Categories
Fréttir

Almannavarnarkerfið okkar og störf björgunarsveitanna

Deila grein

09/12/2015

Almannavarnarkerfið okkar og störf björgunarsveitanna

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða hér um almannavarnakerfið okkar, viðbragðskerfið, og líkt og hv. þm. Óttar Proppé gerði áðan hrósa öllum þeim aðilum sem komu að því að skipuleggja á landsvísu viðbrögðin og viðbúnaðinn fyrir vel unnin störf. Allmargir koma við sögu og því er mikil þörf fyrir mikla samhæfingu, samvinnu og samstöðu. Það má segja að þessir þættir séu með eindæmum í þessu tilviki.
Ríkislögreglustjóri lýsti í samráði við lögreglustjóra landsins í gær yfir óvissustigi í landinu vegna óveðurs. Allir voru vel upplýstar um stöðu mála og meðvitaðar um hvað væri í vændum þar sem öryggi fólks og byggða kynni að vera í hættu. Það sem er kannski mikilvægast í þessu sambandi er viðbragðið og samráðið og það að við upplifum að almannavarnakerfið virkar. Það er ekki sjálfgefið. Ekki er heldur sjálfgefið að upplifa hversu þaulskipulagt og samhæft starfið er og um leið hversu vel upplýsingakerfið virkar. Við upplifum sterkt hversu vel ástandið er vaktað eftir því sem veðurhamurinn gengur yfir og upplýsingar að hafa jafnóðum þar sem staðan er metin í sífellu, hvort sem er hjá Almannavörnum, Veðurstofunni eða Vegagerðinni. Ekki má gleyma þætti fjölmiðla, hvort heldur er hjá fréttastöðvum sjónvarps eða útvarps eða netmiðlum.
Þáttur björgunarsveitanna er auðvitað ómetanlegur og sjálfboðaliðastarfið eins og var á vettvangi í gær, um 700 manns að störfum um allt land, auðvitað ásamt lögreglunni og öðrum viðbragðsaðilum alls staðar með viðbúnað þar sem allir lögðust á eitt um að verja öryggi borgara og eigna. Það var algjörlega til fyrirmyndar, virðulegi forseti, það eru vinnubrögð sem ber að þakka og virða.“
Willum Þór Þórsson — störf þingsins 8. desember 2015.

Categories
Fréttir

Húsfyllir á viðburði Íslands um landgræðslumál í norræna skálanum á Parísarfundinum um loftslagsmál (COP21)

Deila grein

09/12/2015

Húsfyllir á viðburði Íslands um landgræðslumál í norræna skálanum á Parísarfundinum um loftslagsmál (COP21)

cop21-IMG_0192Húsfyllir var á viðburði Íslands um landgræðslumál sem haldinn var í norræna skálanum á Parísarfundinum um loftslagsmál (COP21) í dag. Á fundinum var m.a. rætt um hvernig landeyðing og hlýnun jarðar spila saman og hversu mikilvæg landgræðsla er sem mótvægisaðgerð gegn loftslagsbreytingum.
Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, bauð gesti velkomna og fjallaði m.a í ávarpi sínu um hvernig Íslendingar hafa stundað landgræðslu í gegn um tíðina til að berjast gegn landeyðingu. Þá nefndi hún samstarf landsins við alþjóðastofnanir á sviði landgræðslu og mikilvægi þess að huga að jafnréttissjónarmiðum þegar unnið er að endurheimt lands.

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, bauð gesti velkomna.

20151208_124025Að loknu ávarpi hennar tók til máls Monique Barbut, framkvæmdastýra eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna. Hún ræddi m.a. um mikilvægi þess að ekki tapist meira land en það sem er endurheimt, sem er eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Hún benti jafnframt á þá möguleika sem felast í endurheimt lands til að ná markmiðum um samdrátt í nettólosun gróðurhúsalofttegunda.
cop21-IMG_0225Damdin Davgadorj, sérfræðingur um landeyðingu frá Mongólíu, sagði frá ástandi mála þar í landi og þeim aðgerðum sem ráðist hefur verið í til þess að endurheimta land og stöðva landrofið. Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri fjallað um landgræðslustarf á Íslandi og loks sagði Hafdís Hanna Ægisdóttir, forstöðumaður Landgræðsluskóla Sameinuðu þjóðanna, frá því hvernig skólinn vinnur að þjálfun fólks í þróunarlöndum á sviði landgræðslu.
Fólk frá öllum heimshornum sótti viðburðinn og voru líflegar umræður í kjölfar erinda framsögumanna. Fundarstjóri var Hugi Ólafsson, formaður samninganefndar Íslands í loftslagsmálum.
Desertification and Land Restoration – The Climate Connection – upptaka  frá viðburðinum

Categories
Fréttir

Setja fókusinn á gerandann en ekki þolandann

Deila grein

08/12/2015

Setja fókusinn á gerandann en ekki þolandann

Þorsteinn-sæmundsson„Herra forseti. Mig langar að gera að umtalsefni kynferðisbrot á Íslandi. Nýlegir dómar hafa valdið áhyggjum og furðu og því er rétt að fara aðeins yfir það hvort eitthvað sé hægt að laga í málsmeðferð til að ná betri árangri hvað dóma varðar.
Um það bil 120 aðilar að meðaltali leita til neyðarmóttöku á hverju ári. 40% eru undir 18 ára og eru þess vegna börn í skilningi laganna. Eitt sem vekur athygli og ætti kannski ekki að vera neitt nýtt er að í 95% tilfella neitar gerandi sök.
Ríkissaksóknari í Bretlandi hefur ákveðið að breyta nokkuð áherslum lögreglu í rannsóknum á svona málum. Í Bretlandi er 85 þús. konum nauðgað á hverju einasta ári. Rúmlega 18 þúsund kæra, 2.900 mál koma fyrir rétt og það er sakfelling í rúmlega 1 þús. málum — af öllum þessum fjölda.
Þetta er ekki alveg svona slæmt hjá okkur en engu að síður er full ástæða til að fara að dómi Breta sem nú ætla að fara að setja fókusinn á gerandann en ekki þolandann í rannsókn mála. Bretar ætla að krefjast þess að meintir gerendur upplýsi um það hvort þeir hafi fengið upplýst samþykki fyrir kynlífsathöfnum. Margir hafa orðið til þess að gera grín að þessu og segja að það sé ekki hægt að skrifa undir yfirlýsingu þess efnis, en þetta er alvörumál og það er engin hemja hvað fórnarlömbum gengur illa að koma fram vegna þess hvernig rannsóknum er hagað. Í þessum málum verða hagsmunir fórnarlamba að vera ríkari en hagsmunir meintra gerenda.“
Þorsteinn Sæmundsson – störf þingsins 4. desember 2015.

Categories
Fréttir

Samvinna stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs – ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun

Deila grein

04/12/2015

Samvinna stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs – ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun

líneik„Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er kynnti hv. ríkisstjórn sóknaráætlun í loftslagsmálum til þriggja ára fyrir viku síðan og vil ég nú fagna þeirri áætlun sérstaklega. Áætlunin byggir á 16 verkefnum. Verkefnin og áherslurnar undir hatti sóknaráætlunarinnar eru fjölbreyttar og eiga það sameiginlegt að draga úr loftslagsbreytingum. Bæði er um að ræða verkefni sem auka bindingu kolefnis og draga úr losun kolefnis en líka stuðningur við alþjóðleg loftslagsverkefni. Í mínum huga eru allar þessar leiðir mikilvægar og í því samhengi eru engar aðgerðir of smáar til að skipta máli. Sennilega er viðhorfsbreyting okkar allra þó það sem mestu máli skiptir til lengri tíma litið.
Í öllum verkefnunum er áhersla lögð á samvinnu stjórnvalda, einstaklinga og atvinnulífs. Mjög mikilvægt er að ýtt verði undir frumkvæði og nýsköpun varðandi loftslagsvænar lausnir í samgöngum og atvinnulífi. Til þess að það geti orðið er mikilvægt að við séum meðvituð um að til þess að nýta tækifærin getum við þurft að forgangsraða uppbyggingu innviða í samræmi við það. Varðandi bindingu kolefnis eigum við líka fjölbreytt tækifæri. Stefnt er að því að sett verði aukið fé til landgræðslu og skógræktar og hafist handa við endurheimt votlendis. Þetta eru verkefni sem stjórnvöld og einkaaðilar geta varið fjármunum til en framkvæmdin þarf að fara fram í samvinnu við notendur lands og þarf að byggja á skipulagsáætlunum og heildarsýn á landnýtingu, svo sem í gegnum landsáætlun í skógrækt og landgræðslu. Á þessu sviði er líka mikilvægt að byggja á íslenskum rannsóknum og íslensku mati á árangri.
Einnig er ætlunin að gera átak til að draga úr matarsóun sem oft á tíðum veldur óþarfa kolefnislosun. Í því sambandi er mikilvægt að leita leiða til að auka meðvitund neytenda um þau kolefnisspor sem mismunandi matvæli skilja eftir sig.“
Líneik Anna Sævarsdóttir — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

Neytendur hafa greitt 4-4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014

Deila grein

04/12/2015

Neytendur hafa greitt 4-4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Árnaðaróskir í tilefni dagsins. Fyrst af öllu er rétt að geta þess að stjórnarskrárnefnd er að störfum og hennar störf ganga nokkuð vel og engin ástæða til að halda að þau verði ekki leidd til lykta á farsælan hátt. Ég er aftur á móti staddur á sama stað og hv. þm. Elín Hirst vegna þeirrar skýrslu sem er nýkomin út frá Samkeppniseftirlitinu, Markaðsrannsókn á eldsneytismarkaðnum. Þetta er frummatsskýrsla. Það þýðir það að aðilar hafa rétt til 16. febrúar til að koma að andmælum en það verður samt að segja það að miðað við þær niðurstöður sem Samkeppniseftirlitið dregur hér fram þá er vandséð að ályktunin sé í aðalatriðum röng. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni.
Þessi rannsókn er búin að standa yfir í tvö ár, hún er mjög vönduð. Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að það virðist svo sem olíufélögin á Íslandi hafi ekki lært neitt af þeim atburðum sem hér urðu á árunum 1993–2001 og lauk með ákveðnum hætti sem ekki þarf að fara yfir. Og það er náttúrlega líka með öllu óþolandi sú niðurstaða sem hér kemur fram að neytendur hafi greitt 4–4,5 milljörðum of mikið fyrir eldsneyti á árinu 2014.
Það segir einnig, með leyfi forseta, á bls. 9 í þessari skýrslu: „Álagning á bifreiðaeldsneyti var óeðlilega há sem nemur allt að 18 kr. með virðisaukaskatti á hvern lítra bensíns og 20 kr. með virðisaukaskatti á hvern lítra dísilolíu á árinu 2012.“ Nú um stundir er verið að bjóða okkur 13 kr. afslátt tvisvar í mánuði og menn ganga mjög taktfast í því, öll olíufélögin, allir dreifingaraðilar, og núna síðast er verið að bjóða okkur eina viku með 13 kr. í afslátt. Þetta er náttúrlega algerlega út úr kú vegna þess að auðvitað eiga olíufélögin, ef svigrúm er til svona afsláttar og gylliboða, hreinlega að lækka eldsneytisverð í landinu. Hvert króna eldsneytis kostar heimilin í landinu 360 milljónir á ári hverju.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Deila grein

04/12/2015

48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til velferðarmála – 306,8 milljarðar

Elsa-Lara-mynd01-vefur„Hæstv. forseti. Undanfarna daga hefur mikil umræða átt sér stað um framlög ríkisstjórnar til heilbrigðis- og velferðarmála. Umræðan hefur verið hávær á þann veg að ríkisstjórnin sé ekki að forgangsraða til þessara mála.
Þessi umræða er áhugaverð í ljósi þess að samkvæmt fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2016 fara 48,4% af heildarútgjöldum ríkissjóðs til þessara málaflokka eða sem samsvarar 306,8 milljörðum. Þar fara 25,2% til heilbrigðismála, sem er stærsti útgjaldaliður fjárlaga, og nemur framlagið 159,9 milljörðum. Næst á eftir stærsta útgjaldaliðnum koma almannatryggingar og önnur velferðarmál. Þar eru útgjöld 23,2% af heildarútgjöldum ríkissjóðs og nemur sá málaflokkur 146,9 milljörðum.
Þegar við skoðum hvað ríkisstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks hefur gert í heilbrigðismálum á þessu kjörtímabili er meðal annars hægt að nefna að stórauknu fé hefur verið bætt til Landspítalans, 840 milljónum hefur verið bætt við til að minnka biðlista, tækjakaupaáætlun upp á rúma 5 milljarða er á áætlun, sett hefur verið nýtt fjármagn til að hefja útboð á nýbyggingum á Landspítala, eða um 1,8 milljarðar í byggingar, fjármagn hefur verið stóraukið til S-merktra lyfja og verið er að auka fjármagn til tannlækningasamnings sem gerður var á síðasta kjörtímabili.
Í fjárlögum fyrir árið 2016 er áhersla lögð á uppbyggingu heilsugæslunnar til að létta álaginu á Landspítala. Það tel ég afar skynsamlega ákvörðun til að tryggja betur að heilsugæslan verði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Auðvitað er alltaf hægt að gera betur en þau góðu verk sem ríkisstjórnin hefur sýnt í uppbyggingu heilbrigðiskerfisins er hvatning til að halda áfram á sömu braut til að byggja upp þá auðlind sem heilbrigðiskerfið okkar er og á að vera.
Auk þessa nema útgjöld til almannatrygginga 99 milljörðum í ár sem er aukning um 10,3 milljarða milli ára. Þessar upplýsingar má finna í fjárlögum fyrir árið 2016 og í þeirri kynningu sem hæstv. fjármálaráðherra setti fram.
Uppsöfnuð hækkun til málaflokksins nemur tæpum 17% frá árinu 2014. Þessar tölur eru hvatning til að halda áfram á sömu braut og hækka áfram kjör eldri borgara og öryrkja til framtíðar.“
Elsa Lára Arnardóttir — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

Sóknaráætlun í loftslagsmálum

Deila grein

04/12/2015

Sóknaráætlun í loftslagsmálum

Þórunn„Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið og byrja á því að óska hæstv. forseta til hamingju með daginn og árna honum og hans fólki allra heilla.
Annars vildi ég nota tíma minn í dag til að vekja athygli á sóknaráætlun í loftslagsmálum sem ríkisstjórn Íslands kynnti á dögunum. Áætlunin er til þriggja ára og er ætlað að skerpa á áherslum Íslands í loftslagsmálum og efla starf í málaflokknum til að raunverulegur árangur náist við að minnka losun gróðurhúsalofttegunda. Verkefnin 16 sem kynnt eru undir hatti sóknaráætlunarinnar eru fjölbreytt og mörg hver sjálfstæð en eiga það sameiginlegt að virkja betur einstaklinga og fyrirtæki til að efla baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Öll stefna verkefnin að því að draga úr losun, auka bindingu kolefnis úr andrúmslofti, styðja alþjóðleg loftslagsverkefni og efla getu stjórnvalda til að takast á við strangari skuldbindingar í loftslagsmálum. Áhersla er lögð á samvinnu atvinnulífs og stjórnvalda til að draga úr losun í tilteknum greinum auk þess að styðja við nýsköpun og loftslagsvænar lausnir.
Í grófum dráttum skiptast verkefni 16 þannig að 8 þeirra stefna að því að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og 4 verkefni miða að því að efla samstarf Íslands við erlend ríki og aðstoða önnur ríki við að draga úr losun og takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Sérstaklega finnst mér gleðilegt að benda á að Ísland verður í forustu í samstöðuhópi um nýtingu á jarðhita á heimsvísu.
Þá snúa 4 verkefni að því að styrkja innviði því að sóknaráætlun og auknar kröfur í lofstslagsmálum kalla eðlilega á gott utanumhald og öfluga greiningu, vegna þess að miklir efnahagslegir pólitískir hagsmunir eru undir fyrir Ísland. Auðvitað eru umhverfishagsmunirnir mikilvægastir og framlag okkar og hegðun sem einstaklingur telur svo sannarlega. Leggjumst öll á eitt og munum að gjörðir okkar í dag hafa áhrif á morgundaginn.“
Þórunn Egilsdóttir — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

Strangar reglur um urðun á dekkjagúmmíi en dreift á íþróttavelli í tonnatali

Deila grein

04/12/2015

Strangar reglur um urðun á dekkjagúmmíi en dreift á íþróttavelli í tonnatali

Villlum„Hæstv. forseti. Ég ætla að ræða dekkjakurl og bæta um betur frá síðustu umræðu um málið. Ég þakka öllum þingflokksformönnum fyrir að bregðast vel við og tryggja að allir þingflokkar styðji aðgerðir í þessu máli þar sem fulltrúar allra þingflokka eru á þingsályktunartillögu um bann við notkun dekkjakurls.
Mér finnst líka alveg við hæfi að koma því að undir þessum lið, störf þingsins, þegar vel er unnið þvert á flokka. Þar sem þingmannamál geta hins vegar tekið tíma að komast sína leið vonast ég til að hæstv. ráðherra hafi færi á að klára málið í samvinnu við Umhverfisstofnun en hlutverk Umhverfisstofnunar er einmitt að beita sér fyrir heilnæmu umhverfi og verndun. Í því sambandi vil ég benda á reglugerð um urðun úrgangs sem á sér stoð í lögum um meðferð úrgangs, nr. 55/2003, en í 8. gr. þeirrar reglugerðar er fjallað um úrgang sem óheimilt er að urða. Í d-lið reglugerðarinnar segir meðal annars að óheimilt sé að urða hjólbarða hvort sem um er að ræða heila eða kurlaða.
Rannsóknir hafa hingað til ekki kveðið óyggjandi á um það hversu skaðlegt þetta efni kann að vera, en í reglugerðinni segir enn fremur:
„Að því er varðar tilteknar tegundir hættulegra efna og spilliefna hefur verið sýnt fram á nauðsyn þess að vernda samfélagið og umhverfið gegn viðvarandi váhrifum til langframa. Til langframa merkir í þessu samhengi nokkur þúsund ár.“
Á sama tíma og jafn strangar reglur gilda um urðun á dekkjagúmmíi þar sem það er beinlínis bannað getur ekki verið eðlilegt að það megi dreifa þessu á leik- og íþróttavelli — og það í tonnum talið.“
Willum Þór Þórsson — störf þingsins 2. desember 2015.

Categories
Fréttir

​Seðlabankinn hendir sprekum á verðbólgubálið með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir

Deila grein

02/12/2015

​Seðlabankinn hendir sprekum á verðbólgubálið með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir

Þorsteinn-sæmundsson„Hæstv. forseti. Nýjasta verðbólgumæling sem var birt í gær bendir til þess að ársverðbólga á Íslandi sé nú 2%. Hún er sem sagt undir verðbólgumarkmiðum Seðlabankans enn einu sinni, sem betur fer, og hefur verið það lengur en áður hefur þekkst. Það er ekkert sem bendir til þess og ekkert sem beinlínis hvetur til þess að verðbólga fari hér á skrið næstu vikur og mánuði vegna þess að enn á eftir að skila inn í vöruverð töluverðu af þeirri gengisstyrkingu sem orðin er. Íslenska krónan hefur styrkst gagnvart helstu viðskiptamyntum um 9% síðustu 12 mánuði og enn vantar þó nokkuð upp á að því hafi verið skilað inn í vöruverð þrátt fyrir að nokkur fyrirtæki hafi gengið á undan með góðu fordæmi og lækkað verð sitt, eins og til dæmis IKEA og Bónus. Fleiri þarf til.
Það er í sjálfu sér merkilegt að þetta gerist þrátt fyrir að Seðlabanki Íslands hendi sprekum á verðbólgubál með því að halda hér uppi stýrivöxtum sem eru óþekktir. Eins og ég segi bendir þó ýmislegt til þess að hægt verði að halda hér verðlagi lágu um nokkurra mánaða skeið.
Ég vil líka benda á að nú er orðinn fastur liður að olíufélögin í landinu séu með afslátt tvisvar í mánuði sem bendir til þess að þar sé svigrúm fyrir stöðuga verðlækkun í staðinn fyrir þessi tilboð tvisvar í mánuði hverjum. Þess vegna hvet ég þá kaupmenn sem ekki hafa skilað gengisstyrkingu krónunnar inn í vöruverð að gera það og ég vil einnig beina því til neytenda í landinu að þeir fylgist með því hvaða verslanir hafa þegar gert það, hvaða verslanir hafa beinlínis lækkað vöruverð vegna þess að íslenska krónan hefur styrkst, beini viðskiptum til þeirra verslana í jólakauptíðinni og verðlauni þar með kaupmenn sem vel gera en refsi hinum.“
Þorsteinn Sæmundsson — störf þingsins, 30. nóvember 2015.

Categories
Fréttir

Sigmundur Davíð sækir leiðtogafund um loftslagsmál í París

Deila grein

30/11/2015

Sigmundur Davíð sækir leiðtogafund um loftslagsmál í París

Sigmundur-davíðSigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, tekur þátt í leiðtogafundi 21. aðildarríkjaþings loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna (COP21, Conference of Parties) sem haldinn er í París í dag.
Bein útsending frá fundinum í París á BBC.
Sóknaráætlun Íslands í loftslagsmálum.
Spurt og svarað um loftslagsmál.
COP21 hefst með fundi þjóðarleiðtoga en ráðstefnan stendur frá 30. nóvember til 11. desember. Gert er ráð fyrir að á fundinum verði gengið frá framtíðarsamkomulagi með þátttöku allra aðildarríkja Loftslagssamningsins sem tæki gildi árið 2020 þegar öðru tímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur. Samkomulaginu er m.a. ætlað að ramma inn markmið ríkjanna, tryggja gegnsæi og samanburð og skapa ferli sem þrýstir á ríki að setja strangari markmið með tímanum.
cop21-paris2015Aðildarríkjunum er ætlað að senda inn landsmarkmið (INDC) fyrir fundinn þar sem þau tilgreina hvað þau hyggjast gera til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir árið 2020. Yfir 150 ríki, sem ná til yfir 90% heimslosunar gróðurhúsalofttegunda, hafa sent inn sín landsmarkmið fyrir Parísarfundinn, þ.á m. öll þróuð ríki og öll stærstu ríkin. Parísarfundurinn verður án efa stærsta aðildarríkjaþing Loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna fram til þessa en búist er við að um 45 þúsund manns sæki fundinn og tengda viðburði.
Yfir 140 þjóðarleiðtogar hafa boðað komu sína á leiðtogafundinn.
Sjá einnig upplýsingar um Parísarfundinn um loftslagsmál á vef umhverfsráðuneytisins.