Categories
Fréttir Greinar

Á hvaða veg­ferð er heil­brigðis­ráð­herra?

Deila grein

15/10/2025

Á hvaða veg­ferð er heil­brigðis­ráð­herra?

Heilbrigðismál hafa verið til umræðu í samfélaginu enda málaflokkur sem skiptir miklu máli. Nú þegar nýr heilbrigðisráðherra hefur fengið eitt ár til að hrinda sínum stefnumálum í framkvæmd er vert að spyrja sig – hvað hefur eiginlega verið gert í heilbrigðismálum?

Samráð og stjórnsýsluhættir – traust byggist á gegnsæi

Eitt það sem Alma D. Möller fékk á sig gagnrýni fyrir voru ákvarðanir og yfirlýsingar sem tengjast sérgreinalæknisþjónustu á Akureyri. Þar var bent á að ráðherra hefði ekki átt samráð við forstjóra sjúkrahússins eða þá sem þjónustan snerti beint áður en breytingar voru ræddar. Hún viðurkenndi síðar að hún hefði ekki haft slíkt samráð og ákvað jafnframt að segja sig frá málinu vegna skyldleikatengsla við einn þeirra sem þar starfa.

Það er vissulega jákvætt þegar ráðherra tekur afstöðu og axlar ábyrgð með því að víkja vegna vanhæfis. En hitt er jafnframt ljóst: ákvarðanir sem varða jafn viðkvæma þjónustu ættu alltaf að byggjast á víðtæku samráði og faglegri greiningu áður en tillögur eru kynntar. Þar hefur gagnrýnin stoð – því heilbrigðiskerfið þarf ekki einhliða ákvarðanir, heldur traust, samráð og gagnsæ ferli.

Þjónusta á landsbyggðinni – jöfnuður í orði og verki

Annað sem hefur vakið hörð viðbrögð er möguleg skerðing þjónustu á landsbyggðinni, einkum á Akureyri þar sem sérgreinalæknar veita þjónustu sem nær langt út fyrir sitt svæði. Þingmenn og heilbrigðisstarfsfólk hafa varað við að ef verktakasamningar lækna verði endurskoðaðir án lausna, muni þjónustan dragast saman og sjúklingar þurfa að ferðast suður eftir fyrir þjónustu sem áður var aðgengileg heima fyrir.

Þessi gagnrýni er bæði réttmæt og mikilvæg. Jöfn dreifing heilbrigðisþjónustu er hornsteinn íslenska velferðarkerfisins. Þegar ráðherra boðar breytingar sem hugsanlega veikja þjónustu úti á landi, þarf jafnframt að liggja fyrir áætlun um hvernig jafnræði og aðgengi verða tryggð. Án þess er hætt við að byggðastefna og heilbrigðisstefna rekist á.

POTS-málið – illa ígrunduð stefna ráðherra

Eitt af þeim málum sem hafa vakið sterkustu viðbrögðin er POTS-málið.

Ráðherra hefur verið gagnrýnd fyrir ákvörðun um að hætta greiðsluþátttöku fyrir vökvagjöf, sem margir einstaklingar með POTS treysta á til að lifa við ásættanleg lífsgæði.

Samtök um POTS á Íslandi hafa krafist þess að ráðherra dragi ummæli sín til baka og viðurkenni að um sé að ræða raunverulega læknisfræðilega meðferð – ekki ímyndaðan vanda.

Þótt ráðuneytið hafi skipað vinnuhóp til að skoða þjónustu við einstaklinga með POTS, ME og langvinnt COVID, hafa sjúklingar bent á að skaðinn sé þegar skeður. Fólk hafi misst aðgengi að meðferð, tapað starfsgetu og trausti á heilbrigðiskerfinu.

Það er ekki gott þegar ráðherra dregur í efa meðferðir sem einstaklingar segja bjarga lífi sínu.

Framkvæmd og eftirfylgni – stefna þarf að verða að verki

Ítrekuð gagnrýni hefur líka beinst að því að heilbrigðisstefnur séu kynntar án skýrra framkvæmdaráætlana og eftirlits. Dæmi má nefna nýja aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi. Þótt slík stefna sé mikilvæg, spyrja margir: hvernig verður árangur mældur? Hver ber ábyrgð? Hvenær verður endurskoðun?

Þetta eru ekki smáatriði – þau eru kjarni góðrar stjórnsýslu. Það er auðvelt að kynna áætlanir; erfiðara að fylgja þeim eftir. Hér væri tækifæri fyrir ráðherra að gera betur.

Janus endurhæfing – afleikur ráðherra

Ein stærsta gagnrýnin sem beindist að ráðherra snýr að ákvörðun um að endurnýja ekki samning við Janus endurhæfingu.

Notendur og starfsfólk benda á að úrræðið býður einstaklingum með fjölþættan vanda einmitt þann stuðning sem eigi engan annan stað — geðlæknisaðstoð, tengiliði og þræðir sem hjálpa til við að komast aftur út í samfellda virkni.

Ráðherra hefur í raun ekki ennþá svarað hvernig hún ætli að tryggja þessum hópi þá þjónustu sem hann nauðsynlega þarf á að halda. Það liggur í augum uppi að ráðherra er með þessu að lengja biðlista og það sem verra er – fækka úrræðum.

Þessi gagnrýni er réttmæt og mikilvægt er að leggja spurningu að ráðherra: hvernig verður tryggt að ekki verði þjónusturof, sérstaklega fyrir viðkvæma hópa sem treysta á slík úrræði?

Lokaorð

Það er nauðsynlegt að veita ráðherrum aðhald vegna þess að ábyrgð þeirra er mikil. Hér hefur verið velt vöngum yfir ýmsum málum en þegar öllu er á botninn hvolft verðum við að geta spurt okkur; er þessi vegferð í heilbrigðismálum ásættanleg?

Kjartan Helgi Ólafsson, ritari Sambands ungra Framsóknarmanna og stjórnarmaður Ung Framsókn Kraginn.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Hafnar­fjörður er leiðandi í jafn­réttis­málum

Deila grein

15/10/2025

Hafnar­fjörður er leiðandi í jafn­réttis­málum

Hafnarfjörður hefur lengi verið í fararbroddi þegar kemur að jafnréttismálum. Frá árinu 2017 hefur Hafnarfjörður verið með jafnlaunavottun og vorum við fyrsta sveitarfélagið á Íslandi til að hljóta slíka viðurkenningu. Markmið okkar með innleiðingu á formlegu jafnlaunakerfi er skýrt en það er að tryggja að sömu laun séu greidd fyrir sömu eða jafn verðmæt störf, óháð kyni.

Síðasta jafnlaunaúttekt, í maí 2025, staðfesti að launamunur kynjanna er aðeins 1,1% konum í vil. Með því að fylgja eftir árangrinum með gagnsæjum mælingum og stöðugu samtali höfum við náð að viðhalda traustu og sanngjörnu vinnuumhverfi þar sem allir eru metnir að verðleikum.

Öflug og skýr jafnréttisáætlun

Jafnréttisáætlun Hafnarfjarðar 2023–2027 er eitt mikilvægasta verkfærið okkar í þessari vinnu. Hún tryggir að kynja- og jafnréttissjónarmið séu samþætt í allri starfsemi bæjarins hvort sem um er að ræða stjórnsýslu, þjónustu, ráðningar eða daglegt starf.

Áætlunin byggir á því að jafnrétti sé ekki aukaatriði heldur hluti af menningu, verklagi og stefnumótun bæjarins. Hún fjallar meðal annars um launajafnrétti, jöfn tækifæri til starfsþróunar, sveigjanleika í starfi, aðgerðir gegn einelti og áreitni og stuðning við fólk með ólíkan bakgrunn.

Viðurkenning sem skiptir máli

Við erum ákaflega stolt af því að Hafnarfjörður fékk nýverið Jafnvægisvogina í fjórða sinn. Viðurkenningin er veitt þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hafa náð jafnvægi í stjórnunarhlutföllum og sýna í verki að jafnrétti er hluti af daglegum rekstri og menningu.

Að hljóta þessa viðurkenningu er staðfesting á því faglega og öfluga starfi sem unnið hefur verið í þessum málaflokki síðustu ár. Hafnarfjörður er bær þar sem jafnræði og traust eru ekki orðin tóm heldur raunveruleg gildi sem við vinnum eftir dag frá degi.

Jafnrétti bætir samfélagið allt

Jafnrétti er fjárfesting í betra samfélagi. Þegar fólk fær jöfn tækifæri þá blómstrar nýsköpun, samstarf og samkennd. Við sjáum það á vinnustöðum bæjarins, í skólum, í þjónustu við íbúa og í stjórnsýslu.

Þegar við tryggjum að rödd allra heyrist þá styrkjum við ekki bara einstaklingana heldur allt samfélagið.

Það er þessi hugsun sem liggur að baki jafnréttisvinnu Hafnarfjarðar. Við ætlum að byggja bæ þar sem allir geti notið sín.

Við í Hafnarfirði trúum því að jafnrétti gerist ekki af sjálfu sér, það er meðvituð ákvörðun sem krefst ábyrgðar og samstöðu. Við öll sem störfum hjá Hafnarfjarðarbæ höfum lagt okkar að mörkum. Með þannig samstöðu sjáum við árangur, árangur sem við getum verið stolt af.

Valdimar Víðisson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 15. október 2025.

Categories
Fréttir

Eldri borgarar fái greitt fyrir íslenskustuðning án skerðingar bóta

Deila grein

15/10/2025

Eldri borgarar fái greitt fyrir íslenskustuðning án skerðingar bóta

Halla Hrund Logadóttir, alþingismaður, kynnti þingsályktunartillögu, í störfum þingsins, þess efnis að eldri borgurum verði gert kleift að taka þátt í og fá greitt fyrir íslenskustuðning í leik- og grunnskólum sem og á vinnustöðum, án þess að greiðslur hafi áhrif á bætur eða réttindi í almannatryggingakerfinu.

Tillagan felur fjármála- og efnahagsráðherra að móta útfærslu á verkefninu. Lagt er upp með að eldri borgarar séu ekki ráðnir sem staðgenglar í kennslu heldur styðji fólk sérstaklega við að æfa íslensku í daglegum aðstæðum.

„Þetta snýst um að hjálpa fólki að æfa sig í íslensku. Ef fólk talar ekki sama tungumálið er aukin hætta á árekstrum,“ sagði Halla Hrund. Hún vísaði til reynslu nágrannalanda og sagði nauðsynlegt að bregðast við strax til að efla sameiginlegt mál og samfélag.

Halla Hrund lagði áherslu á að eldri borgarar gætu gegnt lykilhlutverki í verkefninu: „Eldri borgarar eru vitringar samfélagsins. Þar er viskan og þekkingin á menningu og sögu okkar,“ sagði hún og taldi að þátttaka þeirra gæti eflt tengsl milli kynslóða og auðveldað nýjum Íslendingum að fóta sig í samfélaginu.

Halla Hrund sagði hlutfall íbúa af erlendum uppruna hafi hækkað úr 7,5% árið 2012 í um 20% í dag, og að í sumum byggðarlögum gæti hlutfallið verið nær eða yfir helmingshlutfalli. „Þörfin er gríðarleg,“ og hvatti hún þingheim til að styðja tillöguna.

„Ég vona að þingheimur styðji þessa tillögu og óska eftir stuðningi við hana,“ sagði Halla Hrund að lokum.

Categories
Fréttir

„Er það stefna ríkisstjórnarinnar að færa öll verkefni til ríkisins?“

Deila grein

14/10/2025

„Er það stefna ríkisstjórnarinnar að færa öll verkefni til ríkisins?“

Sigurður Ingi Jóhannsson, alþingismaður og formaður Framsóknar, beindi í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi fyrirspurn til forsætisráðherra um stefnu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum og spurði hvort markmiðið væri að draga verkefni frá hinu blandaða kerfi til ríkisins.

Sigurður Ingi rifjaði upp að Framsókn styddi að nýta alla krafta heilbrigðiskerfisins, bæði opinbera og einkarekna, og vísaði til verka Willums Þórs Þórssonar, fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Hann sagði að Samfylkingin hefði fyrir kosningar tekið upp meginlínur þeirrar nálgunar í sinni stefnu.

Að hans mati hefur framkvæmd núverandi ríkisstjórnar hins vegar farið í gagnstæða átt. Hann nefndi sérstaklega:

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að hækka lyfjakostnað venjulegs fólks um 450 milljónir undir því yfirskini að vera að fjölga þrepum. Við munum öll eftir Janusi, NEET-hópnum sem ríkisstjórnin og heilbrigðisráðherra lagði niður án þess að það væru önnur úrræði til staðar fyrir þann viðkvæma hóp. Við höfum séð frumvarp í samráðsgátt frá heilbrigðisráðherra sem hefur ekki vakið hrifningu Læknafélags Reykjavíkur, Félags sjúkraþjálfara, Tannlæknafélagsins, sálfræðinga, ljósmæðra og talmeinafræðinga, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Og við höfum séð í fjárlögum að Ljósið, sem tekur á móti 1.600 manns og hefur vaxið og verið gríðarlega mikilvægur þáttur í endurhæfingu þeirra sem hafa farið í gegnum krabbameinsmeðferð, byggt upp m.a. starfsemi úti á landi, verður nú fyrir niðurskurði upp á 40%, 200 milljónir, í fjárlögum þessarar ríkisstjórnar.“

„Er það stefna ríkisstjórnarinnar að færa öll verkefni frá hinum almenna markaði þar sem eru einkareknar stöðvar eða félagsstöðvar þar sem starfa sjálfboðaliðar til ríkisins og skera niður hina? Er það stefna ríkisstjórnarinnar?“ spurði Sigurður Ingi.

Hann sagði að umrædd verkefni væru „ekki beint hjá ríkinu heldur í hinu blandaða kerfi“ og að fyrirhugaðar breytingar gætu grafið undan þjónustu sem rekin væri af sjálfseignarstofnunum, félagasamtökum og einkaaðilum í nánu samstarfi við hið opinbera.

Categories
Fréttir

„Þetta er ekki merki um öfluga verkstjórn“

Deila grein

14/10/2025

„Þetta er ekki merki um öfluga verkstjórn“

Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, gagnrýnir þunna dagskrá þingsins og frestanir á lykilfrumvörpum: „Þetta er ekki merki um öfluga verkstjórn.“

Ingibjörg kallaði eftir skýrum svörum um stöðu stjórnarmála á Alþingi og sagði verkstjórn ríkisstjórnarinnar ekki skila sér inn í þingið. Benti hún á að dagskrá þingfunda undanfarna daga og vikur hefði verið „ansi þunn“ og að sérstakar umræður og þingmannamál væru notuð til að fylla upp í dagskrá.

Eru stjórnarmálin öll föst inni í stjórnarflokkunum?

„Það er orðið ansi áberandi að verkstjórnin, ríkisstjórnin, er ekki að ná að koma stjórnarmálum til þingsins,“ sagði Ingibjörg. „Síðasta vika var skýrt dæmi um það. Þar er verið að fylla upp í dagskrá þingfunda með sérstökum umræðum og þingmannamálum. Það er alveg augljóst að þetta er ekki merki um öfluga verkstjórn.“

Áhyggjur af áhrifum á menntakerfið

Ingibjörg sagði seinaganginn hafa sýnileg áhrif á menntakerfið. „Það er verið að fresta máli sem tengist fríum námsgögnum, máli sem þegar var tilbúið í hv. allsherjar- og menntamálanefnd síðastliðið vor,“ sagði hún og bætti við að frumvarp um skólaþjónustu kæmi ekki inn á þing fyrr en eftir ár.

„Það má kannski spyrja hvort stórátakinu í menntamálum hafi hreinlega verið slegið á frest,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að ekki mætti draga mikilvæg þjóðþrifamál á langinn.

Hvetur ríkisstjórn til „góðra verka“

Ingibjörg hvatti ríkisstjórnina til að leysa tafir og koma fleiri málum á dagskrá. „Ég vil hvetja hæstv. ríkisstjórn til góðra verka og bind vonir við að hlutirnir leysist hjá þeim svo við förum að sjá fleiri stjórnarmál hér á dagskrá þingfunda.“

Categories
Fréttir Greinar

Fram­tíð Fram­sóknar byrjar í gras­rótinni

Deila grein

14/10/2025

Fram­tíð Fram­sóknar byrjar í gras­rótinni

Kæru lesendur og annað gott Framsóknarfólk

Grasrótin er hjartað í Framsókn

Framsóknarflokkurinn var stofnaður árið 1916 og er uppruni flokksins er einstakur þar sem hann varð til úr grasrótinni. Hann spratt upp úr kaupfélögunum, úr bændastéttinni, úr sveitarfélögunum, úr lífi og starfi venjulegs fólks sem vildi byggja réttlátara samfélag og sá það gat gert meira saman en í sitthvoru lagi. Hreyfingin varð að veruleika vegna þess að fólk lagði saman krafta sína saman, ekki fyrir sjálft sig, heldur fyrir heildina. Þessi hugsjón lifir enn í dag. Hún er ekki minning um liðna tíma; hún er grunnurinn að framtíðinni.

Framsóknarflokkurinn hefur lifað af tímana vegna þess að hann hefur alltaf treyst á kraft fólksins. Það er þessi trú á manneskjuna, á skynsama manneskjulega nálgun, sem hefur haldið okkur á floti og gert okkur að þeim flokki sem við erum.

Lausnin liggur í grasrótinni

Við getum talað um stefnu, samstarf, stjórnarsáttmála og stjórnmálalega stöðu, en ekkert af þessu skiptir máli nema flokkurinn hafi lifandi, virka og stolta grasrót. Við verðum að leggja áherslu á starfið innanfrá með því að hlusta á félagana, virkja nýtt fólk, og skapa vettvang þar sem hugmyndir spretta fram, þroskast og verða að aðgerðum því þegar grasrótin er sterk, er Framsókn sterk.

Við þurfum að styrkja tengslin milli forystunnar og aðildarfélaganna, tryggja að upplýsingaflæði sé lifandi og gagnkvæmt, og skapa virka farvegi fyrir félaga til að hafa áhrif á stefnumótun og ákvarðanir. Slíkum markmiðum náum við með markvissum aðgerðum á borð við reglulegum fundum, opnu samtali og skipulögðu reglulegu starfi um allt land.

Að láta meira að okkur kveða í íslenskum stjórnmálum

Framsókn hefur alla burði til að vera sterkara afl í íslenskum stjórnmálum en nokkru sinni fyrr. Við höfum sýnt árangur í verkum í húsnæðismálum, innviðauppbyggingu, menntamálum og efnahagsmálum en það er ekki nóg að vinna vel, við verðum líka að segja frá því. Við verðum að minna fólk á hvers vegna Framsókn skiptir máli. Við erum flokkur jafnvægis, ábyrgðar, samvinnu og í dag þegar samfélagið virðist oft klofið og samtalið hart, er þörfin fyrir miðju og manneskjulega rödd meiri en nokkru sinni.

Hlutverk ritara er að vera brú milli forystu og fólks

Ritari Framsóknar þarf að vera brú milli forystu og félaga og ef mér verður treyst fyrir því hlutverki mun ég vinna að því að styrkja innra starf flokksins með skipulagi og samvinnu, efla þátttöku nýrra félaga með hvatningu og fræðslu.

Ég býð mig fram til ritara Framsóknarflokksins vegna þess að ég trúi á þetta starf okkar, á samvinnu, á félagshyggjuna og á þann kraft sem býr í félögum um land allt. Ég trúi því af heilum hug að framtíð Framsóknar liggi ekki í því að elta strauma, heldur að styrkja rótina. Að lausnin á næstu áratugum hvort sem er í stjórnmálum, samfélagsumræðu eða innra starfi felst í því að efla grasrótina, tengja fólk og byggja traust innan frá.

Þegar við gerum það, verður Framsókn aftur sú kraftmikla hreyfing sem færir fólki von, traust og framtíðarsýn. Því Framsókn er ekki aðeins flokkur hún er hreyfing fólks og framtíðin okkar byrjar í grasrótinni.

Jónína Brynjólfsdóttir, oddviti í Múlaþingi, varaþingmaður í Norðausturkjördæmi og frambjóðandi í embætti ritara Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Lausnir í stað loforða

Deila grein

14/10/2025

Lausnir í stað loforða

Sigmar Guðmundsson þingflokksformaður Viðreisnar ritar undarlega grein sem birtist í Morgunblaðinu 13. október síðastliðinn. Þar gagnrýnir hann tillögu Framsóknar um að Alþingi feli fjármála- og efnahagsráðherra að vinna að aðgerðaáætlun sem miði að því að óverðtryggð fasteignalán á föstum vöxtum til langs tíma standi einstaklingum til boða. Það er á mörkunum að grein Sigmars, sem virðist ekki mjög vandlega ígrunduð, sé svaraverð en þar er sleginn kunnuglegur tónn. Enda hafa þingmenn Viðreisnar og raunar fjármálaráðherra fremstur í flokki keppst við að misskilja inntak tillögunnar og markmið. Það er einkennileg pólitík Viðreisnar að vilja ekki ræða lausnir til að leysa vanda íslenskra heimila í því skjóli að það henti ekki pólitískri draumsýn, sem í núverandi ástandi ESB er svo gersamlega úr sér gengin að það er pínlegt á að horfa.

Vandinn

Íslensk heimili hafa of lengi búið við sveiflukenndan lánamarkað. Þegar stýrivextir hækka víkja óverðtryggð lán og verðtryggingin tekur yfir. Í dag eru um 2/3 nýrra íbúðalána verðtryggðir, sem þýðir að skuldir heimila með slík lán hækka í takt við verðbólgu.

Þetta er ekki sjálfbært kerfi og heldur ekki sanngjarnt gagnvart fólki sem vill einfaldlega öruggt og fyrirsjáanlegt húsnæðislán. Þessi veruleiki gerir enn fremur peningastefnu Seðlabankans bitlausa og tefur fyrir lækkun verðbólgu.

Í flestum löndum geta heimili valið löng fasteignalán á föstum vöxtum, og vita fyrir fram hvað þau greiða næstu 20-30 árin. Hér á landi er slíkur kostur ekki fyrir hendi – ekki vegna krónunnar, heldur vegna úrelts regluverks og ónógrar þróunar fjármálamarkaðarins.

Tillaga Framsóknar í hnotskurn

Tillaga Framsóknar gengur út á að skapa skilyrði fyrir óverðtryggð lán á föstum vöxtum til langs tíma – svipuð og þekkjast víða á Norðurlöndum. Nýleg skýrsla dr. Jóns Helga Egilssonar, sem kynnt var í janúar, sýnir að þetta er fýsilegur og framkvæmanlegur kostur, ef stjórnvöld og markaðsaðilar vinna saman að breytingum.

Helstu lykilatriði eru þessi:

Endurskoða þarf reglur um uppgreiðslugjöld. Núverandi reglur letja bankana frá því að bjóða löng föst lán. Með einfaldri breytingu þar má auka fjölbreytni og samkeppni án þess að ríkið taki á sig áhættu.

Þróa markað fyrir vaxtaskiptasamninga. Með slíkum samningum geta bankar tryggt sér fasta fjármögnun til langs tíma – eins og gert er annars staðar á Norðurlöndum – og þannig boðið neytendum stöðugri vexti.

Nýta styrk lífeyrissjóðanna. Lífeyrissjóðir geta fjárfest í sértryggðum skuldabréfum sem tengjast húsnæðislánum. Það lækkar fjármögnunarkostnað bankanna og skilar lægra vaxtastigi til heimilanna.

Heimatilbúinn vandi – og lausnir fyrir hendi

Þeir sem telja að krónan sé rót alls ills gleyma því að jafnvel innan evrusvæðisins eru vaxtakjör á húsnæðislánum mjög mismunandi milli landa. Þýskaland og Portúgal deila sama gjaldmiðli – en hafa gjörólík vaxtakjör. Það sýnir að gjaldmiðillinn einn ræður ekki úrslitum; regluverk, traust og hagstjórn skipta meira máli.

Við þurfum ekki að afsala okkur stjórn peningamála til að auka stöðugleika. Við þurfum einfaldlega að laga og bæta okkar eigið kerfi. Með markvissum lagabreytingum og aukinni samvinnu við lífeyrissjóði og fjármálageirann getum við byggt upp stöðugt, sanngjarnt og sjálfbært lánakerfi – í íslenskum krónum.

Lausnir í stað loforða

Við í Framsókn trúum á raunhæf skref sem bæta stöðu íslenskra heimila – núna, ekki eftir áratug í bið eftir aðildarviðræðum við ESB.

Evran leysir ekki sjálfkrafa húsnæðisvanda íslenskra fjölskyldna. Hún myndi taka frá okkur stjórn á vöxtum og gengisstefnu, án þess að tryggja betri kjör. Raunhæfar umbætur á innlendum fjármálamarkaði gera það hins vegar.

Við höfum öll tækin til að tryggja stöðugri greiðslubyrði, minnka vægi verðtryggingar og bjóða upp á lægri vexti fyrir íslensk heimili. Það krefst pólitísks vilja sem því miður ríkir ekki hjá núverandi ríkisstjórn.

Helgi Héðinsson, framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Deila grein

14/10/2025

Óvissa ríkir í heimshagkerfinu

Heimshagkerfið er á ákveðnum krossgötum vegna mikilla tækniframfara og átaka. Þjóðartekjur á mann hafa þrátt fyrir það aukist á heimsvísu síðustu þrjá áratugi. Margt fólk upplifir þó að það sé skilið eftir og þetta á sérstaklega við um ungt fólk. Frá Reykjavík til Naíróbí hefur gremja aukist vegna skorts á tækifærum til að eignast eigið húsnæði á viðráðanlegu verði. Heimsbúskapurinn hefur engu að síður sýnt óvænta seiglu. Í upphafi árs var spáð efnahagslægð á alþjóðavísu en það hefur ekki ræst. Meginskýringarnar má rekja til þess að viðskiptahindranir urðu minni en óttast var, atvinnulífið hefur náð að aðlagast betur en búist var við og alþjóðavextir hafa lækkað. Heimsmyndin er þó brothætt, svo sem sjá má af vaxandi eftirspurn eftir gulli, óvissu í tollamálum og yfirverðlögðum eignamörkuðum.

Í þessu umhverfi alþjóðlegrar óvissu og óstöðugleika þurfa íslensk stjórnvöld að beina sjónum að þremur markmiðum: Ná tökum á verðbólgu, styrkja opinber fjármál og tryggja langtímahagvöxt. Ráðast verður í meira afgerandi aðgerðir til að ná verðbólgunni niður. Verðbólgan mælist nú á breiðum grunni og hefur verið þrálát um 4%. Engu að síður er hagkerfið að kólna hratt, þrátt fyrir að launahækkanir hafi mælst miklar og að verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði. Ríkisstjórnin tók ekki þessa þrálátu verðbólgu föstum tökum og leiddi sjálf launahækkanir sem voru yfir almenna markaðnum. Að sama skapi er raunútgjaldaaukning í fjárlagafrumvarpinu en ekki það aðhald sem fjármála- og efnahagsráðherra var búinn að boða. Tekjuaukinn í ár nemur 80 mö.kr. og ef aðhalds hefði verið gætt, þá hefði verið hægt að skila afgangi á fjárlögum strax árið 2025. Hefði ríkisstjórnin sýnt slíka væntingakænsku, þá hefði það haft mjög jákvæð áhrif á verðbólguvæntingar og lækkað ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa. Skuldir hins opinbera hafa lækkað umtalsvert á Íslandi síðustu tíu ár. Brýnt er að halda áfram á þeirri vegferð til að vaxtagjöldin lækki hraðar. Jákvæður hagvöxtur er einnig mikilvægur fyrir samfélagið, þar sem hann heldur uppi atvinnu og velsæld. Flest ríki í Evrópu eru að leita að hagvexti til að efla samfélögin sín og lífskjör. Afar erfitt er að átta sig á stefnu ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Á síðustu árum hefur hátæknigeirinn og ferðaþjónusta skapað þjóðarbúinu miklar tekjur og framtíðarhorfur eru bjartar, að því gefnu að ríkið fari ekki að setja þannig byrðar á atvinnugreinarnar að þær nái ekki að fjárfesta í framtíðinni.

Á þessum óvissutíma hefur styrk hagstjórn aldrei verið mikilvægari. Ég var sannfærð um að ný ríkisstjórn myndi leggja allt sitt undir í því að ná tökum á verðbólgunni, ríkisfjármálum og efla íslenskt efnahagslíf. Það plan hefur enn ekki litið dagsins ljóst.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknar og fv. viðskiptaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. október 2025.

Categories
Fréttir Greinar

Fram­sókn sem þjónar fólki, ekki kerfum

Deila grein

13/10/2025

Fram­sókn sem þjónar fólki, ekki kerfum

Ég býð mig fram til ritara Framsóknar af þeirri sannfæringu að framtíð flokksins liggi í því að vera hreyfiafl breytinga sem þjóna fólki – ekki kerfum. Framsókn hefur verið sterkt afl á sveitarstjórnastiginu og leitt umbætur á þjónustu við fjölskyldur og leitt öflögt uppbyggingarstarf. Nú þurfum við að virkja baráttugleðina og nýta þá fjölbreyttu reynslu sem við búum yfir fyrir áframhaldandi framfarir um allt land.

Framsókn á að vera flokkur sem leiðir umbætur í opinberri stjórnsýslu. Við eigum að efla sveitarfélögin, treysta þeim til að leysa fleiri verkefni og færa ákvarðanir nær fólkinu. Við vitum að þegar ábyrgðin er skýr, nálægðin meiri og valdið nær íbúunum – þá verður þjónustan betri. Þetta hefur sannað sig í verkefnum sem þegar hafa færst til sveitarfélaga, svo sem á sviði menntamála og þjónustu við fatlað fólk.

Við höfum líka leitt róttækar breytingar í ríkisrekstrinum sjálfum – ekki síst þegar málefni barna voru sett í forgrunn með stofnun barnamálaráðuneytis, sem hefur markað nýja sýn á réttindi og velferð barna. Slíkar kerfisbreytingar sýna að Framsókn getur verið afl framfara og umbóta þegar hugrekki og framtíðarsýn fara saman.

Ég vil sjá að Framsókn ráðist í skipulagða málefnavinnu um það hvernig við gerum íslenska stjórnsýslu skilvirkari, hagkvæmari og betur í stakk búna til að þjónusta fólkið í landinu. Við þurfum að nýta tækifærin sem felast í nýrri tækni – þ.m.t. gervigreind – til að einfalda ferla, stytta biðtíma og bæta upplýsingagjöf til almennings. Tæknin getur gert hið opinbera gagnsærra og aðgengilegra – ef við nýtum hana rétt og með ábyrgð.

Við eigum að vera óhrædd við að leggja til róttækar breytingar þar sem við sjáum að kerfi eru helst til þess fallin að viðhalda sjálfum sér í stað þess að þjónusta samfélagið.

Við þurfum að taka heiðarlegt samtal um stöðu menntakerfisins. Framsókn getur leitt það samtal sem ætti að mínu mati að ala á aukinni virðingu fyrir því verkefni sem það er að kenna börnunum okkar. Það er áhyggjuefni að Ísland standi ekki jafnfætis öðrum þjóðum í alþjóðlegum samanburði og við eigum að taka djörf skref til þess að snúa við þeirri þróun og byggja upp menntakerfi sem byggir á metnaði og framsýni.

Ég vil taka þátt í því að móta starf sem markar Framsókn stöðu sem framtíðarafl í íslenskum stjórnmálum – flokkur sem þjónar fólki, ekki kerfum. Ég býð mig fram til ritara Framsóknar til að vinna að því markmiði í góðri samvinnu með flokksfélögum.

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps og frambjóðandi í embætti ritara Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 13. október 2025.

Categories
Fréttir

Það þarf átak í íslenskukennslu og endurskoðun kennaranáms

Deila grein

10/10/2025

Það þarf átak í íslenskukennslu og endurskoðun kennaranáms

„Ég held að við getum öll verið sammála því að menntakerfið sé einn af hornsteinum samfélagsins og lykillinn að farsæld komandi kynslóða, en í dag stöndum við á krossgötum,“ sagði Ingibjörg Isaksen, alþingismaður og formaður þingflokks Framsóknar, í sérstakri umræðu á Alþingi um menntamál þar sem mennta- og barnamálaráðherra var til andsvara.

Ingibjörg lagði áherslu á í ræðu sinni að skólakerfið hefði ekki fylgt nægilega hröðum samfélagsbreytingum og sagði þörf á „nýrri hugsun, nýrri nálgun, samstöðu og hugrekki“ til að ráðast í raunverulegar umbætur.

Ingibjörg nefndi fjórar megináskoranir í leik- og grunnskólum: versnandi íslenskukunnáttu barna, skort á fagmenntuðum kennurum, skort á stoðþjónustu og viðeigandi námsefni fyrir börn með fjölbreyttar þarfir.

„Umfram allt verðum við að tryggja að allir sem búa hér læri íslensku,“ sagði Ingibjörg og lagði áherslu á að læsi væri lykillinn að framförum í námi.

Krefst markvissari íslenskukennslu og skýrari krafna

Ingibjörg sagði að sífellt stærri hópur barna hefði annað móðurmál en íslensku. Það væri bæði tækifæri og áskorun. Hún hvatti til þess að efla kennslu í íslensku sem öðru máli og tryggja aðgengi að námsefni og stuðningi, jafnvel með því að gera kröfur um tiltekna grunnþekkingu áður en börn væru sett í almennan bekk. „Ef börnin skilja ekki kennarann sinn og bekkjarfélaga þá ná þau litlum sem engum árangri.“

Kennaraskortur og starfsumhverfi undir pressu

Ingibjörg vísaði til þess að um 20% kennara í íslenskum skólum væru án fullrar fagmenntunar og að stór hluti kenndi fög sem væru ekki hluti af eigin menntun. Yngri kennarar teldu sig verr undirbúna en áður, samkvæmt alþjóðlegri TALIS-könnun. „Við þurfum að gera kennarastarfið aðlaðandi aftur,“ sagði hún og nefndi skýrari starfsþróun, betra starfsumhverfi og raunhæft svigrúm kennara til að „sinna barninu sjálfu“ svo starfsævin yrði löng og farsæl.

„Skóli án aðgreiningar“ þarf raunhæfan stuðning

Ingibjörg vék að hugmyndafræðinni um skóla án aðgreiningar og spurði hvort hún stæðist í framkvæmd. Fjöldi barna er ekki að fá þann stuðning sem þau þyrftu og kennara bera of mikla ábyrgð á verkefnum sem féllu jafnvel utan verksviðs þeirra. Samkvæmt nýrri skýrslu ráðuneytisins þyrftu yfir 120 börn á sérhæfðum úrræðum að halda á hverjum tíma og um 30% nemenda fengju einhverja sérkennslu. Ingibjörg benti einnig á að sum börn hefðu ekki fengið pláss í sérdeildum á síðasta ári og að dæmi séu um börn sem hefðu verið án skóla í allt að tvö ár. „Þetta er staða sem er algerlega óásættanleg,“ sagði Ingibjörg og undirstrikaði að skólaskylda legði ríkar skyldur á yfirvöld um að útvega úrræði og pláss „svo allir geti fengið nám við hæfi“.

Kallar eftir gagnsæju námsmati

Að lokum sagði Ingibjörg að foreldrar vildu skýrari mynd af námsstöðu barna sinna. Hún vísaði til könnunar Maskínu þar sem 81% landsmanna vildu að tölueinkunnir héldu áfram að vera hluti námsmats. „Þetta kallar á gagnsæi og aukinn skýrleika,“ sagði Ingibjörg og spurði hvort eitthvað væri því til fyrirstöðu að gera einkunnagjöf skýrari samhliða vandaðri endurgjöf.

Ingibjörg beindi þremur spurningum beint til mennta- og barnamálaráðherra:

1. hvort endurskoða ætti samsetningu kennaranáms miðað við stöðuna,

2. hvort ráðist yrði í aukið fjármagn til íslensku- og lestrarkennslu og

3. hver væru næstu skref stjórnvalda í umbótum menntakerfisins.