Categories
Fréttir

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar“

Deila grein

21/11/2025

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar“

„Við búum svo vel á Íslandi að flest börn hafa það gott,“ sagði Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, í sérstakri umræðu á Alþingi á Alþjóðadegi barnsins. Hún sagði þó alvarleg mein leynast undir yfirborðinu og nefndi sérstaklega vímuefnanotkun ungmenna, slæma stöðu drengja í námi, kynbundið ofbeldi og áhrif símanotkunar og samfélagsmiðla á börn.

Halla Hrund vísaði í nýlegt dæmi af tveimur 14 ára drengjum sem fóru í meðferð til Suður-Afríku vegna alvarlegs vímuefnavanda. Mæður drengjanna hafi lýst úrræðaleysi hér á landi og þurft að leita lausna erlendis á miklum kostnaði. Sagði hún óásættanlegt að foreldrar í slíkri stöðu standi ein uppi með reikninginn.

„Við verðum að láta fjármagn fylgja barni óháð því hvar meðferð fer fram. Við myndum ekki mismuna í öðrum veikindum,“ sagði hún og spurði mennta- og barnamálaráðherra hvort hann væri sammála því að tryggja að fjármunir fylgi börnum í meðferð vegna fíknivanda, líkt og í öðrum alvarlegum veikindum.

Alvarleg staða drengja í námi

Halla Hrund lagði mikla áherslu á stöðu drengja í skólakerfinu. Hún benti á að samkvæmt PISA-rannsókninni 2022 geti um 47% drengja ekki lesið sér til gagns við lok 10. bekkjar og að þriðjungur nái ekki grunnviðmiðum í stærðfræði og náttúruvísindum.

Hún spurði hvort bakgrunnur og félagslegar aðstæður nemenda hefðu verið greindar nægilega í tengslum við þessa þróun, meðal annars í ljósi aukins fjölda innflytjenda í skólakerfinu.

„Hér verðum við að kafa á dýptina svo við getum tekið góðar ákvarðanir og skilið hver er rót vandans.“

Halla Hrund spurði jafnframt hvort gripið hefði verið til sértækra aðgerða í kennaranámi og kennslu, í ljósi stöðunnar. Hún minnti á að brottfall drengja úr framhaldsskólum væri mest á Íslandi í Evrópu og að einungis um þriðjungur nýnema í háskóla væru drengir.

„Við getum ekki látið drengi verða undir í samfélaginu okkar.“

Kynbundið ofbeldi gegn börnum

Þriðji málaflokkurinn sem Halla Hrund nefndi var ofbeldi, einkum kynbundið ofbeldi gegn börnum og ungmennum. Hún vísaði í gögn Barnaheilla og niðurstöður íslenskrar æskulýðsrannsóknar frá 2024 sem sýna alvarlega stöðu.

Samkvæmt þeim gögnum segja um 700 börn í 8.-10. bekk að annar unglingur hafi átt við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra og um 250 börn að fullorðinn hafi haft við þau kynferðisleg samskipti gegn vilja þeirra. Samt sem áður komi aðeins hluti málanna til kasta lögreglu, þó hátt í tvö mál á viku séu tilkynnt.

Halla Hrund sagði þessar tölur sláandi og óskaði eftir því að ráðherra skýrði hvaða aðgerðir væru í gangi til að bregðast við kynbundnu ofbeldi gegn börnum.

Símanotkun, samfélagsmiðlar og markaðssetning að börnum

Halla Hrund sagði óhjákvæmilegt að ræða áhrif snjallsíma og samfélagsmiðla á degi barnsins, enda hafi áhrif þeirra á líðan og nám barna verið mikið til umræðu undanfarið. Of mikil notkun tengist m.a. kvíða, félagslegri einangrun og slakari námsárangri.

Hún sagði að lögð hefði verið fram þingsályktunartillögu um hækkun lágmarksaldurs fyrir samfélagsmiðla og skýrari skorður á markaðssetningu og auglýsingar sem beinast að börnum. Þá þyrfti að huga sérstaklega að ramma utan skólakerfisins, hvernig samfélagið í heild sinni passi upp á börn og ungmenni í stafrænu umhverfi.

Kallar eftir aðgerðum fyrir fötluð börn og börn með einhverfu

Halla Hrund minnti á að staða fatlaðra barna og barna með einhverfu þyrfti einnig að vera í forgangi. Hún sagði ekki nóg að ræða þessi mál ítrekað, koma yrði raunverulegum aðgerðum í framkvæmd og sameinast um þá forgangsröðun á Alþingi.

Hún lagði jafnframt áherslu á mikilvægi fyrstu áranna í lífi barna. Rannsóknir bendi til þess að meðganga og fyrstu 1.000 dagarnir hafi mikið að segja um það hvernig börnum vegni síðar á lífsleiðinni.

„Hverri krónu sem við fjárfestum í þessum málaflokki er vel varið,“ sagði Halla Hrund að lokum.

Categories
Fréttir

Tollar ESB og hagsmunagæsla Íslands: „Hvar var plan B?“

Deila grein

21/11/2025

Tollar ESB og hagsmunagæsla Íslands: „Hvar var plan B?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gerði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi að umtalsefni ákvörðun Evrópusambandsins um að setja verndartolla á járnblendi, meðal annars frá Íslandi, og varpaði fram hvort „þjóðir geti nýtt þennan varnagla í EES-samningnum og tekið til varna þegar áhrif innflutnings á innlenda framleiðslu þeirra eru óþarflega mikil“.

Hann gagnrýndi viðbrögð íslenskra stjórnvalda og spurði hvort ríkisstjórnin hefði nokkurn tímann verið með varaplan til að verja hagsmuni landsins. Ríkisstjórnin hefði virst gera sér vonir um að hægt yrði að snúa Evrópusambandinu af þeirri leið að setja verndartolla á járnblendi, en sú von hefði brugðist.

„Mig langar að eiga orðastað við hæstv. fjármálaráðherra, m.a. í ljósi þess sem gerðist hér fyrir nokkrum dögum er Evrópusambandið ákvað að setja verndartolla á járnblendi. Ríkisstjórnin virðist hafa haft þá trú að þau myndu geta snúið Evrópusambandsríkjunum. Ég spyr því þegar í ljós kemur að það tókst ekki: Var ekkert plan B? Hvernig hyggst ríkisstjórnin bregðast við núna?“

Sigurður Ingi rifjaði jafnframt upp að Ísland hefði gert sérstakan tollasamning við ESB um matvæli fyrir nokkrum árum, samning sem byggðist á forsendum sem hefðu gjörbreyst. Bretland hefði gengið úr Evrópusambandinu og tekið með sér sinn hluta samningsins, en ESB hafi ekki verið tilbúið til að endurskoða samninginn þrátt fyrir breyttar aðstæður.

Í ljósi þess, sagði hann, væri eðlilegt að spyrja hvort ekki væri tímabært að endurmeta stöðuna og nýta þann varnagli sem felist í EES-samningnum.

„Við höfum ekki getað nýtt okkur þær útflutningsheimildir sem fólust í þeim tollasamningi. Bretar gengu úr Evrópusambandinu og tóku með sér þann hluta. Evrópusambandið hefur hins vegar ekki verið tilbúið til að aðlaga samninginn að þessum breyttu forsendum. Það er líka ljóst að við getum augljóslega notað þau rök sem Evrópusambandið notar, að tollfrjáls innflutningur á matvælum frá Evrópusambandinu hafi umtalsverð áhrif á innlenda matvælaframleiðslu. Við þekkjum lífskjör sauðfjárbænda og alls konar aðra hluti,“ sagði hann.

Að mati Sigurðar Inga eru áhrif innflutnings á íslenska framleiðslu orðin slíkt að ekki sé lengur unnt að horfa fram hjá þeim.

Vill nota sama lagagrundvöll

Sigurður Ingi lagði áherslu á að Framsókn væri ekki að kalla eftir hefndaraðgerðum gagnvart ESB heldur eðlilegri hagsmunagæslu Íslands á sömu forsendum og Evrópusambandið gengi sjálft út frá.

„Nú var það ekki tillaga mín að við værum að svara í sömu mynt heldur værum við einfaldlega að nota sömu rök og Evrópusambandið notar, að það sé fullgilt og EES-samningurinn standi eftir sem áður og það sé bara eðlilegt að þjóðir geti nýtt þennan varnagla í EES-samningnum og tekið til varna þegar áhrif innflutnings á innlenda framleiðslu þeirra eru óþarflega mikil.“

Hann gagnrýndi jafnframt svör fjármálaráðherra og sagðist ekki sannfærður um að ráðherra hefði haft raunverulegt varaplan þegar fyrirséð var að aðgerðir ESB myndu ná fram að ganga.

„Við í Framsókn hyggjumst nú engu að síður, þó að viðbrögð ráðherrans séu frekar neikvæð og plan B hafi bara verið að reyna að fresta ákvörðun Evrópusambandsins nógu lengi – það plan B hljómar ekki mjög sannfærandi – leggja fram þingsályktunartillögu um þetta efni, að hækka tolla,“ sagði Sigurður Ingi.

Vill hækka tolla og lækka VSK til að verja heimilin

Sigurður Ingi sagði að annars vegar þyrfti að verja innlenda matvælaframleiðslu með hærri tollum, en hins vegar að vernda heimilin fyrir mögulegri verðhækkun með því að lækka tímabundið virðisaukaskatt á matvæli.

„Samhliða því, vegna þess að ég veit að fjármálaráðherra vill ná niður verðbólgunni, gæti auðvitað verið skynsamlegt að boða á sama tíma tímabundna lækkun á virðisaukaskatti á matvælum til að koma til móts við þá hækkun sem hugsanlega gæti orðið vegna hækkunar á tollum og þannig slá tvær flugur í einu höggi, koma til móts við tekjulág heimili og koma með alvörusleggju á verðbólguna. Bara gera eins og Svíar gerðu, tímabundna lækkun á virðisaukaskatti,“ sagði hann.

Categories
Fréttir Greinar

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Deila grein

21/11/2025

Sterk ferða­þjónusta skapar sterkara sam­félag

Ferðaþjónustan á Norðurlandi stendur á tímamótum. Aldrei áður hafa tækifærin verið jafn augljós og raunhæf. Ný hótel rísa, fjölbreytt afþreying vex, og heilsársferðaþjónusta er orðin að veruleika. Staðan er gjörbreytt frá því fyrir aðeins nokkrum árum síðan.

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur þegar opnað dyr að nýjum tækifærum og auknum lífsgæðum fyrir íbúa og atvinnulíf á svæðinu. Nú er kominn tími til að tryggja að þessi þróun haldi áfram og nái einnig til Egilsstaða.

Það er brýnt að stjórnvöld tryggi að beint flug til Akureyrar verði sjálfbært og Egilsstaðir fylgi hratt á eftir. Flugþróunarsjóður, sem hefur styrkt flugfélög og ferðaþjónustuaðila til að taka áhættu og hefja beint flug til Norðurlands, hefur sýnt gildi sitt. En sjóðurinn þarf að fá aukinn slagkraft til að fylgja þessu flugi eftir og fjármagna aukna markaðssetningu á Egilsstöðum sem áfangastað.

Beint flug – beint í betri lífsgæði

Beint millilandaflug til Akureyrar hefur breytt miklu fyrir svæðið. Nú er hægt að ferðast án þess að leggja í langan og kostnaðarsaman legg til Keflavíkur. Með millilandafluginu er svæðið orðið aðgengilegra fyrir ferðamenn, en ekki síður hefur það aukið lífsgæði heimamanna. Það sparar tíma, eykur öryggi, og styrkir fyrirtæki á öllum sviðum. Þess vegna er mikilvægt að tryggja áframhaldandi stuðning við millilandaflug til Akureyrar því slík fjárfesting eru fjárfesting í framtíðinni.

Þúsundir starfa

Ferðaþjónustan hefur á örfáum árum orðið einn af hornsteinum íslensks efnahagslífs. Hún hefur skapað þúsundir starfa, aukið tekjur heimila og veitt landsbyggðinni ný og öflugri tækifæri.

Árið 2023 námu gjaldeyristekjur greinarinnar um 600 milljörðum króna og skatttekjur ríkis og sveitarfélaga námu 200 milljörðum króna. Þetta eru tölur sem skipta máli fyrir alla landsmenn því velgengni ferðaþjónustunnar er velgengni samfélagsins í heild.

Sem þingmaður Norðausturkjördæmis sé ég daglega hve jákvæð áhrif öflug ferðaþjónusta hefur á líf fólks. Hún gefur ungu fólki tækifæri til að byggja framtíð sína heima, styrkir atvinnulífið og heldur samfélögum lifandi.

Fjárfestum í innviðum

Ný flugstöð á Akureyri, stærra flughlað og nýr aðflugsbúnaður eru dæmi um fjárfestingar sem efla ekki aðeins ferðaþjónustu heldur allt samfélagið.

Svo er rétt að hafa í huga niðurstöður áhugaverðrar skýrslu Jóns Þorvalds Heiðarssonar hagfræðings um áhrif beins millilandaflugs til Akureyrar. Skýrslan sýnir svart á hvítu að flug EasyJet til Akureyrar frá bæði London og nú Manchester var ekki fjarlægur draumur heldur arðbært fyrir samfélagið allt. Það sýnir hversu mikill kraftur býr í landsbyggðinni ef tækifærin eru nýtt.

Kraftur landsbyggðarinnar

Fyrir stuttu síðan fór fram VestNorden sýningin á Akureyri, þar sem um 550 aðilar úr ferðaþjónustu á Íslandi, Grænlandi og Færeyjum komu saman til að skapa ný tækifæri og tengsl.

Þar sýndi Norðurland að landsbyggðin getur verið miðpunktur alþjóðlegrar ferðaþjónustu og uppbyggingar. Með góðri skipulagningu, sterkum innviðum og samstilltu átaki fjölda fólks er allt hægt. VestNorden var ekki eingöngu ráðstefna. Hún fól í sér tákn um bjartsýni og mikilvægi samstarfs til að bæta hag landsbyggðarinnar og kom okkur þingmönnunum sem mættum skemmtilega á óvart.

Ferðaþjónustan er auka egg í körfu landsbyggðanna

Ferðaþjónustan er ekki bara atvinnugrein. Hún er lífæð margra samfélaga og lykillinn að framtíð landsbyggðarinnar. Þegar ferðamenn dreifast um landið skapast meira jafnvægi: ný störf, fjölbreytt atvinnulíf og tækifæri fyrir ungt fólk til að setjast að í heimabyggð.

Til þess þarf að huga að innviðum s.s. vegum, flugvöllum, orkuframboði, stafrænni þjónustu og menntun með framtíðarsýn að leiðarljósi. Þannig byggjum við upp sjálfbæra ferðaþjónustu sem eykur lífsgæði og dregur úr ósjálfbærri miðstýringu.

Fyrir framtíðina

Framsókn hefur ávallt staðið vörð um jafnvægi og jöfn tækifæri um land allt.

Öflug ferðaþjónusta á landsbyggðinni er ekki aðeins stefnumál heldur er hún grundvallarmál fyrir fólkið í landinu bæði með tilliti til atvinnu, lífsgæða og öryggis.

Þó blikur séu á lofti í pólitísku andrúmslofti þessa dagana, munum við í Framsókn standa vörð um þá framtíðarsýn. Við viljum land þar sem lífsgæði, tækifæri og von dreifast jafnt, þar er ferðaþjónustan brú milli fólks, byggða og framtíðar.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 21. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Deila grein

21/11/2025

Fjárhagsáætlun Árborgar og barnafjölskyldur

Fæðingarorlof er í heildina 12 mánuðir, eftir það á leikskólinn að taka við en víðast er lengri bið eftir leikskólaplássi. Ég og mín fjölskylda erum heppin og með frábært bakland, við eigum 14 mánaða gutta og ömmur og afar sjá um drenginn fyrir okkur þegar við þurfum að vinna upp í útgjöld heimilisins. Það eru ekki allir svo heppnir, ég veit að það er fullt af fólki sem hefur ekki öflugt bakland. Foreldrar sem sinna börnum sínum og komast ekki til vinnu á meðan, búnir með sinn rétt til fæðingarorlofs (þar sem fólk er að fá töluvert skert laun) og er því oft annar aðilinn launalaus í heilt ár, ef ekki lengur.

Þegar maður skoðar sveitarfélög út frá barnafjölskyldum er áhugavert að bera Árborg saman við nágrannasveitarfélögin í Árnessýslu. Oft hafa sveitarfélög auglýst sig sem barnvæn samfélög, það er þó gríðarlegur munur á milli sveitarfélaga. Ætli sér einhver að byggja sér heimili eru byggingarréttar- og gatnagerðargjöld í Árborg einhver þau hæstu sem þekkjast á Suðurlandi. Sem dæmi er einbýlishúsalóð í Móstekk með heimild til byggingar rúmlega 290fm hús að kosta um 13,7 m.kr. í gatnagerðargjöld og 10,7 m.kr. í byggingarréttargjald. Samtals rúmar 24 m.kr. áður en fyrsta skóflustunga er tekin. Í Skeiða- og Gnúpverjahreppi er einbýlishúsalóð í Brautarholti með heimild til byggingar 250fm hús að kosta um 7 m.kr. í heildina og önnur sveitarfélög Uppsveita virðast vera með svipað verðlag. Í Hveragerði eru lóðir sem heimila um 550 fm byggingu á rúmar 27 m.kr., sem er sambærilegt verð en fyrir tæplega tvöfalt stærri lóð.

Þetta skilar sér inn í fasteignaverð, sem er hærra í Árborg, þá sérstaklega á Selfossi, en annars staðar í sýslunni. Þegar einstaklingur hefur byggt eða fest kaup á húsi þarf hann að greiða fasteignagjöld sem eru einnig hærri í Árborg en í nágrannasveitarfélögum og raunar með þeim hæstu á landinu, eins og sjá má á mælaborði Byggðastofnunar.

Svo bætist við að börn fá leikskólapláss seinna í Árborg en víða annars staðar. Jafnvel er mismunað eftir fæðingarmánuði, barn fætt snemma á árinu er líklegra til að fá pláss við 16 mánaða aldur, en barn fætt seint á árinu gæti þurft að bíða fram yfir 24 mánaða aldur. Sem betur fer á ég von á næsta barni í mars sem er prýðis mánuður ef horft er til inntöku í leikskóla. Mörg sveitarfélög brúa þetta bil með heimgreiðslum til foreldra, sem gæti verið raunhæf lausn fyrir Árborg, lausn sem er ekki svo dýr en getur skipt miklu máli fyrir þá sem þurfa á að halda. Þar að auki eru leikskólagjöldin hærri í Árborg en annars staðar í sýslunni. Ég gæti haldið áfram og nefnt æfingagjöld, gjöld fyrir tómstundir og önnur gjöld sem snerta barnafjölskyldur.

Ég er ekki að segja að allt sé ómögulegt, flest sem tengist barnafjölskyldum er gert af miklum glæsibrag í Árborg. Við höfum glæsilega leik- og grunnskóla, fjölbreytt framboð íþrótta og tómstunda og frístundastarfið er í hæsta gæðaflokki, eitthvað fyrir alla! En við getum alltaf gert betur og ég er að benda á það sem mér og öðrum finnst að mætti betur fara. Barnvænt samfélag snýr bæði að því sem er í boði, aðgengi að þeirri þjónustu og kostnaði.

Fjárhagsáætlunin er í sjálfu sér góð, það er ekki hægt að óska eftir öllu fyrir alla þegar horfa þarf til aðhalds og hagræðingar hjá sveitarfélaginu. Verið er að vinna upp skuldir og bæta rekstur. Sum gjöld lækka hlutfallslega, fasteignagjöld eru að lækka, þ.e.a.s. hlutfallslega, það skilar sér í lækkun eða hækkun eftir því hvar í sveitarfélaginu þú býrð sökum hækkandi fasteignamats. Heilt yfir er um ábyrgan rekstur að ræða og því ber að hrósa kjörnum fulltrúum og starfsmönnum sveitarfélagsins fyrir vel unnin störf. Sérstaklega ber að þakka íbúum, þeir hafa tekið hvað mest á sig fjárhagslega á síðastliðnum árum. Það eru fyrst og fremst skattahækkanir sem eru að skila bættum rekstri ásamt uppsögnum og hagræðingu. Fjárfesta á fyrir 2-3 milljarða á ári sem er vel, mér sýnist hins vegar fjárfestingar næstu ára snúa að því að mæta núverandi þörf. Á sama tíma horfum við á áframhaldandi fjölgun íbúa í sveitarfélaginu. Því velti ég fyrir mér hvort við gætum aftur lent í innviðaskuld, við vitum hvernig það endaði síðast. Þetta eru þó aðeins vangaveltur eftir stutta yfirferð síðastliðna daga.

Þetta er umfjöllun um afmarkaðan hóp íbúa í sveitarfélaginu, en þetta eru allt saman hlutir sem skipta máli. Það þarf sömuleiðis að ræða þátt ríkisins þegar kemur að barnafjölskyldum, þar er ýmislegt sem má bæta, t.d. fæðingarorlofskerfið. Þó engan bilbug á mér sé að finna í barneignum þá kemur mér ekki á óvart að fæðingartíðni sé lág á Íslandi.

Matthías Bjarnason, varabæjarfulltrúi Framsóknar í Árborg.

Greinin birtist fyrst á sunnlenska.is 20. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Þurfum skýra forystu um innleiðingu orkulöggjafar ESB

Deila grein

20/11/2025

Þurfum skýra forystu um innleiðingu orkulöggjafar ESB

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, fjallaði í störfum þingsins um innleiðingu orkulöggjafar Evrópusambandsins og mögulegar afleiðingar hennar fyrir orkuöryggi heimila og atvinnulífs. Hún sagði lykilhagsmuni Íslendinga í húfi og kallaði eftir skýrri pólitískri forystu í málinu.

Halla Hrund vísaði meðal annars til umræðu á haustfundi Landsvirkjunar þar sem spurt hafi verið hvort fyrirtækinu sé heimilt að halda eftir orku fyrir heimili ef aðrir aðilar, til dæmis aðilar í rafmyntagröftum, séu tilbúnir að greiða hærra verð.

„Í huga okkar flestra er svarið við þessari spurningu vonandi já,“ sagði hún, en benti á að ekki væri skýrt kveðið á um slíkt í lögum eftir innleiðingu orkupakka Evrópusambandsins.

Halla Hrund minnti á að sögulega hefði orkumarkaður á Íslandi verið tvískiptur; annars vegar heimili og fyrirtæki landsins og hins vegar stóriðja. Sú nálgun hafi tryggt öfluga umgjörð raforkumála og fyrirsjáanleika fyrir bæði almenning og stórnotendur. Að hennar mati grefur innleiðing orkupakka, með áherslu á „fullkomið markaðsfyrirkomulag“, undan þessari stöðu.

Halla Hrund sagði að óvissa um framtíarfyrirkomulag orkumarkaðar snerti bæði heimili og iðnað sem reiði sig á langtímasamninga og stöðugleika, en ekki sveiflukenndan orkumarkað. „Það er lykilhagsmunamál, bæði fyrir almenning í landinu og fyrir samkeppnishæfni iðnaðar,“ sagði hún.

Hún gagnrýndi einnig ábendingar Samkeppniseftirlitsins um að stóriðja geti selt ónýtta orku aftur inn á kerfið. Að óbreyttu gæti slík breyting, að hennar mati, hvatt fyrirtæki til að draga úr framleiðslu og verða fremur raforkusalar á samningstíma. Hún spurði hvort það væri raunverulega stefna sem stjórnmálamenn vildu sjá, sérstaklega í ljósi hagvaxtarspár Seðlabanka Íslands sem kynnt var í dag og gerir aðeins ráð fyrir 0,9% hagvexti á árinu.

„Hér verður pólitík að skilja hvað það þýðir, hvað slík breyting þýðir ef hún er ekki hugsuð vandlega. Hún getur hvatt til þess að fyrirtæki dragi úr framleiðslu en gerist heldur raforkusalar á samningstíma. Er slíkt ráðlegt? Er það eitthvað sem við viljum sjá raungerast? Er það ráðlegt í samhengi við hagvaxtarspá Seðlabankans sem birt var í dag? Þar hefur hagvaxtarspáin fallið niður í 0,9% á þessu ári.“

„Það þarf skýra pólitíska forystu um það hvernig við innleiðum orkumarkaðslöggjöf Evrópusambandsins,“ sagði Halla Hrund að lokum og tók fram að um væri að ræða grunnstoðir íslensks efnahagslífs og orkuöryggi almennings.

Categories
Fréttir

„Nú reynir á samstöðu þjóðarinnar“

Deila grein

19/11/2025

„Nú reynir á samstöðu þjóðarinnar“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, fór yfir í störfum þingsins ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að veita Íslandi og Noregi ekki undanþágu frá fyrirhuguðum verndaraðgerðum á innflutning kísiljárns og annarra kísilblanda. Hvatti hann til breiðrar samstöðu um næstu skref.

„Nú reynir á samstöðu þjóðarinnar. Það reynir á samstöðu okkar hér inni sömuleiðis,“ sagði Þórarinn Ingi og lagði áherslu á að hagsmunir þjóðarinnar væru í húfi. Þjóðin verði nú að „spyrna við fótum því að það gengur ekki að láta koma svona fram við sig“.

Þórarinn Ingi tók skýrt fram að EES-samningurinn væri íslensku þjóðinni afar mikilvægur, bæði fyrir vöxt og þróun atvinnulífs, og að það væri ekki raunhæfur kostur að „hlaupa til baka“ úr þeim samningi.

Hann sagðist þó telja að ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar marki ákveðin tímamót í samskiptum Íslands og Evrópusambandsins. Að hans mati verði Íslendingar nú að „horfa á hlutina eins og þeir eru“ og gera skýrt að það gangi ekki upp til lengdar að EES-ríki séu sett undir almennar verndaraðgerðir án þess að tekið sé sérstakt tillit til þeirra stöðu.

Spyr hvort endurmeta eigi innleiðingu EES-reglna

Í ræðu sinni tók Þórarinn Ingi undir vangaveltur hvort Ísland ætti að bregðast við með því að endurmeta afstöðu sína til innleiðingar EES-gerða á næstu misserum.

„Eigum við að velta fyrir okkur öllum þeim innleiðingum sem liggja á borðinu fyrir framan okkur? Eigum við aðeins að hægja á?“ spurði Þórarinn Ingi og nefndi sérstaklega bókun 35 við EES-samninginn og ETS-kerfið (viðskiptakerfi Evrópusambandsins með losunarheimildir) sem dæmi um mál sem mætti skoða sérstaklega í ljósi stöðunnar.

„Leiknum er ekki lokið“

Þrátt fyrir að Ísland og Noregur hafi orðið undir í þessari „lotu“ sagði hann að „leiknum væri ekki lokið“.

„Við verðum öll í þessu að velta öllum steinum við og umfram allt verðum við að standa saman í því að verja hagsmuni þjóðarinnar. Það er númer eitt, tvö og þrjú,“ sagði Þórarinn Ingi að lokum og hvatti þingheim til að sýna einhug í málinu, þvert á flokkslínur.

Categories
Fréttir

„Án sjálfboðaliða gengur dæmið ekki upp“

Deila grein

18/11/2025

„Án sjálfboðaliða gengur dæmið ekki upp“

Skúli Bragi Geirdal, varaþingmaður, ræddi í störfum þingsins það sem hann kallar alvarlega stöðu íþróttastarfs um allt land. Hann segir íþróttahreyfinguna standa á öxlum sjálfboðaliða sem nú verði sífellt oftar persónulega ábyrgir ef mistök verði í rekstri félaganna, með þeim afleiðingum að færri þori að taka þátt í stjórnarstörfum.

„Íþróttahreyfingin byggir á sjálfboðaliðum sem leggja til ólaunað starf til samfélagsins,“ sagði Skúli Bragi og benti á að þróunin í átt að persónulegri ábyrgð stjórnarliða skapaði mikla óvissu. „Hættan er að slíkt geti dregið úr vilja fólks til að taka að sér stjórnarstörf og gefa af sér til samfélagsins. Þessa óvissu þarf að leysa því að án sjálfboðaliða gengur dæmið ekki upp.“

Hækkandi æfingagjöld veikja jafnt aðgengi

Auk þess fjallaði Skúli Bragi um aukinn fjárhagslegan þrýsting á íþróttafélög landsins. Verðbólga, hærri launakostnaður, húsnæðisgjöld og annar rekstrarkostnaður hafi knúið mörg félög til að hækka æfingagjöld.

„Fyrir efnaminni fjölskyldur getur þetta skapað raunverulega hindrun sem veldur því að börn hafa ekki jafnt aðgengi að skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi,“ sagði hann og nefndi slíkt vera hindrun að „einhverri öflugustu forvörn sem völ er á“.

Skúli Bragi lagði áherslu á að íþróttir væru ekki aukaatriði í samfélaginu heldur lykilþáttur í lýðheilsu, forvörnum og byggðamálum.

Misrétti eftir búsetu, ferðakostnaður og svæðisstöðvar í hættu

Þá benti hann á að íþróttafélög og foreldrar á landsbyggðinni stæðu frammi fyrir síhækkandi ferðakostnaði vegna keppnisferða og æfinga. Ferða- og jöfnunarsjóður ÍSÍ næði ekki lengur utan um þennan kostnað.

„Sjóðinn þarf að efla,“ sagði Skúli Bragi og varaði við því að í óbreyttu ástandi væri um raunverulegt misrétti að ræða í aðgengi barna að íþróttastarfi eftir búsetu.

Skúli Bragi hvatti einnig til þess að hugað yrði betur að framtíð svæðisstöðva UMFÍ og ÍSÍ sem tengja saman og styðja við íþróttahéruð landsins, efla þátttöku og jafna aðgengi. UMFÍ hafi þegar gripið til aðgerða með því að „senda líflínu“ til lítilla íþróttahéraða í fjárþröng, eins og hann orðaði það, sem sé til marks um alvarlega stöðuna.

Kallar eftir pólitískum vilja

Í lok ræðu sinnar ítrekaði Skúli Bragi að bregðast yrði við með markvissum aðgerðum.

„Íþróttir eru ekki aukaatriði, þær eru lýðheilsumál, forvörn og byggðamál,“ sagði hann og lagði áherslu á að tryggja þyrfti stöðu sjálfboðaliða, framtíð svæðisstöðva og styrkingu ferðajöfnunarsjóðs ÍSÍ „til að tryggja jafnt aðgengi barna um allt land“.

Categories
Fréttir Greinar

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Deila grein

18/11/2025

Að gefnu til­efni – Upp­lýsingar um Fjarðarheiðargöng

Fjarðarheiðargöng eru eitt af mikilvægustu samgönguverkefnum á Austurlandi. Öryggi vegfarenda er ein helsta ástæða framkvæmdarinnar ásamt því að tryggja aðgengi að mikilvægri heilbrigðisþjónustu allan ársins hring. Með tilkomu ganganna verður tryggð örugg og greið leið milli Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs allan ársins hring, áreiðanleg, örugg og nauðsynleg samgönguleið innan sveitarfélagsins og til Evrópu. Samgöngubætur af þessari stærðargráðu hafa einnig bein áhrif á byggðaþróun og atvinnulíf, eykur möguleika íbúa til atvinnu og menntunar, styrkir ferðaþjónustu og skapar traustari forsendur fyrir framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Göngin verða þannig mikilvæg stoð í að efla búsetu og efnahagslíf á Austurlandi öllu.

Hringtenging Austurlands

Fjarðarheiðargöng eru fyrsti áfangi í hringtengingu Austurlands, jarðgangatenging sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi hefur kallað árum saman og frá árinu 2013 hafa bókanir SSA verið skýrar og samhljóða um að næstu göng á Austurlandi skuli verða Fjarðarheiðargöng. Það er svo með staðfestingu Svæðisskipulags Austurlands í byrjun þessa kjörtímabils sem vilji allra sveitarstjórna á Austurlandi er enn frekar staðfestur.

Ígrunduð ákvörðun

Árið 2011 kom út skýrslan „Fjarðarheiðargöng – Athugun á hugsanlegum munnasvæðum og fleiri þáttum“ sem unnin fyrir Vegagerðina. Í skýrslunni kemur fram að hugmyndir hafi áður verið uppi um jarðgöng frá Héraði niður í Mjóafjörð. Þau voru þó ekki talin raunhæfur valkostur í samanburði við Fjarðarheiðargöng sökum þess að slík göng myndu ekki tengja Seyðisfjörð. Afstaðan var því sú að jarðgöng til Mjóafjarðar voru skoðuð sem hugmynd, en felld úr frekari athugun vegna lítillar umferðar og skorts á tengingu við lykilhafnir og samgöngur. Í skýrslunni er fjallað um nokkra möguleika gangna en niðurstaðan er að jarðgöng undir Fjarðarheiði milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða séu besti kosturinn.

Það var síðan árið 2017 sem þáverandi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skipaði verkefnishóp um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng og var í framhaldinu gefin út skýrslan „Seyðisfjarðargöng – Valkostir og áhrif á Austurlandi“. Markmið verkefnisins var að undirbúa ákvörðun um samgöngubót sem best væri til þess fallin að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu. Fram kemur í ályktun og niðurstöðu hópsins:

Það er mat verkefnishópsins að með hliðsjón af ávinningi samfélagsins og atvinnulífsins á Seyðisfirði og Austurlandi í heild sé vænlegast að fylgja áliti Alþingis, Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi og þorra íbúa og fulltrúa atvinnulífs og samfélags á svæðinu og rjúfa einangrun Seyðisfjarðar með jarðgöngum undir Fjarðarheiði sem fyrsta áfanga og styrkja samfélagið á Austurlandi öllu með göngum milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar í síðari áfanga. Hópurinn leggur mikla áherslu á að ákvörðun um samgöngubætur með hringtengingu liggi fyrir eins fljótt og auðið er og að ráðist verði í framkvæmdir sem fyrst til að jákvæð áhrif á þróun byggðar og atvinnulífs skili sér ekki of seint.

Alþingi hefur margsinnis samþykkt framkvæmd Fjarðarheiðarganga

Í samgönguáætlun 2011-2022 sem samþykkt var á Alþingi 19. júní 2012 kom þetta fram:

Jarðgangaáætlun: Miðað verði við að rannsóknum og undirbúningi Seyðisfjarðarganga verði hagað með þeim hætti að hægt verði að hefja framkvæmdir við jarðgöng undir Fjarðarheiði í kjölfar Norðfjarðarganga og Dýrafjarðarganga.

Gildandi samgönguáætlun 2020-2034 segir til um að í framhaldi af Fjarðaheiðargöngum eigi að fara í göng frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar (Seyðisfjarðargöng) og þaðan yfir á Norðfjörð (Mjóafjarðargöng). Svokölluð hringtenging Austurlands. Hringtenging Austurlands er umfjöllunarefni meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis árið 2020 en þá kom fram í áliti þeirra:

Eina verkefnið í áætluninni eru jarðgöng á Austurlandi. Meiri hlutinn leggur áherslu á að jarðgangagerð á Austurlandi skilar ekki fullum ávinningi nema verkefnið verði unnið sem samfelld heild sem skilar hringtengingu vega í landshlutanum. Því þarf seinni áfanginn, göng milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar, að fylgja í kjölfar Fjarðarheiðarganga. Raunar gæti vinna við göngin milli Seyðisfjarðar og Norðfjarðar hafist áður en vinnu við Fjarðarheiðargöng er að fullu lokið. Meiri hlutinn leggur því áherslu á að rannsóknum og undirbúningi við hringtenginguna ljúki sem fyrst svo að hægt verði að hefja framkvæmdir um leið og fjármagn er fyrir hendi.

Engin önnur leið um Fjarðarheiði

Á heimasíðu Vegagerðarinnar kemur fram að núverandi Seyðisfjarðarvegur uppfyllir ekki öryggiskröfur Vegagerðarinnar um breidd og hámarkshalla stofnvegar. Vegna bratta og tíðra lokana að vetrarlagi kemur ekki til greina að endurbyggja núverandi veg um Fjarðarheiði.

Fjarðarheiðargöng eru fullhönnuð af hálfu Vegagerðarinnar og hefur Múlaþing staðfest breytingar á skipulagi í samræmi við hönnun. Göngin eru fullhönnuð og hefur þegar um 600 milljónum verið varið í þá vinnu.

Rjúfum kyrrstöðuna

Kæri samgönguráðherra Eyjólfur Ármansson, ég skora á þig að rjúfa stopp í jarðganga gerð og bjóða út Fjarðarheiðargöng, þau eru einu jarðgöngin sem hægt er að hefja vinnu við á þessu kjörtímabili. Kæra ríkisstjórn, ég krefst þess að þið standið við stóru orðin, loforð sem meðal annars forsætisráðherra hafði uppi í kosningaþætti RÚV.

Af stað með göngin!

Jónína Brynjólfsdóttir, formaður heimastjórnar Seyðisfjarðar og forseti sveitarstjórnar Múlaþings.

Greinin birtist fyrst á visir.is 18. nóvember 2025.

Categories
Fréttir Greinar

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Deila grein

18/11/2025

AGS hvetur til breytinga í Evrópu

Yfirmaður Evrópudeildar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, Alfred Kammer, hélt upplýsandi fyrirlestur hjá Evrópska seðlabankanum hinn 4. nóvember sl. og bar hann heitið: „Hvernig getur Evrópa borgað fyrir hluti sem hún hefur ekki efni á?“ Ljóst er að fyrirsögnin er sláandi og ekki sett fram í pólitískum tilgangi, heldur eru staðreyndir kynntar til leiks ásamt því að koma með tillögur að umbótum.

Miklar breytingar hafa átt sér stað á heimshagkerfinu á þessu ári. Evrópa hefur staðið í ströngu og þurft að glíma við heimsfaraldur, innrás Rússa í Úkraínu og versnandi horfur í heimsbúskapnum. Að mörgu leyti hefur Evrópa undangengin ár staðið af sér verstu efnahagsskellina, hins vegar er nú ljóst að horfur til lengri tíma eru þungar þar sem gert er ráð fyrir litlum hagvexti. Ástæðurnar eru margar: flókið regluverk innri markaðarins, hækkandi orkuverð, stöðnun í framleiðni og versnandi samkeppnishæfni.

Heildarskuldir Evrópuríkja árið 2040 gætu að meðaltali náð 130% af landsframleiðslu, allt yfir 90% skuldir er talið ósjálfbært til lengri tíma. Til að snúa þessari þróun við þyrftu ýmis ríki að hagræða í rekstri sínum um 1% af landsframleiðslu í fimm ár! Til samanburðar við Ísland þá væru þetta rúmir 50 ma.kr. eða um 3% af heildarútgjöldum ríkissjóðsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir Evrópu og líka Ísland. Utanríkisviðskipti við Evrópu skipta okkur miklu máli og að innri markaðurinn sé sterkur. Fram kemur í erindi Kammers að ef ekkert verði gert séu skuldir sumra ríkja ósjálfbærar og að velferðarkerfi margra ríkja sé í hættu. Lausnin að hans mati liggur ekki aðeins í hagræðingu hjá hinu opinbera heldur fremur í að efla hagvöxt. Með hóflegum en markvissum umbótum, líkt og einföldun regluverks, meiri samruna innri markaðarins og auknum sameiginlegum fjárfestingum ásamt umbótum á lífeyriskerfum, gætu mörg Evrópuríki komist á beinu brautina. Skilaboð Kammers eru skýr. Það eru engar skyndilausnir og ráðast verður í verulegar kerfisbreytingar sem stuðla að auknum hagvexti.

Þessi þróun hefur farið fram hjá ríkisstjórn Íslands og hún eyðir miklum tíma í frekari aðlögun að Evrópusambandinu. Vegna þessarar forgangsröðunar hefur efnahagsstjórnin verið ómarkviss. Ríkisstjórnin hefur ekki lagst á árarnar með Seðlabanka Íslands í að lækka verðbólguna. Aðhaldsstig ríkisfjármálanna lækkaði verulega í fjárlagafrumvarpinu 2026 frá fyrri ríkisstjórn. Ef ríkisstjórnin hefði haldið sig við fjárlögin 2025 þá væri ríkissjóður að skila afgangi. Í staðinn var allur tekjuaukinn, eða um 80 ma.kr., settur út í hagkerfið. Byrjum á því að ráðast í breytingar hér heima og náum tökum á verðbólgu og vöxtum, sem skiptir mestu máli fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. nóvember 2025.

Categories
Fréttir

Vill hækka aldurstakmark á samfélagsmiðlum og herða reglur um markaðssetningu á börn

Deila grein

17/11/2025

Vill hækka aldurstakmark á samfélagsmiðlum og herða reglur um markaðssetningu á börn

Skúli Bragi Geirdal, varaþingmaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um samfélagsmiðla, börn og ungmenni á Alþingi, sem jafnframt var jómfrúarræða þingmannsins. Skúli Bragi sagði íslensk stjórnvöld vera að bregðast skyldu sinni til að verja börn gegn skaðlegu efni á netinu og samfélagsmiðlum. Hann benti á að í lögum væri að finna ítarleg ákvæði um vernd barna í hefðbundnum fjölmiðlum, meðal annars gegn klámi og tilefnislausu ofbeldi, en á samfélagsmiðlum væri í raun „svo til frítt spil gefið“. Boðaði Skúli Bragi tvíþætta þingsályktunartillögu um hertar reglur.

Skúli Bragi vísaði til rannsókna sem sýna að meirihluti stúlkna á unglingastigi hafi séð efni um hættulegar aðferðir til að grenna sig með lystarstoli og búlemíu og að um þriðjungur barna á unglingastigi hafi rekist á umræður um sjálfsskaða. Þá nefndi hann vaxandi umfang hatursorðræðu, neteineltis og versnandi geðheilsu ungmenna.

„Ógn steðjar að lýðheilsu barna og ungmenna og það er okkar að bregðast við,“ sagði hann og minnti á að á sama tíma og fréttir berast af ungri íslenskri stúlku í klóm alþjóðlegs glæpahóps, sem hvatti til sjálfsskaða og ofbeldis, hafi ábendingarlína fyrir börn legið niðri vegna fjárskorts. Áður hafi þar borist árlega 200-300 ábendingar, þar af hátt hlutfall sem varðaði staðfest kynferðisofbeldi gegn börnum. Slíkt úrræðaleysi væri „óviðunandi“.

„Börn okkar eru ekki söluvara“

Skúli Bragi sagði að það væri ekki nóg að setja traust sitt á vitundarvakningu og fræðslu, þótt það hefði borið árangur meðal yngstu barnanna. Hlutfall 9-12 ára barna á TikTok og Snapchat hefði lækkað verulega frá árinu 2021, en sama þróun sæist ekki hjá 14-16 ára unglingum.

Hann benti á að lágmarksaldur á samfélagsmiðlum væri almennt 13 ár og byggði á persónuverndarlögum, á meðan kvikmyndir, sjónvarpsefni og tölvuleikir væru aldursmerktir í sjö flokka upp í 18 ára út frá mögulegri skaðsemi og áhrifum á hegðun og þroska. Í þessu fælist „óþolandi og hrópandi ósamræmi“.

Að hans mati skapa rangar aldursviðmiðanir samfélagsmiðla mikinn félagslegan þrýsting á foreldra sem vilji standa sig. „Þegar 13 ára aldri hefur verið náð er hætta á að vel meinandi og ábyrgir foreldrar missi tökin út af óbærilegum félagsþrýstingi,“ sagði hann og bætti við að stjórnvöld ættu að standa með foreldrum „frekar en fyrirtækjum sem líta á börnin okkar sem söluvöru“.

Tvíþætt tillaga: aldurstakmark og strangari auglýsingareglur

Skúli Bragi upplýsti að hann hygðist leggja fram þingsályktunartillögu sem væri tvíþætt. Annars vegar snúi hún að hækkun lágmarksaldurs barna á samfélagsmiðlum og hins vegar að hertum reglum um markaðssetningu og auglýsingar sem beint er að börnum á samfélagsmiðlum og öðrum stafrænum vettvangi.

Sérstök áhersla verði lögð á að takmarka markvissa markaðssetningu sem byggir á persónuupplýsingum barna. Að hans mati eigi sendingar og beiðnir um nektarmyndir og kynferðislega áreitni aldrei að teljast „eðlilegur hluti af barnæsku“.

Spyr um innleiðingu reglugerðar ESB

Í ræðu sinni vakti Skúli Bragi einnig athygli á því að Ísland standi utan reglugerðar Evrópusambandsins um stafræna þjónustu (Digital Services Act), sem setur stórum samfélagsmiðlafyrirtækjum strangari leikreglur. Hann sagði það gera fámennum eftirlitsaðilum hér á landi erfitt fyrir þar sem þeir stæðu vanmáttugir gagnvart alþjóðlegum tæknirisum sem „leggja sjálf leikreglurnar eftir eigin hentisemi“.

Skúli Bragi beindi nokkrum spurningum til mennta- og barnamálaráðherra:

  • Hver væri staðan á innleiðingu Digital Services Act á Íslandi?
  • Hvernig væri verið að tryggja börnum og ungmennum fræðslu um upplýsinga- og miðlalæsi til að þau geti notað netið, samfélagsmiðla og gervigreind á ábyrgan hátt?
  • Og hvort ekki væri kominn tími til að Alþingi setti skýrari leikreglur og „rétt og raunverulegt aldurstakmark á samfélagsmiðla“ með hagsmuni og vernd barna að leiðarljósi?