Sigrún Magnúsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarmanna, hélt merka ræðu, og kom víða við, á Alþingi í störfum þingsins á miðvikudaginn. Skuldaleiðréttingin; sóun á orku; mikilvægi orku; Sundabraut; Flugvöllurinn og „fjarvera“ Samfylkingarinnar í sex ár voru umfjöllunarefni ræðunnar.
Hér að neðan er ræðan í heild sinni og eins má horfa á upptöku af henni. Ræðan er 2 mínútur í heild sinni, geri aðrir betur.
„Virðulegi forseti. Þetta er stór dagur þegar ríkisstjórnin kemur fram með loforðin sem við lofuðum fyrir ári og sönnun á þeim.
Mig langar að ræða hér um þá sóun á orku sem fram fer í þessum þingsal og hefur verið hér að undanförnu. Við erum að sóa orku sem miklu betra væri að beisla til framdráttar þjóðinni í heild. Það var blaðagrein í Morgunblaðinu í gær og þar kom líka fram að það er sóun á orku til dæmis að keyra ekki Blönduvirkjun á fullu vegna þess að orka hennar er ekki nýtt heimahögunum til framdráttar. Það þarf ekki nýjar línur þar til að flytja orkuna burt. Héraðið þarf að fá atvinnutækifæri og nýta orkuna á staðnum.
Við hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir höfum aðeins verið að karpa um Sundabraut. Hún hefur spurt og ég hef svarað en aftur í gær var endurtekið sama stefið.
Ég vil segja hér: Loforð eiga að standa. Erum við ekki öll sammála um það? (Gripið fram í: Jú.) (Gripið fram í: Jú, jú.) Reykjavíkurlistinn lofaði á sínum tíma Sundabraut þegar við sameinuðumst við Kjalarnes og ég vil berjast fyrir því að það loforð verði efnt. Samgöngur eru mikilvægar og góðar samgöngur geta skipt sköpum. Ég vil halda flugvellinum þar sem hann er og ekki eyða fé í að færa hann. Ég vil frekar leggja Sundabraut.
Það er með eindæmum hversu margir hv. þingmenn Samfylkingarinnar reyna að fela að þeir voru við völd í sex ár, sama tíma og frá fæðingu barns og fram að skólagöngu. Þingmenn Samfylkingarinnar vísa alltaf öllum vandamálum til einhvers sem gerðist áður en barnið fæddist, áður en þau fengu völdin. Samfylkingin hafði völd í sex ár og bjó til sína fyrstu fjárhagsáætlun haustið 2007, ef ég kann að reikna. (Forseti hringir.) Mér telst til að þá hafi líka verið góðæri. Hvers vegna þrifu þau þá ekki upp slímuga slikju af ríkisstofnunum á þessum sex árum?“
PS: Ertu á Facebook? Því ekki að verða aðdáandi Framsóknar.
Stjórnmálaviðhorfið á tveimur mínútum
28/03/2014
Stjórnmálaviðhorfið á tveimur mínútum