Categories
Fréttir Greinar

Á degi barnsins

Deila grein

20/11/2024

Á degi barnsins

Í dag höldum við upp á 35 ára afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sáttmálans sem gjörbreytti skilningi okkar á réttindum barna. Þessi áfangi er mikilvægur tímapunktur til að horfa í baksýnisspegilinn og leggja mat á þá áfanga sem hafa náðst, en einnig nauðsynleg brýning til okkar allra um að halda áfram á vegferðinni að skapa betra samfélag fyrir öll börn.

Réttindi barna gerð að veruleika

Á undanförnum árum höfum við stigið stór skref fyrir börn og fjölskyldur á Íslandi. Lög um farsæld barna, sem tóku gildi árið 2022, marka tímamót í því hvernig þjónusta við börn er skipulögð og framkvæmd. Með lögunum er tryggt að öll börn með stuðningsþarfir fái sérstakan tengilið sem styður við þau og fjölskyldur þeirra með einstaklingsmiðaðri og samþættri þjónustu.

Við höfum lengt fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf og hækkað hámarksgreiðslur. Ég er einstaklega stoltur af þessum áfanga sem styður foreldra í því að sinna því allra mikilvægasta í lífinu. Jafnframt leggur þessi breyting sitt af mörkum til að jafna stöðu foreldra á vinnumarkaði og stuðlar þannig að auknu jafnrétti í íslensku samfélagi. Eins höfum við gert gjaldfrjálsar skólamáltíðir að veruleika fyrir grunnskólabörn, sem er annað mikilvægt skref í átt að jafnræði.

Á sviði menntunar höfum við lagt sérstaka áherslu á að styrkja grunnstoðir skólastarfs um land allt og tryggja að skólaþjónusta sé jöfn og samræmd óháð búsetu. Með því að fjölga verkfærum og stuðningi sem skólasamfélagið getur nýtt sér og innleiða samræmt matskerfi námsárangurs höfum við skapað traustari umgjörð fyrir menntun barna og ungmenna. Nýtt samræmt verklag fyrir menntun barna með fjölbreyttan menningar- og tungumálabakgrunn tryggir börnum jöfn tækifæri til náms og félagslegrar þátttöku. Auk þess höfum við aukið aðgengi að verknámi um allt land, sem opnar nýjar dyr fyrir fjölbreyttari námsleiðir. Framkvæmdir til að bæta aðstöðu í framhaldsskólum víða um land, þar á meðal í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Fjölbrautaskóla Suðurnesja og Verkmenntaskólanum á Akureyri, marka tímamót í starfsnámi. Þessar umbætur eru ekki aðeins fjárfesting í menntakerfinu heldur einnig í framtíð ungs fólks og samfélagsins alls.

Geðheilbrigði ungmenna hefur verið stórt mál á kjörtímabilinu. Með stuðningi við úrræði á borð við Bergið Headspace hefur geðheilbrigðisþjónusta verið efld, með áherslu á snemmtæk inngrip. Að auki hefur sérstök ráðgjöf verið sett á laggirnar fyrir börn og ungmenni sem eiga foreldra með geðrænan vanda, með það að markmiði að draga úr líkum á að áföll í fjölskyldum hafi langvarandi áhrif. Verkefnið Samvinna eftir skilnað býður nú upp á stafrænt námsefni sem hjálpar foreldrum að setja þarfir barna í forgrunn við breytingar á fjölskylduaðstæðum. Þar að auki er unnið er að innleiðingu námskeiðanna Tengjumst í leik í samstarfi við leik- og grunnskóla, með það að marki að styðja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Árangur sem við getum verið stolt af

Það er ljóst að réttindi barna og málefni sem þeim tengjast krefjast langtímasýnar, víðtækra lausna og aðgerða sem taka á flóknum áskorunum. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar 2024, gefa skýrar vísbendingar um að stefna og aðgerðir síðustu ára séu þegar að skila árangri.

Ný gögn sýna að 90% barna lýsa heilsu sinni sem mjög góðri, og lífsánægja barna hefur aukist úr 74% árið 2018 í 81% árið 2022. Tíðni eineltis hefur minnkað verulega, sérstaklega í 10. bekk, þar sem hlutfall barna sem segjast upplifa einelti er nú 4%. Í skólum segjast meir en 85% barna líða vel, og 90% þeirra telja mikilvægt að leggja sig fram í námi. Þá eru slagsmál meðal ungmenna á undanhaldi, og hnífaburður meðal barna í þeim tilgangi að nota sem vopn mælist 0,7%.

Áfram veginn

Barnasáttmálinn kennir okkur að samfélög sem leggja áherslu á réttindi barna séu samfélög sem uppskera ríkulega. Það er sameiginlegt verkefni okkar allra – barna, foreldra, fagfólks og stjórnvalda, að tryggja að réttindi barna séu ekki aðeins orð á blaði heldur hluti af daglegu lífi. Við erum komin vel af stað á þeirri vegferð, en eigum enn verk að vinna.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ný Ölfusár­brú – skyn­sam­legt val fyrir fram­tíðina

Deila grein

20/11/2024

Ný Ölfusár­brú – skyn­sam­legt val fyrir fram­tíðina

Í dag eru stór tímamót í sögu samgangna á Suðurlandi þegar fyrsta skóflustunga verður tekin að nýrri Ölfusárbrú sem mun bæta lífsgæði, auka umferðaröryggi og greiða fyrir flæði í einu af lykilsamgöngusvæðum landsins. Hönnun brúarinnar byggir á ítarlegri greiningu og hún er talin hagkvæmasti kosturinn. Brúin tekur mið af náttúrulegum aðstæðum, þar á meðal flóðahættu í Ölfusá, hættu á ísstíflum og jarðskjálftum, þar sem burðarformið er vel til þess fallið að mæta slíku álagi. Nýja Ölfusárbrúin mun gjörbylta umferð um Suðurland, bæta umferðaröryggi og draga úr umferðartöfum og mengun á Selfossi.

Brú ekki sama og brú

Áætlaður kostnaður Ölfusárbrúarinnar sjálfrar er um 8,4 milljarðar króna, en heildarkostnaður með tengdum vegaframkvæmdum nemur 17,9 milljörðum króna. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar með veggjöldum án þess að hafa áhrif á önnur verkefni samgönguáætlunar. ÞG Verk var valið til að sjá um hönnun, byggingu og fjármögnun brúarinnar og tekur verkið mið af samvinnuverkefnismódeli (PPP), þar sem einkaaðilar bera ábyrgð á útfærslu og fjármögnun framkvæmdar. Það sýnir hvernig samvinna stjórnvalda og einkaaðila getur flýtt fyrir mikilvægum framkvæmdum og við sjáum Hringveginn loks færast út fyrir þéttbýlið á Selfossi.

Einhverjir hafa dregið í efa ákvörðun Vegagerðarinnar um stagbrú og látið í veðri vaka að lítil brú gæti hentað vatnsmestu á landsins. Þá gleymist að við glímum við náttúrulegar aðstæður þar sem hætta er á flóðum, ísstíflum og jarðskjálftaálagi. Ný brú þarf að standast slíkt álag af náttúrunnar hendi og reyndist stagbrú hagkvæmasti kosturinn eftir ítarlega greiningu á náttúrulegum aðstæðum.

Bylting

Núverandi brú hefur þjónað okkur vel í tæp 80 ár og staðist áskoranir náttúruaflana. Með aukinni umferð, sem nú er 14.500 ökutæki á dag, er kominn tími á að lyfta grettistaki. Samhliða fjölgun íbúa og ferðamanna er ljóst að þörfin fyrir nýja brú er brýn. Þessi framkvæmd mun koma á langþráðum úrbótum og verða bylting fyrir okkur öll.

Nýja Ölfusárbrúin verður 330 metra löng stagbrú með 60 metra háum turni á Efri-Laugardælaeyju. Á brúnni verða aðskildar akstursstefnur ásamt göngu- og hjólaleiðum, bæði yfir og undir brúnni. Brúin er framtíðarlausn sem tekur mið af vaxandi umferðarþunga og hönnuð þannig að hún geti borið fjórar akreinar gerist þess þörf.

Framtíðarsýn

Væntingar voru um að framkvæmdir gætu hafist fyrr. Á meðan hefur umferð um svæðið vaxið hratt, kostnaður hækkað og þörfin fyrir nýja brú verður æ brýnni. Undirbúningur verksins hófst formlega þegar ég kom inn í samgönguráðuneytið árið 2018. Allt frá þeim tíma hefur Vegagerðin unnið að rannsóknum og forhönnum með vönduðum hætti. Þegar ég tók við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu í vor lagði ég mikla áherslu á að hraða lokaferlinu sem tengdist útfærslu á fjármögnun verksins. Með góðu samstarfi hefur tekist að vinna úr flóknum áskorunum. Þessi reynsla mun verða dýrmæt í stjórnkerfinu í framtíðinni þegar sambærileg verkefni koma á dagskrá. Nú hafa framkvæmdir loks fengið grænt ljós og bíðum nú spennt eftir að verða vitni að þeim framförum sem þetta mikilvæga samgöngumannvirki mun hafa í för með sér.

Þetta verkefni er ekki aðeins stórt framfaraskref fyrir Suðurland heldur líka tákn um hvernig samvinna og metnaður geta leitt til stórkostlegra umbóta í samfélaginu. Hún verður mikilvæg fyrir lífsgæði íbúa og gesta og stórt skref í þróun innviða. Þetta er tímamótaverkefni fyrir Suðurland og landið allt – glæsilegt mannvirki sem eykur öryggi og bætir samfélagið. Til hamingju.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, innviðarráðherra og fjármála-og efnahagsráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Okkar plan virkar – þetta er allt að koma!

Deila grein

20/11/2024

Okkar plan virkar – þetta er allt að koma!

Stýrivextir voru lækkaðir um 50 punkta í morgun. Þeir hafa lækkað um 75 punkta síðan í október. Hvað þýðir þetta? Heimili með 30 m.kr. húsnæðislán eykur ráðstöfunartekjur sínar um 190 þúsund á ári.

Að sama skapi hefur því verið spáð að verðbólga lækki úr 5,1% í 4,5% hinn 28. nóvember næstkomandi – sem greiðir götu enn frekari vaxtalækkana í þágu heimila og fyrirtækja.

Ábyrgð og forgangsröðun skilar sér

Vaxtalækkanir sem þessar eru auðvitað afskaplega ánægjulegur árangur af markvissum og samþættum aðgerðum opinberra aðila og aðila vinnumarkaðarins. Þetta gerist ekki af sjálfu sér og verður ekki til í tómarúmi kosningaloforða. Þetta er staðfesting á að stefna okkar virkar sem miðar að því að ná niður vöxtum og verðbólgu. Við erum með ábyrga efnahagsstefnu og með aðhald í ríkisfjármálum. Í ríkisfjármálunum er meðal annars forgangsraðað í þágu þeirra mikilvægu langtímakjarasamninga sem gerðir voru á milli aðila vinnumarkaðarins. Verðbólguvæntingar eru að lækka og hafa ekki verið lægri síðan 2021!

Kanínur upp úr hatti

Nú sigla með himinskautum flokkar, Samfylking og Viðreisn, sem tala digurbarkalega um að það þurfi að  „negla niður vexti“ og „lækka þessa vexti“. Hafa þeir flokkar í engu sagt hvað þeir myndu gera öðruvísi en Framsókn er nú þegar að gera í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Staðreyndin er sú að okkar plan er að virka eins og lagt var upp með. Því er ekki að neita að verðbólga í kjölfar fordæmalauss heimsfaraldurs og stríðsins í Evrópu hefur tekið á. Þá missti 1% þjóðarinnar húsnæði sitt vegna jarðhræringanna í Grindavík. Stjórnvöld tóku þá ákvörðun að gera meira en minna til þess að styðja við samfélagið í kjölfar heimsfaraldursins, þegar 20.000 störf hurfu og margs konar starfsemi lagðist í dvala. Það kostaði, en skilaði sér í samfélagi sem lenti á báðum fótum.

Flokkarnir sem gleymdu að byggja

Það sem hefur fyrst og síðast haldið lífi í verðbólgunni er framboðsskortur á húsnæði. Samfylkingin og Viðreisn geta ekki litið fram hjá ábyrgð sinni á lóðaskortstefnu í borginni til ársins 2022. Eins og alþjóð veit sváfu þessir flokkar á verðinum í húsnæðismálum í Reykjavík, langstærsta sveitarfélagi landsins. Á þetta bentu meðal annars Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Íslands og Samtök iðnaðarins. Það þýðir hins vegar ekki að gráta Björn bónda, heldur líta fram á veginn og gera betur. Framsókn með borgarstjóra í fylkingarbrjósti hefur tekið þessi mál föstum tökum með því að ryðja nýtt land og skipuleggja ný hverfi, en þau nýmæli urðu að borgin skuldbatt sig til að byggja 16.000 nýjar íbúðir á næstu 10 árum, t.d í Úlfarsárdal og Kjalarnesi, en þar er nú verið að úthluta lóðum í fyrsta sinn í áraraðir. Það eru markverðar breytingar.

Áfram veginn

Ég er sannfærð um að við munum sjá vexti lækka skarpt með áframhaldandi ábyrgð af leiðarljósi. Við þurfum ekki á kollsteypum eða auknum byrðum á fólk og fyrirtæki að halda. Hér bjóða fram flokkar sem vilja hækka skatta á fólk og fyrirtæki, skera niður hið opinbera um 20% eða ganga í Evrópusambandi með tilheyrandi atvinnuleysi og fullveldisframsali í auðlindamálum. Það kann ekki góðri lukku að stýra. Við þurfum frekar að tryggja að atvinnulífið okkar geti haldið áfram að skapa hér verðmæti til að undirbyggja hér aukna lífskjarasókn til framtíðar – og við erum fullfær um það sjálf. Við í Framsókn vinnum vinnuna sem þarf að vinna og óskum eftir þínum stuðningi í því verkefni. Setjum við X við B!

Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra og oddviti Framsóknar í Reykjavík suður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 20. nóvember 2024.

Categories
Fréttir

„Við erum á réttri leið“

Deila grein

20/11/2024

„Við erum á réttri leið“

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.

„Við erum á réttri leið,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

  1. Við erum með ábyrga og trausta efnahagsstefnu;
  2. Við erum með langtímakjarasamninga sem stuðla að stöðugleika, svo aðilar vinnumarkaðarins hafa staðið sína plikt;
  3. Við erum að sjá verðbólguvæntingar lækka og þær hafa ekki verið lægri síðan í byrjun árs.

„Svo það er alveg kýrskýrt að við erum að ná tökum á verðbólgunni og það án þess að nein teikn séu á lofti um kollsteypu í efnahagslífinu. Þvert á móti virðumst við vera að ná að lenda hagkerfinu mjúklega. Það er risamál.“

Peningastefnunefnd lækkaði vexti um 50 punkta í dag og var búin að lækka í október um 25 punkta. Vextir hafa þannig…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Miðvikudagur, 20. nóvember 2024

„Það sem við höfum líka sagt er að þrátt fyrir að þetta sé orðið langt tímabil þá þurfum við að sýna þolinmæði. Það er hálf óþolandi, ekki síst þegar stutt er í kosningar, en það er ábyrga leiðin til að ná niður verðbólgu en á sama tíma lenda hagkerfinu mjúklega.

Það munar strax um þessar vaxtalækkanir. Greiðslubyrði 30 m.kr. láns lækkar um 190 þúsund krónur á ári við aðeins þær vaxtalækkanir sem þegar hafa orðið.

Þetta snýst líka um fyrirtækin, ekki síst þau sem eru í alþjóðlegri samkeppni, að þau búi við samkeppnishæft umhverfi til að vaxa og dafna og stuðla að bættum lífskjörum fólks í landinu.

Við erum í dauðafæri á að halda áfram á þessari braut. Það eru öll teikn á lofti um að vextir geti lækkað áfram. En það gerist ekki af sjálfu sér. Það krefst þess að við höldum áfram rétt á spilunum og tryggjum ábyrga, yfirvegaða og trausta hagstjórn,“ segir Sigurður Ingi.

***

Yfirlýsing peningastefnunefndar 20. nóvember 2024

Peningastefnunefnd
Peningastefnunefnd

„Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka vexti bankans um 0,5 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 8,5%.

Verðbólga hefur hjaðnað undanfarið og mældist 5,1% í október. Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað. Þá hafa verðbólguvæntingar almennt lækkað og raunvextir því hækkað.

Áhrifa þétts peningalegs taumhalds gætir áfram í efnahagsumsvifum og hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar. Atvinnuleysi heldur áfram að þokast upp og horfur eru á að það dragi úr spennu í þjóðarbúinu þótt það gerist hægar en áður var talið.

Þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kalla þó á varkárni. Áfram þarf því að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.

Mótun peningastefnunnar næstu misseri mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“

Categories
Fréttir Greinar

Mikil­vægi samfélagslöggæslu

Deila grein

19/11/2024

Mikil­vægi samfélagslöggæslu

Hvernig tryggjum við öruggt samfélag þar sem börn og ungmenni geta vaxið og dafnað? Lykillinn liggur í trausti, samstarfi og fyrirbyggjandi aðgerðum. Samfélagslöggæsla er ein áhrifaríkasta leiðin til að ná þessum mikilvægu markmiðum.

Hvað er samfélagslöggæsla?

Samfélagslöggæsla er nálgun í löggæslu sem leggur áherslu á að efla tengsl og traust milli lögreglu og samfélags. Hún snýst um að vera nálægt fólkinu, hlusta á þarfir þess og vinna í sameiningu að lausnum.

Lögreglumenn í samfélagslöggæslu eru sýnileg og aðgengileg í daglegu lífi, til dæmis með heimsóknum í skóla og félagsmiðstöðvar. Þar fræða þau börn og ungmenni um samþykki, afbrotavarnir og hvernig samfélagið getur sameinast gegn ofbeldi. Þannig er byggt upp traust sem er lykilforsenda öryggis.

Af hverju er samfélagslöggæsla nauðsynleg núna?

Samfélagið stendur frammi fyrir áskorunum, sérstaklega varðandi ofbeldi meðal barna og ungmenna. Á síðustu misserum hafa komið upp tilvik sem varpa ljósi á nauðsyn þess að bregðast við með afgerandi hætti og fjárfesta í forvörnum. Auk þess hefur stafræn tækni opnað fyrir nýjar tegundir ofbeldis, svo sem stafrænt einelti og óábyrga miðlun myndefnis.

Samfélagslöggæsla er lykilþáttur í því að bregðast við þessum áskorunum. Hún vinnur í samstarfi við samfélagið, skóla, frístundir og félagsþjónustu að því að fyrirbyggja ofbeldi, styðja við börn og ungmenni í viðkvæmri stöðu og skapa umhverfi þar sem þau geta blómstrað.

Hvað er verið að gera til að efla samfélagslöggæslu?

Í júní síðastliðnum kynnti Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ásamt dómsmálaráðherra, aðgerðaáætlun með 14 markvissum aðgerðum gegn ofbeldi meðal barna og ungmenna. Ein þeirra er að efla samfélagslöggæslu um land allt, með sérstakri áherslu á höfuðborgarsvæðið.

Til að styðja við þessar aðgerðir hefur ríkisstjórnin tryggt umfangsmikið fjármagn í fjárlögum fyrir árið 2024. Alls verður 598 milljónum króna varið til samfélagslöggæslu og aðgerða gegn ofbeldi ungmenna. Af þessari upphæð renna 324 milljónir króna beint til eflingar samfélagslöggæslu, sem bætist við 120 milljónir króna sem þegar voru samþykktar í fjáraukalögum.

Öruggara samfélag

Sterk samfélagslöggæsla hefur víðtæk áhrif á líf okkar allra. Hún eykur öryggi barna og ungmenna, byggir upp traust milli lögreglu og samfélags og dregur úr ofbeldi. Með fyrirbyggjandi aðgerðum eins og fræðslu og samvinnu styrkir hún grunnstoðir samfélagsins og gerir það heilbrigðara og samheldnara.

Ofbeldi meðal barna og ungmenna er samfélagslegt mein sem við getum ekki sætt okkur við. Með því að styðja samfélagslöggæslu leggjum við grunn að öruggara og réttlátara samfélagi. Við í Framsókn trúum á kraftinn í samvinnu og ábyrgð. Þess vegna leggjum við áherslu á að tryggja bæði fjármögnun og framkvæmd þessara mikilvægu aðgerða.

Samfélagslöggæsla er ekki bara stefna — hún er leið til að skapa samfélag þar sem allir geta notið öryggis og virðingar.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður og frambjóðandi Framsóknar í Reykjavík Norður.

Greinin birist fyrst á visir.is 18. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Lítið að frétta í lífi án frétta á landsbyggðunum

Deila grein

19/11/2024

Lítið að frétta í lífi án frétta á landsbyggðunum

Af þeim 27 fjölmiðlum sem hlutu rekstrarstuðning til einkarekinna fjölmiðla 2024 voru 13 staðbundnir fjölmiðlar og af þeim 10 staðsettir utan höfuðborgarsvæðisins. Hver og einn af þessum staðbundnu miðlum þjónar gríðarlega mikilvægu hlutverki í sinni heimabyggð og styrkveitingin því sannarlega fagnaðarefni.

Landsbyggðamiðlar sem fengu styrk: Akureyri.net, Austurfrétt/Austurglugginn, Bæjarblaðið Jökull, DB blaðið, Eyjafréttir, Feykir, Skessuhorn, Tígull, Vikublaðið og Víkurfréttir.

Í heildina var 68 milljónum úthlutað til þessara staðbundnu miðla utan höfuðborgarsvæðisins. Við þá upphæð mætti bæta 22 milljónum til Bændasamtaka Íslands fyrir að halda úti hinu mjög svo skemmtilega og mikið lesna Bændablaði. Blaðið er vissulega ekki staðbundið en stendur fyrir öflugri umfjöllun frá byggðum landsins.

Auka styrkur til staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins

Til viðbótar er einnig vert að nefna annan styrk sem menningar- og viðskiptaráðuneytið úthlutar til staðbundinna fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins. Sá styrkur er nú helmingi hærri en 2023, eða 10 milljónir og við hann bætast 2,5 milljónir kr. frá innviðaráðuneytinu vegna aðgerðar í byggðaáætlun, Efling fjölmiðlunar í héraði. Alls fengu 7 fjölmiðlar utan höfuðborgarsvæðisins úthlutun úr þessum sjóði árið 2023 og 9 árin 2022 og 2021.

100 milljónir til fjölmiðlunar á landsbyggðunum

Í heildina eru þetta um 100 milljónir sem settar eru í að styrkja fjölmiðlun á landsbyggðunum á þessu ári. Þetta er styrkur sem skiptir þessa miðla miklu máli og í sumum tilfellum algjör líflína. Á sama tíma og við höfum mikið aðgengi að fjölbreyttu úrvali frétta og dagskrárefnis hjá íslenskum fjölmiðlum án endurgjalds þá er fréttavinnsla og dagskrárgerð sannarlega ekki ókeypis. Rekstarumhverfi fjölmiðla í dag er síður en svo auðvelt og mikil samkeppni ríkir um auglýsingatekjur við stór og öflug erlend fyrirtæki sem reka samfélagsmiðla.

Framleiðsla sjónvarpsefnis utan höfuðborgarsvæðisins

Höfundur er fyrrum dagskrárgerðarmaður á N4. Á tímabilinu 2018-2021 átti ég þátt í framleiðslu um 400 sjónvarpsþátta, ásamt því að taka virkan þátt í ritstjórn og stefnumótun á miðlinum. Þar stýrði ég þáttum eins og Að norðan, Að austan, Að vestan á vestfjörðum, Lengri leiðin, Uppskrift að góðum degi, Taktíkin og áfram mætti lengi telja. Af lífi og sál gerðum við á N4 okkar besta, með takmarkmað fjármagn, til þess að halda úti sjónvarpsstöð sem fjallaði um landið utan höfuðborgarsvæðisins. Á endanum dugði hugsjónin ein og sér ekki til og N4 óskaði eftir gjaldþrotaskiptum 2023. Með því skapaðist gat í íslenskri dagskrárgerð sem enn hefur ekki verið fyllt.

„Ég sakna svo að geta ekki horft lengur á N4“

Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef heyrt þessa setningu bæði frá íbúum úti á landi en einnig á höfuðborgarsvæðinu. Það eru nefnilega ekki síður íbúar höfuðborgarsvæðisins sem vilja fylgjast með því sem er að gerast á landsbyggðunum. Styrkur til þessara fjölmiðla sem ég nefndi hér að ofan gagnast því öllum landsmönnum.

„Það var svo gaman að fylgjast með ykkur og fá jákvæðar fréttir af landi og þjóð“

Það skiptir svo miklu máli að fjalla líka um það jákvæða í samfélaginu. Ef umfjöllun er alltaf neikvæð verður upplifun okkar einnig neikvæð. Ég sannarlega þekki það hark sem því fylgir að sinna umfjöllun af stórum landsvæðum, með mikla kröfu um afköst og hraða og stöðugt á barmi bæði fjárhagslegs og andlegs gjaldþrots. Það sem keyrði mig þó alltaf áfram var krafturinn í fólkinu sem ég var svo heppinn að fá að kynnast á ferð minni um landið. Hvert samfélag er samansafn af því fólki sem þar býr. Beinum athygli okkar oftar að öðru fólki og leyfum þeim að finna að allt sem þau gera, stórt sem smátt, skiptir samfélagið máli.

„þetta er nú ekkert merkilegt þannig er það nokkuð?“

Jú sannaðu til! Mesta áhorfið var alltaf á þætti þar sem við sögðum sögur af venjulegu fólki sem var að gefa til samfélagsins á hverjum degi með sínum störfum.

Galdra járnsmiðurinn í bílskúrnum sem reddar því sem ekki er hægt að panta á netinu, álfahúsið sem boðar komu jóla, bruggarinn og kokkurinn sem nýta hráefni úr heimabyggð, bændurnir sem gera það að verkum að það eru til hráefni úr heimabyggð, hjúkunarfræðingurinn í fjarheilbrigðisþjónustunni, kennarinn sem býr í frítíma til þemaverkefni um fjölbreytileika og fjölmenningu, börnin og ungmennin sem krefjast betri umgengni við umhverfið og svona getum við lengi talið.

Næsta góða innslag getur leynst hvar sem er, þess vegna á næsta bæ, í næsta bílskúr eða í sögu næsta manns á næsta borði.

Stöndum vörð um fjölmiðlun á landsbyggðunum

Við finnum mörg fyrir því að það vantar eitthvað í flóruna eftir að N4 hætti útsendingum. Í kjölfarið misstum við einnig Fréttablaðið og Hringbraut úr íslenskri fjölmiðlaflóru og við áttuðum okkur á þeirri vondu staðreynd að ef við styðjum ekki við fjölmiðla í nútíma umhverfi þá missum við þá út einn af öðrum og umfjöllun verður einsleitari. Ég væri til í að geta lífgað þá alla við aftur en í staðinn getum við nýtt þetta sem áminningu um að passa vel upp á þá dýrmætu fjölmiðla sem við eigum.

Takk Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra fyrir að standa vörð um fjölmiðlun á landsbyggðunum með þessum styrkjum. Höldum áfram að styrkja starf allra fjölmiðla landsins á tímum upplýsingaóreiðu og skautunar. Höldum áfram að styrkja staðbundna miðla, tryggjum fyrirsjáanleika í styrkjakerfinu og lyftum byggðum landsins upp!

Skúli Bragi Geirdal, fjölmiðlafræðingur, fyrrum dagskrárgerðarmaður á N4 og í 4. sæti á lista Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. nóvember 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Vinnum gullið án klósettpappírs

Deila grein

19/11/2024

Vinnum gullið án klósettpappírs

Öll vitum við hversu mikilvægar íþróttir og hreyfing eru fyrir heilsuna. Regluleg hreyfing dregur verulega úr hættu á langvinnum sjúkdómum, hefur jákvæð áhrif á geðheilsu, stuðlar að betri svefni og minnkar streitu, svo eitthvað sé nefnt. En ávinningurinn er ekki aðeins heilsufarslegur heldur einnig félagslegur. Íþróttir kenna okkur gildi eins og samvinnu, virðingu og ábyrgð. Þær byggja upp félagsfærni, styrkja sjálfsmynd og stuðla að betri samskiptum.

Afreksfólk á heimsvísu 

Um nýliðna helgi varð Sóley Margrét Jónsdóttir heimsmeistari í kraftlyftingum í sínum þyngdarflokki og skráði sig um leið í sögubækurnar sem fyrsti íslenski heimsmeistarinn í kraftlyftingum. Þetta var ekki eina íslenska íþróttaafrekið sem vannst um síðustu helgi því að þau Júlía Sylvía Gunnarsdóttir og Manuel Piazza unnu fyrstu verðlaun Íslands í parakeppni á listskautum og eru á leið á EM í janúar. Fyrir fjórum vikum fögnuðu íslenska kvennalandsliðið og blandað lið ungmenna Evrópumeistaratitli í hópfimleikum og í lok október var Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í 22. sæti yfir bestu fótboltakonur heims í kjörinu um Gullboltann.

Fjárfest í árangri 

Þetta eru aðeins nokkur nýleg dæmi um stórkostlegan árangur íþróttafólksins okkar hér á Íslandi. En það er ekki sjálfgefið að ná langt í íþróttum, það kostar blóð, svita og tár – og síðast en ekki síst mjög mikla peninga. Í janúar 2023 setti ég af stað vinnu sem leidd var af Vésteini Hafsteinssyni, sem samhliða var ráðinn afreksstjóri ÍSÍ. Hópurinn hafði það hlutverk að leggja fram tillögur sem myndu efla og styrkja íslenskt afreksstarf í sinni víðustu mynd hér á landi og bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks.

Faglegri umgjörð umbylt 

Fjárframlag til afreksíþrótta verður stóraukið á næsta ári svo að hægt verði að umbylta umgjörð afreksíþróttafólks. Í fjárlögum, sem samþykkt voru á Alþingi í gær, verður 637 milljónum varið til eflingar afreksíþrótta sem er um það bil tvöföldun á því fjármagni sem áður fór í afreksstarfið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun sjá um að efla faglega umgjörð afreksstarfs á sem flestum sviðum í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands.

Átta nýjar svæðisstöðvar 

Afreksmiðstöðin verður í nánu samstarfi við átta nýjar svæðisstöðvar íþrótta um land allt sem þegar eru komnar í gagnið. Svæðisstöðvarnar þjónusta íþróttastarf í sínu nærumhverfi og geta með skilvirkum hætti aukið íþróttaþátttöku barna og ungmenna með sérstakri áherslu á þátttöku fatlaðra barna, barna af tekjulægri heimilum og barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

Nýr hvatasjóður barna

Nýjum hvatasjóði barna fyrir íþróttahreyfinguna verður falið að deila árlega um 80 milljónum króna til verkefna hjá íþróttafélögunum sem er gagngert ætlað að efla íþróttaþátttöku barna.

Stuðningur við yngri landslið

Hluta af stórauknu fjárframlagi til afreksíþrótta verður jafnframt varið í að styðja sérstaklega við þátttöku yngri landsliða í landsliðsverkefnum. Íslenskt landsliðsfólk á ekki að þurfa að fjármagna landsliðsferðir með því að selja klósettpappír í bílförmum þrátt fyrir að allar þessar rúllur séu að sjálfsögðu ætíð vel þegnar á heimilum landsins!

Ný mannvirki á framkvæmdastigi

En landsliðsfólkið okkar á heldur ekki að þurfa að keppa í úreltum mannvirkjum sem mæta ekki alþjóðlegum kröfum. 1.500 milljónir króna fara þannig í uppbyggingu þjóðarleikvanga og er ný Þjóðarhöll í innanhúsíþróttum í Laugardal komin á hönnunar- og framkvæmdastig. Endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er sömuleiðis í undirbúningi. 

Greiðum leiðina 

Á næstu dögum mun stór hluti þjóðarinnar hvetja íslenska kvennalandsliðið í handbolta til dáða þegar þær hefja leik á EM. Landsliðskonurnar eiga það allar sameiginlegt að hafa lagt líf og sál í að komast á þetta stóra svið. Það er góð áminning fyrir okkur að það dugir ekki bara að hvetja okkar besta íþróttafólk áfram þegar markmiðunum er náð. Það þarf að styðja þau á vegferðinni og búa til faglega umgjörð svo leiðin verði greiðari.

Betri framtíð án lakkríssölu

Með aukinni fjárfestingu í afreksíþróttum tryggjum við ekki aðeins betri framtíð þeirra sem keppa á stærsta sviðinu. Við búum líka til umgjörð fyrir íþróttasamfélagið allt og sýnum börnunum okkar að það er hægt að stefna á toppinn og vinna gullið – og það án þess að þurfa að selja klósettpappír og lakkrís í kílóavís til að komast í landsliðsverkefni.

Ekki bara loforð heldur aðgerðir 

Ég er stoltur af því að geta staðið við góðar fyrirætlanir með því að taka til aðgerða og hefja framkvæmdir. Þetta ferðalag er rétt að byrja og mig langar að halda áfram að byggja upp öfluga íþróttamenningu á Íslandi.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra og skipar 1. sæti á framboðslista Framsóknar í Reykjavík norður.

Greinin birtist fyrst á visir.is 19. nóvember 2024.

Categories
Fréttir

„Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast“

Deila grein

18/11/2024

„Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast“

„Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta nú hafist eftir að Alþingi samþykkti í dag lagabreytingu sem tryggir grundvöll fyrir fjármögnun Ölfusárbrúar, vegum sem að henni liggja og tengdra vegaframkvæmda. Kostnaður brúarinnar er um 8,4 ma.kr, heildarkostnaður með vegum ofl er um 17,9 ma.kr. Skóflustunga verður tekin á miðvikudaginn,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Framsóknar.

„Væntingar voru um að framkvæmdir gætu hafist fyrr. Á meðan hefur umferð um svæðið vaxið hratt, kostnaður hækkað og þörfin fyrir nýja brú verður æ brýnni. Þegar ég tók við í fjármála- og efnahagsráðuneytinu lagði ég mikla áherslu á að hraða ferlinu og með góðu samstarfi hefur tekist að vinna úr flóknum áskorunum. Þessi reynsla mun verða dýrmæt í stjórnkerfinu í framtíðinni, þegar sambærileg verkefni koma á dagskrá en ný brú verður tilbúin árið 2027/2028. Þessar tafir hafa aukið á álagið við núverandi brú, þar sem umferðarhnútar og töf verða algengari. Samt sem áður eru framkvæmdir nú loks komnar á dagskrá, sem veitir von um framfarir á þessu mikilvæga samgöngumannvirki.“

Loksins eru framkvæmdir við nýja Ölfusárbrú að hefjast. Framkvæmdir við Ölfusárbrú geta nú hafist eftir að Alþingi…

Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Mánudagur, 18. nóvember 2024

Nýja Ölfusárbrúin mun gjörbylta umferð um Suðurland, bæta umferðaröryggi og draga úr umferðartöfum og mengun á Selfossi. Hún verður mikilvæg fyrir lífsgæði íbúa og gesta og stórt skref í þróun innviða.

Núverandi brú hefur þjónað okkur vel í tæp 80 ár, en með aukinni umferð, sem nú er 14.500 ökutæki á dag, er kominn tími á að lyfta grettistaki.

Verkefnið verður fjármagnað sjálfstætt með veggjöldum og mun ekki tefja önnur verkefni í samgönguáætlun. „Það sýnir hvernig samvinna stjórnvalda og einkaaðila getur flýtt fyrir mikilvægum framkvæmdum, og við sjáum Hringveginn loks færast út fyrir þéttbýlið á Selfossi,“ segir Sigurður Ingi.

„Þetta er tímamótaverkefni fyrir Suðurland og landið allt – glæsilegt mannvirki sem eykur öryggi og bætir samfélagið. Til hamingju.“

Þessi leið við fjármögnun þýðir að framkvæmdir við Ölfusárbrú munu ekki tefja aðrar framkvæmdir við samgönguinnviði sem fjármögnuð eru beint af ríkinu. Ölfusárbrú verður þar af leiðandi ekki fjármögnuð af samgönguáætlun. Hvalfjarðagöng eru gott dæmi um fjármögnun samgönguframkvæmda af þessu tagi.

Categories
Fréttir

Stóraukið framlag til afreksíþrótta – 2.140 milljónir í fjárlögum 2025

Deila grein

18/11/2024

Stóraukið framlag til afreksíþrótta – 2.140 milljónir í fjárlögum 2025

„Ég hef lagt ríka áherslu á stóreflingu íþróttastarfs og þessi fjárlög marka algjör tímamót. Bæði með stórauknu framlagi til reksturs afreksíþróttastarfs en líka með því að ríkisvaldið hefur aldrei stigið af jafnmiklum krafti inn í mannvirkjagerð ætlaða landsliðunum okkar,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Fjárframlag stjórnvalda til afreksíþrótta verður stóraukið á næsta ári eftir samþykkt fjárlaga á Alþingi í dag. Alls verður 637 milljónum til viðbótar veitt til eflingar á afreksíþróttastarfi og 1.500 milljónum í þjóðarleikvanga. Markmiðið með þessum aðgerðum er að umbylta umgjörð íþróttastarfs á Íslandi og tryggja afreksíþróttafólki stuðning sem stenst alþjóðlegan samanburð.

Aukningin er liður í aðgerðum stjórnvalda til eflingar afreksíþróttastarfs. Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, setti af stað vinnu undir forystu Vésteins Hafsteinssonar í byrjun síðasta árs til að bæta stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Vésteinn var samhliða ráðinn sem afreksstjóri ÍSÍ.

Ekki bara loforð – heldur aðgerðir. Ég hef lagt mikla áherslu á stóreflingu íþrótta og á kjörtímabilinu ætluðum við að…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Mánudagur, 18. nóvember 2024

Starfshópurinn skilaði tillögum sínum til ráðherra í vor og voru þær kynntar á blaðamannafundi í Laugardalshöll. Áður höfðu áformin verið rædd á fjölmennri samráðsráðstefnu með íþróttahreyfingunni, Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi.

Vinnum gullið – ráðstefna um nýja stefnu í afreksíþróttum, 20. nóvember 2023 í Hörpu

Nú hefst vinna við að hrinda aðgerðum til eflingar afreksíþróttastarfs í framkvæmd. Ætlunin er að búa þannig um afreksíþróttafólk og -starf hérlendis að stuðningur og aðstaða verði til fyrirmyndar og ekki síðri en í þeim löndum sem við berum okkur saman við.

Beinn fjárstuðningur til sérsambanda og afrekssjóðs verður aukinn samhliða stórauknum stuðningi við yngri landslið. Ný Afreksmiðstöð Íslands mun gegna lykilhlutverki í tillögunum þar sem fagteymi sérfræðinga kemur saman á einum stað og hlúir að öllum undirstöðuþáttum fyrir framúrskarandi árangur í nánu samstarfi við sérsambönd Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands. Þar er horft til fleira þátta en eingöngu líkamlegrar þjálfunar. Taka þarf mið af nýjustu rannsóknum, huga vel að andlegum þáttum hjá afreksíþróttafólki og tryggja að það fái þann stuðning sem það þarf á að halda til að geta helgað sig íþrótt sinni og öðlast sömu réttindi og aðrir á vinnumarkaði. Einnig verður unnið að eflingu umgjarðar og hæfileikamótunar ungs íþróttafólks með aukinni samvinnu mismunandi skólastiga, íþróttafélaga og sérsambanda.

Vésteinn Hafsteinsson, formaður starfshóps mennta- og barnamálaráðherra, kynnir áformin á ráðstefnunni Vinnum gullið

Afreksmiðstöðin verður einnig í nánu samstarfi við átta nýjar svæðisstöðvar um land allt, fræðasamfélagið, íþróttahéruð og -félög. Ætlunin er að jafna tækifæri til íþróttaiðkunar óháð staðsetningu á landinu og skapa aðstæður þar sem hæfileikar fá að njóta sín.

Ný Þjóðarhöll í innanhússíþróttum er komin á hönnunar- og framkvæmdastig, endurbætur á Laugardalsvelli eru hafnar og nýr þjóðarleikvangur í frjálsíþróttum í Laugardal er í undirbúningi. Í fjárlögum næsta árs renna 1,5 milljarðar króna til nýrrar Þjóðarhallar. Nýir og endurbættir þjóðarleikvangar styðja enn frekar við bætta umgjörð utan um afreksíþróttastarf.

Afreksíþróttafólk er fyrirmynd annarra. Árangur þess hvetur til íþróttaiðkunar og metnaðs í starfi og stuðlar þannig að bættum hag og lýðheilsu.

Frá blaðamannafundinum „Áfram Ísland! Tillögur að fyrirkomulagi afreksstarfs“

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Fær ESB Ís­land í jóla­gjöf?

Deila grein

18/11/2024

Fær ESB Ís­land í jóla­gjöf?

Enn á ný er umræðan um aðild Íslands að Evrópusambandinu komin á dagskrá. Það er eins og yfirráð Íslands yfir eigin auðlindum sé ekkert tiltökumál og bara einhver skemmtilegur jólapakki.

Auðlindir í eigu þjóðar

Við eigum miklu frekar að tryggja eign þjóðarinnar á auðlindum hafsins, orkunni í iðrum jarðar, vindorkunni, fjörðunum og heilnæmu vatni og nýta allt þetta til innlendrar verðmætasköpunar. Innganga í ESB gengur þvert gegn þessu markmiði. Við viljum hvorki selja Landsvirkjun eða selja raforku úr landi, getum við ekki öll verið sammála um það?

Við viljum að vindmyllur framtíðar séu í eigu þjóðarinnar og nýtist til orkuskipta og verðmætasköpunar. Við viljum setja skorður við uppkaup erlendra aðila á verðmætu landi.

Orku- og fæðuöryggi

Við sem þjóð megum ekki lenda í þeirri stöðu að ekki sé til næg orka fyrir heimili og fyrirtæki í landinu, það þurfum við að tryggja. Við þurfum einnig að tryggja að matvælaframleiðsla sé í landinu og að hún sé á forsendum heilnæmis og sjálfbærni.

Heimsfaraldur og stríð í Evrópu hafa sýnt okkur hversu fallvalt þetta öryggi er og það er mun meiri akkur fyrir íslenska þjóð að tryggja eigið öryggi en að taka áhættu á að aðrar þjóðir styðji okkur ekki þegar til kastanna kemur, eins og gerðist í bankahruninu, þegar lönd Evrópu snerust gegn okkur.

Töpuð vinna og tækifæri

Með inngöngu í ESB opnast fyrir frjálst kaupæði stórra auðhringja í íslensku samfélagi sem verður til þess að arður fyrirtækja fer úr landi, miðlæg atvinna, yfirstjórn og bakvinnsla færist erlendis og verður þannig til þess að atvinnuleysi eykst og laun lækka.

Látum ekki blekkjast

Umsókn er ekki aðildarviðræður heldur aðlögun og er ekki sú framtíðarsýn sem við í Framsókn höfum. Við viljum vera sjálfstæð þjóð með yfirráð yfir eigin auðlindum og við ætlum að tryggja að svo verði.

Okkar krafa komi til ríkisstjórnarviðræðna er að Ísland verði ekki fært Evrópusambandinu í jólagjöf.

Við ætlum að tryggja að Ísland verði jólagjöfin hvert einasta ár til afkomenda okkar.

Stefán Vagn Stefánsson, oddviti Framsóknar í Norðvesturkjördæmi.

Greinin birtist fyst á visir.is 18. nóvember 2024.