Á mánudaginn voru fyrstu handritin flutt úr Árnagarði, sem verið hefur heimili þeirra síðan 1971, í Eddu þar sem þeirra bíður varanlegt heimili. Meðal handrita sem flutt voru í Eddu var Konungsbók eddukvæða, stærsta framlag Íslands til heimsmenningarinnar. Hún hefur að geyma elsta og merkasta safn eddukvæða skrifað á síðari hluta 13. aldar af óþekktum skrifara. Eddukvæði geyma sögur af heiðnum goðum, Völuspá sem geymir heimssögu ásatrúar og Hávamál sem miðla lífsspeki Óðins.
Tilhugsunin um það ef þessi merka bók hefði glatast er skrítin. Enginn Óðinn, Þór eða Loki, engin Frigg eða Freyja, engin Hávamál. Chris Hemsworth hefði aldrei klæðst búningi Þórs þar sem engar Marvel-myndir um norræna goðafræði hefðu verið gerðar. Þetta er menning sem allur heimurinn þekkir – menning okkar og hluti af sjálfsmynd okkar, sem hefur varðveist í handritunum í gegnum aldirnar. Meðal annarra handrita sem flutt voru í Eddu eru Flateyjarbók, Möðruvallabók og handrit að Margrétarsögu sem ljósmæður fyrri tíma höfðu í fórum sínum til að lina þrautir sængurkvenna. Handritin varpa ljósi á þann sköpunarkraft sem hefur alltaf ríkt á okkar góða landi, en Ísland sker sig úr á Norðurlöndum þegar kemur að bókmenntaarfi. Árið 2009 voru handritin okkar til að mynda sett á sérstaka varðveisluskrá UNESCO. Tilgangur varðveislulistans er að vekja athygli á mikilvægi þess að varðveita andlegan menningararf veraldar með því að útnefna einstök söfn með sérstakt varðveislugildi.
Handritin varðveita einnig grunninn í tungumáli okkar sem hefur þróast hér á landi í um 1.150 ár. Á undanförnum árum hef ég lagt allt kapp á að setja íslenskuna í öndvegi andspænis áskorunum samtímans sem snúa að tungumálinu. Fjölmargt hefur verið gert til þess að styrkja stöðu hennar, allt frá því að herja á Disney+ um að bjóða upp á talsett barnaefni á íslensku til að gera íslenskuna gjaldgenga í hinum stafræna heimi, en nú er svo komið að snjalltæki og forrit geta skilið, skrifað og talað hágæðaíslensku eftir samstarf við alþjóðleg tæknifyrirtæki á borð við OpenAI og Microsoft. Það eitt og sér eru þýðingarmestu vatnaskil fyrir íslenskuna til framtíðar, og er svo komið að Ísland er orðið fyrirmynd annarra fámennra málsvæða í heiminum. Ég fyllist miklu stolti yfir þessum árangri sem náðst hefur á undanförnum sjö árum.
Klukkan 14 í Eddu í dag verður tungumálinu okkar og handritunum lyft upp þegar sýningin Heimur í orðum verður opnuð. Með henni verður þessi merkilegi menningararfur okkar loksins aðgengilegur þjóð sinni. Einnig verða verðlaun Jónasar Hallgrímssonar veitt í Eddu klukkan 16 við hátíðlega athöfn auk þess sem veitt verður sérstök viðurkenning fyrir stuðning við íslenska tungu. Ég hvet fólk til að fjölmenna í Eddu í dag, enda er um að ræða okkar Monu Lisu.
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. nóvember 2024.