Categories
Fréttir Greinar

Þar sem er vilji, þar er vegur

Deila grein

08/11/2023

Þar sem er vilji, þar er vegur

Undirritaður var í Silfrinu á RÚV á mánudagskvöldið og ræddi þar um húsnæðismál og hvernig okkur á að takast að byggja nægilegt magn íbúða svo mæta megi þeim áskorunum sem nú blasa við okkur. Það er hægt.

Til að byrja með þá er rétt að segja að í þessu verkefni er enginn eyland; ekki ríkið, ekki Seðlabankinn, ekki sveitarfélög og ekki framkvæmdaaðilar. Ábyrgðin er allra.

Ég hef áður gagnrýnt Seðlabankann á þeim nótum sem ég gerði í þættinum á mánudagskvöldið. Mér þykir rörsýn Seðlabankans of mikil og of mikill skortur vera á sýn á stóru myndina, heildarsamhengi hlutanna til framtíðar, og hvert við erum raunverulega að stefna. Við þurfum framtíðarsýn og getu til að sjá fyrir okkur hvernig við ætlum að hafa hlutina eftir 2, 3, 5 eða 10 ár?

Varðandi Seðlabankann, þá er það auðvitað augljóst að vaxtahækkanir hafa haft neikvæð áhrif á framboðshliðina og hert lánþegaskilyrði hafa það einnig, en gera það á hinni hlið peningsins. Annars vegar er dýrt að framkvæma íbúðir vegna hárra vaxta og hins vegar er nær ógerningur að selja íbúðir vegna hertra lánþegaskilyrða Seðlabankans. Það sjá allir að þetta gengur ekki upp og er í raun stórhættulegur kokteill sem hefur letjandi áhrif á framkvæmdaaðila, þvert á það sem við þurfum nú. Samdrátturinn í byggingu nýrra íbúða er augljós á milli ára, eða um 70%. Það er skammgóður vermir að pissa í skó sinn.

1) Seðlabankinn þarf vegna þessa að stíga skref til baka þegar kemur að lánþegaskilyrðum.

2) Aðgerðir innviðaráðherra er varða aðgerðir í almenna íbúðakerfinu, þar sem stofnframlög voru tvöfölduð og framlög til hlutdeildarlána voru aukin hafa skilað góðum árangri og styðja við markmið um aukið framboð á húsnæðismarkaði.

Í heimsfaraldrinum var samþykkt að veita sveitarfélögunum heimild til að víkja frá fjármálareglum sveitarstjórnarlaga þar sem markmiðið var að tryggja sveitarfélögum aukið svigrúm til að ráðast í auknar fjárfestingar og mæta aðsteðjandi vanda í rekstri vegna þeirra aðstæðna sem faraldrinum fylgdi.

3) Það má horfa á sambærilega aðgerð þegar kemur að skynsamlegu og tímabundnu fráviki frá svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins enda hefur fólksfjölgun verið langt umfram allar spár frá þeim tíma þegar vaxtarmörk voru ákvörðuð fyrir höfuðborgarsvæðið í kringum árin 2014-2015. Slík endurskoðun myndi tryggja lóðir á nýbyggingarsvæðum í bland við nauðsynlega þéttingu byggðar og verða til þess að markmið um aukna uppbyggingu húsnæðis muni raungerast um land allt.

Ágúst Bjarni Garðarsson, þingmaður Framsóknar í Suðvesturkjördæmi og 1. varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 8. nóvember 2023.

Categories
Fréttir

Stuðlar að einni stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs síðustu áratugi

Deila grein

07/11/2023

Stuðlar að einni stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs síðustu áratugi

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, segir gaman að taka þátt og fá að leiða mikilvægar breytingar í samstarfi við öflugt fólk. Stefnt er að því að setja á laggirnar átta starfsstöðvar á landsvísu sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins. Horft er til samlegðaráhrifa við svæðisskipt verkefni ríkis og sveitarfélaga s.s. skólaþjónustu, farsæld barna og æskulýðsstarfi.

„Ég hef lagt ríka áherslu á breytingar sem stuðla að eflingu íþróttalífs í landinu. Mikilvægur áfangi í þessari vinnu er nýtt samkomulag sem stuðlar að einni stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs síðustu áratugi,“ segir Ásmundur Einar.

Með stuðningi stjórnvalda ætla ÍSÍ og UMFÍ að setja sameiginlega á laggirnar átta sjálfstæðar starfsstöðvar sem munu þjónusta öll 25 íþróttahéruð landsins. Þessu til viðbótar munum við fjármagna og setja á fót sérstakan hvatasjóð sem hafi það markmið að jafna tækifæri allra barna til þátttöku í íþróttastarfi þar sem lögð verður sérstök áhersla á málefni barna og ungmenna með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Eftir góða samvinnu milli allra aðila þá er það mikið fagnaðarefni að sjá einróma samstöðu hjá íþróttahreyfingunni og stjórnvöldum um þessar miklu breytingar. Ég er sannfærður um að þetta mun jafna tækifæri til íþróttaiðkunar, hvort sem þú ert ungur eða aldraður, innfæddur eða innflytjandi, með eða án fötlunar, jafnt á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Ásmundur Einar.

Markmiðið er að efla íþróttahéruð með því að koma á fót sameiginlegum starfsstöðvum sem hafa það hlutverk að þjónusta íþróttahéruðin í nærumhverfi sínu með samræmdum hætti. Horft er til þess að sterkari íþróttahéruð og starfsstöðvar um allt land auki skilvirkni innan íþróttahreyfingarinnar og geri þeim kleift að takast á við núverandi og fyrirséð verkefni. Það mun styrkja stefnumótandi vinnu og aðgerðir á landsvísu og þannig jafna tækifæri barna óháð aðstæðum og búsetu sem og að efla þjónustu á viðkomandi svæði. Breytingin nær til tæplega 500 íþrótta- og ungmennafélaga um allt land.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, undirritaði viljayfirlýsingu þess efnis með forseta Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og formanni Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) í dag.

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ við undirritun viljayfirlýsingar - mynd

Andri Stefánsson framkvæmdastjóri ÍSÍ, Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ og Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ við undirritun viljayfirlýsingar.

Full samstaða er meðal sambandsaðila ÍSÍ, UMFÍ og stjórnvalda sem eru sammála og samstíga um stofnun starfsstöðva en tillögur þess efnis voru samþykktar á þingi ÍSÍ í vor og á þingi UMFÍ nú í október. Slík samstaða markar tímamót innan íþróttahreyfingarinnar. Starfsstöðvarnar verða fjármagnaðar að hluta til með á annað hundrað m.kr. árlegu fjárframlagi frá íþrótta- og ungmennafélagshreyfingunni.

Mennta- og barnamálaráðherra lýsir yfir vilja til þess að styðja við verkefnið með 200 m.kr. árlegu framlagi til ÍSÍ og UMFÍ til næstu tveggja ára, til að byrja með. Framlaginu er ætlað að styðja við þessa uppbyggingu um allt land og meðal annars koma á fót hvatasjóði. Hlutverk hvatasjóðsins er að stuðla að aukinni þátttöku barna og ungmenna í íþróttum, með áherslu á börn með fötlun og börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.

„Það er mikið fagnaðarefni að sjá einróma samstöðu hjá íþróttahreyfingunni og stjórnvöldum um hið nýja skipulag. Við viljum með þessu samþætta þjónustu og skapa jöfn tækifæri til íþróttaiðkunar, hvort sem þú ert ungur eða aldraður, innfæddur eða innflytjandi, með eða án fötlunar, jafnt á landsbyggðinni sem og á höfuðborgarsvæðinu. Ég held að hér sé um að ræða eina stærstu breytingu á skipulagi íþróttastarfs á Íslandi síðustu árutugi,“ segir Ásmundur Einar.

Mennta- og barnamálaráðuneytið, ÍSÍ og UMFÍ munu samkvæmt viljayfirlýsingunni undirrita samning í lok árs um skiptingu og rekstur svæða. Mælikvarðar verða skilgreindir samhliða því til að mæla framgang og samfélagslegan ávinning verkefnisins. Stefnt er að því að samningurinn taki gildi 1. janúar 2024.

Öflugt íþróttastarf er lykilþáttur í að stuðla að farsæld barna. Áherslur eru að mörgu leyti þær sömu og í nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Íþróttir leiða til farsældar og er markmiðið að bæta og samþætta þjónustuna á landsvísu með jöfn tækifæri og samnýtingu svæða að leiðarljósi.

Mennta- og barnamálaráðuneytið í samstarfi við íþróttahreyfinguna vinnur einnig að því að efla afreksíþróttastarf á Íslandi og munu starfsstöðvarnar vera mikilvægur samstarfsaðili í því verkefni. Þau mál verða til umræðu á ráðstefnunni Vinnum gullið – ný stefna í afreksíþróttum á Íslandi þann 20. nóvember n.k.

👉 Hef lagt ríka áherslu á breytingar sem stuðla að eflingu íþróttalífs í landinu. Mikilvægur áfangi í þessari vinnu er…

Posted by Ásmundur Einar Daðason on Þriðjudagur, 7. nóvember 2023
Categories
Fréttir Greinar

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Deila grein

01/11/2023

Að­gangur að námi hefur á­hrif á bú­setu­frelsi

Skólastarf hefur haft áhrif á þróun samfélaga um aldir og mun gera það um ókomin ár eins og endurspeglast í menntastefnu til 2030, en þar segir „Menntun er lykill að tækifærum framtíðar og eitt helsta hreyfiafl samfélaga og velsældar mannkyns.“ Þannig má álykta að samkeppnishæfni þjóða byggi á menntun og sama á við um samkeppnishæfni landshluta.

Á dögunum sótti ég málstofu um menntun á Hringborði norðurslóða. Kom þar fram að munur væri á þróun samfélaga með og án háskóla en beita þyrfti öðrum aðferðum í háskólastarfi í dreifbýli en borgum til að ná fram samfélagsáhrifum.

Fjarnám

Framboð á fjarnámi á Íslandi hefur aukist jafnt og þétt síðustu áratugi og hef ég fylgst með því hvernig menntuðum kennurum, félagsliðum, sjúkraliðum og hjúkrunarfræðingum hefur fjölgað í mínu nær umhverfi, séð marga byrja á að ná í framhaldsskólaeiningar í fjarnámi og komast á háskólastigið. Ég hef líka átt samtöl við marga sem ekki hafa komist í það nám sem mestur áhugi er fyrir, vegna búsetu, starfs eða fjölskylduaðstæðna. Fólk sem séð hefur hvar skóinn kreppir og viljað sækja þekkingu sem vantar í samfélagið þar sem það býr, s.s. master í sálfræði, talmeinafræði eða félagsráðgjöf. Ég hef líka talað við fólk sem ekki hefur fengið að taka vettvangsnám á landsbyggðinni þó það vilji einmitt vera undirbúið fyrir störf þar, á þetta t.d. við um heilbrigðisgreinar, tölvunarfræði og íþróttafræði.

Það er ekki alltaf auðvelt að nálgast upplýsingar um framboð á fjarnámi og lengi var svarið, „þú getur bæði farið í hjúkrun og kennslu, en þú getur líka prófað að skrá þig í eitthvað annað og sjá hvað kennararnir segja“. Þetta hefur sem betur fer aðeins breyst en vonbrigði mín eru hvað breytingar á framboði fjarnáms og sveigjanlegs náms hafa verið hægar.

Mikill munur í framboði á fjarnámi milli háskóla

Í svari háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur frá því í mars 2023, kemur fram að mikill munur sé á hlutfalli þeirra námskeiða sem aðgengileg eru í fjarnámi eftir háskólum. Hæst er hlutfallið í Háskólanum á Akureyri og Háskólanum á Bifröst eða 100% og lægst, eða 0% í Listaháskóla Íslands. Sérstaka athygli vekur að við HÍ er aðeins 15,9% námskeiða aðgengileg í fjarnámi og niðurstaðan er að 75% námskeiða við háskóla á Íslandi eru einungis aðgengileg í staðnámi.

Í meira en 100 ár höfum við sem samfélag lagt áherslu á jafnrétti til náms eins og endurspeglast í menntastefnunni til 2030, þar sem m.a. er lögð áhersla á jöfn tækifæri fyrir alla og framúrskarandi menntun alla ævi. Í því ljósi getur ekki talist ásættanlegt að aðeins 25% námskeiða við íslenska háskóla séu í boði í fjarnámi, hvorki fyrir einstaklinginn né samfélagið.

Framboð á fjarnámi frá íslenskum háskólum þarf að stór auka. Einnig er þörf á að bæta umgjörð og upplýsingagjöf um hvaða nám er hægt að nálgast í fjarnámi.

Fimmtudaginn 2. nóvember fer Byggðaráðstefnan 2023 fram í Reykjanesbæ og ráðstefnan verður í beinu streymi. Þemað að þessu sinni er Búsetufrelsi og þar verður samspil háskólanáms og búsetufrelsis meðal umræðuefna og vil ég hvetja alla til að fylgjast með.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst á visir.is 1. nóvember 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Deila grein

31/10/2023

Bjart fram undan í ferða­þjónustu á Norður- og Austur­landi

Í dag lenti fyrsta flugvél EasyJet á Akureyrarflugvelli og hóf þar með vikulegt áætlunarflug í vetur. Þetta er stórmerkur áfangi og vart hægt að hugsa sér betri leið til að fagna vetrarkomunni. EasyJet er eitt öflugasta flugfélag Evrópu sem getur, ef vel gengur, gjörbreytt öllum forsendum fyrir heilsársferðaþjónustu á Norður- og Austurlandi. Þennan fyrsta vetur eru áætlaðar 44 ferðir, eða yfir 8.000 ný flugsæti sem ferja hingað til lands ferðaþyrsta gesti sem munu án efa fara vítt og breitt um landshlutana. Þessar ferðir bætast við það framboð sem erlendar ferðaskrifstofur hafa þegar boðað. Eftir jól heldur Voigt Travel áfram með vetrarferðir frá Amsterdam, og svissneska ferðaskrifstofan Kontiki býður upp á ferðir til Akureyrar frá Zurich í febrúar og mars. Allt spennandi áfangastaðir fyrir okkur heimafólkið sömuleiðis. Þetta er stórkostleg framför og ljóst að það góða uppbyggingar- og kynningarstarf sem hefur verið leitt í gegnum markaðsstofurnar er að skila okkur markverðum árangri.

Aukin fjárfesting í hótelrekstri

Lenging ferðamannatímabilsins er forsenda þess að áfangastaðir geti vaxið og dafnað. Aukinn stöðugleiki og minni árstíðarsveiflur gera fjárfestingar í ferðaþjónustu meira aðlaðandi fyrir erlenda sem innlenda fjárfesta. Stórfelld uppbygging við Grenivík, yfirstandandi og fyrirhuguð uppbygging við Hafnarstræti á Akureyri og við Skógarböðin í Eyjafirði – og svo mætti áfram telja – er vonandi vitnisburður um töluverða bjartsýni þegar kemur að áframhaldandi vexti í landshlutanum. Slíkar fjárfestingar skila sér ekki bara til þeirra aðila sem standa að hótelrekstrinum, heldur til ótal ferðaþjónustuaðila sem selja þjónustu, vörur og veitingar til ferðamanna. Þar með talin einstök náttúruböð og laugar sem hafa glatt bæði heimamenn og gesti.

Varaflugvallagjald grundvöllur frekari vaxtar

Ferðaþjónustan hefur vaxið og dafnað sem mikilvæg stoð í innlendum efnahag en innviðirnir þurfa að sjálfsögðu að fylgja þeirri þróun. Það er því ekki síður ástæða til að fagna góðum gangi í framkvæmdum á flughlaðinu á Akureyri sem kemst í gagnið fljótlega á nýju ári. Viðbyggingin við flugstöðina er risin og þá verður farið í breytingar á eldri byggingum og framkvæmdum þar lokið næsta sumar. Stækkun flugstöðvarinnar er lykilatriði í uppbyggingu ferðaþjónustu og mun gera völlinn betur í stakk búinn til þess að þjóna alþjóðaflugi. Hér erum við að sjá í verki aukna áhersla á uppbyggingu innanlandsflugvalla en alls fara um 1.350 m.kr. til þeirra verkefna með tilkomu varaflugvallagjalds þar sem lögð verður áhersla á uppbyggingu varaflugvallanna í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum. Sé horft til næstu skrefa er mikilvægt að hraða vinnu við GPS aðflug, sem getur bætt öryggi og nýtingarmöguleika, og jafna eldsneytiskostnað milli landshluta. Með samhentu átaki getum við aukið samkeppnishæfni flugvallanna á Akureyri og Egilsstöðum, styrkt stöðu ferðaþjónustu á bæði Norður- og Austurlandi og ýtt undir betri dreifingu ferðamanna.

Uppbygging sem auðveldar markaðssetningu á Íslandi öllu

Öll þessi uppbygging eru góð tíðindi ekki bara fyrir landshlutana tvo heldur landið allt. Fjöldi ferðamanna er nú svipaður og fyrir heimsfaraldur og allt útlit fyrir áframhaldandi aukningu næstu ár. Einhverjir þessara ferðamanna hafa komið áður og eru að snúa aftur til landsins – og einhver hluti þeirra sem eru að koma í fyrsta skipti munu vilja koma aftur, ef við tökum vel á móti gestunum. Það er þó nokkuð ljóst að við ýtum ekki undir áhuga þeirra með því að selja sömu vöruna tvisvar. Ef við ætlum að gera sem mest úr ferðaþjónustu, til hagsbóta fyrir nærsamfélögin okkar um allt land, þá verðum við að skapa spennandi áfangastaði, með öfluga innviði og góðar gáttir til landsins.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis og Gunnar M. Gunnarsson, bæjarfulltrúi Framsóknar á Akureyri.

Greinin birtist fyrst á visir.is 31. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Harpa spilar með tónlistarlífi þjóðarinnar

Deila grein

31/10/2023

Harpa spilar með tónlistarlífi þjóðarinnar

Á und­an­förn­um árum hef­ur margt áunn­ist til að styrkja veru­lega um­gjörð tón­list­ar­lífs­ins í land­inu. Tónlist er ekki ein­ung­is veg­leg­ur hluti af menn­ingu lands­ins, hún er einnig at­vinnu­skap­andi og mik­il­væg út­flutn­ings­grein þar sem tón­list­ar­verk­efni geta skapað mörg af­leidd störf. Ný tón­list­ar­stefna var samþykkt á síðasta þingi með það að mark­miði að styðja við tónlist sem list­grein, tón­listar­fólk og aðra sem starfa við tónlist. Tón­list­ar­lífið hér­lend­is er und­ir­byggt af metnaðarfullu tón­list­ar­námi um allt land, sam­starfi og þori til þess að fara ótroðnar slóðir. Þess­um mikla krafti finn­ur maður sér­stak­lega fyr­ir í grasrót tón­list­ar­lífs­ins, sem er óþrjót­andi upp­spretta frumsköp­un­ar í tónlist. Hluti af um­gjörð menn­ing­ar­mála í land­inu snýr að aðstöðu til tón­list­ariðkun­ar og aðgengi að slíkri aðstöðu. Eitt mark­miða í tón­list­ar­stefn­unni er að hús­næði til tón­list­ariðkun­ar verði greint og kort­lagt, t.d. hvaða hús­næði í eigu hins op­in­bera, t.d. menn­ing­ar­hús eða fé­lags­heim­ili um allt land, væri hægt að nýta und­ir sköp­un, hljóðrit­un eða flutn­ing tón­list­ar.

Eitt okk­ar helsta tón­list­ar­hús, Harpa, starfar í sam­ræmi við eig­enda­stefnu rík­is­ins og Reykja­vík­ur­borg­ar, þar sem m.a. er lögð áhersla á menn­ing­ar­legt hlut­verk Hörpu og það mark­mið eig­enda að með rekstri henn­ar sé stuðlað að efl­ingu ís­lensks tón­list­ar- og menn­ing­ar­lífs. Í sam­ræmi við eig­enda­stefn­una hef­ur Harpa mótað sér dag­skrár­stefnu sem miðar að því að auka fjöl­breytni tón­leika­halds, styðja við ný­sköp­un í tónlist og auðvelda aðgengi ungs tón­listar­fólks úr gras­rót­inni, þvert á tón­list­ar­stefn­ur, að Hörpu sem tón­list­ar­húsi allra lands­manna.

Liður í þessu er t.a.m. sam­starf Hörpu, Tón­list­ar­borg­ar­inn­ar Reykja­vík­ur og Rás­ar 2 um sér­staka tón­leikaröð til­einkaða grasrót ís­lenskr­ar tón­list­ar, þvert á stefn­ur, sem kall­ast Upp­rás­in og fer fram í Kaldalóni. Aug­lýst var eft­ir um­sókn­um um þátt­töku í tón­leikaröðinni sl. vor og bár­ust alls 134 um­sókn­ir. Fjöldi og gæði um­sókna fór fram úr von­um aðstand­enda verk­efn­is­ins. Úr varð að 88 ung­ir ein­stak­ling­ar munu koma fram á tón­leikaröðinni, á mánaðarleg­um tón­leik­um fram á vor þar sem flutt­ar verða fjöl­breytt­ar teg­und­ir tón­list­ar.

Harpa legg­ur til sal­inn Kaldalón auk tækja og vinnu í tengsl­um við tón­leik­ana. Tón­list­ar­borg­in trygg­ir að flytj­end­ur fái greitt fyr­ir að koma fram. Rás 2 ann­ast kynn­ing­ar­starf fyr­ir tón­listar­fólkið og tek­ur tón­leik­ana upp. Miðaverði er stillt í hóf en tón­leika­gest­ir eru hvatt­ir til að styrkja tón­listar­fólkið með frjálsu viðbótar­fram­lagi. Það skipt­ir ungt tón­listar­fólk máli að fá tæki­færi líkt og þetta til þess að koma tónlist sinni á fram­færi í glæsi­legri aðstöðu líkt og Harpa hef­ur upp á að bjóða. Hér er aðeins um eina góða dæmi­sögu að ræða af mörg­um um þá miklu gerj­un sem á sér stað í menn­ing­ar­lífi þjóðar­inn­ar, en þær eru mý­marg­ar sem er fagnaðarefni fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 31. október 2023.

Categories
Fréttir Uncategorized

Opnir fundir í Norðvesturkjördæmi

Deila grein

27/10/2023

Opnir fundir í Norðvesturkjördæmi

Fundarröð

Þingmenn Framsóknar í Norðvesturkjördæmi þau Halla Signý, Lilja Rannveig og Stefán Vagn fara í fundaröð um kjördæmið.

Opnir fundir verða á ýmsum stöðum. Við hvetjum íbúa á öllum aldri eindregið til að mæta, hitta þingmennina, taka samtalið og spyrja spurninga.

Þann 30. október hittumst við á Hópinu, Hrafnadalsvegi 3, Tálknafirði kl 12:00.

Þann 30. október hittumst við í Skúrnum við Húsið Hrannargötu 2, Ísafirði kl 20:00.

Þann 31. október hittumst við á Vínlandssetrinu, Búðarbraut, Búðardal Kl 17:00. Þann 31. október hittumst við á Galdur brugghús , Hólmavík kl 20:00.

Þann 2. nóvember hittumst við á Dalsbraut 4, Akranesi kl 20:00. Þann 5. Nóvember hittumst við á Sögumiðstöðinni, Grundarfirði kl 20:00.

Þann 6. nóvember hittumst við á Glaðheimum, Blönduósi kl 12:00. Þá bætist Innviðaráðherra og formaður Framsóknar í hópinn

Þann 6. nóvember hittumst við á Kaffi Krók, Aðalgötu 16, Sauðárkróki kl 20:00. Innviðaráðherra og formaður Framsóknar verður einnig með í för.

Categories
Fréttir

„Þvílík orka, þvílík stemning – til hamingju öll“

Deila grein

25/10/2023

„Þvílík orka, þvílík stemning – til hamingju öll“

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður, vakti máls í störfum þingsins á sögulegum viðburði er fór fram á Arnarhóli, kvennaverkfallið, þar sem konur og kvár um land allt mættu, allt að 100.000.

„Í gær upplifðum við sögulegan viðburð í íslensku samfélagi, kvennaverkfallið á Íslandi árið 2023, daginn sem konur og kvár um land allt fóru í verkfall og allt að 100.000 mættu á Arnarhól. Þvílík orka, þvílík stemning. Til hamingju öll,“ sagði Líneik Anna.

Spurði hún hvort ætti að láta kraft gærdagsins brjóta blað í vinnunni að jafnrétti? Því svarði hún svo:

„Verkefnin sem standa upp úr eftir gærdaginn snúast um að halda áfram að breyta menningu, útrýma launamun kynjanna og kynbundnu ofbeldi, dreifa þriðju vaktinni og bæta stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi.“

Sagði hún Íslandi geta státað af kerfisbreytingum „sem hafa valdið straumhvörfum í jafnréttismálum, eins og tilkoma og þróun fæðingarorlofs og leikskóli fyrir alla“. –

„Við í Framsókn höfum þar lagt lóð á vogarskálarnar og við viljum halda áfram.“

Varaformaður Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, benti í gær á mikilvæg skrif nýjasta Nóbelsverðlaunahafans í hagfræði sem fæst einmitt við rannsóknir á launamun til að efla skilning á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þangað má sækja þekkingu.

„Á síðasta jafnréttisþingi komu fram sláandi upplýsingar um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði svo sem að 76% kvenna af erlendum uppruna sem hafa lokið háskólanámi eru ekki í störfum í samræmi við menntun og að takmarkað aðgengi að íslenskukennslu, skortur á íslensku tengslaneti og fordómar í samfélaginu skapa hindranir. Stjórnvöld geta auðveldlega aukið aðgengi að íslenskukennslu og skýrt verkferla við mat á menntun en breyting á menningu er okkar allra,“ sagði Líneik Anna.

„Takk öll sem tókuð þátt í deginum með einum eða öðrum hætti. Jafnrétti er allra hagur,“ sagði Líneik Anna að lokum.


Ræða Líneikar Önnu í heild sinni á Alþingi:

„Virðulegi forseti. Í gær upplifðum við sögulegan viðburð í íslensku samfélagi, kvennaverkfallið á Íslandi árið 2023, daginn sem konur og kvár um land allt fóru í verkfall og allt að 100.000 mættu á Arnarhól. Þvílík orka, þvílík stemning. Til hamingju öll.

En hvað svo? Hvernig ætlum við að láta kraft gærdagsins brjóta blað í vinnunni að jafnrétti? Verkefnin sem standa upp úr eftir gærdaginn snúast um að halda áfram að breyta menningu, útrýma launamun kynjanna og kynbundnu ofbeldi, dreifa þriðju vaktinni og bæta stöðu kvenna af erlendum uppruna í íslensku samfélagi.

Á Íslandi höfum við góða sögu að segja af kerfisbreytingum sem hafa valdið straumhvörfum í jafnréttismálum, eins og tilkoma og þróun fæðingarorlofs og leikskóli fyrir alla. Við í Framsókn höfum þar lagt lóð á vogarskálarnar og við viljum halda áfram. Varaformaður Framsóknar, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, benti í gær á mikilvæg skrif nýjasta Nóbelsverðlaunahafans í hagfræði sem fæst einmitt við rannsóknir á launamun til að efla skilning á stöðu kvenna á vinnumarkaði. Þangað má sækja þekkingu.

Á síðasta jafnréttisþingi komu fram sláandi upplýsingar um stöðu kvenna af erlendum uppruna á íslenskum vinnumarkaði svo sem að 76% kvenna af erlendum uppruna sem hafa lokið háskólanámi eru ekki í störfum í samræmi við menntun og að takmarkað aðgengi að íslenskukennslu, skortur á íslensku tengslaneti og fordómar í samfélaginu skapa hindranir. Stjórnvöld geta auðveldlega aukið aðgengi að íslenskukennslu og skýrt verkferla við mat á menntun en breyting á menningu er okkar allra.

Takk öll sem tókuð þátt í deginum með einum eða öðrum hætti. Jafnrétti er allra hagur.“

Categories
Fréttir Greinar

Fæðuöryggi á krossgötum

Deila grein

25/10/2023

Fæðuöryggi á krossgötum

Íslenskur landbúnaður, matarkista þjóðarinnar stendur um margt á krossgötum. Hann hefur gengið í gegnum miklar breytingar á undanförnum áratugum. Tæknibylting hefur gjörbreytt framleiðslu aðstæðum, ekki síst vegna aukinna krafna um aðbúnað dýra og eins kröfu markaðarins um lægra verð á matvælum.

Breytt umhverfi

Síðustu ár hefur orðið mikil hagræðing í landbúnaði þar sem búum hefur fækkað og stækkað. Framleiðsla í mjólk, hvítu kjöti og eggjum líklega aldrei verið keyrð á jafn hagkvæman máta, með stærri einingum án þess að mannskap hafi fjölgað mikið við vinnu á hverju búi og framleiðslan hefur aldrei verið meiri. Allt eins og áður segir er þetta gert til þess að framleiða gæða matvöru við sem bestar og hagkvæmastar aðstæður, enda staðreyndin að fá lönd geta státað sig af jafn hreinum landbúnaði og gæða afurðum eins og Íslendingar gera nú. En til þess að komast á þennan stað hefur landbúnaður þurft að fjárfesta verulega á undanförnum 15-20 árum. Þetta er fjárfesting til framtíðar, hús, vélar, tæki og ræktun sem munu nýtast næstu áratugina.

Aukin skuldsetning

Krossgöturnar eru þær að með stærri og meiri fjárfestingu hefur skuldsetning búanna líka aukist verulega og þegar vaxtarstig er með þeim ætti sem nú er mikil hætta á að illa fari. Það þarf þolinmótt fjármagn því það er hagur okkar allra að við búum að blómlegum landbúnaði til lengri tíma. Fjármagn sem þetta hefur tæplega verið í boði hjá lánastofnunum á þeim kjörum og þeim lánstíma sem hefði þurft. Íslenskur landbúnaður snýst um fæðuöryggi þjóðarinnar. Það hefur sannarlega sýnt sig í þeim átökum sem hafa átt sér stað í Austur Evrópu hversu mikilvægt fæðuöryggi er hverri þjóð. Því er mikilvægt að við stöndum í fæturna og styðjum þessa grein eins og best verður á kosið svo íslenskir bændur geti sinnt sínu hlutverki hvernig sem árar.

Ný nálgun

Íslendingar þurfa að fara hugsa landbúnað með nýrri nálgun á framtíð hans og vaxtarmöguleika. Snýr það bæði að fjármögnun atvinnugreinarinnar og ekki síður endurskoðun á fyrirkomulagi tolla og innflutnings á afurðum erlendis frá. Ný nálgun sem Þórarinn Ingi Pétursson þingmaður Framsóknar og formaður atvinnuveganefndar kom inn á í grein nýlega gæti verið áhugaverð. Þar sem hann varpar því fram að við höfum tækifæri til þess að nota í ríkari mæli Byggðastofnun sem útlánaaðila til kynslóðaskipta í landbúnaði. Ásamt því sem hann veltir því upp hvort hægt væri að nýta hugmyndafræði sem búin var til með hlutdeildarlánum fyrir fyrstu kaupendur fasteigna til þess að hjálpa ungu fólki að komast inn í landbúnað, þar sem ríkið myndi leggja til 20-30% í formi hlutdeildarlána við jarðakaup. Í landbúnaði þar sem þarf þolinmótt fjármagn þurfa lán sem þessi helst að vera til a.m.k. 50 ára á lágum vöxtum.

Með þessum aðgerðum væri hægt að skapa umhverfi þar sem eðlileg fjárfesting getur átt sér stað, þar sem búin geta fjárfest og hagrætt án þess að vera sokkin í fen skulda og vaxta og þegar hriktir í stoðum efnahagslífsins geta orðið stórslys með tilheyrandi gjaldþrotum og flótta úr landbúnaði. Íslendingar hafa einfaldlega ekki efni á að eiga ekki blómlegan landbúnað til að sinna grundvallarþörfum þjóðarinnar.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 25. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Deila grein

24/10/2023

Nóbelsverðlaunin í hagfræði 2023 snúast um launaþróun kynjanna

Claudia Gold­in hlaut Nó­bels­verðlaun­in í hag­fræði í ár fyr­ir að efla skiln­ing okk­ar á stöðu kvenna á vinnu­markaði. Hagrann­sókn­ir Gold­in ná yfir síðustu 200 ár og fjalla um stöðu kvenna á banda­rísk­um vinnu­markaði og veg­ferðina að auknu launa­jafn­rétti. Rann­sókn­ir henn­ar hafa hrakið hefðbundn­ar álykt­an­ir um hvaða breyt­ur leiði til auk­ins jafn­rétt­is. Fyr­ir rann­sókn­ir Gold­in var talið að auk­inn hag­vöxt­ur leiddi til auk­ins jafn­rétt­is á vinnu­markaðinum. Í rann­sókn­um sem birt­ar voru árið 1990 sýndi Gold­in fram á að það var ekki fyrr en á tutt­ug­ustu öld­inni, þegar störf­um í þjón­ustu­geir­an­um fjölgaði og mennt­un á fram­halds­skóla­stigi þróaðist, að launamun­ur kynj­anna fór að minnka.

Vænt­ing­ar um barneign­ir skýra launamun

Á tutt­ug­ustu öld jókst mennt­un­arstig kvenna stöðugt og hafði áhrif á að minnka launamun­inn fram af. Önnur stór skýri­breyta er aðgang­ur kvenna að getnaðar­varn­arpill­unni árið 1961 í Banda­ríkj­un­um, þar sem hún gerði kon­um kleift að skipu­leggja náms- og starfs­fer­il­inn. Hefðbund­in sögu­skýr­ing á launamun kynj­anna var sú að kon­ur og karl­ar hefðu á unga aldri valið sér mennt­un, sem leiddi síðan til ákveðinna starfa sem væru mis­vel launuð. Gold­in komst hins veg­ar að því að sá launamun­ur sem enn er við lýði skýrist að stærst­um hluta af áhrif­um barneigna. Hagrann­sókn­ir Gold­in sýna fram á að launamun­ur kynj­anna minnkaði í nokkr­um skref­um. Laun kvenna hækkuðu í hlut­falli við laun karla á ár­un­um 1820-50, og svo aft­ur 1890-1930, áður en þau hækkuðu á ár­un­um 1980-2005 (sjá mynd 1).

Mestu breyt­ing­arn­ar eiga sér stað á átt­unda ára­tug síðustu ald­ar. Kyn­bund­inn launamun­ur hef­ur hald­ist nokkuð stöðugur í Banda­ríkj­un­um und­an­far­in 20 ár. Árið 2022 voru meðallaun kvenna 82% af því sem karl­ar höfðu að meðaltali. Meg­in­út­skýr­ing á því að launamun­ur­inn minnk­ar felst í vænt­ing­um, þ.e. ef ung kona stýr­ir því hvenær og hvort hún eign­ast barn og hef­ur meiri vænt­ing­ar um að kon­ur geti unnið fjöl­breytt störf, þá fjár­fest­ir hún meira í framtíð sinni. Á ár­un­um 1967-1979 jókst hlut­fall 20 og 21 árs kvenna sem væntu þess að vera í vinnu 35 ára úr 35% í 80%! Einn ann­ar mik­il­væg­ur áhrifa­vald­ur þess­ara umbreyt­inga, sem fylgdu pill­unni, var að kon­ur gátu frestað gift­ingu sem olli því sam­kvæmt Gold­in að þær tóku há­skóla­nám fast­ari tök­um, gátu hugsað sér sjálf­stæða framtíð og mótað sjálfs­mynd sína fyr­ir hjóna­band og fjöl­skyldu.

Leiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna á Íslandi er 4,3%

Sam­kvæmt rann­sókn Hag­stofu Íslands var óleiðrétt­ur launamun­ur karla og kvenna 9,1% árið 2022 og dróst sam­an frá fyrra ári úr 10,2%. Óleiðrétt­ur launamun­ur kynj­anna á Íslandi hef­ur minnkað hægt og bít­andi síðustu ára­tugi. Launamun­ur á Íslandi eykst eft­ir aldri og er mun­ur­inn 0,7% á meðal 24 ára og yngri og 16,3% á meðal 55-64 ára. Þessi niðurstaða er í sam­ræmi við rann­sókn sem Hag­stof­an gerði árið 2021 en þar kom fram að launamun­ur karla og kvenna dróst sam­an frá 2008 til 2020. Kyn­bund­in skipt­ing vinnu­markaðar í störf og at­vinnu­grein­ar skýr­ir að miklu leyti þann launamun sem er til staðar en áhrif mennt­un­arstigs og lýðfræðilegra þátta á launamun hafa minnkað, einkum seinni árin (sjá mynd 2).

Það er afar já­kvætt að launamun­ur kynj­anna haldi áfram að minnka enda er það hag­ur allra. Ísland er metið vera sá staður í ver­öld­inni þar sem best er að vera úti­vinn­andi kona, sam­kvæmt tíma­rit­inu Econom­ist og glerþaks­vísi­töl­unni.

Enn í dag hafa barneign­ir og hjú­skap­ur mik­il áhrif á launamun í Banda­ríkj­un­um

Launamun­ur kynj­anna út frá fram­halds­námi í Banda­ríkj­un­um hef­ur ekki breyst mikið frá ár­inu 2005 og Gold­in hef­ur verið að leita skýr­inga. Í bók sem hún gaf út árið 2021 kem­ur hún með þá kenn­ingu að störf­um sem fela í sér mikla yf­ir­vinnu og óvissu sé um að kenna. Fram kem­ur í lang­tíma­gögn­um þar sem fylgst er með lífi og tekj­um ein­stak­linga í Banda­ríkj­un­um að laun karla og kvenna eru áber­andi svipuð strax eft­ir fram­halds­nám eða há­skóla­nám. Á fyrstu árum starfs­fer­ils­ins er launamun­ur lít­ill hjá ný­út­skrifuðum há­skóla­nem­um og skýrist hann að mestu leyti af ólíku náms- og starfs­vali karla og kvenna. Karl­ar og kon­ur byrja nán­ast á sama tekju­grunni og hafa mjög svipuð tæki­færi. Það er ekki fyrr en lengra er liðið á æv­ina, um tíu árum eft­ir að há­skóla­námi lýk­ur, að mik­ill launamun­ur kem­ur í ljós hjá körl­um og kon­um, sér­stak­lega þeim kon­um sem eiga tvö börn.

Barneign­ir hafa ekki mik­il áhrif á launamun á Íslandi en yf­ir­vinna skýr­ir mun­inn

Þegar svo­kallaður leiðrétt­ur launamun­ur er skoðaður var hann 4,3% á Íslandi árið 2019. Þetta þýðir að ef karl­ar og kon­ur ynnu að jafnaði sömu störf, í sömu at­vinnu­grein­um, þá stæði eft­ir að kon­ur fengju að meðaltali um 4,3% lægri laun en karl­ar vegna kyns síns. Hins veg­ar þegar aðeins er leiðrétt fyr­ir lýðfræðileg­um breyt­um, þ.e. aldri, hjú­skap­ar­stöðu og fjölda barna, var leiðrétt­ur launamun­ur 10,9% árið 2019. Það gef­ur til kynna að breyt­urn­ar í líkan­inu skýri ein­ung­is að litlu leyti óleiðrétta launamun­inn. Niður­stöður gefa einnig til kynna að þess­ar breyt­ur hafi mark­tækt ólík áhrif á karla og kon­ur. Hjú­skap­arstaða á Íslandi hef­ur til að mynda eng­in áhrif á laun kvenna en það að ein­stak­ling­ur sé í sam­búð hef­ur já­kvæð áhrif á laun karla. Slík áhrif eru þekkt í fjöl­mörg­um lönd­um en ný­leg rann­sókn frá Banda­ríkj­un­um sýn­ir að áhrif­in eru einkum vegna þess að karl­menn með hærri laun eru lík­legri til þess að kvæn­ast, þ.e. laun­in hafa áhrif á hjú­skap­ar­stöðu en ekki öf­ugt. Fjöldi barna und­ir tveggja ára aldri hef­ur sam­kvæmt rann­sókn­inni ómark­tæk áhrif á laun kvenna á Íslandi og lít­il áhrif (til lækk­un­ar) á laun karla.

Hagrann­sókn­ir Gold­in eru mjög áhuga­verðar. Áður en Gold­in hóf rann­sókn­ir sín­ar töldu marg­ir fræðimenn að spurn­ing­um um launamun kynj­anna í sögu­legu sam­hengi væri ósvarað vegna skorts á gögn­um. Segja má að sú leið sem Ísland hef­ur farið í jafn­rétt­is­mál­um sanni hag­fræðikenn­ing­ar Gold­in, þ.e. að með öfl­ugri upp­bygg­ingu leik­skóla­stigs­ins ásamt 12 mánaða fæðing­ar­or­lofi hafi launamun­ur­inn minnkað mark­visst. Fram­sæk­in kvenna­bar­átta í gegn­um tíðina skipt­ir einnig sköp­um. Þrátt fyr­ir það er launamun­ur og hann eykst eft­ir aldri. Þessu þarf að breyta ásamt því að efla leik­skóla­stigið og starfs­um­hverfi kenn­ara!

Ég óska sam­fé­lag­inu til ham­ingju með dag­inn og hvet okk­ur öll til áfram­hald­andi góðra verka í þágu jafn­rétt­is­mála.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2023.

Categories
Fréttir Greinar

At­vinnu­öryggi vegna barn­eigna

Deila grein

23/10/2023

At­vinnu­öryggi vegna barn­eigna

Einn af hornsteinum jafnréttisbaráttunnar hér á landi er að tryggja rétt til fæðingarorlofs og tryggja atvinnuöryggi barnshafandi kvenna og síðar beggja foreldra, þannig að óheimilt sé að segja starfsmanni upp störfum vegna fyrirhugaðs fæðingar- eða foreldraorlofs.

Það að eiga vona á barni og bjóða einstakling í heiminn er sennilega eitt af því fallegasta og dýrmætasta sem margir gera í lífinu, ef svo má segja. Að verða foreldri er einstakt í sjálfu sér, umsvifalaust fer margt að snúast um það barn sem er á leiðinni. Ábyrgðartilfinning í bland við eftirvæntingu.

Tæknifrjóvgun og tengdar meðferðir eru oft langt og erfitt ferli, inngrip sem hefur áhrif á líkamlega- og andlega líðan. Kostnaður sem fólk ber er þónokkur í dag og felur jafnframt í sér áhættu. Ferlið getur verið afar tímafrekt og algjör ógjörningur að tryggja að allt heppnist í fyrstu tilraun. Í einhverjum tilfellum þarf nokkrar tilraunir áður en ferlið heppnast, það er ef það heppnast. Á sama tíma getur það tekið á að ná ekki að sinna vinnu sinni eins og best verður á kosið og engum til hagsbóta að starfsmaðurinn standi mögulega höllum fæti gagnvart vinnuveitanda sínum á þeim tíma sem hann freistar þess að eignast barn og stofna til fjölskyldu.

Einstaklingar sem þurfa að leita í slíkt ferli hafa ekki sömu möguleika og aðrir til þess að halda áformum sínum leyndum um að eignast barn og stofna til fjölskyldu. Þeir einstaklingar sem ekki þurfa að gangast undir ferli sem þetta eru alla jafna ekki að upplýsa yfirmenn um áform um barneignir, enda er um að ræða einkamál hvers og eins.

Við eigum að vera vakandi fyrir því hvað má betur fara, bregðast við nýjum þörfum og þétta velferðarkerfi okkar á grundvelli jafnréttismála, því hef ég lagt fram frumvarp um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof. Það er stækkandi hópur sem hér um ræðir, en slíkum meðferðum hefur fjölgað um fjölgaði um meira en helming hér á landi á síðustu fjórum árum, en á síðasta ári voru 571 tæknifrjóvgunaraðgerð framkvæmd hér á landi, sem í mínum huga undirstrikar mikilvægi þessa máls, enda tel ég að við megum engan tíma missa.

Mikilvægar breytingar

Í mínum tillögum felast annars vegar viðurkenning á réttindum þeirra sem eru í tæknifrjóvgunarferli og hins vegar styrking á atvinnuöryggi fólks sem eru í meðferð vegna tæknifrjóvgana. Þannig að það sé skýrt í lögunum að óheimilt sé að segja starfsfólki á því tímabili sem virk meðferð með tæknifrjóvgun fer fram. Að því sögðu, þó það sé heimilt sé að geyma fósturvísa í allt að 10 ár þá ber að hafa í huga að vernd gegn uppsögn með þessum hætti er ætluð að eiga við á þeim tíma sem starfsmaðurinn undirgengst virka meðferð og getur sýnt fram á staðfestingu þess eðlis. Það er mikilvægt að halda áfram að styrkja réttaröryggi í jafnréttisbaráttunni, þeirri vegferð er aldrei lokið fremur en öðrum verkefnum.

Við höfum tök á að tryggja framangreint með samþykki á frumvarpinu sem hér um ræðir. Það er því einlæg von mín að frumvarpið hljóti brautargengi í þinginu á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar og 1. þingmaður Norðausturkjördæmis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 23. október 2023.