Categories
Fréttir

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar 

Deila grein

26/03/2025

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar 

Vorfundur miðstjórnar Framsóknar fór fram um síðustu helgi á Akureyri. Var fundurinn mjög vel heppnaður og kröftugur. Fram fóru mjög málefnalegar og góðar umræður, enda hefur grasrót Framsóknar á að skipa gríðarlega öflugu fólki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hélt yfirlitsræðu á fundinum og í henni lagði hann áherslu á mikilvægi þess að flokkurinn nýti nú tækifærið til að styrkja innra starf sitt og fara í öfluga sókn eftir að hafa farið í gegnum erfiða kosningabaráttu.

„Það er engin launung að úrslit síðustu kosninga voru okkur erfið. Mörg okkar upplifðum sorgarferli – Við megum hins vegar ekki láta það slá okkur út af laginu. Þvert á móti – í öllum aðstæðum eru fólgin tækifæri og við eigum nú að nýta tímann vel í uppbyggingarstarfinu,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að Framsókn hafi farið úr því að vera í vörn í ríkisstjórn í að vera komin í sókn í stjórnarandstöðu. Hann greindi frá því að hann hafi undanfarnar vikur átt samtöl við rúmlega 600 flokksmenn um allt land og að þau samtöl hafi gefið skýra mynd af því hvað þurfi að gera til að styrkja flokkinn.

„Í Framsókn eru rúmlega 12.000 félagsmenn og í því fólki eigum við mikinn auð. Ég vil efla starf Framsóknarflokksins í samstarfi við fólkið og við ætlum að hlusta á fólkið okkar. Þess vegna munum við leita til hins almenna flokksmanns um ráð og nýjar hugmyndir með því að spyrja hvað megi betur fara í flokksstarfinu, hvaða áherslur viljum við sjá og hvernig við getum gert starf okkar öflugra og aðgengilegra? Við munum vinna úr tillögum flokksfólks í framhaldinu og leggja fram til umræðu og afgreiðslu á næsta flokksþingi,“ sagði Sigurður Ingi.

Formaðurinn lýsti yfir að komið verði á fót „skuggaráðuneytum“ þar sem færustu sérfræðingar flokksins munu vinna með þingflokknum að stefnumótun og veita ríkisstjórninni aðhald. Þá tilkynnti hann að hrint verði af stað átaki í fjölgun styrktarmanna flokksins, sérstaklega með áherslu á samstarf við ungt framsóknarfólk.

Sigurður Ingi undirstrikaði að Framsókn sé áfram róttækur umbótaflokkur sem muni halda áfram að berjast fyrir bættum kjörum og betra samfélagi. Hann kallaði eftir markvissara samstarfi milli kjörinna fulltrúa flokksins á Alþingi og í sveitarstjórnum og greindi frá fyrirhugaðri sveitarstjórnarráðstefnu á næstunni sem verði liður í því starfi.

„Framsókn hefur lengi verið þekkt fyrir öflugt og skemmtilegt félagsstarf – það hefur verið sagt að fá partý séu eins skemmtileg og framsóknarteiti., en við getum alltaf bætt okkur. Það er mikilvægt að við aukum samvinnu á milli framsóknarfélaga um allt land og tryggjum að félagið sé ekki bara vettvangur fyrir pólitíska umræðu heldur líka samfélag fólks sem vill hafa áhrif, njóta góðrar samveru og vinna saman að framgangi sameiginlegra hagsmuna. Félagsstarfið okkar á að endurspegla nokkra lykilþætti: Góðar samverustundir, heiðarleg samskipti, upplýsta umræðu, skýra stefnumótun, skemmtanir og gróskumikið starf,“ sagði Sigurður Ingi.

Hann lauk máli sínu með því að hvetja flokksmenn til samstöðu og þátttöku í uppbyggingarstarfi, enda sé Framsókn grasrótarflokkur þar sem styrkurinn liggi í fólkinu. „Við gerum þetta saman,“ sagði hann og lagði áherslu á að framtíð flokksins væri björt ef allir leggðu sitt af mörkum.

Kröftugur miðstjórnarfundur Framsóknar fór fram um helgina á Akureyri. Tæplega 200 manns mættu til stefnumótunar og…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Sunnudagur, 23. mars 2025
Categories
Fréttir

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt

Deila grein

26/03/2025

Þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu um þjóðarátak í landgræðslu og skógrækt sem stefnt er að koma á fyrir lok árs 2026. Tillagan felur í sér að umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í samráði við atvinnuvegaráðherra, leiði samstarf stjórnvalda, bænda, atvinnulífsins, almennings og stofnunarinnar Land og skógar um aukna kolefnisbindingu með þátttöku almennings.

Gríðarleg tækifæri fyrir okkur Íslendinga

Markmið átaksins er að stuðla að landgræðslu og skógrækt til að efla kolefnisbindingu, draga úr jarðvegsrofi og bæta landgæði á Íslandi. Verkefnið mun taka mið af fyrri vel heppnuðum átaksverkefnum á borð við „Bændur græða landið“ og „Landgræðsluskóga“, sem hafa verið í gangi síðan 1990.

Í greinargerð kemur fram að þátttaka almennings yrði tvíþætt; annars vegar með beinni þátttöku í landgræðslu og skógrækt og hins vegar með kolefnisjöfnun viðskipta sem fyrirtæki myndu bjóða upp á. Tillagan styður við aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og fellur að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum skuldbindingum Íslands.

Þórarinn Ingi bendir á að jarðvegur sé ein mikilvægasta auðlind landsins, undirstaða matvælaframleiðslu og lykilatriði í baráttunni við loftslagsbreytingar. Ísland hafi einstök tækifæri til að efla kolefnisbindingu og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með landgræðslu og skógrækt.

Þetta er í sjötta sinn sem þingsályktunartillagan er lögð fram og umsagnir á fyrri þingum hafa almennt verið jákvæðar.

Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Vill takmarka jarðakaup erlendra aðila á Íslandi

Deila grein

26/03/2025

Vill takmarka jarðakaup erlendra aðila á Íslandi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, hefur mælt fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi sem miðar að því að takmarka jarðakaup erlendra aðila hér á landi. Tillagan felur í sér að atvinnuvegaráðherra verði falið að skipa sérfræðihóp í samráði við forsætis-, dómsmála-, samgöngu- og sveitarstjórnar- og umhverfisráðherra sem skili drögum að frumvarpi um málið eigi síðar en á haustþingi 2025.

Tillagan er lögð fram vegna aukinnar áhættu sem þingmenn telja stafa af erlendu eignarhaldi á íslenskum auðlindum, s.s. jarðefnum, vatni og orku.

„Við verðum að efla löggjöf um jarðamál svo að við séum ekki að selja auðlindir úr landi. Tillagan er sett fram með langtímahagsmuni Íslands að leiðarljósi,“ sagði Halla Hrund.

Vísaði hún sérstaklega til jarðakaupa á Mýrdalssandi í útflutningsskyni og kaupa á vatnsréttindum sem upphaflega voru hugsuð fyrir sveitarfélög. Halla Hrund bendir á að græn orka verði mikilvæg framtíðarauðlind, líkt og olía áður fyrr og því þurfi að gæta vel að eignarhaldi þessara auðlinda.

Lögin voru ekki hönnuð til að flytja út fjöll og fell

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að alþjóðaviðskipti séu lífæð þjóðarinnar en að ekki sé nauðsynlegt að selja auðlindir út úr landinu. Þess í stað mætti veita aðkomu erlendra aðila að verkefnum með nýtingarleyfum, líkt og gert er í Ástralíu og ýmsum Evrópuríkjum.

Málið vekur upp spurningar um geopólitíska hagsmuni og stjórn Íslands til langs tíma, þar sem fjöldi jarða í erlendri eigu gæti haft áhrif á fullveldi og þróun landsins. Halla Hrund segir mikilvægt að tryggja að auðlindir verði áfram í íslenskri eigu, ekki aðeins fyrir nútímafólk heldur einnig fyrir komandi kynslóðir. Bent er á mikilvægi fyrri baráttu um yfirráð yfir auðlindum eins og fiskimiðum og orkuframleiðslu sem tryggt hafa sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar.

Með tillögunni er kallað eftir aukinni lagasetningu og stjórnsýslu sem tryggir að Ísland nýti auðlindir sínar sjálft en jafnframt á ábyrgan hátt gagnvart alþjóðlegu fjármagni og fjárfestingum.

Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Stórsókn í lýðheilsumálum

Deila grein

25/03/2025

Stórsókn í lýðheilsumálum

Jóhann Friðrik Friðriksson, varaþingmaður, vakti athygli á mikilvægi „Vöðvaverndardagsins“ í ræðu á Alþingi. Af þessu tilefni standa Opni háskólinn og deildir íþróttafræði og sálfræði við Háskólann í Reykjavík fyrir ráðstefnu í vikunni.

Áhersla á réttmætar upplýsingar um lýðheilsu

„Í ár verður áherslan á mikilvægi miðlunar réttmætra upplýsinga í nútímasamfélagi með áherslu á vitundarvakningu og vöðvavernd. Vöðvavernd er gríðarlega mikilvæg fyrir lýðheilsu allra Íslendinga, og ég er svo heppinn að fá að taka þátt í ráðstefnunni að þessu sinni,“ sagði Jóhann Friðrik.

Í erindi sínu á ráðstefnunni mun Jóhann Friðrik leggja áherslu á mikilvægi þess að koma upplýsingum um lýðheilsu á framfæri til landsmanna.

Skammarlega lítið fjármagn til forvarna

„Ég hef lengi haft verulegar áhyggjur af því hvert við stefnum. Fjármagn til forvarna hér á landi er skammarlega lítið, og samt skiljum við ekkert í því hvers vegna áskoranir vegna lýðheilsu þjóðarinnar vaxa hratt – og kostnaðurinn með,“ sagði Jóhann Friðrik.

Hann segir mikilvægt að Alþingi samþykki aukið varanlegt framlag í lýðheilsusjóð. Á síðasta kjörtímabili hafi í tvígang tekist að auka tímabundið framlag í sjóðinn. „Nú þarf að gera það varanlegt, og miklu meira en það.“

Hrósar fyrrverandi heilbrigðisráðherra

Jóhann Friðrik hrósaði fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Willum Þór Þórssyni, fyrir að hafa lyft upp lýðheilsumálum. Hann segir boltann nú vera hjá núverandi heilbrigðisráðherra og fyrrverandi landlækni.

„Við erum í dauðafæri til að samþykkja á þinginu þingsályktunartillögu mína um lýðheilsumál og sækja fram af miklum eldmóði.“

Hvetur til sameiginlegs átaks

„Ég hvet íslensk stjórnvöld, Alþingi og samfélagið allt að koma með okkur í þessa vegferð. Það er ekkert mikilvægara í lífinu en heilsan. Pössum upp á hana og verndum hana,“ sagði Jóhann Friðrik að lokum.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun miðstjórnar

Deila grein

23/03/2025

Stjórnmálaályktun miðstjórnar

Stjórnmálaályktun miðstjórnar Framsóknar, samþykkt á miðstjórnarfundi 23. mars 2025.

Miðstjórn Framsóknar hafnar alfarið þeirri vegferð ríkisstjórnarinnar að hefja á ný aðildarviðræður við Evrópusambandið. Sá leiðangur er svik við íslensku þjóðina eftir yfirlýsingar ríkisstjórnarflokkanna fyrir kosningar. 

Framsókn leggur áherslu á sjálfstæði þjóðarinnar og full yfirráð yfir auðlindum landsins. Að sama skapi leggur Framsókn ríka áherslu á mikilvægi alþjóðasamvinnu og virka þátttöku þjóðarinnar á þeim vettvangi.  

Á þeim óvissutímum sem uppi eru i alþjóðamálum vill Framsókn tryggja hagsmuni þjóðarinnar með áherslu á frið, jafnrétti og virðingu fyrir alþjóðalögum. 

Framsókn leggur áherslu á mikilvægi Atlantshafsbandalagsins (NATO) og telur mikilvægt að einblína á langtímahagsmuni Íslands með skynsamlegri stefnu í alþjóðamálum.  

Framsókn ætlar að veita ríkisstjórninni öflugt aðhald og sinna hlutverki sínu í stjórnarandstöðu af ábyrgð. Vandræðagangur ríkisstjórnarflokkanna þessar fyrstu vikur samstarfsins gefur ekki góð fyrirheit um framhaldið.

Categories
Fréttir

Yfirlitsræða formanns á vorfundi miðstjórnar

Deila grein

23/03/2025

Yfirlitsræða formanns á vorfundi miðstjórnar

Yfirlitsræða formanns Framsóknarflokksins Sigurðar Inga Jóhannssonar á vorfundi miðstjórnar á Hótel KEA laugardaginn 22. mars 2025:

Fundarstjórar – kæru vinir!

Það er gleðilegt og um leið hvetjandi að sjá hversu fjölmennt er hér í dag. Það sýnir að við stöndum saman og erum tilbúin að leggja okkar af mörkum til að styrkja Framsókn og móta skýra framtíðarsýn og nýbreytni í innra starfi okkar.

Ég rifja upp orð Winstons Churchills:

Svartsýnn maður sér hindranir í hverju tækifæri, en bjartsýnn maður sér tækifæri í hverri hindrun.“

Þessi orð eiga sérlega vel við í dag. Við stöndum frammi fyrir áskorunum, en einnig tækifærum – tækifærum til að stilla saman strengi okkar, greina styrkleika og efla Framsókn sem kraftmikið umbótaafl í íslenskum stjórnmálum. Flokkur samvinnu sem hefur í 108 ár verið burðarás í íslenskum stjórnmálum, afl á miðjunni sem sameinar og stýrir breytingum í rétta átt. Við búum að sterkum innviðum, gríðarlegum mannauði sem felst meðal annars í þeirri reynslu að takast á við krefjandi aðstæður. Við höfum gert það áður og við ætlum að gera það aftur, nú er tími til að nýta þessa styrkleika okkar.

– Við erum hætt að spila vörn – eins og við gerðum síðustu mánuðina í síðustu ríkisstjórn og komin í sókn í stjórnarandstöðu – Nú sækjum við fram.

Undanfarnar vikur hef ég ferðast um landið og átt gagnleg samtöl við mörg ykkar, rúmlega 600 framsóknarmenn um allt land á yfir 40 fundum. Ég vil þakka ykkur fyrir þau samtöl – fyrir einlægni, fyrir hugmyndir ykkar og fyrir óbilandi trú á gildum Framsóknar.

Það er engin launung að úrslit síðustu kosninga voru okkur erfið. Mörg okkar upplifðum sorgarferli – Við megum hins vegar ekki láta það slá okkur út af laginu. Þvert á móti – í öllum aðstæðum eru fólgin tækifæri og við eigum nú að nýta tímann vel í uppbyggingarstarfinu.

Ég hef haft ágætis ráðrúm síðustu vikurnar að hugsa hvað betur má fara til að efla okkur innan frá og þar hafa samtölin við ykkur skipt miklu máli. Fyrir þessum miðstjórnarfundi liggur meðal annars fyrir að kjósa málefnanefnd ásamt fræðslu- og kynningarnefnd. Hlutverk þeirra mun skipa veigamikinn sess í starfinu framundan. Það þarf tíma og svigrúm til að þetta starf skili þeim árangri sem ég vænti en ég vil sjá öfluga vinnu þar sem í málefnastarfinu verður meðal annars staðið fyrir fundum og vinnustofum með stuðningi okkar færustu sérfræðinga.

Framsókn er umbótaflokkur og við höfum sýnt að við hræðumst ekki kerfisbreytingar og frumlega nálgun á viðfangsefnin, þar má til dæmis nefna málefni barna og farsældarlögin, verkefnið „það er gott að eldast“ úrbætur í heilbrigðismálum og nýtt skipulag í uppbyggingu samgangna – svo fátt eitt sé nefnt.

Stefnumótunin á að vera í höndum grasrótarinnar og við höfum reynslu af því, málefnanefndin stýrði vinnunni fyrir síðasta flokksþing og nær tvöhundruð manns komu að því starfi. Þetta mikilvæga verkefni hefjum við hér og nú með skipan málefnanefndar. Við gerum þetta saman.

Í Framsókn eru rúmlega 12.000 félagsmenn og í því fólki eigum við mikinn auð. Ég vil efla starf Framsóknarflokksins í samstarfi við fólkið og við ætlum að hlusta á fólkið okkar. Þess vegna munum við leita til hins almenna flokksmanns um ráð og nýjar hugmyndir með því að spyrja hvað megi betur fara í flokksstarfinu, hvaða áherslur viljum við sjá og hvernig við getum gert starf okkar öflugra og aðgengilegra? Við munum vinna úr tillögum flokksfólks í framhaldinu og leggja fram til umræðu og afgreiðslu á næsta flokksþingi.

Því – Við gerum þetta saman.

Í kjölfar erfiðra kosninga er gleðilegt að þónokkuð er um nýskráningar í flokkinn og ég vil sérstaklega horfa til þess hvernig við tökum á móti fólki sem vill taka þátt í flokksstarfinu. Það á ekki að vera þannig að þögnin ein fylgi því að ganga til liðs við Framsókn og þess vegna þarf samræmt verklag um móttöku nýrra félaga, með samtölum, kynningu á starfinu og Flokknum sjálfum. En fyrst og fremst er mikilvægt að allir sem ganga til liðs við Framsókn finni fyrir hlýju og velvild. Hver einstaklingur skiptir máli, og við viljum byggja sterka liðsheild þar sem nýtt fólk fær tækifæri til að leggja sitt af mörkum.

Það að vera hluti af heild kallar líka á samstillt átak við að efla og styrkja flokkinn. Við erum með styrktarmannakerfi sem hefur gert okkur kleift að standa undir hluta af starfsemi flokksins og sjaldan hefur verið mikilvægara að efla það kerfi. Ég vil hrinda af stað átaki í fjölgun styrktarmanna flokksins og horfa þar sérstaklega til góðs samstarf við ungt framsóknarfólk. Kraftur og gleði ungs fólks er smitandi og ég vil sjá samstarf með SUF í að virkja nýja félaga og flokksfólk til þátttöku. Við gerum þetta saman.

Þekking og upplýst umræða er lykillinn að sterku flokksstarfi. Ég vil sjá viðburði og námskeið innan flokksins þar sem við leitum til sérfræðinga og miðlum þekkingu okkar á milli, hvort um sé að ræða ræðumennsku, greinaskrif, samfélagsmiðla, notkun gervigreindar, uppbyggingu framboðs eða hvað eina. Ég sé fyrir mér viðburði afmarkaða við ákveðið viðfangsefni – kannski hálfur dagur eða kvöldstund – sem væri þá bæði staðfundur en einnig hægt að nálgast í fjarfundi. Með þessu byggjum við upp sterkari og  öflugri einstaklinga og þar með sterkari heild sem mun skila sér í kraftmiklu flokksstarfi.

Framsókn hefur lengi verið þekkt fyrir öflugt og skemmtilegt félagsstarf – það hefur verið sagt að fá partý séu eins skemmtileg og framsóknarteiti., en við getum alltaf bætt okkur. Það er mikilvægt að við aukum samvinnu á milli framsóknarfélaga um allt land og tryggjum að félagið sé ekki bara vettvangur fyrir pólitíska umræðu heldur líka samfélag fólks sem vill hafa áhrif, njóta góðrar samveru og vinna saman að framgangi sameiginlegra hagsmuna. Félagsstarfið okkar á að endurspegla nokkra lykilþætti: Góðar samverustundir, heiðarleg samskipti, upplýsta umræðu, skýra stefnumótun, skemmtanir og gróskumikið starf.

Allt þetta sem ég hef hér að framan nefnt er lykilatriði í því að efla okkur sem heild og búa okkur undir mikilvæga áskorun sem sveitarstjórnarkosningar 2026 eru. En hvernig nýtum við tímann vel fram að þeim?

Ég vil sjá markvissara samstarf á milli okkar sem eru kjörnir fulltrúar á Alþingi og í sveitarstjórnum. Sameiginlegar vinnustaðaheimsóknir, fundir og samtal geta gagnast báðum aðilum. Þannig getum við- þingmennirnir- tekið upp mál á Alþingi sem styðja við málflutning okkar sveitarstjórnarfólks og um leið tryggt að við höldum uppi gagnrýnni og upplýsandi umræðu. Við verðum að vinna saman sem ein heild, þar sem samvinna og samhugur eru í forgrunni.

Ég nefndi hér fyrr í ræðu minni nauðsyn þess að halda styttri námskeið þar sem við tökum fyrir afmarkaða hluti en við þurfum líka að horfa á stóru myndina. Ég vil sjá sveitarstjórnarráðstefnu nú í vor þar sem mikilvæg málefni verða tekin fyrir og kannski ekki síst þar sem við römmum inn komandi mánuði. Á fundi sveitarstjórnarfólks okkar, sem haldinn var í gærkvöldi, kom fram ríkur vilji til að standa fyrir slíkum viðburði og verður væntanlega auglýstur fljótlega. Við munum beita okkur fyrir að slík ráðstefna verði haldin í apríl eða maí. Auk þessa er mikilvægt að við beitum okkur fyrir opinni umræðu um mikilvæg mál með þátttöku sveitarstjórnarfólks og þingmanna, og leitum óhikað til sérfræðinga í öflugu málefnastarfi.

Í störfum okkar innan þings og í sveitarstjórnum er mikilvægt að hafa aðgengi að þekkingu og upplýsingum. Allar ákvarðanir okkar og stefnumótun eiga að byggja á traustum grunni og ég vil sjá breytingar í þeim efnum. Við ætlum að koma á fót skuggaráðuneytum þar sem við köllum til okkar færustu sérfræðinga sem koma að stefnumótun og umræðu innan flokksins. Við munum byrja á Skuggaráðuneyti heilbrigðismála og þar hefur Willum Þór Þórsson boðist til að koma að skipulagi og forystu verkefnisins. Við munum svo þróa það skipulag yfir á aðra málaflokka. Með þessu tryggjum við betri ákvarðanatöku hjá okkur við úrvinnslu flókinna málefna en ekki síst að kalla eftir nýjum hugmyndum til úrbóta og um leið aukum við aðhald á nýja ríkisstjórn.

Framsóknarflokkurinn er róttækur umbótaflokkur og við höfum óhikað sýnt það, t.d. með nýrri nálgun í heilbrigðisþjónustu, málefnum barna og farsældarlögin og í málefnum ferðaþjónustu, að við erum óhrædd við að horfa út fyrir kassann við úrlausn flókinna viðfangsefna. En við megum og þurfum að vera róttækari.

Við þurfum að auka sýnileika okkar þar sem áherslumál okkar komast betur á framfæri. Við ætlum, í samstarfi við Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, varaþingmann, að setja á fót hlaðvarp sem gerir viðtalsþætti með okkar fólki. Þetta er eitthvað sem við getum svo sett inn á heimasíðuna og jafnvel klippt skemmtilega til og gert okkur um leið aðgengileg. Hún hefur þegar tekið efni upp til að vera klár með reglulega þætti þegar við förum af stað. Lilja er einmitt hér á fundinum og mun taka eitthvað af efni upp hér.

Og áfram með sveitarstjórnarmálin. Við þurfum að auka sýnileika sveitarstjórnarstigsins á heimasíðu og miðlum flokksins. Það hefur sérstaklega verið kallað eftir því á þeim fjölmörgu fundum sem ég hef átt með flokksfólki. Hér þurfa úrbætur að eiga sér stað og búið er að frumhanna nýja heimasíðu sem ég geri ráð fyrir að fari í loftið síðsumars. Ný heimasíða mun því í senn verða aðgengilegri ásamt því sem áhersla okkar á sveitarstjórnarkosningar munu fá mun veglegri sess en áður.

Á grunni hugmynda og tillagna ykkar, á grunni góðra samtala sem ég hef átt með ykkur síðustu vikur og á grunni sterkrar samvinnu ólíkra aðila innan flokksins eru þessar tillögur að eflingu flokksstarfsins settar fram. Í öllum aðstæðum eru tækifæri og ég er þess fullviss að við munum i sameiningu hefja kröftuga sókn á næstu mánuðum. Veldur hver á heldur – allt sem ég hef nefnt hér að framan er undir okkur sjálfum komið. Að nýta stofnanir okkar og strúktur – framkvæmdastjórn, Landstjórn, Miðstjórnarfundi, málefnanefndarstarf og Flokksþing er lykillinn – Flokkurinn er ekki forystan eða fáir útvaldir – Framsókn er grasrótarsamtök – Flokkurinn er fjöldahreyfing sem á og þarf að koma sameiginlega að endurreisninni – við getum gert þetta – saman.

Við munum innleiða gróskumikið málefnastarf þar sem við óhikað tökumst á við nýjar og djarfar hugmyndir. Markmið okkar er ætíð hið sama: Að skapa betra samfélag fyrir fólkið í landinu, samfélag sem við byggjum saman og tryggir framtíð komandi kynslóða.

Verkefnið sem við erum nú að takast á hendur er langtímaverkefni en ég vil varða leiðina þannig að öllum sé ljóst hvert við stefnum. Við munum ekki umbylta hinu pólitíska landslagi í einu vetfangi, góðir hlutir gerast hægt. En með markvissum vinnubrögðum, samstöðu og mikilli vinnu er ég fullviss að við munum uppskera eins og við höfum sáð. Við skulum ekki vænta þess að sjá fylgistölur rjúka upp – svona stutt eftir 7 ára setu í ríkisstjórn – en við skulum vinna að því saman og þannig ná tilætluðum árangri.

Ég hef verið formaður flokksins frá árinu 2016. Oft hefur gefið á bátinn en á þessu tímabili höfum við unnið stóra sigra í alþingiskosningum og í sveitarstjórnarkosningum.  – ég hef metnað og vilja til að hefja sókn með ykkur til að Framsókn geti áfram verið leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum og með þeim hætti tekið ábyrgð á erfiðum kosningum.

Á ferðum mínum síðustu 2 mánuði hef ég fundið stuðning ykkar til að fara saman í þessa vegferð – vilja ykkar og löngun til að ná aftur fyrri stöðu flokksins – trú okkar allra á að grunngildi Framsóknar höfði enn til íslensks samfélags – skoðun ykkar – sem ég deili með ykkur – á að samvinna og kraftur grasrótarinnar sé besta leiðin til að endurheimta stöðu Framsóknar í íslensku samfélagi. Við gerum þetta saman.

En – Veldur hver á heldur – það sem ég hef hér farið yfir er verkefni dagsins í dag og næstu missera. Við höfum áður sýnt hvað í okkur býr og við getum með samhentu átaki stuðlað að góðum árangri í sveitarstjórnarkosningunum á næsta ári.

Þessar tillögur skulum við ræða hér á þessum Miðstjórnarfundi. Og við skulum ræða opinskátt – á sama hátt og á þeim fjölmörgum fundum sem ég hef átt með grasrótinni og trúnaðarfólki á liðnum vikum. Þetta er vettvangurinn fyrir skoðanaskiptir, við þurfum meðal annars að ræða hvenær hentar okkur best að hafa næsta flokksþing – á áðurnefndum fundum nefndu langflestir að flokksþingið ætti að vera upptaktur fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar – þegar málefnastarfið lægi fyrir og endurreisnin langt komin.

Ég mun ekki leggja til einhvern sérstakan tíma. Mér finnst að Miðstjórnarfundurinn eigi að ræða það. Ég – persónulega – er til hvenær sem er – um leið og ég lýsi því yfir að ég sé til í leiða Framsókn og vinnuna áfram.

Við erum nú í stjórnarandstöðu og það hlutverk berum við af ábyrgð. Framsókn er flokkur framkvæmda og atvinnu og þeirrar velferðar sem verðmætasköpunin býr til. Við lítum ekki á stjórnmál sem keppni í því hver getur talað hæst, heldur sem vettvang til að skapa raunverulegar breytingar til batnaðar. Það er einmitt sú nálgun sem við ætlum að halda áfram að fylgja. Við munum að sjálfsögðu styðja góð mál sem koma frá ríkisstjórninni, enda eru mörg þeirra unnin af okkar ráðherrum. En við munum að sama skapi veita öflugt aðhald ef okkur sýnist þau vera á kolrangri leið.

Framfarir í heilbrigðiskerfinu eru þannig – eitt af þeim velferðarmálefnum sem Framsókn hefur lagt mikla áherslu á. Á tímum Willums Þórs Þórssonar sem heilbrigðisráðherra voru mikilvæg skref tekin í átt að öflugra og skilvirkara heilbrigðiskerfi. Við sáum aukna fjárfestingu í innviðum, bætta þjónustu við sjúklinga og markvissa stefnumótun til framtíðar. Það er nauðsynlegt að fylgja þessum umbótum eftir og tryggja að heilbrigðiskerfið þróist áfram í takt við þarfir þjóðarinnar. Framsókn mun áfram tala fyrir sterkari og aðgengilegri heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.

Störf Lilju Alfreðsdóttur fyrst sem mennta- og menningarmálaráðherra síðar sem viðskipta- og menningarraðherra skiptu einnig sköpum í mótun stefnu í ferðamálum, menningarmálum og í málefnum íslenskrar tungu – en einnig grunnur að metnaðarfullri neytandastefnu.  Það er mikilvægt að þessum verkefnum sé fylgt eftir og að íslensk menning og mál verði áfram sett á oddinn af Framsókn

Málefni barna og farsældarlögin, sem voru unnin í tíð Ásmundar Einars Daðasonar barnamálaráðherra, eru grundvallaratriði í samfélagsuppbyggingu okkar. Mikilvægt er að fylgja þeim verkum áfram og tryggja að börn og fjölskyldur njóti þeirra úrbóta sem þegar hafa verið settar í lög. Við eigum að tryggja áframhaldandi umbætur í þessum málaflokki og standa vörð um farsæld barna sem forgangsmál. – okkar mál.

Sá veruleiki að að þingflokkurinn er 5 manna – kallar á að við hlaupum hraðar – hvert og eitt – en líka á samheldni – liðsheild.  Vinnan hefur farið vel af stað – þingmennirnir öflugir og kraftmiklir. Við lofum ykkur því að liggja hvergi á liði okkar að efla Framsókn og byggja upp – með ykkur.

Við verðum einnig að ræða vald og meðhöndlun þess. Almenningur á að geta treyst því að ráðamenn fari með vald sitt af ábyrgð og í samræmi við hagsmuni þjóðarinnar. Sí endurteknar fréttir af framferði forystufólks í ríkisstjórninni gefa hins vegar tilefni til að álykta að þetta fólk fari ekki alltaf rétt með það vald sem þeim hefur verið falið. Framsókn mun standa vörð um heilbrigða stjórnsýslu og veita kröftugt aðhald til þess að vald sé ekki misnotað eða notað á óeðlilegan hátt.

Nú er búið að klára langtímasamninga við ca. 97% vinnumarkaðarins. Þetta gefur einstakt tækifæri til að viðhalda stöðugleika og skapa aðstæður fyrir lækkun vaxta. Þetta er að allt að koma sögðum við síðastliðið haust. og það er að raungerast.

Við viljum tryggja óverðtryggð langtímalán á föstum vöxtum til húsnæðiskaupa, sem er eitt af forgangsmálum þingflokksins við upphaf þings. Húsnæðismarkaðurinn er sveiflukenndur – íslensk heimili eiga rétt á stöðugleika og fyrirsjáanleika í sínum fjármálum. Við munum leggja áherslu á að draga úr vaxtaokri og tryggja réttlátt lánakerfi. Útúrsnúningum fjármálaraðherra Viðreisnar verður svarað fullum hálsi – og við hættum ekki fyrr en almenningi á Íslandi bjóðast slík lán – eins og þekkjast í öllum nálægum löndum.

Við viljum einnig tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang að raforku og innleiða verðvernd fyrir íslenskan almenning hvað raforku varðar. Raforka er ekki munaðarvara – hún er grunnstoð í nútímasamfélagi. Landsmenn eiga að geta treyst því að raforka sé seld á sanngjörnu verði og ekki notuð sem tól fyrir gróðasjónarmið. Náttúruauðlindir okkar tilheyra þjóðinni, og við munum standa vörð um að þær nýtist almenningi fyrst og fremst.

Til þess að tryggja aðgengi að raforku til framtíðar verðum við einnig að hraða uppbyggingu dreifikerfis raforku.

Við höfum áhyggjur af því að ríkisstjórnin boðar auknar álögur á lykilatvinnugreinar, sérstaklega ferðaþjónustu og sjávarútveg. Óljósar fyrirætlanir um skattahækkanir og íþyngjandi reglugerðir geta haft neikvæð áhrif á byggðaþróun, fjárfestingu og stöðu ríkisfjármála. Vegferð ríkisstjórnarinnar í málefnum landbúnaðar- í boði sérhagsmuna Viðreisnar vekur undrun – þegar nær væri að horfa til þess að tryggja fæðuöryggi og eðlilegt rekstrarumhverfi bænda. Við verðum að tryggja að þessar undirstöðuatvinnugreinar búi við stöðugt og sanngjarnt rekstrarumhverfi sem styður við áframhaldandi vöxt og þróun.

Jafnframt er brýnt að bæta rekstrarumhverfi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Þau eru burðarás efnahagslífsins og skapa fjölmörg störf um allt land. Tryggingagjaldið þarf að vera sanngjarnt og ekki of íþyngjandi, því háir launatengdir skattar hamla nýsköpun, fjárfestingu og ráðningum. Við viljum einnig einfalda regluverk og leyfisveitingar til að auðvelda rekstur lítilla fyrirtækja. Sveigjanlegt og skilvirkt umhverfi fyrir smærri fyrirtæki er lykilatriði í öflugu atvinnulífi.

Við lítum svo á að aðild Íslands að NATO og varnarsamninginn við Bandaríkin séu hornsteinar í öryggismálum landsins. Við viljum einnig efla samstarf við Norðurlandaþjóðirnar, Evrópuþjóðir og þmt Bretland og Kanada, bæði í varnarmálum og efnahagsmálum. Ísland þarf að vera virkur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og tryggja stöðu sína sem ábyrgs og öflugra aðila í alþjóðasamstarfi. Við eigum líka að efla lögreglu og Landhelgisgæslu sem einn lið i auknum vörnum. Við leggjum samt áherslu á að við erum herlaus friðelskandi þjóð.

Það væri óráðlegt að efna til sundrungar meðal þjóðarinnar með því að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið. Slíkt ferli er ekki saklaus ákvörðun um að „kíkja í pakkann“, heldur raunverulegt aðlögunarferli þar sem Ísland þyrfti að aðlaga SIG að regluverki sambandsins. Slík ákvörðun krefst víðtækrar umræðu og skýrrar lýðræðislegrar umfjöllunar áður en nokkur skref eru tekin í þá átt.

Kæru félagar og vinir

Ríkisstjórnin nýja er 3 mánaða – hefur ekki lifað 100 daga – Hún er í krísu – sama gildir um fleiri stjórnmálaflokka- við höfum valið í dag hvort við viljum taka höndum saman – vera sterk saman –byggja upp saman – eða fara krísuveginn

Framtíð okkar er björt, en hún kallar á kjark og þor. Við þurfum að standa sameinuð og horfa fram á veginn með skýra sýn um hvar við viljum sjá Ísland eftir fimm, tíu eða tuttugu ár. Við ætlum að byggja upp sterkara samfélag, þar sem allir hafa tækifæri til að blómstra, þar sem hagvöxtur byggir á jöfnuði og þar sem velferð og verðmætasköpun ganga hönd í hönd.

Ég vil þakka ykkur öllum fyrir ómetanlegt framlag til flokksins og samfélagsins. Við erum öll Framsókn, og saman munum við halda áfram að byggja öflugra og betra Ísland!

Gerum þetta saman – Við getum það.

Categories
Fréttir Greinar

Blindflug eða langtímasýn?

Deila grein

22/03/2025

Blindflug eða langtímasýn?

Skýrsla fjár­málaráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags- og op­in­ber­um fjár­mál­um var birt á dög­un­um. Skýrsl­an er mik­il­væg und­ir­staða fyr­ir umræður á Alþingi um efna­hags­mál þjóðar­inn­ar og stuðlar að betri yf­ir­sýn yfir áskor­an­ir í fjár­mál­um hins op­in­bera. Í því sam­hengi er mik­il­vægt að hafa í huga að fjár­mála­stefna rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem brátt verður lögð fram á Alþingi, verður að taka eins og kost­ur er mið af þeim áskor­un­um sem við stönd­um frammi fyr­ir til lengri tíma. Svo er þó ekki.

Eng­in innviðaskuld?

Í fyrsta lagi er í skýrslu fjár­málaráðherra lítið sem ekk­ert fjallað um svo­kallaða innviðaskuld og hina tíma­bæru upp­bygg­ingu innviða sem mun óhjá­kvæmi­lega standa yfir næstu ár og jafn­vel ára­tugi. Þessi upp­bygg­ing mun kosta tugi millj­arða króna á ári ef vel á að vera. Vandað mat á þróun út­gjalda vegna átaks í innviðaupp­bygg­ingu er grund­vallar­for­senda þess að hægt sé að leggja raun­hæft mat á þróun efna­hags­mála og op­in­berra fjár­mála.

Eng­in veru­leg aukn­ing út­gjalda til varn­ar- eða ör­ygg­is­mála?

Í öðru lagi fjall­ar skýrsl­an á eng­an hátt um hugs­an­lega aukn­ingu út­gjalda til varn­ar- og ör­ygg­is­mála, sem flest Evr­ópu­ríki standa nú frammi fyr­ir. Útgjöld Íslands til varn­ar­mála gætu hæg­lega numið allt að 2% af lands­fram­leiðslu ár hvert, og jafn­vel meira, verði sama þróun hér­lend­is og í öðrum lönd­um Evr­ópu. Hér gæti verið um tug­millj­arða króna viðbótar­út­gjöld að ræða og mik­il­vægt að bún­ar séu til sviðsmynd­ir um áhrif þeirra næstu ár og ára­tugi. Vissu­lega er erfitt að spá fyr­ir um þróun alþjóðamála í þessu ljósi, en eini til­gang­ur skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um er ein­mitt sá að tryggja yf­ir­sýn og stuðla að umræðum um hugs­an­leg­ar (og meiri­hátt­ar) áskor­an­ir næstu ára og ára­tuga.

Eng­in óvissa í tolla­mál­um?

Í þriðja lagi rík­ir veru­leg óvissa um þróun tolla­mála og alþjóðlegra viðskipta. Skýrsl­an fjall­ar að ein­hverju leyti um aukna spennu í sam­skipt­um ríkja, tolla­stríð og mynd­un nýrra viðskipta­blokka. Þá má halda því fram að þróun tolla­mála varði einkum hags­muni til skemmri tíma. Það blas­ir þó við að lands­lag alþjóðaviðskipta hef­ur breyst, meiri hátt­ar óvissa rík­ir um framtíð alþjóðaviðskipta og stór­fyr­ir­tæki um all­an heim eru þegar far­in að end­ur­hugsa fram­leiðsluaðferðir og stjórn­un virðiskeðja.

Skemmti­efni?

Gerð skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um er eðli máls­ins sam­kvæmt krefj­andi og vanda­samt verk. Til­gang­ur­inn er þó ekki sá einn að búa til al­menna og fræðilega um­fjöll­un, ein­hvers kon­ar skemmti­efni, held­ur að skapa traust­an grunn fyr­ir ákv­arðanir Alþing­is og rík­is­stjórn­ar við mót­un hag­stjórn­ar og þróun fjár­mála hins op­in­bera.

Í of­an­greindu ljósi er ekki annað hægt en að draga í efa for­send­ur og nyt­semi skýrslu fjár­mála- og efna­hags­ráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um og op­in­ber­um fjár­mál­um.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. mars 2025.

Categories
Fréttir

Vorfundur miðstjórnar

Deila grein

21/03/2025

Vorfundur miðstjórnar

22.-23. mars 2025 –

Landsstjórn Framsóknar hefur samþykkti að boða til vorfundar miðstjórnar í Norðausturkjördæmi og varð 22.-23. mars fyrir valinu. Fundurinn verður haldinn á Hótel KEA á Akureyri. Fundurinn hefst kl. 11:30 laugardeginum og stendur til hádegis á sunnudeginum.

Kvöldverðarhóf verður á laugardagskvöldinu. Við vonumst eftir góðri mætingu til að ræða málin og þjappa hópnum saman. Við hvetjum miðstjórnarfulltrúa til að sameinast í bíla.

Drög að dagskrá:

Laugardagur 22. mars 2025
10:30 – Skráning og afhending fundargagna
11:30 – Setning fundar
11:35 – Kosning embættismanna fundarins
11:40 – Skýrsla ritara um starf landsstjórnar og innra starf
12:15 – Hádegishlé
13:00 – Ræða formanns
13:25 – Ræða varaformanns
13:40 – Almennar stjórnmálaumræður
15:30 – Kaffihlé
16:00 – Almennar stjórnmálaumræður
17:00 – Fundi frestað til sunnudags

Sunnudagur 23. mars 2025
09:00 – Skýrsla málefnanefndar
09:10 – Skýrsla sveitarstjórnarráðs
09:20 – Skýrsla fræðslu- og kynningarnefndar
09:30 – Vinnustofur – Flokksstarf og kosningar
11:00 – Kynning á niðurstöðum
11:30 – Kosning í fastanefndir miðstjórnar
11:45 – Önnur mál

***

Hvað er miðstjórn?

Miðstjórn Framsóknarflokksins var stofnuð 1918 og því næst elsta stofnun flokksins. Fram að því hafði eina stofnun flokksins verið þingflokkurinn frá 1916. Miðstjórnin var í upphafi aðeins skipuð þremur fulltrúum, kosnum af þingflokki og kjörið hlutu Jónas Jónsson frá Hriflu, Tryggvi Þórhallsson ritstjóri Tímans og Hallgrímur Kristinsson forstjóri Sambandsins.

Miðstjórn fer með umboð flokksins á milli flokksþinga og útfærir meginstefnu hans í landsmálum. Formaður Framsóknar er jafnframt formaður miðstjórnar flokksins.

Miðstjórn er boðuð til fundar af landsstjórn tvisvar á ári, vor og haust með 30 daga fyrirvara. Aðrir fundir miðstjórnar eru boðaðir af landsstjórn flokksins og eru þeir löglegir ef þar mætir meirihluti miðstjórnarmanna. Einnig er skylt að boða til miðstjórnarfundar ef þriðjungur miðstjórnarmanna krefst þess skriflega. Miðstjórn ákvarðar um þátttöku flokksins í ríkisstjórn. Málefnasamning um ríkisstjórnarsamstarf skal leggja fyrir miðstjórn.

Í miðstjórn eiga sæti:
  • Einn fulltrúi fyrir hverja 100 félagsmenn í hverju kjördæmi til eins árs í senn eftir reglum sem hlutaðeigandi kjördæmissamband setur. Þriðjungur fulltrúanna hið minnsta skal vera úr hópi ungs framsóknarfólks. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir á sama hátt.
  • Alþingismenn flokksins og ráðherrar.
  • Landsstjórn og framkvæmdastjórn flokksins.
  • Fyrrverandi þingmenn og ráðherrar flokksins enda séu þeir félagsmenn.
  • Aðalmenn í sveitarstjórn, sveitarstjórar eða bæjarstjórar enda séu þeir félagsmenn.
  • Stjórn og varastjórn launþegaráðs flokksins.
  • Sjö fulltrúar kosnir af landsstjórn.
Verkefni vorfundar miðstjórnar

Á vorfundi miðstjórnar er félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. Landsstjórn, fræðslu- og kynningarnefnd og málefnanefnd flytja skýrslu um störf sín. Eins kjósa miðstjórnarmenn úr sínum hópi til eins árs í senn:

a) Fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

b) Fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

Framsóknarflokkurinn
Categories
Fréttir

Jón Björn nýr formaður Sambandsins

Deila grein

21/03/2025

Jón Björn nýr formaður Sambandsins

Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar í Fjarðarbyggð, er nýr formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hann var kjörinn á fundi stjórnar Sambandsins í kjölfar landsþings í gær. Er þetta í fyrsta skipti sem Framsóknarmaður gegnir formennsku í Sambandinu.

Jón Björn tekur við embættinu af Heiðu Björgu Hilmisdóttir, en hún tók þá ákvörðun að hætta sem formaður í kjölfar þess að hafa tekið við embætti borgarstjóra í Reykjavík. Jón Björn var áður varaformaður stjórnar sambandsins frá árinu 2022.

Jón Björn hefur starfað lengst af á vettvangi sveitarstjórnarmála. Hann tók sæti sem aðalmaður í bæjarstjórn Fjarðabyggðar árið 2010 og var forseti bæjarstjórnar fram til haustið 2020 er hann tók við starfi bæjarstjóra.

Jón Björn var kjörinn ritari Framsóknar á flokksþingi 2016.

Framsóknarfólk óskar Jóni Birni til hamingju með kjörið.

Categories
Fréttir

Einmanaleiki eldra fólks

Deila grein

20/03/2025

Einmanaleiki eldra fólks

Á Alþingi var rætt um einmanaleika eldra fólks á Íslandi og hvernig bregðast megi við honum í sérstakri umræðu.

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, þakkaði Kolbrúnu Baldursdóttur fyrir að setja málið á dagskrá og lagði áherslu á að eldast sé ekki sjúkdómur, en að ýmsar áskoranir fylgi því. Hún benti á að rannsóknir sýni að einmanaleiki eldra fólks á Íslandi kunni að vera meiri en opinber gögn gefa til kynna.

Ingibjörg minnti á verkefnið „Gott að eldast“, sem var hluti af opinberri aðgerðaáætlun á síðasta kjörtímabili. Hún lagði áherslu á mikilvægi samspils og samvinnu ríkis og sveitarfélaga og benti á að tillögur frá Landssambandi eldri borgara hafi verið teknar inn í verkefnið. Hún sagði að könnun á einmanaleika eldra fólks eftir uppruna væri mikilvæg og að stjórnvöld ættu að fylgja henni eftir með úrræðum fyrir þá sem mest þurfa á því að halda.

Ingibjörg lagði áherslu á að raunveruleg mannleg tengsl skipti mestu máli fyrir eldra fólk og að samfélagið þurfi að bregðast við þessum vanda. Hún þakkaði fyrir umræðuna og hvatti alla til að hugsa um sína nánustu og styðja við fagfólk og sjálfboðaliða.