Categories
Forsíðuborði Fréttir

Framsókn á Fundi fólksins

Deila grein

10/09/2017

Framsókn á Fundi fólksins

Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðburði á Fundi fólksins sem fram fór um helgina í Hofi á Akureyri. Viðburðurinn bar yfirskriftina Framtíðarmenntunin. Hvernig vinnum við með vélmennum? Líflegar og góðar umræður áttu sér stað og sneru um að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina, en á næstu árum munu fjölmörg störf hverfa á meðan ný koma að einhverju leyti í staðinn.
Fyrirsjáanlegt er að tækniþróunin verði hröð og því þarf hugarfarsbreytingu um hvernig við getum stuðlað að menntun og nýsköpun í takt við þarfir framtíðar. Á fundinum kom fram að mikilvægt er að menntun taki breytingum með þróun atvinnulífs og starfsgreina að leiðarljósi. Róbert Guðfinnsson, frumkvöðull flutti áhugavert erindi um rannsóknir, vöruþróun og fjárfestingar. Þá var Inga Eiríksdóttir kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga með fróðlegt erindi um nýtt fag sem er kennt við skólann og ber þann dularfulla titil vélmennafræði þar sem kennd er samsetning og forritun á hinum ýmsum vélmennum.
Þá voru í pallborði Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi og Jón Þór Sigurðsson umsjónarmaður FAB Lab smiðju í VMA. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins flutti síðan lokaorð og samantekt. Fundarstjóri var Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Deila grein

06/09/2017

Stjórnmálaskóli fyrir konur af erlendum uppruna – A Class in Politics, for Immigrant Women

Langar þig að bjóða þig fram til Alþingis eða kynnast íslenskum stjórnmálum? Viltu kynnast öðrum konum af erlendum uppruna sem hafa áhuga á stjórnmálum?

Vertu velkomin á námskeið Kvenréttindafélags Íslands fyrir konur af erlendum uppruna um stjórnmál og pólitískt starf.
Á námskeiðinu verður farið yfir starf og stefnumál helstu stjórnmálaflokka og hagsmunasamtaka, farið yfir „óskrifaðar reglur“ stjórnmálanna, framsaga og ræðuhöld kennd og unnið að tengslamyndun þátttakenda. Í lok námskeiðsins gengur þú út með áætlun um hvernig þú getur breytt samfélaginu!
Námskeiðið tekur 7 vikur og kennt er á mánudagskvöldum. Þátttökugjald er EKKERT.
2. október 2017
Kynning
9. október 2017
Pólitík í víðari skilningi. Hvar er hægt að bjóða sig fram og hafa áhrif, t.d. í félagsstarfi, stéttarfélögum, hverfastarfi, o.s.frv.
16. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum I. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
23. október 2017
Heimsókn frá stjórnmálaflokkum II. Kynning á stærstu flokkum landsins og flokkastarfi
30. október 2017
Framsaga, ræðuhöld og sjálfsstyrking
6. nóvember 2017
Rætt við konur af erlendum uppruna sem hafa tekið þátt í pólitík
13. nóvember 2017
Lokakvöld. Þátttakendur ræða framtíðaráform sín.
Kennt er á íslensku, en hægt er að taka þátt í umræðum á ensku.
Tímabil: 2. október til 13. nóvember 2017
Staður og tími: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, mánudaga kl. 19:00–21:00.
Umsjón: Sabine Leskopf, varaborgarfulltrúi
Skráðu þig: https://kvenrettindafelag.is/politik
Námskeiðið má einnig finna sem viðburð á facebook á íslensku, ensku og pólsku
Námskeiðið er styrkt af Þróunarsjóði innflytjendamála
***
Do you want to run for Parliament or just find out more about how politics in Iceland work? Do you want to meet other immigrant women who are interested in politics?
Join us at training course in politics hosted by the Icelandic Women’s Rights Association.
This course will introduce you to the largest political parties and associations in Iceland and teach you how to quickly start working within your chosen party. You will learn the inner workings and “unwritten rules” of Icelandic politics, practice how to speak clearly and publicly, and get the opportunity to meet other women who share your interests in politics. By the end of the course, you will have a concrete plan on how you can change society!
The course lasts seven weeks and classes are taught on Monday evenings.
This course is FREE.
2 October 2017
Introduction
9 October 2017
Spheres of influence in Iceland. Running for office at the country and local levels and in boards of labor unions and other associations
16 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties I. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
23 October 2017
Visits from representatives from Iceland’s political parties II. Introducing the policies and inner workings of different parties, and how to join
30 October 2017
Public speaking and self confidence
6 November 2017
Meeting with immigrant women who are active in politics
13 November 2017
Final class. Discussing future plans of participants.
Classes are taught in Icelandic, but you can join the discussion in English as well.
Time Period: 2 October to 13 November 2017
Place and Time: Hallveigarstaðir, Túngata 14, 101 Reykjavík, Mondays at 7 p.m. to 9 p.m.
Moderator: Sabine Leskopf, deputy city councillor in Reykjavík
Register here: https://kvenrettindafelag.is/politik
The class can also be found as a Facebook event in icelandic, english and polish.
The class is funded by Þróunarsjóður innflytjendamála

Categories
Fréttir

Vegleg gjöf til Framsóknarflokksins

Deila grein

29/08/2017

Vegleg gjöf til Framsóknarflokksins

Hér er mynd af Eggerti B. Ólafssyni, syni Ólafs H. Bjarnasonar, fóstursonar Þorsteins Jónssonar er starfaði sem kaupfélagsstjóri í Hermes á Búðareyri við Reyðarfjörð á árunum 1917-61.
Á heimili Ólafs var Tíminn alltaf keyptur. Ólafur hóf svo að binda blöðin inn í kringum árið 1970. Við flutninga í minna húsnæði ákvað Eggert B. Ólafsson að færa Framsóknarflokknum þetta að gjöf.
Við afhendingu í morgun sagði Eggert að sárt væri að láta þetta af hendi, en að gott væri að vita af þessu í öruggum höndum.
Framsóknarflokkurinn þakkar Eggerti og fjölskyldu kærlega fyrir þessa myndarlegu gjöf.

Categories
Fréttir

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Deila grein

13/07/2017

Vinnuhópur tekur að sér stefnumótun í ferðaþjónustu

Framkvæmdarstjórn Framsóknarflokksins hefur sett af stað vinnuhóp við að móta tillögur til stefnumótunar fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu. Hópurinn er tilkominn vegna ályktunar á vorfundi miðstjórnar flokksins.
Hópinn skipa fulltrúar og ferðaþjónustuaðilar með víðtæka reynslu úr ferðaþjónustu vítt og breitt um landið. Tilgangur hans er að móta tillögur sem miða að því að bæta framleiðni í greininni, tryggja sjálfbærni, auka skilvirkni, nýsköpun og þjálfun.
Það er fagnaðarefni að fá svona öflugt fólk, með reynslu úr ferðaþjónustu og er eða hefur verið í miklum samskiptum við ferðamanninn sjálfan, til að takast á við þetta brýna verkefni. Ríkisstjórninni hefur ekki auðnast að taka mikilvægar ákvarðanir tengdar greininni sem miða að því að skapa umhverfi sem gefur möguleika á vel launuðum störfum. Þá liggur fyrir að taka þarf ákvarðanir um dreifingu ferðamanna um landið og hvernig eigi að standa að gjaldtöku“, segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.
Ör vöxtur og stefnuleysi í ferðaþjónustu getur auðveldlega haft neikvæð áhrif á efnahags- og umhverfislega þætti. Brýnt er því að móta framtíðarstefnu sem byggir á sérstöðu landsins, náttúrunni, sameiginlegri sögu og menningu.
Vandamálin eru fjöldamörg. Auknar líkur eru á því að arðsemi minnki og fleiri láglaunastörf verði til í landinu ef ferðamönnum fjölgar meira en hægt er að sinna með góðu móti. Við ofnýtingu auðlinda er hætt við því að einsleit ferðamennska fylgi í kjölfarið með ferðamönnum sem hafa lægri kaupmátt en ella. Sérhæfingu og fjölbreytni starfa yrði ógnað í ferðaþjónustu sem og öðrum útflutningsgreinum.
Ef ferðamönnum fækkar þá óhjákvæmilega fækkar störfum sem kemur verst niður á landsbyggðinni.
Ákvarðanir um einstök mál hafa setið á hakanum of lengi. Til að mynda hvernig hægt er að ná meiri dreifingu ferðamanna um landið og hvort taka eigi gjald á ferðamannasvæðum eða ekki.
Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir komugjöldum. Þau hafa ekki áhrif á hvort ferðamaðurinn stoppar t.d. í þrjá daga eða þrjár vikur. Fyrirvaralausar álögur eins og lagðar voru fram nú í vor hefðu án efa komið harðast niður á landsbyggðinni sem hefur oftar en ekki þurft að horfa á eftir störfum yfir í þéttari byggðir. Þess vegna er svo brýnt að fjölga ferðamönnum á austurlandi, norðurlandi og vesturlandi því þar er sannarlega þörf á nýjum viðskiptavinum í verslun og þjónustu.
Hópurinn mun m.a. horfa til eftirfarandi atriða:
• Hvernig getur ferðaþjónustan viðhaldið samkeppnishæfni sinni betur borið saman við önnur lönd og skapað aukin verðmæti?
• Hvernig getur landsbyggðin búið sér til atvinnutæki og fjölgað heilsársstörfum í ferðaþjónustunni?
• Hvaða innviði þarf að styrkja í ferðþjónustu svo greinin geti vaxið og dafnað á heilsársvísu og orðið blómleg atvinnugrein til lengri tíma?
Hópinn skipa:
Formaður: Einar Freyr Elínarson, ferðaþjónustubóndi
Einar G. Bollason, fyrrum framkvæmdarstjóri
Fjóla Hrund Björnsdóttir, stjórnmálafræðingur, starfar við ferðaþjónustu
Gréta Björg Egilsdóttir, vararborgarfulltrúi
Karl Garðarsson, framkvæmdarstjóri
Lilja Sigurðardóttir, sjávarútvegsfræðingur
Pétur Snæbjörnsson, landeigandi og hótelstjóri
Sigurlaug Gissurardóttir, ferðaþjónustubóndi
Snorri Eldjárn Hauksson, sjávarútvegsfræðingur
Sólborg L. Steinþórsdóttir, hótelstjóri
Viggó Jónsson, framkvæmdarstjóri skíðadeildar
Þórður Ingi Bjarnason, ferðamálafræðingur
Þórey Anna Matthíasdóttir, sérfræðingur í ferðaþjónustu og leiðsögumaður

Categories
Fréttir

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Deila grein

20/06/2017

Hátíðarræða formanns 17. júní 2017

Kæru sveitungar og gestir – gleðilega þjóðhátíð!
Það er margt sem gaman væri að tala um hér í dag. Á stundum sem þessum horfum við gjarnan um öxl og vegum og metum, hvort við höfum gengið götuna áfram til góðs í gegnum árin og áratugina. Á því er engin vafi, í mínum huga, að nú um stundir er velsæld þjóðarinnar, mæld á efnahagslega mælistiku, meiri en nokkru sinni áður á lýðveldistímanum. Þeim árangri má þakka mörgu og mörgum.  Ekki síst þeim kynslóðum sem á undan okkur fóru og skópu jarðveginn fyrir það nútíma Ísland sem við þekkjum í dag. Á þjóðhátíðardaginn minnumst við þeirra sem börðust í sveita síns andlits við að búa okkur betra samfélag. Skuld okkar við þau verður aldrei að fullu greidd.  Næst því komumst við helst með því að rækja þá skyldu okkar að skila landi og samfélagi ekki verr, og helst nokkru bættara til komanda kynslóða og að ala upp í börnum okkar og barnabörnum, virðingu fyrir landinu okkar, samfélaginu og hvert öðru. Það eru vissulega áskoranir framundan í efnahagsmálum og ýmis verkefni óleyst, en þau eru öll þess eðlis að í augum fyrri kynslóða myndu þær áskoranir kallast lúxusvandamál. Það er samt mikilvægt að takast á við þau verkefni, eins og að stöðug styrking krónunnar mun að lokum koma okkur í koll ef ekki verður unnið að því að finna jafnvægi og það sem fyrst. Ísland er auðugt land, land sem býr við gnægð auðlinda og mannauð mikinn. Þann auð ber okkur að nýta til að tryggja sem best að á Íslandi þurfi enginn að líða skort. Það er stórt verkefni sem ekki verður leyst í einu vetfangi, og það verður aðeins leyst þannig að við leggjumst öll á árar – saman.
Allt eru þetta mikilvæg mál og reyndar mörg fleiri.
En það er tvennt sem mig langar mest til að tala um hér í dag. Annars vegar þá lukku að hafa fæðst og alist upp í þessu samfélagi okkar hér, kosti þess og galla. Hinsvegar að hvetja allt unga fólkið okkar til dáða, vegna þess að það, eins og ég, er svo heppið að fá að alast upp í þessu umhverfi.  Oft hef ég haft það á orði að lítil samfélög, á landsbyggðinni eins og okkar samfélag hér í Hrunamannahreppi, eða jafnvel í uppsveitunum öllum og öllum sambærilegum samfélögum, að slík samfélög kalli margt það besta fram í okkur mannfólkinu.  Vegna fámennis verður hver og einn stærri og einstaklingurinn finnur að hann verður að taka þátt – jafnvel í mörgu. Því ef við í fámenninu viljum hafa sterkt félagslíf, menningarlíf, íþróttalíf og ekki síst atvinnulíf þá vitum við að skyldur okkar til að taka þátt eru meiri en þar sem fleiri búa og einstaklingurinn getur falið sig á bakvið fjöldann. Við einfaldlega eigum allt undir að hér sé allt það sem mannlegt eðli óskar sér. Frumþarfir eru atvinnulíf, góðir skólar, öflug heilsugæsla og þak yfir höfuðið. Hitt er ekki síður mikilvægt að eiga fjölbreytt og öflugt íþrótta- og æskulýðsstarf, menningarstarf, starfsemi hagsmunafélaga, líknar- og mannúðarfélaga og svo mætti lengi telja.
Og, já ég reyndi að telja. Í þeirri talningu er auðvelt að fara yfir tuttugu mismunandi félög og jafnvel mun hærra ef allar deildir mismunandi félaga eru taldar sér. Nokkrar þær helstu má nefna. Sveitarstjórn með sínar stofnanir og nefndir, UMFH með sitt öfluga starf í mörgum deildum, Kvenfélagið, Björgunarsveitin Eyvindur og Vindur, Landgræðslufélag, hagsmunafélög-hrossabænda, nautgripabænda , sauðfjárbænda, garðyrkjubænda, allir kórarnir og svo framvegis. Við eigum sannarlegan öflugan mannauð í 800 manna samfélagi. En það gerist ekki af sjálfu sér, það þarf fólk til að taka þátt. Það er einmitt það jákvæða við okkar samfélag, fólk tekur þátt og það eru tækifæri til að láta til sín taka.
Í senn er það bæði þroskandi og gefandi að axla skyldur sínar í lýðræðislegu samfélagi, en ekki einungis krefjast réttinda sinna. Um leið er það undirstaða lýðræðisins sjálfs sem við fögnum hér í dag. Af þeim ástæðum tel ég það hafa verið mín forréttindi að hafa alist upp hér. Fengið haldgóða menntun á heimaslóð, tekið þátt í starfi UMFH, sveitarfélagsins, kirkju og kóra ásamt mörgu öðru sem samfélagið hér hefur gefið mér, fyrir það er ég og verð ævinlega þakklátur. Á stundum er talað um að gallar séu á litlum samfélögum að allir viti allt um alla. En ég spyr – er það ekki ein útgáfan á náungakærleik að vilja fylgast með og geta gripið inní eða þá létt undir ef eitthvað bjátar að hjá einhverjum?
Við finnum vel og þekkjum öll samstöðuna, stuðninginn og styrkinn sem maður fær þegar áföll dynja yfir, sorgin ber að dyrum. Sá stuðningur sem nærsamfélagið veitir er ómetanlegur, trúið mér – hér talar maður af reynslu. Vissulega eru gallar á fámennum samfélögum, til að mynda minni fjölbreytni meðal annars í atvinnulífi. Afl fjöldans er veikara, en eins og ég nefndi fyrr í ræðu minni þá eru á móti kostirnir þeir að hver einstaklingur er og verður að vera stærri til að vega slíkt upp, það er áskorunin við að búa í smærri samfélögum.
Kæru þjóðhátíðargestir,
það sem ég vildi segja að lokum og um leið beina orðum mínum til unga fólksins, ungu fólki á öllum aldri. Við búum í samfélagi jöfnuðar þar sem allir eiga jafnt tilkall til sömu tækifæra, til menntunar, til starfsframa, til heilbrigðs lífs. Vissulega er það svo að sumir þurfa að hafa meira fyrir því en aðrir, en það er hægt. Hver er sinnar gæfu smiður. Við stjórnmálamenn eigum að tryggja að slíkt samfélag þróist áfram í þá átt. Á Íslandi á að vera meiri jöfnuður en víðast. Við erum fá, þekkjum öll hvert annað eða erum skyld eða tengd. Auðlindir okkar eru gjöfular, þannig að 340 þúsund manna þjóð getur öll haft það gott á Íslandi.
En veldur hver á heldur. Hver og einn þarf að setja sér markmið og vinna að þeim. Þess vegna er gott að alast upp, búa og starfa í okkar samfélagi. Hér eru tækifærin til að hafa mikil áhrif, bæði á sína eigin framþróun en einnig á nærsamfélagið. Það er mín reynsla, að óháð fæðingarstað og búsetu getum við íbúar Íslands náð markmiðum okkar. Aðalatriðið er að vera virkur samfélagsþegn og hafa gaman að vinna að uppbyggingu samfélagsins okkar.  Þannig tryggjum við lýðræðið og getum haldið upp á þjóðhátíðardaginn 17. júní um ókomna framtíð.
Góðar stundir.

Categories
Fréttir

Ingveldur Sæmundsdóttir ráðin aðstoðarmaður formanns

Deila grein

15/06/2017

Ingveldur Sæmundsdóttir ráðin aðstoðarmaður formanns

Ingveldur Sæmundsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins.
Ingveldur var áður aðstoðarmaður Sigurðar Inga þegar hann var umhverfis- og auðlindaráðherra og síðar Sigrúnar Magnúsdóttur umhverfis- og auðlindaráðherra þangað til í janúar sl.
Þá var Ingveldur kosningastjóri Framsóknarflokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður og suður fyrir alþingiskosningarnar 2013.
Hún er með B.Sc. próf frá Copenhagen Business School og diploma í alþjóðlegri markaðshagfræði frá Business Academy Copenhagen North. Þá stundar hún MBA nám við Háskóla Íslands.
„Ég hlakka til að vinna með öllu því kraftmikla og góða fólki sem er í flokknum okkar hringinn í kringum landið“, segir Ingveldur.

Categories
Fréttir

Sumarferð Framsóknar 10. júní

Deila grein

06/06/2017

Sumarferð Framsóknar 10. júní

Kæri félagi!
– Laugardagur 10. júní 2017 –
Nú er viðburðarríkum vetri lokið og því rétt að „slútta“ starfsárinu með viðeigandi hætti. Laugardaginn 10. júní ætlum við að heimsækja sveitarfélagið Ölfus en þar er B–listi Framfarasinna með hreinan meirihluta. Sveitarfélagið er í miklum vexti og verður áhugavert að fá kynningu á þessu samfélagi.
Það eina sem þú þarft að hafa með þér er góða skapið og 2.000 kr. sem öll herlegheitin kosta. Skipulagningar vegna er brýnt að þú skráir þig í síðasta lagi þriðjudaginn 6. júní. Skráning er birkirjon@gmail.com
 
 
Dagskrá ferðarinnar:
11:00 Brottför í rútu frá Bæjarlind 14-16 í Kópavogi
12:00 Strandarkirkja. Sr. Baldur Kristjánsson segir merka sögu kirkjunnar
12:40 Hádegisnæring í Þorlákshöfn, smurt brauð, kaffi, gos og öl.
13:30 Hátíðarhöld vegna sjómannadagsins á hafnarsvæðinu. Sveitarfélagið Ölfus kynnt – dagskrá í höndum heimamanna.
15:30 Hrossabúið að Sunnuhvoli heimsótt.
16:30 Heimsókn til Haraldar Einarssonar, fv. alþingismanns, á Urriðafossi. Fossinn skoðaður undir leiðsögn heimamanna.
17:40 Áætluð ferðalok í Bæjarlindinni
Við lofum skemmtilegri ferð þar sem gleðin verður í fyrirrúmi. Við munum gera vel við okkur í mat og drykk þennan dag. Allir félagar í Suðvesturkjördæmi eru hvattir til að taka þátt í þessari ferð. Ef einhverjar frekari upplýsingar vantar þá er velkomið að hringja í okkur.
Sumarkveðja,
Birkir Jón (s. 898-2446), Halldóra Magný (s. 617-7764) og Sigrún Aspelund (s. 894-3007)

Categories
Fréttir

Við erum í stóru málunum

Deila grein

06/06/2017

Við erum í stóru málunum

Þingflokkur Framsóknarmanna hefur verið mjög iðinn það sem af er. Það má í raun segja að við höfum haldið áfram frá þeim tíma sem við sátum og fórum fyrir ríkisstjórn á síðasta kjörtímabili – við erum í stóru málunum. Málum sem skipta landsmenn miklu máli, hvort sem litið er til mála sem snerta einstaklinginn beint eða óbeint, t.d. salan á ARION banka og salan á landi ríkisins á Vífilsstöðum.
Hér má sjá megnið af þeim málum sem komið hafa frá þingflokknum.

Þingsályktanir, sérstakar umræður og annað sem snertir heimilin, ríkið og neytendur:

Við höfum lagt fram með þingsályktun um að Landsvirkjun verði að fullu og öllu leyti í eigu ríkisins.
Ein stærsta og gjöfulasta auðlind íslensku þjóðarinnar eru fallvötn hennar og sú orka sem úr þeim má vinna. Þótt nýting auðlindarinnar hafi á köflum verið umdeild er það hafið yfir vafa virkjanir á vegum Landsvirkjunar hafa skilað og munu skila eiganda sínum háum fjárhæðum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um skiptingu útsvarstekna milli sveitarfélaga.
Með þingsályktun þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að skipa starfshóp sem kanni möguleikann á skiptingu útsvarstekna milli tveggja sveitarfélaga. Nokkuð er um að einstaklingar eigi frístundahús eða jörð, án þess að þar sé stundaður búskapur, í öðru sveitarfélagi en lögheimili er. Útsvarstekjur einstaklings renna til þess sveitarfélags þar sem hann á lögheimili og þar með renna engar útsvarstekjur til sveitarfélagsins þar sem frístundahús eða jörð viðkomandi er staðsett.
Við höfum lagt fram þingsályktun um vexti og gengi krónunnar.
Flutningsmenn telja það mikilvægt að skýrt og greinilega verði gerð grein fyrir sambandi stýrivaxta Seðlabanka Íslands og vaxtastigs ríkisskuldabréfa í íslenskri krónu. Vaxtakostnaður ríkissjóðs sem hlutfall af heildartekjum hans er hár í alþjóðlegum samanburði og því vert að skilja til hlítar allar hugsanlegar ástæður þess.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um nýtingu forkaupsréttar vegna sölunnar á Arion banka.
Með samþykki kröfuhafa fallinna fjármálafyrirtækja á svokölluðum stöðugleikaskilyrðum féllust þau á að afhenda íslenska ríkinu eignir sem væru nægjanlega miklar til að það gerði stjórnvöldum kleift að aflétta fjármagnshöftum án þess að stefna greiðslujöfnuði í voða.
Við höfum lagt fram þingsályktun um flutning Landhelgisgæslunnar til Reykjanesbæjar.
Umræða um flutning stofnunarinnar í hentugt og rúmgott húsnæði á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli sem rekið yrði af Landhelgisgæslu Íslands, sbr. samning frá 30. júlí 2014 milli utanríkisráðherra og innanríkisráðherra um að ríkislögreglustjóri og Landhelgisgæsla Íslands annist tiltekin verkefni samkvæmt varnarmálalögum nr. 34/2008, hefur staðið um nokkurra missera skeið.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um mótun eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir.
Með tillögu þessari er fjármála- og efnahagsráðherra falið að móta eigendastefnu ríkisins fyrir bújarðir. Þróun síðustu ár hefur verið sú að sífellt fleiri jarðir fara úr ábúð og það hefur veikt mjög hinar dreifðu byggðir landsins sem eru mikilvægar út frá byggðasjónarmiðum og til að tryggja matvælaframleiðslu og jafnrétti til búsetu.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um heilbrigðisáætlun fyrir Ísland.
Í aðdraganda síðustu alþingiskosninga voru margir á þeirri skoðun að bæta þyrfti heilbrigðiskerfið á Íslandi og voru Framsóknarmenn þeirra á meðal. Sérstaklega var rætt um mikilvægi stefnumótunar í heilbrigðismálum og nauðsyn þess að halda áfram að veita fjármagn til málaflokksins, eins og gert var á síðasta kjörtímabili undir stjórn Framsóknarflokksins.
Við höfum lagt fram þingsályktun um upptöku samræmdrar vísitölu neysluverðs.
Hér á landi Hefur verið stuðst við vísitölu neysluverðs (VNV) sem mælikvarða á verðbólgu og til útreiknings á verðtryggingu síðan árið 1995. Í Evrópusambandsríkjunum er hins vegar stuðst við svokallaða samræmda vísitölu neysluverðs (SVN) en tilgangur hennar er m.a. að tryggja samræmda verðbólgumælingu í þeim ríkjum þar sem evra er gjaldmiðill.
Við höfum lagt fram með þingsályktun um skattaafslátt vegna kostnaðar við ferðir til og frá vinnu.
Fyrir liggur að í danska skattkerfinu fá allir afslátt ef þeir þurfa að ferðast tiltekna vegalengd vegna vinnu óháð því hvort ferðast er á bifreið, hjóli eða með almenningssamgöngum. Mat flutningsmanna er að það að láta skattafsláttinn ná til fleiri samgöngumáta en bifreiða sé til þess fallið að hvetja fólk til að kynna sér nýja samgöngumáta, auk þess sem það getur skapað þrýsting á byggðarkjarna að koma upp góðum og öflugum almenningssamgöngum milli sveitarfélaga.
Við höfum lagt fram þingsályktun um opnun neyðarbrautarinnar á Reykjavíkurflugvelli.
Með þingsályktun þessari er samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra falið að beita sér fyrir því að NA/SV-flugbraut Reykjavíkurflugvallar (06/24), sem einnig hefur verið kölluð neyðarbrautin, verði opnuð á ný en henni var lokað í kjölfar dóms Hæstaréttar frá 9. júní 2016 í máli íslenska ríkisins gegn Reykjavíkurborg (mál nr. 268/2016).
Við höfum lagt fram frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof (fæðingarhjálp).
Nokkrum hópi fólks stendur ekki til boða fullnægjandi fæðingarhjálp í heimabyggð og þarf því að dveljast fjarri heimili sínu fyrir fæðingu til að vera í öruggri nálægð við fæðingarhjálp þegar að fæðingu kemur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um fjarfundi á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar.
Á 145. löggjafarþingi voru lagðar fram átta fyrirspurnir til ráðherra þáverandi ríkisstjórnar (693.–700. mál) sem vörðuðu fundahöld ráðuneytanna með starfsmönnum sínum og undirstofnana sem eru á landsbyggðinni, notkun fjarfundabúnaðar á slíkum fundum, tæknilega þjálfun starfsmanna á slíkan búnað og fleiri tengd atriði. Af svörum við fyrirspurnunum má ráða að sinn er siður í hverju ráðuneyti þegar kemur að fjarfundum og notkun búnaðar til slíkra funda.
Við höfum lagt fram þingsályktun um styttingu biðlista á kvennadeildum.
Upplýsingar eru um að um 300 konur bíði eftir því að komast í aðgerð á kvennadeild Landspítala og biðtíminn geti verið allt að þrjú ár. Aðgerðirnar sem hér um ræðir eru einkum vegna blöðrusigs, ristilsigs, legsigs og þvagleka.
Við höfum lagt fram þingsályktun um endurskoðun verklagsreglna um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra verði falið að skipa starfshóp sem taki til endurskoðunar verklagsreglur um skilarétt neytenda, gjafabréf og inneignarnótur.
Við höfum lagt fram þingsályktun um auðlindir og auðlindagjöld.
Í tillögu þessari er lagt til að forsætisráðherra feli starfshópi að kanna hvort innheimta skuli afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá af hvaða auðlindum. Einnig er lagt til að starfshópurinn leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða. Þá verði teknar saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku sé háttað í nágrannaríkjunum, einkum á Norðurlöndunum.
Við höfum lagt fram þingsályktun um samstarf Íslands og Bretlands samhliða úrsagnarferli Bretlands úr Evrópusambandinu.
Þessi tillaga skýrir sig sjálf.
Við höfum lagt fram þingsályktun um rétt barna til að vita um uppruna sinn.
Með henni er lagt til að dómsmálaráðherra verði falið að undirbúa lagabreytingu sem tryggir að börn sem getin eru með tæknifrjóvgun og gjafaeggi og/eða gjafasæði eigi rétt á upplýsingum um uppruna sinn.
Við höfum lagt fram þingsályktun um mótun klasastefnu.
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan skuli fela í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélögin og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir.
Við höfum lagt fram frumvarp um málefni aldraðra (akstursþjónusta).
Aldraðir skulu eiga kost á akstursþjónustu á vegum sveitarfélags sem miðar að því að þeir geti farið allra sinna ferða á þann hátt sem þeir kjósa og á þeim tíma sem þeir velja gegn viðráðanlegu gjaldi.
Við höfum lagt fram frumvarp um atvinnuleysistryggingar (bótaréttur fanga).
Nú hefur maður á ávinnslutímabili skv. 15. gr. setið í gæsluvarðhaldi, eða afplánað refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga, og skal hann þá teljast tryggður samkvæmt lögum þessum eins og hann hefði verið í launaðri vinnu á sama tímabili, enda uppfylli hann önnur skilyrði til þess að teljast tryggður samkvæmt lögum þessum.
Við höfum lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið, nr. 34/1944, með síðari breytingum (fánatími).
Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 7. gr. laganna til að rýmka þann tíma sem fáninn má vera við hún og auka þannig almenna notkun hans. Lagt er til að efnisákvæði um fánatíma færist í lögin og reglugerð ráðherra lúti því einungis að fánadögum.
Við höfum lagt fram frumvarp um brottnám líffæra (ætlað samþykki).
Með frumvarpi þessu er lögð til sú breyting á 2. gr. laganna að miðað verði við „ætlað samþykki“, þ.e. gert verði ráð fyrir að hinn látni hefði verið samþykkur brottnámi líffæris eða lífræns efnis að sér látnum nema tilefni sé til að ætla annað.
Við höfum átt frumkvæði af sérstökum umræðum um:

  • matvælaöryggi og matvælaframleiðslu.
  • greiðsluþátttöku sjúklinga.
  • stöðuna í ferðamálum – leiðir til gjaldtöku og skipting tekna.
  • áherslur í skipulagi haf og standsvæða.
  • matvælaframleiðslu og loftslagsmál.
  • söluna/gjöfina á Vífilsstöðum.

Annað

Við höfum lagt áherslu á stofnun stöðugleikasjóðs til að bregðast við sveiflum í íslensku hagkerfi.
Við höfum talað fyrir komugjöldum og verið er að vinna að nánar útlistun á gjaldtöku ferðamanna.
 
Þórunn Egilsdóttir,
þingflokksformaður Framsóknarmanna

Categories
Fréttir

Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar

Deila grein

30/05/2017

Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar

,,Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili var unnið að kerfisbreytingu er varðar kjör eldri borgara. Í þeirri kerfisbreytingu var krónu á móti krónu skerðingu hætt og mismunandi flokkar ellilífeyris sameinaðir. Markmið þeirrar kerfisbreytingar var að einfalda almannatryggingakerfið og bæta kjör aldraðra. Í þeim kerfisbreytingum var sérstaklega horft til þeirra sem lægri hafa tekjurnar. Samkvæmt athugun ráðuneytisins á afleiðingum kerfisbreytinganna kemur fram að flestallir eldri borgarar hækkuðu í launum við breytingarnar. Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu var hækkunin á bilinu 10–24% um síðustu áramót.
Mesta hækkunin kom til þeirra sem lægstar hafa tekjurnar. Það kemur hins vegar fram í athugun ráðuneytisins að tvær hæstu tekjutíundirnar lækkuðu við þessar kerfisbreytingar. Þar er um að ræða hópa sem hafa um 470 þúsund og hærra í önnur laun. Á síðasta kjörtímabili náðum við ekki sama árangri hvað varðar kjör öryrkja og er það miður. Ekki náðist mikilvæg sátt um kerfisbreytingar, en halda þarf áfram í samvinnu milli Öryrkjabandalagsins og ráðuneytisins og finna lausn sem báðir aðilar geta sætt sig við. Heildaraukning til málaflokksins á síðasta kjörtímabili, á þremur og hálfu ári, voru rúmir 40 milljarðar. Það er hins vegar umhugsunarefni að samkvæmt ríkisfjármálaáætlun hæstv. ríkisstjórnar til næstu fimm ára er heildaraukning til málefna aldraðra og öryrkja tæpir 26 milljarðar. Þarna er mismunurinn rúmir 14 milljarðar, en inni í því eru áætlaðar kerfisbreytingar vegna málefna öryrkja upp á 2,7 milljarða. Samkvæmt útreikningum vegna kerfisbreytinganna á síðasta kjörtímabili var áætlað að kerfisbreytingin væri upp á tæpa 5 milljarða. Hér vantar talsvert upp á.
Eflaust hefðum við mátt gera betur í þessum málaflokki á síðasta kjörtímabili. Eins og áður segir fóru rúmir 40 milljarðar til málaflokksins á þremur og hálfu (Forseti hringir.) ári, en núna á fimm ára tímabili til næstu fimm ára eru það 26 milljarðar. Það er verulega umhugsunarvert.”
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins, 30. maí 2017

Categories
Fréttir

,,Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara þá er alveg sama hvaða leið þú velur"

Deila grein

30/05/2017

,,Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara þá er alveg sama hvaða leið þú velur"

,,Hæstv. forseti. Almennar stjórnmálaumræður, eldhúsdagsumræður, fóru fram hér á Alþingi í gær. Mér finnast þær alltaf áhugaverðar og þær draga sannarlega fram störf þingsins hér við þinglok, stöðuna í stjórnmálunum og verk hæstv. ríkisstjórnar ekki síst. Hér er sannarlega aukin hagsæld, bætt afkoma atvinnulífs, stóraukinn kaupmáttur og stöðugleiki. En á hvaða vegferð er hæstv. núverandi ríkisstjórn við þessar aðstæður? Í Undralandi sagði kötturinn eitthvað á þessa leið við Lísu þegar hún spurði til vegar: „Ef þú veist ekki hvert þú vilt fara þá er alveg sama hvaða leið þú velur.“ Hæstv. ríkisstjórn virðist stödd þar.
Hagsældin umtalaða kemur ekki beinlínis til af verkum núverandi hæstv. ríkisstjórnar heldur miklu fremur vegna afgerandi aðgerða síðustu hæstv. ríkisstjórnar undir forystu Framsóknarflokksins. Vandasöm úrlausnarefni voru leyst af síðustu hæstv. ríkisstjórn með þrautseigju og útsjónarsemi og gjörbreytti skuldastöðu heimila og stöðu þjóðarbúsins. Þeim möguleikum sem við höfum núna til að byggja hér upp innviði, heilbrigðis-, samgöngu-, velferðar- og menntamála. En hvaða leið ætlar þessi hæstv. ríkisstjórn að velja? Það er vandséð. Helst eru þar hugmyndir um að skera niður til framhaldsskólanna, draga úr framlögum til háskólanna, einkavæða í heilbrigðiskerfinu, hækka skatta á atvinnugrein í vexti og tala í kross með og gegn gjaldmiðlinum.
Hér var á síðasta kjörtímabili lagður grunnur að þeirri kjörstöðu sem við í raun erum í til að fara í miklu betri uppbyggingu grunninnviða og með auknum félagslegum áherslum á að efla almenna velferð. Það er ekki auðvelt, virðulegi forseti, en á stjórnarheimilinu virðist skorta alla samstöðu til þess.”
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins, 30. maí 2017