Categories
Fréttir Greinar

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Deila grein

27/11/2023

Staðið við bakið á Grindvíkingum

Föstu­dags­kvöldið 10. nóv­em­ber 2023 mun aldrei líða Grind­vík­ing­um úr minni. Aldrei áður hafa all­ir íbú­ar heils bæj­ar­fé­lags á Íslandi fengið þau fyr­ir­mæli frá al­manna­varna­yf­ir­völd­um að þeir verði að yf­ir­gefa heim­ili sín inn­an þriggja klukku­stunda vegna yf­ir­vof­andi ógn­ar. Á þessu augna­bliki og öll­um síðan hafa all­ir Íslend­ing­ar fundið til sam­kennd­ar með Grind­vík­ing­um. Viðbrögð þjóðar­inn­ar hafa verið sterk og all­ir lagst á ár­arn­ar við að létta und­ir með Grind­vík­ing­um og eyða eft­ir megni þeirri óvissu sem rík­ir.

Grind­vík­ing­ar eru ekki heima hjá sér þessa dag­ana. Sam­fé­lag þeirra er dreift um landið en ég finn í sam­töl­um mín­um við Grind­vík­inga að hug­ur­inn er heima. Auðvitað.

Frá því að Grind­vík­ing­ar þurftu að yf­ir­gefa bæ­inn sinn hef­ur rík­is­stjórn­in lagt alla áherslu á að styðja við bæj­ar­yf­ir­völd í þeim flóknu verk­efn­um sem við blasa. Það er mik­il­vægt að for­svars­fólk sveit­ar­fé­lags­ins stjórni ferðinni þegar um bæj­ar­fé­lagið þess er að ræða. Rík­is­stjórn­in og öll stjórn­sýsla rík­is­ins er þeim til stuðnings. Það hef­ur verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með bæj­ar­stjóra og öðrum þeim sem standa í stafni sveit­ar­fé­lags­ins. Og þakk­arvert að sjá þá miklu vinnu sem viðbragðsaðilar hafa lagt af mörk­um síðustu vik­ur.

Rík­is­stjórn­in hef­ur verið í góðu sam­bandi við bæj­ar­stjóra Grinda­vík­ur um þau verk­efni sem snúa að stjórn­völd­um. Við höf­um stutt við bor­an­ir eft­ir neyslu­vatni vegna hætt­unn­ar af því að vatns­ból Suður­nesja­manna spill­ist. Við höf­um veitt all­ar þær und­anþágur sem þarf til að sveit­ar­stjórn Grinda­vík­ur starfi utan ráðhúss Grinda­vík­ur. Stærsta verk­efnið er þó ann­ars veg­ar að tryggja ör­yggi og fram­færslu og hús­næði. Að öllu þessu hef­ur verið unnið hörðum hönd­um í sam­vinnu við Grinda­vík­ur­bæ þá sól­ar­hringa sem liðnir eru frá rým­ingu.

Fyrsti þátt­ur hús­næðismál­anna var að koma öll­um Grind­vík­ing­um í ör­uggt skjól. Al­manna­varn­ir í sam­starfi við Rauða kross­inn unnu þann þátt hratt og vel. Nú hafa þau rétt keflið til rík­is­stjórn­ar­inn­ar sem hef­ur lagt nótt við dag að vinna að lausn­um til næstu mánaða. Auðvitað í sam­starfi við Grind­vík­inga. Ann­ars veg­ar er unnið að því að HMS með leigu­fé­lag­inu Bríeti og íbúðafé­lag­inu Bjargi kaupi hús­næði sem get­ur hýst allt að 200 grind­vísk­ar fjöl­skyld­ur á allra næstu vik­um. Hins veg­ar er ann­ar hóp­ur sem hef­ur það hlut­verk að finna ein­inga­hús sem henta Grind­vík­ing­um og finna staðsetn­ingu þar sem slík­um hús­um er hægt að koma niður hratt og ör­ugg­lega. Von­ir standa til að slíkt ferli geti skilað því að á fyrstu mánuðum nýs árs geti Grind­vík­ing­ar flutt tíma­bundið inn í þau hús.

Af­koma fólks­ins í Grinda­vík hef­ur ásamt hús­næðismál­un­um verið í al­gjör­um for­gangi hjá rík­is­stjórn­inni. Sér­stakt frum­varp um tíma­bund­inn stuðning til greiðslu launa var lagt fyr­ir Alþingi fyrr í vik­unni og verður von­andi af­greitt sem lög í upp­hafi næstu viku. Þá var einnig samþykkt í rík­is­stjórn í gær frum­varp um sér­tæk­an hús­næðisstuðning við Grind­vík­inga.

Sam­fé­lag er meira en póst­núm­er. Það er allt skóla­starfið, fé­lags­lífið, vinnustaðirn­ir. Nú er þetta sam­fé­lag tvístrað um stund. En ekki sam­kennd­in. Það fann ég sterkt þegar ég heim­sótti miðstöð Grind­vík­inga í Toll­hús­inu fyrr í vik­unni. Þar ríkti sam­hug­ur og von um að geta snúið aft­ur heim. Heim í Grinda­vík.

Ég get ekki lofað því að næstu vik­ur og mánuðir verði auðveld­ur tími fyr­ir Grind­vík­inga. En ég get lofað því að rík­is­stjórn­in mun gera allt sem í henn­ar valdi stend­ur til að draga úr óvissu og standa vörð um Grind­vík­inga þar til þeir snúa heim.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar og innviðaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Ögurstund í verðbólguglímunni

Deila grein

27/11/2023

Ögurstund í verðbólguglímunni

Stærsta hags­muna­mál ís­lenskra heim­ila og fyr­ir­tækja í dag er að ná verðbólgu niður. Það er göm­ul saga og ný að há verðbólga bitn­ar einna helst á þeim sem síst skyldi, það er þeim efnam­inni. Fólk jafnt sem fyr­ir­tæki finna vel fyr­ir háu vaxta­stigi með til­heyr­andi áhrif­um á kaup- og fjár­fest­inga­getu sína. Það er í mín­um huga ljóst að glím­an við verðbólgu verður ekki unn­in af ein­um aðila held­ur þurfa ríki og sveit­ar­fé­lög, Seðlabanki Íslands og aðilar vinnu­markaðar­ins að leggj­ast sam­an á ár­arn­ar til þess að ná henni niður.

Verðbólguþró­un­in vara­söm en ljós við enda gang­anna

Því miður hef­ur verðbólg­an verið yfir 2,5% verðbólgu­mark­miði Seðlabanka Íslands í meira en þrjú ár. Verðbólg­an var 7,9% í októ­ber og und­ir­liggj­andi 6,3%. Um­fang hækk­ana er enn út­breitt og í októ­ber höfðu rúm­lega 40% neyslukörf­unn­ar hækkað um meira en 10% frá því á sama tíma í fyrra. Sam­kvæmt Seðlabanka Íslands hafa aðeins um 20% af neyslukörf­unni hækkað um minna en 5% frá fyrra ári. Enn er mik­il þensla á vinnu­markaði og at­vinnu­leysi minni­hátt­ar, því eru áhrif kostnaðar­hækk­ana enn sjá­an­leg. Verð inn­lendr­ar vöru hef­ur hækkað um tæp 11%. Á sama tíma hef­ur verðbólga á heimsvísu verið að drag­ast sam­an og er skýr­inga einkum að leita í lægra hrávöru- og orku­verði. Þá var ánægju­legt að sjá í grein­ingu Seðlabank­ans í síðustu Pen­inga­mál­um að auk­in verðbólga virðist ekki til­kom­in vegna hækk­andi álagn­ing­ar­hlut­falls fyr­ir­tækja.

Of háar verðbólgu- vænt­ing­ar á Ísland

Verðbólgu­vænt­ing­ar markaðsaðila til eins og tveggja ára eru 5,5% eft­ir ár en 4,2% eft­ir tvö ár. Markaðsaðilar telja að til lengri tíma verði verðbólga 4% að meðaltali næstu fimm ár og 3,5% að meðaltali. Talið er að kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga sé veik­ari á Íslandi, sem get­ur valdið því að óvænt­ar verðhækk­an­ir hafi meiri og dýpri áhrif á verðbólgu en í ríkj­um þar sem kjöl­fest­an er meiri. Sögu­lega hef­ur verðbólga verð þrálát og veikt kjöl­fest­una.

Verðbólgu­vænt­ing­ar eru afar mik­il­væg mælistærð, þar sem þær gefa vís­bend­ingu um stig verðbólgu sem ein­stak­ling­ar, fyr­ir­tæki og fjár­fest­ar bú­ast við að sjá í næstu framtíð. Þess­ar vænt­ing­ar hafa áhrif á efna­hags­leg­ar ákv­arðanir, þ.e. eyðslu, sparnað og fjár­fest­ing­ar, og geta þannig haft af­ger­andi áhrif á raun­veru­lega verðbólgu. Inn­an hag­fræðinn­ar á þátt­ur verðbólgu­vænt­inga sér í raun ekki langa sögu, en það var ekki fyrr en á átt­unda ára­tugn­um að hag­fræðing­arn­ir Milt­on Friedm­an og Ed­mund Phelps hófu hvor í sínu lagi að vekja at­hygli á mik­il­vægi þeirra til að skilja verðbólguþróun, en fram að því hafði at­hygl­in beinst að svo­kallaðri „Phillips-kúrfu“ sem er í sinni ein­föld­ustu mynd sam­band verðbólgu og at­vinnu­leys­is. Áttundi ára­tug­ur­inn ein­kennd­ist ein­mitt af mik­illi verðbólgu og var það und­ir for­ystu Volkers seðlabanka­stjóra Banda­ríkj­anna að seðlabank­ar fóru að taka mið af verðbólgu­vænt­ing­um með það að mark­miði að ná tök­um á vænt­ing­um. Á þess­um tíma voru stýri­vext­ir í hæstu hæðum og með tím­an­um leiddi sú pen­inga­stefna ásamt kerf­is­um­bót­um á fram­boðshliðinni í hag­kerf­inu til viðvar­andi lækk­un­ar verðbólgu í flest­um þróuðum hag­kerf­um. Íslend­ing­ar voru seinni til og náðist ekki ár­ang­ur í glím­unni við verðbólgu fyrr en með þjóðarsátt­inni og í kjöl­farið kerf­is­um­bót­um í hag­kerf­inu um ára­tug síðar.

Verðbólgu­vænt­ing­ar og pen­inga­stefna

Seðlabank­ar nota verðbólgu­mark­mið, stý­ritæki bank­ans og sam­skipti við al­menn­ing til að stýra vænt­ing­um. Ef al­menn­ing­ur á von á hærri verðbólgu í framtíðinni get­ur hann brugðist við með aðgerðum sem auka á verðbólg­una, til dæm­is með því að krefjast hærri launa. Ef ein­stak­ling­ar bú­ast við að verðlag hækki er jafn­framt lík­legra að þeir eyði frek­ar nú en seinna. Á sama hátt aðlaga fyr­ir­tæki verðlags- og fjár­fest­ing­ar­ákv­arðanir sín­ar út frá vænt­ing­um um verðbólgu í framtíðinni. Verðbólgu­vænt­ing­ar hafa þannig áhrif á ákv­arðanir neyt­enda og fyr­ir­tækja. Þetta er hegðun sem eldri Íslend­ing­ar kann­ast við og má að sumu leyti líkja þeirri kaup­hegðun við viðvar­andi „svart­an föstu­dag“. Verðbólgu­vænt­ing­ar skipta því afar miklu máli við ákvörðun vaxta. Seðlabank­ar geta aðlagað vexti eft­ir því hvort þeir vilja örva efna­hags­starf­semi eða draga úr verðbólgu. Vænt­ing­ar um meiri verðbólgu í framtíðinni geta leitt til hærri nafn­vaxta, en vænt­ing­ar um lægri verðbólgu geta hins veg­ar leitt til þess að vext­ir lækki fyrr en ella.

Mark­viss hag­stjórn get­ur minnkað verðbólgu­vænt­ing­ar

Óvissa um verðbólgu­horf­ur til skamms tíma hef­ur auk­ist vegna veik­ing­ar krón­unn­ar og jarðhrær­inga á Reykja­nesi. Seðlabank­inn hef­ur áhyggj­ur af því að áhrif ný­legra kostnaðar­hækk­ana séu van­met­in, þar sem kjöl­festa verðbólgu­vænt­inga er veik.

Kjara­samn­ing­ar losna í byrj­un næsta árs og það er afar mik­il­vægt að öll hag­stjórn­in rói á sömu mið. Laun æðstu emb­ætt­is­manna hækkuðu í sum­ar um 2,5% og fyr­ir­hugaðar gjald­skrár­hækk­an­ir rík­is­valds­ins eru 3,5%. Ákveðið var að fara þessa leið til að vinna að því að minnka verðbólgu­vænt­ing­ar. Því er brýnt að fyr­ir­hugaðar gjald­skrár­hækk­an­ir sveit­ar­fé­lag­anna séu afar hóf­leg­ar til að hægt sé að vinna að lang­tíma­kjara­samn­ing­um. Ef sveit­ar­fé­lög­in fara í mikl­ar hækk­an­ir, þá fest­ast kostnaðar­hækk­an­ir í sessi og afar erfitt verður að ná niður verðbólg­unni.

Sam­stillt hag­stjórn er lyk­il­atriði fyr­ir þjóðarbúið. Sterk­ar vís­bend­ing­ar eru um að inn­lend um­svif hag­kerf­is­ins séu að kólna hratt. Einka­neysla hef­ur minnkað ásamt fjár­fest­ing­um. Jafn­vægi er einnig að nást í ut­an­rík­is­viðskipt­um á ný. Ég er sann­færð um tak­ist að sporna gegn frek­ari hækk­un­um muni nást ár­ang­ur í glím­unni við verðbólgu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Categories
Fréttir

Hver er skilgreiningin á opinberri grunnþjónustu?

Deila grein

21/11/2023

Hver er skilgreiningin á opinberri grunnþjónustu?

Byggðastofnun hefur unnið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinargerð að beiðni innviðaráðuneytisins. Eru drögin komin inn í samráðsgátt stjórnvalda og verða þau opin þar til umsagna og ábendinga til 7. febrúar 2024.

Í drögunum segir að opinber grunnþjónusta sé þjónusta opinberra aðila, þ.e. ríkis og sveitarfélaga, sem er aðgengileg öllum íbúum landsins og nauðsynleg til að skapa fullnægjandi búsetuskilyrði um land allt. Opinber grunnþjónusta er forsenda þess að fólk geti stundað atvinnu, sótt menntun og frístundastarf og sinnt öðrum daglegum verkefnum og þörfum.

Eins segir að það sé á ábyrgð stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga að ákveða viðmið um þjónustustig lágmarksþjónustu fyrir dreifbýli. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 ber sveitarstjórnum að móta stefnu um það þjónustustig sem sveitarfélagið hyggst halda uppi í byggðum og byggðalögum fjarri stærstu byggðakjörnum. Þá samþykkti ríkisstjórnin á fundi þann 15. september síðastliðinn tillögu fjármála- og efnahagsráðherra að hefja vinnu við mótun stefnu um opinbera þjónustu, sem felur meðal annars í sér að sett verði þjónustuviðmið um þá þjónustu sem veitt er af hálfu ríkisstofnana.

Skilgreiningin að opinberri grunnþjónustu er fyrst og fremst ætluð stjórnvöldum, bæði ríki og sveitarfélögum, til leiðbeiningar við stefnumótun, framkvæmd stefna og við mat á áhrifum lagafrumvarpa og annarra stjórnvaldsfyrirmæla eða stefnumarkandi ákvarðana hins opinbera.

Categories
Fréttir

Boðað til Flokksþings Framsóknar

Deila grein

21/11/2023

Boðað til Flokksþings Framsóknar

37. Flokksþing Framsóknar verður haldið 20.-21. apríl í Reykjavík.

Haustfundur miðstjórnar samþykkti um liðna helgi að boða til 37. Flokksþings Framsóknar helgina 20.-21. apríl í Reykjavík. Framsókn heldur reglulegt flokksþing eigi sjaldnar en annað hvert ár og skal það að jafnaði haldið fyrri hluta árs.

Flokksþing Framsóknarmanna ákveður meginstefnu flokksins í landsmálum, setur flokknum lög og hefur æðsta vald í málefnum hans.

Mikilvægar dagsetningar:

  • 21. mars – viðmiðunardagur fulltrúatölu aðildarfélaga.
  • 5. apríl – lagabreytingum skal í síðasta lagi á miðnætti skilað inn til flokksskrifstofu.
  • 13. apríl – kjörbréfum skal í síðasta lagi á hádegi skilað inn til flokksskrifstofu.

Á flokksþingi skal kjósa formann Framsóknarflokksins og skal hann jafnframt vera formaður miðstjórnar flokksins. Þá skal á flokksþingi kjósa varaformann, ritara og tvo skoðunarmenn reikninga. Einnig skal kjósa tvo meðstjórnendur í laganefnd og tvo til vara. Ennfremur skal kjósa tvo meðstjórnendur siðanefndar og tvo til vara.

Hvert flokksfélag hefur rétt til að senda einn fulltrúa með atkvæðisrétt á flokksþing fyrir hverja 15 félagsmenn eða brot úr þeirri tölu. Jafnmargir varamenn skulu kjörnir. Fulltrúatala skal miðast við félagatal eins og það liggur fyrir á skrifstofu flokksins 30 dögum fyrir flokksþing. Um fyrirkomulag kosninga fulltrúa fer eftir lögum einstakra aðildarfélaga. Aðildarfélög skulu tilkynna val sitt á fulltrúum á flokksþing til skrifstofu flokksins eigi síðar en viku áður en flokksþing er sett.

Allir félagsmenn í flokknum hafa rétt til að sækja flokksþing og hafa þar málfrelsi og tillögurétt. Miðstjórnarmenn eiga sæti á flokksþingi með atkvæðisrétti.

Hátíðarskemmtun verður laugardagskvöldið 20. apríl.

Categories
Fréttir

Stjórnmálaályktun miðstjórnarfundar Framsóknar

Deila grein

20/11/2023

Stjórnmálaályktun miðstjórnarfundar Framsóknar

Stjórnmálaályktun miðstjórnarfundar Framsóknar í Vík í Mýrdal dagana 18-19. nóvember 2023.

Hugur flokksmanna er hjá Grindvíkingum vegna náttúruhamfara á Suðurnesjum. Samfélag er samvinnuverkefni þar sem íbúar landsins standa hverjir með öðrum í kjölfar atburða sem þessara líkt og bersýnilega hefur komið í ljós. Miðstjórn Framsóknar leggur ríka áherslu á að málefni Grindvíkinga verði áfram í forgrunni innan stjórnkerfisins þar sem afkoma þeirra, húsnæðisöryggi og opinber þjónusta verði tryggð og að staðið verði með því fjölbreytta atvinnulífi sem starfrækt er á svæðinu.

Miðstjórn Framsóknar krefst þess að fjármálastofnanir sýni samstöðu með Grindvíkingum í ljósi náttúruhamfaranna og fari í raunverulegar aðgerðir sem létta undir með íbúum. Arðsemi fjármálastofnana hefur aukist verulega og telur miðstjórn Framsóknar mikilvægt að ráðist verði í þær aðgerðir sem fyrst til að eyða óvissu.

Undanfarin ár hafa falið í sér stórar áskoranir á heimsvísu þar sem heimsfaraldur, stríðsátök, loftslags- og náttúruvá hafa haft áhrif á alþjóða- og efnahagsmál. Keppikefli efnahagsstjórnarinnar er að ná verðbólgunni niður í þágu samfélagsins alls. Slíkt verkefni verður ekki leyst nema í samvinnu stjórnvalda, Seðlabanka Íslands og aðila vinnumarkaðarins. Lægri vextir eru stærsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Gæta verður að því að samfélagið festist ekki í vítahring sem háir stýrivextir geta leitt af sér, til að mynda með slæmum afleiðingum á húsnæðismarkaði.

Öflug og innlend matvælaframleiðsla er þjóðaröryggismál fyrir Ísland. Því verður að tryggja bændum, og sér í lagi ungum bændum, eðlileg starfsskilyrði og afkomu fyrir vinnuframlag sitt. Miðstjórn Framsóknar bindur miklar vonir við að væntanlegar tillögur starfshóps stjórnvalda um fjárhagsstöðu bænda verði til þess fallnar að snúa vörn í sókn.

Miðstjórn Framsóknar lýsir yfir ánægju með framgang ýmissa málaflokka sem flokkurinn ber ábyrgð á í ríkisstjórnarsamstarfinu.

  • Ný húsnæðisstefna og aukin framlög til málaflokksins munu marka leiðina fram á við. Áframhaldandi kröftug uppbygging samgönguinnviða, hvort sem um ræðir vegi, flugvellir eða hafnir, bætir búsetuskilyrði og samkeppnishæfni landsins alls.
  • Skýr aðgerðaáætlun í ferðaþjónustu mun styrkja umgjörð greinarinnar og búa í haginn fyrir aukna verðmætasköpun í sátt við samfélagið. Neytendamál hafa loksins verið sett á dagskrá stjórnmálanna, til að mynda með greinargóðu aðhaldi gagnvart fjármálafyrirtækjum og ný og spennandi tækifæri raungerst á sviði menningarmála.
  • Góður árangur hefur náðst í að efla heilbrigðiskerfið, til að mynda með samvinnu hins opinbera og einkageirans með samningum við sérgreinalækna sem aukið hafa aðgengi sjúklinga að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag. Mikilvægt er að halda áfram að efla heilbrigðisþjónustu í nærsamfélögum með jafnt aðgengi óháð efnahag og búsetu að leiðarljósi. 
  • Róttækar breytingar sem gerðar hafa verið á málefnum barna munu bæta lífsgæði þeirra og foreldra þeirra. Aðsókn í iðn-, verk- og kennaranám hefur stóraukist og unnið er að metnaðarfullum áformum um nýja sókn í þágu íþróttamála í landinu. 

Miðstjórn Framsóknar vill undirstrika að hryggjarstykkið í utanríkisstefnu Íslands er vestræn samvinna og undirstrikar stuðning við Úkraínu. Miðstjórn fordæmir árásir á almenna borgara í Ísrael og Palestínu. Miðstjórn hvetur stjórnvöld til að halda á lofti mannúðlegum gildum og tala fyrir friðsamlegum lausnum.  

***

Categories
Fréttir

Tímamótasamningur um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Vík ​

Deila grein

20/11/2023

Tímamótasamningur um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis í Vík ​

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, og Hermann Jónasson, forstjóri Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, hafa undirritað samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Mýrdalshreppi á tímabilinu 2023-2028 og fjármögnun uppbyggingar hagkvæmra íbúða og félagslegs húsnæðis.

Í samningnum við Mýrdalshrepp kemur fram það markmið að byggðar verði um 100 nýjar íbúðir á næstu fimm árum í samræmi við metna þörf samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins. Stefnt er að því að byggja allt að 22 íbúðir á ári á næstu fimm árum. Ofangreind markmið eru í takt við rammasamning ríkis og sveitarfélaga um að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á landsvísu á fyrrgreindu tímabili, til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf.  Sveitarfélagið mun jafnframt leitast við að tryggja nægjanlegt framboð byggingarhæfra lóða í samræmi við markmið samkomulagsins, þ. á m. í aðal- og deiliskipulagi sveitarfélagsins, þannig að byggingarhæfar lóðir ár hvert rúmi 20-30 íbúðir.

„Ég fagna því að Mýrdalshreppur sé fyrst sveitarfélaga á landsbyggðinni til að stíga þetta skref og setja sér skýra stefnu um aukið framboð íbúðarhúsnæðis. Mikil fjölgun íbúa hefur átt sér stað í Vík og mikilvægt að mörkuð sé skýr stefna til að mæta fyrirsjáanlegri íbúðaþörf. Við stefnum að gríðarlegri uppbyggingu á næstu árum um allt land og mikilvægt að ríki og sveitarfélög hafi sameiginlega sýn til að mæta þeirri þörf sem blasir við,“ sagði Sigurður Ingi.

Samningurinn byggir á rammasamningi ríkis og sveitarfélaga frá 12. júlí 2022 þar sem sameinast var um sýn og stefnu í húsnæðismálum til að tryggja uppbyggingu íbúða í samræmi við þörf. Rammasamningurinn sjálfur byggði á tillögum starfshóps um aðgerðir og umbætur á húsnæðismarkaði þar sem samstaða var um mikilvægi þess að tryggja aukið framboð íbúða til að stuðla að stöðugleika á húsnæðismarkaði.

„Samkomulagið markar tímamót fyrir Mýrdalshrepp og styður við markmið sveitarfélagsins um heilbrigðan húsnæðismarkað fyrir ört fjölgandi hóp íbúa. Mýrdalshreppur verður við undirritun samkomulagsins annað sveitarfélagið á landinu til þess að marka skýra stefnu um aukið framboð íbúðarhúsnæðis á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga. Aukið framboð íbúða er lykilatriði í því að styðja við sjálfbæra byggðaþróun og samvinna ríkis og sveitarfélagsins er mikilvægur liður í áframhaldandi uppbyggingaráformum Mýrdalshrepps,“ sagði Einar Freyr.

Af nýjum íbúðum verður hlutfall hagkvæmra íbúða á viðráðanlegu verði að jafnaði um 30% og félagslegt húsnæði að jafnaði sem næst 5% af öllu nýju húsnæði.

Fylgiskjöl:

  1. Rammasamningur ríkis og sveitarfélaga um aukið framboð íbúða 2023-2032 og sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum, dagsettur 12. júlí, 2022.
  2. Samkomulag um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Mýrdalshreppi
  3. Húsnæðisáætlun Mýrdalshrepps 2024

Heimild: stjr.is

Categories
Fréttir Greinar

Aðdáunarverð samstaða

Deila grein

19/11/2023

Aðdáunarverð samstaða

Við á Íslandi höf­um alltaf verið samof­in nátt­úru­öfl­un­um og upp á náð og mis­kunn móður nátt­úru. Þessa dag­ana erum við hressi­lega minnt á þá staðreynd. Á mánu­dags­kvöld voru sett lög á Alþingi um vernd mik­il­vægra innviða. Með þeim er ráðherra veitt skýr laga­heim­ild til að taka ákvörðun um nauðsyn­leg­ar fram­kvæmd­ir í þágu al­manna­varna sem miða að því að koma í veg fyr­ir að mik­il­væg­ir innviðir og aðrir al­manna­hags­mun­ir verði fyr­ir tjóni af völd­um nátt­úru­ham­fara sem tengj­ast elds­um­brot­um á Reykja­nesskaga. Um þess­ar mund­ir eru uppi afar sér­stak­ar aðstæður sem nauðsyn­legt er að bregðast hratt og ör­ugg­lega við. Gert er ráð fyr­ir að ráðherra verði heim­ilt að taka ákvörðun um til­greind­ar fram­kvæmd­ir og hrinda þeim af stað án þess að önn­ur lög tor­veldi slíka ákv­arðana­töku.

Aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar

Við aðstæður eins og þær sem upp eru komn­ar þurfa ákv­arðanir að vera fum­laus­ar og upp­lýs­ing­ar til sam­fé­lags­ins á Reykja­nesi skýr­ar og aðgengi­leg­ar. Við þurf­um að hafa í huga í allri umræðu, hvort sem um er að ræða stjórn­völd, fjöl­miðla eða sam­skipti á öðrum op­in­ber­um vett­vangi, að aðgát skal höfð í nær­veru sál­ar. Íbúar í Grinda­vík hafa þurft að upp­lifa það að lifa í stöðugum ótta við harða jarðskjálfta með til­heyr­andi álagi á and­lega líðan og í ofanálag þurft að yf­ir­gefa heim­ili sín á inn­an við 30 mín­út­um í al­gjörri óvissu um hvað framtíðin ber í skauti sér. Viðbragðsaðilar á svæðinu eru líka marg­ir hverj­ir íbú­ar í Grinda­vík og álagið mjög mikið á þá á þess­um tím­um. Að vera fyrst­ur með frétt­irn­ar jafn­gild­ir ekki sigri í öll­um til­vik­um.

Það er afar mik­il­vægt að næstu skref sem stig­in eru séu réttu skref­in. Við þurf­um að grípa vel utan um aðstæðurn­ar sem hafa skap­ast á Reykja­nesskaga og við þurf­um að taka vel utan um fólkið. Á sama tíma þurf­um við að passa upp á gagn­sæi og að all­ar upp­lýs­ing­ar sem hlutaðeig­andi aðilar fá séu skýr­ar, því það er eng­um greiði gerður með því að hylma yfir raun­veru­lega stöðu.

Op­inn faðmur sam­fé­lags­ins

Við þetta tæki­færi er hins veg­ar ekki annað hægt en að hrósa því aðdá­un­ar­verða starfi sem átt hef­ur sér stað und­an­farna daga og vik­ur hjá viðbragðsaðilum okk­ar. Við eig­um flott fag­fólk á öll­um sviðum og höf­um ít­rekað orðið vitni að þeim standa vakt­ina við mjög krefj­andi aðstæður. Við höf­um séð það í verki hversu mik­il­vægt það er að all­ar neyðar- og viðbragðsáætlan­ir séu skýr­ar og öll vinna eft­ir þeim hef­ur verið til fyr­ir­mynd­ar.

Það hef­ur einnig verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með sam­fé­lög­um víða um land opna faðminn fyr­ir íbú­um Grinda­vík­ur, þar sem all­ir virðast vilja leggja sitt af mörk­um þegar aðstoðar er þörf. Sam­taka­mátt­ur­inn í sam­fé­lag­inu er sterk­ur þegar hætta steðjar að og þegar áföll dynja yfir. Fyr­ir það get­um við ekki verið annað en þakk­lát.

Hug­ur minn er hjá Grind­vík­ing­um og verður þar áfram. Um þess­ar mund­ir erum við öll Grind­vík­ing­ar og við mun­um halda áfram að virkja hina einu sönnu ís­lensku sam­stöðu.

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu

Deila grein

19/11/2023

40 ára garðveisla íslenskrar tónlistar á erlendri grundu

Á þessu ári eru liðin 40 ár frá því að fyrsta ís­lenska dæg­ur­tón­list­in náði inn á alþjóðlega vin­sældal­ista þegar Mezzof­orte náði hæst 17. sæti á breska vin­sældal­ist­an­um. Fram að þeim tíma höfðu verið gerðar marg­vís­leg­ar til­raun­ir til að afla vin­sælda á er­lendri grundu. Á lýðveld­is­tím­an­um hef­ur orðið mik­il þróun á ís­lenskri dæg­ur­tónlist. Gunn­ar Hjálm­ars­son hef­ur gert þess­ari sögu ágæt skil í bók­um sín­um og sjón­varpsþátt­um þeim tengd­um. Ein­hverj­ir ís­lensk­ir tón­list­ar­menn náðu að ferðast um og flytja tónlist sína á Norður­lönd­un­um og Norður-Evr­ópu á sjötta og sjö­unda ára­tugn­um, þ. á m. Ragn­ar Bjarna­son, Hauk­ur Mort­hens og KK-sex­t­ett­inn. Þessi út­rás var ekki ein­ung­is karllæg, þar sem upp úr miðjum sjötta ára­tugn­um fór laga­smiður­inn og söng­kon­an Ingi­björg Þor­bergs til Banda­ríkj­anna með lög sín. Aðrar til­raun­ir til út­rás­ar voru gerðar á sjötta og sjö­unda ára­tugn­um og þekkt­ustu dæmi þess lík­lega Thor’s Hammers og Change í Bretlandi. Það var þó ekki fyrr en með djass­blend­inni tónlist Mezzof­orte árið 1983 að ís­lensk tónlist náði eyr­um er­lenda hlust­enda og sautjánda sæt­inu á breska vin­sældal­ist­an­um. Það leið síðan ekki á löngu þar til Syk­ur­mol­arn­ir fylgdu þessu eft­ir árið 1987 og náðu mikl­um vin­sæld­um beggja vegna Atlantsála og hin ein­staka Björk kom þar síðan í beinu fram­haldi.

Við eig­um frá­bæra tón­list­ar­menn á Íslandi og tónlist þeirra stend­ur fyr­ir sínu, en það gleym­ist stund­um að horfa til vinn­unn­ar baksviðs við að koma tón­list­inni á fram­færi og hafa marg­ir í gegn­um tíðina unnið öt­ul­lega að því með ágæt­um ár­angri. Hið op­in­bera hef­ur stutt við út­rás ís­lenskr­ar tón­list­ar með marg­vís­leg­um hætti frá ár­inu 1995. Í ný­stofnaðri Tón­list­armiðstöð hef­ur öll­um öng­um tón­list­ar verið safnað sam­an und­ir einn hatt og er þar meðal ann­ars að finna Útón, sem stutt hef­ur við kynn­ingu ís­lenskr­ar tón­list­ar á er­lendri grund frá ár­inu 2006.

Frá þeim tíma að Mezzof­orte náði inn á vin­sældal­ista er­lend­is hef­ur fjöldi ís­lenskra dæg­ur­tón­list­ar­manna náð fót­festu er­lend­is og má þar meðal ann­ars nefna Syk­ur­mola, Björk, Em­ilíönu Torr­ini, Sig­ur­rós, Gusgus, Jó­hann Jó­hanns­son, OMAM, Kal­eo, Hildi Guðna­dótt­ur, ADHD, Vík­ing Heiðar, Ásgeir Trausta, Ólaf Arn­alds, Ásdísi, Daða Frey og nú síðast Lauf­eyju. Það sem vek­ur at­hygli er fjöl­breytn­in í þess­um hópi lista­manna og seg­ir það til um þá miklu gerj­un sem er að finna í tón­list­ar­líf­inu á Íslandi. Í þeim efn­um ber sér­stak­lega að minn­ast á fram­lag þeirra tón­list­ar­manna sem kosið hafa að starfa ein­ung­is inn­an­lands. Ef litið er til þessa hóps vek­ur styrk­ur kvenna jafn­framt at­hygli.

Við til­nefn­ingu til Grammy-verðlauna fyrr í þess­um mánuði kom fram að tveir ís­lensk­ir lista­menn auk Sin­fón­íu Nord á Ak­ur­eyri voru til­nefnd­ir til verðlauna, sem eru auðvitað frá­bær­ar frétt­ir, en þykir í raun ekki leng­ur mikið til­töku­mál þar sem nokk­ur hóp­ur ís­lenskra lista­manna hef­ur áður fengið til­nefn­ing­ar og jafn­vel hreppt verðlaun. Það seg­ir jafn­framt ým­is­legt að ef ein­ung­is er horft til streym­isveit­unn­ar Spotify nálg­ast fimm efstu ís­lensku lista­menn­irn­ir nærri 40 millj­ón­ir mánaðarlegra hlust­enda. Það er ekki slæm­ur ár­ang­ur á 40 árum fyr­ir þjóð sem nú tel­ur 400 þúsund manns.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. nóvember 2023.

Categories
Fréttir

Skorar á fjármálastofnanir að gefa Grindvíkingum fullkomin grið

Deila grein

18/11/2023

Skorar á fjármálastofnanir að gefa Grindvíkingum fullkomin grið

Ríflega 150 manns hlýddu á ræðu Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknar, við upphaf miðstjórnarfundar flokksins sem hófst í Vík í Mýrdal í morgun og stendur fram á sunnudag.

Sigurður Ingi hóf mál sitt á náttúruhamförunum við Grindavík. „Við finnum öll til með þeim sem þurft hafa að yfirgefa heimili sín og lifa í óvissu,“ sagði Sigurður Ingi. Hann minnti á það að þegar áföll dynja á sjái fólk úr hverju samfélagið er búið til. „Það sem við getum gert er að taka utan um Grindvíkinga,“ sagði Sigurður Ingi og bað fólk um að rísa úr sætum til að sýna stuðning sinn við Grindvíkinga. Hann ræddi sameiginlega ábyrgð samfélagsins á velferð íbúa Grindavíkur og sagði ekki hægt að bankar og fjármálastofnanir skoruðust undan ábyrgð. Hann skoraði á banka og fjármálastofnanir að gefa Grindvíkingum fullkomin grið næstu mánuði.

Formaður Framsóknar ræddi því næst um ástandið í heiminum og sagði að allir hlytu að fordæma það ofbeldi sem heimurinn horfir upp á fyrir botni Miðjarðarhafs og bitnaði mest á saklausum börnum. Sigurður Ingi lagði áherslu á að ekki mætti gleyma árás rússneska hersins inn í Úkraínu.

„Við ráðum ekki við náttúruna heldur tökumst á við afleiðingar. Við getum stjórnað efnahagsmálunum,“ sagði Sigurður Ingi. Hann lagði áherslu á að tekið yrði utan um þá sem eru í erfiðri stöðu. Hann benti einnig á að háir vextir eru ekki náttúrulögmál. „Þetta er í höndunum á okkur sjálfum,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi sagði að húsnæðismálin yrðu mikilvæg í kjarasamningum vetrarins og að ríkisstjórnin myndi gera allt sem hún gæti til að búa þannig að hlutum að kjarasamningar yrðu hófsamir. Hann rifjaði upp að Framsókn hefði frá árinu 2013 leitt húsnæðismálin, fyrst Eygló Harðardóttir, síðan Ásmundur Einar og nú hann sjálfur. Á þessum tíma hefði verið byggt upp nýtt norrænt húsnæðiskerfi sem væri nú að sýna styrk sinn.

„Tökum utan um unga fólkið í landbúnaðinum,“ sagði Sigurður Ingi og lýsti yfir áhyggjum sínum af stöðunni í íslenskum landbúnaði. Það sé erfitt að sækja fram þegar aðstæðurnar séu ekki nógu góðar. Hann furðaði sig ennfremur á því skilningsleysi sem mæti landbúnaði víða í kerfinu og stjórnmálunum.

Í ræðu sinni kom Sigurður Ingi inn á þann óróleika sem ríkir í stjórnmálum víða um heim og að hann mætti einnig greina hér á landi. „Það er erfitt að fá hljómgrunn fyrir hógværð og skynsemi,“ sagði hann og benti á að upphrópanir fengju meiri athygli en lausnir.

Sigurður Ingi lauk ræðu sinni á því að rifja upp að um þessar mundir eru sjö ár frá því hann var kjörinn formaður Framsóknar. Hann sagði að þá hefðu verið erfiðir tímar í flokknum og helsta áhyggjuefnið hvort tækist að endurheimta traust á flokknum. Fáir hefðu séð fyrir þann Framsóknaráratug sem hófst með kosningunum 2017 og er rúmlega hálfnaður. Sigurður Ingi sagði að á þessum tíma hefði náðst stöðugleiki í samfélaginu og eftirtektarverður árangur á flestum sviðum og hann kviði ekki dómi kjósenda. „Á grunni þessa árangurs sem við höfum náð og með stuðningi ykkar hlakka ég til að fá að leiða flokkinn inn í næstu kosningar og framlengja þennan Framsóknaráratug,“ sagði Sigurður Ingi að lokum og uppskar mikið lófatak.

Miðstjórnarfundur Framsóknar fór fram í Vík í Mýrdal um nýliðna helgi 🎉 Salurinn var þéttsetinn á fundinum og umræður…

Posted by Framsókn on Mánudagur, 20. nóvember 2023
Categories
Fréttir Greinar

Er þetta málið?

Deila grein

16/11/2023

Er þetta málið?

Nú er vika íslenskunnar. Markmið með henni er að auka umræðu um málefni íslenskrar tungu og fagna því sem vel er gert í þágu tungumálsins. Við fögnum degi íslenskrar tungu í 28. skipti og munu hátíðarhöldin að þessu sinni fara fram í nýju húsi íslenskunnar – Eddu. Mörgu er að fagna en að þessu sinni er vika íslenskunnar einnig nýtt til þess að vekja máls á þróun tungumálsins og sýni- og heyranleika þess og höfum við þegar fengið frekar hressileg viðbrögð við þeirri vitundarvakningu. Markmið hennar er að spyrja hvar við viljum draga mörkin varðandi áhrif enskunnar í okkar daglega umhverfi. Ætlar Jón Johnsson að halda concert á Eagle Hill á næstu Culture Night?

Hið sjálfsagða mál

Þeim fjölgar ört sem benda á fáránleika þess að auglýsingum og markaðsefni á ensku sé beint að íslenskumælandi neytendum, að þjónusta sé ekki í boði á íslensku og að almannarými séu uppfull af skilaboðum á ensku og íslenskan þar í öðru sæti eða hreint ekki sýnileg. Ég hef sagt að við þurfum alvöru viðhorfsbreytingu gagnvart tungumálinu okkar – það er stórt samfélagslegt verkefni að vinda ofan af þeirri misskildu þjónustulund sem hefur orðið til þess að enska er álitin sjálfsagt mál svo víða í samfélaginu. Ég fagna öllum sem vilja leggjast á sveif með okkur í því verkefni að auka sýni- og heyranleika tungumálsins, þar á meðal fulltrúum Samtaka ferðaþjónustunnar sem á dögunum stigu fram og lýstu yfir vilja til að stíga inn af krafti í það verkefni að vinna gegn þýðingu íslenskra örnefna yfir á ensku. Íslenska á alls staðarað vera sýni­legá opinberum vettvangiog upplýsingar alltaf aðgengilegar á íslensku. Þótt enska og önnur mál geti víða þurft að vera áberandi á það ekki að vera á kostnað íslensku.

Aðgerða er þörf

Við vitum að það er langtímaverkefni að tryggja verndun og þróun íslenskrar tungu. Það er samfélagslegt verkefni sem við náum árangri í með fjölþættum aðgerðum og breiðri samvinnu. Að vinna að framgangi íslenskunnar og tryggja stöðu hennar í heimi örra tæknibreytinga og fólksflutninga er samvinnuverkefni sem kallar ótal hendur til góðra verka. Unnið hefur verið að mótun aðgerða í þágu tungumálsins á vettvangi þeirra fimm ráðuneyta sem aðkomu eiga að ráðherranefnd um málefni íslenskrar tungu. Nefndin var sett á laggirnar að frumkvæði forsætisráðherra í nóvember í fyrra og á næstu dögum mun ég leggja fram þingsályktunartillögu um sameiginlega aðgerðaáætlun sem telur alls 19 aðgerðir. Aðgerðirnar snerta flest svið samfélagsins og eru misumfangsmiklar en í þeim er meðal annars lögð áhersla á málefni íslenskukennslu fyrir fullorðna innflytjendur og aukið samstarf við atvinnulífið og þriðja geirann. Sumar aðgerðanna fela í sér umfangsmiklar kerfisbreytingar en áætlunin hefur tengsl við mörg önnur áhersluverkefni stjórnvalda sem unnið er að í samstarfi ráðuneyta og stofnana, þar á meðal stefnumótun í málefnum innflytjenda og flóttafólks, menntastefnu 2030, heildarendurskoðun framhaldsfræðslukerfisins og aðgerðaáætlun ferðaþjónustu til 2030.

„Sorry með allar þessar slettur“

Við getum öll gert betur. Ég viðurkenni fúslega að ég er ekki barnanna best þegar kemur að enskuskotnu málfari. Þetta er mjög lúmsk þróun. Slettur hafa vitanlega verið hluti af tungumálinu og sögulega höfum við aðlagað heilmikið af slettum og gert þær að hluta af okkar orðaforða, en þegar fólk – og þá er ég ekki síst að hugsa um börnin – fer að hugsa, skapa og leika sér á öðru tungumáli en sínu eigin móðurmáli verðum við að staldra við.

Tungumál eru mikilvægustu verkfæri hvers samfélags – án þess eru engin samskipti. Við eigum íslenskuna – notum hana, hún er málið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst á visir.is 16. nóvember 2023.