Categories
Greinar

Fjölskyldan í forgrunni

Deila grein

14/09/2019

Fjölskyldan í forgrunni

Þing­flokk­ur Fram­sókn­ar geng­ur bjart­sýnn til verka á þessu hausti með sam­vinnu og sam­fé­lags­lega ábyrgð að leiðarljósi. Flokk­ur­inn hef­ur sett fjöl­mörg verk­efni á odd­inn sem mörg hver snúa að bætt­um hag fjöl­skyldna og skil­virk­ari þjón­ustu við þær. Hraðar þjóðfé­lags­breyt­ing­ar skapa fjöl­skyld­um stöðugar áskor­an­ir sem mik­il­vægt er að mæta af festu.

Fé­lags- og barna­málaráðherra vinn­ur að um­bót­um á fæðing­ar­or­lofs­kerf­inu til að auka rétt for­eldra með leng­ingu or­lofs, hækk­un á mánaðarleg­um há­marks­greiðslum og end­ur­skoðun á for­send­um greiðslna. Á ár­inu 2021 mun sam­an­lagður rétt­ur for­eldra til fæðing­ar­or­lofs lengj­ast úr níu í tólf mánuði. Þá munu fram­lög til barna­bóta aukast á næsta ári þegar skerðing­ar­mörk hækka sem þýðir að fleiri njóta barna­bóta.

Nú stend­ur yfir víðtæk end­ur­skoðun á mál­efn­um barna með aðkomu þver­póli­tískr­ar þing­manna­nefnd­ar, sem und­ir­rituð leiðir, og munu fyrstu frum­vörp­in úr þeirri vinnu koma til þings­ins í vet­ur. Vinn­an geng­ur m.a. út á að tryggja betri sam­fellu í nú­ver­andi þjón­ustu og brjóta niður múra milli kerfa. Mark­miðið er að fyr­ir­byggja vanda og tryggja að full­nægj­andi þjón­usta sé fyr­ir hendi þegar henn­ar er þörf, óháð efna­hag. Börn eiga ekki að bíða árum sam­an eft­ir þjón­ustu sem skipt get­ur sköp­un fyr­ir þeirra framtíð.

Heil­brigðis­stefna var samþykkt á síðasta þingi en hún á ræt­ur í þings­álykt­un Fram­sókn­ar frá ár­inu 2016. Það eru sjálf­sögð mann­rétt­indi að all­ar fjöl­skyld­ur eigi jafn­an aðgang að heil­brigðisþjón­ustu óháð efna­hag, stöðu eða bú­setu. Þá held­ur vinna við rót­tæk­ar breyt­ing­ar í hús­næðismál­um áfram og nú með sér­stakri áherslu á köld svæði á lands­byggðinni.

Heild­stæðar aðgerðir mennta- og menn­ing­ar­málaráðherra hafa skilað sér í stór­auk­inni aðsókn að kenn­ara­námi sem und­ir­bygg­ir enn öfl­ugra mennta­kerfi til framtíðar. Í haust verður lagt fram frum­varp sem mun um­bylta lánaum­hverfi náms­manna. Breyt­ing­arn­ar fela í sér meiri stuðning og jafn­ræði til náms með 30% niður­fell­ingu á lán­um ásamt sér­stök­um stuðningi við barna­fólk. Þess­ar tíma­móta­breyt­ing­ar verða þær mestu sem gerðar hafa verið á Lána­sjóði ís­lenskra náms­manna í 30 ár. Í vet­ur mun ráðherra einnig leggja fram heild­stæða mennta­stefnu til árs­ins 2030 fyr­ir Alþingi. Framúrsk­ar­andi mennt­un er lyk­il­for­senda þess að Ísland geti mætt áskor­un­um framtíðar­inn­ar og skapað ný tæki­færi til að efla sam­fé­lagið. Á Íslandi eiga all­ir að hafa jafn­an aðgang að framúrsk­ar­andi mennt­un, því all­ir geta lært og all­ir skipta máli.

Víðtæk sam­vinna er nú sem áður lyk­ill­inn að ár­angri. Þar ligg­ur grunn­ur­inn að far­sælu sam­fé­lagi.

Líneik Anna Sævarsdóttir, alþingismaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 14. september 2019.

Categories
Greinar

Látum tækifærin ekki fara framhjá okkur

Deila grein

13/09/2019

Látum tækifærin ekki fara framhjá okkur

Þann 8. september sl. birti Álfhildur Leifsdóttir fulltrúi VG í sveitarstjórn Sveitarfélagsins Skagafjarðar grein á feykir.is þar sem farið var yfir stöðu mála er varðar framkvæmdir við Aðalgötu 21 á Sauðárkróki, húsnæði sem nú hýsir glæsilega sýningu 1238.

Með eða á móti?
Ljóst hefur verið frá síðustu kosningum að fulltrúar VG hafa verið á móti aðkomu sveitarfélagsins að þessu verkefni. Raunar skiptu fulltrúar VG um skoðun í málinu viku eftir samþykkt samnings á milli Sýndarveruleika og Sveitarfélagsins Skagafjarðar sem byggðarráð samþykkti á fundi sínum 2. mars 2018, án nokkurra athugasemda frá fulltrúa framboðsins í byggðarráði. „En það má skipta um skoðun“ sagði Álfhildur um málið og það var svo sannarlega gert. Með því er reyndar líka verið að staðfesta fyrri afstöðu VG.

Auðvitað er það þannig að við þurfum ekki öll að vera sammála í öllum málum. Við eigum að halda skoðunum okkar á lofti, leggja fram rök og síðan er tekin ákvörðun – ákvörðun sem meirihluti er fyrir.

Varðveitum götumyndina
Það er ágætt að rifja upp að á sínum tíma lá fyrir heimild til að rífa húsin við Aðalgötu 21 að hluta til og ljóst að Kaupfélag Skagfirðinga, sem var eigandi húsanna, hafði ekki áform um að gera þau upp, og voru þau orðin beinlínis hættuleg þeim sem gengu um götuna. Því var tekin ákvörðun um að fara í makaskipti og hefjast handa við að laga húsnæðið með það að markmiði að vernda götumyndina og endurgera húsin í upprunalegri mynd. Um það var fullkomin samstaða í byggðarráði og til marks um þá samstöðu voru viðgerðir á húsnæðinu boðnar út í tvígang, fyrst lokað útboð og síðar opið útboð. Engin tilboð bárust og því var ákveðið að ganga til samninga við Performa um verkið. Engar athugasemdir voru heldur gerðar við þá ákvörðun.

Byggðasafnið er ekki á götunni
Til stóð að sýningar Byggðasafnsins myndu fara þar inn en ljóst var frá upphafi að það þyrfti eitthvað meira með. Sýningin um smiðjurnar sem var uppi í Minjahúsinu um 60fm en Aðalgata 21 er um 1100fm.

Álfhildur Leifsdóttir hefur haldið því fram að Byggðasafnið sé á götunni. Þessu er búið að halda fram frá síðustu kosningum og að enginn áhugi sé fyrir framtíð Byggðasafnsins innan raða meirihluta sveitarstjórnar. Þetta er rangt.

Byggðasafnið er ekki bara sýning heldur safn sem hefur m.a. það markmið að safna, varðveita, rannsaka, miðla og fræða. Stór hluti varðveittra muna safnsins hefur verið varðveittur í gamla Minjahúsinu. Byggðasafnið er einnig með starfsemi í Glaumbæ þar sem tugþúsundir koma á hverju ári og njóta þess sem fyrir augun ber. Kvartað hafði verið yfir því að húsnæði Byggðasafnsins í Minjahúsinu á Sauðárkróki stæðist ekki kröfur og nauðsynlegt væri að fara í endurbætur eða finna nýtt húsnæði. Búið er að fjárfesta í tímabundnu varðveisluhúsnæði fyrir Byggðasafn Skagfirðinga og munu flutningar hefjast mjög fljótlega. Stóra myndin er svo sú að ef áform ganga eftir munu framkvæmdir við nýtt menningarhús á Sauðárkróki hefjast á næsta ári en þar er gert ráð fyrir skrifstofum og varanlegu varðveislurými fyrir Byggðasafn Skagfirðinga. Verður það eitt fullkomnasta varðveislurými landsins. Eftir stendur að sýningin um smiðjurnar sem var í Minjahúsinu er óuppsett. Alltaf hefur verið stefnt að því að setja þá sýningu aftur upp og verður það gert. Byggðasafn Skagfirðinga er því ekki á götunni. Það er að mínu viti lítilsvirðing við margverðlaunað safn að tala þannig um það.

Auknar framkvæmdir
Ljóst er að framkvæmdir við Aðalgötu 21 hafa farið fram úr kostnaðaráætlun sem er aldrei gott. Hinsvegar ber að benda á að stór hluti aukins kostnaðar er tilkominn vegna viðbótarverka, verka sem ekki voru inn í áætlun en ákveðið var að fara í á seinni stigum. Má þar nefna sprinklerkerfi, lagfæringar á gólfi á efri hæð Gránu, vindfang norðan við húsið, auk þess sem Grána var viðhaldsfrekari en ráð var gert fyrir í áætlunum. Einnig var farið í meiri framkvæmdir á efri hæð Gránu og í kjallara. Stór hluti fjárfestingarinnar rennur til verktaka í Skagafirði sem skilar sér aftur inn í hagkerfið hér heima.

Við vitum að erfitt getur verið að áætla kostnað í uppgerð gamalla bygginga en engu að síður er mikilvægt að þær áætlanir sem lagðar eru fram séu sem næst raunkostnaði þegar upp er staðið. Það er verkefni allra sem eru í framkvæmdum.

Fyrir síðustu kosningar sögðu fulltrúar VG að kostnaður við verkefnið yrði 770 milljónir króna á ári út samningstímann. Miðað við það má áætla að heildarkostnaður sveitarfélagsins verði yfir 23 milljarðar á 30 ára tímabili. Það sér það hver maður að slíkar tölur eiga sér enga stoð í raunveruleikanum enda öllum ljóst að slíkt myndi sliga sveitarsjóð strax á fyrsta ári. Það er ótrúlegt að kjörnir fulltrúar beri slíkan skáldskap á borð fyrir kjósendur. Við vonum að kjörnir fulltrúar viti betur því annars efumst við um hæfni þeirra til að reka sveitarfélag. Við skorum á íbúa að skoða ársreikninga sveitarfélagsins með þeim gleraugum að finna 770 milljóna króna árlegan kostnað vegna verkefnisins því ljóst er að slík upphæð myndi verða mjög áberandi og ætti ekki að fara framhjá neinum.

Ný fjárfesting – nýir möguleikar – ný störf
Það er ekki síður mikilvægt að fá nýtt fjármagn inn á svæðið og ný fyrirtæki til að festa rætur. Mikið hefur verið talað um að fá nýja fjárfestingu inn á svæðið og hafa öll framboð í sveitarstjórn verið sammála um mikilvægi þess. Það er þekkt að sveitarfélög hafa aðstoðað við slíkt í byrjun, aðstoði fyrirtæki við að koma sér fyrir. Má nefna í þessu samhengi sjóböðin á Húsavík, Landnámssetrið í Borganesi og Steinullarverksmiðjuna hér á Sauðárkróki. Við eigum að bjóða nýja fjárfesta velkomna og verkefni sem geta eflt samfélagið hér í Skagafirði. Hafa ber í huga að 12 manns eru nú þegar á launaskrá hjá Sýndarveruleika ehf., svo sem lesa mátti nýlega um í héraðsfréttablaðinu Feyki. Er um að ræða ný störf sem voru ekki til áður.

Nýsköpun í ferðaþjónustu af þessum toga hefur skipt sköpum í því að hingað til Skagafjarðar hefur fjöldi skemmtiferðaskipa boðað komu sína á næstu árum. Einnig er þessi viðbót við afþreyingarflóru í ferðaþjónustu mikilvæg til að fá ferðamenn til að dvelja lengur í Skagafirði.

Það eru einnig miklir möguleikar bundnir í þeirri tækni sem forsvarsmenn 1238 hafa komið með í Skagafjörð. Hægt er að nýta aðstöðu í sýndarveruleika í aðra leiki og eins í fræðslu og miðlun fyrir skóla í leik og kennslu. Það hljóta að liggja tækifæri í því að a.m.k. skólar hér í Skagafirði nýti þá tækni sem 1238 hefur upp á að bjóða fyrir nemendur sína og viljum við skora á skólastjórnendur að skoða þann möguleika með opnum huga.

Horfum fram á veginn
Eftir standa hús sem mikil prýði er af og götumynd sem er gjörólík því sem fyrir var. Aðalgata 21 hýsir nú nýja og glæsilega sýningu 1238 Baráttan um Ísland sem ber fagurt vitni öllum þeim sem að verkefninu koma. Sýningu sem á án efa eftir að verða segull fyrir Skagafjörð og Sauðárkrók þegar kemur að því að fjölga ferðamönnum á svæðinu.

Hverju vildum við ná fram með verkefninu?

  • Lagfæringu á Aðalgötu 21 og bættri götumynd
  • Fá nýja þekkingu inn á svæðið – efla nýsköpun
  • Fjölga störfum í sveitarfélaginu og auka fjölbreytni þeirra
  • Efla ferðaþjónustu í Skagafirði – laða að fleiri ferðamenn
  • Koma Skagafirði betur á kortið hjá þeim fjölmörgu ferðamönnum sem heimsækja landið á hverju ári – mynda nýjan segul
  • Vera í fararbroddi þegar kemur að sögutengdri ferðamennsku

Fyrirspurn Álfhildar Leifsdóttur var í mörgum liðum og við vonum að svör hafi komið við flestu sem hún var að spyrja um. Okkur langar að fá einfalt svar frá Álfhildi við einni spurningu sem er þessi: „Ef sveitarstjórnarfulltrúi VG væri í meirihluta, myndi hún leggja til riftun á þeim samningi sem til staðar er við Sýndarveruleika ehf.?“ Þá ber að hafa í huga að forsenda þess að umrædd sýning var sett upp á Sauðárkróki er sá samningur sem sveitarfélagið gerði við Sýndarveruleika ehf. og að án aðkomu sveitarfélagsins hefði aldrei orðið af verkefninu. Svar við þessari spurningu er mikilvægt að vita fyrir sveitarstjórnarfólk, íbúa og rekstraraðila sýningarinnar 1238 Baráttan um Ísland.

Við erum sannfærðir um að þessi sýning á eftir að stuðla að fjölgun ferðamanna í Skagafirði og styðja við þau fjölmörgu fyrirtæki sem þar eru. Við eigum að fagna nýsköpun og nýjum tækifærum og standa saman í því verkefni að efla Skagafjörð, fjölga störfum og bæta búsetuskilyrði íbúa. Við eigum að hafa hugrekki til að þora að taka ákvarðanir og grípa ný tækifæri sem við teljum að komi samfélaginu til góða, annars fljúga þau einfaldlega framhjá okkur.

Stefán Vagn Stefánsson og Gísli Sigurðsson, oddvitar meirihluta sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Skagafjarðar

Greinin birtist fyrst á feykir.is 12. september 2019.

Categories
Greinar

Markvissar aðgerðir til að bæta umsýslu jarða og landnýtingu

Deila grein

07/09/2019

Markvissar aðgerðir til að bæta umsýslu jarða og landnýtingu

Þingflokkur Framsóknar setur jarðamál í forgang á þessu þingi með þingsályktunartillögu og með frumkvæði að reglulegri umræðu um jarðir og landnýtingu í þingsal.

Í tillögunni eru tilgreindar 7 aðgerðir sem ætlað að styrkja núverandi lagaumgjörð og reglur um ráðstöfun og nýtingu auðlinda á Íslandi og styrkja grundvöll til eftirfylgni slíkra reglna. Markmiðið er að skapa fleiri tækifæri til heilsársbúsetu í dreifbýli, fjölbreyttrar sjálfbærrar landnýtingar, matvælaframleiðslu og nýsköpunar. Tillagan fellur vel að markmiði ríkisstjórnarinnar um skýrari lagaramma fyrir jarða- og landaviðskipti og að framkomnu frumvarpi um minnihlutavernd í veiðfélögum.

Hraða þarf flokkun landbúnaðarlands

Nauðsynlegt er að hraða gerð leiðbeininga um flokkun á landbúnaðarlandi svo sveitarfélög geti sett markmið um ráðstöfun lands í skipulagsáætlanir sínar. Þannig verði skýrt hvaða land sé ætlað til landbúnaðar og hvað til annarra nota. Einnig væri mögulegt að skilgreina hvar hægt sé að gera kröfu um heilsársbúsetu, t.d. á grundvelli innviða eins og vega, rafmagns og ljósleiðara. Framsókn vill endurskoða löggjöf sem nær yfir skráningar á landeignum og eignarmörkum. Landeignaskrá með hnitsettum eignarmörkum er forsenda þess að hægt sé að fylgja eftir reglum um ráðstöfun landeigna, en lög um skráningu lands gera ekki ráð fyrir tölvum og nútímamælitækni.

Kæruleysi eða samstilltir kraftar

Umræðan um jarðamál kemur reglulega upp, einkum í tengslum við jarðakaup fjársterkra erlendra aðila. Það er löngu orðið tímabært að taka heildstætt á jarðamálum á Íslandi og samhæfa verkefni ólíkra stjórnvalda. Liður í því er að samhæfa lög, reglur og verklag á þessu sviði. Reglurnar þurfa að taka mið af 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar og þeirra alþjóðlegu skuldbindinga sem Ísland hefur undirgengist. Við lítum svo á að gengið hafi verið lengra í að opna heimildir til kaupa á landi en skuldbindingar Íslands gagnvart EES samningnum gera ráð fyrir. Stjórnvöld þurfa að taka grundvallarákvörðun um hvernig þessum málum skuli háttað nú og til framtíðar. Einnig þarf að vinna að því að skilyrði leyfa verði skýr, nákvæm og gagnsæ.

Land er dýrmæt auðlind

Í núverandi lagaumhverfi geta rúmlega 500 milljón manns keypt land og aðrar fasteignir á Íslandi með sömu skilyrðum og íslenskir ríkisborgarar. Nágrannaþjóðir okkar hafa sett mun meiri hömlur á ráðstöfun fasteigna og aðilaskipti en Ísland. Í Danmörku þurfa t.d. einstaklingar sem ekki eru heimilisfastir í landinu, eða hafa búið þar í tiltekinn tíma að fá leyfi dómsmálaráðuneytisins til að öðlast fasteignaréttindi. Með því að gera jarðakaup leyfisskyld er hægt að tryggja nauðsynlega aðkomu ríkis og sveitarfélaga að eigendaskiptum jarða til að fylgja eftir lögum, reglum og ákvæðum aðal-, svæðis- og deiliskipulaga.

Framsókn leggur til að gerð verði krafa um að kaupandi lands búi á Íslandi, hafi búið þar í a.m.k. fimm ár eða hafi starfsemi í landinu. Áhersla er lögð á að tilgangur jarðakaupanna þurfi að vera skýr. Margskonar markmið sem styrkja búsetu og samfélög geta fallið þar undir, s.s. búfjárrækt, uppbygging gróðurauðlindar, landfrek atvinnustarfsemi eða nýsköpun byggð á sérstöðu viðkomandi jarðar eins og menningarverðmætum eða náttúru. Lykilatriði er að sveitarfélög og ríkisvald fái aðkomu að ráðstöfun lands en aðgerðaráætluninni er ætlað að tryggja það. Regluverkið þarf að vera það sveigjanlegt að hægt sé að bregðast við ólíkum aðstæðum í byggðarlögum og landshlutum. Miklir almannahagsmunir eru í húfi og því þarf að vanda til verka.

Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórarinn Ingi Pétursson alþingismaður og varaþingmaður fyrir Framsóknarflokkinn í Norðausturkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í austurfrettis.is 6. nóvember 2019.

Categories
Greinar

Menntun svarar stafrænu byltingunni

Deila grein

06/09/2019

Menntun svarar stafrænu byltingunni

Stafræna byltingin hefur áhrif á daglegt líf okkar allra. Miklu af þeirri þjónustu sem við áður sóttum til fyrirtækja eða opinberra aðila sinnum við nú sjálf í gegnum snjallsíma. Sjálfvirknivæðingin, sýndarveruleikinn og gervigreindin eru komin til að vera og eru að umbylta landslagi menntunar og vinnumarkaðar. Í gegnum tíðina hafa falist mörg tækifæri fyrir Ísland í tæknibyltingum. Við höfum séð vinnumarkaðinn gjörbreytast á stuttum tíma og menntun verður að mæta þessum nýju og spennandi tímum.

Meðal mikilvægustu verkfæra unga fólksins okkar, sem móta munu framtíð samfélagsins, eru samvinnuhæfni, frumkvæði, skapandi hugsun og það að geta unnið með upplýsingar og tækni á fjölbreyttan hátt. Fjórða iðnbyltingin krefur okkur með sínum öru samfélags- og tæknibreytingum um nýja nálgun á ýmis kerfi, þar með talið menntun og starfsþjálfun af öllu tagi. Sem dæmi um gott viðbragð við breyttum tímum er nýtt nám sem hófst við Verzlunarskóla Íslands nú í haust. Það ber yfirskriftina „Stafræn viðskiptalína“ og er skipulagt í góðu samstarfi við atvinnulífið, meðal annars í gegnum SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu. Markmið námsins er að mæta nýjum þörfum atvinnulífsins en sérstaða námsins er meðal annars fólgin í áföngum sem tengjast stafrænum lausnum, greiningu á gögnum og notagildi samfélagsmiðla. Þá fer hluti námsins fram í starfsnámi sem útfært verður í samstarfi við ýmis fyrirtæki. Þegar ég heimsótti nemendur á þessari nýju braut í vikunni spurði ég þá af hverju þetta nám hefði orðið fyrir valinu. Svörin voru margvísleg en eitt stóð upp úr: „Við vitum hversu mikilvægt það er að við höfum góðan skilning á forritun, bæði til að skilja samfélagið og hvað bíður okkar.“

Ég fagna nýjungum í menntun á Íslandi og sérstaklega þeim sem miða að því að mæta þörfum framtíðarinnar og efla tengsl menntakerfisins við samfélagið. Ég óska Verzlunarskólanum og Samtökum verslunar og þjónustu til hamingju með þennan áfanga og nýja námið.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 6. september 2019.

Categories
Greinar

Auðlindirnar okkar

Deila grein

05/09/2019

Auðlindirnar okkar

Umræðan um stefnumörkun í orkumálum og eignarhald og nýtingu auðlinda hefur verið í brennidepli síðustu misseri. Umræðan er mjög mikilvæg og hefur ýtt við stjórnvöldum um/í að setja skýrari stefnu varðandi eignarhald og nýtingu á jörðum og um að gerð verði breyting á lögum um vatnsréttindi, sem og að skoða breytingar á dreifingarkostnaði raforku með jafnræðissjónarmið að leiðarljósi.

Sama verð fyrir alla

Eitt verð fyrir dreifingu raforku, þ.e einn taxti fyrir dreifbýli og þéttbýli, og jafnvel sérstakur taxti fyrir garðyrkjuna, hafa einnig borið hátt í umræðuna. Að mínu mati er það réttlætismál að allir landsmenn greiði sama verð fyrir dreifingu raforku. Núverandi ríkisstjórn ætlar sér að breyta þessu, sem er vel. Og ef við ætlum raunverulega að verða sjálfbærari hvað matvælaframleiðslu varðar, fækka kolefnisfótsporum og tryggja endurnýjun og vöxt innan garðyrkjunnar, er mál til komið að taka pólitíska ákvörðun og hafa sérstaka taxta fyrir garðyrkjubændur. Það þætti mér vera framfaraskref.

Auðlindaákvæði í stjórnarskrá

Nú er ekkert ákvæði í stjórnarskrá Íslands um sameign þjóðarinnar á auðlindum þrátt fyrir að 80% þjóðarinnar hafi greitt atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu um að þau vildu fá slíkt ákvæði. Auðlindaákvæði er nú loks komið í samráðsgátt Stjórnarráðsins og gerir ráð fyrir því að þessi þjóðareign verði undirstrikuð í stjórnarskrá. Vonandi myndast samstaða hjá þingheimi um að afgreiða ákvæðið þegar það kemur til afgreiðslu í þingsal.

Uppkaup á vatnsréttindum

Fyrir fáum árum síðan var lítil eftirspurn eftir bújörðum. Framsýnir fjárfestar sáu sér leik á borði og keyptu upp fjölmargar jarðir. Sumir eiga orðið umtalsverð jarðasöfn. Margir hafa áhyggjur af þessari þróun. Góðar bújarðir eru ekki endilegar nýttar sem slíkar. Aðgengi almennings hefur í sumum tilfellum verið takmarkað mjög, eitt dæmi um það er Mýrdalurinn. Við erum með hvað frjálslegasta löggjöf innan EES um þessi mál og gætum litið til annarra landa, hvort sem er Danmerkur, Noregs eða Írlands, um skýrari ramma. Það er tími til kominn að löggjafinn setji skýrari ramma um landakaup og ræði jafnframt hvort það sé eðlilegt að vatnsréttindi fylgi landsréttindum. Hér eru erlendir fjárfestar að fjárfesta fyrir á fimmta milljarð í vatnsverksmiðjum. Þeir eru að fjárfesta í vatnsréttindum og vatnsauðlindinni. Ég er ekki viss um að það þjóni hagsmunum Íslands til lengri tíma.

Land er ekki „venjuleg“ fasteign

Við höfum ekki enn sett regluverk um kaup á landi og endurskoðað þar með þá löggjöf sem sett var fyrir fimmtán árum. Þá voru allar gáttir opnaðar, sem var ekki til bóta. Ríkisstjórnin hefur hins vegar í hyggju að setja aftur á slíkar reglur. Meðferð og notkun alls lands skiptir alla landsmenn máli, bæði nú og til framtíðar. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun og meðferð lands og því geta ekki gilt sömu reglur um kaup og sölu á landi eins og á hverri annarri fasteign.

Silja Dögg Gunnarsdóttir, alþingmaður Framsóknar í Suðurkjördæmi.

Greinin birtist fyrst í Suðra 5. september 2019.

Categories
Greinar

Okkar eina líf

Deila grein

05/09/2019

Okkar eina líf

Vitundarvakning söfnunarinnar »Á allra vörum« sem hleypt var af stokkunum sl. sunnudag hefur hreyft við þjóðinni. Málefnið sem sett er í forgrunn átaksins er misnotkun lyfseðilsskyldra lyfja og ótímabær dauði ungmenna vegna þeirra. Safnað er nú fyrir framkvæmd þjóðarátaks í þágu forvarna og fræðslu til grunnskólanema sem standa mun til ársins 2022. Forvarnarverkefnið verður undir merkjum slagorðsins »VAKNAÐU – þú átt bara eitt líf« og verður leitt af samtökum sem þegar hafa unnið mikilsvert starf á því sviði, Minningarsjóði Einars Darra Óskarssonar. Einar var einn þeirra 39 sem létust vegna lyfjaneyslu á árinu 2018, þá aðeins 18 ára að aldri.

Aðgengi og framboð á lyfjum og vímuefnum, sem mörg eru mjög ávanabindandi, hefur breyst mikið á undanförnum árum og notkun þeirra virðist mun almennari en áður. Við þurfum að vera vakandi fyrir afleiðingum þeirrar þróunar því hún snertir okkur öll. Markmið átaksins er að vekja þjóðina til umhugsunar og tala opinskátt um þessi mál til að koma megi í veg fyrir þann skaða sem þessi efni geta valdið, ekki síst ungu fólki. Tölfræðin sýnir okkur að það er brýnt tilefni til aðgerða. Samkvæmt málaskrárkerfi ríkislögreglustjóra fjölgaði málum þar sem grunur er á brotum á lyfsölulögum um 229% milli áranna 2015 og 2018. Dauðsföllum vegna lyfjanotkunar fjölgaði um 56% á árunum 2016-2018. Samkvæmt niðurstöðum könnunar Rannsókna & greiningar frá 2018 höfðu 8% framhaldsskólanema undir 18 ára aldri notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils oftar en einu sinni um ævina og 12% framhaldsskólanema eldri en 18 ára. Tæp 11% grunnskólanema í 10. bekk höfðu tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar um ævina sem ekki var ávísað á þau og 1,5% höfðu reynt örvandi lyf sem ekki voru þeim ætluð.

Við Íslendingar náðum eftirtektarverðum árangri í því að minnka áfengis- og tóbaksneyslu ungmenna en með nýjum tímum koma nýjar áskoranir. Við vitum hvaða aðferðir virka vel, fræðsla og öflugt foreldrasamstarf eru mikilvægir þættir, en einnig virk þátttaka í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Ég er þess fullviss að við munum ná árangri í þessu mikilvæga verkefni með góðri samvinnu heimila, skóla, félagasamtaka og stjórnvalda. Sem ráðherra menntamála fagna ég einlæglega framtaki »Á allra vörum« og hvet alla til þess að kynna sér þetta mikilvæga málefni og leggja því lið.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. september 2019.

Categories
Greinar

Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni strandar á íbúðaskorti

Deila grein

31/08/2019

Atvinnuuppbygging á landsbyggðinni strandar á íbúðaskorti

Húsnæðismál hafa verið ofarlega á baugi síðastliðin ár enda ríkir skortur á íbúðarhúsnæði víða um land. Ríkisstjórnin hefur langt mikla áherslu á að efla húsnæðismarkaðinn og stuðla að auknu jafnvægi á honum óháð efnahag og búsetu. Fjölmörgum aðgerðum hefur nú þegar verið hrundið í framkvæmd til að bregðast við og eru aðrar í bígerð. Landsbyggðin hefur lögnum þótt sitja eftir í þessum efnum. Uppbygging íbúðarhúsnæðis víða um land hefur ekki fylgt auknum íbúafjölda, frekar en á höfuðborgarsvæðinu og eru dæmi um að skortur á íbúðarhúsnæði hafi staðið atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum.

Tillögur unnar í samstarfi við sveitarfélög

Á haustmánuðum setti ég af stað tilraunaverkefni um húsnæðismál á landsbyggðinni með Íbúðalánasjóði, Byggðastofnun og Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Var það gert í því skyni að leita leiða til þess að bregðast við langvarandi stöðnun á húsnæðismarkaði víða um land.

Þrjátíu og þrjú sveitarfélög af öllu landinu sóttu um þátttöku. Sjö urðu fyrir valinu og tók valið mið af því að áskoranirnar sem þau stæðu frammi fyrir væru mismunandi og á ólíkum landsvæðum. Þannig yrði til breiðara framboð lausna í húsnæðismálum sem nýst geti sem flestum sveitarfélögum sem á þurfa að halda. Íbúðalánasjóður hefur undanfarna mánuði unnið náið með tilraunasveitarfélögunum að því að greina þann vanda sem þau standa frammi fyrir og undirbúa tillögur að aðgerðum.

Tólf tillögur að aðgerðum

Á grundvelli þeirrar vinnu voru lagðar fram tólf tillögur að lausnum sem kynntar voru fyrir ríkisstjórn í maí og birtar í samráðsgátt stjórnvalda í lok júlí. Þær umsagnir sem bárust voru allar jákvæðar og var í kjölfarið ákveðið að tillögurnar yrðu innleiddar.

Í byrjun vikunnar skrifaði ég undir breytingar á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs sem gerir það að verkum að sveitarfélög, einstaklingar og óhagnaðardrifin félög á landsbyggðinni muni geta tekið lán hjá Íbúðalánasjóði til húsnæðisuppbyggingar á stöðum þar sem opinber húsnæðisáætlun, staðfest af Íbúðalánasjóði, sýnir að skortur sé á húsnæði af því tagi sem byggja á. Þá verður brugðist við skorti á hagkvæmu leiguhúsnæði með því að gera sveitarfélögum á landsbyggðinni kleift að byggja íbúðir í almenna leigukerfinu með auknu stofnframlagi ríkisins og verður frumvarp þess efnis lagt fram á haustþingi.

Öflug byggðastefna er hagsmunamál okkar allra

Það er mikilvægt að atvinnutækifæri séu nýtt allt í kringum landið en dæmi eru um að skortur á íbúðarhúsnæði hamli frekari uppbyggingu. Sá skortur er tilkominn vegna þess að misvægi er á milli byggingarkostnaðar og markaðsverðs. Mikilvægt er að húsnæðisskortur standi ekki í vegi fyrir því og geri það að verkum að fólk fáist ekki til starfa. Sé það raunin ber stjórnvöldum að mínu viti skylda til þess að grípa til aðgerða og eftir því hefur ítrekað verið kallað. Með þeim aðgerðum sem ákveðið hefur verið að ráðast í til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni erum við að undirstrika vilja ríkisvaldsins til að standa við bakið á heimamönnum í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálráðherra.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. ágúst 2019.

Categories
Greinar

Liður í að bæta lífskjör blindra og sjónskertra

Deila grein

22/08/2019

Liður í að bæta lífskjör blindra og sjónskertra

Blindrafélagið, samtök blindra og sjónskertra á Íslandi, fagnaði áttatíu ára afmæli þann 19. ágúst síðastliðinn. Frá upphafi hefur félagið unnið að hagsmunamálum blindra og sjónskertra auk þess að veita margvíslega þjónustu og standa fyrir öflugu félagsstarfi, fræðslu og jafningjastuðningi. Félagið hefur jafnframt stuðlað að því að tryggja samræmda heild í þjónustunni þar sem ríki, sveitarfélög og hagsmunasamtök notenda hafa tekið höndum saman með góðum árangri.

Á liðnum árum hefur Blindrafélagið unnið markvisst að því að fjölga leiðsöguhundum til að mæta þörfum félagsmanna sinna. Áratugahefð er fyrir því að blindir og sjónskertir um nánast allan heim nýti hunda í daglegu lífi til þess að komast á milli staða. Hefðin er ekki eins rík hér á landi en á rætur að rekja til þess að fyrir rúmum tíu árum safnaði Blindrafélagið ásamt Lionshreyfingunni á Íslandi fyrir fjórum leiðsöguhundum sem keyptir voru frá Noregi. Það markaði upphafið að því sem síðan hefur verið kallað leiðsöguhundaverkefnið og félagið stendur að í samvinnu við Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu.

Tólf leiðsöguhundar hafa verið keyptir í gegnum þetta verkefni á síðastliðnum tíu árum og sem stendur eru átta leiðsöguhundar hér á landi. Fimm koma fullþjálfaðir frá Svíþjóð og þrír eru fæddir og þjálfaðir hér á Íslandi. Hundarnir mættu hins vegar vera fleiri enda eru þeir afar mikilvægur liður í því að auka sjálfstæði blindra og aðlögun þeirra og þátttöku í samfélaginu.

Fyrir liggur greinargóð skýrsla Blindrafélagsins og fyrrnefndrar Þjónustu og þekkingarmiðstöðvar um hvernig staðið hefur verið að þjálfun, fjármögnun og úthlutun á leiðsöguhundum hér á landi. Þar er jafnframt að finna tillögur til framtíðar. Í tilefni afmælis félagsins ákvað ég að leggja verkefninu lið með þriggja milljón króna styrk fyrir kaupum og þjálfun á leiðsöguhundi. Hugmyndin er að flýta þannig fyrir framvindu verkefnisins. Þá hyggst ég stofna sérstakan samráðshóp sem fær það hlutverk að vinna að framþróun verkefnisins með tilliti til þeirra tillagna sem komið hafa fram.

Blindrafélagið hefur alla tíð vakað yfir þörfum félagsmanna og stöðugt leitað leiða til að sækja fram á við með það að markmiði að bæta lífskjör og aðstæður þeirra. Leiðsöguhundaverkefnið er skýrt dæmi þess.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. ágúst 2019.

Categories
Fréttir Greinar

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Deila grein

15/08/2019

Í upphafi skyldi endirinn skoða

Fá mál á vettvangi löggjafans hafa verið jafn mikið rædd síðustu ár og innleiðing 3 orkupakkans í löggjöf um raforkumál nú á þessu ári. Þá hefur þetta mál allt vakið upp miklar tilfinningar og ótta meðal almennings, enda erfitt að sjá og skilja hvað þessi innleiðing á regluverki geri fyrir land og þjóð. Hafa þeir, sem eru á móti innleiðingunni, sett fram ýmis rök um að með þessu sé verið að greiða fyrir lagningu sæstrengs til landsins, forræði yfir þessum mikilvægu auðlindum sem endurnýjanleg orka er sé í hættu, verð á raforku hækki og jafnframt að yfirstjórn orkumála færist af okkar hendi sem þjóðar yfir til Evrópusambandsins smátt og smátt með hverjum pakkanum sem frá Brussel kemur.
Á móti hafa þingmenn og ýmsir embættismenn bent á að um sé að ræða innleiðingu á löggjöf sem lítil áhrif hafi hér á landi þar sem Ísland er einangrað raforkukerfi í ljósi legu landsins. Um sé að ræða einn lið í samstarfi Evrópuþjóða á grundvelli EES og engin hætta sé á að við missum neitt forræði yfir okkar raforkumálum. Það sé okkur nauðsynlegt að vera í alþjóða samstarfi og samningar eins og EES kalli á samstarf á báða bóga. Þá séu þeir fyrirvarar sem ríkisstjórnin hefur sett við innleiðingu 3 orkupakkans þannig að í engu sé sjálfstæði og fullveldi okkar stefnt í voða í máli þessu.
Það væri að æra óstöðugan að týna til allt það sem sagt hefur verið um þetta mál á síðustu mánuðum enda hefur umræðan, því miður, ekki verið á köflum mjög málefnaleg né farið í röksemdir og þarfir okkar sem þjóðar. Spilað hefur verið á tilfinningar og þá taktík að búa til óvini í umræðunni á báða bóga. Þá hefur það ekki einfaldað neinum að taka afstöðu til málsins að lögfrótt fólk hefur ruðst fram á ritvöllinn með mismunandi skilning og skoðanir á málinu.
En engu að síður er nauðsynlegt að hlusta á alla þá gagnrýni sem þetta mál hefur fengið á sig og afskrifa hana ekki sem þjóðernisraus og afturhald. Kannanir sýna að þjóðin hefur áhyggjur af hvað innleiðing 3 orkupakkans hefur í för með sér, í framtíðinni, en fyrir hana vinna kjörnir fulltrúar og embættismenn þar sem hagsmunir heildarinnar ættu að vera að leiðarljósi.
Það er morgunljóst að við sem lítil og friðsæl þjóð þurfum að eiga í góðu samstarfi um heim allan. Bæði til að koma afurðum okkar í verð, flytja inn það sem okkur vantar og taka þátt í samstarfi þjóða á sem flestum sviðum til að leggja okkar að mörkum. Slík nauðsynleg samvinna er meðal annars fólgin í EES samningnum sem við höfum verið þáttakendur í síðastliðinn 25 ár og hefur fært okkur ýmsis lífsgæði sem við tökum orðið sem sjálfsögðum hlut. Engu að síður þurfum við í ljósi stærðar okkar og sérstöðu að nýta okkur undanþágur þar sem við á í því samstarfi og að tillit sé tekið til sérstöðu okkar sem lítils ríkis og um slíkt sé ekki vafi sem hægt er að rangtúlka.
Innleiðing orkupakka 3 er fyrsta mál á dagskrá þegar Alþingi kemur saman að nýju eftir sumarfrí nú í lok ágúst. Að mínu mati er brýnt til að umræðan rati ekki í sama farið aftur, með tilheyrandi sundrungu, að þingheimur sammælist um það að málið, eins og það er nú sett fram með þeim fyrirvörum að hingað sé ekki hægt að leggja sæstreng án samþykkis Alþingis og þeir hlutar orkupakkans sem snúa að flutningi yfir landamæri taki ekki gildi, verði sent til sameiginlegu EES nefndarinnar til umsagnar og staðfestingar á því hvort áðurnefndir fyrirvarar haldi þannig að slíkt sé hafið yfir allan vafa. Þegar sú niðurstaða liggur fyrir þá verði orkupakkinn fyrst innleiddur þegar óvissunni hefur verið eytt og rökin í málinu orðin skýr.
Það er eðlilegt að mál sem þetta þar sem framtíð orkuauðlinda þjóðarinnar blandast inn í sé umdeilt. Því er nauðsynlegt að allt í kringum það sé skýrt framsett og óvissu gæti ekki þannig að hægt sé að ala á úlfúð og hræðslu. Framtíð okkar og byggðar í landinu öllu mun ekki síst liggja í því hvernig orkumálum verði umhaldið og nauðsynlegt er að almannaheill sé höfð í forgrunni.
Eitt af grunngildum Framsóknarflokksins sem samvinnuflokks í gegnum tíðina hefur verið slagorðið; Máttur hinna mörgu, þar endurspeglast að samvinna heildarinnar skilar ávallt meiru. Þó misjafnar skoðanir séu á samvinnu- eða einkarekstri þá hljótum við að geta verið öll sammála um að slík grunnstoð sem orkuauðlindir eru þurfa að vera í almannaeign og öll stjórnsýsla í kringum þær hafnar yfir vafa.
 
Höfundur er forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar og ritari Framsóknarflokksins.
 
 

Categories
Greinar

Aðgerðir á húsnæðismarkaði að skila árangri

Deila grein

15/08/2019

Aðgerðir á húsnæðismarkaði að skila árangri

Hlutfall fyrstu kaupenda af heildarfjölda íbúðarkaupenda hefur farið stöðugt vaxandi á síðastliðnum misserum og árum að því er fram kemur í nýjustu mánaðarskýrslu Íbúðalánasjóðs. Það eru mjög jákvæðar fréttir og sýna að nú sé orðið auðveldara en áður fyrir stærri hóp að safna fyrir útborgun í íbúð. Það er sérstaklega ánægjulegt í ljósi þess að eitt af lykilatriðunum í yfirlýsingu stjórnvalda um stuðning við lífskjarasamninga aðila vinnumarkaðarins frá því í vor var að auðvelda ungu fólki og tekjulágum að komast inn á fasteignamarkaðinn.

Betur má ef duga skal

Þetta er vissulega fagnaðarefni en betur má ef duga skal. Í skýrslu sem verkefnisstjórn, sem ég skipaði til að fjalla um aðgerðir til að lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn, skilaði af sér í vor, kom fram að þröskuldur ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkað væri enn of hár. Þrátt fyrir aukinn kaupmátt og sögulega lága raunvexti. Í félagsmálaráðuneytinu er því unnið að því, í samstarfi við Íbúðalánasjóð og aðila vinnumarkaðarins, að útfæra enn frekari úrræði til stuðnings fyrstu kaupendum og tekjulágum.

Hinir tekjulægstu mega ekki gleymast

Húsnæði er grunnþörf allra og það er óábyrgt ef við skiljum stóra hópa eftir á húsnæðismarkaði. Leigumarkaðurinn nærri því tvöfaldaðist í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og samkvæmt könnun Íbúðalánasjóðs telja 92% leigjenda það óhagstætt að leigja og einungis 8% telja sig geta farið af leigumarkaði innan sex mánaða. Þá er ótalið allt það fólk sem missti húsnæði sitt í efnahagshruninu og hefur ekki komist inn á fasteignamarkaðinn á nýjan leik. Í mörgum tilfellum nær það fólk einfaldlega ekki að brúa bilið sem til þarf til að leggja fram 20-30% eigið fé við kaup á íbúð. Þessir hópar mega ekki gleymast.

Félagsmálaráðuneytið vinnur að margvíslegum fleiri aðgerðum til að stuðla að auknu jafnvægi og stöðugleika á húsnæðismarkaði. Nýlega var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda tilraunaverkefni á vegum Íbúðalánsjóðs til þess að bregðast við vanda sveitarfélaga á landsbyggðinni. Bind ég miklar vonir við að það geti orðið til þess að rjúfa stöðnun í atvinnumálum landsbyggðarinnar þar sem skortur á hentugu íbúðarhúsnæði hamlar oftar en ekki uppbyggingu atvinnulífs í héraði.

Á næsta þingi hyggst ég síðan mæla fyrir umfangsmiklum breytingum á lögum sem varða húsnæðismál. Þar á meðal eru breytingar á lögum um almennar íbúðir sem þegar hafa verið kynntar en þær felast meðal annars í breytingum á tekju- og eignamörkum þannig að fleiri eigi kost á að leigja og búa í almennum leiguíbúðum. Sömuleiðis eru fyrirhugaðar breytingar á húsaleigulögum til að tryggja enn betur réttarstöðu leigjenda.

Með fyrirhugaðri sameiningu Mannvirkjastofnunar og þess hluta Íbúðalánasjóðs sem snýr að framkvæmd húsnæðisstuðnings stjórnvalda verður til ný öflug húsnæðisstofnun. Stofnunin fær það hlutverk að framfylgja stefnu stjórnvalda um að almenningur hafi ávallt aðgang að viðunandi og öruggu húsnæði á viðráðanlegu verði í samræmi við þarfir hvers og eins, óháð efnahag og búsetu. Sú krafa kom jafnframt skýrt fram í lífskjarasamningunum. Framangreindar aðgerðir eru skref í þessa átt.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 15. ágúst 2019