Categories
Fréttir

„Mikil sóknarfæri við að auka gæði menntunar“

Deila grein

12/12/2023

„Mikil sóknarfæri við að auka gæði menntunar“

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segist fagna nýsamþykktum lögum Alþingis um nýja stofnun í skólakerfinu, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. Henni er ætlað að vera ný þjónustu- og þekkingarstofnun sem starfi í þágu barna og ungmenna á sviði menntamála. Miðstöð menntunar og skólaþjónustu mun þjónusta leik-, grunn- og framhaldsskóla um land allt með áherslu á gæði menntunar og skólaþjónustu.

„Ný Miðstöð menntunar og skólaþjónustu er fagleg þekkingarmiðstöð og leiðtogi þegar kemur að gæðum menntunar og farsældar barna í skólum. Hún veitir stuðning við verkefni skóla sem krefjast sérhæfðrar þekkingar í stað þess að þau séu leyst í hverjum skóla fyrir sig. Í henni felast mikil sóknarfæri við að auka gæði menntunar, samræma og deila þekkingunni,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Miðstöð menntunar og skólaþjónustu markar stórt skref við eflingu menntunar og innleiðingu menntastefnu stjórnvalda til ársins 2030. Í víðtæku samráði um framtíðarskipan skólaþjónustu gegnir hún lykilhlutverki í stuðningi við skóla og framkvæmd fyrirhugaðrar heildarlöggjafar um skólaþjónustu.

Miðstöðin hefur störf 1. apríl 2024 og kemur í stað Menntamálastofnunar sem verður lögð niður. Frumvarp til laga um Miðstöðina var lagt fyrir Alþingi á haustþingi og samþykkt á föstudag. Ný störf hjá nýrri stofnun verða auglýst á næstunni.

Verkefni nýrrar stofnunar eru m.a. að:

  • styðja, efla og samhæfa menntun, skólaþjónustu og annað skólastarf um land allt,
  • sjá nemendum fyrir vönduðum og fjölbreyttum námsgögnum,
  • byggja upp og halda utan um aðferðir og úrræði fyrir skóla sem styðja við skólastarf, þar á meðal gæðaviðmið, verkferla, verkfæri og matstæki til greiningar námsárangurs,
  • styðja við innleiðingu stefnumótunar stjórnvalda á sviði menntunar og farsældar barna og ungmenna, þ.m.t. menntastefnu og aðalnámskráa.

Samhliða nýrri þjónustustofnun styrkist geta mennta- og barnamálaráðuneytisins til að afla, greina og birta upplýsingar um menntamál. Lagasetningin er liður í að efla greiningarhæfni stjórnvalda á sviði farsældar barna í heild sinni. Þá verður eftirlit og ytra mat sameinað í mennta- og barnamálaráðuneytinu, í það minnsta fyrst um sinn.

Fagna nýsamþykktum lögum um nýja stofnun í skólakerfinu, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, samþykkt á Alþingi. …

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Þriðjudagur, 12. desember 2023
Categories
Fréttir Greinar

Mál­stefna fyrir ís­lenskt tákn­mál

Deila grein

11/12/2023

Mál­stefna fyrir ís­lenskt tákn­mál

Í vikunni mælti menningar- og viðskiptaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, fyrir þingsályktunartillögu um málstefnu íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun. Þar er gengið út frá að íslenskt táknmál sé hefðbundið minnihlutamál og fyrsta mál þeirra sem þurfa að reiða sig á það til tjáningar og samskipta og barna þeirra, sbr. lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Stjórnvöld stuðli að þróun, rannsóknum, kennslu og útbreiðslu íslensks táknmáls og styðji að öðru leyti við menningu og menntun táknmálsfólks og táknmálsbarna eins og segir í tillögunni.

Með málstefnu íslensks táknmáls er gert ráð fyrir að hún taki til fimm meginstoða, þ.e. máltöku táknmálsbarna, jákvæðs viðhorfs, fjölgunar umdæma íslensks táknmáls, lagaumhverfis og máltækni. Tillögu um málstefnu fylgir aðgerðaáætlun til þriggja ára. Að þeim árum liðnum verða bæði málstefnan og aðgerðaráætlun endurskoðuð.

Táknmál er ekki einkamál

Táknmál er ekki einkamál heyrnalausra, heldur er það tungumál stórs hóps og opinbert mál hér á landi og því tímabært að táknmáli sé gert hærra undir höfði. Þrátt fyrir að táknmál sé opinbert mál hér á landi er lítil sem engin fræðsla eða kennsla í skólum landsins. Lítið sem ekkert er gert til að kynna og kenna íslenskt táknmál sem og menningu og sögu heyrnarlausra fyrir nemendum, en það er með þetta eins og svo margt annað, því með því að auka fræðslu í samfélaginu myndu fordómar minnka og aukinn skilningur yrði á þörfum náungans.

Táknmál er minnihlutamál og því vegur viðhorf til tungumálsins meira heldur en til meirihlutamáls. Táknmál er ekki einka-mál þeirra sem ekki heyra. Það er heyrnarlausum gagnlaust ef hann getur ekki haft samskipti við aðra á sínu tungumáli. Táknmálið er því mikilvægt inni á heimilum, skóla, vinnustað og í samfélaginu öllu.

Á Íslandi eru tvö opinber tungumál, íslenska og íslenskt táknmál. Það er samt staðreynd að þeir sem tala táknmáli hafa ekki sama aðgengi að þjóðfélaginu og aðrir. Viðhorf til tungumálsins hefur áhrif á stöðu einstaklings í þjóðfélaginu og til að breyta því þarf að breyta viðhorfi þjóðfélagsins til táknmálsins. Jákvæð áhrif stjórnvalda hafa líka áhrif og áðurnefnd þingsályktunartillaga er til þess fallin að bæta viðhorf og gera íslenska táknmálinu hærra undir höfði. Eins og segir í greinagerð með þingsályktunartillögunni, þá er jákvætt viðhorf til íslensks táknmáls grundvöllur þess að táknmálstalandi fólk hafi tækifæri á við aðra og skiptir sköpum fyrir aðgengi aðstandenda og fagfólks að upplýsingum um tungumálið

Talaðu við mig

Þegar barn fæðist heyrnalaust eða einstaklingur missir heyrn er mikilvægt að bæði barnið/einstaklingurinn fái stuðning og ekki bara hann því fjölskyldan og nánasta umhverfi hennar þarfnast líka stuðnings. Í aðgerðaráætlun er talað um að ef barn reynist vera með skerta heyrn verði snemmtækri íhlutun beitt til að tryggja viðkomandi barni og fjölskyldu þess öll úrræði sem koma barninu að gagni. Sé ástæða til, verði foreldrum heyrnarlausra og heyrnarskertra barna bent á þjónustu Samskiptamiðstöðvar heyrnarlausra og heyrnarskertra. Þetta er atriði sem getur skipt sköpum fyrir framtíð barns sem fæðist heyrnarlaust. Þá er mikilvægt að þessi úrræði grípi fjölskyldur um allt land. Samskiptamiðstöð hefur verið með slík verkefni á sinni könnu og gefist vel. Bæði við að styðja fjölskyldur og skóla sem viðkomandi þarf að sækja.

Það er ósk mín að þessi málstefna íslensks táknmáls og aðgerðaráætlun verði virkjuð sem fyrst okkur öllum til bóta.

Halla Signý Kritjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Raunsæispólitík er nauðsynleg

Deila grein

10/12/2023

Raunsæispólitík er nauðsynleg

Saga ís­lensks þjóðfé­lags er saga fram­fara. Á fyrri hluta 20. ald­ar­inn­ar var Ísland meðal fá­tæk­ustu ríkja Evr­ópu en á und­an­förn­um ára­tug­um hafa lífs­kjör batnað mikið og skip­ar landið sér nú í hóp fremstu ríkja heims þegar ýms­ir mæli­kv­arðar eru skoðaðir. Um­skipti sem þessi ger­ast ekki af sjálfu sér, að baki þeim ligg­ur þrot­laus vinna kyn­slóðanna og sú raun­sæja afstaða að nýt­ing auðlinda lands­ins sé drif­kraft­ur­inn og aflvak­inn á bak við efna­hags­lega vel­sæld.

Inn­lend orka gulls ígildi

Virði inn­lendr­ar orku kom ber­sýni­lega í ljós í kjöl­far ólög­legr­ar inn­rás­ar Rússa í Úkraínu. Orku­skort­ur fór að gera vart við sig á meg­in­landi Evr­ópu og mikl­ar hækk­an­ir á orku­verði í álf­unni urðu til þess að verðbólga hækkaði enn frek­ar. Þannig kynntu stjórn­völd í ýms­um lönd­um aðgerðapakka til þess að dempa áhrif þess­ara hækk­ana á raf­orku, til dæm­is með lánalín­um, bein­greiðslum til heim­ila og hval­reka­skött­um á orku­fyr­ir­tæki til þess að fjár­magna mót­vægisaðgerðir. Ísland býr aft­ur á móti við mikið sjálf­stæði í orku­mál­um miðað við ýms­ar aðrar þjóðir og fram­leiðir mikla end­ur­nýj­an­lega orku fyr­ir heim­ili og fyr­ir­tæki. Íslensk heim­ili greiða lágt verð fyr­ir orku en verðlagn­ing henn­ar lýt­ur ekki sömu lög­mál­um og verðlagn­ing á orku á meg­in­landi Evr­ópu, þar sem ís­lenska flutn­ingsnetið er ótengt því evr­ópska. Orku­öfl­un hef­ur verið burðarás í ís­lenskri lífs­kjara­sókn og til að viðhalda þeirri sókn þarf að afla frek­ari orku. Verðmæti verða ekki til af sjálfu sér, það þarf að hafa fyr­ir því að búa þau til, í sátt við nátt­úru og sam­fé­lagið. Okk­ur hef­ur vegnað vel í sjálf­bærri nýt­ingu nátt­úru­auðlinda og af því get­um við verið stolt. Það er með öllu óraun­sætt fyr­ir hag­kerfið að sækja fram af viðlíka krafti og undafarna ára­tugi án frek­ari orku­öfl­un­ar.

Keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar

Staða rík­is­sjóðs hef­ur styrkst veru­lega á umliðnum ára­tug. Þar skipt­ir miklu máli hvernig stjórn­völd­um tókst á sín­um tíma að tryggja far­sæl­ar mála­lykt­ir í þágu ís­lenskra hags­muna gagn­vart slita­bú­um föll­um bank­anna. Þær ráðstaf­an­ir hafa skilað rík­inu mörg hundruð millj­örðum sem meðal ann­ars hafa nýst til að greiða niður op­in­ber­ar skuld­ir og treysta þannig stöðu op­in­berra fjár­mála. Þá hef­ur ferðaþjón­ust­an einnig fært mikla björg í bú fyr­ir hag­kferið. Það hef­ur sýnt sig á und­an­förn­um árum að rík­is­sjóður hef­ur verið vel und­ir það bú­inn að tak­ast á við risa­stór verk­efni, líkt og heims­far­ald­ur­inn á sama tíma og fjár­fest hef­ur verið af mikl­um mynd­ar­skap í ýms­um mála­flokk­um á veg­um hins op­in­bera. Keppikefli efna­hags­stjórn­ar­inn­ar núna er að ná verðbólg­unni niður í þágu sam­fé­lags­ins alls. Slíkt verk­efni verður ekki leyst nema í sam­vinnu rík­is og sveit­ar­fé­laga, Seðlabanka Íslands og aðila vinnu­markaðar­ins. Rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt aðhalds­samt fjár­laga­frum­varp þar sem Stjórn­ar­ráðið tek­ur á sig hvað mest aðhald. Það sama má segja um launa­hækk­un æðstu emb­ætt­is­manna rík­is­ins sem var lækkuð niður í 2,5%, sem kall­ast á við verðbólgu­mark­mið Seðlabank­ans, og gjald­skrár­hækk­an­ir tak­markaðar við 3,5%. Með þessu vilja stjórn­völd leiða með góðu for­dæmi enda mikið í húfi fyr­ir fólk og fyr­ir­tæki að ná verðbólg­unni niður. All­ir verða að líta raun­sætt í eig­in rann til að leggja sitt af mörk­um. Þar munu kom­andi kjara­samn­ing­ar skipta lyk­il­máli um fram­haldið. Verk­efnið er stórt og flókið en vel ger­legt að leysa. Ég bind mikl­ar von­ir við sam­taka­mátt okk­ar allra, við þurf­um öll að stunda raun­sæja póli­tík til að ná settu marki; að sigr­ast á verðbólg­unni og halda áfram að bæta lífs­kjör­in í land­inu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 9. desember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Deila grein

01/12/2023

Opinská samtöl í átt að betri landbúnaði

Matarkista okkar Íslendinga er fjölbreytt og margþætt. Hér á landi eru framleiddar heilnæmar afurðir sem unnar eru af alúð. Íslensk matvælaframleiðsla göfgar okkar samfélag og menningu.

Við erum rík af náttúrutengingu okkar, en einn af hornsteinum landbúnaðarins er að tryggð sé rétt nýting lands og verndun þess. Með öflugum landbúnaði, sem hingað til hefur verið eitt einkenna okkar Íslendinga, er stuðlað að bæði fæðuöryggi landsmanna og afli til að viðhalda blómlegri byggð um landið. Framleiðslan hefst hjá bændum, sem hafa unnið hörðum höndum við að tryggja að íslensk matvæli eru heilnæm, örugg og í hæsta gæðaflokki. Þrátt fyrir þrotlausa vinnu á stéttin undir þungt högg að sækja.

Við í Framsókn höfum alltaf unnið við að styðja þessa mikilvægu stétt og þeirri vinnu mun aldrei ljúka. Við höfum talað fyrir þeim sjónarmiðum að áfram þurfi að leita leiða til að styrkja landbúnað sem atvinnugrein, stuðla að aukinni sjálfbærni og gæta að búsetuöryggi á landsbyggðinni.

Ein elsta starfsgrein landsins sinnir mjög mikilvægu hlutverki til framtíðar og við verðum að tryggja henni tækifærin til þess.

Grafalvarleg staða

Þó svo að bændur séu því vanir að staða starfsgreinarinnar sé sveiflukennd þá hefur útlitið sjaldan verið eins slæmt né óvissan jafnmikil og núna. Það hefur varla farið fram hjá landsmönnum að aðstæður bænda og rekstrargrundvöllur fara versnandi með hverjum mánuði.

Margar ástæður eru fyrir þessari stöðu, en hana má aðallega rekja til utanaðkomandi atburða og aðstæðna. Við í Framsókn horfum á núverandi stöðu innan stéttarinnar alvarlegum augum, en hún er í raunverulegri hættu sem við verðum að gera út af við.

Á undanförnum vikum buðum við bændum á opna fundi á Norður- og Austurlandi, enda er það allra mikilvægasta að heyra áhyggjur þeirra beint. Andrúmsloftið á fundunum var skiljanlega þungt á köflum, en þeir voru góðir, gagnlegir og vel sóttir þar sem farið var yfir stöðuna og ekki síður horfur innan greinarinnar á opinskáan máta.

Af umfjöllun síðustu mánaða og framangreindum fundum með bændum er ljóst að fjöldi verkefna hefur beðið úrlausnar í of langan tíma þegar kemur að málefni landbúnaðarins og styrkingu á öflugri byggð á dreifðari svæðum. Allir eru sammála um að einfalda þurfi regluverkið í kringum atvinnugreinina, bæta aðgengi og efla rekstrarumhverfi innan landbúnaðarins.

Langur verkefnalisti

Bændur hafa lengi bent á að bú sé langtímastarfsemi, en bændur hafa farið í nauðsynlegar fjárfestingar sem hafa leitt til talsverðrar skuldsetningar.

Takmarkaðir fjármögnunarmöguleikar hafa, í samspili við hátt vaxtaumhverfi, leitt til þess að þungbærar horfur blasa nú við.

Á fundum okkar með bændum kom m.a. fram að rík þörf er fyrir endurfjármögnunarmöguleikum þar sem horft er til lengri tíma lánveitingu. Við viljum skoða möguleika á opinberu fyrirkomulagi sem getur styrkt greinina í heild og miðar að eðli starfseminnar.

Á sama tíma er mikilvægt að einfalda rekstrarumhverfi svo að unnt sé að skapa aukin tækifæri í landbúnaði með sjálfbærni að leiðarljósi. Þau sjónarmið eru í samræmi við það sem ungir bændur og nýliðar í greininni hafa lagt mikla áherslu á. Þau úrræði sem komið hafa fram að undanförnu, svo sem hlutdeildarlán, hafa ekki nýst ungum fjölskyldum í búrekstri sem skyldi. Þessar leiðir eru áhugaverðar og jákvæðar en þarfnast frekari útfærslu svo þær gefi góða raun, enda teljum við brýnt að nýliðun í landbúnaði verði útfærð þannig að hún hjálpi til við að lækka þröskuldinn fyrir þá aðila sem hyggjast hefja búrekstur.

Við í Framsókn tökum undir með bændum um að endurskoða þurfi fyrirkomulag tolla hér á landi og innflutning á afurðum erlendis frá. Tollavernd er innlendri matvælaframleiðslu afar mikilvæg og á að stuðla að því að hún geti stundað eðlilega samkeppni við sívaxandi innflutning á réttum og sanngjörnum forsendum. Á fundum okkar með bændum voru ræddar þær kröfur  sem við eigum að gera til innfluttra matvæla. Þær verða að vera í samræmi við þær kröfur sem við gerum hér heima. Þá eiga að vera gerðar kröfur m.t.t. sýklalyfjanotkunar, aðbúnað dýra og túlkun á gildandi löggjöf.

Tekjur og málefni afurðastöðva voru einnig rædd. Ekki síst í tengslum við verðmið við innflutning, sem er krónutölubundinn að hluta en fylgir ekki verðlagi. Það eru fjölmörg skýr dæmi um hversu brýnt er að huga sérstaklega að tekjum afurðastöðva innan landbúnaðarins.

Augljóst er að verkefnin eru fjölmörg og geta ekki beðið úrlausnar í langan tíma. Sjaldan hefur verið jafn nauðsynlegt að bretta upp ermar í þessum málaflokki. Bændur eiga það skilið að ríkið vinni með þeim á erfiðum tímum og aðstoði þá við að bæta stöðu þeirra og rekstrargrundvöll áður en að stór hluti greinarinnar heyri sögunni til í stað þess að spila sitt hlutverk til framtíðar.

Ingibjörg Isaksen og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmenn Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Bændablaðinu 30. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Fullveldissagan og framtíð hennar á íslensku

Deila grein

01/12/2023

Fullveldissagan og framtíð hennar á íslensku

Sér­hverj­um full­veld­is­degi þjóðar­inn­ar ber að fagna. Í dag eru liðin 105 ár frá því að sam­bands­lög­in milli Íslands og Dan­merk­ur tóku gildi og þannig viður­kennt að Ísland væri frjálst og full­valda ríki. Sá áfangi markaði upp­hafið að fram­fara­sögu full­valda þjóðar sem í dag skip­ar sér í röð meðal fremstu ríkja ver­ald­ar á fjöl­mörg­um sviðum. Í amstri hvers­dags­ins vill það stund­um gleym­ast að við get­um ekki tekið grund­vall­ar­hlut­um í sam­fé­lags­gerð okk­ar sem sjálf­sögðum. Frelsi og full­veldi, lýðræði og mann­rétt­indi eru því miður fjar­læg­ir og jafn­vel fram­andi hlut­ir fyr­ir mörg­um jarðarbú­um. Í okk­ar eig­in heims­álfu geis­ar til dæm­is enn ólög­legt inn­rás­ar­stríð þar sem sótt er að þess­um gild­um.

Íslensk­an, þjóðtunga Íslend­inga og op­in­bert mál á Íslandi, er eitt af ein­kenn­um þjóðar okk­ar. Íslensk­una telja senni­lega marg­ir vera hið eðli­leg­asta og sjálf­sagðasta mál sem fylgt hef­ur íbú­um þessa lands í meira en 1.100 ár. Þannig var tungu­málið til dæm­is samofið bar­áttu þjóðar­inn­ar fyr­ir full­veldi sínu þar sem hún þjónaði sem okk­ar helsta vopn, en hún var í senn álit­in sam­ein­ing­ar­tákn og rétt­læt­ing ís­lensku þjóðar­inn­ar fyr­ir sér­stöðu sinni; sér­stök þjóðtunga, sér­stök menn­ing.

Það er eng­um blöðum um það að fletta í mín­um huga að ís­lensk­an stend­ur á ákveðnum kross­göt­um. Hraðar og um­fangs­mikl­ar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar und­an­far­inna ára hafa fram­kallað áskor­an­ir af áður óþekkt­um stærðargráðum fyr­ir tungu­málið okk­ar. Örar tækni­breyt­ing­ar hafa gjör­bylt því mál­um­hverfi sem börn al­ast upp í og ensk­an er nú alltumlykj­andi hvert sem litið er.

Við sem þjóðfé­lag get­um ekki horft á tungu­málið okk­ar þynn­ast út og drabbast niður. Í vik­unni kynntu stjórn­völd 19 aðgerðir í þágu ís­lensk­unn­ar. Aðgerðirn­ar snerta flest svið sam­fé­lags­ins en í þeim er meðal ann­ars lögð áhersla á mál­efni ís­lensku­kennslu fyr­ir full­orðna inn­flytj­end­ur, aukið sam­starf við at­vinnu­lífið og þriðja geir­ann. Sum­ar aðgerðanna fela í sér um­fangs­mikl­ar kerf­is­breyt­ing­ar til hins betra en ís­lensk­an er úti um allt í sam­fé­lagi okk­ar og því tek­ur það sinn tíma að stilla sam­an strengi í jafn fjöl­breyttu verk­efni og raun ber vitni.

Við get­um öll gert okk­ar til þess að efla og þróa tungu­málið okk­ar til framtíðar. Og það þurfa all­ir að gera – það er verk­efni sam­fé­lags­ins að tryggja framtíð ís­lensk­unn­ar og þar er ekki í boði að skila auðu. Ég finn skiln­ing á þessu mik­il­væga viðfangs­efni vaxa með viku hverri og við ætl­um að tryggja að full­veld­is­saga þjóðar­inn­ar verði áfram skrifuð á ís­lensku um ókomna framtíð.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 1. desember 2023.

Categories
Fréttir

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu

Deila grein

30/11/2023

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu

„Íslensk tunga er grunnur alls sem við gerum og stöndum fyrir en við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu á mörgum sviðum samfélagsins gagnvart stöðu hennar og þróun. Það verkefni kallar margar hendur til góðra verka. Nú höfum við skilgreint ákveðin forgangsmál og samvinnuverkefni sem því tengjast í nýrri aðgerðaáætlun – ég vonast til þess að málið komist fljótt á dagskrá þingsins og að við náum góðri umræðu á vettvangi þess um þetta mikilvæga málefni,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu verður lögð fram sem þingsályktunartillaga á Alþingi á næstu dögum. Ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu kynnti tillögur sínar að alls 19 aðgerðum sem miða að því að styrkja stöðu tungumálsins til framtíðar.

Nefndin var sett á laggirnar í nóvember 2022, að tillögu forsætisráðherra. Henni er ætlað að efla samráð og samstarf milli ráðuneyta um málefni íslenskrar tungu og tryggja samhæfingu þar sem málefni skarast. Auk forsætisráðherra eiga menningar- og viðskiptaráðherra, mennta- og barnamálaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra fast sæti í nefndinni.

Yfirlit yfir aðgerðir:

1. Starfstengt íslenskunám fyrir innflytjendur samhliða vinnu
2. Bætt gæði íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
3. Virkjun Samevrópska tungumálarammans.
4. Fjarnám í íslensku á BA-stigi.
5. Sameiginlegt fjarnám í íslensku sem öðru máli.
6. Háskólabrú fyrir innflytjendur.
7. Viðhorf til íslensku.
8. Mikilvægi lista og menningar.
9. Aukin talsetning og textun á íslensku.
10. Íslenskugátt
11. Öflug skólasöfn.
12. Vefgátt fyrir rafræn námsgögn.
13. Samræmt verklag um móttöku, kennslu og þjónustu.
14. Efling íslenskuhæfni starfsfólks í leik og grunnskólum og frístundastarfi.
15. Samþætting íslensku og erlendra móðurmála á fagtengdum grunnnámskeiðum
16. Framtíð máltækni.
17. Íslenska handa öllum.
18. Íslenska er sjálfsagt mál.
19. Starfsþróun og hæfni þeirra sem kenna íslensku sem annað mál.


Unnið hefur verið að mótun aðgerðanna í samstarfi ráðuneytanna fimm en þær snerta flest svið samfélagsins. Þær eru misumfangsmiklar en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann.

🇮🇸 Íslenska er okkar mál og að henni ætlum við að hlúa. Í dag voru kynntar umfangsmiklar aðgerðir í þágu tungumálsins…

Posted by Lilja Dögg Alfreðsdóttir on Miðvikudagur, 29. nóvember 2023

Leiðarstef í aðgerðunum er að bæta aðgengi og gæði íslenskukennslu, stuðla að auknum sýni- og heyranleika tungumálsins og aukinni samvinnu um það langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.

Ráðgert er að framlög vegna aðgerðanna muni nema um 1.365 milljónum kr. en í áætluninni eru einnig aðgerðir sem ekki hafa verið kostnaðarmetnar að fullu og því má gera ráð fyrir að heildarkostnaður verði hærri. Auk aðgerðanna 19 í áætluninni er víðar unnið að fjölbreyttum verkefnum í þágu íslenskrar tungu; hjá ráðuneytum, sveitarfélögum, stofnunum og félagasamtökum.

Með áætluninni eru forgangsverkefni stjórnvalda í málefnum íslenskunnar skilgreind með hliðsjón af tillögum Íslenskrar málnefndar að endurskoðaðri málstefnu. Drög að tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun í málefnum íslenskrar tungu 2023–2026 voru til umsagnar í Samráðsgátt stjórnvalda sl. sumar. Alls bárust 36 umsagnir um tillöguna og ýmsar gagnlegar athugasemdir og ábendingar sem horft var til við nánari mótun aðgerðanna, auk þess sem fjölmargir umsagnaraðilar lýstu yfir ánægju sinni með aðgerðaáætlunina í heild sinni.

Menningar- og viðskiptaráðherra mun mæla fyrir þingsályktunartillögunni á næstu dögum og má fylgjast með ferli málsins á vef Alþingis.

Sjá nánar:

Categories
Fréttir

Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu ásamt fimm ára aðgerðaáætlun lögð fram á Alþingi 

Deila grein

29/11/2023

Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu ásamt fimm ára aðgerðaáætlun lögð fram á Alþingi 

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu fyrir árin 2024-2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024-2028.

„Það hefur margt breyst í samfélaginu okkar á undanförnum árum og eru viðfangsefni skipulagsgerðar nú fleiri en þegar gildandi landsskipulagsstefna var mótuð. Ísland hefur undirgengist ýmsar alþjóðaskuldbindingar sem hafa þýðingu fyrir skipulagsmál, s.s. loftlagsmál en loftslagsbreytingar eru ein stærsta áskorun samtímans. Landið í heild þarf að vera eftirsóknarverður kostur fyrir ungt fólk og mikilvægt er að þróun búsetu- og samgöngumynsturs styðji til framtíðar markmið í loftslagsmálum og styrki byggð vítt og breitt um landið. Í því samhengi er mikilvægt að sveitarfélög hugi að þessum málum í sinni skipulagsgerð og að fyrir liggi leiðbeiningar um hvernig skipulagsgerðin getur haft áhrif í baráttunni við loftslagsvána,“ segir Sigurður Ingi.

Landsskipulagsstefna

Landsskipulagsstefna felur í sér samræmda stefnu ríkisins í skipulagsmálum fyrir landið í heild og tekur til landsins alls og haf- og strandsvæða. Landsskipulagsstefnu er fyrst og fremst framfylgt í gegnum skipulagsgerð sveitarfélaga en samkvæmt skipulagslögum skulu sveitarfélög byggja á og taka mið af áherslum landsskipulagsstefnu við skipulagsgerð. Þá er lögð fram sérstök aðgerðaráætlun og er henni einnig ætlað að stuðla að framfylgd stefnunnar.

Framtíðarsýn

Landsskipulagsstefnan byggist á eftirfarandi framtíðarsýn í skipulagsmálum: „Að skipulag stuðli að sjálfbærri þróun og lífsgæðum, styðji samkeppnishæfni og sé sveigjanlegt og stuðli að viðnámsþrótti gagnvart samfélags- og umhverfisbreytingum.“

Lykilviðfangsefni landsskipulagsstefnu

Til að takast á við þær áskoranir sem blasa við á sviði skipulagsmála verði unnið að eftirfarandi níu lykilviðfangsefnum:

  1. Viðbrögðum við loftslagsbreytingum.
  2. Jafnvægi í uppbyggingu húsnæðis og lífsgæði í byggðu umhverfi.
  3. Uppbyggingu þjóðhagslega mikilvægra innviða.
  4. Landnotkun í dreifbýli.
  5. Landnotkun á miðhálendi Íslands.
  6. Orkuskiptum í samgöngum og fjölbreyttum ferðamáta.
  7. Skipulagi haf- og strandsvæða.
  8. Skipulagi vindorku.
  9. Vernd líffræðilegrar fjölbreytni.

Markmið landsskipulagsstefnu

Í tillögu til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu eru sett fram þrjú markmið stjórnvalda í skipulagsmálum sem byggjast á sjálfbærri þróun og hafa skýra tengingu við framtíðarsýn og meginmarkmið innviðaráðuneytisins, þau felast í:

Fyrir hvert markmið eru settar fram áherslur og tilmæli um hvernig framfylgja skuli viðkomandi áherslu í skipulagsgerð hvort sem er á landi eða á haf- og strandsvæðum. Áherslurnar fylgja bæði eftir stefnu sem fram kemur í öðrum áætlunum stjórnvalda en einnig þeim lykilviðfangsefnum sem ráðherra lagði til grundvallar við endurskoðun stefnunnar.

Aðgerðaáætlun til fimm ára

Aðgerðaáætlun stefnunnar felur í sér 19 aðgerðir sem ætlað er að ná fram markmiðum landsskipulagsstefnu. Aðgerðirnar miða einkum að því að gera skipulagsgerð sveitarfélaga skilvirkari með bættu aðgengi að grunngögnum og leiðbeiningum. Aðgerðaáætlun stefnunnar felur í sér markvissar aðgerðir til að stuðla að því að styrkja stöðu Íslands í alþjóðlegum samanburði. Þar má sérstaklega nefna áherslur og veigamiklar aðgerðir til að tryggja heildarhagsmuni við gerð skipulagsáætlana sveitarfélaga og stuðla að sjálfbærri þróun og skilvirkri áætlanagerð þar sem tekið er mið af mögulegum áhrifum loftslagsbreytinga á samfélög og innviði.

Áhersla á loftslagsmál

Eitt af lykilviðfangsefnum landsskipulagsstefnu er að skipulag sé loftslagsmiðað. Ákvarðanir sem teknar eru við gerð skipulagsáætlana eru lykilþáttur í að ná fram samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda, auka bindingu kolefnis og aðlaga samfélagið að breytingum sem verða á umhverfi okkar vegna loftslagsbreytinga. Skipulagsáætlanir í þéttbýli skulu taka mið af vistvænu skipulagi byggðar, sem felur m.a. í sér stefnu um almenningssamgöngur og fjölbreyttan ferðamáta.

Samspil atvinnulífs og samfélags

Markmið endurskoðaðrar landsskipulagsstefnu er meðal annars að hafa jákvæð áhrif á atvinnulíf um allt land, með áherslu á góða samgönguinnviði og tengingar milli byggðarlaga. Er það lykilatriði þeirrar áherslu að jafna búsetuskilyrði í byggðum landsins. Áhersla á alþjóðlega samkeppnishæfni beinir sjónum að samspili atvinnulífs og aðlaðandi samfélags. Mikilvægt er að styrkja atvinnulíf til framtíðar, efla nýsköpun og leita jafnframt leiða til auka fjölbreytni atvinnulífs með tilliti til staðbundinnar þekkingar og styrkleika svæða. Þannig má tryggja komandi kynslóðum velsældarsamfélag sem er eftirsótt til búsetu.

Categories
Fréttir

„Við getum gert betur“

Deila grein

28/11/2023

„Við getum gert betur“

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, alþingismaður, ræddi innlenda garðyrkjurækt og tækifærin á Íslandi sem felast í því að geta ræktað nægilega mikinn mat en þó sé enn langt í land, í störfum þingsins. Innflutningur er á miklu magns matvöru hingað til lands, matvöru sem oft væri hægt að framleiða hér á landi.

„Við erum með tollasamninga við mörg lönd til að jafna stöðuna hér innan lands og við höfum upprunamerkingar á matvöru en því miður er hún oft mjög takmörkuð. Það eru dæmi um að matvara sé framleidd í einu landi og flutt til annars lands og unnin þar og er þá merkt því landi sem hún er unnin í.

Við getum gert mun betur í upprunamerkingu því að neytandinn á rétt á því að vita hvað hann er að kaupa og margir íslenskir bændur og framleiðendur hafa verið að standa sig mjög vel í þeim efnum.“

„Hér á landi er mjög mikið keypt af erlendu grænmeti og þar af leiðandi er oft erfitt að koma innlendri matvöru á markað. Þetta hefur orðið til þess að innlendri matvöru hefur oft verið hent því að hún hefur skemmst á meðan hún er í geymslu. Íslenska matvaran kemst nefnilega ekki inn á markaðinn vegna þess að það er til svo gríðarlegt magn af erlendri matvöru. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða betur.“

„Við þurfum kannski að skoða það líka að menningin hér á landi sem hefur skapast er að við sem neytendur ætlumst til þess að geta keypt allar vörur allan ársins hring, óháð því hvort það sé uppskerutímabil matvörunnar eða ekki. Við getum gert betur,“ sagði Lilja Rannveig að lokum.


Ræða Lilju Rannveigar í heild sinni á Alþingi:

„Hæstv. forseti. Mig langar til að nýta þær tvær mínútur sem ég hef hér til að ræða innlenda matvælaframleiðslu, þá sérstaklega garðyrkjurækt. Hér á landi höfum við gríðarleg tækifæri sem felast í því að við getum ræktað nægilega mikinn mat fyrir okkur sjálf en við eigum þó ansi langt í land með það. Við flytjum inn mjög mikið magn af matvöru hingað til lands, matvöru sem oft væri hægt að framleiða hér á landi. Við erum með tollasamninga við mörg lönd til að jafna stöðuna hér innan lands og við höfum upprunamerkingar á matvöru en því miður er hún oft mjög takmörkuð. Það eru dæmi um að matvara sé framleidd í einu landi og flutt til annars lands og unnin þar og er þá merkt því landi sem hún er unnin í. Við getum gert mun betur í upprunamerkingu því að neytandinn á rétt á því að vita hvað hann er að kaupa og margir íslenskir bændur og framleiðendur hafa verið að standa sig mjög vel í þeim efnum. Hér á landi er mjög mikið keypt af erlendu grænmeti og þar af leiðandi er oft erfitt að koma innlendri matvöru á markað. Þetta hefur orðið til þess að innlendri matvöru hefur oft verið hent því að hún hefur skemmst á meðan hún er í geymslu. Íslenska matvaran kemst nefnilega ekki inn á markaðinn vegna þess að það er til svo gríðarlegt magn af erlendri matvöru. Þetta er eitthvað sem við þurfum að skoða betur. Við þurfum kannski að skoða það líka að menningin hér á landi sem hefur skapast er að við sem neytendur ætlumst til þess að geta keypt allar vörur allan ársins hring, óháð því hvort það sé uppskerutímabil matvörunnar eða ekki. Við getum gert betur.“

Categories
Fréttir

Rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna

Deila grein

28/11/2023

Rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna

„Ég er foreldri fatlaðs barns og ég held ég geti fullyrt að það hefur ekkert kennt mér meira í lífinu heldur en að fá það hlutverk upp í hendurnar,“ sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, alþingismaður, í störfum þingsins.

Sagði hann það vera margvíslegar áskoranir sem biðu foreldra og kallaði hann eftir að kerfið gripi aðstandendur eilítið betur. Það væru til leiðbeiningar hvernig eigi að takast á við þetta nýja hlutverk.

„Ég ætla því að fagna sérstaklega, og ég hef rætt það á öðrum vígstöðvum, samningi sem undirritaður var í síðustu viku á milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Landssamtakanna Þroskahjálpar um að setja á fót rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna,“ sagði Ágúst Bjarni.

„Hér er um að ræða þriggja ára tilraunaverkefni — 18 milljónir yfir þriggja ára tímabil, um 6 milljónir á ári — og ég fagna þessu mjög og ég fagna því líka að þarna sé lögð sérstök áhersla á upplýsingar fyrir foreldra með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Ég held að við hér á Alþingi hljótum að fagna verkefnum sem þessum,“ sagði Ágúst Bjarni að lokum.


Ræða Ágústs Bjarna í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegur forseti. Ég er foreldri fatlaðs barns og ég held ég geti fullyrt að það hefur ekkert kennt mér meira í lífinu heldur en að fá það hlutverk upp í hendurnar. Ég sagði það í viðtali sem tekið var við mig í sumar í Klifri, blaði Sjálfsbjargar, landssambands hreyfihamlaðra, að það væru margvíslegar áskoranir sem biðu þeirra sem fengju þetta hlutverk í hendurnar. Það væri óskandi oft og tíðum að kerfið gripi aðstandendur eilítið betur, því að erum við öll tilbúin í þetta hlutverk? Nei. Þurfum við hjálp? Já, við þurfum oft aðstoð og leiðbeiningar um það hvernig við eigum að takast á við þetta nýja hlutverk í okkar lífi.

Ég ætla því að fagna sérstaklega, og ég hef rætt það á öðrum vígstöðvum, samningi sem undirritaður var í síðustu viku á milli mennta- og barnamálaráðuneytis og Landssamtakanna Þroskahjálpar um að setja á fót rafrænt upplýsingatorg fyrir foreldra fatlaðra barna, þar sem verða upplýsingar um alla þá þjónustu og þann stuðning sem stendur foreldrum fatlaðra barna til boða. Hér er um að ræða þriggja ára tilraunaverkefni — 18 milljónir yfir þriggja ára tímabil, um 6 milljónir á ári — og ég fagna þessu mjög og ég fagna því líka að þarna sé lögð sérstök áhersla á upplýsingar fyrir foreldra með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn. Ég held að við hér á Alþingi hljótum að fagna verkefnum sem þessum.“

Categories
Fréttir

Gervigreind og lýðræði

Deila grein

28/11/2023

Gervigreind og lýðræði

Þróun og framtíð gervigreindar er viðfangsefni fyrstu málstofunnar í fundaröð um gervigreind og lýðræði sem framtíðarnefnd Alþingis stendur fyrir. Fyrsta málstofan verður föstudaginn 1. desember og stendur fundaröðin fram eftir næsta ári.

Fundarstjóri er Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, formaður framtíðarnefndar, og mun hún í upphafi fundar kynna starf framtíðarnefndar. Lilja Rannveig ber upp spurningar framtíðarnefndar og einnig getur fjölmiðlafólk á málstofunni spurt spurninga, auk þátttakenda í streymi, sem geta sent spurningar sínar á netfangið framtid@althingi.is.

Á fyrstu málstofunni verður fjallað um skilgreiningu á gervigreind, rýnt í stöðuna í dag og mögulegar sviðsmyndir gervigreindar til framtíðar. Gestir fyrstu málstofunnar verða tveir: Brynjólfur Borgar Jónsson, framkvæmdastjóri Datalab, og Páll Rafnar Þorsteinsson, heimspekingur og verkefnastjóri við Siðfræðistofnun Háskóla Íslands. Brynjólfur flytur erindið „Framfarir gervigreindar. Áhrif til lengri og skemmri tíma“ og erindi Páls ber yfirskriftina „Gervi-greind – alvöru álitamál. Um siðferðilegar áskoranir á öld gervigreindar“.

Málstofan fer fram föstudaginn 1. desember kl. 10–11 í fundarherbergi 2 á nefnda- og greiningarsviði Alþingis í Austurstræti 8–10 og er opin fjölmiðlafólki.

Á málstofunum mun nefndin eiga samtöl við helstu sérfræðinga og ræða framtíðaráskoranir og hugsanlegar sviðsmyndir en það að skoða mismunandi sviðsmyndir auðveldar ákvarðanatöku til framtíðar litið.

Málstofurnar verða í beinu streymi á Alþingisrásinni og vef Alþingis. Þátttakendur málstofunnar sem fylgjast með í streymi geta sent inn fyrirspurnir á netfangið framtid@althingi.is. Með þessu móti vill framtíðarnefndin opna starf þingsins og eiga samtal við þjóðina. Einnig verða upptökur af málstofunum aðgengilegar á vef Alþingis.

Hlutverk framtíðarnefndar Alþingis er að fjalla um áskoranir og tækifæri Íslands í framtíðinni að því er snertir tæknibreytingar, langtímabreytingar á umgengni við náttúruna, lýðfræðilegar breytingar og sjálfvirknivæðingu.