Categories
Fréttir Greinar

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Deila grein

22/05/2024

Tímamót með nýrri ferðamálastefnu

Ferðaþjón­ust­unni hef­ur vaxið fisk­ur um hrygg á und­an­förn­um árum en ferðamenn sem hingað koma hríf­ast af menn­ingu okk­ar og hinni stór­brotnu ís­lensku nátt­úru sem er ein­stök á heimsvísu. Mæl­ing­ar sýna ein­mitt að þeir ferðamenn sem hingað koma njóta veru sinn­ar mikið og gefa Íslandi afar góða um­sögn.

Í liðinni viku tók Alþingi til um­fjöll­un­ar til­lögu mína til þings­álykt­un­ar um nýja ferðamála­stefnu til árs­ins 2030 og aðgerðaáætl­un henni tengda. Þjóðhags­legt mik­il­vægi ferðaþjón­ustu hér á landi hef­ur auk­ist veru­lega sam­hliða vexti grein­ar­inn­ar. Ytri staða þjóðarbús­ins stóð oft á tím­um tæpt hér á árum áður en straum­hvörf urðu á viðskipta­jöfnuði þjóðarbús­ins fyr­ir rúm­lega tíu árum þegar ferðaþjón­ust­an fór á flug í kjöl­far eld­goss­ins í Eyja­fjalla­jökli. Ferðaþjón­ust­an er í dag stærsti gjald­eyr­is­skap­andi at­vinnu­veg­ur þjóðar­inn­ar og mik­il­væg­ur drif­kraft­ur hag­vaxt­ar í land­inu.

Það skipt­ir máli að búa þess­ari stóru og þjóðhags­lega mik­il­vægu at­vinnu­grein sterka um­gjörð og marka skýra sýn á það hvert skal haldið. Þar mun ný ferðamála­stefna skipa veiga­mik­inn sess. Vinna við hina nýju ferðamála­stefnu hef­ur verið eitt af for­gangs­mál­um mín­um í menn­ing­ar- og viðskiptaráðuneyt­inu. Sjö starfs­hóp­ar hafa unnið að ferðamála­stefn­unni, sem hafa verið skipaðir af 6-8 sér­fróðum aðilum. Ferðaþjón­ust­an er fjöl­breytt og skemmti­leg at­vinnu­grein, sem end­ur­spegl­ast ein­mitt í hóp­un­um en þeir náðu utan um sjálf­bærni og orku­skipti, sam­keppn­is­hæfni og verðmæta­sköp­un, rann­sókn­ir og ný­sköp­un, upp­bygg­ingu áfangastaða, hæfni og gæði, heilsu-, veit­inga- og hvata­ferðaþjón­ustu og svo menn­ing­ar­tengda ferðaþjón­ustu.

Framtíðar­sýn ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu er að vera leiðandi í sjálf­bærri þróun á grunni efna­hags­legs og sam­fé­lags­legs jafn­væg­is. Í því felst að ferðaþjón­ust­an sé arðsöm og sam­keppn­is­hæf, í sátt við nátt­úru, ís­lenska menn­ingu og tungu. Það skipt­ir miklu máli að hlúa að ferðaþjón­ust­unni um allt land og skapa þannig skil­yrði að hægt sé að lengja ferðamanna­tíma­bilið hring­inn um landið. Það rík­ir mik­il alþjóðleg sam­keppni í ferðaþjón­ustu og við verðum ávallt að vera á tán­um að tryggja að sam­keppn­is­hæfni ís­lenskr­ar ferðaþjón­ustu sé eins og best verði á kosið.

Það skipt­ir nefni­lega lítið opið hag­kerfi eins og okk­ar öllu máli að hér séu styrk­ar út­flutn­ings­stoðir eins og ferðaþjón­ust­una.

Sag­an kenn­ir okk­ur að þjóðríki sem hafa mikl­ar út­flutn­ings­tekj­ur, mynd­ar­leg­an gjald­eyr­is­forða sem og inn­lend­an sparnað eru í mun sterk­ari stöðu til að kljást við óvænt ytri áföll í efna­hags­líf­inu. Þar mun ferðaþjón­ust­an skipta lyk­il­máli til framtíðar. Leikplanið sem felst í nýrri ferðamála­stefnu er metnaðarfullt, verk­efnið framund­an verður að hrinda því í fram­kvæmd og sækja fram fyr­ir ís­lenska ferðaþjón­ustu.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 22. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Deila grein

21/05/2024

Gæði sem skipta máli ‒ tökum flugið

Síðustu ár hafa orðið miklar framfarir þegar kemur að millilandaflugi um Akureyrarflugvöll. Við þekkjum lífsgæðin sem því fylgja, enda er ferðlagið til Keflavíkur oft kostnaðarsamasti og tímafrekasti leggur ferðalagsins þegar haldið er utan. Beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll skiptir atvinnulífið einnig verulegu máli enda ein megin forsenda fyrir auknum komum ferðamanna, ekki síst utan háannatíma þegar ferðalög eru að jafnaði styttri. Stærsti einstaki áfanginn á þessari leið er tilkoma Easy Jet, sem flogið hefur beint milli Akureyrar og London frá því síðastliðið haust. Ekkert kemur til af sjálfu sér og fjölmargt hefur þurft að koma saman svo að Akureyri og Egilsstaðir séu raunhæfir valkostir þegar kemur að millilandaflugi.

Heimafólk dregur vagninn

Um árabil hefur heimafólk unnið þrotlaust að því að efla Akureyrarflugvöll, sem þjónar ekki aðeins höfuðstað Norðurlands, heldur víðfeðmu nærsvæði Akureyrar. Má þar nefna frumkvöðla í fluggeiranum, bæjarfulltrúa, áhugafólk um samgöngur og aðra sem lagt hafa hönd á plóg. Markaðsstofa Norðurlands hefur með ýmsum hætti unnið að og sett þrýsting á þróun vallarins og markaðssetningu á honum. Sama má segja um Austurbrú og íbúa Austurlands, þó þróun flugs um Egilsstaðaflugvöll sé skemur á veg komin. Þessi vinna skiptir miklu máli og skilar árangri.

Flugþróunarsjóður

Ein varðan á langri leið var stofnun Flugþróunarsjóðs. Grunnurinn var lagður árið 2015, en sjóðurinn tók til starfa árið 2016. Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Þannig er stuðlað að betri dreifingu ferðamanna um landið í samræmi við Framtíðarsýn og leiðarljós íslenskrar ferðaþjónustu til 2030, bættri nýtingu innviða ríkisins, bættum búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og bættum rekstrarskilyrðum atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi. Frá stofnun sjóðsins hefur verið unnið markvisst að kynningu hans til flugfélaga og ferðaskrifstofa. Sú vinna er farin að skila sér þrátt fyrir miklar áskoranir. Til að mynda Covid faraldurinn, sem setti verulegt strik í reikninginn.

Uppbygging innviða

Uppbygging og rekstur flugvalla er kostnaðarsöm og veigamikil fjárfesting og ekki sjálfsagt að fjármunum sé forgangsraðað í þágu slíkrar uppbyggingar. Á síðustu árum hefur gríðarmikil uppbygging verið sett á oddinn, bæði hvað varðar uppbyggingu á Akureyrarflugvelli, en einnig á Egilsstöðum. Má þar nefna fjárfestingar í tæknibúnaði, flugstöð og flughlöðum. Síðastliðið sumar var nýtt flughlað tekið í notkun við Akureyrarflugvöll og undirbúningur framkvæmda við Egilsstaðaflugvöll er á fullu skriði. Skóflustunga að nýrri flugstöð við Akureyrarflugvöll markaði langþráð tímamót og nýverið fóru fyrstu farþegarnir í millilandaflugi þar í gegn. Innan skamms verður flugstöðin fullgerð og má með sanni segja að uppbyggingin marki nýja sókn þegar kemur að lífsgæðum íbúa og starfsskilyrðum atvinnulífs á svæðinu. Stefnan til framtíðar var formfest í Flugstefnu Íslands árið 2019, en þar kemur fram að stutt verði við uppbyggingu Akureyrar- og Egilsstaðarflugvalla sem alþjóðlegra fluggátta. Enn fremur að við uppbyggingu innviða vallanna verði lögð áhersla á að þeir mæti sem best þörfum flugrekenda fyrir varaflugvelli hér á landi, en þar verði Egilsstaðaflugvöllur í forgangi.

Stefna Framsóknar

Stefna Framsóknar er skýr þegar kemur að þessu máli, enda hafa þingmenn og ráðherrar flokksins stutt rækilega við þetta brýna verkefni um langt skeið. Sérstaklega má í því samhengi nefna áherslur og verk Sigurðar Inga Jóhannssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, sem farið hefur með samgöngumál og þar með talið flugvelli landsins um árabil og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarráðherra sem fer með málefni ferðaþjónustunnar. Flokkurinn stendur heilshugar að baki þessum áherslum en í nýsamþykktri ályktun 37. Flokksþings Framsóknar kemur fram að: ,,Framsókn leggur áherslu á styrkingu millilandaflugs um Akureyri og Egilsstaði til að stuðla að aukinni dreifingu ferðamanna um landið. Tryggja þarf samkeppnishæfni flugvallanna m.t.t. aðstöðu, lendingargjalda og eldsneytisverðs. Byggja þarf upp samhæft samgöngunet í landinu, sem tengir saman innlent og alþjóðleg samgöngunet, hvort heldur sem er flug eða áætlunarferðir á sjó og landi.“

Að lokum

Mikilvægt er að áfram verði unnið markvisst að uppbyggingu beins flugs til Akureyrar og Egilsstaða. Nauðsynlegt er að þróun innviða á alþjóðaflugvöllunum taki mið af framtíðarsýn og leiðarljósi íslenskrar ferðaþjónustu til 2030 einkum hvað varðar dreifingu ferðamanna, samkeppnishæfni og ávinning heimamanna.

Við þekkjum vel hversu viðkvæmt verkefnið er, það krefst úthalds og þrautseigju og þó það ári vel núna megum við ekki missa dampinn. Samstaða og framsýni allra sem að þessu verkefni koma skiptir verulegu máli því alltaf verða til staðar tækifæri til að gera enn betur.

Helgi Héðinsson, varaþingmaður Framsóknar í Norðausturkjördæmi og framkvæmdastjóri Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á vikubladid.is 20. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Var­færnis­leg fagnaðar­læti

Deila grein

17/05/2024

Var­færnis­leg fagnaðar­læti

Ísland náði þeim mikilvæga áfanga á dögunum að lenda í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA Europe, sem metur lagalega réttindastöðu hinsegin fólks í 49 löndum Evrópu. Þetta er árangur sem við megum vera stolt af og sýnir vilja okkar til að tryggja jöfn réttindi og vernd fyrir öll í okkar samfélagi, óháð kynhneigð eða kynvitund.

Áratugur framfara

Fyrir áratug síðan mættum við aðeins 64% þeirra skilyrða sem lögð voru fram af ILGA Europe. Í dag mætum við 83% þeirra. Löggjafinn situr alls ekki einn að heiðrinum fyrir þann árangur, hann kemur að stórum hluta til vegna sleitrulausrar vinnu aðgerðasinna og aðila innan hinsegin samfélagsins.

Þetta hefur ekki verið bara verið hröð ferð upp á við, við höfum tekið dýfur. Árið 2019 mættum við aðeins 40,2% skilyrðanna og deildum 15 sætinu með Þýskalandi, Írlandi og Króatíu. Þetta orsakaðist af vissri stöðnun hjá löggjafanum í hinsegin málefnum og viðbót nýrra skilyrða frá ILGA varðandi réttindi intersex og trans einstaklinga.

Betur má ef duga skal

Þrátt fyrir að verma topp sæti á listanum eru enn málaflokkar þar sem við getum gert betur. Má þar nefna blóðgjöf. Í dag mega karlar sem stunda endaþarmsmök með öðrum körlum og konur sem stunda kynlíf með körlum sem stunda endaþarmsmök með körlum ekki gefa blóð. Þessi stefna er úrelt og stuðlar að mismunun. Heilbrigðisráðherra hefur tekið undir að þessu þurfi að breyta og gefið til kynna að breytingar séu í sjónmáli.

Annar málaflokkur þar sem úrbóta er þörf er full lagaleg viðurkenning og vernd fyrir intersex fólk. Þrátt fyrir miklar framfarir í réttindum hinsegin fólks glíma intersex einstaklingar enn við verulegar lagalegar og félagslegar áskoranir. Því er mikilvægt að við tökum þétt utan um þennan hóp og tryggjum stöðu þeirra innan samfélagsins.

Kulnar eldur nema kyntur sé

Það er mikilvægt að við höldum þessum framförum okkar við. Reynslan sýnir að góður árangur er ekki sjálfsagður og bakslög í réttindabaráttu eru algeng. Við þurfum að viðhalda og byggja á því sem vel hefur verið gert, halda áfram að þrýsta á breytingar á stefnu stjórnvalda, vekja athygli á þeim málum sem brenna á hinsegin samfélaginu og styðja framtak sem ýtir undir inngildingu og jafnrétti.

Við ættum einnig að líta til annarra landa sem eru ofarlega á Regnbogakortinu og skoða hvað þau gera vel og hvað mætti betur fara. Malta hefur trónað á toppnum núna í nokkurt skeið og hefur víðtæka stefnu til verndar réttindum hinsegin fólks og framsækin lög um kynvitund og vernd gegn mismunun.

Að lokum

Það er full ástæða til að fagna stöðu okkar í öðru sæti á Regnbogakorti ILGA Europe en hún minnir okkur líka á að við eigum enn verk að vinna. Með því að fylla í þær eyður sem fyrirfinnast í stefnu okkar og löggjöf og tryggja að framfarir séu í þágu hinsegin samfélagsins til jafns við samfélagið í heild getum við haldið stolt inn í framtíð þar sem allir Íslendingar geta lifað með reisn í réttlátu samfélagi. Saman getum við tryggt að Ísland haldi áfram að vera leiðandi í réttindabaráttu hinsegin fólks og öðrum þjóðum til fyrirmyndar.

Berglind Sunna Bragadóttir, varaformaður Sambands ungra Framsóknarmanna.

Greinin birtist fyrst á visir.is 17. maí 2024.

Categories
Greinar

Áfram unnið að velsæld barna

Deila grein

16/05/2024

Áfram unnið að velsæld barna

Í Suður­nesja­bæ hafa bæj­ar­stjórn­ar­menn unnið að mark­viss­um aðgerðum til að stuðla að vel­sæld barna í sam­fé­lag­inu. Ein af mik­il­væg­ustu breyt­ing­un­um var aukn­ing niður­greiðslu á máltíðum nem­enda í grunn­skól­um bæj­ar­ins, sem hækkaði úr 50% í 60%. Þar að auki var fjöl­skyldu­afslátt­ur inn­leidd­ur um síðustu ára­mót. Svo nú 1. ág­úst verður ennþá stærra skref stigið þegar öll grunn­skóla­börn á land­inu fá gjald­frjáls­an há­deg­is­mat, sem mun gera það að verk­um að þau fá jafn­ari aðgang að nær­ingu og orku. Þess­ar aðgerðir eru ekki ein­ung­is hag­kvæm­ar fyr­ir ein­staka fjöl­skyld­ur held­ur styrkja þær líka sam­fé­lagið í heild.

Bæj­ar­stjórn hef­ur einnig unnið mark­visst að öðrum mál­um sem snerta börn og barna­fjöl­skyld­ur. Þar má nefna að hækkaðar hafa verið umönn­un­ar­bæt­ur fyr­ir for­eldra sem ekki nýta dag­vist­un hjá dag­for­eldr­um. Sú upp­hæð hækk­ar úr 45 þúsund krón­um í 100 þúsund fyr­ir hvern mánuð. Greiðsl­un­um er háttað þannig að fyrsta greiðsla er að lokn­um rétt­ind­um til fæðing­ar­or­lofs og greidd­ar þar til barn fær inn­göngu í leik­skóla eða verður tveggja ára. Hér er skref tekið til að brúa bilið sem oft kem­ur til eft­ir að fæðing­ar­or­lofi lýk­ur og þar til barn fær inn­göngu í leik­skóla. Mik­il­vægt er að gera for­eldr­um kleift að vera heima með börn­um sín­um fyrstu tvö árin ef þau kjósa svo og er þetta mik­il fram­för í þeim efn­um. Þá er niður­greiðsla dag­vist­ar­gjalda hjá dag­for­eldr­um hækkuð. Eft­ir að barn hef­ur náð 18 mánaða aldri er niður­greiðsla hækkuð úr 80 þúsund­um í 112 þúsund á mánuði m.v. átta klst. vist­un þar til að barni verður boðin inn­ganga í leik­skóla. Allt eru þetta mik­il­væg­ir þætt­ir í því að styðja við barna­fjöl­skyld­ur og á sama tíma, eins og hef­ur komið fram, brúa bilið sem oft reyn­ist erfitt eft­ir að fæðing­ar­or­lofi lýk­ur.

Það er okk­ur gríðarlega mik­il­vægt sem sam­fé­lagi að stíga þessi skref til að styðja við for­eldra fyrstu árin með börn­um sín­um. Þess­ar aðgerðir styðja við barna­fjöl­skyld­ur og hafa já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið í heild. Við í Fram­sókn erum stolt af þess­um breyt­ing­um og höf­um lofað að halda áfram að stuðla að því að í Suður­nesja­bæ sé gott að búa. Með þess­um aðgerðum hef­ur bæj­ar­stjórn­in skapað um­hverfi sem stuðlar að vel­sæld barna í Suður­nesja­bæ.

Frí­stunda­akst­ur milli byggðar­kjarna í Suður­nesja­bæ

Bæj­ar­stjórn Suður­nesja­bæj­ar samþykkti um ára­mót að hefja frí­stunda­akst­ur milli byggðar­kjarna í Suður­nesja­bæ. Frí­stunda­akst­ur er fyr­ir unga iðkend­ur sem þurfa að fara á milli byggðar­kjarna til að sækja íþróttaæf­ing­ar. Í mál­efna­samn­ingi B- og D-lista kem­ur fram að „komið verði á frí­stunda­bíl til að efla og auka mögu­leika barna í sveit­ar­fé­lag­inu á íþrótta- og tóm­stundaiðju“. Frí­stunda­akst­ur­inn fer mjög vel af stað og er hon­um ætlað að efla íþrótt­astarf í sveit­ar­fé­lag­inu til framtíðar.

Sum­ar­frí­stund fyr­ir elstu börn leik­skóla

Á síðasta fundi bæj­ar­stjórn­ar Suður­nesja­bæj­ar nú í maí var samþykkt að hefja sum­ar­frí­stund fyr­ir elstu börn leik­skóla eft­ir að fræðsluráð bæj­ar­ins tók til um­fjöll­un­ar að leita leiða fyr­ir börn sem ljúka leik­skóla­göngu sinni á vor­in og eru á leið í grunn­skóla. Flest leik­skóla­börn ljúka leik­skóla­göngu um sum­ar­frí og koma ekki aft­ur til baka, en alltaf eru ein­hverj­ir for­eldr­ar sem nauðsyn­lega þurfa að leita að vist­un fyr­ir þau á meðan þau bíða eft­ir byrj­un grunn­skól­ans. Þetta er vegna þess að fríið sem þessi börn njóta er mun lengra en hefðbundið sum­ar­frí vinn­andi for­eldra. Öllum börn­um sem eru á leið í fyrsta bekk er gef­inn kost­ur á að sækja um að taka þátt í sum­ar­frí­stund eft­ir versl­un­ar­manna­helgi. Sum­ar­frí­stund­in verður í boði frá 6. ág­úst til 21. ág­úst 2024 sem reynslu­verk­efni og verður spenn­andi að sjá hvernig hún kem­ur út.

At­vinnu­tengt nám

Einnig voru samþykkt­ar á síðasta fundi bæj­ar­stjórn­ar starfs­regl­ur um at­vinnu­tengt nám í Suður­nesja­bæ og var af­greiðsla bæj­ar­ráðs samþykkt sam­hljóða.

Í sveit­ar­fé­lag­inu er nauðsyn­legt að fjölga úrræðum vegna ung­linga sem standa frammi fyr­ir sér­stök­um áskor­un­um í námi og skóla­færni af öðrum or­sök­um en fötl­un. Mark­mið verk­efn­is­ins er að veita þeim sem á þurfa að halda tæki­færi til að sýna hvað í þeim býr og mæta þörf­um þeirra sem þurfa að kom­ast í gegn­um skóla­starfið, hvort sem er á skemmri eða lengri tíma. Með nýj­um lög­um um samþætta þjón­ustu í þágu far­sæld­ar barna er mik­il­vægt að styrkja grunnþjón­ustu, og þessi úrræði eru hluti af því að auka fjöl­breytni og verk­færi skól­anna.

Anton Kristinn Guðmundsson, odd­viti Fram­sókn­ar í Suður­nesja­bæ og formaður bæj­ar­ráðs.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16.5.2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fjarheilbrigðisþjónusta

Deila grein

15/05/2024

Fjarheilbrigðisþjónusta

Fjarheilbrigðisþjónusta er heilbrigðisþjónusta sem nýtir stafræna samskipta- og upplýsingatækni þar sem aðilar eru ekki á sama stað á sama tíma. Sem dæmi má nefna myndsímtöl og netspjall. Í dag var samþykkt mikilvægt frumvarp heilbrigðisráðherra sem gekk út á að skilgreina fjarheilbrigðisþjónustu í lögum og styrkja stöðu hennar í nútímasamfélagi. Málið er þýðingarmikið þar sem í fjarheilbrigðisþjónusta er klárlega ein þeirra tæknilausna sem geta umbylt heilbrigðisþjónustu fyrir fólk um allt land. Til eru mörg dæmi um einstaklinga sem ferðast langt og taka sér frí frá vinnu, stundum í fleiri daga, til þess að hitta lækna og sérfræðinga. Sérstaklega í ljósi þess að meirihluti sérfræðinga í heilbrigðisgeiranum er staðsettur á suðvesturhorni landsins.

Í sumum tilvikum er ferðin nauðsynleg, en oft er möguleiki á því að samskipti læknis og skjólstæðings eigi sér stað með fjarheilbrigðislausnum eins og viðtöl við sálfræðinga eða talmeinafræðinga. Með þessu þá erum við að opna frekar á þann möguleika í fjarheilbrigðislausnum.

Fjarheilbrigðisþjónusta getur nýst við heimahjúkrun, þá sérstaklega í dreifbýli. Einnig getur hún aukið og auðveldað teymisvinnu fagfólks, sem er búsett um allt land og sum þeirra mögulega erlendis. Þetta getur fækkað óþörfum og oft dýrum ferðalögum ásamt því að vera til þess fallið að auka hagkvæmni. Það er ljóst að á síðastliðnu ári hefur hröð þróun átt sér stað hvað varðar tæknilausnir í heilbrigðisgeiranum.

Frumvarpið er skref í átt að því að vinna að sameiginlegum skilningi á því hvað felst í þeim tæknilausnum sem við höfum og grunnreglur um notkun þeirra. Fjarheilbrigðisþjónustan er liður að því að jafna aðgengi að þjónustu óháð búsetu eða annarra aðstæðna og er yfirlýst aðgerð, sbr. A.5 lið í byggðaáætlun. Markmiðið er að aðgengi að heilbrigðisþjónustu verði jafnað eins og hægt er og bætt með nýsköpun og nýtingu tækni og fjarskipta við framkvæmd þjónustu. Í byggðaáætlun kemur fram að með innleiðingu á fjarheilbrigðisþjónustu verði leitast við að jafna aðgengi almennings að almennri og sérhæfðri heilbrigðisþjónustu. Jafnframt verði rafræn miðlun heilbrigðisþjónustu nýtt til að auka aðgengi að sérfræðiþekkingu, og þar með gagnkvæmri faglegri ráðgjöf, samráði og samstarfi, og með þeim hætti verði teymisvinna innan heilbrigðisþjónustu auðvelduð.

Fjarheilbrigðisþjónusta er enn eitt verkfærið sem við fáum í hendurnar til þess að auka jafnrétti og færa sérhæfða heilbrigðisþjónustu nær fólki um allt land og því fagna ég því að frumvarpið hafi verið samþykkt á Alþingi.

Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, þingmaður Framsóknar og framsögumaður málsins í velferðarnefnd Alþingis.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Ein­faldara fyrir­komu­lag til­vísana

Deila grein

15/05/2024

Ein­faldara fyrir­komu­lag til­vísana

Í gær kom inn lítill og nett tilkynning inn á vef Stjórnarráðsins frá heilbrigðisráðuneytinu. Tilkynningin fjallar um að einfalda eigi tilvísanakerfi fyrir börn vegna heilbrigðisþjónustu. Það má með sanni segja að tilvísanakerfið hafi sætt nokkurri gagnrýni síðustu misseri, ekki síst frá læknum sem hafa talið það taka frá þeim dýrmætan tíma og valdi óþarfa skriffinnsku. Það verður ekki af hæstvirtum heilbrigðisráðherra Willum Þór Þórssyni tekið að hann hlustar og gengur í verkin.

Núverandi kerfi

Nú hafa verið birt drög að reglugerðarbreytingum í Samráðsgátt. Samkvæmt gildandi reglugerð um tilvísanir fyrir börn er áskilið að heilsugæslulæknar skrifi tilvísun fyrir börn frá tveggja ára að 18 ára aldri, þurfi þau á þjónustu sérgreinalæknis að halda. Slík tilvísun er m.a. forsenda þess að þjónusta sérgreinalæknis sé gjaldfrjáls. Án tilvísunar þarf hins vegar að greiða fyrir þjónustuna sem nemur þriðjungi af því gjaldi sem sjúkratryggðir greiða almennt fyrir læknisheimsóknir. Gildistími tilvísunar er að hámarki eitt ár en heimilt er að ákveða að tilvísun fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi í allt að 10 ár. Tilvísun heilsugæslulæknis er áskilin fyrir alla þjónustu sérgreinalækna. Þetta felur m.a. í sér að ef barn hefur fengið tilvísun til sérgreinalæknis sem telur barnið þurfa þjónustu læknis í annarri sérgrein þarf að leita aftur til heilsugæslulæknis eftir tilvísun. Þetta kerfi verður nú einfaldað til muna.

Góðar breytingar

Eftir reglugerðarbreytingar getur sérgreinalæknir sem fær til sín barn samkvæmt tilvísun heilsugæslulæknis vísað því sjálfur til læknis í annarri sérgrein telji hann þörf á því, án aðkomu heilsugæslunnar. Þá getur læknir sem fær barn til meðhöndlunar á sjúkrahúsi vísað barni til sérfræðings telji hann þörf á því. Auk þessa verður gildistími tilvísana fyrir börn með langvinna sjúkdóma eða fötlun sem nú er 10 ár lengdur og getur gilt allt þar til barn nær 18 ára aldri. Þá verður hjúkrunarfræðingum veitt heimild til að gera tilvísanir fyrir börn vegna þjónustu talmeinafræðinga en hingað til hafa aðeins heilsugæslulæknar getað vísað börnum í þjónustu þeirra. Fleiri góðar breytingar er að finna í reglugerðardrögunum en þær miða allar að því að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga.

Með þessum breytingum er ekki bara verið að stytta bið barna eftir mikilvægri þjónustu heldur einnig verið að bæta starfsumhverfi lækna sem kallað hefur verið eftir. Þessar breytingar eru einn hluti af þeirri vegferð að bæta þjónustu og auka skilvirkni, meðal annars með áherslu á að tími lækna nýtist betur til að sinna beinni þjónustu við sjúklinga. Vel gert!

Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Fjórða læknaferðin endur­greidd

Deila grein

14/05/2024

Fjórða læknaferðin endur­greidd

Síðustu mánuði hafa margar jákvæðar fréttir borist frá heilbrigðisráðuneytinu. Markvisst er unnið eftir stefnunni jafnt aðgengi, óháð efnahag og búsetu, um það ríkir samstaða í samfélaginu. Það er því fagnaðarefni að nú er verið að fjölga ferðum sem fást endurgreiddar frá Sjúkratryggingum vegna nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu sem sótt er utan heimabyggðar. Um síðustu áramót fjölgaði endurgreiddum ferðum úr tveimur í þrjár og nú styttist í að fjórða ferðin bætist við.

Jafnt aðgengi

Í fjáraukalögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er tillaga um sérstaka fjárveitingu til að mæta kostnaðinum við fjórðu ferðina og er það liður í aðgerðum stjórnvalda til að greiða fyrir kjarasamningum. Gert er ráð fyrir 50 m.kr. til þess að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu með því að draga úr kostnaði einstaklinga við að sækja þjónustu fjarri heimabyggð. Það er og hefur verið stefna Framsóknar að lækka greiðsluþátttöku sjúkratryggðra. Fjölgun ferða innanlands sem fást endurgreiddar falla að þeim markmiðum og heilbrigðisstefnu til ársins 2030. Um er að ræða aðgerð sem er í samræmi og samhengi við samninga við sérfræðilækna sem gengið var frá síðastliðið sumar eftir samningsleysi allt frá árinu 2019.

Samningar bæta stöðu almennings

Meðan ekki voru til staðar samningar við sérfræðilækna var ekki hægt að segja að allir hefðu sama aðgang að heilbrigðisþjónustu. Samningsleysið dró fram ójafnræði í aðgengi. Með nýjum samningum við sérgreinalækna lækkaði greiðsluþátttaka einstaklinga en þjónusta sérfræðilækna hafði hækkað jafnt og þétt í samningsleysinu. Frá gildistöku samningsins 1. september síðastliðinn til febrúarloka hafa um 102 þúsund einstaklingar nýtt sér þjónustu þeirra. Þessir einstaklingar spöruðu sér nærri 1,3 milljarð króna í komugjöld á grundvelli hins nýja samnings.

Þróun heilbrigðisþjónustu

Þá styður samningurinn við framþróun í þjónustu með sérstakri áherslu á nýsköpun, stafræna þróun og fjarheilbrigðisþjónustu. Nú er til umfjöllunar á Alþingi frumvarp sem ætlað er að skýra umgjörð og nýtingarmöguleika fjarheilbrigðisþjónustu auk nokkurra frumvarpa sem styðja við stafræna þróun í heilbrigðiskerfinu. Þannig styður ein aðgerð aðra til að ná fram umgjörð sem tryggir jafnara aðgengi. Þá er einnig mikilvægt að geta þess að í samningi við sérfræðilækna er sérstakt ákvæði um að leitað verði leiða til að auka viðveru sérfræðilækna á landsbyggðinni.

Þannig er stöðugt unnið að útfærslu stefnu stjórnvalda til að þjónustan nýtist fólkinu sem þarf á henni að halda.

Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 14. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Tæknin sem breytir heiminum

Deila grein

13/05/2024

Tæknin sem breytir heiminum

Tækni­breyt­ing­arn­ar sem eru að eiga sér stað í gegn­um gervi­greind og mál­tækni eru þær mestu í ára­tugi. Tækni mun breyta því hvernig fólk vinn­ur, lær­ir, ferðast, nálg­ast heil­brigðisþjón­ustu og hef­ur sam­skipti sín á milli.

Eins og flest­um er kunn­ugt hafa mikl­ar breyt­ing­ar orðið á stöðu tungu­mála með til­komu gervi­greind­ar, alþjóðavæðing­ar og auk­inna fólks­flutn­inga. Stjórn­völd hafa á und­an­förn­um árum sett mál­efni ís­lensk­unn­ar í önd­vegi í þessu ljósi. Til að mynda samþykkti Alþingi Íslend­inga í síðustu viku aðgerðaáætl­un í mál­efn­um ís­lenskr­ar tungu til árs­ins 2026. Alls eru þetta 18 aðgerðir sem mótaðar eru í sam­starfi fimm ráðuneyta. Stjórn­völd hafa und­an­far­in ár einnig fjár­fest í mál­tækni fyr­ir ís­lensku með ver­káætl­un­inni Mál­tækni fyr­ir ís­lensku 2018-2022 og náð góðum ár­angri. Mark­miðið með henni er skýrt: að gera ís­lensk­una gild­andi í hinum sta­f­ræna heimi til framtíðar. Í heimi tækn­inn­ar þarf að tala máli ís­lensk­unn­ar gagn­vart þeim aðilum sem leiða tækniþróun í heim­in­um. Það þarf að minna á mik­il­vægi minni tungu­mála og koma á fram­færi þeim ís­lensku mál­tækni­lausn­um sem smíðaðar hafa verið hér á landi á und­an­förn­um árum sem er­lend tæknifyr­ir­tæki geta inn­leitt í vör­ur sín­ar með nokkuð greiðum hætti. Það var mik­il viður­kenn­ing fyr­ir veg­ferð ís­lenskra stjórn­valda í mál­efn­um ís­lensk­unn­ar þegar banda­ríska tæknifyr­ir­tækið OpenAI gaf út nýja upp­færslu á gervi­greind­ar-mállíkan­inu GPT í fyrra þar sem ís­lenska var val­in fyrst tungu­mála, utan ensku, í þró­un­ar­fasa þess. Var það afrakst­ur sam­tala og funda við full­trúa fyr­ir­tæk­is­ins.

Í vik­unni leiddi ég sendi­nefnd til Banda­ríkj­anna sem fundaði með stór­um tæknifyr­ir­tækj­um til að ræða stöðu smærri tungu­mála, sér­stak­lega ís­lensku, í sta­f­ræn­um heimi. Fyr­ir­tæk­in voru Microsoft, Allen Institt­u4e for AI, Ant­hropic, Google og OpenAI. Er það meðal ann­ars í sam­ræmi við nýja mál­tækni­áætl­un þar sem lagt er til að auk­inn þungi verði sett­ur í að kynna ís­lenska mál­tækni á er­lendri grundu. Jafn­framt er verið að kanna hug þess­ara fyr­ir­tækja til að koma á fót alþjóðleg­um sam­starfs­vett­vangi fyr­ir smærri tungu­mál heims. Skemmst er frá því að segja að okk­ur var vel tekið og áhugi er fyr­ir hendi á að auka veg ís­lensk­unn­ar enn frek­ar. Microsoft hef­ur til dæm­is hef­ur sýnt ís­lensku mik­inn áhuga og má nefna að ýmis for­rit á borð við Word og allt viðmót þess er hægt að nota al­farið á ís­lensku. Eft­ir heim­sókn ís­lenskr­ar sendi­nefnd­ar árið 2022, sem for­seti Íslands ásamt mér og fleir­um fór í, hef­ur Microsoft nú þegar inn­leitt ís­lenska mál­tækni í tækni­lausn­ir sín­ar til að auka gæði ís­lensk­unn­ar. Meðal þess sem við rætt var við fyr­ir­tækið í þess­ari um­ferð var ís­lenska for­ritið Copi­lot, sem vel var tekið í. Það skipt­ir framtíð ís­lensk­unn­ar öllu máli að hún sé aðgengi­leg og nýti­leg í tækj­um sem við not­um. Okk­ur hef­ur auðnast að vinna heima­vinn­una okk­ar vel hingað til í þess­um efn­um svo eft­ir sé tekið og það er að skila sér. Hins veg­ar er verk­efnið langt í frá klárað og ljóst að frek­ari ár­ang­ur kall­ar á breiða sam­vinnu með virkri þátt­töku al­menn­ings, vís­inda­fólks, fræðasam­fé­lags­ins, fyr­ir­tækja og frum­kvöðla á þessu sviði. Þannig liggja hags­mun­ir ís­lensk­unn­ar víða sem mik­il­vægt er að huga að.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menn­ing­ar- og viðskiptaráðherra og vara­formaður Fram­sókn­ar.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 11. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Búum til börn

Deila grein

13/05/2024

Búum til börn

Lög um fæðingarorlof tryggja foreldrum rétt til þess að hlúa að nýfæddu barni sínu, í dag lítur fólk á þennan rétt sem sjálfsagðan hlut en hann hefur svo sannarlega ekki alltaf verið það. Fyrir þessum rétti hefur verið barist og þar hefur Framsókn staðið vaktina í gegnum tíðina og tryggt réttindi fyrir foreldra og börn þeirra. Páll Pétursson kom með frumvarp um fæðingar- og foreldraorlof árið 2000 og Ásmundur Einar Daðason fylgdi því eftir með frumvarpi að nýjum heildarlögum um fæðingarorlof árið 2020.

Aukið jafnrétti

Frá því að lögin voru fyrst sett hafa þau tekið töluverðum breytingum í takt við auknar kröfur í samfélaginu um að koma til móts við fjölskyldur í landinu. Það má með sanni segja að lög um fæðingarorlof hafi verið besta tækið til þess að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og í fjölskyldulífi. Merkja má áhrif laganna á stöðu kvenna á vinnumarkað og þá má segja að fáar aðgerðir stjórnvalda hafa leitt til meira jafnréttis kynjanna en þegar komið var á sjálfstæðum rétti foreldra til orlofs. Sjálfstæður réttur hvors foreldris um sig er í dag 6 mánuðir en heimilt er að framselja allt að 6 vikur til hins foreldris. Í dag taka feður fullan þátt í lífi og uppeldi barna sinna og gera má ráð fyrir því að lög um fæðingarorlof eigi ríkan þátt í því.

Hærri greiðslur

Launamunur kynjanna á vinnumarkaði er þó engu að síður staðreynd og hefur haft afleiðingar á jafnrétti kynjanna og töku feðra á fæðingarorlofi. Kallað hefur verið eftir að hámarksgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði hækki svo hægt sé í raun að tryggja jafnan rétt kynjanna til orlofs. Því kalli hefur nú verið svarað og er sú aðgerð einn liður í aðgerðum stjórnvalda til þess að liðka fyrir kjarasamningum. Til að treysta fjárhagslegt öryggi ungbarnafjölskyldna og stuðla að markmið fæðingarorlofskerfisins um samvistir barna við báða foreldra og samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs nái fram að ganga verða hámarksgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hækkaðar í þremur áföngum á næstu tveimur árum. Greiðslurnar verða hækkaðar úr 600.000 þúsund krónum á mánuði í 700.000 kr. m.v. þann 1. apríl síðastliðinn, aftur verður upphæðin hækkuð 1. janúar 2025 í 800.000 kr. og svo frá og með 1. janúar 2026 í 900.000 kr.

Brjótum múrinn

Ríkisstjórnin hefur með þessum aðgerðum tryggt umgjörð sem tryggir barni samvistir við báða foreldra sína og gera þeim kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf með betri hætti. Nú er það landsmanna að búa til börn. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands erum við Íslendingar rétt tæplega 380 þúsund. Það er verðugt markmið að stefna að því að ná að brjóta 400.000 mannfjölda múrinn sem fyrst.

Ingibjörg Isaksen, þingflokksformaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 11. maí 2024.

Categories
Fréttir Greinar

Á­kall um að­gerðir í mansals­málum

Deila grein

11/05/2024

Á­kall um að­gerðir í mansals­málum

Mansal er alvarleg meinsemd og mannréttindabrot sem skotið hefur rótum í íslenskt samfélag líkt og víða annars staðar. Ísland hefur undirgengist alþjóðlegar skuldbindingar sem hafa það að markmiði að berjast með markvissum og árangursríkum hætti gegn hvers kyns mansali. En hvernig gengur okkur að koma í veg fyrir mansal hér á landi? Í haust sendi undirrituð fyrirspurn á dómsmálaráðherra um mansal á Íslandi með það að markmiði að fá upplýsingar um stöðu mansals mála hér á landi. Almenningur á Íslandi verður kannski lítið var við mansal hér á landi en úr svari ráðherra má þó lesa að það sé engu að síður raunveruleikinn hér á landi.

Fjölgun mansalsmála

Samkvæmt svörum frá ráðherra hafa mansalsmál verið í rannsókn hjá lögreglu síðastliðin ár og hafa fjölgað ef eitthvað er.Algengasta birtingarmynd mansals hér á landi undanfarin ár hefur verið kynlífs- og vinnumansal. Karlmenn hafa verið þolendur í um 60% mannsalsmálanna á móti 40% kvenna. Í svarinu kemur fram að í apríl á síðasta ári hafi verið 15 opin mál í rannsókn hjá lögreglu á tímabilinu 1. apríl 2022 til 31. mars 2023. Þar af voru sjö þeirra ný mál á skýrslutímabilinu en átta þeirra höfðu byrjað í rannsókn fyrir þann tíma. Á sama tímabili voru 38 mál skráð sem „grunur um mansal“ í málaskrárkerfi lögreglunnar.

Betur má ef duga skal

Árið 2018 var stofnsettur samstarfshópur eftirlitsaðila um brotastarfsemi á vinnumarkaði (SEB) sem er samstarfsvettvangur lögreglu, Skattsins, Vinnueftirlits ríkisins og Vinnumálastofnunar í þeim tilgangi að greiða fyrir upplýsingagjöf milli Vinnumálastofnunar og Vinnueftirlitsins og auka heimildir þeirra til að miðla upplýsingum til ríkisskattstjóra og lögreglu þegar grunur leikur á vinnumarkaðsbrotum, félagslegum undirboðum og hugsanlega mansali. En betur má ef duga skal. Sem liður í forvörnum skiptir einnig máli að fræða launþega, sér í lagi þá sem koma erlendis frá um lögbundin réttindi þeirra og skyldur atvinnuveitenda. Þess utan er einnig mikilvægt að stuðla að vitundarvakningu meðal almennings í þeim tilgangi að draga úr eftirspurn eftir þjónustu sem þrífst oft á mansali ásamt því að efla sérkunnáttu og færni fagstétta sem koma að mansalsmálum á eðli og einkennum hinna ýmsu birtingamyndir mansals.

Endurskoðun á aðgerðaráætlun

Í þriðju skýrslu GRETA eftirlitsnefndar Evrópuráðsins með samningi um aðgerðir gegn mansali, kemur fram að GRETA hafi áhyggjur af þeim takmarkaða árangri sem Ísland hefur náð frá síðustu úttekt í baráttunni gegn vinnumansali. GRETA brýnir íslensk yfirvöld til þess að hvetja lögreglumenn, vinnueftirlitsmenn, félagasamtök og aðra viðeigandi aðila til að sýna aukið frumkvæði í að finna þolendur vinnumansals og tryggja að heimildir og úrræði vinnueftirlits standi undir því að leggja sitt af mörkum til þess að koma í veg fyrir og upplýsa mansalsmál á vinnumarkaði. Janframt kemur fram að enn skorti formlegar verklagsreglur sem skilgreina hlutverk og ábyrgð allra viðkomandi faghópa. Sú sem hér skrifar telur afar brýnt að farið verði í endurskoðun á aðgerðaráætlun gegn mansali. Í dag er í gildi aðgerðaráætlun frá árinu 2019 og er því löngu orðin úreld þar sem íslenskt samfélag hefur tekið töluverðum breytingum á síðustu árum. Aðgerðir sem snúa að því að uppræta mansal þurfa reglubundna endurskoðun, mikilvægt er í því samhengi að nýta ábendingar, reynslu, athugasemdir og leiðbeiningar frá GRETA. Gott samstarf og samvinnu þarf til í baráttunni gegn mansali þvert á samfélagið, verkalýðshreyfingar, löggæslan, félagsyfirvöld og svo lengi mætti telja. Það er og verður alltaf viðvarandi verkefni hverrar þjóðar að berjast gegn mansali. Megum ekki sofna ekki á verðinum!

Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknar.

Greinin birtist fyrst á visir.is 10. maí 2024.