Categories
Fréttir

Hringferð formanns Framsóknar

Deila grein

20/03/2024

Hringferð formanns Framsóknar

Fyrstu fundirnir á hringferð formanns Framsóknar, Sigurðar Inga Jóhannssonar, voru haldnir á Akranesi og í Borgarnesi í gær, þriðjudag. Á fundunum voru umræður um samgöngur, þjóðlendur, landbúnað, íslenska tungu, fjarskipti, íslensku krónuna, sjávarútveg, orkumál og langtíma kjarasamningar.

„Átti frábært og gefandi samtal við Skagamenn um Sundabraut, Kjalarnes, íslenska tungu, fjármögnun vegakerfisins, leigubíla, fjarskipti, íslensku krónuna, sjávarútveg, orkumál og þau miklu tíðindi sem langtímakjarasamningar eru,“ sagði Sigurður Ingi að loknum fundinum á Akranesi.

Fyrsta fundi á hringferð minni var að ljúka á Akranesi. Átti frábært og gefandi samtal við Skagamenn um Sundabraut,…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Þriðjudagur, 19. mars 2024

Næstu fundir formanns:

Þriðjudagur 2. apríl:
Hornafirði ‒ kl. 20:00

Miðvikudagur 3. apríl:
Djúpavogi ‒ kl. 12:00
Egilsstöðum ‒ kl. 17:00
Norðfirði ‒ kl. 20:00

Fimmtudagur 4. apríl:
Vopnafirði ‒ kl. 12:00
Húsavík ‒ kl. 17:00
Akureyri ‒ kl. 20:00

Mánudagur 8. apríl:
Ísafirði ‒ kl. 20:00

Þriðjudagur 9. apríl:
Blönduósi ‒ kl. 12:00
Sauðárkróki ‒ kl. 20:00

Fimmtudagur 11. apríl:
Vík ‒ kl. 12.00
Hella ‒ kl. 17.00
Hvolsvelli ‒ kl. 20.00

„Öðrum fundi á hringferð minni var að ljúka í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þangað voru mættir Borgfirðingar og nærsveitamenn og áttu góð og oft hressileg samtöl um til dæmis samgöngur, þjóðlendur, fiskeldi, kjarasamninga, landbúnað, tengingu Vestur- og Suðurlands, Sundabraut, kolefnisspor á villigötum, framboðshvetjandi aðgerðir á húsnæðismarkaði og reiðvegi,“ sagði Sigurður Ingi að loknum fundinum í Borgarnesi.

Öðrum fundi á hringferð minni var að ljúka í Landnámssetrinu í Borgarnesi. Þangað voru mættir Borgfirðingar og…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Þriðjudagur, 19. mars 2024
Categories
Fréttir

Fjölgun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu er stærsta byggðaaðgerðin sem ráðist hefur verið í

Deila grein

19/03/2024

Fjölgun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu er stærsta byggðaaðgerðin sem ráðist hefur verið í

Kristinn Rúnar Tryggvason, varaþingmaður, flutti jómfrúarræðu sína á Alþingi í dag, undir liðnum störf þingsins. Ræddi hann byggðamál og byggðaðgerðir og nátengt atriði, landbúnaðarmál, í ræðu sinni. Rakti hann að aukinn fólksfjöldi kalli á stærri íbúasvæði, en benti réttilega á að þróunin á Íslandi sé ýktari en gerist og gengur í nágrannarlöndum.

„Hér eru nærri 80% landsmanna á stórhöfuðborgarsvæðinu á meðan sambærilegar tölur fyrir nágrannalöndin eru 25–40%. Það er margt sem skýrir þessa þróun. Í áratugi hefur nánast öll stjórnsýsla verið byggð upp hér á þessu svæði með öllum þeim margfeldisáhrifum sem því fylgir. Atvinnutækifæri og þjónusta eru því fjölbreyttari og laða að. Þá eru opinber störf langflest á þessu svæði. Þetta eru stærstu byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í,“ sagði Kristinn Rúnar.

Sagðist hann ekki þurfa að tíunda hér á Alþingi hversu mikilvægt það væri að halda landinu sem mest í byggð. Það væri til lítils að fara um landið ef innviðirnir væru engir, en þeir væru þó víða í algeru lágmarki.

Landbúnaður og byggðamál eru nátengd

„Nýleg skýrsla sýnir að streita, þunglyndi og depurð er meiri en gengur og gerist hjá samanburðarhópum meðal íslenskra bænda. Fyrir utan vinnuálag og fjárhagsáhyggjur upplifa bændur sig í sífelldri vörn, ekki bara hvað varðar innflutning og tollamál, heldur er einnig neikvæð umræða og árásir af hálfu hins opinbera þar sem land er tekið af bændum á mjög hæpnum forsendum, ýmist í nafni þjóðlendumála eða landgræðslunnar,“ sagði Kristinn Rúnar og hélt svo áfram, „[s]íðan er ráðist á heilu búgreinarnar, m.a. héðan úr þessum sal, með ótrúlegum stóryrðum og af vanþekkingu.“

„Ég skora á alla sem hér vinna að snúa nú bökum saman og styðja við byggð og landbúnað í landinu. Þar sem ég sé fram á talsvert frí frá þingstörfum treysti ég á að þið berjist fyrir þessum málum, landi og þjóð til heilla“ sagði Kristinn Rúnar að lokum.


Ræða Kristins Rúnars í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er eðlilegt að byggð þróist og borgarsvæðið stækki með auknum fólksfjölda. En þróunin á Íslandi er ýktari en gerist og gengur í kringum okkur. Hér eru nærri 80% landsmanna á stórhöfuðborgarsvæðinu á meðan sambærilegar tölur fyrir nágrannalöndin eru 25–40%. Það er margt sem skýrir þessa þróun. Í áratugi hefur nánast öll stjórnsýsla verið byggð upp hér á þessu svæði með öllum þeim margfeldisáhrifum sem því fylgir. Atvinnutækifæri og þjónusta eru því fjölbreyttari og laða að. Þá eru opinber störf langflest á þessu svæði. Þetta eru stærstu byggðaaðgerðir sem ráðist hefur verið í.

Það er hins vegar mikið í húfi að halda landinu sem mest í byggð. Ég þarf ekki að tíunda það hér hvers vegna. Ég nefni þó ferðaþjónustuna. Það væri ekki vænlegt að fara um landið ef engir innviðir væru þar fyrir hendi og eru þeir nú víða í algeru lágmarki. Landbúnaður og byggðamál eru nátengd. Nýleg skýrsla sýnir að streita, þunglyndi og depurð er meiri en gengur og gerist hjá samanburðarhópum meðal íslenskra bænda. Fyrir utan vinnuálag og fjárhagsáhyggjur upplifa bændur sig í sífelldri vörn, ekki bara hvað varðar innflutning og tollamál, heldur er einnig neikvæð umræða og árásir af hálfu hins opinbera þar sem land er tekið af bændum á mjög hæpnum forsendum, ýmist í nafni þjóðlendumála eða landgræðslunnar. Síðan er ráðist á heilu búgreinarnar, m.a. héðan úr þessum sal, með ótrúlegum stóryrðum og af vanþekkingu.

Ég skora á alla sem hér vinna að snúa nú bökum saman og styðja við byggð og landbúnað í landinu. Þar sem ég sé fram á talsvert frí frá þingstörfum treysti ég á að þið berjist fyrir þessum málum, landi og þjóð til heilla.“

Categories
Fréttir Greinar

Tónlistarauðlegð Íslands

Deila grein

14/03/2024

Tónlistarauðlegð Íslands

Ísland stát­ar af öfl­ugu tón­list­ar­lífi sem eft­ir er tekið á er­lendri grundu. Slík þróun ger­ist ekki á einni nóttu held­ur ligg­ur þar að baki afrakst­ur mik­ill­ar vinnu í gegn­um ára­tug­ina. Það er til að mynda áhuga­vert að kynna sér sögu Tón­list­ar­fé­lags Reykja­vík­ur sem stofnað var árið 1932. Fé­lagið ruddi mik­il­væg­ar braut­ir í menn­ing­ar­líf­inu en til­gang­ur þess var að bæta aðstöðu ís­lenskra tón­list­ar­manna bæði til náms og starfs en alls al­menn­ings til tónnautn­ar. Fé­lagið á sér í raun lengri sögu, en und­an­far­ar þess eru Hljóm­sveit Reykja­vík­ur, stofnuð 1925, og Tón­list­ar­skól­inn í Reykja­vík, stofnaður 1930. Saga fé­lags­ins veit­ir inn­sýn í þann mikla metnað sem ríkti í tón­list­ar­líf­inu vel fyr­ir sjálf­stæði þjóðar­inn­ar, en Tón­list­ar­fé­lagið kom til dæm­is að því að fá eina virt­ustu tón­list­ar­menn sam­tím­ans til lands­ins að spila á tón­leik­um. Með tíð og tíma efld­ist tón­list­ar­starf víða um land með stofn­un fleiri tón­list­ar­fé­laga og tón­list­ar­skóla, má þar nefna Tón­list­ar­skóla Ak­ur­eyr­ar sem stofnaður var árið 1946 og Tón­list­ar­skóla Ísa­fjarðar sem var sett­ur á lagg­irn­ar árið 1948. Þannig hef­ur í ára­tugi ríkt metnaður fyr­ir tón­list­ar­námi, með frá­bær­um kenn­ur­um í broddi fylk­ing­ar og góðu aðgengi að slíku námi sem skipt hef­ur sköp­um fyr­ir menn­ing­ar­líf þjóðar­inn­ar.

Á Íslensku tón­list­ar­verðlaun­un­um í vik­unni end­ur­speglaðist meðal ann­ars sá mikli kraft­ur sem býr í tón­list­ar­líf­inu hér á landi. Við höf­um einnig fylgst með glæsi­leg­um ár­angri ís­lenskra tón­list­ar­manna á alþjóðleg­um vett­vangi und­an­farið. Má þar nefna eft­ir­tekt­ar­verðan ár­ang­ur Íslend­inga á Grammy-verðlauna­hátíðinni í fe­brú­ar síðastliðnum, þar sem söng­kon­an Lauf­ey Lín Jóns­dótt­ir hlaut verðlaun­in eft­ir­sóttu fyr­ir plötu sína Bewitched, og til­nefn­ingu tón­list­ar­manns­ins Ólafs Arn­alds til verðlauna í sín­um flokki. Á fjór­um árum hafa Íslend­ing­ar unnið fern Grammy-verðlaun af tíu til­nefn­ing­um. Það verður að telj­ast af­bragðsgott fyr­ir þjóð sem tel­ur tæp­lega 400.000. Í sam­heng­inu við mann­fjöld­ann má ein­mitt geta þess að í vik­unni bár­ust fregn­ir af því lagið Little Talks eft­ir ís­lensku hljóm­sveit­ina Of Mon­sters and Men náði að rjúfa eins millj­arðs múr­inn í hlust­un­um á streym­isveit­unni Spotify.

Á und­an­förn­um árum hafa stjórn­völd stigið stór skref til þess að efla um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu enn frek­ar með nýrri lög­gjöf og stefnu um tónlist, nýrri Tón­list­armiðstöð sem og Tón­list­ar­sjóði. Ég er sann­færð um að breyt­ing­arn­ar muni treysta enn frek­ar þann góða grunn sem er til staðar og verði til þess að okk­ar hæfi­leika­ríku tón­list­ar­menn fái enn meiri byr í segl­in með nýj­um tæki­fær­um til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. mars 2024.

Categories
Fréttir

Höfum alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku

Deila grein

13/03/2024

Höfum alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, var málshefjandi í sérstakri umræðu um rafeldsneytisframleiðslu á Alþingi í vikunni. Sagði hún að spara mætti gjaldeyri og auka orkusjálfstæði Íslendinga enn frekar og skapa ákveðið forskot. Það verði þó ekki gert nema með skýrum „áherslum stjórnvalda varðandi rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi, svo sem varðandi þýðingu eða vægi hennar í orkuskiptum, hver áætluð innanlandsþörf er, stefnu um framleiðslu umfram innanlandsþörf og öflun eða framboð orku til framleiðslunnar og mögulega samstarfsaðila og eignarhald.“ Rafeldsneyti getur t.d. verið vetni, ammoníak, metanól eða metan.

„Við verðum að horfa til framtíðar og til allra þátta orkuskiptanna. Rafmagn notast ekki beint til orkuskipta á stærri farartækjum, stórum flutningabílum, vinnuvélum, stærri skipum eða í millilandaflugi.

Í stað rafmagns á rafgeymum þarf eldsneyti til að knýja þessi farartæki. Þess vegna þarf að tryggja aðgengi að eldsneyti ef full orkuskipti eiga að nást í samgöngumál á Íslandi og til og frá landinu,“ sagði Líneik Anna.

„Íslendingar ættu að hafa alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku, spara þannig gjaldeyri og auka orkusjálfstæði enn frekar. Raunar má segja að Íslendingar gætu haft ákveðið forskot inn á þennan markað, en ekkert gerist af sjálfu sér.“

Fjöldi álitaefna þarf að ræða

„Framleiðsla af þessu tagi yrði stórframleiðsla raforku á alþjóðasamkeppnismarkaði og framleiðslan félli því í flokk stórnotenda eins og stóriðja. Þá er ljóst að viðskipta- og tækniumhverfið er býsna flókið. Framleiðsla er eitt og notkun innan lands annað og það er ekkert sem segir að framleiðsla og innleiðing notkunar innan lands haldist í hendur í upphafi, hvorki hvað varðar magn né tegund eldsneytis,“ sagði Líneik Anna og hélt áfram, „[þ]ví velti ég fyrir mér hvort fram hafi farið greining á ávinningi af því að framleiða rafeldsneyti á Íslandi og hvaða áskoranir og tækifæri kunni að fylgja slíkri framleiðslu í ljósi sjálfbærni og skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum.

  • Hafa stjórnvöld látið greina innanlandsþörfina og hvort innanlandsþörf ein geti staðið undir hagkvæmri framleiðslu?
  • Ef grundvöllur framleiðslunnar kallar á framleiðslu til útflutnings samhliða, hversu mikla endurnýjanlega orku úr íslenskri náttúru erum við sem samfélag tilbúin að nota til framleiðslu eldsneytis til útflutnings?“

Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra fyrir að koma hér til að ræða um rafeldsneytisframleiðslu. Sumum kann að þykja sérstakt að setja þessa umræðu í forgang í ljósi stöðu á raforkumarkaði þessi misserin. En það verður að segjast eins og er að fátt bar hærra í kjördæmaviku okkar þingmanna í Norðausturkjördæmi en raforkuskortur sem sett hefur fyrirtæki í þá stöðu að auka olíunotkun eða draga úr framleiðslu þannig að við verðum af gjaldeyristekjum alla daga. Þrátt fyrir þessa stöðu, sem auðvitað er afleit, vil ég leggja á það áherslu að samhliða því að greiða úr viðfangsefnum dagsins í dag verðum við að horfa til framtíðar og til allra þátta orkuskiptanna. Rafmagn notast ekki beint til orkuskipta á stærri farartækjum, stórum flutningabílum, vinnuvélum, stærri skipum eða í millilandaflugi. Í stað rafmagns á rafgeymum þarf eldsneyti til að knýja þessi farartæki. Þess vegna þarf að tryggja aðgengi að eldsneyti ef full orkuskipti eiga að nást í samgöngumál á Íslandi og til og frá landinu.

Ýmsar áskoranir fylgja því að binda orkuna í rafeldsneyti. Þar er t.d. mikilvægt að sem minnst orka tapist í vinnsluferlinu, eldsneyti taki ekki of mikið pláss, sé auðvelt í flutningi og framleiðslan valdi ekki mengun eða óafturkræfum umhverfisáhrifum. Rafeldsneyti getur t.d. verið vetni, ammoníak, metanól eða metan. Íslendingar ættu að hafa alla burði til að framleiða eigið rafeldsneyti úr innlendri endurnýjanlegri orku, spara þannig gjaldeyri og auka orkusjálfstæði enn frekar. Raunar má segja að Íslendingar gætu haft ákveðið forskot inn á þennan markað, en ekkert gerist af sjálfu sér. Þess vegna er mikilvægt að ræða þennan þátt orkuskiptanna hér í þingsal og í umræðunni kalla ég eftir áherslum stjórnvalda varðandi rafeldsneytisframleiðslu á Íslandi, svo sem varðandi þýðingu eða vægi hennar í orkuskiptum, hver áætluð innanlandsþörf er, stefnu um framleiðslu umfram innanlandsþörf og öflun eða framboð orku til framleiðslunnar og mögulega samstarfsaðila og eignarhald.

Ég geri mér ljóst að fjöldi álitaefna kunni að vera uppi en það eru einmitt þau sem við þurfum að ræða. Framleiðsla af þessu tagi yrði stórframleiðsla raforku á alþjóðasamkeppnismarkaði og framleiðslan félli því í flokk stórnotenda eins og stóriðja. Þá er ljóst að viðskipta- og tækniumhverfið er býsna flókið. Framleiðsla er eitt og notkun innan lands annað og það er ekkert sem segir að framleiðsla og innleiðing notkunar innan lands haldist í hendur í upphafi, hvorki hvað varðar magn né tegund eldsneytis. Því velti ég fyrir mér hvort fram hafi farið greining á ávinningi af því að framleiða rafeldsneyti á Íslandi og hvaða áskoranir og tækifæri kunni að fylgja slíkri framleiðslu í ljósi sjálfbærni og skuldbindinga Íslands í loftslagsmálum. Hafa stjórnvöld látið greina innanlandsþörfina og hvort innanlandsþörf ein geti staðið undir hagkvæmri framleiðslu? Ef grundvöllur framleiðslunnar kallar á framleiðslu til útflutnings samhliða, hversu mikla endurnýjanlega orku úr íslenskri náttúru erum við sem samfélag tilbúin að nota til framleiðslu eldsneytis til útflutnings?

Það liggur fyrir að erlendir fjárfestar sem hafa sérþekkingu á framleiðslu rafeldsneytis telja framleiðslu fýsilega hér á landi og hafa töluverðan áhuga á að fjárfesta, bæði í orkuöflun og innviðum til framleiðslu. Þessir sömu aðilar búa líka yfir mikilvægri þekkingu á framleiðslunni og a.m.k. sumir hafa yfirsýn um framtíðarþörf og uppbyggingu markaða á heimsvísu. Í því ljósi álít ég mikilvægt að við ræðum kosti og galla erlendra fjárfestinga á þessu sviði og hvort og þá hvernig stjórnvöld hvetji til fjárfestinga í rafeldsneytisframleiðslu. Ef rafeldsneytisframleiðsla á að verða að veruleika þarf meiri orku og hefur verið horft til nýtingar vindorkunnar í því sambandi. Nýting vindorku kallar á jöfnunarraforku frá vatnsafli. Það er því ljóst að lög og reglur varðandi virkjun vindsins og sátt um afgjald vegna orkuframleiðslu til nærsamfélaga mun hafa áhrif á áform um framleiðslu rafeldsneytis.

Að lokum vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er eitthvað í núverandi lagaumgjörð sem stendur í vegi fyrir rafeldsneytisframleiðslu hér á landi og hvaða ákvarðanir þurfa stjórnvöld og löggjafinn að taka til þess að slík framleiðsla gæti hafist?“

Categories
Fréttir

„Mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar“

Deila grein

13/03/2024

„Mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar“

Brynja Dan Gunnarsdóttir, varaþingmaður, fór í störfum þingsins yfir mikilvægi aðgerðaráætlunar gegn hatursorðræðu og að sveitarfélög búi yfir skýru verklagi og viðbragði við rasisma.

„Á síðasta þingi var lögð fram aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem náði því miður ekki fram að ganga en það þýðir ekki að ráðuneytin og sveitarfélögin geti ekki farið í fræðslu fyrir sína starfsmenn um þessi mál. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til innviðaráðherra um fræðslu hjá sveitarfélögum og til allra ráðherra um fræðslu innan þeirra ráðuneyta,“ sagði Brynja Dan.

„Ég vil einhvern veginn aldrei vera viðkvæm eða setja sjálfa mig inn í þessa jöfnu en það er víst þannig að minn veruleiki er að vissu leyti annar en ykkar flestra og ég á til að mynda önnur samtöl við barnið mitt en þið flest sem hér inni sitja,“ sagði Brynja Dan og hélt áfram, „[é]g bý við forréttindastöðu þegar kemur að mörgu en ég finn sterkt í ýmsum aðstæðum að ég er oft ein eða ein af mjög fáum með annan húðlit. Ísland hefur verið einstaklega einsleitt samfélag en það er sem betur fer að breytast. Það væri svo frábært ef öll sveitarfélög væru með verklag, forvarnir og aðgerðaáætlun þegar upp kemur rasismi í skólum, leikskólum, innan íþróttahreyfingarinnar eða annars staðar í samfélaginu. Það myndi veita öryggi, traust og utanumhald fyrir jaðarsetta hópa.“

„Ég hvet því allar sveitarstjórnir til að taka þessu alvarlega, að setja af stað einhvers konar aðgerðaáætlun sem unnin er með fagfólki, taka af skarið og vera leiðandi. En staðreyndin er sú að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir búa við annan veruleika og það þarf að hafa skýrt verklag og viðbragð við rasisma.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og hrósa Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir afdráttarlausa afstöðu og vönduð vinnubrögð í síðustu viku þegar mál af þessum toga kom upp,“ sagði Brynja Dan að lokum.

***

Ræða Brynju Dan í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Á síðasta þingi var lögð fram aðgerðaáætlun gegn hatursorðræðu sem náði því miður ekki fram að ganga en það þýðir ekki að ráðuneytin og sveitarfélögin geti ekki farið í fræðslu fyrir sína starfsmenn um þessi mál. Þess vegna hef ég lagt fram fyrirspurnir til innviðaráðherra um fræðslu hjá sveitarfélögum og til allra ráðherra um fræðslu innan þeirra ráðuneyta. En af hverju er ég að tala um þetta núna? Jú, því að mér fannst umræðan ná nýrri lægð síðustu vikurnar. Ég vil einhvern veginn aldrei vera viðkvæm eða setja sjálfa mig inn í þessa jöfnu en það er víst þannig að minn veruleiki er að vissu leyti annar en ykkar flestra og ég á til að mynda önnur samtöl við barnið mitt en þið flest sem hér inni sitja. Ég bý við forréttindastöðu þegar kemur að mörgu en ég finn sterkt í ýmsum aðstæðum að ég er oft ein eða ein af mjög fáum með annan húðlit. Ísland hefur verið einstaklega einsleitt samfélag en það er sem betur fer að breytast. Það væri svo frábært ef öll sveitarfélög væru með verklag, forvarnir og aðgerðaáætlun þegar upp kemur rasismi í skólum, leikskólum, innan íþróttahreyfingarinnar eða annars staðar í samfélaginu. Það myndi veita öryggi, traust og utanumhald fyrir jaðarsetta hópa. Ég hvet því allar sveitarstjórnir til að taka þessu alvarlega, að setja af stað einhvers konar aðgerðaáætlun sem unnin er með fagfólki, taka af skarið og vera leiðandi. En staðreyndin er sú að þeir sem eru af erlendu bergi brotnir búa við annan veruleika og það þarf að hafa skýrt verklag og viðbragð við rasisma.

Að því sögðu vil ég nota tækifærið og hrósa Menntaskólanum að Laugarvatni fyrir afdráttarlausa afstöðu og vönduð vinnubrögð í síðustu viku þegar mál af þessum toga kom upp.“

Categories
Fréttir Greinar

Sam­staða um aukna vel­sæld

Deila grein

13/03/2024

Sam­staða um aukna vel­sæld

Skrifað hefur verið undir langtíma kjarasamning milli Samtaka atvinnulífsins og SGS, Eflingar og Samiðnar – breiðfylkingar stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði. Það er rétt að hrósa samningsaðilum fyrir þeirra góðu vinnu og þann metnað sem lagður var í það verkefni að ná saman. Samningarnir skipta okkur sem samfélag gríðarlega miklu máli, sér í lagi í baráttunni við að ná niður verðbólgu. Hér hefur fólk ákveðið að standa bak í bak með það að markmiði að bæta lífskjör hér á landi, lækka vexti, minnka verðbólgu og auka kaupmátt.

Á samningstímanum verða lagðir allt að 80 milljarðar í aðgerðir sem eiga að m.a. að stuðla að heilbrigðari húsnæðismarkaði og fjölskylduvænna samfélagi samhliða. Með þessum aðgerðum munu ráðstöfunartekjur fjölskyldna aukast verulega á samningstímanum, eða um allt að 500 þúsund krónur á ári.

Mikill ávinningur

Ríkisstjórnin og Samband íslenskra sveitarfélaga lögðu lóð á vogarskálarnar við gerð þessara samninga með aðgerðum til næstu fjögurra ára. Hér vilja allir leggjast á eitt við að auka velsæld. Almennt má segja að kjarasamningarnir samrýmist þeim spám sem hafa komið út nýlega og gera ráð fyrir áframhaldandi markverðri lækkun verðbólgu í ár sem tryggja á lækkun vaxta.

Mikill ávinningur er af lækkun á vaxtastigi hvort sem er fyrir heimilin í landinu, fyrirtæki, ríki og sveitarfélög. Fyrir heimili sem skuldar 40 m.kr. húsnæðislán er 1% lækkun um 400 þús. kr. á ári. Ef við horfum til sveitarfélaganna má gera ráð fyrir að 1% lækkun á vöxtum samsvari um 5,7-6,0 milljörðum króna. Þá er rétt að það komi fram að skuldir ríkissjóðs eru með föstum kjörum. Það þýðir að vaxtalækkun hefur eingöngu áhrif á nýjar lántökur. Fyrir hvern 1 milljarð sem ríkið tekur að láni þýða 1% lægri vextir 10 m.kr. lægri vaxtagjöld á ári. Það er fljótt að safnast saman við hverja prósentulækkun og til mikils að vinna.

Öruggt heimili fyrir alla

Aukinn stöðugleika á húsnæðismarkaði og vinna gegn auknum kostnaði almennings vegna húsnæðis er forgangsmál og nú þegar er búið að fjármagna þær aðgerðir. Heilbrigður húsnæðismarkaður er mikilvæg kjarabót fyrir almenning í landinu. Til að mæta auknum vaxtakostnaði heimila nú um stundir verða á árinu 2024 greiddir út allt að 7 milljarðar króna í sérstakan vaxtastuðning til heimila með íbúðalán. Stuðningurinn tekur mið af vaxtagjöldum ársins 2023 og kemur til viðbótar almennum vaxtabótum. Þessu til viðbótar og til að daga úr íþyngjandi húsnæðiskostnaði leigjenda verða húsnæðisbætur hækkaðar frá 1. júní nk. og munu grunnfjárhæðir húsnæðisbóta til leigjenda hækka um 25%, auk þess sem tillit verður tekið til fjölskyldustærðar þannig að greiddar verða húsnæðisbætur fyrir allt að sex heimilismenn í stað fjögurra áður.

Fyrir fjölskyldurnar í landinu

Sérstök áhersla er lögð á stuðla að fjölskylduvænna samfélagi með aðgerðum sem miða að því að auka velsæld barnafjölskyldna. Auka á framlög til barnabóta um 18 milljarða króna á samningstímanum. Barnabætur verða hækkaðar og dregið verður úr tekjuskerðingum sem mun fjölga þeim foreldrum sem fá stuðning um 10.000. Þá verður útfærð leið til að skólamáltíðir grunnskólabarna verði gjaldfrjálsar frá og með ágúst 2024. Þessum lið fögnum við sérstaklega enda mikilvægt að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Hér er um lýðheilsu- og jafnréttismál að ræða. Við í Framsókn höfum í gegnum árin lagt mikla áherslu á að bæta fæðingarorlofskerfið og með þeim aðgerðum sem hér hafa verið lagðar til verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Þá munu stjórnvöld og sveitarfélögin taka höndum saman og vinna með markvissum hætti að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla á samningstímanum með því að tryggja öllum börnum leikskólavist.

Markvisst er unnið að því að draga úr kostnaði við að sækja heilbrigðisþjónustu fjarri heimabyggð. Á síðasta ári bætti heilbrigðisráðherra við þriðju flugferðinni og með þessum aðgerðum eru þær nú orðnar fjórar. Þá á að gera breytingar á lögum um Menntasjóð námsmanna sem lúta að því að létta vaxtabyrði og draga úr skyndilegum og ófyrirséðum hækkunum vegna verðbólgu og vaxta á afborganir námslána. Þá líkt og lengi hefur verið kallað eftir á að afnema ábyrgðarmannakerfi námslána. Fleiri aðgerðir eru hér lagðar til og um þær má lesa á vef Stjórnarráðsins, en allar miða þær að sama marki; styðja með öflugum hætti við fólkið í landinu og lækkun verðbólgu og vaxta.

Mál málanna

Allt of lengi höfum við verið að berjast við að ná niður verðbólgunni og vaxtakostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi með tilheyrandi hækkunum og þar með minnkandi ráðstöfunartekjum. Með þessum samningum og sér í lagi loforðum ríkis og sveitarfélaga um að halda aftur að gjaldskrárhækkunum er verið að bregðast við með markvissum hætti. Við höfum áður rætt um hvað einkennir gott samfélag, það er að standa saman og rétta fram hjálparhönd. Um þessar mundir reynir á að sýna samstöðu og samfélagslega ábyrgð í því verkefni að ná niður verðbólgu. Því vil viðbótar köllum við eftir að hin „breiðu bök“ standi nú með þjóðinni á vegi til aukinnar velsældar.

Fyrir þetta stendur Framsókn – framtíðin ræðst á miðjunni.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar

Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknar

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar 

Ingibjörg Isaksen, þingmaður Framsóknar

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. mars 2024.

Categories
Fréttir

„Sameiginlegt markmið að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu“

Deila grein

12/03/2024

„Sameiginlegt markmið að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu“

„Nú er það í annað sinn sem ríkisstjórn sem er skipuð Framsókn, Sjálfstæðisflokki og Vinstri hreyfingunni- Grænu framboði nær samtali við aðila vinnumarkaðarins og ég held að það sé engin tilviljun. Það var einnig gert í Lífskjarasamningunum á sínum tíma og þá var einnig horft til kjarasamnings til nokkurra ára,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra og formaður Framsóknarflokksins, í þættinum Silfrinu á RÚV í gær.

„Nú þegar við erum að horfa til fjögurra ára þá getur ríkið og sveitarfélög komið fram með þetta sameiginlega markmið, sem er aðalatriðið, að ná niður verðbólgu og vaxtastigi í landinu. Og ef allir einblíndu á það, þá gátum við miðað okkar aðgerðir að því og höfðað til þess að fleiri kæmu að borðinu í kjölfarið og það höfum við verið að sjá nú þegar.“

Aðrir þátttakendur í pallborðinu voru Elliði Vignisson bæjarstjóri í Ölfusi, Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Hanna Katrín Friðriksson alþingismaður. Var helsta umræðuefni þáttarins um kjarasamningana á almenna vinnumarkaðnum og tugmilljarða aðkomu ríkisins.

Categories
Fréttir

Fundað með fulltrúum smærri fyrirtækja í Grindavík

Deila grein

11/03/2024

Fundað með fulltrúum smærri fyrirtækja í Grindavík

Þingflokkur Framsóknar fundaði síðastliðinn föstudag með fulltrúum smærri fyrirtækja í Grindavík. Fundurinn var fjölmennur og einkenndist af hreinskiptnu samtali og góðum umræðum.

Þær áskoranir sem blasa við Grindvíkingum eru stórar og margvíslegar. Mikill kraftur hefur einkennt atvinnulífið í Grindavík og verðmætasköpun fyrirtækja í Grindavík skiptir þjóðarbúið verulegu máli.

Samstaða fólksins er aðdáunarverð þrátt fyrir allt sem við blasir og þá óvissu sem ríkir enn um sinn. Á fundinum kom fram skýrt ákall um stuðning og aukinn fyrirsjáanleika.

Categories
Fréttir

„Rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu“

Deila grein

11/03/2024

„Rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu“

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþingismaður, tók undir ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar, í störfum þingsins, um að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum líkt og að ríkisstjórnin hafi þegar samþykkt. Sú áhersla væri enda í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang.

Sagði hún miklvægt að þjóðarsátt sé um slíkar áherslur, enda „liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu enda myndu allir vinna með því, bæði heimili og sveitarfélög,“ sagði Halla Signý.

„Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í því að jafna kjör og aðstæður barna að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu.“

„Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum koma þau öll að sama borði. Börn í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 kr. á mánuði fyrir skólamáltíð og eru það um 115.000 kr. yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og fá frítt fyrir það þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230.000 kr. yfir veturinn.“

„Mörg sveitarfélög bjóða nú upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir, t.d. Fjarðabyggð og Vogar, og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls,“ sagði Halla Signý að lokum.


Ræða Höllu Signýjar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Ég er sammála ályktun sveitarstjórnarráðs Framsóknar sem kemur inn á að sveitarfélög tryggi gjaldfrjálsar skólamáltíðir í grunnskólum, eins og ríkisstjórnin hefur samþykkt, enda er það í anda Framsóknar að setja fjölskyldufólk í forgang. Kjarasamningar eru í vinnslu og þessi aðgerð myndi greiða fyrir gerð þeirra. Það er mikilvægt að þjóðarsátt náist um jafn mikilvægt mál, öllum til heilla. Það væri liður í átt að markmiðum okkar um að ná niður verðbólgu og vöxtum í landinu enda myndu allir vinna með því, bæði heimili og sveitarfélög. Mörg sveitarfélög í landinu eru skuldug og finna því áþreifanlega fyrir hærri verðbólgu og því vaxtastigi sem nú ríkir í landinu. Mikilvægi skólamáltíða fyrir skólastarfið sjálft er mikið. Góð næring er nauðsynleg fyrir skóladaginn og mikilvægur liður í því að jafna kjör og aðstæður barna að öll börn eigi kost á hollum og staðgóðum skólamáltíðum. Það er ekki aðeins brýnt til að draga úr ójöfnuði heldur einnig heilsufarslegt og uppeldislegt atriði. Næring er þýðingarmikil fyrir þroska nemenda og starfsorku og rétt næring er liður í forvörnum og lýðheilsu. Börnin búa við misjöfn kjör og koma úr misjöfnum aðstæðum en þegar þau setjast við morgunhressinguna í skólanum koma þau öll að sama borði. Börn í Reykjavík greiða að jafnaði 12.836 kr. á mánuði fyrir skólamáltíð og eru það um 115.000 kr. yfir veturinn fyrir barnið. Foreldrar greiða þó ekki nema fyrir tvö börn og fá frítt fyrir það þriðja. Þótt þetta sé ekki há upphæð þá getur munað um 230.000 kr. yfir veturinn.

Virðulegi forseti. Mörg sveitarfélög bjóða nú upp á gjaldfrjálsar skólamáltíðir, t.d. Fjarðabyggð og Vogar, og enn fleiri sveitarfélög hafa lagt mikið kapp á það á undanförnum árum að niðurgreiða skólamáltíðir í grunnskólum. Nú er hins vegar tímabært að taka af skarið og stíga skrefið til fulls.“

Categories
Fréttir

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

Deila grein

11/03/2024

„Það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi“

„Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands,“ sagði Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, í störfum þingsins.

Benti hún á að fólk nái ekki að virkja rafræn skilríki, enda þurfi símasamband til. Fólk hafi því þann einn kost að ferðast frá heimili sínu til að reka erindi sem felstum örðum þykir sjálfsagt að gera heima hjá sér.

„Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp,“ sagði Lilja Rannveig.

„Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Það er okkur flestum eðlislægt að hringja eða svara símanum. Hér á landi eru aftur og aftur á móti margir sem geta það ekki heima hjá sér eða á svæðinu í kringum heimili sitt sökum lélegs símasambands. Þau lenda t.d. í vandræðum með að virkja rafræn skilríki því það krefst þess að viðkomandi sé í símasambandi og því þurfa þau að ferðast frá heimili sínu til að vinna að ýmsu sem mörg okkar telja sjálfsagt. Það að vera í góðu símasambandi snýst ekki einungis um hentugleika heldur er þetta fyrst og fremst öryggismál, bæði innan sem utan heimilis. Það er ekki einungis mikilvægt að huga að góðu símasambandi á heimili fólks því á vegum landsins eru líka margir staðir þar sem er lítið eða ekkert símasamband og það hefur margoft skapað mjög erfiðar aðstæður vegna slysa eða annarra vandræða sem koma upp. Það var því mjög gott að sjá fréttir vikunnar þar sem samið var um að byggja upp 24 fjarskiptasenda við stofnvegi á Vestfjörðum. Sú aðgerð skiptir miklu máli fyrir öryggi fólks á vegum landsins sem og þeirra sem búa í nágrenni við sendana. Meðan við fögnum því höldum við samt áfram að þrýsta á frekari uppbyggingu við stofnvegi um allt land sem og tengivegi og heimili fólks. Sjálf hefði ég viljað að áherslan hefði fyrst verið lögð á að byggja upp símasamband við heimili fólks en ég fagna þó öllum þeim framförum sem eiga sér stað í fjarskiptamálum á Íslandi því að það skiptir mjög miklu máli að vera í góðu sambandi.“