Categories
Fréttir Greinar

Börn sem skilja ekki kennarann

Deila grein

16/09/2025

Börn sem skilja ekki kennarann

Á undanförnum árum hefur orðið gríðarleg fjölgun á börnum og ungmennum á Íslandi sem hefja skólagöngu með engan grunn eða þekkingu á íslensku tungumáli. Þrátt fyrir góða viðleitni hefur menntakerfið ekki náð að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til náms. Það á bæði við um þau sem flytja til landsins og þau sem fyrir eru.

Hér stöndum við frammi fyrir kjarna­spurningu: Viljum við að börn hefji nám í bekkjum þar sem þau skilja hvorki kennara né samnemendur?

Sýnum kjark

Við eigum að hafa kjark til að setja skýrar kröfur, kjark til þess að setja skýr og greinileg markmið og fylgja þeim eftir. Kröfur um að allir sem vilja búa hér læri tungumálið og hafi til þess raunveruleg tækifæri!

Það er eðlilegt að allir sem ætla sér að búa hér læri íslensku en jafnframt ber okkur skylda til að tryggja að þau hafi raunhæfan möguleika til þess. Íslenskukunnátta er lykilforsenda þess að taka þátt í samfélaginu og öðlast sjálfstæði. Það að nemandi hafi grunnfærni í íslensku áður en hann kemur inn í bekkjarkennslu skiptir öllu máli, fyrir barnið sjálft, fyrir kennarann og ekki síst fyrir bekkinn í heild.

Ávinningurinn er augljós. Slík krafa gagnast ekki aðeins nýbúabörnunum sjálfum heldur kemur slíkt vinnulag einnig til móts við aðra nemendur. Kennarar hafa rætt um að ólík verkefni innan kennslustofunnar hafi aukið álag verulega. Með því að nemendur fái aukinn stuðning í íslenskunámi mun hinn almenni kennari bæði finna það í bættum árangri barnsins sem ekki á íslensku sem heimamál (móðurmál) en um leið gefa kennaranum aukið svigrúm í sinni kennslu og aukna athygli í öðrum verkefnum kennslunnar.

Öxlum ábyrgð

En það er ekki nóg að setja kröfur á börnin. Við verðum einnig að setja kröfur á okkur sjálf. Við verðum að tryggja að til sé fjölbreytt og aðgengilegt kennsluefni í íslensku sem öðru máli, tilbúið þegar nýjar fjölskyldur flytja til landsins. Við verðum að mennta og endurmennta kennara með sérhæfingu á þessu sviði, styðja þá í verki og útvega þeim verkfæri til að fylgjast með framvindu nemenda og grípa tímanlega inn í.

Þetta krefst fjármagns en til lengri tíma er þetta fjárfesting sem skilar sér margfalt til baka. Snemmbær tungumálastuðningur dregur úr brottfalli, eflir sjálfstæði barna og stuðlar að virkri samfélagsþátttöku til framtíðar. Fjármunir sem varið er í góða aðlögun skila sér margfalt til baka í formi betri menntunar, aukinnar atvinnuþátttöku og minni félagslegs kostnaðar.

Lærum af nágrönnum okkar

Það þarf ekki alltaf að finna upp hjólið þegar kemur að góðum lausnum. Í Danmörku hefur verið þróað kerfi sem tryggir börnum markvissan tungumálastuðning strax við komuna í landið, áður en þau hefja nám í hefðbundnum skóla. Reynslan í Danmörku sýnir að þetta skilar sér í árangri, fleiri börn ná góðum tökum á dönsku og verða virkir þátttakendur í samfélaginu.

Við eigum ekki að hræðast að setja kröfur um íslenskukunnáttu. Þvert á móti, það er réttur hvers barns að skilja og geta verið virkur þátttakandi. En við berum einnig skyldu til að tryggja kennurum stuðning, aðgengileg námsgögn og stöðugt fjármagn. Þannig fá nýkomin börn öflugan undirbúning og ganga inn í almenna bekki með raunhæfan grunn til að blómstra. Einnig berum við skyldu að allir nemendur hafi jöfn tækifæri til náms og þeir nemendur sem fyrir eru í bekkjum fái jafna athygli og stuðning frá kennurnum. Það er besta leiðin til að styrkja bæði börnin sjálf og samfélagið í heild.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Franskur kanarífugl

Deila grein

16/09/2025

Franskur kanarífugl

Þegar kolanámur voru helsta uppspretta orkuöflunar tóku námuverkamenn með sér litla kanarífugla niður í djúpar og skítugar námur. Fuglarnir voru ekki þar til skrauts, heldur sem viðvörunarkerfi. Ef fuglarnir hættu að syngja eða féllu dauðir til jarðar þá var það merki um ósýnilegan en banvænan gasleka.

Frakkland er forysturíki í Evrópusambandinu, stendur sterkt menningarlega og ein öflugustu fyrirtæki Evrópu eru staðsett þar. Hins vegar ríkir þar nánast stöðug stjórnarkreppa, þar sem skuldir landsins hafa náð hæstu hæðum síðan mælingar hófust. Fjárlagahallinn er meiri en hjá öllum öðrum aðildarríkjum evrusvæðisins. Eins og fuglinn sem hættir að syngja gefa þessar tölur til kynna að mikill kerfisvandi sé til staðar og tímabært að hrinda í framkvæmd neyðaráætlun.

Þegar Emmanuel Macron varð forseti Frakklands árið 2017 lofaði hann að lækka skatta, efla hagvöxt og gera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Að einhverju leyti hefur þetta gengið eftir, þar sem atvinnuleysi hefur minnkað og fjárfestingar aukist. Hins vegar standa ríkisfjármálin það veikt að tvær ríkisstjórnir hafa fallið í vegferð sinni til að minnka útgjöld ríkissjóðs. Vandinn er ekki nýtilkominn, heldur hefur franski ríkissjóðurinn verið rekinn með halla í áratugi. Staða ríkisfjármála í Frakklandi er ósjálfbær og nú þarf franska ríkið að fjármagna sig á hærri vöxtum en fyrirtækin Airbus og L’Oreal. Matsfyrirtækið Fitch hefur lækkað lánshæfiseinkunn franska ríkissjóðsins og nefndir að skuldir geti hækkað í allt að 121% af landsframleiðslu. Jafnframt er talið að áætlun um að lækka fjárlagahallann sé ótrúverðug.

Kanarífuglinn í kolanámunni gaf vísbendingu um að mikil hætta væri á ferðum. Spurning er hvort franski kanarífuglinn sé að vara við stærri hættu sem nær yfir fleiri ríki Evrópusambandsins, þar sem þau glíma við mikinn fjárlagahalla og miklar skuldir hins opinbera. Þessi slæma staða hjá forysturíki í Evrópusambandinu er ekki góð tíðindi fyrir Ísland. Við eigum í miklum viðskiptum við evrusvæðið og ef dregur úr kaupmætti og hagvexti þá dregur úr utanríkisviðskiptum, sem minnkar verðmætasköpun á Íslandi.

Vegna þess mikla efnahagsvanda sem mörg leiðandi ríki Evrópusambandsins standa frammi fyrir eiga íslensk stjórnvöld ekki að eyða dýrmætum tíma lands og þjóðar í ESB-erindisleysu. Stærsta áskorun þessarar ríkisstjórnar er að ná verðbólgu og vöxtum niður. Hægst hefur verulega á lækkun verðbólgu og því hafa vextir ekki lækkað eins og væntingar stóðu til um. Ég hvet ríkisstjórnina til góðra verka, að standa við gefin loforð um lækkun verðbólgu og nýta tíma okkar allra í að efla verðmætasköpun í þágu aukinnar velsældar fyrir fólkið í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Framtíð íþrótta í Suðurnesjabæ fórnað

Deila grein

16/09/2025

Framtíð íþrótta í Suðurnesjabæ fórnað

Það er með ólíkindum að árið 2025 skuli Suðurnesjabær enn ekki hafa hrint í framkvæmd gerð gervigrasvallar fyrir börn og ungmenni sveitarfélagsins. Miðað við nýjustu vendingar er málið nú að teygja sig inn á þriðja kjörtímabil sameinaðs sveitarfélags sem varð til 2018.

Á meðan kostnaðurinn hækkar og meirihlutinn hikstar sitja börn og ungmenni eftir án aðstöðu sem annars er talin sjálfsögð í flestum sveitarfélögum. Við sitjum eftir með skýrslur, áætlanir og loforð sem aldrei verða að veruleika.

Kostnaðarmat

Í skýrslu Verkís, sem unnin var fyrir sveitarfélagið í tengslum við hönnun á gervigrasvelli og kom út í maí 2022, var kostnaður metinn svo:

m.kr.

Miðjan: 892

Garður: 656

Sandgerði, aðalvöllur: 575

Sandgerði, æfingavöllur: 620

Þessar tölur eru á verðlagi 2022. Til að meta raunverulegan stofnkostnað í dag er eðlilegt að færa þær í núvirði króna með vísitölu neysluverðs Hagstofu Íslands (VNV).

VNV í maí 2022: 539,5

VNV í september 2025: 658,6

Hækkun: ≈ 22,1%

Verðbættar tölur (2025)

m.kr.

Miðjan: ~1.089

Garður: ~801

Sandgerði, aðalvöllur: ~702

Sandgerði, æfingavöllur: ~757

Ath.: Fyrir hreinan mannvirkjahluta mætti einnig skoða byggingarvísitölu Hagstofu, en hún breytir ekki meginröðun kostanna þar sem Sandgerði nýtir nú þegar innviði (stúku, salerni, félagsaðstöðu o.s.frv.) sem halda stofnkostnaði niðri.

Hagkvæmasti kosturinn er augljós: að byggja á aðalvellinum í Sandgerði. Þar eru þegar fyrir hendi 340 manna steypt stúka, salernisaðstaða, félagsheimili á tveimur hæðum, vélageymsla og öll helstu grunnmannvirki sem þarf. Auk þess er lóðin í eigu sveitarfélagsins sjálfs, sem tryggir bæði eignarhald og einfaldar framkvæmdina án þess að ráðast í kostnaðarsöm lóðarkaup eða viðræður um afnotarétt.

Ákvörðun gegn betri vitund

Hinn 5. júní 2024 samþykkti bæjarstjórn að byggja völlinn á aðalvellinum í Sandgerði, með þeim afleiðingum að klofningur varð innan Sjálfstæðisflokksins og meirihluti Framsóknar og Sjálfstæðisflokks, sem myndaður var eftir kosningarnar 2022, sprakk. Nú hefur nýr meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans hins vegar snúið af þeirri leið og lagt fram tillögu um hönnun á Miðjunni – dýrasta og óraunhæfasta kostinum.

Þar er ekkert til staðar: ekki fráveita, ekki vatn, engin salernisaðstaða og engir búningsklefar. Aðeins lagning aðveitulagna fyrir snjóbræðslu og vatnsból er áætluð 76,8 milljónir króna á verðlagi 2022. Þetta er ekki aðeins óhagkvæmt – þetta er ábyrgðarleysi gagnvart skattgreiðendum og íþróttalífi sveitarfélagsins.

Þungur rekstur og hátt vaxtastig

Suðurnesjabær hefur aðeins 300-350 milljónir króna á ári til framkvæmda án lántöku. Með því að velja Miðjuna er ekki aðeins verið að hækka stofnkostnað um hundruð milljóna heldur er bærinn settur í vegferð sem mun bitna á öðrum brýnum verkefnum, svo sem:

auknu leikskólarými í Garði með byggingu nýs leikskóla

stækkun Sandgerðisskóla

úrlausn fráveitumála

Þetta gerist á sama tíma og stýrivextir Seðlabanka Íslands eru 7,5% og verðbólga mælist 3,8%. Því er augljóst að sveitarfélagið þarf að forgangsraða fjármunum sínum með sérstakri varfærni.

Börnin okkar sitja eftir

Afleiðingarnar eru skýrar:

Börn og íþróttafélög í Suðurnesjabæ búa við lakari aðstöðu en jafnaldrar þeirra í nágrannasveitarfélögum

Íþróttalífið lamast og foreldrar missa áhuga á að senda börn sín til iðkunar

Börnin fá þau skilaboð að þeirra framtíð sé ekki í forgangi

Gervigrasvöllur er forsenda fyrir vetrarstarfi knattspyrnunnar. Því miður heldur meirihlutinn áfram að tefja málið með endalausum skýrslubeiðnum og dýrum hönnunarkostnaði sem leggur tugmilljónir á bæjarsjóð.

Við eigum betra skilið

Íbúar Suðurnesjabæjar eiga betra skilið. Börnin okkar eiga betra skilið. Það er kominn tími til að setja punkt við margra ára aðgerðaleysi og hefja byggingu hagkvæms gervigrasvallar í Suðurnesjabæ – í Sandgerði, þar sem allir innviðir eru fyrir hendi og land í eigu sveitarfélagsins sjálfs.

Hvað þarf að gera núna?

Byggja völlinn í Sandgerði – hagkvæmasti og skynsamlegasti kosturinn

Sýna pólitíska ábyrgð – hætta að fresta og taka ákvörðun

Setja börnin í forgang – tryggja þeim aðstöðu sem þau eiga rétt á

Vernda bæjarsjóð – velja framkvæmdir sem sveitarfélagið ræður við

Íþróttir eru ekki aðeins leikur á vellinum – þær eru grunnur að heilbrigðu líferni og lykill að velsæld barna.

Nú þarf kjark til að taka ákvarðanir með hag bæjarsjóðs og barna í Suðurnesjabæ að leiðarljósi. Íþróttafélögin tvö, Reynir og Víðir, hafa ekki sameinast, en það má ekki standa í vegi fyrir skynsamlegri framtíðaruppbyggingu. Það er kominn tími til að leggja hrepparíginn til hliðar og hugsa fyrst og fremst um hag barnanna okkar. Þar skiptir máli að minna á að sveitarfélagið rekur gjaldfrjálsan frístundaakstur milli byggðarkjarna, sem tryggir öllum börnum jafnan aðgang að æfingum og aðstöðu. Byggjum því upp íþróttamannvirki í Suðurnesjabæ með skynsamlegum hætti – í þágu allra íbúa sveitarfélagsins.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. september 2025.

Categories
Fréttir

„Afkoman hefur batnað til mikilla muna“

Deila grein

15/09/2025

„Afkoman hefur batnað til mikilla muna“

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, átti orðastað við fjármála- og efnahagsráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi um fjárlög 2025 og afkomuhorfur yfirstandandi árs.

Hann kallaði eftir skýringum vegna ummæla ráðherrans í útvarpsviðtali á Rás 2 10. september sl., þar sem ráðherra sagði að í fjárlögum ársins 2025 væri gert ráð fyrir 63 milljarða króna halla. Í greinargerð fjárlagafrumvarpsins segir hins vegar á bls. 116: „Afkomuhorfur yfirstandandi árs hafa batnað verulega frá áætlun fjárlaga ársins 2025. Áætlað er að heildarafkoma ríkissjóðs verði neikvæð um 19 ma.kr. eða 0,4% af VLF, samanborið við halla um 63 ma.kr. …“

„Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra hvort sé rétt, ummælin í vikunni eða fjárlögin,“ sagði Stefán Vagn og lagði áherslu á að upplýsingar sem fram kæmu bæði úr ræðustól Alþingis og í fjölmiðlum væru réttar og sambærilegar.

Ráðherrann svaraði að hann hefði annars vegar vísað til fjárlaga í umræddu viðtali á Rás 2, en að afkoma ríkissjóðs væri annað mál sem metið væri eftir á.

Stefán Vagn þakkaði ráðherra fyrir svarið og bætti við: „Staðan er miklu betri heldur en menn gerðu ráð fyrir og því spyr ég: Er það ekki rétt? Er ekki staðan miklu betri en menn gerðu ráð fyrir?“

Ráðherra sagði að honum byðust oft tækifæri til að hæla eigin verkum og að hann gæti í raun tárast yfir því, en bætti við: „En jú, afkoman hefur batnað til mikilla muna og er þar ýmsu fyrir að þakka.“

Categories
Fréttir

Segir aðhald fjárlaga 2026 ófullnægjandi

Deila grein

15/09/2025

Segir aðhald fjárlaga 2026 ófullnægjandi

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi of lága aðhaldskröfu fjárlagafrumvarpsins 2026 í 1. umræðu fjárlaga á Alþingi. Hvatti hann til skýrari aðhalds í ríkisfjármálum til að styðja við lækkun stýrivaxta. Hann sagði 0,2% aðhald ekki nægilegt og hvatti til þess að halli næsta árs, 15 milljarðar króna, yrði felldur niður.

Stefán Vagn sagði umræðuna marka „vatnaskil“ þar sem ný ríkisstjórn legði nú fram sitt eigið fjárlagafrumvarp. „Nú fer að verða erfiðara að horfa í baksýnisspegilinn og skella ábyrgðinni á fyrri ríkisstjórnir.“

Stærsta verkefni vetrarins væri að ná niður verðbólgu og vaxtastigi. „Stýrivextir hafa lækkað úr 9,25% í 7,5% á árinu 2025 en lækkunarferlið hefur stöðvast, sem er alvarlegt,“ sagði Stefán Vagn og taldi fjármálaáætlun og fjárlög vera lykiltæki til að ná árangri.

Stefán Vagn gagnrýndi sérstaklega 0,2% aðhald í frumvarpinu: „Ég hef áhyggjur af því að 0,2% aðhald sé ekki nægilegt. Við lögðum sjálf fram 0,3% aðhald 2023 og þá var það metið hlutlaust af Seðlabankanum. Því er erfitt að færa rök fyrir því að 0,2% teljist aðhaldssamt.“

Tekjuaukning ríkissjóðs milli ára væri þó „gleðileg“, að hans sögn. Tekjur hækki úr um 1.500 ma.kr. í 1.591 ma.kr., eða um 91 ma.kr. Hann vildi nýta svigrúmið til að fella niður hallann 2026. „Það hefði sent sterk skilaboð,“ sagði hann, og bætti við að miðað við reynslu síðustu ára gæti niðurstaða 2026 jafnvel orðið jákvæð.

Í umræðum um skuldir hvatti hann til samræmdrar framsetningar talna. „Við eigum að nota sama grunn þar sem skuldahlutfallið fer úr 38% í 37%. En þrátt fyrir það hækka skuldir að nafnvirði um 80 ma.kr., sem kom mér á óvart miðað við tekjuaukninguna.“

Stefán Vagn benti jafnframt á útgjaldavöxt. „Útgjaldavöxturinn er 126 ma.kr. og hefur tvöfaldast frá frumvarpi 2025. Frumvarpið er á mörkunum og jafnvel ómögulegt að kalla það aðhaldssamt.“ Hann ítrekaði að stjórnvöld þyrftu að „senda skýr skilaboð um aðhald“ til að styðja við lækkun stýrivaxta.

Categories
Fréttir Greinar

Við stöndum sterkt en getum gert betur

Deila grein

14/09/2025

Við stöndum sterkt en getum gert betur

Íslendingar hafa á undanförnum áratugum gengið í gegnum miklar breytingar. Frá því að vera meðal fátækustu þjóða Evrópu frá stofnun lýðveldisins höfum við risið upp í hóp þeirra sem hvað best standa. Þessi þróun hefur orðið vegna þess að við höfum í sameiningu staðið af okkur áföll sem virtust á stundum óyfirstíganleg.

Við höfum á einungis örfáum árum þurft að takast á við eldgos og náttúruhamfarir, fall WOW air, heimsfaraldur og stríð í Úkraínu ásamt tilheyrandi alheimsverðbólgu. Ríkissjóður hefur staðið undir beinum kostnaði sem nemur um 350 milljörðum króna vegna þessara áfalla og þó stöndum við enn sterkari en flestar aðrar Evrópuþjóðir. Þetta eitt og sér gefur ástæðu til bjartsýni.

Ísland í fremstu röð

Í alþjóðlegum samanburði stendur Ísland framarlega á flestum sviðum. Við búum í einu friðsælasta og öruggasta landi heims, lífsgæði okkar mælast þau bestu, jöfnuður er meiri en víða annars staðar og jafnréttismál hafa hlotið verðskuldaða athygli.

Þegar litið er til hagvaxtar og ríkisfjármála er staðan hér gjörólík því sem blasir við í mörgum löndum Evrópusambandsins. Þar glíma ríki við viðvarandi halla og skuldabyrði, en hér hefur tekist að halda ríkisfjármálum í mun betra jafnvægi þrátt fyrir gríðarleg útgjöld vegna áfalla síðustu ára. Landsframleiðsla á mann var árið 2024 um 30% hærri en að meðaltali í löndum Evrópusambandsins. Það undirstrikar styrk íslensks efnahagslífs.

Atvinnuleysið segir þó mest. Árið 2024 mældist það hér um 3,4%, en í löndum Evrópusambandsins var það á sama tíma um 6% að meðaltali. Þessi munur er afgerandi. Atvinnuleysi er mesta böl sem nokkurt samfélag getur tekist á við því það grefur undan sjálfstrausti einstaklinga, eykur fátækt og veikir samstöðu. Að við höfum getað haldið atvinnuleysi svo lágu er einn helsti styrkleiki íslensks samfélags.

Þegar þessar staðreyndir eru skoðaðar blasir við ákveðin þversögn. Ísland hefur á eigin forsendum náð árangri sem margar Evrópuþjóðir geta aðeins látið sig dreyma um. Samt er því stundum haldið fram að aðild að Evrópusambandinu sé eftirsóknarverð leið til framfara. Raunin er sú að árangurinn sem við sjáum í dag er sprottinn úr okkar eigin aðstæðum og ákvarðanatöku.

Skortur á aðgerðum í baráttunni við verðbólgu

Þrátt fyrir styrka stöðu þjóðarbúsins blasir við sú staðreynd að ríkisstjórninni tekst ekki að bregðast nægilega við viðvarandi verðbólgu og háum stýrivöxtum. Í aðdraganda síðustu kosninga var talað fyrir afgerandi aðgerðum til að ná verðbólgu niður en þegar á reynir standa loforðin eftir án efnda.

Síðasta haust hófst vaxtalækkunarferli Seðlabankans og greiningaraðilar voru almennt sammála um að bjart væri fram undan, byggt á þáverandi efnahagsstefnu. Nú er myndin önnur: verðbólguvæntingar hafa hækkað á ný og tiltrú markaðarins á getu ríkisstjórnarinnar til að leysa eitt mikilvægasta verkefni samtímans, að ná verðbólgu og vöxtum niður, dvínar. Í vor kallaði ég eftir því á Alþingi að forsætisráðherra leiddi samráð við helstu hagsmunaaðila til að móta sameiginlegar aðgerðir í ljósi versnandi stöðu í baráttunni við verðbólgu, en sú forysta birtist ekki.

Sérstaklega er ástandið grafalvarlegt á húsnæðismarkaði. Ungt fólk á erfitt með að koma sér upp eigin heimili. Nauðsynlegt er að auka framboð íbúða, hraða uppbyggingu og einfalda reglur. Þar að auki þarf að tryggja hagkvæm lánskjör til langs tíma, með óverðtryggðum föstum vöxtum. Þannig skapast raunverulegar aðstæður til að ná tökum á verðbólgunni og létta undir með fólki í daglegu lífi.

Framtíðin í okkar höndum

Við eigum að vera stolt af því sem við höfum afrekað. Við eigum að tala samfélag okkar upp, vera bjartsýn og vinna saman. Framtíð Íslands er björt. Hún er í okkar höndum og með sameiginlegu átaki er engin áskorun of stór.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hags­munir sveitanna í vasa heild­sala

Deila grein

13/09/2025

Hags­munir sveitanna í vasa heild­sala

Við stöndum nú frammi fyrir ákvarðanatöku sem getur haft afgerandi áhrif á framtíð íslensks landbúnaðar. Fjármála- og efnahagsráðherra hefur boðað lagasetningu sem breytir tollflokkun svonefnds pítsaosts – osts með viðbættri jurtafitu – þannig að innflutningur hans verði tollfrjáls. Sú ákvörðun þjónar fyrst og fremst hagsmunum heildsala og innflutningsaðila, en á sama tíma er hún til þess fallin að veikja stöðu íslenskra bænda.

Fæðuöryggi og byggðafesta í hættu

Ef tollarnir á þessum osti verða afnumdir mun það hafa alvarleg áhrif á íslenska kúabændur. Tugir kúabúa gætu neyðst til að hætta starfsemi. Hundruð milljóna króna færast frá íslenskum bændum til erlendra stórfyrirtækja, og framtíð ungra bænda verður óviss. Afleiðingin verður veikara fæðuöryggi og minni byggðafesta í sveitum landsins.

Þetta er ekki aðeins spurning um verð á osti í verslun – heldur um framtíð íslenskrar matvælaframleiðslu. Ætlum við að fórna okkar eigin framleiðslu og sjálfbærni fyrir skammtímaávinning heildsala?

Að mínu mati er Alþingi skuldbundið til að verja innlenda hagsmuni, bændur og fæðuöryggi þjóðarinnar – ekki til að ganga erinda heildsala og erlendra fyrirtækja. Íslenskir dómstólar hafa þegar staðfest núverandi tollflokkun. Það eitt ætti að gefa stjórnvöldum tilefni til að standa fast gegn kröfum ESA. Fjölmörg ríki hafa neitað að fylgja sambærilegum tilmælum án þess að það hafi haft neikvæðar afleiðingar.

Fullveldi Alþingis

Það er líka mikilvægt að minna á lagalega hliðina, Ísland er ekki skuldbundið til að breyta tollflokkuninni bara vegna ESA, því bókun 35 hefur ekki verið tekin upp í íslensk lög. Alþingi ræður og getur valið að verja hagsmuni íslenskra bænda. Það kann að leiða til ágreinings við ESA og jafnvel málshöfðunar fyrir EFTA-dómstólnum, en það er pólitísk ákvörðun að standa í lappirnar.

Félag atvinnurekenda hefur árum saman þrýst á stjórnvöld í þessu máli. Þeir tala um réttlæti og fríverslun, en í raun snýst baráttan um að færa fjármuni frá íslenskum bændum til heildsala og erlendra framleiðenda. Það er óásættanlegt að ríkisstjórnin skuli ganga að kröfum þeirra, í stað þess að standa vörð um íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu.

Vilja Íslendingar vera upp á aðra komnir í matvælaframleiðslu?

Nú er komið að Alþingi og stjórnvöldum að taka afstöðu. Viljum við halda í sjálfstæða og sterka innlenda matvælaframleiðslu sem tryggir þjóðaröryggi og byggðafestu, eða ætlum við að treysta æ meira á innflutning frá erlendum stórfyrirtækjum, að kröfu heildsala?

Að mínu mati er svarið skýrt, Við verðum að verja íslenskan landbúnað, tryggja framtíð unga fólksins í sveitum landsins og standa vörð um sjálfbærni okkar sem þjóðar. Þetta er ekki aðeins hagsmunamál bænda – heldur allra landsmanna.

Grafalvarleg staða blasir við í þessum efnum. Við þurfum með miklu sterkari hætti að stuðla að eflingu íslensks landbúnaðar. Þingmenn þessarar þjóðar þurfa að setja málefni sem snerta fæðuöryggi og hagsæld bænda á dagskrá og standa vörð um sérstöðu landbúnaðar hérlendis. Þannig má tryggja dreifða búsetu um land allt og fæðuöryggi íslensku þjóðarinnar.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. september 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hin­segin sam­fé­lagið á heimili í Hafnar­firði

Deila grein

11/09/2025

Hin­segin sam­fé­lagið á heimili í Hafnar­firði

Það er mikilvægt að styðja við hinsegin samfélagið, standa vörð um mannréttindi og koma fram af virðingu við hvert annað. Við viljum byggja Hafnarfjörð sem er ekki aðeins fallegur að sjá, heldur líka sterkur í innviðum sínum, samfélag þar sem allir geta verið þeir sjálfir, án þess að þurfa að óttast fordóma eða mismunun.

Með stolti rifjum við upp að Hafnarfjörður var með fyrstu sveitarfélögum á Íslandi til að gera samning við Samtökin 78 um hinsegin fræðslu. Það eru nú orðin 10 ár síðan við tókum það skref, og það hefur reynst afar dýrmætt. Fræðslan hefur opnað augu okkar, hjálpað okkur að sjá fjölbreytileikann sem styrkleika og kennt okkur að umburðarlyndi og virðing eru ekki sjálfsögð, þau þurfa að vera ræktuð, dag eftir dag.

Heimili utan heimilisins

Við getum líka verið stolt af því að hér í Hafnarfirði er starfrækt Hinsegin félagsmiðstöð. Hún er ekki bara húsnæði eða dagskrá á blaði, hún er öruggt rými, heimili utan heimilis, þar sem ungt fólk fær að finna fyrir stuðningi, vináttu og viðurkenningu. Þar fá þau tækifæri til að kynnast, tjá sig, spyrja spurninga og fá svör sem skipta máli.

En við þurfum líka að horfast í augu við að það hefur orðið bakslag í þessari baráttu, bæði hér heima og erlendis. Við heyrum raddir sem reyna að draga úr réttindum hinsegin fólks, og við sjáum fordóma sem við héldum að væru á undanhaldi, en hafa aftur skotið upp kollinum. Þetta minnir okkur á að mannréttindi eru aldrei sjálfgefin. Þau þurfa að vera vörðuð á hverjum degi. Þau þurfa að vera staðfest með orðum, en enn frekar með aðgerðum.

Þess vegna er svo mikilvægt að við í Hafnarfirði höldum áfram að vera leiðandi. Að við látum ekki undan þrýstingi eða þögn, heldur sýnum að hér er samfélag sem stendur þétt saman, óháð kynhneigð eða kynvitund. Við eigum að vera rödd sem hvetur til umburðarlyndis, fræðslu og virðingar, ekki aðeins fyrir okkar eigin bæ, heldur sem fordæmi fyrir önnur sveitarfélög.

Mannréttindi fyrir okkur öll

Þessi verkefni, fræðslan, félagsmiðstöðin og allt sem við höfum byggt upp í sameiningu, eru ekki bara fyrir þá sem tilheyra hinsegin samfélaginu. Þau eru fyrir okkur öll. Þau gera okkur að betra bæjarfélagi, þau efla samkennd, þau brjóta niður fordóma og þau gera okkur kleift að búa í samfélagi þar sem við njótum öryggis og virðingar hvert af öðru. Þegar einstaklingar fá að blómstra, þá blómstrar samfélagið allt.

Við getum verið stolt af leiðinni sem við höfum farið, en við megum ekki gleyma því að vegferðin er ekki búin. Við þurfum áfram að vera leiðandi, áfram að standa með mannréttindum, áfram að tryggja að börn og ungmenni okkar fái fræðslu sem byggir á virðingu og fjölbreytileika, og áfram að skapa rými þar sem fólk upplifir sig öruggt og samþykkt.

Látum Hafnarfjörð vera stað þar sem við öll finnum að við erum velkomin. Það er okkar ábyrgð, og það er okkar tækifæri.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. september 2025.

Categories
Fréttir

Ræða Ingibjargar við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

11/09/2025

Ræða Ingibjargar við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Frú forseti. Kæru landsmenn. Við lifum á tímum sem kalla á festu, ábyrgð og víðsýni í stjórnmálum. Þjóðarbúið stendur sterkt þrátt fyrir margar áskoranir síðustu ára. Í alþjóðlegum samanburði er íslenskt samfélag í fararbroddi á mörgum sviðum. En það er ekki sjálfgefið að svo verði áfram. Ég ræddi nýlega við unga fjölskyldu á Norðurlandi sem hafði flutt heim eftir nokkur ár erlendis. Þau sögðu ástæðuna einfalda. Þau vildu ala börnin sín upp í öruggu samfélagi, í heilbrigðu umhverfi, í heimabyggð sem þau tengdust frá bernsku. Það sem réð úrslitum var að þau sáu fram á að hægt var að treysta á innviði, skóla, heilbrigðisþjónustu, húsnæði og öruggar samgöngur. Þau trúðu á framtíðina fyrir norðan.

Þessi saga minnir okkur á að stefnumótun og fjármál snúast ekki aðeins um tölur á blaði heldur um lífsgæði fólks og hamingju. Ekki verður hjá því komist að takast á við efnahagslegar áskoranir til skemmri tíma. Það er áhyggjuefni að verðbólgan hafi ekki lækkað eins og stefnt var að, að vaxtalækkunarferlið hafi stöðvast, sem hefur mikil áhrif á daglegt líf heimila og fyrirtækja í landinu. Til að ná árangri þurfum við trúverðugleika og aga í ríkisfjármálum, að farið sé vel með hverja krónu, og að tryggja fyrirsjáanleika fyrir atvinnulífið og fjölskyldur í landinu.

Í fjárlögum næsta árs birtast áherslur ríkisstjórnarinnar og mikið er talað um tiltekt, tiltekt sem felur í sér auknar álögur á heimilin í landinu þvert á gefin loforð. Lífeyrisréttindi eldra fólks eru skert. Ekki er nægilega vel komið til móts við barnafjölskyldur. Í húsnæðismálum skilar ríkisstjórnin auðu, sem er í raun stórmerkilegt í ljósi þess hversu erfitt er fyrir ungt fólk í landinu og marga að eignast sitt eigið húsnæði. Þá er áhyggjuefni á hversu brothættum forsendum fjárlögin standa. Þau treysta á hagvöxt, sem vissulega hefur verið kröftugur á liðnum árum, en hagvöxtur er hins vegar ekki sjálfgefinn, allra síst þegar við horfum til þróunar alþjóðamála, stríðsátaka víða um heim og óvissu um tollamál.

Frú forseti. Í heilbrigðiskerfinu er enn verk að vinna. Skortur er á sérfræðingum víða um land og geðheilbrigðismálin eru okkur öllum áhyggjuefni. Börn og ungmenni bíða of lengi eftir aðstoð, of lengi eftir greiningum og þegar greining liggur fyrir tekur jafnvel við önnur lengri bið. Hér verðum við sem þjóð að krefjast þess að kerfið standi undir væntingum og að þjónustan sé jöfn og örugg óháð búsetu.

Virðulegi forseti. Menntakerfið er hornsteinn samfélagsins. Raunveruleg sókn í menntamálum snýst um að tryggja að allir skólar ráði við þær öru samfélagsbreytingar sem orðið hafa og munu halda áfram að verða, svo að börn okkar fái sem bestan grunn til framtíðar. Við eigum sterkan grunn að byggja á. Í skólum landsins starfar öflugt fagfólk en við verðum að styðja það áfram. Við eigum að fjárfesta í kennurum, stuðningsúrræðum, markvissum aðgerðum og faglegu starfi. Til að tryggja þann stuðning þarf raunhæf markmið, fjármögnun og hugrekki til umbóta.

Við verðum að gera kröfur. Við eigum að gera kröfur um að allir sem vilja búa hér læri íslensku og setja um leið þá kröfu á okkur að tryggja öllum raunveruleg tækifæri til að læra málið. Íslenskukunnátta er lykilþáttur þegar kemur að samfélagsþátttöku allra sem hingað koma til lands. Þar verðum við að hafa kjark til að setja skýr markmið, krefjast árangurs og fylgja því eftir. Það að nemandi hafi grunnfærni í íslensku áður en hann kemur inn í bekkjarkennslu skiptir sköpum.

Námsmat í grunnskólum hefur einnig verið til umræðu og að foreldrar hreinlega skilji ekki námslega stöðu barna sinna. Við þurfum að leita leiða til að gera það gagnsærra, gera það skýrara. Við eigum að tryggja að börnin okkar fái viðeigandi kennslu, að foreldrar skilji framvindu náms barna sinna og að yfirvöld hafi raunverulega yfirsýn yfir stöðu menntakerfisins.

Frú forseti. Á komandi þingvetri munum við í Framsókn axla okkar hlutverk af ábyrgð. Við munum styðja við og greiða götu framfaramála en að sama skapi standa föst fyrir þar sem við teljum að vikið sé af leið. Við viljum halda áfram að móta samfélag í fararbroddi, samfélag sem setur fólkið í forgang, (Forseti hringir.) samfélag þar sem við höfum næg atvinnutækifæri, nýsköpun og öryggi, samfélag sem er fyrsti valkostur fólks (Forseti hringir.) eins og ungu fjölskyldunnar sem flutti norður og vill búa þar áfram. — Góðar stundir.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana á 157. löggjafarþingi 10. september 2025.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Deila grein

10/09/2025

Ræða Sigurðar Inga við umræðu um stefnuræðu forsætisráðherra

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við Íslendingar erum lánsöm þjóð. Við búum í landi sem er ríkt af auðlindum en stærsta auðlindin er fólkið sjálft. Á lýðveldistímanum höfum við sem þjóð farið úr því að vera ein sú fátækasta í Evrópu í að komast í þann hóp sem stendur sig hvað best. Þetta höfum við gert saman og sagan sýnir okkur að sameinuð þjóð getur tekist á við hvaða áskoranir sem er. Við höfum á örfáum árum staðið af okkur ýmsar efnahagslegar áskoranir, eldgos og aðrar náttúruhamfarir, heimsfaraldur, fall WOW air og stríð í Úkraínu. Og þrátt fyrir þessar áskoranir og þrátt fyrir að ríkissjóður hafi staðið undir beinum kostnaði sem nemur um 350 milljörðum króna erum við í betri stöðu en flestar aðrar þjóðir í Evrópu.

En það markverðasta er að við höfum meiri tækifæri en flestir til að gera lífskjör enn betri hér á landi. Á nær alla mælikvarða erum við í efstu sætum meðal samanburðarþjóða, friðsælasta og öruggasta land í heimi síðastliðin 18 ár. Lífskjör og velsæld eru að mati Sameinuðu þjóðanna mest hér. Hagvöxtur og kaupmáttur almennings hefur vaxið meira hér en annars staðar, sérstaklega borið saman við þjóðir Evrópu. Jöfnuður er meiri hér en á hinum Norðurlöndunum, hvað þá annars staðar. Og í jafnréttismálum höfum við forskot á allar aðrar þjóðir. Atvinnuleysi er lágt, mun lægra en í ESB-löndum, þó að það hafi aukist um nær eitt prósent á síðustu mánuðum. Okkar hagkerfi hefur því vaxið samhliða öflugri uppbyggingu atvinnulífsins og bætt lífskjör almennings. Allt þetta höfum við náð að gera saman á síðustu árum og áratugum sjálf þrátt fyrir utanaðkomandi ógnir.

En hér er þversögn sem við verðum að nefna. Í aðdraganda síðustu kosninga lýstu margir ástandinu sem afar alvarlegu, jafnvel versnandi. Nú þegar fyrsta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar liggur fyrir sjá þeir sömu aðilar ekki ástæðu til að gera miklar breytingar. Það er gott að lofa stöðugleika en það dugar ekki eitt og sér. Það er ekki nóg að segjast ætla að gera — tala og tala. Ríkisstjórnin hefði við núverandi aðstæður þurft að grípa til markvissari aðgerða til að koma verðbólgu og vöxtum niður. Sleggjan sem forsætisráðherra lofaði þjóðinni í aðdraganda síðustu kosninga hefur ekki komið niður og vonbrigðin eru augljós þegar við sjáum að aðgerðir til að styðja heimilin láta á sér standa.

En er allt þá bara í besta lagi? Auðvitað er það ekki svo. Það eru fjölmargir þættir í okkar samfélagi sem við getum bætt sjálf, á okkar eigin forsendum. Lífsseig verðbólgan og háir stýrivextir hafa hækkað kostnað heimila og fyrirtækja og þrengt að fjárhagslegu svigrúmi þeirra. Þröng staða ungs fólks á húsnæðismarkaði hefur gert mörgum erfitt fyrir að koma sér upp eigin heimili. Við þurfum að auka framboð og hraða uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og við þurfum að tryggja hagkvæm, óverðtryggð húsnæðislán til langs tíma á föstum vöxtum. Það er lykilatriði til að vinna á verðbólgunni. Stefnuræða forsætisráðherra og fjárlagafrumvarpið skila auðu í húsnæðismálum og lánamálum heimila.

Mig langar hér að ræða sérstaklega málefni barnanna okkar. Þau eru framtíðin. Eðlilega höfum við mörg áhyggjur af því umhverfi sem börnin okkar alast upp í, í samfélagi sem er flóknara og meira krefjandi en áður. Þess vegna skiptir öllu máli að við tryggjum þeim stuðning, jöfn tækifæri og öruggt umhverfi. Undir forystu Framsóknar var embætti barnamálaráðherra sett á laggirnar og málefni barna færð inn á dagskrá stjórnmálanna með nýjum hætti. Við höfum þegar stigið mikilvæg skref með farsældarlögunum. Nú þarf að klára það verkefni og nálgast hagsmuni barnsins þvert á kerfin þannig að þjónustan sé á forsendum barnsins en ekki kerfisins.

Kæru landsmenn. Það er ekki hægt annað en að nefna atburði síðastliðins sólarhrings þegar Rússar rjúfa lofthelgi Póllands með vopnuðum drónum. Það eru víðsjárverðir tímar sem við lifum. Aðildin að NATO og varnarsamningurinn við Bandaríkin eru hornsteinar varna okkar og öryggis út á við. Hér heima þurfum við að styrkja áfallaþolið. Það styrkjum við best með því að undirbúa nærsamfélagið. Öflug sveitarfélög þar sem innviðir virka vel, þar sem eru öflugar björgunarsveitir, íþróttafélög, góðgerðarfélög og samkennd er ríkjandi, það er dæmi um sterkt áfallaþol. Þegar hamfarir dynja á, af hvaða toga sem þær eru, þá er það hinn mannlegi þáttur sem skiptir öllu máli og þar stöndum við Íslendingar framarlega. Okkur er annt um náungann og við höfum ávallt sýnt að þegar á reynir stöndum við saman. Stjórnvöld verða að tryggja að umgjörðin sé styrk, að innviðir okkar virki, að fólkið okkar sé undirbúið. Og þar legg ég áherslu á öflugt samstarf almannavarna, lögreglu og landhelgisgæslu. Það eru okkar stoðir þegar á reynir — og samstaðan.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við eigum að vera stolt af því sem við höfum náð saman. Við eigum að tala samfélag okkar upp, vera uppbyggileg í málflutningi og takast á við áskoranir í sameiningu. Ísland er eins og eitt stórt heimili og við sem þar búum vitum að hreinskilni og samtal skipta þar miklu máli. Við verðum aldrei sammála um allt en það sem mestu skiptir er að við vinnum saman að því að byggja upp traust, samstöðu og bjartsýni. Þannig byggjum við upp betra samfélag. Það er lærdómurinn af sögu okkar, lýðveldissögunni, að þegar við stöndum saman er engin áskorun of stór. Framtíð Íslands er björt. Hún er í okkar höndum. Við getum þetta sjálf. Framsókn er til í þá samvinnu.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana á 157. löggjafarþingi 10. september 2025.