Categories
Fréttir

„4000 ársverk“

Deila grein

06/05/2020

„4000 ársverk“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, mælti fyrir frumvarpi til nýrra laga um samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir á Alþingi í gær.
„Frumvarp þetta, sem er eitt af áherslumálum mínum, hefur verið í undirbúningi í ráðuneytinu sl. tvö ár og snýr að því að auka nauðsynlegt fjármagn til vegaframkvæmda.“
„Álag á vegi landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum, m.a. vegna fjölgunar ferðamanna. Á meðan við bíðum eftir að ferðamennirnir komi aftur er því skynsamlegt að nýta vel tímann til undirbúnings framkvæmda og á það hafa ýmsir bent á síðustu dögum og vikum. Markmið frumvarpsins er sem sagt að auka verulega fjármagn til vegaframkvæmda og mæta mikilli þörf fyrir fjárfestingar í samgöngum. Þannig er áætlað að samvinnuverkefni sem hér eru kynnt um vegaframkvæmdir geti skapað allt að 4.000 ársverk sem skiptist á milli hönnunar í hátæknistörfum og verktaka á framkvæmdatíma fyrir utan þau störf sem leiðir af slíkri starfsemi. Því er þetta frumvarp ákaflega mikilvægt verkfæri í því skyni að efla innlenda starfsemi á næstu mánuðum og árum, efla efnahaginn og fjölga störfum.“
Með þessu frumvarpi er komið fjárfestingartækifæri, til að mynda fyrir lífeyrissjóðina, fjárfesting til langs tíma, 15–30 ára.

Notum því tímann vel og höldum áfram
„Ríkisstjórnin hefur lagt mikla áherslu á innviðauppbyggingu á öllum sínum starfsferli, ekki síst samgöngumálin. Því til upprifjunar hef ég tvisvar sinnum lagt fram samgönguáætlun síðustu tvö árin. Í þeirri sem þingið fjallar um núna er umtalsverð aukning fjármuna. Fjármagn til vegaframkvæmda mun aukast um 4 milljarða ár hvert næstu fimm árin. Framkvæmdum upp á 214 milljarða verður flýtt innan 15 ára tímabilsins. Fjármagn til viðhalds og þjónustu mun aukast um 1 milljarð á ári næstu 15 árin. Þá er samkomulag um beina fjármögnun ríkisins í samgöngusáttmála við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem er á dagskrá síðar í dag upp á eina 45 milljarða, verkefni alls upp á 120 milljarða. Í samgönguáætlun sem er fyrir þinginu er einnig að finna fyrstu flugstefnu Íslands og fyrstu heildarstefnu um almenningssamgöngur milli byggða. Mikil áhersla er lögð á samgöngumálin.
Fyrir utan samgönguáætlun er síðan flýtifjármögnun og samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir sem er hér til umfjöllunar. Með flýtiframkvæmdum sem frumvarpinu er ætlað að flýta mun því losna um framkvæmdafé sem unnt verður að ráðstafa til verkefna sem annars hefðu þurft að bíða lengur en áætlað var.“
Vegfarendur eigi val um aðra leið
„Helstu forsendur fyrir ákvörðun um samvinnuverkefni í vegagerð er að vegfarendur eigi val um aðra leið þar sem ekki þarf að greiða notendagjald. Í samvinnuverkefnunum sem hér er fjallað um er lykilatriði að stytting verði á vegalengd og að þannig sé ábati vegfaranda verulegur. Gert er ráð fyrir að notendagjöld standi að mestu undir kostnaði og rekstri. Þessu til viðbótar má færa rök fyrir því að samvinnuverkefni hafi hámarkshagnað í för með sér þegar litið er til ábata samfélags af samgöngubót þar sem val á framkvæmdum er oftar en ekki háð eftirspurn eftir þjónustunni. Þannig fær samfélagið meira fyrir peningana þegar samvinnuverkefni eiga í hlut.“
Ýmsar ástæður eru fyrir því að leitað hefur verið til einkafyrirtækja um að koma í auknum mæli að uppbyggingu samgöngukerfa:

  • samvinnuverkefni geta verið leið til að viðhalda fjárfestingu í erfiðu árferði.
  • samvinnuverkefni eru leið til að virkja kosti einkaframtaks í samgöngum, nánar tiltekið nýsköpun og sveigjanleika í uppbyggingu og viðhaldi vegakerfisins.
  • samvinnuverkefni geta stuðlað að því að skattgreiðendur fái meira fyrir peningana sína, þjónustan verði betri og áhættuskipting milli hins opinbera og einkaaðila hagfelld.

„Samvinnuverkefni felur í sér að greiðslur fyrir verkið geta falist í notendagjöldum, skuggagjöldum eða föstum greiðslum ríkissjóðs til verksala. Ekki er óalgengt að einkaaðili taki nokkra fjárhagslega áhættu, hvort sem er af fjármögnuninni sjálfri og/eða af því að umferðarþungi sé ekki undir áætlun. Það eru áhöld um hvort umferðarspár haldi.
Oft er horft til þess að aðilar á markaði búi yfir þekkingu og reynslu sem nýtist við að vinna með áhættu í framkvæmdum. Engu að síður má gera ráð fyrir því að tilboð verktakans um að ganga til samstarfs við ríkið um verkefni hækki í takt við þá áhættu sem hann tekur í samstarfinu en mismunandi mikið eftir aðilum og verkefnum. Í lok samningstíma tekur ríkið við rekstri mannvirkjanna endurgjaldslaust. Við þekkjum svona verkefni. Þarna er verið að lýsa Hvalfjarðargangamódelinu.
Þau verkefni sem lagt er til að verði unnin sem samvinnuverkefni í þessu frumvarpi eru eftirfarandi: Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá, hringvegur um Hornafjarðarfljót og ný brú þar, Axarvegur, tvöföldun Hvalfjarðarganga, hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í gegnum Reynisfjall og síðan Sundabraut. Í öllum tilvikum hafa vegfarendur val um aðra leið og allar framkvæmdirnar hafa í för með sér aukið umferðaröryggi.
Í frumvarpinu eru upplýsingar um hvert og eitt verkefni ásamt upplýsingum sem hafa áhrif á útreikninga notendagjalds, svo sem kostnaðaráætlun þar sem hún liggur fyrir og upplýsingar um vegstyttingu.
Megintilgangur frumvarpsins er að veita heimild til að fjármagna samvinnuverkefni að hluta eða að öllu leyti með gjaldtöku af umferð um vegaframkvæmdirnar. Gjaldtakan skal þó ekki hefjast fyrr en að framkvæmdum lýkur og aldrei standa lengur en í 30 ár.
Notendagjöldin geta staðið að heild eða að hluta undir byggingar- eða framkvæmdakostnaði, viðhaldi, rekstri, þróun eða eðlilegum afrakstri af fjárfestingu vega. Í frumvarpinu er veitt heimild til að semja um að eignarhald mannvirkjanna geti á samningstímanum verið hjá einkaaðilanum en í lok samningstímans skulu mannvirkin teljast eign ríkisins án sérstaks endurgjalds.“

„Við núverandi aðstæður svarar frumvarpið brýnni þörf fyrir uppbyggingu fyrir komandi tíma, nýtt álag á vegi með vaxandi ferðamannastraumi. Það svarar brýnni þörf fyrir fjölgun starfa. Það svarar því að fleiri arðsamir fjárfestingarkostir verða fyrir langtímafjárfestingar, til að mynda lífeyrissjóðanna,“ sagði Sigurður Ingi.

Categories
Fréttir

Nýsköpun og atvinnuþróun í héraði skapa störf!

Deila grein

05/05/2020

Nýsköpun og atvinnuþróun í héraði skapa störf!

„Gaman að sjá að sveitarfélög vítt og breitt um landið eru að auglýsa störf í tengslum við nýsköpun og atvinnuþróun í heimahéraði. Þetta kallar námsmenn heim og eykur möguleika á að ný tækifæri skapist og fjölbreytni eykst í atvinnulífi úti á landi,“ segir Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í færslu á Facebook í dag.
Hér er Halla Signý að vísa til auglýsingar atvinnu- og nýsköpunarsjóðs Húnaþings vestra um umsóknir um styrki til að stuðla að og styrkja frumkvæði íbúa og hvetja til samstarfs og nýsköpunar í sveitarfélaginu.
Markmið atvinnu- og nýsköpunarsjóðs Húnaþings vestra er að hvetja til jákvæðrar umræðu og verkefna á sviði atvinnuþróunar í sveitarfélaginu. Áherslur lúta að verkefnum sem stuðlað geta að auknum umsvifum, betri afkomu og rekstri fyrirtækja og þróun og nýsköpun í atvinnulífi í Húnaþingi vestra.
Styrkir sem veittir eru úr atvinnu- og nýsköpunarsjóði Húnaþings vestra eru fyrst og fremst verkefna- og framkvæmdastyrkir, ekki rekstrarstyrkir eða styrkir til að mæta opinberum gjöldum eða greiða skuldir.

Categories
Fréttir

Lögbundnar tímaviðmiðanir ekki virtar?

Deila grein

05/05/2020

Lögbundnar tímaviðmiðanir ekki virtar?

„Þegar kemur að leyfum í fiskeldismálum er oft tiltekið að bíða þurfi lengi eftir afgreiðslu á málum hjá Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun,“ sagði Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðvesturkjördæmi, í óundirbúnum fyrirspurn á Alþingi í gær.

„Það að flýta afgreiðslu leyfa til fiskeldis gæti á þessu ári og til framtíðar haft í för með sér mikla fjárfestingu hér á landi og ráðningar á fleira fólki til starfa og það er það sem við þurfum á þessum tímum.“

Nýlega hefur sjávarútvegsráðherra gert átak til að stytta málsmeðferðartíma í útgáfu rekstrarleyfa fyrir fiskeldi og vildi Halla Signý fá svar við í framhaldi til hvaða ráðstafana umhverfis- og auðlindaráðherra megi grípa svo að lögbundnar tímaviðmiðanir séu virtar?

„Til að geta starfrækt fiskeldi þarf álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum að liggja fyrir og auk rekstrarleyfis frá MAST þarf starfsleyfi frá Umhverfisstofnun. Mig langar að beina þeirri spurningu til hæstv. umhverfisráðherra hvort hann hafi skoðað tímalengd leyfisveitinga í þessum stofnunum sem heyra undir hann, þ.e. Skipulagsstofnun og Umhverfisstofnun, með tilliti til þessara aðgerða sem stjórnvöld vilja fara í. Til hvaða ráðstafanir má grípa til svo lögbundnar tímaviðmiðanir séu virtar.“

Umhverfis- og auðlindaráðherra viðurkenndi að „að í sumum tilfellum gætu ferlar verið of flóknir og í öðrum tilfellum taki það hreinlega langan tíma að afgreiða málin hjá stofnunum okkar sem er oft og tíðum vegna þess að þar er mannekla“. Bætti hann svo við að gæta verði þess að aðkoma umhverfisverndarsamtaka og almennings sé tryggð.

„En það er alveg skýrt að við viljum ekki ganga á rétt eins né neins heldur bara að hraða ferlinu til þess að við getum komið þessari vinnu af stað sem skiptir gríðarlega miklu máli hvað varðar að fá aukin útflutningsverðmæti og koma fleira fólki að til að vinna við þetta,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

Framhald varna, verndar og viðspyrnu tryggð

Deila grein

29/04/2020

Framhald varna, verndar og viðspyrnu tryggð

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald hlutastarfaleiðar og aukinn stuðningur við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir umfangsmiklu tekjutapi og koma þannig í veg fyrir fjöldagjaldþrot. Fyrirtækjum verður gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti til að tryggja réttindi launafólks.
Hlutastarfaleiðin verður framlengd til hausts með breytingum og settar verða einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja sem miða að því þau geti komist í skjól með einföldum hætti.
Ríkisstjórnin hefur samþykkt þrjár tillögur um stuðning við launafólk og fyrirtæki. Markmið þeirra er að  draga úr þeim skaða sem umfangsmiklar uppsagnir og fjöldagjaldþrot valda þannig að staðinn verði vörður um réttindi launafólks á sama tíma og stuðlað verði að kröftugri viðspyrnu efnahagslífsins.

  • Hlutastarfaleið verður framlengd en hefði að óbreyttu fallið úr gildi þann 1. júní nk. Afkoma tugþúsunda launafólks hefur verið varin frá því að leiðin tók gildi en ljóst er að efnahagshorfur hafa breyst umtalsvert á þeim rúma mánuði sem liðinn er frá gildistöku hennar. Hlutastarfaleiðin verður því framlengd án breytinga með 25% lágmarksstarfshlutfalli út júní en lágmarkið hækkar í 50% í júlí. Leiðin verður í boði til 31. ágúst. Sækja þarf um framlengingu leiðarinnar og skilyrði fyrir þátttöku verða endurskoðuð.
  • Settar verða tímabundið einfaldari reglur um fjárhagslega endurskipulagningu fyrirtækja. Byggt verður á núgildandi grunnreglum en breytingar miða að því að fyrirtæki geti komist í skjól á einfaldan hátt á meðan verið er að meta stöðu þeirra og uns meiri vissa fæst um framtíðarhorfur. Breytingar lúta m.a. að skilyrðum fjárhagslegrar endurskipulagningar, beiðni og umfjöllun um hana, tímafrestur, heimildum til ráðstafana og riftunar- og vanefndaheimildum viðsemjenda.
  • Í því skyni að tryggja réttindi launafólks og forða gjaldþrotum eins og kostur er verður fyrirtækjum gefinn kostur á að sækja um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti. Stuðningurinn verður í formi greiðslu að hámarki 633 þús. kr. á mánuði í allt að þrjá mánuði auk orlofs og einskorðast við fyrirtæki sem orðið hafa fyrir að lágmarki 75% tekjufalli og sjá fram á áframhaldandi tekjufall að minnsta kosti út þetta ár. Áætlað er að um fjórðungur fyrirtækja hafi orðið fyrir slíku tekjutapi. Hámarkshlutfall stuðnings ríkisins verður 85%. Starfsmenn skulu eiga forgang til starfs þegar starfsemi hefst að nýju og halda tilteknum áunnum réttindum. Sett verði nánari skilyrði, til að mynda um rekstrarhæfi fyrirtækis, fyrir aðild að þessu úrræði og um endurkröfurétt. Leiðin er í boði frá 1. maí til 30. september.

Unnið er að frumvörpum um tillögurnar í félagsmála-, fjármála- og efnahags- og dómsmálaráðuneyti. Samráð verður haft við aðila vinnumarkaðarins um endanlegar útfærslu.
Ríkisstjórnin hefur áður kynnt á að sérstök áhersla sé lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð hafa verið til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða er talið nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt sé að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt verði fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verði framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020.

Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.

Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019.

Categories
Fréttir

Varnir, vernd og viðspyrna

Deila grein

22/04/2020

Varnir, vernd og viðspyrna

Sérstök áhersla er lögð á uppbyggingu með nýsköpun í aðgerðaáætlun stjórnvalda. Lögð eru til aukin framlög til fjárfestingar í sprotafyrirtækjum og hækkun endurgreiðsluhlutfalls og fjárhæðarþaks til fyrirtækja vegna rannsókna og þróunar, en áhrif þessara aðgerða nema tæpum 4,5 milljörðum króna. Stefnt er að því að flýta endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar fyrir árið 2019. Auk þess verður sótt fram í matvælaframleiðslu, meðal annars með nýsköpun og markaðssetningu. Þá verða framlög til listamannalauna aukin þannig að úthluta megi rúmlega 600 verkefnamánuðum til viðbótar á árinu 2020.
Veittir verða lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna, allt að 2,4 m.kr. Lítil og meðalstór fyrirtæki í rekstrarörðugleikum geta sótt um allt að 6 m.kr. óverðtryggð stuðningslán á sömu vöxtum og sjö daga bundin innlán lánastofnana hjá Seðlabanka Íslands, sem nú eru 1,75%. Ljóst er að stór hluti fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu mun geta nýtt leiðina þar sem hlutfall lítilla og meðalstórra fyrirtækja er töluvert meira í ferðaþjónustu en öðrum greinum. Áætluð heildarútgjöld vegna þessara tveggja aðgerða eru talin geta numið rúmlega 30 milljörðum króna. Einnig verður fyrirtækjum heimilt að jafna vegna tekjuskatts allt að 20 m.kr. af fyrirsjáanlegu tapi ársins 2020 á móti hagnaði ársins 2019.
Félagsleg úrræði með stuðningi við viðkvæma hópa, atvinnuleitendur og námsmenn vega þungt í aðgerðapakkanum. Verður 2,2 milljörðum króna varið til að skapa 3000 tímabundin störf í sumar fyrir námsmenn 18 ára og eldri og 300 m.kr. til að efla nýsköpun meðal ungra frumkvöðla gegnum Nýsköpunarsjóð námsmanna. Auk þess verður 800 m.kr. veitt til að bjóða sumarönn í framhalds- og háskólum sem nýtist bæði nemendum og fólki á atvinnuleysis- eða hlutabótum. Einnig verður ráðist í aðgerðir til að hlúa að viðkvæmum hópum, vinna gegn ofbeldi og félagslegri einangrun aldraðra og öryrkja, styðja við virkni atvinnuleitenda og tryggja tækifæri barna úr tekjulágum fjölskyldum til að taka þátt í frístundastarfi. Hugað verður sérstaklega að því að auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu og fjarheilbrigðisþjónusta verður efld. Alls verður um 8,5 ma.kr. varið til félagslegra aðgerða í þessum áfanga.
Til að styðja við fjölræði og fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði verður einkareknum fjölmiðlum tryggður sérstakur rekstrarstuðningur á yfirstandandi ári, en þeir hafa tapað miklum tekjum á sama tíma og eftirspurn eftir þjónustu þeirra hefur aukist. Komið verður til móts við lausafjárvanda ferðaskrifstofa með lagabreytingu sem heimilar þeim að endurgreiða vissar ferðir með inneignarnótum.
Til þess að liðka fyrir markmiði sveitarfélaga um flýtiframkvæmdir er lagt til að þeim verði veittur tímabundinn réttur til endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað auk þess sem Fasteignasjóður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fær heimild til að veita styrki til sveitarfélaga. Þá stendur yfir kortlagning á viðkvæmum svæðum á landsvísu og stafræn þjónusta sveitarfélaga verður efld.

  • Virkni á vinnumarkaði – úrræði til að efla fólk í atvinnuleit
  • Geðheilbrigði í forgangi, átak gegn ofbeldi og fjarheilbrigðisþjónusta efld
  • Margþættur stuðningur við börn – sérstakur frístundastyrkur til tekjulágra
  • Álagsgreiðslur til heilbrigðisstarfsfólks vegna Covid-19

***

  • Lokunarstyrkir til fyrirtækja sem var gert að hætta starfsemi vegna sóttvarna
  • Stuðningslán til lítilla og meðalstórra fyrirtækja
  • Fyrirtækjum heimilað að jafna tekjuskatt 2019 með tapi 2020

***

  • Sumarúrræði fyrir námsmenn – störf, nám og frumkvöðlaverkefni
  • Efling matvælaframleiðslu með nýsköpun og markaðssetningu
  • Frekari sókn til nýsköpunar – fjárfestingar auknar, hærra hlutfall endurgreiðslu og þök hækkuð vegna rannsókna og þróunar

Lítil fyrirtæki í rekstrarörðugleikum fá stuðning, brugðist er við vanda námsmanna, félagsleg úrræði efld og sjónum er beint að nýsköpun til framtíðar. Þetta er hluti af framhaldsaðgerðum stjórnvalda sem Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa kynnt vegna heimsfaraldurs kórónaveiru. Jafnframt greindu þau frá því að framlínufólk í heilbrigðisþjónustu sem búið hefur við aukið álag og mikla smithættu fái álagsgreiðslu.

Categories
Fréttir

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Deila grein

21/04/2020

Spurt og svarað um efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID-19 — 2. hluti

Ríkisstjórnin hefur kynnt framhald efnahagsaðgerða sinna vegna áhrifa Covid-19 heimsfaraldursins.

Markmið aðgerða ríkisstjórnarinnar er að verja grunnstoðir samfélagsins, vernda afkomu fólks og fyrirtækja, og tryggja öfluga viðspyrnu fyrir íslenskt efnahagslíf. Eftir því sem neikvæð efnahagsleg áhrif Corona-faraldursins raungerast ber aukna nauðsyn til að huga að félagslegu öryggi og velferð.

Aðgerðir sem snúa beint að einstaklingum eru tvíþættar. Áhrifa faraldursins gætir víða í samfélaginu og eru af bæði efnahagslegum og félagslegum toga. Annars vegar er aðgerðum ætlað að styðja við þá hópa sem talið er að þurfi bráða aðstoð vegna samfélagslegra afleiðinga COVID-19. Hins vegar er markmiðið að skapa tímabundin náms- og atvinnutækifæri fyrir námsmenn, fólk á atvinnuleysisbótum og aðra sem kunna að sækjast eftir slíkum tækifærum. Helstu aðgerðir eru eftirfarandi:

  • Geðheilbrigði og fjarþjónusta: Efling geðheilbrigðisþjónustu, heilsugæslu og fjarþjónustu
  • Vernd fyrir börn og viðkvæma hópa: Átak gegn ofbeldi, stuðningur vegna tómstunda og veikinda og úrræði gegn félagslegri einangrun
  • Sértækur stuðningur: Framlínuálag fyrir heilbrigðisstarfsfólk
  • Vegir til virkni í námi og starfi: Átak til að fjölga námsúrræðum og tímabundnum störfum
  • Efling nýsköpunar og lista: Auknir nýsköpunarstyrkir, fleiri mánuðir listamannalauna

Afkoma heimila var í brennidepli í þeim aðgerðum sem kynntar voru í mars síðastliðnum, s.s. með atvinnuleysisbótum vegna minnkaðs starfshlutfalls, eingreiðslu til barnafólks og öryrkja og tímabundinni heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Þrjár þeirra aðgerða sem nú eru kynntar miða að því að styrkja starfsgrundvöll fyrirtækja í erfiðu efnahagsástandi og standa þannig vörð um störf og afkomu heimila. Nánari upplýsingar um þær aðgerðir má sjá undir flipanum „fyrirtæki“ hér að ofan.
Þeim aðgerðum sem snúa beint að fyrirtækjum er ætlað að styðja þau til að takast á við mjög erfiðar efnahagsaðstæður sem orðið hafa vegna COVID-19 heimsfaraldursins og þeirra sóttvarnaraðgerða sem grípa hefur þurft til:

  • Lokunarstyrkir: Rekstrarstyrkir vegna fyrirmæla um lokun starfsemi
  • Stuðningslán: Rekstrarlán til minni fyrirtækja í lægð vegna faraldursins
  • Tekjuskattsjöfnun: Heimild til að jafna tap þessa árs á móti hagnaði í fyrra

Aðgerðir taka mið af þeim úrræðum sem þegar hafa komið til framkvæmda og má sjá nánari upplýsingar um hér[BB3] . Einnig hafa verið kynntar aðgerðir til viðspyrnu sem snúa sérstaklega að sprotum og nýsköpunarfyrirtækjum og má sjá nánari upplýsingar undir viðeigandi flipa hér að ofan.
Sú kreppa sem við göngum nú í gegnum er tímabundin. Viðspyrnan kemur þó óvíst sé hversu lengi þurfi að bíða hennar. Undirstöður hagkerfisins eru góðar til að takast á við þá áskorun að byggja upp öflug fyrirtæki bæði á útflutningsmarkaði og heimamarkaði og vinna til baka markaði sem lokuðust vegna COVID-19. Sérstaklega er mikilvægt að byggja upp atvinnugreinar sem byggja á nýsköpun og ótakmörkuðum auðlindum hugvits sem hraða munu uppbyggingu, fjölga störfum og auka hagvöxt. Um það fjalla þær aðgerðir sem snúa beint að sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og frumkvöðlum:

  • Efling nýsköpunar: Auknar R&Þ endurgreiðslur og styrkir
  • Fjármögnun sprota: Mótframlög og fjárfestingar í sprota- og vaxtarfyrirtækjum
  • Aukning innlendrar verðmætasköpunar: Nýr matvælasjóður til að efla nýsköpun og markaðssetningu, aukning á listamannalaunum
Categories
Fréttir

„Liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd“

Deila grein

20/04/2020

„Liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi, segir að samvinnuverkefni (PPP) í samgöngum hafa verið til umfjöllunar á Alþingi sem hluta af samgönguáætlun, tvo síðustu þingvetra. „Við afgreiðslu samgönguáætlunar fyrir ári síðan var samþykkt (með auknum meirihluta án mótatkvæða) að fela samgönguráðherra að útfæra leiðir til að auka fjármagn í til vegasamgangna og þar á meðal þessa leið. (38 já, 18 greiddu ekki atkv., 7 fjarstaddir).“ Þetta kemur fram í færslu hennar á Facebook.
„Þar fékk samgönguráðherra skýr skilaboð Alþingis um að útfæra leiðina og leggja útfærsluna fyrir Alþingi – í dag átti að mæla fyrir málinu til að tryggja að það kæmist til umsagnar í samfélaginu. Umfjöllun tryggir að ólík sjónarmið varðandi málið komi fram og Alþingi geti fjallað um það þegar regluleg þingstörf hefjast aftur.
Verkefnin sem tilgreind eru í tillögunni eru:

a. Hringvegur norðaustan Selfoss og brú á Ölfusá.
b. Hringvegur um Hornafjarðarfljót.
c. Axarvegur.
d. Tvöföldun Hvalfjarðarganga.
e. Hringvegur um Mýrdal og jarðgöng í Reynisfjalli.
f. Sundabraut.

Sum gætu hafist í ár og orðið mikilvægur liður í að skapa störf bæði í bráð og lengd, sagði Líneik Anna.

Categories
Fréttir

Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri

Deila grein

20/04/2020

Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri

„Þessi heimsfaraldur mun ganga yfir, svo mikið er víst, og vonandi fyrr en síðar. En þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á sviði loftslagsmála eru ekki á förum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samstarfsráðherra Norðurlanda. „Þess vegna er mikilvægt að um leið og við gerum meira á norrænum vettvangi til að mæta áhrifum COVID-19, vinnum við áfram að markmiðinu um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Við Íslendingar skulum nýta uppbyggingarstarfið sem er framundan til að ná því markmiði.“
Samstarfsráðherrar Norðurlanda ákváðu á fjarfundi í dag að fjármagna aðgerðir á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar til að mæta áhrifum COVID-19 heimsfaraldursins. Norræna ráðherranefndin hefur þegar gripið til vissra ráðstafana eins og að auka rannsóknarstarf á vegum Norrænu rannsóknarstofnunarinnar, NordForsk. Norrænir heilbrigðisráðherrar og atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra hafa átt náið samráð um aðgerðir í bráð og lengd. Öllum fagráðherraráðum innan Norrænu ráðherranefndarinnar verður falið að koma með tillögur um það hvernig Norðurlöndin geti í sameiningu brugðist með enn markvissari hætti við núverandi ástandi en ljóst er að COVID-19 faraldurinn mun hafa víðtæk áhrif á atvinnulíf, vinnumarkað og samfélag.
Á fundinum kom fram skýr vilji til að draga lærdóma af viðbrögðum Norðurlandanna hingað til, sem að sumu leyti hafa verið ólík. Það verði einnig gert til þess að geta metið næstu skref og ekki síst til að undirbúa Norðurlöndin betur fyrir sambærilegum áföllum í framtíðinni.
Samstarfsráðherrarnir voru sammála um að ný framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar, sem samþykkt var í fyrra á formennskuári Íslands og leggur áherslu á loftslagsmál og samþættingu Norðurlandanna, ætti áfram að vera leiðarljós norræns samstarfs en með aukinni áherslu á heilbrigðissamstarf.
Á fundinum var einnig rætt um mikilvægi þess að Norðurlandabúar geti sem fyrst ferðast óhindrað yfir landamæri. Verulega hefur reynt á það vegna sóttvarnaraðgerða og hafa norrænar upplýsingaskrifstofur svarað rúmlega 200 þúsund fyrirspurnum frá íbúum Norðurlandanna á síðastliðnum mánuði. Á fundinum kom fram að vestnorrænt samstarf hefur einnig sannað gildi sitt en Færeyjar og Grænland hafa m.a. átt samstarf um skimun fyrir veirunni. Þá þökkuðu fulltrúar Grænlands íslenskum stjórnvöldum fyrir að hafa aðstoðað við gerð loftbrúar milli Nuuk og Kaupmannahafnar með viðkomu í Keflavík.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara

Deila grein

20/04/2020

Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara

„Áhrif COVID-19 draga fram mikilvægi grunnstoða allra samfélaga. Mikilvægi menntunar er rauður þráður í viðbrögðum stjórnvalda í Evrópu og við áttum góðan fund, deildum reynslu okkar og ræddum aðgerðir,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, um veffund evrópskra menntamálaráðherra í vikunni. Frá þessu segir á vef stjórnarráðsins.
Fram kom á fundi menntamálaráðherranna að öll aðildaríki Evrópusambandsins hafa annað hvort lokað menntastofnunum sínum að hluta eða að fullu og eru nú að huga að því hvernig best sé að haga afléttingu þeirra lokana. Sérstaða íslenskra leik- og grunnskólar sem hafa verið að mestu opnir, þrátt fyrir takmarkanir, er umtalsverð í því samhengi og hafa borist þónokkrar fyrirspurnir um þá nálgun til mennta- og menningarmálaráðuneytisins bæði frá erlendum fjölmiðlum og sendiráðum.
„Það er afrek í mínum huga að okkur hefur tekist að halda mikilvægri starfsemi leik- og grunnskólanna gangandi þrátt fyrir þessa erfiðleika og því er að þakka þolgæði, útsjónarsemi og forgangsröðun íslenskra kennara og skólafólks. Samtakamátturinn er okkar sterkasta vopn gegn þessari skæðu veiru,“ segir ráðherra.
Áhersla á velferð nemenda og stuðningur við kennara bar mikið á góma á fundi evrópsku ráðherranna en alls tóku 30 menntamálaráðherrar þátt í fyrrgreindum fundi og ræddu þar sínar aðgerðir og áskoranir í samhengi við COVID-19. Mikið var rætt um fjarnám og nýtingu stafrænna lausna í skólastarfi, fyrirkomulag námsmats á ólíkum skólastigum, flæði nemenda á milli skólastiga og hvernig best má huga að félagslega viðkvæmum nemendahópum.
„Það er ljóst að staðan er afar ólík innan Evrópu en það er mikill áhugi á því að deila reynslu og þekkingu – við höfum margt fram að færa og læra hvert af öðru á þessum flóknu tímum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

„Við þurfum að halda samstöðunni“

Deila grein

15/04/2020

„Við þurfum að halda samstöðunni“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður Framsóknar, sagði m.a. í ræðu sinni á Alþingi í gær í umræðu um áhrif Covid-19 faraldursins og viðbrögð stjórnvalda, að við værum „að horfa á efnahagsaðgerðir nr. 2, sem við getum vonandi unnið í lok þessarar viku eða í byrjun næstu viku. Þar munum við án efa halda áfram að horfa á einhvers konar vernd samfélagsins og á félagslegar áherslur, til að mynda tengsl náms og námsmanna við störf og frekara nám, koma fleira fólki til starfa. Við munum horfa án efa á varnir, leita allra leiða til að tryggja lausafé og rekstur fyrirtækja. Hér hafa verið nefnd í dag litlu fyrirtækin sem var lokað af völdum sóttvarna. Auðvitað þurfum við að skoða stöðu þeirra. Það liggur í augum uppi. Þau voru að verja samfélagið og það er eðlilegt að samfélagið verji þau.“

„Ríkisstjórnin og landbúnaðarráðherra eru einfaldlega þessa dagana að vinna að samningum við garðyrkjubændur. Þar hlýtur að verða horft í lækkun á dreifikostnaði raforku, eins og við höfum oft talað um, og viðhalda þeim stuðningi eins háum og hægt er. Það hljóta að koma til álita einhvers konar landgreiðslur til að hvetja til útiræktunar á grænmeti sem við höfum séð að hefur hrapað í hlutfalli miðað við innflutning á síðustu árum.“
„Ef við meinum eitthvað með því að auka innlenda matvælaframleiðslu á þessum tíma þá hljótum við að skoða, og það hefur verið til skoðunar í landbúnaðarráðuneytinu, tollana, tollverndina. Tollar eru jú notaðir til að vega upp kostnað, mismunandi stofnkostnað, rekstrarkostnað við framleiðslu. Það er hugsunin á bak við tolla. Við höfum látið það óáreitt í mjög langan tíma. Ef við meinum eitthvað með því að við ætlum að auka innlenda framleiðslu er það nokkuð augljós leið að skoða það líka, myndi ég telja.“
„Við þurfum að horfa á sjávarútveginn. Við þurfum að horfa á það sem hefur verið okkar stærsta tækifæri, ekki síst í útflutningi, að auka virði sjávarútvegs. Það getur komið inn átak á heimsvísu í að selja ímynd okkar, vöru og gæði. Sjávarútvegurinn sjálfur hefur getað staðið undir því en vegna þess að aðrir auðlindageirar eru að gefa mjög mikið eftir á þessu ári gætum við þurft að velta því fyrir okkur hvort við ættum að nota þá frábæru stöðu sem við erum búin að skapa með því að byggja upp sterka stofna að veiða einfaldlega meira í eitt skipti í því skyni að búa til tekjur fyrir samfélagið. Það er eitt af því sem mér finnst að við ættum alla vega að velta vöngum yfir.“
„Það er augljóst að við þurfum að viðurkenna það að aðgerðirnar sem við erum að velta fyrir okkur núna munu án efa ekki duga. Ef veiran hagar sér með versta hætti getur vel verið að við þurfum að grípa inn á næstu mánuðum og jafnvel lengra inn í framtíðina. Við vitum það einfaldlega ekki. Við þurfum bara á hverjum tíma að grípa til þeirra aðgerða sem við teljum skynsamlegastar.“

„Mín lokaorð er einfaldlega þessi: Við þurfum að halda samstöðunni. Við náum sigri, samfélagið allt, við munum ná því að lokum en fögnum ekki sigri of fljótt. Á næstu vikum og mánuðum gætum við þurft að velta vöngum yfir því hvernig við ætlum að ná sem sterkastri viðspyrnu og þar er augljóst að innlend framleiðsla mun skipta mjög miklu máli,“ sagði Sigurður Ingi.