Categories
Fréttir

38. Flokksþing Framsóknar í Reykjavík 14.-15. febrúar 2026

Deila grein

20/10/2025

38. Flokksþing Framsóknar í Reykjavík 14.-15. febrúar 2026

Haustfundur miðstjórnar hefur boðað til 38. Flokksþings Framsóknar helgina 14.-15. febrúar 2026 á Hilton Reykjavík Nordica í Reykjavík. Á þinginu verður mótuð meginstefna flokksins í landsmálum, kosið í lykilembætti og sett ný eða endurskoðuð flokkslög.

    Samkvæmt lögum Framsóknar er flokksþing haldið eigi sjaldnar en annað hvert ár og að jafnaði á fyrri hluta árs. Flokksþing hefur æðsta vald í málefnum flokksins.

    Á dagskrá þingsins er meðal annars að kjósa formann Framsóknar, sem jafnframt verður formaður miðstjórnar, auk varaformanns, ritara og tveggja skoðunarmanna reikninga. Þá verður kosið í laganefnd og siðanefnd; tveir meðstjórnendur og tveir til vara í hvora nefnd.

    Helstu dagsetningar og skilafrestir

    15. janúar: Viðmiðunardagur fulltrúatölu aðildarfélaga.

    30. janúar: Lagabreytingum skal skila til flokksskrifstofu.

    7. febrúar kl. 10.00: Kjörbréfum skal skila til flokksskrifstofu.

      Fulltrúar og þátttaka

      Hvert flokksfélag getur sent einn fulltrúa með atkvæðisrétt fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala miðast við félagatal sem liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing.

      Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum viðkomandi aðildarfélags. Tilkynna skal val á fulltrúum til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett.

      Allir félagsmenn Framsóknar eiga rétt á að sækja flokksþing með málfrelsi og tillögurétt, en miðstjórnarmenn eiga jafnframt sæti á þinginu með atkvæðisrétti.

      Categories
      Fréttir

      Lilja Rannveig nýr ritari Framsóknar

      Deila grein

      20/10/2025

      Lilja Rannveig nýr ritari Framsóknar

      Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, varaþingmaður, var kjörin ritari Framsóknar á haustfundi miðstjórnar á laugardaginn. Alls greiddu 169 miðstjórnarfulltrúar atkvæði og fór kosningin þannig: Lilja Rannveig hlaut 90 atkvæði (53,3%), Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar Múlaþings, hlaut 46 atkvæði (27,2%) og Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, hlaut 33 atkvæði (19,5%).

      „Ég er afar þakklát fyrir traustið og spennt fyrir nýju hlutverki,“ sagði Lilja Rannveig eftir kjörið. „Mikil verkefni eru fram undan þar sem sveitarstjórnarkosningar nálgast.“

      Lilja Rannveig hefur verið virk í starfi flokksins í yfir áratug. Hún var kjörin formaður Sambands ungra Framsóknarmanna árið 2018 og gengdi því embætti til ársins 2021. Lilja Rannveig var kjörin til setu á Alþingi í alþingiskosningunum 2021 fyrir Norðvesturkjördæmi og var alþingismaður til 2024. Hún er í dag formaður málefnanefndar flokksins og vinnur að málefnastarfi fram að Flokksþingi. Lilja Rannveig er formaður Framsóknarfélags Borgarbyggðar.

      Við í Framsókn óskum Lilju Rannveigu innilega til hamingju með kjördið og þökkum jafnframt fráfarandi ritara Framsóknar Ásmundi Einari Daðasyni fyrir mjög gott og öflugt starf í þágu flokksins.

      Categories
      Fréttir

      Stjórnmálaályktun miðstjórnar

      Deila grein

      20/10/2025

      Stjórnmálaályktun miðstjórnar

      Miðstjórnarfundur Framsóknar haldinn 18. október 2025 gagnrýnir stefnulausa og þróttlitla efnahagsstjórn ríkisstjórnarinnar sem bitnar á heimilum landsins. Verðbólgan eykst og vaxtalækkunarferlið hefur brotlent. Þrátt fyrir að húsnæðisvandinn sé einn helsti drifkraftur verðbólgu og hárra vaxta, skilar ríkisstjórnin auðu í þeim málaflokki.

      Framsókn er flokkur fjölskyldunnar og brýnir stjórnvöld til þess hlúa betur að fólkinu í landinu. Stjórnvöld verða að standa með sveitarfélögunum sem veita almenningi mikilvægustu nærþjónustuna. Miðstjórn Framsóknar leggur ríka áherslu á að gripið verði til aðgerða til þess að efla íslenskukennslu, sérstaklega fyrir börn af erlendum uppruna. Það er grundvallaratriði svo öll börn á Íslandi standi jafnfætis í námi og njóti jafnra tækifæra. Miðstjórn mótmælir því harðlega áformum ríkisstjórnarinnar um að skera niður fjárveitingar til íslenskukennslu fyrir innflytjendur.

      Fjárfesting í menntun og velferð barna er ein besta fjárfesting sem hvert samfélag getur ráðist í. Réttlátt samfélag hugar ekki síður að lýðheilsumálum og þjónustu við eldra fólk og tryggir þeim verst stöddu mannsæmandi lífskjör.

      Ljóst er að ríkisstjórnin hyggst auka miðstýringu og takmarka vald nærsamfélaga til að taka ákvarðanir um eigin mál. Framsókn mótmælir þessari stefnu harðlega. Ákvörðunarvald hvers sveitarfélags yfir sínum málum er hornsteinn stjórnskipunar Íslands. Framsókn mun berjast fyrir því að þessi grundvallarréttindi verði virt og að samvinna ríkis og sveitarfélaga verði efld á jafnræðisgrundvelli.

      Miðstjórn Framsóknar gagnrýnir harðlega að ríkisstjórnarflokkarnir skuli ótrauðir stefna inn í  Evrópusambandið þrátt fyrir afgerandi yfirlýsingar fyrir kosningar um að aðild væri ekki á dagskrá. Það eru svik við kjósendur. Miðstjórn Framsóknar hafnar alfarið þeirri vegferð og fordæmir þá forgangsröðun sem setur aðild að Evrópusambandinu ofar brýnum aðgerðum til stuðnings heimila og fjölskyldna í landinu.

      Ríkisstjórnin hefur einnig svikið skýr loforð til kjósenda um að hækka ekki skatta á almenning og atvinnulíf. Nú þegar hafa verið lagðar til umtalsverðar skattahækkanir á bæði einstaklinga og fyrirtæki en samt er áætlaður halli á ríkisrekstri umtalsverður.

      Ríkisstjórnin hóf kjörtímabilið á því að vega að tveimur af grunnatvinnuvegum þjóðarinnar, sjávarútvegi og ferðaþjónustu, og stefnir að því að veikja íslenskan landbúnað. Frumvarp atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögum grefur undan byggðum landsins, matvælaframleiðslu og lífsviðurværi bænda.

      Miðstjórn Framsóknar vill auka sjálfbæra orkuframleiðslu, tryggja orkuöryggi og jöfn tækifæri til verðmætasköpunar um allt land. Þá leggur miðstjórn áherslu á náttúruvernd og að eignarhald auðlinda séu í íslenskum höndum.

      Framsókn er flokkur sem vinnur að hagsmunum allra íbúa, hvort sem þeir búa á höfuðborgarsvæðinu eða landsbyggðunum. Framsókn berst fyrir hag Íslands, bæði innanlands og utan og hafnar öfgum hvort sem er til vinstri eða hægri.

      Framsókn er leiðandi afl í sveitarfélögum landsins og mun mæta af krafti inn í komandi sveitarstjórnarkosningar. Sterk Framsókn skiptir sköpum fyrir framtíð landsins.

      Samþykkt á haustfundi miðstjórnar haldinn í Reykjavík laugardaginn 18. október 2025.

      Categories
      Fréttir Greinar

      Takk Sigurður Ingi

      Deila grein

      19/10/2025

      Takk Sigurður Ingi

      Þegar leiðtogi tekur ákvörðun um að kveðja er ástæða til að staldra við, líta um öxl og þakka. Á nýafstöðnum miðstjórnarfundi Framsóknar gerði Sigurður Ingi grein fyrir ákvörðun sinni um að sækjast ekki eftir endurkjöri á komandi flokksþingi Framsóknar. Með ákvörðun sinni að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku hefur Sigurður Ingi Jóhannsson lokað merkum kafla í sögu Framsóknarflokksins og íslenskra stjórnmála. Hann gengur frá borði sem einn merkasti leiðtogi flokksins frá upphafi – á sama stalli og Ólafur Jóhannesson, Steingrímur Hermannsson, Halldór Ásgrímsson og Eysteinn Jónsson. Í anda þeirra allra hefur hann unnið af skynsemi, festu og hlýju – og markað djúp spor í íslenskt samfélag.

      Tímabil uppbyggingar og stöðugleika

      Undir forystu Sigurðar Inga lifði íslenskt samfélag einn öflugasta áratug í sögu landsins. Árin 2013 til 2024 má kalla „Framsóknaráratuginn“ – tímabil þar sem lífskjör þjóðarinnar styrktust meira en nokkru sinni fyrr í 81 árs sögu lýðveldisins. Íslenskt samfélag er á alla mælikvarða eitt það fremsta, ekki aðeins í Evrópu, eða á Norðurlöndum, heldur í heiminum öllum.

      Árangurinn er ekki tilviljun heldur afrakstur traustrar stjórnarstefnu sem byggir á samvinnu og ábyrgð. Framsókn leiddi fölmörg lykil verkefni sem tryggðu meiri jöfnuð, aukinn stöðugleika og traust til framtíðar. Það var einmitt þessi festuhefð flokksins sem Sigurður Ingi stóð vörð um – að Framsókn væri ekki flokkur skammtímahagsmuna heldur langtímasýnar, byggð á traustum grunni samfélagslegra gilda.

      Kletturinn í hafinu

      Sigurður Ingi hefur sýnt ótrúlega seiglu í mótlæti. Hann tók við forsætisráðuneytinu og flokknum á erfiðum tímum þegar margir höfðu afskrifað hann eftir afsögn Sigmundar Davíðs í kjölfar Wintris málsins. Á flokksþingi haustið 2016 var Sigurður Ingi kjörinn formaður. Á flokksþinginu kaus grasrót Framsóknar ekki aðeins um persónur, heldur um framtíð flokksins og hvaða leið hún vildi fara. Við þekkjum öll erfiðleikana og átökin sem þessu fylgdu. Með ró, vinnusemi og ósérhlífni tókst honum að sameina flokkinn að nýju á skömmum tíma, endurheimta traust þjóðarinnar og leiða hann til áhrifa og stórra sigra, ekki síst í kosningum til Alþingis haustið 2021 og í sveitarstjórnarkosningum 2022. Sigurður Ingi er leiðtogi sem lætur verkin tala. Ekki hávær leiðtogi, heldur stöðugur og traustur, ekki síst þegar á reynir. Áherslan á jöfnuð, ábyrgð og samvinnu – gildi sem eru hjarta Framsóknar. Formannstíð Sigurðar Inga spannar tæpan áratug. Það er langur tími í eldlínunni en kletturinn í hafinu hefur ekki látið öldurótið hagga sér, heldur gengur frá borði á eigin forsendum.

      Formaður samvinnunnar

      Sigurður Ingi hefur alltaf verið sannur samvinnumaður. Hann trúir því að pólitík eigi ekki að snúast um sundrungu, heldur samvinnu og trú á að með lausnamiðuðu samtali megi leysa flóknustu viðfangsefni samfélagsins. Byggja brýr á milli ólíkra sjónarmiða, milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Á krefjandi tímum tókst honum að halda saman ólíkum stjórnarflokkum og skapa þann pólitíska stöðugleika sem þjóðin þráði.

      Hann leitaði samtals, ekki átaka. Hann trúir á að tala við fólk – ekki yfir það. Hann treysti regluverki flokksins, stofnunum hans og grasrótinni. Þessi djúpa sannfæring hans – að styrkur Framsóknar spretti úr fólkinu sjálfu – er rauður þráður í allri hans leiðtogatíð.

      Framsóknaráratugurinn – arfleifð framtíðarsýnar

      Í ræðu sinni á miðstjórnarfundinum lýsti hann verkum flokksins með stolti: nýjar stoðir undir efnahag þjóðarinnar, fjölbreyttara atvinnulíf, sterkari velferðar- og heilbrigðiskerfi og sterkari landsbyggð. Hann minnti á að þegar Framsókn leiðir, þá dafni íslenskt samfélag.

      Hann dró fram skýra mynd af verkefnum framtíðarinnar – baráttunni við verðbólgu, nauðsyn róttækra umbóta á húsnæðismarkaði, og mikilvægi þess að tryggja jafna stöðu allra landsmanna óháð búsetu og efnahag. Hann talaði fyrir íslenskri leið, lausnum sem byggja á eigin styrk – ekki á afsali fullveldis eða innflutningi hugmyndafræði frá Brussel.

      Í ræðu sinni setti einnig fram sterk samfélagsleg markmið: að lengja fæðingarorlof, styðja barnafólk og halda áfram farsældarátakinu fyrir börnin og ungmennin okkar. Hann minnti á að engin þjóð geti byggt framtíð án þess að hlúa að börnunum – og engin þjóð standi sterk ef hún gleymir tungumáli sínu.

      Sterk rót, græn framtíð

      Sigurður Ingi tengdi verk sín og framtíðarsýn við söguna. Hann minnti á stjórnkænsku Steingríms, staðfestu Halldórs, stjórnþekkingu Ólafs og umhverfishugsjónir Eysteins. Þannig kallaði hann fram heildarmynd af Framsókn – sem flokki framfara, samvinnu og náttúruverndar.

      Hann benti á að flokkurinn eigi nú tækifæri til að endurheimta stöðu sína sem grænt afl skynseminnar, með áherslu á sjálfbærni, jafnvægi og heilbrigða nýtingu auðlinda þjóðarinnar. Þannig sé Framsókn í senn arftaki fortíðar og leiðarljós framtíðar.

      Þakklæti og arfleifð

      Þegar Sigurður Ingi nú kveður nú senn formennsku flokksins er það ekki endir heldur umbreyting. Tækifæri fyrir flokkinn til að kjósa sér nýja, ferska forystu til að leiða næsta Framsóknaráratug. Sigurður Ingi heldur áfram að starfa fyrir Framsókn og fyrir landið af sama eldmóði og áður. En með brotthvarfi hans frá forystu lýkur stórmerkilegri tíð og nýr kafli hefst í sögu Framsóknar.

      Við hugsum til leiðtoga sem skapaði stöðugleika, lyfti lífskjörum, styrkti trú á miðjunni og minnti okkur á að pólitík er ekki valdatafl – heldur þjónusta við fólkið í landinu.

      Takk

      Takk fyrir að hafa leitt okkur af heiðarleika og æðruleysi.

      Takk fyrir að hafa trúað á fólk, á samvinnu og á framtíð Íslands.

      Takk fyrir að hafa verið rödd skynseminnar þegar vindar blésu.

      Takk fyrir lærdómsríkt, kærleiksríkt og einstakt samstarf.

      Og takk fyrir að hafa kennt okkur að þau fræ sem við sáum í jarðveg samvinnunnar verða síðar að trjám sem skýla komandi kynslóðum.

      Framsókn stendur sterk, því rætur okkar eru djúpar – og verk Sigurðar Inga Jóhannssonar, eins helsta leiðtoga í sögu flokksins, og eins merkasta stjórnmálamanns aldarinnar, munu aldrei gleymast.

      Höfundur er framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins

      Categories
      Fréttir Greinar

      Mér kvíðir slæm ís­lenska ung­menna

      Deila grein

      19/10/2025

      Mér kvíðir slæm ís­lenska ung­menna

      Ungmenni Íslands eru sjúk, einhverjir myndu jafnvel segja þau fárveik. Þessi sjúkdómur sem hrjáir þorra ungu kynslóðarinnar og annað fólk er sýki sem mun valda fleiri dauðsföllum en sjálfur svarti dauði. Þetta er jú hinn illkvittna og banvæna „þágufallsýki“ sem kemur sér svo fallega fyrir í fyrirsögn þessarar greinar. En er hún eins slæm og fólk segir hana vera eða er hún eðlileg þróun á notkun tungumálsins?

      Ég hef óhemju mikinn áhuga á okkar ástkæra, ylhýra; öll fögru ljóðin okkar, skáldsögur, söngtextar og eldræður sem eru uppbyggð af okkar sterka tungumáli. Það er þó óneitanlegt að málfar ungmenna, minnar kynslóðar, fer hrörnandi. En hverjum á um að kenna? Eru það samfélagsmiðlarnir alræmdu eða málnotkun foreldra okkar eða vantar kannski annan Laxness sem mun skrifa nógu góða bók svo að okkur ungmennum langi til að lesa hana. Það eru augljóslega mörg atriði sem hægt er að benda á varðandi ástæður þess að ungt fólk talar lakari íslensku en eldri kynslóðir þjóðarinnar, en fyrst verður almúginn að vera sammála um að þetta sé viðurkennt og raunverulegt vandamál og miðað við tíðarandann og undanfarnar umræður er hægt að gefa sér að raunin sé sú.

      Hvað nú? Hvernig er hægt að taka á þessu vandamáli og bjarga íslensku tungunni sem virðist vera að missa sinn vöðvastyrk með hverri könnun sem birt er um íslenskukunnáttu ungmenna?

      Ekki hef ég svarið og virðast stjórnmálamenn í ráðherrastólum jafn ráðalausir og ég, þar sem ekkert bendir til þess að einhver úrræði séu til staðar innan ráðuneyta til að takast á við þetta vandamál. Menntamálaráðherra er ekki bara sofandi á verðinum heldur liggur hann í kör. Stjórnvöld dýrka að minnast á mikilvægi ungu kynslóðarinnar og framtíðina sem býður hennar, en kæra sig kannski ekki svo mikið um hin ýmsu vandamál sem hrjá okkur, hvað þá umrætt vandamál. Fyrrum ríkisstjórn setti upp ákveðnar aðgerðaráætlanir sem varða málefni íslensku tungunnar og virðist sú ríkisstjórn hafa áttað sig á alvöru málsins með því að vinna að lausnum. En núverandi ríkisstjórn gengur þvert á móti þessari lausn þar sem stefnt er á að draga úr fjárframlögum til íslenskukennslu til útlendinga, sem er eitt af áherslumálum í aðgerðaráætluninni. Þessi skilaboð sem ríkisstjórnin sendir varðandi úrbætur á notkun íslenskunnar er mér mikið áhyggjuefni.

      Mun ég sjálf þurfa að stóla á minn eigin áhuga á íslensku til að börnin mín verði læs og almennilega mælsk og skrifandi á sínu móðurmáli? Ekki treysti ég núverandi menntakerfi né ráðandi stjórnvöldum til að sinna sínum skyldum varðandi það. Þannig að kannski er raunin sú að þegar öllu er á botninn hvolft að þetta er í okkar eigin höndum og í okkar stjórn þegar ekki er hægt að treysta á stuðning og leiðbeiningu menntakerfisins.

      Elín Karlsdóttir, varaformaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

      Greinin birtist fyrst á visir.is 19. október 2025.

      Categories
      Fréttir Greinar

      Uppbygging og kerfisbreytingar fyrir fólk

      Deila grein

      16/10/2025

      Uppbygging og kerfisbreytingar fyrir fólk

      Að kaupa sér fasteign er ein stærsta fjárhagslega ákvörðun sem einstaklingur tekur á ævinni. Fólk þarf að geta skipulagt framtíð sína með trú á efnahagslegt jafnvægi og öryggi, án þess að sveiflur í verðbólgu og vöxtum setji fjárhagslegt öryggi og framtíðaráætlanir fólks í uppnám. Fyrirsjáanleiki í afborgunum húsnæðislána er þar lykilatriði, því hann gerir fólki kleift að gera raunhæfar áætlanir til langs tíma. Það krefst stöðugs efnahagsumhverfis og lánakerfis sem þjónar fólkinu, ekki öfugt.

      Óverðtryggð lán skapa stöðugleika

      Til að ná fram slíkum stöðugleika þarf að endurskoða lánakerfið og bjóða upp á óverðtryggð húsnæðislán til langs tíma, líkt og tíðkast í öllum nágrannalöndum okkar. Slíkt kallar á kerfisbreytingar sem ég hóf skoðun á þann stutta tíma sem ég var í fjármálaráðuneytinu. Á grundvelli þeirrar vinnu liggja nú fyrir tillögur í skýrslu dr. Jóns Helga Egilssonar sem birt var í upphafi þessa árs.

      Niðurstaða skýrslunnar er að við getum boðið upp á óverðtryggð langtímalán, rétt eins og tíðkast annars staðar á Norðurlöndum. Slík leið er raunhæf og framkvæmanleg, og Framsókn hefur þegar lagt fram þingmál á Alþingi sem miða að því að gera þessa breytingu mögulega. Þessi breyting mun að auki gera fjármögnun ríkissjóðs hagkvæmari til framtíðar og lækka vaxtakostnað. Áætlað er að vaxtagjöld ríkissjóðs nemi um 125 milljörðum króna árið 2026. Hagkvæmari fjármögnun mun því skila ríkissjóði miklu sem við getum þá nýtt til eflingar innviða eða bættrar þjónustu.

      Með þeirri kerfisbreytingu sem við höfum lagt til mun vægi verðtryggðra lána dragast verulega saman, sem gerir alla hagstjórn markvissari og stöðugri. Það er mikilvægt að stíga út úr umhverfi verðtryggðra húsnæðislána, og þingmál Framsóknar er skref í þá átt. Þetta er áfangi að heilbrigðara fjármálaumhverfi, þar sem stöðugleiki, fyrirsjáanleiki og traust verða meginstoðir íslensks efnahagslífs.

      Það er miður að fjármálaráðherra Viðreisnar hafi hafnað því að ráðast í nauðsynlegar breytingar sem myndu gera þetta að veruleika. Sú afstaða er í raun þvert á það sem bæði forystufólk verkalýðshreyfingar og atvinnulífs hefur kallað eftir. Eina lausn ríkisstjórnarinnar virðist nú felast í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sem er hvorki skjót né einföld leið til að takast á við þau brýnu, innlendu efnahagsvandamál sem íslensk heimili standa frammi fyrir.

      Fleiri lóðir, fjölbreyttari uppbygging

      En það þarf að grípa til fleiri aðgerða til að ná jafnvægi á húsnæðismarkaðnum. Sveitarfélög þurfa jafnframt að auka framboð lóða og tryggja að fólk geti sjálft byggt sér heimili, ekki eingöngu í gegnum stórverktaka. Víða um land er það orðið nánast ógerlegt að kaupa eða byggja sitt eigið húsnæði, hvort sem er vegna skorts á lóðum eða kostnaðar sem gerir einstaklingum erfitt að standa í slíku. Við treystum fólki til að ala upp börnin sín og taka ábyrgð á eigin lífi, en samt er því oft ekki treyst né gert kleift að kaupa lóð á viðráðanlegum kjörum og reisa sitt eigið heimili. Þessu þarf að breyta.

      Til þess þarf samhæfðari sýn og heildstætt svæðisskipulag, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, með það að markmiði að stórauka lóðaframboð og gera einstaklingum og smærri byggingaraðilum kleift að byggja heimili á eigin forsendum. Nýtt skipulag þarf að vera raunhæft og í takt við þarfir fólks, þannig að aðgengi, samgöngur og bílastæði endurspegli daglegt líf og venjur heimila.

      Við eigum að endurnýja þá hugsun sem einkenndi húsnæðissamvinnufélög fyrri tíma, þegar fólk tók höndum saman og byggði sitt eigið húsnæði. Sú sýn var á grunni samvinnu og samhjálpar, og þannig reis mikill fjöldi heimila, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Það þarf að tryggja að sú leið sé raunhæfur valkostur fyrir einstaklinga og fjölskyldur í dag.

      Innviðagjöld og tekjuskipting

      Jafnframt þarf að huga að því að innviðagjöld og álögur sveitarfélaga auki ekki kostnað við nýtt húsnæði og ýti þannig undir verðbólgu. Það er raunverulegt vandamál að lóðagjöld fyrir íbúð geti numið allt að tuttugu milljónum króna, sem einstaklingar og fjölskyldur þurfa að greiða áður en nokkrar framkvæmdir hefjast. Þetta kerfi setur mörgum skorður og dregur úr möguleikum fólks til að byggja sér heimili á eigin forsendum. Samhliða þarf að endurskoða tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, enda munu lægri innviðagjöld óhjákvæmilega hafa áhrif á tekjur sveitarfélaga og því þarf að mæta því með slíkri endurskoðun.

      Við þurfum aðgerðir sem breyta stöðunni á íslenskum húsnæðismarkaði, stuðla að auknum stöðugleika og gera hagstjórnina beittari og skilvirkari til framtíðar. Þetta eru leiðir til þess.

      Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar.

      Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. október 2025.

      Categories
      Fréttir Greinar

      Í Hafnar­firði finnur unga fólkið rými, rödd og raun­veru­leg tæki­færi

      Deila grein

      16/10/2025

      Í Hafnar­firði finnur unga fólkið rými, rödd og raun­veru­leg tæki­færi

      Það er engum blöðum um það að fletta að Hafnarfjörður stendur sig einstaklega vel þegar kemur að því að hlusta á ungt fólk, skapa tækifæri og stuðla að samvinnu.

      Á undanförnum misserum hefur bærinn byggt upp öflugt net þar sem ungmenni fá að láta ljós sitt skína, taka þátt, læra og hafa áhrif. Tvö dæmi sem sýna þessa nálgun sérstaklega vel eru annars vegar öfluga félags- og nýsköpunarstarfið sem nú er í gangi við Lækinn og hins vegar félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni.

      Þar sem ungt fólk finnur sinn stað

      Félagsstarf fyrir ungt fólk í Hafnarfirði hefur tekið miklum breytingum og blómstrar nú á nokkrum stöðum í bænum. Gamli Lækjarskóli er orðinn lifandi samkomustaður fyrir ungt fólk með fjölbreytt áhugamál.

      Þar má m.a. finna:

      • Hreiðrið við Lækinn. Staður fyrir ungmenni til að hittast í notalegu og skapandi umhverfi. Ungmennaráð nýtir aðstöðuna til að funda og fleira.
      • Músík við Lækinn. Það er tónlistar- og upptökurými þar sem hægt er að spila, semja og taka upp.
      • Nýsköpunarsetrið við Lækinn. Þar eru m.a. stafrænar smiðjur, myndvinnsluaðstaða, listasalur og vinnurými fyrir frumkvöðla og skapandi einstaklinga.
      • Gafló leiklistarskólinn í umsjón Gaflaraleikhússins. Þar er boðið uppá kennslu í leik- og sviðslistum.

      Á öðrum stöðum:

      • Kletturinn. Félagsstarf fyrir fatlað ungt fólk. Þar er lögð áhersla á jafningjastuðning og sjálfstæði. Kletturinn er staðsettur á Suðurgötu.
      • Bergið. Frí ráðgjöf fyrir 12 – 25 ára þar sem má ræða líðan, álag og sambönd á öruggan og trúnaðarmiðaðan hátt. Bergið er til húsa við Austurgötu.
      • Mótorhúsið. Það er fyrir þau sem hafa áhuga á vélum og tækni og vilja læra í öruggu umhverfi. Mótorhúsið er til húsa í Kvartmíluklúbbnum.

      Þetta eru ekki bara verkefni, þetta er vettvangur þar sem ungt fólk getur bæði skapað og lært og fundið sína rödd innan samfélagsins.

      Félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni í Hafnarfirði

      Í Hafnarfirði er öllum ungmennum ætlaður staður þar sem þau geta verið þau sjálf, óháð kyni, kynhneigð eða bakgrunni.

      HHH er félagsmiðstöð og samveruvettvangur fyrir hinsegin ungmenni og aðra sem vilja hittast á öruggum og hlýjum stað. Þar er lögð áhersla á að skapa hlýlegt andrúmsloft þar sem virðing, umburðarlyndi og vinátta ráða för.

      HHH er hluti af þeirri víðtæku stefnu Hafnarfjarðar að tryggja að öll ungmenni í bænum finni sig velkomin og hafi sinn stað.

      Þannig sýnir Hafnarfjörður í verki að samfélag styrkist þegar öll fá að tilheyra.

      Við vinnum þetta saman

      Það sem sameinar öll þessi verkefni er einfalt, við vinnum þetta saman.

      Hafnarfjörður trúir á unga fólkið sitt, á kraftinn, hugmyndirnar og hæfileikana sem búa í hverjum og einum.

      Við viljum skapa samfélag þar sem ungmenni fá ekki bara tækifæri heldur taka virkan þátt, þar sem á þau er hlustað, hugmyndir þeirra teknar alvarlega og þau fá stuðning til að blómstra á eigin forsendum.

      Hafnarfjörður er bær sem tekur utan um ungt fólk, treystir því og vinnur með því. Þannig byggjum við sterkari framtíð.

      Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnafjarðar.

      Greinin birtist fyrst á visir.is 16. október 2025.

      Categories
      Fréttir Greinar

      Á­vinningur fyrri ára í hættu

      Deila grein

      15/10/2025

      Á­vinningur fyrri ára í hættu

      Heilbrigðiskerfið okkar er ein af grunnstoðum samfélagsins. Á síðasta kjörtímabili náðust mikilvægir áfangar í að bæta þjónustu en nú horfum við hins vegar upp á fjölmörg merki um afturför, þar sem nýjar ákvarðanir stjórnvalda virðast grafa undan þeim árangri sem náðst hefur. Sérstaklega blasir þetta við á landsbyggðinni, þar sem íbúar utan höfuðborgarsvæðisins eins og á Akureyri og nágrenni finna nú fyrir skerðingu þjónustu og aukinni byrði.

      Árangur síðasta kjörtímabils, bætt þjónusta og lægri kostnaður

      Á síðasta kjörtímabili voru stigin stór skref til framfara í heilbrigðismálum. Markvisst var unnið að því að lækka kostnaðarþátttöku sjúklinga, bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og draga úr biðlistum.

      Samningar náðust við nær allar stéttir heilbrigðisgeirans, frá sérfræðilæknum og sjúkraþjálfurum til hjúkrunarfræðinga og tannlækna eftir margra ára óvissu og óánægju. Þessir mikilvægu samningar skiluðu betri starfsanda, stöðugleika í þjónustunni og auknu trausti milli heilbrigðisstarfsfólks og ríkisins.

      Með samningum við sjálfstætt starfandi aðila tókst að bæta nýtingu fjármagns, fjöldi liðskiptaaðgerða jókst verulega og aðgerðir til að vinna á biðlistum vegna hinna ýmsu aðgerða báru árangur.

      Á Akureyri og víðar var ráðist í uppbyggingu. Ný heilsugæsla reis í Sunnuhlíð, samningar voru gerðir um nýtt hjúkrunarheimili og fjármagn til endurhæfingar aukið. Heilbrigðisþjónusta utan höfuðborgarsvæðisins styrktist, og fólk fann raunverulega fyrir breytingu til batnaðar.

      Nú blasa við merki um afturför

      Því miður má nú sjá víða að þróunin hefur snúist við. Ný ríkisstjórn hefur tekið ákvarðanir og lagt fram lagafrumvörp sem grafa undan þeim framförum sem náðst hafa. nefna nokkur dæmi um hvernig verið er að vega að heilbrigðisþjónustunni á landsvísu.

      • Skert samningsfrelsi og óvissa í þjónustu: Nýtt frumvarp heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um sjúkratryggingar sem gerir ráð fyrir að Sjúkratryggingar Íslands geti „einhliða ákveðið greiðslur og skilmála fyrir þjónustu án samninga“ og jafnframt bannað þjónustuaðilum að innheimta gjöld af sjúklingum á meðan greitt er samkvæmt gjaldskrá stofnunarinnar. Hér er unnið gegn stefnu síðustu ríkisstjórnar og heilbrigðisstefnu til 2030 um jafnt aðgengi óháð efnahag. Ljóst er að ef þetta hefur þau áhrif að samningar við lækna losna munu einhverjir einstaklingar hreinlega neita sér um heilbrigðisþjónustu. Frumvarpið hefur mætt harðri andstöðu sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks sem benda á að þetta væri fordæmalaust inngrip ríkisins í samningsfrelsi þessara stétta og framsal valds til Sjúkratrygginga. Fulltrúar sérfræðilækna, sjúkraþjálfara, sálfræðinga og fleiri hafa varað við að þetta geti haft bein neikvæð áhrif á þjónustuna sem í boði verður.
      • Sérfræðilæknaþjónusta á Akureyri í uppnámi: Á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) var um árabil hægt að tryggja ákveðna sérfræðilæknaþjónustu í gegnum svokallaða ferliverkasamninga við sjálfstætt starfandi lækna. Nú hefur forstjóri SAk, að tilmælum ráðuneytisins, sagt upp þessum samningum. Í kjölfarið óttast íbúar og sérfræðilæknar á svæðinu verulega skerðingu á þjónustu. Ljóst er að draga verður mjög úr þjónustunni á SAk ef ekki tekst að finna lausnir til að halda sérfræðilæknunum norðan heiða.
      • Skerðing endurhæfingar á Kristnesi: Á Kristnesi er rekin mikilvæg endurhæfingardeild sem þjónustar bæði fólk í kjölfar veikinda og eldri einstaklinga. Nú hefur verið ákveðið að breyta endurhæfingardeild Kristnesspítala í svokallaða 5 daga deild frá áramótum, þ.e. leggja af hefðbundna 7 daga legudeild og hafa einungis dagdeildarþjónustu og virka daga innlagnir.
      • Loforð um nýja stöð svikið: Fyrir lá áætlun um að byggja aðra heilsugæslustöð á Akureyri til að bæta aðgengi íbúa bæjarins að grunnþjónustu. Þeirri framkvæmd hefur nú verið frestað um a.m.k. fimm ár. Þess í stað er ætlunin að reyna að fleyta núverandi kerfi með því að stækka lítillega þá stöð sem þegar er til staðar í Sunnuhlíð. Þrátt fyrir að ánægja sé með þjónustuna þar sem hún er, þá er þessi stefnubreyting mikil vonbrigði. Akureyri er ört stækkandi samfélag og þörfin fyrir öfluga heilsugæslu eykst ár frá ári.
      • Hækkandi lyfjakostnaður sjúklinga: Á sama tíma og þjónusta dregst saman á vissum sviðum, eru sjúklingar farnir að greiða meira úr eigin vasa fyrir lyf. Frá næstu áramótum tekur gildi ný þrepaskipting í greiðsluþátttöku sjúklinga í lyfjum. Hún felur í sér að einstaklingar greiða fyrst allan kostnað sjálfir, síðan 40% af verði lyfja eftir að ákveðnu þrepi er náð. Þetta er hluti af svokallaðri hagræðingaraðgerð sem á að spara ríkinu um 450 milljónir króna, fjárhæð sem leggst beint á sjúklinga og fjölskyldur um allt land. Hækkunin felur í sér raunverulega hækkun á útgjöldum þeirra sem nota mörg lyf, einkum langveikra einstaklinga og aldraðra. Þetta markar viðsnúning frá þeirri stefnu sem fylgt var á síðasta kjörtímabili þegar markvisst var unnið að því að draga úr kostnaði sjúklinga og bæta aðgengi að nauðsynlegri þjónustu.

      Tryggja þarf heilbrigðisþjónustu um land allt

      Árangurinn sem náðst hefur á síðustu árum eins og lægri greiðslubyrði sjúklinga, styttri biðlistar, bætt aðgengi og uppbygging nýrra innviða er nú í hættu.

      Sem þingmaður utan höfuðborgarsvæðisins finnst mér sérstaklega mikilvægt að árétta að heilbrigðisþjónusta þarf að standa jafnfætis fyrir alla landsmenn. Afturförin sem hefur orðið í málaflokknum bitnar þó einna harðast á landsbyggðinni þar sem hver einasta skerðing þýðir að fólk þarf annaðhvort að ferðast lengra eða bíða lengur eftir nauðsynlegri þjónustu.

      Stjórnvöld verða að endurskoða forgangsröðun sína í heilbrigðismálum.

      Það er tímabært að endurvekja þá hugsjón sem byggði upp heilbrigðiskerfið: að það sé fyrir fólkið, ekki kerfið sjálft.

      Að annars vegar læknirinn, sjúkraþjálfarinn og hjúkrunarfræðingurinn hafi svigrúm til að sinna starfi sínu og hins vegar að sjúklingurinn viti að hann fái þá þjónustu sem hann þarf, án þess að þurfa að greiða sífellt meira úr eigin vasa.

      Það er mikilvægt að eiga gott samtal og samvinnu, fjárfesta í mannauði, semja við fagstéttirnar af virðingu, lækka kostnað sjúklinga og bæta aðgengi að þjónustu, sama hvar á landinu fólk býr. Heilbrigðiskerfið á ekki að vera vettvangur niðurskurðar eða valdabaráttu, heldur sameiginlegt verkefni okkar allra í þágu landsmanna. Öflug og aðgengileg heilbrigðisþjónusta er grundvallaratriði fyrir velferð þjóðarinnar.

      Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknar.

      Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

      Categories
      Fréttir Greinar

      Gefum í – því ung­lingarnir okkar eiga það skilið

      Deila grein

      15/10/2025

      Gefum í – því ung­lingarnir okkar eiga það skilið

      Það eru margar leiðir að því að stuðla að vellíðan barna og unglinga. Ein af áhrifaríkustu leiðunum er félagsmiðstöðin. Þessi opni vettvangur þar sem ungmenni fá að vera þau sjálf, prófa sig áfram, læra, skapa og vera hluti af hópi þar sem virðing, lýðræði og þátttaka eru leiðarljós. Þarna blómstrar sjálfsmyndin og þar liggur styrkur samfélagsins. Í tilefni af því að í dag er félagsmiðstöðvardagurinn er tækifæri til að draga þær fram.

      Félagsmiðstöðvar eru meira en hús með borðtennisborði og PlayStation. Þær eru faglegt uppeldisstarf sem byggir á rannsóknum, hugmyndafræði og menntun sérfræðinga í frítímastarfi. Starfið er markvisst og meðvitað og það byggir á trausti, tengslum og að mæta börnum og unglingum á þeirra eigin forsendum.

      Við vitum að þegar við bjóðum unglingum upp á öruggt rými með jákvæðum fyrirmyndum og fjölbreyttum viðfangsefnum, þá aukum við líkurnar á heilbrigðum lífsstíl og drögum úr áhættuhegðun. Félagsmiðstöðvar eru því ekki bara „góð viðbót“, þær eru kjarninn í forvarnarstarfi og félagslegu öryggisneti ungs fólks.

      En nú er verið að draga úr! Ekki auka þessa grunnstoð. Á Akureyri var til að mynda öllu fagfólki félagsmiðstöðva sagt upp í sl. vor og starfsemin færð undir stjórn skólastjórnenda. Til að setja í samhengi má segja að það sé eins og við myndum leggja niður heilbrigðisþjónustu og segja leikskólastjórum að sinna skurðlækningum. Þetta er ekki spurning um góðan ásetning heldur spurning um fagmennsku.

      Það skiptir máli að frítími barna sé skipulagður af fólki sem hefur menntun í tómstunda- og félagsmálafræði. Fólki sem hefur þjálfun í að styðja við sjálfsmynd barna, efla félagsfærni og byggja upp verndandi tengslanet í kringum unglinga. Þetta er ekki hlutverk skólastjóra, sem sinna allt öðru fagstarfi, heldur sérfræðinga í frístundastarfi, sérfræðinga í hópaþróun, sérfræðinga í að finna styrkleika og efla þá í hverjum á einum á þeirra forsendum. Sérfræðinga í að skapa öruggt rými þar sem hægt er að rekast á í samskiptum og sérfræðinga í að veita tólin og tækin til að vinna úr þeim árekstrum ásamt öruggu rými til þess að læra af því. Sérfræðinga í ígrundun og reynslunámi. Sérfræðinga í félagsfærni sem skiptir mestu máli á tímum gervigreindar. Sérfræðinga í frítíma barna og ungmenna.

      Við sjáum merki um breytingar í unglingamenningu og í raun miklu meira en merki. Við sjáum aukna vanlíðan, aukna áhættuhegðun og aukið ofbeldi. Það sýnir hversu mikilvægt það er að eiga einhvern sem maður getur treyst. Einhvern sem segir: „Ég sé þig. Þú ert velkomin/n/ð.“ Sá “einhver” er oftar en ekki starfsfólkið í félagsmiðstöðvunum.

      Við verðum að spyrja okkur: Viljum við virkilega veikja þessa starfsemi? Eða ætlum við að styrkja hana, efla hana og veita henni þá virðingu sem hún á skilið? Því sem samfélag getum við valið. Við getum staðið með börnum og unglingum. Við getum veitt þeim rými, traust og tengsl. Við getum sagt: „Tíminn þinn skiptir máli og við erum hér til að styðja þig.“

      Ég vil að við gefum í.

      Til hamingju við öll með félagsmiðstöðvar og öryggið sem þær færa börnunum okkar og unglingum.

      Ásta Björg Björgvinsdóttir, varaborgarfulltrúi Framsóknar og formaður Framsóknar í Reykjavík.

      Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

      Categories
      Fréttir Greinar

      Er hægt að bíða lengur?

      Deila grein

      15/10/2025

      Er hægt að bíða lengur?

      Það er með miklum þunga sem Velferðar- og mannréttindaráð Kópavogsbæjar lýsir yfir áhyggjum af þeirri grafalvarlegu stöðu sem nú ríkir í þjónustu við börn og ungmenni sem þurfa á meðferðarúrræðum að halda – hvort heldur sem er vegna fjölþætts vanda eða vímuefnavanda. Þessi staða hefur verið óviðunandi lengi, en á síðustu mánuðum hefur hún farið úr böndunum.

      Þann 19. mars 2025 undirrituðu stjórnvöld samkomulag við Samband íslenskra sveitarfélaga um kostnaðar- og ábyrgðarskiptingu í þjónustu við börn með fjölþættan vanda. Samkomulagið átti að marka þáttaskil. Ríkið skyldi verja þremur milljörðum króna til málaflokksins og taka yfir framkvæmd og fjármögnun sérhæfðrar þjónustu fyrir börn sem þurfa að búa utan heimilis. Þetta var mikið fagnaðarefni – en síðan hefur ekkert gerst.

      Sveitarfélögin, sem árum saman hafa brugðist við með takmörkuðum fjármunum og ótrúlegri seiglu, standa nú ein eftir með allan kostnaðinn og ábyrgðina – enn á ný. Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafa þau ekki fengið fjármagn til að tryggja bráðnauðsynleg úrræði þar til ríkið tekur formlega við málaflokknum um áramótin.

      Á sama tíma magnast vandinn. Fjöldi leitarbeiðna vegna ungmenna í neyslu og stroki hefur aukist til muna og álagið á barnavernd og lögreglu er orðið gríðarlegt og langt umfram það sem eðlilegt getur talist, svo ekki sé talað um að börnin okkar og fjölskyldur þeirra standa eftir vonlítil og úrræðalaus. Enn er ekkert langtímameðferðarheimili til staðar fyrir drengi eftir að Lækjarbakki lokaði í apríl 2024 vegna myglu, og foreldrar hafa í örvæntingu þurft að leita út fyrir landsteinana eftir viðeigandi meðferð fyrir börn sín – mörg hver í lífshættu. Sveitarfélögin geta þar því miður ekki stutt við bakið á þeim, meðal annars þar sem eftirlit og upplýsingar um meðferðaráform, framvindu eða áætlanir eru ekki á þeirra höndum.

      Það er óásættanlegt að börn í einna viðkvæmustu stöðu samfélagsins séu látin bíða í von og óvissu á meðan áætlanir dragast og loforð gleymast. Hver dagur sem líður án aðgerða getur haft og hefur haft óafturkræfar afleiðingar fyrir þessi börn og fjölskyldur þeirra.

      Því er spurningunni hér í upphafi fljótsvarað – nei við getum ekki beðið lengur!

      Björg Baldursdóttir, formaður Velferðar- og mannréttindaráðs Kópavogs og bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins.

      Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.