Categories
Fréttir

Íslenska málsamfélagið eitt það fámennasta í veröldinni

Deila grein

12/12/2018

Íslenska málsamfélagið eitt það fámennasta í veröldinni

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, mælti í gær fyrir tillögu til þingsályktunar um að efla íslensku sem opinbert mál á Íslandi. Í ályktuninni segir: „Alþingi ályktar um mikilvægi íslenskrar tungu og nauðsyn þess að tryggja að tungumálið verði áfram notað á öllum sviðum íslensks samfélags. Unnin verði aðgerðaáætlun til þriggja ára á því sviði, í víðtæku samstarfi. Allir sem búsettir eru á Íslandi skulu eiga þess kost að læra og nota íslensku til almennrar þátttöku í íslensku þjóðlífi. Þeir skulu eiga rétt á að nota íslensku í öllum samskiptum við opinberar stofnanir og fyrirtæki sem veita eða selja almenningi þjónustu, sbr. lög um íslenska tungu og íslenskt táknmál, nr. 61/2011.“
Helstu markmið eru að:

  • Íslenska verði notuð á öllum sviðum samfélagsins.
  • Íslenskukennsla verði efld á öllum skólastigum ásamt menntun og starfsþróun kennara.
  • Framtíð íslenskrar tungu í stafrænum heimi verði tryggð.

Í greinargerð með ályktununni segir: „Íslensk tunga er undirstaða og fjöregg íslenskrar menningar. Í gildi eru rammalög um íslenska tungu frá árinu 2011 sem byggjast á íslenskri málstefnu sem samþykkt var sem þingsályktun á Alþingi vorið 2009. Á tímum örrar alþjóðavæðingar og tæknibyltinga er mikilvægt að styrkja stöðu þjóðtungunnar. Vaxandi áhrif tölvu- og samskiptatækni á daglegt líf krefjast aðgerða af hálfu stjórnvalda til að tryggja að tungumál eins og íslenska séu gjaldgeng í samskiptum sem byggjast á tölvu- og upplýsingatækni. Nauðsynlegt er að snúa vörn í sókn fyrir íslenskuna svo hún þróist og dafni til framtíðar. Ábyrgðin á því viðvarandi verkefni hvílir hjá stjórnvöldum sem ber samkvæmt lögum að varðveita og efla íslenska tungu.“
Ræða Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, frá fyrri umræðu þingsályktunartillögunnar.

„Íslenska málsamfélagið er eitt það fámennasta í veröldinni og staða íslenskunnar í stafrænum heimi er raunverulegt áhyggjuefni. Ásamt lettnesku, litháísku, írsk-gelísku og maltnesku er íslenskan í einna mestri hættu af tungumálum Evrópu. Margar þjóðir hafa valið að vinna markvisst gegn því sem kallað er umdæmisvandi eða umdæmismissir tungumála. Umdæmisvandi er þegar tungumálið nýtist ekki lengur til samskipta á ákveðnu sviði þjóðlífsins en umdæmismissir þegar þjóðfélagið tekur upp erlent tungumál í öllum sínum samskiptum innanlands sem utan. Auðvelt er að missa slíkt umdæmi tungumáls í stefnuleysi en afar erfitt að vinna það aftur.
Ýmsar nágrannaþjóðir okkar hafa brugðist við áskorunum sem þjóðtungur þeirra standa frammi fyrir. Þannig hafa Norðmenn t.a.m. skilgreint sitt mál sem örtungu í útrýmingarhættu og gripið til ýmissa aðgerða henni til stuðnings.
Það eru ákveðnar blikur á lofti er varðar þróun og framtíð íslenskunnar. Nýlegar rannsóknir benda til þess að viðhorf til hennar sé að breytast og að hæfni barna og ungmenna í íslensku, allt frá máltökualdri, fari versnandi. Þekktar eru tölulegar upplýsingar úr PISA-rannsóknum um hrakandi lestrarfærni og lesskilning íslenskra nemenda. Nemendum sem hafa annað móðurmál en íslensku vegnar verr í íslensku skólakerfi og þeim er hættara við brotthvarfi úr námi. Framboð á afþreyingarefni á ensku hefur aukist gríðarlega á síðustu árum og merki eru um að fleira ungt fólk velji að lesa á ensku. Samfara minnkandi bóklestri er raunveruleg hætta á því að það sem áður var talið eðlilegt ritmál fari að þykja tyrfið og torlesið. Reglulega berast fréttir af því að börn og ungmenni velji að leika sér á ensku. Lestur okkar og upplýsingaleit fer að miklu leyti fram á netinu þar sem mikið er um vandað fræðsluefni á öðrum málum og mörgum finnst jafnvel þægilegra að rita og tala um ýmis viðfangsefni á öðrum tungumálum, einkum ensku. Þannig er enska orðin sjálfsagt mál í sumum umdæmum samskipta okkar.
Áskoranir þessar þarf að nálgast úr ólíkum áttum og á fjölbreyttan hátt. Því eru hér lagðar til aðgerðir í 22 liðum sem snerta flestar hliðar þjóðlífsins.
1. Vitundarvakning um íslenska tungu.
Til þess að aðrar aðgerðir skili árangri er einna brýnast að vekja almenning til umhugsunar um mikilvægi íslenskrar tungu, fjölbreytileika hennar, gildi og sérstöðu. Notkun og þar með þróun tungumálsins á sér stað í samskiptum okkar á degi hverjum og öll höfum við val um að vanda okkur og forgangsraða í þágu íslenskunnar.
Vitundarvakning undir merkjum slagorðsins Áfram íslenska minnir á að framtíð tungumálsins er á ábyrgð okkar allra, íslenskan er lifandi samskiptatæki og okkar sjálfsagða mál. Jákvætt viðhorf til hennar og aukin meðvitund mun skipta sköpum til að hægt sé að tryggja áframhaldandi notkun hennar á öllum sviðum samfélagsins.
Vitundarvakning af þessu tagi þarf að eiga sér stað sem víðast í samfélaginu og því verður leitað eftir víðtæku samstarfi um hana, m.a. við stofnanir, fyrirtæki og félagasamtök og kallað eftir hugmyndum þeirra og aðgerðum.
2. Mikilvægi læsis.
Hæfni í lestri er nauðsynleg til að hver og einn geti nýtt hæfileika sína til fulls, samfélaginu öllu til góða. Lestrarfærni er forsenda virkrar þátttöku í lýðræðissamfélagi en slakur lesskilningur getur haft neikvæð áhrif á námsframvindu og þar með atvinnutækifæri síðar meir. Haustið 2015 gerðu mennta- og menningarmálaráðuneyti, sveitarfélög og samtökin Heimili og skóli með sér sáttmála um það markmið að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Verkefnið er hluti af aðgerðaáætlun í kjölfar Hvítbókar um umbætur í menntun sem gefin var út 2014. Menntamálastofnun annast framkvæmd verkefnisins. Áfram verður unnið að verkefnum í anda sáttmálans innan menntakerfisins og leitast við að tryggja virka aðkomu heimila, bókasafna, rithöfunda og fjölmiðla að því.
3. Íslenska sem annað mál.
Íslenskan er lykill að lífsgæðum og menningu hér á landi. Íslendingum af erlendum uppruna og erlendum ríkisborgurum sem hér búa hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Erlendum ríkisborgurum hefur þannig fjölgað um 89% frá árslokum 2011, úr 20.930 í 39.570 vorið 2018 og eru þeir nú um 11% landsmanna. Til að bregðast við þessari samfélagsbreytingu er mikilvægt að skapa fjölbreytt tækifæri til íslenskunáms og tryggja stuðning í samræmi við námsþarfir á öllum skólastigum sem og í fullorðinsfræðslu.
Mikilvægt er að nemendur af erlendum uppruna njóti stuðnings í íslenskunámi í leik-, grunn- og framhaldsskólum svo þeir öðlist góða lestrarfærni sem er grundvöllur að farsælli skólagöngu. Einnig að þeir nái góðum tökum á íslensku sem öðru tungumáli sem er lykillinn að virkri þátttöku þeirra í atvinnulífi og samfélaginu. Til að ná þessum markmiðum þarf að samhæfa stuðning við nemendur af erlendum uppruna með markvissum og heildstæðum hætti (sbr. ályktanir Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2013 og 2015 og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016–2019).
Jákvæð umræða og fræðsla í samfélaginu um fjölbreytileika íslenskunnar er mikilvæg fyrir nýja málnotendur. Eyða þarf fordómum og auka þolinmæði gagnvart íslensku með erlendum einkennum.
Styrkja þarf menntakerfið svo það verði fært um að takast á við fjöltyngdan og fjölmenningarlegan nemendahóp. Samkvæmt skýrslu Fjölmenningarseturs frá árinu 2017 hefur fjöldi barna af erlendum uppruna í leik- og grunnskólum sjöfaldast frá aldamótum. Móðurmál er undirstaða annars tungumálanáms og því þarf að vinna markvisst að því að viðhalda og styrkja móðurmál barna í íslensku málumhverfi, svo sem leik- eða grunnskóla. Sé það ekki gert getur það haft neikvæð áhrif á þróun lestrarfærni þeirra og námsframvindu í íslensku sem öðru máli sem og tungumálanámi almennt.
Þegar tölur yfir skráningu nemenda í framhaldsskóla og brotthvarf eru skoðaðar kemur í ljós að á árunum 2012 og 2013 sóttu að meðaltali rúm 95% 16 ára barna framhaldsskóla og tæp 83% 18 ára nemenda (Hagstofa Íslands, 2018). Skólasókn 16 ára nemenda var þá minnst meðal innflytjenda en rúmlega 86% þeirra sóttu framhaldsskóla að meðaltali þessi tvö ár og tæp 65% voru í skóla við 18 ára aldur.
Í þingsályktun um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2016–2019 sem samþykkt var á Alþingi 20. september 2016 er sérstök tillaga um tvítyngi/fjöltyngi. Í fjármálaáætlun 2018–2022 hefur verið sett það markmið að fleiri nemendur af erlendum uppruna hafi við lok grunnskóla náð skilgreindum lágmarksviðmiðum í lestri samkvæmt niðurstöðum PISA-rannsóknarinnar. Það hlutfall var 39% árið 2016 en stefnt skal að því að árið 2022 verði það hlutfall komið yfir meðaltal OECD.
Nauðsynlegt er að allt skólasamfélagið viðurkenni og kynni sér menningar- og félagsauð innflytjenda og líti á fjölbreytileika sem styrk en ekki veikleika (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2013 og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda 2016–2019). Vinna þarf heildstæða aðgerðaáætlun um kennslu nemenda með annað móðurmál en íslensku þar sem leiðarljósið er virkt tvítyngi og að nemendur af erlendum uppruna standi jafnfætis jafnöldrum sínum sem hafa íslensku að móðurmáli. Menntamálastofnun verði falið að halda utan um það verkefni í víðtæku samráði við þá sem málið varðar.
4. Skólabókasöfn.
Samkvæmt grunn- og framhaldsskólalögum frá 2008 er skólabókasafn upplýsingamiðstöð fyrir nemendur og kennara. Því er ætlað að vinna að bættri menntun allra nemenda í nánum tengslum við skólasamfélagið. Á skólabókasafni er gert ráð fyrir bókakosti, tækjabúnaði og öðrum safnakosti sem nýtist á fjölbreyttan hátt á öllum námssviðum. Þar er m.a. vettvangur til að efla læsi nemenda í víðum skilningi. Mikilvægt er að ríki og sveitarfélög taki höndum saman um að efla faglega starfsemi skólabókasafna með vel menntuðu starfsfólki, miklum og góðum bókakosti, tækjabúnaði við hæfi og rúmum afgreiðslutíma. Einnig þarf að koma á sérstöku samstarfsverkefni stjórnvalda með ýmsum hagsmunaaðilum til að auka aðgengi nemenda að nýju og fjölbreyttu lesefni á íslensku (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2011 og Skýrslu starfshóps um bókmenningarstefnu 2017).
5. Kennaramenntun.
Kennaramenntun gegnir mikilvægu samfélagslegu hlutverki enda í höndum kennara og skólastjórnenda að byggja grunn framtíðarhagsældar með nemendum sínum ásamt foreldrum þeirra. Kennarar eru lykilaðilar í því að vekja áhuga nemenda á íslensku máli. Því er mikilvægt að í sjálfri kennaramenntuninni sé lögð áhersla á íslenskukennslu kennaranema, færni þeirra í íslensku í ræðu og riti og að þeir geti nýtt sér íslensku á skapandi hátt í leik og starfi. Þá er ekki síður brýnt að stuðla að jákvæðu viðhorfi kennaranema til íslenskrar tungu svo þeir geti miðlað því áfram til nemenda sinna. Á sinn hátt eru allir kennarar íslenskukennarar.
Fræðsla um máltöku barna og mikilvægi samtals við börn á máltökuskeiði er áríðandi þáttur í kennaranámi. Þá sýna rannsóknir að gagnvirk málleg samskipti barna og fullorðinna – samtöl – eru mikilvægur þáttur til að byggja upp og efla málþroska barna á máltökuskeiði. Því meira sem talað er við börnin og lesið fyrir þau, þeim mun betra.
Í ljósi þessa er ákaflega mikilvægt að vægi íslensku verði aukið í almennu kennaranámi í samræmi við hlutverk háskóla samkvæmt lögum um háskóla frá 2006 um að þeir stuðli að sköpun og miðlun þekkingar og færni til nemenda og samfélagsins alls (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2009).
6. Starfsþróun kennara.
Kennarar á öllum skólastigum þurfa góðar aðstæður og möguleika til stöðugrar og fjölbreyttrar menntunar og starfsþróunar. Áhersla verði lögð á að auka hæfni kennara í íslensku og þeir hafi tök á fjölbreyttum kennsluháttum til að kenna íslensku bæði sem móðurmál og annað mál.
Á undanförnum árum hefur samstarf hagsmunaaðila um starfsþróun kennara aukist. Starfandi er samstarfsráð á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Kennarasambands Íslands, Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Listaháskóla Íslands og Skólameistarafélags Íslands um starfsþróun kennara, skólastjórnenda og annarra fagstétta í leik-, grunn-, tónlistar- og framhaldsskólum. Samstarfsráðið tók til starfa haustið 2016 með erindisbréfi mennta- og menningarmálaráðherra.
Útfæra þarf stoðkerfi sem styður við starfsþróun kennara, aðstæður og möguleika skóla til að hafa með höndum starfsþróun á vinnustað og við þátttöku háskóla í starfsþróun á vettvangi. Stoðkerfi við starfsþróun þarf að skapa góðar aðstæður og möguleika til fjölbreyttrar símenntunar sem tekur m.a. til skipulags, tíma, aðstæðna til ígrundunar í starfi og starfendarannsókna. Markmiðið er að efla færni og þekkingu fagfólks í skólum og auka gæði í skólastarfi. Slíkt stoðkerfi stuðlar að aukinni hæfni kennara til að efla færni allra nemenda í íslensku, bæði í töluðu og rituðu máli (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2009). Samstarfsráð um starfsþróun kennara sem skipað er fulltrúum frá helstu hagsmunaaðilum vinni að þróun og innleiðingu á fullnægjandi stoðkerfi starfsþróunar kennara til framtíðar.
7. Háskólakennsla og rannsóknir.
Að undanförnu hefur verið unnið að því að styðja betur við gæði í starfsemi háskóla og samræmist það áherslum stjórnvalda um að efla menntun í landinu. Gæði náms og rannsóknastarfs treysta samfélagslegt hlutverk háskóla og styðja þannig við lýðræði, samfélagsumræðu, menningu og íslenska tungu. Halda verður uppi öflugri háskólakennslu og rannsóknarstarfsemi í íslensku og íslenskum fræðum, bæði grunnrannsóknum og hagnýtum rannsóknum.
Öflugt háskólastarf er ein af undirstöðum kraftmikils og fjölbreytts efnahagslífs og stöðugleika og þess að unnt verði að auka framleiðni á Íslandi til frambúðar. Útflutningstekjur landsins byggjast nú að mestu leyti á nýtingu náttúruauðlinda í ferða- og orkuiðnaði og sjávarútvegi. Náttúruauðlindir eru í eðli sínu takmarkaðar og því þarf útflutningur í auknum mæli að byggjast á hugviti, rannsóknum og nýsköpun ef tryggja á sjálfbæran hagvöxt til langframa. Það er áhætta í því fólgin að huga ekki nægjanlega að yfirfærslu þekkingar frá háskólum til fyrirtækja og stofnana. Byggja þarf og treysta brýr á milli háskóla og atvinnulífs til að efla samstarf um hagnýtingu þekkingar og til að náms-framboð skólanna styðji við þróttmikið atvinnulíf. Í öllu samstarfi um hagnýtingu þekkingar og nýsköpunarstarfi er mikilvægt að íslensk tunga sé notuð og að öll svið háskólakennslu og rannsókna styðjist við íslensku að eins miklu marki og framast er unnt (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2010).
8. Kennsla á íslensku.
Samkvæmt lögum um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls frá 2011 er þjóðtungan sameiginlegt mál landsmanna og stjórnvöld skulu tryggja að unnt verði að nota hana á öllum sviðum íslensks þjóðlífs. Lögð er áhersla á að kennsla á öllum skólastigum fari fram á íslensku nema annað leiði af eðli náms eða námskrár. Allir skólar á 1.–6. hæfniþrepi, þ.e. allt frá leikskóla til framhaldsmenntunar á háskólastigi, skulu leitast við að efla færni nemenda í íslensku máli, bæði töluðu og rituðu. Gefa skal nemendum ríkuleg tækifæri til að tjá sig í ræðu og riti á fjölbreyttan hátt og leggja sérstaka áherslu á hugtakaskilning og fagorðaforða á íslensku. Sérstaklega skal leggja áherslu á að nemendur tileinki sér fagorðaforða á íslensku í starfsnámi og háskólanámi og geti tjáð sig um eigin sérsvið á íslensku.
Samkvæmt lögum um leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2008 skal kennsla fara fram á íslensku nema með ákveðnum undantekningum. Samkvæmt lögum um háskóla frá 2006 miðar starf háskóla að því að styrkja innviði íslensks samfélags og stöðu þess í alþjóðlegu tilliti með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi. Skólar á öllum skólastigum setji sér málstefnu með hliðsjón af íslenskri málstefnu, Íslenska til alls (2009) (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2009). Menntamálastofnun fylgist með að þessari aðgerð verði framfylgt og styðji skóla til að setja sér málstefnu.
9. Stafrænt námsefni.
Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2019–2023 er lögð áhersla á að námsefni á grunnskólastigi samræmist betur kröfum aðalnámskrár, að útgáfa námsefnis á táknmáli fyrir grunnskólanemendur sé efld og að námsgögn taki mið af byltingu í tölvu- og samskiptatækni og margbreytileika nemendahópsins. Til að styðja við þetta markmið hefur á vegum mennta- og menningarmálaráðuneytis, í samvinnu við ýmsa hagsmunaaðila, verið unnið að tillögu að stefnu um námsgögn. Til skoðunar er hlutverk ríkisins í námsgagnaútgáfu, hlutverk Menntamálastofnunar, aðkoma sveitarfélaga og einkaaðila, lög um námsgögn, nr. 71/2007, námsgagnasjóður og þróunarsjóður námsgagna. Einnig hefur verið hugað að þróun námsgagna fyrir leikskólastig, framhaldsskólastig, tónlistarskóla og framhaldsfræðslu. Áætlað er að þessari endurskoðun ljúki á árinu 2019. Í stefnumótunarvinnu á sviði námsgagna er lögð áhersla á að nemendur á öllum skólastigum hafi aðgengi að fjölbreyttu og vönduðu stafrænu námsefni á íslensku á sem flestum námssviðum. Stafrænt námsefni á íslensku þarf að standast samanburð við það sem best gerist á öðrum tungumálum og vera þannig úr garði gert að það veki áhuga á íslenskum veruleika og íslenskri tungu. Sjóðakerfi á vegum ríkisins verði eflt í þessu skyni (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2012 og Skýrslu starfshóps um bókmenningarstefnu 2017).
10. Íslenskunám fullorðinna innflytjenda.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti veitir nú fræðsluaðilum um 120 m.kr. styrk á ári til íslenskukennslu fullorðinna innflytjenda, með fyrirvara um samþykki Alþingis á fjárlögum. Þessi upphæð hefur ekki hækkað til samræmis við fjölgun innflytjenda og er mikilvægt að breyting verði þar á. Skoða þarf möguleika þess að íslenskunám verði gert eins aðgengilegt og kostur er með skýrum lagaramma þar sem áhersla er lögð á að tryggja aðgang og gæði námsins. Einnig þarf að leggja áherslu á að koma til móts við þarfir þess hóps sem ekki á kost á því að fá námskeið í íslensku niðurgreidd, t.d. þeir sem ekki eru á atvinnumarkaði. Ljóst er að gengi barna og unglinga í námi og atvinnu- og samfélagsþátttaka er að miklu leyti undir því komin að foreldrar hafi vald á íslenskri tungu.
Aðlaga þarf nám, námsgögn og námsmat að rafrænu umhverfi, t.d. með því að smíða rafrænt matskerfi svo innflytjendur geti metið hæfni sína í íslensku. Sú tillaga er í samræmi við aðgerð í fjármálaáætlun 2019–2023 þar sem fram kemur að eitt meginmarkmið sé skil-greint sérstaklega fyrir málaflokkinn, þ.e. að auðvelda fullorðnu fólki sem ekki hefur lokið námi á framhaldsskólastigi að afla sér menntunar og starfsréttinda. Í því sambandi er sett fram aðgerð sem felst í því að þýða og aðlaga evrópskt rafrænt matstæki fyrir grunnleikni í íslensku, stærðfræði, ensku og upplýsingatækni (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2015).
11. Íslenskukennsla erlendis.
Staða íslenskukennslu í erlendum háskólum er víða ótrygg og svo gæti farið að sumir háskólar hætti að bjóða upp á hana. Innri hagræðing í háskólum, sem m.a. hefur fylgt samræmingu á prófgráðum og námsfyrirkomulagi í evrópskum háskólum, getur komið niður á greinum sem uppfylla ekki kröfur um tiltekinn nemendafjölda, t.d. íslenskukennslu. Röksemdir um menningarlegar skyldur háskóla við hefðbundna hugvísindagreinar mega sín nú minna en áður.
Við marga háskóla á Norðurlöndum hefur kennsla í máli og menningu Norðurlanda átt undir högg að sækja. Staða smárra greina eins og íslensku er víða ótrygg og þörf er á auknum stuðningi til að efla íslenskukennslu erlendis. Styrkja skal stoðir íslenskukennslu í samstarfi stjórnvalda og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum sem hefur forgöngu um kennslu í íslensku og íslenskum fræðum erlendis.
Einnig er mikilvægt að nýta nýjustu tækni til hagsbóta fyrir íslenskt málsamfélag og þá fjölmörgu sem vilja læra íslensku. Margir foreldrar sem búsettir eru erlendis vilja að börn þeirra læri íslensku eða viðhaldi íslenskukunnáttu sinni. Styrkja þarf og styðja við kennsluumhverfi vefsins Icelandic Online svo hann mæti betur þörfum barna og ungmenna.
12. Innlend dagskrárgerð.
Í fjölmiðlalögum sem tóku gildi árið 2011 er ákvæði þess efnis að allir íslenskir fjölmiðlar skuli eftir fremsta megni stuðla að menningarþróun og efla íslenska tungu. Miðlun fjölbreytts efnis á íslensku snýst ekki aðeins um varðveislu og þróun tungunnar heldur einnig um samtal kynslóðanna.
Í þjónustusamningi mennta- og menningarmálaráðuneytis við Ríkisútvarpið ohf. er lögð rík áhersla á að Ríkisútvarpið skuli hlúa að menningu þjóðarinnar, leggja rækt við íslenska tungu, listir og íþróttir. Ríkisútvarpið skal koma til móts við þarfir almennings um vandað íslenskt efni og styðja við framleiðslu og nýsköpun á slíku efni. Ríkisútvarpið skal leggja aukna áherslu á innlenda dagskrárgerð og að færa menningarefni framar í forgangsröðun í dagskrá. Ríkisútvarpið skal styrkja og efla sjálfstæða sjónvarpsþátta-, kvikmynda- og heimildamyndagerð með því að gerast kaupandi eða meðframleiðandi að slíku efni. Á samningstímabilinu skal Ríkisútvarpið kaupa eða vera meðframleiðandi að leiknu sjónvarpsefni, kvikmyndum, heimildamyndum eða öðru dagskrárefni í miðlum Ríkisútvarpsins. Ríkisútvarpið skal verja til þess að lágmarki 11% af heildartekjum árið 2019.
Á gildistíma samningsins mun Ríkisútvarpið leggja aukna áherslu á íslenskt leikið efni til að efla kvikmyndagerð í landinu, með það að markmiði að auka framboð og gæði á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Lögð skal áhersla á aukið samstarf Ríkisútvarpsins við Kvikmyndamiðstöð Íslands og sjálfstæða framleiðendur. Aukið framlag í þennan efnisflokk verður á kostnað annarra efnisflokka í sjónvarpi en þó ekki á kostnað framlags til framleiðslu og kaupa á barnaefni. Ríkisútvarpið hefur þegar uppfyllt öll viðmið í samningnum um innlenda dagskrárgerð og samið verður um ný viðmið í næsta samningi sem gildir frá 2020.
13. Stuðningur við einkarekna fjölmiðla.
Fjölmiðlar hafa mikilvægu hlutverki að gegna í lýðræðissamfélagi við miðlun upplýsinga sem vettvangur umræðu og skoðanaskipta. Menningarlegt hlutverk þeirra er brýnt, þeir spegla sögu okkar og sjálfsmynd og viðhalda íslenskri tungu. Íslenskt efni í fjölmiðlum, hvort heldur frumsamið, þýtt, textað, táknmálstúlkað eða talsett, skiptir lykilmáli fyrir íslenska tungu og þróun hennar. Þess vegna er mikilvægt að stuðla að heilbrigðu rekstrarumhverfi fjölmiðla.
Í ljósi þeirra breytinga sem nú eiga sér stað og fyrirsjáanlegar eru í fjölmiðlamálum hér á landi og víðar í Evrópu ætla stjórnvöld að hlutast til um að fjölbreytt flóra fjölmiðla fái þrifist enda sé það ein af forsendum lýðræðis og tjáningarfrelsis auk þess að efla íslenska tungu. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir m.a.: “Ríkisstjórnin mun bæta starfsumhverfi fjölmiðla, t.d. með endurskoðun á skattalegu umhverfi þeirra.” Ráðgert er að styðja við einkarekna fjölmiðla, m.a. með endurgreiðslu á hluta ritstjórnarkostnaðar og með stuðningi við textun og talsetningu myndefnis (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2014).
14. Bókaútgáfa.
Bókmenning Íslendinga hefur átt ríkan þátt í að varðveita og þróa íslenskt mál. Í sjálfstæðisbaráttunni varð þjóðtunga landsmanna ein helsta röksemd þess að Íslendingar væru sérstök þjóð og sjálfstæðiskröfur þeirra réttmætar. Íslensk bókaútgáfa á undir högg að sækja og hefur velta hennar dregist saman um 36% á síðustu tíu árum. Frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku var lagt fram á Alþingi í októberbyrjun 2018 en markmið þess er að efla bókaútgáfu á íslenskri tungu í ljósi mikilvægis hennar fyrir þróun íslenskunnar og bætt læsi þjóðarinnar. Frumvarpið heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Áætlað framlag vegna þessa er um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019 en sú fjárhæð er um 17% af núverandi veltu íslenskrar bókaútgáfu miðað við tölur síðasta árs. Ráðgert er að endurgreiðslurnar muni hvetja til aukinnar útgáfu á prenti og rafrænum miðlum og auka framboð og fjölbreytni efnis fyrir lesendur. Fordæmi fyrir þessari stuðningsleið má meðal annars finna í tímabundnum endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar sem gefist hafa vel.
15. Barna- og ungmennabókmenntasjóður.
Skort hefur fjölbreytt úrval barna- og ungmennabóka á íslensku eftir íslenska höfunda. Til að styðja við og efla útgáfu lesefnis fyrir börn og ungmenni hefur mennta- og menningarmálaráðherra ákveðið að bæta nýjum styrkjaflokki fyrir barna- og ungmennabækur við styrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta frá og með árinu 2019. Framtak þetta fylgir eftir menningarstefnu stjórnvalda þar sem lögð er sérstök áhersla á að efla menningu barna og ungmenna á landinu öllu (sbr. menningarstefna 2013 og ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2017).
16. Almenningsbókasöfn.
Almenningsbókasöfn gegna mikilvægu hlutverki sem þekkingarveitur og fræðslustofnanir og halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu. Almenningsbókasöfn eru einnig mikilvæg fyrir menningarlífið í nærumhverfi sínu. Þau eru rekin á vegum sveitarfélaga en samkvæmt bókasafnalögum, nr. 150/2012, er það m.a. hlutverk ríkisins að stofna bókasafnaráð og bókasafnasjóð til að efla starfsemi bókasafna, bæði almenningsbókasafna og annarra bókasafna. Bókasafnaráði er m.a. ætlað að vinna að stefnumörkun um starfsemi bókasafna, setja reglur um söfnun og úrvinnslu tölfræðilegra upplýsinga um bókasöfn, setja bókasafnasjóði reglur og veita umsögn um styrkumsóknir úr sjóðnum. Bókasafnasjóður hefur það hlutverk að efla starfsemi bókasafna með því að styrkja skilgreindar rannsóknir og þróunar- og samstarfsverkefni á sviði bókasafna- og upplýsingamála. Framlag til bókasafnasjóðs verði tryggt þannig að hann geti veitt stuðning til að efla mikilvæga starfsemi almenningsbókasafna.
17. Máltækni – stafræn framtíð tungunnar.
Fjórða iðnbyltingin er ekki lengur handan við hornið, hún er þegar hafin. Birtingarmyndir hennar eru sjáanlegar á öllum sviðum þjóðlífsins, hvort sem litið er til aukinnar sjálfvirknivæðingar í atvinnulífinu eða snjallsímanotkunar almennings. Mörg tækifæri felast í breytingum sem þessum en jafnframt miklar og krefjandi áskoranir. Ein stærsta áskorunin snýr að tungumálinu og stöðu íslenskunnar í stafrænum heimi. Markmið aðgerðaáætlunar um máltækni er að tryggja að hægt sé að nota íslensku í samskiptum við margs konar tæki og í allri upplýsingavinnslu og um leið að varðveita tungumálið okkar til framtíðar. Áætlunin er fullfjármögnuð í fjármálaáætlun til ársins 2023. Í máltækniáætlun er lögð áhersla á þrjá meginþætti til að tryggja að íslenska verði valkostur í tækniheiminum; uppbyggingu innviða, nýsköpun í máltækni og samstarf og klasamyndun.
Lagt er til að fjórar opnar kjarnalausnir verði til á tímabilinu: talgreinir, talgervill, þýðingarvél og málrýnir. Þróun þeirra og aðlögun fyrir íslensku skal ná nógu langt til að lausnirnar verði gagnlegar og notaðar af öllum almenningi, fyrirtækjum og stofnunum á Íslandi. Grunnforsenda í smíði máltækniverkfæra er að til séu gagnasöfn og stoðtól og í verkáætluninni er nauðsynlegri vinnu á því sviði lýst.
Samhliða framangreindum verkþáttum þarf að huga að menntun og hefur þverfaglegt meistaranám í máltækni í samvinnu Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík verði tekið upp að nýju og eflt með þátttöku fleiri deilda innan skólanna en verið hefur.
Áætlaður heildarkostnaður áætlunarinnar árin 2018–2023 er 2.338 m.kr. Af því er gert ráð fyrir að framlag nýsköpunarfyrirtækja verði 500 m.kr og að ríkissjóður leggi til 1.838 m.kr. Auk þess er áætlað að árlegur rekstrarkostnaður og kostnaður við menntun og alþjóðlegt samstarf á sviði máltækni verði 75 m.kr. á ári. Áætlað heildarframlag ríkissjóðs verður því 2.213 m.kr. sem greiðist á fimm árum. Gerður hefur verið samningur við sjálfseignarstofnunina Almannaróm um rekstur miðstöðvar máltækniáætlunar fyrir íslensku. Miðstöðin mun sjá til þess að verkefni áætlunarinnar verði framkvæmd hjá þeim sérfræðingum, stofnunum og fyrirtækjum sem eru fengin til þess að útfæra þau, sjá um samninga og samhæfingu milli verkefna og við atvinnulífið og tryggja góð samskipti aðila verkefnisins við atvinnulífið og við erlend fyrirtæki og stofnanir þannig að þeir innviðir og tækni sem þróuð eru í verkefninu komist í notkun (sbr. ályktanir Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2012 og 2016).
18. Orðasöfn.
Mikilvægt er að tryggja opið aðgengi almennings að upplýsingum og fræðslu um íslenskt mál, svo sem með orðabókum og orðasöfnum. Keyptur verði útgáfu- og birtingarréttur að útgefnum orðabókum svo betur megi tryggja hindrunarlaust aðgengi (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2016).
Efni skortir um íslenska tungu á netinu, svo sem aðgengilegar orðabækur og alfræðirit. Það vandaða efni sem þó er þar að finna blasir ekki í öllum tilvikum við hinum almenna netnotanda og ráða þarf bót á því. Margt úrvalsefni á íslensku á netinu er ekki nægilega sýnilegt fyrir íslenskra málhafa og aðra áhugamenn um íslensku, þar á meðal börn og ungmenni sem þurfa öllum öðrum fremur á því að halda að alast upp við íslensku á netinu.
19. Viðmið um málnotkun.
Íslenskt mál er á stöðugu undanhaldi þegar kemur að því að kynna og veita almenningi upplýsingar. Þjónustuaðilar bera oft erlend heiti og upplýsingar til almennings og ferðamanna eru í vaxandi mæli fyrst og fremst á ensku. Misskilin þjónustulund við ferðamenn og erlenda borgara gerir það að verkum að íslenskt þjóðfélag getur misst sérstöðu sína þar sem íslenska er ekki lengur ráðandi tungumál í daglegu lífi og störfum. Til þess að sporna við þessari þróun er nauðsynlegt að stjórnvöld setji viðmið um notkun íslensku og annarra tungumála á upplýsinga- og kynningarefni á vegum hins opinbera og einkaaðila (sbr. ályktun Íslenskrar málnefndar um stöðu íslenskrar tungu 2015).
20. Orðanefndir.
Allt frá því íslenskir vísinda- og fræðimenn fóru að skrifa um fræði sín á fyrri hluta 19. aldar hafa þeir lagt metnað sinn í að skrifa á skiljanlegu og skýru máli svo almenningur geti tileinkað sér þekkinguna. Þetta átti sérstaklega við um fræðimenn á sviði náttúruvísinda en þar ruddi Jónas Hallgrímsson brautina með nýyrðasmíð sinni. Af þessu leiðir að skil á milli almennings og fræðasamfélagsins eru mun minni hér á landi en víðast hvar erlendis.
Orðanefndir í ýmsum greinum hafa haldið þessari vinnu á lofti og má sjá á heimasíðu Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum lista yfir starfandi orðanefndir sem eru nú 31 talsins. Þrettán orðanefndir hafa lokið störfum. Til að viðhalda virkri nýyrðasmíð í hinum ýmsu greinum er nauðsynlegt að styðja starf orðanefnda til að tryggja að íslenskur fræðiorðaforði og íðorðastarf eflist.
21. Málstefna um íslenskt táknmál.
Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls segir að íslenskt táknmál sé fyrsta mál heyrnarlausra, heyrnarskertra, daufblindra og aðstandenda þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta. Hlutverk málnefndar um íslenskt táknmál er að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um hvað eina er varðar íslenskt táknmál og stuðla að eflingu þess og notkun í íslensku þjóðlífi.
Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra hefur mælst til þess að unnið verði að stefnumótun í málefnum íslenska táknmálsins. Bent er á að samkvæmt lögum um íslenska tungu og íslenskt táknmál sé íslenskt táknmál opinbert mál þeirra sem reiða sig á það til samskipta og það er í lögunum sett jafn rétthátt íslenskri tungu.
Meðal áhyggjuefna er bág máltaka og menntun barna sem tala táknmál. Að auki er bent á að setja þurfi lög um túlkaþjónustu í daglegu lífi og um túlkaþjónustu í atvinnulífi til að tryggja rétt þeirra sem tala táknmál. Málnefnd um íslenskt táknmál er því falið að vinna drög að stefnu um íslenskt táknmál í samvinnu við sérfræðinga og hagsmunaaðila.
22. Íslensk málstefna.
Íslendingar eignuðust opinbera málstefnu í fyrsta sinn 12. mars 2009 þegar Alþingi samþykkti tillögur Íslenskrar málnefndar að íslenskri málstefnu, Íslenska til alls, sem opinbera stefnu í málefnum íslenskrar tungu. Samþykkt Alþingis markaði þannig tímamót í sögu íslenskunnar.
Í lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er kveðið á um að hlutverk Íslenskrar málnefndar sé að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu á fræðilegum grundvelli og gera tillögur til ráðherra um málstefnu, auk þess að álykta árlega um stöðu íslenskrar tungu.
Margt hefur breyst á þeim tíu árum sem núgildandi stefna hefur verið í gildi og tímabært að endurskoða fyrstu íslensku málstefnuna. Það er mikilvægt að vanda til verka og tryggja víðtækt og gott samráð á öllum sviðum. Skipunartíma núverandi málnefndar lýkur 31. desember 2019 en málnefndin þarf bæði svigrúm og tíma til að undirbúa tillögu um endurskoðun málstefnunnar. Miðað er við að þeirri vinnu verði lokið í árslok 2020,“ segir í greinargerð.

Categories
Fréttir

Hvers vegna veggjöld?

Deila grein

11/12/2018

Hvers vegna veggjöld?

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, var spurður í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í gær hvort að hann hafi skipt um skoðun á veggjöldum.
Sigurður Ingi sagði í svari sínu að hann vildi árétta það sem hann hafi þurft að segja nokkuð oft. „Fyrir ári sagði ég að það væru engin vegtollahlið í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Ég hefði talað gegn þeim, þeir væru ekki í stjórnarsáttmálanum og þar af leiðandi ekki á minni dagskrá. Það breytir því hins vegar ekki að veggjöld hafa alltaf komið til greina. Hvalfjarðarganga-módelið hefur t.d. gengið mjög vel og lauk núna með farsælum hætti þar sem við hættum gjaldtöku, eftir því sem menn höfðu sagt hér á Alþingi. Það var sagt að þessi lög ættu að standa í 20 ár og þegar gjaldtökunni væri lokið yrði göngunum skilað til þjóðarinnar. Við það stóðum við,“ sagði Sigurður Ingi.

Hvers vegna veggjöld?
Í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum, í orkuskiptum, „höfum við orðið þess fullviss að tekjur ríkisins af bensín- og dísilgjöldum munu fara hratt lækkandi næstu ár. Þær tekjur munu ekki duga fyrir þeim vegaframkvæmdum sem við almennt sættum okkur við. Eru í dag einhverjir 17-18 milljarðar, lækka um 25-50% til ársins 2025 samkvæmt spám og gætu þess vegna verið orðnir að einhverjum 9 milljörðum árið 2025 — og ég held að enginn sætti sig við það,“ sagði Sigurður Ingi.
„Varðandi tímapressuna veit hv. þingmaður (Björn Leví Gunnarsson), sem er áheyrnarfulltrúi í umhverfis- og samgöngunefnd, að það hefur verið mikil vinna í allt haust. Þessi áform voru upphaflega kynnt í samgönguáætluninni. Það var talað um að vel kæmi til greina að skoða aðra þætti eins og þá sem verið hafa til skoðunar í nefndinni. Ég veit að í samtölum við alla gesti, sem hafa verið fjölmargir, og á fjölmörgum nefndarfundum og í viðræðum í nefndinni hefur slíkt komið fram og þetta samtal átt sér stað. Ef það gengur upp að ná að ljúka þessu núna væri það frábært vegna þess að fjögurra ára áætlunin er að renna út í lok þessa árs. Það er mjög mikilvægt fyrir Vegagerðina að hafa svolítinn fyrirsjáanleika í áætlunum sínum og hönnun og útboðum, m.a. til að ná fram eins mikilli hagræðingu í rekstri og útboðum og hægt er,“ sagði Sigurður Ingi að lokum.

Categories
Fréttir

Veiðigjald

Deila grein

10/12/2018

Veiðigjald

Eðlilega hafa verið miklar umræður um veiðigjöldin á Alþingi. En stefnt er að því að afkomutengja veiðigjöld og hafa álagningu eins nálægt í tíma og hægt er. Minnihlutinn sakar ríkisstjórnina um að blekkja þingið, enga sátt og segir stöðu greinarinnar ekki alvarlega.
Markmiðið með veiðigjaldinu er að mæta kostnaði ríkisins við rannsóknir, stjórn, eftirlit og umsjón með fiskveiðum og fiskvinnslu. Að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar.
Með frumvarpinu er lagt til að:

  • settur verði nýr reiknistofn veiðigjalds sem verði byggður á afkomu við veiðar hvers nytjastofns,
  • veiðigjald verði 33% af reiknistofni,
  • reglur um frítekjumark veiðigjalds verði óbreyttar,
  • veiðigjald verði ákveðið fyrir almanaksár,
  • stjórnsýslu veiðigjalds verði breytt og dregið verði úr töf við meðferð upplýsinga.

Gert er ráð fyrir að tekjur ríkissjóðs af veiðigjaldi verði um 6–8 milljarðar kr. á ári næstu þrjú árin. Árlegur kostnaður vegna framkvæmdar laganna er áætlaður um 42,5 milljónir kr. Að auki fellur til um 46,1 milljóna kr. stofnkostnaður sem dreifist á árin 2018–2020 og gert er ráð fyrir að þeim kostnaði verði mætt innan útgjaldaramma málefnasviðs 5 í fjármálaáætlun (Skatta-, eigna- og fjármálaumsýsla).
Samkvæmt gildandi lögum er reiknistofn veiðigjaldsins ákvarðaður á grundvelli hagnaðar fyrir skatt (EBT) í sjávarútvegi samkvæmt skýrslu Hagstofu Íslands, Hagur veiða og vinnslu, reiknað annars vegar fyrir botnfisk og hins vegar fyrir uppsjávarfisk. Vegna tímatafar við útgáfu skýrslunnar er með þessu byggt á a.m.k. tveggja ára gömlum upplýsingum. Við ákvörðun veiðigjalds sumarið 2017 var þannig byggt á skýrslunni Hagur veiða og vinnslu 2015, sem kom út 20. janúar 2017 (og var endurskoðuð 29. júní 2017). Með því er reiknistofninn verulega háður gengissveiflum, ekki aðeins hvað snertir sölutekjur heldur einnig árlegt endurmat á lánum eða eignum þar sem bókhaldslegur gengishagnaður (eða tap) er hluti gjaldstofnsins og getur leitt til breytinga sem illa samræmast rekstrarafkomu á þeim tíma. Hér má benda á mikla hækkun hagnaðar (EBT) í fiskveiðum frá árinu 2014 þegar hann var álitinn um 15 milljarðar kr. til ársins 2015 þegar hann var álitinn um 31 milljarður kr. Stóran hluta þessa mátti rekja til áhrifa gengisbreytinga á fjármagnsstofn. Þetta gat síðan af sér mikla hækkun veiðigjalds á fiskveiðiárinu 2017–2018 sem ekki samrýmdist nýjustu fáanlegu upplýsingum um rekstrarafkomu sjávarútvegsins á sama tíma, svo sem rakið var hér að framan.
Með frumvarpinu er lagt til að reiknistofn veiðigjalds endurspegli væntanlega afkomu við veiðar (fyrir skatt) á komandi veiðigjaldsári (almanaksári). Þá er jafnframt lagt til að ekki verði lengur byggt á Hagtíðindum við útreikninga. Þess í stað verði byggt einvörðungu á gögnum úr skattframtölum eigenda fiskiskipa auk skýrslna til Fiskistofu um afla og aflaverðmæti. Reiknistofn frumvarpsins er mun gegnsærri og auðskiljanlegri en reiknistofn gildandi laga þar sem annars vegar eru sóttar upplýsingar um hagnað í birtar töflur Hagstofu Íslands og hins vegar öllum kostnaði jafnað niður samkvæmt svonefndum afkomuígildum, sem um er fjallað ítarlega í skýringum við gildandi lög. Ekki er þörf á slíkri tveggja skrefa aðferð lengur en niðurjöfnun kostnaðarþátta er reist á vegnu hlutfalli aflaverðmætis hverrar tegundar við veiðar hvers fiskiskips.
„Þá vil ég draga fram mikilvægi þess að hafa í huga þá áherslu sem er í lögum um fiskveiðistjórn, að tryggja og treysta atvinnu og byggð í landinu. Eins það sem fram kemur í 20. gr. þeirra laga varðandi þá sem fá úthlutað aflaheimildum samkvæmt þeim lögum eða landa afla, að fari stjórn veiða fram með öðrum hætti en með úthlutun aflamarks skuli greiða veiðigjöld svo sem í lögum um veiðigjöld greinir. Þetta er það sem við erum að ræða, virðulegi forseti, og hefur mikið verið rætt á umliðnum misserum, að gjaldið þurfi að afkomutengja og byggjast á afkomutölum nær rauntíma. Í frumvarpinu sem við ræðum, frumvarpi til laga um veiðigjöld, er þeim sjónarmiðum sannarlega mætt,“ sagði Willum Þór Þórsson, alþingismaður, í ræðu í fyrstu umræðu.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur, stjórnarsáttmála Framsóknarflokks, Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Sjálfstæðisflokks segir:
Við endurskoðun laga um veiðigjöld þarf að hafa það meginmarkmið að tryggja þjóðinni réttlátan hlut af arðsemi auðlindarinnar og að þau taki tillit til afkomu. Auðlindagjöld eiga annars vegar að vera greiðsla fyrir aðgang að takmarkaðri auðlind og hins vegar arðgreiðslur af nýtingu hennar.
„Þeim sjónarmiðum er klárlega mætt í frumvarpinu,“ sagði Willum Þór.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, fór yfir, í fyrstu umræðu um veiðigjaldið á Alþingi, að verið væri að að koma til móts við umsagnir og gagnrýni á fyrra frumvarp sem lagt var fram í s.l. vetur. „Þarna er verið að horfa eins og hægt er til hverrar útgerðar og kannski ekki hægt að gera þetta einstaklingsmiðaðra en þetta, því að það skiptir verulegu máli. Eins og í flestum atvinnugreinum eru útgerðin og sjávarútvegsfyrirtækin misjafnlega byggð upp og eru kannski ekki öll jöfn í þeirri skiptingu sem hefur verið, enda er óbreytt álagning veiðigjalds röng miðað við afkomu sjávarútvegsfyrirtækja í dag,“ sagði Halla Signý.
„Óeðlilega hátt veiðigjald getur dregið úr starfsemi fyrirtækja og samkeppnishæfni greinarinnar á alþjóðlegum markaði. Slík þróun getur haft neikvæð áhrif á þjónustufyrirtæki í sjávarútvegi og sveitarfélög sérstaklega, sem byggja afkomu sína að stórum hluta á tekjum í sjávarútvegi. Þá getur hátt veiðigjald ýtt undir frekari fækkun sjálfstæðra atvinnurekenda í sjávarútvegi, en aflahlutdeildarhöfum hefur fækkað ört á síðustu árum, eða um tæp 60% á 12 árum.
Fyrirtæki í sjávarútvegi hafa ekki mótmælt því að greiða gjald af auðlindinni enda hreyfðu þau ekki mótmælum þegar vel gekk. En gjaldið verður náttúrlega að vera sanngjarnt og taka mið af afkomu nær í tíma og fleiri þáttum í rekstri eins og tíðkast með afslætti vegna vaxta og framkvæmda. Þjóðin græðir nú ekki á afgjöldum af auðlindinni sem kostar okkur rótgróin fyrirtæki,“ sagði Halla Signý.

Categories
Fréttir

„Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta“

Deila grein

08/12/2018

„Það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta“

Willum Þór Þórsson formaður fjárlaganefndar kom upp í ræðustól Alþingis í atkvæðagreiðslu í 3. umræðu fjárlaga, um tillögu um að heimila fjármála- og efnahagsráðherra að leggja Íslandspósti ohf. til lánsheimild og hlutafé. Var þungt í hinum dagfarsprúða formanni, eins og sjá má á upptöku hér að neðan.

„Ætlar fólk virkilega að láta þetta fyrirtæki að sigla sinn sjó,“ spurði Wilum Þór þingheim. Og sagði svo í framhaldi, „það er alveg ótrúlegt að hlusta á þetta.“ Og bætti við: „Hvar er ábyrgðin? Þetta er í almannaeigu.“
Í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar segir: Ráðherrum ber að upplýsa bæði fjárlaganefnd og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis um framgang fjárhagslegrar endurskipulagningar og útfærslu á framtíðar rekstrarfyrirkomulag áður en nýttar eru þær lána- og framlagsheimildir sem hér er gerð tillaga um.
„Hvað þýðir þetta,“ spurði Willum Þór.
„Það er verið að fara í gegnum reksturinn, skera upp reksturinn. Það er verið að verja verðmætin í þessu fyrirtæki,“ sagði Willum Þór Þórsson.

Categories
Fréttir

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Deila grein

06/12/2018

Eiga pening fyrir gjaldeyri á Keflavíkurflugvelli

Ásgerður K. Gylfadóttir, varaþingmaður, ræddi samgöngumálin í störfum þingsins í gær, miðvikudag.
„Samgöngumálin hafa verið í brennidepli þessa vikuna og síðast í gær kom út skýrsla starfshóps sem fjallaði um innanlandsflug og rekstur flugvalla með hliðsjón af áherslum ríkisstjórnarinnar undir forystu hv. þm. Njáls Trausta Friðbertssonar. Aðgerðirnar sem hópurinn leggur til koma að mínu mati til með að leysa ýmsan vanda sem við hefur verið að etja, til að mynda varðandi millilandaflug, með því að varaflugvöllunum í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum er gefið aukið vægi. Það gefur væntingar um að þær framkvæmdir sem eru nauðsynlegar við þá velli fari af stað. Það mun styrkja vellina til að veita þá þjónustu og það öryggi sem þeir eiga að standa fyrir,“ sagði Ásgerður.
„Ég vil einnig minna á mikilvægi þess að opna fyrir umferð lítilla og meðalstórra flugvéla til og frá landinu um Hornafjarðarflugvöll sem er bæði stuðningur við svæðið varðandi ferðaþjónustuna og svo mikið flugöryggisatriði fyrir vélar, til að mynda í ferjuflugi.
Innanlandsflugið á að vera einn liður í almenningssamgöngunum og er hluti af þessari skýrslu. Sú staðreynd að það sé hægt að fá flugfar til og frá landinu í gegnum Keflavíkurflugvöll fyrir sama verð og almennt fargjald aðra leiðina til Hornafjarðar, Ísafjarðar eða Egilsstaða er ekki boðlegt ástand. Því fagna ég innilega fyrir hönd landsbyggðarinnar að hin svokallaða skoska leið eða útfærsla af henni sé komin í vinnslu og lagt til að það fyrirkomulag taki gildi árið 2020. Aðgengi að þjónustu sem er stöðugt gerð miðlægari á höfuðborgarsvæðinu á að vera sjálfsagt fyrir alla landsmenn.
Til viðbótar má telja að leikhús allra landsmanna, t.d. Þjóðleikhúsið, hljómsveit allra landsmanna, Sinfóníuhljómsveitin, og flugvöllur allra landsmanna, aðalvöllurinn, Keflavíkurflugvöllur, sé á leið hér um og það er gott að við getum átt smápening fyrir gjaldeyri þegar við komum á Keflavíkurflugvöll.“
Ásgerður K. Gylfadóttir varaþingmaður í störfum þingsins 5. desember 2018.

Categories
Fréttir

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Deila grein

06/12/2018

„Ég treysti þér, máttuga mold“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, minnti þingheim á alþjóðlegan dag jarðvegs í gær, miðvikudag.
„Jarðvegur er það sem allt líf nærist á og jarðvegur er mjög mikilvæg náttúruauðlind og hann er ekki hægt að endurnýta,“ sagði Halla Signý.
Ég treysti þér, máttuga mold.
Ég er maður, sem gekk út að sá.
Ég valdi mér nótt, ég valdi mér logn,
þegar vor yfir dalnum lá.
– orti Guðmundur Ingi Kristjánsson skáld frá Kirkjubóli
Guðmundur Ingi Kristjánsson sem var bóndi og skildi þá hringrás sem lífið er. Okkur ber skylda að yrkja og varðveita jörðina og skila henni til komandi kynslóða.
Frjómoldin er aðeins þunn skel á yfirborði jarðar. Í henni nærum við meginhluta matvælaframleiðslu heimsins. En jarðarbúum fjölgar hratt og því miður er þessi mikilvæga auðlind jarðar að hopa og verða eyðimerkurmyndun að bráð.
Fyrir þinginu liggur þingsályktunartillaga sem hvetur landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðherra að gera tillögu til breytinga á lögum eða reglugerðum sem miða að því að koma á fót hvatakerfi þannig að landeigendur hafi ávinning af því að græða upp land og stöðva jarðvegsrof með uppskeru af túnum sem nýtist ekki í fóður.
Í loftslagsstefnu Íslands er það eitt af forgangsmálum að huga að landgræðslu eins og segir í aðgerðaáætlun fyrir árin 2018-2030, með leyfi forseta:
„Fáar þjóðir hafa eins góð tækifæri og Íslendingar til að draga úr losun vegna landnotkunar og efla kolefnisbindingu í gróðri og jarðvegi.“
Þar er nefnt sérstaklega að endurheimt votlendis sé veigamikill þáttur í að draga úr losun og að hægt sé að binda kolefni úr andrúmslofti með landgræðslu og skógrækt. Íslenskir bændur hafa sýnt landgræðslu og kolefnisbindingu mikinn áhuga. Landssamtök sauðfjárbænda hafa sett sér aðgerðaáætlun þar sem stefnt er að því að sauðfjárrækt skuli verða kolefnisjöfnuð fyrir árið 2027. Liður í því er landgræðsla, skógrækt og endurheimt votlendis. Landgræðsla ríkisins hefur unnið markvisst að því að efla grasrótarstarf í landgræðslu og gróðurvernd og flytja verkefni frá landgræðslunni heim í héruðin undir samvinnuverkefninu Bændur græða landið. Það er dæmi um slíkt framtak.
Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður í störfum þingsins 5. desember 2018.

Categories
Fréttir

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Deila grein

05/12/2018

Fjarskiptaáætlun – fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir tveimur þingsályktunartillögum um fjarskiptaáætlun á Alþingi í dag, annars vegar stefnu í fjarskiptum til fimmtán ára og hins vegar aðgerðaáætlun til fimm ára. Ráðherra segir grunntón í áherslum og aðgerðum áætlunarinnar vera traust og öryggi.
Ný fjarskiptaáætlun felur í sér mikilvæga framtíðarsýn og markmið í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands fyrir árin 2019–2033 en aðgerðaáætlunin nær til tímabilsins 2019-2023.
Ráðherra sagði í framsöguræðu sinni að fjarskiptaáætlanir sem gerðar voru árin 2005 og 2012 hafi varðað farsæla þróun á sviði fjarskipta sem hafi komið Íslandi í fyrsta sæti í fjarskiptum og upplýsingatækni árið 2017 að mati Alþjóðafjarskiptasambandsins. Þriðju fjarskiptaáætluninni væri ætlað að fleyta þjóðinni enn lengra þannig að við héldum stöðu okkar sem eitt af forystulöndum heims í innviðum fjarskipta.
Í áætluninni er horft til umtalsverðrar og fyrirsjáanlegrar tækniþróunar, endurskoðunar á fyrirliggjandi stefnum og sameiningu stefna í fjarskiptum, netöryggismálum, póstmálum og málefnum Þjóðskrár Íslands. Einnig er tekið mið af samþættingu allra stefna og áætlana sem falla undir málefnasvið ráðuneytisins.
Fjórðu iðnbyltingunni fylgja áskoranir
Sigurður Ingi fjallaði um fjölmargar áskoranir fyrir þjóðir heims sem felast í fjórðu iðnbyltingunni þar sem fjarskipti, upplýsingatækni, netöryggi og gervigreind leika lykilhlutverk. „Birtingarmynd þeirra breytinga sem við nú þegar stöndum frammi fyrir er m.a. stórstígar framfarir í tækni, aukin sjálfvirkni, ör þróun í stafrænum samskiptum, síbreytilegt viðskiptamódel markaðsaðila og örar breytingar á regluverki ESB. Einnig má benda á að ríki heims standa nú frammi fyrir vaxandi ógnum á Netinu og þurfa Íslendingar að bregðast við þeim af alvöru. Hvað varðar póstþjónustuna má benda á að það er stór áskorun að takast á við hraða fækkun bréfasendinga og vöxt í verslun á Netinu með tilheyrandi pakkasendingum innanlands og milli landa. Þá vil ég nefna í þessu sambandi að ein allra mikilvægasta grunnskrá landsins, þjóðskráin, þarfnast endurnýjunar til að svara þeim kröfum sem m.a. Alþingi og almenningur gerir til hennar,“ sagði ráðherra í framsöguræðu sinni.
Þrjú stór viðfangsefni í áætluninni eru háð skilyrði um sérstaka viðbótar fjárveitingu að mati ráðherra. Í fyrsta lagi innleiðing á NIS tilskipun sem er grundvöllur brýnna umbóta í netöryggismálum þjóðarinnar. Í öðru lagi fjármögnun á mögulegum kostnaði ríkisins við að tryggja lágmarks póstþjónustu. Og loks í þriðja lagi sérstök ljósleiðaraverkefni eins og þriðji fjarskiptasæstrengurinn til Evrópu, hringtenging ljósleiðara á Austfjörðum auk útbóta við að tryggja betur öryggi mikilvægra fjarskiptainnviða. Ráðherra minnti á að landsátakið Ísland ljóstengt væri þegar fjármagnað en það verkefni hafi reynst ákaflega árangursríkt verkefni til að koma háhraðatengingum út í hinar dreifðu byggðir.
Ör endurskoðun mikilvæg
Þingsályktunartillögur um fjarskiptaáætlun voru samdar í samræmi við stefnu ríkisstjórnar, áherslur ráðherra, aðrar áætlanir hins opinbera og niðurstöður opins samráðs.
Samkvæmt lögum skal stefna í fjarskiptum og tilheyrandi aðgerðaáætlun endurskoðuð eigi sjaldnar en á þriggja ára fresti. Ráðherra segir reglulega og öra endurskoðun mikilvæga þar sem þróun í málaflokkum sem fjarskiptaáætlun nær til taki hröðum breytingum. Árlega verður gerð grein fyrir framvindu markmiða og verkefna fjarskiptaáætlunar.
Þingsályktunartillaga um stefnu í fjarskiptum fyrir árin 2019-2033
Þingsályktunartillaga um fimm ára fjarskiptaáætlun fyrir árin 2019-2023

Heimild: stjornarradid.is

Categories
Fréttir

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Deila grein

05/12/2018

„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ“

Jóhann Friðrik Friðriksson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, fer yfir helstu atriði í nýsamþykktri fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019 og þriggja ára áætlun fyrir árin 2020-2022, í yfirlýsingu í gær. Sveitarfélagið mun ná undir lögboðið 150% skuldaviðmið fyrr en upphafleg aðlögunaráætlun gerði ráð fyrir. Aðlögunaráætlun fyrir árin 2017 til 2022 gerði ráð fyrir að skuldaviðmiðið næði 150% árið 2022.
„Aukning er til nýframkvæmda í skólum og undirbúningur hafinn að byggingu nýs hjúkrunarheimilis. Álögur á íbúa eru lækkaðar eins og kostur er. Horfið hefur verið frá hækkuðu útsvari og nú greiða íbúar Reykjanesbæjar sömu prósentu í útsvar og íbúar flestra annara sveitarfélaga á Íslandi. Þá er ráðgerð lækkun á fasteignaskatti í gjaldskrá úr 0,46% í 0,36% til þess að mæta hækkuðu fasteignamati,“ segir Jóhann Friðrik.
Aðhald í rekstri, hagstæð ytri skilyrði, auknar tekjur og breyttar reglur um útreikning skuldaviðmiðs eru meðal þess sem valdi því að hraðar gangi að nálgast skuldaviðmiðið, samt hefur náðst að forgangsraða til velferðar-og fræðslumála í fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar 2019.
„Bjartari tímar framundan í Reykjanesbæ,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson.

Categories
Fréttir

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Deila grein

04/12/2018

Hvað getur unnist af klasastarfi?

Willum Þór Þórsson, alþingismaður, er flutningsmaður að tillögu til þingsályktunar á Alþingi um mótun klasastefnu.
Í tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að skipa starfshóp sem fái það hlutverk að móta opinbera klasastefnu. Stefnan feli í sér fyrirkomulag um hvernig hið opinbera efli stoðkerfi atvinnulífsins á landsvísu í samvinnu við atvinnulífið, rannsóknar- og menntastofnanir, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila sem málið snertir. Stefnan verði unnin í tengslum við stefnu og aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs sem er í gildi 2017–2019 þar sem markmið nýrrar klasastefnu verði að ráðstafa fjármunum til atvinnuuppbyggingar og byggðaþróunar á markvissari hátt en hingað til, að efla samvinnu vísinda og atvinnulífs, efla nýsköpun, efla samkeppnishæfni fyrirtækja, atvinnugreina og þjóðarinnar og efla hagsæld. Enn fremur er lagt til að ríkisstjórnin skili skýrslu til Alþingis með niðurstöðum starfshóps í lok maí 2019.
„Ég tel slíka stefnumótun getað skilað miklum ávinningi fyrir atvinnulífið, nýsköpun og ekki síst þegar við skoðum uppbyggingu atvinnu í tengslum við nýtingu auðlinda um landið gervallt og markvissari nýtingu fjölmargra sjóða sem ætlað er að efla rannsóknir og nýsköpun, hvort sem um ræðir vísindamenn innan menntageirans eða verkefnadrifna sjóði. Við getum kallað það innlegg í markvissari byggðastefnu,“ sagði Willum Þór.

Fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum
„Samfélög í dag standa frammi fyrir flóknum, hnattrænum áskorunum á sviði t.d. umhverfis, loftslags, heilsu, orku, fæðu, fólksflutninga og öryggis. Mikilvægt er að fjárfesting í þekkingarsköpun leiði til betri skilnings á samfélagslegum áskorunum og vísi veginn í átt til árangursríkra lausna. Slíkar lausnir krefjast oft umfangsmikils samstarfs þvert á fræðigreinar og á milli háskóla, stofnana og fyrirtækja. Til að ný þekking nýtist samfélaginu verður hún að hafa áhrif til breytinga, t.d. í stefnu stjórnvalda, með lagasetningu, með breyttu verklagi fyrirtækja og stofnana eða með breyttri hegðun fólks. Í samfélagslegum áskorunum felst töluverð óvissa því erfitt er að segja fyrir um áhrif þeirra og hvernig best sé að bregðast við. Skýr framtíðarsýn og markviss fjárfesting í þekkingu eykur möguleikana jákvæðum árangri og farsælli aðlögun að breyttum aðstæðum,“ sagði Willum Þór og vitnaði í ritið Stefna- og aðgerðaráætlun, Vísinda- og tækniráðs 2017-2019.
„Tillagan sem við ræðum, um opinbera klasastefnu, styður vel þær áherslur sem koma fram í aðgerðaáætlun Vísinda- og tækniráðs um vel ígrundaða stefnumótun og mikilvægi slíkrar stefnumörkunar þar sem upplýsingavinnsla og hagtölugerð er forsenda vandaðrar stefnumótunar og til aukins skilnings á rannsóknar- og nýsköpunarkerfinu, auknum sveigjanleika þess til að fylgja árangri eftir og markvissari ákvörðunartöku stjórnvalda, stofnana eins og háskóla, rannsóknastofnana og fyrirtækja,“ sagði Willum Þór.
Hvað getur unnist af klasastarfi?
„Við höfum þrisvar sinnum haldið risastórar alþjóðlegar ráðstefnur sem hafa farið stækkandi og sem dæmi er alþjóðlega jarðvarmaráðstefnan sem haldin var í Hörpu 2016 um fjölnýtingu jarðvarmans. Hún er mjög gott dæmi um hvað getur sprottið á slíkum vettvangi og í samvinnu fyrirtækja í milli og stofnana og fræðasamfélags. Á ráðstefnunni voru fyrirlesarar á borð við Michael Porter. Þar voru 1.000 gestir frá 40 þjóðum að deila þekkingunni. Með ráðstefnunni hefur Íslandi eða íslenska jarðvarmaklasanum tekist að byggja Ísland upp sem helsta umræðuvettvang jarðvarma og endurnýjanlegrar orku á heimsvísu. Okkur tókst síðan í kjölfarið að fá alheimsráðstefnuna, sem er haldin á fimm ára fresti, í samkeppni við lönd eins og Chile, Þýskaland, Holland, Kenýa, Filippseyjar og Bandaríkin. Sú ráðstefna fer fram hér 2020. Ef hið opinbera markar ekki stefnu og tekur ekki þátt í verkefnum eins og því förum við á mis við tækifæri og hætta er á, ef slíkur stuðningur og skuldbinding er ekki fyrir hendi, að slík verkefni fjari út. Þetta er dæmi um það sem getur unnist í klasavinnu þar sem þekking kemur saman úr mörgum áttum, úr fræðasamfélagi, frá stofnunum, hinu opinbera, úr atvinnulífinu,“ sagði Willum Þór Þórsson.

Categories
Fréttir

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Deila grein

03/12/2018

Umhverfisvernd og dýravelferð við opinber innkaup á matvöru

Þórunn Egilsdóttir, formaður Þingflokks Framsóknarmanna, mælti fyrir tillögu til þingsályktunar um vistvæn opinber innkaup á matvöru á dögunum á Alþingi. Fram kom í inngangsorðum Þórunnar „að miklu varðar að lágmarka losun gróðurhúsalofttegunda, notkun skaðlegra hormóna og eiturefna, ofnotkun sýklalyfja sem leiðir af sér fjölónæmar bakteríur og önnur skaðleg áhrif á umhverfið og velferð dýra við framleiðslu og flutning matvöru. Ríki og sveitarfélög geta haft veruleg áhrif þar á með því að hafa umhverfisvernd og dýravelferð að leiðarljósi við innkaup á matvöru. Til dæmis má ætla að hátt í 150.000 manns – nemendur, starfsfólk hjá hinu opinbera, vistmenn á dvalar- og öldrunarheimilum og fleiri – eigi reglulega kost á að borða í mötuneytum á vegum hins opinbera. Ef miðað er við að tveir þriðju þeirra neyti þess kosts er um 100.000 manns að ræða,“ sagði Þórunn.
Þórunn lagði áherslu á mikilvægi þess „að ávallt verði tekið tillit til umhverfisverndar og dýravelferðar við opinber innkaup á matvöru.“ Ríki og sveitarfélög geta stuðlað að vistvænni matvælaframleiðslu enda viðurkennt að nýta megi opinber innkaup til að vinna að umhverfisvernd og velferð dýra.
„Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum“
Markmiðið um kolefnishlutlaust Ísland árið 2014 kallar á breiðan stuðning við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki og atvinnugreinar í viðleitni þeirra til að setja sér markmið í loftslagsmálum. Allar stærri opinberar áætlanir þarf nú að meta út frá loftslagsmarkmiðum.
Skýrsla um kolefnisspor garðyrkjunnar, sem unnin var fyrir samband garðyrkjubænda, leiðir í ljós að íslensk garðyrkja hefur mest forskot þegar afurð er flutt inn með flugi. Það að flytja salat til landsins kostar rúmlega þrefalt meira kolefni en allt ferlið á Íslandi og er hlutfall íslenska kolefnissporsins um 26% af því innflutta.
„Allt skiptir þetta máli í stóra samhenginu þegar talið berst að umhverfismálum. Til gamans langar mig til að benda á að Danir, sem eru framarlega í þessum málum, eru svo hrifnir af íslenska grænmetinu að þeir vilja það helst af því að ræktunaraðferðirnar hér á landi og hreinleiki vatnsins er langt umfram það sem þekkist annars staðar. Við búum hér yfir gríðarlegum gæðum,“ sagði Þórunn.

Neytendastefna sauðfjárbænda
Í neytendastefnu sauðfjárbænda til ársins 2027 er gert ráð fyrir að búið verði að kolefnisjafna íslenska sauðfjárrækt fyrir þann tíma og að allar íslenskar sauðfjárafurðir verði vottaðar með lágmarksumhverfisspori fyrir 2027. Íslenskt sauðfé er nú þegar alið án hormóna og vaxtarhvetjandi lyfja og erfðabreytt fóður hefur verið bannað. Notkun á sýklalyfjum er með því minnsta sem þekkist í heiminum.
Ríkið er drifkraftur nýsköpunar og til sjálfbærrar þróunar
„Opinber innkaup ríkisins eru umtalsverður hluti af hagkerfinu og því skiptir máli hvernig þeim er hagað. Með hlutdeild sinni á matvælamarkaði getur ríkið haft áhrif á þróun á markaði og verið drifkraftur nýsköpunar og lagt mikið af mörkum til sjálfbærrar þróunar. Metnaður hins opinbera á að felast í því að gefa börnum, öldruðum og öðrum þeim er hið opinbera matreiðir fyrir, lystuga og heilnæma máltíð,“ sagði Þórunn.
„Íslenskur landbúnaður og íslensk landbúnaðarframleiðsla stendur mjög framarlega og það hefur verið mikið kappsmál hjá mínum flokki, Framsóknarflokknum, okkur Framsóknarmönnum, að fylgja þessum málum eftir. Ég hef trú á því að við stöndum með pálmann í höndunum ef við byggjum á þessum grunni,“ sagði Þórunn.
Í ríkisstjórnarsáttmálnum semgir að Ísland eigi að vera leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum og tryggja eigi áframhaldandi samkeppnishæfni sjávarútvegs á alþjóðamörkuðum. Einnig kemur fram að nýta beri tækifæri sem byggjast á áhuga á matarmenningu með sjálfbærni og gæði að leiðarljósi, þróa lífhagkerfið enn frekar og stuðla að nýsköpun og vöruþróun til að auka virði afurða og byggðafestu.
„Það er gríðarlega mikið og stórt mál í öllum byggðamálum, að við séum með öflugt atvinnulíf um allt land og við séum að nýta auðlindina okkar, landið, til að framleiða heilnæm matvæli,“ sagði Þórunn Egilsdóttir.