Categories
Fréttir

„Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur“

Deila grein

26/09/2024

„Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur“

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, var gestur í Bítinu á Bylgjunni og ræddi forskotið er Ísland er komið með í heimi gervigreindar. En menningar- og viðskiptaráðuneytið hefur gefið út leiðarvísi sem fjallar um hvernig íslensk máltækni hefur náð fótfestu í heimi gervigreindarinnar og ávinning samstarfs íslenskra stjórnvalda og þeirra samstarfsaðila við tæknifyrirtækið Open AI. Leiðarvísirinn er gefin út á íslensku og ensku í samstarfi við íslenska gervigreindar- og máltæknifyrirtækið Miðeind og Almannaróm, miðstöð máltækni á Íslandi ber heitið Íslenska-nálgunin: Hvernig stuðla má að fjölbreytni tungumála og menningar á sviði gervigreindar.

„Þetta er lykillinn að því að tungumálið okkar lifi og ég hef stundum líkt því við þegar var verið að þýða Biblíuna yfir á hin ýmsu tungumál, þá náðu tungumálin að lifa í stað þess að hafa þetta allt á latínu. Þetta er bara nákvæmlega sama vegferðin og eftir þessu er tekið, en við erum ekki alveg komin í mark,“ sagði Lilja Dögg.

Umsjónmaður Bítisins, Heimir Karlsson, lagði spurningu fyrir gervigreindina á meðan viðtalinu stóð, þar sem hann spurði hvað hún myndi sjálf gefa sér í einkunn fyrir íslensku, frá 0 upp í 10. Svarið sem hann fékk var athyglisvert, „ég myndi gefa mér sjálfri 7 í einkunn í íslensku. Ég get yfirleitt svarað spurningum og notað rétt málfar en er ekki fullkomin og gæti gert smávægilegar villur í flóknari samhengi“.

Íslenska-nálgunin var kynnt tæknisamfélaginu á málþingi Open AI sem haldin var í tilefni af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York á mánudaginn. Inntak málþingsins var að setja áherslu á að leysa flókin samfélagsvandamál með hjálp gervigreindar og stuðla þannig að heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna.

Lilja Dögg var gestur í pallborðsumræðum fyrirtækisins um fjölbreytni menningar- og tungumála í gervigreind. Sam Altman, forstjóri OpenAI, og Anna Makanju aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóðamála Open AI voru gestgjafar viðburðarins og stýrði Anna pallborðsumræðunum. Aðrir þáttakendur voru Robert Opp, strafrænn þróunarstjóri UNDP, Gabriela Ramos, aðstoðarframkvæmdastjóri félags- og hugvísinda, UNESCO, Max K gervigreindarsérfræðingur hjá UNESCO og Dr. ‘Bosun Tijani, samskipta-, nýsköpunar- og stafrænn efnahagsráðherra Nígeríu.

„Með því að tryggja að nýjasta tækni sé aðgengileg á íslensku getum við teygt okkur í allar áttir. Ég er full af tæknilegu hugrekki eftir að hafa séð þann árangur sem náðst hefur með aðstoð gervigreindar í flóknum verkefnum þar sem aukin tækifæri og jöfnuður verða raunhæfur kostur með tilkomu gervigreindarinnar. Tækifærin eru svo mörg og ávinningurinn getur verið gríðarlegur. Velgengnisssögur dagsins í dag spanna allt frá aukinni uppskeru til stórbætts árangurs í menntun og heilbrigðismálum. Með samhentu átaki í máltækni eru stjórnvöld að tryggja að landsmenn geti tekið þátt í nýjustu tækni – á íslensku,“ segir Lilja Dögg.

Í leiðarvísinum leggur Ísland til að unnið verði að stofnun alþjóðlegs samstarfsverkefnis fyrir tungumál og menningarheima sem hafa ekki náð fótfestu í nýrri tækni. Í slíku samstarfi yrði komið á alþjóðlegum gagnreyndum aðferðum og þróuð mælipróf fyrir getu mállíkana í slíkum tungumálum. Slíkt samstarf myndi einnig auðvelda gagnasöfnun og geymslu gagna og styðja við rannsóknir á sviði fjölmenningarlegrar og margmála gervigreindar. Slíkt verkefni ætti að fela í sér aðkomu hagsmunaaðila frá gervigreindarfyrirtækjum, rannsókna- og fræðasamfélaginu, ríkisstjórnum og fulltrúum samfélagsins, svo og alþjóðlegum stofnunum á borð við UNESCO.

Samstarfið skilar gríðarlegum árangri

Ísland og OpenAI hófu samstarf sitt við að þjálfa ChatGPT í íslensku árið 2022. Ráðist var í samstarfið í kjölfar heimsóknar sendinefndar forseta Íslands og menningar- og viðskiptaráðherra til Bandaríkjanna þar sem hún fundaði meðal annars með Sam Altman, forstjóra OpenAI. Miðeind kom að samstarfinu fyrir hönd Íslands og hefur fyrirtækið unnið náið með OpenAI; deilt með því íslenskum gögnum úr máltækniáætlunum stjórnvalda, veitt líkaninu endurgjöf í þjálfun og mælt bæði skilning þess á íslensku og færni í að mynda réttar setningar á íslensku. Árangurinn af máltæknivinnu Íslands er ótvíræður en allar mælingar á færni líkana OpenAI milli uppfærslna sýna stórbætta íslenskugetu þeirra. Sjá nánar. 

Yfirlýst markmið OpenAI með samstarfinu við Ísland hefur ávallt verið að komast að því hvaða aðferðir nýttust best við að kenna stóru mállíkani eins og ChatGPT tungumál sem fáir tala. Samstarfið hefur leitt ýmislegt í ljós, bæði hvaða aðferðir virðast nýtast best en einnig hvaða aðferðir virka illa. Í leiðarvísinum er helsti lærdómur Íslands af samstarfinu dreginn saman og farið yfir það máltæknistarf sem unnið hefur verið hér á landi frá árinu 2019, þegar máltækniáætlun 1 var sett í gang. Með henni fjárfestu stjórnvöld í gagnasöfnun fyrir íslenska tungu og þróun nauðsynlegra tæknilegra innviða fyrir tungumálið og heldur sú vinna áfram að gefa og byggir Máltækniáætlun 2 á þeim árangri en sú áætlun gildir til 2026.

Categories
Fréttir Greinar

Orð­ræða seðla­banka­stjóra veldur mér á­hyggjum

Deila grein

26/09/2024

Orð­ræða seðla­banka­stjóra veldur mér á­hyggjum

Ég hefði talið að það væri öllum ljóst að þörf væri á frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis um allt land. Þetta sýna auðvitað allar tölur, með sterku ákalli frá verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sem sér um að greina stöðuna á húsnæðismarkaði mjög markvisst. Þessu mati, allra þessara aðila og fleiri, virðist seðlabankastjóri fullkomlega ósammála og lét hafa eftir sér á fundi Fjármálastöðuleikanefndar Seðlabankans í morgun að umræðan um að of lítið væri byggt, væri á villigötum.

Skoðum tölurnar

Þrátt fyrir mesta uppbyggingartímabil Íslandssögunnar árin 2019-2024, þá erum við þó að byggja langt undir áætlaðri íbúðaþörf. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir að þörf sé á 4 til 5 þúsund íbúðum á hverju ári til 2033. Talningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) á íbúðum í byggingu benda til þess að árlega muni 2 til 3 þúsund íbúðir koma inn á markað árin 2024-2026. Það er langt frá því að vera nóg. Það er líka svo að þegar það verður dýrt að byggja (háir vextir) og erfitt að selja/kaupa (lánþegaskilyrðin) þá dregur úr framkvæmdavilja, þvert á það sem við þurfum í dag. Það þýðir ekkert fyrir seðlabankastjóra að hneykslast yfir sig á þessum staðreyndum, sem hann virðist samt sem áður gera og jafnvel kveinka sér undan þeim.

Þetta sjáum við til að mynda vel á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins sem samþykkt var árið 2015 og gildir til ársins 2040. Það skipulag vanmetur vænta fjölgun íbúa, en skipulagið gerir ráð fyrir að íbúum svæðisins myndi fjölga um 70 þúsund á tímabilinu 2015-2040. Nú þegar hefur okkur fjölgað um 38 þúsund og árið er 2024. Húsnæðisáætlanir sveitarfélaga gera ráð fyrir 52 þúsund íbúa fjölgun til viðbótar til ársins 2032. Þá þegar er fjölgunin 90 þúsund, eða 20 þúsund meira en áætlanir gerðu ráð fyrir til ársins 2040 og árið er 2024. Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands fyrir árin 2032-2040 má búast við fjölgun um 32 þúsund íbúa til viðbótar. Það þýðir ekki endalaust að hlusta á draumsýn embættismanna, heldur þurfa stjórnmálamenn að þora að horfast í augu við breyttar forsendur líkt og hér um ræðir og taka um leið réttar ákvarðanir.

Seðlabankastjóri á villigötum

Ekki er langt síðan seðlabankastjóri lét þau ummæli falla að allir þeir sem gætu haldið á hamri væru komnir að smíða. Þau ummæli vöktu upp talsverða reiði meðal iðnaðarmanna og Meistarafélag iðnaðarmanna í Hafnarfirði sendi frá sér sérstaka ályktun eftir stjórnarfund þar sem ummælin voru sögð taktlaus og röng á sama tíma og félagið lýsti yfir fullum vilja og getu sinna félagsmanna til að taka þátt í aukinni uppbyggingu húsnæðis. En hvað gerist? Seðlabankastjóri stígur á bensíngjöfina og gefur í.

Í könnun sem Samtök iðnaðarins lét framkvæma koma fram vísbendingar um að samdráttur sé í vændum. Það sést meðal annars í verkefnastöðu arkitekta og verkfræðinga sem þýðir að á næstu árum væri um að ræða minna framboð íbúðarhúsnæðis. Í könnun sem gerð var meðal arkitekta- og verkfræðistofa innan Samtaka iðnaðarins nú í september kemur fram að yfir 60% þeirra segja að verkefnum hafi fækkað og ekki nema 9% sem segja að verkefnum hafi fjölgað. Hér ættu öll viðvörunarljós að blikka um leið. Ekki hjá seðlabankastjóra.

Á undanförnum árum hef ég fjallað mikið um húsnæðismál hér á landi og viðrað áhyggjur mínar af stöðunni til framtíðar ef ekkert yrði að gert. Þetta hef ég gert bæði sem sveitarstjórnarmaður á sínum tíma og nú sem þingmaður. Það er að afleiðingarnar af óbreyttri stöðu yrðu á endanum hátt fasteigna- og leiguverð sem leiða myndi að óbreyttu til aukins þrýstings á verðbólgu. Seðlabankastjóri lokar augunum.

Seðlabankinn þarf að sjá ljósið

Ríkisstjórnin hefur komið að mikilvægum aðgerðum sem snúa að kröftugri húsnæðisuppbyggingu sem gagnast þeim sem eru eignalitlir og tekjulágir og hafa því átt erfitt með að koma sér þaki yfir höfuðið á undanförnum árum. Hér er um að ræða aðgerðir sem eru bæði raunverulegar og skynsamlegar. Einnig tel ég brýnt að lífeyrissjóðir nýti sér þá auknu heimild sem Alþingi veitti þeim í sumar og mun auðvelda þeim að fjárfesta í leigufélögum. Það mun styðja okkur í því verkefni að byggja upp heilbrigðari leigumarkað en hér hefur verið með meira öryggi og fyrirsjáanleika fyrir fólk sem það kýs. Almenni markaðurinn þarf þó einnig að koma með því staðreyndin er sú að við erum að byggja of lítið. Stærsta áskorun samfélagsins í húsnæðismálum á komandi árum snýr að því að tryggja nægt framboð af fjölbreyttu húsnæði og skapa umhverfi svo fýsilegt sé fyrir framkvæmdaaðila á almennum markaði að byggja húsnæði.

Lækkun vaxta, skynsamleg skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum og fjölgun lóða er það sem til þarf.

Ágúst Bjarni Garðsson, þingmaður Framsóknar og fyrsti varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 26. september 2024.

Categories
Fréttir

Berglind nýr starfsmaður þingflokks

Deila grein

24/09/2024

Berglind nýr starfsmaður þingflokks

Berglind Sunna Bragadóttir hefur verið ráðin starfsmaður þingflokks Framsóknar. 

Berglind er fædd árið 1992 og uppalin á Suðurnesjunum. Hún er með B.A.-próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Berglind hefur um árabil starfað við markaðsstörf, hún gegndi hlutverki verkefnastjóra og síðar upplýsinga- og kynningarstjóra hjá Keili 2019-2021, verkefnastjóra kynningarmála hjá Fræðslusetrinu Starfsmennt 2022-2023 og hefur starfað sem sérfræðingur við markaðsdeild Icelandair frá júní 2023. 

Berglind hefur alla tíð verið virk í trúnaðar- og félagsstörfum. Hún mun gegna störfum varaformanns Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) og gjaldkera Landssambands Kvenna í Framsókn fram að þingum þeirra nú í haust. Þá er hún formaður skólanefndar Menntaskólans við Sund sem og formaður námsstyrkjanefndar.

Berglind hefur störf undir lok árs og tekur við af Sonju Lind Estrajher Eyglóardóttur sem nýverið hóf störf sem aðstoðarmaður Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra.

Categories
Fréttir Greinar

Neytendamál í öndvegi

Deila grein

21/09/2024

Neytendamál í öndvegi

Í vik­unni mælti ég á Alþingi fyr­ir þings­álykt­un um stefnu í neyt­enda­mál­um til árs­ins 2030. Mik­il vinna hef­ur átt sér stað inn­an menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­is­ins á und­an­förn­um árum til þess að und­ir­byggja raun­veru­leg­ar aðgerðir í þágu neyt­enda. Aðdrag­anda þings­álykt­un­ar­til­lög­unn­ar má meðal ann­ars rekja til þess að í stjórn­arsátt­mála rík­is­stjórn­ar­inn­ar er lögð al­menn áhersla á efl­ingu neyt­enda­vernd­ar og að tryggja stöðu neyt­enda bet­ur, meðal ann­ars í nýju um­hverfi netviðskipta.

Það skipt­ir raun­veru­legu máli að huga vel að neyt­enda­mál­um, enda hafa þau víðtæka skír­skot­un til sam­fé­lags­ins og at­vinnu­lífs­ins og mik­il­vægt er að til staðar sé skýr stefnu­mót­un á því mál­efna­sviði, ásamt aðgerðaáætl­un til næstu ára. Þegar hef­ur verið unnið að ýms­um breyt­ing­um á sviði neyt­enda­mála með það að mark­miði að bæta lög­gjöf á því sviði, auka neyt­enda­vit­und og styrkja þannig stöðu neyt­enda.

Lög­gjöf á sviði neyt­enda­mála hef­ur að stærst­um hluta það mark­mið að leiðrétta aðstöðumun sem er milli fyr­ir­tækja og al­menn­ings, þ.e. neyt­enda, bæði al­mennt og vegna ein­stakra viðskipta. Í því felst m.a. að vernda neyt­end­ur gegn órétt­mæt­um viðskipta­hátt­um fyr­ir­tækja, upp­lýsa neyt­end­ur og veita þeim skil­virk úrræði til að leita rétt­ar síns.

Í þings­álykt­un­ar­til­lög­unni er einnig að finna aðgerðaáætl­un þar sem koma fram níu skil­greind­ar aðgerðir, með ábyrgðaraðilum og sam­starfsaðilum. Aðgerðirn­ar snúa meðal ann­ars að auk­inni neyt­enda­vernd á sviði fjár­málaþjón­ustu og áherslu á fjár­mála­læsi, neyt­enda­vernd viðkvæmra hópa, áherslu á ís­lensku við markaðssetn­ingu vöru og þjón­ustu, aukna neyt­enda­vernd við fast­eigna­kaup, áherslu á netviðskipti og staf­væðingu á sviði neyt­enda­mála sem og rann­sókn­ir, upp­lýs­inga­gjöf og fræðslu til að auka neyt­enda­vit­und.

Til viðbót­ar of­an­greind­um aðgerðum hef­ur menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið lagt sér­staka áherslu á að fylgj­ast náið með arðsemi og gjald­töku viðskipta­bank­anna til að veita þeim aðhald í þágu neyt­enda. Haustið 2023 var um­fangs­mik­il skýrsla þess efn­is birt og er von á þeirri næstu síðar í haust. Stærsta verk­efni hag­stjórn­ar­inn­ar þessi miss­er­in er að ná niður verðbólgu og þar með vöxt­um í land­inu, enda er það stærsta hags­muna­mál heim­ila og fyr­ir­tækja. Í því verk­efni verða all­ir að taka þátt og vera á vakt­inni. Menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneytið tek­ur hlut­verk sitt í því verk­efni al­var­lega og hef­ur þess vegna sett neyt­enda­mál í önd­vegi í þágu sam­fé­lags­ins alls.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 21. september 2024.

Categories
Fréttir

„Fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar“

Deila grein

20/09/2024

„Fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, mælti fyrir frumvarpi til laga á Alþingi um námsgögn, ný heildarlög. Frumvarpið er liður í innleiðingu menntastefnu til ársins 2030 en fjölbreytt námsgögn eru ein af megináherslum menntastefnunnar. Eins felur það í sér umtalsverðar breytingar á útgáfu námsgagna og sumir hafa talað um að þær séu líklega þær mestu sem hafa orðið í áratugi, nái frumvarpið fram að ganga á Alþingi.

Gjaldfrjáls námsgögn

„Uppbygging frumvarpsins tekur að nokkru leyti mið af lögum um námsgögn en í því felast nokkur mikilvæg nýmæli og breytingar sem ég ætla hér að fara yfir. Þar ber helst að nefna að í frumvarpinu er lagt til að öllum börnum að 18 ára aldri standi til boða gjaldfrjáls námsgögn í leik-, grunn- og framhaldsskólum á Íslandi.

Markmið með gjaldfrjálsum námsgögnum er að tryggja jöfn tækifæri allra barna til náms, sem er jafnframt í samræmi við áherslur barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og við eitt af markmiðum gildandi menntastefnu. Hingað til hafa gjaldfrjáls námsgögn einvörðungu átt við skyldunám í grunnskóla en í frumvarpinu felst sú grundvallarbreyting að aðgangur að gjaldfrjálsum námsgögnum verður einnig tryggður á leikskóla- og framhaldsskólastigi,“ sagði Ásmundur Einar.

„Þetta er enn eitt skrefið í því að tryggja öllum börnunum okkar jöfn tækifæri í skólakerfinu okkar. Það hlýtur að vera leiðarstef allra þeirra sem hafa hag barnanna okkar fyrir brjósti að tryggja að kostnaður verði aldrei steinn í götu þeirra þegar kemur að menntun og þetta er í raun meðal þeirra grundvallarréttinda sem barnasáttmálinn kveður á um. Risavaxið framfaraskref var tekið með því að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir og er sá sem hér stendur stoltur af því að halda áfram á þeirri pólitísku braut að tryggja að efnahagur komi ekki niður á skólagöngu barna.“

Ræða Ásmundar Einars í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks

Deila grein

20/09/2024

Skattalegir hvatar vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks

Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunar um skattalega hvata vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmið tillögunnar er að skapaður verði hvati með skattkerfinu fyrir fyrirtæki til þess að ráða til starfa hjá sér keppnis- og afreksíþróttafólk. Með því hafa fyrirtæki bæði aukinn sveigjanleika til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og aðstæður íþróttamanna og aukinn hvata til þess.

Tillögugreinin orðast svo:
„Alþingi ályktar að fela mennta- og barnamálaráðherra í samvinnu við fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem fái það verkefni að útfæra skattalega hvata til launagreiðenda, hvort sem er á opinberum eða almennum markaði, vegna launa keppnis- og afreksíþróttafólks. Markmiðið er að keppnis- og afreksíþróttafólk fái greidd laun að hluta eða að fullu frá launagreiðanda þegar það þarf að mæta á æfingar eða íþróttamót og launagreiðandi fái skattaívilnun á móti greiddum launum.
Ráðherra geri grein fyrir niðurstöðum starfshópsins í lok maímánaðar 2025.“

Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir Greinar

Mammon hefur náð líf­eyris­sjóðum á sitt band

Deila grein

19/09/2024

Mammon hefur náð líf­eyris­sjóðum á sitt band

Hagkaup hefur hafið sölu á áfengi í gegnum vefverslun. Viðskiptavinum gefst nú tækifæri til að kaupa áfengi á netinu og sækja í Skeifuna um leið og þú verslar ostinn og mjólkina. Jú þú getur verslað allan sólahringinn í Skeifunni. Hér hefur Mammon náð lífeyrissjóðunum á sitt band og Hagar eru að stórum hluta í almenningseigu. Með þessari stefnubreytingu er brotið blað og ættu þau félög sem hér um ræðir og eru í almenningseign að svara fyrir það hvort það sé þeirra stefna að brjóta niður það forvarnarstarfs sem hefur verið unnið að í áratugi.

Þetta er ekki fyrsta netverslunin hér á landi heldur fylla þær brátt tuginn. Þrátt fyrir að smásala áfengis sé ólöglegt fyrir utan ÁTVR. Ég myndi ekki æða út á ritvöllinn ef þetta væri almenn vara eins og sokkar eða hveiti. Við erum að tala um aðgengi að áfengi hefur aukist og ný vídd opnast við að þú hafir aðgengi að því allan sólahringinn.

Það er staðreynd að óhófleg áfengisneysla er böl fólks á öllum aldri. Það er talið að allt að 150 manns látist á hverju ári vegna þess. Fjölskyldur splundrast og ofbeldi eykst.

Íslenska forvarnarmódelið

Íslenska forvarnarmódelið er þekkt og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun. Það má segja að það sé orðið útflutningsvara. Haldnar hafa verið ráðstefnur á erlendri grundu þar sem íslenska módelið hefur verið kynnt og árangurinn af því. Danir hafa verið þekktir fyrir frjálsræði í áfengismálum og hægt að kaupa áfengi í öllum matvörubúðum. Nú eru stjórnvöld þar farin að horfa til okkar og nokkur sveitarfélög eru að taka upp forvarnarmódelið.

En hér heima eru öfl sem ætla að hundsa það út frá hugmyndafræðinni um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins getur aldrei orðið meira en það öryggi sem hann býr við.

Áfengisverslun ríkisins vinnur undir strangri löggjöf sem lýtur að því að áfengi sé ekki venjuleg vara heldur vara sem við þurfum að halda frá ungu fólki. ÁTVR er bundin af því að þeir hafa fasta álagningu á áfengi og álagning reiknast af innkaupaverði þeirra frá birgjum. Hagar flytja inn áfengi og eru þá líklega meðal birgja ÁTVR og nú er Hagkaup sem er í eigu Haga komin í samkeppni við ÁTVR á smásölu áfengis á Íslandi.

Það er margt skrýtið í kýrhausnum.

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. september 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Deila grein

19/09/2024

Hækkað frítekjumark eldri borgara

Við í Fram­sókn höf­um lagt áherslu á að vernda hag eldri borg­ara og síðustu ár hafa mik­il­væg skref verið tek­in í átt að því að bæta kjör þeirra. Eitt af þess­um skref­um er til­laga í fjár­lög­um sem nú eru til umræðu í þing­inu. Hækk­un á al­menna frí­tekju­mark­inu fyr­ir eldri borg­ara er mik­il­vægt skref til að stuðla að betri lífs­kjör­um fyr­ir þenn­an hóp. Á sama tíma og þetta skref er tekið er brýnt að greina sér­stak­lega þá ein­stak­linga inn­an hóps­ins sem eiga í mest­um efna­hags­leg­um erfiðleik­um og beina aðstoð til þeirra með mark­viss­ari hætti.

Al­menna frí­tekju­markið nær til allra eldri borg­ara og er það hlut­fall tekna sem eldri borg­ar­ar geta haft án þess að þær hafi áhrif á greiðslur þeirra frá Trygg­inga­stofn­un eða öðrum al­manna­trygg­ing­um. Nú ligg­ur fyr­ir til­laga í fjár­lög­um að hækka frí­tekju­markið, úr 25.000 kr. í 36.500 kr. á mánuði. Hækk­un frí­tekju­marks­ins þýðir að fleiri eldri borg­ar­ar geti haft aukn­ar tekj­ur án þess að þær skerði rétt­indi þeirra til líf­eyr­is­greiðslna. Slík­ar breyt­ing­ar stuðla að meira fjár­hags­legu ör­yggi og bættri af­komu þeirra eldri borg­ara sem eru virk­ir á vinnu­markaði eða hafa aðrar tekju­lind­ir. Hækk­un frí­tekju­marks­ins hef­ur því bein áhrif á lífs­gæði eldri borg­ara og ger­ir þeim kleift að lifa með meiri reisn. Fyr­ir marga er þetta mik­il­vægt, sér­stak­lega þegar horft er til hækk­andi verðlags, auk­ins hús­næðis­kostnaðar og kostnaðar við heil­brigðisþjón­ustu. Þessi hækk­un er tíma­bært skref en einnig er mik­il­vægt að hafa í huga þörf­ina á að halda áfram hækk­un frí­tekju­marks­ins í þrep­um á næstu árum.

Mik­il­vægi mark­vissr­ar aðstoðar

Þrátt fyr­ir þessi mik­il­vægu skref í að bæta lífs­kjör eldri borg­ara er staðreynd­in sú að efna­hags­staða þeirra er mjög mis­mun­andi. Fjár­hags­leg staða eldri borg­ara er al­mennt sterk þar sem sum­ir eiga tölu­verð eigna­söfn eða hafa áunnið sér eft­ir­laun úr líf­eyr­is­sjóðum, en aðrir búa hins veg­ar við fjár­hags­leg­an skort. Ein­stak­ling­ar sem hafa litla sem enga inn­eign í líf­eyr­is­sjóðum, búa við hátt leigu­verð og/​eða eiga ekki íbúðar­hús­næði eða hafa verið utan vinnu­markaðar stór­an hluta ævi sinn­ar, t.d. vegna heim­il­is­starfa eða veik­inda, geta upp­lifað fjár­hags­lega veika stöðu. Því er mik­il­vægt að greina þenn­an hóp sér­stak­lega svo stuðning­ur­inn rati í rétt­an far­veg. Eins mun verða nauðsyn­legt að skoða það bil sem orðið hef­ur á milli lægstu launa og elli­líf­eyr­is. Þenn­an mun verður að minnka í áföng­um yfir næstu ár.

Sam­fé­lags­leg ábyrgð

Sam­fé­lagið ber ríka ábyrgð á að tryggja að all­ir eldri borg­ar­ar fái tæki­færi til að lifa með reisn og ör­yggi á efri árum. Hækk­un frí­tekju­marks­ins er mik­il­vægt skref í þessa átt, en það er jafn­framt brýnt að við gleym­um ekki þeim sem búa við mest­an fjár­hags­leg­an skort eins og áður sagði. Með mark­vissri aðstoð og skýr­ari grein­ingu á þörf­um þessa hóps get­um við byggt upp rétt­lát­ara sam­fé­lag þar sem all­ir eldri borg­ar­ar fá sömu tæki­færi til að njóta ævikvölds­ins. Það er ekki nóg að horfa á meðal­töl­in eða al­menn­ar breyt­ing­ar; við verðum að skilja að það eru hóp­ar sem þurfa á sér­tæk­um aðgerðum að halda. Með því að sam­eina hækk­un frí­tekju­marks við mark­viss­ar aðgerðir fyr­ir þá sem hafa það verst get­um við tryggt betri lífs­kjör fyr­ir alla eldri borg­ara.

Ingibjörg Isaksen, þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. september 2024.

Categories
Fréttir

Mammon hefur náð lífeyrissjóðunum á sitt band

Deila grein

18/09/2024

Mammon hefur náð lífeyrissjóðunum á sitt band

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, gerði að umtalsefni í störfum þingsins að hafin sé sala á áfengi í gegnum vefverslun Hagkaups. „Viðskiptavinum gefst nú tækifæri til að kaupa áfengi á netinu og sækja í Skeifuna um leið og þeir kaupa ostinn og mjólkina, sem þeir geta gert í Skeifunni allan sólarhringinn.“

„Hér hefur mammon náð lífeyrissjóðunum á sitt band og Hagar eru að stórum hluta í almenningseigu. Þetta er ekki fyrsta netverslunin hér á landi heldur fylla þær brátt tuginn þrátt fyrir að smásala á áfengi sé ólögleg fyrir utan ÁTVR,“ sagði Halla Signý.

„Ég stæði ekki hér ef þetta væri almenn vara eins og sokkar eða hveiti. Við erum að tala um að aðgengi að áfengi hefur aukist og ný vídd opnast við að þú hafir aðgengi að því allan sólarhringinn. Það er staðreynd að óhófleg áfengisneysla er böl fólks á öllum aldri. Það er talað um að 150 manns látist á hverju ári vegna þess. Fjölskyldur splundrast og ofbeldi eykst.

Íslenska forvarnamódelið er þekkt og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun. Það má segja að það sé orðin útflutningsvara. Haldnar hafa verið ráðstefnur á erlendri grundu þar sem íslenska módelið hefur verið kynnt og árangurinn af því. En hér heima eru öfl sem ætla að hunsa það út frá hugmyndafræði um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins getur aldrei orðið meira en það öryggi sem hann býr við.

ÁTVR vinnur nú undir strangri löggjöf sem lýtur að því að áfengi sé ekki venjuleg vara heldur vara sem við þurfum að halda frá ungu fólki. ÁTVR er bundið af því að þeir hafi fasta álagningu á áfengi og álagning reiknist af innkaupsverði þeirra frá birgjum. Hagar flytja inn áfengi og eru þá líklega meðal birgja ÁTVR. Og nú eru Hagkaup, sem eru í eigu Haga, komin í samkeppni við ÁTVR um smásölu áfengis á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það er margt skrýtið í kýrhausnum,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Hagkaup hafa hafið sölu á áfengi í gegnum vefverslun. Viðskiptavinum gefst nú tækifæri til að kaupa áfengi á netinu og sækja í Skeifuna um leið og þeir kaupa ostinn og mjólkina, sem þeir geta gert í Skeifunni allan sólarhringinn. Hér hefur mammon náð lífeyrissjóðunum á sitt band og Hagar eru að stórum hluta í almenningseigu. Þetta er ekki fyrsta netverslunin hér á landi heldur fylla þær brátt tuginn þrátt fyrir að smásala á áfengi sé ólögleg fyrir utan ÁTVR.

Ég stæði ekki hér ef þetta væri almenn vara eins og sokkar eða hveiti. Við erum að tala um að aðgengi að áfengi hefur aukist og ný vídd opnast við að þú hafir aðgengi að því allan sólarhringinn. Það er staðreynd að óhófleg áfengisneysla er böl fólks á öllum aldri. Það er talað um að 150 manns látist á hverju ári vegna þess. Fjölskyldur splundrast og ofbeldi eykst.

Íslenska forvarnamódelið er þekkt og hefur skilað góðum árangri í baráttunni gegn áfengis- og tóbaksnotkun. Það má segja að það sé orðin útflutningsvara. Haldnar hafa verið ráðstefnur á erlendri grundu þar sem íslenska módelið hefur verið kynnt og árangurinn af því. En hér heima eru öfl sem ætla að hunsa það út frá hugmyndafræði um frelsi einstaklingsins. Frelsi einstaklingsins getur aldrei orðið meira en það öryggi sem hann býr við.

ÁTVR vinnur nú undir strangri löggjöf sem lýtur að því að áfengi sé ekki venjuleg vara heldur vara sem við þurfum að halda frá ungu fólki. ÁTVR er bundið af því að þeir hafi fasta álagningu á áfengi og álagning reiknist af innkaupsverði þeirra frá birgjum. Hagar flytja inn áfengi og eru þá líklega meðal birgja ÁTVR. Og nú eru Hagkaup, sem eru í eigu Haga, komin í samkeppni við ÁTVR um smásölu áfengis á Íslandi.

Virðulegi forseti. Það er margt skrýtið í kýrhausnum.“

Categories
Fréttir

„Vegir eru lífæðar samfélaga“

Deila grein

18/09/2024

„Vegir eru lífæðar samfélaga“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, gerði að umræðuefni í störfum þingsins stöðu vegakerfisins og það augljósa að þeir séu ekki gerðir fyrir þá þungu umferð, þann fjölda bíla eða þá atvinnuvegi sem um þá aka í dag. Það að ekki hafi tekist að samþykkja nýja samgönguáætlun skapi ýmiss konar vandræði, áframhaldandi gott viðhald og að uppbygging sé á áætlun.

„Við búum svo vel að því að hafa samgönguáætlun þar sem forgangsröðun þingsins kemur fram hvað varðar framkvæmdir í vegamálum. Samgönguáætlun var lögð fram hér á síðasta löggjafarþingi. Hún kláraðist því miður ekki og við sjáum að það hefur skapað ýmiss konar vandamál. Það er ljóst að fyrri samgönguáætlun á að vera enn í gildi,“ sagði Lilja Rannveig.

„En varðandi þessi mál vil ég nefna sérstaklega stöðuna í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Framkvæmdir á Vestfjörðum eru núna stopp. Malarvegir eru flestir á Vesturlandi og Norðvesturlandi og sumir vegir sem hafa bundið slitlag bera einfaldlega ekki þá umferð sem á þeim er og þeim var breytt í malarvegi aftur. Þetta gerðist í sumar í Dalabyggð og hefur nú að mestu verið lagfært. En það er ljóst að þetta getur gerst aftur. Það er ljóst að uppbygging vega í Norðvesturkjördæmi er nauðsynleg og það þarf að gæta að því að það svæði verði ekki undir í samgönguáætlun sem á að koma fram hér í haust.

Vegir eru lífæðar samfélaga og þess vegna þarf fólk að geta treyst á það að viðhald og uppbygging þeirra séu á áætlun og að áætlanir standist,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Nú er mikið rigningarsumar að baki, ef sumar má kalla. Það kom þó ekki í veg fyrir að landsmenn settust undir stýri og keyrðu um landið. Eins og margir landsmenn tóku eftir er staða vegakerfisins þannig að þó að vegir séu á mörgum stöðum mjög góðir þá er augljóst að þeir eru ekki gerðir fyrir þá þungu umferð, þann fjölda bíla eða þá atvinnuvegi sem þeir bera í dag. Við búum svo vel að því að hafa samgönguáætlun þar sem forgangsröðun þingsins kemur fram hvað varðar framkvæmdir í vegamálum. Samgönguáætlun var lögð fram hér á síðasta löggjafarþingi. Hún kláraðist því miður ekki og við sjáum að það hefur skapað ýmiss konar vandamál. Það er ljóst að fyrri samgönguáætlun á að vera enn í gildi.

En varðandi þessi mál vil ég nefna sérstaklega stöðuna í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Framkvæmdir á Vestfjörðum eru núna stopp. Malarvegir eru flestir á Vesturlandi og Norðvesturlandi og sumir vegir sem hafa bundið slitlag bera einfaldlega ekki þá umferð sem á þeim er og þeim var breytt í malarvegi aftur. Þetta gerðist í sumar í Dalabyggð og hefur nú að mestu verið lagfært. En það er ljóst að þetta getur gerst aftur. Það er ljóst að uppbygging vega í Norðvesturkjördæmi er nauðsynleg og það þarf að gæta að því að það svæði verði ekki undir í samgönguáætlun sem á að koma fram hér í haust. Vegir eru lífæðar samfélaga og þess vegna þarf fólk að geta treyst á það að viðhald og uppbygging þeirra séu á áætlun og að áætlanir standist.“