Nú á dögunum mælti ég ásamt þingflokki Framsóknar fyrir þingsályktun um að takmarka jarðakaup erlendra aðila. Tillögunni er ætlað að tryggja langtímahagsmuni Íslands með því að verja auðlindir þjóðarinnar fyrir of víðtæku eignarhaldi erlendra fyrirtækja og einstaklinga.
Alþjóðleg eftirspurn vekur spurningar um íslenskt eignarhald
Í kjölfar aukinnar alþjóðlegrar eftirspurnar eftir náttúruauðlindum hefur áhugi erlendra aðila á íslenskum jörðum aukist verulega. Þetta á sérstaklega við um jarðir sem hafa verðmæt vatnsréttindi eða aðgang að orkuauðlindum á borð við jarðhita og vindorku, eða svæði sem eru rík af jarðefnum. Gott dæmi um slíkan áhuga er nýleg jarðakaup á Mýrdalssandi, þar sem stefnt er að meiri háttar útflutningi jarðefna.
Upphaflega voru íslensk lög um nýtingu jarðefna sett í þeim tilgangi að tryggja bændum og Vegagerðinni aðgang að sandi og möl til framkvæmda innanlands – ekki til útflutnings. Markmiðið var aldrei að selja Ísland bókstaflega úr landi.
Gætum að auðlindum okkar til framtíðar
Tillagan gerir ráð fyrir að atvinnuvegaráðherra skipi sérfræðihóp, í samráði við aðra ráðherra, til að undirbúa frumvarp um frekari takmarkanir á jarðakaupum erlendra aðila. Markmið þess er að tryggja að eignarhald á íslenskum auðlindum verði áfram að meginstefnu íslenskt.
Um leið verði Íslandi áfram haldið opnu fyrir alþjóðlegum viðskiptum og erlendri fjárfestingu, en þá fremur með nýtingarleyfum en beinu eignarhaldi erlendra aðila á landi og auðlindum.
Sérfræðihópur skipaður til að móta skýra stefnu
Í ljósi geopólitískra hagsmuna og víðtækra framtíðaráhrifa er nauðsynlegt að stjórnvöld taki afgerandi skref til að móta skýra og markvissa stefnu á þessu sviði. Sögulegar baráttur Íslendinga fyrir eignarhaldi á náttúruauðlindum, svo sem landhelgisbaráttan og stofnun Landsvirkjunar, eru góðar fyrirmyndir um hvernig tryggja megi langtímahagsmuni þjóðarinnar.
Nýtingarleyfi – leið til að laða að erlenda fjárfestingu án þess að tapa auðlindum
Þótt alþjóðleg viðskipti séu lykillinn að velmegun Íslands og mikilvæg uppspretta atvinnusköpunar þýðir það ekki að auðlindir landsins þurfi að selja úr landi án eftirlits. Reynslan frá öðrum löndum, til dæmis Ástralíu, sýnir að hægt er að laða að erlenda fjárfestingu með því að veita nýtingarleyfi án þess að glata stjórn á auðlindunum sjálfum. Mörg ríki innan Evrópusambandsins hafa þegar gripið til mun róttækari ráðstafana en Ísland til þess að verja land sitt og auðlindir.
Stefna til framtíðar
Ljóst er að eignarhald á auðlindum landsins mun gegna lykilhlutverki við að tryggja efnahagslega velferð og sjálfstæði þjóðarinnar í alþjóðasamfélaginu. Þingsályktunartillagan er því mikilvægur grunnur að ábyrgri auðlindastjórn sem getur komið í veg fyrir að komandi kynslóðir líti til baka með eftirsjá yfir því hvernig Íslendingar nútímans gættu landsins okkar og auðlinda.
Ræktum framtíðina og stuðlum að sjálfbærri nýtingu auðlinda landsins, styrkingu landsbyggðarinnar og öflugri velferð þjóðarinnar til framtíðar.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 29. mars 2025.