Categories
Fréttir

Aukið álag á lögregluna

Deila grein

10/04/2025

Aukið álag á lögregluna

Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, ræddi í störfum þingsins um áhyggjur sínar vegna stöðu lögreglunnar, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hann benti á að verkefni lögreglunnar hafi breyst verulega á síðustu árum með aukinni hörku, ofbeldi og flóknari málum.

Trygging öryggis lögreglumanna

Stefán Vagn lagði áherslu á að öryggi lögreglumanna þurfi að vera tryggt og að lögreglan fái nægilegt fjármagn og mannafla til að sinna sínum verkefnum.

Álag og hætta á brotthvarfi

„Í samtölum við lögregluna er ljóst að við núverandi ástand verður ekki unað öllu lengur enda eykur þetta aukna álag á starfsmenn lögreglunnar, sem þeir finna fyrir á hverjum degi, hættu á brotthvarfi úr starfi, kulnun og óöryggi í vinnunni þar sem óvíst er hvenær liðsauki berst í þeim málum sem eru þess eðlis að þess sé þörf.“

Nýjar lausnir og endurskoðun inntökukerfis

Stefán Vagn kallaði eftir því að horfa út fyrir kassann og skoða nýjar lausnir, þar á meðal að endurskoða inntökukerfi í lögreglunám og gefa ómenntuðum lögreglumönnum tækifæri til að mennta sig.

Framtíðarsýn fyrir lögregluna

Stefán Vagn lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja öryggi lögreglumanna og bæta starfsumhverfi þeirra til að mæta auknum kröfum og verkefnum. Hann hvatti til þess að leita lausna til framtíðar til að bæta stöðu lögreglunnar.

Ræða Stefáns Vagns í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Ofbeldi gegn börnum í brennidepli á Alþingi

Deila grein

10/04/2025

Ofbeldi gegn börnum í brennidepli á Alþingi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi um alvarlegt ástand kynferðisofbeldis gegn börnum á í störfum þingsins á Alþingi. Hún benti á átakið „Ég lofa“ sem Barnaheill hefur staðið fyrir, þar sem kynferðisofbeldi gegn börnum er sérstaklega tekið fyrir.

Sláandi tölur

Samkvæmt nýjustu rannsóknum frá 2024, sem Barnaheill hefur tekið saman, eru tölurnar sláandi. Um 700 börn í 8.-10. bekk hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu jafnaldra og 250 börn af hálfu fullorðinna. Innan við helmingur þessara barna hefur sagt frá ofbeldinu.

Áhrif á stúlkur í 10. bekk

Halla Hrund lagði áherslu á að yfir 50% stelpna í 10. bekk hafa verið beðnar um að senda nektarmyndir og fengið óumbeðið klámfengið efni sent til sín. „Mörg mál eru tilkynnt til lögreglu en þó langt í frá stór hluti þeirra, um tvö á viku eða 126 á árinu 2024.“

Samkvæmt skýrslu Stígamóta frá 2023 voru 52,1% þeirra sem leituðu til samtakanna á barnsaldri þegar ofbeldið átti sér stað og 27,4% undir tíu ára.

Kallað eftir aukinni fræðslu

Halla Hrund kallaði eftir aukinni fræðslu og umræðu um kynferðisofbeldi gegn börnum. „Þetta er einfaldlega hræðileg staða. Hvert og eitt barn sem verður fyrir slíku ofbeldi glímir við afleiðingarnar út ævina og það er okkar skylda að tala meira um þetta og efla fræðslu.“ 

Hún skoraði á þingmenn og ráðherra málaflokksins að setja þetta mál á oddinn og tryggja að börn fái þá vernd sem þau eiga rétt á.

Ræða Höllu Hrundar í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir Greinar

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Deila grein

10/04/2025

Aldrei fleiri klárað iðnnám

Braut­skrán­ing­um úr iðnnámi hjá ein­stak­ling­um yngri en 21 árs hef­ur fjölgað um 150% frá ár­inu 2016, sam­kvæmt töl­fræði Hag­stofu Íslands. Al­gjör straum­hvörf hafa orðið í áhuga á námi í iðngrein­um.

Eitt af áherslu­mál­um síðustu rík­is­stjórn­ar var að efla iðnnám á Íslandi, og því má með sanni segja að það hafi tek­ist í góðu sam­starfi við skóla­sam­fé­lagið, at­vinnu­lífið og sveit­ar­fé­lög­in. Mennta­stefna til árs­ins 2030 legg­ur sér­stak­an metnað í iðnnám og fram­kvæmda­áætl­un um stefn­una. Megin­á­stæða þess að ráðist var í metnaðarfulla stefnu­gerð og aðgerðir var sú staðreynd að mun færri sóttu iðnnám á Íslandi en í öðrum OECD-ríkj­um. Skýr vilji stjórn­valda stóð til þess að fleiri sæktu sér starfs- og tækni­mennt­un til að koma bet­ur til móts við þarf­ir sam­fé­lags­ins.

Stjórn­völd og skóla­sam­fé­lagið gerðu sam­komu­lag árið 2020 við Sam­tök iðnaðar­ins og Sam­band ís­lenskra sveit­ar­fé­laga um að fara í sam­stillt­ar aðgerðir til að efla iðnnám í fimm liðum: Í fyrsta lagi var ráðist í um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar á iðnnámi með það að mark­miði að ein­falda skipu­lag starfs- og tækni­náms. Ný reglu­gerð var sett um vinnustaðanámið, þar sem helsta breyt­ing­in var að fram­halds­skól­ar báru ábyrgð á gerð og staðfest­ingu vinnustaðanáms­samn­inga fyr­ir iðnnema í gegn­um ra­f­ræna ferl­ibók. Í stuttu máli: Fram­halds­skól­arn­ir tóku í aukn­um mæli ábyrgð á öllu nám­inu – frá inn­rit­un til út­skrift­ar. Í öðru lagi var ráðist í breyt­ing­ar á lög­um um há­skóla­stigið, þannig að iðnmenntaðir skyldu njóta sömu rétt­inda og þeir sem lokið hafa stúd­ents­prófi til að sækja um há­skóla­nám. Í þriðja lagi var mark­visst unnið að því að bæta aðgengi að starfs- og tækni­námi á lands­byggðinni, enda ræður náms­fram­boð í heima­byggð miklu um námsval ung­menna að lokn­um grunn­skóla. Nýr Tækni­skóli er á teikni­borðinu og aðstaða bætt víða um land. Í fjórða lagi skyldi náms- og starfs­ráðgjöf í grunn­skól­um styrkt, bæði fyr­ir ung­menni og for­eldra.

Far­sæl sam­vinna og sam­starf allra lyk­ilaðila skilaði góðum ár­angri fyr­ir land og þjóð. Ég vil þakka öll­um þeim sem lögðu hönd á plóg til að efla iðnnám á Íslandi fyr­ir gott sam­starf.

Í rík­is­fjár­mála­áætl­un nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar er boðaður stór­felld­ur niður­skurður í mennta­mál­um. Sér­stakt áhyggju­efni er fram­halds­skóla­stigið, þar sem veru­lega á að lækka fjár­fram­lög­in. Með þess­um áform­um er hætta á að rík­is­stjórn­in sé að fresta framtíðinni og grafa und­an framtíðar­hag­vexti sem byggður er á mennt­un.

Ljóst er í mín­um huga að ef hand­verk iðnmenntaðra væri ekki til staðar í ís­lensku sam­fé­lagi væri afar tóm­legt um að lit­ast. Full­yrðing Njáls á Bergþórs­hvoli, um að land vort skuli byggt með lög­um, er ljóðræn og fög­ur – en raun­in er sú að miklu meira en laga­bók­staf­inn þarf til að byggja sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar og fv. mennta­málaráðherralilja­alf@gmail.com

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. apríl 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óboðleg fjármálaáætlun

Deila grein

09/04/2025

Óboðleg fjármálaáætlun

Í síðustu viku lagði rík­is­stjórn­in fram fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2026-2030. Þrátt fyr­ir yf­ir­lýs­ing­ar um ábyrgð og gegn­sæi vek­ur áætl­un­in áleitn­ar og al­var­leg­ar spurn­ing­ar um skort á skýr­leika og aðgengi Alþing­is og lands­manna að upp­lýs­ing­um um hvert stefn­ir í fjár­mál­um al­menn­ings og hins op­in­bera næstu ár. Hvaða stofn­an­ir verða lagðar niður? Hver verður stefn­an í gjald­töku auðlinda? Hvar á að hagræða? Hvaða verk­efni á að stöðva?

Blind­flug eða lang­tíma­horf­ur

Í mars 2025 kynnti fjár­málaráðherra skýrslu um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um. Þrátt fyr­ir að veita al­menna yf­ir­sýn um áskor­an­ir næstu ára og ára­tuga fjallaði skýrsl­an því miður hvorki um mik­il­væga þætti eins og vax­andi þrýst­ing frá NATO um hærri út­gjöld til varn­ar­mála, tolla­stríð sem gæti haft áhrif á gengi krón­unn­ar og út­flutn­ing (s.s. ferðaþjón­ustu), né tölu­legt um­fang innviðaskuld­ar sem krefst lang­tíma­fjár­fest­inga. Þessi van­ræksla er mjög baga­leg.

Óljós fjár­mála­stefna

Með sama hætti eru for­send­ur ný­fram­lagðrar fjár­mála­stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar til næstu fimm ára (2026-2030) í besta falli óljós­ar. Eins og í skýrslu fjár­málaráðherra um lang­tíma­horf­ur í efna­hags­mál­um, sem birt var í mars, er í fjár­mála­stefn­unni lítið sem ekk­ert fjallað um fyr­ir­huguð auk­in út­gjöld til varn­ar­mála næstu ára, sem ut­an­rík­is­ráðherra hef­ur þó gefið til kynna, nú síðast um liðna helgi.

Þá er eng­an veg­inn fjallað um mögu­leg nei­kvæð áhrif tolla­stríðs á ís­lenskt efna­hags­líf, sér­stak­lega ferðaþjón­ustu. Útlitið er ekki bjart. Það veit fólk sem starfar í grein­inni. Eng­ar tölu­leg­ar for­send­ur eru lagðar fram í því ljósi, sem vek­ur spurn­ing­ar um hvort for­send­ur hag­stjórn­ar séu rétt­ar, hvort tekju- og út­gjalda­for­send­ur stand­ist og hvort af­komu­mark­mið séu raun­hæf.

Óljós fjár­mála­áætl­un

Svo­kölluð fjár­mála­áætl­un er svo enn einn hluti af gang­verki stefnu­mörk­un­ar hins op­in­bera, og kem­ur í kjöl­far fjár­mála­stefnu. Fjár­mála­áætl­un á að veita Alþingi og al­menn­ingi skýra og inni­halds­ríka mynd af þróun út­gjalda og tekna mál­efna­sviða eins og starf­semi fram­halds­skóla, há­skóla, land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs og heil­brigðismála.

Í áætl­un­inni á að birta áhersl­ur, mark­mið og mæli­kv­arða um starf­semi s.s. á sviði mennta- og heil­brigðismála og sýna for­gangs­röðun næstu fimm árin. Nán­ast eng­in slík mark­mið koma fram. Al­menn­ing­ur get­ur eng­an veg­inn áttað sig á hvað ár­angri rík­is­stjórn­in hyggst ná á fyrr­nefnd­um mál­efna­sviðum, enda vant­ar alla mæli­kv­arða.

Alþingi sjálft veit lítið sem ekk­ert og áætl­un­in upp­fyll­ir með engu móti þær kröf­ur sem gera verður til rík­is­valds­ins um vandaða stefnu­mót­un.

Rétt­ur Alþing­is til grunnupp­lýs­inga

Sam­kvæmt lög­um um op­in­ber fjár­mál á Alþingi rétt á aðgangi að skýr­um gögn­um um mark­mið, mæli­kv­arða, tíma­setn­ing­ar og fjár­mögn­un aðgerða inn­an hvers mál­efna­sviðs sem fjalla á um í grein­ar­gerð með fjár­mála­áætl­un. Án þess­ara upp­lýs­inga get­ur þingið ekki rætt grunn­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar, sem dreg­ur úr getu þess til að sinna eft­ir­lits­hlut­verki sínu. Um hvað á að ræða ef ekk­ert markvert kem­ur fram í fjár­mála­áætl­un næstu ára um mark­mið og mæli­kv­arða í starf­semi mál­efna­sviða?

Hagræðing­ar­til­lög­ur og út­gjalda­stefna

Þá vek­ur meiri hátt­ar at­hygli að nán­ast eng­in efn­is­leg um­fjöll­un er í fjár­mála­áætl­un­inni um hagræðing­ar­til­lög­ur rík­is­stjórn­ar­inn­ar, sem þó voru kynnt­ar op­in­ber­lega ný­lega – og rík­is­stjórn­in hef­ur samþykkt. Ekk­ert ligg­ur fyr­ir um hvernig sparnaður upp á tugi millj­arða króna á ári á að nást næstu fimm ár, hvaða stofn­an­ir eigi að sam­eina eða leggja niður, svo dæmi séu tek­in. Útgjalda­for­send­ur áætl­un­ar­inn­ar eru veru­lega ótrygg­ar. Fólk, þ.m.t. op­in­ber­ir starfs­menn, veit ekk­ert um hvað koma skal.

Gilda mark­mið fyrri rík­is­stjórn­ar frá 2024?

Þar sem nán­ast eng­in mark­mið og mæli­kv­arðar koma fram um starf­semi mál­efna­sviða er rétt­mæt spurn­ing hvort mark­mið síðustu fjár­mála­áætl­un­ar, frá vori 2024, gildi enn og eigi að gilda næstu ár. Ef svo er má spyrja hvernig þau passa við nýja út­gjalda­áætl­un og stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar.

Skýrt ósam­ræmi við lög um op­in­ber fjár­mál

Sam­kvæmt 5. og 20. gr. laga um op­in­ber fjár­mál skal fjár­mála­áætl­un inni­halda skýra stefnu­mörk­un fyr­ir hvert mál­efna­svið, ásamt mark­miðum, mæli­kvörðum, fjár­mögn­un og áætlaðri tíma­setn­ingu aðgerða. Hver sá sem hef­ur grunn­færni í lestri, hvað þá grunn­færni í hag­fræði, veit hvað átt er við. Þar sem þessa efn­isþætti vant­ar upp­fyll­ir fjár­mála­áætl­un 2026-2030 ekki laga­leg­ar kröf­ur. Í stað þess að gang­ast við mis­tök­un­um og bæta úr þeim mæt­ir fjár­málaráðherra og stjórn­arþing­menn ábend­ing­un­um með full­yrðing­um sem í besta falli eru hagræðing á sann­leika máls­ins.

Blind­flugið held­ur áfram

Skort­ur á skýr­leika, gegn­sæi og aðgengi að grunnupp­lýs­ing­um í fjár­mála­áætl­un 2026-2030, sér­stak­lega um starf­semi inn­an mál­efna­sviða s.s. land­búnaðar, sjáv­ar­út­vegs, hjúkr­un­ar­heim­ila og mennta­mála, veld­ur óvissu, dreg­ur úr skiln­ingi al­menn­ings og hagaðila á stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar og veik­ir al­mennt traust á stjórn­völd­um.

Rík­is­stjórn­in verður að gera bet­ur. Til að þing­menn geti sinnt lög­bundnu hlut­verki sínu verða að liggja fyr­ir full­nægj­andi gögn í sam­ræmi við ákvæði laga. Þau eru ekki til staðar og er með öllu óboðlegt að keyra málið áfram með þeim hætti sem gert var síðastliðinn mánu­dag í þing­inu.

Stefán Vagn Stefánsson, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. apríl 2025.

Categories
Fréttir

„Fjármálaáætlunin er fúsk“

Deila grein

08/04/2025

„Fjármálaáætlunin er fúsk“

„Ríkisstjórnin sýnir enga raunverulega framtíðarsýn og vanrækir mikilvægustu málaflokkana,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, í umræðum á Alþingi í störfum þingins. Þar gagnrýndi hann fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar harðlega og sakaði hana um að fórna framtíðinni með skammsýnu fjármagni og vanrækslu á verðmætasköpun.

Sigurður Ingi benti á að ríkisstjórnin hefði tekið við ríkissjóði með 50 milljarða í umframtekjur, en engu að síður væri horft fram hjá tækifærum til að bæta stöðuna eða fjárfesta í grunnþjónustu.

„Því hefði mátt bæta fjárhag ríkissjóðs strax eða forgangsraða betur – í stað þess stefnir í niðurskurð á lykilþjónustu eins og menntun og heilbrigðismálum,“ sagði hann.

„Við erum að fresta framtíðinni“ – menntun látin sitja á hakanum

Í ræðu sinni lagði Sigurður Ingi sérstaka áherslu á stöðu menntakerfisins og kallaði stöðu framhaldsskólanna sérstaka áhyggjuefni:

„Það er eins og framhaldsskólinn sé skilinn eftir úti á þekju – þetta eru skilaboð um að fresta framtíðinni.“

Hann gagnrýndi jafnframt yfirvofandi niðurskurð í geðheilbrigðisþjónustu.

Óvissa eykst – en ríkisstjórnin minnkar varasjóð

Samkvæmt nýrri fjármálaáætlun hyggst ríkisstjórnin lækka árlegt framlag í varasjóð um 20 milljarða króna, miðað við síðustu áætlun. Þetta gerist á sama tíma og efnahagsleg óvissa á alþjóðamörkuðum eykst.

Sigurður Ingi benti á að 400 milljarðar hafi horfið úr Kauphöllinni á skömmum tíma, sem sé meira en tapðist í upphafi Covid-faraldursins.

„Á sama tíma og fjármálakerfið missir hundruð milljarða og alþjóðleg óvissa eykst, dregur ríkisstjórnin úr eigin viðbragðsgetu,“ sagði hann.

Framsókn leggur fram tillögu um innlent eignarhald í fiskeldi

Í lok ræðunnar boðaði Sigurður Ingi að Framsókn myndi leggja fram þingsályktunartillögu þess efnis að tryggja innlent eignarhald í sjókvíaeldi, með fyrirmynd frá Færeyjum. Hann lagði áherslu á að arður af auðlindum þjóðarinnar ætti að nýtast innanlands.

„Við verðum að tryggja að arðurinn af auðlindum okkar skili sér heim – það er forsenda verðmætasköpunar og lykill að því að ná 6.500 milljarða markmiðinu fyrir árið 2030.“

Ræða Sigurðar Inga í heild sinni á Alþingi:

Categories
Fréttir

Mikilvægi fjallaleiðsögunáms á Íslandi

Deila grein

07/04/2025

Mikilvægi fjallaleiðsögunáms á Íslandi

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, ræddi á Alþingi í óundirbúnum fyrirspurnum um mikilvægi fjallaleiðsögunámsins við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu á Hornafirði. Námið, sem er einstakt á Íslandi, er í hættu vegna kostnaðar og er því kallað eftir stuðningi til að tryggja áframhaldandi starfsemi þess.

Mikilvægi fyrir ferðaþjónustu og almannavarnir

Halla Hrund vakti athygli á mikilvægi námsins fyrir öryggi og fagmennsku í fjallamennsku, sérstaklega á jöklum. „Þetta er nám í sérstakri leiðsögn á jöklum sem er afar mikilvægt fyrir öryggi og fagmennsku í okkar síbreytilegu náttúru. Námið er hið eina sinnar tegundar á Íslandi og starfar í höfuðstöðvum helstu jökla landsins þar sem ferðamannafjöldi hefur aukist um rúm 500% á undanförnum árum.“

Hún benti á að nemendur sem ljúka náminu fari flestir að starfa við fagið og að það sé mikilvægt fyrir ferðaþjónustuna og almannavarnir.

Dómsmálaráðherra tekur undir mikilvægi námsins

Dómsmálaráðherra tók undir mikilvægi námsins í sínu svari og benti á að það hafi forvarnagildi. Hún nefndi að öryggismál landsmanna séu á ábyrgð dómsmálaráðuneytisins og að menntun á þessu sviði sé mikilvæg.

Halla Hrund lagði áherslu á að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi starfsemi námsins og kallaði eftir samstarfi ólíkra ráðuneyta til að leysa málið.

„Við erum að tala um þetta forvarnagildi og öryggissjónarmið fyrir okkar lykilatvinnugrein.“

Dómsmálaráðherra sagðist ætla að taka málið til skoðunar og nefna það við aðra ráðherra.

Fjallaleiðsögunámið er mikilvægt fyrir öryggi og fagmennsku í fjallamennsku á Íslandi. Það er nauðsynlegt að finna leiðir til að tryggja áframhaldandi starfsemi þess til að stuðla að öryggi ferðamanna og almannavarna.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi gagnrýnir skort á samráði um varnarmál – kallar eftir auknu samstarfi Alþingis og ríkisstjórnar

Deila grein

07/04/2025

Sigurður Ingi gagnrýnir skort á samráði um varnarmál – kallar eftir auknu samstarfi Alþingis og ríkisstjórnar

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, átti orðastað við forsætisráðherra og ræddi samráð við Alþingi um öryggis- og varnarmál. Hann gagnrýndi ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki nægilegt samráð áður en stefnumál eru lögð fram.

„Við höfum séð nýja ríkisstjórn fara af stað og í samskiptum hérna við þingið hef ég tekið eftir því að það er oft og tíðum þannig að ríkisvaldið virðist líta svolítið á að löggjafarþingið sé bara beinlínis framhald af framkvæmdarvaldinu,“ sagði Sigurður Ingi.

Áhyggjur af veiðigjöldum og fjármálaáætlun

Samkvæmt lögum og venjum ætti framkvæmdarvaldið að hafa samráð við löggjafarþingið áður en stefnumál eru lögð fram, sérstaklega þegar um er að ræða mikilvæg mál eins og öryggis- og varnarmál. Sigurður Ingi benti á að veiðigjöld hafi verið sett í samráð í aðeins sjö daga og að fjármálaáætlun hafi verið lögð fram án markmiða.

Samstarf við Kanada og Evrópusambandið

Sigurður Ingi lýsti áhyggjum sínum yfir því að utanríkisráðherra hafi talað um aukið samstarf við Kanada og Evrópusambandið án þess að ræða það við þingið. Hann spurði forsætisráðherra hvaða skilaboð hún myndi fara með á fund framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, síðar í vikunni.

Forsætisráðherra svaraði og sagði að utanríkisráðherra hafi skipað þverpólitíska nefnd til að fara yfir öryggis- og varnarmálin. Hún sagði að fundur með forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins myndi snúast um hagsmuni Íslands í tollastríði. Hún lagði áherslu á að samstaða væri mikilvæg á þessum viðsjárverðu tímum.

Þverpólitískt samráð mikilvægt

Forsætisráðherra lofaði að upplýsa þingið um niðurstöður fundarins með framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Categories
Fréttir Greinar

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Deila grein

07/04/2025

Við stöndum saman með íþróttafólkinu – en hvað með fólkið á bak við það?

Það er fátt sem sameinar okkur eins og þegar íslenskt íþróttafólk stígur inn á stóra sviðið erlendis. Flest þekkjum við tilfinninguna þegar við setjumst saman fyrir framan sjónvarpið, klædd í landsliðstreyju, með hjartað í buxunum og full af stolti. Við hvetjum íþróttafólkið okkar áfram, lifum okkur inn í leikinn. Fögnum þegar vel gengur, syrgjum saman og styðjum okkar fólk – sama hvar það er í heiminum. Við stöndum saman sem þjóð.

Dýrmætt starf sjálfboðaliða

En það gleymist stundum að í hvert skipti sem íslenskur íþróttamaður stendur á sviðinu, þá standa ótal sjálfboðaliðar að baki hans – ósýnilegir en ómissandi. Á bak við hvert mark, hverja medalíu og hvern leik liggur þrotlaus vinna sem á sér rætur í hverfinu heima. Á íþróttasvæðinu, í félagsheimilinu, á æfingunni, á mótunum – þar eru sjálfboðaliðarnir mættir til að aðstoða, skipuleggja, keyra, moka snjó af vellinum, setja upp rásir, selja vöfflur og svo margt fleira – allt án þess að fá borgað fyrir. Án þessa fólks væru engin landslið – og ekkert EM.

Áætlað er að sjálfboðaliðar í íþróttum vinni um 7,7 milljónir klukkustunda á ári. Verðmæti þeirrar vinnu er metið á yfir 15 milljarða króna á ári ef miðað er við tímagjald upp á um 1.950 kr. Þetta er byggt á greiningum og svörum félaga innan ÍSÍ og UMFÍ og birtist í skýrslu ÍSÍ um sjálfboðaliða 2024. Þetta sýnir svart á hvítu að íslenskt íþróttastarf stendur og fellur með þessu gríðarlega ólaunaða framlagi. Í raun er þetta stærsti „sjóðurinn“ sem hreyfingin byggir á – og hann er algjörlega háður vilja fólks til að gefa vinnu sína. Þó að starfið hafi haldist öflugt lengi, þá standa blikur á lofti.

Stöndum með sjálfboðaliðunum okkar

Vísbendingar eru um að erfiðara sé að fá fólk til sjálfboðastarfa en áður. Sérstaklega í ábyrgðarhlutverk eins og stjórnir og nefndir, fá fólk til að sjá um viðburði og halda utan um starfið. Hluti þess skýrist af auknum kröfum og væntingum – en einnig af því að sjálfboðaliðar búa oft við óljósa réttstöðu og takmarkaðan stuðning. Það dregur úr vilja fólks til þátttöku ef það veit ekki hvaða ábyrgð það ber – eða hvort það fái aðstoð ef eitthvað kemur upp á.

Þess vegna lagði undirrituð fram þingsályktunartillögu um aukið réttaröryggi sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Með því að skipa starfshóp með fulltrúum úr öllum lykilstofnunum viljum við greina stöðuna, skýra ábyrgð, bæta tryggingavernd, efla fræðslu og styðja við sjálfboðaliða með markvissum hætti.

Það þarf að tryggja að tryggingar séu til staðar – bæði gegn slysum og mögulegri ábyrgð ef eitthvað fer úrskeiðis. Að verklýsingar séu skýrar. Að fræðsla og þjálfun sé aðgengileg. Að fólk viti hvað er verið að fara fram á – og hvað það fær til stuðnings. Það mun auka öryggi, draga úr brottfalli og ekki síst – hvetja fleiri til þátttöku.

Við viljum nefnilega hvetja fleiri til þátttöku. Það gerum við með því að gera hlutverk sjálfboðaliða skýrara, bjóða upp á handbækur, kynningar, aðgengi að upplýsingum – og ekki síst: sýna þakklæti. Það getur verið í formi viðurkenninga, fríðinda eða einfaldlega þess að einhver segi „takk fyrir“.

Íþróttahreyfingin hefur ekki efni á því að missa þetta fólk

Það er auðvelt fyrir okkur að fagna og hvetja áfram okkar afreksfólk og landslið Íslands. Við stöndum þétt saman þegar að þau keppa úti í heimi. En til að landsliðið verði til þurfa tugir, jafnvel hundruð sjálfboðaliða að hafa staðið vaktina árum saman. Nú er tími til kominn að við stöndum með fólkinu sem vinnur ósýnilegu vinnuna til að ryðja veginn svo afreksfólkið okkar geti haldið áfram að láta ljós sitt skína og skila árangri í hús.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknarflokksins

Greinin birtist fyrst á visir.is 7. apríl 2025.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun KSFS

Deila grein

05/04/2025

Stjórnmálaályktun KSFS

25. Kjördæmisþing Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi haldið í Suðurnesjabæ 5. apríl 2025 skorar á ríkisstjórnina að endurskoða þegar verklag við breytingar á sköttum eða skattahækkunum.

Breytingar og hækkanir á sköttum geta haft víðtæk áhrif á atvinnulíf um allt land og mikilvægt að samráð sé haft við sveitarfélög landsins. Sveitarfélög eiga mikið undir að ríkið kollvarpi ekki atvinnugreinum og raski þannig lífskjörum heilu byggðarlaganna með óvandvirkum vinnubrögðum.

***

25. Kjördæmisþing Kjördæmissambands Framsóknarfélaganna í Suðurkjördæmi haldið í Suðurnesjabæ 5. apríl 2025 skorar á ríkisstjórnina að stórefla samstarf og samráð við sveitarfélögin í landinu og bera virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétt þeirra og hagsmunum íbúa þeirra.

***

Categories
Fréttir

Alvarlegir gallar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Deila grein

05/04/2025

Alvarlegir gallar í nýrri fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar

Á Alþingi fór fram í vikunni fyrri umræða fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2026-2030. Stefán Vagn Stefánsson, alþingismaður, gagnrýndi í ræðu sinni harðlega að áætlunin væri án skýrra markmiða og mælikvarða og bryti þannig gegn lögum um opinber fjármál.

Skortur á mælanlegum markmiðum

Stefán Vagn benti á að ríkisstjórnin hafi ekki uppfyllt lagaskyldu sína um að setja fram mælanleg markmið og skýrar áherslur fyrir einstök málefnasvið í fjármálaáætluninni. „Einhverra hluta vegna hefur fjármála- og efnahagsráðherra gleymt að setja fram markmið og mælikvarða í umfjöllun um áherslur og málefnasvið,“ sagði Stefán Vagn. Í stað þess að veita greinargóða stefnumótun sé einungis vísað til ófullgerðra mælaborða og annarra gagna í vinnslu: „Það dugar ekki að vísa í mælaborð í vinnslu einhvers staðar uppi í sveit eða Word-skjal í mótun hjá einhverjum starfsmanni ráðuneytisins,“ bætti hann við.

Óskýrar útskýringar ráðherra

Fyrr um daginn hafði Stefán Vagn spurt fjármála- og efnahagsráðherra hvort hann væri meðvitaður um skort á markmiðum í fjármálaáætluninni. „Ég þakka hv. þm. Stefáni Vagni Stefánssyni fyrir að vekja athygli á því að þessir mælikvarðar eru ekki í þessari áætlun,“ sagði ráðherrann. Hann bætti við að mælikvarðar myndu koma fram með ársskýrslum ráðherra og útskýrði að fyrri ákvörðun um að hafa mælikvarða í fjármálaáætlun hafi verið tekin af „einhverjum fyrirrennara“ hans. Stefán Vagn svaraði ákveðið: „Hvernig á þingið að geta metið og tekið afstöðu til markmiða næstu ára innan málefnasviðanna ef þau koma ekki fram?“

Lagaskylda vanrækt

Í 20. grein laga um opinber fjármál er kveðið skýrt á um að ráðherrar skuli setja fram stefnu fyrir málefnasvið sín til a.m.k. fimm ára, þar sem tilgreind eru skýr og mælanleg markmið, ábyrgðarskipting og hvernig fjármunum verði varið. Þetta er lykilatriði svo Alþingi og almenningur geti fylgst með árangri af opinberri fjárnotkun.

Alþingi ófært um að meta árangur

Stefán Vagn segir að ríkisstjórnin hafi horfið frá því að setja fram þessi mikilvægu markmið í fjármálaáætluninni, sem gerir þinginu ómögulegt að meta raunverulegar áætlanir og áhrif þeirra. „Skýr markmið eru forsenda þess að Alþingi og almenningur geti metið hvort og hver árangurinn er af ráðstöfun opinbers fjár,“ sagði Stefán Vagn og nefndi dæmi um málefni eins og utanríkismál, nýsköpun og sjávarútvegsmál, þar sem stefnur séu annað hvort óskýrar eða í mótun, jafnvel eftir að ákvarðanir um veigamiklar breytingar, eins og hækkun veiðigjalda, hafi verið teknar.

Mótsagnir í málflutningi

Stefán Vagn gagnrýndi einnig mótsagnir varðandi stöðu ríkisfjármála, þar sem ríkisstjórnin talar nú um trausta stöðu þrátt fyrir fyrri fullyrðingar um slæmt ástand ríkissjóðs: „Þetta er sem sagt mat ríkisstjórnar á árangri síðustu ára, en er þetta ekki sama ríkisstjórnin og sagði við almenning þegar hún tók við að hún tæki við mun verri stöðu ríkissjóðs en áætlanirnar höfðu gert ráð fyrir? Það eru aðeins 100 dagar síðan það var fullyrt. Hér sjáum við ákveðna mótsögn sem vekur upp spurningu um trúverðugleika og samræmi í málflutningi.“

Fjármálaáætlun óboðleg

Stefán Vagn telur að þessi fjármálaáætlun uppfylli ekki lögbundnar kröfur og sé því óboðleg Alþingi og almenningi. Hann kallar eftir skýrum, mælanlegum og ábyrgum markmiðum sem nauðsynleg eru til að tryggja gagnsæi og árangur í opinberum rekstri. „Við getum og verðum að gera betur. Fjármálaáætlun á að vera vegvísir framtíðarinnar, skýr, ábyrg, mælanleg, með skiljanlegum markmiðum,“ sagði Stefán Vagn að lokum.