Categories
Fréttir Greinar

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Deila grein

23/01/2025

Ábyrg ríkisfjármál lykill að framþróun

Við lif­um á einkar áhuga­verðum tím­um í alþjóðamál­um. Valda­skipti í Bretlandi og Banda­ríkj­un­um, yf­ir­vof­andi kosn­ing­ar í Þýskalandi, þrengri efna­hags­staða Evr­ópu­sam­bands­ins, áfram­hald­andi stríðsátök í Úkraínu og stór­merki­leg­ar vend­ing­ar í Mið-Aust­ur­lönd­um skapa flókið og sí­breyti­legt lands­lag í alþjóðamál­un­um. Þjóðríki og ríkja­sam­tök und­ir­búa sig fyr­ir harðnandi sam­keppni í alþjóðaviðskipt­um, þar sem tolla- og viðskipta­hindr­an­ir kunna að setja svip sinn á þró­un­ina. Á sama tíma eiga mörg ríki enn í vök að verj­ast eft­ir áföll­in sem covid-19-heims­far­ald­ur­inn olli í efna­hags­lífi þeirra, og hef­ur það haft af­ger­andi áhrif á rík­is­fjár­mál víða um heim.

Ísland kom hins veg­ar vel út úr þess­um áskor­un­um og hef­ur sýnt mikla seiglu í efna­hags­stjórn sinni. Lær­dóm­ur­inn af hag­stjórn lýðveld­is­ár­anna hef­ur sannað sig enn á ný: nauðsyn­legt er að rík­is­sjóður sé ávallt vel und­ir­bú­inn til að mæta efna­hags­leg­um áföll­um, bæði innri og ytri. Þannig nema nú nettóskuld­ir rík­is­ins um 30% af vergri lands­fram­leiðslu (VLF), sem er afar hag­stæð staða í sam­an­b­urði við önn­ur ríki. Til sam­an­b­urðar nema skuld­ir ríkja á evru­svæðinu um 90% af VLF og í Bretlandi um 100%, þar sem leit­in að sjálf­bær­um hag­vexti er áfram helsta áskor­un­in.

Eitt af brýn­ustu verk­efn­um op­in­berra fjár­mála hér á landi er að halda áfram á þeirri braut sem síðasta rík­is­stjórn lagði, með það að mark­miði að draga úr fjár­magns­kostnaði rík­is­sjóðs. Tryggja þarf að láns­kjör rík­is­ins end­ur­spegli hina sterku stöðu lands­ins á alþjóðavísu. Þessi ár­ang­ur hef­ur þegar skilað sér í hækk­un láns­hæf­is­mats ís­lenska rík­is­ins á síðasta ári, sem er vitn­is­b­urður um sterka und­ir­liggj­andi stöðu hag­kerf­is­ins.

Á hinn bóg­inn standa mörg lönd frammi fyr­ir mikl­um áskor­un­um. Í Bretlandi er hag­vöxt­ur hæg­ur á sama tíma og skuld­ir aukast. Alþjóðleg­ir fjár­fest­ar, eins og Ray Dalio, stofn­andi fjár­fest­inga­sjóðsins Bridgewater, hafa lýst yfir áhyggj­um af stöðu breskra rík­is­fjár­mála og bent á að landið gæti lent í nei­kvæðum skulda­spíral. Slík þróun gæti þýtt sí­vax­andi láns­fjárþörf til að standa straum af vöxt­um. Dalio bend­ir á hækk­andi ávöxt­un á 30 ára rík­is­skulda­bréf­um og veikt pund sem merki um aukna erfiðleika í rík­is­fjár­mál­um Bret­lands. Við þetta bæt­ist að fjár­laga­hall­inn þar nem­ur rúm­um 4% af lands­fram­leiðslu, sem dreg­ur úr fjár­hags­legu svig­rúmi stjórn­valda.

Á þess­um tíma­mót­um skipt­ir höfuðmáli að ís­lensk stjórn­völd taki skyn­sam­leg­ar og fram­sýn­ar ákv­arðanir í rík­is­fjár­mál­um. Mik­il­vægt er að viðhalda þeim góða ár­angri sem þegar hef­ur náðst og stuðla að áfram­hald­andi stöðug­leika. Forðast þarf all­ar ákv­arðanir sem gætu ógnað lækk­un­ar­ferli vaxta Seðlabank­ans eða skapað nei­kvæðan þrýst­ing á at­vinnu­lífið.

Lyk­ill­inn að far­sælli framtíð er að lækka fjár­magns­kostnað rík­is­sjóðs, skapa aukið svig­rúm til upp­bygg­ing­ar og tryggja að fyr­ir­tæki og ein­stak­ling­ar hafi góðar aðstæður til að skapa verðmæti og stuðla að hag­vexti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Deila grein

22/01/2025

Tryggjum öryggi Reykjavíkurflugvallar

Okkur berst til eyrna að loka eigi annarri af tveimur eftirstandandi flugbrautum Reykjavíkurflugvallar. Veruleg skerðing, með öðrum orðum, á bæði flugöryggi og nýtingarmöguleikum flugvallarins. Á sama tíma heyrum við að vel gæti þurft að loka hinni brautinni – í lengri eða skemmri tíma – meðan unnið er að uppbyggingu nýrrar brúar yfir Fossvoginn. Af hverju er það svo, að við þurfum trekk í trekk að minna á þá staðreynd að flugsamgöngur til og frá höfuðborgarinnar eru hryggjarstykkið í byggðaþróun og byggðastefnu landsins?

Sitjum ekki hljóð hjá

Við á landsbyggðunum getum ekki setið hljóð hjá. Það er gríðarlegt hagsmunamál fyrir okkur að tryggja rekstur og öryggi flugvallarins á meðan í gildi er samkomulag um að hann verði áfram í Vatnsmýrinni, enda enginn annar augljós kostur í sjónmáli. Innanlandsflugið er mikilvægur þáttur í uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðunum, bætir almenn lífsgæði og er nauðsynlegt öryggi okkar og heilsu. Þess vegna verðum við að þrýsta á alla hlutaðeigendi aðila að leysa þennan hnút strax. Nóg hefur verið saumað að flugvellinum í gegnum tíðina.

Áskorun til allra hlutaðeigenda

Bæjarfulltrúar Framsóknar hafa óskað eftir umræðu um stöðu Reykjavíkurflugvelli á bæjarstjórnarfundi og hyggjast leggja þar fram eftirfarandi bókun til samþykktar:

Bæjarstjórn Akureyrar skorar á bæði Reykjavíkurborg og Samgöngustofu, sem og ráðuneyti samgangna, að tryggja öryggi og rekstur Reykjavíkurflugvallar. Sú óvissa sem er uppi vegna fyrirhugaðrar lokunar á annarri tveggja flugbrauta er ólíðandi. Því ættu málsaðilar ekki að bíða boðanna heldur leiða öll ágreiningsefni skjótt til lykta, svo sem eðli málsins og alvarleiki býður.

Gunnar Már Gunnarsson og Sunna Hlín Jóhannesdóttir bæjarfulltrúar Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 21. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Deila grein

09/01/2025

Þjóðaratkvæðagreiðsla um viðræður við Evrópusambandið – Af hverju og hvers vegna núna?

Und­an­farið hef­ur umræða um þjóðar­at­kvæðagreiðslu um fram­hald viðræðna við Evr­ópu­sam­bandið (ESB) vakið at­hygli og verið áhuga­vert að lesa hinar ólíku hliðar og sjón­ar­mið í þess­ari umræðu. Mik­il­vægt er þó að skýra að slík at­kvæðagreiðsla snýst ekki um fram­hald eldri viðræðna held­ur um upp­haf nýrra viðræðna – og þar ligg­ur veru­leg­ur mun­ur.

Upp­lýst þjóð er lyk­il­atriði

Til að slík þjóðar­at­kvæðagreiðsla sé mark­tæk er lyk­il­atriði að þjóðin fái góðar og grein­argóðar upp­lýs­ing­ar um hvað felst í slík­um viðræðum. Hverj­ir eru kost­irn­ir og gall­arn­ir? Hvað get­ur Ísland fengið frá ESB sem ekki er þegar til staðar í gegn­um EES-samn­ing­inn?

Ef þjóðin kysi að hefja viðræður við ESB væri ekki um ein­falt fram­hald eldri viðræðna að ræða. Evr­ópu­sam­bandið hef­ur breyst um­tals­vert á síðustu árum og sá samn­inga­grunn­ur sem var lagður fram áður er úr sög­unni. Nýj­ar viðræður þýða að við fær­umst inn í ferli sem get­ur verið tíma­frekt og kostnaðarsamt. Þetta er ekki ein­ung­is spurn­ing um viðræður held­ur einnig um aðlög­un að regl­um sam­bands­ins og breyt­ing­ar á ótal sviðum, auk þess sem viðræðuferlið get­ur tekið mörg ár. Í því ljósi ætti þjóðin að gera sér grein fyr­ir því hvað þær viðræður fela í sér. Er það tím­ans og kostnaðar­ins virði að hefja aft­ur viðræður á byrj­un­ar­reit þegar grund­vall­ar­spurn­ing­um, sem sigldu viðræðunum í strand síðast, hef­ur ekki enn verið svarað með full­nægj­andi hætti?

Krón­an eða evr­an

Ef­laust trúa því ein­hverj­ir að inn­ganga í ESB leysi öll okk­ar vanda­mál og er þá litið á evr­una sem galdra­tæki sem bjargað geti öll­um vand­ræðum okk­ar í eitt skipti fyr­ir öll. Evr­ópu­sam­bandið er annað, stærra og meira en bara upp­taka á evru, auk þess sem inn­ganga í sam­bandið er ekki lausn und­an verðbólgu, sem þó fer hratt lækk­andi hér á landi.

En þetta er mik­il­vægt atriði í umræðunni sem gott er að liggi fyr­ir. Því til þess að hægt sé að taka upp evru hér á landi þarf Ísland að upp­fylla Ma­astricht-skil­yrðin, sem fela í sér meðal ann­ars fjár­hags­leg­an stöðug­leika, lágt skulda­hlut­fall og stöðuga vexti. Vissu­lega ástand sem er ákjós­an­legt en þetta er langt ferli sem myndi krefjast ótal efna­hags­legra um­bóta og ekki víst að slík­ar um­bæt­ur ná­ist. En ef þær nást vakn­ar spurn­ing­in hvort þetta er skref sem við þurf­um að stíga.

Hags­mun­um Íslands bet­ur komið utan ESB

Við í Fram­sókn erum þeirr­ar skoðunar að hags­mun­um Íslands sé bet­ur borgið utan Evr­ópu­sam­bands­ins, en inn­an EES. Ísland, Nor­eg­ur og Sviss, sem öll standa utan Evr­ópu­sam­bands­ins, eru á meðal þeirra landa sem telj­ast hafa hvað best lífs­kjör í ver­öld­inni. EES-samn­ing­ur­inn veit­ir Íslandi aðgang að einu stærsta viðskipta­svæði heims án þess að þurfa að hlíta ströng­um regl­um og stefn­um ESB.

Við höf­um öll tæki­færi til þess að ná tök­um á ástand­inu og eru þegar far­in að sjást sterk merki um það núna þegar verðbólga er á hraðri niður­leið. Við í Fram­sókn höf­um trú á Íslandi og tæki­fær­um lands­ins. Við búum við kröft­ug­an hag­vöxt, erum með sterka innviði, lítið at­vinnu­leysi og út­flutn­ings­grein­ar sem vegn­ar vel. Slíkt hið sama er ekki hægt að segja um öll lönd inn­an ESB. Ísland hef­ur staðið vel í alþjóðleg­um sam­an­b­urði hvað varðar lífs­kjör, heil­brigðis­kerfið, mennt­un og þannig mætti áfram telja þótt vissu­lega gefi á eins og hjá öðrum þjóðum þegar stríð brest­ur á í kjöl­far heims­far­ald­urs, sama hvaða gjald­miðil er um að ræða. Þá skal hafa í huga stærð og sér­stöðu lands og þjóðar þegar kem­ur að sam­an­b­urði og sam­keppn­is­hæfni við önn­ur stærri og fjöl­menn­ari lönd. Myndi inn­ganga í ESB þjóna hags­mun­um þjóðar­inn­ar í heild sinni eða aðeins hluta? Það ber að var­ast að trúa á ein­hverj­ar kostnaðarsam­ar, óljós­ar og órök­studd­ar töfra­lausn­ir. Það er í mörg horn að líta varðandi viðræður við ESB og því mik­il­vægt að gleyma sér ekki í að horfa ein­göngu á það sem hent­ar hverju sinni. Auðlind­ir okk­ar eru grund­völl­ur hag­vaxt­ar og eiga ekki að vera notaðar sem skipti­mynt í samn­ingaviðræðum við ESB. Við eig­um að horfa til lengri tíma með hags­muni lands og þjóðar í fyr­ir­rúmi og með skýr mark­mið að leiðarljósi.

Þannig tryggj­um við far­sæla framtíð ís­lenskr­ar þjóðar.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Var eitthvert plan eftir allt saman?

Deila grein

09/01/2025

Var eitthvert plan eftir allt saman?

Það hef­ur verið ein­kenni­legt að fylgj­ast með rík­is­stjórn Sam­fylk­ing­ar, Viðreisn­ar og Flokks fólks­ins eft­ir að stefnu­yf­ir­lýs­ing flokk­anna var kynnt. Yf­ir­lýs­ing­in er rýr í roðinu og eft­ir því sem fleiri viðtöl birt­ast við full­trúa þess­ara flokka því meira hugsi verður maður. Þau eru fá og fá­tæk­leg svör­in þegar spurt er út í hvert planið sé hjá rík­is­stjórn­inni í rík­is­fjár­mál­um, gjald­töku á at­vinnu­lífið, sjáv­ar­út­vegi og fleiri mál­um. Eng­ar út­færsl­ur eða leiðir; ekk­ert. Það er ein­kenni­legt í því ljósi að þess­ir flokk­ar hafa setið á Alþingi und­an­far­in kjör­tíma­bil í stjórn­ar­and­stöðu og töluðu mikið, með óljós­um hætti þó, um breyt­ing­ar fyr­ir síðustu kosn­ing­ar. Maður skyldi ætla að það væru fleiri svör á reiðum hönd­um en raun ber vitni nú þegar flokk­arn­ir þrír fá hin langþráðu lykla­völd að Stjórn­ar­ráðinu.

Það vakti til dæm­is furðu margra þegar ný rík­is­stjórn fór strax að út­hýsa hlut­verki sínu við stjórn rík­is­fjár­mála og varpa ábyrgð á henni yfir á al­menn­ing í land­inu með því að óska eft­ir sparnaðarráðum. Það er sér­stak­lega ein­kenni­legt í ljósi dig­ur­barka­legra en óljósra út­gjaldalof­orða, tekju­öfl­un­ar­áforma sem og sparnaðaraðgerða í rík­is­fjár­mál­um sem dundu á lands­mönn­um í kosn­inga­bar­átt­unni. Má þar nefna yf­ir­lýs­ing­ar um sparnað upp á 28 millj­arða í op­in­ber­um inn­kaup­um, hinar frægu skatta- og skerðing­ar­lausu 450.000 krón­ur, skatta- og gjalda­hækk­an­ir og fleira. Auðvitað á það ekki að vera al­menn­ings að skera rík­is­stjórn­ina niður úr þeirri lof­orðasnöru sem hún setti sig sjálf í. Rík­is­stjórn­in verður ein­fald­lega að taka ábyrgð á sjálfri sér í stað þess að gef­ast strax upp á verk­efn­inu. Því fylg­ir nefni­lega ábyrgð að stjórna landi og til þess voru þess­ir flokk­ar kosn­ir. Það voru því von­brigði að sjá hversu mátt­laus hin stutta stefnu­yf­ir­lýs­ing rík­i­s­tjórn­ar­inn­ar var, sem fær mann til þess að hugsa hvort það hafi verið eitt­hvert raun­veru­legt plan eft­ir allt sam­an.

Hið rétta er að ný rík­is­stjórn tek­ur við mjög góðu búi á marga mæli­kv­arða. Verðbólga hef­ur meira en helm­ing­ast, vext­ir hafa lækkað um 75 punkta síðan í októ­ber síðastliðnum, at­vinnuþátt­taka hef­ur verið mik­il, stutt var við lang­tíma­kjara­samn­inga á vinnu­markaði, skuld­astaða rík­is­sjóðs er góð í alþjóðleg­um sam­an­b­urði þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur, stríðsátök í Evr­ópu og verðbólg­una tengda þeim, og jarðhrær­ing­arn­ar í Grinda­vík og svo má lengi telja. Þá hef­ur verið fjár­fest af krafti í innviðum um allt land á und­an­förn­um árum og fjöl­mörg­um verk­efn­um komið til leiðar og mörg verk­efni langt kom­in sem ný rík­is­stjórn mun njóta góðs af hvort sem litið er til heil­brigðismála, mennta- og barna­mála, íþrótta­mála, sam­göngu­mála, út­lend­inga­mála, menn­ing­ar­mála eða ann­ars.

Ný rík­is­stjórn verður fyrst og fremst að passa að taka ekki rang­ar ákv­arðanir og breyta um kúrs í of mörg­um mál­um, enda væri ekki gott að hinar marg­um­töluðu breyt­ing­ar stjórn­ar­flokk­anna yrðu til hins verra. Að því sögðu vil ég óska nýrri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og mun leggja mín lóð á vog­ar­skál­arn­ar við að halda henni við efnið á kom­andi miss­er­um.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. janúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Deila grein

02/01/2025

Grunnur hefur verið lagður fyrir góða framtíð

Úr útsæ rísa Íslands fjöll
með eld í hjarta þakin mjöll
og brim við björg og sand.
Þó mái tím­inn margra spor
þá man og elsk­ar kyn­slóð vor
sitt fagra föður­land.

Á þess­um kröft­ugu lín­um hefst ljóð Davíðs Stef­áns­son­ar sem flest­ir ef ekki all­ir karla­kór­ar lands­ins hafa ein­hvern tím­ann haft á efn­is­skrám sín­um und­ir lagi Páls Ísólfs­son­ar. Við búum við það, Íslend­ing­ar, að nátt­úr­an er lif­andi og oft á tíðum grimm. Hún er á sama tíma ástæðan fyr­ir vel­sæld okk­ar, ástæðan fyr­ir því gríðarlega stökki sem ís­lenskt sam­fé­lag tók á síðustu öld inn í nú­tím­ann. Þær kyn­slóðir sem fædd­ar voru um og eft­ir alda­mót­in 1900 voru fram­sýn­ar, þær voru dug­leg­ar og við eig­um þeim mikið að þakka. Og við höf­um lært mikið af þeim, ekki síst það að það er eitt að vera fram­sýnn og annað að hafa kraft og þor til að fram­kvæma þær hug­mynd­ir sem kvikna.

Ákalli um breyt­ing­ar var svarað

Ára­mót eru mik­il­væg tíma­mót því þau kalla á að við tök­um okk­ur tíma og pláss til að horfa yfir sviðið, gera upp fortíðina og leggja drög og drauma að framtíðinni. Árið 2024 var mikið um­brota­ár í ís­lensku sam­fé­lagi. Þjóðin kaus sér for­seta í byrj­un sum­ars og síðan brast á með þing­kosn­ing­um í lok nóv­em­ber eft­ir að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn sleit sam­starf­inu við okk­ur í Fram­sókn og Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð. Niðurstaða kosn­ing­anna var af­ger­andi: Rík­is­stjórn­ar­flokk­un­um var hafnað og þeir flokk­ar sem boðuðu breyt­ing­ar unnu sig­ur og hafa nú náð sam­an um rík­is­stjórn. Ég óska þeirri rík­is­stjórn velfarnaðar í störf­um sín­um og heiti því að Fram­sókn mun stunda öfl­uga og mál­efna­lega stjórn­ar­and­stöðu.

Öflug stjórn við erfiðar aðstæður

Ákallið um breyt­ing­ar var sterkt í kosn­inga­bar­átt­unni. Trú­in á þeirri rík­is­stjórn sem hafði starfað frá haust­inu 2017 hafði dofnað veru­lega enda má segja að síðasta árið hafi þjóðin búið við stjórn­ar­kreppu. Þótt sam­starfið hafi súrnað ansi hratt á síðara kjör­tíma­bili rík­is­stjórn­ar­inn­ar tók­um við í Fram­sókn þá af­stöðu að mik­il­væg­ara væri að ganga hnar­reist til verks og láta ekki sund­ur­lyndi hafa eyðandi áhrif á þau brýnu verk­efni sem flokk­arn­ir þrír höfðu komið sér sam­an um í stjórn­arsátt­mála að hrinda í fram­kvæmd. Við ákváðum, eðli­lega, að láta þjóðar­hag hafa for­gang um­fram hags­muni flokks­ins.

Breyt­ing­arn­ar á þingi eru veru­leg­ar en mik­il nýliðun varð í kosn­ing­un­um. Það var mik­il reynsla sem bjó í síðustu rík­is­stjórn þar sem for­menn stjórn­ar­flokk­anna höfðu all­ir á ein­hverj­um tíma setið í stóli for­sæt­is­ráðherra. Sú reynsla kom sér vel í þeim stór­kost­legu áskor­un­um sem rík­is­stjórn­in stóð frammi fyr­ir á þeim sjö árum sem hún var við völd. Flug­fé­lagið Wow air féll með lát­um á fyrra kjör­tíma­bil­inu. Heims­far­ar­ald­ur geisaði með lam­andi áhrif­um á sam­fé­lag og at­vinnu­líf. Rúss­ar réðust inn í Úkraínu. Og rýma þurfti eitt öfl­ug­asta bæj­ar­fé­lag lands­ins, Grinda­vík, vegna elds­um­brota. Svo eitt­hvað sé nefnt.

Síðustu ár hafa verið ár um­bóta

Ég er stolt­ur af þeim ár­angri sem Fram­sókn náði í störf­um sín­um í rík­is­stjórn frá ár­inu 2017 þegar þetta óvenju­lega stjórn­ar­mynst­ur varð til. Fram­lög til sam­göngu­mála voru stór­auk­in, tíma­móta­sam­komu­lag um upp­bygg­ingu í sam­göng­um á höfuðborg­ar­svæðinu náðist með sam­göngusátt­mál­an­um og und­ir­bún­ings­vinnu á Sunda­braut gekk vel, rann­sókn­ar­vinnu er nán­ast lokið og get­ur útboðsfer­ill farið í gang þegar leiðar­val ligg­ur fyr­ir og breyt­ing á aðal­skipu­lagi hef­ur verið aug­lýst. Þá er Reykja­nes­braut­in að verða tvö­föld allt að Fitj­um í Reykja­nes­bæ, sam­vinnu­verk­efnið um Ölfusár­brú er komið af stað, með verk­efn­inu Ísland ljóstengt, sem ég er einna stolt­ast­ur af á mín­um ferli, hef­ur verið komið á ljós­leiðara­teng­ingu í öll­um sveit­um lands­ins, af­slátt­ur fyr­ir íbúa lands­byggðar­inn­ar með Loft­brú hef­ur fest sig í sessi og byggðamál­in eru orðin mik­il­væg­ur þátt­ur í starfi Stjórn­ar­ráðsins, nokkuð sem ég hef alltaf lagt mikla áherslu á. Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar í hús­næðismál­um hef­ur tek­ist að byggja upp nor­rænt hús­næðis­kerfi sem trygg­ir þúsund­um fjöl­skyldna ör­uggt þak yfir höfuðið. Nú rík­ir mun betra jafn­vægi á hús­næðismarkaði en áður og auk þess lagði ríkið til í haust land und­ir bygg­ingu 800 íbúða í Reykja­nes­bæ. Stór­sókn í heil­brigðismál­um hef­ur átt sér stað síðustu árin und­ir stjórn Will­ums Þórs sem hef­ur ekki síst komið fram í jöfn­un aðgeng­is að kerf­inu með samn­ing­um við all­ar heil­brigðis­stétt­ir sem ósamið hafði verið við um ár­araðir, auknu fjár­magni til mála­flokks­ins og bætt­um rekstr­ar­skil­yrðum Land­spít­al­ans. Mark­viss vinna Lilju Dagg­ar í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu í mál­efn­um ferðaþjón­ust­unn­ar, auk­inn stuðning­ur við menn­ingu og list­ir og 35% end­ur­greiðslan hef­ur styrkt stoðir kvik­mynda­gerðar á Íslandi. Ásmund­ur Ein­ar setti mál­efni barna á dag­skrá, ekki síst með far­sæld­ar­lög­un­um sem hafa þegar bætt aðstöðu þeirra barna sem veik­ust eru fyr­ir í ís­lensku sam­fé­lagi og ekki má held­ur gleyma stuðningi hans við íþrótt­irn­ar með nýrri Þjóðar­höll og aukn­um stuðningi við yngri landslið okk­ar. Allt þetta og meira til er á af­reka­skrá Fram­sókn­ar frá ár­inu 2017. Og á þessu geta rík­is­stjórn­ir framtíðar­inn­ar byggt til hags­bóta fyr­ir þjóðina.

Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi

Staða Íslands er góð, hag­kerfið er því næst í jafn­vægi með hátt at­vinnu­stig, lítið at­vinnu­leysi og framtíðin er björt ef rétt er haldið á spöðunum. Fyrri rík­is­stjórn náði stjórn á verðbólg­unni sem fór á flug eft­ir heims­far­ald­ur og stríð í Úkraínu. Við sjá­um fram á mjúka lend­ingu hag­kerf­is­ins, sjá­um fram á lækk­andi verðbólgu og lægri vexti. Aðhald í rík­is­fjár­mál­um er mik­il­væg­ur þátt­ur í þeim ár­angri sem fyrri rík­is­stjórn náði í bar­átt­unni við verðbólg­una. Það sem var þó ekki síður mik­il­vægt var að með aðkomu hins op­in­bera náðust kjara­samn­ing­ar til fjög­urra ára á al­menn­um markaði.

Gat­an er því nokkuð greið fyr­ir all­hraðar vaxta­lækk­an­ir á nýju ári.

Já, framtíðin er björt. Þeirri rík­is­stjórn sem af­henti val­kyrj­un­um lykl­ana að Stjórn­ar­ráðinu fyr­ir jól tókst að skapa þær aðstæður að nú eru fimm stoðir und­ir efna­hag lands­ins. Hin nýja stoð hug­vits og skap­andi greina er ört vax­andi og veit­ir ekki aðeins aukn­ar tekj­ur inn í þjóðarbúið held­ur skap­ar ný og spenn­andi störf fyr­ir ungt fólk. Fleiri stoðir þýða aukið jafn­vægi, nokkuð sem stefnt hef­ur verið að í lang­an tíma og er nú að nást.

Óvissu­tím­ar

Við lif­um á tím­um þar sem mik­il óvissa rík­ir á alþjóðasviðinu. Það geis­ar styrj­öld í Evr­ópu. Fjölda fólks er fórnað á víg­vell­in­um í Úkraínu. Það er nöt­ur­legt að horfa upp á Rússa, sögu­legt stór­veldi sem nú stend­ur á brauðfót­um og er stýrt af manni sem virðist svíf­ast einskis til að halda stöðu sinni. Hryll­ing­ur­inn á Gasa held­ur áfram. Sýr­land hef­ur losað sig við hinn hræðilega Assad en ástandið er viðkvæmt. Í janú­ar sest á ný í stól for­seta Banda­ríkj­anna maður sem virðist horfa öðrum aug­um á hlut­verk Banda­ríkj­anna í sam­fé­lagi þjóðanna en flest­ir sem í þeim stól hafa setið. Ef sumt af því sem hann hef­ur sagst hafa áform um nær fram að ganga get­ur það haft mik­il áhrif á viðskipti í heim­in­um og þar með á lífs­kjör okk­ar hér á landi. Sam­band okk­ar við Banda­rík­in hef­ur alltaf verið gott og mik­il­vægt er að hlúa að því sama hver sit­ur þar í for­sæti.

Kæri les­andi.

Eitt er það sem mik­il­væg­ast er fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og það er að öðlast ró og ham­ingju. Árið 2024 ein­kennd­ist af óróa og of­beldi, nokkuð sem við get­um ekki þolað. Við þurf­um að hlúa vel að fjöl­skyld­um, þurf­um að hlúa vel að börn­un­um okk­ar, fyrstu kyn­slóðinni sem elst upp við ótrú­leg­ar breyt­ing­ar sem tækn­in hef­ur gert á sam­skipt­um okk­ar og sam­fé­lagi. Besta leiðin til þess er að hver og einn horfi inn á við, veiti fólk­inu sínu at­hygli og hlýju, leggi á sig það sem þarf til að skapa sterk tengsl við sína nán­ustu. Það kem­ur ekk­ert í staðinn fyr­ir það að eiga góða og sterka fjöl­skyldu sem hægt er að treysta á í lífs­ins ólgu­sjó.

Ég óska þér, les­andi góður, gleðilegs nýs árs. Megi Guð og gæf­an fylgja þér árið 2025.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. desember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Deila grein

09/12/2024

Köld eru kvenna­ráð – eða hvað?

Orðatiltækið „Köld eru kvenna ráð“ kemur úr Njálu og þar er átt er við að ráðleggingum kvenna sé ekki alltaf treystandi. Þessi fornu orð hafa lengi fylgt umræðum um ráðvendni og hlutverk kvenna en nútímarannsóknir sýna að þátttaka þeirra í ákvörðunum styrkir oft útkomur með breiðari sýn, aukinni samvinnu og sjálfbærri nálgun.

Nú, þegar þrjár sterkar konur freista þess að semja um stjórn landsins, er því áhugavert að velta fyrir sér hvort samstarfið geti markað þáttaskil í stjórnmálum Íslands. Gæti það skilað sér í nýrri tegund af kraftmikilli samvinnu á Alþingi? Munu leiðtogarnir jafnvel horfa til mála í stjórnarsáttmála sem voru ekki efst á baugi í kosningabaráttu þeirra en eru ákaflega brýn fyrir samfélagið á næstu árum?

Það er erfitt að spá fyrir um á þessari stundu. En með óbilandi trú á öflugri samvinnu má setja fram óskalista um málefni fyrir nýja ríkisstjórn að umvefja og gera að sínum – fyrir land og þjóð:

1Orkuöryggi almennings: Ef orkuöryggi almennings er ekki betur tryggt þá mun raforku verð til heimila, hárgreiðslustofa, matvöruverslana og garðyrkjubænda halda áfram að hækka. Við verðum að muna að þessi viðkvæmi hópur er í allt annarri samningsstöðu en mjög stórir raforkunotendur sem njóta langtímasamninga. Raforkukerfið okkar var hannað þannig að almenningur nyti verndar en árið 2003 var hún tekin af þegar við byrjuðum að innleiða orkupakka Evrópusambandsins. Margar leiðir eru þó í boði til að bæta stöðuna innan þess kerfis og það þarf að gera. Þetta mál ætti að vera í forgangi hjá nýrri ríkisstjórn.

2) Takmörkum jarðakaup erlendra aðila : Þegar við seljum jarðir úr landi þá seljum við auðlindir vatns, jarðhita og jarðefna með þeim. Það virðist kannski saklaust þegar ein og ein jörð er seld, en þegar fram í sækir teiknast upp heildarmynd sem hefur áhrif á auðlindastýringu og langtímahagsmuni Íslands. Þegar hafa tugir jarða verið seldar. Vöknum og bregðumst við, og lærum af öðrum þjóðum.

3) Nýsköpun-, mennta- og atvinnuþróun : Lífsgæði geta aukis víða um land með áherslu á nýsköpun. Eflum nýsköpunarhraðla og stýrum fjármagni til þeirra með atvinnuþróun á landsbyggð í huga; frá Suðurnesjum og hringinn í kringum landið. Ísland á til dæmis stór tækifæri í orku- og matvælatengdri nýsköpun til sjávar og sveita og við eigum að setja enn meiri kraft í að sækja þau. Sköpum hvata til að ungt fólk með fjölbreytta menntun flytji heim og móti framtíðar Marel og Kerecis. Styrkjum menntun á ólíkum stöðum á landinu fyrir slíka sókn svo sem í gegnum Garðyrkjuskólann í Hveragerði og Keili á Suðurnesjum.

4) Sókn í landbúnaði : Landbúnaður á undir högg að sækja, á sama tíma og okkur fjölgar hratt. Spurningin er; ætlum við að fæða þjóðina innfluttri matvöru eða skapa skilyrði þannig að fjölbreytt matvælaframleiðsla geti blómstrað og vaxið með okkur? Gleymum ekki að öflugur landbúnaður er hluti fæðuöryggi og getur dregið úr losun gróðurhúsaloftegunda sem fylgir miklum vöruflutningum að utan. Einnig er fæðuframleiðsla hér lýðheilsumál því að í matvælaframleiðslu því lyfjanotkun er algengari erlendis og gæði vatns í framleiðslu ekki þau sömu. Jafnframt verðum við að átta okkur á að sókn í landbúnaði er líka einstaklega mikilvæg fyrir sjálfbærni ferðaþjónustu því að ferðamenn sækja ekki í tómar sveitir og innfluttan mat; heldur blómlega byggð og mat sem er ekta. Til að ná árangri á þessu sviði þarf meðal annars að huga að nýliðun og afkomu bænda, og lánakjörum til uppbyggingar.

5) Auðlindir og umhverfismál: Nýting auðlinda og virðing fyrir umhverfinu á að haldast í hendur. Tryggjum að uppbygging orkuinnviða á borð við flutningskerfi, sé í forgangi þar sem brýn þörf er á svo sem til Vestmannaeyja og Vestfjarða og tengjum landið okkar betur saman svo að nýtni raforkukerfisins aukist. Eflum fjölnýtingu jarðhita og skoðum tækifæri á jöldum svæðum. Sköpum hvata þannig að aukin raforkuframleiðsla rati í markmið stjórnvalda, hvort sem er fyrir atvinnuvegi eða orkuskipti, ekki síst utan höfuðborgarsvæðisins. Vöndum okkur í framkvæmd. Það er til dæmis ekki einstakri náttúru okkar í hag að teppaleggja landið með vindorkuverum en með skynsamri langtímahugsun er hægt að ná árangri í nýtingu án þess að slíta samfélög í sundur og náttúruna um leið. Útfærum lög þannig að ábati af raforkuframleiðslu rati til samfélagsins og skapi verðmæti í heimabyggð.

6) Framsækin ferðaþjónusta: Ferðaþjónusta er lífæð margra byggða og á mikið inni. Leggjum áherslu á gæði í ferðaþjónustu með sterkri framtíðarsýn. Breytumst ekki í „litlu Ameríku“ þar sem stór auglýsingaskilti og aðgangseyrir lita sífellt meira upplifum. Hægt væri til dæmis að skipta hóflegu gjaldi á hvern ferðamann niður á áfangastaði eftir rafrænni talningu heimsókna og koma þannig í veg fyrir bílastæðaposa við annan hvern hól. Höldum fast í frelsi þess að geta skoðað fallega landið okkar án slíkra takmarkanna.

7) Sterkir innviðir: Hinir mjúku innviðir samfélaga; læknar, hjúkrunarfræðingar, lögreglumenn og fjölbreyttir fagkennarar, allt frá stærðfræði yfir í tónlist, eru ekki síður mikilvægir og það að byggja brýr, göng og vegi. Aukum áherslu á að byggja upp mjúka og harða innviði á landsbyggðinni því þar verða verðmæti auðlinda til sem við treystum öll á. Sterk samfélög þjóna bæði heimamönnum og draga að hæfileikafólk sem efla atvinnu- og menningarlíf landsins enn frekar.

Til viðbótar við þennan lista má nefna mikilvæg málefni sem líklega eru þegar á dagskrá í viðræðunum – og eiga sannarlega heima þar:

7) Heima er best: Heimili eiga ekki að vera áhættufjárfesting. Setjum markið á langtíma óverðtryggð lán fyrir heimili og takmörkum samkeppni venjulegs fólks við fagfjárfestingar í fasteignum ætlaðar Airbnb. Setjum reglur þannig ekki sé braskað með lóðir því það hægir á framkvæmdum og hækkar fasteignaverð.

8) Grípum inn í fátækt: Fátækt skilur eftir sig opin sár meðal ungra og aldna sem gagnast engum í okkar ríka samfélagi. Hlustum á skýrt ákall eldri borgara og þeirra sem minna mega sín úr þessum kosningum. Finnum leiðir til að taka skýr skref sem oft tengjast dýrum húsnæðismarkaði.

9) Grunnskólinn sem griðastaður: Sterkt skólakerfi og fjárfesting í æskulýðsstarfi er besta forvörn sem völ er á og hér halda þarf áfram að sækja fram með metnaðarfullum hætti. Ljúkum við innleiðingu nýrra samræmdra prófa og verum leiðandi í framkvæmd símalausra skóla.

10) Tungumálið er hjarta menningar: Íslenskan er límið í menningu okkar. Eflum íslenskukennslu og komum á skýrum hvötum í atvinnulífi til að stuðla að lærdómi hennar svo allir eigi jafna möguleika. Hér getur fjárfesting í menningarstarfi og listum sem tengir saman Íslendinga og innflytjendur hjálpað. Fáum eldri borgara líka með í lið við talþjálfun innflytjenda með því að gefa þeim færi á að afla sér tekna án tekjuskerðingar. Þannig má draga úr einangrun og efla samveru á marga vegu.

Þessi málefnalisti, sem gæti verið mun lengri, á við sama hvaða ríkisstjórn er við völd. Hann er þó settur fram með þá trú að við séum mögulega í dauðafæri að sjá fyrstu kvenleiddu ríkisstjórn Íslands fæðast, sem geti komist í sögubækurnar með því að slá nýjan tón í samvinnu og málefnaáherslur þvert á flokkadrætti. Stjórn þar sem mýtan „köld eru kvennaráð“ víkur fyrir breiðari áherslu á samstarf í útfærslu og framkvæmd stjórnarsáttmála. Sáttmála sem styðja má við og veita skýrt aðhald á þingi, samfélaginu okkar og framtíð til heilla.

Halla Hrund Logadóttir, oddviti Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. desember 2024.

Categories
Fréttir

Þakkir frá formanni

Deila grein

05/12/2024

Þakkir frá formanni

Kæra Framsóknarfólk!

Um síðustu helgi fóru fram einhverjar mestu hamfarakosningar í sögu þjóðarinnar og ekki síður í sögu flokksins okkar. Það þarf ekki að segja ykkur að aðdragandi kosninganna var stuttur, þarf ekki að segja ykkur að ákvörðun samstarfsflokks okkar í ríkisstjórn var ekki tekin með hag þjóðarinnar í huga. Hún getur verið grimm þessi pólitík.

Við gengum til orrustunnar vígamóð eftir átök síðustu mánaða. Þjóðin vildi breytingar. Hún var orðin þreytt á þessari ríkisstjórn sem var, þrátt fyrir að einstaka þingmenn samstarfsflokkanna væru í virkri stjórnarandstöðu, búin að ná tökum á verðbólgunni, búin að ná tökum á útlendingamálunum. Þjóðin vildi breytingar og upp úr kjörkössunum kom breytt pólitískt landslag þar sem tveir flokkar á þingi þurrkuðust út. Annar þeirra sem féll í valinn var Vinstrihreyfingin – Grænt framboð sem hafði setið í ríkisstjórn í ellefu ár frá árinu 2009, og átt forsætisráðherra í rúm sex af þeim árum.

Ég er ákaflega stoltur af flokknum okkar. Stoltur af því hvernig við börðumst fram á síðustu mínútu þrátt fyrir að skoðanakannanir væru ekki upplífgandi og sumar spáðu dauða Framsóknar á Alþingi Íslendinga. Við sjáum á þessu grafi frá Kosningasögunni að barátta okkar skilaði árangri þótt við hefðum auðvitað vilja rísa hærra.

Við sjáum á eftir gríðarlega öflugum félögum sem féllu í þessari orrustu. Þrír ráðherrar, Lilja Dögg, Ásmundur Einar og Willum Þór, höfðu öll unnið stórvirki í sínum störfum fyrir land og þjóð. Öflugir þingmenn okkar, Lilja Rannveig, Halla Signý, Jóhann Friðrik, Ágúst Bjarni, Hafdís Hrönn, höfðu verið sterkar raddir fyrir kjördæmin sín og flokkinn á þingi. Þá vil ég einnig nefna Líneik Önnu sem gaf ekki kost á sér að þessu sinni en mikil eftirsjá er að.

Kæru Félagar.

Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Við höfum frá árinu 2013 setið í ríkisstjórn með níu mánaða hléi. Störf okkar hafa reynst þjóðinni dýrmæt. Nú munum við verða sterk rödd Framsóknar í stjórnarandstöðu með fámennum en öflugum þingflokki sem ásamt mér mynda Stefán Vagn, Ingibjörg Isaksen, Þórarinn Ingi og okkar nýi og öflugi þingmaður, Halla Hrund.

Ég þakka ykkur öllum fyrir ómetanlega baráttu við erfiðar aðstæður.

Bestu kveðjur,

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar

Categories
Fréttir Greinar

Tekið við góðu búi

Deila grein

05/12/2024

Tekið við góðu búi

Stjórn­mál­in eru hverf­ull vett­vang­ur þar sem hlut­irn­ir geta breyst hratt. Í kosn­ing­un­um liðna helgi leiðbeindu kjós­end­ur stjórn­mála­flokk­un­um í hvaða átt skyldi stefna næstu árin.

Það er því ekki óeðli­legt að Sam­fylk­ing­in, Viðreisn og Flokk­ur fólks­ins hafi hafið form­leg­ar stjórn­ar­mynd­un­ar­viðræður eft­ir þeirra kosn­inga­sig­ur. Raun­ger­ist rík­is­stjórn þess­ara flokka er ljóst að hún tek­ur við góðu búi.

Fjár­laga­frum­varp Sig­urðar Inga Jó­hanns­son­ar legg­ur grunn­inn að því að verðbólga og vext­ir eru á fallanda fæti auk mark­vissra aðgerða stjórn­valda og aðila vinnu­markaðar­ins.

Þá eru skulda­hlut­föll rík­is­sjóðs lág í alþjóðleg­um sam­an­b­urði og staða rík­is­sjóðs sterk, at­vinnuþátt­taka er mik­il og tæki­færi fyr­ir frek­ari lífs­kjara­sókn sam­hliða lækk­andi fjár­mögn­un­ar­kostnaði.

Þá hef­ur gangskör verið gerð í hinum ýmsu mála­flokk­um svo eft­ir hef­ur verið tekið. Má þar sér­stak­lega nefna í ráðuneyt­um Lilju Al­freðsdótt­ur, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra, Will­ums Þórs Þórs­son­ar heil­brigðisráðherra og Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar, mennta- og barna­málaráðherra.

Það verður sjón­ar­svipt­ir að þess­um verk- og reynslu­miklu ráðherr­um Fram­sókn­ar sem hafa komið mörg­um fram­fara­mál­um til leiðar.

Brýn­ustu mál næstu rík­is­stjórn­ar eru að ná betri tök­um á hús­næðismarkaðnum og lækka fjár­magns­kostnað Íslands. Ráðist hef­ur verið í ýms­ar aðgerðir á hús­næðismarkaðnum að und­an­förnu til að mæta þeirri auknu eft­ir­spurn sem mynd­ast hef­ur.

Und­ir for­ystu Fram­sókn­ar var farið í hlut­deild­ar­lán og stofn­fjár­fram­lög til að mæta markaðsbresti á hús­næðismarkaði. Það þarf þó að fara í frek­ari kerf­is­breyt­ing­ar til að auka fram­boð af hús­næði um land allt. Sam­starf rík­is og sveit­ar­fé­laga verður að aukast til að ná meiri ár­angri.

Á sveit­ar­stjórn­arstig­inu mun Fram­sókn áfram leggja sig fram við að koma að lausn þeirra áskor­ana sem blasa við sam­fé­lag­inu okk­ar.

Við erum sam­vinnu­flokk­ur, hvort sem við erum í rík­is­stjórn eður ei.

Fjár­magns­kostnaður Íslands er of hár og á það við um kjör rík­is­sjóðs Íslands og allt hag­kerfið.

Það verður að fara ofan í saum­ana á því hvers vegna staðan er þessi í ljósi þess að all­ar grunnstoðir hag­kerf­is­ins eru sterk­ar. Láns­hæfis­ein­kunn rík­is­sjóðs Íslands hef­ur þó verið að hækka og þá ættu kjör­in að verða betri.

Hefja þarf stór­sókn í þess­um efn­um til að auka verðmæta­sköp­un Íslands.

Stefán Vagn Stefánsson, alþing­ismaður og fyrr­ver­andi formaður fjár­laga­nefnd­ar.

Greinin birtist fyrst Morgunblaðinu 5. desember 2024.

Categories
Fréttir

Kynntu þér Frú Sigríði – Gervigreind Framsóknar

Deila grein

29/11/2024

Kynntu þér Frú Sigríði – Gervigreind Framsóknar

Með meira en 100.000 orðum úr stefnumálum okkar, jafngildi heillar bókar, er Frú Sigríður tilbúin að svara spurningum þínum í rauntíma.

Viltu spyrja Framsókn – Frú Sigríður svarar!

Hingað til hefur hún svarað 10.000 skilaboðum. Ef það tæki 5 mínútur að svara hverri spurningu, hefði það tekið manneskju yfir 800 klukkustundir — eða um 100 átta tíma vinnudaga!

Frú Sigríður er dæmi um hvernig við notum sjálfvirknivæðingu til að leysa einföld vandamál á hagkvæman hátt. Með tækninni getum við nýtt fjármuni betur og þjónustað þig hraðar.

Prófaðu Frú Sigríði í dag og fáðu svörin sem þú þarft!

Categories
Fréttir Uncategorized

Minni öfgar – meiri Framsókn

Deila grein

28/11/2024

Minni öfgar – meiri Framsókn

Kosningaáherslur Framsóknar

Framsókn setur fjölskyldur í forgang, leggur áherslu á að bæta gott samfélag og styðja við ábyrg ríkisfjármál.

Heimilin

1. Ódýrari matarkarfa
a. Lækkun VSK á mat
2. Fyrirsjáanleiki við mánaðarmótin
a. Óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma
3. Réttlátari húsnæðismarkaður
a. Framboð á húsnæði verði aukið í samstarfi ríkis og sveitarfélaga
b. Skattahvatar fyrir hagkvæmar íbúðir
c. Aukið fjármagn í hlutdeildarlán

Samfélagið

1. Öruggara samfélag
a. Efling löggæslu og samfélagslögreglu
b. Hert eftirlit á landamærunum
c. Áhersla á innviði landsmanna
– Samgöngukerfið
– Göng
– Raforku og dreifikerfi
– Vatnsveitur
d. Tryggjum matvælaöryggi
– Með öflugum landbúnaði og sjávarútvegi
2. Velferð
a. Farsæld – Börn í forgangi
– Lenging fæðingarorlofs
– Áhersla á að móta áfram samfélag þar sem öll börn fá tækifæri til að blómstra óháð aðstæðum sínum, uppruna, efnahag og staðsetningu.
– Börn af erlendum uppruna fái nauðsynlegan stuðning og að skólakerfið sé í stakk búið til að mæta þörfum þeirra.
b. Við leggjum áherslu á mikilvægi menntunar, aðgengi að þjónustu og stuðning við fjölskyldur og kennara.
c. Heilbrigðiskerfi fyrir alla
– Tryggt sé jafnt og tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð búsetu, efnahag og uppruna.
– Áframhaldandi fjárfesting í heilbrigðiskerfinu
d. Lífsgæði tryggð á eldri árum
– Tryggt sé jafnt og tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir alla óháð búsetu, efnahag og uppruna.
– Áframhaldandi fjárfesting í heilbrigðiskerfinu.

Ábyrgari ríkisfjármál

1. Ábyrg ríkisfjármál, til að skapa skilyrði fyrir lækkun verðbólgu og vaxta
2. Lánakjör ríkissjóðs
a. Lækkun skulda, bætt lánshæfismat og lækkun vaxtagjalda ríkissjóðs
3. Hagvöxtur á grunni samkeppnishæfs atvinnulífs
a. Umgjörð atvinnulífs á Íslandi verði áfram styrkt til að viðhalda kröftugum hagvexti
– Aukin verðmætasköpun og eftirsóknarverð störf
– Fleiri stoðir undir efnahagslífi Íslands
– Vinna – vöxtur – velferð
3. Auðlindir í eigu Íslendinga
a. Tryggt verði að auðlindir séu í eigu Íslendinga og að tryggður sé sanngjarn arður til samfélagsins.
– Byggt verði á sambærilegum grunni og er í sjávarútvegi þar sem eignarhald erlendra aðila er takmarkað.
1. Land
2. Aðgengi að fjörðum
3. Orka
4. Vatnsauðlindir
4. Íslenska – tungumál allra
a. Framsókn stendur vörð um íslenskuna, íslensk gildi og menningu
– Tækniþróun og samkeppnishæfni íslenskunnar í tækniheimi
– Kennsla þeirra sem eru af erlendur bergi brotnir
– Menning og listir
– Íþróttir

Atvinnumál

Framsókn leggur áherslu á að byggja upp fjölbreytt og sjálfbært atvinnulíf með nýsköpun, græna atvinnusköpun og öflugt innviðakerfi í fyrirrúmi. Flokkurinn vill tryggja jafna dreifingu atvinnutækifæra um landið, stuðla að betri tengingu menntunar og atvinnulífs og skapa hagstætt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki. Framsókn styður einnig sjálfbæra ferðaþjónustu, sterkan landbúnað og aðgengi að fjármagni fyrir sprotafyrirtæki, með það að markmiði að efla efnahagslífið í öllum landshlutum.

Áherslur

Stuðningur við nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi: Framsókn vill styðja nýsköpun og þróun í atvinnulífinu með skattaívilnunum, fjárhagslegum stuðningi og þjálfun fyrir nýsköpunarfyrirtæki og frumkvöðla. Markmiðið er að skapa ný störf og styrkja samkeppnishæfni Íslands.

Atvinnuþróun á landsbyggðinni: Flokkurinn vill jafna tækifæri fólks á landsbyggðinni og í þéttbýli með því að skapa fjölbreytt störf víða um land. Markmiðið er að tryggja öflugt atvinnulíf í öllum landshlutum og stuðla að því að ungt fólk sjái sér fært að búa og starfa á landsbyggðinni.

Sjálfbær þróun og græn atvinnusköpun: Framsókn vill ýta undir græna atvinnusköpun og stuðla að sjálfbærum lausnum í atvinnulífinu, til dæmis í ferðaþjónustu, landbúnaði og orkuframleiðslu. Markmiðið er að byggja upp sterkt og sjálfbært hagkerfi fyrir framtíðina.

Styrking innviða: Framsókn vill fjárfesta í grunninnviðum eins og samgöngum, fjarskiptum og orkuframleiðslu. Betri innviðir styðja atvinnulíf á landsbyggðinni og bæta samkeppnishæfni landsins í heild.

Menntun og þjálfun í takt við þarfir atvinnulífsins: Framsókn vill efla tengsl milli menntunar og atvinnulífs með áherslu á starfsnám, símenntun og þjálfun í greinum þar sem vöntun er á starfsfólki, svo sem tæknigreinum, iðngreinum og heilbrigðisþjónustu.

Hagstætt skattaumhverfi fyrir fyrirtæki: Flokkurinn vill stuðla að einföldu og hagkvæmu skattaumhverfi sem hvetur fyrirtæki til vaxtar og nýráðninga. Þetta felur í sér skattaívilnanir fyrir smærri fyrirtæki og frumkvöðlastarfsemi.

Ferðaþjónusta til framtíðar: Framsókn vill byggja upp sjálfbæra ferðaþjónustu með áherslu á náttúruvernd, samspil við samfélagið og jafna dreifingu ferðamanna um allt land. Markmiðið er að ferðaþjónustan skapi arð fyrir samfélagið án þess að raska náttúrunni.

Stuðningur við íslenskan landbúnað: Framsókn vill efla sjálfbæran íslenskan landbúnað og styðja við bændur til að tryggja matvælaöryggi landsins og fjölbreytt atvinnulíf á landsbyggðinni. Framsókn lítur á landbúnað sem mikilvægan hluta af sjálfstæði landsins og velferð samfélagsins.

Jöfn tækifæri fyrir öll: Framsókn vill skapa fjölbreytt störf fyrir alla aldurshópa og styðja jafnrétti á vinnumarkaði, meðal annars með jöfnun launamunar og stuðningi við jafnréttisverkefni. Markmiðið er að stuðla að réttlátu og jafnréttissinnuðu atvinnulífi.

Hagstæð lán og aðgengi að fjármagni fyrir ný fyrirtæki: Framsókn vill auðvelda aðgang að fjármagni og bjóða hagstæð lán fyrir sprotafyrirtæki og smærri fyrirtæki til að skapa ný störf og styrkja efnahaginn.

Vinnumarkaður

Sýn Framsóknar í atvinnumálum snýst um að efla atvinnu, stuðla að
fjölbreyttu atvinnulífi og tryggja aðgengi að störfum fyrir alla.

Áherslur

Full atvinna: Framsókn vill tryggja að atvinnuþátttaka allra vinnufærra einstaklinga sé hámörkuð, þar sem full atvinna er ekki aðeins mikilvæg fyrir þjóðarbúið heldur einnig fyrir samfélagið.

Jafnrétti á vinnumarkaði: Framsókn leggur áherslu á að stuðla að jafnrétti á vinnumarkaði, þar sem fjölbreytileiki kynja og annarra hópa er endurspeglaður í stjórnunarstöðum.

Stuðningur við atvinnuleitendur: Framsókn vill auka stuðning við atvinnuleitendur, meðal annars með ráðningastyrkjum og endurmenntunartækifærum, til að draga úr langtímaatvinnuleysi og bæta atvinnuþátttöku.

Nýsköpun og frumkvöðlastarf: Flokkurinn vill hvetja til nýsköpunar og styðja sprotafyrirtæki við að auka fjölbreytni í atvinnulífinu og skapa ný störf.

Fjárfestingar í innviðum: Framsókn vill leggja áherslu á fjárfestingar í innviðum, svo sem samgöngum og menntun, til að styðja við atvinnusköpun og efnahagslegan vöxt.

Menntun og þjálfun í takt við þarfir atvinnulífsins: Framsókn vill efla tengsl milli menntunar og atvinnulífs með áherslu á starfsnám, símenntun og þjálfun í greinum þar sem vöntun er á starfsfólki, svo sem tæknigreinum, iðngreinum og heilbrigðisþjónustu.

Samstarf milli stofnana: Flokkurinn vill auka samvinnu og skilvirkni milli stofnana sem veita þjónustu við atvinnuleitendur og vinnufært fólk utan vinnumarkaðarins.

Aukinn stuðningur við rannsóknir og nýsköpun: Framsókn vill að opinber stuðningur verði veittur til rannsókna og nýsköpunar til að efla atvinnusköpun og nýta vísindalegar niðurstöður.

Fjölbreytni atvinnulífsins: Flokkurinn vill auka fjölbreytni atvinnulífsins með nýsköpun og uppbyggingu nýrra atvinnugreina um allt land.

Aukinn stuðningur við menntun: Framsókn vill styðja við námsmenn sem mennta sig í mikilvægum greinum, til að tryggja að atvinnulífið hafi aðgang að vel menntuðu starfsfólki.

Umhverfisvæn atvinnusköpun: Framsókn vill hvetja til atvinnusköpunar sem byggir á sjálfbærni og umhverfisvænum lausnum, til að tryggja að atvinnulífið sé í samræmi við náttúruvernd.

Landbúnaður

Sýn Framsóknar í landbúnaðarmálum snýst um að styðja og styrkja íslenskan landbúnað til að verða sjálfbær, með áherslu á fjölbreytta matvælaframleiðslu sem fullnægi þörfum þjóðarinnar. Framsókn vill styrkja innlenda matvælaframleiðslu og tryggja fæðuöryggi með áherslu á sjálfbærni, heilnæmi og upprunamerkingar. Flokkurinn vill stuðla að aukinni nýsköpun og rannsóknum á matvælum, styðja framleiðslu beint frá býli og innleiða skýrari reglur um upprunavottun. Framsókn leggur einnig áherslu á heilnæmi innfluttra matvæla, tollvernd og velferð dýra, auk þess að auka eftirlit og vernd gegn riðu. Flokkurinn vill viðhalda einkennum landsins, þar sem blómlegar sveitir og öflugt dreifbýli eru í forgrunni.

Áherslur

Verðmætasköpun: Framsókn vill auka verðmætasköpun í landbúnaði, sem þýðir að bændur eigi að geta aukið arðsemi sína með því að framleiða hágæða matvæli og nýta afurðir sínar á skilvirkari hátt. Framsókn vill setja upp hvata fyrir framleiðendur sem hyggja á framleiðslu matvöru sem skortur er á hér á landi. Þetta getur falið í sér fjárhagslegan stuðning eða aðstoð við að þróa nýjar vörur.

Fjármögnun og nýliðun: Nýir búvörusamningar þurfa að tryggja bændum aðgang að fjármagni til fjárfestinga, auk endurskoðunar á lánsfjármögnun til jarðarkaupa. Nýliðun í landbúnaði er afar mikilvæg og viðbótarstuðningur fyrir unga bændur getur verið lykilþáttur í því að hvetja nýja aðila til að hasla sér völl. Þetta skapar ný tækifæri í greininni og tryggir framtíðarstærð og sjálfbærni landbúnaðarins.

Nýsköpun: Framsókn vill hvetja til nýsköpunar og þróunar nýrra aðferða í matvælaframleiðslu og betri nýtingu auðlinda.

Samkeppnishæfni: Bændur þurfa að vera vel í stakk búnir til að standast harða samkeppni og nýta tækifærin sem felast í aukinni eftirspurn eftir íslenskum matvælum.

Samvinna: Framsókn vill efla samstarf milli landbúnaðarfyrirtækja, ríkis og frjálsra félagasamtaka. Þetta getur falið í sér að vinna saman að nýsköpun, þróun og markaðssetningu á íslenskum matvælum.

Menntun og þjálfun: Framsókn leggur áherslu á menntun og þjálfun í landbúnaði, sem er nauðsynleg til að tryggja að næstu kynslóðir hafi þekkingu og færni til að starfa í greininni. Þetta felur í sér að efla símenntun og aðgengi að náms- og starfsráðgjöf.

Sjálfbær landbúnaður: Framsókn vill að íslenskur landbúnaður verði sjálfbær, tryggja bæði matvælaframleiðslu og góðar rekstraraðstæður og laða þannig að nýliðun í greininni.

Fjölbreytt matvælaframleiðsla: Framsókn vill auka fjölbreytni í matvælaframleiðslu, með sérstaka áherslu á grænmeti og ávexti, til að mæta breytilegri eftirspurn og auka matvælaöryggi.

Aðgengi að auðlindum: Tryggja bændum sanngjarnan aðgang að orku, vatni og auðlindum til að auka framleiðni og fjárfestingar.

Verðmætasköpun: Framsókn vill auka verðmætasköpun í landbúnaði, sem þýðir að bændur eigi að geta aukið arðsemi sína með því að framleiða hágæða matvæli og nýta afurðir sínar á skilvirkari hátt. Framsókn vill setja upp hvata fyrir framleiðendur sem hyggja á framleiðslu matvöru sem skortur er á hér á landi. Þetta getur falið í sér fjárhagslegan stuðning eða aðstoð við að þróa nýjar vörur.

Loftslagsaðgerðir: Stuðningur við græna orkunotkun og minni kolefnislosun í landbúnaði til að bregðast við loftslagsbreytingum.

Sjávarútvegur

Framsókn leggur áherslu á sjálfbæran og réttlátan sjávarútveg sem tryggir langtímaafkomu bæði fiskistofna og sjávarbyggða. Mikilvægt er að efla rannsóknir og nýsköpun í greininni, stuðla að góðri umgengni um auðlindir og vinna gegn brottkasti. Auk þess að leggja áherslu á að efla samkeppnishæfni fyrirtækja og að fiskveiðistjórnunarkerfið virki til hagsbóta fyrir samfélagið í heild. Framsókn styður einnig ábyrgt fiskeldi með skýrri lagaumgjörð og vísindalegu eftirliti. Auk þess eru nýsköpun og fullnýting sjávarfangs, eins og þangs og þörunga, áherslur sem styrkja atvinnu og nýsköpun. Sjávarútvegur á að vera byggður á traustum vísindalegum grunni og skapa störf í öllum landshlutum. Sýn Framsóknar í sjávarútvegi snýst um að tryggja sjálfbærni, nýtingu auðlinda og efnahagslegan vöxt í sjávarútvegi.

Áherslur

Styrking strandbyggða: Flokkurinn leggur áherslu á að styrkja strandbyggðir og sjávarbyggðir, þar sem sjávarútvegur er oft grundvöllur efnahagslífsins.

Fjárfestingar í innviðum: Framsókn vill auka fjárfestingar í innviðum tengdum sjávarútvegi, eins og hafnarmannvirkjum og rannsóknarstofnunum, til að efla atvinnusköpun og nýsköpun.

Stuðningur við nýsköpun: Flokkurinn vill hvetja til nýsköpunar í sjávarútvegi, þar á meðal þróun nýrrar tækni og aðferða sem stuðla að betri nýtingu auðlinda.

Verndun sjávarumhverfis: Framsókn vill leggja áherslu á verndun sjávarumhverfisins, þar á meðal aðgerðir gegn mengun og stuðning við rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga á sjávarútveg.

Aukinn stuðningur við smáfyrirtæki: Flokkurinn vill veita smáfyrirtækjum í sjávarútvegi aukinn stuðning, til að tryggja að þau geti blómstrað og skapað störf.

Menntun og þjálfun: Framsókn vill efla menntun og þjálfun í sjávarútvegi, til að tryggja að starfsfólk hafi nauðsynlega þekkingu og færni.

Samstarf við aðila í sjávarútvegi: Flokkurinn vill auka samstarf milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs í sjávarútvegi, til að tryggja samræmda stefnu og aðgerðir.

Verndun réttinda sjómanna: Flokkurinn vill tryggja réttindi sjómanna og að þeir njóti sanngjarnra launa og góðra starfsaðstæðna.

Sjálfbær nýting auðlinda: Framsókn vill tryggja að auðlindir sjávar séu nýttar á sjálfbæran hátt, með því að vernda fiskistofna og stuðla að heilbrigðum vistkerfum.

Aukinn útflutningur: Framsókn vill stuðla að auknum útflutningi á sjávarafurðum, með því að efla markaðssetningu og stuðla að gæðastjórnun.

Ferðaþjónusta

Sýn Framsóknar varðandi ferðaþjónustu snýst um að stuðla að sjálfbærri þróun ferðaþjónustunnar á Íslandi, með áherslu á að nýta náttúruauðlindir landsins á skynsamlegan hátt. Framsókn leggur áherslu á sjálfbæra ferðaþjónustu sem styður við náttúruvernd, með áherslu á að styrkja ferðaþjónustu víðs vegar um landið, sérstaklega í dreifbýli. Flokkurinn vill efla lítil og meðalstór fyrirtæki, markaðssetja Ísland sem áfangastað fyrir sjálfbærar ferðir, og þróa innviði til að mæta auknum ferðamannastraumi.

Áherslur

Aukinn aðgangur að ferðaþjónustu: Flokkurinn vill auka aðgengi að ferðaþjónustu um allt land, sérstaklega í dreifbýli. Bætt aðgengi stuðlar að því að fleiri svæði geti notið góðs af ferðaþjónustu og að ferðamenn geti kynnst fjölbreytni landsins.

Styrking lítilla og meðalstórra fyrirtækja: Framsókn leggur áherslu á að styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu, sem eru oft í eigu heimafólks. Þau skila ábata inn í samfélögin og skapa grundvöll fyrir frekari uppbyggingu þjónustu.

Markaðssetning Íslands: Flokkurinn vill að Ísland verði markaðssett sem áfangastaður fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu, þar sem náttúra, menning og saga landsins eru í forgrunni. Það laðar að ferðamenn sem leggja áherslu á ábyrgð og sjálfbærni.

Þróun innviða: Framsókn vill að unnið verði að því að þróa nauðsynlega innviði fyrir ferðaþjónustu, svo sem vegi, aðstöðu og þjónustu, til að mæta auknum fjölda ferðamanna. Þetta er mikilvægt til að tryggja að ferðaþjónustan sé bæði örugg og aðgengileg.

Samstarf við aðila í ferðaþjónustu: Flokkurinn hvetur til samstarfs milli ríkis, sveitarfélaga og fyrirtækja í ferðaþjónustu. Þetta getur falið í sér sameiginlegar aðgerðir til að efla ferðaþjónustu og nýta tækifæri á markaði.

Menntun og þjálfun: Framsókn vill efla menntun og þjálfun í ferðaþjónustu, svo að starfsfólk geti veitt framúrskarandi þjónustu og stuðlað að jákvæðri upplifun ferðamanna.

Verndun náttúru: Flokkurinn leggur áherslu á að vernda náttúruauðlindir landsins, svo sem þjóðgarða og náttúruverndarsvæði, og tryggja að ferðaþjónustan stuðli að verndun þeirra.

Langtímastefna: Flokkurinn vill að unnið verði að langtímastefnu fyrir ferðaþjónustu, þar sem markmið og aðgerðir eru skýrðar til að tryggja sjálfbærni og vöxt í greininni. Einnig er lögð áhersla á menntun og þjálfun í ferðaþjónustu og stuðlað að samstarfi milli ríkis, sveitarfélaga og atvinnulífs.

Sjálfbær þróun: Framsókn vill að íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun, þar sem jafnvægi er milli efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra þátta. Þetta felur í sér að draga úr umhverfisáhrifum ferðaþjónustunnar og stuðla að verndun náttúruauðlinda.

Fjölbreytni í ferðaþjónustu: Framsókn vill auka fjölbreytni í ferðaþjónustu, svo sem að bjóða upp á menningarferðir, ævintýraferðir og heilsuferðir, til að mæta breytilegri eftirspurn ferðamanna.

Hugverkaiðnaður og nýsköpun

Áherslur

Stuðningur við sprota: Flokkurinn vill að stjórnvöld bjóði upp á fjárfestingastuðning eða lán fyrir sprota og nýsköpunarfyrirtæki. Þetta á að auðvelda þeim að fjárfesta í tækjum og búnaði sem stuðla að aukinni atvinnuþróun.

Fræðsla um hugverkaréttindi: Framsókn vill að fræðsla um hugverkaréttindi sé aðgengileg öllum, svo að einstaklingar og fyrirtæki geti tryggt vernd á hugverki sínu áður en það er of seint. Þetta felur í sér að kynna mikilvægi einkaleyfa og vörumerkjaverndar.

Aukinn aðgangur að fjármögnun: Flokkurinn vill að sprotafyrirtæki og nýsköpunarfyrirtæki hafi aðgang að nægri fjármögnun til að komast í gegnum erfið hönnunar- og þróunartímabil. Þetta er mikilvægt til að tryggja að nýsköpun nái fótfestu og verði arðbær.

Samstarf milli aðila: Framsókn hvetur til samstarfs milli ríkis, einkaaðila og frjálsra félagasamtaka í nýsköpunarstarfsemi. Þetta getur falið í sér að vinna saman að rannsóknum, þróun og markaðssetningu á nýjum hugverkum.

Hátækniþróun: Flokkurinn vill að Ísland nýti tækifæri í hátækniþróun, þar sem menntunarstig þjóðarinnar er hátt. Þetta felur í sér að stuðla að aukinni þátttöku Íslendinga og íslenskra fyrirtækja í hátækniþróun.

Framþróun í rannsóknum: Framsókn vill að opinber stuðningur við vísindarannsóknir verði áfram veittur, bæði í þágu vísinda og nýsköpunar. Þetta á að stuðla að frekari atvinnusköpun og þróun í hugverkaiðnaði. Sýn Framsóknar varðandi hugverkaiðnað og nýsköpun snýst um að stuðla að öflugu umhverfi fyrir nýsköpun og þróun hugverka.

Vernd hugverka: Framsókn leggur áherslu á mikilvægi verndar hugverka, þar sem það er grundvöllur fyrir nýsköpun og sköpun verðmæta. Flokkurinn vill tryggja að íslenskt hugvit, hönnun og framleiðsla njóti verndar bæði innanlands og á alþjóðamarkaði.

Efnahagsmál

Sýn Framsóknar í efnahagsmálum snýst um að stuðla að sjálfbærum efnahagsvexti, félagslegu réttlæti og ábyrgri stjórnsýslu.

Áherslur

Forgangsröðun fjármuna: Framsókn leggur áherslu á að fjármunum verði forgangsraðað í þágu velferðarkerfisins, brýnna samfélagslegra verkefna og að verja barnafjölskyldur og viðkvæma hópa.

Réttlátari húsnæðismarkaður: Það markaði tímamót þegar Framsókn setti fram á Alþingi fyrstu heildstæðu stefnu í húsnæðismálum á Íslandi sem hefur það markmið að skapa jafnvægi á húsnæðismarkaði sem gagnast ekki síst fyrstu kaupendum og þeim sem eru tekju- og eignaminni. Lykil áhersla er á að auka framboð á byggingarhæfum lóðum í samstarfi ríkis og sveitarfélaga. Skattahvatar verði innleiddir til að auka framboð á hagkvæmu húsnæði og fjármagn til hlutdeildarlána aukið.

Hagvöxtur á grunni samkeppnishæfs atvinnulífs: Framsókn vill styrkja samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs til að tryggja áfram kröftugan hagvöxt. Áhersla Framsóknar er á aukna verðmætasköpun og umgjörð sem tryggir landsmönnum eftirsóknarverð störf.

Réttlátt skattkerfi: Framsókn vill einfalt og réttlátt skattkerfi, skapa hvata til fjárfestinga og nýsköpunar sem stuðla að jöfnuði, umhverfisvænum lausnum og efnahagslegum stöðugleika.

Sjálfstæð peningastefna: Framsókn vill viðhalda sjálfstæðri peningastefnu með íslensku krónunni, til að tryggja efnahagslegan stöðugleika.

Fjármálakerfið: Flokkurinn vill styrkja fjármálakerfið og tryggja að það sé traust og aðgengilegt fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Stuðningur við nýsköpun: Framsókn vill hvetja til nýsköpunar og fjárfestinga í nýjum atvinnugreinum, sérstaklega í sjálfbærum og umhverfisvænum lausnum.

Fjárfestingar í innviðum: Framsókn vill leggja áherslu á fjárfestingar í innviðum, eins og samgöngum, menntun og heilbrigðisþjónustu, til að styrkja samkeppnishæfni samfélaga og stuðla að efnahagslegum vexti.

Ábyrg ríkisfjármál: Staða hagkerfisins er sterk. Framsókn leggur áherslu á að skapa skilyrði fyrir lægri verðbólgu og vöxtum til að tryggja stöðugleika í efnahagslífinu með hallalausum fjárlögum.

Aukinn stuðningur við atvinnulíf: Flokkurinn vill styðja við íslenskt atvinnulíf, sérstaklega í skapandi greinum og útflutningsgreinum, til að auka verðmætasköpun.

Heilbrigðismál

Sýn Framsóknar í heilbrigðismálum snýst um að tryggja bæði jafnt og tímanlegt aðgengi að hágæða heilbrigðisþjónustu fyrir alla, efla lýðheilsu, forvarnir og stuðla að sjálfbærni í heilbrigðiskerfinu.

Áherslur

Efling geðheilbrigðisþjónustu: Flokkurinn vill tryggja tímanlegt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og tryggja að börn og fullorðnir fái nauðsynlegan stuðning innan eðlilegs tímaramma. Einnig er lögð áhersla á að auka fjárfestingu í geðheilbrigðisþjónustu og fylgja eftir fyrirliggjandi uppbyggingaráformum um nýtt húsnæði geðdeildar Landspítala.

Lýðheilsa og forvarnir: Framsókn vill efla lýðheilsu og forvarnir, þar á meðal að stuðla að heilbrigðum lífsstíl, hreyfingu, góðu mataræði og andlegri líðan. Flokkurinn vill gera samfélagssáttmála um lýðheilsu með aðkomu allra hagaðila, auka skimun fyrir ýmsum kvillum og stuðla að bættu heilsulæsi.

Fjárfesting í heilbrigðiskerfinu: Sýn Framsóknar felur í sér að auka fjárfestingu í heilbrigðiskerfinu, til að tryggja að það sé vel búið til að mæta þörfum þjóðarinnar. Þetta felur í sér að bæta aðstöðu, tækjabúnað og þjónustu.

Skaðaminnkandi nálgun: Framsókn vill innleiða skaðaminnkandi nálgun í auknum mæli í áfengis- og fíkniefnamálum, sem miðar að því að draga úr skaðlegum afleiðingum hegðunar eða lífsstíls, óháð því hvort hún sé æskileg, lögleg eða ólögleg.

Aukinn stuðningur við eldra fólk: Flokkurinn vill bæta lífsgæði eldri borgara og tryggja að þeir fái nauðsynlega þjónustu á þeirra forsendum, sem felur í sér að fjölga fjölbreyttum úrræðum, s.s. á sviði endurhæfingar, fyrir eldra fólk og tryggja tímanlegtaðgengi að samþættri þjónustu og félagslegum úrræðum.

Samstarf við heilbrigðisfyrirtæki: Framsókn vill nýta krafta heilbrigðisfyrirtækja og félagasamtaka til að efla heilbrigðisþjónustu og forvarnir í samfélaginu.

Aukinn áhersla á rannsóknir og nýsköpun: Flokkurinn vill stuðla að rannsóknum og nýsköpun í heilbrigðismálum, til að bæta þjónustu og þróa nýjar aðferðir í meðferð og forvörnum. Framsókn leggur áherslu á að fjármagna nýjan Heilbrigðisvísindasjóð með myndarlegum hætti.

Aukinn stuðningur við heilbrigðisstarfsfólk: Flokkurinn vill stuðla að áframhaldandi umbótum í starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks og tryggja mönnun þjónustunnar í takt við þörf og út frá þeim viðmiðum sem við setjum okkur í samvinnu með fagfélögum og stofnunum. Framsókn leggur áherslu á áframhaldandi eflingu sérnámslækna og fjölbreyttra greina á heilbrigðisvísindasviði.

Aðgengi að heilbrigðisþjónustu: Framsókn vill tryggja að allir hafi aðgengi að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu, óháð búsetu eða efnahag. Flokkurinn leggur áherslu á að auka þjónustu í dreifbýli og tryggja aðgengi að sérfræðingum.

Skilvirk þjónustukaup: Framsókn leggur áherslu á að innleiða skilvirk þjónustukaup og samninga við þjónustuveitendur, til að tryggja jafnt og tímanlegt aðgengi að heilbrigðisþjónustu.

Húsnæðismál

Það markaði tímamót þegar Framsókn setti fram á Alþingi fyrstu heildstæðu stefnu í húsnæðismálum á Íslandi. Meginmarkmið er að skapa til lengri tíma jafnvægi á húsnæðismarkaði sem gagnast ekki síst fyrstu kaupendum og þeim sem eru tekju- og eignaminni. Áherslan er á að jafnvægi verði á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf og þróun húsnæðis- og leiguverðs sé stöðug. Húsnæðisstefnan hefur því ekki einungis áhrif á lífsgæði fólks, ráðstöfunartekjur og húsnæðisöryggi. Hún hefur áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.

Áherslur

Húsnæðisöryggi fyrir alla: Framsókn leggur á að allir hafi aðgang að öruggu og hagkvæmu húsnæði með viðráðanlegum kostnaði, með markvissum stuðningi.

Uppbygging almenna íbúðakerfisins: Halda þarf áfram að styrkja almenna íbúðakerfið og auka framboð af óhagnaðardrifnu og öruggu leiguhúsnæði.

Framboð af byggingarhæfum lóðum: Áhersla þarf að vera á nægu lóðaframboði á hverjum tíma með fyrirsjáanleika af nægu framboði af fjölbreyttu húsnæði, sérstaklega í ljósi aukinnar fólksfjölgunar. Framsókn leggur áherslu á að skoða allar leiðir til að auka framboð lóða, t.d. með endurskoðuðu svæðisskipulagi, hvötum sem ýta undir framboð byggingarhæfra lóða og að land í eigu ríkisins verði nýtt til að hraða uppbyggingu íbúða með reglubundnum útboðum til að tryggja sem breiðasta þátttöku verktaka og stuðla að minni sveiflum.

Lífeyrissjóðir á leigumarkaðinn: Fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða til kaupa í leigufélögum voru rýmkaðar sl. vor til að auðvelda þeim þátttöku í að auka framboð leiguhúsnæðis. Framsókn hvetur lífeyrissjóði til að nýta sér heimildina og taka þátt í uppbyggingu leiguhúsnæðis.

Aðgerðir vegna aldurssamsetningar þjóðarinnar: Tryggja fjölbreytt búsetuúrræði fyrir eldra fólk með ódýru fjármagni og lóðum fyrir óhagnaðardrifin byggingafélög.

Stuðningur við tekju- og eignaminni: Áhersla á að lækka húsnæðisbyrði tekjulægri og eignaminni einstaklinga með hagkvæmu húsnæði á leigumarkaði.

Leigumarkaðurinn: Framsókn hefur sett af stað aðgerðir til að auka hlutfall óhagnaðardrifins leiguhúsnæðis, sem nú er aðeins 2-3% af markaðnum í um 6%.

Íbúðir nýttar til búsetu: Framsókn leggur áherslu á að hærri fasteignagjöld verði sett á íbúðir sem ekki eru nýttar til búsetu og stuðlað verði að því að íbúðir í þéttbýli sem ekki eru nýttar til búsetu verði nýttar sem slíkar.

Heildstæð húsnæðisstefna: Meginmarkmiðið er langtímajafnvægi á húsnæðismarkaði, með áherslu á fyrstu kaupendur og tekju- og eignaminni einstaklinga.

Skilvirk stjórnsýsla: Framsókn leggur áherslu á skilvirka stjórnsýslu, bætt regluverk, aukinn rekjanleika og bætta neytendavernd vegna íbúða.

Innviðir

Sýn Framsóknar í innviðamálum snýst um að tryggja öfluga og sjálfbæra innviði sem styðja við efnahagslegan vöxt, samfélagslega velferð og umhverfisvernd.

Það markaði tímamót þegar Framsókn setti fram á Alþingi fyrstu heildstæðu stefnu í húsnæðismálum á Íslandi. Meginmarkmið er að skapa til lengri tíma jafnvægi á húsnæðismarkaði sem gagnast ekki síst fyrstu kaupendum og þeim sem eru tekju- og eignaminni. Áherslan er á að jafnvægi verði á húsnæðismarkaði þar sem fjölbreytt framboð íbúða mæti þörf og þróun húsnæðis- og leiguverðs sé stöðug. Húsnæðisstefnan hefur því ekki einungis áhrif á lífsgæði fólks, ráðstöfunartekjur og húsnæðisöryggi. Hún hefur áhrif á efnahagsmál þjóðarinnar.

Áherslur

Samgöngur: Flokkurinn leggur áherslu á að efla samgöngukerfi landsins, bæði á landi og í lofti, með því að bæta aðgengi að dreifbýli og tryggja öruggar og skilvirkar samgöngur fyrir alla. Mæta þarf auknu umferðarálagi með uppbyggingu og viðhaldi vega, bæta umferðaröryggi, halda áfram að bæta tengivegi og bora ný jarðgöng hringinn í kringum landið og útrýma einbreiðum brúm.

Fjarskipti: Framsókn vill tryggja aðgengi að háhraða interneti og öðrum fjarskiptalausnum um allt land, sérstaklega í dreifbýli, til að stuðla að jafnrétti í menntun, atvinnu og þjónustu.

Heilbrigðis- og menntakerfi: Flokkurinn vill styrkja innviði heilbrigðis- og menntakerfisins, með því að auka fjárveitingar til sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og menntastofnana, svo að allir hafi aðgang að nauðsynlegri þjónustu, óháð búsetu.

Umhverfisvernd: Framsókn vill að innviðir séu hannaðir með umhverfisvernd í huga, þar sem sjálfbærni og græn orka eru í forgrunni. Þetta felur í sér að nýta endurnýjanlega orku og draga úr kolefnislosun.

Samfélagsleg þjónusta: Flokkurinn leggur áherslu á að innviðir séu hannaðir til að styðja við samfélagslega þjónustu, svo sem félagslegar þjónustur, frístundastarf og aðstöðu fyrir íþróttir og menningu.

Aðgengi fyrir alla: Framsókn vill tryggja að innviðir séu aðgengilegir öllum, óháð aldri, heilsu eða fjárhag. Þetta felur í sér að huga að aðgengi fyrir fatlaða og aðra sem kunna að eiga í erfiðleikum með að nýta sér þjónustu.

Samstarf við sveitarfélög: Flokkurinn hvetur til samstarfs milli ríkis og sveitarfélaga um innviðamál, þar sem sveitarfélögin hafa mikilvægt hlutverk í að þróa og viðhalda innviðum á sínu svæði.

Efling atvinnulífs: Flokkurinn vill að innviðir stuðli að eflingu atvinnulífs, með því að skapa aðstæður sem hvetja til nýsköpunar, fjárfestinga og atvinnusköpunar.

Aukin fjárfesting í innviðum: Framsókn vill auka fjárfestingu í innviðum, svo sem vegum, brúm, flugvöllum og öðrum samgöngukerfum, til að tryggja að þau séu í góðu ástandi og geti mætt þörfum samfélagsins.

Langtímastefna: Framsókn vill að unnið verði að langtímastefnu fyrir innviðamál, þar sem markmið og aðgerðir eru skýrðar til að tryggja að innviðir séu í samræmi við þarfir samfélagsins í framtíðinni.

Íslenskan

Sýn Framsóknar á málefni íslenskunnar og menningu snýst um að tryggja verndun, þróun og aðgengi að íslensku máli og menningu.

Áherslur

Íslenska fyrst: Framsókn vill stuðla að auknum sýni- og heyranleika íslensku í almannarými í breiðri samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda.

Aukinn stuðningur við íslenskt táknmál: Flokkurinn vill efla íslenskt táknmál sem opinbert mál og tryggja því stuðning og viðurkenningu.

Máltækni og gervigreind: Framsókn vill tryggja framtíð íslenskunnar í stafrænum heimi með uppbyggingu, viðhaldi og hagnýtingu máltækniinnviða. Framsókn vill tryggja að fleiri snjalltæki og forrit tali hágæða íslensku ásamt því að styðja við fólk og fyrirtæki til að hagnýta íslenska máltækni í leik og starfi.

Íslensk afþreying: Framsókn vill styðja áfram við nægt framboð af fjölbreyttu afþreyingarefni á íslensku, meðal annars með stuðningi við listir og menningu.

Menntun í íslensku: Flokkurinn vill efla íslenskukennslu, bæði fyrir þá sem læra íslensku sem fyrsta og annað mál og tryggja að kennslufræði íslenskunnar sé í fremstu röð.

Aðgengi að upplýsingum: Framsókn vill tryggja aðgengi að upplýsingum um íslensku fyrir þá sem vilja setjast að á Íslandi, á öllum helstu tungumálum.

Verndun íslenskunnar: Framsókn leggur ríka áherslu á að varðveita íslenskuna og þróa tungumálið til framtíðar, sérstaklega í ljósi tæknibreytinga og aukinnar enskunotkunar.

Menning

Framsókn vill efla og styðja við fjölbreytt menningarlíf sem endurspeglar íslenska arfleifð og sköpunargleði. Flokkurinn vill tryggja aðgengi allra að menningu og listum, óháð búsetu, og styðja við menntun og starfsemi listamanna. Framsókn leggur einnig áherslu á að menning sé mikilvægur þáttur í samfélagslegri þróun og efnahagslegri velferð.

Áherslur

Aðgengi að menningu: Flokkurinn leggur áherslu á að tryggja að allir hafi aðgang að menningu, óháð búsetu eða efnahag og efla menningarúrræði í dreifbýli.

Verndun menningararfleiðar: Framsókn vill tryggja verndun og varðveislu menningararfleiðar, þar á meðal bygginga, hefða og tungumáls.

Fjölbreytni í menningu: Flokkurinn vill stuðla að fjölbreytni í menningu og listum, þar á meðal að styðja við menningu innflytjenda og aðra menningarhópa.

Menntun í listum og menningu: Framsókn vill efla menntun í listum og menningu í skólum, til að stuðla að skapandi hugsun og menningarlegri vitund meðal ungmenna.

Verðmætaskapandi kvikmyndaframleiðsla: Framsókn vill stækka kvikmyndasjóð, tryggja fyrirsjáanleika í fjármögnun hans, tryggja að erlendar streymisveitur styðji við innlenda kvikmyndagerð og að 35% endurgreiðslukerfið vegna framleiðslu kvikmynda verði útvíkkað til fleiri verkefna.

Bókmenntaþjóðin Ísland: Framsókn vill að nýrri bókmenntastefnu verði hrint til framkvæmdar, með áherslu á íslensku og ungt fólk.

Aukinn stuðningur við listir og menningu: Framsókn vill auka fjárveitingar til lista- og menningarsjóða til að styðja við skapandi verkefni og menningarstarfsemi um allt land. Einnig vill Framsókn halda áfram að styðja við frumsköpun og útflutning á íslenskri menningu.

Styðjum alla menningarstarfsemi: Framsókn vill setja aukinn kraft í stuðning við hönnun og arkítektúr. Einnig vill Framsókn að sviðslistastefna sé kláruð og hrint í framkvæmd ásamt því að framkvæmd tónlistarstefnu klárist.

Mannréttindi

Framsókn berst fyrir mannréttindum og virðingu fyrir einstaklingum og fjölskyldum. Flokkurinn hafnar hvers kyns mismunun, hvort sem hún er byggð á kynþætti, kynferði, trú, þjóðerni, kynhneigð eða öðrum þáttum.

Áherslur

Réttindi hinsegin fólks: Framsókn styður réttindabaráttu hinsegin fólks og leggur áherslu á að Ísland verði fremst í flokki þegar kemur að réttindum þeirra. Flokkurinn vill auka vægi hinsegin fræðslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi í samræmi við aldur og þroska. Framsókn vill að fræðsla um kynvitund, kynhneigð og mismunandi kyneinkenni verði hluti af foreldrafræðslu á heilsugæslustöðvum. Framsókn leggur áherslu á að orðalag laga og reglna sé uppfært með tilliti til kynhlutleysis og að tryggt sé aðgengi að kynhlutlausum búningsklefum við sundlaugar og íþróttahús.

Aðgengi að réttindum: Framsókn vill tryggja að allir hafi aðgang að grunnréttindum, svo sem menntun, heilbrigðisþjónustu og félagslegri aðstoð, óháð uppruna eða efnahag.

Inngilding og þátttaka fólks af erlendum uppruna: Framsókn vill virkja innflytjendur og flóttafólk til þátttöku í samfélaginu með því að viðurkenna og virða fjölbreytileikann. Flokkurinn leggur áherslu á að tryggja aðgang að fjölbreyttri íslenskukennslu og innleiða hvata til íslenskunáms, sem er aðgengilegt á vinnutíma án kostnaðar. Framsókn vill einnig efla samfélags- og lýðræðisfræðslu til að auka þátttöku innflytjenda í lýðræði og kosningum.

Móttaka og stuðningur við umsækjendur um alþjóðlega vernd: Framsókn vill bæta móttöku og þjónustu við umsækjendur um alþjóðlega vernd með auknu samráði við sveitarfélög til að dreifa álagi á innviði þeirra. Flokkurinn vill einnig auðvelda innflytjendum að fá menntun sína erlendis frá viðurkennda og styðja við raunfærnimat. Framsókn leggur áherslu á stuðning við börn af erlendum uppruna, með móðurmálskennslu og stuðning við leik- og grunnskóla. Markmiðið er að tryggja samræmda þjónustu og viðeigandi stuðning fyrir alla umsækjendur.

Mannréttindabarátta: Framsókn vill að Ísland verði áfram í fararbroddi í alþjóðlegri baráttu fyrir mannréttindum og jafnrétti og að þróunarsamvinna sé efld.

Jafnrétti: Flokkurinn leggur áherslu á að jafnrétti sé leiðarljós í öllum sínum störfum, með það að markmiði að koma í veg fyrir mismunun og tryggja að allir hafi jöfn réttindi.

Stjórnskipan

Sýn Framsóknar á stjórnskipan er að hún byggist á lýðræðislegum grunngildum og gagnsæi, með stjórnarskrá sem endurspeglar sameiginleg grunngildi þjóðarinnar. Flokkurinn vill tryggja sjálfstæði dómsvalda og skýrt hlutverk forseta Íslands sem öryggisventil, ásamt stuðningi við trú- og lífsskoðunarfélög.

Áherslur

Endurskoðun stjórnarskrárinnar: Framsókn telur að stjórnarskráin sé samfélagssáttmáli þeirra sem byggja Ísland og því mikilvægt að hún endurspegli sameiginleg grunngildi þjóðarinnar. Með því að endurskoða stjórnarskrána vill flokkurinn tryggja að hún sé í takt við nútímann. Framsókn vill að ferlið við endurskoðun stjórnarskrárinnar sé gagnsætt og byggt á skýru lýðræðislegu umboði, þar sem grunngildi þjóðarinnar séu í forgrunni.

Sjálfstæði dómsvalds: Framsókn leggur til að ítarlegri ákvæði um dómsvaldið verði fest í stjórnarskrá til að tryggja betur sjálfstæði dómsvalda.

Lýðræði og þingræði: Framsókn vill að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og að handhafar valdsins stjórni í umboði hennar. Flokkurinn vinnur að því að efla lýðræði, opna stjórnarhætti og tryggja að allir hafi rödd.

Alþjóðamál

Sýn Framsóknar á alþjóðamál er að tryggja hagsmuni Íslands og þjóðarinnar með áherslu á frið, jafnrétti og virðingu fyrir alþjóðalögum. Flokkurinn vill efla öryggis- og varnarmál í utanríkisstefnunni og stuðla að öflugu samstarfi við Norðurlöndin. Framsókn leggur einnig áherslu á að Ísland sé í fremstu röð í alþjóðlegri baráttu gegn skattaskjólum og að efnahags- og viðskiptalegir hagsmunir landsins séu tryggðir.

Áherslur

Öryggis- og varnarmál: Framsókn vill að Ísland haldi áfram að vinna að öryggis- og varnarmálum í samstarfi við alþjóðlegar stofnanir, svo sem NATO, til að tryggja öryggi landsins.

EES-samningurinn: Flokkurinn vill að Ísland haldi áfram að vera virkur þátttakandi í EESsamningnum, sem tryggir aðgang að innri markaði Evrópusambandsins og stuðlar að efnahagslegu samstarfi. Framsókn telur að innganga í ESB þjóni ekki hagsmunum landsins.

Alþjóðasamstarf: Framsókn vill að Ísland sé virkur þátttakandi í alþjóðasamfélaginu og að samstarf við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna, svo sem loftslagsbreytingar og mannréttindi, sé eflt.

Mennta- og barnamál

Leiðarljós Framsóknar í mennta- og barnamálum er að tryggja öllum börnum og ungmennum á Íslandi jöfn tækifæri til að vaxa og dafna í öruggu og styðjandi umhverfi. Sýn okkar byggist á þeirri sannfæringu að öflugur stuðningur við börn og fjölskyldur sé einhver farsælasta fjárfesting sem samfélagið getur gert.

Áherslur

Sterkur bakhjarl fyrir starfsstéttir sem vinna með börnum: Við leggjum áherslu á bætt kjör og starfsumhverfi fyrir allar starfsstéttir sem vinna með börnum, með sérstakri áherslu á kennara. Framsókn vill tryggja að þessar mikilvægu starfsstéttir búi við aðlaðandi vinnuumhverfi sem stuðlar að fjölgun fagfólks innan þeirra mikilvægu starfsstétta sem sinna börnum og ungmennum.

Jafnt aðgengi að menntun: Við viljum tryggja að menntun sé aðgengileg öllum börnum óháð búsetu, efnahag eða félagslegum aðstæðum, því jafnt aðgengi að menntun er grundvöllur jafnra tækifæra í samfélaginu.

Börn og velferð þeirra í algjörum forgangi: Framsókn hefur haft skýra forystu um að setja málefni barna á dagskrá í íslenskri stjórnmálaumræðu og markvisst unnið að fjölmörgum verkefnum í þágu þeirra.

Börn eiga ekki að bíða: Við leggjum áherslu á snemmtæk inngrip og fyrirbyggjandi aðgerðir sem tryggja börnum og fjölskyldum þjónustu við hæfi, þegar á þarf að halda. Framsókn vill innleiða þjónustutryggingu, þurfi barn að bíða lengur en tilgreindan tíma eftir úrræði greiðir ríkið fyrir sambærilega þjónustu hjá einkaaðila. Markmiðið er að útrýma biðlistum og tryggja nauðsynlega þjónustu án tafar.

Stórefling skólaþjónustu: Framsókn leggur áherslu á að efla stuðning við kennara og nemendur innan skólakerfisins. Flokkurinn vill stórauka framboð stuðningsúrræða sem standa börnum og kennurum til boða innan skólakerfisins, til að tryggja öllum börnum jöfn tækifæri til menntunar og árangurs.

Innleiðing matsferils: Framsókn ætlar að ljúka við innleiðingu Matsferils til að tryggja samræmdar mælingar á námsárangri í íslensku skólakerfi sem gefa okkur rauntímaupplýsingar um námsframvindu hvers barns.

Aukin fjárhagslegur stuðningur við fjölskyldur: Við viljum létta fjárhagslegar byrðar fjölskyldna með lengingu fæðingarorlofs, hækkun vaxta- og barnabóta og með því að festa gjaldfrjálsar skólamáltíðir í sessi. Fjölskyldur eiga rétt á raunverulegum stuðningi sem léttir undir með daglegu lífi og gerir þeim kleift að einbeita sér að því sem mestu máli skiptir.

Aukin fjárfesting í heilbrigðisþjónustu fyrir börn: Við viljum tryggja aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir börn, óháð búsetu og efnahag. Þetta felur meðal annars í sér að við viljum auka fjárfestingu í geðheilbrigðisþjónustu barna til að tryggja að öll börn hafi aðgang að lífsnauðsynlegri þjónustu.

Öflugt samstarf ríkis og sveitarfélaga: Við leggjum áherslu á samvinnu ríkis og sveitarfélaga með samhæfðri þjónustu sem stuðlar að heildrænni nálgun í mennta- og barnamálum og veitir börnum og fjölskyldum öruggan grunn fyrir framtíðina.

Orku-, umhverfis- og loftslagsmál

Sýn Framsóknar í orku-, umhverfis- og loftslagsmálum snýst um að tryggja sjálfbærni, orkuöryggi og verndun náttúruauðlinda.

Áherslur

Orkuskipti: Flokkurinn vill stuðla að orkuskiptum í samgöngum og atvinnulífi, með því að hvetja til notkunar á rafmagns- og vetnisbílum, auk þess að efla innviði fyrir hleðslu og dreifingu grænna orkugjafa.

Loftslagsmarkmið: Framsókn hefur metnaðarfull markmið um kolefnishlutlaust Ísland eigi síðar en árið 2040. Flokkurinn vill styðja við aðgerðir sem draga úr kolefnislosun og stuðla að sjálfbærni í öllum geirum samfélagsins.

Aukning endurnýjanlegrar orku: Framsókn leggur áherslu á að auka framleiðslu á endurnýjanlegri orku, svo sem vatns- og vindorku, til að tryggja orkuöryggi og draga úr innflutningi á jarðefnaeldsneyti.

Verndun náttúruauðlinda: Flokkurinn leggur áherslu á að vernda náttúruauðlindir landsins, þar á meðal loft, vatn og jarðveg og tryggja að nýting þeirra sé skynsamleg og sjálfbær.

Fræðsla og nýsköpun: Framsókn vill efla fræðslu um umhverfis- og loftslagsmál, auk þess að hvetja til nýsköpunar í grænni tækni og lausnum sem draga úr umhverfisáhrifum.

Hringrásarhagkerfið: Flokkurinn vill stuðla að hringrásarhagkerfi þar sem endurnýting og endurvinnsla auðlinda eru í forgrunni, til að draga úr sóun og auka nýtingu takmarkaðra auðlinda.

Samstarf við atvinnulífið: Framsókn hvetur til samstarfs við atvinnulífið um aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stuðla að sjálfbærni í framleiðsluferlum.

Aðgerðir gegn loftslagsbreytingum: Flokkurinn vill að Ísland taki virkan þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn loftslagsbreytingum og stuðli að samvinnu við aðrar þjóðir um lausnir á þessu mikilvæga sviði.

Efling innviða: Framsókn vill að innviðir, svo sem flutningskerfi fyrir orku, sé öflugt og aðgengilegt, til að tryggja að nýting innlendra, grænna orkugjafa sé hámörkuð.

Samfélagsleg ábyrgð: Flokkurinn leggur áherslu á að samfélagið hafi ábyrgð á umhverfinu og að allir, bæði einstaklingar og fyrirtæki, taki þátt í að vernda náttúruna og draga úr umhverfisáhrifum.