Categories
Fréttir

„Ný græn störf um land allt“

Deila grein

02/12/2021

„Ný græn störf um land allt“

Stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana fóru fram á Alþingi í gær. Ræðumenn Framsóknar voru Sigurður Ingi Jóhannsson, Lilja Dögg Alfreðsdóttir og Willum Þór Þórsson.

Sigurður Ingi ræddi þá uppstokkun í Stjórnarráðinu er komi fram í stjórnarsáttmálanum, en hún sé til komin til að endurspegla betur framtíðina og verkefnin sem þurfi að leysa. Hraðar tæknibreytingar munu hafa áhrif á líf og störf fólks og mikilvægt sé að nýta tækifærin sem skapist í breyttum heimi.

„Áhersla er lögð á menntun, tækni og nýsköpun í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum, á nýsköpun í stjórnsýslu, skapandi greinar og menningu, allt með það að markmiði að skapa ný og græn störf um land allt. Afkoma ríkissjóðs er staðfesting þess að viðbrögð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili við áhrifum heimsfaraldursins á heilsu og efnahag þjóðarinnar voru bæði rétt og skynsamleg. Afkoman sýnir okkur að það pólitíska jafnvægi sem ríkir á Íslandi er mikilvægt og á þessu jafnvægi getum við byggt frekari sókn til aukinna lífsgæða allra landsmanna, um allt land,“ sagði Sigurður Ingi.

„Við erum að hefja nýja sókn. Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt,“ sagði Sigurður Ingi.

Lilja Dögg fór yfir að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gefi góð fyrirheit um að umgjörð menningar og lista. „Kvikmyndagerð er mikilvæg íslensku atvinnu- og menningarlífi. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis verður styrkt og við ætlum að hækka endurgreiðslur til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi,“ sagði Lilja Dögg.

„Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu,“ sagði Lilja Dögg.

Willum Þór sagði það vera forgangsmál ríkisstjórnarinnar að snúa vörn í sókn, að styrkja og efla gott heilbrigðiskerfi. „Það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Viljann á þeirri vegferð nú og til framtíðar má vel lesa í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar við horfum til raunaukningar framlaga til rekstrar og til fjárfestinga, en stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala,“ sagði Willum Þór.

„Heilbrigðiskerfið verður að geta þjónað hverjum og einum innan skilgreinds biðtíma. Einstaklingurinn og þjónustan við hann eru í fyrirrúmi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lögð sé aukin áhersla á forvarnir, lýðheilsu og geðheilbrigðismál. Það verða forgangsmál okkar á þessu kjörtímabili, að þróa heilbrigðiskerfið í takt við framtíðina,“ sagði Willum Þór.

Ræður ráðherra Framsóknar má lesa hér að neðan.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknar:

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Til hamingju með 1. desember, fullveldisdaginn. Ég vil byrja á því að óska þingmönnum, sérstaklega nýjum þingmönnum, til hamingju með að hafa tekið sæti á hinu háa Alþingi. Það er mikill heiður að fá að sitja í þessum sal og fá tækifæri til að hafa áhrif til góðs í samfélaginu okkar. Það eru miklar skyldur lagðar á herðar okkar sem hér störfum í þágu lands og þjóðar. Okkar verkefni er að leiða þjóðina til aukinna lífsgæða á öllum sviðum. Okkar verkefni er að takast á við framtíðina.

Við í Framsókn lögðum mikla áherslu á bjartsýni og gleði í okkar kosningabaráttu. Við lögðum áherslu á það að fjárfesta í fólki, en það er lykillinn að sköpun lífsgæða og nýrra tækifæra á landinu okkar. Þess sér skýrt stað í nýjum stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Í stjórnarsáttmálanum eru loftslagsmálin áberandi enda er loftslagsváin það verkefni sem brýnast er í heiminum í dag og næstu ár og áratugi. Fólk hefur áhyggjur og það á sérstaklega við um unga fólkið sem sér framtíð sinni ógnað. Heiminum verður hins vegar ekki bjargað með því hafa áhyggjur. Óttinn getur haft lamandi áhrif. Þess vegna er sá tónn sem sleginn er í nýjum stjórnarsáttmála tónn vonar og bjartsýni. Við ætlum að nýta þær einstöku aðstæður sem við búum við hér á Íslandi, þá þekkingu sem við höfum á endurnýjanlegum orkugjöfum og þann kraft sem býr í fólki og atvinnulífinu til að leysa þau verkefni sem að okkur snúa og gefa öðrum verkfæri til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Við leggjum áherslu á að orkuskiptin eru sameiginlegir hagsmunir og að þeim verði náð með jöfnuði og réttlæti að leiðarljósi.

Sú mikla uppstokkun sem verður í Stjórnarráðinu er gerð til að endurspegla betur framtíðina og þau verkefni sem hún færir okkur. Við erum að ganga í gegnum miklar tæknibreytingar sem munu breyta og hafa verið að breyta lífi okkar og störfum. Breytingarnar eru hraðar og nauðsynlegt er að skapa aðstæður fyrir fólk og fyrirtæki til að nýta þau tækifæri sem skapast í breyttum heimi. Að samtvinna húsnæðis- og skipulagsmál við samgönguáætlun í sama ráðuneyti og sveitarstjórnar- og byggðamál til að mynda getur til skapað tækifæri til að finna betri og skilvirkari lausnir.

Áhersla er lögð á menntun, tækni og nýsköpun í nýjum jafnt sem rótgrónum atvinnugreinum, á nýsköpun í stjórnsýslu, skapandi greinar og menningu, allt með það að markmiði að skapa ný og græn störf um land allt. Afkoma ríkissjóðs er staðfesting þess að viðbrögð ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili við áhrifum heimsfaraldursins á heilsu og efnahag þjóðarinnar voru bæði rétt og skynsamleg. Afkoman sýnir okkur að það pólitíska jafnvægi sem ríkir á Íslandi er mikilvægt og á þessu jafnvægi getum við byggt frekari sókn til aukinna lífsgæða allra landsmanna, um allt land.

Eitt af stóru verkefnum ríkisstjórnarinnar verður að stuðla að uppbyggingu atvinnutækifæra hringinn í kringum landið til að fólk eigi aukna möguleika á því að velja sér þann stað þar sem það vill búa. Í stjórnarsáttmálanum segir, með leyfi forseta:

„Til að styðja við byggðaþróun og valfrelsi í búsetu verði störf hjá ríkinu ekki staðbundin nema eðli starfsins krefjist þess sérstaklega.“

Þessi orð marka að mörgu leyti tímamót í viðhorfi til starfa hjá ríkinu. Hér er ekki talað um störf án staðsetningar sem sérstakt atriði heldur er hugsuninni snúið við. Sérstaklega þarf að rökstyðja að störf séu staðbundin. Þetta er stórt mál. Einnig ætlum við að styðja við klasasamstarf hins opinbera og einkaaðila til að búa til starfsaðstöðu á lykilstöðum á landinu, en fyrsta verkefnið af þessu tagi er að hefjast á Selfossi og minni verkefni eru til um land allt.

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Við erum að hefja nýja sókn. Við leggjum upp með bjartsýni á framtíðina, bjartsýni á kraftinn sem býr í þjóðinni. Það er einlæg trú mín að samstarf þessara þriggja flokka, Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, flokka sem já, spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapi jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara. Sáttmáli nýrrar ríkisstjórnar er sáttmáli um að græn réttlát framtíð sé grundvöllur aukinna lífsgæða um land allt.

***

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála- viðskipta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar:

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Við fögnum fullveldisafmælinu í dag og getum verið stolt af því hversu langt Ísland hefur náð á þessum rúmum 100 árum. Einnig er degi tónlistar fagnað í dag. Engin orð fanga mikilvægi íslenskrar tónlistar, bæði fyrir sjálfsmynd og menningu þjóðarinnar. Í henni er einhver ólýsanlegur strengur sem höfðar ekki bara til okkar sjálfra heldur tónlistarunnenda um allan heim. Íslenskt tónlistarfólk hefur náð ótrúlegum árangri á fjölmörgum sviðum tónlistar og fyrir vikið er tónlist orðin ein af okkar mikilvægustu útflutningsgreinum.

Í kvöld langar mig til að fjalla um menningu, listir og ferðaþjónustu og hvernig ég tel að það sé einstakt tækifæri fólgið í hinu nýja ráðuneyti menningar og viðskipta, en hátt í 30.000 manns starfa við menningu, skapandi greinar og ferðaþjónustu og búa til gríðarleg útflutningsverðmæti.

Virðulegur forseti. Þjóðir heims hafa mismikil áhrif á söguna og leið þjóða á borð við Ísland er í gegnum hið mjúka vald, þ.e. að hafa áhrif í gegnum menningu og listir. Ljóst er að íslenskt listafólk hefur verið okkar bestu sendiherrar. Hildur Guðnadóttir, Ragnar Kjartansson, Erna Ómarsdóttir, Laufey Lín, Björk, Friðrik Þór og Arnaldur. Indriðason eru dæmi um slíka sendiherra. Því var það löngu tímabært að þjóðin eignaðist ráðuneyti sem beinir meira sjónum að menningu, listum og skapandi greinum en hingað til ásamt því að hlúa vel að ferðaþjónustu. Stór þáttur í aðdráttarafli Íslands er fólginn í sterku lista- og menningarlífi og brýnt er að hlúa að íslenskri frumsköpun.

Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar gefur góð fyrirheit um að umgjörð menningar og lista verði studd enn frekar og langar mig að nefna nokkrar aðgerðir í þeim efnum. Kvikmyndagerð er mikilvæg íslensku atvinnu- og menningarlífi. Tækifærin innan greinarinnar eru mikil og hafa áhrif á atvinnu um allt land. Alþjóðlega samkeppnishæft stuðningskerfi við framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis verður styrkt og við ætlum að hækka endurgreiðslur til að stuðla að því að fleiri stór verkefni verði unnin alfarið á Íslandi.

Tónlistarmiðstöð verður sett á laggirnar og verður ein af hornsteinum íslensks tónlistarlífs. Það er grundvallaratriði að styðja betur við tónlistina á Íslandi. Þess má geta að virði umfjöllunar um íslenska tónlist á alþjóðavettvangi nam um 7 milljörðum kr. árið 2020.

Myndlistarstefna verður kláruð á næsta ári og verður hrint í framkvæmd á kjörtímabilinu. Það er tímabært að myndlistin njóti aukins vægis í takt við aðrar listgreinar. Íslenskt myndlistarlíf er einkar framsækið og hefur hlotið lof og viðurkenningar erlendis og því verðum við að gera betur þar. Samtímamyndlist á endalaust erindi. Segja má að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur sé býsna heit fyrir myndlistinni þar sem fyrsta ríkisstjórnin var kynnt á Listasafni Íslands og sú síðari á Kjarvalsstöðum.

Góðir landsmenn. Bókaþjóðin stendur undir nafni en útgefnum bókum hefur fjölgað um 36% á síðustu fjórum árum. Opinber stuðningur við útgáfu bóka hefur aukið úrvalið fyrir lesendur á öllum aldri. Þessi stuðningur er liður í fjölþættum aðgerðum stjórnvalda til að efla íslenskuna og bæta læsi. Við megum ekki gleyma því að handritin voru ein af fyrstu útflutningsafurðum íslensku þjóðarinnar á 14. öld og er ég sannfærð um að Snorri Sturluson væri bara býsna ánægður með stöðu mála.

Við ætlum að gera betur í hönnun. Íslenskir hönnuðir eru í fremstu röð og ég hvet einstaklinga og fyrirtæki til að huga að því alla daga að hafa íslenska hönnun í sínu umhverfi. Því var það sérstakt ánægjuefni þegar forseti Íslands ákvað að íslensk hönnun myndi prýða Bessastaði.

Ný sviðslistamiðstöð mun hefja störf á nýju ári og verður mjög mikilvæg fyrir sviðslistir í landinu. Hún mun koma til með að styðja við greinina og koma henni enn betur á framfæri hérlendis og erlendis. Að auki verður styrkt betur við starfslauna- og verkefnasjóði listamanna.

Góðir landsmenn. Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu.

Í lokin langar mig til að vitna í ræðu Péturs Gunnarssonar rithöfundar sem flutti á 80 ára afmæli Bandalags íslenskra listamanna, en þar rifjaði hann upp að BÍL hafi verið stofnað á tíu ára afmæli fullveldisins og frumherjar BÍL voru þess fullvissir að án blómlegrar menningar væri fullveldið orðin tóm. Hugmyndasmiðurinn að stofnun BÍL, Jón Leifs tónskáld, líkti því við landvarnir og sagði að ef stjórnvöld veittu þótt ekki væri nema broti af því sem aðrar þjóðir kostuðu til landvarna væri björninn unninn. Og einn úr hópi þeirra, Halldór Laxness, komst svo að orði: Gildi þjóðar fer eftir menningu hennar.

Þess vegna leggur ríkisstjórnin sérstaka áherslu á hugvit til framtíðar.

Kæru landsmenn. Það eru spennandi tímar fram undan þar sem fjölmörg tækifæri blasa við hugrakkri þjóð. — Góðar stundir.

***

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra:

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Til hamingju með fullveldisdaginn. Það er auðmjúkur maður sem hér stendur og flytur eldhúsdagsræðu sem ráðherra í fyrsta sinn. Málaflokkur heilbrigðisþjónustu er stór í öllu samhengi. Frábært starfsfólk heilbrigðisráðuneytisins hefur tekið vel á móti mér í vikunni. Verkefnin eru ærin. Heilbrigðismálin eru og ættu að vera okkur öllum ofarlega í huga, enda heilsan ein okkar dýrmætasta eign. Heimsfaraldurinn hefur í raun minnt okkur rækilega á þá staðreynd. Við slíkar aðstæður kjarnast oft hlutirnir. Við höfum reynt styrkinn í heilbrigðiskerfinu og baráttuviljann sem hefur komið bersýnilega í ljós og verða afrek heilbrigðisstarfsfólks seint fullþökkuð.

Á hinn bóginn hefur hið mikla álag, aukaálag, sem fylgir slíkum aðstæðum einnig afhjúpað undirliggjandi veikleika í kerfinu. En það gefur um leið tækifæri til að bregðast markvissar við. Það er forgangsmál þessarar ríkisstjórnar að snúa vörn í sókn, að styrkja og efla gott heilbrigðiskerfi, því að það hefur sannast að styrkur velferðar er ekki síst mældur í sterku og samkeppnishæfu heilbrigðiskerfi. Viljann á þeirri vegferð nú og til framtíðar má vel lesa í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar þegar við horfum til raunaukningar framlaga til rekstrar og til fjárfestinga, en stærsta einstaka fjárfestingarverkefnið er bygging nýs Landspítala. Starfið sem fram fer hvern einasta dag í heilbrigðiskerfinu, þar sem kraftaverk eru í raun unnin, er þó ávallt í forgrunni. Og áfram er unnið að því að byggja undir fjármögnun rekstrar og með aðgerðum að bæta aðbúnað og auka viðbragðsgetu kerfisins. Ég nefni hágæslurými, 30 ný endurhæfingarrými og farsóttardeild Landspítala í Fossvogi. Mikilvægt er að styrkja og efla gjörgæsludeildir og bráðamóttöku Landspítala og horfa til þess að það verði eftirsóknarvert að sinna störfum í heilbrigðisþjónustu.

Kæru landsmenn. Við verðum hins vegar að muna að horfa á heilbrigðiskerfið og heilbrigði þjóðarinnar í stærra samhengi. Það er grundvallarréttlætismál að aðgangur allra að heilbrigðisþjónustu sé tryggður. Heilbrigðiskerfið verður að geta þjónað hverjum og einum innan skilgreinds biðtíma. Einstaklingurinn og þjónustan við hann eru í fyrirrúmi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra að lögð sé aukin áhersla á forvarnir, lýðheilsu og geðheilbrigðismál. Það verða forgangsmál okkar á þessu kjörtímabili, að þróa heilbrigðiskerfið í takt við framtíðina. Lærdómur síðustu missera, þar sem okkur hefur tekist að lágmarka skaðleg áhrif af stærstu áskorun sem mannkynið hefur staðið frammi fyrir lengi, hlýtur að vera sá að samvinna og samstaða skiptir öllu máli og er forsenda árangurs. — Góðar stundir.

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (síða)

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (PDF)

Categories
Fréttir

Ný ríkisstjórn með hag fólks að markmiði

Deila grein

28/11/2021

Ný ríkisstjórn með hag fólks að markmiði

Sáttmáli Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs fjallar um sameiginlega hagsmuni þjóðarinnar. Í honum birtast leiðarstef okkar um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða.

Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði. Við trúum því að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags. Skipan ráðuneyta tekur mið af þessari sameiginlegu sýn nýrrar ríkisstjórnar. Við viljum skapa sátt um nýtingu auðlinda. Við leggjum áherslu á baráttuna við loftslagsbreytingar með samdrætti í losun, orkuskiptum og grænni fjárfestingu. Um leið er það verkefni okkar að búa íslenskt samfélag undir aukna tæknivæðingu auk þess að tryggja áframhaldandi lífskjarasókn allra kynslóða.

Áhersla verður lögð á jafnvægi efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta. Markmið síðasta kjörtímabils var að byggja upp traust í samfélaginu og efla innviði ásamt því að tryggja pólitískan, félagslegan og efnahagslegan stöðugleika. Samhliða því verkefni tókst samfélagið allt á við heimsfaraldur og efnahagskreppu, þar sem árangurinn byggðist á styrkleikum og samtakamætti þjóðarinnar. Lærdómurinn er ekki síst sá að það er mikilvægt að búa í haginn þegar vel árar, sterkir innviðir eru nauðsynlegir og að saman getum við leyst flókin verkefni.

Íslenskt samfélag er nú í kjörstöðu til þess að horfa til framtíðar og sækja fram í þágu vaxandi velsældar. Samstarf þessara þriggja flokka, sem spanna litróf íslenskra stjórnmála, skapar jafnvægi sem er mikilvægur grundvöllur framfara.

Við tökumst á við allar áskoranir með hag almennings að markmiði. Við trúum því að velsæld verði best tryggð með traustum efnahag, jöfnum tækifærum og aðgerðum í þágu nýsköpunar, umhverfis og loftslags.

Skipting starfa ráðherra er með eftirfarandi hætti:

  • Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.
  • Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra
  • Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra
  • Svandís Svavarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
  • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra
  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra
  • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
  • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmála- og vinnumarkaðsráðherra
  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
  • Jón Gunnarsson, innanríkisráðherra
  • Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra

Í tengslum við myndun ríkisstjórnarinnar verða gerðar umfangsmiklar breytingar á skipulagi Stjórnarráðsins auk þess sem ráðherrum fjölgar um einn og verða tólf. Ráðuneytum verður fjölgað úr tíu í tólf og verkefni færð milli ráðuneyta.

Ný ráðuneyti munu taka til starfa um eða eftir áramót. Skipan ráðuneyta verður eftirfarandi:

Forsætisráðuneyti

Helstu breytingar eru þær að mannréttindamál færast til ráðuneytisins frá dómsmálaráðuneytinu.

Fjármála- og efnahagsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru óbreytt.

Innviðaráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu og verkefni samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Þá færast húsnæðis- og mannvirkjamál til ráðuneytisins frá félagsmálaráðuneytinu og skipulagsmál frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

Verkefni nýs ráðuneytis byggja að mestu á grunni þeirra verkefna sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sinnti í síðustu ríkisstjórn en skógrækt og landgræðsla færast til ráðuneytisins frá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða að mestu þau sömu og hafa verið hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytinu en orkumál og auðlindanýting færast til ráðuneytisins frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.

Utanríkisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu.

Ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins byggja á grunni þeirra verkefna sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra sinntu í síðustu ríkisstjórn, þ.á m. menningarmál sem færast frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Mennta- og barnamálaráðuneyti

Helstu verkefni ráðuneytisins verða málefni skóla, íþrótta- og æskulýðsmála og málefni barna.

Félagsmála- og vinnumarkaðsráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru að mestu þau sömu og verið hafa hjá félagsmálaráðuneytinu en þjónusta við umsækjendur um alþjóðlega vernd færist yfir í ráðuneytið frá dómsmálaráðuneytinu.

Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti

Helstu verkefni nýs ráðuneytis verða málefni vísinda- og rannsókna, þ. á m. háskóla, iðnaðar og nýsköpunar og fjarskiptamál. Vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verður með aðsetur í mennta- og menningarmálaráðuneyti þar til hið nýja ráðuneyti tekur til starfa.

Innanríkisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins verða í aðalatriðum þau sömu og dómsmálaráðuneytið hefur.

Heilbrigðisráðuneyti

Verkefni ráðuneytisins eru óbreytt.

Í stjórnarsáttmálanum birtist sameiginlegt leiðarstef flokkanna um efnahagslegar og félagslegar framfarir, vernd umhverfis, kraftmikla verðmætasköpun, jafnrétti kynjanna og jafnvægi byggða og kynslóða. Þá er í sáttmálanum að finna verkefnalista með rúmlega 200 verkefnum á fjölbreyttum sviðum samfélagsins.

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (síða)

Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs (PDF)

Categories
Fréttir

Ágætu félagar!

Deila grein

19/11/2021

Ágætu félagar!

Haustfundur miðstjórnar hafði verið ákveðinn helgina 4.-5. desember næstkomandi af landsstjórn flokksins. Þegar ákvörðunin var tekin fyrr í haust vorum við í þokkalegri stöðu gagnvart veirunni og allt leit út fyrir að hægt yrði að halda fundinn vel innan samkomutakmarkana. Það leit út fyrir að við gætum hist, rætt málin og fagnað góðum kosningasigri. 

Hins vegar hefur veiran enn og aftur gert okkur lífið leitt og enn hefur verið hert á sóttvarnartakmörkunum og ekki fyrirsjáanlegt að því linni á næstu vikum. Nú er aftur komið 50 manna hámark á fjöldatakmarkanir og ljóst að miðstjórnarfundur passar ekki í þann ramma. 

Því var ákveðið á fundi landsstjórnar í gær að slá af hinn hefðbundna haustfund miðstjórnar. Engu að síður má búast við því að boðað verði til miðstjórnarfundar þegar stjórnarmyndunarviðræður klárast. Þá gefst tækifæri til þess að ræða málin og vonandi greiða atkvæði um stjórnarsáttmála. Boðað verður til þess fundar með styttri fyrirvara en hefðbundið er fyrir miðstjórnarfundi í samræmi við lög Framsóknar. Mun sá fundur verða haldinn rafrænt á netinu í ljósi samkomutakmarkana. Landsstjórn mun funda fljótlega aftur og gera tillögu að dagsetningu flokksþings á nýju ári sem lögð verður fyrir þann miðstjórnarfund til afgreiðslu.

Við vonumst því til að sjá þá sem flesta miðstjórnarfulltrúa, þó á skjá verði, á þeim fundi sem haldinn verður vonandi fljótlega og óskandi getum við sem fyrst hvatt þessa veiru niður í eitt skiptið enn og farið að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er.

Jón Björn Hákonarson, ritari Framsóknar og formaður landsstjórnar.

Categories
Fréttir

Unnur Þöll nýr formaður SUF

Deila grein

27/10/2021

Unnur Þöll nýr formaður SUF

46. Sambandsþing Samband ungra Framsóknarmanna (SUF) var haldið 8.-10. október á Hótel Sel í Mývatnssveit. Hópur ungmenna sótti þingið og tók þátt í málefnavinnu. Mikið var rætt um velgengni Framsóknar í alþingiskosningunum ásamt aðdraganda næstu kosninga, sveitarstjórnarkosninga. Hæst bar til tíðinda að nýr formaður tók við af Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur, sem nú er orðin þingmaður Framsóknar.

Það hefur verið áhersla SUF að koma ungu fólki ofarlega á lista í kosningum og munu þau halda því áfram. Það skilaði sér í þremur ungum þingmönnum fyrir Framsókn og tveimur ungum varaþingmönnum. Ungu þingmenn Framsóknar eru: Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, Suðurkjördæmi, Ágúst Bjarni Garðarsson, Suðvesturkjördæmi og Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, Norðvesturkjördæmi, en hún hefur sinnt formennsku SUF síðastliðin þrjú ár.

Formannsskipti

Unnur Þöll Benediktsdóttir var kosin nýr formaður SUF. Hún hefur tekið virkan þátt í starfi Framsóknar í þrjú ár og sat í sjöunda sæti lista flokksins í Reykjavík Norður sem Ásmundur Einar Daðason leiddi. Hún kemur frá Hvolsvelli í Rangárvallasýslu en býr í dag í Reykjavík þar sem hún stundar meistaranám í öldrunarfræði. Samhliða náminu hefur Unnur verið í félagslegu frumkvöðulsstarfi þar sem hún, ásamt kollegum sínum er að skapa úrræði fyrir eldra fólk sem á að draga úr einmanaleika, efla félagstengsl og styrkja heilahreysti. Unnur hefur brennandi áhuga fyrir velferðarmálum, má þar nefna málefni hinsegin fólks, geðheilbrigðismál og málefni eldra fólks en málefnum ungs fatlaðs fólks standa henni kærust því sjálf er Unnur daufblind þ.e. lögblind og heyrnarskert. Eftir því sem við best vitum er það í fyrsta sinn sem fatlaður einstaklingur gegnir embætti formanns í ungliðahreyfingu stjórnmálaflokks.

„Það er mikill heiður að taka við formennsku SUF í því ástandi sem fráfarandi formaður skilur við. Ég vil halda áfram þeirri góðu vinnu sem Lilja Rannveig hefur byggt upp síðustu þrjú ár. Þetta er fyrst og fremst tækifæri fyrir ungt fólk að hafa áhrif á samfélagið sitt og Framsókn er sá flokkur sem hefur sýnt það í verki, að raddir unga fólksins eru raddir sem þau hlusta á. Ég lít líka á þetta sem tækifæri fyrir mig að vera fyrirmynd fyrir annað ungt og fatlað fólk og mun nýta mína reynslu og sérþekkingu til góðs,“ segir Unnur Þöll.

Einnig var kosið um nýja stjórn og varastjórn:

Stjórn:
Ágúst Guðjónsson
Birgitta Birgisdóttir
Bjarney Anna Þórsdóttir
Daði Geir Samúelsson

Davíð Fannar Sigurðsson
Davíð Peters
Gunnar Ásgrímsson
Jóhann Frímann K Arinbjarnarson

Kristín Hermannsdóttir
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir
Mikael Jens Halldórsson
Urður Björg Gísladóttir

Varastjórn:
Árni Gísli Magnússon
Baldur Björnsson
Díana Íva Gunnarsdóttir
Eggert Thorberg

Einar Gauti Jóhannsson
Ívar Atli Sigurjónsson
Kjartan Helgi Ólafsson
Leifur Ingi Eysteinsson

Sæþór Már Hinriksson
Sigurdís Katla Jónsdóttir
Enrique Snær Llorens
Þórdís Eva Rúnarsdóttir

Categories
Fréttir

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Deila grein

21/10/2021

Haustfundur miðstjórnar Framsóknar

Landstjórn Framsóknar hefur samþykkt að boða til haustfundar miðstjórnar helgina 4.-5. desember á Bifröst í Norðurárdal. Fundurinn hefst kl. 10:00 á laugardagsmorgun og stendur fram á seinnipart sunnudags. Kvöldverðarhóf verður á laugardagskvöldinu.

Hægt verður að fá gistingu á Hótel Bifröst og Hótel Hamri og mun rúta ganga frá Borgarnesi og upp á Bifröst fyrir og eftir kvöldverðarhófið á laugardagskvöldinu.

Hægt er að panta gistingu á Hótel Hamar í síma 433 6600 og segjast vera að bóka vegna Framsóknar. Til að bóka á Hótel Bifröst á að smella hér á tilboðið með bókunarkóða.

Upplýsingar um gistinguna:

Hótel Hamar (sími 4336600):

  • Gisting með morgunverði laugardaginn 4. des.  18.000 kr. (sama verð á eins og tveggja manna)
  • Aukanótt með morgunverði föstudaginn 3. des. 12.000 kr. ( sama verð á eins og tveggja manna)

Hótel Bifröst:

Smella hér á tilboðið með bókunarkóða:

  • Gisting með morgunverði 14.500 kr. fyrir tveggjamanna herbergi
  • Gisting með morgunverði 12.500 kr. fyrir einsmanns herbergi

Við hvetjum fólk til að panta sem fyrst til þess að hægt sé að bregðast við ef tryggja þarf fleiri herbergi.

Aðalmenn í miðstjórn eru vinsamlegast beðnir um að staðfesta komu eða forföll til skrifstofu Framsóknar í síma 540-4300 eða á netfangið framsokn@framsokn.is. Mikilvægt er að vita um forföll í tíma til að geta boðað varamenn á fundinn.

***

Á haustfundi skal taka félagsstarf flokksins á komandi starfsári sérstaklega til umræðu. Fastanefndir miðstjórnar munu flytja skýrslu um störf sín og jafnframt skulu miðstjórnarmenn kjósa úr sínum hópi til eins árs í senn:

a) fjóra fulltrúa í fræðslu- og kynningarnefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara og

b) fjóra fulltrúa í málefnanefnd Framsóknarflokksins og tvo til vara.

Fræðslu- og kynningarnefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. a-lið gr. 10.4. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með framkvæmd kynningar- og fræðslumála Framsóknarflokksins.

Málefnanefnd. Hana skipa formaður sem framkvæmdastjórn skipar og fjórir meðstjórnendur skv. b-lið gr. 10.5. Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og hafa umsjón með málefnastarfi og stefnumótunarvinnu Framsóknarflokksins.

Miðstjórnarmenn eru hvattir til að gefa kost á sér í þessar nefndir og senda framboð á netfangið framsokn@framsokn.is.

Landsstjórn Framsóknar

Categories
Fréttir

Framsókn sigurvegari kosninganna – 34.501 atkvæði eða 17,3%

Deila grein

27/09/2021

Framsókn sigurvegari kosninganna – 34.501 atkvæði eða 17,3%

Framsókn er óumdeildur sigurvegari alþingiskosninganna s.l. laugardag. Flokkurinn bætir við sig fimm þingmönnum og verða þá alls 13 alþingismenn í þingflokki Framsóknarmanna á Alþingi á komandi kjörtímabili. Það er besta niðurstaða Framsóknar í kosningum frá árinu 2013.

Að lokinni talningu í öllum kjördæmum var ljóst að Framsókn hafði hlotið 34.501 (17,3%) atkvæði og bætti sig um 6,6 prósentustig frá alþingiskosningunum 2017. Framsókn er núna með fyrsta þingmann bæði í Norðvestur- og Norðausturkjördæmi og fékk til að mynda þingmann í báðum Reykjavíkurkjördæmunum.

Framsóknarflokkurinn er sigurvegari kosninganna. Við erum að bæta mjög miklu fylgi við okkur og við erum ótrúlega þakklát fyrir það.“ – Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar.

Ágúst Bjarni Garðarsson, nýkjörinn alþingismaður, sem skipaði annað sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi, telur aukið fylgi flokksins meðal annars mega rekja til starfa flokksins í barna- og samgöngumálum.  „Flokkurinn hefur verið að fjárfesta í innviðum og fólki, en um leið sýna aðhald í rekstri og ég held að fólk almennt sé að kalla eftir stöðugleika í þjóðfélaginu okkar.“

Þetta var alltaf markmiðið en þetta kom vissulega á óvart. Ég er ótrúlega spennt og auðmjúk fyrir þessu tækifæri að fá að vinna að sameiginlegum markmiðum okkar allra á þessum vettvangi.“ – Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, er skipaði þriðja sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi.

Heimild: Kosningasaga.

Reykjavík

Framsókn fékk kjörna alþingismenn í báðum Reykjavíkurkjördæmunum en vert að geta þess að síðast fékk flokkurinn kjörin þingmanna í Reykjavíkurkjördæmi norður árið 2013. Þetta er sérlega góður árangur í Reykjavík. Í Reykjavík suður fékk flokkurinn 4.077 (11,5%) atkvæði. Í Reykjavík norður fékk flokkurinn 4.329 (12,3%) atkvæði. Alþingismenn Framsóknar í Reykjavík eru: 

  • Lilja Dögg Alfreðsdóttir (Reykjavík suður)
  • Ásmundur Einar Daðason (Reykjavík norður)

Suðvesturkjördæmi

Framsókn fékk tvo alþingismenn kjörna í Suðvesturkjördæmi þar sem Willum Þór Þórsson hefur leitt frá árinu 2017. Flokkurinn fékk 8.520 (14,5%) atkvæði og er næststærsti flokkurinn í kjördæminu. Gaman að geta þess að Ágúst Bjarni Garðarsson, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarbæjar, er annar alþingismaðurinn er Framsóknarfólk í Hafnarfirði fær kjörinn á Alþingi. Eygló Þóra Harðardóttir, fyrrv. alþingismaður og ráðherra var fyrsti fulltrúinn, kjörin í alþingiskosningunum 2016. Alþingismenn Framsóknar í Suðvestur eru: 

  • Willum Þór Þórsson
  • Ágúst Bjarni Garðarsson

Norðvesturkjördæmi

Framsókn er sigurvegari kosninganna í Norðvesturkjördæmi. Flokkurinn bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 4.448 (25,8) atkvæði og á fyrsta þingmann kjördæmisins, Stefán Vagn Stefánsson. Alþingismenn Framsóknar í Norðvestur eru:

  • Stefán Vagn Stefánsson
  • Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir
  • Halla Signý Kristjánsdóttir

Norðausturkjördæmi

Framsókn er sigurvegari kosninganna í Norðausturkjördæmi. Flokkurinn bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 6.016 (25,6%) atkvæði og er Ingibjörg Ólöf Isaksen, oddviti flokksins, fyrsti þingmaður kjördæmisins. Alþingismenn Framsóknar í Norðaustur eru:

  • Ingibjörg Ólöf Isaksen
  • Líneik Anna Sævarsdóttir
  • Þórarinn Ingi Pétursson

Suðurkjördæmi

Framsókn er næststærsti flokkurinn í Suðurkjördæmi og bætir við sig þingmanni og nær inn þremur mönnum. Flokkurinn fékk 7.111 (23,9%) atkvæði og er 186 atkvæðum frá því að eiga fyrsta þingmann kjördæmisins. Alþingismenn Framsóknar í Suður eru:

  • Sigurður Ingi Jóhannsson
  • Jóhann Friðrik Friðriksson
  • Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir
Categories
Fréttir Greinar

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Deila grein

25/09/2021

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Þegar þessi orð eru sett á blað er stillt haust­veður í höfuðborg­inni. Veður­spá­in fyr­ir kjör­dag ekki eins og best verður á kosið en ég er þó bjart­sýnn á að kosn­inga­vilji fólks sé það mik­ill að það mæti á kjörstað til að ákv­arða stefn­una inn í framtíðina. Það er mik­il­vægt að all­ir nýti þann rétt sem fyrri kyn­slóðir börðust fyr­ir: Rétt­inn til að hafa áhrif.

Við erum stolt af ár­angr­in­um

Við höf­um á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka unnið hörðum hönd­um í breiðri stjórn að mik­il­væg­um fram­fara­mál­um og vil ég sér­stak­lega nefna bylt­ingu kerf­is­ins í þágu barna, nýj­an Mennta­sjóð náms­manna, 12 mánaða fæðing­ar­or­lof, hlut­deild­ar­lán fyr­ir fyrstu kaup­end­ur og tekju­lægri, Loft­brú og þær stór­kost­legu fram­kvæmd­ir í sam­göng­um sem lands­menn hafa orðið var­ir við á ferðum sín­um um landið okk­ar í sum­ar. Allt þetta höf­um við fram­kvæmt, og meira til, þrátt fyr­ir heims­far­ald­ur kór­ónu­veirunn­ar.

Við vilj­um fjár­festa í fólki og heil­brigði

Þau sem búa á þessu landi hafa sýnt það á síðustu mánuðum og árum að sam­taka­mátt­ur­inn og samstaðan er mik­il þegar á reyn­ir. Á þess­um krafti sam­vinn­unn­ar vilj­um við í Fram­sókn byggja til að bæta sam­fé­lagið okk­ar enn frek­ar. Við höf­um í kosn­inga­bar­átt­unni sett mál­efni barna og ung­menna sér­stak­lega á dag­skrá. Við vilj­um að hvert og eitt barn yfir sex ára aldri fái sér­stak­an 60 þúsund króna vaxt­ar­styrk til að öll börn geti sprungið út í tóm­stund­um sín­um.

Við vilj­um fjár­festa í heil­brigði þjóðar­inn­ar með áherslu á for­varn­ir og geðheil­brigði. Eitt af verk­efn­um næstu rík­is­stjórn­ar er að leiða sam­an full­trúa heil­brigðis­stétta, sér­fræðinga, frjálsra fé­laga­sam­taka og þeirra sem nota þjón­ustu spít­al­anna til að móta heild­stæða og fram­sýna stefnu þegar kem­ur að heil­brigði þjóðar­inn­ar. Við vilj­um auka þjón­ustu við eldra fólk með það að mark­miði að þau sem geta og vilja geti búið þar sem þeim líður best: heima hjá sér.

Við vilj­um jafn­vægi og fjár­festa í framtíðinni

Við vilj­um treysta enn und­ir­stöður lít­illa og meðal­stórra fyr­ir­tækja til að auka verðmæta­sköp­un og at­vinnu­tæki­færi um land allt. Við vilj­um hækka end­ur­greiðslur vegna kvik­mynda­gerðar. Við vilj­um auka græna fjár­fest­ingu. Allt miðar þetta að því að skapa for­send­ur fyr­ir stöðugt öfl­ugra at­vinnu­lífi sem er for­senda öfl­ugr­ar vel­ferðar á Íslandi.

Við þekkj­um það flest úr okk­ar dag­lega lífi að það er mik­il­vægt að búa við jafn­vægi. Við í Fram­sókn stönd­um fyr­ir um­bæt­ur. Við vilj­um byggja á því sem er gott og laga það sem laga þarf. Við vilj­um vinna að stefnu­mál­um okk­ar með sam­vinnu og jöfnuð að leiðarljósi. Þessi sam­vinnu­hugs­un hef­ur gert stór um­bóta­mál að veru­leika á því kjör­tíma­bili sem er að ljúka og mun gera það áfram ef við fáum til þess stuðning þinn. Stjórn­mál snú­ast nefni­lega ekki aðeins um að setja fram stefnu og stefnu­mál held­ur líka vinnu­brögð – og heil­indi.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Höf­und­ur er sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. september 2021.

Categories
Fréttir

Huga skal að endurskoðun alls verklags og vinnu í baráttunni við riðuna

Deila grein

24/09/2021

Huga skal að endurskoðun alls verklags og vinnu í baráttunni við riðuna

Það er alltaf mjög erfitt að sjá á bak áralöngu jafnvel áratuga ræktunarstarfi þegar skorið er niður vegna riðu. Í sjálfu sér er nægjanlega erfitt að verða fyrir áfallinu. Þess vegna er mikilvægt að allt umleikis ákvörðunina, framkvæmdina og eftirfylgdina sé klárt, tilbúið, úthugsað. Því miður er það ekki svo.

Vissulega er árangur af baráttunni við riðuna. Engu að síður er rétt að staldra við og huga að endurskoðun alls verklags og vinnu. Markmiðið hlýtur áfram að vera að útrýma vágestinum.

Því þarf að stórauka rannsóknir, setja kraft í vísindalega umræðu og stefnumörkun. Samhliða að yfirfara vegferðina, meta árangurinn og fórnarkostnaðinn. Það er til mikið af gögnum.

Spurningin sem vaknar er það hægt með öðrum leiðum? Það er óvíst. En er hægt að ná markmiðinu með minni fórnarkostnaði. Öðruvísi niðurskurði, t.a.m. eftir ættlínum, aldri eða hverju öðru sem vísindaleg nálgun gæfi. Væri hægt að ná árangri samhliða – vissulega á löngum tíma – með markvissum rannsóknum og ræktunarstarfi sbr. það sem nú er í gangi? Gagnvart bændum þarf að bæta umgjörðina. Þegar greining á sjúkdómnum liggur fyrir þarf að taka ákvörðunina fljótt, upplýsa alla viðkomandi og þá ekki síst um framkvæmdina. Þ.e.a.s. hvenær verður féð tekið, hvernig verður staðið að því og hvernig fargað. Endurskoða þarf hvernig upphæð bóta er ákveðin. Það er ómögulegt að styðjast við heildarmeðaltöl í samningum, breyta þarf reglum þannig að stuðst sé við búsmeðaltal. Samningar eiga að tryggja framfærslu og möguleg kaup á nýju fé eftir hreinsun. Fylgja þarf eftir nægjanlega tímalega að öll hreinsun sé yfirstaðin og út tekin þannig að bændur geti tekið fé sem fyrst sé vilji til þess. Samningsskilyrði eiga að vera skýr og aðgengileg en um leið sveigjanleg eftir ólíkum aðstæðum. Því enginn er eins.

Með öðrum orðum – stjórnvöld þurfa að yfirfara verklagið frá því sem nú er. Það þarf meiri stuðning í gegnum ferlið sem þarf að líta til þess manneskjulega um leið og þess efnahagslega og sóttvarna.

Categories
Fréttir

Hafn­ar öfg­um til hægri og vinstri

Deila grein

22/09/2021

Hafn­ar öfg­um til hægri og vinstri

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, var í viðtali við þáttastjórndur Dagmála á mbl.is í síðustu viku. Í viðtalinu fór hann yfir helstu áherslu­mál Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir þess­ar kosn­ing­ar.

***

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son seg­ir tæki­færi fel­ast í því að auka end­ur­greiðslur á kostnaði stórra kvik­mynda­verk­efna hér á landi. Það gæti skapað þúsund­ir starfa og aukið heild­ar­um­svif í hag­kerf­inu. Hann sér fyr­ir að hlut­fallið gæti farið í 35% en er 25% um þess­ar mund­ir.

100 millj­arða verk­efni í sigt­inu

„Rök­in fyr­ir þessu eru að á 10 árum gæt­um við verið kom­in með 10.000 manns sem störfuðu í þess­um geira í stað 2.600. Þetta væri þá hluti af því að fara í þessa átt­ina,“ seg­ir Sig­urður Ingi og bæt­ir við:

„Ég ætla að nefna þetta með eina kvik­mynd. Miðað við þenn­an stuðning sem er, sem end­ur­greiðsla að við get­um fengið hérna inn verk­efni sem er hluti af kvik­mynd eða ein­hverri þáttaröð sem er tek­in hér. Hún get­ur verið t.a.m. 10 millj­arðar. Og þá eru tveir og hálf­ur sem eru að fara út og þá eru eft­ir sjö og hálf­ur.“

Hann seg­ir að þessi um­svif séu af hinu góða en að með því að auka áhuga er­lendra fyr­ir­tækja á að koma hingað til lands með stærri og heil­stæðari verk­efni, gæti það skilað mikl­um ábata fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag og ríkið. Nefn­ir hann dæmi þar um.

„ […] það var bara kvik­mynd sem gerðist á Íslandi sem var tek­in með þess­um hætti, 10 millj­arðar hér […] meðan hinn hlut­inn fór til Írlands, öll upp­tak­an en mynd­in gerðist á Íslandi. Ef öll mynd­in hefði verið tek­in hér og við verið með 35% end­ur­greiðslu þá hefðu 100 millj­arðar komið hingað inn. 35 hefðu farið út aft­ur en við vær­um með 65 millj­arða hérna inni í hag­kerf­inu. Og hvað held­ur þú að mikið af þeirri upp­hæð hefði runnið í rík­is­sjóð um­fram þenn­an tvo og hálf­an.“

Hægt að spara aug­lýs­inga­kostnað rík­is­sjóðs á móti

Hann er þá spurður hvað það er sem rétt­læti það að rík­is­sjóður leggi út í bein­an kostnað við að niður­greiða fram­leiðslu­kostnað stórra fram­leiðslu­fyr­ir­tækja er­lend­is.

„Við erum að taka þátt í þess­um leik sem er gerður í þessu. Af hverju erum við það? Auðvitað eru það áhuga­verð störf sem þarna eru, vel borg­andi og mikið af ungu fólki sem leit­ar inn í þenn­an geira. Þannig að þetta er svona hluti af framtíðinni. Afþrey­ing­ar­sam­fé­lag­inu sem er öðru­vísi en fram­leiðslu­drifna sam­fé­lagið. En þetta styður svo mikið annað í sköp­un­ar­kerf­inu. Þetta er auðvitað aug­lýs­ing fyr­ir ferðaþjón­ust­una sem ekk­ert annað. Við get­um sparað pen­inga úr rík­is­sjóði að vera í bein­um aug­lýs­ing­um ef þetta yrði niðurstaðan.“

Er hann þá innt­ur svara við því hvort rík­is­sjóður eigi yfir höfuð að vera að dæla pen­ing­um í aug­lýs­ing­ar til þess að ýta und­ir auk­in um­svif einka­fyr­ir­tækja í ferðaþjón­ustu.

„Við höf­um tekið þátt í því. Við rek­um jú Íslands­stofu, ekki satt.“

Ekki krani út úr rík­is­sjóði

Sig­urður tel­ur þó að þótt millj­arðatug­um yrði varið úr rík­is­sjóði til þess að styrkja kvik­mynda­fram­leiðslu hér á landi þá yrði það ekki til þess að hægt væri að leggja Íslands­stofu niður.

„Ég er ekki að leggja það til. Ég er bara að segja að þarna verður til svo gríðarleg kynn­ing á landi og þjóð. Líka fiskn­um okk­ar. Líka á öðrum vör­um. Líka á þeirri ímynd sem við erum að selja um hreina Ísland og sög­una og þar með ann­arri menn­ingu þannig að þetta er ein­fald­lega gluggi inn í þenn­an geira. Ég veit, því ég hef verið að taka þessa umræðu býsna oft að marg­ir í mín­um ágæta sam­starfs­flokki, Sjálf­stæðis­flokki, líta á þetta sem krana út úr rík­is­sjóði. En ég var að út­skýra fyr­ir ykk­ur hver mun­ur­inn er að fá 7,5 millj­arða úr litlu verk­efn­un­um eða að fá 65 millj­arða af einu stóru verk­efni og byggja upp um leið nýja at­vinnu­grein.“

Þá vakna spurn­ing­ar um hvort yf­ir­færa mætti þessa nálg­un á aðrar at­vinnu­grein­ar til þess að auka um­svif­in í ís­lensku hag­kerfi. Sig­urður Ingi er allt annað en sann­færður um það.

Ein­stak­ur geiri sem skil­ar miklu

„Ég myndi ekki halda því fram að það væri hægt að nota þetta heilt yfir. Þetta er hins veg­ar staðreynd í þess­um heimi og fyr­ir því eru ákveðnar ástæður eins og ég nefndi. Þetta er heim­ur þar sem ein­hvern veg­inn all­ir eru að fylgj­ast með. Þetta er heim­ur þar sem stór hluti af kynn­ingu á lönd­um og hug­mynd­um fer fram. Þannig að það eru hliðar­af­urðir við þetta. Nei ég myndi ekki leggja til að við mynd­um end­ur­greiða út­gjöld. Það yrði ekki mikið eft­ir þá.“

Hann opn­ar þó á þá hug­mynd að svipaða nálg­un mætti not­ast við í völd­um at­vinnu­grein­um.

„Já það er al­veg, við erum auðvitað að leggja áhersl­ur á það í þess­um grænu fjár­fest­ing­um á fjár­hags­lega hvata og sókn­ar­færi. Og það ætt­um við að gera líka í slík­um verk­efn­um. Við erum með um­hverfi fjár­fest­ing­arstuðnings við allskon­ar hluti go höf­um nýtt þá í gegn­um tíðina. Við eig­um núna í þess­um mæli að horfa á hið skap­andi hag­kerfi, hug­verka­hag­kerfið til að bæta við fjórðu stoðinni og hins veg­ar þessa grænu fjár­fest­ingu sem við erum að leggja mikla áherslu á […]”

***

Viðtalið við Sig­urð Inga má sjá í heild sinni hér.

Categories
Fréttir

Jón Sigurðsson látinn

Deila grein

11/09/2021

Jón Sigurðsson látinn

Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknrflokksins og ráðherra, er látinn, 75 ára að aldri. Jón lést í gær á líknardeild Landspítalans í Kópavogi. Jón greindist með langt gengið krabbamein í blöðruhálskirtli í ársbyrjun í fyrra.

Jón var fæddur í Kollafirði á Kjalarnesi þann 23. ágúst 1946. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 1966 og þremur árum síðar brautskráðist hann með BA-próf í íslensku og sagnfræði frá Háskóla Íslands. Frá útskrift í MR vann hann við kennslustörf í gagnfræðaskólum, menntaskólum og háskólum hér á landi og í Svíþjóð til ársins 1975.

Jón var ritstjóri Tímans frá 1978 til 1981. Hann tók þá við starfi skólastjóra Samvinnuskólans á Bifröst og varð síðar rektor skólans til ársins 1991. Hann útskrifaðist með MA gráðu í menntunarfræðum og kennslustjórnun frá Columbia Pacific University í San Rafael í Bandaríkjunum árið 1988 og doktorsgráðu í sömu greinum árið 1990. Þá lauk hann MBA-gráðu í rekstrarhagfræði og stjórnun frá National University í San Diego í Bandaríkjunum árið 1993.

Jón var seðlabankastjóri á árunum 2003 til 2006. Jón tók við embætti iðnaðar- og viðskiptaráðherra í ríkisstjórn Geirs H. Haarde 2006 og gegndi því til ársins 2007. Á sama tíma og hann gegndi ráðherraembættinu var hann formaður Framsóknarflokksins.

Framsóknarfólk minnast formanns og ráðherra með djúpri virðingu og þakklæti. Aðstandendum er vottuð samúð og þakkir fyrir ómældar fórnir í þágu Framsóknarflokksins og íslensku þjóðarinnar.