Categories
Forsíðuborði Fréttir

Bréf frá formanni

Deila grein

25/09/2017

Bréf frá formanni

Kæru flokksfélagar,
atburðarrás síðustu daga hefur valdið umróti í flokknum sem hefur orðið til þess að gott fólk hefur valið að yfirgefa okkar trausta og gamalgróna flokk. Ég vil þakka þeim fyrir störf í þágu flokksins og óska þeim alls hins besta.
Ég þarf ekki að eyða mörgum orðum í þá atburði sem urðu til þess að fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins ákvað að segja skilið við flokkinn. Þá atburði þekkjum við vel og höfum eðlilega á þeim mismunandi skoðanir. Það er nauðsynlegt að við núverandi aðstæður að taka stöðuna og ákveða hvernig hugsjónum og markmiðum Framsóknarflokksins verði best náð til heilla og hagsbóta fyrir alla landsmenn. Það gerum við með samstöðu og samvinnu alls þess góða fólks sem í flokknum starfar og stuðningsmanna hans.
Framsóknarflokkurinn á yfir 100 ára farsæla sögu. Vissulega hafa komið upp tilvik þar sem við erum ekki sammála, þar sem tekist er á um málefni en síðan komist að niðurstöðu með lýðræðislegum hætti. Við greiðum atkvæði og hlítum niðurstöðunni. Við ætlumst til þess að lýðræðisleg vinnubrögð séu viðhöfð í samfélaginu sem og í flokknum okkar.
Framsóknarfólk hefur á undanförnum árum unnið saman að brýnum hagsmunamálum þjóðarinnar og náð árangri með sannfæringu, krafti og samstöðu að leiðarljósi. Í þingflokkum eru öflugir einstaklingar og þeir sem hafa verið tilbúnir til að vinna saman hafa gert það mjög vel. Þingflokkurinn hefur áunnið sér traust og er eftirsóknarverður samstarfsflokkur.
Ég hvet þá sem eru að íhuga framboð að stíga fram og gefa kost á sér á lista Framsóknarflokksins. Góður árangur og samvinna byggist á því að fólkið í flokknum taki þátt í flokksstarfi og móti stefnu til framtíðar. Þannig erum við sterkust og þannig náum við árangi sem heild.
Staða Framsóknarflokksins er sterk og mikilvægt að við göngum sameinuð til kosninga. Við höfum skyldum að gegna. Of mörg mál hafa legið í láginni hjá síðustu ríkisstjórn sem þola enga bið. Það er okkar að hlúa að þeim sem minna eiga og byggja upp nauðsynlega innviði í velferðarkerfinu.
Kjósendur vilja trausta stjórnmálamenn og flokka sem sýna ábyrgð í störfum sínum. Kosningarnar 28. október munu öðru fremur snúast um traust og stöðugleika. Á þann hátt nýtist efnahagsbatinn sem best í þágu allra.
Málefnalega stöndum við sterkt. Við þurfum:

  1. Traust og stöðugleika –kjósendur vilja trausta stjórnmálamenn og flokka sem sýna ábyrgð í störfum sínum.
  2. Öfluga uppbyggingu í heilbrigðis- og skólamálum –með markvissri stefnu um land allt til að tryggja almenningi, ekki síst öldruðum og ungum viðunandi lífskjör, óháð búsetu.
  3. Stórbætt samgöngukerfi.
  4. Fjölmörg önnur mál t.d. sjálfbær ferðaþjónusta í sátt við náttúrna og þjóðina.

Ég vil starfa með flokkum sem vilja öflugt heilbrigðis- og menntakerfi og samgöngur. Bæta kjör þeirra sem lakast standa m.a. aldraðra, öryrkja og barna. Endurbæta skattkerfið til að létta skattbyrði hjá fólki með milli- og lægri tekjur en hækka á hátekjur.
Kæru vinir,
göngum óhikað til góðra verka, horfum fram á við og stöndum saman. Í öllum þeim störfum sem flokksmenn hafa falið mér hefur mér fundist bæði gaman og gefandi að starfa fyrir Framsóknarflokkinn. Ég hef leitast við að gera mitt besta og mun gera það áfram. Ykkar framlag er mikilvægt, án ykkar væri ekkert starf og enginn Framsóknarflokkur. Í komandi kosningum er þörf fyrir öflugan Framsóknarflokk. Við erum sterkust þegar við stöndum saman. Höldum því áfram.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.