss­andi, þar sem stefnt er að meiri hátt­ar út­flutn­ingi jarðefna.

Upp­haf­lega voru ís­lensk lög um nýt­ingu jarðefna sett í þeim til­gangi að tryggja bænd­um og Vega­gerðinni aðgang að sandi og möl til fram­kvæmda inn­an­lands – ekki til út­flutn­ings. Mark­miðið var aldrei að selja Ísland bók­staf­lega úr landi.

Gæt­um að auðlind­um okk­ar til framtíðar

Til­lag­an ger­ir ráð fyr­ir að at­vinnu­vegaráðherra skipi sér­fræðihóp, í sam­ráði við aðra ráðherra, til að und­ir­búa frum­varp um frek­ari tak­mark­an­ir á jarðakaup­um er­lendra aðila. Mark­mið þess er að tryggja að eign­ar­hald á ís­lensk­um auðlind­um verði áfram að meg­in­stefnu ís­lenskt.

Um leið verði Íslandi áfram haldið opnu fyr­ir alþjóðleg­um viðskipt­um og er­lendri fjár­fest­ingu, en þá frem­ur með nýt­ing­ar­leyf­um en beinu eign­ar­haldi er­lendra aðila á landi og auðlind­um.

Sér­fræðihóp­ur skipaður til að móta skýra stefnu

Í ljósi geopóli­tískra hags­muna og víðtækra framtíðaráhrifa er nauðsyn­legt að stjórn­völd taki af­ger­andi skref til að móta skýra og mark­vissa stefnu á þessu sviði. Sögu­leg­ar bar­átt­ur Íslend­inga fyr­ir eign­ar­haldi á nátt­úru­auðlind­um, svo sem land­helg­is­bar­átt­an og stofn­un Lands­virkj­un­ar, eru góðar fyr­ir­mynd­ir um hvernig tryggja megi lang­tíma­hags­muni þjóðar­inn­ar.

Nýt­ing­ar­leyfi – leið til að laða að er­lenda fjár­fest­ingu án þess að tapa auðlind­um

Þótt alþjóðleg viðskipti séu lyk­ill­inn að vel­meg­un Íslands og mik­il­væg upp­spretta at­vinnu­sköp­un­ar þýðir það ekki að auðlind­ir lands­ins þurfi að selja úr landi án eft­ir­lits. Reynsl­an frá öðrum lönd­um, til dæm­is Ástr­al­íu, sýn­ir að hægt er að laða að er­lenda fjár­fest­ingu með því að veita nýt­ing­ar­leyfi án þess að glata stjórn á auðlind­un­um sjálf­um. Mörg ríki inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa þegar gripið til mun rót­tæk­ari ráðstaf­ana en Ísland til þess að verja land sitt og auðlind­ir.

Stefna til framtíðar

Ljóst er að eign­ar­hald á auðlind­um lands­ins mun gegna lyk­il­hlut­verki við að tryggja efna­hags­lega vel­ferð og sjálf­stæði þjóðar­inn­ar í alþjóðasam­fé­lag­inu. Þings­álykt­un­ar­til­lag­an er því mik­il­væg­ur grunn­ur að ábyrgri auðlinda­stjórn sem get­ur komið í veg fyr­ir að kom­andi kyn­slóðir líti til baka með eft­ir­sjá yfir því hvernig Íslend­ing­ar nú­tím­ans gættu lands­ins okk­ar og auðlinda.

Rækt­um framtíðina og stuðlum að sjálf­bærri nýt­ingu auðlinda lands­ins, styrk­ingu lands­byggðar­inn­ar og öfl­ugri vel­ferð þjóðar­inn­ar til framtíðar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt – sjálfbærni til framtíðar

Deila grein

28/03/2025

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt – sjálfbærni til framtíðar

Í ljósi stór­auk­inna áhrifa lofts­lags­breyt­inga sem leitt hafa til öfga­kennds veðurfars, hækk­andi sjáv­ar­stöðu og hnign­un­ar vist­kerfa á heimsvísu hafa þing­menn Fram­sókn­ar, þau Þór­ar­inn Ingi Pét­urs­son, Halla Hrund Loga­dótt­ir, Ingi­björg Isak­sen, Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Stefán Vagn Stef­áns­son lagt fram þings­álykt­un­ar­til­lögu um þjóðarátak í land­græðslu og skóg­rækt. Til­lag­an fel­ur í sér að um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra komi á sam­starfs­vett­vangi í sam­ráði við at­vinnu­vegaráðherra fyr­ir lok árs 2026, þar sem stjórn­völd, stofn­un­in Land og skóg­ur, bænd­ur, at­vinnu­lífið og al­menn­ing­ur taki hönd­um sam­an um aukna þátt­töku al­menn­ings í kol­efn­is­bind­ingu.

Kol­efn­is­bind­ing og end­ur­heimt vist­kerfa

Mark­mið þessa mik­il­væga þjóðarátaks er að efla kol­efn­is­bind­ingu, hindra jarðvegs­rof og græða upp ör­foka land á Íslandi. Átak­inu er ætlað að byggja á far­sæl­um fyr­ir­mynd­um, svo sem verk­efn­inu „Bænd­ur græða landið“, sem hef­ur verið í gangi síðan 1990 með góðum ár­angri, sem og verk­efn­inu „Land­græðslu­skóg­ar“ sem skóg­rækt­ar­fé­lög lands­ins standa fyr­ir. Þessi verk­efni hafa sannað gildi sitt við að stuðla að land­bót­um og auka vit­und al­menn­ings um mik­il­vægi um­hverf­is­vernd­ar.

Sam­kvæmt til­lög­unni yrði þátt­taka al­menn­ings tvíþætt: ann­ars veg­ar með beinni þátt­töku í land­græðslu og skóg­rækt und­ir hand­leiðslu sér­fræðinga Lands og skóg­ar, og hins veg­ar með kol­efnis­jöfn­un viðskipta í sam­starfi við fyr­ir­tæki. Með auk­inni um­hverfis­vit­und al­menn­ings hef­ur vaxið áhugi hjá fyr­ir­tækj­um á að bjóða viðskipta­vin­um sín­um leiðir til kol­efnis­jöfn­un­ar, og gæti þetta þjóðarátak verið góð leið til að efla slíkt sam­starf.

Sérstaða Íslands í lofts­lags­mál­um og um­hverf­is­vernd

Íslend­ing­ar hafa ein­staka mögu­leika á að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda með end­ur­heimt vist­kerfa, skóg­rækt og land­græðslu vegna sér­stöðu lands­ins. Jarðvegs­eyðing hef­ur verið ein helsta áskor­un í ís­lensk­um um­hverf­is­mál­um og brýnt er að grípa til aðgerða sem stuðla að sjálf­bærri nýt­ingu lands. Jarðveg­ur er mik­il­væg auðlind og for­senda fæðuör­ygg­is, en á sama tíma er jarðvegs­eyðing mik­il ógn á heimsvísu. Til­lag­an sam­ræm­ist aðgerðaáætl­un ís­lenskra stjórn­valda í lofts­lags­mál­um frá 2024 og heims­mark­miðum Sam­einuðu þjóðanna, sér­stak­lega mark­miði nr. 13, um aðgerðir í lofts­lags­mál­um. Hún styður einnig við alþjóðlega samn­inga eins og Par­ís­arsátt­mál­ann, samn­ing Sam­einuðu þjóðanna gegn eyðimerk­ur­mynd­un, samn­inga um líf­fræðilega fjöl­breytni og ramma­samn­ing SÞ um lofts­lags­breyt­ing­ar.

Land og líf – skýr stefna til framtíðar

Árið 2022 gaf ís­lenska ríkið út sína fyrstu sam­eig­in­legu stefnu í land­græðslu og skóg­rækt und­ir heit­inu „Land og líf“, sem set­ur skýra framtíðar­sýn um nauðsyn­lega stefnu og aðgerðir til árs­ins 2026. Sam­hliða þessu hef­ur sam­ein­ing Land­græðslunn­ar og Skóg­rækt­ar­inn­ar í nýju stofn­un­ina Land og skóg styrkt innviði um­hverf­is­vernd­ar og þjón­ustu við bænd­ur og al­menn­ing.

Með þjóðarátaki í land­græðslu og skóg­rækt mun Ísland geta sýnt mik­il­vægt frum­kvæði í alþjóðlegri bar­áttu gegn lofts­lags­breyt­ing­um, en um leið aukið gæði og sjálf­bærni ís­lenskr­ar nátt­úru. Þetta verk­efni mun þannig ekki aðeins hjálpa okk­ur að mæta skuld­bind­ing­um Íslands gagn­vart um­heim­in­um held­ur einnig efla um­hverfis­vit­und þjóðar­inn­ar og tryggja betri framtíð fyr­ir kom­andi kyn­slóðir.

Fram­sækn­ar lausn­ir – sjálf­bærni til framtíðar

Til­lag­an fell­ur vel að öðrum fram­sækn­um áhersl­um Fram­sókn­ar, svo sem hug­mynd­inni „Rækt­um framtíðina“ um kauprétt ungs fólks á jarðnæði, sem hent­ar til mat­væla- og fóður­fram­leiðslu, auk skóg­rækt­ar, þar sem nýliðun í mat­væla­fram­leiðslu er lyk­il­atriði í sjálf­bærri þróun ís­lensks sam­fé­lags. Með því að sam­tvinna þessa þætti – um­hverf­is­vernd, skóg­rækt, sjálf­bæra mat­væla­fram­leiðslu og stuðning við ungt fólk – eru skapaðar raun­hæf­ar leiðir til að treysta byggð á lands­byggðinni, efla nýliðun og tryggja vel­ferð kom­andi kyn­slóða.

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 28. mars 2025.

Categories
Fréttir

Þurfum bráðaaðgerðir vegna raforkuverðs til garðyrkjubænda

Deila grein

27/03/2025

Þurfum bráðaaðgerðir vegna raforkuverðs til garðyrkjubænda

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, kallaði eftir tafarlausum aðgerðum vegna hækkandi raforkuverðs sem leggst þungt á garðyrkjubændur í sérstökum umræðum á Alþingi um orkumál og stöðu garðyrkjubænda. Hún fagnaði aðgerðum ríkisstjórnarinnar en sagði þær ekki duga einar og sér.

„Garðyrkjubændur eru að leggja upp laupana og eru að glíma þessa glímu núna. Það er ekki nóg að hugsa bara um stuðning sem kemur síðar á árinu eða frumvarp sem kemur í haust,“ sagði Halla Hrund. Hún hvatti ráðherra til þess að grípa strax til aðgerða til að létta raforkukostnað garðyrkjubænda.

Halla Hrund fagnaði þó því að sérstaklega væri horft til málefna garðyrkjubænda og undirstrikaði að Ísland hefði mikil tækifæri í samtengingu orkumála og matvælaframleiðslu. „Það er þarna sem Ísland á sín stærstu tækifæri.“ Hún kallaði einnig eftir aukinni samvinnu allra þingmanna um þessi mál frekar en að láta umræðuna snúast einvörðungu um aðgerðir ráðherra eða ríkisstjórnar. „Við erum öll að reyna að leysa þessi mál saman.“

Halla Hrund gagnrýndi skort á skýrri stefnumótun og sagði mikilvægt að ákvarðanir væru teknar með langtímasýn að leiðarljósi, einkum varðandi náttúruvernd, nýsköpun og loftslagsmál. „Viljum við að Ísland verði verbúð fyrir bitcoin eða viljum við fjölbreytt og spennandi framtíð?“ spurði hún. „Við þurfum skýra stefnu og skýra hvata til að ná þeim markmiðum sem við setjum okkur.“

Að lokum hvatti hún þingheim til að stilla saman strengi í orkumálum og vinna saman að lausnum í stað þess að festast í pólitískri togstreitu.

Categories
Fréttir Greinar

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Deila grein

27/03/2025

Bætt skipu­lag fyrir stúdenta

Svæðið í kringum Háskóla Íslands hefur tekið stakkaskiptum á undanförnum árum. Þær breytingar sem þar hafa orðið eru afar jákvæðar, ekki aðeins fyrir háskólasamfélagið og stúdenta heldur einnig fyrir borgina og samfélagið í heild. Háskólar gegna lykilhlutverki í þróun samfélaga með því að stuðla að nýsköpun, efnahagslegum vexti og menntun.

Í kringum Háskóla Íslands hefur byggst upp þorp stúdenta á Stúdentagörðum og háskólasvæðið hefur stækkað t.a.m. með Hótel Sögu sem hýsa á menntavísindasvið og Grósku, sem er miðstöð nýsköpunar. Með vaxandi byggð og fjölgun stúdenta og fyrirtækja á svæðinu er mikilvægt að huga að því að skipulag svæðisins sé notendavænt og öruggt. Stúdentar hafa þá kallað eftir ýmsum úrbótum á svæðinu.

Borgarfulltrúar Framsóknar vilja styðja við áframhaldandi jákvæða þróun háskólasamfélagsins og hafa lagt fram þrjár tillögur í umhverfis- og skipulagsráði sem miða að því að skapa öruggara og notendavænna háskólasvæði.

Bættar almenningssamgöngur frá Háskóla Íslands að lágvöruverslun

Í fyrsta lagi, leggur Framsókn til að því verði beint til Strætó að leiðakerfinu verði breytt þannig að það tryggi aðgengi stúdenta sem búa á stúdentagörðum við Háskóla Íslands að lágvöruverslunum við Granda. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir bættum almenningssamgöngum og að almenningssamgöngur séu raunhæfur valkostur fyrir stúdenta.

Í dag eru almenningssamgöngur við stúdentagarða Félagsstofnunar Stúdenta við Háskóla Íslands ótengdar við lágvöruverslanir. Íbúar svæðisins sækja ýmsa verslun og þjónustu á Granda en þar eru meðal annars staðsettar lágvöruverslanir. Hið sama á við íbúa Vesturbæjar en í því hverfi er ekki rekin lágvöruverslun. Breyting á leiðakerfi strætó á þann veg að strætó stoppi í nálægð við Háskóla Íslands og fari út á Granda myndi bæta aðgengi íbúa svæðisins að þeim verslunarkjarna sem þar hefur byggst upp. Mikilvægt er að bæta aðgengi stúdenta að lágvöruverslun enda er það hópur sem að jafnaði er lágtekjuhópur. Einnig er vert að taka fram að sá hópur sem ferðast minnst með bíl er á aldrinum 18-24 ára en það er jafnframt sá aldurshópur sem ferðast mest með almenningssamgöngum í Reykjavíkurborg samkvæmt ferðavenjukönnun sem gerð var árið 2024. Ef horft er til búsetu kemur þá fram að íbúar Mið- og Vesturbæjar eru ólíklegastir til að ferðast með bíl en líklegastir til að ferðast með almenningssamgöngum samkvæmt sömu könnun.

Bætt strætóskýli við Háskóla Íslands

Í öðru lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar verið falið að vinna tillögur að bættum strætóskýlum við Háskóla Íslands með það að markmiði að bæta upplifun á almenningssamgöngum. Lagt er til að sviðið kanni sérstaklega hvort mögulegt er að hafa þau upphituð á meðan strætó gengur og þannig uppsett að þau veiti aukið skjól frá veðri og vindum. Þá leggjum við áherslu á að í þeirri vinnu verði haft samráð við Stúdentaráð Háskóla Íslands. Íslenskt veðurfar er krefjandi og því er mikilvægt að strætóskýli veiti skjól gegn veðri og vindum á meðan beðið er eftir strætó. Við Háskóla Íslands eru nokkur strætóskýli sem eru mikið notuð af stúdentum sem bíða eftir næsta strætó. Á árum áður var strætóskýli við Háskóla Íslands við Hringbraut upphitað en því var hætt fyrir þó nokkru síðan. Stúdentaráð Háskóla Íslands hefur kallað eftir því að Reykjavíkurborg komi upp upphituðum og skjólgóðum strætóskýlum á Háskólasvæðinu en Stúdentaráð telur að upphituð skýli myndu bæta upplifun stúdenta á almenningssamgöngum og stuðla að frekari notkun þeirra.

Undirgöng á gatnamótum Sæmundargötu og Hringbrautar

Í þriðja lagi, leggur Framsókn til að umhverfis- og skipulagssvið hefji, í samstarfi við Vegagerðina, skipulagningu á undirgöngum undir Hringbraut við gatnamót Sæmundargötu og Hringbrautar. Stúdentaráð hefur kallað eftir auknu öryggi fyrir gangandi vegfarendur við gatnamótin þar sem mikill fjöldi nemenda styttir sér leið yfir Hringbraut á þessum stað. Undirgöng myndu bæði auka öryggi og bæta tengingu fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur sem eru á leið frá Háskóla Íslands í átt að miðbænum. Meirihlutinn hefur hins vegar lagt til að þar verði skipulögð þverun og umferðarljósum komið upp. Slík útfærsla myndi bitna á flæði bílaumferðar inn í Vesturbæ Reykjavíkur og á Seltjarnarnes. Auk þess hefur lögreglan sett sig á móti gönguljósum á þessum stað. Tillagan er því lögð fram til að koma til móts við kröfur stúdenta um göngu- og hjólaleið við gatnamótin og auka öryggi vegfaranda, án þess að það bitni á flæði umferðar.

Við tökum vel á móti öllum ábendingum sem stuðla að bættu skipulagi svæðisins sem og annara svæða í borginni og hvetjum íbúa til að hafa samband við okkur eða borgina í gegnum ábendingavef Reykjavíkurborgar, https://reykjavik.is/abendingar

Aðalsteinn Haukur Sverrisson og Magnea Gná Jóhannsdóttir eru borgarfulltrúar Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 27. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Deila grein

27/03/2025

Lækkar erfitt aðgengi að húsnæði fæðingartíðni?

Ein helsta frétt síðustu viku á Íslandi var sú að frjó­semi hef­ur aldrei verið lægri frá upp­hafi mæl­inga árið 1853. Yf­ir­leitt er miðað við að frjó­semi þurfi að vera um 2,1 barn til að viðhalda mann­fjölda til lengri tíma litið. Árið 2024 var frjó­semi kvenna bú­settra á Íslandi kom­in niður í 1,56.

Svipaða þróun má sjá víða á Norður­lönd­um. Árið 2023 var fjöldi lif­andi fæddra barna á hverja konu rúm­lega 1,4 í Svíþjóð, Nor­egi og Dan­mörku, en í Finn­landi fór tal­an niður í 1,26. Enn verri er staðan í Suður-Kór­eu, þar sem frjó­semi mæld­ist 0,75 – þó með ör­lít­illi hækk­un árið 2024.

Lækk­andi fæðing­artíðni er mikið áhyggju­efni og veld­ur marg­vís­leg­um áskor­un­um fyr­ir sam­fé­lagið. Færri eru á vinnu­markaðnum og það dreg­ur úr hag­vexti og ný­sköp­un. Að sama skapi eykst hlut­fall eldri borg­ara, sem býr til þrýst­ing á vel­ferðar­kerfið. Inn­lend eft­ir­spurn minnk­ar, sér­stak­lega í þjón­ustu­geir­an­um og á fast­eigna­markaði. Staðan er sú að ef ekki tekst að mæta þess­ari þróun, þá get­ur skap­ast nei­kvæð hringrás sem leiðir til lak­ari lífs­gæða.

Ísland hef­ur lengi haft stefnu sem styður við barneign­ir, t.d. með öfl­ugu leik­skóla­kerfi, fæðing­ar­or­lofi fyr­ir báða for­eldra og barna­bót­um. En sam­kvæmt nýj­ustu lýðfræðigögn­um duga þessi úrræði ekki leng­ur til. Leik­skóla­kerfið ræður ekki leng­ur við eft­ir­spurn­ina og önn­ur úrræði hafa dreg­ist sam­an. Þetta er al­var­legt og brýnt er að finna nýj­ar leiðir til að bregðast við.

Í áhuga­verðum grein­ing­um mann­fjölda­fræðings­ins Lym­ans Stones kem­ur fram að hús­næðismál skipta sköp­um þegar kem­ur að lækk­andi fæðing­artíðni í Banda­ríkj­un­um. Hús­næði veit­ir ákveðinn stöðug­leika og er oft for­senda fjöl­skyldu­mynd­un­ar. Ef ungt fólk á erfitt með að kom­ast inn á hús­næðismarkað – eða ef láns­kjör eru óhag­stæð – minnka lík­urn­ar á því að fólk stofni fjöl­skyld­ur. Þetta á ekki síður við hér á Íslandi.

Eitt mik­il­væg­asta verk­efni okk­ar til framtíðar er að stíga ákveðnari skref í að gera Ísland að fjöl­skyldu­vænu sam­fé­lagi. Stjórn­völd og at­vinnu­líf þurfa að vinna sam­an að því mark­miði, því framtíð lífs­kjara þjóðar­inn­ar er í húfi.

Svarið við spurn­ing­unni hér að ofan er ein­falt: Já!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 27. mars 2025.

Categories
Fréttir

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar 

Deila grein

26/03/2025

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar 

Vorfundur miðstjórnar Framsóknar fór fram um síðustu helgi á Akureyri. Var fundurinn mjög vel heppnaður og kröftugur. Fram fóru mjög málefnalegar og góðar umræður, enda hefur grasrót Framsóknar á að skipa gríðarlega öflugu fólki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hélt yfirlitsræðu á fundinum og í henni lagði hann áherslu á mikilvægi þess að flokkurinn nýti nú tækifærið til að styrkja innra starf sitt og fara í öfluga sókn eftir að hafa farið í gegnum erfiða kosningabaráttu.

„Það er engin launung að úrslit síðustu kosninga voru okkur erfið. Mörg okkar upplifðum sorgarferli – Við megum hins vegar ekki láta það slá okkur út af laginu. Þvert á móti – í öllum aðstæðum eru fólgin tækifæri og við eigum nú að nýta tímann vel í uppbyggingarstarfinu,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að Framsókn hafi farið úr því að vera í vörn í ríkisstjórn í að vera komin í sókn í stjórnarandstöðu. Hann greindi frá því að hann hafi undanfarnar vikur átt samtöl við rúmlega 600 flokksmenn um allt land og að þau samtöl hafi gefið skýra mynd af því hvað þurfi að gera til að styrkja flokkinn.

„Í Framsókn eru rúmlega 12.000 félagsmenn og í því fólki eigum við mikinn auð. Ég vil efla starf Framsóknarflokksins í samstarfi við fólkið og við ætlum að hlusta á fólkið okkar. Þess vegna munum við leita til hins almenna flokksmanns um ráð og nýjar hugmyndir með því að spyrja hvað megi betur fara í flokksstarfinu, hvaða áherslur viljum við sjá og hvernig við getum gert starf okkar öflugra og aðgengilegra? Við munum vinna úr tillögum flokksfólks í framhaldinu og leggja fram til umræðu og afgreiðslu á næsta flokksþingi,“ sagði Sigurður Ingi.

Formaðurinn lýsti yfir að komið verði á fót „skuggaráðuneytum“ þar sem færustu sérfræðingar flokksins munu vinna með þingflokknum að stefnumótun og veita ríkisstjórninni aðhald. Þá tilkynnti hann að hrint verði af stað átaki í fjölgun styrktarmanna flokksins, sérstaklega með áherslu á samstarf við ungt framsóknarfólk.

Sigurður Ingi undirstrikaði að Framsókn sé áfram róttækur umbótaflokkur sem muni halda áfram að berjast fyrir bættum kjörum og betra samfélagi. Hann kallaði eftir markvissara samstarfi milli kjörinna fulltrúa flokksins á Alþingi og í sveitarstjórnum og greindi frá fyrirhugaðri sveitarstjórnarráðstefnu á næstunni sem verði liður í því starfi.

„Framsókn hefur lengi verið þekkt fyrir öflugt og skemmtilegt félagsstarf – það hefur verið sagt að fá partý séu eins skemmtileg og framsóknarteiti., en við getum alltaf bætt okkur. Það er mikilvægt að við aukum samvinnu á milli framsóknarfélaga um allt land og tryggjum að félagið sé ekki bara vettvangur fyrir pólitíska umræðu heldur líka samfélag fólks sem vill hafa áhrif, njóta góðrar samveru og vinna saman að framgangi sameiginlegra hagsmuna. Félagsstarfið okkar á að endurspegla nokkra lykilþætti: Góðar samverustundir, heiðarleg samskipti, upplýsta umræðu, skýra stefnumótun, skemmtanir og gróskumikið starf,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann lauk máli sínu með því að hvetja flokksmenn til samstöðu og þátttöku í uppbyggingarstarfi, enda sé Framsókn grasrótarflokkur þar sem styrkurinn liggi í fólkinu. „Við gerum þetta saman,“ sagði hann og lagði áherslu á að framtíð flokksins væri björt ef allir leggðu sitt af mörkum.

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar fór fram um helgina á Akureyri. Tæplega 200 manns mættu til stefnumótunar og…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Sunnudagur, 23. mars 2025
Categories
Fréttir

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt

Deila grein

26/03/2025

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt sem stefnt er að koma á fyrir lok árs 2026. Tillagan felur í sér að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samráði við atvinnuvegaráðherra, leiði samstarf stjórnvalda, bænda, atvinnulífsins, almennings og stofnunarinnar Land og skógar um aukna kolefnisbindingu með þátttöku almennings.

Gríðarleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga

Markmið átaksins er að stuðla að landgræðslu og skógrækt til að efla kolefnisbindingu, draga úr jarðvegsrofi og bæta landgæði á Íslandi. Verkefnið mun taka mið af fyrri vel heppnuðum átaksverkefnum á borð við „Bændur græða landið“ og „Landgræðsluskóga“, sem hafa verið í gangi síðan 1990.

Í greinargerð kemur fram að þátttaka almennings yrði tvíþætt; annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu og skógrækt og hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sem fyrirtæki myndu bjóða upp á. Tillagan styður við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Þórarinn Ingi bendir á að jarðvegur sé ein mikilvægasta auðlind landsins, undirstaða matvælaframleiðslu og lykilatriði í baráttunni við loftslagsbreytingar. Ísland hafi einstök tækifæri til að efla kolefnisbindingu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með landgræðslu og skógrækt.

Þetta er í sjötta sinn sem þingsályktunartillagan er lögð fram og umsagnir á fyrri þingum hafa almennt verið jákvæðar.

Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Vill takmarka jarðakaup erlendra aðila á Íslandi

Deila grein

26/03/2025

Vill takmarka jarðakaup erlendra aðila á Íslandi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi sem miðar að því að takmarka jarðakaup erlendra aðila hér á landi. Tillagan felur í sér að atvinnuvegaráðherra verði falið að skipa sérfræðihóp í samráði við forsætis-, dómsmála-, samgöngu- og sveitarstjórnar- og umhverfisráðherra sem skili drögum að frumvarpi um málið eigi síðar en á haustþingi 2025.

Tillagan er lögð fram vegna aukinnar áhættu sem þingmenn telja stafa af erlendu eignarhaldi á íslenskum auðlindum, s.s. jarðefnum, vatni og orku.

„Við verðum að efla löggjöf um jarðamál svo að við séum ekki að selja auðlindir úr landi. Tillagan er sett fram með langtímahagsmuni Íslands að leiðarljósi,“ sagði Halla Hrund.

Vísaði hún sérstaklega til jarðakaupa á Mýrdalssandi í útflutningsskyni og kaupa á vatnsréttindum sem upphaflega voru hugsuð fyrir sveitarfélög. Halla Hrund bendir á að græn orka verði mikilvæg framtíðarauðlind, líkt og olía áður fyrr og því þurfi að gæta vel að eignarhaldi þessara auðlinda.

Lögin voru ekki hönnuð til að flytja út fjöll og fell

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að alþjóðaviðskipti séu lífæð þjóðarinnar en að ekki sé nauðsynlegt að selja auðlindir út úr landinu. Þess í stað mætti veita aðkomu erlendra aðila að verkefnum með nýtingarleyfum, líkt og gert er í Ástralíu og ýmsum Evrópuríkjum.

Málið vekur upp spurningar um geopólitíska hagsmuni og stjórn Íslands til langs tíma, þar sem fjöldi jarða í erlendri eigu gæti haft áhrif á fullveldi og þróun landsins. Halla Hrund segir mikilvægt að tryggja að auðlindir verði áfram í íslenskri eigu, ekki aðeins fyrir nútímafólk heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Bent er á mikilvægi fyrri baráttu um yfirráð yfir auðlindum eins og fiskimiðum og orkuframleiðslu sem tryggt hafa sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar.

Með tillögunni er kallað eftir aukinni lagasetningu og stjórnsýslu sem tryggir að Ísland nýti auðlindir sínar sjálft en jafnframt á ábyrgan hátt gagnvart alþjóðlegu fjármagni og fjárfestingum.

Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Stórsókn í lýðheilsumálum

Deila grein

25/03/2025

Stórsókn í lýðheilsumálum

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, vakti athygli á mikilvægi „Vöðvaverndardagsins“ í ræðu á Alþingi. Af þessu tilefni standa Opni háskólinn og deildir íþróttafræði og sálfræði við Háskólann í Reykjavík fyrir ráðstefnu í vikunni.

Áhersla á réttmætar upplýsingar um lýðheilsu

„Í ár verður áherslan á mikilvægi miðlunar réttmætra upplýsinga í nútímasamfélagi með áherslu á vitundarvakningu og vöðvavernd. Vöðvavernd er gríðarlega mikilvæg fyrir lýðheilsu allra Íslendinga, og ég er svo heppinn að fá að taka þátt í ráðstefnunni að þessu sinni,“ sagði Jóhann Friðrik.

Í erindi sínu á ráðstefnunni mun Jóhann Friðrik leggja áherslu á mikilvægi þess að koma upplýsingum um lýðheilsu á framfæri til landsmanna.

Skammarlega lítið fjármagn til forvarna

„Ég hef lengi haft verulegar áhyggjur af því hvert við stefnum. Fjármagn til forvarna hér á landi er skammarlega lítið, og samt skiljum við ekkert í því hvers vegna áskoranir vegna lýðheilsu þjóðarinnar vaxa hratt – og kostnaðurinn með,“ sagði Jóhann Friðrik.

Hann segir mikilvægt að Alþingi samþykki aukið varanlegt framlag í lýðheilsusjóð. Á síðasta kjörtímabili hafi í tvígang tekist að auka tímabundið framlag í sjóðinn. „Nú þarf að gera það varanlegt, og miklu meira en það.“

Hrósar fyrrverandi heilbrigðisráðherra

Jóhann Friðrik hrósaði fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, fyrir að hafa lyft upp lýðheilsumálum. Hann segir boltann nú vera hjá núverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlækni.

„Við erum í dauðafæri til að samþykkja á þinginu þingsályktunartillögu mína um lýðheilsumál og sækja fram af miklum eldmóði.“

Hvetur til sameiginlegs átaks

„Ég hvet íslensk stjórnvöld, Alþingi og samfélagið allt að koma með okkur í þessa vegferð. Það er ekkert mikilvægara í lífinu en heilsan. Pössum upp á hana og verndum hana,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun miðstjórnar

Deila grein

23/03/2025

Stjórnmálaályktun miðstjórnar

Stjórnmálaályktun miðstjórnar Framsóknar, samþykkt á miðstjórnarfundi 23. mars 2025.

Miðstjórn Framsóknar hafnar alfarið þeirri vegferð ríkisstjórnarinnar að hefja á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sá leiðangur er svik við íslensku þjóðina eftir yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar. 

Framsókn leggur áherslu á sjálfstæði þjóðarinnar og full yfirráð yfir auðlindum landsins. Að sama skapi leggur Framsókn ríka áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu og virka þátttöku þjóðarinnar á þeim vettvangi.  

Á þeim óvissutímum sem uppi eru i alþjóðamálum vill Framsókn tryggja hagsmuni þjóðarinnar með áherslu á frið, jafnrétti og virðingu fyrir alþjóðalögum. 

Framsókn leggur áherslu á mikilvægi Atlantshafsbandalagsins (NATO) og telur mikilvægt að einblína á langtímahagsmuni Íslands með skynsamlegri stefnu í alþjóðamálum.  

Framsókn ætlar að veita ríkisstjórninni öflugt aðhald og sinna hlutverki sínu í stjórnarandstöðu af ábyrgð. Vandræðagangur ríkisstjórnarflokkanna þessar fyrstu vikur samstarfsins gefur ekki góð fyrirheit um framhaldið.