Categories
Fréttir Greinar

Þéttingarstefnan hefur brugðist og Dóra breytir um um­ræðu­efni

Deila grein

22/08/2025

Þéttingarstefnan hefur brugðist og Dóra breytir um um­ræðu­efni

Dóra Björt Guðjónsdóttir borgarfulltrúi skrifaði grein sem birtist á Vísi þann 23. júlí s.l. þar sem hún segir að þétting megi ekki lengur vera sökudólgur fyrir misheppnað borgarskipulag. Nú eigi umræðan fremur að snúast um „gæði“. En þegar borgarskipulagið hefur verið keyrt áfram í rúman áratug undir slagorðinu „þétta, þétta, þétta” án tillits til andstöðu almennings, þá er ekki hægt að þvo hendur sínar af afleiðingunum með nýrri orðræðu, en hugmyndafræði Dóru varðandi þéttingu kom berlega í ljós í greininni “Hvers vegna skiptir þétting byggðar máli”? sem birtist á Vísi 4. nóvember 2020.

Óraunsær samanburður við Kaupmannahöfn

Í grein sinni frá því í sumar vísar Dóra til Kaupmannahafnar sem fyrirmynd um vel heppnaða þéttingu. Það er því miður hugsanaskekkja að ætla að beita sama skipulags sniðmáti á tveimur gjörólíkum borgum. Þéttleiki í Kaupmannahöfn er tífalt meiri en í Reykjavík um 4.400 íbúar á ferkílómetra á móti 450 hér. Ef við ættum að ná sama þéttleika þyrfti að bæta við um milljón manns við í Reykjavík. Slíkt er einfaldlega ekki gerlegt miðað við núverandi íbúafjölda hér á landi. Þar að auki hefur Kaupmannahöfn frá byrjun byggst upp þétt á flötu landi sem hefur boðið upp á hagkvæma uppbyggingu á lestarkerfi og hjólreiðastígum. Aðstæður sem ekki eiga sér hliðstæðu í borg sem er fámenn, dreifð, mishæðótt og með rysjótt veðurfar stóran hluta ársins.

Þéttingarstefnan og afleiðingar hennar

Meðan vinstri meirihlutinn gengur sífellt lengra hvað varðar þéttingarstefnuna að þá hafa neikvæðar afleiðingar hennar hrannast upp. Í fyrsta lagi hefur fasteignaverð snarhækkað og fer nú oft yfir eina milljón krónur á fermetra, í öðru lagi er vaxandi húsnæðisskortur sem bitnar mest á ungu fólki og lægri tekjuhópum, í þriðja lagi hafa innviðir sprungið en leikskólar og grunnskólar eru yfirfullir og að lokum þurfa borgarbúar að glíma við sífellt meiri skort á bílastæðum, sérstaklega eldri borgarar, barnafjölskyldur og fatlaðir, þar sem almenningssamgöngur eru einfaldlega ekki alltaf raunhæfur valkostur í þeirra daglega lífi. Áhyggjur sem margoft hafa komið fram, nú síðast í viðtali við Sigurð Ágúst Sigurðsson, formann Félags eldri borgara, á laugardaginn var. Sigurður lýsir áhyggjum sínum yfir þróuninni og talar um flótta eldri borgara frá höfuðborginni til nærliggjandi sveitarfélaga. Einnig nefnir Bergur Þorri Benjamínsson, formaður aðgengishóps ÖBÍ, að áform borgarinnar um að takmarka byggingu bílastæðakjallara í nýjum fjölbýlishúsum muni bitna á fötluðu fólki.

Þegar þunginn í gagnrýninni eykst þá bregst vinstri meirihlutinn við með því að breyta orðræðunni. Nú eru það „gæði uppbyggingar“ en ekki lengur þéttingin sjálf sem á að vera meginviðfangsefni. Slíkur orðhengilsháttur dregur athyglina frá rót vandans sem er ofursókn meirihlutans í þéttingu án raunverulegs samráðs við borgarbúa.

Hverfi án lífsgæða?

Hlíðarendahverfið er lýsandi dæmi um hverfi sem auglýst var sem lífsgæðahverfi en sú hefur ekki orðið raunin. Þar standa hús svo þétt að sól nær varla að skína á göturnar, næði íbúa er lítið vegna þrengslanna og nýjastu íbúðirnar eru nánast byggðar ofan í Miklubraut. Margir eldri borgarar eiga erfitt með að fá bílastæði næst inngöngum húsa sem gerir þeim torveldara að bera matarpokana heim eftir innkaup. Borgaryfirvöld láta núna ekki sitja við að skipuleggja ný hverfi án þess að standa við loforð um lífsgæði. Þau vilja núna líka taka lífsgæðin af eldri grónum vinsælum hverfum eins og Hlíðunum sem voru skipulögð á sínum tíma af fagmennsku. Reykjavíkurborg ætlar sér þvert á vilja íbúa að fækka bílastæðum í Drápuhlíð og í framhaldi í öðrum götum hverfisins, þrátt fyrir mikla andstöðu íbúa og gera þannig líf þeirra erfiðara. Meirihlutinn gleymir því að alvöru gæði felast ekki í fallegum hugmyndum á blaði heldur í að fólk geti lifað daglegu lífi á mannsæmandi hátt og að það hafi næði, birtu, aðgengi, fjölbreytni í húsnæðiskostum og greiðar samgöngur.

Léleg nýting verslunarrýma

Þéttingarblokkir með lítið verslunarrými á fyrstu hæð eiga að skapa „hverfisverslanir“. Í raun hefur þetta leitt til tómra rýma og hærra íbúðaverðs. Ný byggð við Snorrabraut og Hlíðarendahverfið sanna það. Fólk kýs að versla þar sem vöruúrval og verð henta venjulegu fjölskyldufólki og þar sem bílastæði eru til staðar. Að þvinga verslun inn í blokkir gengur gegn raunverulegum þörfum fólks auk þess sem það hækkar fasteignaverð að óþörfu.

Skattheimta eða gæða borgarskipulag?

Reykjavík er lítil og strjálbyggð borg og mun alltaf verða það í samanburði við stórborgir eins og Kaupmannahöfn. Að beita sömu uppskriftum og þar gengur einfaldlega ekki hér. Það er ekki mikil þörf á víðtækri þéttingu þegar nægt ódýrt byggingarland er til staðar, þó að í sumum tilvikum geti hún átt rétt á sér.

Þrátt fyrir þetta heldur meirihlutinn áfram að þrýsta á þéttingu sem sjálfstætt markmið. Ekki vegna raunverulegrar þarfar heldur til að réttlæta Borgarlínu. Afleiðingin er sú að íbúðaverð hækkar og tekjur borgarinnar aukast í gegnum fasteignaskatta. Það vekur spurningar um hvort stefna sem kynnt er sem gæða borgarskipulag sé í raun dulbúin tekjuöflun.

Ef við ætlum að byggja borg sem þjónar íbúum sínum, þá verðum við að opna ný svæði, tryggja traustar stofnbrautir eins og Sundabraut, fjárfesta og styðja við hefðbundnar íslenskar almenningssamgöngur og auka við og styrkja göngu- og hjólreiðastíga. Borgaryfirvöld þurfa að hlusta á hvað borgarbúar vilja, skipuleggja borgina út frá íslenskum aðstæðum sem grundvallast á raunverulegum lífsgæðum og þörfum borgarbúa fyrir hagkvæmt og fjölbreytt íbúðarhúsnæði og því að komast greiðlega um.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, borgarfulltrúi Framsóknar og situr í Umhverfis- og skipulagsráði.

Greinin birtist fyrst á visir.is 22. ágúst 2025.

Categories
Fréttir

Sleggja Samfylkingarinnar

Deila grein

21/08/2025

Sleggja Samfylkingarinnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, segir ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur ekki hafa náð að lækka verðbólgu þrátt fyrir að það sé hennar stærsta verkefni. Traust markaðarins á aðgerðum er horfið. Seðlabankinn hefur lækkað stýrivexti fimm sinnum vegna fyrri jákvæðrar þróunar, en skortur á samstilltum aðgerðum og aðgerðaleysi ríkisstjórnar síðastliðið vor hefur gert stöðuna erfiðari.

„Stærsta verkefni ríkisstjórnarinnar er að ná verðbólgunni niður og þar hefur henni mistekist. Sleggja Samfylkingarinnar, sem átti að lemja niður verðbólgu og vexti, hefur reynst innantómt slagorð.

Frá því í október hefur Seðlabankinn lækkað stýrivexti fimm sinnum, úr 9,25% niður í 7,5%. Sú lækkun byggðist svo sannarlega ekki á verkum núverandi ríkisstjórnar – heldur á því að við vorum á réttri leið og þá var almenn bjartsýni um að hægt væri að ná tökum á verðbólgunni.

Ég kallaði eftir því á Alþingi í vor, þegar óveðurskýin birtust, að ríkisstjórnin fundaði án tafar með hagsmunaaðilum um stöðu og horfur í baráttunni við verðbólguna. Forsætisráðherra taldi ekki ástæðu til þess. Við þurfum í sameiningu að ráðast gegn þeirri vá sem verðbólgan er. Staðan sýnir okkur að hyggilegt hefði verið að blása til sóknar síðastliðið vor – þá værum við betur í stakk búin til að mæta þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir í dag.

Nú blasir við að stefna ríkisstjórnarinnar sem m.a. kemur fram í ríkisfjármálaáætlun og öðrum aðgerðum – eða aðgerðaleysi. Verðbólguvæntingar og traust markaðarins á því að hún ráði við verkefnið er einfaldlega ekki til staðar. Við því þarf að bregðast.“

Categories
Fréttir

Hlutdeildarlán – mikilvægur möguleiki fyrir fyrstu kaupendur

Deila grein

21/08/2025

Hlutdeildarlán – mikilvægur möguleiki fyrir fyrstu kaupendur

„Það er ánægjulegt að sjá áhuga landsmanna á hlutdeildarlánunum. Fjöldi umsókna sýnir að þetta úrræði skiptir máli og hefur raunverulega þýðingu fyrir fólk sem er að stíga sín fyrstu skref á húsnæðismarkaði,“ segir Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) bárust alls 33 umsóknir um hlutdeildarlán í ágúst, að andvirði um 513 milljóna króna. Til úthlutunar fyrir tímabilið eru hins vegar aðeins 333 milljónir króna. HMS stefnir að því að ljúka afgreiðslu umsókna í síðari hluta næstu viku.

Af umsóknunum 33 voru 28 með samþykkt kauptilboð, samtals að andvirði 429 milljóna króna. Aðeins fjórar umsóknir bárust vegna kaupa á íbúðum utan höfuðborgarsvæðisins.

„Ég tel mikilvægt að við lærum af reynslunni og skoðum hvort og hvernig hægt sé að útvíkka hlutdeildarlánin svo fleiri geti nýtt sér þau. Sérstaklega þurfum við að huga að því hvernig þau nýtast betur utan höfuðborgarsvæðisins, þar sem hlutfall umsókna hefur farið lækkandi. Við eigum að byggja á því sem hefur reynst vel og skapa fleiri tækifæri fyrir fólk til að eignast eigið heimili,“ segir Ingibjörg.

Hlutdeildarlán eru veitt til kaupa á nýjum íbúðum og standa til boða fyrir fyrstu kaupendur og þá sem ekki hafa átt íbúð síðastliðin fimm ár, að uppfylltum tekjumörkum.

Categories
Fréttir Greinar

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Deila grein

21/08/2025

Lof­orðið sem borgar­stjóri gleymdi

Stundum gleymast kosningaloforð. Fyrir tæpum þremur árum lofaði Samfylkingin því að börn frá 12 mánaða aldri kæmust inn í leikskóla. Nú þegar líður að lokum kjörtímabilsins er ekkert sem bendir til þess að það loforð verði efnt.

Þegar ég benti á loforð Samfylkingarinnar um leikskólapláss fyrir 12 mánaða börn kannaðist borgarstjóri ekki einu sinni við það og spurði: „hvar hefur Samfylkingin lofað því?” Það eitt og sér segir margt um forgangsröðun Samfylkingarinnar í Reykjavík.

Raunveruleikinn er sá að leikskólapláss í hverfisleikskólum við 12 mánaða og jafnvel 18 mánaða aldur er fjarlæg draumsýn. Því þótt sum börn fái úthlutað pláss við 18 mánaða aldur er það oft í allt öðru hverfi en heimilið þeirra er staðsett í og ef það á eldra systkini er heldur ekki víst að barnið fái pláss í sama leikskóla og eldra systkini þeirra er í. Þetta veldur tilheyrandi álagi á fjölskyldur sem þurfa að samræma vinnu, skóla og daglegt líf við langar ferðir á milli hverfa til að fara með börn í leikskóla. Til að gæta sanngirnis þá tek ég fram að ég átta mig á því að ekki er hægt að draga töfralausn á dagvistunar vandanum úr ímynduðum hatti. Það mun taka tíma að leysa vandann. Ekki er nóg að byggja leikskóla heldur þarf að manna þá og það vantar fleira starfsfólk inn í leikskólakerfið. Samfylkingin virðist þó vera blind á þann raunveruleika og reyndi að draga upp töfralausn á leikskóla vandanum úr ímynduðum hatti fyrir síðustu kosningar.

Þessi sami flokkur sem lofaði foreldrum 12 mánaða barna leikskólapláss virðist einnig blindur á stöðu foreldra sem eru að bíða eftir dagvistun fyrir börn sín og hafnar jafnframt því að veita foreldrum greiðslur heim á meðan þeir bíða eftir plássi. Fjárhagsleg aðstoð við foreldra til að létta undir á meðan þeir bíða eftir dagvistun er til staðar fyrir foreldra í Hafnarfirði, Kópavogi og Hveragerði ásamt fjölda annara sveitarfélaga en meirihlutinn í Reykjavíkurborg vill ekki sjá að foreldrum í Reykjavík sé mætt með sambærilegum hætti. Afleiðingin er sú að foreldrar sem lokið hafa fæðingarorlofinu eru án dagvistunar og sitja eftir með fjárhagsáhyggjur vegna þess að þau geta ekki farið aftur á vinnumarkaðinn. Samfylkingin sem heldur á forsætisráðherrastólnum virðist þá ekki hafa nein áform um að lengja fæðingarorlofið á vettvangi löggjafans til að mæta barnafólki.

Hér er ekki bara um gleymd (og þar með brotin) loforð að ræða heldur snýst þetta um forgangsröðun og ábyrgð meirihlutans gagnvart barnafólki sem á að geta treysti því að stjórnvöld standi við stóru orðin og mæti þeirri stöðu sem uppi er þegar draumastaðan um leikskólapláss við 12 mánaða aldur næst ekki t.a.m. með heimgreiðslum.

Hvaða ,,plan” ætli verði dregið upp úr ímyndaða hattinum næst?

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar Nýjast

Evran stóðst ekki væntingar um aukinn hagvöxt

Deila grein

19/08/2025

Evran stóðst ekki væntingar um aukinn hagvöxt

Þegar evr­an var tek­in í notk­un árið 1999 voru von­irn­ar mikl­ar og sögu­leg­ar. Sam­eig­in­legi gjald­miðill­inn átti að binda álf­una nán­ar sam­an, stuðla að öfl­ug­um hag­vexti með auk­inni efna­hags­legri samþætt­ingu. Rök­semd­irn­ar fyr­ir evr­unni byggðust á tveim­ur meg­in­stoðum. Í fyrsta lagi að efna­hags­leg samþætt­ing myndi auka hag­vöxt með því að fjar­lægja efna­hags­leg­ar hindr­an­ir. Í öðru lagi að fjár­magns­kostnaður myndi minnka vegna stærri gjald­miðils. Vand­inn er að for­send­urn­ar voru veik­ar í upp­hafi. Hinn sam­eig­in­legi markaður hafði þegar tryggt hið svo­kallaða fjór­frelsi, þ.e. frjálsa för vöru, þjón­ustu, fjár­magns og vinnu­afls inn­an innri markaðar EES. Gjald­miðlamun­ur var vissu­lega óþægi­leg­ur, sér­stak­lega fyr­ir ferðamenn, en í dag er það lít­il efna­hags­leg hindr­un á tím­um ra­f­ræns fjár­magns.

Fjár­magns­kostnaður þjóðríkja end­ur­spegl­ast iðulega í því vaxta­álagi sem rík­is­sjóðir þeirra bera, sem gef­ur svo mynd af grunnþátt­um viðkom­andi hag­kerf­is. Vext­ir á grísk­um rík­is­skulda­bréf­um urðu 22,5% árið 2012 og á tíma­bili gátu mörg evru­ríki ekki gefið út rík­is­skulda­bréf. Á sama tíma voru vext­ir á þýsk­um rík­is­skulda­bréf­um um 1%. Evr­an hef­ur til að mynda ekki end­ur­speglað sterka efna­hags­lega stöðu Þýska­lands und­an­far­in miss­eri. Þýska­land hef­ur haft gjald­miðil sem er veik­ari en efni standa til, sem hef­ur svo bætt sam­keppn­is­stöðu lands­ins, en á sama tíma hef­ur Grikk­land haft mun sterk­ari gjald­miðil en hag­kerfið þolir, sem hef­ur veikt veru­lega sam­keppn­is­stöðu lands­ins, og aðlög­un­in hef­ur komið í gegn­um vinnu­markaðinn.

At­vinnu­leysi ungs fólks í Grikklandi náði allt að 50%, þegar verst lét. Vinnu­málaráðherra Grikk­lands, Niki Kera­meus, fer nú um alla Evr­ópu til að hvetja vel menntaða brott­flutta Grikki til að snúa aft­ur til lands­ins með skatta­leg­um hvöt­um. Um 600 þúsund vel menntaðir Grikk­ir yf­ir­gáfu landið í efna­hagsþreng­ing­um þeirra. Sum­ir myndu segja að þarna væri hinn sam­eig­in­legi markaður að virka. Það er rétt, en her­kostnaður­inn fyr­ir marg­ar kyn­slóðir er ómet­an­leg­ur vegna spekilek­ans sem á sér stað.

Vöxt­ur lands­fram­leiðslu í Evr­ópu er mun minni en í Banda­ríkj­un­um. Sam­kvæmt Drag­hi-skýrsl­unni hef­ur mun­ur­inn á fram­leiðslu svæðanna auk­ist enn frek­ar eft­ir að evr­an var tek­in upp. Árið 2002 var fram­leiðsla Banda­ríkj­anna 17% meiri en á evru­svæðinu, en árið 2023 var mun­ur­inn orðinn 31% og hef­ur því auk­ist um 82% á tíma­bil­inu! Evr­an átti að vera svar Evr­ópu við Banda­ríkj­un­um. Eitt öfl­ugt markaðssvæði með eina rödd, einn markað og eina mynt. Hug­mynda­smiðir evr­unn­ar reru þó á ókunn mið. Niðurstaðan er skýr: Evr­an hef­ur ekki staðið und­ir vænt­ing­um um auk­inn hag­vöxt og vel­sæld.

Höfundur er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Landbúnaðurinn kallar á pólitískt hugrekki

Deila grein

19/08/2025

Landbúnaðurinn kallar á pólitískt hugrekki

Það er óumdeilanlegt að íslenskur landbúnaður stendur á krossgötum. Íslenskir bændur eru burðarás í framleiðslu hollra og öruggra matvæla fyrir þjóðina, bændur hafa mátt þola versnandi starfsum-hverfi á undanförnum árum. Nýliðun í greininni er lítil sem engin og fjárhagslegt svigrúm margra bænda þrengist sífellt. Þetta er alvarlegt ástand sem krefst tafarlausra aðgerða, til þess að tryggja framtíð landbúnaðarins í landinu.

Á sama tíma og bændur standa frammi fyrir auknum kostnaði, ekki síst vegna hárra stýrivaxta og vax-andi innflutnings á landbúnaðarvörum sem fluttar eru til landsins í gegnum EES-samninginn, hafa þeir þurft að fjárfesta mikið í innviðum vegna innleiðingar á ströngu EES-regluverki um velferð dýra. Slíkt regluverk er vissulega mikilvægt og nauðsynlegt, en það hefur verið dýrt og nær alfarið fjármagnað af bændum sjálfum, án þess að kerfið hafi tekið nægjanlegt tillit til ástands atvinnugreinarinnar.

Við þessar aðstæður er brýn nauðsyn að styðja íslenska bændur með markvissum aðgerðum. Endur-skoða þarf tollaumhverfi landbúnaðar, sérstaklega krónutölutolla sem ekki hafa verið uppfærðir í samræmi við verðlagsþróun. Slík skekkja skapar ósanngjarna samkeppnisstöðu fyrir innlenda fram-leiðendur og grefur undan sjálfbærni greinarinnar.

Framsókn hefur lagt ríka áherslu á að bæta starfsumhverfi bænda. Það er nauðsynlegt skref til að snúa þróuninni við. Ungt fólk velur sífellt síður að hefja búskap, ekki vegna skorts á vilja eða hugsjón, heldur vegna þess að raunverulegir hvatar og aðstæður eru ófullnægjandi. Ef við viljum sjá nýliðun verðum við að bjóða raunhæfa framtíðarsýn.

Sterkt samspil ríkis og bænda – forsenda framtíðar

Þjóð sem tryggir ekki eigið matvælaöryggi setur sig í óviðunandi stöðu. Það er frumskylda hvers sam-félags að tryggja íbúum næg og heilnæm matvæli á viðráðanlegu verði. Til þess þarf að vera skýrt, gagnsætt og traust samstarf milli ríkisvalds og bænda. Slíkt samstarf verður að grundvallast á þremur stoðum:

Stuðningi við innlenda matvælaframleiðslu, þar sem tryggt er að matvæli séu framleidd innanlands og byggð upp af fagfólki

Byggðastuðningi, með áherslu á virkt atvinnulíf í dreifbýli allt árið

Stuðningi við loftslagsvænan landbúnað, sem gerir greinina að virkum þátttakanda í baráttunni gegn loftslagsbreytingum

Fjárhagslegar úrbætur – hvatakerfi sem virka

Nýliðun í landbúnaði krefst einnig fjárhagslegra úrbóta. Nauðsynlegt er að bjóða upp á skattaívilnanir og langtímalán fyrir unga bændur sem vilja taka sín fyrstu skref í greininni. Við getum litið til fyrir-mynda í Noregi og innan EES þar sem skattalegir hvatar hafa reynst áhrifaríkir við kaup og sölu búj-arða til áframhaldandi landbúnaðarstarfsemi.

Framsókn hefur talað fyrir hlutdeildarlánum þar sem ríkið leggur til 25-30% af kaupverði bújarða, með möguleika á endurgreiðslu síðar. Enn fremur er mikilvægt að stórbæta fjármögnun í gegnum Byggðastofnun og veita lágvaxtalán með langtímaáætlunum, í anda gömlu stofnlánadeildarinnar.

Endurskoðun stuðningskerfa – markviss og réttlát skipting

Það þarf að líta gagnrýnið á stuðningskerfi landbúnaðarins og taka það til endurskoðunar með það að markmiði að þeir sem stunda landbúnað í atvinnuskyni fái hlutfallslega meiri stuðning. Það eykur

framleiðslugetu. Halda þarf inni greiðslumarki, sem hefur reynst lykilatriði í rekstraröryggi sauðfjár-bænda, að minnsta kosti þar til önnur jafnvirk leið hefur verið þróuð.

Landbúnaður er ekki aðeins atvinnugrein, hann er lífsnauðsynlegur þáttur í öryggi og sjálfbærni þjóðarinnar. Nú þarf að sýna pólitískt hugrekki og viljastyrk til að taka afgerandi skref í þágu íslenskra bænda.

Það sem stendur undir íslenskum landbúnaði er ekki eingöngu fjárhagslegt virði, heldur samfélags-legt, menningarlegt og þjóðhagslegt mikilvægi sem ekki verður metið til fulls í krónum og aurum.

Nú er tíminn til að bregðast við. Tíminn til að snúa vörn í sókn. Fyrir framtíð íslensks landbúnaðar – og fyrir framtíð þjóðarinnar allrar.

Höfundur er Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. ágúst 2025

Categories
Fréttir Greinar

Matvælaöryggi og framtíð landbúnaðarins

Deila grein

19/08/2025

Matvælaöryggi og framtíð landbúnaðarins

Íslenskur landbúnaður stendur á tímamótum. Á sama tíma og sauðfjárbændur gera þá eðlilegu kröfu að afkoma búanna standi undir rekstrinum, blasir við stærri mynd að matvælaöryggi þjóðarinnar er ekki sjálfgefið og að það krefst markvissrar og víðtækrar uppbyggingar á innlendri framleiðslu.

Reynsla síðustu ára, ekki síst heimsfaraldur og efnahagslegar sveiflur á alþjóðavísu og ófriður í Evrópu hefur sýnt okkur hversu brothætt alþjóðlegt matvælakerfi getur verið. Stríðsátök, loftslagsbreytingar, röskun á aðfangakeðjum og hækkanir á flutnings og aðfangakostnaði geta leitt til þess að öruggt aðgengi að matvælum verður ekki lengur sjálfsagt mál, jafnvel í ríkustu ríkjum heims. Í þessu samhengi verður ljóst hversu mikils virði innlend matvælaframleiðsla er og hversu dýrt það getur reynst að vanrækja hana.

Öflug innlend framleiðsla er hornsteinn matvælaöryggis

Það er ekki hægt að tala um raunverulegt matvælaöryggi nema þjóð geti að verulegu leyti treyst á eigin framleiðslu. Því þarf að stórefla innlenda matvælaframleiðslu ekki bara til að tryggja stöðugt framboð, heldur einnig til að verja íslenskan neytanda gegn sveiflum á heimsmarkaði og ófyrirséðum utanaðkomandi áföllum.

Sauðfjárrækt, nautakjöts framleiðsla og annar hefðbundinn búrekstur eru ómissandi hluti af þessu öryggisneti. En ef bændur fá ekki réttláta afkomu, ef verð fyrir naut og dilkakjöt stendur ekki undir kostnaði jafnvel með stuðningskerfum og ef ekki er raunverulegt svigrúm til fjárfestinga, þá brotnar þessi undirstaða smám saman niður.

Samfélagið þarf að taka afstöðu

Það þarf skýra stefnu, pólitíska ábyrgð og vilja til þess að tryggja að íslensk matvælaframleiðsla njóti þeirra rekstrarskilyrða sem hún þarfnast. Sú stefna þarf að vera meira en skammtímastuðningur hún þarf að vera hluti af öryggisstefnu ríkisins, rétt eins og orkuöryggi eða heilbrigðisþjónusta. Við Framsóknarmenn höfum slíka stefnu sem má finna á heimasíðu flokksins.

Nýir búvörusamningar verða að endurspegla þessa sýn. Þeir þurfa ekki aðeins að tryggja sjálfbæra afkomu bænda, heldur verða einnig að leggja grunn að sterkari, fjölbreyttari og sjálfbærari matvælaframleiðslu innanlands. Þar þarf að styðja við nýsköpun, og að tryggja að landbúnaðurinn laði að ungt fólk með framtíðarsýn og áhuga á að þróa greinar sínar áfram.

Matvælaöryggi sem sameiginlegt samfélagsmarkmið

Þetta er ekki aðeins verkefni bænda. Það er sameiginlegt verkefni neytenda, stjórnvalda, atvinnulífs og menntakerfis að styðja við innlenda framleiðslu og sjá til þess að hún verði raunverulegur kostur í hillum, í huga neytenda og í stefnu stjórnvalda.

Matvælaöryggi er ekki eitthvað sem má taka sem sjálfsagðan hlut. Það þarf að byggja það upp með markvissri fjárfestingu, raunhæfum rekstrarskilyrðum og virðingu fyrir þeirri vinnu sem felst í að framleiða holl, hrein og örugg matvæli innanlands.

Nýir búvörusamningar þurfa því að vera meira en tryggingakerfi þeir þurfa að vera framtíðarsýn um það hvernig við viljum byggja íslenskan landbúnað sem öflugan burðarás í matvælaöryggi þjóðarinnar, sem traustan atvinnuveg með raunverulegum aðgerðum.

Búvörusamningar renna út árið 2026

Núgildandi búvörusamningar milli ríkisins og bænda voru undirritaðir árið 2016 og gilda í tíu ár, eða til ársloka 2026. Samningarnir fela í sér bæði almennan rammasamning og sérsamninga fyrir mjólkurframleiðslu og sauðfjárrækt. Þar sem aðeins rúmt ár er eftir af samningstímanum, stendur nú yfir undirbúningur að nýjum samningum sem munu móta framtíð íslensks landbúnaðar til næstu ára og áratuga. Því er mikilvægt að sjónarmið bænda, neytenda og samfélagsins alls fái skýra og ákveðna rödd í þeirri vinnu sem fram undan er. Nýverið sendi deild sauðfjárbænda innan Bændasamtaka Íslands frá sér fréttatilkynningu sem má með sanni kalla neyðarkall. Þar er vakin athygli á alvarlegri stöðu greinarinnar og því að brýnt sé að bregðast strax við – bæði með breyttum rekstrarskilyrðum og skýrri framtíðarsýn í nýjum búvörusamningum.

Anton Guðmundsson, Oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 13. ágúst 2025

Categories
Fréttir Greinar

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Deila grein

13/08/2025

Fasteignagjöld í brennidepli – mikilvægt að huga að stöðu íbúanna

Nýtt fasteignamat Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) fyrir árið 2026 sýnir að hækkunin á Suðurnesjum er meiri en að meðaltali á landsvísu. Á landsvísu hækkar fasteignamat um 9,2% milli ára, en á Suðurnesjum og Norðurlandi er hækkunin mest.

Í Suðurnesjabæ hækkar fasteignamat íbúðarhúsnæðis að meðaltali um 17,2% um næstu áramót og er það ein sú mesta hækkun á landvísu. Þetta er umtalsverð hækkun sem kemur á tíma þegar margir íbúar glíma nú þegar við aukinn kostnað vegna vaxta og verðbólgu. Slík hækkun mun óhjákvæmilega hafa áhrif á fjárhagsstöðu heimilanna, ef ekki er brugðist við í álagningarstuðli fasteignagjaldanna.

Bæjarráð Suðurnesjabæjar hefur þegar lýst vilja sínum til að bregðast við þessari þróun með því að lækka álagningarhlutfall fasteignagjalda. Nánari útfærsla á lækkuninni verður unnin samhliða við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026. Við í Framsókn, sem eigum fulltrúa í bæjarráði, og munum við að sjálfsögðu fylgja málinu eftir í þeirri vinnu að 17,2% hækkun fari ekki beint ofan á núverandi reiknistuðul fasteignargjalda.

Hækkun fasteignamats mun einnig hafa áhrif á aðra reiknistuðla í sveitarfélaginu, til dæmis gjaldskrá vatnsveitu Sandgerðis sem er í eigu Suðurnesjabæjar, Þar hefur meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Bæjarlistans lýst vilja til að selja eignarhlut sveitarfélagsins í vatnsveitunni.

Við í Framsókn teljum slíka sölu ekki skynsamlega og í raun óafturkræfa. Það er mikilvægt að grunninnviðir sveitarfélagsins séu í eigu þess sjálfs, því slíkar eignir eru ekki aðeins fjárhagsleg verðmæti heldur einnig trygging fyrir að samfélagið hafi stjórn á eigin þjónustu og verðlagningu. Ef slíkur eignarhlutur er seldur til einkaaðila, hverfur þessi stjórn og framtíðaráhrif geta orðið íbúum kostnaðarsöm.

Því teljum við að réttara sé að endurskoða reiknistuðul vatnsskattarins til að jafna greiðslubyrði á milli byggðarkjarna í Suðurnesjabæ, Garði og Sandgerði. Með því er hægt að ná sanngjarnari skiptingu án þess að selja mikilvæga innviði.

Slík nálgun er betri kostur en að selja innviði sveitarfélagsins úr sameiginlegri eigu. Það er á ábyrgð okkar kjörinna fulltrúa að verja hagsmuni íbúa, tryggja að þjónusta og innviðir haldist í traustri eigu sveitarfélagsins og kappkosta að halda álögum á íbúa okkar í lágmarki.

Anton Guðmundsson, oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ.

Greinin birtist fyrst á vf.is 13. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissuferð

Deila grein

12/08/2025

Óvissuferð

Staða efna­hags­mála í sum­ar­lok ein­kenn­ist af mik­illi óvissu og stór­um áskor­un­um. Í fyrsta lagi hef­ur verðbólga ekki lækkað eins og von­ir stóðu til. Í öðru lagi hef­ur um­hverfi ut­an­rík­is­viðskipta versnað veru­lega, sem dreg­ur úr sam­keppn­is­hæfni. Að lok­um skort­ir skýra og gagn­sæja stefnu í rík­is­fjár­mál­um.

Verðbólga mæl­ist 4% á árs­grund­velli og hækk­an­ir mæl­ast á breiðum efna­hags­leg­um grunni. Á sama tíma hef­ur ávöxt­un­ar­krafa verðtryggðra rík­is­skulda­bréfa til lengri tíma hækkað um­tals­vert. Vænt­ing­ar markaðar­ins um þróun verðbólgu og raun­vaxta til lengri tíma hafa einnig auk­ist. Þetta þýðir að vext­ir til heim­il­anna verða einnig hærri til lengri tíma, þar sem fjár­mögn­un­ar­kostnaður rík­is­ins er grunn­ur að verðlagn­ingu alls kerf­is­ins. Þótt styrk­ing krón­unn­ar ætti að vega á móti verðbólguþrýst­ingi hef­ur sterk­ara gengi ekki enn skilað sér til al­menn­ings. Margt bend­ir til þess að krón­an geti veikst í haust vegna auk­ins viðskipta­halla og mik­ill­ar óvissu á alþjóðamörkuðum.

Óviss­an hef­ur sjald­an verið meiri í alþjóðahag­kerf­inu. Tolla­stríðið sem nú geis­ar í alþjóðaviðskipt­um er án for­dæma. Fyr­ir­séð var að banda­rísk stjórn­völd myndu hefja tíma­bil ný-kaupauðgis­stefnu, sem fel­ur í sér að auka út­flutn­ing Banda­ríkj­anna, draga úr inn­flutn­ingi og hækka tolla til að auka tekj­ur rík­is­sjóðs. Hér er um nýja efna­hags­stefnu að ræða, þar sem ut­an­rík­is­viðskipti eiga að koma með bein­um hætti að hag­stjórn í aukn­um mæli. Á sama tíma hef­ur for­seti Banda­ríkj­anna verið að styrkja laga­lega um­gjörð raf­mynta, og verður fróðlegt að fylgj­ast með sam­spili þess og hvort eft­ir­spurn auk­ist að nýju eft­ir banda­rísk­um rík­is­skulda­bréf­um. Mark­mið efna­hags­stefn­unn­ar er að minnka þrálát­an viðskipta­halla og auka fjár­fest­ing­ar inn­an­lands. Það sem hef­ur komið á óvart eru fyr­ir­hugaðir refsitoll­ar Evr­ópu­sam­bands­ins á fram­leiðslu kís­il­málma og að þeim skuli verða beitt gagn­vart EES-ríkj­um. Ólík­legt þykir að Evr­ópu­sam­bandið haldi sig við þessa stefnu til lengri tíma og virði ekki EES-samn­ing­inn. Mikið er í húfi fyr­ir þjóðarbúið að EES-samn­ing­ur­inn sé virt­ur.

Fyrsta fjár­laga­frum­varp rík­is­stjórn­ar­inn­ar verður kynnt í sept­em­ber. Rík­is­fjár­mála­áætl­un­in hef­ur verið samþykkt og þar er gert ráð fyr­ir auknu aðhaldi, en út­færsla þess hef­ur ekki verið kynnt og eyk­ur því óvissu. Vantað hef­ur upp á ákveðin gögn og fyr­ir­sjá­an­leik­inn því minnkað.

Efna­hags­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar er óvissu­ferð. Brýnt er að for­gangsraða í þágu verðlags­stöðug­leika og hags­muna­gæslu fyr­ir land og þjóð. Allt stefn­ir í auk­inn viðskipta­halla ef rík­is­stjórn­in hug­ar ekki bet­ur að sam­keppn­is­hæfni og að efla ís­lenska fram­leiðslu. Efna­hags­leg­ar af­leiðing­ar eru þekkt­ar. Lífs­kjör þjóðar­inn­ar ráðast af því hvernig til tekst!

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 12. ágúst 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hetjan mín

Deila grein

05/08/2025

Hetjan mín

Guðný Jóns­dótt­ir langamma mín fædd­ist 5. ág­úst 1910 og því eru liðin 115 ár frá fæðingu henn­ar. Hún fædd­ist á Mel­um í Fljóts­dal og bjó þar fyrstu ævi­ár­in. For­eldr­ar henn­ar, Jón Mika­el­son og Arn­fríður Eðvalds­dótt­ir, reistu sér síðar bú á Una­ósi ásamt sex börn­um sín­um. Þegar langamma var tíu ára lést faðir henn­ar. Langamma var næ­stelst í hópi systkin­anna. Heim­ilið leyst­ist upp og börn­in voru send hvert í sína átt. Móðir henn­ar tók eitt barn­anna með sér, og langamma tók yngsta bróður sinn með sér í vinnu­mennsku og sá fyr­ir hon­um.

Snemma var hún far­in að axla ábyrgð, og sagt var að hún hefði ekki aðeins hlúð að yngsta bróður sín­um, held­ur verið vak­in og sof­in yfir aðbúnaði hinna systkin­anna. Hrepp­ur­inn vildi styrkja hana til náms, en hún þurfti að hafna því vegna skyldna sinna, þá ekki nema tólf ára göm­ul.

Fljótt komu í ljós þeir eig­in­leik­ar sem ein­kenndu hana: sjálfs­bjarg­ar­viðleitn­in og hjálp­sem­in. Þeir urðu síðar marg­ir sem hún tók upp á arma sína og skaut skjóls­húsi yfir, skyld­ir og óskyld­ir. Ekki er ólík­legt að kröpp kjör í bernsku hafi gert lang­ömmu mína að þeirri fé­lags­hyggju­konu sem hún varð. Hún hafði mik­inn áhuga á stjórn­mál­um og skipaði sér í sveit með þeim sem börðust fyr­ir rétt­ind­um verka­fólks og annarra sem minna máttu sín í sam­fé­lag­inu. Á kreppu­ár­un­um voru síld­artunn­ur notaðar sem ræðustól­ar til að vekja at­hygli á rétt­ind­um verka­fólks. Langamma fór síðar meir út í veit­ing­a­rekst­ur. Hún keypti og rak mat­sölu um ára­bil í Aðalstræti 12. Sá rekst­ur gekk vel, enda var hún út­sjón­ar­söm. Mat­ur­inn þótti heim­il­is­leg­ur og meðal fastak­únna voru oft fá­tæk­ir skóla­pilt­ar og verka­menn. Marga þeirra annaðist hún eins og þeir væru úr henn­ar eig­in fjöl­skyldu.

Á aðfanga­dags­kvöld­um var mat­sal­an jafn­an opin og þá margt um mann­inn. Marg­ir áttu sín einu jól hjá lang­ömmu. Hún tók þátt í starfi fé­lags starfs­fólks á veit­inga­hús­um. Hún varð formaður þess árið 1956 og gegndi for­mennsku til 1962. Mat­sölustaðinn seldi hún árið 1966 og keypti þá jörðina Vatns­enda í Vill­inga­holts­hreppi. Þar stundaði hún bú­skap næstu árin af mikl­um mynd­ar­brag. Mjólk­ur­fram­leiðsla henn­ar þótti jafn­an til fyr­ir­mynd­ar og hlaut viður­kenn­ingu frá Mjólk­ur­búi Flóa­manna.

Fram­far­irn­ar sem orðið hafa á ís­lensku sam­fé­lagi frá þess­um tíma eru fá­heyrðar í hag­sögu þjóða. Tæki­fær­in eru gjör­ólík þeim sem voru við upp­haf síðustu ald­ar. Ég velti því oft fyr­ir mér, sem ráðherra, hvar lang­ömmu hefði þótt skór­inn helst kreppa. Ávallt kemst ég að sömu niður­stöðu: Staða mennta­kerf­is­ins. Við þurf­um að efla það áfram og veita öll­um börn­um tæki­færi til mennt­un­ar.

Krafta­verk­in í líf­inu eru mörg og mis­stór, og stund­um eru þau unn­in af ein­stak­ling­um sem lyfta björg­um. Langamma mín var slík kona og hetj­an mín.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. ágúst 2025.