Categories
Fréttir

Almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt

Deila grein

14/10/2016

Almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Það er ekki annað hægt en að nota tækifærið og taka þátt í störfunum hér fjórða sinnið í þessari viku. Í þessum ræðustól hef ég, eins og margir aðrir hv. þingmenn, oft rætt vexti og ég ætla að nota tækifærið undir þessum lið og gera það.
Við ræðum þessi mál gjarnan í tengslum við vaxtaákvarðanir peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands. Ég held að það megi fullyrða að það sé almenn skoðun að vaxtastig þyki of hátt. Hér hefur ríkt stöðugleiki um langa hríð og verðbólga hefur lengi vel verið innan marka verðbólgumarkmiða Seðlabankans, en nú brá svo við að Seðlabankinn lækkaði vexti við þarsíðustu ákvörðun og töldu þá margir að peningastefnunefndin væri að hefja lækkunarferli. En nú síðast, fyrir tveim dögum, hélt peningastefnunefndin stýrivöxtum óbreyttum í 5,25%. Ástæðan er að staðan í efnahagsmálum frá því í ágúst er óbreytt og því er stýrivöxtum haldið óbreyttum.
Það er merkilegt ef viðbrögðin eru engin við stýrivaxtalækkun þar á undan. Þess vegna, og kannski einmitt þess vegna að viðbrögðin eru ekki aukin þensla, ætti að vera óhætt að halda þessu lækkunarferli áfram og á sama tíma er það mögulega vísbending um að vaxtastigið sé raunverulega of hátt sem og raunvextir við þessar aðstæður. Einhverjir vilja tengja þessa ákvörðun við skekkju í útreikningum Hagstofunnar, en það á auðvitað ekki að breyta væntingum og horfum, sem skipta auðvitað mestu máli við mat á því hvert framhaldið verður. Fram undan er stórt skref í losun hafta og fjárlagavinna í kjölfar kosninga. Þar mun reyna verulega á að skila ríkissjóði með afgangi fjórða árið í röð. Það mun skipta sköpum að fjármálastefnan styðji við peningamálastefnu, hemja þenslu og verja verðstöðugleika.
Aðeins með þeim hætti verður hægt að halda vaxtalækkunarferli áfram og þannig getum við lækkað útgjöld heimila og fyrirtækja. Það yrði raunveruleg kjarabót.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 7. október 2016.

Categories
Fréttir

Bréf frá formanni

Deila grein

13/10/2016

Bréf frá formanni

vef-sigurduringi_mg_500x500-1Ágætu framsóknarmenn!
Flokksþingi okkar er lokið, kosningabaráttan hafin. Ég vil byrja á því að þakka ykkur öllum, hverju og einu fyrir glæsilegt þing. Hundrað ára flokkur hefur burði til þess að skera úr málum með lýðræðislegum hætti. Það er merki um styrkleika, ekki veikleika. Ég heiti ykkur því að ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að gegna hlutverki formanns eins vel og mér er unnt.
Samvinna og samtal hefur dugað okkur vel, enda flokkurinn meðal annars grundvallaður á þessu tvennu. Verkefni okkar núna er að taka höndum saman, mynda órofa heild með hagsmuni Framsóknarflokksins og þjóðarinnar í fyrirrúmi. Kjörtímabilið hefur verið viðburðarríkt. Mörg gríðarstór verkefni eru að baki og nauðsynlegt að halda áfram öllum til heilla. Við leystum þau stóru mál sem við sögðumst ætla að leysa. Hjól samfélagsins snúast á meiri og öruggari hraða vegna þess sem Framsóknarflokkurinn setti í öndvegi. Allir efnahagslegir mælikvarðar eru á leið í rétta átt. Við eigum að vera stolt af því hverju við höfum áorkað og óhrædd að takast á við ný verkefni. Það sem er liðið er liðið, við vinnum ekki sama leikinn tvisvar.
Jafnræði er öllum þjóðum félagsleg nauðsyn. Fyrir því eru augljós rök. Ekki  síst er þetta augljóst hér á landi þar sem samfélagið er fámennt, kunningsskapur, skyldleiki og önnur tengsl eru mikil meðal þjóðarinnar.  Hér eigum við að vera í fremstu röð hvað jöfnuð snertir. Eitt af þeim stóru málum sem við hyggjumst berjast fyrir, er að auka mátt millistéttarinnar. Það hyggjumst við meðal annars gera með því að lækka lægsta skattþrepið umtalsvert. Slík aðgerð gæti tekið til um 80% launamanna og myndi létta á skattgreiðslum stórs hóps, en þyngja að nokkru leyti byrðar þeirra sem hæstu launin hafa. Við ætlum ekki að fara í neinar kollsteypur heldur halda stefnu á þeirri farsælu leið sem við höfum verið á, allt kjörtímabilið.
Um leið og ég þakka ykkur enn og aftur fyrir það traust sem þið sýnduð mér á flokksþinginu, vil ég hvetja alla til að taka höndum saman og sýna úr hverju Framsóknarflokkurinn er gerður. Hundrað ár eru liðin, hundrað ár eru framundan.
Sigurður Ingi Jóhannsson

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi nýr formaður Framsóknar

Deila grein

07/10/2016

Sigurður Ingi nýr formaður Framsóknar

Sigurður Ingi Jóhannsson, forsætisráðherra, var kosinn formaður Framsóknarflokksins á 34. Flokksþingi Framsóknarmanna sem haldið var um helgina í Reykjavík. Sigurður Ingi hlaut 52,7% atkvæða en fráfarandi formaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hlaut 46,8%.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra fékk 3 atkvæði í formannskjöri, en hún bauð sig fram til varaformanns og fékk 96% atkvæða. Jón Björn Hákonarson var kosinn ritari flokksins, en hann var einn í kjöri.
Þingið hófst á laugardaginn og lauk í gær. Það var afar vel sótt og ljóst að mannauður flokksins er mikill. Mikil vinna fór í að koma saman ályktunum fyrir komandi alþingiskosningar sem verða í lok mánaðar.

Ályktanir 34. Flokksþings Framsóknarmanna.

Sigurður Ingi sagði þegar hann sleit flokksþinginu að nú myndu Framsóknarmenn snúa bökum saman og ganga einbeittir til kosninga.

Ný forysta Framsóknar, Sigurður Ingi, Lilja Dögg og Jón Björn.

Categories
Fréttir

Jöfnun aðstöðu millilandaflugvalla

Deila grein

06/10/2016

Jöfnun aðstöðu millilandaflugvalla

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Enn og aftur ætla ég að ræða málefni flugsins. Fyrir skemmstu lagði ég ásamt fleiri hv. þingmönnum fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara í þeim tilgangi að jafna eldsneytisverð á millilandaflugvöllum. Nú er við lýði jöfnun á flutningskostnaði á olíuvörum sem tryggir að eldsneytisverð sé hið sama um land allt til einstaklinga og fyrirtæki. Fyrir því eru einföld sanngirnisrök auk þess sem mikilvægt er að jafna eins og kostur er búsetuskilyrði og samkeppnisstöðu fyrirtækja vítt og breitt um landið. Þessi jöfnun hefur ekki gilt um eldsneyti sem ætlað er til ferða milli landa, t.d. flugvélaeldsneyti til millilandaflugs. Þetta leiðir til þess að eldsneyti er mun dýrara á millilandaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum en í Keflavík. Þetta skekkir samkeppnisstöðu vallanna og vinnur gegn því flugfélög sjái sér fær að setja á fót reglubundið flug til annarra staða á Íslandi en Keflavíkur. Því er lagt til að jöfnunarkerfið nái einnig til olíu sem ætluð er til notkunar í millilandasiglingum og millilandaflugi. Markmiðið er að jafna aðstöðu millilandaflugvalla og -hafna.
Áhugi á millilandaflugi til nýrra áfangastaða hefur aukist og nú þegar hafa nokkur flugfélög sent inn umsóknir um styrk úr flugþróunarsjóði sem komið var á á árinu. Ég álít því mikilvægt að fá fram sem fyrst viðbrögð hagsmunaaðila við frumvarpinu sem hér liggur fyrir og að málið fái umfjöllun á Alþingi þótt varla náist að afgreiða það á þessu þingi. Það kann að vera að aðrar leiðir séu færar og jafnvel betri til þess að jafna samkeppnisaðstöðu millilandaflugvalla en það er mikilvægt að komast að því.“
Líneik Anna Sævarsdóttir 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Mótum stefnu gegn skaðlegum efnum í neysluvörum

Deila grein

06/10/2016

Mótum stefnu gegn skaðlegum efnum í neysluvörum

160218-johanna-maria-sigmundsdottir-256x384„Hæstv. forseti. Fyrir þinginu liggur mál sem snýr að því að móta stefnu til að draga úr notkun á skaðlegum efnum í neysluvöru. Mjög gott og þarft mál. Til dæmis er eina leiðin til að hafa eftirlit með vörum, hvort þær innihaldi þalöt, að efnagreina vöruna til að sannreyna innihald hennar. Slíkar greiningar eru mjög kostnaðarsamar og þess vegna hefur ekki verið ráðist í þær hér á landi. Ég tel það mjög alvarlegt, sér í lagi vegna þess að hlutur netverslunar á markaðnum fer vaxandi, þ.e. verslun við lönd þar sem talið er að notkun sé meiri á kemískum efnum og ódýrari í stað þeirra sem búið er að prófa, enda er kostnaður við náttúruleg og vottuð efni svo mikill út af því eftirliti sem þar þarf.
Því miður er löggjöfin í dag miklu meira sniðin að hagsmunum framleiðenda en að hagsmunum almennings og neytenda. Ég tel að við séum að kasta ákveðnum möguleikum á glæ með því að ákveða að það sé bara allt of dýrt að framkvæma rannsóknir. Við höfum til dæmis ekki einu sinni athugað hvort hægt væri að gera einhverjar stikkprufur. Skaðsemi ákveðinna þalata er þekkt. Þau geta haft áhrif á frjósemi manna, valdið krabbameinum og ofnæmi. Þá eru fóstur og nýfædd börn viðkvæmust fyrir þessum efnum. Ég tel þess vegna að þetta sé ekki mál til að gera lítið úr eða reyna að gantast með. Þessi efni eru þrávirk og þau safnast upp í líkama okkar. Ég tel að við eigum rétt á að fá að vita hvað er að finna í þeim vörum sem við kaupum, plastflöskum, ílátum undir matvæli, pelum, naghringjum, leikföngum og öðru til handa börnum ásamt húsgögnum og borðbúnaði o.fl.
Önnur Norðurlönd hafa staðið sig vel í þessum málum. Þar gerir fólk sér fyllilega grein fyrir þeim áhrifum sem þessi efni geta haft og tengja þau ekki aðeins inn í umhverfismál heldur einnig velferðarmál. Ég tel að við ættum ekki að vera eina Norðurlandaþjóðin sem gerir lítið úr skaðsemi þessara efna. Það væri gott, þar sem mjög mikil sátt hefur verið um þetta mál á milli flokka, eins og sást í umræðunni þegar þetta var til umræðu hér, að við reyndum að koma þessu í gegn svo að við þurfum ekki enn og aftur að mæla fyrir svo mikilvægu neytendamáli.“
Jóhanna María Sigmundsdóttir í störfum þingsins 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Lækka skatta og tryggingagjald á landsbyggðinni.

Deila grein

06/10/2016

Lækka skatta og tryggingagjald á landsbyggðinni.

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka undir það sem nokkrir hv. þingmenn hafa talað um hér og fagna því að samkomulag sé að takast milli formanna stjórnarflokkanna. Ég tel það mjög mikilvægt upp á ásýnd þingsins. Þó eru þarna mál sem er mjög mikilvægt að klára og nefni ég t.d. almannatryggingar og að einhver skref verði stigin, helst sem stærst, í breytingum á útreikningi vísitölu.
Það er samt annað sem ég ætlaði að ræða í dag. Mig langar að ræða þá byggðastefnu sem við framsóknarmenn leggjum áherslu á í þeirri kosningabaráttu sem nú er hafin. Við viljum nýta skattkerfið á ívilnandi hátt fyrir íbúa landsins. Má þar helst nefna afslátt af ferðakostnaði til og frá vinnu, að þeir sem þurfa að sækja vinnu um langan veg fái skattafslátt á móti ferðakostnaði. Þetta fyrirkomulag þekkist í þeim löndum sem við berum okkur saman við, t.d. á Norðurlöndunum, og því er tilvalið fyrir okkur Íslendinga að skoða hvað gefist hefur vel og taka upp þær aðgerðir. Þessi aðgerð mun án efa styrkja hin ýmsu atvinnusvæði landsins.
Auk þess viljum við skoða hvort hægt sé að hafa lægra tryggingagjald fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni sem hvata fyrir ýmis fyrirtæki og stofnanir til að færa starfsemi út á land. Auk þessa viljum við nýta skattkerfið á ívilnandi hátt fyrir íbúa landsins. Má þar helst nefna það að nýta námslánakerfið á ívilnandi hátt fyrir landsmenn. Það væri hægt að gera þannig að þeir sem fastráði sig til starfa, t.d. á heilbrigðisstofnunum þar sem skortur er á læknum eða öðrum sérfræðingum, fái afslátt af námslánum sínum. Þetta væri stórt skref í þá átt að auka aðgengi landsmanna að heilbrigðisþjónustu.
Það er gaman að segja frá því að þetta var eitt af fyrstu verkum hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, Gunnars Braga Sveinssonar, hjá Byggðastofnun eftir að hann tók við sem ráðherra landbúnaðar- og sjávarútvegsmála í vor. Það verður mjög spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu.“
Elsa Lára Arnardóttir í störfum þingsins 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Það verður kosið um stöðugleika

Deila grein

06/10/2016

Það verður kosið um stöðugleika

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að fagna því, eins og aðrir hv. þingmenn, að formenn flokkanna eru alla vega í þann mund, trúi ég, að koma sér saman um það hvernig við háttum okkar störfum hér og getum lokið mikilvægum málum og klárað þingið. Það skiptir okkur öll máli vegna þess að ásýnd þingsins er ásköpuð. Þess vegna skiptir það okkur öll máli. Kosningabaráttan er löngu hafin, það má kannski segja að það sé viðvarandi barátta og eigi ekki að fela í sér nein tímabundin skil, upphaf eða endi, en auðvitað hefur maður skynjað hér á umræðunni og ekki síst í fundarstjórn forseta að leikar æsast.
Um hvað ætli verði kosið? Það má velta því fyrir sér. Málefnin, stefnan, loforðin. Ég tek með beinum hætti þátt í slíkri baráttu nú í annað sinn og get sagt það eitt að þetta er skemmtilegt og spennandi. Ég hlakka auðvitað bara til. Mikið hefur verið rætt um málefnin, um innviðauppbyggingu, húsnæðismál, heilbrigðis- og velferðarmál, menntamál jafnvel. Þetta hefur verið áberandi í umræðunni og það er skiljanlegt, en verður raunverulega kosið um það? Er það það sem skiptir máli, að við trompum hvert annað í loforðum og útgjaldaauka? Ég held ekki, ég held að raunverulega verði kosið um stöðugleika. Það orð eitt og sér felur það í sér að sá árangur sem náðst hefur á þessu kjörtímabili í efnahagslegri uppbyggingu, heimilin hafa lækkað skuldir sínar, atvinnulífið er á traustum grunni, býr við stöðugleika — ég held að það verði raunverulega kosið um áframhald á stöðugleika.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Vúdú-aðferðir Seðlabankans

Deila grein

06/10/2016

Vúdú-aðferðir Seðlabankans

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar að fjalla ögn áfram um þá ákvörðun Seðlabanka Íslands í gær að halda stýrivöxtum óbreyttum, í 5,25%. Ákvörðun stýrivaxta á hverjum tíma er tilraun Seðlabankans til að draga úr eftirspurn, en það dugar ekki, því að nánast öll heimili landsins eru með verðtryggð lán og stýrivextir Seðlabankans á hverjum tíma hafa ekki áhrif á það.
Hverjir hagnast? Jú, krónan hækkar. Verðbólgan er lág. Krónan hækkar en verðbólgan ætti að vera miklu lægri vegna þess að áhrif af hærri krónu skila sér ekki til neytenda að fullu, en alla vega hagnast þá kaupmenn á ákvörðun Seðlabankans. Há króna hefur einnig áhrif á útflutningsatvinnuvegi, s.s. sjávarútveg og ferðamennsku. Þess vegna þarf Seðlabankinn að grípa til eins konar vúdú-aðferða til að halda öllu í skefjum, m.a. með því að kaupa gjaldeyri sem aldrei fyrr til að halda aftur af hækkun krónunnar, sem er bein afleiðing af stýrivaxtaákvörðununum.
En það er kannski einn hópur sem hagnast öðrum fremur verulega á því að stýrivextir séu hér háir, það eru erlendir aflandskrónueigendur. Það vill nú þannig til að Alþingi þurfti að hysja sérstaklega upp um Seðlabankann í vor með því að setja á nokkurs konar bindiskyldu til þess að koma í veg fyrir flæði kviks fjármagns inn í landið. Það dugði ekki alveg til. En erlendir aflandskrónueigendur eru í þeim sporum að vera eins og unglingur sem vill ekki yfirgefa heimili pabba og mömmu því að það fer svo vel um hann þar. Þess vegna liggja þessir aflandskrónueigendur uppi á okkur Íslendingum og vilja ekki yfirgefa fang Más Guðmundssonar. Það sér hver einasti maður að það er t.d. ekkert vit í öðru fyrir mann sem býr í Svíþjóð og er með sænska krónu, sem er fallandi, en að koma til Íslands og kaupa íslenskar krónur, sem eru jú vaxandi, og vera á 5,5% vöxtum í staðinn fyrir -0,25 í Svíþjóð. Þetta er náttúrlega galið. Stýrivextir verða að lækka.“
Þorsteinn Sæmundsson í störfum þingsins 6. október 2016.

Categories
Fréttir

Mikilvægt að afgreiða frumvarpið um LÍN

Deila grein

05/10/2016

Mikilvægt að afgreiða frumvarpið um LÍN

flickr-Líneik Anna Sævarsdótir„Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni um að í umræðu um málefni flóttamanna og innflytjenda er mjög mikilvægt að kynna sér málin til hlítar. Að því sögðu langar mig að ræða um eitt af þeim málum sem ég tel mjög mikilvægt að við afgreiðum hér á þessu þingi. Það er frumvarp um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
Nú liggur frumvarpið fyrir þinginu eftir umfjöllun í allsherjar- og menntamálanefnd ásamt breytingartillögu þaðan. Ég tel að sú kerfisbreyting sem felst í frumvarpinu sé mjög mikilvæg fyrir íslenska námsmenn og fyrir menntakerfið í heild sinni. Þessu frumvarpi fylgir hvati til þess að stunda nám miðað við fulla námsframvindu. Því fylgir viðbótarhvati við það sem verið hefur til þess að stunda iðnnám, sem er mjög mikilvægur hluti frumvarpsins. Fyrir meiri hluta námsmanna mun þetta leiða af sér minni og fyrirsjáanlegri afborganabyrði og mun leiða af sér gagnsærri og skýrari mynd af því hverjir njóta styrks. Í breytingartillögum allsherjar- og menntamálanefndar felst mjög viðamikil og mikilvæg breyting, þ.e. að námsmenn geti fengið greidda út styrki og lán samhliða námi eftir að fyrsta missiri lýkur, en það hefur verið baráttumál íslenskra námsmanna frá árinu 1992 og getur skipt sköpum fyrir marga.“
Líneik Anna Sævarsdóttir í störfum þingsins 5. október 2016.

Categories
Fréttir

Efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli

Deila grein

05/10/2016

Efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða stöðugleika. Efnahagsmál og innviðauppbygging fer hátt í umræðunni og það sem hefur einkennt umræðuna er viljinn til að auka ríkisútgjöld og setja meiri fjármuni t.d. í heilbrigðis- og velferðarmál og aðra innviðauppbyggingu. Ég ætla ekki að mæla gegn því að fjárþörf sé til staðar víða en vil þó segja hér að efnahagslegur stöðugleiki hlýtur að skipta mestu máli, verðlagsstöðugleiki, gengisstöðugleiki, pólitískur stöðugleiki fyrir atvinnulífið og fyrir heimilið, til þess að við verðum áfram og í frekari færum til að styrkja innviðina.
En af hverju er stöðugleikinn svo mikilvægur? Í mjög einföldu máli erum við, heimilin og atvinnulífið, frekar tilbúin til að hreyfa okkur til athafna við slíkar aðstæður, til nýbreytni og nýsköpunar. Við verðum öruggari í stöðugu umhverfi. Í óstöðugu umhverfi höldum við að okkur höndum, bíðum átekta og leitum í skjól. Við mikinn öldugang úti á sjó þá stígum við annaðhvort ölduna eða leggjumst í koju. Við náttúruhamfarir, storma og hvirfilbylji leitum við skjóls og bíðum það af okkur. Þegar allt er á hreyfingu í kringum okkur stoppum við og bíðum af okkur þá hreyfingu. Það sama á við um efnahagsmálin. Hinar miklu skattbreytingar á síðasta kjörtímabili eru dæmi um það. Fyrirtæki halda að sér höndum í mannaráðningum, fjölskyldan dregur saman útgjöldin, ekki til uppbyggilegs sparnaðar heldur neyðarsparnaðar.
Hér boða flestir flokkar stóraukin útgjöld, uppskurð kerfa, kerfisbreytingar á grundvallaratvinnuvegum. Staðreyndin er að samhliða stöðugleika hefur atvinnulífið dafnað, kaupmáttur aukist og ráðstöfunargeta heimilanna sem og efnahagslega staða þjóðarinnar batnað á þessu kjörtímabil og sjaldan verið betri.“
Willum Þór Þórsson í störfum þingsins 5. október 2016.