Categories
Fréttir Greinar

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Deila grein

12/03/2025

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld ríkissjóðs?

Ríkissjóður stendur frammi fyrir mikilli áskorun. Boðuð útgjöld nýrrar ríkisstjórnar hafa vakið upp spurningar um hvernig eigi að fjármagna þessa aukningu án þess að grafa undan stöðugleika í efnahagslífinu. Í ljósi þess að við erum nú að ná markverðum árangri við að lækka verðbólgu og stýrivaxtaferlið er í fullum gangi er brýnt að stjórnvöld sýni aðhald í ríkisfjármálum og grípi ekki til aðgerða sem gætu ýtt undir verðbólguþrýsting.

Fjárlög síðustu ríkisstjórnar miðuðu að því að tryggja stöðugleika í ríkisfjármálum og tryggja þannig að efnahagslífið haldi jafnvægi. Ef aukin útgjöld leiða til meiri skuldsetningar ríkissjóðs án hagræðingar eða skýrrar tekjuöflunar getur það leitt til aukinnar verðbólgu og hækkunar stýrivaxta, sem bitnar mest á heimilum og fyrirtækjum.

Óljósar skattahækkanir valda áhyggjum

Í nýliðinni kjördæmaviku þar sem þingflokkur Framsóknar hélt 19 opna stjórnmálafundi kom meðal annars fram að mörgum þykir skortur á skýrleika um fyrirhugaðar skattahækkanir á ferðaþjónustu og sjávarútveg. Þessar atvinnugreinar eru burðarásar í efnahagslífinu og óvissa um skattlagningu getur dregið úr fjárfestingu og valdið röskun á markaði. Margir hafa áhyggjur af því að auknar álögur geti dregið úr samkeppnishæfni þessara greina og haft keðjuverkandi áhrif á aðra hluta hagkerfisins.

Ferðaþjónustan hefur farið í gegnum mikið umbreytingartímabil eftir heimsfaraldurinn og treystir á stöðugleika og fyrirsjáanleika til áframhaldandi vaxtar. Óvæntar skattahækkanir gætu dregið úr aðdráttarafli Íslands sem áfangastaðar, sérstaklega ef verðlag hækkar verulega. Að sama skapi er sjávarútvegur ein mikilvægasta útflutningsgrein landsins, og skattahækkanir gætu leitt til minni arðsemi, samdrætti í fjárfestingu og neikvæðra áhrifa á efnahagslífið í heild. Ég hef áhyggjur af því að hækkun veiðigjalda muni sérstaklega bitna á minni og meðalstórum fjölskyldufyrirtækjum sem eru burðarásar atvinnulífs í mörgum byggðarlögum. Reyndar hefur það raungerst að smærri útgerðir hafa nú þegar ákveðið að leggja upp laupana í ljósi boðaðra hækkana sem mun leiða til aukinnar samþjöppunar í sjávarútvegi sem er þvert á gefin fyrirheit núverandi ríkisstjórnarflokka.

Hvernig á að fjármagna aukin útgjöld án óstöðugleika?

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir tveimur valkostum: annaðhvort að halda aftur af útgjöldum eða tryggja skýra tekjuöflun án þess að ógna efnahagslegum stöðugleika. Einn möguleiki væri að einblína á hagkvæmari nýtingu fjármuna ríkissjóðs í stað þess að leggja auknar álögur á atvinnugreinar. Með meiri aga í ríkisfjármálum og hagræðingu í opinberum rekstri mætti draga úr þörfinni fyrir skattahækkanir. Einnig mætti horfa til þess að auka skatttekjur með því að efla hagvöxt frekar en að setja beinar álögur á tilteknar atvinnugreinar.

Stjórnvöld þurfa að sýna ábyrgð

Til þess að viðhalda trausti á íslensku efnahagslífi þurfa stjórnvöld að koma fram með skýra stefnu um hvernig boðuð útgjöld verða fjármögnuð án þess að grafa undan efnahagslegum stöðugleika. Ef stjórnvöld halda áfram á óljósri braut skattahækkana á atvinnulífið án þess að útskýra áhrif þeirra, er hætta á að þetta leiði til minni fjárfestingar, minni hagvaxtar og efnahagslegs óstöðugleika.

Í ljósi alls þessa er mikilvægt að ríkisstjórnin sýni forystu í ríkisfjármálum og tryggi að allar ákvarðanir um útgjöld og skattheimtu séu byggðar á langtímahugsun og ábyrgri hagstjórn. Hvernig ætlar forsætisráðherra að tryggja að boðuð útgjöld verði fjármögnuð án þess að bitna á hagvexti, stöðugu verðlagi og almennri velferð?

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 12. mars 2025.

Categories
Fréttir

„Af hverju var tækifærið ekki nýtt?“

Deila grein

11/03/2025

„Af hverju var tækifærið ekki nýtt?“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, ræddi á fundi Alþingis um neyðarástand í úrræðum fyrir börn með fjölþættan vanda. Hún benti á að ríkisstjórnin hafi talað um mikilvægi þess að byggja upp meðferðarheimili á höfuðborgarsvæðinu, þar sem 80% þessara barna búa. Ingibjörg sagði að þrátt fyrir að þetta væri nauðsynlegt, dugi það ekki eitt og sér.

Sérfræðingar innan kerfisins hafa bent á að eina raunhæfa lausnin sé ekki bara að bæta úrræði í borginni heldur einnig að skapa langtímalausnir utan hennar. Þetta myndi draga úr aðgengi barna að fíkniefnum og rjúfa hættuleg tengsl sem viðhalda vandanum, auk þess sem hægt væri að bregðast við vandanum á landsbyggðinni.

Ingibjörg gagnrýndi stjórnvöld fyrir að horfa fram hjá þeirri staðreynd að húsnæði sem uppfyllti öll skilyrði hafi verið til staðar, en ekki nýtt. Hún nefndi Háholt í Skagafirði, sem áður hefur þjónað þessu hlutverki. Húsnæðið var til staðar, samfélagið reiðubúið og fagfólkið til staðar, en samt var þessari lausn hafnað án þess að ráðuneytið hafi kynnt sér aðstæður. Nú er það of seint, þar sem Háholt hefur verið selt og þessi möguleiki er úr sögunni.

„Við verðum að byggja upp úrræði á höfuðborgarsvæðinu, það er engin spurning. En á meðan við vinnum að því, því það mun taka tíma, þá vil ég spyrja: Af hverju var tækifærið ekki nýtt í stað þess að gera ekki neitt og leyfa vandanum að vaxa? Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera núna til að mæta því neyðarástandi sem uppi er í málaflokknum?“ sagði Ingibjörg að lokum.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi um áhyggjur Grindvíkinga: „Treystið okkur“

Deila grein

11/03/2025

Sigurður Ingi um áhyggjur Grindvíkinga: „Treystið okkur“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, ræddi á fundi Alþingis um áhyggjur Grindvíkinga vegna yfirvofandi eldgoss og biðar eftir aðgerðum stjórnvalda. Hann sagði að þingmenn Suðurkjördæmis hefðu átt ágætis fund með bæjarstjórn Grindavíkur í kjördæmaviku og að þingflokkur Framsóknar hefði nýtt þingflokksfundadaginn til heimsóknar í Grindavík til að hitta íbúa bæjarins.

Hann sagði að atvinnulíf í Grindavík væri í blóma, með 750-800 manns starfandi þar daglega og yfir 120 manns sem gista í bænum.

„Tónninn sem ég heyrði hins vegar á báðum þessum fundum var að upplifunin væri, allt frá kosningum, svolítil bið. Það væru skilaboðin, jafnvel eftir fund með hæstv. forsætisráðherra, að það þyrfti að bíða. Ég skil mjög vel að fólkið í Grindavík sé farið að hafa áhyggjur af því að það sé ekki hægt að bíða endalaust,“ sagði Sigurður Ingi.

Sigurður Ingi benti á að ríkið eigi tæpar 1.000 íbúðir í Grindavík og að fólk hafi áhuga á að flytja þangað. Hann nefndi stofnun hollvinasamtakanna Járngerðar, þar sem íbúar sögðu: „Treystið okkur.“ Hann spurði forsætisráðherra hvort stjórnvöld væru farin að ganga of langt í forræðishyggjunni.

„Hvar megum við koma að? Í vinnu stjórnvalda er verið að vinna sviðsmyndagreiningar með sérfræðingum, jafnvel erlendum aðilum, en þau spyrja: Hvar erum við? Erum við farin að ganga of langt í forræðishyggjunni? Það er það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra. Fólkið segir: Treystið okkur. Við erum vön að fylgja veðurspám og sérfræðingum Veðurstofunnar. Við erum vön að fylgja þeim tilmælum sem koma. Við kunnum þetta. Við þekkjum bæinn okkar og sprungurnar betur en flestir aðrir. Þau okkar sem eru tilbúin að setjast að og prófa, megum við prófa? Bannið okkur ekki. Treystið okkur til að taka þátt í samtalinu. Hvert er plan ríkisstjórnarinnar?“

Categories
Fréttir Greinar

Að komast frá mömmu og pabba

Deila grein

10/03/2025

Að komast frá mömmu og pabba

Að kaupa sína fyrstu fasteign er stórt og spennandi skref, en fyrir marga unga Íslendinga virðist það oft vera nánast ómögulegt verkefni. Hátt fasteignaverð, strangar lánareglur og síhækkandi daglegur kostnaður hafa gert það að verkum að mörg ungmenni eiga erfitt með að kaupa sína fyrstu íbúð án aðstoðar. En stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að auðvelda fyrstu kaupendum að komast inn á fasteignamarkaðinn. Með réttum úrræðum og stefnu sem miðast við raunveruleika fólks er hægt að brjóta niður þessar hindranir og tryggja að fleiri geti eignast sitt eigið heimili. Úrræðin nýtast okkur þó ekki ef við vitum ekki af þeim. Förum aðeins yfir þau úrræði sem standa okkur til boða í dag:

Húsnæðislán og stuðningsúrræði: Hvað er í boði?

Ein stærsta hindrunin fyrir fyrstu kaupendur er að geta fengið lán á viðráðanlegum kjörum. Bankarnir setja oft ströng skilyrði sem gera það erfitt fyrir ungt fólk að komast inn á fasteignamarkaðinn. Þess vegna hafa stjórnvöld komið með nokkur úrræði til að auðvelda fólki fyrstu kaupin:

1. Hlutdeildarlán – ríkið lánar í stað foreldra

Hlutdeildarlán eru úrræði sem Framsókn vann að og hjálpar þeim sem eiga ekki kost á aðstoð frá fjölskyldu við fasteignakaup. Í einföldu máli virkar þetta þannig að ríkið lánar hluta af kaupverðinu í stað þess að foreldrar leggi fram eigið fé.

Hér eru lykilatriðin:

  • Hlutdeildarlánin eru eingöngu fyrir fyrstu kaupendur eða þá sem ekki hafa átt fasteign í fimm ár.
  • Ríkið lánar allt að 20% af kaupverði eignar, eða allt að 30% ef eignin er á landsbyggðinni.
  • Lánin eru vaxtalaus og þarf ekki að greiða af þeim mánaðarlega, ólíkt hefðbundnum bankalánum.
  • Lánin eru greidd til baka eftir 10 ár eða þegar eignin er seld, og þá miðað við verðmæti eignarinnar á þeim tíma.

Þetta úrræði hefur reynst mörgum vel og gert það mögulegt fyrir fólk að eignast sína fyrstu íbúð án þess að þurfa að safna gífurlegum fjárhæðum fyrir útborgun.

2. Óverðtryggð lán með föstum vöxtum – nýtt frumvarp Framsóknar

Önnur stór áskorun fyrir unga fasteignakaupendur á Íslandi er að flest fasteignalán eru verðtryggð, sem þýðir að höfuðstóll lánsins getur hækkað yfir tíma. Í mörgum nágrannalöndum er algengt að fólk geti fengið óverðtryggð lán með föstum vöxtum til langs tíma, sem gerir greiðslubyrði fyrirsjáanlegri og tryggir stöðugleika í fjármálum heimila.

Framsókn hefur lagt fram frumvarp sem kallar eftir því að bankar verði skyldugir til að bjóða fasteignakaupendum óverðtryggð lán með föstum vöxtum til langs tíma. Þetta myndi þýða að fólk gæti tekið lán þar sem vextirnir eru fastir út lánstímann, og þannig haft betri yfirsýn yfir greiðslubyrði sína.

Þetta er mikilvæg breyting sem myndi gera fasteignamarkaðinn stöðugri og auðveldari fyrir ungt fólk að fóta sig á. Í dag geta vextir hækkað skyndilega og valdið miklum fjárhagsvandræðum, en með föstum vöxtum yrðu greiðslurnar alltaf þær sömu, sem eykur öryggi fasteignaeigenda.

Að nýta sér séreignarsparnað getur líka verið mikilvægur þáttur í að safna fyrir útborgun eða greiða niður lán, en stjórnvöld hafa framlengt úrræði sem gerir fólki kleift að nota þennan sparnað skattfrjálst til kaupa á fyrstu eign.

Að lokum – rétta leiðin að fyrstu eigninni

Að eignast sína fyrstu fasteign er áskorun, sérstaklega í núverandi efnahagsástandi, en ekki ómögulegt. Gott skipulag á fjármálum, rétt hugarfar og einhverjar fórnir eru nauðsynleg fyrstu skref, en það þarf oft meira til. Með nýtingu úrræða eins og hlutdeildarlána og séreignarsparnaðar og því að fylgjast með þróun markaðarins er hægt að finna tækifæri.

Framtíðin er einnig bjartari fyrir fyrstu kaupendur ef frumvarp Framsóknar um óverðtryggð lán með föstum vöxtum verður að veruleika. Með þessum breytingum yrði mun auðveldara að skipuleggja fasteignakaup, forðast sveiflur í greiðslum og byggja upp öruggt framtíðarheimili.

Lykilatriðið er að gefast ekki upp. Það getur tekið tíma að safna og finna réttu eignina, en með útsjónarsemi og nýtingu þeirra úrræða sem standa til boða geturðu komist í þína eigin íbúð og loksins sloppið úr leiguhringnum eða heiman frá foreldrunum.

Ingibjörg Isaksen, formaður þingflokks Framsóknarflokksins. 

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óður til Græn­lands

Deila grein

10/03/2025

Óður til Græn­lands

Getur þú ímyndað þér að þurfa alltaf að tala annað tungumál á fundum sem skipta einhverju raunverulegu máli í þínu eigin heimalandi? spurði grænlensk samstarfskona mig fyrir nokkrum árum og vísaði hér til dönsku. Þú upplifir að þú sért óæðri á einhvern hátt, þó að það sé kannski ekki ætlunin, þá seytlast sú tilfinning smátt og smátt inn.

Þessi upplifun festist í huga mér. Hún er ein birtingarmynd samskipta Dana við Grænlendinga sem hafa ekki alltaf verið til fyrirmyndar frá árinu 1721 þegar Grænland varð nýlenda Danmerkur. Grænland, stærsta eyja heims, er jafn stórt og Bretland, Þýskaland, Spánn, Ítalía, Austurríki, Sviss og Belgía samanlagt. Landfræðilega tilheyrir það Norður-Ameríkuflekanum og hefur í þúsundir ára verið heimili Inúíta sem hafa sitt eigið tungumál, sögu og menningu.

Í dag hefur margt breyst til hins betra í samskiptum þjóðanna sem birtist meðal annars í formlegri stöðu Grænlands gagnvart Danmörku. Árið 1953 fengu Grænlendingar aukin réttindi sem danskt amt eða hérað í konungsríki Dana. Árið 1979 öðluðust Grænlendingar heimastjórn og grænlenska þjóðþingið var stofnað. Þrjátíu árum síðar greiddu Grænlendingar atkvæði með samkomulagi um aukna sjálfstjórn (e. Self Government Act) sem gaf þeim líka rödd á danska þinginu og varðaði leið Grænlands til sjálfstæðis. Ein helsta efnahagslega hindrunin í þeirri vegferð er að ríflega helmingur tekna Grænlands kemur frá Danmörku.

Saga sjálfstæðisbaráttu Íslands og Grænlands

Grænlendingar þurfa einnig oft að heyra að þeir séu of fáir til að verða sjálfstæð þjóð enda eingöngu um 57 þúsund. Þá er áhugavert að líta aftur í söguna og horfa til þess að við Íslendingar voru líka smá þjóð þegar við öðluðumst fullt sjálfstæði eða um rúm 120 þúsund. Líkindin með sögu og tækifærum Íslands þá og Grænlands í dag eru töluverð eins og sjá má á eftirfarandi dæmum:

Á leið Íslands til sjálfstæðis jókst meðvitund um gildi íslenskrar tungu, menningar og náttúru sem varð grunnur að sjálfstæðisbaráttu okkar og sókn. Sama hefur verið uppi á teningnum í Grænlandi á undanförnum árum.

Þegar Ísland lýsti yfir sjálfstæði skipti stuðningur og viðurkenning Bandaríkjanna sköpum, á tímum þegar Danmörk var hernumin. Núverandi ólga í alþjóðamálum sýnir að samvinna við Bandaríkin getur einnig haft áhrif á þróun Grænlands.

Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki var fiskurinn í sjónum okkar helsta tekjulind. Í Grænlandi er staðan sú sama en allt að þriðjungur landsframleiðslu þeirra kemur frá sjávarútvegi. Sóknarfærin í nýsköpun og aukinni verðmætasköpun á sviði sjávarútvegs geta orðið fjölmörg í framtíð Grænlands, líkt og við höfum reynslu af hér á landi.

Eftir sjálfstæði Íslands nýttum við fallvötn til raforkuframleiðslu til að fjölga stoðum efnahagslífsins og byggðum upp sterka innviði raforku og tengdan iðnað svo sem álframleiðslu og gagnaver. Grænland býr yfir sömu möguleikum á enn stærri skala m.a. með sína ríku möguleika í vatnsafli. Þessir möguleikar orkumálanna geta líka stutt við framleiðslu rafeldsneytis eða nýtingu málma Grænlands, sem er orkufrekur iðnaður. Slík innviðauppbygging getur svo nýst fleiri sviðum samfélagsins til lengri tíma, líkt og raunin varð á Íslandi.

Eftir að Ísland varð sjálfstætt ríki nýttum við legu landsins mitt milli Evrópu og Bandaríkjanna til að byggja upp millilandaflug. Það rauf einangrun Íslands, efldi viðskipti og varð grunnur ferðaþjónustunnar eins og við þekkjum hana í dag. Grænland er á barmi þessarar þróunar; lega landsins er hagstæð og eftir langa bið sem hefur heft þessa þróun munu þrír alþjóðlegir flugvellir starfa á Grænlandi frá og með 2026, en sá fyrsti opnaði í Nuuk árið 2024. Gera má ráð fyrir að þessar nýju samskiptaæðar muni gjörbreyta möguleikum Grænlendinga í viðskiptum og gera ferðaþjónustu að stærri tekjustoð, enda náttúra Grænlands og menning einstök.

Staða Grænlands í dag – Ísland sem ákveðin fyrirmynd og bandamaður

Grænland stendur því að sumu leiti á svipuðum tímamótum og Ísland gerði fyrir nokkrum áratugum. Samhliða og Ísland tryggði sér pólitískt sjálfstæði þurftum við að byggja upp efnahagslegt sjálfstæði, fjölga stoðum atvinnulífsins, byggja upp menntun og heilbrigðiskerfi, og skapa okkur sess á alþjóðavettvangi. Grænland stendur nú frammi fyrir sömu verkefnum: Að treysta efnahagsgrunn sinn, efla innviði, nýta auðlindir sínar á sjálfbæran hátt og auka alþjóðlega samkeppnishæfni. Þess vegna er Ísland kjörinn samstarfsaðili sem getur verið fyrirmynd í ákveðnum verkefnum í þessari vegferð.

Þrátt fyrir smæð þjóðarinnar hefur Grænland burði til að byggja upp fjölbreytt efnahagslíf, rétt eins og Ísland gerði á sínum tíma. En það sem skiptir jafnvel enn meira máli er að Ísland er eitt af örfáum ríkjum sem skilur að ákveðnu leyti raunverulega hvaða áskoranir Grænland stendur frammi fyrir. Við erum þjóð sem hefur gengið í gegnum sjálfstæðisferli undan Dönum. Við eigum því sögu um samskipti við Danmörku bæði sem fyrrverandi hluti af veldi þeirra og upplifun af farsælum samskiptum eftir sjálfstæði. Þessi reynsla skapar einstakt tækifæri til samvinnu; Ísland hefur bæði reynslu og getu til að styðja Grænland í þeirri leið sem þeir ákveða og það er í okkar hagsmunum að tryggja að rödd Grænlands hljómi skýrar á alþjóðavettvangi.

Aukin samvinna Íslands og Grænlands á að vera forgangsmál

Eins og sjá má þá eru staða og tækifæri Íslands og Grænlendings í fortíð og framtíð lík að ýmsu leyti. Ofan á þessi líkindi hafa Grænlendingar mun fjölbreyttari tækifæri í öðrum auðlindum eins og kopar, gulli, úraníum og olíu. Þess vegna er vægi Grænlands í geopólitík ótvírætt sem skapar bæði tækifæri og ógnir eins og hefur birst á undanförnum vikum.

Hvað sem líður ætti að vera forgangsmál Íslands að efla samstarf við Grænland. Þegar er samvinnan töluverð á sviði rannsókna, í orku, málmum og flugi svo dæmi séu tekin en færa ætti út kvíarnar í samvinnu þvert á geira og samfélag á sem flestum sviðum með framtíðarhagsmuni þessara vinaþjóða að leiðarljósi. Einnig á Ísland að beita sér fyrir því að Grænland verði sem allra fyrst fullgildur meðlimur í Norðurlandaráði til að styrkja möguleika þeirra á að láta rödd sína heyrast.

Við erum til í viðskipti en ekki til sölu

Árið 2019 tók ég á móti utanríkisráðherra Grænlands vegna funda og viðburðar Harvard-háskóla. Stuttu áður hafði Trump lýst yfir áhuga sínum í fyrsta sinn á að kaupa Grænland og aflýst opinberri heimsókn sinni til Danmerkur þegar Danir mótmæltu orðum hans. Á viðburðinum í háskólanum ítrekaði ráðherrann skýra afstöðu Grænlendinga: Við erum til í viðskipti, en við erum ekki til sölu.

Nú, nokkrum árum síðar, kemur áhugi Bandaríkjanna enn skýrar fram með endurkomu Trump. Ástæðan er enn á ný hernaðarlega mikilvæg staðsetning Grænlands og ríkidæmi þeirra í mikilvægum málmum og öðrum auðlindum. Samtímis er staða heimsmálanna er flóknari eftir innrás Rússa í Úkraínu sem meðal annars hefur veikt Norðurskautsráðið mikið sem áður var vettvangur samvinnu um málefni norðursins. Þess ber að geta að í vor taka Danir, sem fara með utanríkis- og varnarmál Grænlands, við formennsku í hálf lömuðu Norðurskautsráðinu og þar innanborðs eru einnig Bandaríkjamenn og Rússar sem eiga ríka hagsmuni í okkar heimshluta. Staðan er flókin á marga vegu en mikilvægi samvinnu og langtímahugsunar í allri ákvarðanatöku hefur sjaldan verið meiri.

Breytir áhugi Bandaríkjanna einhverju fyrir Grænland?

Samtöl mín við samstarfsfólk á Grænlandi hafa öll bent í sömu átt og utanríkisráðherrann nefndi á fundinum 2019 og kannanir um málið þar í landi undirstrika sömuleiðis; það er lítill áhugi á hugmyndum um að ganga í Bandaríkin, en áhugi á samvinnu og viðskiptum er fyrir hendi. Áhugi Bandaríkjanna á Grænlandi hefur hins vegar ýtt við umræðum um framtíð Grænlands og skapað Grænlendingum að einhverju leyti betri samningsstöðu í samvinnu gagnvart Dönum, sem er þeim mikilvæg. Vert er að benda á að beint samstarf Grænlands og Bandaríkjanna hefur verið að aukast mikið undanfarin ár; eins og opnun ræðismannsskrifstofu Bandaríkjanna í höfuðborg Grænlands, Nuuk, í fyrri forsetatíð Trumps og skrifstofa Grænlands í Washington sem opnaði árið 2021, eru dæmi um.

Það verður áhugavert að sjá hvort eða hvernig núverandi staða heimsmálanna birtist í kosningunum Grænlandi á þriðjudaginn í samhengi við áherslu á sjálfstæði sem flestir Grænlendingar vilja á einhverjum tímapunkti samkvæmt könnunum. Grænland hefur oft farið sínar eigin leiðir. Þeir gengu til að mynda úr Evrópubandalaginu, forvera Evrópusambandsins, og sögðu sig tímabundið frá loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna. Hvoru tveggja var gert til að tryggja Grænland gæti nýtt auðlindir sínar og byggt upp efnahagslegan styrk í átt að sjálfstæði sem hefur verið þeirra forgangsmál. Þeir eru dugmikil þjóð sem spennandi verður að fylgjast með velja sína leið.

Megi rödd Grænlands hljóma og samvinna aukast

Hver sem niðurstaða kosninganna verður er ljóst, miðað við þróun undanfarinna áratuga og umræður í aðdraganda kosninganna, að Grænland er á vegferð til sjálfstæðis. Ísland hefur bæði reynslu og getu til að styðja Grænlendinga á þessari leið með viðeigandi hætti. Við þekkjum áskoranirnar sem fylgja sjálfstæðisbaráttu smáríkja – en við þekkjum líka tækifærin sem felast í því að byggja upp sterkt og sjálfstætt samfélag og öfluga alþjóðlega samvinnu.

Það er bæði siðferðisleg og pólitísk skylda okkar að styðja Grænland og tryggja að rödd þeirra fái aukið vægi. Ísland og Grænland eiga sameiginlega framtíð á norðurslóðum, og það er undir okkur komið að styrkja það samstarf enn frekar.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, meðstofnandi Miðstöðvar norðurslóða (Arctic Initiative) við Harvard-háskóla og fulltrúi Íslands í Norðurlandaráði

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Deila grein

08/03/2025

Styrkleiki og sérstaða Íslands í utanríkismálum

Við lif­um á óvissu­tím­um þar sem ör­ygg­is­mál í Evr­ópu og víðar eru í brenni­depli. Stríðsátök og versn­andi sam­skipti stór­velda hafa sett alþjóðakerfið í upp­nám og gert það ljóst að smærri ríki, á borð við Ísland, þurfa að huga sér­stak­lega að lang­tíma­hags­mun­um sín­um í ut­an­rík­is­mál­um. Á slík­um tím­um er nauðsyn­legt að Ísland haldi skýrri stefnu í ör­ygg­is­mál­um og byggi á þeim varn­artengsl­um sem hafa reynst far­sæl.

Við höf­um sér­stöðu á meðal Evr­ópuþjóða, ekki síst vegna varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in, sem hef­ur tryggt ör­yggi okk­ar í ára­tugi. Við erum ekki í sömu stöðu og marg­ar aðrar þjóðir á meg­in­landi Evr­ópu sem standa and­spæn­is bein­um ógn­un­um vegna stríðsrekst­urs. Þess í stað eig­um við að leggja áherslu á að styrkja þau alþjóðlegu tengsl sem hafa reynst okk­ur best og viðhalda varn­ar­sam­starfi okk­ar á traust­um grunni.

Örygg­is- og varn­ar­sam­starf skipt­ir sköp­um

Ísland hef­ur ára­tuga­langa reynslu af varn­ar­sam­starfi við Banda­rík­in og Atlants­hafs­banda­lagið (NATO). Varn­ar­samn­ing­ur­inn og aðild­in að NATO hafa verið horn­stein­ar ís­lenskr­ar ut­an­rík­is­stefnu og tryggt um leið ör­yggi lands­ins án þess að við þyrft­um að byggja upp eig­in herafla. Staðsetn­ing lands­ins í norður­höf­um skipt­ir máli í alþjóðlegu ör­yggi og ger­ir Ísland að lyk­ilþætti í varn­ar­stefnu NATO.

Með aukn­um ör­ygg­is­áskor­un­um í Evr­ópu hef­ur NATO eflt viðveru sína á Íslandi. Þessi stefna hef­ur skilað sér í aukn­um varn­ar­viðbúnaði og þannig dregið úr hætt­um sem gætu skap­ast í norður­höf­um. Það er því lyk­il­atriði að halda áfram á þess­ari braut og styrkja varn­artengsl okk­ar við banda­lagið í heild sinni.

Mik­il­vægi öfl­ugra varn­artengsla

Ísland hef­ur í ára­tugi átt far­sælt sam­starf við banda­lagsþjóðir sín­ar, bæði inn­an NATO og á tví­hliða grunni. Sam­starf okk­ar við Norður­landa­rík­in, Bret­land og Kan­ada hef­ur styrkt varn­ar­stöðu lands­ins og er mik­il­vægt að halda því áfram. Norður­landa­rík­in hafa sýnt fram á mik­il­vægi svæðis­bund­inn­ar sam­vinnu í ör­ygg­is­mál­um og Ísland get­ur áfram verið hluti af slíkri stefnu án þess að tapa sjálf­stæði sínu í alþjóðamál­um.

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi veikja stöðu Íslands

Aðild að Evr­ópu­sam­band­inu myndi hafa víðtæk áhrif á ut­an­rík­is­stefnu okk­ar og skerða sveigj­an­leika lands­ins í mik­il­væg­um ör­ygg­is­mál­um. Evr­ópu­sam­bandið er póli­tískt tolla­banda­lag sem hef­ur vaxið langt út fyr­ir upp­haf­legt efna­hags­sam­starf og tek­ur nú af­drifa­rík­ar ákv­arðanir um ör­ygg­is- og varn­ar­mál aðild­ar­ríkj­anna.

Ef Ísland gengi í Evr­ópu­sam­bandið myndi það skerða mögu­leika okk­ar til sjálf­stæðrar ákv­arðana­töku í ör­ygg­is­mál­um og gæti dregið úr virkni varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in. Auk þess eru óljós áhrif og eng­in góð sem slík aðild hefði á önn­ur NATO-ríki sem treysta á sam­starf við Ísland í norður­höf­um.

Ekki sundra þjóðinni með ónauðsyn­leg­um deil­um

Á tím­um eins og þess­um er mik­il­vægt að ein­blína á lang­tíma­hags­muni Íslands og tryggja ör­yggi þjóðar­inn­ar með skyn­sam­legri stefnu í alþjóðamál­um. Það er ekki ráðlegt að opna á deil­ur um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu og færa þar með all­an fókus ut­an­rík­is­stefnu lands­ins yfir í það verk­efni.

Í stað þess að beina orku okk­ar í slík­ar deil­ur þurf­um við að styrkja varn­ar­sam­starfið, tryggja áfram­hald­andi efna­hags­leg­an stöðug­leika og vera leiðandi afl í alþjóðasam­starfi sem gagn­ast Íslandi sem sjálf­stæðu ríki. Þannig tryggj­um við stöðu okk­ar í sí­breyti­legu alþjóðakerfi án þess að fórna sjálf­stæði okk­ar í mik­il­væg­um mál­um. Við í Fram­sókn erum til í slíkt þver­póli­tískt sam­starf.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 8. mars 2025.

Categories
Fréttir

Þurfum skýr svör um framtíð hjúkrunarrýma

Deila grein

07/03/2025

Þurfum skýr svör um framtíð hjúkrunarrýma

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður, ítrekaði áhyggjur sínar af framtíð hjúkrunarrýma á Alþingi og krafði núverandi ríkisstjórn um skýr svör um hvort áframhaldandi uppbygging yrði tryggð.

Hún minnti á að fyrri ríkisstjórn hafi sett af stað framkvæmdaáætlun til ársins 2028 sem miðar að uppbyggingu hjúkrunarrýma um land allt. Ingibjörg sagði að ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur stæði frammi fyrir einfaldri spurningu: „Ætlar hún að fylgja þessari vinnu eftir?“

Samkvæmt áætlunum eiga um 250 ný hjúkrunarrými að opna á þessu ári. Ingibjörg nefndi sérstaklega að hjúkrunarrýmin á Boðaþingi og Nesvöllum ættu að opna í vor og að samningar um leigu hjúkrunarrýma í Urðarhvarfi væru þegar komnir á rekspöl. Hins vegar lagði hún áherslu á að „orð á blaði nægja ekki“ heldur þurfi skýran pólitískan stuðning og fjármagn.

Ingibjörg gagnrýndi einnig að enn væri ekki komin lausn á framtíð hjúkrunarrýma í Seljahlíð, sem fyrri ríkisstjórn bjargaði í fyrra þegar Reykjavíkurborg ætlaði að loka heimilinu. Hún ítrekaði að með flokk ráðherra í meirihluta í borginni ætti að vera auðvelt að tryggja framtíð hjúkrunarrýmanna án tafar.

Að lokum spurði Ingibjörg hvort núverandi ríkisstjórn ætlaði að fylgja áætlunum fyrri ríkisstjórnar eftir eða hvort ætlað væri að draga úr þeirri uppbyggingu sem þegar hafi verið skipulögð. „Hvernig ætla ný stjórnvöld að tryggja raunhæfa og tímanlega uppbyggingu hjúkrunarrýma svo við lendum ekki aftur í þeirri stöðu að framkvæmdaáætlanir dugi ekki til að mæta vaxandi þörf?“ spurði hún og kallaði eftir skýrum svörum og ákveðnum aðgerðum.

Categories
Fréttir

Sigurður Ingi kallar eftir tafarlausum aðgerðum í vegamálum

Deila grein

06/03/2025

Sigurður Ingi kallar eftir tafarlausum aðgerðum í vegamálum

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, gagnrýndi ástand vega í ræðu á Alþingi og hvatti núverandi ríkisstjórn til að auka fjárveitingar í vegaviðhald. Hann vísaði í eigin reynslu úr samgönguráðuneytinu og minnti á að svipuð staða hefði komið upp þegar hann gegndi embætti samgönguráðherra á árunum 2017–2021.

Sigurður Ingi sagði að ástand vega hefði versnað verulega víða um land, sérstaklega á Vesturlandi, þar sem vegir sem voru í góðu ástandi árið 2018 væru nú hrundir. Hann benti á að aukin umferð og veðuraðstæður hefðu haft mikil áhrif á burðarlag vega og kallaði eftir tafarlausum aðgerðum til að tryggja öryggi vegfarenda.

Hann rifjaði upp að í fyrri ríkisstjórn hefði verið gripið til aðgerða þegar sambærileg staða kom upp. Þá hafi hann aflað upplýsinga frá Vegagerðinni, farið í ríkisstjórnina og fengið samþykkt 4 milljarða króna úr varasjóði til viðgerða á vegum. Þó tók tvö ár að koma þeim fjármunum í framkvæmd, þar sem ekki sé alltaf nóg að auka fjármagn heldur þurfi að tryggja að verktakar og verkferlar séu til staðar. Hann nefndi að fjárfesting sú hafi skilað árangri, en nú væri staðan aftur orðin alvarleg og þyrfti að bregðast við án tafar.

Í ræðu sinni gagnrýndi Sigurður Ingi að núverandi samgönguráðherra hefði fyrst og fremst horft til fortíðar í umræðunni í stað þess að setja fram skýrar lausnir. Hann vísaði til þess að ráðherrann hefði lagt áherslu á að ástand vega væri arfleifð fyrri ríkisstjórna í stað þess að leggja fram skýra aðgerðaáætlun. Hann minnti á að viðhaldsfjárveitingar hefðu aukist verulega á síðustu árum, úr 5,5 milljörðum árið 2017 í 13-14 milljarða í dag, og að stefnt væri að frekari hækkunum í fjármálaáætlun. Hann lagði þó áherslu á að þrátt fyrir þessa aukningu væri ekki nægilegt fjármagn sett í vegaviðhald og að grípa þyrfti til frekari aðgerða.

Sigurður Ingi beindi loks spurningu til núverandi samgönguráðherra og ríkisstjórnarinnar: Í stað þess „að bölsótast út í fortíðina og segja að þetta væri allt ómögulegt“, heldur segja hvaða aðgerða hyggst ríkisstjórnin grípa til til að bæta ástand vega um landið? Hann kallaði eftir aukinni fjárfestingu og markvissari viðhaldsáætlun til að tryggja öruggari samgöngur fyrir landsmenn.

Categories
Fréttir Greinar

Ruglið um kyrrstöðuna

Deila grein

06/03/2025

Ruglið um kyrrstöðuna

Við veit­um því ekki eft­ir­tekt í dag­legu lífi en snún­ing­ur jarðar ger­ir það að verk­um að við erum í raun á ríf­lega 700 kíló­metra hraða á klukku­stund alla daga hér á Íslandi. Að sama skapi er sam­fé­lagið á fleygi­ferð þótt við tök­um ef til vill ekki alltaf eft­ir því. Það er áhuga­vert, á köfl­um átak­an­legt, að hlusta á mál­flutn­ing rík­is­stjórn­ar­flokk­anna þar sem þeim verður tíðrætt um að „rjúfa kyrr­stöðuna“. Fyr­ir skömmu fór þing­flokks­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar mik­inn í Viku­lok­un­um á Rás 1 og þingmaður Viðreisn­ar, María Rut Krist­ins­dótt­ir, skrifaði grein í sama anda í Morg­un­blaðinu 19. fe­brú­ar. Ragn­ar Þór Ing­ólfs­son, þingmaður Flokks fólks­ins, rit­ar grein í sama dúr hinn 25. fe­brú­ar. Yf­ir­lýs­ing­ar þeirra eru reist­ar á ótrú­legri staðreyndafirr­ingu – eða þá að staðreynd­irn­ar skipta þau hrein­lega engu máli.

Hús­næðismál: Öflug­asta upp­bygg­ing í ára­tugi

Á und­an­förn­um miss­er­um hef­ur gríðarleg­ur þungi verið lagður í upp­bygg­ingu hús­næðis. Sig­urður Ingi Jó­hanns­son og Fram­sókn hafa leitt marg­vís­leg mik­il­væg verk­efni sem bein­ast að því að tryggja jafn­vægi á hús­næðismarkaði og auka hús­næðis­ör­yggi lands­manna.

• Síðastliðin sjö ár hef­ur full­bún­um íbúðum á land­inu fjölgað um 25.000 og aldrei áður hafa jafn marg­ar íbúðir verið byggðar utan höfuðborg­ar­svæðis­ins.

• Tíma­móta­samn­ing­ur rík­is og sveit­ar­fé­laga var und­ir­ritaður árið 2022 um að byggja 35.000 íbúðir frá 2023 til 2032. Þar af eiga 30% að vera hag­kvæm fyr­ir tekju- og eignam­inni hópa og 5% fé­lags­legt hús­næði. Þetta mark­mið skal end­ur­skoða ár­lega og Reykja­vík reið á vaðið með sér­stak­an samn­ing um 16.000 nýj­ar íbúðir á tíu árum.

• Rík­is­stjórn­in hef­ur stór­aukið stofn­fram­lög og hlut­deild­ar­lán; um 4.300 íbúðir hafa verið fjár­magnaðar með þess­um hætti og stuðning­ur rík­is­ins við hús­næðismál hleyp­ur á tug­um millj­arða króna.

• Sér­stak­ur vaxt­astuðning­ur var greidd­ur út vegna hækk­andi vaxta, 5,5 millj­arðar króna sem náðu til tæp­lega 56 þúsund ein­stak­linga.

• Rétt­arstaða leigj­enda var styrkt með end­ur­skoðun á húsa­leigu­lög­um og sveit­ar­fé­lög fengu aukn­ar heim­ild­ir til að tryggja að bygg­ing­ar­fram­kvæmd­ir gengju eft­ir, meðal ann­ars með tíma­bundn­um upp­bygg­ing­ar­heim­ild­um.

Stór­sókn í sam­göngu­mál­um

Önnur full­yrðing sem oft heyr­ist frá tals­mönn­um „kyrr­stöðukórs­ins“ er að ekk­ert miði í sam­göng­um. Staðreynd­irn­ar segja annað:

• Fjár­fest­ing­ar í sam­göng­um hafa verið með mesta móti síðustu ár og veru­lega verið bætt í viðhald vega. Alþing­is bíður að fjalla um og staðfesta nýja sam­göngu­áætlun, en á þeirri sam­göngu­áætlun sem lögð var fyr­ir þingið síðastliðinn þing­vet­ur fyr­ir árin 2024-2038 eru 909 millj­arðar króna í beina fjár­fest­ingu á fimmtán árum, þar af 263 millj­arðar fyrstu fimm árin. Þar að auki bæt­ist við fjár­mögn­un í sam­starfs­verk­efn­um eins og Sunda­braut og Ölfusár­brú.

• Ein­breiðum brúm fækk­ar stöðugt og stefnt er að því að eng­in ein­breið brú verði eft­ir að loknu áætl­un­ar­tíma­bil­inu. Gríðarlegt átak í bundnu slit­lagi held­ur áfram, auk sam­göngu­verk­efna á borð við Reykja­nes­braut, Suður­lands­veg, Kjal­ar­nes, Foss­vogs­brú, fram­kvæmd­ir sem til­greind­ar eru í jarðganga­áætl­un og aðrar fram­kvæmd­ir víða um land. Fram­kvæmd­ir við Sunda­braut eru komn­ar á rek­spöl þannig að stefnt er að opn­un árið 2031.

• Vara­flug­vall­ar­gjald var leitt í lög til að byggja upp inn­an­lands­flug­velli og veru­leg upp­bygg­ing hef­ur átt sér stað meðal ann­ars á Ak­ur­eyr­arflug­velli.

Heil­brigðismál: Aldrei meiri fjár­fest­ing

Sjald­an hafa orðið jafn víðtæk­ar fram­far­ir í heil­brigðis­kerf­inu og á síðustu árum. Will­um Þór Þórs­son fv. heil­brigðisráðherra beitti sér af miklu afli fyr­ir fjöl­breytt­um aðgerðum til að bæta þjón­ustu og lækka greiðsluþátt­töku sjúk­linga:

• Lang­tíma­samn­ing­ar við sjúkraþjálf­ara, sér­greina­lækna og tann­lækna sem tekn­ir voru upp eft­ir fjög­urra ára samn­ings­leysi.

• Stór­auk­in end­ur­hæf­ing­ar­rými, upp­bygg­ing á bráðamót­tök­um og heilsu­gæslu­stöðvum um allt land; m.a. í Reykja­nes­bæ og á Ak­ur­eyri.

• Marg­ir biðlist­ar hafa styst með samn­ing­um til að mynda um kaup á liðskiptaaðgerðum og aðgerðum vegna en­dómetríósu.

• Fjar­skipta­lækn­ir og upp­bygg­ing tækni­búnaðar við bráðaþjón­ustu um land allt, til að jafna aðgengi og bæta ör­yggi.

• Mikl­ar fram­kvæmd­ir standa yfir vegna Nýja Land­spít­al­ans (stærsta op­in­bera fram­kvæmd Íslands­sög­unn­ar) upp á sam­tals 210 millj­arða, auk þess sem ráðist hef­ur verið í und­ir­bún­ing að áfanga 2 og nýju geðsjúkra­húsi. Svo mætti lengi áfram telja.

Kyrrstaðan í efna­hags­mál­um?

Ein furðuleg­asta goðsögn­in er að ís­lensk efna­hags­mál séu í kyrr­stöðu. Þvert á móti hef­ur hag­vöxt­ur verið kröft­ug­ur og at­vinnu­leysi með því minnsta sem þekk­ist í Evr­ópu.

Ísland hef­ur staðið af sér mikl­ar áskor­an­ir, frá falli WOW til heims­far­ald­urs covid-19 og jarðhrær­inga á Reykja­nesi. Þrátt fyr­ir það hef­ur hag­kerfið sýnt ótrú­lega þraut­seigju, þar sem hag­vöxt­ur hef­ur hald­ist sterk­ur og at­vinnu­leysi verið minna en í ESB und­an­far­inn ára­tug. Raun­ar hef­ur helsta áskor­un Seðlabank­ans verið að halda aft­ur af þess­um mikla krafti m.a. með hækk­un vaxta.

Kyrrstaðan um ESB

Eina raun­veru­lega kyrrstaðan sem þessi rík­is­stjórn gæti rofið er kyrrstaðan um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu. Sá leiðang­ur var geng­inn til þraut­ar síðast þegar Sam­fylk­ing­in sat í for­sæt­is­ráðuneyt­inu og að lok­um var viðræðum slitið. Í ljós hafði komið, sem marg­ir höfðu raun­ar bent á löngu áður, að hags­mun­um Íslands væri bet­ur borgið utan sam­bands­ins. Leiðang­ur­inn var kostnaðarsam­ur og tíma­frek­ur, skipti ís­lenskri þjóð upp í fylk­ing­ar og niðurstaðan fyr­ir­sjá­an­leg. Nú á að gera sömu mis­tök­in aft­ur.

Það eina sem hef­ur breyst er að ný­út­gefn­ar skýrsl­ur staðfesta að Evr­ópa stend­ur frammi fyr­ir veru­leg­um áskor­un­um, at­vinnu­leysi er óviðun­andi, hag­vöxt­ur slak­ur og skort­ur á sam­keppn­is­hæfni veru­legt áhyggju­efni. Á sama tíma hef­ur ís­lenskt efna­hags­líf ein­kennst af mikl­um þrótti síðustu ár og ein helsta áskor­un­in fal­ist í því að halda aft­ur af spennu og af­leiddri verðbólgu.

Þegar allt kem­ur til alls

Er allt full­komið? Nei. Auðvitað ekki. Áskor­an­ir við stjórn­un og framþróun sam­fé­lags­ins munu alltaf fyr­ir­finn­ast og verk­efni nýrr­ar rík­is­stjórn­ar verður án efa krefj­andi þótt hún taki sann­ar­lega við góðu búi fyrri rík­is­stjórn­ar. Upp munu koma áskor­an­ir sem ekki eru á sjón­deild­ar­hringn­um þegar þetta er skrifað og öll get­um við sam­ein­ast í því að óska þeim sem fara með valdið velfarnaðar.

Allt tal um að rjúfa kyrr­stöðu er inn­an­tómt þegar horft er til staðreynda. Það má kannski gefa tals­mönn­um Sam­fylk­ing­ar og Viðreisn­ar prik fyr­ir snjalla póli­tík, því það er sann­ar­lega auðvelt að „rjúfa kyrr­stöðu“ sem á sér enga stoð í raun­veru­leik­an­um. Áróður þeirra skilaði nokkr­um ár­angri í síðustu kosn­ing­um, en nú væri vert að þau nálguðust verk­efni sín af virðingu og ábyrgð og hættu þess­um fyr­ir­slætti.

Svo má kannski svona á létt­um nót­um í rest­ina, úr því þingmaður Viðreisn­ar er áhuga­sam­ur um að skíra börn sem nálg­ast ferm­ingu með vís­an í skrif henn­ar um fyrri rík­is­stjórn, gefa nýrri rík­is­stjórn nafn við hæfi. Nafnið „end­ur­vinnslu­stjórn­in“ færi þeim vel, enda er lítið að frétta af þeim bæn­um annað en fram­lagn­ing frum­varpa fyrri rík­is­stjórn­ar.

Helgi Héðinsson, fram­kvæmda­stjóri Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hugum að sameiginlegum gildum

Deila grein

06/03/2025

Hugum að sameiginlegum gildum

Alþjóðamál hafa ekki verið jafn þýðing­ar­mik­il í ára­tugi. Það er brýnt að tryggja hags­muni Íslands með skyn­sam­legri og mark­vissri stefnu. Í sí­breyti­legu alþjóðlegu um­hverfi, þar sem efna­hags­leg, póli­tísk og ör­yggis­tengd mál þró­ast hratt, skipt­ir sköp­um að ís­lensk stjórn­völd og fyr­ir­tæki séu vel und­ir­bú­in til að tak­ast á við nýj­ar áskor­an­ir. Staða Íslands á alþjóðavett­vangi er sterk vegna þess að stjórn­völd frá lýðveld­is­stofn­un hafa valið far­sæla veg­ferð. Til að mynda var Ísland stofnaðili að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum, Alþjóðabank­an­um, Atlants­hafs­banda­lag­inu og Norður­landaráði. Seinna meir var ákveðið að ger­ast stofnaðili að Efna­hags- og fram­fara­stof­un­inni og Evr­ópska efna­hags­svæðinu. Þátt­taka Íslands hef­ur reynst vera giftu­rík og það er afar mik­il­vægt fyr­ir lítið opið hag­kerfi að vera virk­ur þátt­tak­andi á alþjóðavett­vangi. Það rík­ir í dag nokkuð góð sátt um þátt­töku í of­an­greind­um alþjóðastofn­un­um. Mest­ur styr stóð um aðild Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu og seinna meir svo gerð tví­hliða varn­ar­samn­ings­ins við Banda­rík­in árið 1951. Þegar ákv­arðanir voru tekn­ar á sín­um tíma, þá vildu stjórn­völd vera í banda­lagi með lýðræðisþjóðum og þeim sem deildu sams­kon­ar heims­sýn. Þessi saga þjóðar­inn­ar á upp­hafs­ár­um lýðveld­is­ins eld­ist vel.

Ýmsir meta stöðuna í heims­mál­um á þann veg að brýnt sé að flýta skoðun á kost­um og göll­um þess að Ísland ger­ist aðili að Evr­ópu­sam­band­inu og að þjóðar­at­kvæðagreiðsla um fram­hald viðræðna fari fram sem allra fyrst. Þetta séu hrein­lega þjóðar­hags­mun­ir! Mér finnst afar brýnt að öll stærri hags­muna­mál Íslands fari í þjóðar­at­kvæðagreiðslu. Var­ast skal þó að flýta þessu máli, áður en heild­ar­hags­muna­mat hef­ur verið gert. Skömmu eft­ir efna­hags­hrunið ákvað rík­is­stjórn Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur að sækja um aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, þegar Ísland og öll þjóðin var í mikl­um sár­um. Ekki var hugað að því, því nota átti ferðina til að koma land­inu í Evr­ópu­sam­bandið. Öll sú veg­ferð var mis­lukkuð, þar sem þjóðin var ekki spurð og ekki ríkti ein­ing um málið í rík­is­stjórn­inni. Allt eitt bjölluat. Ég vara ein­dregið við því að hefja nýja ESB-veg­ferð, þegar mik­il óvissa rík­ir í alþjóðastjórn­mál­um. Íslandi hef­ur farn­ast vel að velja trausta banda­menn og ég hef fulla trú á því að svo verði áfram, ef við höf­um þjóðar­hags­muni að leiðarljósi. Evr­ópu­sam­bandið er ekki varn­ar­banda­lag og hef­ur ekki sam­eig­in­leg­an her. Fram­kvæmda­stjóri banda­lags­ins hef­ur vissu­lega til­kynnt um stór­auk­in fram­lög til ör­ygg­is- og varn­ar­mála vegna þeirr­ar stöðu sem uppi er í Evr­ópu. Hins veg­ar rík­ir enn mik­il óvissa og við verðum að sjá hvernig mál­in þró­ast. Að þessu sögðu er afar mik­il­vægt að móta þver­póli­tíska ör­ygg­is- og varn­ar­stefnu. Þeirri vinnu ber að flýta og einnig meta hin þjóðhags­legu áhrif af breyttri stöðu. „Veg þú aldrei meir í hinn sama knérunn en um sinn, og rjúf aldrei sætt þá er góðir menn gera meðal þín og annarra og þó síst á því máli.“ Þetta voru ráð Njáls til Gunn­ars á Hlíðar­enda um mik­il­vægi þess að rjúfa ekki traust og trúnað við ætt Ot­kels. Auðvitað eru breytt­ir tím­ar í dag á Íslandi en það sem er sam­eig­in­legt er að það ber ekki að efna til ófriðar um Evr­ópu­mál­in á þess­um óvissu­tím­um. Mik­il­væg­ast fyr­ir stjórn­mál líðandi stund­ar er að for­gangsraða rétt í þágu þjóðar­inn­ar og að breið sátt ná­ist um þá stefnu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2025.