Categories
Forsíðuborði Fréttir

Auglýsing vegna framboða í Suðurkjördæmi

Deila grein

26/09/2017

Auglýsing vegna framboða í Suðurkjördæmi

Ágætu félagar!
 
Á aukakjördæmisþingi okkar, sem haldið var ​á Selfossi, 25. september, var ákveðið að farin yrði uppstillingaleiðin við val á framboðslista flokksins  til​ ​alþingiskosninganna þann 28. október n.k.. 17. Kjördæmisþing KSFS laugardaginn 7. október myndi samþykkja framboðslistann í heild sinni.
 
Þeir félagsmenn, sem vilja gefa kost á sér á listann eru beðnir að setja sig í samband við  einhvern neðangreindan kjörstjórnarmann. Eins geta félagar, sem vilja koma með ábendingar um fólk til að taka sæti á listanum haft samband við neðangreinda.
 
Uppstillingarnefnd mun ljúka störfum miðvikudaginn 4. október, 3 dögum fyrir 17. Kjördæmisþing KSFS.
 
Í 5 efstu sætum framboðslistans skal hlutur hvors kyns ekki vera lægri en 40%, þó skulu ekki vera fleiri en 3 af sama kyni í fyrstu 4 sætunum.
 
Formaður uppstillingarnefndar er Björn Harðarson, í síma 8618651 og er netfangið: holt@emax.is.
 
Uppstillinganefnd skipa:
Björn Harðarson, formaður, 8618651, holt@emax.is, Framsóknarfélagi Árborgar
Karl Pálmason , Framsóknarfélagi Vestur-Skaftafellssýslu
Reynir Arnarson , Framsóknarfélagi Austur-Skaftafellssýslu
Sigrún Þórarinsdóttir, Framsóknarfélagi Rangæinga
Magnea Herborg Björnsdóttir, Framsóknarfélagi Reykjanesbæjar
Einar G Harðarson, Framsóknarfélagi Árnessýslu
 
F.h. uppstillingarnefndar KSFS
Björn Harðarson, formaður​
Categories
Forsíðuborði Fréttir

Bréf frá formanni

Deila grein

25/09/2017

Bréf frá formanni

Kæru flokksfélagar,
atburðarrás síðustu daga hefur valdið umróti í flokknum sem hefur orðið til þess að gott fólk hefur valið að yfirgefa okkar trausta og gamalgróna flokk. Ég vil þakka þeim fyrir störf í þágu flokksins og óska þeim alls hins besta.
Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í þá atburði sem urðu til þess að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins ákvað að segja skilið við flokkinn. Þá atburði þekkjum við vel og höfum eðlilega á þeim mismunandi skoðanir. Það er nauðsynlegt að við núverandi aðstæður að taka stöðuna og ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum Framsóknarflokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Það gerum við með samstöðu og samvinnu alls þess góða fólks sem í flokknum starfar og stuðningsmanna hans.
Framsóknarflokkurinn á yfir 100 ára farsæla sögu. Vissulega hafa komið upp tilvik þar sem við erum ekki sammála, þar sem tekist er á um málefni en síðan komist að niðurstöðu með lýðræðislegum hætti. Við greiðum atkvæði og hlítum niðurstöðunni. Við ætlumst til þess að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð í samfélaginu sem og í flokknum okkar.
Framsóknarfólk hefur á undanförnum árum unnið saman að brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar og náð árangri með sannfæringu, krafti og samstöðu að leiðarljósi. Í þingflokkum eru öflugir einstaklingar og þeir sem hafa verið tilbúnir til að vinna saman hafa gert það mjög vel. Þingflokkurinn hefur áunnið sér traust og er eftirsóknarverður samstarfsflokkur.
Ég hvet þá sem eru að íhuga framboð að stíga fram og gefa kost á sér á lista Framsóknarflokksins. Góður árangur og samvinna byggist á því að fólkið í flokknum taki þátt í flokksstarfi og móti stefnu til framtíðar. Þannig erum við sterkust og þannig náum við árangi sem heild.
Staða Framsóknarflokksins er sterk og mikilvægt að við göngum sameinuð til kosninga. Við höfum skyldum að gegna. Of mörg mál hafa legið í láginni hjá síðustu ríkisstjórn sem þola enga bið. Það er okkar að hlúa að þeim sem minna eiga og byggja upp nauðsynlega innviði í velferðarkerfinu.
Kjósendur vilja trausta stjórnmálamenn og flokka sem sýna ábyrgð í störfum sínum. Kosningarnar 28. október munu öðru fremur snúast um traust og stöðugleika. Á þann hátt nýtist efnahagsbatinn sem best í þágu allra.
Málefnalega stöndum við sterkt. Við þurfum:

  1. Traust og stöðugleika –kjósendur vilja trausta stjórnmálamenn og flokka sem sýna ábyrgð í störfum sínum.
  2. Öfluga uppbyggingu í heilbrigðis- og skólamálum –með markvissri stefnu um land allt til að tryggja almenningi, ekki síst öldruðum og ungum viðunandi lífskjör, óháð búsetu.
  3. Stórbætt samgöngukerfi.
  4. Fjölmörg önnur mál t.d. sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við náttúrna og þjóðina.

Ég vil starfa með flokkum sem vilja öflugt heilbrigðis- og menntakerfi og samgöngur. Bæta kjör þeirra sem lakast standa m.a. aldraðra, öryrkja og barna. Endurbæta skattkerfið til að létta skattbyrði hjá fólki með milli- og lægri tekjur en hækka á hátekjur.
Kæru vinir,
göngum óhikað til góðra verka, horfum fram á við og stöndum saman. Í öllum þeim störfum sem flokksmenn hafa falið mér hefur mér fundist bæði gaman og gefandi að starfa fyrir Framsóknarflokkinn. Ég hef leitast við að gera mitt besta og mun gera það áfram. Ykkar framlag er mikilvægt, án ykkar væri ekkert starf og enginn Framsóknarflokkur. Í komandi kosningum er þörf fyrir öflugan Framsóknarflokk. Við erum sterkust þegar við stöndum saman. Höldum því áfram.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Categories
Fréttir

Auglýsing vegna framboða í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

24/09/2017

Auglýsing vegna framboða í Norðvesturkjördæmi

Kjörstjórn Norðvesturkjördæmis auglýsir eftir framboðum á framboðslista Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir alþingiskosningarnar 28. október 2017.
Þeir flokksmenn sem hafa hug á því að taka sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar skulu senda kjörstjórn skriflega kynningu þar sem frambjóðendur kynna sig og gera grein fyrir helstu baráttumálum auk þess að tilgreina hvaða sætum á lista sóst er eftir. Kynningunni skal fylgja ljósmynd. Með framboðstilkynningu skal fylgja meðmælendalisti með að lágmarki 10 og eða hámarki með 20 flokksbundnum framsóknarmönnum.
Framboðsfrestur er til kl. 12.00 á hádegi sunnudaginn 1. október n.k..
Framboðum skal skilað á netfangið: gudmundur.p.jonsson@gmail.com
Tvöfalt kjördæmisþing Norðvesturkjördæmis verður haldið á Bifröst í Borgarbyggð sunnudaginn 8. október 2017 kl. 11:00.
Kjörstjórnina skipa:
Formaður, Guðmundur Páll Jónsson, gudmundur.p.jonsson@gmail.com, sími: 894 6057, Framsóknarfélagi Akranes
Valgarður Hilmarsson, sími 893 2059, Framsóknarfélagi Austur-Húnavatnssýslu
Marzellíus Sveinbjörnsson, sími 860 2122, Framsóknarfélagi Ísafjarðarbæjar
Jóhannes Björn Þorleifsson, sími 867 7442, Framsóknarfélagi Skagafjarðar
Heiðrún Sandra Grettisdóttir, sími 772 0860, Framsóknarfélagi Dala og Reykhóla
Kjörstjórn Norðvesturkjördæmis

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Af framboðsmálum hjá Framsókn

Deila grein

23/09/2017

Af framboðsmálum hjá Framsókn

Aðferð við val á framboðslistum Framsóknar er ljós í öllum kjördæmum. Uppstilling verður viðhöfð í Reykjavík og tvöfalt kjördæmisþing í Norðvesturkjördæmi. Í Norðausturkjördæmi verður viðhöfð uppstilling og eins í Suðurkjördæmi. Suðvesturkjördæmi hefur og ákveðið að viðhafa uppstillingu.
Dagbókin framundan:
Miðvikudagur 4. október – Uppstilling í Suðvesturkjördæmi
Fimmtudaginn 5. október – Uppstilling í Reykjavík (aukakjördæmisþing)
Laugardaginn 7. október – Uppstillingi í Norðausturkjördæmi
Laugardaginn 7. október – Uppstilling í Suðurkjördæmi
Sunnudaginn 8. október – Tvöfalt kjördæmisþing í Norðvesturkjördæmi
Föstudaginn 13. október – Framboðsfrestur vegna alþingiskosninganna
Laugardaginn 28. október – Kjördagur!
 
 

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Að gefnu tilefni

Deila grein

21/09/2017

Að gefnu tilefni

Á fundi landsstjórnar Framsóknar sl. þriðjudag var samþykkt að beina eftirfarandi til kjördæmastjórna:
„​Við þær aðstæður sem eru uppi vegna þess að nú eru 24 dagar til að ljúka vinnu við framboðslista áréttar landsstjórn að hvert kjördæmisþing hefur það á valdi sínu að ákveða framboðsleiðir þ.m.t. fresti til framboðs og fresti frá framboði til kjördæmisþinga þannig að hægt sé að stilla upp framboðslistum fyrir næstu alþingiskosningar. Jafnframt beinir landsstjórn því til kjördæmastjórna að taka til umræðu á kjördæmaþingum málefni sem flokkurinn muni bera fram í næstu kosningum.​“​
​Á landsstjórnarfundinum var einnig rætt að vegna umræðu um boðun flokksþings Framsóknarmanna sé rétt að taka fram:
Að skv. lögum Framsóknar boðar haustfundur miðstjórnar til flokksþings. Þann fund þarf að boða með 30 daga fyrirvara. Er sá fundur tekur ákvörðun um dagsetningu flokksþings þarf að hafa í huga frest félaga til að skila inn kjörbréfum til skrifstofu sem eru sjö dagar. Eins þarf að gefa flokksfélögunum svigrúm til að geta boðað til funda við val fulltrúa sinna, en áskilið er að það fari fram á félags- eða aðalfundum félaga. Það þurfa að líða a.m.k. sjö dagar vegna aðalfundarboðs. Einnig er skylt að ef þrjú kjördæmisþing krefjast flokksþings skuli framkvæmdastjórn boða til þess.
Landstjórn var einnig sammála um að stefna beri að halda aukafund miðstjórnar um miðjan október í þeim tilgangi að fjalla um kosningaáherslur flokksins. Þegar ákvarðanir aukakjördæmisþinga flokksins liggja fyrir um dagsetningar kjördæmaþinga vegna frambjóðendavals verður hægt að boða til þess fundar.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

,,Virðisaukaskatt á bækur á að afnema."

Deila grein

14/09/2017

,,Virðisaukaskatt á bækur á að afnema."

,,Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Fram kom í stefnuræðu forsætisráðherra að landsmenn yrðu að hafa þolinmæði til að byggja innviði upp í samræmi við efni og aðstæður hverju sinni. Það er skiljanlegt að ríkisstjórn aðgerðarleysis kalli eftir þolinmæði. Það er nefnilega þannig að þolinmæði getur vissulega verið dyggð. Margt getur áunnist með henni. Hins vegar er það svo að uppi eru mörg brýn samfélagsverkefni sem þola enga bið.
Ef ekki verður tekið á þessum málum í dag verður kostnaðurinn mun meiri í framtíðinni.
Ágætu landsmenn. Það er samfélagsleg sátt og eining um að bæta heilbrigðisþjónustu á Ísland. Við í Framsóknarflokknum lögðum fram þingsályktunartillögu um gerð heilbrigðisáætlunar fyrir Ísland sem samþykkt var á síðasta þingi. Við leggjum mikla áherslu á geðheilbrigðismálin, ekki síst nærþjónustu er það varða.
Í tilefni af alþjóðlegum forvarnardegi sjálfsvíga var haldinn fræðslufundur sem fjallaði um árangursríkar forvarnir og stuðning við fjölskyldur eftir sjálfsvíg. Margt átakanlegt kom þar fram en meginskilaboðin voru að ef unnið er markvisst að forvörnum er hægt að ná umtalsverðum árangri og bjarga mannslífum.
Ég veit að fagfólk okkar í heilbrigðisstétt skilur þetta mætavel. En stjórnvöld þurfa að veita miklu meiri stuðning en nú er gert. Það er engin sérstök þolinmæði gagnvart frekari töfum á fjárfestingu í þessum málaflokki. Við verðum að gera betur.
Góðir landsmenn. Síðasta ríkisstjórn jók greiðslur til eldri borgara um 24 milljarða frá árinu 2016–2017. Hins vegar var ákveðinn hópur eldri borgara fyrir verulegum skerðingum þegar frítekjumarkið var lækkað, sem þýddi í mörgum tilfellum umtalsverða lækkun á ráðstöfunartekjum. Þetta er einmitt fólkið sem er enn á vinnumarkaðnum og langar að vinna áfram. Þessi hópur upplifir ekki aðeins verri kjör heldur að búið sé að setja ákveðnar skorður á hann, að skilaboð samfélagsins séu að eldri borgarar eigi að yfirgefa vinnumarkaðinn.
Þetta tel ég kolröng skilaboð. Því lífaldur þjóðarinnar fer ört hækkandi. Ég segi: Það þarf að hækka frítekjumarkið aftur. Það þarf að gera það mun hraðar en nú er gert ráð fyrir.
Eldri borgarar eiga inni hjá okkur að við bregðumst hratt og örugglega við. Við í Framsóknarflokknum erum svo sannarlega tilbúin til að vinna að leiðum svo að það geti orðið að veruleika. Það vill nú þannig til, og beini ég þessu til ríkisstjórnarinnar, að þessi hópur eldri borgara hefur enga þolinmæði til að bíða eftir frekari aðgerðum.
Góðir landsmenn. Virðisaukaskatt á bækur á að afnema. Við Íslendingar erum bókaþjóð. Bækur gegna lykilhlutverki í menntakerfinu og miðla sögu og menningu okkar til komandi kynslóða. Nú er svo komið að bóksala hefur dregist saman um 31% frá árinu 2008 og sölutölur fyrir fyrstu fjóra mánuði ársins sýna mikinn samdrátt. Ýmsar ástæður eru líklega fyrir þessum samdrætti, til dæmis aukin notkun samskiptamiðla og önnur afþreying. Hins vegar er mikilvægt að bregðast við þessari þróun. Noregur, Færeyjar, Bretland og Írland hafa öll afnumið virðisaukaskatt á bækur. Í kjölfarið hefur sala aukist verulega.
Ljóst er að íslensk bókaútgáfa mun minnka verulega ef ekki verður tekið á þessari þróun. Fyrir því er engin þolinmæði. Þess vegna munu þingmenn Framsóknarflokksins leggja fram frumvarp á næstu dögum um breytingu á lögum um virðisaukaskatt sem felur í sér afnám skatts á bækur. Ég hvet aðra þingmenn til þess að koma á þetta mál með okkur.
Góðir landsmenn. Ég tel að hægt sé að hagræða frekar í ríkisrekstri, til að mynda með sameiningu stofnana og frekari ábyrgð er varðar rekstur ríkissjóðs. Við þurfum að lækka áfram skuldir til að lækka vaxtakostnað sem eykur svigrúmið sem við höfum til fjármögnunar velferðarmála. Það er brýnt að forgangsraða í þágu velferðarmála ásamt því að grunnatvinnuvegir okkar fái að blómstra í stöðugu umhverfi. Farsæl framtíð liggur í því að stjórnvöld skilji hvenær á að fara í brýn framfaramál og hvenær þau þola enga bið.
Ég er full tilhlökkunar fyrir komandi þingvetri og hlakka til samstarfsins hér á þingi og samtalsins við kjósendur.”
Lilja Dögg Alfreðsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 13. september 2017.

Categories
Fréttir

,,Hækkun skatta á eldsneyti og ferðaþjónustu mun bitna mest á landsbyggðinni"

Deila grein

14/09/2017

,,Hækkun skatta á eldsneyti og ferðaþjónustu mun bitna mest á landsbyggðinni"

,,Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Hér situr ríkisstjórn sem ætlaði ekki að hækka skatta. Nú er hins vegar útlit fyrir að ríkisstjórnin, undir forystu Sjálfstæðisflokksins, ætli sér að setja Íslandsmet í skattahækkunum. Já, svo bregðast krosstré sem önnur tré. Hæstv. forsætisráðherra Bjarni Benediktsson skautaði fimlega frá þeirri skattstefnu í ræðu sinni hér fyrr í kvöld eins og hans er von og vísa. Honum varð tíðrætt um góðar horfur í efnahagsmálum en hafði þó töluverðar áhyggjur af stöðugleikanum vegna fyrirséðra kjaraviðræðna.
Sú sem hér stendur var sammála ráðherra að sumu leyti, m.a. því að við þurfum að sýna þolinmæði varðandi uppbyggingu innviða og, jú, það er mikilvægt að halda stöðugleikanum því að það er okkur öllum fyrir bestu. Að öðru leyti þótti mér ræðan heldur innihaldsrýr og alls ekki innblásin af þeim metnaði og þeirri ástríðu sem maður teldi að forsætisráðherra í svo til nýrri ríkisstjórn ætti að hafa við afgreiðslu sinna fyrstu sameiginlegu fjárlaga.
Eftir að hafa lesið fjárlagafrumvarpið og farið yfir tillögur fjármálaráðherra í skattamálum, t.d. varðandi hækkun skatta á eldsneyti og hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu sem ég tel að muni koma sér sérlega illa fyrir dreifðari byggðir og minni fyrirtæki, skil ég vel hvers vegna hæstv. forsætisráðherra er ekki í essinu sínu hér í kvöld. Ég skil líka vel að hans fólki í þingflokki Sjálfstæðisflokksins líði hreint ekki vel þegar það reynir að ímynda sér hvernig verður að sitja í þingsalnum eftir nokkrar vikur og ýta á græna takkann þegar atkvæðagreiðslur um fjárlög 2018 fara fram. Sannleikurinn er nefnilega sá að fólk hefur ekki þá sannfæringu sem til þarf svo hægt sé að fylgja slíkri efnahagsstefnu eftir.
Skattahækkanir voru ekki það sem kjósendum Sjálfstæðisflokksins var lofað. Var kjósendum Viðreisnar lofað skattahækkunum? Hvað með kjósendur Bjartrar framtíðar? Vissu þau að skattar yrðu hækkaðir og það á sama tíma og ríkissjóður skilar 44 milljörðum í afgang, 19 milljörðum meira en gert var ráð fyrir?
Hæstv. fjármálaráðherra: Vantar okkur í alvöru pening miðað við allan þennan afgang? Hvernig ætla menn sér að réttlæta þessar gríðarlegu skattahækkanir, vísitöluhækkanir í kjölfarið og kaupmáttarskerðingar sem fram undan eru ef þessi stefna verður samþykkt? Hvernig ætlar ríkisstjórnin að lifa af heilan þingvetur? Og ég spyr þrátt fyrir að hafa ekki enn nefnt risastór ágreiningsmál innan ríkisstjórnar, eins og framtíð krónunnar, Evrópusambandið, framtíð sauðfjárbúskapar í landinu og matvælaframleiðslu almennt.
Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Mig langar að vitna í viðtal sem birtist á mbl.is í dag við Runólf Ólafsson, framkvæmdastjóra FÍB. Hann bendir á að miðað við fyrirhugaðar skattbreytingar hækki dísilolían um 21 kr. á lítra og bensín um 9 kr. á lítra. Miðað við venjulega notkun á fjölskyldubíl aukast útgjöld á fjölskyldu sem á einn bíl um 30.000–60.000 kr. Vegna slíkra útgjalda þarf að vinna sér inn u.þ.b. 50.000–90.000 kr. í tekjur til að eiga fyrir hækkuninni. Miðað við þessar tölur fer hækkun til örorku- og ellilífeyrisþega fyrir lítið þar sem gert er ráð fyrir að lágmarksfjárhæð á einstakling sem býr einn hækki úr 280.000 í 300.000 kr., 20.000 kr. viðbót. Ég geri einnig ráð fyrir að skattahækkanirnar eigi eftir að hafa verulega neikvæð áhrif á kjaraviðræðurnar.
Samkvæmt frumvarpinu eiga tekjurnar af skattahækkunum eldsneytis ekki að renna til uppbyggingar á samgöngum. Nei, ríkisstjórnin gæti hins vegar vel hugsað sér vegtolla.
Eldsneyti vegur einnig mjög þungt í vísitölunni. Það þýðir að húsnæðislánin okkar allra munu hækka. Kaupmáttaraukningin virðist ætla að fara fyrir lítið sem og stöðugleikinn með þessari glórulausu stefnu.
Virðulegi forseti. Er þetta í alvöru sú leið sem almenningur taldi sig vera að samþykkja í síðustu alþingiskosningum? Eða er þetta allt saman einn hrikalegur misskilningur?”
Silja Dögg Gunnarsdóttir í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra, 13. september 2017.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

„Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni“

Deila grein

13/09/2017

„Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni“

„Frú forseti. Góðir landsmenn. Ekki er hægt að segja að sú ríkisstjórn sem nú situr við völd sé líkleg til mikilla afreka.
Stjórnarsáttmálinn er sem kunnugt er þunnur þrettándi. Lítið hefur til ríkisstjórnarinnar spurst í sumar, hún er lítt sýnileg og flýtur sofandi að feigðarósi á meðan málin stór og smá bíða afgreiðslu og úrlausnar.
Árangur og horfur í efnahagmálum eru sannarlega góðar en koma ekki af sjálfu sér. Árangur næst með samvinnu, samstöðu, markvissri vinnu og úthaldi og á fyrri ríkisstjórn mikinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur. Fyrirséð er að áfram verði vöxtur í þjóðarframleiðslu og því þarf að nýta tímann vel til að uppbyggingar, fyrir almenning, fyrir fólkið í landinu.
Það er rétt sem kom fram hjá hæstv. forsætisráðherra að það þarf þolinmæði til að byggja upp innviði. Ef ekki núna, hvenær þá? Að mati okkar framsóknarmanna er tækifærið núna að efla grunnþjónustu og byggja upp.
Grunntónn í ræðu hæstv. forsætisráðherra gefur ekki beinlínis til kynna að það eigi að nýta nokkra tugi milljarða afgang á ríkissjóði til að búa heilbrigðis-, mennta- og samgöngukerfið í haginn fyrir framtíðina.
Heilbrigðisstofnanir og skólar þurfa öfluga uppbyggingarstefnu ekki stöðnun.
Landsmenn vilja fjölbreytta þjónustu í takt við þarfir á hverjum tíma óháð búsetu, og aðgengi má ekki takmarka út frá efnahag fólks.
Til að takast á við áskoranir framtíðarinnar er lykilatriði að menntun sé fjölbreytt og ýtt sé undir nýsköpun þannig að okkar stærsta auðlind, mannauðurinn fái að njóta sín. Byggja þarf þekkingarbrú á milli skóla og atvinnulífs á öllum skólastigum.
Ríkisstjórnin virðist heldur ekki ætla að nota ríkulegan afgang til að fjárfesta í samgöngum sem er ein mikilvægasta fjárfesting sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð, en vegakerfið er víða bágborið.
Stöðu aldraða þarf að bæta áfram og nýta þá vinnu sem unnin var á síðasta kjörtímabili. Þau sem ruddu brautina fyrir okkur sem yngri erum eiga að njóta virðingar, jafnræðis og sanngirni. Við framsóknarmenn viljum að þeim sé gert auðveldara að taka virkan þátt í samfélaginu með því að taka strax upp sveigjanleg starfslok og að hækka frítekjumörk.
Þá eiga nýlegar lagabreytingar í húsnæðismálum að leiða til byltingar og vera aðstoð við kaup á fyrstu fasteign og tryggja ódýrara leiguhúsnæði. Boltinn er m.a. hjá sveitarfélögunum.
Gallinn er hins vegar sá að stærsta sveitarfélagið Reykjarvíkurborg virðist aðeins hafa áform um að byggja nýjar íbúðir gegnum glærusýningar.
Þó staða efnahagsmála sé góð, er að mati okkar framsóknarmanna, ein stærsta áskorun okkar í efnahagsmálum okurvextir og óeðlilegar sveiflur í gengi. Rannsaka þarf samspil hárra vaxta og gengis til að koma í veg fyrir óeðlilegar sveiflur og fyrirbyggja skaðleg áhrif á útflutningsatvinnugreinar. Agi og samvinna þarf að ríkja á milli nýrrar peninga- og fjármálastefnu til að tryggja þann stöðugleika sem grunnur var lagður að í tíð síðustu ríkisstjórn.
Við viljum einnig sjá uppstokkun á bankakerfinu. Bankakerfið á að þjónusta heimili og fyrirtæki. Hinn almenni neytandi þarf að geta treyst því að eftirlitið sé virkt og aðhald sé gagnvart fjármálastofnunum. Margt hefur áunnist í að endurvekja traust, en þónokkuð er í land.
Þessu tengt þá sendi, sá sem hér stendur, fyrirspurn til hæstv. forsætisráðherra um eignasafn Seðlabankans, og fékk til baka frekar fátækleg svör um hverjir hafi sinnt þjónustu fyrir bankann og keyptu eignir.
M.ö.o. almenningur fær ekki að vita hverjir keyptu, á hversu mikið, né hvernig þær voru greiddar.
Á sama tíma opna ráðuneytin bókhaldið. Er eðlilegt að Seðlabankinn geti skýlt sér á bak við bankaleynd þegar hann höndlar með eigur almennings?
En stærstu málin um ókomna framtíð eru án efa loftslagsmálin. Ríkisstjórnin vinnur nú að Sóknaráætlun sem lögð var fram í tíð síðustu ríkisstjórnar á grunni Parísarsamkomulagsins. Mikilvægt er að styðja vel við nýsköpun, fjárfestingar og þróa áframhaldandi þekkingu til að flýta fyrir nauðsynlegum tæknibreytingum á endurnýjanlegri orku.
Virðulegir forseti. Það dylst engum að hæstv. forsætisráðherra á í verulegum vanda með að hafa stjórn á litlu samstarfsflokkunum. Eins og stóri bróðir leyfir hann þeim að stökkva fram með yfirlýsingar en slær svo á puttana afleiðingin er óljós stefna, óskýr skilaboð.
Björt Framtíð sem virðist vera verkfælin varð þó ekki latari en svo í sumar að umhverfisráðherra notaði þingsal í auglýsingaskyni fyrir einkafyrirtæki og braut siðareglur ráðherra. Síðasta ríkisstjórn setti siðareglur til þess að eftir þeim yrði farið. Heilbrigðisráðherra sem á að stýra einu viðamesta ráðuneytinu, gleymdi að taka iðjusama íkornann og útsjónarsemi hans sér til fyrirmyndar.
Fjármálaráðherra – sem stundum hefur verið sagður í hagsmunagæslu fyrir fjármálaöflin – gerði tilraun til að auka tekjur kortafyrirtækja og banka með því að afnema tíu þúsund króna seðilinn. Rök fjármálaráðherra voru þau að koma átti í veg fyrir að almenningur sviki undan skatti. Á sama tíma keppast ráðherrar og þingmenn Viðreisnar um að tala niður krónuna og vilja taka upp evru en þar er stærsti seðilinn 500 evrur eða um 65 þús. kr.
Góðir landsmenn. Það er engu líkara en ríkisstjórnin sé á sjálfstýringu. Stefnu- og ráðaleysið er algert og þegar tillögur eða aðgerðir koma fram þá er undir hælinn lagt hvar þær lenda. Stóru málin liggja í láginni hjá ríkisstjórninni.
Það er okkar stjórnmálamannanna að berjast fyrir breytingum til að hlúa að undirstöðuatvinnugreinum og fjölga störfum með nýsköpun og menntun.
Ég fæ ekki betur séð en að landbúnaðarráðherra sé að þrengja svo að íslenskri matvælaframleiðslu og að það stefni í algjört hrun í greininni og afleiddum störfum víðsvegar um land.
Sjálfstæðisflokkurinn samþykkir þegjandi og hljóðalaust en ber ábyrgðina!
Svipaða sorgarsögu er að segja af nýlegri skýrslu ráðherra í fiskeldismálum, þar sem niðurstaðan er sett fram án fullnægjandi greiningar og störfum beinlínis sópað undir teppið. Auðvitað eigum við að fara varlega og tryggja með öllum ráðum hlut villtra laxastofna eins og við höfum áður gert t.a.m. árið 2004 með lokun allra helstu fjarða og flóa og árið 2015 með því að setja ýtrustu kröfur inn í ný lög og reglur um fiskeldi.
Góðir landsmenn. Við framsóknarmenn teljum að staðan sé víða mjög góð og mikil tækifæri í að hér haldi áfram skynsamlegur vöxtur. Hins vegar þarf aðra stjórnarstefnu.
Við höfum efni á því að búa betur að þeim sem minna mega sín í samfélaginu.
Þá eru tækifæri til uppbyggingar víða um land þrátt fyrir þenslu, en nýleg skýrsla Byggðastofnunar sýnir að hagvöxtur er mjög mismunandi eftir landshlutum. Á Vestfjörðum var hann t.d. neikvæður um 6% á árunum 2008-2015, á meðan hann var jákvæður í öllum öðrum landshlutum mismikið þó.
Með sömu þjónustu og aðstæðum, alls staðar á landinu okkar, er samfélagið Ísland sterkara.
Við eigum að treysta sveitarfélögunum fyrir því að byggja upp sjálfbær samfélög. T.a.m. er umræðan á Vestfjörðum skiljanleg og væntanlegur íbúafundur þann 24. september liður í því að sá landshluti segi: „Við viljum hafa það í okkar höndum að byggja upp sjálfbæra atvinnu, samgöngur og hafa aðgang að rafmagni“.
Okkur framsóknarmönnum virðist að þar segi ríkisstjórnin pass.
Í öllum landshlutum fer nú fram slík umræða af því ríkisstjórnin er áhugalaus, aðgerðalaus og stefnulaus um að byggja upp allt landið.
Þessu þarf að breyta. Einkunnarorð ríkisstjórnarinnar, jafnvægi og framsýni, eru fögur orð á blaði, en fjarri raunveruleikanum því hún beinir sjónum sínum að þeim sem fjármagnið eiga. Því kemur það ekki á óvart að stuðningur við ríkisstjórnina sé sögulega lítill.
Því segjum við framsóknarmenn tökum nú saman höndum tryggjum hag þeirra sem verst standa nýtum tímann og góðan efnahag í að byggja upp án þess að auka þensluna. Það er hægt.
Góðar stundir.“
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, í umræðu á Alþingi um stefnuræðu forsætisráðherra 13. september 2017.

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Þingflokkur Framsóknarflokksins við upphaf 147. löggjafarþings

Deila grein

12/09/2017

Þingflokkur Framsóknarflokksins við upphaf 147. löggjafarþings



Myndin af þingflokknum var tekin 12. september 2017 í Alþingisgarðinum fyrir aftan Alþingishúsið. Garðurinn er elsti íslenski almenningsgarðurinn sem hefur varðveist í upprunalegri mynd.
Á myndinni eru frá hægri: Eygló Harðardóttir, Silja Dögg Gunnarsdóttir, Elsa Lára Arnardóttir, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður, Þórunn Egilsdóttir, þinflokksformaður, Gunnar Bragi Sveinsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Categories
Forsíðuborði Fréttir

Framsókn á Fundi fólksins

Deila grein

10/09/2017

Framsókn á Fundi fólksins

Framsóknarflokkurinn stóð fyrir viðburði á Fundi fólksins sem fram fór um helgina í Hofi á Akureyri. Viðburðurinn bar yfirskriftina Framtíðarmenntunin. Hvernig vinnum við með vélmennum? Líflegar og góðar umræður áttu sér stað og sneru um að finna leiðir til að efla nemendur til að takast á við framtíðina, en á næstu árum munu fjölmörg störf hverfa á meðan ný koma að einhverju leyti í staðinn.
Fyrirsjáanlegt er að tækniþróunin verði hröð og því þarf hugarfarsbreytingu um hvernig við getum stuðlað að menntun og nýsköpun í takt við þarfir framtíðar. Á fundinum kom fram að mikilvægt er að menntun taki breytingum með þróun atvinnulífs og starfsgreina að leiðarljósi. Róbert Guðfinnsson, frumkvöðull flutti áhugavert erindi um rannsóknir, vöruþróun og fjárfestingar. Þá var Inga Eiríksdóttir kennari við Menntaskólann á Tröllaskaga með fróðlegt erindi um nýtt fag sem er kennt við skólann og ber þann dularfulla titil vélmennafræði þar sem kennd er samsetning og forritun á hinum ýmsum vélmennum.
Þá voru í pallborði Soffía Gísladóttir forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Norðurlandi og Jón Þór Sigurðsson umsjónarmaður FAB Lab smiðju í VMA. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins flutti síðan lokaorð og samantekt. Fundarstjóri var Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður.