Categories
Fréttir

Jómfrúarræða Höllu Hrundar á Alþingi: Setjum orkuöryggi almennings í forgang

Deila grein

12/02/2025

Jómfrúarræða Höllu Hrundar á Alþingi: Setjum orkuöryggi almennings í forgang

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, flutti í dag jómfrúarræðu sína í störfum þingsins á Alþingi. Sagði hún að í umræðu um orkumál verði að hafa í huga að staða mála geti breyst hratt. Fyrir áratug hafi álverið í Helguvík verið blásið af. Það hafi verið nægt „framboð af raforku á lágu verði og heimsfaraldurinn hjálpaði þar til því að hagkerfi heimsins drógust saman. Þetta gjörbreyttist hins vegar, eins og við þekkjum, á stuttum tíma eftir Covid. Bitcoin hækkaði í verði, álverð hækkaði í verði, landeldi kom inn á markaðinn og eftirspurn jókst hratt,“ sagði Halla Hrund.

„Hvað mun það þýða fyrir okkur hér á Íslandi, fyrir eftirspurn hér? Það er eitthvað sem við þingmenn þurfum að þekkja. Mig langar þó að brýna sérstaklega nýja ríkisstjórn til að setja orkuöryggi almennings í forgang og beini því sérstaklega til nýs ráðherra að hafa stórt samfélagshjarta í þessum málaflokki, setja áherslu á jarðhitaleit, fæðuöryggi og það að tengja saman dreifðari byggðir sem sannarlega þurfa á því að halda.“


Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Kæri þingheimur og kæra þjóð. Ég óska nýrri ríkisstjórn velfarnaðar í störfum sínum og ekki síst í orkumálunum sem þegar hafa orðið bitbein í þessum sal. Megi traust ríkja í nýtingu okkar fjölbreyttu og verðmætu auðlinda og ekki síður í náttúruvernd, orði sem ég hef saknað að sé nefnt með skýrum hætti hér í þingsal. Í áframhaldandi umræðu um orkumál þarf að hafa í huga að staða mála getur breyst hratt. Horfum áratug aftur í tímann. Þá var álverið í Helguvík blásið af, það var nægt framboð af raforku á lágu verði og heimsfaraldurinn hjálpaði þar til því að hagkerfi heimsins drógust saman. Þetta gjörbreyttist hins vegar, eins og við þekkjum, á stuttum tíma eftir Covid. Bitcoin hækkaði í verði, álverð hækkaði í verði, landeldi kom inn á markaðinn og eftirspurn jókst hratt. Við sáum líka eftirspurn aukast hratt vegna áskorana í Evrópu, orkukrísunnar og í ofanálag var fólksfjölgun hér á landi að aukast mikið. Samtímis var minna af orku í boði því að lón Landsvirkjunar voru sögulega lág, sem hefur reyndar breyst undanfarið með slagveðrinu sem hefur gengið yfir.

Ég segi þetta því að það hafa orðið miklar sviptingar bara á síðustu fimm árum og síðustu fimm ár eru eins og eitt kjörtímabil rúmlega í lengd. Þetta er því góð áminning um að ytri þættir geta breyst hratt sem hafa mikil áhrif á okkar orkumál. Bandaríkin og Evrópa tilkynntu t.d. nýlega um umfangsmiklar fjárfestingar í orkuinnviðum og gervigreind. Og ég spyr: Hvað mun það þýða fyrir okkur hér á Íslandi, fyrir eftirspurn hér? Það er eitthvað sem við þingmenn þurfum að þekkja. Mig langar þó að brýna sérstaklega nýja ríkisstjórn til að setja orkuöryggi almennings í forgang og beini því sérstaklega til nýs ráðherra að hafa stórt samfélagshjarta í þessum málaflokki, setja áherslu á jarðhitaleit, fæðuöryggi og það að tengja saman dreifðari byggðir sem sannarlega þurfa á því að halda. Um leið þarf að gæta að nýtni, nýsköpun og náttúruvernd sem mun reyna á með tilkomu vindorku. Sláum samvinnutón í orkumálum, vinnum þau faglega án upphrópana og ásakana því það er það sem Ísland á skilið.“

Categories
Fréttir Greinar

Ég er karl með vesen

Deila grein

12/02/2025

Ég er karl með vesen

„Konurnar verða að koma og taka til þegar karlarnir eru með vesen og skella öllu í uppnám” – Dóra Björt Guðjónsdóttir, oddviti Pírata um meirihlutaslitin og nýjar viðræður.

Þessir karlar

Þeir eru ótrúlegir þessir karlar sem skella öllu í uppnám. Karlar sem með fjölbreyttum leiðum vilja fækka börnum á biðlistum eftir leikskólaplássi og karlar sem vilja koma á heimgreiðslum til að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla og létta þannig undir með fjárhagslegum birgðum foreldra á meðan þeir bíða eftir dagvistun. Karlar sem vilja byggja meira, bæði þétta byggð en líka ryðja nýtt land því það þarf að byggja meira og hraðar. Karlar sem vilja nýtt hverfi í Úlfarsárdal og á Kjalarnesi og kanna fýsileika þess að ráðast í að skipuleggja byggð á Geldinganesi. Karlar sem vilja bæta þjónustu og samskipti við borgarbúa. Karlar sem telja rekstaröryggi Reykjavíkurflugvallar ekki vera ,,átyllu.” Karlar sem vilja taka til í rekstri borgarinnar vegna þess að þeir vita að það er grundvöllur þess að hægt sé að þjónusta borgarana með þeim hætti sem þeir eiga skilið. Karlar sem vilja fara betur með skattfé borgarbúa. Karlar sem vilja að fólk hafi raunverulegt val um ferðamáta hvort sem hann er gangandi, hjólandi, í almenningssamgöngum eða á fjölskyldubílnum. Karlar sem vilja bíða með bílastæðastefnuna þar til borgarlína hefur hafið akstur.

Karlar sem slíta meirihluta því að þeir átta sig á því að þessi mál falla fyrir daufum eyrum samstarfsflokka. Karlar sem átta sig á því að þolinmæli almennings eftir breytingum er á þrotum. Þessir karlar. Óttalegt vesen.

Að slíta meirihluta er ekki léttvæg ákvörðun og svo sannarlega ekki ákvörðun sem einn einstaklingur tekur. Jafnvel þótt að hann sé karlmaður. Þú slítur ekki meirihluta án þess að vera með liðið þitt með þér. En ef það eru karlarnir sem eru með vesen þá hlýt ég að vera ein af þeim.

Að taka þátt í meirihlutasamstarfi snerist ekki um að halda í titla eða stóla heldur trúnað við fólkið í borginni og þau verkefni sem okkur eru falin.

Orð sem fela í sér smættun á konum í stjórnmálum

Þetta snýst heldur ekki um kyn einstaklinganna sem hér um ræðir. Með þessu er ég ekki að segja að ég viti ekki að konur í stjórnmálum hafa lengi átt erfitt uppdráttar á þeim vettvangi og ég þekki vel það mótlæti sem konur upplifa í stjórnmálastarfi. Við í Framsókn viljum ekkert meira en jafnrétti allra kynja – en það að segja að karlarnir séu ,,með vesen og skelli öllu í uppnám” smættir aðra borgarfulltrúa Framsóknar sem eru kvenkyns. Borgarfulltrúa sem vilja taka stærri ákvarðanir en þessi meirihluti var tilbúinn að gera.

Borgarbúar eiga einmitt betra skilið.

Magnea Gná Jóhannsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 12. febrúar 2025.

Categories
Fréttir

Forgangsmál þingflokks Framsóknar

Deila grein

12/02/2025

Forgangsmál þingflokks Framsóknar

Þingflokkur Framsóknar hefur sett fram þrjú sérstök forgangsmál á þessum þingvetri. Þetta eru tillögur um óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma, um jarðakaup erlendra aðila og um orkuöryggi almennings.

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, leggur fram tillögu um „að fela fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Ráðherra kynni Alþingi aðgerðaáætlunina eigi síðar en haustið 2025.“ Markmið tillögunnar er að tryggja að bankar geti boðið fasteignakaupendum hér á landi upp á óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma enda er það réttlætismál fyrir neytendur á Íslandi. Slíkt fyrirkomulag þekkist á Norðurlöndum og víðar og treystir fyrirsjáanleika við fjármögnun húsnæðis.

„Íslenskir bankar eru of smáir til að eiga þess kost að bjóða fram slíka fjármálaþjónustu, þar sem þeir eru að hluta bundnir af eigin fjármögnunarkjörum. Íslenska ríkið og lífeyrissjóðir eru að vissu leyti í yfirburðastöðu á íslenskum fjármálamarkaði og geta með einfaldari hætti og á hagstæðari kjörum haft aðgang að langtímafjármögnun.

Viðfangsefnið gengur út á að bankar geti fjármagnað húsnæðislán á óverðtryggðum vöxtum til lengri tíma en þeir bjóða upp á í dag. Með breyttum reglum og þróaðri fjármálamarkaði, til að mynda í gegnum vaxtaskiptasamninga, en það eru samningar þar sem aðilar skiptast á föstum og breytilegum vaxtagreiðslum af tilteknum höfuðstól yfir ákveðið tímabil, er hægt að auðvelda bönkum að bjóða upp á slík lán,“ segir í greinargerð með tillögunni.


Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, leggur fram tillögu um að skipaður verði sérfræðihópur „sem útfæri frekari breytingar á lögum með það að markmiði að takmarka jarðakaup erlendra aðila hér á landi. Starfshópurinn skili drögum að frumvarpi sem lagt verði fram af atvinnuvegaráðherra eigi síðar en á haustþingi 2025.“

„Fram hefur komið að kaup erlendra aðila á jörðum til útflutnings á jarðefnum eru í undirbúningi á Mýrdalssandi. Upphaflega hugsunin á bak við lög um nýtingu jarðefna var m.a. að bændur og Vegagerðin hefðu auðvelt aðgengi að möl og sandi til að byggja fjárhús og leggja vegi. Lögunum var ekki ætlað að stuðla að útflutningi jarðefna. Þá hafa jarðir verið seldar með vatnsréttindum til félaga í erlendri eigu. Vatnalögum, nr. 15/1923, var m.a. ætlað að tryggja sveitarfélögum aðgengi að vatni. Þau gerðu ekki ráð fyrir að vatn væri mikilvæg verðmæti í hlýnandi heimi sem flest önnur ríki hafa kortlagt út í ystu æsar. Áhugi á jarðakaupum í tilgangi orkunýtingar og innviða fer vaxandi en dæmi um slíkt má finna í vatnsafli, vindi og jarðhita. Græna orkan er olía framtíðarinnar og eignarhald á slíkum auðlindum þarf að hugsa til langs tíma. Erlendir aðilar hafa einnig verið að kaupa jarðir sem hafa að geyma mikilvægt ræktarland sem getur sett takmarkanir á nyt þess í landbúnaði og matvælaframleiðslu í framtíðinni.

Þróunin vekur upp margs konar spurningar um nauðsyn þess að styrkja lagaramma og stjórnsýslu þessara málaflokka,“ segir í greinargerð tillögunnar.


Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, leggur einnig fram tillögu um að stjórnvöld leggji „fram frumvarp sem tryggi orkuöryggi almennings og stuðli um leið að hagkvæmu og stöðugu verðlagi raforku til þessa hóps, eigi síðar en á vorþingi 2025.“

„Miklar breytingar hafa orðið á orkuumhverfi Íslands undanfarin ár og eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku er sífellt að aukast. Í dag er ekkert því til fyrirstöðu að almenningur í landinu verði hreinlega undir í samkeppninni um raforku bjóði stærri kaupandi betur. Engin lagaleg úrræði eru fyrir hendi til að koma í veg fyrir slíkt ástand. Almenningur er þannig á ystu nöf í ölduróti orkumarkaðarins á meðan stórir raforkunotendur búa við langtímasamninga sem tryggja raforkuþörf þeirra.“

„Áður fyrr bar Landsvirkjun skýra lagalega ábyrgð á því að tryggja orkuöryggi almennings, þ.e. fyrir heimilin og venjuleg fyrirtæki. Þegar orkulöggjöf Evrópusambandsins var fyrst tekin upp í íslenskan rétt var þessi ábyrgð Landsvirkjunar felld úr gildi án þess að nýjar lausnir væru innleiddar. Þó eru margar leiðir færar innan Evrópulöggjafarinnar, ekki síst í kjölfar orkukrísu álfunnar, en þær hafa ekki verið innleiddar í lög hér á landi. Vernd fyrir heimilin í landinu og aðra minni orkunotendur er því ekki séríslensk krafa enda raforka íbúa nauðsynjavara og grunnþjónusta við borgara, sem ekki er hægt að skipta út með hraði.
Færa má sterk rök fyrir því að það sé nauðsynlegt að tryggja bæði heimilum og minni orkunotendum aðgengi að raforku óháð orkuframleiðslu hverju sinni, en þó reynir sérstaklega á þegar umframeftirspurn er til staðar. Þetta er sérlega mikilvægt að útfæra á Íslandi þar sem hér er um að ræða einstakt einangrað raforkukerfi sem fylgir sveiflum í skilyrðum náttúrunnar sjálfrar, orku úr vatnsafli og jarðvarma sameiginlegra auðlinda, og hér er ekki hægt að stóla á varabirgðir annars staðar frá,“ segir í greinargerð tillögunnar.

Categories
Fréttir

Pólitísk inngrip í kjaraviðræður geta verið farsæl með gegnsæjum hætti og í samvinnu

Deila grein

11/02/2025

Pólitísk inngrip í kjaraviðræður geta verið farsæl með gegnsæjum hætti og í samvinnu

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, beindi orðum til forsætisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Sagði hún stöðuna í kjaradeilu kennara alvarlega, deilu þar sem traust var það mikið fyrir kosningar að verkfalli var frestað í von um farsæla niðurstöðu, en er nú rofið.

„Við í Framsókn höfum sýnt að pólitísk inngrip í kjaraviðræður geta verið farsæl en slíkt verður að gerist með skýrum gegnsæjum hætti og í samvinnu allra aðila við borðið. Þess vegna vekur það mikla undrun að kennarar hafi talið samninga vera í höfn en svo slitnaði upp úr viðræðum á síðustu stundu og er talað um að þar hafi pólitíkin skemmt fyrir. Hvaða afskipti höfðu aðilar ríkisstjórnarinnar af viðræðum sem urðu til þess að þær fóru í uppnám? Við getum nefnilega ekki litið fram hjá því hvaða áhrif þessi verkföll hafa og mest bitna þau á börnunum okkar,“ sagði Ingibjörg.

„Starf kennara hefur breyst mikið á undanförnum árum. Verkefnin eru orðin fjölbreyttari og krefjandi og ekki aðeins vegna breytinga á námsefni og kennsluháttum og vegna fjölbreyttara samfélags heldur einnig vegna síaukinnar ábyrgðar í velferðarmálum nemenda. Það er mikilvægt að við stöndum með kennurum og styðjum þá í starfi og bætum starfsaðstæður þeirra. Að öðrum kosti heldur fagmenntuðum kennurum áfram að fækka í stéttinni og það er þróun sem við höfum ekki efni á. Menntakerfið er undirstaða samfélagsins og án öflugra kennara verður framtíðin okkar ekki eins björt. Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Með hvaða hætti hyggst ríkisstjórnin rjúfa þessa stöðnun og koma á ásættanlegum samningum við kennara?“

Sjá nánar: Aðkoma stjórnvalda að kjaradeilu kennara.

Categories
Fréttir

„Það er almannavarnaástand“

Deila grein

11/02/2025

„Það er almannavarnaástand“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, átti orðastað við forsætisráðherra á Alþingi um afstöðu stjórnvalda til Reykjavíkurflugvallar í óundirbúnum fyrirspurnartíma. „Í áratugi hefur Samfylkingin verið með andóf gegn Reykjavíkurflugvelli í borgarstjórn Reykjavíkur, talað ótal sinnum um að nauðsynlegt sé að flugvöllurinn fari og komið alls konar hugmyndum á framfæri sem hafa takmarkað rekstraröryggi og minnkað öryggi flugvallarins, eins og uppbyggingunni á Hlíðarenda, eins og að þráskallast við í meira en áratug,“ sagði Sigurður Ingi.

„Það er almannavarnaástand. Forsætisráðherra, hvað ætlar dómsmálaráðherra að gera í því? Hvað ætlar heilbrigðisráðherra að gera í því að sjúkraflugið er stopp og heilbrigðismál eru upp í loft? Hvað ætlar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera í stjórnsýslunni sem er með Samgöngustofu og Isavia? Þess vegna spyr ég forsætisráðherra, þetta heyrir undir fleiri ráðuneyti. Hver er stefna Samfylkingarinnar í raun? Það þurfti að sprengja meiri hlutann í Reykjavík til þess að oddviti Samfylkingarinnar í beinni útsendingu í gær fór að tala um að Reykjavíkurflugvöllur væri þar sem hann væri og væri sennilega mikilvægur og ekkert að fara. Það er alveg nýtt hljóð. Er það hin nýja stefna Samfylkingarinnar? Er það vegna þess að núverandi borgarstjóri, Einar Þorsteinsson, er byrjaður að saga niður þessi tré sem er löngu tímabært að saga? Hvort sem þau verða tugir í dag og 500 á næstu tveimur vikum sem borgarstjóri ætlar að hafa forgöngu um þá er það mikilvægt. En hver er stefna ríkisstjórnarinnar með Samfylkinguna í broddi fylkingar?“

Sjá nánar: Afstaða stjórnvalda til Reykjavíkurflugvallar.

Categories
Fréttir

Ræða Stefáns Vagns

Deila grein

11/02/2025

Ræða Stefáns Vagns

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, var seinni ræðumaður Framsóknar á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra á mánudagskvöldið.

Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Kæru Íslendingar. Ég vil í upphafi ræðu minnar byrja á að óska nýkjörnum þingmönnum til hamingju með kjörið og velfarnaðar í störfum þeirra hér á Alþingi. Sömuleiðis vil ég óska nýrri ríkisstjórn farsældar.

Ný þingmálaskrá hefur verið lögð fram af nýrri ríkisstjórn og verð ég að segja að sú skrá kemur á óvart að mörgu leyti. Hér í þessum þingsal á síðasta kjörtímabili var mikið fjallað um störf og málefni þáverandi ríkisstjórnar, eðlilega, og þeir flokkar sem nú sitja í ríkisstjórn gagnrýndu stefnuleysi og stjórnarmál af miklum þunga. Því kemur á óvart að sjá að um helmingur þeirra mála sem eru í nýrri þingmálaskrá eru annaðhvort endurflutt eða voru í undirbúningi í ráðuneytum undir forystu fyrrverandi ríkisstjórnar. Þannig að, virðulegur forseti, staðan var mögulega ekki eins slæm og látið var í veðri vaka hér á Alþingi eða a.m.k. ber ný þingmálaskrá þess ekki merki. Eins er ljóst við yfirlestur þingmálaskrár að eitthvað vantar nú upp á að þau loforð sem gefin voru fyrir kosningar, sum ófrávíkjanleg, séu sýnileg. Mögulega eiga þau eftir að líta dagsins ljós eða voru látin niður falla þar sem enginn flokkur fékk yfir 50% í kosningunum. En þá er það víst þannig að þá gilda loforðin ekki lengur og breytast í markmið eða stefnur sem ekki þarf að standa við. Ónefndur ráðherra sagði eitt sinn fyrir mörgum árum þegar hann var inntur eftir óuppfylltu loforði vestur á fjörðum: Ég meinti það þegar ég sagði það. Það á kannski við hér.

Mikilvæg verkefni bíða í samgöngumálum en lítið sést á spil nýrrar ríkisstjórnar í þeim efnum. Í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, náðist að setja inn framkvæmdir á Dynjandisheiði og í Gufudalssveit í fjárlög fyrir árið 2025 og mjög mikilvægt að þau verkefni haldi áfram og klárist eins og lagt var upp með. Loforð um tvenn jarðgöng á hverjum tíma eins og hæstv. innviðaráðherra lofaði fyrir kosningar sjást hins vegar ekki og ný samgönguáætlun mun ekki líta dagsins ljós fyrr en mögulega í haust. Það verður áhugavert að sjá nýja forgangsröðun hæstv. ráðherra sem hefur farið mikinn um samgöngubætur, m.a. í Norðvesturkjördæmi, og við sem þar búum væntum þess að sjálfsögðu að það raungerist í nýrri áætlun. Má þar nefna loforð um Álftafjarðargöng, göng um Mikladal og Hálfdán, eða Suðurfjarðagöng, tvöföldun Hvalfjarðarganga og göng undir Klettháls. Öllu var lofað.

Miðað við málflutning hæstv. innviðaráðherra á síðasta löggjafarþingi þá var hann duglegur að ítreka að nóg væri til og ekkert að vanbúnaði. En í upphafi stjórnarmyndunarviðræðna komu oddvitar ríkisstjórnarinnar fram og sögðu að nýjar upplýsingar um stöðu ríkissjóðs til hins verra gerðu það að verkum að ekki væri hægt að fara í þau mál sem lofað hafði verið fyrir kosningar, því miður. Breyttar forsendur. Umræddar upplýsingar lágu hins vegar fyrir við gerð fjárlaga ársins 2025 og fulltrúar allra flokka í fjárlaganefnd voru fullmeðvitaðir um breytta stöðu og því hefði þetta ekki átt að koma fulltrúum ríkisstjórnarinnar neitt á óvart. Upplýsingarnar komu fram fyrir 2. umræðu fjárlaga í nóvember, fyrir kosningar, og þetta er því ódýr eftiráskýring sem stenst enga skoðun.

Af nægu er að taka, virðulegur forseti, og ekki er hægt að fara yfir allt hér á þessum stutta tíma en það er ekki hægt að láta hjá líða að ræða það stórundarlega mál sem er að hæstv. ráðherra, sem hefur opinberlega lýst yfir þeirri skoðun að bókun 35 standist ekki stjórnarskrá Íslands, ætlar nú ekki aðeins að styðja málið heldur er ráðherra í ríkisstjórn sem ætlar að leggja umrætt mál fram, mál sem hæstv. ráðherra hefur fullyrt að standist ekki stjórnarskrá Íslands. Fyrsta mál á dagskrá nýrrar ríkisstjórnar. Hvernig þetta getur gerst er hulin ráðgáta og verður fróðlegt að fylgjast með umræðunni hér í þingsal þegar málið mun koma fram. En hér sannast það að vika er svo sannarlega langur tími í pólitík. Og sýslumannsembættin, virðulegur forseti, að sameina sýslumannsembættin í eitt, að taka burtu eina og æðsta embættismann ríkisins í hverjum landshluta,við í Framsókn styðjum ekki þá vegferð. Við styðjum hins vegar að auka samstarf, verkaskiptingu og samvinnu allra embætta.

Virðulegur forseti. Mig langar hér í lokin að enda á jákvæðum nótum og hvetja nýja ríkisstjórn til dáða. Ég efast ekki um og veit að við öll hér inni erum að vinna af heilindum með það að markmiði að gera Ísland betra í dag en það var í gær. Þó að áherslur og stefnur séu ólíkar er markmiðið það sama. Ég hlakka til samstarfsins á komandi mánuðum og óska þinginu velfarnaðar í sínum störfum fyrir land og þjóð.“

Categories
Fréttir

Birkir Jón nýr aðstoðarmaður formanns

Deila grein

11/02/2025

Birkir Jón nýr aðstoðarmaður formanns

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, hefur ákveðið að ráða Birki Jón Jónsson sem nýjan aðstoðarmann formanns. Birki Jón þarf vart kynna, hann var alþingismaður á árunum 2003-2013 og varaformaður Framsóknar 2009-2013. Sat hann í bæjarstjórn Fjallabyggðar 2006-2010 og eins var hann bæjarfulltrúi í Kópavogi 2014-2022, þar af formaður bæjarráðs 2018-2022.

Birkir Jón lauk stúdentsprófi frá FNV á Sauðárkróki 1999, nám í stjórnmálafræði frá HÍ 2000-2004 og MBA í viðskiptafræði frá HÍ 2009.

Á Alþingi sat Birkir Jón m.a. í fjárlaganefnd, atvinnuveganefnd, efnahags- og viðskiptanefnd og velferðarnefnd. Eins hefur Birkir Jón reynslu af alþjóðastarfi á Alþingi, sat hann í Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA og Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins.

Birkir Jón er boðinn velkominn til starfa.

Categories
Fréttir

Ræða Sigurðar Inga

Deila grein

11/02/2025

Ræða Sigurðar Inga

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, var fyrri ræðumaður Framsóknar á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra á mánudagskvöldið.

Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Við upphaf kjörtímabils er ástæða til að óska nýrri ríkisstjórn, nýjum alþingismönnum, velfarnaðar í störfum og um leið ber ég þá ósk í brjósti að stjórnmálin muni sameina en ekki sundra þjóðinni á tímum þar sem samstaða og samvinna eru lykilatriði.

Við fögnuðum öll í síðustu viku þegar Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um hálft prósent, í þriðja skiptið í röð sem vextir lækka. Þetta er í takt við áætlanir síðustu ríkisstjórnar og byggir á efnahagsstefnu síðustu ára. Allar forsendur eru fyrir áframhaldandi lækkun stýrivaxta en þá þarf ríkisstjórnin að sýna trúverðugleika við stjórn efnahagsmála. Nú reynir á.

Illviðri síðustu daga vikunnar urðu til þess að ríkisstjórnarflokkarnir blésu af stefnuræðu fimmtudagsins hér á Alþingi. Þrátt fyrir talsvert tjón á mannvirkjum víða um land slapp mannfólkið og það er vel. Það er hins vegar grafalvarlegt þegar allra veðra er von að þá skuli vera búið að loka einni af flugbrautum Reykjavíkurflugvallar, miðstöð innanlandsflugs og mikilvægasta hlekksins í sjúkraflugi. Við þessa stöðu getur enginn sætt sig. Við í Framsókn munum berjast fyrir að rekstraröryggi vallarins verði tryggt.

Nú í upphafi þings leggjum við í Framsókn áherslu á áframhaldandi uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, neytendamál með áherslu á íbúðalán og húsnæðisöryggi en einnig orkuöryggi heimila og minni fyrirtækja. Við höfum lagt fram þingmál um að hægt verði að taka 25 ára óverðtryggð íbúðalán á föstum vöxtum. Auk þess leggjum við mikla áherslu á að halda áfram uppbyggingu leiguhúsnæðis í samvinnu við óhagnaðardrifin leigufélög en nú þegar hefur verið veittur stuðningur við byggingu rúmlega 4.000 íbúða. Auk þess er mikilvægt að efla hlutdeildarlánin sem er lausn sem hefur nýst yfir eitt 1.000 fjölskyldum að eignast sitt eigið húsnæði. Í þessum málum erum við í Framsókn ánægð að sjá að ný ríkisstjórn ætlar að halda áfram þeirri uppbyggingu sem við settum svo myndarlega af stað.

Atvinna er undirstaða alls. Verðmætasköpun er grundvöllur að góðum lífskjörum. Atvinnuleysi á Íslandi er hverfandi miðað við það sem gerist hjá mörgum Evrópuþjóðum, ESB-þjóðum sérstaklega, þar sem atvinnuleysi ungs fólks er víða talið í tugum prósenta. Það er valkosturinn fyrir Ísland.

Mér fannst og finnst við lestur þingmálaskrár og stefnuræðu forsætisráðherra nýrrar ríkisstjórnar að þar skorti verulega skilning á mikilvægi atvinnulífsins, ekki síst úti um land. Við í Framsókn munum standa vörð um atvinnumál um allt land, um auðlindirnar, um fullveldið. Andlandsbyggðarstefna ríkisstjórnarinnar birtist t.d. í hugmyndum um að stórhækka skattlagningu á sjávarútveginn sem mun ekki síst bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum í sjávarútvegi og hvetja til enn frekari samþjöppunar. Og hver er eiginlega stefna ríkisstjórnarinnar varðandi íslenskan landbúnað? Samkvæmt þingmálaskrá á að taka af sjálfsagðan rétt bænda til samstarfs í eigin fyrirtækjum, rétt sem allir bændur í allri Evrópu hafa, taka fram fyrir hendur æðsta dómstól landsins sem hefur málið til umfjöllunar. Og eru það almannahagsmunir að ganga erinda heildverslunar í að breyta réttri skilgreiningu á því hvað er ostur og lækka toll á innfluttar iðnaðarafurðir sem eru í samkeppni við innlenda hreina matvælaframleiðslu? Nei, það er sérhagsmunagæsla.

Virðulegi forseti. Í viðsjárverðum heimi er ekki eitt orð um fæðuöryggi í stefnuræðu forseta eða þingmálaskrá. Og hver er stefna ríkisstjórnarinnar í málefnum ferðaþjónustunnar? Hringl í skattheimtuhugmyndum. Það hjálpar ekki samkeppnishæfni eða aukinni verðmætasköpun eða uppbyggingu ferðaþjónustunnar um allt land allt árið.

Mér fannst ekki mikið til koma stefnuræðu forsætisráðherra, ég skal viðurkenna það. Það er mun eftirtektarverðara hvað kemur ekki fram í ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ekki stafkrókur um þá vegferð um þjóðaratkvæðagreiðslu að ríkisstjórnin nýja ætli að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sundra þjóðinni, eins og Samfylkingu og Viðreisn dreymir um og hafa fengið stuðning úr óvæntri átt frá Flokki fólksins sem hefur kúvent stefnu sinni í þessu eins og mörgu. Reyndar er ekkert fjallað um stefnu stjórnarinnar í utanríkismálum á þessum viðsjárverðu óvissutímum í stefnuræðu forsætisráðherra. Í umfjöllun um menntamál var ekki orði vikið í útsendri stefnuræðu að stöðu kennara eða þeirri grafalvarlegu stöðu að þúsundir barna hafi setið heima og að óbreyttu stefni í allsherjarverkfall. Hvar eru skilaboð ríkisstjórnarinnar til fólksins sem var hérna úti, kennaranna sem voru hérna úti áðan? Það rifjast upp fyrir mér kjörtímabilið 2009–2013 þegar fólk hópaðist hér saman á Austurvelli og kallað inn en forsætisráðherra Samfylkingarinnar á þeim tíma vildi nýja stjórnarskrá. Það er kominn tími til að ríkisstjórnarflokkarnir átti sig á þeirri staðreynd að þetta er að gerast á þeirra vakt. Ríkisstjórnin ber ábyrgð á að leysa málin.

Kæru landsmenn. Eins og allir vita og viðurkenna nú þá er fjölmargt jákvætt í íslensku samfélagi og mörg eru tækifærin. En við þurfum ríkisstjórn sem sameinar, ekki sundrar. Grípum tækifærin, því þau eru svo sannarlega til staðar. Við í Framsókn erum til í áframhaldandi uppbyggingu íslensks samfélags. Við erum til í samstarf og samvinnu um öll slík mál en við munum svo sannarlega veita ríkisstjórninni aðhald þegar það á við. — Góðar stundir.“

Categories
Fréttir Greinar

Fimm Grammy-verðlaun á fimm árum

Deila grein

06/02/2025

Fimm Grammy-verðlaun á fimm árum

Íslensku menn­ing­ar­lífi hlotnaðist enn einn heiður­inn á alþjóðavísu í vik­unni þegar Vík­ing­ur Heiðar Ólafs­son pí­anó­leik­ari vann hin virtu Grammy-tón­list­ar­verðlaun í flokki klass­ískra ein­leiks­hljóðfæra­leik­ara fyr­ir flutn­ing sinn á Gold­berg-til­brigðum Johanns Sebastians Bachs.

Það fylg­ir því mik­il upp­hefð að vera til­nefnd­ur til Grammy-tón­list­ar­verðlaun­anna en verðlaun­in eru af mörg­um tal­in þau eft­ir­sótt­ustu í tón­list­ar­heim­in­um. Árang­ur Íslend­inga á und­an­förn­um fimm árum er stór­kost­leg­ur, en með verðlaun­um Vík­ings Heiðars hafa ís­lensk­ir lista­menn hlotið yfir 11 Grammy-til­nefn­ing­ar, og unnið fimm sinn­um; Hild­ur Guðna­dótt­ir fyr­ir tónlist í þátt­un­um Cherno­byl og kvik­mynd­inni Jókern­um, Dísella Lár­us­dótt­ir fyr­ir bestu óperu­upp­tök­una í verk­inu Ak­hna­ten, Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir fyr­ir plötu sína Bewitched í flokki hefðbund­inn­ar popp­tón­list­ar og nú síðast Vík­ing­ur Heiðar. Í heild hafa átta Íslend­ing­ar unnið til níu verðlauna en þeir Stein­ar Hösk­ulds­son, Gunn­ar Guðbjörns­son, Sig­ur­björn Bern­h­arðsson og Krist­inn Sig­munds­son hafa einnig unnið til verðlaun­anna.

Allt eru þetta lista­menn sem hafa skarað fram úr á sínu sviði svo að um­heim­ur­inn hef­ur tekið eft­ir. Á und­an­förn­um árum var ég reglu­lega spurð að því af er­lendu fólki hvaða krafta­verk væru unn­in hjá okk­ar tæp­legu 400.000 manna þjóð í þess­um efn­um. Að mín­um dómi er þetta hins veg­ar eng­in til­vilj­un. Að baki þess­um glæsi­lega ár­angri ligg­ur þrot­laus vinna og metnaður tón­list­ar­mann­anna sjálfra ásamt því að hér á landi hef­ur ríkt ein­dreg­inn vilji til þess að styðja við menn­ingu og list­ir, til dæm­is með framúrsk­ar­andi tón­list­ar­kenn­ur­um sem leggja sig alla fram við að miðla þekk­ingu sinni og reynslu í kennslu­stof­um lands­ins, ásamt því að tryggja aðgang fólks að tón­list­ar­námi.

Sú alþjóðlega braut heims­frægðar sem Björk ruddi hef­ur breikkað mjög með vax­andi efniviði og ár­angri ís­lenskra tón­list­ar­manna. Þannig hafa til að mynda hljóm­sveit­ir eins og Of Mon­sters and Men, KAL­EO og all­ir Grammy-verðlauna­haf­arn­ir okk­ar tekið þátt í að auka þenn­an hróður lands­ins með sköp­un sinni og af­rek­um. Þessi ár­ang­ur er einnig áminn­ing um að halda áfram á þeirri braut sem mörkuð hef­ur verið af hálfu hins op­in­bera við að fjár­festa í menn­ingu og list­um á und­an­förn­um árum á grund­velli vandaðrar stefnu­mót­un­ar sem birt­ist okk­ur meðal ann­ars í tón­list­ar­stefnu til árs­ins 2030. Með henni hafa verið stig­in stór skref í að styrkja um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu, til að mynda með fyrstu heild­ar­lög­un­um um tónlist, nýrri tón­list­armiðstöð og nýj­um og stærri tón­list­ar­sjóði. Ég er mjög stolt af þess­um skref­um sem munu skila sér í enn meiri stuðningi við tón­listar­fólkið okk­ar.

Ég vil óska Vík­ingi Heiðari og fjöl­skyldu hans inni­lega til ham­ingju með verðlaun­in. Þau eru hvatn­ing til yngri kyn­slóða og enn ein rós­in í hnappagat ís­lenskr­ar menn­ing­ar á alþjóðavísu. Fyr­ir það ber að þakka.

Lilja Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. febrúar 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Baráttan gegn sjálfsvígum og óhappaeitrunum

Deila grein

05/02/2025

Baráttan gegn sjálfsvígum og óhappaeitrunum

Sam­kvæmt Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­inni verða að meðaltali um sex þúsund manns á Íslandi fyr­ir áhrif­um af sjálfs­víg­um á hverju ári. Þetta eru staðreynd­ir sem kalla á aðgerðir. Sjálfs­víg og and­lát vegna óhappa­eitr­ana eru viðkvæm­ir og sárs­auka­full­ir at­b­urðir sem hafa djúp­stæð áhrif á fjöl­skyld­ur, vini og sam­fé­lagið í heild.

Á síðasta ári lagði ég fram öðru sinni til­lögu til þings­álykt­un­ar um rann­sókn á or­saka­ferli í aðdrag­anda sjálfs­víga og dauðsfalla vegna óhappa­eitr­ana. Þing­heim­ur sam­einaðist þá all­ur á bak við til­lög­una, þvert á flokka, sem sýn­ir mik­il­vægi henn­ar sem og sam­stöðu okk­ar allra í því að vilja gera bet­ur. Ég bind von­ir við að slík samstaða verði einnig á nýju þingi þegar ég legg til­lög­una fram að nýju.

Mark­mið þings­álykt­un­ar­til­lög­unn­ar er skýrt og bygg­ist á metnaðarfullri vinnu starfs­hóps Lífs­brú­ar, miðstöðvar sjálfs­vígs­for­varna á veg­um Embætt­is land­lækn­is: að greina ástæður og aðdrag­anda þess­ara hörmu­legu at­b­urða, tryggja að nauðsyn­leg gögn séu rann­sökuð og nýtt á mark­viss­an hátt og, um­fram allt, stuðla að því að bjarga manns­líf­um. Í dag er mik­ill skort­ur á áreiðan­leg­um gögn­um um þessi mál sem hægt er að byggja á í for­vörn­um og aðgerðaáætl­un­um en það er á ábyrgð okk­ar, sem sam­fé­lags, að breyta því.

Starfs­hóp­ur Lífs­brú­ar – mik­il­vægt fram­lag

Starfs­hóp­ur Lífs­brú­ar hef­ur þegar hafið vinnu við að safna gögn­um sem spanna allt að 10 ára heilsu­fars­sögu lát­inna ein­stak­linga, með það að mark­miði að greina helstu áhættuþætti. Meðal ann­ars er skoðað hvernig fé­lags­leg­ir þætt­ir, lífsat­b­urðir eins og sam­bands­slit, at­vinnum­iss­ir eða áföll, og jafn­vel lyfja­á­vís­an­ir og sjúk­dóms­grein­ing­ar, hafa áhrif á and­lega heilsu ein­stak­lings.

Slík yf­ir­grips­mik­il gagna­öfl­un er for­senda þess að við get­um greint áhættu­hópa, komið í veg fyr­ir sjálfs­víg og dauðsföll vegna óhappa­eitr­ana og veitt þeim sem eru í hættu viðeig­andi stuðning. Niður­stöður hóps­ins munu skapa grunn að öfl­ug­um for­vörn­um og mót­un stefnu­mót­andi aðgerða til framtíðar. Við verðum að horfa á málið með opn­um hug og viður­kenna að sjálfs­víg og and­lát vegna óhappa­eitr­ana eru oft niðurstaða margra flók­inna þátta sem þarf að greina og skilja til hlít­ar. Með betri skiln­ingi á or­saka­ferl­um og helstu áhrifaþátt­um er hægt að styðja bet­ur við þá sem eiga við and­lega erfiðleika að stríða, og gera viðeig­andi ráðstaf­an­ir áður en hætt­an á sjálfsskaða eykst. Þetta er ein af þeim leiðum sem hægt er að fara til að tryggja að ein­stak­ling­ar í áhættu­hóp­um fái þá aðstoð sem þeir þurfa til að ná jafn­vægi í lífi sínu og kom­ast í gegn­um erfiðleika­tíma­bil.

Því var ánægju­legt að sjá starfs­hóp sem skipaður var af fyrr­ver­andi heil­brigðisráðherra, Will­um Þór Þórs­syni, skila til­lögu sinni í janú­ar að nýrri aðgerðaáætl­un sem snýr að fækk­un sjálfs­víga á Íslandi.

Það er mín trú að með mark­viss­um aðgerðum og gagn­reyndu starfi get­um við dregið úr sjálfs­víg­um og dauðsföll­um vegna óhappa­eitr­ana.

Fyr­ir­byggj­andi aðgerðir – brýn nauðsyn

Töl­ur um and­lát vegna óhappa­eitr­ana eru áhyggju­efni. Fjöldi þeirra hef­ur auk­ist veru­lega á und­an­förn­um ára­tug­um, sér­stak­lega vegna lyfja á borð við ópíóíða og of­skynj­un­ar­lyf. Aðgengi að þess­um efn­um þarf að end­ur­skoða, og mik­il­vægt er að styrkja for­varn­ir sem geta bjargað manns­líf­um.

Við vit­um að sjálfs­víg og dauðsföll vegna óhappa­eitr­ana eiga sér flók­inn aðdrag­anda. Meðal ann­ars get­ur verið um að ræða sam­spil fé­lags­legra, and­legra og lík­am­legra þátta. Með betri grein­ingu á þess­um þátt­um og gagn­reyndri vinnu get­um við styrkt stuðning­inn við þá sem þurfa mest á hon­um að halda.

Ver­um vak­andi fyr­ir nýj­um leiðum

Við stönd­um á tíma­mót­um þar sem við höf­um tæki­færi til að skapa raun­veru­leg­ar breyt­ing­ar. Það er ljóst að við höf­um öfl­uga aðila í sam­fé­lag­inu okk­ar sem vinna dag hvern að því að bæta líðan fólks og grípa inn í þar sem þörf­in er mest. Við höf­um marga sem starfa af heil­um hug að geðheil­brigðismál­um, sjálfs­vígs­for­vörn­um og stuðningi við aðstand­end­ur. Það er nauðsyn­legt að þessi vinna verði áfram efld og að við höld­um áfram að vera vak­andi fyr­ir leiðum til að bæta geðheil­brigði og lýðheilsu í sam­fé­lag­inu. Það er á okk­ar ábyrgð, sem þjóðar, að bregðast við.

Ég vona að sú vinna sem starfs­hóp­ur Lífs­brú­ar vinn­ur skili þeim ár­angri sem við vilj­um öll sjá – að draga úr sjálfs­víg­um og dauðsföll­um vegna óhappa­eitr­ana með grein­argóðri rann­sókn og nýt­ingu afurðar henn­ar við að mynda ár­ang­urs­rík­ar aðgerðir. Með áfram­hald­andi stuðningi get­um við stigið mik­il­vægt skref í átt að betra sam­fé­lagi, þar sem and­leg vellíðan er ekki aðeins rétt­ur held­ur raun­veru­leg­ur mögu­leiki fyr­ir alla.

Ég hvet alla sem glíma við and­lega van­líðan til að leita sér hjálp­ar. Við eig­um að vera til staðar hvert fyr­ir annað, veita stuðning og hlúa að þeim sem þurfa mest á okk­ur að halda. And­leg líðan á aldrei að vera feimn­is­mál – hún er grund­völl­ur ham­ingju og lífs­gæða okk­ar allra.

Ég vil einnig nýta tæki­færið og þakka Guðrúnu Jónu hjá embætti land­lækn­is og Högna Óskars­syni geðlækni fyr­ir aðstoðina við þetta mik­il­væga mál.

Við skul­um vinna sam­an að því að búa til betra og ör­ugg­ara sam­fé­lag fyr­ir alla.

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og þing­flokks­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. febrúar 2025.