Categories
Fréttir

„Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal.“

Deila grein

25/01/2016

„Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal.“

Silja-Dogg-mynd01-vef„Hæstv. forseti. Kannanir sýna að fólk ber almennt ekki traust til Alþingis. Ef það er vilji þingmanna að auka traust almennings til Alþingis þá verðum við að greina hvar vandinn liggur og vera heiðarleg gagnvart sjálfum okkur í þeim efnum. Stalla mín, hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir, hefur verið óþreytandi við að koma upp í þessa pontu og tala fyrir breyttum og bættum vinnubrögðum. Ég er oft sammála henni. Hæstv. forseti Einar Kr. Guðfinnsson hefur einnig talað fyrir bættum vinnubrögðum og auðvitað fleiri þingmenn hér. Ég vona að raunverulegur vilji sé að baki orðum okkar og að þau hafi áhrif.
Okkur varð lítið úr verki fyrir áramót, að hluta til vegna þess að málin komu seint inn frá ríkisstjórn en einnig vegna þess að þau sem rötuðu inn í sal Alþingis voru flestöll tekin í málþóf. Örfá þingmannamál komust á dagskrá þingsins fyrir áramót þar sem umræðan um þau strandaði á einu umdeildu máli, áfengisfrumvarpinu. Ég er til dæmis ekki hlynnt því frumvarpi en ég mun samt ekki standa að því að tefja að það komist til atkvæðagreiðslu.
Tilgangur umræðunnar í þingsalnum er að menn skiptist á skoðunum og dragi fram ólík sjónarmið. Síðan fara mál til nefnda þar sem umsagnir eru yfirfarnar og málin greind nánar. Til að bæta ásýnd þingsins sæi ég fyrir mér litla breytingu, t.d. að þingflokkar legðu aukna áherslu á að ná samkomulagi sín á milli um fjölda þingmanna sem taka þátt í umræðu hverju sinni. Þannig væri hægt að áætla þann tíma betur sem fer í umræðurnar og skipuleggja störf þingsins betur. Að auki þarf að afgreiða ákveðnar breytingar í þingskapanefnd, eins og komið hefur fram. Við getum ekki haldið áfram að haga okkur eins og við gerum. Frekjukalla- og frekjukellingapólitík á ekki heima í þingsal. Ábyrgðin er okkar.“
Silja Dögg Gunnarsdóttir — Í störfu þingsins 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Urðum vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita

Deila grein

21/01/2016

Urðum vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita

líneik„Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er gekk aftakaveður tvisvar yfir Austurland í lok síðasta árs, annars vegar óhemju úrkoma samfara miklum leysingum þann 28. desember og hins vegar hvassviðri samfara óvenjulágum loftþrýstingi og hárri sjávarstöðu þann 30. desember. Í bæði skiptin varð verulegt tjón á mannvirkjum og mikið rof á landi. Tjón varð á fasteignum, lausafé, samgöngumannvirkjum og vatns- og fráveitum vegna vatnsflóða og skriðufalla þann 28. desember víða um Austurland, m.a. tugmilljóna króna tjón á vegum. Þann 30. desember varð einnig tjón á fasteignum, lausafé, t.d. bílum og vélum, fráveitum, vegum, flugvöllum og hafnarmannvirkjum, vegna sjávarflóða og foks, einkum á svæðinu frá Djúpavogi á Eskifjörð.
Í þessu veðri urðum við vitni að forsjálni, dugnaði og hugrekki björgunarsveita og fjölda annarra sem forðuðu því að tjónið yrði meira en raun varð á. Margir unnu í kapp við veður og vatn til að forða tjóninu og á nokkrum stöðum komu síðan íbúar saman eftir veðrið og hreinsuðu umhverfið. Allt þetta fólk á miklar þakkir skildar.
Þá vil ég líka vekja athygli á því að forsætisráðherra kallaði strax saman viðbragðshóp ráðuneyta vegna ástandsins á Austurlandi sem hefur haft það hlutverk að afla upplýsinga til að fá yfirýn yfir það tjón sem varð. Sveitarfélögin, Viðlagatrygging, Minjastofnun og fleiri hafa unnið að öflun upplýsinga um tjónið á síðustu vikum og komið þeim áfram til ráðuneytisins. Á næstu dögum ættu því að liggja fyrir heildarupplýsingar um tjónið og að hversu miklu leyti þeir sem urðu fyrir því eiga rétt á bótum. Þá verður farið sérstaklega yfir það tjón sem fellur utan hefðbundinna trygginga og metið hvort og að hvaða marki yrði hugsanlega hægt að bæta það.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Auðlindagjaldið kom harðast niður á litlum og meðalstórum útgerðum

Deila grein

21/01/2016

Auðlindagjaldið kom harðast niður á litlum og meðalstórum útgerðum

sigurdur.pall„Hæstv. forseti. Fiskveiðikerfinu núverandi, núverandi kvótakerfi, var komið á 1983 og tók gildi 1984, um það leyti er sá er hér stendur að hefja sína trillumennsku, fyrir rúmum 30 árum. Um tíu árum seinna var þorskur kvótasettur á smábáta og seinna ýsa, steinbítur og aðrar tegundir. Neikvæð umræða í þjóðfélaginu um kvótakerfið og það að kvótinn sé að færast á fáar hendur kemur illa við litlar og meðalstórar og oftast skuldsettar útgerðir. Ein meginástæða þess að útgerðin er að færast á fáar hendur er að mínu mati þessi neikvæða umræða. Menn selja þeim stóru og hugsa sér að komast frá þessu áður en kerfið verður tekið af, en þeir stóru vita að áfram verður veiddur og verkaður fiskur. Þeir hafa tækin, tólin og þekkinguna.
Ef aflaheimildir verða boðnar upp af ríkinu sem sumir hafa lagt til mun stórútgerðin bjóða hæst. Þegar auðlindagjaldið var sett á í tíð síðustu ríkisstjórnar kom það harðast niður á litlum og meðalstórum útgerðum og stefndu margar í gjaldþrot þess vegna. Stórútgerðin hafði bolmagn í þessar aðgerðir þótt vissulega tæki það í.
Það er mín skoðun að kvótakerfið hafi reynst bæði stórum og smáum vel, og eins þjóðarbúinu í heild. Ef menn gætu séð inn í framtíðina í stað endalausrar óvissu vegna títtnefndrar neikvæðrar umræðu og gert áætlanir um fyrirtæki sín yrði reksturinn mun heilbrigðari vegna minni óvissu og nýliðun yrði þá álitlegur kostur fyrir unga útgerðarmenn, og konur að sjálfsögðu.
Sjálfbærar fiskveiðar okkar Íslendinga þar sem Hafró gefur út stofnstærðarmat sitt á fiskstofnum eftir undanfarnar rannsóknir og síðan veiðiráðgjöf til stjórnvalda sem farið hefur verið eftir í meginatriðum síðustu árin eru heilbrigðisvottorð um þá umgengni við fiskveiðar sem umheimurinn sættir sig við.“
Sigurður Páll Jónsson — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

„Og auðvitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur.“

Deila grein

21/01/2016

„Og auðvitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur.“

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson. Kveikjan er viðtal við hv. þingmann í Viðskiptablaðinu í haust, 17. september, þar sem yfirskriftin er: Ekki réttlætismál að jafna tekjur. Þar segir hv. þingmaður að það sé einkaskoðun hans þar sem Píratar hafa ekki beina afstöðu til málsins. Hann segir sjálfur að það að jafna tekjur sé ekki réttlætismarkmið í sjálfu sér.
Nú langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort þetta sé eitthvað sem hann hyggist færa inn í stefnu Pírata, t.d. fyrir næstu kosningar, að það sé ekki réttlætismál að jafna tekjur.
Síðan er hér önnur lína sem ég staldraði við. Nú vitna ég beint í þingmanninn, þ.e. ef Viðskiptablaðið hefur rétt eftir honum, með leyfi forseta:
„Mér finnst líka mikilvægt að enginn sé fátækur, það er ekki staðan í dag. Fullt af fólki er fátækt, sérstaklega öryrkjar, ellilífeyrisþegar og svo framvegis. Og auðvitað bara plain aumingjar, ég vil ekkert að þeir séu fátækir heldur.“
Ég geri ráð fyrir að þessi skoðun hans byggist á einhverri ákveðinni greiningu og nú langar mig að spyrja þingmanninn: Hversu stór er þessi síðastnefndi hópur? Fer hann stækkandi? Er hann kynbundinn? Eru fleiri konur en karlar þarna? Er hann svæðabundinn? Eru fleiri í þessum hópi á höfuðborgarsvæðinu eða úti á landsbyggðinni?
Þá hlýt ég líka að spyrja hvort hv. þingmaður hyggist beita sér fyrir því innan píratahópsins að eitthvað verði sérstaklega gert fyrir þennan hóp og þá hvað ef Píratar hafa ekki stefnu í þessu máli heldur.
Mig langar því til að hv. þingmaður svari fyrir mig og þjóðina þeim tveim spurningum sem ég lagði hérna fyrir hann.“
Þorsteinn Sæmundsson — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Jafnrétti til búsetu um land allt!

Deila grein

21/01/2016

Jafnrétti til búsetu um land allt!

Þórunn„Hæstv. forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að óska okkur öllum gleðilegs árs og fagna því að þing skuli vera komið saman á ný. Þá vil ég nota tíma minn í dag til að vekja athygli á fundi sem atvinnu- og byggðamálaráðherra og Byggðastofnun buðu þingmönnum til í gær. Tilefni fundarins var að nú er að hefjast vinna við gerð nýrrar byggðaáætlunar. Sú vinna byggir á lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir frá 30. júní 2015. Með tilkomu þeirra laga verður sú breyting helst að gildistími byggðaáætlunar er nú sjö ár í stað fjögurra og einnig að hún nær líka til höfuðborgarsvæðisins. Með setningu þessara laga var verið að lögfesta vinnulag sem menn hafa verið að þróa og vinna áfram um nokkurt skeið. Í raun má rekja forsögu þessa allt til þjóðfundarins sem haldinn var í Laugardalshöll 2009 og sambærilegra funda í öllum landshlutum árið 2010. Með tilkomu sóknaráætlana hafa aukin völd og ábyrgð á útdeilingu fjármagns á sviði byggða- og samfélagsþróunar verið flutt til þeirra sem nær standa verkefnum og þekkja best til aðstæðna.
Til að gera langa sögu stutta er staðan sú að nú hafa þrír farvegir verið sameinaðir í einn, þ.e. framlög til sóknaráætlana, vaxtarsamninga og menningarsamninga, og við erum með heildarlög um byggðaáætlun og sóknaráætlanir. Þessu formi sem nú er búið að lögfesta er ætlað að bæta verklag við gerð stefnumótunar og áætlanagerðar á sviði byggðamála.
Ólíkt því sem tíðkast í nágrannalöndum okkar voru byggðamál áður eingöngu á hendi ríkisins og höfuðborgin stóð utan byggðamála. Það að líta á landið sem eina heild og öll byggðarlög sem mikilvægan hlekk í öflugu samfélagi okkar tel ég grunn að farsæld. Byggðaáætlun er á ábyrgð okkar allra og mikilvægt að sem flestir komi að gerð hennar. Ég fagna því að nú skuli áætlanir ná til lengri tíma. Það veitir meiri kjölfestu og er ekki háð dægursveiflu stjórnmálanna, heldur gefur okkur tækifæri til að móta stefnu til framtíðar svo hér megi áfram dafna byggð um allt land sem byggir á jafnrétti til búsetu. Munum að setja upp gleraugu byggðasjónarmiða í allri okkar vinnu og höldum áfram að ræða byggðamál því að þessi málaflokkur snertir okkur öll.“
Þórunn Egilsdóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Málþóf skapar erfiðan vinnuanda

Deila grein

21/01/2016

Málþóf skapar erfiðan vinnuanda

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Hér í upphafi þingsins kem ég upp til að ræða störf þingsins. Mig langar að segja að ég tel að í upphafi þings sé okkur hv. þingmönnum öllum hollt að líta í eigin barm og skoða hvað við getum gert betur í störfum okkar.
Þetta segi ég af því að á síðustu vikum og dögum haustþings var erfiður vinnuandi og hlutirnir gengu verulega hægt vegna þess að hægt er að nota málþóf sem tæki til að reyna að koma málum sínum á framfæri og til að reyna að mótmæla öðrum þáttum.
Ég vil segja að ég tel mjög mikilvægt að sú nefnd sem nú er að störfum í þinginu, þingskapanefnd, fundi og reyni að finna lausn á þessum málum og komi fram með ramma sem væri til þess að auka virðingu þingsins og okkar sem hér störfum með betra vinnulagi. Það er afar brýnt að sú nefnd skili af sér störfum sem allra fyrst.
Í ræðu minni langar mig jafnframt til að hrósa hv. velferðarnefnd þingsins en þar er mikið álag þessa dagana þar sem stór og viðamikil velferðarmál eru til vinnslu er varða húsnæðismál. Þar eru fjögur húsnæðismál til umræðu. Nefndin hefur fyrir upphaf þings verið með aukafundi með lengdri fundarveru og mig langaði að nýta þetta tækifæri, því að þetta er mikið álag, til að þakka hv. þingmönnum sem eiga sæti í þeirri nefnd fyrir það verk.
Ég vona að við höldum áfram þeirri góðu samvinnu sem er í nefndinni um málin og reynum eftir fremsta megni að klára þau eins hratt og vel og hægt er.“
Elsa Lára Arnardóttir — Í störfum þingsins miðvikudaginn 20. janúar 2016.

Categories
Fréttir

Forsætisráðherra tók á móti flóttamönnum

Deila grein

20/01/2016

Forsætisráðherra tók á móti flóttamönnum

Sigmundur-davíðFyrsti hópur sýrlenska flóttafólksins, sem boðin hefur verið búseta á Íslandi, kom til landsins í dag. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, og Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, tóku á móti fjölskyldunum á Keflavíkurflugvelli nú síðdegis. Móttaka flóttamanna beint úr flóttamannabúðum í nágrenni stríðshrjáðra svæða er einn hluti framlags Íslands samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðherra ræddi við flóttafólkið við komuna og bauð það innilega velkomið til Íslands.
Forsætisráðherra segir ánægjulegt að hafa getað átt stund með fjölskyldunum svo stuttu eftir komu og að hann voni að þeim eigi eftir að líða vel á Íslandi. Áhersla yfirvalda verði á að hjálpa flóttamönnum að byggja upp líf í nýjum heimkynnum, aðlagast íslenskum aðstæðum og að verða virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Hann óskaði þeim alls hins besta á Íslandi.
Sjá nánar:  Þreyttur en alsæll hópur af flóttafólki kom til landsins síðdegis í dag
Sjá nánar:  Flóttamennirnir voru hissa að fá að hitta Sigmund Davíð
Sjá nánar:  Móttökuathöfn fyrir sýrlensku flóttamennina
moggi-01-20-16

Categories
Fréttir

Áhersla á hlut kvenna í orkugeiranum

Deila grein

20/01/2016

Áhersla á hlut kvenna í orkugeiranum

GBSGunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra ávarpaði í dag jafnréttisráðstefnu WiSER (Women in Sustainability, Environment and Renewable Energy) sem er liður í dagskrá sjálfbæru orkuvikunnar sem nú stendur yfir í Abu Dhabí. Í máli sínu fór ráðherra yfir hlut kvenna í orkugeiranum og mikilvægi þess að berjast gegn staðalímyndum.
Gunnar Bragi greindi frá Rakarastofunni sem haldin var í New York á síðasta ári þar sem karlmenn eru hvattir til að láta sig jafnréttismálin varða og vinna gegn hvers konar mismunum kynja. Sagði ráðherra mikil ónýtt tækifæri felast í aukinni þátttöku kvenna í orkuöflun og aðgengi, sem væri fullur réttur þeirra og, þess utan, efnahagslega skynsamlegt.
Að endingu vakti Gunnar Bragi athygli á HeForShe átaki UN Women sem Ísland hefur dyggilega stutt og hvatti alla karlmenn til að styðja átakið. Þá boðaði Gunnar Bragi fyrr í vikunni til morgunverðarfundar um jafnréttismál og kynnti þar hugtakið að baki Rakarastofunni og erindi þess í orkumálum.
Fyrr í vikunni tók utanríkisráðherra einnig þátt í opnunarathöfn sjálfbæru orkuvikunnar þar sem, meðal annars, veitt voru nýsköpunarverðlaun í sjálfbærri orkunýtingu, en forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, var meðal heiðursgesta og fulltrúa í dómnefnd. Meðal ræðumanna voru forseti Mexíkó og aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna.
Ávarp Gunnars Braga á jafnréttisráðstefnunni.

Categories
Fréttir

Vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu

Deila grein

14/01/2016

Vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu

GBSOpinberri tveggja daga heimsókn Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra til Noregs, í boði Børge Brende utanríkisráðherra Noregs, lauk í dag. Á fundum sínum ræddu ráðherrarnir sameiginleg hagsmunamál Íslands og Noregs, þ.m.t. stöðu mála í Úkraínu og fjölþjóðlegar þvingunaraðgerðir gagnvart Rússlandi. Einnig voru til umræðu málefni norðurslóða og önnur svæðisbundin málefni, og greindi Gunnar Bragi meðal annars frá fyrirhugaðri formennsku Íslands í Eystrasaltsráðinu síðar á þessu ári. Málefni flóttafólks og hælisleitenda voru sömuleiðis á dagskrá, en fyrsti hópur flóttafólks frá Sýrlandi er væntanlegur til Íslands í næstu viku.
Staða mála við botn Miðjarðarhafs var einnig til umfjöllunar, sem og loftslagsmál. Gunnar Bragi greindi norska starfsbróður sínum einnig frá breytingum á skipulagi þróunarsamvinnu á Íslandi en Norðmenn réðust í viðlíka breytingar á sínum tíma. Þá ræddu ráðherrarnir fiskveiðimál og voru sammála um að stuðla að bættu samstarfi á norðanverðu Atlantshafi.
Á meðan á heimsókninni stóð átti utanríkisráðherra ennfremur fundi með varnarmálaráðherra, iðnaðarráðherra og Evrópumálaráðherra Noregs. Á fundi sínum með varnarmálaráðherranum, Ine Eriksen Søreide, voru málefni Atlantshafsbandalagsins til umræðu og tvíhliða samstarf ríkjanna á sviði öryggis- og varnarmála, sem er víðfeðmt. Þannig munu Norðmenn til að mynda sinna loftrýmisgæslu hér á landi með vorinu. Samskiptin við Rússland og öryggismál á Norður Atlantshafsi voru einnig til umræðu á fundinum.
Á fundi utanríkisráðherra með Evrópumálaráðherra Noregs, Elisabeth Aspaker, voru málefni EES til umfjöllunar. Gunnar Bragi greindi meðal annars frá nýútkominni skýrslu stýrihóps stjórnvalda um framkvæmd EES samningsins. Einnig ræddu ráðherrarnir framlög í uppbyggingarsjóð EES, sem nýlega hefur náðst samkomulag um. Aspaker er einnig samstarfsráðherra Norðurlandanna og ræddu ráðherrarnir þá stöðu sem uppi er á Norðurlöndunum í málefnum flóttafólks og hælisleitenda.
Að endingu fundaði utanríkisráðherra með iðnaðarráðherra Noregs, Monicu Mæland. Á fundinum voru málefni EFTA fyrirferðamikil, auk þess sem fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna og nýtilkominn fríverslunarsamningur tólf Kyrrahafsríkja bar á góma.
Utanríkisráðherra fundaði einnig með utanríkis- og varnarmálanefnd norska þingsins og hitti fyrir sendiherra gagnvart Íslandi sem aðsetur hafa í Noregi. Ennfremur fundaði ráðherra með fulltrúum úr norsk-íslenska viðskiptaráðinu og heimsótti Nýsköpunarstofnun Noregs.
„Ég átti mjög ánægjulega og gagnlega fundi hér í Noregi enda liggur fyrir að þessar tvær nánu vinaþjóðir deila gildum og hagsmunum í flestu. Samskiptin við Rússland og þvingunaraðgerðir voru ofarlega á baugi í samtölum mínum við norska kollega, enda Rússland næsti nágranni Noregs og þar, líkt og á Íslandi, miklir hagsmunir í húfi. Það var einnig fróðlegt að heyra sjónarmið Norðmanna um áskoranir við komu flóttafólks. Þótt aðstæður séu um margt ólíkar er mikilvægt fyrir okkur að heyra sjónarmið og læra af reynslu,” sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Categories
Fréttir

Áramótaávarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra

Deila grein

05/01/2016

Áramótaávarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra

Sigmundur-davíðÁramótaávarp Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra, 31. desember 2015.
Góðir landsmenn – Gleðilega hátíð.
Ávarp forsætisráðherra á ruv.is.
Á Íslandi setur veðurfar oft mark sitt á hátíðarhöld um jól og áramót. Veður hafa verið válynd nú við árslok og á undanförnum dögum hafa íbúar Austurlands tekist á við óvenju mikinn skaðræðisstorm. Veðrið olli umtalsverðu tjóni, meðal annars á heimilum, fyrirtækjum og menningarminjum í hinum gömlu bæjum Austfjarða. Ég sendi ykkur sem hafið mátt þola þessar hamfarir góðar kveðjur og fyrirheit um að stjórnvöld muni vinna með ykkur að þeirri uppbyggingu sem í hönd fer við upphaf nýs árs.
Enn á ný hefur það sýnt sig hversu mikilvægt það er fyrir okkur Íslendinga að hafa á að skipa einstaklega hugrökku, fórnfúsu og færu björgunarsveitafólki. Íslendingar eru stoltir af björgunarsveitunum og öllu því dugmikla og úrræðagóða fólki sem vinnur að því að verja samfélag okkar á ýmsan hátt. Þegar við fögnum áramótum með því að skjóta upp flugeldum í kvöld erum við um leið að færa þakkir fyrir þetta ómetanlega starf.
Við áramót verður okkur hugsað til þeirra sem hafa átt við erfiðleika að stríða á liðnu ári og við vonum að þau tækifæri sem nýtt ár skapar muni reynast þeim vel. En þá er líka mikilvægt að minnast þess góða og láta það verða hvatningu til áframhaldandi framfara.
Árið 2015 reyndist farsælt fyrir íslensku þjóðinna. Flest hefur gengið okkur í hag undanfarin misseri og betur en víðast hvar annars staðar. Á mörgum sviðum, frá íþróttum að vísindum, stóðu fulltrúar okkar Íslendinga sig framúrskarandi vel á liðnu ári.
Hagsæld jókst til mikilla muna á árinu. Kaupmáttur -það sem landsmenn fá fyrir launin sín- hefur nú aukist um 13 prósent á 30 mánuðum. Fáheyrt, nánast óþekkt, er að hagur fólks vænkist það hratt.
Enn merkilegra er að á tímum mikils hagvaxtar hefur jöfnuður áfram aukist. Þannig hafa laun verkafólks hækkað hlutfallslega meira en laun stjórnenda, laun kvenna hækkað hlutfallslega meira en laun karla og kaupmáttur lífeyrisgreiðslna og bóta aukist meira en kaupmáttur launa á tímabilinu.
Vel hefur tekist til með stór mál. Stutt er síðan skuldavandi stóð efnahagslegri framtíð landsins fyrir þrifum en nú hefur skuldahlutfall heimilanna lækkað það mikið og hratt að skuldir íslenskra heimila eru orðnar hlutfallslega lægri en í mörgum nágrannalöndum okkar.
Uppgjör slitabúa bankanna og losun fjármagnshafta gerbreyta efnahagslegri stöðu okkar og möguleikum til framtíðar. Vegna stöðugleikaframlaga og þess trúverðugleika sem áætlun um losun hafta hefur skapað má gera ráð fyrir að hrein skuldastaða Íslands gagnvart útlöndum fari úr því að vera hættulega neikvæð í að vera jákvæð á fáeinum árum. Þessi staða þjóðarbúsins verður þá orðin sú besta í hálfa öld. Það er ótrúlegur viðsnúningur á skömmum tíma og að mati erlendra fjölmiðla sem skrifað hafa um haftalosunina, algjörlega einstakt.
Þetta þýðir að við verðum í aðstöðu til að gera betur á komandi árum á öllum þeim sviðum sem skipta okkur mestu máli. Ef við höldum okkar striki og sameinumst um að verja efnahagslegan stöðugleika og skynsamlega uppbyggingu munum við geta haldið áfram að bæta heilbrigðiskerfið, styrkja innviðina um allt land og bæta kjör allra hópa samfélagsins.
Á nýju ári ræðst hvort okkur auðnast að byggja áfram upp á grunni þess árangurs sem þegar hefur náðst. Til þess að svo megi verða munum við þurfa samstöðu um að halda áfram á þeirri braut sem hefur reynst okkur svo vel. Hluti af því er að við viðurkennum árangurinn og látum hann þannig verða okkur að hvatningu.
Okkur gengur vel í samanburði við aðrar þjóðir og í samanburði við aðra tíma í sögu okkar. En um leið fylgjumst við með erfileikum annarra og viljum láta gott af okkur leiða sem víðast. Því meiri árangri sem við náum heimafyrir þeim mun betur getum við hjálpað öðrum.
En erum við að nýta þá hvatningu sem felst í árangrinum, og kunnum við að meta lífsgæði okkar hér á Íslandi og það hvað við erum lánsöm í samanburði við aðrar þjóðir?
Okkur Íslendingum hefur í gegnum tíðina líkað ágætlega við þá ímynd sem þjóðin hefur áunnið sér. Við höfum verið þekkt fyrir dugnað, þrautseigju og þolgæði. Íslendingar hafa verið taldir úrræðagóðir á raunastund, yfirvegaðir og færir um að bera harm sinn í hljóði og gefast aldrei upp.
Þessi ímynd varð áreiðanlega ekki til af ástæðulausu enda er ótrúlegt hvaða árangri Íslendingar hafa náð í þessu landi við erfiðar aðstæður um aldir. En eigum við skilið að halda þessari ímynd ef við ekki aðeins börmum okkur meira yfir áskorunum en áður heldur börmum okkur líka þegar vel gengur?
Hvað sem ímynd líður er hollt að minnast þess hugarfars sem gerði þjóðinni okkar kleift að þrauka við kröpp kjör um aldir og að nýta tækifærin þegar þau gáfust. Vinnusemi, áræðni, samkennd og trúin á framtíðina hafa sannarlega fleytt okkur langt.
Að undanförnu hefur það tekist, sem fátítt er, að bæta kjör allra hópa og auka jöfnuð samhliða miklum hagvexti. Okkur gengur vel á alla efnahagslega mælikvarða. Við stöndumst ekki bara samanburð við önnur Evrópulönd, við höfum tekist á við vandamálin og nýtt tækifærin að því marki að við höfum náð efstu sætum meðal vestrænna þjóða í aukningu verðmætasköpunar, atvinnuþátttöku, kjarabótum og öðrum lífsgæðum. Þegar samfélagi hefur tekist að ná slíkum árangri, árangri sem er um margt einstakur, þá er mikilvægt að sýna þolgæði og festu.
Þegar fólk upplifir velgengni og framfarir -og árangur næst á mörgum sviðum- dregur það athyglina að undantekningunum. Þegar nást óvenju miklar kjarabætur beinist athyglin að stöðu þeirra sem búa við lök kjör miklu frekar en á þeim tímum þegar margir búa við kröpp kjör og atvinnuleysi eykst.
Þegar hlutfall fólks sem býr við fátækt lækkar, verður jafnvel lægra en nokkru sinni fyrr, dregur það athyglina enn frekar að þeim sem ekki hafa komist úr fátækt.
En þegar það er árangurinn sem beinir athyglinni að undantekningunum væri synd að líta á undantekningarnar sem réttlætingu fyrir því að umbylta öllu, telja allt vonlaust og ætla að byrja frá grunni, gera eitthvað allt annað.
Þegar gengur vel, mjög vel, gefast menn ekki upp og segja að fyrst ekki sé búið að ná fullkomnun sé betra að gera enn eina tilraun með einhverja hugmyndafræði sem lofar fullkomnu samfélagi. Slíkt hefur alltaf endað illa.
Þvert á móti, við eigum að láta árangurinn verða okkur hvatningu til að gera enn betur. Hvatningu til að leysa enn fleiri mál farsællega. Annars vegar vegna þess að árangurinn sýnir okkur að það er hægt að gera betur og hins vegar vegna þess að sá árangur sem við höfum þegar náð gerir áframhaldandi árangur auðveldari.
Staða okkar nú er nefnilega ekki sjálfgefin, því fer fjarri eins og að minnsta kosti sex milljarðar jarðarbúa gætu sagt okkur. Erfiðleikar sem virðast nú fjarri okkur eru ekki svo fjarlægir í raun og gæði sem okkur hættir til að líta á sem sjálfgefin eru aðeins til komin vegna hugarfars, atorkusemi og skynsamlegra ákvarðana fyrr og nú.
Þegar samfélagið er á leið sem kemur því hraðar í rétta átt en nokkur önnur, leið sem virkar að því marki að það er um margt einstakt, þá höldum við áfram á þeirri leið en beygjum ekki inn í óvissuna.
Írski heimspekingurinn, Edmund Burke, einn mesti stjórnspekingur í sögu Evrópu benti á, þegar á 18. öld, að almennt væri það á tímum góðæris sem í ljós kæmi hið raunverulega geð, prinsipp og eðli mannanna.
Ég nefni þetta vegna þess að á nýju ári þurfum við að sanna að við getum þolað góða tíma og unnið vel úr þeim. Við þurfum að vinna saman að áframhaldandi kjarabótum, ekki hvað síst fyrir þá tekjulægri, eldriborgara og þá sem þurfa að reiða sig á almannatryggingar. Við þurfum líka að sammælast um að halda áfram að innleiða hvata til vinnu og verðmætasköpunar.
Fjárfesting og uppbygging sem ráðist verður í þarf að vera til þess fallin að skapa verðmæti til framtíðar. Í ferðaþjónustu, þar sem mikið er um að vera þessa dagana og mörg verkefni í bígerð, þarf uppbyggingin að vera til þess fallin að styrkja Ísland sem áfangastað til langs tíma fremur en að miða að sem mestum skammtímahagnaði.
Þar skiptir máli að við gerum hið manngerða umhverfi, bæina og sveitirnar, sífellt meira aðlaðandi og að við byggjum í auknum mæli á þeirri auðlind sem liggur í menningu okkar og sögu. Það á ekki hvað síst við um arfleifð víkingatímans sem að miklu leyti var mótuð á Íslandi og gæti ein og sér nægt til að gera landið að áfangastað ferðamanna til framtíðar.
Það helst svo í hendur að á sama tíma og við gerum sögu okkar og menningu hátt undir höfði blómstra nýsköpun, vísindi og rannsóknarstarf á Íslandi sem aldrei fyrr og við upplifum framfarir og nýjungar á ótal sviðum.
Samfélag okkar virkar vel og í krafti þess getum við haldið áfram að bæta það. Mestu hætturnar sem við stöndum frammi fyrir eru kæruleysi, það að við lítum á árangurinn sem sjálfgefinn, og neikvæðni.
Látum engan telja okkur trú um að ísland sé vonlaust og hér þurfi að snúa öllu á hvolf. Edmund Burke, sem ég vísaði til áðan, benti á að það væri algeng villa að ímynda sér að þeir sem kvarta hæst í nafni almennings séu þeir sem láta sig hag almennings mestu varða.
Margt má betur fara og mun færast til betri vegar ef við vinnum að því í sameiningu og af skynsemi. Óvenjuleg vandamál geta kallað á óvenjulegar lausnir. Við höfum séð nokkur dæmi um það á undanförnum misserum. Önnur vandamál eru þekkt og lausnirnar líka. Þá beitum við þeim leiðum sem gefið hafa góða raun og bætum þær jafnvel í leiðinni.
Framfarir byggjast á því að kunna að meta það sem gefst vel og læra af mistökunum og gera svo meira af því sem virkar og minna af hinu.
Ef okkur auðnast að fylgja þeirri leið á nýju ári getur árið 2016 orðið enn betra en árið sem nú er að ljúka. Framfarir munu þá halda þá áfram, og undantekningunum mun áfram fækka og þær sem eftir standa verða viðráðanlegri.
Við erum gæfurík þjóð í góðu landi. Við höfum náð árangri með þrautseigju og skynsemi að leiðarljósi. Þótt veður séu válynd er bjart yfir landinu okkar við þessi áramót.
Ég þakka samfylgdina á árinu sem er að ljúka og óska landsmönnum öllum farsældar á nýju ári. Gleðilegt ár.