Categories
Fréttir

Spurt um afstöðu formanns Flokks fólksins til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild

Deila grein

20/03/2025

Spurt um afstöðu formanns Flokks fólksins til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðild

Ingibjörg Isaksen, þingmaður og formaður þingflokks Framsóknar, beindi fyrirspurn á Alþingi til félags- og húsnæðismálaráðherra, Ingu Sæland, um hvort ráðherrann styddi að flýta þjóðaratkvæðagreiðslu um mögulega inngöngu Íslands í Evrópusambandið.

Í ræðu sinni rifjaði Ingibjörg upp að ráðherrann hafi áður tekið eindregna afstöðu gegn ESB-aðild og vitnaði í orð ráðherrans frá fyrri tíð, þar sem hún sagði inngöngu í sambandið vera „verri hlutur fyrir íslenskan almenning en nokkuð annað.“

Ingibjörg lagði áherslu á að margir Íslendingar deili sömu áhyggjum og ráðherrann varðandi mögulegan missi á fullveldi, skerðingu á yfirráðum yfir sjávarútvegi og takmarkaðan sjálfsákvörðunarrétt ef Ísland gengi í ESB. Hún sagði Evrópusambandið hafa veikst að undanförnu og benti á vaxandi vantraust innan sambandsins sjálfs, sem kallaði á varfærni og gagnrýna umræðu um hugsanlega aðild Íslands.

Þá gagnrýndi Ingibjörg einnig þau rök sem hafa verið notuð til að réttlæta inngöngu í sambandið, eins og lækkun vaxta og verðbólgu. Hún sagði þá umræðu hafa færst nú yfir á varnarmál og öryggisstefnu í ljósi óstöðugleika í alþjóðamálum. Hún undirstrikaði jafnframt að ákvörðun um inngöngu í ESB væri stærsta ákvörðunin í utanríkismálum sem þjóðin tæki frá stofnun lýðveldisins og að slík ákvörðun krefðist vandlegs undirbúnings og ítarlegrar umræðu.

Ingibjörg lauk máli sínu með spurningu til ráðherrans: „Styður hæstv. ráðherra það að flýta þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í Evrópusambandið?“

„Flokkur fólksins er alfarið á móti inngöngu Íslands í Evrópusambandið, algerlega, bæði núna og þá. Hvað framtíðin ber í skauti sér get ég ekki svarað fyrir,“ sagði félags- og húsnæðismálaráðherra.

Ingibjörg þakkaði félags- og húsnæðismálaráðherra, Ingu Sæland fyrir skýr svör og lagði áherslu á að viðræður við ESB séu ekki einföld skoðunarferð heldur aðlögunarferli. Hún benti á að aðildarviðræður snúist um hvernig íslenskt samfélag geti aðlagast kerfum og regluverki sambandsins, sem hefur breyst mikið á síðustu árum.

Ingibjörg vitnaði í orð ráðherrans um að Evrópusambandið sé ekki í sömu stöðu og áður og að mikil ólga sé innan sambandsins. Hún lagði áherslu á að þjóðin fái allar upplýsingar áður en gengið er til kosninga og að undirbúningur verði vandaður.

Categories
Fréttir Greinar

Fjármálaráðherra á villigötum

Deila grein

20/03/2025

Fjármálaráðherra á villigötum

Það fel­ast gríðarleg tæki­færi fyr­ir íbúðar­kaup­end­ur í því að fjár­mála­fyr­ir­tæki geti boðið fram löng óverðtryggð lán á föst­um vöxt­um. Nú er kom­in fram skýrsla dr. Jóns Helga Eg­ils­son­ar sem skýr­ir for­send­ur og fyr­ir­mynd­ir frá öðrum lönd­um.

Það er miður að fjár­málaráðherra hafi kosið að mistúlka hluta niðurstaðna skýrslu um leiðir til að bæta láns­kjör á ís­lensk­um hús­næðismarkaði með þeim hætti sem hann hef­ur gert op­in­ber­lega.

Skýrsl­an er mjög skýr: Hún set­ur fram sex til­lög­ur til að bæta kjör íbúðalána og að strax verði ráðist í að hrinda þeim í fram­kvæmd. Ráðherra hef­ur valið að hafna því á þeim for­send­um að til­laga um að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga sé áhættu­söm fyr­ir ríkið og líkt við Íbúðalána­sjóð! Með því að efla markað með vaxta­skipta­samn­inga geta aðilar á markaði bætt eig­in fjár­stýr­ingu. Þetta er þekkt og viður­kennd aðferð í lönd­un­um í kring­um okk­ur og hef­ur sannað sig í að nýt­ast bæði bönk­um, fyr­ir­tækj­um og einnig við fjár­stýr­ingu rík­is­sjóða. Sem dæmi er markaður með vaxta­skipta­samn­inga í Nor­egi og Svíþjóð mik­il­væg for­senda þess að bank­ar geta boðið hag­kvæm íbúðalán á föst­um vöxt­um til langs tíma. Rík­is­sjóðir landa nýta vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu. Rík­is­sjóður Íslands hef­ur um ára­bil nýtt vaxta­skipta­samn­inga í sinni fjár­stýr­ingu en get­ur notið þess í aukn­um mæli ef um­gjörð þessa markaðar verður bætt, eins og lagt er til í skýrsl­unni.

Vaxta­skipta­markaðir í lönd­un­um í kring­um okk­ur gera bönk­um kleift að bjóða lán með föst­um vöxt­um til lengri tíma en þeir ella gætu. Rík­is­sjóður get­ur lagað fjár­mögn­un að sín­um þörf­um á hag­kvæm­ari kjör­um. Báðir aðilar njóta hag­kvæmni.

Það er því óviðeig­andi og vill­andi að fjár­málaráðherra tengi til­lög­ur um vaxta­skipta­samn­inga við reynsl­una af Íbúðalána­sjóði! Þetta eru al­ger­lega ótengd mál og eiga ekk­ert sam­eig­in­legt. Vaxta­skipta­samn­ing­ar eru nýtt­ir út um all­an heim af fyr­ir­tækj­um, bönk­um og líf­eyr­is­sjóðum sem verk­færi í fjár­stýr­ingu til að draga úr áhættu og bæta kjör – ekki til þess að auka hana eins og fjár­málaráðherra virðist halda.

Í ljósi svara ráðherra er vert að velta upp hvort um sé að ræða vanþekk­ingu eða póli­tísk­an út­úr­snún­ing til að ýta und­ir stefnu Viðreisn­ar um ESB-aðild, sem oft er sögð nauðsyn­leg til að bæta láns­kjör al­menn­ings á Íslandi. Skýrsl­an sýn­ir þvert á móti að bæta má láns­kjör á Íslandi án þess að ganga í ESB. Spurn­ing­in sem vakn­ar er hvort það sé það sem raun­veru­lega fer fyr­ir brjóstið á ráðherra.

Það er brýnt að umræðan sé byggð á staðreynd­um og fag­legri þekk­ingu, ekki póli­tísk­um út­úr­snún­ing­um eða röng­um sam­an­b­urði sem get­ur villt fyr­ir og hindrað að hægt sé að bæta láns­kjör fyr­ir al­menn­ing.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Sýnum yfirvegun

Deila grein

20/03/2025

Sýnum yfirvegun

Sjálf­stæði, sterk staða Íslands í alþjóðakerf­inu og mik­il verðmæta­sköp­un hafa frá stofn­un lýðveld­is­ins tryggt þjóðinni góð lífs­kjör. Mik­il­vægt skref var stigið árið 1949 þegar Ísland gerðist stofnaðili að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO). Þar sem Ísland er herlaust ríki og gat ekki varið sig sjálft, leiddi aðild­in meðal ann­ars til varn­ar­samn­ings Íslands og Banda­ríkj­anna árið 1951.

Á þeim tíma var varn­ar­leysi lands­ins talið ógna ekki aðeins ör­yggi þess sjálfs held­ur einnig friði og stöðug­leika í ná­granna­ríkj­um, eins og fram kem­ur í samn­ingn­um. Með festu og fram­sýni tryggðu ís­lensk stjórn­völd að hér á landi væri aðstaða til að sinna vörn­um og þannig varðveita frið og ör­yggi á svæðinu. Í ljósi þeirr­ar óvissu sem rík­ir í alþjóðamál­um þessi dægrin hafa ýms­ir haldið því fram að flýta eigi þjóðar­at­kvæðagreiðslu um að end­ur­vekja aðild­ar­viðræður við Evr­ópu­sam­bandið. Sum­ir telja að Ísland þurfi á aðild að halda til að tryggja varn­ir sín­ar.

Þessi rök stand­ast ekki og eru vara­söm. Ég minni á að ESB-rík­in, Finn­land og Svíþjóð, gerðust ný­verið aðilar að Atlants­hafs­banda­lag­inu vegna þess að þau töldu varn­ir Evr­ópu­sam­bands­ins ófull­nægj­andi. Þeir sem vilja Ísland inn í Evr­ópu­sam­bandið telja að slík aðild sé nauðsyn­leg vegna stefnu Banda­ríkj­anna, en með því eru þeir reiðubún­ir að fórna sjálf­stæði þjóðar­inn­ar og yf­ir­ráðum henn­ar yfir eig­in auðlind­um. Ég vara ein­dregið við þess­ari nálg­un. Óvissa í alþjóðakerf­inu er vissu­lega óþægi­leg og krefst þess að stjórn­völd leggi mikið á sig til að tryggja stöðu þjóðar­inn­ar. Hins veg­ar er ekki ástæða til þess að gera rót­tæk­ar breyt­ing­ar á ut­an­rík­is­stefnu Íslands. Þessi ákvörðun, ef til henn­ar kæmi, yrði sú stærsta sem Íslend­ing­ar hafa tekið í ut­an­rík­is­mál­um frá lýðveld­is­stofn­un.

Slíkt skref ber að stíga af yf­ir­veg­un og með heild­ar­hags­muna­mat að baki, ekki í fljót­færni vegna von­andi tíma­bund­inn­ar óvissu í alþjóðastjórn­mál­um. Þeir sem vilja hraða at­kvæðagreiðslu án nauðsyn­legr­ar umræðu og grein­ing­ar virða ekki lýðræðis­legt fyr­ir­komu­lag, spor­in hræða svo sann­ar­lega. Evr­ópu­sam­bands­sinn­ar eru hér að nýta sér óvissu vegna Trump-stjórn­ar­inn­ar, en við eig­um hvorki að láta Banda­rík­in né Evr­ópu stýra stefnu Íslands.

Hags­mun­ir Íslands eiga að vera í for­gangi. Rök­semd­ir Evr­ópu­sam­bands­sinna byggj­ast því miður á því að ala á ótta og óör­yggi. Slík nálg­un hef­ur aldrei skilað góðum ár­angri þegar mikl­ir þjóðar­hags­mun­ir eru í húfi, sér­stak­lega varðandi yf­ir­ráð yfir auðlind­um Íslands. Ísland hef­ur átt far­sælt sam­starf við Banda­rík­in allt frá stofn­un lýðveld­is­ins, auk þess sem frjáls viðskipti okk­ar inn­an EES-samn­ings­ins hafa skilað mik­illi verðmæta­sköp­un og góðum lífs­kjör­um. Það er skyn­sam­leg­asta leiðin áfram.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Ræktum fram­tíðina: Ungt fólk og mat­væla­fram­leiðsla

Deila grein

20/03/2025

Ræktum fram­tíðina: Ungt fólk og mat­væla­fram­leiðsla

Það er kominn tími til að hugsa upp á nýtt hvernig við stuðlum að nýsköpun og nýliðun á landsbyggðinni. Hugmyndin um „Nýjar rætur“ er liður í þessu. Með þessari hugmynd er komið til móts við ungt fólk sem vill hefja matvælaframleiðslu, fóðurframleiðslu eða skógrækt.

Kaupréttur til fimm ára

Hugmyndin er á þá leið að t.d. Byggðastofnun, fyrir hönd ríkissjóðs, geti gengið inn í kauptilboð einstaklings (yngri en 45 ára) í jörð, sem seljandi jarðarinnar hefur þegar samþykkt. Gangi allt eftir, verður ríkissjóður tímabundið eigandi jarðarinnar, en upphaflegur tilboðsgjafi (nýliðinn) eignast kauprétt í jörðinni að fimm árum liðnum. Á þessum fimm árum fær nýliðinn tækifæri til að byggja upp þekkingu, stunda framleiðslu og eignast fjármagn til þess svo að nýta sér kaupréttinn og verða eigandi jarðarinnar.

Ríkissjóður (Byggðastofnun) og leigutaki (nýliðinn) gera því næst samning um afnot af jörðinni og kauprétt. Kaupréttur nýliðans er jafnframt algert grundvallaratriði, enda miðast hugmyndin við að jarðnæði á Íslandi sé í einkaeigu, eins og frekast er unnt.

Forsenda matvælaframleiðslu á Íslandi að nýliðun og nýsköpun sé tryggð

Augljós markaðsbrestur

Hugmyndinni er ætlað að leiðrétta augljósan markaðsbrest á lánsfjármarkaði. Forsenda matvælaframleiðslu, og skógræktar, er vitanlega jörð, land eða skiki, sem ungt fólk á erfitt með að fjármagna.

Skilyrði kaupréttar verða vitanlega mörg. Framkvæma þarf ítarlega áreiðanleikakönnun áður en ríkissjóður gengur inn í kauptilboð, til að tryggja að áhætta ríkissjóðs sé í algjöru lágmarki. Leigutaki fær fimm ár til að byggja upp verðmæti og skapa nýjungar í sjálfbærri matvælaframleiðslu, nú eða skógrækt áður en ákvörðun er tekin um að virkja kaupréttarákvæðið.

Lítið skref í rétta átt

Fyrirkomulagið mun aðeins ná til afmarkaðs fjölda jarða, sem uppfylla ströng skilyrði um sjálfbæra landnýtingu, nýsköpun, nýliðun og nýtingar tækni eins og gervigreindar, þar sem það á við. Óþarfi er annars að fjalla á þessu stigi um tæknileg atriði, sem skyggja á megintilgang hugmyndarinnar.

Hagsmunir ríkisins eru tryggðir til fulls þar sem jarðirnar eru keyptar á markaðsforsendum og eru líklegar til að hækka í verði yfir tíma. Þannig eignast ríkið – og þar með almenningur – verðmæti til framtíðar. Sérstök skilyrði verða um nýtingu fasteigna s.s. bygginga á jörðinni.

Þá leiðir hugmyndin til þess að hugað verði að betri nýtingu ríkisjarða og þjóðlendna um allt land.

Nýjar rætur

„Nýjar rætur“ stuðla að því að landið sé í virkri rækt, byggðir styrkist um og ungu fólki sé umfram allt gefið raunhæft tækifæri til verðmætasköpunar.

Nú er tími til kominn að við ræktum saman framtíðina og gefum ungu fólki möguleika, sem í dag eru nánast ekki til staðar, nema fyrir efnameiri einstaklinga eða fyrirtæki.

Matvælaöryggi, auðlindir og tapaðar jarðir

Í ljósi óvissu í alþjóðamálum og auknu mikilvægi fæðuöryggis, sem flestar Evrópuþjóðir stefna að, verðskuldar hugmyndin umræðu.

Þá er staðreyndin sú að jarðir Íslands geyma auðlindir, sem við erum smám saman að missa úr landi, svo að segja. Erlendir aðilar eiga nú þegar fjöldann allan af dýrmætum jörðum, sem í sumum tilvikum eru notaðar til að flytja jarðefni til útlanda. Hjörleifshöfði í Mýrdalshreppi er dæmi um slíkt og er raunar sorgarsaga, enda jörðin keypt fyrir ígildi þriggja íbúða í Reykjavík. Aðrar jarðir landsins geyma t.a.m. rétt til lax- og silungsveiði, jarðhita eða nýtingar grunnvatns í stórum stíl, sem í mörgum tilvikum eru á hendi erlendra ríkisborgara.

Ný hugsun

Hugmyndinni að „Nýjum rótum“ er hvorki ætlað að koma í veg fyrir erlenda fjárfestingu eða kaup erlendra aðila á landi til búseti til skemmri eða lengri tíma. Henni er einfaldlega ætlað að taka á æpandi skorti á nýliðun og nýsköpun í matvælaframleiðslu og varða leiðina að aukinni verðmætasköpun á landsbyggðinni.

Auk „nýrra róta“ þarf að taka fleiri skref. Þannig þarf að skerpa á stefnumótun og áherslum við nýtingu þjóðlendna og ríkisjarða, svo kynnt verða síðar.

Ræktum framtíðina.

Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi og þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. mars 2025.

Categories
Fréttir

Breyta þarf ósanngjörnum reglum um ferðakostnað sjúklinga

Deila grein

19/03/2025

Breyta þarf ósanngjörnum reglum um ferðakostnað sjúklinga

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, hefur mælt fyrir tillögu á Alþingi um að endurskoða reglur um endurgreiðslu ferðakostnaðar fyrir sjúklinga sem þurfa að ferðast til að sækja heilbrigðisþjónustu. Tillagan gengur út á að tryggja rétt sjúklinga til endurgreiðslu ferðakostnaðar þegar heilbrigðisstofnanir aflýsa skipulögðum læknistímum með stuttum eða ólögmætum fyrirvara.

Ósanngjarnt að sjúklingar beri allan kostnaðinn

Samkvæmt núverandi reglum geta sjúklingar fengið endurgreiddar allt að fjórar ferðir á ári, en einungis ef þeir framvísa staðfestingu á að læknisheimsókn hafi átt sér stað. Þessi regla hefur reynst ósanngjörn þegar heilbrigðisstofnanir aflýsa tímum með skömmum fyrirvara. Sjúklingar þurfa þá að bera kostnað af ferðalögum, gistingu og öðrum tilfallandi útgjöldum.

Mismunun eftir búsetu

Ingibjörg bendir á að þetta fyrirkomulag mismuni sjúklingum eftir búsetu og sé sérstaklega íþyngjandi fyrir tekjulága eða þá sem búa afskekkt. Núverandi kerfi veldur óþarfa fjárhagsáhyggjum hjá fólki sem nú þegar glímir við erfiðleika vegna veikinda.

Skref í átt að auknu jafnrétti

Með samþykkt tillögunnar yrði tekið mikilvægt skref í átt að auknu jafnrétti til heilbrigðisþjónustu. Tryggt yrði að sjúklingar fengju ferðakostnað endurgreiddan óháð því hvort læknistími hafi farið fram eða ekki, þegar um afbókun frá heilbrigðisstofnun er að ræða. Slíkar breytingar myndu létta verulega á fjárhagslegum áhyggjum sjúklinga og bæta raunverulegt aðgengi íbúa landsbyggðar að heilbrigðisþjónustu.

Categories
Fréttir

Stefán Vagn vill létta álögum af sveitarfélögum – leggur til undanþágu frá virðisaukaskatti

Deila grein

19/03/2025

Stefán Vagn vill létta álögum af sveitarfélögum – leggur til undanþágu frá virðisaukaskatti

Sveitarfélög standa frammi fyrir miklum fjárhagslegum áskorunum sem þarf að mæta með víðtækum aðgerðum. Þetta kom fram hjá Stefáni Vagni Stefánssyni, alþingismanni, sem ræddi stöðu sveitarfélaganna í störfum þingsins. Stefán Vagn benti á að erfiðlega hefði gengið að finna lausnir sem báðir aðilar, ríki og sveitarfélög, gætu sætt sig við til framtíðar.

Ófjármögnuð verkefni bitna á sveitarfélögum

Stefán Vagn sagði að lagafrumvörp sem samþykkt væru á Alþingi ættu að innihalda ítarlega kostnaðargreiningu fyrir sveitarfélögin, en því miður hefði framkvæmdin verið misjöfn. Sveitarfélög hefðu á undanförnum árum þurft að takast á við aukinn kostnað vegna yfirfærslu grunnskólanna og málefna fatlaðs fólks, auk þess sem málefni barna með fjölþættan vanda hafi valdið auknum útgjöldum án þess að ríkið hafi bætt það að fullu.

Leggur til undanþágu frá virðisaukaskatti

Til að bæta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna lagði Stefán Vagn til að þau yrðu undanþegin virðisaukaskatti af framkvæmdum, lögbundnum verkefnum og leikskólum. Slík undanþága myndi bæta getu sveitarfélaganna til nauðsynlegrar uppbyggingar innviða.

Engin einföld lausn til

Stefán Vagn sagði enga eina töfralausn vera til staðar, heldur þyrfti að ráðast í margar aðgerðir samhliða til að skapa betra jafnvægi milli ríkis og sveitarfélaga. Hann hvatti ríkisstjórnina til að leita lausna í samvinnu við sveitarfélögin, þannig að unnt væri að tryggja stöðugleika og aukna getu til að sinna lögbundnum verkefnum.

***

Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Mig langar í ræðu minni í dag að ræða stöðu sveitarfélaga landsins og aðeins tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hefur verið til umræðu árum saman. Erfiðlega virðist ganga að ná saman um lausn til sáttar og til framtíðar fyrir báða aðila. Lagafrumvörp sem við samþykkjum hér á Alþingi á að kostnaðargreina með tilliti til kostnaðar sveitarfélaganna en allur gangur hefur verið á því að það sé gert og þeim sé bættur sá kostnaður sem af þeim hefur hlotist. Ljóst er að lagabreytingar hafa haft áhrif á kostnað sveitarfélaga á undangengnum árum svo um munar og má þar nefna yfirfærslu grunnskóla og málefni fatlaðs fólks, svo eitthvað sé nefnt. Viðbætur hafa komið til en samkvæmt sveitarfélögum landsins er það ekki nægjanlegt til að mæta þeim kostnaðarauka síðustu ára. Málefni barna með fjölþættan vanda eru annað mál sem vert er að nefna sem hefur verið sveitarfélögunum verulega kostnaðarsamt.

En hvað er til ráða, hæstv. forseti? Ég held að það sé engin ein töfralausn til í þessu máli. Við þurfum að fara í margar aðgerðir til þess að stjórnsýslustigin tvö geti náð jafnvægi sín á milli. Ein þeirra leiða er að gera sveitarfélögin undanþegin virðisaukaskatti af framkvæmdum, mögulega lögbundnum verkefnum ásamt leikskólum. Má færa fyrir því mjög sterk rök að óeðlilegt sé að sveitarfélög landsins borgi virðisaukaskatt af sínum framkvæmdum en hitt stjórnsýslustigið, ríkið, fái sinn virðisaukaskatt til baka af framkvæmdum. Með slíkri breytingu myndi hagur sveitarfélaga vænkast og geta þeirra til uppbyggingar mikilvægra innviða fyrir sín samfélög aukast verulega.“

Categories
Fréttir

„Þurfum við stöðugleikareglu eða sveigjanleika í innviðamálum?“

Deila grein

19/03/2025

„Þurfum við stöðugleikareglu eða sveigjanleika í innviðamálum?“

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, gagnrýndi í störfum þingsins tillögu ríkisstjórnarinnar um nýja stöðugleikareglu og aðrar breytingar á lögum um opinber fjármál. Tillagan miðar að því að tryggja stöðugleika í ríkisrekstri, en Þórarinn Ingi telur mikilvægt að skýra betur hvaða áhrif reglan muni hafa áður en gengið sé til svo viðamikilla breytinga.

„Það vekur athygli að svokallaðir grundvallarútgjaldaþættir eru undanskildir stöðugleikareglunni. Það opnar fyrir mjög víða túlkun á hugtakinu fjárfestingar,“ sagði Þórarinn Ingi og benti á að slík óskýrleiki gæti haft neikvæð áhrif á fjármálastefnu ríkisins.

Hann velti jafnframt upp þeirri spurningu hvort of langt sé gengið með því að lögfesta ítarlegar reglur um hagstjórn í stað þess að treysta ríkisstjórnum til að fylgja settum grunnreglum.

Þá lagði Þórarinn Ingi áherslu á mikilvægi þess að horfa til innviðaskuldar þjóðarinnar. Hann nefndi Þýskaland sem dæmi, þar sem nýlega var ákveðið að auka útgjöld til innviða og varnarmála. Þar væri ekki rætt hvort fylgja ætti stöðugleikareglum, heldur hvernig hægt sé að víkja þeim í þágu nauðsynlegrar uppbyggingar.

***

Ræða Þórarins Inga í heild sinni á Alþingi:

„Frú forseti. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tillögu um svokallaða stöðugleikareglu. Þá eru nokkrar aðrar breytingar fyrirhugaðar á lögum um opinber fjármál. Ég velti því fyrir mér hvort ekki hefði verið rétt að greina áhrif og nytsemi laga um opinber fjármál áður en farið er í grundvallarbreytingar á lögum um afkomumarkmið og rekstur hins opinbera. Þá vekur athygli að grundvallarútgjaldaþættir eru undanskildir stöðugleikareglunni. Þannig má túlka hugtakið fjárfestingar mjög vítt. Það getur átt við bæði hefðbundna innviðauppbyggingu og óljósa þætti eins og fjárfestingar í mannauði eða öðrum ófjárhagslegum þáttum. Þá er ágætt að hafa í huga meiri háttar innviðaskuld þjóðarinnar. Ef tekist verður almennilega á við innviðaskuldina hlýtur það að hafa áhrif á aðrar forsendur fjármálastefnu og hagstjórnar. Þá er spurning hvort við séum að ganga of langt við að lögfesta hvernig staðið er að hagstjórn. Getum við ekki treyst hverri ríkisstjórn til að fylgja grunnreglum laga um opinber fjármál, svo sem varfærni, festu og sjálfbærni?

Frú forseti. Að lokum: Í fyrradag tilkynnti Þýskaland meiri háttar aukningu útgjalda til innviða og varnarmála. Þar er ekki verið að ræða stöðugleikareglu heldur hvernig megi víkja frá henni í ljósi nauðsynlegrar uppbyggingar innviða, auk varna landsins.“

Categories
Fréttir

Pólitísk samvinna um hag barna er ríkari en einhverjar pólitískar keilur

Deila grein

18/03/2025

Pólitísk samvinna um hag barna er ríkari en einhverjar pólitískar keilur

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, fagnar því að ríkið ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda. Hún bendir á að þessi vinna hafi hafist undir forystu fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra.

„Það er mikilvægt að fagna því sem vel er gert og mig langar að gera það hér í dag. Ríkið hefur upplýst um að það ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda,“ sagði Ingibjörg.

Ingibjörg svaraði orðum Örnu Láru Jónsdóttur um húsnæðið við Blönduhlíð sem var hugsað sem viðbót við Stuðla og bæta þannig úrræðin. Hún bendir á að það hefði verið skynsamlegra að vinna málið betur. En minnir á að leigusamningurinn við Blönduhlíð kveður á um að ef húsnæðið reynist ekki hæft börnum á fyrstu sex mánuðunum, megi rifta samningnum. Ingibjörg leggur áherslu á að núverandi ríkisstjórn hafi valdið til að leysa málefni barna með fjölþættan vanda og spyr hvað ríkisstjórnin ætli að gera í þessum málum.

„Við í Framsókn höfum ávallt nálgast þessi málefni með þeim hætti að þau séu ekki til þess að slá einhverjar pólitískar keilur heldur snýst þetta um pólitíska samvinnu um að vinna að hag barna í þessum málaflokki. Ég vona að við berum gæfu hér í þessum þingsal að vinna að sameiginlegum lausnum og ekki vera endilega að benda á hvert annað heldur finna lausnir, því að það er mjög brýnt að finna þær sem allra fyrst,“ sagði Ingibjörg að lokum.

***

Ræða Ingibjargar í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að fagna því sem vel er gert og mig langar að gera það hér í dag. Ríkið hefur upplýst um að það ætli að taka ábyrgð á þriðja stigs þjónustu fyrir börn með fjölþættan og alvarlegan vanda. Þessi vinna hófst undir forystu fyrrverandi barna- og menntamálaráðherra sem vann að því, með skýra sýn, að ríkið tæki að sér ábyrgð og kostnað við þau úrræði sem eru þyngst og flóknust í þessum málaflokki.

Ég vil bregðast við orðum hv. þm. Örnu Láru Jónsdóttur sem kom hér áðan inn á húsnæðið við Blönduhlíð, húsnæði sem átti klárlega að vera viðbót við Stuðla og bæta úrræði í tengslum við málefni barna með fjölþættan vanda. Ég held að við getum öll verið sammála því að skynsamlegra hefði verið að vinna málið betur. Hins vegar er mikilvægt líka að koma því á framfæri að það stendur í leigusamningnum að komi í ljós á fyrstu sex mánuðunum að húsnæðið sé ekki hæft börnum af einhverjum ástæðum þá sé það ekki leigutakanum kenna og þá megi rifta leigusamningnum. Það hefur ekki verið gert af núverandi ríkisstjórn og hefur hæstv. ráðherra komið því á framfæri að húsnæðið muni fara í aðra notkun.

Þetta verkefni liggur ekki núna hjá fyrrverandi ríkisstjórn heldur liggur það hjá núverandi ríkisstjórn. Valdið er þar. Því spyr ég til baka: Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera í málefnum barna með fjölþættan vanda? Við í Framsókn höfum ávallt nálgast þessi málefni með þeim hætti að þau séu ekki til þess að slá einhverjar pólitískar keilur heldur snýst þetta um pólitíska samvinnu um að vinna að hag barna í þessum málaflokki. Ég vona að við berum gæfu hér í þessum þingsal að vinna að sameiginlegum lausnum og ekki vera endilega að benda á hvert annað heldur finna lausnir, því að það er mjög brýnt að finna þær sem allra fyrst.“

Categories
Fréttir

Tillaga um neyðarbirgðir matvæla

Deila grein

18/03/2025

Tillaga um neyðarbirgðir matvæla

Þórarinn Ingi Pétursson, alþingismaður, hefur mælt fyrir tillögu til þingsályktunar um fyrirkomulag matvælaframleiðslu til neyðarbirgða á Alþingi. Tillagan felur í sér að atvinnuvegaráðherra verði falið að útfæra fyrirkomulag vegna neyðarbirgða landbúnaðarafurða sem hægt er að framleiða hér á landi við endurskoðun búvörusamninga árið 2026. Markmiðið er að tryggja lágmarksbirgðir af landbúnaðarafurðum í landinu hverju sinni.

Skilgreining á neyðarbirgðum

Nauðsynlegt er að skýra hvað átt er við með neyðarbirgðum, til hve langs tíma sé horft og hvaða aðstæðna. Mismunandi vá sem steðjað getur að getur kallað á mismunandi viðbúnað. Bæði þarf að horfa til birgða af vörum sem tilbúnar eru til neyslu auk aðfanga eins og orku, eldsneytis, áburðar, fóðurs og umbúða. Þá er trygg greiðslumiðlun einnig mikilvæg forsenda þess að útvega megi lykilaðföng eins og fóður, lyf og umbúðir.

Reynsla af áföllum og framtíðarsýn

„Mikilvægt er, þegar litið er til framtíðar, að horfa til reynslu af þeim áföllum sem á okkur hafa dunið á undanförnum árum. Ýmsar hamfarir, heimsfaraldrar og stríðsátök geta gert það að verkum að flutningsleiðir til landsins stöðvist. Við þær aðstæður þarf að tryggja að lágmarksbirgðir séu til af matvælum í landinu á hverjum tíma,“ sagði Þórarinn Ingi. Samkvæmt skýrslu um neyðarbirgðir sem flutt var á Alþingi í byrjun október árið 2022 er staða neyðarbirgða í landinu ekki viðunandi. Kortleggja þarf stöðuna betur og leggja til áhrifaríkar aðgerðir og leiðir til að tryggja að lágmarksbirgðir matvæla séu til fyrir þjóðina á hverjum tíma.

Inngrip ríkisvaldsins og geymslugjald

Byggja þarf upp fyrirkomulag sem tryggir að nægilegt magn afurða sé til á hverjum tíma sem og að jafnvægi ríki á markaði með landbúnaðarafurðir. Fyrirkomulagið getur falið í sér inngrip ríkisvaldsins í formi stuðnings til að geyma afurðir í tiltekinn tíma hjá afurðastöðvum/framleiðendum til að tryggja birgðahald. Slíkt fyrirkomulag þekkist í öðrum löndum til að tryggja lágmarksbirgðahald og jafnvægi á mörkuðum. Slíkar aðgerðir þurfa að miða að mismunandi tegundum framleiðsluvara og geymslutíma þeirra þar sem beita þarf ólíkum leiðum fyrir mismunandi tegundir landbúnaðarafurða.

Uppbygging kornræktar á Íslandi

Skoða þarf einnig sérstaklega uppbyggingu kornræktar og geymslu á kornbirgðum hér á landi. Byggja þarf upp viðamikil kornsamlög þar sem fjárfest yrði í innviðum vegna kornræktar til manneldis og skepnufóðurs. Talsverðir fjármunir verða settir í að auka kornrækt á Íslandi á næstu árum, en tveir milljarðar króna eiga að fara í kynbætur á plöntum, þróun á jarðbótum og fjárfestingu í innviðum. Það er mikilvægt fyrsta skref en gera þarf meira. Flutningsmenn telja að skoða þyrfti svipað fyrirkomulag og með hin hefðbundnu matvæli hvað varðar geymslugjald til þess að tryggja að umframbirgðir yrðu til staðar á hverjum tíma. Með þessu fyrirkomulagi væri hægt að festa kornrækt í sessi sem búgrein hér á landi, bæta fæðuöryggi þjóðarinnar og efla innlenda framleiðslu til framtíðar.

Categories
Fréttir

Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna tjóns bænda?

Deila grein

18/03/2025

Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar vegna tjóns bænda?

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi fyrirspurn til forsætisráðherra á Alþingi vegna verulegs tjóns sem bændur urðu fyrir á síðasta ári, einkum vegna kals í túnum og erfiðra skilyrða í grænmetis- og kartöfluræktun.

Tjón bænda metið allt að 1,5 milljörðum

Í máli Sigurðar Inga kom fram að tjónið hjá ræktendum væri metið á milli 1,3 og 1,5 milljarða króna. Hann benti jafnframt á að slíkur stuðningur væri ekki hluti af hinu almenna stuðningskerfi landbúnaðarins og því væri staðan sérlega erfið fyrir bændur sem nú þyrftu að fjárfesta í útsæði, fræi og áburði fyrir komandi ræktunarár.

„Ég sá að eðlilegar landgræðslubætur og tjónabætur vegna ágangs álfta og gæsa voru greiddar út 12. febrúar, eða það var alla vega frétt um það úr Stjórnarráðinu, en hérna er um að ræða annars konar mál sem kemur sem betur fer ekki upp nema endrum og eins.“

Stuðningskerfi bændum ekki nægilegt

Sigurður Ingi sagði ríkisstjórnina á hverjum tíma oft hafa tekið slík mál til umfjöllunar þegar þau kæmu upp.

Sigurður Ingi spurði forsætisráðherra hvort núverandi ríkisstjórn hefði fjallað um málið og hvaða aðgerðir væru fyrirhugaðar. Hann lagði áherslu á mikilvægi þess að brugðist yrði við tjóninu með hraði, enda væri staða bænda orðin afar bágborin þegar kæmi að undirbúningi næsta ræktunartímabils.

Forsætisráðherra vill styrkja tryggingakerfi bænda

Forsætisráðherra svaraði því til að hún væri meðvituð um alvarlega stöðu bænda og nefndi að því miður væru engar tryggingar sem gætu gripið þennan hóp. Hún staðfesti að atvinnuvegaráðherra væri með málið til skoðunar, meðal annars með tilliti til hugsanlegs fjárauka. Hún lagði jafnframt áherslu á nauðsyn þess að koma á tryggingakerfi fyrir bændur til framtíðar, þar sem slíkar aðstæður gætu reglulega komið upp.

Notið varasjóðinn

Sigurður Ingi brást við svari forsætisráðherra með því að túlka svar hennar á jákvæðan hátt en sagði jafnframt óþarft að skjóta á fyrri ríkisstjórn fyrir að hafa ekki gert ráð fyrir slíkum atburðum í fjárlögum. Hann benti á að varasjóður væri einmitt ætlaður til að bregðast við ófyrirséðum aðstæðum og að ríkisstjórnin ætti nú að nota hann til að koma bændum til hjálpar.