Categories
Greinar

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Deila grein

03/06/2019

Vor í menntamálum – uppskeran í hús

Nú er til­hlökk­un í loft­inu. Tími skóla­slita og út­skrifta hjá yngri kyn­slóðinni, skóla­vet­ur­inn að baki og allt sum­arið framund­an. Þessi upp­skeru­tími er öll­um dýr­mæt­ur, ekki síst kenn­ur­um sem nú horfa stolt­ir á ár­ang­ur sinna starfa. Ég hvet nem­end­ur og for­eldra til þess að horfa stolt­ir til baka á kenn­ar­ana sína og íhuga hlut­deild þeirra og hlut­verk í þeirri veg­ferð sem mennt­un er. Mennt­un er sam­vinnu­verk­efni og kenn­ar­ar eru mik­il­væg­ir áhrifa­vald­ar í lífi nem­enda sinna. Kenn­ar­ar eru líka hreyfiafl okk­ar til góðra verka og fram­fara í ís­lensku mennta­kerfi en starf og ár­ang­ur kenn­ara bygg­ist á sjálf­stæði þeirra og fag­mennsku, næmi fyr­ir ein­stak­lingn­um og þeim ólíku leiðum sem henta hverj­um nem­enda til að byggja upp hæfni sína.

Það eru virki­lega ánægju­leg­ar frétt­ir að um­sókn­um í kenn­ara­nám hef­ur fjölgað veru­lega. Þannig fjölgaði um­sókn­um um fram­halds­nám til kennslu­rétt­inda í leik- og grunn­skóla­kenn­ara­námi við Há­skóla Íslands um 30% miðað við meðaltal síðustu fimm ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Menntavís­inda­sviði Há­skóla Íslands, og um­sókn­um í list­kennslu­deild Lista­há­skóla Íslands fjölgaði um 122% frá síðasta ári. Þetta eru að mínu mati góðar vís­bend­ing­ar um að við séum á réttri leið. Kenn­ara­starfið er enda spenn­andi kost­ur sem býður upp á fjöl­breytta starfs­mögu­leika og mikið starfs­ör­yggi.

Fyrr í vor kynnt­um við aðgerðir sem miða að fjölg­un kenn­ara en í þeim felst meðal ann­ars að frá og með næsta hausti býðst leik- og grunn­skóla­kenn­ara­nem­um á loka­ári launað starfs­nám. Þá geta nem­end­ur á loka­ári meist­ara­náms til kennslu­rétt­inda á leik- og grunn­skóla­stigi sótt um náms­styrk sem nem­ur alls 800.000 kr. til að sinna loka­verk­efn­um sín­um sam­hliða launuðu starfs­námi. Enn frem­ur eru veitt­ir styrk­ir til að fjölga kenn­ur­um með sér­hæf­ingu í starfstengdri leiðsögn sem m.a. taka á móti nýj­um kenn­ur­um sem koma til starfa í skól­um. Um­sókn­um um slíkt nám hef­ur fjölgað um 100% milli ára, sam­kvæmt upp­lýs­ing­um frá Há­skóla Íslands.

Öflugt mennta­kerfi er for­senda fram­fara og það kerfi er borið uppi af kenn­ur­um. Það er eft­ir­tekt­ar­verð gróska í ís­lensk­um skól­um þessi miss­er­in og mik­il og þörf umræða um skólastarf og hlut­verk þess til framtíðar. Ég fagna því um leið og ég óska kenn­ur­um, nem­end­um og öðru skóla­fólki gleðilegs sum­ars.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 2. júní 2019.

Categories
Greinar

Framsókn íslensks landbúnaðar

Deila grein

29/05/2019

Framsókn íslensks landbúnaðar

Íslenskur landbúnaður hefur ætíð staðið hjarta mínu nærri. Ég hef í gegnum tíðina, bæði í störfum mínum í stjórnmálum og ekki síður sem dýralæknir, séð þann mikla metnað sem íslenskir bændur hafa sýnt í störfum sínum. Sá metnaður hefur gert það að verkum að Íslendingar eru í einstakri stöðu þegar kemur að gæðum íslenskra afurða. Það sem er mikilvægast í matvælaframleiðslu heimsins í dag er heilbrigði búfjár og heilnæmi matvæla. Vísindamenn hafa sagt að ef ekkert verður að gert verði sýklalyfjaónæmi heilsufarsfaraldur á næstu áratugum sem lýsir sér til dæmis að því að spáð er að fleiri muni látast af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050 en látist af völdum krabbameins.

Lýðheilsa í fyrsta sæti

Það er margsannað að notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Það skapar okkur algjöra sérstöðu sem við viljum standa vörð um af fullum krafti. Það var því mikill áfangi fyrir Framsókn þegar ríkisstjórnin tilkynnti í dag að stefnt væri að banni við dreifingu matvæla sem sýkt er af ákveðnum tegundum sýklalyfjaónæmra baktería. Þessu höfum við barist fyrir innan og utan þings, til dæmis með fjölmennum opnum fundi í febrúar þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlæknir á sýklafræðideild Landspítalans sögðu frá mikilvægum rannsóknum sínum og annarra vísindamanna.

Hagsmunir neytenda og bænda fara saman

Það hafa líka orðið umskipti í umræðunni um innflutning á hráu kjöti í vetur. Við höfum náð að vekja almenning betur til vitundar um gæði og sérstöðu íslensks landbúnaðar. Þessum árangri höfum við náð með góðum stuðningi bænda og neytenda. Það er enda ljóst að hagsmunir bænda og neytenda fara saman í þessu máli þótt margir hafi lagt mikið á sig í áróðrinum um að það séu hagsmunir neytenda að innflutningur á matvælum sé óheftur.

Endurskoðun tollasamnings

Tollamál í landbúnaði verða jafnframt tekin til skoðunar strax á þessu ári, m.a. með því að kanna þróun tollverndar í landbúnaði og tollflokkun í því skyni að gera skráningu bæði inn- og útflutnings nákvæmari og skilvirkari. Í ljósi áhrifa útgöngu Breta úr Evrópusambandinu verður gerð greining á tollasamningi Íslands og ESB frá 2015 fyrir landbúnaðinn og neytendur og samningurinn endurskoðaður komi í ljós að forsendur hans standist ekki lengur. Fleiri atriði er að finna í aðgerðaáætluninni og í áliti meirihluta atvinnuveganefndar.

Stuðningur við nýsköpun í matvælaframleiðslu stóraukinn

Frumvarp um breytingu á lögum sem samþykkt var í atvinnuveganefnd Alþingis eru ekki aðeins viðbrögð við dómum um innflutning á hráu kjöti heldur framsókn fyrir íslenskan landbúnað. Nú tekur við undirbúningur þar sem byggt er vísindalega undir sérstöðu íslensks landbúnaðar með það að markmiði að bann verði komið á dreifingu matvæla með sýklalyfjaónæmum bakteríum fyrsta október 2021. Þetta hefur ekki einungis áhrif á kjöt heldur öll matvæli.

Samhliða er lögð fram þingsályktun um sérstaka aðgerðaáætlun í 17 liðum sem ætlað er að efla matvælaöryggi, vernd búfjárstofna og samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Fjölmörg verkefni önnur eru í áætluninni og má þar nefna bann við dreifingu fersks alifuglakjöts nema að sýnt sé fram á að það sé ekki mengað af kampýlóbakter. . Þetta er sama regla og gildir um innlenda framleiðslu í dag.  Búið er að sækja um viðbótartryggingar vegna salmonellu fyrir alifugla, svína og nautakjöt. Matvælaeftirlit verður eflt í þágu neytendaverndar og tekið til sérstakrar skoðunar hvernig því verði best fyrir komið. Merkingar matvæla verða bættar, fræðsla til ferðamanna aukin og reglur um innflutning til einkaneyslu hertar.  Unnið verður af krafti að mótun matvælastefnu og innleiðingar nýrrar innkaupastefnu ríkisins m.a. með stuðningi ráðherranefndar undir forystu forsætisráðherra.  Stuðningur við nýsköpun í innlendri matvælaframleiðslu verður efldur verulega samhliða með nýjum sjóði sem byggi á grunni núverandi nýsköpunarsjóða í landbúnaði og sjávarútvegi.

Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst á bbl.is 29. maí 2019.

Categories
Greinar

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Deila grein

29/05/2019

Framsókn gegn sýklalyfjaónæmi

Ríkisstjórnin kynnti í dag að Ísland stefndi fyrst ríkja að banni á dreifingu á matvælum með sýklalyfjaónæmum bakteríum. Þetta hefur verið mikið baráttumál Framsóknar eins fólk hefur eflaust tekið eftir. Í febrúar héldum við fjölmennan opinn fund þar sem Lance Price, prófessor við Washington háskóla og Karl G. Kristinsson prófessor við Háskóla Íslands og yfirlækni við sýklafræðideild Landspítalans fjölluðu um þá ógn sem heiminum stafar af sýklalyfjaónæmi. Spár vísindamanna sýna að ef ekki er brugðist við af mikilli festu þá muni um 10 milljónir deyja af völdum sýklalyfjaónæmra baktería árið 2050, fleiri en af völdum krabbameins.

Einstök staða í íslenskum landbúnaði
Á Íslandi búum við að einstakri stöðu þar sem sýklalyfjanotkun er með því minnsta sem þekkist í heiminum. Vandamálið felst nefnilega að hluta til í því að á mörgum verksmiðjubúum meginlandsins er sýklalyfjum bætt í fóður til að koma í veg fyrir sýkingar og auka vöxt búfjár. Það þekkist ekki hér þar sem sýklalyf eru einungis gefin undir handleiðslu dýralækna.

Lýðheilsa og dýraheilbrigði
Þessi framsókn Íslands gegn sýklalyfjaónæmi er tengd því sem oft er kallað hráa-kjöts-málið. Við í Framsókn höfum lagt gríðarlega áherslu á það í vinnu við þingsályktun og lagafrumvarp að tryggja það að lýðheilsa þjóðarinnar og heilbrigði dýra séu eins og best verður á kosið og að íslenskur landbúnaður keppi á jafnréttisgrundvelli við innflutt matvæli. Við höfum óttast að óheftur innflutningur matvæla frá svæðum með stórum verksmiðjubúum þar sem dýraheilbrigði er fyrir borð borið myndi refsa íslenskum matvælaframleiðendum fyrir að framleiða hágæða matvæli og einfaldlega knýja þá til að draga úr gæðum í framleiðslu. Með þeim aðgerðum sem boðaðar hafa verið er íslenskur landbúnaður í sókn en ekki vörn. Þess ber að geta að bann við sýklalyfjaónæmum bakteríum í matvælum nær ekki aðeins til kjöts heldur einnig annarra matvæla, svo sem grænmetis.

Aukið eftirlit á markaði
Viðbótartryggingar eða vottorð verður að leggja fram við innflutning matvæla og verður sérstakt átak gert í því að kanna að þessar viðbótartryggingar séu réttar. Auk þess verður aukið eftirlit á markaði til að tryggja það að við getum treyst því að þau matvæli sem standa okkur til boða standist þær kröfur sem neytendur gera. Átak verður gert í upprunamerkingum til að neytendur viti hvaðan matvælin koma.

Lífsgæði að geta gengið að hreinum matvælum
Það er ákaflega ómaklegt hvernig íslenskum bændum hefur verið stillt upp sem andstæðingum neytenda og hefur verslunin beitt því áróðursbragði óspart í baráttu sinni fyrir óheftum innflutningi á kjöti. Það er ljótur leikur. Það eru hagsmunir allra að við getum treyst því að þær matvörur sem við leggjum til munns séu ósýktar. Í því felast mikil lífsgæði að geta gengið að hreinum og góðum landbúnaðarafurðum. Þessu hafa Íslendingar áttað sig á og á síðustu mánuðum hefur meðvitund Íslendinga um mikilvægi gæða þess sem við látum ofan í okkur stóraukist. Við í Framsókn viljum þakka öllum þeim sem hafa stutt okkur í baráttunni sem við sjáum nú verða að veruleika í öflugri framsókn gegn sýklalyfjaónæmi.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og dýralæknir.

Greinin birtist fyrst á frettabladid.is 29. maí 2019.

Categories
Greinar

Sameinað Alþingi

Deila grein

27/05/2019

Sameinað Alþingi

Staða innflytjenda í menntakerfinu var nýverið til umræðu á Alþingi og var málshefjandi umræðunnar Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Umræðurnar snerust mikið til um stöðu barna og ungmenna með annað móðurmál en íslensku. Rannsóknir benda til þess að ein helsta áskorun íslensks menntakerfis sé staða slíkra nemenda en hlúa þarf mun betur að námsframvindu þeirra. Niðurstöður alþjóðlegu menntakönnunarinnar PISA staðfesta mikilvægi þess, skólasókn innflytjenda í framhaldsskóla er minni en annarra nemenda og vísbendingar eru um að brottfall sé algengara meðal þeirra og aðsókn í háskóla minni.

Áskoranir þessara nemenda eru margþættar en tungumálið er óneitanlega sú stærsta. Stjórnvöld leggja nú sérstaka áherslu á að efla íslenskuna á sem flestum sviðum. Fyrir Alþingi liggur þingsályktunartillaga þess efnis og inniheldur hún heildstæða aðgerðaáætlun í 22 liðum. Í henni er meðal annars lagt til að þeir sem búsettir eru á Íslandi og hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir sínar. Að auki hefur verið settur á laggirnar starfshópur sem Jóhanna Einarsdóttir, prófessor í menntunarfræðum ungra barna, fer fyrir. Sá hópur mun móta heildarstefnu í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Einnig höfum við þegar gripið til beinna aðgerða til að bæta þjónustu með því að þrefalda framlög til sérstakrar íslenskukennslu.

Það sem var ánægjulegast við þessa sérstöku um­ræðu í þinginu var sá einhugur sem ríkir um að gera betur í málefnum barna með annað móðurmál en íslensku. Sú þverpólitíska samstaða um að gera betur í þessum efnum er dýrmæt og þótti mér vænt um að heyra innlegg þeirra þingmanna, úr öllum flokkum, sem lögðu sitt af mörkum til hennar. Þingmenn eru tilbúnir í þessa vegferð og vilja bæta þá þjónustu sem við veitum börnunum okkar. Við erum opið og framsækið samfélag sem vill nýta hæfileika allra þeirra sem búa hér. Í sameiningu og samvinnu munum við vinna að umbótum á menntakerfinu, til heilla fyrir samfélagið allt.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. maí 2019.

Categories
Greinar

Stærsti sigurinn að vera með

Deila grein

23/05/2019

Stærsti sigurinn að vera með

„Stærsti sig­ur­inn er að vera með.“ Þannig hljóðaði fyrsta kjör­orð Íþrótta­sam­bands fatlaðra (ÍF) sem fagnaði 40 ára af­mæli um nýliðna helgi. Það er óhætt að segja að ÍF hafi sann­ar­lega lagt sitt af mörk­um til þess að efla íþrótt­astarf fatlaðs fólks í sam­fé­lag­inu og skapa því þann virðing­arsess sem það hef­ur í dag. Við stofn­un fé­lags­ins voru það ekki viðtek­in viðhorf að fatlað fólk ætti er­indi í íþrótt­ir. Áhugi al­menn­ings var tak­markaður og fátt fatlað fólk stundaði íþrótt­ir. Með til­komu ÍF átti þetta eft­ir að breyt­ast og þegar litið er til baka þá hafa af­rek fatlaðs fólks á íþrótta­vell­in­um vakið ein­læga aðdáun og virðingu.

Íslensk­ir kepp­end­ur tóku fyrst þátt í Ólymp­íu­móti fatlaðra árið 1980 og síðan hef­ur Ísland átt kepp­end­ur á slík­um mót­um og sent þátt­tak­end­ur til keppni í Evr­ópu og á heims­meist­ara­mót. For­svars­menn ÍF sýndu einnig mikla fram­sýni og skiln­ing á mik­il­vægi íþrótta fyr­ir alla.

Ekki geta þó all­ir orðið af­reks­menn og sum­ir vilja ein­ung­is vera með því að þeir finna það á lík­ama og sál að iðkun íþrótta hef­ur góð áhrif. Þá eru áhersl­ur ÍF á hreyfi- og fé­lags­færni barna á tím­um snjall­væðing­ar aðdá­un­ar­verðar og til eft­ir­breytni. Það er vitað að ein­angr­un og skort­ur á fé­lags­færni get­ur dregið úr mögu­leik­um ein­stak­linga til þess að eiga inni­halds­ríkt og sjálf­stætt líf. ÍF hef­ur brugðist við þess­um áskor­un­um sam­tím­ans af virðingu og skiln­ingi og lagt sig sér­stak­lega fram við að bjóða upp á góða leiðsögn og leiðbein­ing­ar varðandi iðkun íþrótta. Um leið hef­ur verið hlúð að fé­lags­leg­um tengsl­um sem styrkt hafa sjálfs­virðingu og sjálfs­mynd þátt­tak­enda. For­eldr­ar, systkini, afar og ömm­ur hafa einnig fengið hvatn­ingu til þess að taka þátt og hef­ur það haft upp­byggj­andi og já­kvæð áhrif á alla í fjöl­skyld­um viðkom­andi.

ÍF hef­ur alltaf verið vak­andi fyr­ir straum­um sam­fé­lags­ins á hverj­um tíma. Auk­in sam­vinna milli al­mennra íþrótta­fé­laga og ÍF hef­ur leitt af sér áhuga­verða og skemmti­lega þróun þar sem fatlaðir og ófatlaðir eiga sam­leið í íþrótt­um. Allt ger­ir þetta sam­fé­lagið betra.

Ég vil þakka ÍF hjart­an­lega fyr­ir sam­vinn­una og fram­lag þess til að styrkja ís­lenskt sam­fé­lag á liðnum árum. Ég hlakka til að fylgj­ast með iðkend­um ganga á vit nýrra æv­in­týra, minni á kjör­orðið og hvet sem flesta til að vera með.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. maí 2019.

Categories
Greinar

Vöxtur í alþjóðlegu menntasamstarfi

Deila grein

19/05/2019

Vöxtur í alþjóðlegu menntasamstarfi

Íslend­ing­ar hafa í gegn­um ald­irn­ar verið víðförl­ir, sótt sér mennt­un og leitað sókn­ar­færa víða. Dæmi um ís­lenska mennta- og lista­menn sem öfluðu sér þekk­ing­ar er­lend­is eru Snorri Sturlu­son sem á 13. öld fór til Nor­egs og Svíþjóðar, Ein­ar Jóns­son mynd­höggv­ari sem á 19. og 20. öld­inni dvaldi í Kaup­manna­höfn, Róm, Berlín og Am­er­íku og Gerður Helga­dótt­ir, einnig mynd­höggv­ari, sem nam við skóla í Flórens og Par­ís.

Það er já­kvætt hversu marg­ir velja að læra er­lend­is. Við eig­um að hvetja ungt fólk til að afla sér þekk­ing­ar sem víðast og skapa því viðeig­andi um­gjörð sem ger­ir því það kleift. Í störf­um mín­um sem mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra legg ég mikla áherslu á að styrkja ís­lenskt mennta­kerfi, til dæm­is með því að bæta starfs­um­hverfi kenn­ara, en ekki síður að við horf­um út í heim og rækt­um góð sam­skipti við aðrar þjóðir á sviði mennta-, vís­inda- og menn­ing­ar­mála. Und­an­farið hafa náðst ánægju­leg­ir áfang­ar á þeirri veg­ferð sem fjölga tæki­fær­um okk­ar er­lend­is.

Merk­ur áfangi í sam­skipt­um við Kína

Í vik­unni var í fyrsta sinn skrifað und­ir samn­ing við Kína um aukið sam­starf í mennta­mál­um. Samn­ing­ur­inn mark­ar tíma­mót fyr­ir bæði ís­lenska og kín­verska náms­menn en hann stuðlar að gagn­kvæmri viður­kenn­ingu á námi milli land­anna og eyk­ur sam­starf á há­skóla­stig­inu. Kína hef­ur gert hliðstæða samn­inga við rúm­lega 50 önn­ur ríki, þar á meðal við hin nor­rænu lönd­in. Rúm­lega 30 kín­versk­ir náms­menn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslend­ing­ar stunda nám í Kína á ári hverju en ís­lensk­ir há­skól­ar eiga þegar í marg­vís­legu sam­starfi við kín­verska há­skóla.

Vægi ut­an­rík­is­viðskipta í lands­fram­leiðslu á Íslandi er um­tals­vert, eins og hjá öðrum litl­um opn­um hag­kerf­um. Greiður aðgang­ur að er­lend­um mörkuðum er lyk­il­atriði hvað varðar hag­sæld og efna­hags­legt ör­yggi til fram­búðar. Mik­il­vægi Kína sem framtíðar­vaxt­ar­markaðar í þessu sam­hengi er veru­legt. Marg­vís­leg tæki­færi fel­ast í sam­skipt­um við Kína og viðskipti milli land­anna hafa auk­ist und­an­far­in ár. Þjón­ustu­út­flutn­ing­ur til Kína hef­ur auk­ist um 201% en heild­arþjón­ustu­út­flutn­ing­ur Íslands um 46% frá ár­inu 2013. Ljóst er að fjöl­mörg tæki­færi eru í sam­starfi ríkj­anna hvað varðar mennt­un, viðskipti, rann­sókn­ir og ný­sköp­un.

Vís­inda- og rann­sókna­sam­starf við Jap­an

Vilji er til þess að efla tengsl Íslands og Jap­ans á sviði mennta- og vís­inda­mála og var ákveðið á fund okk­ar Masa­hi­ko Shi­bayama, mennta­málaráðherra Jap­ans, ný­verið að hefja vinnu við gerð ramma­sam­komu­lags um rann­sókna- og vís­inda­sam­starf ís­lenskra og jap­anskra há­skóla. Að auki hafa lönd­in ákveðið að halda sam­eig­in­lega ráðherra­fund vís­inda­málaráðherra um mál­efni norður­slóða árið 2020. Þess má geta að jap­anska er næst­vin­sæl­asta er­lenda tungu­málið sem kennt er í Há­skóla Íslands en japönsku­deild­in hef­ur verið starf­rækt síðan árið 2003. Einnig er mik­ill áhugi á menn­ingu og sögu Jap­ans við Há­skóla Íslands.

Viðskipti við Jap­an hafa verið nokkuð stöðug en mik­ill áhugi er á vör­um frá Íslandi. Þar má nefna sjáv­ar­út­vegsaf­urðir, lamba­kjöt og snyrti­vör­ur. Ljóst er að jap­anska hag­kerfið er öfl­ugt með stór­an heima­markað, sem hægt er að efla enn frek­ar á kom­andi árum.

Horft til Suður-Kór­eu

Ísland og Suður-Kórea munu auka sam­starf sitt í mennta-, vís­inda- og þró­un­ar­mál­um í fram­haldi af fundi mín­um með Kim Sang-Kon, mennta­málaráðherra og vara­for­sæt­is­ráðherra Suður-Kór­eu, árið 2018. Afrakst­ur þess fund­ar er í far­vatn­inu en vinna við form­legt sam­komu­lag milli ríkj­anna um sam­vinnu í mennta­mál­um er á loka­metr­un­um. Mun það meðal ann­ars ná til kenn­ara­mennt­un­ar og tungu­mála­náms ásamt því að lönd­in hvetji til frek­ari nem­enda­skipta og sam­vinnu milli há­skóla. Suður-Kórea hef­ur getið sér gott orð fyr­ir þrótt­mikið og öfl­ugt mennta­kerfi og hag­kerfi lands­ins er eitt það þróaðasta í heimi.

Auk­um sam­starf við Breta

Við leggj­um áherslu á að efla sam­starf við Bret­land á sviði mennta- og vís­inda­mála óháð niður­stöðu Brex­it. Á fundi með Chris Skidmore, ráðherra há­skóla-, ný­sköp­un­ar- og vís­inda­mála Bret­lands, ný­verið ræddi ég mögu­leika á lækk­un skóla­gjalda fyr­ir ís­lenska náms­menn í Bretlandi. Íslensk stjórn­völd leggja áherslu á að jafn­ræði ríki meðal landa á evr­ópska efna­hags­svæðinu þegar kem­ur að skóla­gjöld­um í breska há­skóla eft­ir Brex­it. Þetta myndi þýða mögu­lega lækk­un á skóla­gjöld­um fyr­ir ís­lenska náms­menn við breska há­skóla en sem stend­ur greiða ís­lensk­ir nem­end­ur hærri skóla­gjöld við breska há­skóla en náms­menn frá ríkj­um Evr­ópu­sam­bands­ins. Slíkt væri til þess fallið að auka tengsl land­anna enn frek­ar og skapa frek­ari hvata fyr­ir ís­lenska náms­menn til að líta til Bret­lands.

Já­kvæð áhrif

Íslenska mennta­kerfið á í um­fangs­miklu sam­starfi við fjöl­mörg ríki í Evr­ópu, Asíu, Norður-Am­er­íku og víðar. Okk­ur miðar vel áfram í að auka alþjóðlegt mennta­sam­starf og eru fram­an­greind dæmi um aukið sam­starf við ein stærstu hag­kerfi ver­ald­ar gott dæmi um slíkt. Ég er sann­færð um að ávinn­ing­ur­inn fyr­ir ís­lenskt sam­fé­lag verði veru­leg­ur og muni hafa já­kvæð áhrif á lífs­kjör Íslands til framtíðar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 18. maí 2019.

Categories
Greinar

Grunnstoð samfélagsins

Deila grein

15/05/2019

Grunnstoð samfélagsins

Í dag er alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar en Sameinuðu þjóðirnar tileinka 15. maí ár hvert málefnum hennar. Ástæðan er sú að þótt fjölskyldur séu jafn ólíkar og þær eru margar eru þær grunnstoð samfélagsins og erfitt að finna aðra einingu innan þess sem gegnir jafn þýðingarmiklu og flóknu hlutverki.

Í ár leggja Sameinuðu þjóðirnar sérstaka áherslu á mikilvægi fjölskyldunnar þegar kemur að aðgerðum í loftslagsmálum en undanfarið hafa loftslagsbreytingar af mannavöldum verið í brennidepli. Stór verkefni eru fram undan til að Ísland nái markmiðum sínum í þeim efnum og ljóst að þeim verður ekki náð nema með átaki samfélagsins í heild. Þar hefur ekki skort þátttöku íslenskra barna og unglinga sem meðal annars hafa skipulagt loftslagsverkföll á Austurvelli og víðar um landið síðustu mánuði. Þrátt fyrir að kolefnisfótspor hverrar fjölskyldu sé lítið í stóra samhenginu er ljóst að fjölskyldur landsins munu í sameiningu gegna risastóru hlutverki í baráttunni fram undan.

Á flóknum tímum sem þessum, í bland við hraða og annríki nútímans, eru þannig gerðar sífellt meiri kröfur til fjölskyldna. Eitt mikilvægasta verkefni þeirra er uppeldi og umönnun barna en fjölskyldan er best til þess fallin að veita barni þá ást og það öryggi sem það þarf til þess að verða á fullorðinsaldri virkur þátttakandi í samfélaginu. Það er svo aftur ekki aðeins hagur hverrar fjölskyldu heldur samfélagsins alls. Þetta mikilvæga verkefni er hins vegar allt annað en auðvelt. Við hvert fótmál bíða foreldra og barna þeirra nýjar hindranir og áskoranir, miserfiðar. Við þurfum öll á aðstoð að halda á einhverjum tímapunkti. Til þess að vel takist til þurfum við að búa til samfélag sem veitir hana þegar hennar er þörf og styður betur við þessa dýrmætustu einingu okkar, fjölskylduna. Það er einmitt á meðal markmiða heildarendurskoðunar á þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra sem nú stendur yfir í félagsmálaráðuneytinu í samvinnu þvert á ráðuneyti, við Samband íslenskra sveitarfélaga og með liðsinni þingmanna úr öllum flokkum. Í þágu barna, fjölskyldna og samfélagsins alls – enda leiða sterkar fjölskyldur til betri framtíðar fyrir alla. Til hamingju með daginn!

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 15. maí 2019.

Categories
Greinar

Mikilvægir sendiherrar alla ævi

Deila grein

15/05/2019

Mikilvægir sendiherrar alla ævi

Í ferð minni til Kína í vik­unni var skrifað und­ir samn­ing sem mark­ar tíma­mót fyr­ir ís­lenska og kín­verska náms­menn. Gild­istaka hans fel­ur í sér gagn­kvæma viður­kenn­ingu há­skóla­náms milli land­anna og mun auðvelda til muna nem­enda­skipti milli ís­lenskra og kín­verskra há­skóla. Á fundi þar ræddi ég við sam­starfs­ráðherra minn, Chen Baos­heng, mennta­málaráðherra Kína, um mik­il­vægi mennta­sam­starfs land­anna og þau sókn­ar­færi sem í þeim fel­ast.Íslenskt mennta­kerfi hef­ur margt fram að færa fyr­ir er­lenda náms­menn sem sýn­ir sig meðal ann­ars í fjölg­un um­sókna þeirra í ís­lenska há­skóla. Rúm­lega 30 kín­versk­ir náms­menn stunda nú nám á Íslandi en um 30 Íslend­ing­ar stunda nám í Kína á ári hverju. Íslensk­ir há­skól­ar eiga þegar í marg­vís­legu sam­starfi við kín­verska há­skóla og hef­ur Há­skóli Íslands meðal ann­ars gert sam­starfs­samn­inga um nem­enda­skipti við fimmtán há­skóla í Kína. Kína hef­ur gert hliðstæða samn­inga um viður­kenn­ingu próf­gráða við rúm­lega 50 önn­ur ríki, þar á meðal við Norður­landa­rík­in og hafa þeir stuðlað að auknu aðgengi og flæði milli há­skóla­stofn­ana þeirra. Fyr­ir fá­menna þjóð er aðgengi að námi og viður­kenn­ing á því sér­stak­lega mik­il­væg. Náms­fram­boð hér á landi er fjöl­breytt en fyr­ir þau sem hyggj­ast ganga mennta­veg­inn er heim­ur­inn all­ur und­ir. Því er meðal ann­ars að þakka að náms­gráður hafa í aukn­um mæli verið staðlaðar og sam­ræmd­ar milli landa.

Skipt­inem­ar verða á sinn hátt sendi­herr­ar þeirra ríkja þar sem þeir dvelja, þó dvöl­in sé ekki löng geta tengsl­in varað alla ævi. Dæm­in sanna að skipti­nám verður oft kveikja að mun dýpri og lengri sam­skipt­um og það bygg­ir brýr milli fólks og landa sem ann­ars hefðu aldrei orðið til. Við sem þjóð búum að slík­um tengsl­um því með þeim ferðast þekk­ing, skiln­ing­ur og saga. Á því er síðan hægt að byggja fleira og stærra. Ég bind von­ir við að gagn­kvæm viður­kenn­ing há­skóla­náms hvetji nem­end­ur, bæði hér heima og í Kína, til að skoða þá kosti sem bjóðast í há­skól­um land­anna. Það hafa orðið gríðarleg um­skipti í kín­versku sam­fé­lagi á und­an­förn­um ára­tug­um og þau hafa skapað fjölda­mörg tæki­færi fyr­ir aukna sam­vinnu.

Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 15. maí 2019.

 

Categories
Greinar

Orkuauðlindir Íslands – verkefni íslenskra stjórnmála

Deila grein

14/05/2019

Orkuauðlindir Íslands – verkefni íslenskra stjórnmála

Á haust­mán­uðum var ályktað á mið­stjórn­ar­fundi Fram­sókn­ar: „Orku­auð­lindin er ein af mik­il­væg­ustu for­sendum vel­meg­unar í land­inu. Mið­stjórn Fram­sókn­ar­flokks­ins áréttar mik­il­vægi þess að allar ákvarð­anir í orku­málum verði í höndum Íslend­inga og minnir á að stjórn­ar­skrá Íslands leyfir ekki fram­sal rík­is­valds til erlendra stofn­ana. Aðstæður Íslands í orku­málum eru gjör­ó­líkar þeim sem liggja til grund­vallar orku­lög­gjöf ESB og því er óskyn­sam­legt að inn­leiða það reglu­verk hér. Auk þess hefur Ísland enga teng­ingu við orku­markað ESB og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn telur slíka teng­ingu ekki þjóna hags­munum lands­manna. Því skal fá und­an­þágu frá inn­leið­ingu þriðja orku­pakk­ans.“

Eft­ir­lit Orku­stofn­unar
Síðan þá hefur málið verið til stöðugrar umræðu. Utan­rík­is­ráð­herra fund­aði með fram­kvæmda­stjóra orku­mála hjá ESB og rit­uðu þau sam­eig­in­lega yfir­lýs­ingu um að orku­kerfi Íslands væri án teng­ingar og und­ir­strikað að það félli ekki undir ACER (Orku­stofnun ESB) heldur væri um tveggja stoða kerfi þar sem Orku­stofnun færi með eft­ir­lit og dóms­mál færu til EFTA-­dóm­stóls­ins, ekki ACER.

Við ráðum þessu ein­fald­lega sjálf
Í grein minni sem birt­ist á Kjarn­anum um páska lagði ég áherslu á að málið væri til með­ferðar hjá þing­inu og brýndi þing­menn til að skoða málið vand­lega og hlusta á þær áhyggjur sem almenn­ingur hefð­i.

Eftir grand­skoðun þings­ins hefur verið búið þannig um hnúta að við erum ekki að fram­selja vald yfir íslenskum orku­auð­lindum til yfir­þjóð­legra stofn­ana. Við ráðum þessu ein­fald­lega sjálf, Íslend­ing­ar.

Stöndum vörð um íslenska hags­muni
Það sem hefur verið kallað eftir af þjóð­inni er að íslenskir stjórn­mála­menn standi vörð um íslenskar orku­auð­lindir og það fyr­ir­komu­lag sem hefur ríkt hér sem felst einna helst í því að orku­fyr­ir­tækin eru að langstærstum hluta í sam­fé­lags­legri eigu. Það hefur einnig verið mjög skýrt ákall um að erlendir aðilar geti ekki gert stórinn­kaup á íslensku landi. Það er því ljóst að þær áhyggjur sem margir hafa snúa að íslenskri póli­tík. EES-­samn­ing­ur­inn og ESB koma þar hvergi nærri. Við höfum hlustað á áhyggju­raddir og því hefur verið stigið lengra í því að vernda íslenska hags­muni.

Hvernig aukum við traust­ið?
Málið snýst því, eins og ég rit­aði í grein minni um páska, um traust á stjórn­mála­mönnum og stjórn­sýslu. Og hvernig aukum við traust í íslensku sam­fé­lagi? Jú, við aukum það með því að hlusta á rök ann­arra, hlusta á almenn­ing, greina áhyggj­urn­ar, leita lausna og ræða málin til hlítar og taka ákvarð­anir sam­kvæmt bestu fáan­legum upp­lýs­ingum og með hags­muni þjóð­ar­inn­ar, allr­ar, að leið­ar­ljósi.

Ábyrgð eða ábyrgð­ar­leysi?
Fram­sókn stendur vörð um hags­muni Íslend­inga. Það höfum við áður gert í stórum málum og er þar skemmst að minn­ast bar­áttu flokks­ins gegn því að íslensku almenn­ingur tæki á sig skuldir einka­bank­anna með Ices­a­ve. Við stöndum vörð um hags­muni heild­ar­inn­ar. Ef það er ástæða til að setja EES-­samn­ing­inn í upp­nám þá munu ábyrg stjórn­völd gera það. En þá aðeins að ástæða sé til. Aldrei eiga stjórn­völd að sýna af sér svo ábyrgð­ar­lausa hegðun að fórna mik­il­væg­asta milli­ríkja­samn­ingi Íslend­inga nema að ástæðan sé svo rík að slíkt verði ekki umflú­ið.

Við gefum ekki eftir full­veldi okkar
Eng­inn getur án sam­þykkis Alþingis og þess vegna íslensku þjóð­ar­innar lagt raf­orku­sæ­streng. Við gefum ekki eftir full­veldi okk­ar. Með fyr­ir­vörum Alþing­is, sem vísa bæði í yfir­lýs­ingar utan­rík­is­ráð­herra og orku­mála­stjóra ESB ann­ars vegar og hins vegar yfir­lýs­ingar sam­eig­in­legu EES-­nefnd­ar­innar höfum við bæði póli­tískar, þjóð­rétt­ar­legar og laga­legar yfir­lýs­ing­ar, máli okkar til stuðn­ings.

Fram­sókn stendur vörð um eign þjóð­ar­innar
Við þurfum hins vegar að nýta okkur áhuga og áhyggjur margra til að setja póli­tíska umræðu í gang um lög og reglur á Íslandi. Í því skyni mun Fram­sókn standa vörð um eign þjóð­ar­innar í Lands­virkj­un. Hún verður ekki bútuð upp og seld – ekki með okkar sam­þykki. Við munum berj­ast fyrir því að á Íslandi sitji allir við sama borð þegar kemur að kostn­aði við dreif­ingu raf­orku úr okkar sam­eig­in­legu auð­lindum sem eru í eigu þjóð­ar­inn­ar. Við viljum styrkja þennan sam­eig­in­lega grunn og eign­ar­hald t.a.m sjáum við fyrir okkur að sam­eina Lands­net og RARIK. Allt eru þetta mál­efni sem íslensk stjórn­mál og íslenska þjóðin ræður hvernig farið verður með. Eng­inn ann­ar.

Nærum ekki ótt­ann
Það er hættu­leg braut að ætla að gera EES-­samn­ing­inn að óvini. Það er hættu­leg braut að næra umræð­una með tor­tryggni og ótta. Og ótta við hvað? Jú, við það sam­starf sem við höfum átt við nágranna­þjóðir okkar í Evr­ópu. Ég er ekki með þessu að mæla ESB bót. Það er félags­skapur sem Ísland á að standa utan við.

EES-samningurinn hefur hins vegar fært okkur Íslend­ingum mikil lífs­gæði. Við­skipta­hags­munir okkar eru aug­ljósir en samn­ing­ur­inn hefur ekki síður áhrif á unga Íslend­inga sem geta stundað nám í háskólum um alla Evr­ópu þaðan sem þeir snúa heim með þekk­ingu og reynslu sem er íslensku sam­fé­lagi nauð­syn­leg og verður mik­il­væg­ari með hverju árinu sem líð­ur.

Lífs­gæði fram­tíð­ar­kyn­slóða
Ísland er í mik­illi og harðn­andi sam­keppni um ungt fólk og krafta þess. Ég full­yrði það að án EES-­sam­starfs­ins væri erf­ið­ara að byggja upp þau lífs­gæði á Íslandi sem ráða í fram­tíð­inni því hvar ungt og metn­að­ar­fullt fólk velur sér að vinna og búa með fjöl­skyldum sín­um.

Við horfum fram á breytta tíma þar sem atvinna tekur stökk­breyt­ing­um, þar sem menntun og nýsköpun mun skipta gríð­ar­miklu máli. Við þurfum að skapa verð­mæt­ari störf sem ganga ekki á auð­lindir nátt­úr­unnar heldur nýta þær á sjálf­bæran hátt er fram­tíð Íslands. Og þá erum við að tala um fram­tíð Íslands – hvernig hún verður best tryggð fyrir kom­andi kyn­slóð­ir.

Stjórn­mál skyn­sem­innar
Það er mik­il­vægt þegar kemur að auð­lindum Íslands að tryggja full yfir­ráð þjóð­ar­innar yfir þeim. Það er mik­il­vægt að við hugsum um hags­muni heild­ar­innar – í bráð og lengd. Það er einnig mik­il­vægt að við tökum ákvarð­anir um hags­muni þjóð­ar­innar á réttum for­send­um. Að við göngum ekki inn í stjórn­mál reið­inn­ar, stjórn­mál ótt­ans, og gerum þau að okkar lög­heim­ili og varn­ar­þingi.

Við höfum hlust­að. Við höfum kallað til sér­fræð­inga. Hlustað á álit. Við höfum kom­ist að nið­ur­stöðu. Hags­munir Íslands eru tryggðir með fyr­ir­vörum og aðgerðum sem eru skrif­aðar eftir ráð­gjöf helstu sér­fræð­inga og taka til­lit til þeirra áhyggju­radda sem hafa verið uppi í sam­fé­lag­inu.

Sigurður Ingi Jóhannsson, for­maður Fram­sóknar og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 14. maí 2019.

Categories
Greinar

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Deila grein

13/05/2019

Höfum við gengið til góðs götuna fram eftir veg?

Ég er stoltur og ánægður með árs­reikn­ing Hafn­ar­fjarðar árið 2018. Fjár­hags­staða sveit­ar­fé­lags­ins hélt áfram að styrkj­ast á árinu og skulda­við­mið sem var 135% í árs­lok 2017 er 112% í árs­lok 2018, eða undir skulda­við­miðum sam­kvæmt reglu­gerð um fjár­hags­leg við­mið og eft­ir­lit með fjár­málum sveit­ar­fé­laga.

Allar lyk­il­tölur sem skipta mestu máli eru jákvæð­ar. Rekstr­ar­nið­ur­staða fyrir afskriftir og vexti er 3,9 millj­arðar á móti 3,5 millj­örðum í áætlun og 3,6 millj­örðum frá fyrra ári. Þetta eru bæði A og B hluti, eða allt sveit­ar­fé­lag­ið. Með öðrum orð­um, við erum betur sett til að borga ennþá meira niður skuldir í fram­tíð­inni og láta fólkið í sveit­ar­fé­lag­inu njóta góðs af.

Fjár­fest­ingar í innviðum og þjón­ustu
Miklar fjár­fest­ingar voru í innviðum og þjón­ustu á liðnu ári og námu fjár­fest­ingar um 5,3 millj­örð­um. Þar ber helst að nefna bygg­ingu nýs skóla í Skarðs­hlíð fyrir um 2,1 millj­arð og hjúkr­un­ar­heim­ilis fyrir 850 millj­ón­ir. Kostn­aður við fram­kvæmdir vegna íþrótta­mann­virkja að Ásvöll­um, Kaplakrika og við Keili námu alls um 696 millj­ón­um. Keyptar voru íbúðir í félags­lega hús­næð­is­kerfið fyrir um 500 millj­ón­ir.

Hafa ber í huga þegar rætt er um kaup á félags­legu hús­næði að sveit­ar­fé­lagið situr uppi með for­tíð­ar­vanda í þeim mála­flokki sem nú er loks verið að taka á; vanda sem ekki var tekið á þegar þess þurfti. Þrátt fyrir að félags­legu hús­næði í Hafn­ar­firði hafi fjölgað mikið und­an­far­ið, blasir sú dap­ur­lega stað­reynd við okkur að á árunum 2009-2016 var ekki fjár­fest í félags­lega hús­næð­is­kerf­inu í Hafn­ar­firði. Sami fjöldi íbúða var árið 2008 og árið 2016. Vand­inn er því upp­safn­aður og á þeim vanda bera þeir einir ábyrgð sem á þeim tíma stjórn­uðu.

Ný lán
Í umræð­unni hefur því verið haldið á lofti að skuldir sveit­ar­fé­lags­ins séu að aukast og verið sé að taka ný lán sem eru umfram afborg­anir árs­ins. Það er vissu­lega rétt að tekin voru ný lán á árinu vegna upp­gjörs við Brú líf­eyr­is­sjóð, sem eru um 2 millj­arðar og um 1,4 millj­arður vegna bygg­ingar hjúkr­un­ar­heim­il­is. Auk þess var tekið lán fyrir 500 millj­ónir vegna fjár­fest­inga Hús­næð­is­skrif­stofu í félags­legu hús­næði. Greiðslur lang­tíma­skulda námu alls 1,6 millj­arði eða um 200 millj­ónum umfram afborg­anir sam­kvæmt lána­samn­ing­um.

Ég hef trú á því að hægt verði að gera enn betur á kjör­tíma­bil­inu, þegar kemur að nið­ur­greiðslu skulda. Það er sú leið sem er heilla­væn­leg­ust fyrir sveit­ar­fé­lagið og íbúa þess.

Ágúst Bjarni Garðarsson, for­maður bæj­ar­ráðs Hafn­ar­fjarð­ar.

Greinin birtist fyrst á kjarninn.is 12. maí 2019.