Categories
Fréttir

Störfum fjölgar og áfram dregur úr atvinnuleysi

Deila grein

21/09/2016

Störfum fjölgar og áfram dregur úr atvinnuleysi

eygloVinnumálastofnun áætlar að skráð atvinnuleysi í september verði um 1,8 – 2,1% á landsvísu. Atvinnuleysi á Suðurnesjum mælist nú lægra en á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta sinn frá árinu 2004 sem rekja má til uppsveiflu í ferðaþjónustu. Hlutfall erlendra ríkisborgara af vinnuaflinu fer vaxandi. Þetta o.fl. kemur fram í minnisblaði sem félags- og húsnæðismálaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnar í dag.
Fjöldi starfa í ferðaþjónustu stefnir í að fara úr um 19.400 störfum árið 2015 í 22.900 störf árið 2016. Körlum á innlendum vinnumarkaði hefur fjölgað hlutfallslega meira en konum sem skýrist einkum af uppgangi í byggingariðnaði þar sem karlar starfa í mun meira mæli en konur.
Tölur um búferlaflutninga benda til þess að yfir 8.000 erlendir ríkisborgara muni flytja ti landsins á þessu ári. Eru þá ótaldir svokallaðir útsendir starfsmenn, þ.e. þeir sem koma hingað til skemmri tíma. Vinnumálastofnun áætlar að hlutfall erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði fari yfir 10% að jafnaði árið 2016 sem er hærra en nokkru sinni áður. Gert er ráð fyrir að þessi þróun haldi áfram og að hlutfallið fari í 11 – 12% árið 2017.
Búferlaflutningar Íslendinga til og frá landinu tengjast að stórum hluta námi erlendis en endurspegla einnig að einhverju leyti efnahagsástandið þannig að fleiri flytjast á brott í atvinnuleit þegar illa árar og færri flytjast til landsins. Tölur um búferlaflutninga á fyrri hluta þessa árs benda til að íslenskum ríkisborgurum sem flytjast til landsins fari fjölgandi og þeim sem flytjist á brott fari fækkandi.
Eins og sjá má í yfirliti Vinnumálastofnunar um stöðuna á vinnumarkaði í ágúst sl. var atvinnuleysi meðal karla 1,5% en 2,5% meðal kvenna. Mest var atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu, 2,3% en minnst á Norðurlandi vestra, 1,0%.

Heimild: www.velferdarraduneyti.is

Categories
Fréttir

Það skortir ekki vilja og áhuga

Deila grein

20/09/2016

Það skortir ekki vilja og áhuga

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða um samgöngur og atvinnuuppbyggingu í dag en fyrst verð ég þó að nefna eitt mál. Ég las í fréttum að borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, hefði varpað fram þeirri hugmynd að mönnunarvanda á leikskólum borgarinnar mætti jafnvel leysa með því að fá þar eldri borgara til starfa.
Ég vil þá segja að leikskólakennarastarfið er mjög vandasamt. Það krefst margra ára háskólamenntunar. Ábyrgðin sem fylgir því að annast og kenna ungum börnum er mikil. Launin eru alls ekki í samræmi við menntun og ábyrgð. Því verð ég að segja að borgarstjóri er með þessu að gjaldfella leikskólakennarastarfið. Leikskólar eru ekki gæslustaðir.
En víkur nú málinu að byggðamálum. Ég átti þess kost í síðustu viku að sækja byggðaráðstefnu Byggðastofnunar sem haldin var á Breiðdalsvík. Þar voru mörg áhugaverð erindi haldin um niðurstöður ýmissa rannsókna tengdum byggðamálum. Rætt var um mikilvægi þess að sveitarfélög væru með skýra atvinnustefnu, að aðalskipulag væri í samræmi við hana o.s.frv. Allt er það fullkomlega lógískt og ágætt fyrir sitt leyti. En í kaffipásunni spjallaði ég við ungan bónda á Suðausturlandi sem er að reyna að byggja upp ferðaþjónustu og matvælaframleiðslu. Þar heyrði ég sömu sögu og ég hef heyrt oft áður, þ.e. að skortur á ljósleiðara og þriggja fasa rafmagni standi atvinnuuppbyggingu fyrir þrifum. Það skortir nefnilega ekki tækifæri í sveitum landsins. Það skortir ekki vilja og áhuga unga fólksins til að byggja upp. Það sem skortir er fé og framkvæmdagleði ríkisvaldsins. Unga bóndanum varð að orði í kaffipásunni: Við getum í alvörunni bara hætt að ræða um stefnumótun og skipulag sveitarfélaga þegar við fáum ekki einu sinni þriggja fasa rafmagn og ljósleiðara.
Ég er sammála bóndanum unga. Áratugalöng bið eftir nothæfu rafmagni er ekki boðleg, virðulegur forseti.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir í störfum þingsins 20. september 2016.

Categories
Fréttir

Mörg mikilvæg og góð mál til afgreiðslu í þinginu

Deila grein

20/09/2016

Mörg mikilvæg og góð mál til afgreiðslu í þinginu

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Nú þegar líður að þinglokum bíða mörg mikilvæg mál afgreiðslu. Þrátt fyrir allt og umræðuna sem hér á undan fór vil ég segja að þingstörfin ganga alveg ágætlega. Það eru ýmis alveg sérstaklega jákvæð og góð mál, ef ég má orða það svo, virðulegi forseti, sem hafa verið á dagskrá og mikil samstaða hefur verið um. Vil ég nefna Parísarsamkomulagið og samning Sameinuðu þjóðanna um málefni fatlaðs fólks.
Í gær staðfestum við á Alþingi heimild til fullgildingar samningsins sem hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra Sigrún Magnúsdóttir ritaði undir fyrir Íslands hönd í París fyrr á þessu ári. Við verðum í góðum hópi og í fararbroddi samningsríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna þar sem hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir getur fyrir hönd Íslands staðfest fullgildinguna. Við framsóknarmenn erum auk þess afar stoltir af því að þessir tveir öflugu hæstv. ráðherrar okkar sigli þessu mikilvæga samkomulagi í höfn, sem mun ef að líkum lætur hafa mikil áhrif til framtíðar á allar ákvarðanir og markmið Íslands, og umheimsins, í umhverfis- og loftslagsmálum.
Seinna í dag klárum við svo síðari umræðu um þingsályktun hæstv. utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í því máli erum við hins vegar með seinni skipum eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson greindi ágætlega frá í yfirlitsgóðri framsögu í nefndaráliti hv. utanríkismálanefndar þar sem hann tók fram að það væri ekki vansalaust af hálfu stjórnvaldsins að hafa tekið svo langan tíma í að afgreiða fullgildingu samningsréttinda fatlaðs fólks. Hitt verð ég að segja, virðulegur forseti, að hv. nefnd hefur nýtt tímann og unnið hratt og vel. Vonandi getur svo hæstv. utanríkisráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir fylgt þessu eftir og lokið fullgildingarferlinu á yfirstandandi allsherjarþingi.“
Willum Þór Þórsson  í störfum þingsins 20. september 2016.

Categories
Fréttir

Vinna þarf heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

Deila grein

20/09/2016

Vinna þarf heilbrigðisáætlun fyrir Ísland

elsa-lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Öll viljum við hafa aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Allir eiga jafnframt að eiga jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, stöðu eða búsetu. Við eigum góðar heilbrigðisstofnanir víða um landið sem gengið hafa í gegnum sameiningar á undanförnum árum, sem höfðu það markmið að styrkja rekstrargrunn þeirra og gera þær öflugri til að taka að sér aukin verkefni. Hins vegar skortir heildarstefnu innan heilbrigðiskerfisins til að stýra veitingu þjónustunnar og nýta fjármagnið í kerfinu betur en nú er gert. Auk þess þarf auðvitað að halda áfram að bæta fjármagni inn í kerfið eins og núverandi ríkisstjórn hefur verið að gera á þessu kjörtímabili.
Það er komið að næstu skrefum sem er nauðsynlegt að stíga svo sameining heilbrigðisstofnana skili því sem henni var ætlað að skila. Til að það gangi eftir þarf að fara í skilgreiningu á hvaða heilbrigðisþjónustu eigi að veita víðs vegar um landið. Vinna þarf heilbrigðisáætlun fyrir Ísland. Í því samhengi þarf m.a. að horfa til aldurssamsetningar íbúa, íbúaþróun, fjarlægðar og samgangna.
Stefnumótun í heilbrigðismálum þarf að tengja saman við ívilnandi byggðaáætlun. Þar má m.a. horfa til þess að veita starfsmönnum skattafslátt vegna ferða til og frá vinnu. Í því samhengi væri hægt að horfa á akstur milli starfsstöðva heilbrigðisstofnana sem eru víðs vegar. Jafnframt þarf að kanna möguleika á því að nýta námlánakerfið á þann hátt að veita afslátt til þeirra sérfræðinga sem ráða sig t.d. á heilbrigðisstofnanir á jaðarsvæðum. Það er eitt af því sem við framsóknarmenn viljum leggja áherslu á og nú þegar er unnið að tillögum í þessa veru innan Byggðastofnunar og verður gaman að sjá hvernig þær munu líta út á endanum. Við eigum að nýta þau tæki sem við eigum til gagns fyrir fólkið í landinu og byggja um leið upp öfluga þjónustu um landið allt.“
Elsa Lára Arnadóttir í störfum þingsins 20. september 2016.

Categories
Fréttir

Mikill áhugi á reynslu Íslands

Deila grein

18/09/2016

Mikill áhugi á reynslu Íslands

Lilja Dögg Alfreðsdóttir-sþAðgerðir Íslands í kjölfar fjármálaáfallsins 2008 og efnahagsárangurinn sem náðst hefur á undanförnum árum var inntakið í fyrirlestri sem Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, hélt fyrir bandaríska hagfræðinga í The National Economists Club í Washington í gær. Í fyrirlestrinum fór Lilja yfir aðdraganda og áhrif fjármálaáfallsins, til hvaða aðgerða íslensk stjórnvöld hafa gripið á undanförnum átta árum og hverju þær hafa skilað.
„Við finnum víða fyrir miklum áhuga, bæði á einstökum aðgerðum og þeirri aðferðafræði sem verið hefur leiðarljósið í vinnu okkar undanfarin ár; að tryggja skilyrðislausa greiðslugetu ríkissjóðs Íslands ásamt því að grípa til aðgerða svo greiðslujöfnuður þjóðarbúsins sé sjálfbær.“
Í fyrirlestrinum setti Lilja aðgerðirnar í alþjóðlegt samhengi og fjallaði m.a. um áhrif ytri aðstæðna, sem hafa um margt verið hagfelldar ásamt því að vöxtur ferðamannaþjónustu á Íslandi hafi skilað þjóðarbúinu miklu.
„Staða Íslands vekur talsverða athygli, enda var hún grafalvarleg fyrir aðeins fáeinum árum. Það er mín skoðun að réttar stefnumótandi ákvarðanir hafi verið teknar á öllum stigum málsins, samhliða því sem hagkerfið hefur einnig notið góðs af hagfelldum ytri aðstæðum.“
The National Economists Club í Washington er vettvangur hagfræðinga til að skiptast á skoðunum um efnahagsmál, viðskipti og pólitíska stefnumótun, bæði á fræðilegum og hagnýtum grunni.

Heimild: www.utanrikisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Sigrún mælir fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun

Deila grein

14/09/2016

Sigrún mælir fyrir tillögu til þingsályktunar um rammaáætlun

Sigrún Magnúsdóttir_001Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti í dag á Alþingi fyrir tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem í daglegu tali er nefnd rammaáætlun.
Ráðherra lagði fram þingsályktunartillöguna að höfðu samráði við Ragnheiði Elínu Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Tillagan er samhljóða niðurstöðum verkefnisstjórnar 3. áfanga rammaáætlunar.
Í ræðu sinni beindi Sigrún sjónum að því hversu mikilvægt stjórntæki rammaáætlun er fyrir ákvarðanatöku stjórnvalda. „Ég tel að rammaáætlun sé grundavallartæki til að vinna undirlag fyrir ákvörðunartöku um það hvaða landsvæði við viljum taka undir virkjunaráform og hvaða landsvæði við viljum vernda til framtíðar og hef lagt á það ofuráherslu sem umhverfis- og auðlindaráðherra að standa vörð um þetta stjórntæki.“
Með þingsályktunartillögunni er lagt til að átta nýir virkjunarkostir bætist í orkunýtingarflokk rammaáætlunar, tíu virkjunarkostir fari í verndarflokk og tíu í biðflokk.  „Tillagan sem ég mæli hér fyrir er í senn öflug orkunýtingaráætlun, á sama tíma og hún er metnaðarfull verndaráætlun. Fyrirliggjandi tillaga felur í sér mikla möguleika til orkuöflunar eða rúmlega 1400 MW. Til samanburðar vil ég benda á að uppsett afl allra núverandi virkjana á Íslandi er um 2500 MW. Á sama tíma er lagt til að mörg mikilvæg svæði verði sett í vernd,“ sagði Sigrún. Þá væri í tillögunni stór biðflokkur með virkjunarkostum til skoðunar í framtíðinni. „Ég tel í raun gott að við tökum hæg skref og flýtum okkur hægt þegar um er að ræða framtíðarnýtingu landsvæða enda er tækniþróun hröð, hagsmunamat breytist og við vitum ekki hvernig staðan verður eftir fimm eða tíu ár.“

Heimild: www.umhverfisraduneyti.is

Categories
Fréttir

Samstöðu um málefni fatlaðs fólks

Deila grein

13/09/2016

Samstöðu um málefni fatlaðs fólks

thingmadur-willumthor-05„Hæstv. forseti. Í ársbyrjun 2014 skipaði hæstv. félagsmálaráðherra starfshóp til þess að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þar eiga auk mín sæti fjölmargir fulltrúar þeirra sem málið varðar eins og fulltrúar sveitarfélaga, ráðuneyta, samtaka, félagsmálastjóra, Þroskahjálpar, Landssambands eldri borgara, Öryrkjabandalagsins og kirkjunnar. Það er öflugur hópur sem unnið hefur ötullega við þá endurskoðun sem er meðal annars ætlað að greiða fyrir innleiðingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann bíður enn fullgildingar þrátt fyrir að hafa verið undirritaður fyrir margt löngu af Íslands hálfu, eða þann 30. mars 2007. Í sumarbyrjun lágu fyrir drög að tveimur frumvörpum. Annað er frumvarp til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk sem ætlað er að leysa núgildandi lög af hólmi þar sem lögð er áhersla á ákvæði um þjónustu sem taka mið af og samræmast samningi Sameinuðu þjóðanna. Hitt varðar breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga til þess að bregðast við samfélagsþróuninni og er það jafnframt til samræmis við hin nýju lög.
Nú erum við í starfshópnum að leggja lokahönd á að vinna úr umsögnum sem bárust fyrr í sumar og nú á síðustu dögum, og ganga frá greinargerð. Á dagskrá þingfundar í dag er þingsályktunartillaga hæstv. utanríkisráðherra um fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.
Það fellur ágætlega saman að fullgilda samninginn og að endurskoða lögin. Það er ekki endastöð heldur er það hluti af vegferð þar sem við verðum stöðugt að bæta lagaumhverfið til þess að tryggja jöfn tækifæri, jafnt aðgengi, mannréttindi og virka þátttöku allra í samfélaginu. Auðvitað er tímabært að fullgilda samninginn og þótt fyrr hefði verið. Nú þegar tækifæri gefst er ég ekki í vafa um að samstaða næst hér á Alþingi um það.“
Willum Þór Þórsson  í störfum þingsins 13. september 2016.

Categories
Fréttir

Ættleiðingar úr flóttamannabúðum

Deila grein

13/09/2016

Ættleiðingar úr flóttamannabúðum

160218-johanna-maria-sigmundsdottir-256x384„Hæstv. forseti. Þegar ég lagði fram fyrirspurn þess efnis hvort ekki væri hægt að koma á ættleiðingum úr flóttamannabúðum fékk ég mörg og mismunandi viðbrögð. Aldrei mundi mér detta í hug að leggja til að börn sem ættu foreldra þarna úti yrðu tekin frá þeim. Ég er að sjálfsögðu að horfa til þeirra barna sem mörg hver hafa horft á eftir fjölskyldu sinni verða sprengjum og byssukúlum að bráð, ættingjar eru órafjarri og/eða hafa enga burði til að huga að þeim. Núna hverfa börn og ungar stúlkur úr þessum búðum nærri því á hverjum degi og það er ekki af því að foreldrar þeirra eða ættingjar hafi komið og sótt þau. Það er vegna þess að litið er á þau sem ódýrt vinnuafl og góðan varning í mansal. Krakkar sem enginn leitar að því það er enginn eftir til að leita að þeim. Smyglarar sem stunda mansal eru núna farnir að nota flóttamannabúðir sem ódýrar stoppistöðvar fyrir varning sinn sem þeir smygla frá öðrum löndum. Erum við virkilega að útiloka alla möguleika yfir höfuð á því að hægt væri að veita einhverjum af þessum börnum örugga framtíð, ást og umhyggju, með aðstoð allra þeirra hjálparsamtaka sem þarna vinna? Ekki einu sinni þeim börnum sem missa foreldra sína eftir að þau komu í flóttamannabúðir svo enginn vafi leikur á að þau standa ein? Þarna eru fimm ára börn sem geta lýst því í smáatriðum hvernig foreldrar þeirra voru myrtir og framtíðin sem blasir við þeim er að dvelja í yfirfullum flóttamannabúðum, þ.e. ef þau eru heppin og lenda ekki í höndum glæpamanna. Það eru til tölur um að nær helmingur barna sem eru fylgdarlaus í flóttamannabúðum í Evrópu hverfi árlega, mörg á innan við 48 klukkustundum eftir að þau koma þangað og mörg hver þeirra finnast aldrei aftur. Börn eru stundum aðskilin viljandi frá fjölskyldum af hendi smyglara og þeirra sem stunda mansal.
Herra forseti. Ég spyr þá sem að málinu koma og alla þá sem málið snertir: Er virkilega enginn möguleiki og er þetta virkilega svona afkáraleg spurning hjá mér?“
Jóhanna María Sigmundsdóttir  í störfum þingsins  13. september 2016.

Categories
Fréttir

Grípa þarf til forvarna

Deila grein

13/09/2016

Grípa þarf til forvarna

160218-Þorsteinn Sæmundsson„Forseti. Það sem rekur mig hér upp í dag eru fréttir sem hafa borist frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um að í júlímánuði síðastliðnum hafi verið tilkynnt um fleiri kynferðisbrot á höfuðborgarsvæðinu en síðan í ágúst 2013. Það virðist sem þessi þróun haldi áfram í ágúst og það hefur m.a. annars verið upplýst að fjórar nauðganir hafi verið kærðar eftir síðastliðna menningarnótt í Reykjavík. Þetta er mikið alvörumál að mínum dómi og það er satt að setja óþolandi að konur, því að mest eru það konur sem verða fyrir barðinu á þessum þrælmennum, geti ekki verið óhultar í Reykjavík. Við höfum ekki upplýsingar um þessi brot, þ.e. við höfum ekki upplýsingar um eðli þeirra, þær vantar. Það vantar að vita hvort kringumstæður eru eitthvað svipaðar í þessum málum. Það vantar að vita hvort verið er að byrla konum ólyfjan. Það þurfum við vita vegna þess að við blasir að grípa þarf til aðgerða til að hindra þessa þróun. Það þarf að grípa til forvarna sem mest eru í því fólgnar að beina kastljósinu að gerendum í þessum málaflokki, sem eru að miklum meiri hluta til karlar. Það þýðir að innprenta þarf ungum piltum snemma hvernig maður kemur ekki fram við konur. Þetta þarf að innprenta og karlmenn þurfa að grípa til ráða og tala við aðra karlmenn um að þessi hegðun sé ekki líðandi og ekki sé líðandi að neyta aflsmunar til að koma fram vilja sínum gagnvart konum. Þess vegna hvet ég til þess, herra forseti, að lögreglan á höfðuborgarsvæðinu og Stígamót taki höndum saman og upplýsi okkur betur um kringumstæður þeirra mála sem hér um ræðir, þannig að hægt sé að grípa til ráðstafana til þess að hamla þessari öfugþróun.“
Þorsteinn Sæmundsson  í störfum þingsins 13. september 2016 .

Categories
Fréttir

Aukinn stuðningur vegna tæknifrjóvgana

Deila grein

12/09/2016

Aukinn stuðningur vegna tæknifrjóvgana

Silja-Dogg-mynd01-vefÞingsályktun um aukin stuðning vegna tæknifrjóvgana var samþykkt á Alþingi í liðinni viku. Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingismaður, var fyrsti flutningsmaður hennar.
Í greinargerð ályktunar segir m.a.: „Óhætt er að segja að einn af hápunktunum í lífi margra sé að verða foreldri. Lífsgjöfin sem felst í barneignum er afar mikilvæg og hefur afgerandi áhrif á líf og starf fólks. Ekki eru þó allir svo heppnir að geta með einföldum og náttúrulegum hætti getið og eignast börn. Ófrjósemi er sjúkdómur sem er vaxandi vandamál hér á landi. Ætla má að eitt af hverjum sex pörum eigi við ófrjósemi að stríða. Afleiðingar ófrjósemi eru margvíslegar og leggjast oft þungt á sálarlíf þeirra sem þjást af henni. Almennt má segja að til séu þrjár tegundir af ófrjósemi sem lýsir sér á mismunandi hátt. Það sem í daglegu tali er kallað ófrjósemi lýsir sér í því að kona getur ekki orðið þunguð þrátt fyrir að hafa stundað reglulega óvarið kynlíf í a.m.k. eitt ár, en það er kallað síðkomin ófrjósemi ef einstaklingur hefur eignast a.m.k. eitt barn en nær svo ekki að geta barn aftur. Ófrjósemi getur einnig lýst sér í því að kona getur ekki klárað meðgöngu á eðlilegan hátt og fætt lifandi barn. Þriðja tegundin er félagsleg ófrjósemi, þ.e. þegar einstaklingur þarf á tæknifrjóvgun að halda vegna félagslegra aðstæðna, t.d. vegna þess að hann á ekki maka eða maki hans er af sama kyni.“
Lagt er til að fela ráðherra að endurskoða greiðsluþátttöku ríkisins vegna tæknifrjóvgunarmeðferða þannig að stuðningur ríkisins verði meiri og geri þannig fólki sem glímir við ófrjósemi auðveldara fyrir að sækja meðferðir vegna sjúkdómsins en nú er.
Flm. (Silja Dögg Gunnarsdóttir)