Fyrirsögnin kann að valda óánægju hjá Samfylkingarfólki en staðreyndirnar tala sínu máli. Þétting byggðar í Reykjavík gagnast borgarbúum ekki. Síðastliðin 15 ár hefur stefna borgaryfirvalda verið að þétta byggð til að nýta betur innviði í grónum hverfum og til að gera borgarlínu mögulega. Þetta hefur leitt til fjölda vandamála sem ekki verður lengur horft fram hjá.
Markmiðið með þéttingunni var að nýta betur þau mannvirki sem þegar eru fyrir hendi, allt frá skolplögnum til skóla og samgöngukerfa, en margir þessara innviða eru fyrir löngu orðnir úreltir og sprungnir. Dæmi um þetta eru leik- og grunnskólar með mygluvanda sem þarf að endurbyggja frá grunni. Vaxandi umferðarteppa á helstu stofnæðum borgarinnar á háannatíma er annað augljóst merki um innviðakerfi sem ræður ekki við álagið.
Húsnæðiskostnaður úr böndunum
Eitt helsta loforð þéttingarstefnunnar var að hægt yrði að byggja ódýrari íbúðir þar sem innviðir væru þegar fyrir hendi. Það loforð hefur ekki staðist. Þvert á móti hefur lóðaverð í grónum hverfum rokið upp, sem og byggingarkostnaður. Í stærstu þéttingarverkefnunum, á borð við Laugaveg/Suðurlandsbraut og í Vogahverfi, hefur borgin sjálf keypt lóðir fyrir háar fjárhæðir sem endurspeglast í íbúðaverði þar sem fermetraverð fer nú yfir eina milljón króna.
Þessi þróun kemur sérstaklega illa niður á ungu fólki sem vill kaupa sitt fyrsta húsnæði og stofna fjölskyldu. Leiguverð hefur einnig hækkað mikið og ekki er ósennilegt að þessi þróun hafi áhrif á fæðingartíðni í landinu með alvarlegum langtímaafleiðingum fyrir íslenskt samfélag.
Einsleit byggð og vannýtt rými
Meirihluti nýrra íbúða í þéttingarverkefnum er í fjölbýlishúsum, sem leiðir til einsleitrar byggðar. Íbúar kvarta yfir skuggavarpi, skertu útsýni og takmörkuðu aðgengi að grænum svæðum. Þá standa þjónustu- og verslunarrými oft tóm þar sem ekki er nægur fjöldi viðskiptavina í hverfunum né bílastæði fyrir þá sem búa ekki á staðnum. Hlíðarendahverfið og Snorrabrautin eru góð dæmi um að hugmyndin um „15 mínútna hverfi“ gengur illa upp í raunveruleikanum.
Tóm verslunarrými á jarðhæð fjölbýlishúsa eru ekki aðeins sjónmengun, heldur sóun á dýrmætu rými. Verktakar neyðast svo til að velta kostnaði þeirra yfir á aðrar íbúðir í húsinu, sem hækkar enn frekar fasteignaverð.
Samgönguvandi og bílastæðaskortur
Bílastæðum hefur verið vísvitandi fækkað, þrátt fyrir að 70% borgarbúa noti einkabíl til daglegra ferða. Nýjar íbúðir eru hannaðar með færri en einu bílastæði á íbúð sem kemur illa við fjölskyldur og eldri borgara sem geta ekki nýtt strætó. Hér er líklega komin ein af ástæðunum fyrir því hvers vegna nýjar íbúðir á þéttingarreitum seljast illa, eins og komið hefur fram í fjölmiðlum. Á sama tíma hafa stór samgönguverkefni tafist um áraraðir. Sundabraut, Miklubrautarstokkur og aðrir nauðsynlegir innviðir sitja á hakanum á meðan fjármunum er varið í dýrar hugmyndir eins og borgarlínu og göngubrýr sem eru ólíklega að fara að leysa umferðarvandann. Almenningssamgöngur eru mikilvægar til að tryggja valfrelsi fólks til að velja þann samgöngumáta sem það kýs og létta á umferð en það má ekki setja fókusinn á uppbyggingu almenningssamgangna á kostnað þess að leysa umferðarvanda borgarinnar. Reykjavík er strjálbýl borg á alþjóðavísu en hér er verið að reyna að innleiða dýrar samgöngulausnir eins og gert er í erlendum stórborgum sem eru byggðar þétt vegna nauðsynjar en ekki vegna misráðinnar stefnu.
Óánægja íbúa og valfrelsi
Þéttingarstefnan er núna byrjuð að teygja sig austar í borgina á svæði þar sem borgarbúar leituðu í til að fá að vera nær náttúrunni og fá meira rými. Verið er að reyna að innleiða þéttingarstefnuna í Grafarvogi í óþökk íbúa auk þess sem uppi eru þéttingaráform í Breiðholti sem eru byrjuð að valda ugg hjá íbúum. Fólkið sem býr þarna fluttist í úthverfi til að fá rými og frið. Það á því ekki að koma á óvart að óánægja íbúa skuli fyrirfinnast. Þetta sýnir hversu mikilvægt það er að hlusta á íbúa og við í Framsókn berum einnig ábyrgð á að það hefur ekki alltaf tekist nógu vel.
Tími til að staldra við
Ofuráhersla á að þétta byggð hefur leitt til ósjálfbærs húsnæðiskostnaðar, slakrar nýtingar á rými, vanfjármagnaðra innviða, meiri umferðarvanda og vaxandi óánægju borgarbúa. Það vilja ekki allir búa í blokkum í þéttri byggð og það ber að virða það sjónarmið.
Eftir tæplega þriggja ára setu í umhverfis- og skipulagsráði sé ég æ betur að stefna borgarinnar varðandi þéttingu þarfnast endurmats. Það þarf að draga úr þéttingaráformum í grónum hverfum og hlusta betur á óskir borgarbúa. Við þurfum að fjárfesta meira í samgönguinnviðum eins og Sundabraut sem mun leiða til þess að hægt verður að brjóta nýtt byggingarland og reisa íbúðir sem fólk hefur efni á, í hverfum þar sem fólk vill búa, með fjölbreytileika og valfrelsi að leiðarljósi.
Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar og situr í umhverfis- og skipulagsráði Reykjavíkurborgar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. maí 2025.